Ekki lengur Ívar hlújárn

Mín vegferð að verða járnkarl hófst fyrir heilum 33 árum þegar frændi minn uppnefndi mig Ívar hlújárn. Þarna var ég sex ára gamall og horfði á frænda minn með stjörnur í augum enda var hann 19 ára gamall mótorhjólatöffari sem seinna varð hann svo sjálfur mikill hjólreiðamaður, hann Sigurður Gylfason.  Ég vissi svosem ekki hvað hlújárn þýddi á þessum tíma en ég vissi það að þetta var ekki gott uppnefni. Seinna var mér sagt að hlújárn þýddi annaðhvort eitthvað verkfæri eða lélegt járn, já þessi flotti frændi minn kallaði mig hreinlega aumingja þegar ég var sex ára gamall.

Það var svo ekki fyrr en ég kynntist tengdaföður mínum honum Trausta Jarli fyrir um sex árum sem ég áttaði mig á því hvernig ég myndi losna við hlújárnið og verða að alvöru járnkarli, þá var hann búinn að fara í allmarga járnkarla sjálfur sem og Guðjón Karl sonur hans. Ég hreifst strax að þessu brjálæði hjá þeim en þurfti nokkur ár í að sannfæra sjálfan mig í að ég gæti þetta sjálfur. Haustið 2021 þegar þeir feðgar voru að tala um þeirra síðustu járnkarla keppnir yfir kvöldverðaborðið og plana þann næsta að fara til Ítalíu í hópferð með Ægir3 og keppa þar, þá varð ég eitthvað æstur og sagði við þá að ég myndi fara og keppa með þeim í heilum járnkarli. Ég vissi strax að það var ekki aftur snúið enda stend ég við það sem ég segi. Það urðu nokkrar andvökunæturnar eftir þetta þar sem ég hugsaði hvað í andskotanum væri ég búinn að koma mér út í.

Ég skráði mig strax í Ægir3 í fjaraðild enda bjó ég þá í Reykholti og komst ekki á æfingar með þeim. Æfingarnar fóru að streyma til mín í gegnum Training Peaks og reyndi ég mitt besta að fara eftir þeim. Ég reyndi að leggja áherslu á sund og hjól en það voru mínir veiku hlekkir. Það var hjólað fyrir framan Netflix á kvöldin með mismikla hrifningu hjá konunni. Veturinn leið og ég náði að æfa mig nokkuð vel en þegar leið á vorið fór vinnan að aukast mikið svo og fluttum við til Hveragerðis og ég setti æfingarnar ekki á jafn hán stall eftir það en náði samt alltaf að koma einhverjum æfingum að.
Sumarið kom og ég tók þátt í Kópavogsþrautinni, Hafnarfjarðarþrautinni og svo Ólympískri á Laugarvatni (þar sem sundið nær drap mig úr kulda en ég þoli ílla kulda) reyndar ætlaði ég að fara í hálfan járnkarl þar en það var hætt við hann. Ég tók einnig þátt í öðrum hlaupakeppnum í sumar svo sem Hengil Ultra 53km, Laugaveginum, Fimmvörðuhálshlaupinu og svo Reykjavíkur maraþoninu.

Svo var farið til Ítalíu þann 13. september og ég var heldur betur kominn með mikinn kvíða fyrir keppninni með að hvort ég hreinlega gæti þetta þá sérstaklega að synda 3.8km í sjó með þúsundum annara keppenda að synda yfir mig. Geir Ómars þjálfari sagði við mig „Ívar þegar þú færð panik kastið eftir 100m taktu þá nokkur mjög létt bringusundstök og reyndu svo aftur þá kemur þetta hægt og rólega“ En markmiðið hjá mér var einfalt að klára keppnina innan tímamarka en ekki á einhverjum sérstökum tíma.

Sól, sól, skein á mig á ströndinni í Cervia

Keppnisdagurinn rann upp (reyndar degi of seinn þar sem keppnin var færð um einn dag vegna óveðurs). Ég náði að næra mig vel um morguninn en það hefur aldrei verið erfitt fyrir mig á keppnismorgnum. Sjórinn var kominn í 21 gráðu þannig að allir voru í wetsuit sem hjálpar mikið. Ég var ræstur rétt fyrir klukkan 8 að morgni en þá voru þegar um 2000 keppendur byrjaðir að synda en ég staðsetti mig í hægasta hraðahólfinu og mikið rétt panik kastið kom eftir sirka 100m og ég hugsaði hvað í andskotanum er ég að gera hérna ég á ekkert erindi í þessa keppni en þá varð mér hugsað til Geirs þjálfara og fór að hans ráðum og eftir sirka 400m var ég orðinn bara mjög brattur og fannst þetta bara gaman. Ég synti svona sirka 75% skriðsund og 25% bringusund. Sundið gekk heilt yfir mjög vel og leið mér vel þegar ég hljóp upp á ströndina eftir að hafa synt á 1:29.

Fyrsti kílómetrinn á hjólinu er alltaf góður…

Ég tók minn tíma í T1 enda lá mér ekki lífið á en þar hitti ég ofurpepparann Ísold Norðfjörð skælbrosandi og Geir Ómars fyrir utan girðinguna að hvetja okkur áfram. Ég lagði af stað í hjólið nokkuð rólega enda vildi ég ekki sprengja mig á þessum 180km. Eitthvað gekk ílla fyrir mig að halda vökva í allri keppninni en hann fór bara beint í gegnum líkamann á mér en ég lét það ekki stoppa mig og drakk þá bara meira og borðaði gel. Brautin virkilega flöt og hélt ég 30km hraða og passaði mig að drafta ekki neitt enda er það bannað. Eftir sirka 63km kemur erfitt klifur en ég náði að fara það upp sómasamlega og ekki sprengja mig, þegar ég var kominn niður brekkuna komu á móti mér fyrstu risa hóparnir sem voru að keppa í hálfum járnkarli og vildi ég alls ekki vera á sveitaveginum þegar þeir myndu ná mér, þannig að ég gaf í til að ná upp á hraðbraut sem og ég gerði, þetta tók all mikið úr mér en var samt sáttur með þessa ákvörðun. Seinni hringurinn gekk vel þangað til að ég kláraði brekkuna aftur þá var ég orðinn vel þreyttur og verkjaði mjög mikið í jörkunum á báðum löppum. Það fór sem fór að síðustu 45 km voru hreint helvíti og dólaði ég þá mikið til. Þegar það var sirka 2km í T2 var ég rauninni búinn að gefast upp og ætlaði ég bara að klára hjólið og hætta enda gríðarlegir verkir í jörkunum en þá hjólaði Ísold framhjá mér og peppaði mig allsvakalega aftur upp. hjólatíminn endaði á 6:35.

Með hörkunni hefst það

Ég kom inn í T2 með skjálfandi lappir en ákvað að reyna samt við hlaupið ég fór í hlaupaskóna og lagði af stað og mér til mikillar gleði þá fann ég ekkert fyrir eymslunum þegar ég fór að hlaupa. Fyrsti hringurinn gekk mjög vel (alltof vel) ég fór of hratt og ég vissi það vel en ég gat ekki hægt á mér. fyrsti hringur fór ég á 67min, á hringi 2 byrjaði ég að labba og fór hann á 95min, á þriðja hring náði ég að skokka nánast allt en mjög hægur og þann hring fór ég á 78min. Hringur 4 var bara gengið, skrokkurinn var alveg búinn og ég vissi það að núna var þetta bara að koma mér í markk, hringur 4 var á 110min. Það sem gerði hlaupið skemmtilegt að maður var alltaf að hitta Íslendinga sem voru annaðhvort að hlaupa eða hvetja á hliðarlínunni og gerði það mjög mikið fyrir mann. Þegar ég kom að rauða dreglinum kom þessi gríðarlegi kraftur í mann og hljóp ég í gegnum markið öskrandi og barði í brjóstkassann á mér þegar ég heyrði þessa frægu setningu sem alla dreymir um „Ívar you are an Ironman“. Trausti og Dísa tengdaforeldrar tóku á móti mér og brosið fór ekki af mér ég náði að klára þessa þolraun. lokatíminn var 14:30:25 og markmiðinu náð.

Ekkert jafnast á við að koma í mark eftir erfiðan járnmann

Líkaminn á mér eftir keppni er í ótrúlega góðu standi en auðvitað með harðsperrur. Hvort ég fari aftur í heilan járnkarl kemur í ljós seinna en samt ekki á næstunni því það er erfitt að æfa með ungt barn á heimilinu og hef ég ekki mikinn tíma í svona mikið æfingarálag en þríþraut mun ég stunda áfram á Íslandi og það með Ægir3.

En að lokum ætla ég að þakka frænda mínum honum Sigurði Gylfasyni að hafa uppnefnt mig hlújárn því ef ekki fyrir hann þá væri ég líklega ekki búinn með járnkarl og ætla ég ég að gefa honum viðurnefnið til baka og mun ég alltaf kalla hann Sigurð eða Sigga hlújárn (siggi það er bara ein leið að ná þessu uppnefni af þér).

Sól og sviti í Svíþjóð

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa langloku:

Ég kláraði Ironman í Kalmar Svíþjóð 2022

3.8 km sund – 1 klst 4 min og 23 sek = 1:40 pace

180 km hjól – 5 klst 9 min og 23 sek – 34,91 km meðalhraði.

42.2 km hlaup – 3 klst 28 min og 10 sek – 4:56 pace

Lokatími : 9 klst 47 min og 20 sek

20 sæti af 235 í aldursflokki af þeim sem kláruðu

146 sæti af 1790 sem kláruðu (2050 skráðir)

Sjötta heila Ironman keppnin mín á sex árum.

Hér kemur langlokan fyrir ykkur hin. Ég mæli með að þið náið ykkur í kaffibolla áður en lengra er haldið, eða vatn í glasið eða 10 mín pásu frá því sem þið eruð að gera. Að skrifa svona pistil hjálpar að viðhalda minningum sem dofna með árunum. Vona að þið látið ekki egóið mitt angra ykkur og vonandi hafið þið gaman af.

Aðdragandinn:

Árið 2016 hitti ég Einar Örn Guðmundssonfrænda í veislu hjá Ásu frænku þar sem hann fræddi mig um hóp manna sem ætlaði að taka þátt í Ironman keppni.

Ég óskaði eftir að fá inngöngu facebook hópinn. Einhver þekkti GGeir Ómarssonsem var ægilegur spekingur í Ironman og átti að hitta okkur til að segja okkur allan sannleikann um þetta fyrirbæri. Hann var svo upptekinn að æfa að hann boðaði okkur frekar á kynningu hjá Ægir3 og þá fór boltinn að rúlla.

Það skemmtilega vill svo til að næsta kynning hjá Ægir3 er þann 1. september næstkomandi kl 20:00 í sal við Laugardalslaug. Ef þríþraut kitlar þig þá skaltu mæta!

Til að gera langa sögu stutta. Einsi frændi fór aldrei í IM. Við reyndum árið 2020 en viku fyrir brottför til Suður Afríku greindist fyrsta covid smitið á Íslandi, og bleh…

Sex járnköllum seinna eða í september 2021 var ákveðið að negla á þetta með Einsa. En það var kominn auka manneskja sem vildi vera með í fjörinu. Það vildi svo skemmtilega til að var eiginkona Einsa frænda. Hún heitir Margrét Lára Viðarsdóttir

Undirbúningurinn:

Eins og áður mætti ég mikið á æfingar hjá Ægir3 og kenndi CBC hjólatíma í WorldClass Mosó. Æfingar gengu vel. Ég lagði meiri áherslu á sundið en ég hafði áður gert. Ég setti endurheimt upp á næsta stig þar sem sauna og kaldir pottar voru stundaðir af miklu kappi. Ég hef sjaldan verið ferskari í kroppnum. Ég náði þó ítrekað að trufla ró fólksins sem sótti í infrared saunu í Lágafellssundlaug. Það tengist því að ég tala svo hátt. Svo vilja ótrúlega margir ræða þessi fræði við mig inni í þurr-saununni. Athugið eitt: það eru tveir sauna klefar og ég truflaði fólkið í hinum klefanum. Því allir vilja hlusta í þeim klefa sem ég sit í. Já, ég tala hátt.

Þetta minnir mig á þegar ég ræddi við Sigga Frosta vin minn fyrir mörgum árum í síma í vinnunni á MT stofunni um að við værum eistna bræður. Því við hefðum aðeins eitt eista. Skjólstæðingurinn sem lá á bekknum hjá Oddu sjúkraþjálfara í hinu herberginu hafði engan áhuga að vita neitt um eistu og eistna bræður.

Allavega…

Saunu ferðirnar gengu vel. Oft var ég einn inní saunu og gat þá lagst niður á trébekkinn, hallað aftur augum og hlustað á góða tónlist í sund heyrnartólunum mínum. En þá vissi ég ekki að fólk læddist inn. Í eitt skiptið söng ég lag með David Bowie upphátt, meira svona muldarði: Ground control to major Tom. Take your protein pills and put your helmet on. Countdown og svo taldi ég niður frá 10 niður í 1. Lift off. Þá heyrði ég eldri manni í saununni segja: “Ertu að fara eitthvað vinur?”

Eftir það söng/muldarði ég ekki meir.

Þegar leið á sumarið náði ég mörgum góðum og löngum æfingum. Nokkrar keppnir hér innanlands en ætlaði að enda á Jökulsárhlaupinu, nákvæmlega tveimur vikum fyrir Ironman

Kalmar. Það hentaði einstaklega vel því það var í sveitinni hjá tengdafólkinu mínu í Öxarfirði og gaman væri að taka langt 32 km hlaup í æðislegu umhverfi.

Ég bar það undir yfirþjálfara Ægir3 sem er fyrrnefndur Geir Ómarsson og hann sagði grimmt nei. Ha? Hvað veit hann? Hann hefur ekki nema 15 ára reynslu í þessu. Hann ferðast með grímu í flugvél þó það sé ekki Covid til að vera ekki veikur fyrir sínar keppnir og svo er hann stundum mjög óratvís. Ég ákveð að hlusta ekki á hann og fer samt í hlaupið, þetta getur ekki klikkað.

Á keppnisdegi er bongó veður og allir hressir. Hlaupið fór vel af stað. Ég hélt þægilegu tempói og tiplaði af einskærri list yfir alla steina og gekk vel. Þegar var kominn 14 km og fer yfir Stallá lenti ég í mikilli drullu og hvað gerist…? þið giskuðuð rétt.. ég missteig mig, togna á ökkla. Mér leið fyrst eins og þetta væri lítið svo ég hélt áfram næstu 4 km niður í Hljóðakletta. Dauðlangaði að halda áfram en skynsemin tók völd og fyrsta DNF (did not finish) í keppni var staðreynd.

Ég rúllaði uppí Hafrafellstungu í sófan hjá tengdapabba og taldi mér trú um að þetta væri í lagi. Þrýstingur, kæling og fótur upp í loft. Nokkrum klukkustundum seinna grét ég inn í mér þegar ökklinn byrjaði að bólgna og bólgna. Í stutta stund hélt ég að ég væri þarna búinn að klúðra Ironman keppninni sem ég var búinn að undirbúa í eitt ár. Helvítis fífl get ég verið! Og sjálfsásakanirnar byrja að brjóta mann niður. En svo hugsa ég: Þú breytir ekki því sem orðið er. Er ennþá ekki búinn að segja Geir frá þessu. Bið ykkur að segja honum ekki frá. Áfram gakk!

Note to self. Hlustaðu á þjálfarann! Ég gerði ekkert í 4-5 daga en ég þekki ágætan sjúkraþjálfara sem tók mig strax í meðferð. Hann var búinn að kaupa nýjan laser og þekkti endurheimtunar fræðin býsna vel, kallaður Latsi. Meðferðin þurfti að vera skilvirk og góð því ég átti erfitt með gang daginn eftir tognunina. Hvernig í ósköpunum á ég að hlaupa maraþon eftir minna en tvær vikur!!!

Tapering eða síðustu æfingar fyrir IM keppni breyttist töluvert en ég varð að sníða stakk eftir vexti.

Ferðalagið.

Þetta er í sjötta skiptið sem ég fer í IM en ég hef aldrei tekið fjölskylduna mína með mér. Það mætti segja að ég sé smá einfari og mér finnst þægilegt að vera í minni búbblu. Ég hef þó vissulega farið með öðrum íslenskum keppendum oft áður.

En ekki í þetta skiptið. Konan mín og börnin tvö komu með og svo bætti ég gamla settinu með líka (mömmu Helga Einarsdóttirog pabba Sigurjon Eiriksson. Vá hvað það var gaman! Við flugum til Danmerkur þar sem Kristín Anna frænka og Palli stjönuðu við okkur og hittum svo Einar Örn og Margréti í Svíþjóð ásamt Gumma frænda og Súsönnu. Vorum í þessu stórglæsilega sumarhúsi á eyjunni Öland sem er austan við Kalmar.

Auðvitað var sól, sviti og hitabylgja í Svíþjóð og hitinn fór alla daga vel yfir 28 gráður í forsælu. Svefninn eftir því; sveittur og slitróttur.

Ökklinn náði sér á ótrúlegan hátt og ég tók fyrsta hlaup viku fyrir keppni og vissi þá að hann yrði orðinn keppnisfær á réttum tíma. Það var synt, hjólað og hlaupið með Einsa frænda og Margréti Láru og allt gekk vel… þangað til að næsta óhapp reið yfir.. En í þetta skipti var það hinn Einar eða tvennar. Við vorum í hjólatúr á Öland og ég var nýbúinn að segja við þau hjónin að ég ætlaði að taka smá hjólakeyrslu og brunaði í burtu. Einar er að hjóla út í kanti á veginum og er að líta til baka og athuga stöðuna á Margréti Láru. Augnabliks einbeitingarleysi á sér stað. Hann horfir svo fram aftur og fremra dekkið er komið upp að gangstéttinni svo hann nær ekki að beygja hjólið. Stekkur uppá gangstéttina og hvað haldið þið?. Þar bíður eftir honum staur sem hann þrumar á á 25 km/klst hraða. Höggið beint á bringuna og viðbeinið (mynd). Shiiit. Keppnin farin og hjólið líka.. eða það hélt hann á þessum tímapunkti og Margrét í andlegu áfalli því hún horfir á hann lenda í þessu. Nokkrir ökumenn urðu vitni að þessu og stoppuðu til að huga að okkar manni, sem bar sig vel. Það verður auðvitað að fylgja sögunni og staurinn beyglaðist við höggið og má þekkja hann (staurinn) á löngu færi eftir skellinn. Ég leit á þetta sem spádóm um að Einsi væri að fara að klára þetta og verða Ironman. Grjótharður. Auðvitað var það rétt. Sem betur fer hafði Einsi þrjá daga til að jafna sig sem og hann gerði að mestu.

Veðrið.

Það sem skiptir miklu máli þegar farið er í svona keppni er veðrið. Það var búið að vera mjög heitt og það skrítna var að veðurspáin fyrir keppnisdaginn var mjög breytileg. Veðurspáin breyttist á hverjum degi oft á dag þegar við vorum að skoða hana. Það mætti halda að værum á Íslandi. Tveimur dögum fyrir keppnina fékk ég smá áfall. Í facebook keppnisspjallinu fyrir IM Kalmar var verið að tala um að sundið yrði fellt niður vegna eldinga spár. Ha? hvað er í gangi? Ég lagðist á koddan með vonda tilfinningu þetta kvöldið. Daginn eftir leit þetta betur út. Vindur í hjólabrautinni á Öland og hiti í hlaupinu. En eldingar og sól voru ekki í kortunum. Hjúkk. Ég gat tekið gleði mína að nýju.

Keppnismorgun.

Ég, Einsi og Margrét keyrðum af stað kl 05:10 til Kalmar. Ég fékk að velja lag með Valdimar – Stimpla mig út og U2 – Magnificent. Svo spiluðu þau hjónakornin hvern slagarann á fætur öðrum. Nokkra sænska og ´80s lög. Þvílíka stemmningin. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar hent var í Stjórnina – Ég lifi í voninni með Siggu Beinteins. Veisla.

Það gekk vel að finna bílastæði í Kalmar og við röltum upp á skiptisvæði til að athuga með hjólin og setja brúsa og næringu á sinn stað. Allt leit vel út. Yfir 2000 keppendur og annað eins af áhorfendum. Ég hef sjaldan séð jafn mikið af fólki mætt til að hvetja strax í startinu snemma morguns. Klárlega mesta stemning í keppni sem hef upplifað. Við klæddum okkur í blautbúninga og kvöddumst.

Ég var búinn að ákveða að fara aftarlega í 60 mín hólfið í sundinu (áætlaður sundtími).

Ég finn alltaf þessa streitu og tilhlökkun fyrir keppni. Fiðringur í maganum, hún er góð og erfið en ég þrái hana. Allt í einu kemur þessi svakalegi hvellur. Sprengja? Nema þetta var ekki sprengja. Það var búið að hlaða í fallbyssu til að starta keppnina og fólki brá svo mikið að sumir misstu þvag.. eða kannski var fólk bara að létta á sér fyrir sundið? Sennilega. Ert hvort sem er að hoppa út í sjó sem var þægilega sléttur í morgunsárið.

Keppendur hlupu í tveimur röðum og út í sjóinn. Ég fór aftur í huganum að syngja léttan David Bowie, elska þetta lag: Space Oddity. Taldi niður úr 10 í 1. Lift off alveg eins og í saununni og hoppaði út í sjóinn.

Sundið:

Sundleggurinn er í 20° heitum sjó í tiltölulega flókinni braut. Gular baujur á vinstri hönd, appelsínugular á hægri hönd. Ok. þetta er ekki flókið. Gleymdi því samt um leið. Yfirleitt er kosturinn við sjóinn að það er betra flot út af salti. En nú kemur twistið. Eystrasaltið (þar sem við syndum) er ekki svo salt. Það er eiginlega ekkert salt til þess að gera. Hver skýrði þetta eiginlega EystraSALT?

Fyrstu 500m var ég að ná takti og finna mér stað og tær til að elta. Það gekk brösulega til að byrja með, en svo sá ég einn með appelsínugular skálmar sem mér tókst að elta ágætlega. Ímynda mér að hafi náð að drafta hann í góðan 1 km en missti svo af honum í einni af mörgum beygjum. Hugurinn reikaði ekki svo mikið heldur var einbeiting á sundtak og stíl.

Við eina beygjuna fékk ég svo í fyrsta skipti einn ,,god morning”. Högg beint í gagnaugað en krafturinn ekki svo mikill. Algjört óviljaverk í beygju við bauju. Það þýðir ekkert að gráta Björn bónda eða bingó Bjössa svo áfram með smjörið. Fór undir brú og hélt að ég væri að verða búinn en það var nú ekki svo. Ég hafði ekki tekið eftir þessari ,,auka” brú í lýsingunni svo áfram hélt fjörið. Í gegnum smá þang og allt í einu var skyggnið mjög erfitt og engar tásur sáust. Minnti mig á Eistlands keppnina. En sem betur fer var lítið eftir og allt í einu var verið að hjálpa mér uppúr. Lít á úrið og sé 1:04 klst. Besti sundtíminn minn í IM hingað til. Næstum 2 mín bæting. Mjög glaður. HHjalti Sveinssonfélagi búinn að gefa góð tips, ásamt Tótu og Gylfa. SSveinn Þráinn Guðmundssonæfingarfélagi kom með ágætan punkt þegar hann spurði mig hvernig í ósköpum gastu synt á sama pace (hraða) eins og í Kópavogs þríþrautinni í maí. Hún var 400m en í Kalmar er hún 3800m. Veistu, ég skil það ekki. Þetta hlýtur að vera eitthvað met. Er að spá í að taka Geir vin minn í smá sundþjálfun.

T1

Gekk vel á skiptisvæði. Var frekar óheppinn með staðsetningu því ég þurfti að fara mjög langa leið til að ná í hjólið meðan margir aðrir fengu mun styttri leið. Við erum að tala um uþb 20 sek. Kannski ekki mikið í stóra samhenginu í 10 klst keppni.

Hjólið:

Planið var að halda um 200 wött en hélt uþb 194 normalized wöttum sem eru 2.9 wött per kg fyrir áhugasama. Nýja hjólið mitt býður upp á betri aero stöðu og engir auka brúsar né neitt sem gat hægt á mér. Byrjuðum að hjóla yfir langa og fallega brú yfir á Öland. Fórum í suður átt með vind frá hlið eða úr austur átt. Þegar var kominn uþb 50 km fæ ég þennan bruna sting í innanvert vinstra lærið. Lít niður og hvað haldiði? Það er risastór býfluga búinn að stinga mig og það í gegnum skálmina. Ótrúlegt að hún lendir á mér á talsverðum hraða og er föst í lærinu á mér. Ég horfi niður og slæ hana í burtu en upplifi að sé með rýting í lærinu. Djöfull var þetta vont. Þegar kláraði keppnina og skoðaði lærði var óþægilega stórt stungu sár. Allavega, sársaukinn leið hjá. Svo tóku við beygjur og ég vissi að það ætti að styttast í smá meðvind. Um leið og snúið var til vesturs kom meðvindur. Eða ekki. Er ég kominn til Íslands? Hvernig getur verið austan átt á einum stað en 50km norðar er vestan átt!! Brjálaður. Áfram gakk. Yfir á meginlandið og 180km kláraðir á hjólinu.

Ég nærði mig býsna vel. Tók Maurten gel á uþb 25 mín fresti sem mótshaldarar buðu uppá. Það eru 100 kaloríur í hverju geli. Var einnig með orku í brúsa svo ég var að innbyrða uþb 250 kaloríur á klst fyrir áhugasama. Tel mig vera í þokkalegri fitubrennslu á þessu hjólaálagi.

Temmilega sáttur með hjólatíma. Hefði mátt vera örlítið betri. Bíð enn eftir sub 5 klst.

Verð samt að segja að hjólaleggurinn var erfiðari en ég átti von á. Allskonar vindar. Eins og alltaf upplifði maður meiri mótvind en meðvind. Hefði kannski getað sagt mér það sjálfur þegar sá allar þessar vindmyllur á eyjunni.

T2 – Skiptisvæði tvö.

Mjög hröð skipting frá hjóli yfir í hlaupaskó ásamt 30 sekúnda klósettferð sem mér fannst taka heila eilífð. Enga að síðu hraður og góður skipti tími.

Hlaupið.

Svakalega er gott að komast af hjólinu. Hlaupnir eru 3 hringir. Hringurinn fer um miðbæ Kalmar í ævintýralegri stemningu og svo er farið í norður átt inni í íbúðarhverfi og skóglendi og til baka.

Ég var eitur ferskur eins og alltaf í byrjun hlaups og gjörsamlega át malbikið. Í fyrsta hringnum af þremur gjörsamlega hreinsaði ég upp hvern keppanda á fætur öðrum. Vá hvað mér leið vel. Hefði nú átt að geta sagt sjálfum mér að ég væri kannski að fara of hratt. Sérstaklega þegar hitinn var kominn upp í 27 gráður en það var alveg skýjað. Ég sá pace upp 4:16 á kílómeter þrjú. Fram að 15km var ég að halda mér ágætlega undir 4:30 pace og í góðum fíling.

Ég hitti fjölskylduna sem studdi mig með ráðum og dáðum sem var yndislegt. Aldrei upplifað þetta áður í IM keppni. Þau voru búinn að stúdera brautina og kortleggja hvernig þau gætu hitt á mig 2x í hverjum hring. Ég var enn sprækur sem lækur. Eftir 15km hægðist rólega á mér í 4:45 sem var í fínu lagi. Kláraði hring tvö og fann þá að hamstring vöðvinn var farinn að víbra… Fór auðvitað í vasan á beltinu mínu til að ná í salt töflur…fail! Þær voru ekki þarna. Fokk! Ég gleymdi þeim í töskunni á hjólasvæðinu. Fyrir hausinn og lærið hefði það verið gott að taka saltið því ég er það sem kallast ,,salty sweater” en sennilega var ástæðan fyrir krömpum að ég fór of hratt og mikill hiti. Við kílómeter 28 gerðist það sem ég var eiginlega farinn að bíða eftir. Krampus er mættur á svæðið. Fótur uppá götukannt og reynt að slaka á hamstring vöðva vinstra læris. Horfi yfir götuna í miðju íbúðar hverfi í Kalmar. Þvílíka stemmningin. Verið að spila Abba í einu húsi, Avicii í öðru og auðvitað Eurovison lagið Euphoria í því þriðja og svo var amma gamla að berja á pottinn. Í öll þrjú skiptin sem ég ég hljóp framhjá þessari áttræðu konu hvatti hún keppendur og ég íhugaði að bjóða henni til Íslands í næstu búsáhaldabyltingu.

Á mínum sex árum í Ironman bransanum er þessi stemming í einni keppni einstök. 90% af brautinni er fólk að klappa og HEJA svo les það nafnið mitt á númerabeltinu og kallar: Einar frá Íslandi du er BRA. Það þýðir ekki að ég sé brjóstarhaldari eða önd. Heldur að ég er frábær 🙂 Takk kæru Svíar. En eins og ég elska að pína mig í keppni þá hata ég að fá krampa!

Á kílómeter 30 sé ég að markmiðið mitt um að fara undir 9:23 klst renna mér hægt úr greipum. Þá er tími á möntruna mína: How bad do you wan´t it. Fer með hana stanslaust í 10 mín. Krampa aftur. Hægi meira á hlaupinu. Fer svo með næstu möntru sem ég ætlaði ekki að fara með. En hún átti vel við á þessum tímapunkti þegar krampa í þriðja skiptið.

Ég kveiki á tónlistarmanninum Valdimar í höfðinu á mér og hugsa um textann í laginu: Stimpla mig út. Ég syng inní mér: Ég horfi á klukkuna og mér finnst vísanir ekki hreyfast úr stað. Ég horfi í kringum mig og sé að ég dregst aftur úr. Þeir sem voru aftast nálgast mig svo hratt. Ég gæti tekið forystu ef ég vanda mig en ég nenni varla að hugsa meira um það. Svo ég stimpla mig út og forðast allt púl. Ég geri sem minnst og reyni að halda þetta út. Og það var nákvæmlega það sem ég gerði á þessum tímapunkti. Ég reyndi að halda þetta út. Ég réttlæti það í höfðinu með því að kalla það varnarsigur. Ég verð að sýna stöðugleika og fara undir 10 klst sem mér finnst stórkostlegur árangur þegar aðrir gera það. Fjórir kílómetrar eftir og sé fyrir endan á þessu. Öll gleði hormónin í veldisvexti hellast yfir mig þegar hleyp í markið og þetta er stórkostlegt! Þetta ástæðan fyrir hvað ég eyði miklum tíma í þetta. Þetta er lífsfyllingin mín og stundum þráhyggjan mín. Núna fæ ég að upplifa það með öllu mínu besta fólki. Þvílík veisla!

Ég kem í mark og klukkan slær 9:47 klst. Ég er sáttur. Keppnin var erfiðari en átti von á. En ég hugsa strax: Ég fer í sjöunda sinn. Þá verður það undir 9:23klst.

m

Ég hef ekki verið hjátrúarfullur en ég áttaði mig á því í lok keppni að ég hafði gleymt happa eistanu mínu. Þið munið að ég er með eitt eista en þau voru tvö. Ég á sílíkon eista sem var fjarlægt fyrir 2 árum þar sem það kramdist alltaf þegar sat á hnakknum á hjólinu. Þegar ég fór í ófrjósemisaðgerð spurði ég lækninn hvort hann gæti nú ekki fjarlægt þetta auka sílíkon eista sem ég fékk 16 ára gamall. Í keppninni á Ítalíu sem gekk mjög vel var happa eistað í vasanum allan tíman. Þetta er happa eista sem sagt. Og það gleymdist heima fyrir Svíþjóðarferðina. Jæja, full mikið af upplýsingum geri ég ráð fyrir.

Úff, nú heyrist í flugstjóranum að við séum að nálgast Keflavík. Ég hef setið og slegið á lyklaborðið í 3 klukkustundir. Vá hvað þessi flugferð leið hratt.

Að lokum langar mig að þakka BBirna María Karlsdóttirminni fyrir endalausann stuðning og þvílíka þolinmæði og jafnaðargeð sem þarf að hafa til að búa með svona manni. Yndislegt hreint.

Með viljann að vopni

Aðdragandi
Eftir að ég kláraði hálfan Ironman í Zell Am See haustið 2019 ákvað ég að skrá mig í annan hálfan Ironman í Cervia á Ítalíu árið 2020. Ég æfði jafnt og þétt í byrjun árs 2020 og fram á sumar. 50 dögum fyrir þá keppni kom tilkynning um að henni yrði frestað um ár vegna COVID. Þá sá ég fram á að geta æft mikið um veturinn og ákvað því að breyta skráningunni minni úr hálfum Ironman í heilan.

Í október 2020 byrjaði ég að æfa markvisst eftir plani frá Sigga Erni þjálfaranum mínum. Ég tvinnaði saman æfingar frá Sigga, æfingar með þríþrautarliðinu mínu Ægi3 og CBC hjólatíma sem ég kenni hjá World Class. Fram að áramótum voru æfingarnar frekar þægilegar og ég var spennt að halda áfram að vinna að markmiðinu mínu á nýju ári. Í lok janúar 2021 fékk ég botnlangakast og fór í botnlangatöku. Þegar mér var sagt að ég mætti ekki æfa í fjórar vikur eftir aðgerðina hélt ég að markmiðið væri úti. En aðgerðin gekk vel, botnlanginn fjarlægður og hans er svo sannarlega ekki saknað.

Ég byrjaði að æfa rólega aftur í mars og skráði mig á framhaldsskriðsundsnámskeið en 1. apríl lokuðu laugarnar útaf COVID. Um leið og fór að vora og hægt var að byrja að synda í stöðuvötnum og sjónum reyndi ég að vera dugleg að synda þar en einhverra hluta vegna finnst mér það miklu skemmtilegra og auðveldara en að synda fram og til baka í sundlaug. Fyrir þá sem ekki vita var ég nánast ósynd í byrjun árs 2019 og hefur sundið því alltaf reynst mér erfiðast af greinunum þremur í þríþraut.

Sumarið mitt einkenndist af löngum æfingum, vinnu og ferðalögum, ýmist til að æfa eða keppa, og ég tók þátt í hinum ýmsu þríþrautar-, hlaupa- og hjólakeppnum til að undirbúa mig fyrir stóra markmiðið. Í lok júlí varð ég þó þreytt á að fylgja strangri æfingaáætlun og “þurfa” að taka ákveðna æfingu á ákveðnu álagi nánast daglega. Ég áttaði mig þó fljótt á því að það er eðlilegt að vera ekki alltaf í stuði fyrir æfingar og leyfði mér að slaka á. Þetta tímabil gekk fljótt yfir og í byrjun ágúst þegar búið var að staðfesta að keppnin yrði haldin datt ég aftur í gírinn og varð allt í einu miklu spenntari og tilbúnari en ég hafði áður verið. Síðustu dagana fyrir keppnina fann ég að ég var 100% tilbúin og í mínum huga fannst mér þetta mjög viðráðanlegt og það kom aldrei upp í hugann að ég myndi ekki klára keppnina. Ég vissi að ég var búin að undirbúa mig eins vel og ég gat en áttaði mig þó á að í svona langri keppni væru 99% líkur á að það myndi ekki allt fara eins og ég hefði gert ráð fyrir.


3800 m SUND

Ég byrjaði að synda og leið strax mjög vel, fannst ég þjóta áfram (miðað við minn sundhraða🤪). Eftir ca. 2500 m fann ég allt í einu að ég varð eitthvað skrítin og nokkrum sekúndum seinna byrjaði ég að kasta upp og var greinilega orðin svona hrikalega sjóveik. Það komu þrjár góðar gusur og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Var þetta í alvöru að gerast? Ég hef oft synt í sjó og stöðuvötnum en aldrei fundið fyrir sjóveiki, hafði ekki hugsað út í að þetta gæti mögulega gerst og því ekki undirbúið þetta. Ég svamlaði að næstu bauju og hékk þar. Þá kom björgunarmaður á báti til mín og spurði hvort ég væri í lagi, ég rétti bara upp þumalfingur enda var mér enn svo óglatt að ég gat varla talað. Eftir dágóða stund á baujunni byrjaði ég að synda aftur en tók þá bringusund og stoppaði svo aftur stuttu seinna. Svona gekk þetta áfram, ég synti í smá stund og fann mér svo bát til að hanga á. Það kom aldrei til greina að hætta keppni þó að ógleðin hafi verið viðbjóður og ég alveg orkulaus. Þegar ca 200 metrar voru í að ég kæmist í land kastaði ég upp þremur gusum til viðbótar í sjóinn og yfir „paddle board” hjá björgunarmanni sem hafði fylgt mér síðasta kílómetrann. Björgunarmaðurinn (sem talaði litla sem enga ensku) sagði þá „you will finish”, ég sagði honum að það kæmi ekki annað til greina, þakkaði honum kærlega fyrir aðstoðina, svamlaði restina og komst í land fegnari en nokkru sinni fyrr. Það getur nú eitt og annað komið upp á í svona keppni en ekki átti ég von á þessari byrjun. Sundtími: 1:51:43 og skiptitími: 7:10.

Ég hljóp upp úr sjónum fagnandi, aldrei verið jafn ánægð að klára sund. Þrátt fyrir ógleði náði ég að hlaupa í gegnum skiptisvæðið, græja mig og byrja að hjóla.


180 km HJÓL

Planið var að fá mér orkustykki um leið og ég byrjaði að hjóla en ég fann strax að ég hafði enga lyst og var orkulaus. Ég var búin að æfa og skipuleggja næringarinntöku alveg í þaula og ætlaði að taka inn næringu á 30 mín fresti. Þetta hafði ég gert á öllum æfingum síðustu mánuðina og alltaf gengið vel. Þrátt fyrir það hafði ég enga lyst eftir uppköstin í sjónum en reyndi þó að troða eitthverri næringu í mig en alls ekki eins og ég hafði planað. Það var ekki fyrr en eftir 90 km sem mér fannst ógleðin hverfa og mér fannst ég þjóta áfram, allt í einu hafði ég fína matarlyst og reyndi að taka inn mikla næringu. VÁ hvað það var gaman að hjóla um ítalskar sveitir í nánast algjöru logni. Eftir ca 130 km á hjólinu byrjaði að rigna sem mér fannst frábært. Stuttu seinna varð hjólatölvan mín batteríslaus en þá notaði ég bara úrið og kláraði hjólið með stæl, þarna var allt að smella og mér fannst þetta heldur betur minn dagur! Hjólatími: 6:22:01. Skiptitími: 5:31
Ég hoppaði af hjólinu, setti það á sinn stað, tók af mér hjálminn, fór í hlaupaskó, setti á mig sólarvörn og hljóp af stað.

Að hjóla í logni og blíðviðri er góð skemmtun


42,2 km HLAUP

Hlaupið hefði ekki geta byrjað betur. Mér fannst ég full af orku og allt eins og það átti að vera. Ég náði að taka inn næringu á 30 mín fresti (eins og planið var) fyrstu 20 km og allt var á réttri leið. Eftir ca 25 km fór mér að líða eitthvað skringilega en áttaði mig ekki á því hvað það var. Ég fór að þurfa að stoppa og labba þangað til ég hálf datt niður á fjórar fætur. Þá kom kona, sem var líka að keppa, til mín og spurði hvort það væri í lagi með mig. Ég sagði henni að ég vissi það ekki en að mig vantaði örugglega bara næringu. Þá kallaði hún hátt yfir allt og spurði hvort einhver ætti til orkugel fyrir mig. Allt í einu voru komin sjö mismunandi gel til mín og ég tók eitt þeirra. Áður en ég vissi af voru fjórir sjúkraflutningamenn komnir til mín og báðu mig um að koma með sér í sjúkrabílinn. Ég sagðist alls ekki ætla að koma, að ég ætlaði aldeilis að klára keppnina en vantaði bara banana (þó að ég hefði ekki hugmynd um hvað væri að). Þá sögðu þeir að þeir vildu bara mæla hjá mér blóðþrýsting og blóðsykur og mögulega gefa mér vökva í æð. Ég hef aldrei lent í alvarlegum orkuskorti í keppni eða á æfingu. Stuttu síðar var Sveinn kominn, hann var þá að klára sinn síðasta hring af fjórum en ég var á þriðja hring. Sjúkraflutningamennirnir útskýrðu fyrir Sveini hvað væri í gangi og hann sannfærði mig um að fara með þeim og svo myndi ég fá að klára keppnina.

Drjúgur varð síðasti áfanginn

Sjúkraflutningamennirnir hjálpuðu mér að standa upp og ganga að sjúkrabílnum. Þarna var ég ekki viss um að líkaminn myndi leyfa mér að halda áfram keppni en áður en Sveinn hélt áfram sagði hann ákveðinn „við sjáumst í markinu”. Í sjúkrabílnum mældu þeir blóðþrýsting og blóðsykur og þær mælingar komu vel út. Þeir vildu þó gefa mér glúkósa og ég drakk ágætis magn af honum. Þá þakkaði ég kærlega fyrir mig og sagðist ætla að klára keppnina. Þeir voru hálf gáttaðir en kvöddu mig og óskuðu mér góðs gengis. Ég gekk af stað og allt í einu var eins og kveikt hefði verið á mér aftur og ég hljóp af stað. Ég kláraði þriðja hringinn og byrjaði á þeim fjórða. Þegar ég hljóp framhjá sjúkraflutningamönnunum á fjórða hring rétti ég upp hendur og gargaði eins og ég hefði sigrað ólympíuleikana „look at me, I’m finishing!!!”. Sjúkraflutningamennirnir litu út fyrir að hafa ekki átt von á að sjá mig klára fjórða hringinn en hrópuðu og klöppuðu fyrir mér. Bræður mínir biðu eftir mér við 39. kílómetra og hlupu með mér restina. Með gleði, jákvæðni og dass af klikkuðu keppnisskapi að vopni tókst mér að komast að rauða dreglinum. Þessi tilfinning! Ég dansaði, hljóp, lyfti höndum, hrópaði og grét þegar ég hljóp dregilinn á enda en þar beið fjölskyldan mín og allir voru með tárin í augunum. Þvílíkur SIGUR. Yngsta íslenska konan sem klárar heilan IRONMAN. Orðlaus.Hlaupatími: 5:06:57. Heildatíminn 13:33,19.


Það sem mér finnst einna skemmtilegast við svona keppni er hvað það þarf að huga að mörgu fyrir hana. Það er eitt og annað sem getur komið upp á en aldrei datt mér í hug að ég yrði svona sjóveik, myndi missa alla orku með uppköstum og krassa í hlaupinu vegna þess. Eins og áður sagði hef ég aldrei lent í neinu slíku en svona getur líkaminn nú komið manni skemmtilega á óvart.Hér sit ég og skrifa keppnissöguna mína með tárin í augunum, er enn að melta allt sem gerðist og á eftir að gera það í langan tíma. Svona keppni er svo miklu meira en bara að synda, hjóla og hlaupa. Allar löngu æfingarnar í roki og rigningu, hafa kollinn á réttum stað, ákvarðanir um næringu, undirbúa og æfa búnaðinn og svo miklu miklu meira. Ég á svo mörgum að þakka þennan sigur. Coach Siggi er búinn að hjálpa mér að undirbúa nánast alla þætti fyrir keppnina og er ég honum virkilega þakklát. TRI verslun og Fætur toga pössuðu upp á að ég væri með besta búnaðinn í keppninni. Liðsfélagar mínir í Ægi3 eru alltaf tilbúnir að gefa mér ráð, lána búnað og hvetja mig áfram. Geir Ómarsson er alltaf innan handar og fínpússaði sundið hjá mér rétt fyrir keppni. Hjólateymið mitt í CBC á Seltjarnarnesi gerði hjólaæfingarnar síðasta vetur svo margfalt skemmtilegri.

Mikilvægast af öllu var þó stuðningur og endalaus hvatning frá fólkinu mínu, Sveini, fjölskyldunni og öllum dýrmætu vinum mínum.
Hugsum lengra, setjum okkur stærri markmið, stefnum hærra og látum draumana rætast – það gerir lífið svo miklu skemmtilegra.

Ísold Norðfjörð

Uppgjör við þungan málm

Fyrirvari

Ætla að biðjast afsökunar á ritræpunni sem hér fylgir en ég virðist bara hafa rosalega mikið frá þessu að segja. Ef þetta textaflóð er yfirþyrmandi, þá er hér lyfturæðan fyrir óþolinmóða…

Lyfturæðan

Fór mína fjórðu Ironman keppni á Ítalíu í september 2021 ásamt góðum hópi Íslendinga, sem kepptu í heilum og hálfum IM og ólympískri þraut.

Var með markmið um að komast undir 9 tíma (átti best 9:06 frá Barcelona 2018) en ég grillaði mig á hjólinu eftir að sundið var undir væntingavísitölu og aðstæður á hjólinu voru ekki ákjósanlegar.

Kláraði þrautina á 10:06:45, í 34. sæti í AG M40-44 (af ca. 300 sem kláruðu) og 161. sæti overall (af tæplega 2000 sem kláruðu) – eftir að hafa labbað og hlaupið til skiptis rúma 30km með lærin í mauki. Nokkuð vel sloppið miðað við að það stefndi í að ég myndi ekkert ná að hlaupa þessa 30km+ og enda á 12-13 tímum.

Sund: 1:08:24 (71. í AG, 329 overall)
Hjól: 4:56:42 (15. í AG, 69. overall)
Hlaup: 3:52:01 (34. í AG, 161. overall)

Þessi járnkarl var minn síðasti að sinni og ætla ég að setja sund-hjól-hlaup eitthvað neðar á forgangslistann en verið hefur undanfarin ár. Enginn veit hvenær endurkomufiðringurinn kemur yfir mann – kannski eftir ár, eða tvö eða tíu… Þakka öllum sem hafa fylgst með ævintýrum mínum þessi fimm ár í þríþrautinni.

Laaaaaanga útgáfan

Ég tók mér frí frá Ironman undirbúningi 2020. Ákvað að það væri kominn tími á rólegri tíma eftir þrjá IM í röð (2017, ´18 og ´19). En ég skráði mig í staðinn í Laugavegshlaupið með metnaðarfullt markmið (undir 5 tíma) þannig að ég endaði sennilega á að æfa svipað mikið og fyrir IM þann vetur og sumar svo það gafst ekki mikið meiri tími fyrir önnur hugðarefni en sund-hjól-hlaup (bara meira hlaup og minna hitt þetta sumar).

Eftir Laugaveginn ákvað ég að kýla á einn IM í viðbót (minn fjórða) áður en ég tæki mér ótímabundið frí frá lengri þríþrautum og stefndi á að setja þríþraut almennt neðar á forgangslistann en verið hefur. Þetta hafa verið ansi viðburðarrík 5 ár í þessu sporti og lítið annað komist að, sérstaklega seinni árin. Það var því kominn hugur í mig að setja kletta- og ísklifur aftur í forgang og losa um frítíma til að sinna fjölskyldu, heimili og öðru betur en ég hef gert undanfarin ár.

Náði að plata Einar Sigurjóns (Latsa) Ægir3-ing með mér í Ironman Italy – í bænum Cervia í Emilia-Romagna héraði á norð-austur Ítalíu, við Adríahafs-ströndina. Þar voru fyrir skráðir fjölmargir Íslendingar í hálfum og heilum IM – flestir frá fyrra ári en 2020 keppninni var aflýst vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Reyndar urðu ca. helmings afföll fyrir rest því allnokkrir duttu út á síðustu mánuðunum vegna meiðsla eða ákváðu að fresta þátttöku til 2022 (vegna Covid).

Við Latsi náðum okkur í sæti í gegnum Nirvana bókun í september ´20, því venjuleg sæti voru löngu uppseld út af 2020 frestuninni. Vorum heppnir að komast að því Trausti og Gutti reyndu t.d. líka að fá sæti sama dag en voru aðeins of seinir og komu að tómum kofanum (þeir komust þó inn í IM Barcelona, sem er haldinn 2 vikum síðar).

Höfundur og Einar Sigurjónsson (Latsi) á ströndinni í Cervia, nýbúnir að ganga frá hjólum fyrir keppnisdaginn.

Fyrir þau sem ekki til þekkja, þá er Nirvana ferðaþjónustufyrirtæki sem kaupir ákveðið hlutfall sæta í flestum IM keppnunum og selur með álagningu (yfirleitt eftir að almenn sæti seljast upp) ásamt hótelgistingu og annarri þjónustu (s.s. sækja hjólið manns heim, „gæduðum“ ferðum um hjóla- og hlaupabrautirnar, hjólasamsetningu og alls konar). Við náðum s.s. að kaupa sæti í einhverri kippu sem Nirvana átti frá fyrra ári eða hafði fengið til viðbótar fyrir 2021. En þetta kostar sitt og ef maður kaupir í gegnum Nirvana og nýtir sér ekki hótel-inneign sem fylgir með (sem hvorugur okkar gerði), þá er keppnisgjaldið komið vel yfir 100þús kallinn.

Ítalíu-keppnin varð fyrir valinu því við Latsi vorum báðir búnir með IM Barcelona og Austurríki (og hann Kaupmannahöfn) og Ítalía var ásamt ásamt Kalmar (í Svíþjóð) metin sem hraðasta brautin sem við áttum báðir eftir í Ironman seríunni í Evrópu. Hann var með markmið um að fara undir 10 tímana og ég undir 9 tímana þannig að brautin þurfti að vera hröð til að einhver von væri um slíkt (amk. hvað mig varðar). Tímasetningin var líka ákjósanleg (18. september) til að hafa allt sumarið til undirbúnings án þess þó að draga þetta langt fram í haustið (Barcelona og Kona eru t.d. fyrri part október sem er í seinna lagi fyrir minn smekk).

Út af óvissunni með Covid, þá dró ég að panta flugmiða þar til í maí og endaði á að panta fyrir mig einan, en Ása hafði upphaflega ætlað að fara með mér (og plata forelda sína suður til að passa grísina á meðan). Að endingu varð planið það að ég færi einn út á miðvikudeginum (keppnin á laugardegi) og lengja ferðina um rúma viku og fara í löngu tímabæra heimsókn til Robba og Katrínar („gamalla“ klifurfélaga minna sem búa í Sviss) og ná nokkrum klifurdögum í Ölpunum með þeim – ef skrokkurinn væri í sæmilegu standi eftir keppnina.

Undirbúningur

Ég gerði eitt og annað öðruvísi en fyrir fyrri IM keppnirnar þrjár en notaði áfram það sem mér fannst virka vel fyrir mig. „If it ain´t broken, don´t fix it!“

Endurheimt: Eftir að hafa lent (nánast) á hverju ári í einhver konar „breakdown“ tímabilum, þar sem ég hef væntanlega verið kominn í ofþjálfun, þá var endurheimt atriði sem ég ætlaði að leggja ríka(ri) áherslu á.

Ég hætti alveg að taka morgunæfingar – með áherslu á svefn frekar en æfingamagn.

Fékk mér HRV4Training farsímappið til að fylgjast með HRV (Heart Rate Variability). Byrjaði að nota það síðasta haust. Einfalt tól sem tekur HRV með myndavélinni á símanum (á fingri), helst í byrjun hvers dags, og gefur ráð um hvíld og álag.

Fékk mér síðan Whoop (úlnliðs) strappa til að fylgjast betur með álagi, endurheimt og svefni. Fékk Whoop í byrjun árs (jan eða feb) og hann gefur mun betri upplýsingar um endurheimt en HRV4Training. Sá nokkrum sinnum merki um að ég væri að stefna í ofþjálfun eða að ég þyrfti að bæta í svefninn. En það verður að viðurkennast að Whoop hefur aðallega bara sýnt mér hversu illa ég sef frekar en að hann hafi hjálpað mér að bæta úr því.

Er búinn að vera að glíma við svefnvandamál síðustu ár og sérstaklega þennan veturinn. Búinn að reyna alls konar bótaúrræði og það er eitthvað minna um árangur af þeim – melotónín, svefntöflur (uppáskrifaðar frá lækni), turmerik-te, hugleiðslu, eyrnatappa, svefngrímu, sleppa koffíni, sleppa sæng (bara með lak sem ábreiðu), sofa einn í gestaherberginu, sleppa hljóðbókum fyrir svefninn, lesa fyrir svefninn, lesa ekki fyrir svefninn, fara fyrr að sofa, fara seinna að sofa, sofa ekki út um helgar, sofa lengi út um helgar, borða ekkert eftir kvöldmat, „binaural“ hljóð (til að „entrain-a“ heilabylgjurnar), og örugglega sitthvað fleira…

Mataræði: Almennt borða ég frekar hollan mat en leyfi mér alveg að sukka endrum og eins. Fæ mér annað slagið bjór yfir sjónvarpinu eða á spjalli með félögunum og nokkrum sinnum á ári á eitthvað „djamm“. Eigum við ekki að segja að ég sé svona 90/10 maður í hollustu?

Eitt af því sem ég datt óvart inn á fyrir þessa keppni var lágkolvetna mataræði.

Ása skráði sig í Greenfit matarkúr í nóvember og þar sem hún er kokkurinn á heimilinu, þá fylgdi ég bara með í því. Þetta var 3 eða 4 vikna kúr með nokkurn veginn „paleo“ mataræði – ekki ketó en frekar nett á kolvetnunum – enginn sykur, ekkert kaffi, enginn unninn matur. Alls ekki neinn megrunarkúr (borðaði mig alltaf saddan), bara náttúrulegt hollt fæði.

Þetta fór frekar vel í okkur bæði (Ása léttist mjög hratt og ég eitthvað smá) og við héldum aðeins meira „loose“ línu í mataræðinu fram að jólum.

Í desember tókum við Geir Ómars saman námskeið um lágkolvetnafæði fyrir langar úthaldsíþróttir (einkum þríþraut) hjá EndureIQ.com. Það var mjög fróðlegt námskeið og með því sökkti ég mér niður í þessa næringarfræði, sem ég hafði svo sem ekki mikið pælt í – bara reynt að borða frekar hollt, vera með kolvetni við áreynslu og borða prótein eftir átök fyrir endurheimtina. Þar var kynnt vegferð fyrir fólk eins og mig (á leið í langa þríþraut) til að hámarka árangur í íþróttum og heilsuna um leið með lágkolvetna mataræði – fókus á hollan mat og bætingu í fitubrennslugetu líkamans.

Vegferðin fól í sér m.a. 3 vikur af ketó (í janúar) lágkolvetna mataræði í kjölfarið, fókus á fastandi langar helgaræfingar (til að bæta fitubrennsluna) og strategíska tímasetningu kolvetnainntöku (fyrir, eftir og við æfingar).

Ég tók þessa vegferð ekki alveg eins heilögum tökum eins og Geir, sem mældi ofan í sig hverja kaloríu og pældi mikið í makró hlutföllunum. Ég lét mér nægja að vera mjög stífur í ketó vikunni og fylgjast sæmilega með mataræðinu í byrjun lágkolvetna kaflans, borða mikið af fitu, hóflega af próteinum og halda kolvetnum í miklu hófi (og tímasetja þau almennt samkvæmt plani). Nennti ómögulega að telja matinn ofan í mig og láta þetta stjórna lífinu dags daglega. Flestar helgaræfingar voru teknar fastandi og gengu almennt mjög vel.

Álagspróf

Fór í próf hjá Sigga Erni í Greenfit fljótlega eftir ketó vikurnar (í byrjun febrúar) og aftur í maí – til að sjá fitubrennsluprófílinn, nákvæma aerobic-, anaerobic- þröskulda og fleira.

Fór í tvö próf hjá Sigga fyrir Kona 2019 (áður en Greenfit kom til) en niðurstaðan úr þeim var ekki eins ítarleg eins og í fínu tækjunum hjá Greenfit og því erfitt að bera þær saman við Greenfit prófin.

Fékk fínar niðurstöður í febrúar og enn betri í maí – allar tölur vel upp og hámarks fitubrennslu álagið (FATmax) komið nærri plönuðu Ironman keppnisálaginu.

Keppnisnæring

Er búinn að vera að nota GU gel í gegnum árin í keppnum (venjulega og Roctane) og prófaði Maurten gel og drykki í Kona með ágætis árangri. En maginn hefur ekki verið neitt allt of hrifinn af GU þannig að ég hef verið að hneigjast í átt að Maurten og finnst þau fara betur í belginn.

Prófaði í lok undirbúningsins að næra mig með UCAN „superstarch“, sem eru flóknari kolvetnakeðjur en eru í venjulegu frúktósa/maltódextrín geli og drykkjum. UCAN á að gefa manni jafnari blóðsykur en hefðbundin keppnisnæring og halda fitubrennslu í betri gír (sem er mjög mikilvægt í járnkarli).

Morgunmatur á keppnisdegi: tröllahafrar með hnetusmjöri 3 tímum fyrir keppni, UCAN drykkur (1 bréf) klukkutíma fyrir keppni

Á hjólinu: útþynntur UCAN drykkur á 15mín fresti (þynntur út 50%, bréfið í 1 1/2 brúsa) með teskeið af electrolyte þykkni út í hvern brúsa (3x 750ml brúsar og einn 500ml brúsi, planið að drekka einn brúsa á klukkutíma), Maurten vs GU Roctane gel á hálftíma fresti. UCAN stykki eftir 1klst og 3klst.

Á hlaupinu: UCAN gel í softflask (3-4 gel)

Hitaaðlögun

Fyrir Kona 2019 fór ég í mikla hitaaðlögun enda aðstæður þar afar krefjandi. Fyrir Barcelona 2018 tók ég heldur nettari hitaaðlögun.

Ályktaði sem svo að tölfræðin fyrir Ítalíu væri þannig að von væri á amk. 20°C og töluverðar líkur á 25-30°C og sól þannig að það væri full ástæða til að fara í einhverja aðlögun.

Þetta endaði því sem ca. 2 mánaða prósess þar sem ég tók gufubað 1-2x í viku. Byrjaði stutt en smá lengdi settin og tónaði þetta svo niður síðustu 2 vikurnar og tók síðasta settið rúmri viku keppni.

Þessi aðlögun á að láta mann svitna minna í hita (skilvirkari kæling) og lætur líkamann halda betur í söltin (minni salttap í gegnum svitann).

Í lokin tók ég líka netta „steinefna-hleðslu“, þar sem ég drekk aðeins óhóflega af saltdrykkjum í ca. viku til að hlaða vöðvana af þessum fjórum lykilsöltum:- kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum. Ráð sem ég sótti frá Chris McCormack eftir hans baráttu við krampa og ógleði í Kona árum saman áður en hann stillti sig inn á aðstæður þar, ma. með þessari steinefnahleðslu.

Gerði báðar þessar aðlaganir fyrir Kona og þó ég hafi vissulega þurft að glíma við krampa þar síðustu 15km, þá held ég að þeir hefðu orðið enn verri ef ég hefði ekki gert þessa hitaaðlögun og steinefnahleðslu, því ég svitna frekar mikið og er almennt ekki góður í hita.

Sund

Ég ætla bara að vera hreinskilinn með það að mér finnst ekkert voðalega gaman að synda. Eða við skulum orða það þannig að mér finnst alveg gaman að synda, einkum víðavatnssund í hlýjum sjó/vötnum erlendis og mér finnst sundið vera stór partur af upplifuninni við Ironman keppnirnar (þó ég sé ekkert spes í þeirri grein). En mér finnst ekki sérlega gaman að æfa sund, er orðinn ansi langþreyttur á hægri bætingakúrvu í sportinu og finnst alveg ferlegt að þurfa að djöflast í ísköldu víðavatnssundi hér heima allt sumarið (í æfingum og keppni) til að undirbúa þessar Ironman keppnir.

Já ég veit alveg að ef ég hefði meiri metnað fyrir sundinu, þá myndi ég eflaust bæta mig hraðar og mögulega hafa meira gaman að þessu („acquired taste“?) en það er bara ekki alveg að virka fyrir mig. Finnst einfaldlega svo miklu skemmtilegra að æfa hlaup og hjól – kann að æfa þau sport, veit hvað þarf til að verða góður – og finnst ég sjá sorglega lítinn mun á sundgetunni hjá mér þau tímabil sem ég syndi lítið sem ekkert og þegar ég mæti oftar í sund (fann reyndar mikinn mun á mér þegar ég tók „30 daga áskorun“ í sundi vorið fyrir Kona en ég hef ekki tíma og áhuga til að synda upp á hvern dag).

Hvað um það, þá er ég samt alltaf með metnað fyrir að verða góður (eða betri amk) í sundi en sá metnaður er ekki að skila sér nógu vel í gleði, ákafa og ástundun. Ákvað síðasta sumar (2020) að taka nokkur skref afturábak og synda minna og drilla meira. Keypti fína rafbók með góðu drilluprógrammi frá Triathlon Taren og var nokkuð duglegur við það um sumarið og inn í haustið. Þar var pælingin að reyna að ná betur þessum grunnatriðum sem ég sem miðaldra skrifstofumaður án nokkurs sundbakgrunns er með í molum. Atriði sem ég vil meina að ég muni aldrei laga með því að „synda bara meira“ því jú ég kemst kannski hraðar með því að verða „meira fit“ en mig langar til að verða hraðari með því að verða „betri sundmaður“, sem felur í sér betra sundform en einkum betri tækni og flæði.

Algengt upplegg á æfingum hjá mér var: 4×50 upphitun, 400-600 drillur og svo 400-1500 af styttri (oftast) eða lengri (sjaldnar) sprettum þar sem ég fókusaði á tækni og hraða (lítið í „mileage“ nema bara síðustu vikurnar). Mætti á einstaka Ægir3 æfingar en þær voru fáar og óreglulegar.

Synti eitthvað minna í sundlaug (út af Covid og áhugaleysi) en vann það upp með æfingum í bílskúrnum með æfingateygjum – styrkti mig töluvert í öxlum og latsa og reyndi að vinna í háum olnboga og „catchinu“. Var því sterkari og úthaldsmeiri í öxlum og latsa þegar ég fór að auka magnið í lokin og fannst ég ná að tengja sund og skúræfingar ágætlega á þessum síðustu vikum. Lifi í þeirri trú að þessar drillur hafi bætt tæknina hjá mér eitthvað, en það er kannski bara óskhyggja…

Heildaræfingatími tengdur sundi því líklega svipaður og undanfarnar keppnir.

Keypti mér nýjan blautbúning, sem passaði mér betur (Zone3 Advance). Sá er liprari yfir axlirnar og þéttari í hálsinn en gamli. Kannski engin bylting því gamli gallinn var ágætur en kannski eitthvað örlítið sem ég mögulega græði á þessari uppfærslu.

Hjól

Fór í áskrift hjá TrainerRoad (hjólaþjálfun) og var mjög duglegur þar (og á Zwift) framan af hausti þegar ég byrjaði að æfa eftir sumarfríið (Laugarvegurinn var aðal markmið sumarsins). Var lítið að hlaupa á þeim tíma og hjólaði þeim mun meira (4-5x í viku).

Raunar var ég svo duglegur að ég hjólaði mig í ofþjálfun um mitt haust í annarri æfingablokkinni (miðjan október ca.) og var það blanda af mjög miklu og erfiðu hjóli, lélegum svefni (var oft að horfa á NBA körfuboltann fram á nætur á þessu tímabili) og vinnuálagi (sem var mjög mikið allt haustið).

Var ekki kominn með Whoop á þessum tíma en var þó að reyna að fylgjast með endurheimtinni með HRV4Training farsímaappinu, en það annað hvort sýndi yfirálagið ekki nógu vel eða ég var ekki að hlusta á vísbendingarnar. Var í öllu falli of seinn að átta mig á í hvað stefndi og það endaði með krassi og ég þurfti að taka mjög rólegar nokkrar vikur til að jafna mig sæmilega og var svo í rólegri endurkomu fram að áramótum.

Var kominn aftur í góðan gír um áramótin og í svipuðu standi og fyrir ofþjálfunina og byggði svo ofan á því fram á vorið. Var með tölur sem voru ca. 10W hærri en fyrir Kona á línuna, hvort sem það var FTP, FATmax, aerobic eða anaerobic þröskuldar. Fór t.d. upp um 10W og 10-12 púlsslög í FATmax (álagið þar sem fitubrennslan er í hámarki) milli Greenfit prófanna í febrúar og maí og var þá kominn með FATmax mjög nærri Ironman álaginu á hjólinu.

High-end aflið minnkaði svo aðeins þegar leið á sumarið með auknu æfingamagni á keppnisálagi en það er eðlilegt – maður fórnar því fyrir meiri getu á keppnisálaginu.

Annars var hjólakittið að mestu það sama nema ég keypti mér nýja aerobar púða (51 SpeedShop, sem voru miklu þægilegri en gömlu) og nýtt sveifasett að framan (170mm með 53/36 tönnum í stað 175mm 53/42 tanna), til að minnka „hip-angle“ í aero-stöðunni og fá léttari léttasta gír fyrir brattar brekkur. Samhliða nýja sveifasettinu breytti ég aðeins stillingunum á hjólinu – reisti aerobörin aðeins upp og færði hnakkinn aðeins framar og upp um ca. 1cm. Ekki stórkostlegar breytingar en fannst þetta vera betra fyrir axlirnar en í gömlu stöðunni og fannst aero-prófílinn á mér nokkuð aggressívur en þó nógu afslappaður til að geta haldið stöðunni frekar lengi.

Tölurnar í lokin á buildupinu voru þannig að ég var að taka langar IM keyrslur á 230-240W (ca. 10W hærra en 2018 og ´19) og miðað við Greenfit prófin, þá var ég í ca. 75% fitubrennslu á því álagi (púlsi 140-150) og að brenna um 240kcal/klst af kolvetnum, sem er ca. það ég ætti að ná að innbyrða jafnóðum (og ætti því ekki að ganga mikið á innri kolvetnabirgðirnar á hjólinu).

Hlaup

Hef átt mjög góð hlaup í öllum þremur Ironman keppnunum mínum (3:13, 2:59 og 3:11) svo það var svo sem ekki mikið rými fyrir bætingu þar á bæ. Var þó með markmið um að fara aftur undir 3 tímana og draumamarkmið að bæta 2:57 metið hans Geirs frá Barcelona 2017 (ég á að ég held annan besta íslenska IM maraþontímann, frá Barcelona 2018). Markmiðið var að komast í ~2:50 maraþon form (eins og fyrir Barcelona og Kona) og að nýju Brooks carbon skórnir gæfu mér einhverja bætingu.

Hef yfirleitt ekki verið með mikinn hlaupafókus fyrr en í buildupinu í lokin. En þó þannig að ég mæti á Ægis-æfingarnar í Höllinni og tek hraustlega á því og er að taka 1-2 æfingar sjálfur að heiman í viku (yfirleitt frekar stutt nema þegar komið er inn í sumarið).

Fékk tak í kálfann í mars og gat lítið hlaupið út af því fyrr en eftir páska. Þegar kálfinn loksins var kominn í sæmilegt stand, þá fékk ég verri meiðsli en þá í lærið. Þessi meiðsli voru svo slæm að þrátt fyrir nokkurra vikna hvíld frá hlaupum, þá gat ég ekki hlaupið meira en 30-40mín þegar ég reyndi að byrja að æfa aftur í maí – ef ég fór lengra þá var ég að drepast og endaði oftast á að haltra heim. Fékk Latsa til að hamast á mér nokkur skipti og það mýkti mig eitthvað en samt neitaði þetta að fara alveg (komst að í segulómun um síðir en það sýndi ekki neitt enda kannski orðið gróið þá). Um miðjan júní var ég orðinn nokkuð örvæntingarfullur og varð einfaldlega að fara að æfa almennilega til að eiga einhverja von um að komast í sub-3:00 form fyrir haustið. Fór því að hamast á löppinni og lærið var orðið þannig að ég gat beitt mér sæmilega, en var að auki kominn með eymsl ofan og neðan við og var það sérstaklega stífleiki upp undir (og í) mjöðm sem var að plaga mig. Hlaupa buildupið var því hálfgert diet-prógramm framan af því ég þorði ekki að taka langar rólegar æfingar og ekki heldur langar tempó æfingar (mest styttri sprettir, brekkusprettir og Nx800m) en þetta dugði þó til að koma mér í merkilegt gott stand í lok sumarfrísins. Náði ágætis „big-day“ hlaupi, Fjögurra skóga hlaupinu og Súlur Vertical hlaupinu fyrir norðan í lok júlí.

Í ágúst var svo komið að alvöru maraþon buildup fram að járnkarlinum með rúman mánuð til stefnu. Tók fyrstu „maraþon-samlokuna“ 7. ágúst, 30km æfing – 6+6km á maraþon hraða (4:10/km) með 1600m á T/threshold á milli (3:45/km) og hún gekk vel en ég hljóp haltrandi heim síðasta kaflann. Vikuna eftir var lengt í 8+8km samloku og gekk hún ágætlega þó ég hafi fundið fyrir löppinni strax eftir klukkutíma. Yasso 10x800m voru teknir á brautinni vikuna eftir (á 3:30-35/km) með lágmarks eymslum – lofaði góðu.

Helgina eftir var Big-Day #2 (4 vikum fyrir keppni) og þar stytti ég hlaupið úr 2 tímum í klukkutíma á tempó (á 4:05-10/km) með smá niðurskokki. Var sæmilegur í löppinni en framundan var þung vika með Michigan-æfingunni og 10+10km samloka næstu helgi og ég vildi vera í góðu standi fyrir þær lykilæfingar – var búinn að fá það sem ég þurfti út úr big-day hlaupinu eftir klukkutímann.

Michigan æfingin var tekin með Ægir3 á Varmárvellinum rúmum 3 vikum fyrir IM. Náði ekki alveg að negla það sem ég lagði upp með, sem var maraþon pace upp á 4:05 (~2:52 maraþon). Hröðu settin voru aðeins of erfið og ég náði ekki að halda pace á þeim og 4:05 náðist ekki alveg á rúll köflunum. En ég var alltaf undir 4:10 svo þetta var bara fínt – það vantaði bara aðeins meiri dýpt í formið.

Síðasta samlokan, 10+10km með 1600 T á milli og 10km Z2 á undan (samtals ~34km) hafðist á target með þrjár vikur í keppni. En löppin var handónýt þegar ég var búinn með tempóið svo ég labbaði 4km heim úr Fossvoginum því ég gat hreinlega ekki niðurskokkað.

Síðustu 3 vikurnar voru teknar í miklum sparakstri hlaupalega. Tók 2 tíma Heiðmerkurhlaup sléttum 2 vikum fyrir keppni. Hélt að mjúkir stígarnir myndu gera mér gott en áhrifin voru þveröfug og ég var handónýtur í löppinni seinni klukkutímann og útlitið ekki gott fyrir keppnina. Ákvað því að hlaupa sáralítið síðustu 2 vikurnar. Tók bara örfáar 20-40mín æfingar á melló hraða til að halda mér mjúkum. Hæpið að þetta næði að jafna sig á tveimur vikum fyrst ástandið var ekki betra en þetta í Heiðmörkinni. Ekki gott.

Æfingaálag

Ég æfði mjög svipað og fyrir hinar IM keppnirnar. Var almennt að taka 2-3 æfingar í hverju sporti í viku og óreglulega styrktaræfingar meðfram (tók nokkurra vikna rispur en datt niður á milli).

Meðal vikan yfir veturinn var upp á ca. 6-8 tíma á viku fram á vorið þegar helgar hjólaæfingarnar fóru að lengjast (fyrst á trainer og síðan útihjól eftir páska).

Stærstu vikurnar voru um 16 1/2 tími – 4 vikum fyrir keppni (Big Day #2 þá viku) og 2 vikum fyrir keppni (stærsta hjólavikan) en auk þess all nokkrar 10-14 tíma vikur frá apríl fram í ágúst.

Keppnir

Tók þátt í nokkrum keppnum í hinum ýmsu greinum í sumar eins og endranær.

Kópavogsþríþrautin í maí (sprett þríþraut)

Gekk ágætlega þrátt fyrir kulda og vind. Endaði þar í sjöunda sæti eftir að hafa misst mann klaufalega fram úr mér á leiðinni að markinu (ég villtist öfugu megin við girðinguna). Synd því sundið gekk óvenju vel hjá mér (15. sæti), hjólið frekar vel (5. sæti) og hlaupið ágætlega miðað við að hafa lítið sem ekkert hlaupið allt vorið (6. sæti).

Íslandsmót í TT í júní (22km á Suðurstrandarvegi). Bara mætt tvisvar í TT keppni – á Krýsuvíkurvegi fyrir 3-4 árum og á Akureyri fyrir 2 árum.

Skráði mig í Masters flokk (40-49 ára) því mér sýndist á ráslistanum að allir í Elite væru miklu betri en ég. En keppnin gekk frekar vel í hífandi roki enda formið orðið nokkuð gott þarna og aero staðan að gefa í mótvindinum til baka (seinni 11km). Endaði efstur í mínum Masters flokki (1mín á undan Eiríki Jóhanns) og í fimmta sæti í heildina . Hefði s.s. verið nálægt því að blanda mér í verðlaunabaráttuna ef ég hefði þorað að skrá mig í Elite flokk.

Held ég verði að taka þátt í Elite flokki ef ég verð í sæmilegu formi næsta sumar. Sýnist ég eiga fullt erindi þangað.

Síminn Cyclothon í júní (hjóla kringum landið liðakeppni)

Var með vinnufélögunum í Síma-liðinu í cyclothoninu í júní – kenndu við Símann að þessu sinni út af ónefndu gjaldþroti í flugbransanum. Hjólaði þar um 230km í 26 sprettum á tveimur sólarhringum í fínu samfloti við þrjú önnur lið (með þrjá aðra Ægiringa innanborðs). Alltaf mikið ævintýri og stemning að hjóla cyclothonið þó það sé vissulega erfitt á líkama og sál.

Laugarvatnsþríþrautin í júlí (hálfur járnkarl)

Keppnin var á dagskrá fyrri part júní en var frestað vegna afleitrar veðurspár. Var svo haldin í júlí í frábæru veðri – líklega sjaldan verið haldin þríþraut hér heima í svona góðu veðri. Undirbúningur var meiri en oft áður hjá mér því ég hafði auka mánuð inn í sumarið – annars hefur þessi keppni almennt ekki verið í sérstökum fókus hjá mér og yfirleitt svo löngu fyrir þessar Ironman keppnir að ég hef ekki verið kominn í almennilegt „long distance“ form fyrir hana. En að þessu sinni, þá fékk ég s.s. næstum heilan mánuði aukalega til að byggja upp lengd í greinunum þremur og það gekk bara bærilega nema að ég var enn að glíma við hlaupameiðslin og gat því ekki undirbúið þann hluta almennilega.

Sundið gekk frekar vel hjá mér á ca. IM álagi – ætlaði að reyna að hanga í Eiríki en það gekk ekki, náði ekki alveg tempóinu sem ég ætlaði og krampaði nokkrum sinnum í kálfunum og það skemmdi taktinn að þurfa að draga fæturna á eftir sér.

Hjólið gekk sæmilega. Ætlaði að keyra það á 260-270W en það var ekki alveg innistæða fyrir því og ég dalaði á seinni hringnum niður í 230-240W í lokin. En var samt ánægður með að keyra út fyrir þægindarammann (bara aðeins of mikið) og var „ekki nema“ 15mín á eftir fyrstu mönnum (sem eru deild eða tveimur betri en ég á hjólinu).

Út af meiðslunum hljóp ég bara einn hring (af fjórum) til að taka sem múrsteins-æfingu. Vildi ekki sénsa á að taka alla 20km með löppina tæpa með bara 2 mánuði í járnkarlinn í september. Tók því mitt fyrsta DNF (Did Not Finish) í þríþraut en sýnist á lokatímunum að ég hefði líklega getað haldið fjórða sætinu.

Iceland Extreme Triathlon í júlí (hjólaleggurinn í hálfum járnkarli)

Með Ara Odds (hlaup) og Aðalsteini (sund) í „boðþrautar“ liði. Nokkrir Ægiringar í hálfum IM í þessari keppni á Snæfellsnesi (og einn í heilum), sem er ræst eftir miðnætti skömmu eftir sumarsólstöðurnar. Var helgina eftir Laugarvatn og veður eins og oft verður á Snæfellsnesi – hvasst og nokkuð kalt (hékk þó að mestu þurrt).

Tók við af Alla eftir sundið um kl. 2 um morguninn og þar sem ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af hlaupi á eftir, þá keyrði ég þetta á þéttu trukki, kringum 250-260W (160bpm+). Fór raunar svo geyst að fyrr en varði var ég búinn að fara fram úr öllum í heila og hálfa járnkarlinum (heili ræsti klukkutíma á undan okkur) og orðinn fremstur á þjóðveginum (eða ég held það amk). Leiðin var frá lóninu milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur og vestur nesið út fyrir jökulinn og yfir Fróðárheiði aftur til Ólafsvíkur, þar sem markið var (97km leið). Vegna hvassviðris ákváðu mótshaldarar í miðju kafi að breyta leiðinni fyrir hálfan IM og snúa okkur við rétt fyrir Arnarstapa og breyta leiðinni eitthvað fyrir heilan IM líka. Ekki gekk það betur en svo að ég þaut framhjá einhverju fólki sem var að veifa í vegkantinum og skildi þeirra nærveru ekki öðruvísi en sem klapplið fyrir aðra keppendur. Húsbíll keyrði svo framhjá mér skömmu síðar og mögulega voru menn þar eitthvað að reyna að tala við mig en ég var mjög einbeittur að hjóla á fullu með aerohjálminn í hífandi roki og heyrði ekki neitt. Svo ég hjólaði bara áfram. Síðan var það ekki fyrr en löngu eftir Arnarstapa að Ari og Alli stoppuðu mig í brekku rétt áður en kom að beygjunni upp á Fróðárheiði. Þá höfðu þeir um síðir fengið upplýsingar frá mótsstjórn um að ætti að snúa hálfa IM við og það hefði ekki tekist að stoppa mig (ég vil meina að það hafi ekki verið reynt mjög fast…). Jæja, nett fúll yfir þessu enda kominn ansi langt frá Ólafsvík og langt fram yfir snúningspunktinn (sem átti að gera hjólið kringum 90km) þannig að það stefndi í ansi langa nótt hjá mér. En þar sem við vorum eina boðþrautar liðið, þá var engin samkeppni í þessu – við myndum vinna bara við að skila okkur í mark. Svo ég hélt bara uppteknum hætti og reyndi að halda mínu trukki áfram þó ég væri aðeins farinn að þreytast – skipti úr HIM álagi niður í IM álag (145-150bpm). Hjólið hjá mér endaði svo í 134km í stað rúmlega 90km – um klukkutíma lenging frá upphaflegri leið (4:05 hjólatími).

En þetta skipti náttúrulega engu máli og var bara fín æfing fyrir járnkarlinn og þessi klukkutíma lenging varð til þess að við vorum ekki lang fyrstir í hálfa IM heldur í fimmta sæti með Gutta, Trausta og tvo Ameríkana á undan okkur. Úr varð því fínasti eltingaleikur fyrir Ara á brakandi ferskum löppum að hala inn hlauparana fyrir framan, sem voru orðnir lúnir eftir langa nótt á sundi og hjóli. Hann reyndi að koma þeim skilaboðum til þeirra sem hann náði og mætti að hann væri í boðþrautarliði og þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af honum – en það skilaði sér ekki til fremsta manns sem gerði gríðarlega vel í að halda Ara fyrir aftan sig – og vinna hálfa IM keppnina.

Við áttum svo góðar stundir í félagsheimilinu í Ólafsvík að spjalla við mótshaldara, hina keppendurna (útlendingana, Trausta/Gutta feðgana og fleiri). Brunaðum svo aftur í borgina og vorum komnir þangað um hádegið eftir skemmtilegan túr.

Fjögurra skóga hlaupið í júlí (Fnjóskadalur niður í Vaglaskóg, 18km utanvegahlaup)

Við Ása skráðum okkur í þetta með stuttum fyrirvara. Var hikandi með þetta út af hlaupameiðslunum en lét til leiðast. Fínasta tempó æfing í mikilli hitamollu.

Gangamótið í júlí (Siglufjörður-Akureyri götuhjólakeppni, rúmir 80km)

Hef tvisvar keppt í þessari keppni. Hefur passað ágætlega inn í sumarfrísplön fjölskyldunnar fyrir norðan. Keppti í Masters flokki og endaði í 5. sæti eftir mikla baráttu upp Hlíðarfjallsbrekkuna upp í Skíðastaði.

Súlur Vertical í júlí (28km utanvegahlaup).

Ása skráði okkur saman í þessa keppni í vor. Ég féllst á það því 28km lengdin virtist passa ágætlega inn í prógrammið þó ég væri ekki neitt í utanvegahlaupum. En svo komu meiðslin til og ég fór ekki í eitt einasta utanvegahlaup og 28km var miklu lengra en allt sem ég hafði tekið á æfingum þegar hér var komið við sögu – fyrir utan að næstum 1000m klifur og niðurhlaup var langt út fyrir þægindarammann. Kom í mark í fjórða sæti á rúmum þremur tímum – seinasti klukkutíminn var hrikalega erfiður…

Fyrir keppni er gott að raða öllu upp og yfirfara, til að ekkert gleymist.

Væntingar

Stefnan frá upphafi prógramms var að reyna að komast í form til að reyna við 9 tímana í IM. Átti best 9:06 frá Barcelona 2018 og þar voru aðstæður ekkert spes – sjórinn úfinn og hvasst á hjólinu (og blautt á kafla). Fannst eftir þá keppni að ef aðstæður hefðu verið fullkomnar þá hefði ég mögulega verið í standi til að fara kringum 9 tíma.

Kona 2019 var náttúrulega allt önnur skepna í fáránlegum aðstæðum (hita, raka og roki) þannig að það er erfitt að átta sig á hvar ég stóð þar en tíminn upp 9:39 var ekkert slor og formið líklega sambærilegt við Barcelona.

Sundið – 1:08:24

Var búinn að plata Einar og Hafþór til að koma með mér í <60mín hólfið, þó enginn okkar væri líklegur til að fara undir klukkutímann. Reynslan frá fyrri keppnum er að flestir annað hvort ofmeta eigin getu eða fara viljandi í hraðara hólf en innistæðar er fyrir. Við vorum allir með væntingar um rúman klukkutíma þannig að við plöntuðum okkur aftarlega í þetta fremsta hólf. Ég var heldur æstari að mjaka mér framar í þvögunni en strákarnir voru á bremsunni og héldu sig til hlés, svo ég lét mig síga aftur á bak til þeirra til að við myndum fylgjast að alveg inn að rásrennunum.

Planið með að staðsetja okkur þarna var að vera í þeirri stöðu að vera með hraðari sundmenn í kringum okkur til synda í kjölsoginu (draftinu) frá þeim. En samt ekki það framarlega að allir í kringum okkur væru miklu hraðari og við ættum ekki séns á að hanga í tánum á þeim. Maður vill heldur ekki vera miklu hægari en allir í kring til að vera fyrir og tefja fyrir öðrum keppendum. Annar kostur við að vera svona framarlega er að maður kemst fyrr út á hjólabrautina með færri fyrir framan sig og fyrir sterka hjólara þýðir það færri framúrakstra, sem alltaf taka sinn toll.

Spenningurinn fyrir keppnina var frekar yfirþyrmandi eins og venjulega og þessi hálftími í hólfinu ætlaði venju samkvæmt aldrei að líða. Fyrstu sundmenn ræstir kl. 07:30 og við þrír í röð ca. 7:45.

Væntingar upp á 1:00-05 en þær væntingar svo sem ekki byggðar á sérlega vísindalegum grunni. Bara tilfinning um að ég væri aðeins hraðari en í fyrri keppnum – 1:08 í Barcelona í úfnum sjó og 1:11 í Kona í úfnum sjó og án blautbúnings – orðinn aðeins sjóaðri og í betri blautbúningi. En vinnuframlagið í sundinu var óneitanlega heldur í minni kantinum þannig að kannski bjartsýni að halda að ég ætti mikla bætingu inni.

Sjórinn aðeins úfinn og undiralda eftir umhleypinga dagana á undan en svo sem ágætis aðstæður (þó ekki ákjósanlegar).

Reyndi að elta tær allan tímann en var sennilega hátt í hálfa leiðina einn að svamla, að hluta til af því ég leita alltaf aðeins til hægri og týni oft tánum sem ég var að elta. Tók nokkra spretti til að ná hópum á undan mér eftir að hafa týnt tánum fyrir framan mig en það tekur alltaf aðeins úr manni þannig að ég gerði lítið af því seinni partinn.

Fannst þetta ganga frekar vel þó þetta hafi tekið heila eilífð og mér brá þegar ég kem upp á ströndina á 1:08 eitthvað. Bjóst svo sem ekki við klukkutímanum en átti von á tíma nær 1:05.

Ég endaði á 1:08:24, sem er svo sem ekki sem verst því Einar var á tæplega 1:06 og Hafþór á 1:04, báðir sterkari sundmenn en ég.

1:49/100m pace.
Max púls 170
71. í AG, 329. overall.
Óvenju gott fyrir mig þó þetta sé alltaf mín lang slakasta grein. Segir mér að þetta hafi líklega verið frekar hægt sund almennt hjá fólki.

Gami Rauður beið þolinmóður á skiptisvæðinu. Kannski var þetta hans síðasta járn….

T1 – 3:52

Fattaði það þegar ég skilaði hjólinu af mér daginn áður að ég var ekki búinn að æfa skiptingarnar neitt – fyrir utan að hnoða mér úr gallanum í hraði eftir sundæfingar í galla. Og ég keppti bara í tveimur þríþrautum í sumar (Kópavogi og Laugarvatni) svo það verður nú seint sagt að þetta hafi verið þaulæft hjá mér. En skipting í járnkarli er nú ekki alveg sama paník athöfnin og í stuttu þrautunum og ég bý að þessum fimm árum í sportinu og all nokkrum keppnum undir belti. Þannig að ég var nú ekkert að stressa mig á þessu.

Eins og venjulega var ég mjög feginn að koma loksins í land eftir sundið, sem mér finnst alltaf taka óhemju langan tíma (já, 3,8km er mjög langt…).

Missti sundgleraugun við sturtuhausana í fátinu. Snöggur að snúa við þessa 2m og spretta úr spori upp á skiptisvæðið, sem var um 100m frá sundmarkinu. Var kominn í toppinn á þríþrautargallanum (synti með hann gyrtan hálfa leið) þegar ég kom inn á svæðið og sprettaði svo þessa 100m sem voru upp að hjólinu mínu. Úr blautgallanum á núlleinni, númerabeltið um mittið og hjálminn á kollinn.

Frá hjólarekkanum voru svo 400-500m sem ég þurfti að leiða hjólið á skokkinu út að jaðri skiptisvæðisins. Alveg fáránlega langt skiptisvæði og mjög spes hvernig þetta var númerað. Við Einar vorum s.s. báðir með AWA status (All World Athlete – ég brons og hann gull) og ég með númerið 435, sem yfirleitt ætti að skila manni mjög góðri staðsetningu (var t.d. á mjög góðum stað í Barcelona með svipað lágt númer). Í fyrstu röð voru s.s. númer frá 100-580 ca. og í annarri röð frá 580 upp í 1070 eða álíka. Og þar sem ég var með 435, þá var ég langleiðina í burtu frá útganginum (Einar var með 243 og því töluvert nær útganginum). Þar af leiðandi þurfti ég að hlaupa með hjólið þessa óskapa leið frá mínum stað á rekkanum (í báðar áttir).

En ég var svo sem snöggur að þessu og hleyp ekkert mikið hægar með hjól við hliðina á mér heldur en án þess. Svo þetta gekk bara fínt og tími undir 4mín í T1 er bara mjög gott þarna. Gaurinn sem vann AG40-44 (á 8:43) var t.d. 4:02 með T1 (10sek hægari en ég).

Hjólið – 4:56:42

Var sem sagt frekar svekktur yfir sub-optimal sundi en það var lítið við því að gera og allur dagurinn framundan. Kom mér ágætlega af stað á hjólinu í gegnum þvælinginn í bænum. Passaði mig að lenda ekki aftan við einhverja strollu og eiga hættu á bláa spjaldinu (5mín drafting víti). Var annars mest að taka fram úr fólki fyrstu km á leið upp á hraðbrautina. Strax eftir 5-10km var ég kominn fram úr ansi mörgum og farið að verða aðeins gisnara á milli hjólara svo það var auðveldara að fara fram úr einum og einum og hægt að halda aðeins jafnara tempó á milli.

Ég fór fram úr kunnuglegum kauða kringum 10-15km en það var þá sjálfur Latsinn, sem hafði synt 2:30 hraðar en misst 40sek af því strax í T1. Hafþóri náði ég uppi á hraðbrautinni kringum 25km en hann hafði synt 3:30 hraðar en missti vel rúma mínútu á mig í T1.

Annars gekk þetta svona framan af hjólinu eins og venjulega. Ég reyndi að halda mínu planaða 230-240W álagi meðan ég var einn en svo lenti ég aftan við einhverja halarófu og þurfti að hægja á mér en gefa svo í til að fara fram úr henni. Stundum komu einhverjir trukkar fram úr mér og hægðu svo á þegar þeir voru komnir fram úr og ég þurfti að hægja á mér niður í ~200W sem var allt of rólegt miðað við planið. Svo þá þurfti ég að gefa í til að þjóta fram úr þeim aftur. Ekki ákjósanlegt að vera alltaf í þessum sprettum endalaust.

Eftir snúninginn efst á hraðbrautinni kringum 30km var þetta orðið sæmilega gisið og ég gat farið að rúlla á mínum hraða. Þetta var tiltölulega snemma miðað við fyrri keppnir (t.d. Barcelona), þar sem ég hef verið næstum hálfa hjólaleiðina að komast úr því að vera í endalausum framúrakstri yfir í að geta rúllað sæmilega jafnt. Taktíkin að ræsa frekar framarlega í sundinu að skila sér.

Þegar hér var komið við sögu gafst loksins tóm til að fara í greiningarvinnu. Þarna fór ég að reikna í huganum. Ef ég ætlaði að ná 9 tímum og ég gef mér að ég nái að hlaupa á 3 tímum og ég brenndi upp næstum 9 mín fram yfir klukkutímann á sundinu og skiptingarnar verða ekki minna en 7-8mín, þá þarf ég s.s. að vera amk. 15mín undir 5 tímunum að hjóla eða 4:45. Miðað við BestBikeSplit.com greininguna á brautinni, þá rámaði mig í að 230W myndi gefa mér ca. 4:50 og 240W myndi gefa mér ca. 4:45 og það var miðað við lygnt veður og frekar slétt malbik. En staðan þarna var að malbikið var oftar en ekki frekar dapurt og það stefndi í mótvind bæði leiðina upp á hraðbraut (20km) og til baka niður í Cervia af hraðbraut í lokin (20km) (því vindáttin átti að snúast yfir daginn) en annars ætti þetta að vera eitthvað í fangið, bakið og hliðina til skiptis á hraðbrautinni og upp að klifrinu í Bertinoro.

Þarna tókust á Dr. Jekyll og Mr Hyde í kollinum á mér:

a) skynsami verkfræðingurinn (Dr Jekyll) sagði mér að taka enga sénsa og halda plani á 230-240W og láta bara daginn gefa eins og aðstæður byðu upp á. Miðað við aðstæður yrði þá hjólið ekki undir 4:55-5:00 og ég myndi ekki eiga nokkra von um að fara undir níu tímana, því nokkuð ljóst að ég væri aldrei að fara að hlaupa á 2:45-50.

b) keppnismaðurinn (Mr Hyde) sagði mér hins vegar að þetta væri minn síðasti séns, því ég væri á leiðinni í Ironman pásu og kannski yrði ég aldrei aftur í formi til að reyna við níu tímana. Hér þyrfti hins vegar að fara út fyrir þægindarammann og taka meiri áhættu en ég hef gert í fyrri keppnum og trukka hjólið verulega upp til að vinna upp eitthvað af þessum tíma sem nú þegar var búinn að blæða og aðstæður myndi líklega kosta meira á hjólinu.

Skynsami verkfræðingurinn laut í gras þennan daginn og ég gíraði mig upp um ~10W og fór að keyra á 240-250W og mér fannst það ekki taka mikið meira á en rúllið framan af (sem var reyndar mjög mikið í framúrakstri).

Það var farið að hitna all nokkuð þarna í meðvindinum á hraðbrautinni en samt var ég ekki farinn að hafa áhyggjur af því á þessum tímapunkti. Sötraði minn útþynnta UCAN drykk – ætlaði að drekka einn brúsa á klukkutíma – og fékk mér gel eða stöng á hálftíma fresti.

Kringum 65-70km var komið að Bertinoro klifrinu, sem er ca. 150m hækkun með mesta halla upp á ~15%. Við vorum búnir að keyra þetta og skoða í vikunni og þetta var jú nokkuð bratt á stuttum köflum en samt ekkert svo hræðilegt. Og maður fengi góða endurheimt og fríkeypis hraða í rennslinu aftur niður á flatlendið.

Ég var búinn að ákveða að leyfa mér að fara „aðeins yfir 300W“ upp bröttustu kaflana en reyna sem mest að halda mig í Z4 í 270-300W í klifrinu. En svo var þetta bara ansi mikið brattara en ég átti von á og ég stóð mig að því að fara hátt í 400W á köflum og að kófsvitna í hitamollunni (Mr Hyde að störfum). Það var samt frekar skammt liðið á hjólið (tæpa tvo tíma) og ég ennþá frekar ferskur svo þetta var nú frekar lítið mál og ég hafði ekki áhyggjur af að ég væri að grilla mig þarna (sem ég sennilega var samt að gera) – var búinn að taka svona kafla (ásamt framúrakstinum) á flestum löngum æfingum í buildupinu.

Rúllið niður á hraðbraut aftur var tíðindalaust og ég að mestu einn að dóla með einum og einum framúrakstri og fáum sem fóru fram úr mér. Þegar ég kom á hraðbrautina var ég orðinn ansi þyrstur og tók vatnsflösku og orkudrykk á drykkjarstöð (var annars ekki búinn að taka neitt því með allar brúsafestingar fullar fram að því). Fannst ég vera búinn að vera sæmilega duglegur að drekka en samt var grunsamlega lítið búið að ganga á drykkinn minn. Búinn að fylla einu sinni á stýrisbrúsann og hann var ekki orðinn tómur – en ég hefði átt að vera kominn langleiðina á þriðja brúsa hérna. Var orðinn eitthvað lystarlaus og var ekki að taka gelin alveg samkvæmt plani heldur (þó að mestu).

Kringum drykkjarstöð kringum 90km fór lítill hópur af sterkum hjólurum fram úr mér og ég hengdi mig á hann en eins og oft áður þá fannst mér þeir hægja á sér svo ég fór fram úr flestum fljótlega aftur. Nema fremsti gaurinn var greinilega sprækur og var að síga fram úr halarófunni svo ég hengdi mig aftan á hann (með bili eins og lög gera ráð fyrir).

Hinir sigu aftur úr okkur og við vorum komnir tveir í litla „pace-línu“ þarna. Vorum svo sem ekki farnir að tala neitt saman en við jójóuðum hvor fram úr öðrum annað slagið þegar okkur leiddist þófið og fannst fremri maðurinn ekki fara nógu hratt (hlutverkaskipti byggð á pirringi frekar en samkomulagi). Þegar fór að nálgast snúninginn efst á hraðbrautinni kringum 100km vorum við farnir að horfa aðeins hvor á annan og ég amk. var farinn að flikka olnboganum eftir temmilega törn sem fremri maður til að gefa merki um að hann mætti gjarnan færa sig fram fyrir. Svona pace-línur eru algengar í Ironman og eru löglegar meðan menn standa löglega að framúrakstri og halda 10-12m bilið almennt (6 hjólalengdir). Ef ekki er mikill hliðarvindur, þá er alveg teljandi drafting sparnaður þó það sé þetta langt bil milli manna, sérstaklega ef margir eru í línunni. Ég reyndi að passa mig í framúrakstrinum fram úr gæjanum og þeim sem við fórum fram úr en mér fannst hann alltaf vera ansi kræfur í hvað hann seig lítið aftan við mig og hvað hann var grófur í að hjóla alveg í rassinn á þeim sem við fórum fram úr áður en hann fór til hliðar og framhjá.

Alla vega, þá var þetta ágætis fyrirkomulag. Við vorum að taka 2-3km fyrir framan á aðeins óþægilega háu álagi (240-250W) en sem aftari maður var maður eitthvað rólegri (210-230W?) og gat aðeins hvílt og teygt úr sér. En þetta þýddi að ég var að eyða ansi miklu púðri í þessa endalausu framúrakstra fram úr kauða (á 250-300W) og það hefur tekið sinn toll úr löppunum.

Það var mikið af dómurum á mótorhjólum alla leiðina og einhverjir sem fengu bláa spjaldið í kringum mig. Þegar við voru að nálgast endann á hraðbrautarkaflanum í 115-120km, þá heyri ég flautað fyrir aftan mig og mér brá eins og alltaf og þá hafði þessi pace-línu félagi minn fengið bláa spjaldið, líklega fyrir að hanga langt (og/eða lengi) innan við löglega fjarlægð fyrir aftan mig (eins og mér sýndist hann almennt gera).

Ég var skíthræddur um að ég fengi víti líka en svo var ekki – enda reyndi ég að passa bilið eins og ég gat þó eflaust hefði verið oft hægt að góma mig á óheppilegum tímapunkti innan fjarlægðarmarka (en þó örugglega ekki lengi þannig).

Gaurinn hjólaði svo fram úr mér og sagðist hafa fengið víti og ég sagði bara „Oh man, tough luck!“ en ég meinti samt „Gott á þig, svindlarinn þinn“ 🙂 Hann greinilega ætlaði að bruna að penalty boxinu og hvíla sig þar í 5mín vítinu.Hann náði mér svo aftur kringum 140-150km þegar ég var að nálgast hraðbrautina á leiðinni heim. En ég ákvað að elta hann ekki.

Undir lokin á þessari skilvirku en líklega eitruðu samvinnu okkar (fyrir mig amk) var ég farinn að þyngjast töluvert og farinn að lækka afltölurnar sem fremri maður og ekki lengur að stressa mig á lágum tölum sem aftari maður. Þegar hann hvarf svo á braut með bláa spjaldið sitt, þá ákvað ég að stokka spilin upp á nýtt og endurmeta stöðuna. Ég var þarna kominn um 120km, orðinn djöfullega þyrstur, ekkert búinn að pissa, langaði ekkert í gelin mín og orðinn ansi lúinn í löppunum og farinn að ströggla við upprunalega 230-240W markið. Tónaði mig því aðeins niður, kringum 210-220W til að reyna að endurheimta smá mojo, þó það væri sennilega orðið of seint.

Tók fram úr Ísold á flatanum upp að Bertinoro en hún hafði lenti í miklum hremmingum í sundinu og ég var þarna kominn 70km á undan henni (hún ræsti líka seinna en ég). Ég hrópaði hvatningarorð til hennar en það gafst ekki tóm fyrir djúpar heimspekilegar samræður þarna. Hún var bara sæmilega hress sýndist mér, líklega sprækari en ég…

Á drykkjarstöðinni í bænum undir Bertinoro var enginn að rétta drykki svo ég reyndi að grípa vatnsflösku af borði en klúðraði því og var nálægt því að hjóla á eitthvað borð – satans! Hefði svo þurft á þessari flösku að halda því orðinn vel skrælnaður þarna og langaði lítið í volgan UCAN drykkinn (sem ég var búinn að þynna meira út með vatninu frá fyrri drykkjarstöð).

Sem betur fer var aðeins farið að draga fyrir sólu þarna og dropaði aðeins úr lofti líka svo hitinn lækkaði aðeins. En klifrið var eftir upp hæðina og í þetta skiptið tók það mun meira á en á fyrri hringnum, kominn 130km inn í hjólið. Í þetta skiptið var enginn æsingur í mér og ég svigaði meira að segja upp hluta af bröttustu köflunum til að minnka aflið aðeins. En þetta reif samt vel í lappirnar. Fór fram úr hjólurum (líklega á fyrri hring) sem varla voru að ná að hjóla bröttu kaflana og líka fólki sem var búið að gefast upp á að hjóla og var að labba með hjólið upp. Gríðarlega feginn þegar ég komst upp í bæinn og að hápunktinum og kunni svo sannarlega að meta hressann múginn sem var þarna að hvetja – fannst vera mun fleiri þarna á seinni hringnum en kannski var það bara hausinn á mér sem skynjaði þetta öðruvísi. Nokkuð frakkur niður brekkuna aftur en mig minnir að það hafi verið blautt þarna svo það þurfti að fara varlega enda þröngt á köflum og nokkrar blindbeygjur.

Niðri í bænum undir hæðinni voru „bara“ 40km eftir og það að mestu á flata. Lítið annað að gera en að halda bara sjó í áframhaldandi sparakstri og reyna að jafna sig fyrir hlaupið. Tók tvær drykkjarflöskur á stöðinni kringum 160km og sturtaði í mig en var þá kominn í ansi duglega vökvaskuld og búinn að sleppa nokkrum gelum til viðbótar (var orðið hálf ómótt á þessum lokakafla).

Kom aleinn niður af hraðbrautinni niður á sveitaveginn og þar kárnaði gamanið, því þar mætti mér ansi stíf hafgola í fangið (eins og spáð hafði verið). Komst ekkert áfram þarna – var bara í ~200W eða rétt þar um kring svo þetta tók heila eilífð – orðinn aumur í öxlum, baki, klofi og lærum (eins og alltaf í lok IM hjólsins reyndar). Það fór einn gaur fram úr mér þarna en hann var það hraður að ég treysti mér ekki til að elta hann og hélt bara mínu (hæga) striki.

Kom fyrir rest inn í Cervia og vissi ekki hvað biði mín þar. Hef verið vel hamraður í lokin á hjólinu í hinum IM keppnunum – og samt átt þrusu góð hlaup – en ekki alveg svona kraftlaus sennilega. Jæja, var alla vega mjög feginn þegar ég tók síðustu beygjurnar og hringtorgin og renndi inn í T2.

Garmin segir að brautin hafi verið rúmlega 179km og hækkunin 620m (hjólatölvan) vs 670m (úrið). Ironman gefa upp opinberan hæðarprófíl sem 400m sem er bara kjaftæði – kalla Bertinoro „little speedbump“… Þeir segja líka: „the road surface is generally good so this is a fast course“. Get alveg fallist á að þetta sé „frekar hröð braut“ en 650m hækkun er töluvert annað en 400m hækkun og Bertinoro klifrið er „vel krefjandi“ og malbikið er oftar en ekki frekar glatað…

Og mig grunar að vindurinn þennan daginn hafi ekki verið eitthvað einsdæmi og þetta sé bara dæmigert á þessum slóðum – landátt að morgni með mótvind á leið upp á hraðbraut og hafgola um miðjan daginn með mótvind á leið niður í bæ. En ég er svo sem enginn veðurfræðingur…

Meðalhraði: 36,3km/klst
Normalized afl: 225W
Max afl: 673W
Max 20mín afl: 248W (allt of hátt!!)
13. í AG, 54. overall.

Mitt lang besta hjól í járnkarli (ekki tímalega en í sæti í AG) – enda heldur hraðar farið en innistæða var fyrir…

Skiptisvæðið eftir hjól. Frekar lítil gleði, enda varla göngufær.

T2 – 5:49

Fann það síðasta kaflann niður frá hraðbrautinni að ég var orðinn verulega þungur í löppunum, en það er svo sem ekkert nýtt í járnkarli. Maður er alltaf orðinn ansi grillaður eftir fimm tíma í hnakkinum – í löppum, klofi og öxlum. En ástandið í T2 var verra en ég óttaðist.

Um leið og ég steig af hjólinu urðu lappirnar sem steinrunnar og ég átti erfitt með að ganga í gegnum skiptisvæðið (það er nýjung fyrir mig). Þurfti að stoppa miðja leið að rekkanum mínum út af sársauka og stífleika.

En ég náði að hrista þetta ágætlega af mér lokametrana inn að rekkanum og var orðinn sæmilegur þegar ég losaði mig við hjólið og hjálminn.

Klæddi mig sitjandi í skóna og greip húfu, gleraugu og gelflösku og þrumaði mér út af skiptisvæðinu. Fannst ég hafa verið þarna inni í 10-15mín en þetta voru ekki nema 5:49, sem var bara ágætt miðað við að geta varla gengið með hjólið (hvað þá hlaupið) og að hafa stoppað í dágóða stund til að jafna mig.

Til samanburðar var Einar með 3:48 og AG sigurvegarinn með 4:07 í T2.

Hlaupið – 3:52:01

Eftir að ég jafnaði mig sæmilega á labbinu að hjólarekkanum í T2, þá komst ég strax á fínt rúll á ca. 4:10/km pace, sem var target til að fara undir 3 tímana. Gekk ágætlega fyrstu 2-3km en það hægði fljótt á mér niður í 4:30-4:45/km. Var svo sem búinn að búa mig undir að geta ekki haldið hraða þannig að ég vonaði bara að ég gæti haldið mér einhver staðar undir 5:00/km og sigla þessu einhvers staðar milli 3:00 og 3:30. Pissaði loksins kringum 3-5km. Sleppti einhverjum bunum fyrir sundið og í því en pissaði ekkert á hjólinu (sem er ekki góðs viti). Þannig að ég hef verið orðinn ansi skorpinn miðað við það magn vökva sem ég innbyrti þessa rúmu fimm tíma þangað til þessi buna loksins lak niður fótlegginn niður í skóinn á einhverri drykkjarstöðinni…

En undir lok fyrsta 10km hringsins, þá gáfu lappirnar sig og ég þurfti að byrja að labba rétt fyrir drykkjarstöð kringum 9km. Ætlaði ekki að koma mér af stað labbandi einu sinni fyrir sársauka og haltraði áfram í dágóða stund og reyndi að jafna mig. Sá þarna fram á að þurfa að labba rúma 30km í mark (og það á frekar hægri göngu) og það myndi taka mig all nokkra klukkutíma og myndi klára þrautina á kannski 12-13 tímum í besta falli.

Sýnist ég hafa labbað rúman km þarna með smá stoppi á drykkjarstöðinni. Kom mér að lokum aftur í hlaup á rétt undir 5:00/km en það entist ekki nema 2-3km áður en ég þurfti að labba aftur. Annar ca. kílómetri hlaupum en svo var ég kominn á brauðfætur og gat ekki hlaupið meira. Var þarna kominn um 17km og snarstoppaði – minnir að ég hafi séð drykkjarstöðina í fjarska (í lok annars hrings) en gat ómögulega hlaupið alla leið þangað. Man ekki nógu vel hvað ég setti ofan í mig um þetta leyti og hversu mikið en ég man að á einhverri drykkjarstöðinni fékk ég mér orkudrykk og RedBull og var ómögulegur í maganum á eftir (það gæti reyndar hafa verið á 9km stöðinni). Var nálægt því að skella í væna spýju en það slapp fyrir horn. Ákvað að sleppa rauðnautinu eftir þetta en mátaði mig við orkudrykkinn (og banana og vatn) smátt og smátt það sem eftir lifði hlaups (til að fá kolvetni og sölt í mig) og það slapp ágætlega í mallann. Tók nokkur orkugel líka en þau voru fá eða engin seinnipart hlaups.

Allt eftir ca. 10km er annars í all nokkurri þoku hjá mér. Þessir þrír seinni hringir renna allir saman í eitt. Einar fór fram úr mér á öðrum hring líklega (frekar en þriðja). Ég var svo sem að bíða eftir því og í ljósi ástandsins á mér þá var ég alls ekki tapsár yfir að það gerðist – var bara mjög ánægður að sjá „lærlinginn“ minn í góðum gír og vonaði að hann væri á siglingu að ná 10 tíma markmiðinu sínu (sem hann gerði glæsilega á 9:39 í 16. sæti í AG40-44!). Það fór að rigna um svipað leyti og ég bölvaði því í fyrstu enda allt í pollum og skór og galli holdvot, en þegar ég sætti mig við hana var rigningin bara svalandi.

Fór framhjá Davíð og Óla nokkrum sinnum auk fleiri Íslendinga á hliðarlínunni og allir voru voða elskulegir að hvetja mig áfram með öllum ráðum. En ég var bara svo reiður yfir ástandinu og svo einbeittur að berjast við nístandi sársaukann í lærunum að ég gerði sennilega lítið annað en að hvæsa „Takk“ með gremjusvip. Mætti Ísold og Sveini amk. 1-2x hvoru en man ekki til þess að hafa rekist á Hafþór, Almar eða Guðjón.

Á hlaupinu…

Eftir þetta krass kringum 17km datt ég inn í labb-hlaup takt þar sem ég reyndi að labba ekki meira en 200-300m og hlaupa nokkur hundruð metra í senn áður en ég þurfti að haltra aftur í labb vegna sársaukans. Einstaka sinnum tókst mér að plata sjálfan mig til að ná um kílómetra eða svo á hlaupum með því að sigta út drykkjarstöð, eitthvert kennileiti eða heilan/hálfan kílómetra á úrinu en það leiddi bara af sér að ég var handónýtur og þurfti að labba þeim mun lengra áður en ég gat hlaðið í nægan andlegan styrk til að hlaupa aftur. Með þessu móti var ég að klukka hvern kílómetra framan af kringum 6:30-7:00/km. Þegar á leið fóru hlaupakaflarnir að lengjast aðeins en þó ekki þannig að ég gæti hlaupið samfellt, jafnvel þó ég reyndi að hlaupa hægt – það gekk betur að hlaupa sæmilega hratt í stuttan tíma í senn. Undir lokin, frá ca. 30km og í mark var ég farinn að ná meðal kílómetra hraða upp á 5:30-6:00. Var mjög einbeittur í að reyna að hlaupa samfellt frá 37km markinu síðustu 5km í mark en það var ekki að fara að gerast og ég bugaðist sem fyrr eftir uþb. kílómetra. Það var ekki fyrr en kringum 39km eða 40km markið sem ég náði viljastyrk til að hlaupa samfellt í mark. Tókst að rífa hraðann aðeins upp kringum hringtorgið þar sem maður beygir niður að marksvæðinu með nokkur hundruð metra eftir og „endaspretturinn“ var á 4:10/km pace. Náði í restina einum sem var alveg bugaður og mér tókst að hvetja hann eitthvað áfram og fylgja mér í markið (hann var vonandi þakklátur).

Einar beið mín í markinu og var að vonum kampakátur með sitt góða gengi. Ég samgladdist honum innilega en mér leið svo hrikalega illa að ég var ekki sérlega skemmilegur félagsskapur – svimaði hrikalega mikið og var óglatt. Langaði hvorki í mat né drykk. Sat dágóða stund með Einari og svo kom Hafþór í mark skömmu á eftir mér og settist hjá okkur. Ég ákvað svo að fara í sjúkratjaldið (enn einu sinni) til að láta tékka á mér. Vildi ekki fara einn upp á hótelið í þessu ástandi. Það var svo sem ekki mikið að mér (líklega bara mikill vökvaskortur) en ég lá þarna á sjúkrabörum undir álteppi um klukkutíma áður en ég óskaði eftir að fá að skakklappast heim.

Garmin gefur mér að hlaupið hafi ekki verið nema 41,4km og með nánast engri hækkun (13m). Eini gallinn við brautina er að það er ansi mikið af kröppum beygjum, sem eru áskorun – sérstaklega seinni partinn þegar lappir orðnar þungar. En að öðru leyti ætti þessi braut að bjóða upp á mjög góða tíma. Myndi segja að hún væri töluvert hagstæðari og skemmtilegri en Barcelona hlaupabrautin, sem er ágætlega flöt, aðeins of stutt en með mjög langa og leiðinlega mannlausa kafla.

Meðalhraði: 5:36/km
Hægasti km: 8:20 (#17 eða #18)
85. í AG, 375. overall.

Óvenju slakt hjá mér enda gekk þetta frekar brösulega. Er yfirleitt með allra hröðustu hlaupurunum, ekki bara í aldursflokki heldur overall.

Uppgjör

Sit hér heima við tölvuna í borg óttans þegar ég lýk þessum maraþonskrifum tæpum 3 vikum eftir keppnina. Er búinn að bútasauma pistilinn í skömmtum síðustu vikurnar. Þannig að ég er kominn með næga fjarlægð frá þessum ósköpum til að geta „reflektað“ sæmilega gáfulega á keppnina.

Ég get ekki neitað því að það er með frekar súrt bragð í munni sem ég skil við þennan járnkarl. Hinir þrír höfðu gengið svo vel, þó þeir hafi allir verið hrikalega erfiðir líka. Fannst í hinum þremur keppnunum að ég hafi náð öllu út úr mér og skilið allt eftir í brautinni. Auðvitað gekk ekki allt að óskum í þeim heldur en ég náði að naga mig í gegnum erfiðleikana þannig að mér fannst sómi af. Þar náði ég þessum góða árangri með miklum viljastyrk ofan á dýrmæta keppnisreynslu og gott líkamlegt form.

Það er auðvitað þannig að ég fór inn í þessa keppni með mjög metnaðarfullt markmið enda egóið stórt og það þarf að næra það. Átti að vera mitt „magnum opus“ í minni síðustu Ironmam keppni. Miklum metnaði fylgir líka að maður þarf að þrýsta á öll þolmörk til að kreista út allt sem skrokkurinn hefur upp á að bjóða. Þannig að það var ljóst að ég myndi þurfa að fara nær mínum mörkum en nokkru sinni fyrr, jafnvel þó ég væri í mínu besta hjólaformi (sundið var líklega á pari og hlaupaformið kannski eitthvað síðra út af meiðslunum).

Það voru náttúrulega eftir á að hyggja taktísk mistök að þrjóskast við að stefna á níu tímana þegar það var ljóst af veðurspánni og landslaginu að það yrði erfitt að fara mikið undir fimm tímana á hjólinu. Ég hefði átt að gera eins og ég hef alltaf gert – að halda plani – því í buildupinu (einkum BigDay) var ég búinn að máta mig við keppnisálagið og ákvarða þar hvar þolmörkin lágu.

Á hjólinu tók ég þessa „gut feeling“ ákvörðun frekar snemma (kringum 20-30km) um að taka sénsinn og keyra á 10W umfram „planið“ til að vinna upp tíma sem ég hafði „tapað“ á sundinu. Í Barcelona tók ég sambærilega ákvörðun en þar var hún tekin eftir 90km þegar ég var kominn 5-10mín á eftir áætlun á miðri leið. Þar var staðan hins vegar sú að út af mannmergð og aðstæðum (vindi og bleytu) var ég ekki að ná að halda uppi target afli á fyrri helmingnum, svo ég gíraði mig upp og fór aðeins yfir target seinni partinn til að vinna upp „tapið“. Þar kom ég líka vel hamraður inn í T2 eftir að hafa glímt við krampa síðustu 20km á hjólinu. Ég slapp með skrekkinn þar og átti frábært hlaup upp á 2:59 og vann mér inn Kona sætið fyrir vikið. Ef ég hefði ekki tekið sénsinn þar á seinni 90km, þá hefði ég ekki komist til Kona…

Vogun vinnur – vogun tapar. Og í þessari keppni gekk kapallinn bara ekki upp og ég sat uppi með Svartapétur á hlaupinu og leið verulega fyrir það.

En hvað er ég annars að væla? Ég klára keppnina á 10:06:45, sem er tími sem flesta bara dreymir um og ég er hundfúll með að hafa „klúðrað keppninni.“ Er bara orðinn svo góðu vanur… 🙂

Get alveg verið stoltur af minni frammistöðu miðað við hvernig spilaðist úr þessu. Að ná að þjarka mér í mark í hlaupinu á undir 4 tímum með skrokkinn í molum og vera ekki nema 6 mínútum frá því að fara undir 10 tímana í keppni sem „klúðraðist“ er ekki amarlegt, þó ég hafi ætlað mér stærri hluti.

Hugga mig við það að ef ég hefði verið skynsamur á hjólinu og haldið plani og lappirnar verið í góðum gír fyrir hlaupið, þá hefði ég mögulega skilað mér í mark á 9:10 og endað í 4. sæti eða á 9:20 og í 6. sæti í AG. En í staðinn enda ég 34. í AG (161. overall og þriðji í kvennaflokki 🙂

Eftir keppni eru allir kátir. Höfundur, Sveinn, Einar og Ísold.

Nú er komið að kveðjustund hjá mér í þessum þríþrautar „kreðsum“.

Mínum Ironman ferli er lokið að sinni og óvíst hvort og þá hvenær ég keppi í slíkri þraut aftur. Er með það bakvið eyrað að taka kannski IM kringum fimmtugt (eftir 6 ár) og reyna að komast aftur til Kona. Það vita það amk. allir sem til mín þekkja að ég er ekkert að fara að setjast upp í sófa að safna spiki. Ég mun pottþétt vera duglegur að hjóla og hlaupa í framhaldinu þannig að það er stutt í endurkomu ef hugurinn leitar þangað, þó svo sundhettan muni líklega blotna eitthvað minna en undanfarin misseri.

Markmiðið fyrir 2022 er að vera ekki með neitt stórt „endurance“ markmið nema kannski hálfmaraþon (hér heima) eða eitthvað slíkt. Klifurmarkmið verða efst á listanum og markmið að hafa minna að gera í lífinu… 🙂

Markmið fyrir árin þar á eftir eru enn óráðin en það er búið að vera lengi á dagskrá að taka 100km fjallahlaup og mögulega eitthvað ennþá lengra í fjarlægri framtíð.

Þakka þeim sem hafa fylgst með mér síðustu ár og sérstaklega þeim sem nenntu að lesa gegnum þetta ritverk.

Þakka fjölskyldunni minni fyrir mikla þolinmæði, skilning og hvatningu.
Þakka stuðningsaðilunum: Símanum/Mílu, Fætur toga og GÁP.
Þakka æfingafélögum í Ægir3 fyrir samfylgdina. Ég kíki eitthvað á æfingar með ykkur í framhaldinu þó það verði eitthvað sjaldnar en liðin misseri.

Hef vonandi orðið einhverjum hvatning til dáða og náð að gefa eitthvað af mér og minni reynslu með þessu brölti mínu og sögum af því.

Sigurður Tómas Þórisson

Þrándur fór til Ítalíu

Þráhyggju-Þrándur sigraður. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa langloku:

Ég kláraði Ironman Italy- Emilia-Romagna 2021

3.8 km sund – 1 klst 5min og 52 sek

180 km hjól – 5 klst 6 min og 4 sek – 35,29 km meðalhraði.

42.2 km hlaup – 3 klst 18 min og 59 sek – 4:43 pace

Lokatími : 9 klst 39 min og 18 sek, 16 sæti af 276 í aldursflokki af þeim sem kláruðu, 60 sæti af 1501 skráðum. Fimmta heila Ironman keppnin mín á fimm árum.

Hér kemur langlokan fyrir ykkur hin. En ég mæli með að þið náið ykkur í kaffibolla áður en lengra er haldið, eða setjið popp í örruna, fer eftir tíma dags.

Að skrifa svona pistil hjálpar að viðhalda minningum sem dofna með árunum. Vona að þið látið ekki egóið mitt angra ykkur og vonandi hafið þið gaman af.

Að synda í sléttum sjó er gaman…

Undirbúningur. Eftir Ironman í Eistlandi 2020 var stefnan fljótt sett á Ironman á Ítalíu 2021. Æfingar voru mikið til smíðaðar af mér sjálfum þó Geir Ómarsson hafi verið með puttana í þessu með mér, og fær hann hér með þakkir fyrir. Markmiðin voru skýr eftir að tíminn í Eistlandi náðist ekki, það skyldi farið undir 10 klst í heilum Ironman. Annars kæmi ég ekki heim aftur. Þeir sem hafa verið lengi í þríþrautabransanum skilja þetta. Það þarf mikinn tíma, samviskusemi, heppni, góðan maka og dugnað til að standast þessi markmið. Þessar 10 klst voru orðnar að þráhyggju hjá mér. Hana skildi sigra.

Veturinn var mildur og gekk vel þó Covid setti smá strik í reikninginn með æfingar hjá Ægir3. Ég gat hjólað mikið til vinnu. Hafði einnig hlaupabretti, hjólatrainer og samviskusemi í pain cave skúrnum mínum sem gerðu sitt gagn. Ég fékk svo þá hugdettu að senda Jenna frænda línu hvort hann myndi ekki skella sér í hálfan Ironman með mér sömu helgi. Hann hugsaði málið í tvær vikur og úr varð að Jens Ingvarsson og Erla Edvardsdottir stigu í vagninn og hófu æfingar. Þegar leið á sumarið fann ég og sá á öllum tölulegum gögnum að bætingar voru að eiga sér stað sem gaf góð fyrirheit. Sérstaklega var hlaupið að koma sterkt inn þar sem PB tímar í 10km hlaupi og hálfmaraþoni duttu í hús. Ég tók grimmt þátt í hlaupakeppnum og í júlí var kominn tími að hlusta á líkaman þar sem uppsöfnuð þreyta var farinn að segja til sín.

Höfundur og Sigurður Tómas Þórisson, sennilega fyrir keppni því þeir eru svo úthvíldir á svipinn.

Lokahnykkurinn var mikilvægur og þá sérstaklega hlaupaæfingar Sigurður Tómas Þórisson sem gerðu útslagið. Takk Siggi! Nú átti að toppa á réttum tíma. Það þurfti hinsvegar að krossa fingur og forðast hina alræmdu Covid veiru sem gæti bundið enda á ferðina til Ítalíu. Þegar vika var í brottför duttu smá áhyggjur í hús. Sonurinn var orðinn veikur. Hann fór með móður sinni í Covid test. Það var kvefpest að ganga svo ég hafði ekki svo miklar áhyggjur. En svo líður og bíður og þegar ekki kemur svar úr testinu og við förum að skoða málið betur kemur niðustaða: vafamál. Ég fékk létt sjokk. Hvað þýðir vafamál? Kannski en samt ekki Covid? Drengurinn þarf að fara í annað test og biðin í einn dag í viðbót var vond. Er ég kannski líka að vera veikur? Ég byrjaði að ræskja mig og finna fyrir ýmsum einkennum, gæti þetta verið Covid? Óþægilegar hugsanir urðu að engu þegar neikvæða testið kom í hús. Hjúkk!Jæja, allt kom fyrir ekki og haldið var af stað til Ítalíu.

Ég ferðaðist á undan Jenna og co. Ég tók flug til Rómar með Wizzair og lest til Bologna. Hafþór Rafn Benediktsson og Almar Viðarsson voru svo elskulegir að sækja mig þangað rúma 100km frá keppnissvæði. Þeir kláruðu svo sinn Ironman með stakri prýði.

Jenni og Erla

Keppnisvikan

Ég er mjög skipulagður þegar kemur að ferðalögum og er ávallt mjög tímalega í öllum bókunum þegar kemur að flugi og hótelum. Ég var búinn að grandskoða keppnissvæðið uppá góða staðsetningu.Því það skiptir miklu máli að vera mjög nálægt og í göngufæri. Sérstaklega ef þú ert ekki með bíl. Samkvæmt Google maps var Hótel Kiss málið. Þriggja stjörnu hótel við hliðina á skiptissvæðinu fyrir hjólin. Geggjuð staðsetning. Ég svaf á þessu og daginn eftir dreif ég í að bóka. Ég skrifaði „Hótel Kiss Cervia“ í Booking leitarvélina og upp kom Hotel Kiss sem ég og bókaði. Þegar Haffi og Almar höfðu skutlað mér uppá Hótel fóru að renna á mig tvær grímur. Er ekki frekar langt á keppnissvæðið hugsaði ég? Daginn eftir var tekinn sundæfing við keppnistartið, 40 mín ganga! Aðra leið. Shit. Ég sendi Jenna frænda skilaboð sem var á leiðinni til Ítalíu daginn eftir með Erlu og Viktori. Hvaða hótel sagði ég þér að bóka? Jú, Hótel Kiss. Það eina er að það eru tvö hótel með sama nafni í Cervia.. Þau höfðu bókað rétta Hótel Kiss sem var við hliðina keppnissvæðinu, ég ekki. Frábært Einar. Ég var því á Hótel Kiss sem var 4km frá keppnisvæðinu. Ekki nóg með það, ég var lang-yngsti gesturinn og sá eini sem var að fara keppa í Ironman. Enda er þetta svæði sumarleyfisstaður Ítala og þarna voru ítalskir eldri borgarar að njóta síðustu sumardaganna.

Þó svo að ég hafi blótað mér í sand og ösku í fyrstu, var þetta lán í óláni. Ég fékk lánað hjól á hótelinu til að ferðast á milli svo þurfti ekki að vera á keppnishjólinu.

Fyrir keppni. Spenna og tilhlökkun

Eigendur hótelsins voru hjón sem voru svo elskuleg. Allt starfsfólkið var yndislegt en þar fór fremst í flokki babúskan mín sem þjónaði mér til borðs. Útaf Covid mátti ekkert snerta í matsalnum. Ég sat alltaf við sama borð og átti helst að mæta stundvíslega kl 19:30 og borða með gestunum og eigendum. Allt þjónað til borðs. Daginn áður þurfti ég að fylla út blað fyrir kvöldmatinn sem ég gerði samviskusamlega. Það var þríréttað og babúskan mín lét mig ekki komast upp með að leyfa. Hún talaði mikið við mig ítölsku eins og ég væri innfæddur. Ég skildi ekki neitt. Ég skildi reyndar þegar hún benti á mallann minn og sagði: non grande. Þegar ég bað um kók með matnum og hún mætti með 1.5L af kóki skildi ég sneiðina. Ég átti að borða allar sneiðar. Hún var mjög elskuleg hún Simone þessi 58 ára kona af rúmenskum ættum.

Þar sem ég var kominn 4 dögum fyrir keppni náði ég nokkrum mjög góðum æfingum. Ég ákvað að taka eitt langt hjól á Ítalíu fyrir keppnina. Það var til Rimini í rúmlega 30km fjarlægð. Ástæðan var að árið 1999 fór ég í útskriftarferð með Menntaskólanum við Sund. Það var góð ferð þó tvær mismunandi ástæður voru fyrir báðum þessum ferðum. Ég ákvað að kíkja á lókal pöbbinn okkar sem heitir Rose and Crown þar sem við æskufélagarnir heimsóttum mikið. Þar var ennþá sama starfskonan frá ´99.

Á kránni

Ég mundi svo sem ekki eftir henni frekar en hún eftir mér. En ég átti gott spjall við hana og hún bauð Sigurður Frosti Aðils Baldvinsson félaga mínum vinnu hjá sér sem kokkur. Það gerði hún líka fyrir 22 árum. Allavega….

Keppnin:

Nóttin fyrir keppni hefur alltaf verið erfið. Þá er ég að tala um stress hnútinn í maganum sem er mikill. Ég er búinn að leggja mikið á mig, 450-500klst af æfingum undir belti fyrir þessa keppni. Það koma hugsanir sem erfitt er að stjórna: Hvað ef ég klára ég ekki? Hvað ef mér gengur illa? Ég var búinn að segja ég myndi ekki koma heim ef mér tækist ekki að komast undir 10 klst. Maður fer að hugsa of mikið um hluti sem erfitt er að stýra eins og hitastigi, krampa, hvað ef það springur á dekki, ef ég dett af hjólinu, ógleði… Reyni að róa hugann með jákvæðum hugsunum.Ég vaknaði 4:30 um morguninn. Hef sofið betur. Kannski 3-4 klst. Vá hvað ég er þreyttur og orkulaus hugsa ég. Þetta verður erfiður dagur en svo kemur skynsemisheilinn sterkur inn og segir við mig. Nei, þú ert frábær og munt standa þig vel. Gerðu þitt besta, annað er ekki hægt að biðja um. Borða nestið mitt sem babúskan setti í ísskápinn niðri. Brauðsneiðar með nutella og djús glas. Hvílist aðeins áður en ég rölti niður og tek hótel hjólið og renni af stað í startið. Fæ fimmtán æðislegar mínútur í myrkrinu þangað til að kem að keppnissvæðinu. Loka skoðun á hjólinu, pumpa í dekkinn og blanda drykkina mína á hjólinu. Sólin er að koma upp. Þvílík fegurð. Það er að koma að þessu. Keppnin sem búið er að stefna á í 11 mánuði. Hitti Sigga Tomm og við ákveðum að fara aftast í 60mín áætlaðan sundtíma hólfið. Haffi slæst í hópinn með okkur. Ræsirinn er byrjaður er að telja niður startið. Dropar leka niður marga fætur í sandinn. Það er bara þannig. AC/DC – Thunderstruck er í hátalarnum. Það er rúllandi start. Átta keppendur hlaupa á 8 sekúnda fresti. Horfi á Sigga fara, svo Haffa og áður en ég veit af er ég hlaupinn út í sjóinn. Stress hnúturinn er farinn. Ég er farinn að elta tásur í Adríarhafinu.

Sjórinn var búinn að vera yndislegur alla morgna vikunnar. Hann var fínn, smá öldur en samt ekkert sem hægt er að kvarta yfir. Lítið draft/kjölsog fyrsta kílómetrann. Eftir fyrstu baujuna þar sem tekinn er 90° beygja þéttist hópurinn og ég er búinn að finna fallegar tásur. Sumar sprikla lítið meðan aðrar mikið. Sé einn með langar táneglur sem minnti mig á tærnar hans Gímsa úr útlimakúrsinum í sjúkraþjálfun. Hugsa um þegar Svandís kennari missti á einhvern ótrúlegan hátt sokkinn hans útum gluggann. Hvað var það, var hún líka í sjokki yfir tánöglunum? Skyggni ágætt í sjónum meðað við Eistland fyrir ári. Tíminn mætti líða hraðar, finnst eins og ég sé hálfnaður til Rimini sem minnir mig á þegar ónefndur vinur minn stal Big Mac á Mcdonalds og hljóp undan með starfsfólkið á hælunum. Hann hefur pottþétt verið á 3:45 pace, það er hraði uppá 16km/klst. Elti fleiri tær, næ góðu drafti svona 60% leiðar. Mín spá fyrir keppnina var, 1:05-1:10klst. Niðurstaða : 1:06klst. Ánægður.

T1: Kem ferskur uppúr sjónum með saltbragð í munni. Góð slökun og leyfi þeim sem draftaði mig að synda gegnum hitabylgju. Sé Jenna á sandkantinum hvetjandi. Skiptisvæðið langa var byrjað. Tæpir 600-700m frá sjó og útaf skiptisvæði til að hjóla. Heyrði tröllahlátur þegar ég nálgaðist hjólið. Það er bara einn maður með þennan hlátur, Viktor Viktorsson yfirfararstjóri og stuðningsmaður. Það gekk vel í skiptingunni og ég heyrði að Viktor tönglaðist á því að ég hlyti nú að hafa stundað hröð fataskipti heima hjá konum á mínum yngri árum þar sem kallinn þeirra væri að koma heim og ég yrði að forða mér út. Sannleiksgildið lítið en tek því sem hrósi um góðan skiptitíma. Hmmm, annars. Nú skil ég afhverju Geir Ómarsson er svona svakalegur góður á skiptisvæðunum… jæja bullið búið, áfram gakk.

Hjólið.Ég var ferskur og fullur af eldmóði þegar ég byrjaði að hjóla. Kannski of miklum eldmóði því að á þriðja hringtorgi út úr bænum varð ég full æstur. Ég fer í grimma beygju og rek pedalann/sveifina niður í malbikið. Afturhjólið tekur stökk og ég má hafa mig allan við að detta ekki… Fokk, róa sig og einbeita sér. Planið var að halda 200-210 wöttum. Það endaði í 199 avg wöttum sem gera 3.015 wött per kg fyrir áhugasama. Byrjað var á 20 km legg í smá mótvind út að hraðbraut. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að eiga meðvindinn inni á bakaleiðinni í lok hjóls. Ég náði gríðarlegum hraða á harðbrautinni og allt gekk vel. Ég tók gel á 20-25mín fresti eða u.þ.b 240-280 kaloríur á klst. Ég var búinn að æfa þetta í löngu hjólatúrunum 10 vikum fyrir keppni. Á kílómeter 70 er komið að einu brekkunni sem var farinn tvisvar. Fyrir þá sem ætla í þessa keppni að ári þá er klifrið upp Nesjavallarbrekkuna Reykjavíkur meginn örugglega mjög sambærileg. Þetta var uþb 10-15min klifur með mesta halla uppá u.þ.b 15%. En það sem verra var að hitinn var kominn í 34°. Úff, gjörsamlega að grillast. Muna drekka, geri. Áfram er haldið og hringur tvö á hraðbrautinni. Yndislegt að sjá mikinn hraða. Áður en maður veit af er maður kominn í brekkuna aftur í kílómeter 140. Mikil mildi að það er orðið skýjað. Hjúkket. Frábær stemmning efst í brekkunni mikið af fólki að hvetja mann áfram. Lokahnykkurinn í hjólaleggnum eftir og þá er bara að sigla hjólinu heim í meðvindinum. Kári ætlar samt ekki að hjálpa. Vindurinn er snúinn og þéttings mótvindur til baka. Fæturnir eru farnir að verða lúnir en orkustigið er gott. Hitinn mikill og ég þarf ekkert að pissa allan hjólaleggin, frábært. Mitt markmið fyrir keppni var 5:00klst-5:10klst. Niðurstaða: 5:05klst, allt á plani.

T2: Nokkuð brattur eftir hjólið en mikill léttir að ekkert kom uppá. Stekk af hjóli. Beint í hlaupaskó, derhúfa og sólgleraugu kominn upp. Öskra á Jens; hvar er rigningin sem þú lofaðir mér? Hann öskrar til baka: „Hún kemur á eftir!“ Er brakandi ferskur og þarf að trappa hraðann fljótt niður. Muna það eru 42km eftir.HlaupiðÍ Cervia eru farnir 4 hlaupa hringir. Það var mikið af fólki og mikil stemmning nær allan hringinn. Klárlega ein skemmtilegasta hlaupaleið sem hef farið í Ironman. Planið var að halda 4:45pace. Er á 4:30pace og svíf. Svo hægist aðeins á mér á bakaleiðinni í fyrsta hring… Hitinn farinn að taka sinn toll. Þá fara góðir hlutir að gerast. Hringur tvö er byrjaður og eins og Jens lofaði þá fer að rigna. Þvílíka gjöfin! Sé að Viktor orgar undir tré og ég veit ekki hvort hann er að kvarta undan rigningu eða að hvetja mig áfram. Skiptir ekki máli, ég er á fullri ferð. En í miðri gleðinni verð ég smá leiður. Ég er að taka fram úr æfingafélaga mínum og hlaupalæriföður Sigga Tomm sem er kominn á vondan stað. Hann hvetur mig samt áfram þegar ég fer framúr. Gæinn með harðasta haus sem ég þekki var búinn að grilla lærin sín á hjólinu og er að ströggla í hlaupinu. Það er skrítið að fara fram úr honum. Hann er í sínum síðasta Ironman í bili. Maðurinn sem fór á heimsmeistaramótið á Kona Hawaii fyrir tveimur árum er að ströggla. Hef aldrei unnið hann í hlaupi eða þríþrautamóti. Þetta er í fyrsta skipti. Hann kláraði samt sína keppni með miklum sóma á 10 klst og 6 mín. Hringur þrjú fer sterkt af stað. Ég er peppaður og duglegur að láta fólk á hliðarlínunni og veitingastöðunum við brautina öskra og klappa. Það skiptir svo miklu máli að vera jákvæður. En bíddu nú við. Ég þarf loksins að pissa frá því í sundinu. Aldrei hefur liðið svo langur tími á milli. Ég er samt búinn að næra mig og drekka frekar vel. Núna er kominn hellidemba, það er gott. Ég kem að drykkjarstöð og fer rólega. Ég er aldrei búinn að ganga fram hjá drykkjarstöðinni. Alltaf hlaupið. Ekki núna. Hægi á mér gríp vatn, tek djúpu hugleiðslu öndunina mína. Slaka og allt fer af stað. Klaka stíflan brestur, Gullfoss flæðir eins og þegar fljótið tók örkina hans Nóa. Ég hleyp af stað með dæluna í botni. Ég öskra : ég elska þetta hverfi, meðan áhorfendur klappa fyrir manninum sem pissar á sig hlaupandi. Ég hugsa: „þvílíka vitleysan“. Ef þau bara vissu! Og afhverju er ég að segja frá þessu. Jú, ég ætla undir 9:40klst. Sem ég vissi ekki þá, hver sekúnda telur. Jæja, nálgaðist kílómeter 28. Skrefin farin að þyngjast en ég reyni að halda 4:45-5:00pace. Nú er þetta bara hausinn. Fæturnir eru löngu búnir og ég er kominn með ógeð af geli. Sennilega komin með 20-25 stk í mallakút. Jákvæðar hugsanir um fjölskyldu, mantran „how bad do you want it“ og „hlaupa heim“ er það sem lætur mig halda áfram.

Síðasti hringurinn er erfiður. Ógeðslega erfiður. Verð að halda haus. Það var talsvert af Íslendingum að hvetja í brautinni, ég er þeim mjög þakklátur.Þegar ég er kominn á kílómeter 40 fara gamlir draugar að mæta á svæðið. Krampi í aftanvert læri. Ég stoppa og teygi og krampinn stendur stutt, kannski 45 sek. Rúlla aftur af stað. Er kominn á rauða dregilinn. Tilfinningin sem ég elska svo mikið kemur af fullum krafti. Ég get ekki verið sterkur lengur. Tárin flæða og tilfinningarnar eru æðislegar. Hugsa sér hvað maður er einfaldur. En þetta skiptir mig máli. Meðan aðrir klóra sér í hausnum yfir svona vitleysu. Já, við erum svo ólík og með mismunandi áhugamál. Þráhyggjan er sigruð.Múrinn sem margir þríþrautakappar vilja brjóta er mölbrotinn.

Lokatími er 9 klst og 39 mínútur. Þakklátur fyrir stuðninginn hjá Jenna, Erlu og Viktori. Maraþon tíminn er 3:18 klst. Hafði spáð 3:20-25klst. Ótrúlegt hvað maður er farinn að þekkja sjálfan sig vel. Fyrirfram var 9 klst og 40 mín það sem ég gældi við. 9 klst og 39 mín var lokatíminn. Þegar í mark var komið var tekið á móti Sigga og Haffa. Menn ræddu og gerðu upp keppnina. En það óvænta var eftir. Þegar ég var búinn að sækja hjólið mitt og hjólaði uppá hótel Kiss, beið mín hressing. Var sennilega kominn þangað um kl 20:00. Matsalurinn er ekki ýkja stór. Það sátu kannski 20-25 eldri borgarar og 2-3 yngri fjölskyldur. Þegar ég geng inn taka hjónin sem reka hótelið og babúskan mín á móti mér og faðma mig. Konan segir: „þú lentir í 60. sæti af 1500 þú ert frábær!“ Og ekki nóg með það þá klappa eldri borgararnir í matsalnum og 2-3 standa á fætur. Bara þeir sem voru ekki með hækjur 😉 haha. Ég sest niður og fæ mér að borða, og tek á móti mörgum hamingju óskum á ítölsku. Skil auðvitað ekki neitt. Þvílíka veislan! Besta verðlaunafhending ever! Daginn eftir fylgist ég með góðum vinum klára hálfan Ironman. Sérstaklega ferðafélögunum mínum Jens og Erlu sem stóðu sig frábærlega vel í sinni fyrstu keppni. Sjálfur var ég ótrúlega ferskur daginn eftir miðað við fyrri keppnir og álagið sem ég setti á líkamann. Minnir mig alltaf á þennan málshátt: Það skiptir ekki máli hvað þú borðar milli jóla og nýárs heldur nýárs og jóla. Sama má segja með hreyfingu. Einn dagur drepur þig ekki þó strengirnir verði miklir. Svo ég segi: Það skiptir ekki máli hvað hreyfir þig í Ironman heldur hvað hreyfir þig milli Ironman keppna.Og hver er þá gullna reglan. 30mín hreyfing af miðlungs eða mikilli ákefð alla daga, alla ævi. Bingó.

Ég sit núna í flugvél frá Róm heim til Íslands og skrifa þessa keppnissögu. Get ekki endað þetta nema að minnast á stoð mína og styttu sem leyfir mér miðaldra fjölskyldu föður að elta þessa drauma. Ég gæti þetta aldrei án Birna María Karlsdóttir minnar. Falleg að innan og utan og veitir mér ást og stuðning. Þessi lífsfylling mín sem gerir mig vonandi að betri manneskju. En hún er ekki búin. Næsta ár verður farið í víking/Ironman til Kalmar í Svíþjóð með góðu fólki. Yfir og út.

Þakka þeim sem nenntu að lesa þessa langloku. Þessi 5 klst flugferð er búin að líða býsna hratt.Latsinn kveður í bili. Njótið.

Hamagangur í Hamborg

Sebastian Vignisson segir frá:

IRONMAN Hamburg 🇩🇪 Sund – 1:15:10 Hjól – 6:32:03 Hlaup – 4:18:15 Heildar tími með skiptingum – 12:23:11

Þeir sem þekkja mig vita að ég hef alltaf haft gaman af áskorunum. Það hafa allskonar þrautir og áskoranir blundað í mér og þegar ég frétti af IRONMAN að þá fann ég pínu kítl við að láta reyna á það. Mér fannst fólk vera ruglað sem keppti í þessu og hvað þá kláraði. Vegna fáfræði minnar að þá vissi ég ekki að það væri keppt í svona löngum þríþrautum á Íslandi og var ekki alveg að tíma að leggja allann þennan kostnað að fljúga út fyrir eina keppni sem að ég vissi ekki hvort ég gæti klárað. Þannig þegar ég flutti út til Þýskalands varð þetta mun einfaldara. Mig langaði helst að æfa sem minnst fyrir þetta og taka þetta bara á hörkunni. Ég var eitthvað að tala um að langa að fara í IRONMAN í vinnunni þegar einn vinnufélagi minn sagði að hann væri alveg til í að gera þetta með mér. Ég hló bara og sagði að það væri geggjað. Næsta dag kom hann til mín og sagði að hann hafi verið að leita af hjóli til að kaupa í allt gærkvöldi. Ég trúði ekki að honum væri alvara með að fara í þetta með mér. Þá er ekkert annað í stöðunni en að leita að hjóli og bíða eftir að skráningin opni. Þegar skráningin loks opnaði náði ég að kaupa miða en ekki hann.

Þegar ég skráði mig var það lengsta sem ég hafði hlaupið 15km. Ég átti ekki reiðhjól og hafði aldrei prufað að hjóla á “racer”. Ég hafði einu sinni synt í opnu vatni en það má varla telja með þar sem ég þorði varla að setja hausinn ofaní 😂 Ég vissi ekkert hvað ég var búinn að koma mér út í og vissi ekkert hvernig ég ætlaði að leysa þetta verkefni. Ég keypti mér æfingarplan á netinu og byrjaði á fyrstu æfingunni 25.október 2020. Ég fann þríþrautaklúbb í bænum mínum og hafði samband. Ég náði að mæta á eina hlaupaæfingu áður en öllu var lokað vegna covid. 🤢 Ég lét það ekki stoppa mig og æfði einn eftir mínu plani. Ég horfði örugglega á yfir 1000 youtube myndbönd um hvernig ætti að gera hitt og þetta. Öll byrjenda myndböndin voru gerð fyrir fólk sem var að fara í styttri vegalengdir, ekki full distance eins og vittleysingurinn ég. Þegar leið á æfingarplanið fann ég að það var alls ekki að passa fyrir mig þannig ég tók málin í mínar eigin hendur og fór að breyta planinu með allri youtube þekkingu minni 😂 Æfingarnar voru margar mjööög langar og ég get ekki sagt að ég hafi verið ógeðslega æstur að fara á allar æfingar. En þá var rosalega gott að vera með eina Sólrúnu sem sparkaði manni út úr húsi og á æfingu🙏🏼

Stressið var alls ekki að hrjá mig fyrir keppni og það er bara ótrúlegt að ég hafi náð tveim nóttum af góðum svefn fyrir keppnina. Á keppnisdags morgun þegar maður sá alla keppendurna vera komna saman að fara yfir skipti pokana og tékka hvort hjólið væri ekki í lagi kom stressið. Ég hélt að ég myndi æla og fannst ég vera eins og dúfa á sædýrasafni, passaði engan veginn inn í. Sem betur fer að þá náði ég að spjalla við einn danskan strák sem var í sama sundholli og ég. Það róaði mig töluvert að geta dreift huganum. Þegar röðin var komin að mér að fara ofaní vatnið gat ég ekkert annað en brosað, það var komið að þessu! Vatnið var í kaldari kantinum, 17,5 gráður 🥶 og frekar skítugt. Skyggnið var um 1,5m ofaní vatninu. Sundbrautin var mjög skemmtileg og fór undir nokkrar brýr. Þegar ég synti undir brýrnar sá ég ekki neitt, bara synda í átt að ljósinu hinu megin og vonast til að synda ekki á annan keppanda. Þegar ég kom upp úr sundinu voru tærnar frekar kaldar en það skipti engu máli þegar ég sá að ég synti 3,8km á 1klst og 15mín🤯 Ég brosti út að eyrum þegar ég sá allt fólkið vera að hvetja mann áfram. Þegar ég var búinn að skipta úr blautgallanum og setja á mig hjálm hljóp ég að ná í hjólið.

Hjólabrautin voru þrír 60km hringir. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar kaldir meðan ég var ennþá að þorna eftir sundið. Það skipti samt litlu máli þar sem það skiptist á að vera rigning og skýjað restina af hjólinu. Það varð alveg augljóst að hjólið er mín veikasta grein þar sem það tóku örugglega 200 manns framúr mér þar. Það var guðsgjöf að fá að pissa og fá hálfan banana í km 110 þegar ég var orðinn vel þreyttur. Orkan sem að ég fékk úr banananum var ótrúleg og ég var með minions að syngja “ba ba ba bananana” á heilanum í vel yfir klukkutíma. Ég kláraði 180km hjólatúrinn á 6klst og 32mín. Þá var loksins komið að hlaupinu. Hlaupabrautin var mjög skemmtileg og áhorfendavæn þannig Sólrún, mamma og Díana gátu hvatt mig vel áfram. Það var líka mjög skemmtilegt að fá að sjá restina af fjölskyldunni á facetime hjá Sólrunu þegar ég kom framhjá. hlaupið var fjórir 10km hringi í miðbæ Hamburg. Fyrsti hingurinn gekk mjög vel, mér leið rosalega vel að vera kominn af hjólinu og fá svona mikla hvatningu. Ég var í kring um 6:00 pace á fyrsta hringnum. Hringur tvö var svolítið erfiðari en ég náði þó að halda ágætu tempoi, ca. 6:25 pace. Það sem gekk á í hausnum á mér þann hring voru aðallega samningsviðræður við magann um hverju ég gæti komið niður á næstu drykkjarstöð.

Sebastian og Sólrún rétt fyrir keppni. Allt tilbúið. Ekki var synt með grímuna!

Í byrjun á þriðja hring stoppaði ég aðeins til að ná í mikilvægt knús frá Sólrúnu. Hringur þrjú var lang erfiðasti hringurinn og ég var farinn að halda að ég byrjaði of hratt. Ég hljóp á ca. 6:45 pace. Ég reyndi að borða aðeins meira og náði að innbyrgða svolítið af koffíni. Þegar ég var kominn á hring númer fjögur fann ég lyktina af endamarkinu og orkan farin að skila sér til vöðvanna. Þegar það voru 8km eftir fannst mér ég eiga smá orku eftir og bætti töluvert í hraðann, fór niður í 5:35 pace. Þegar hringurinn var að klárast fann ég varla fyrir þreytu. Adrenalínið tók öll völd og ég spretti í áttina að endamarkinu. Heilt marathon klárað á 4klst og 18mín. Það var ótrulegt að koma í mark á þessum tíma 12:23:11 sem var betri en besti tími sem að ég gerði mér von um. Ég settist niður eftir endamarkið með tárin í augunum að reyna að trúa því að það var ég sem átti þennan frábæra tíma! Þegar ég ætlaði að standa upp aftur sagði þreytan loks til sín. Það tók við dálítill spölur af labbi inn í athlete garden þar sem ég fékk að skipta um föt og fékk finisher bolinn og medalíuna.

Labbið aftur upp á hótel eftir keppnina var þrekraun útaf fyrir sig 😂 Ég er rosalega þakklátur fyrir alla sem studdu við mig í þessu. Þá sem nenntu að spjalla við mig í símann á meðan ég var að hlaupa löngu túrana og í þau fáu skipti sem það kom einhver með mér út á æfingu. Þetta hefði ekki verið mögulegt án Sólrúnar. Hún hífði mig upp eftir erfiðar æfingar þegar efasemdirnar voru sem mestar og hélt mér líka á jörðinni þegar ég var með hausinn í skýjunum. Þetta var rosaleg lífsreynsla sem ég mun seint gleyma og hver veit nema þetta verði endurtekið🤭 en þá verður það klárlega með góðum æfingafélaga og eftir þó nokkur ár! Þetta var mín fyrsta enn alls ekki síðasta þríþraut þó þær verði kannski í styttra lagi miðað við þessa.

Með köppum í Kona

Stutta útgáfan (fyrir athyglisbrostna og tímabundna)

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að keppa í Ironman World Championship í Kailua-Kona á Hawaii þann 12. október 2019. Vann mér inn keppnisrétt með góðum árangri í 40-44 ára aldursflokki í Ironman Barcelona í október 2018.
Keppendur í ár voru hátt í 2.400 frá hátt í 100 þjóðlöndum.
Keppnin gekk nokkuð vel og ég kom í mark á tímanum 9:39:29, sem skilaði mér 39. sæti í 40-44 ára aldursflokkinum af þeim 275 sem kláruðu þrautina innan 17 tíma markanna (315. sæti af öllum 2.271 sem kláruðu).

Sund – 1:11:39 (188. í aldursflokki, 1.255. í heildina)
T1 – 3:14
Hjól – 5:10:18 (93. í aldursflokki, 560. í heildina)
T2 – 3:18
Hlaup – 3:11:02 (11.í  aldursflokki, 116. í heildina)

Þetta hafði Redbull.com að segja um keppnina í ár:
„For the past two years the notorious winds that ravaged the IRONMAN World Championship were dormant; this year, however, the easterlies were back with a vengeance, as was a swell like no other, which forced everyone to battle both nature and each other.“
Rauðnautinu fannst sem sagt mjög hvasst og extra erfitt í sjóinn þetta árið. Ég get því ekki verið annað en mjög sáttur við tímann hjá mér – er 20 mín hægari en tíminn hans Geirs Ómars í fyrra (2018, 9:19) en þá töluðu menn um bestu aðstæður í 40 ára sögu keppninnar og það þykir þess utan afrek að klára Ironman Kona yfir höfuð og 10 tímar þykja bara fjandi góður tími. 🙂

Magnað þriggja ára Öskubuskuævintýri að baki hjá mér og ég get ekki annað en verið þakklátur fyrir að hafa heilsu, löngun og bakland til að hafa komist þetta langt á þessum stutta tíma í sportinu. Mikið ævintýri að fá að taka þátt í þessari frægu Kona keppni, sem maður hefur svo mikið lesið um og horft frá síðustu árin.
Nú er hins vegar komið að Ironman pásu hjá mér, amk. árið 2020, en hver veit hvaða vitleysa mér dettur í hug á því ári… Kannski stefni ég á annan járnkarl árið 2021, en kannski segi ég þetta bara gott af þessum lengri þríþrautum. Kannski reyni ég að bæta Barcelona tímann minn og kannski langar mig einhvern tímann að reyna að komast aftur til Kona. Leyfum þessu bara að gerjast í vetur og sjáum hvort mig grípi járnhungur fyrir árið 2021 eða síðar…

Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Þakka öllum æfingafélögum og þjálfurum í Ægir3 kærlega fyrir að deila þessu ævintýri með mér.
Sérstakar þakkir fyrir stuðninginn fá Síminn, GÁP og Eins og fætur toga (Úthald.is). Einnig Geir Ómars fyrir upplýsingar og pepp varðandi Kona og alls konar pælingar, José í GÁP fyrir aðstoð við hjólin og allt saman, Einar Sigurjóns fyrir hnoðið og hjólatöskuna, Ari Odds fyrir græjurnar og síðast en alls ekki síst Ása og krakkarnir fyrir stuðninginn og þolinmæðina þriðja járnárið í röð…

Langa sagan

Fyrir áhugafólk en stærri ritverk, þá kemur hér að neðan langa útgáfan.
Varúð! Þetta gæti kallað á allt að 2-3 kaffibolla og jafnvel Prince Polo.
Söguna er einnig hægt að panta innbundna í þremur veglegum handskreyttum bindum.

Um Ironman
Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Hawaii „fæðingarstaður“ Ironman. Fyrstu þríþrautarkeppnirnar voru haldnar í Kaliforníu í byrjun áttunda áratugarins og voru þær komnar í sæmilega mótað form undir lok áratugarins með nokkrum mótaröðum í styttri vegalengdum, vísi að stöðluðum vegalengdum og vísi að atvinnumennsku með auknum áhuga íþróttavöruframleiðenda.
Ironman sem „hugtak“ fæddist í veislu hjá hermönnum á Hawaii þar sem verið var að karpa um hvort hjólreiðamenn eða hlauparar væru meiri íþróttamenn. Talið barst að VO2max mælingum helstu íþróttahetja þess tíma og að sundmenn væru nú engir aukvisar heldur. Flotaforinginn John Collins og konan hans Judy lögðu til að haldin yrði keppni þar sem þrjár helstu úthaldskeppnirnar á Oahu eyju á Hawaii – 3,8km Waikiki víðavatnssundið, 180km hjólakeppnin kringum eyjuna og Honolulu maraþonið – yrðu sameinaðar í eina þríþraut og sá sem myndi sigra hana myndi kallast „Iron Man“.
Fyrsta keppnin var haldið í febrúar árið 1978 á Oahu eyju og mættu 15 keppendur til leiks. Engin brautarvarsla eða drykkjarstöðvar voru í boði – það var einfaldlega ræst í fjörunni og keppendur áttu að klára þrautina upp á eigin spýtur. 12 keppendur kláruðu keppnina og var sigurtíminn 11:46.
Árið 1979 var keppnin aftur haldin á Oahu með svipuðum keppendafjölda og 1978. Þá kláraði fyrsta konan þrautina á 12:55 (5. sæti) og sigurtíminn var 11:15. Blaðamaður Sports Illustrated var staddur á Hawaii á þessum tíma til að fjalla um golfmót og fékk leyfi frá ritstjóranum til að skrifa pistil um keppnina og birtist í kjölfarið 10 blaðsíðna grein um Ironman keppnina í síðum blaðsins og fékk mikla athygli.
Umfjöllun Sports Illustrated kynti undir áhuga á keppninni og árið 1980 mættu yfir 100 keppendur til leiks og var Dave Scott þar á meðal. Hann vann keppnina með yfirburðum á 9:24 og bætti fyrra met um næstum 2 klukkutíma.
Árið 1981 var keppnin færð frá Oahu til „stóru eyjunnar“ (Hawaii), nánar tiltekið til bæjarins Kailua-Kona á vestanverðri eyjunni. Keppendur voru rúmlega 300 talsins og þurftu núna ekki að mæta með eigið stuðningslið og keppnin komin með vísi að núverandi formi hvað varðar skiptisvæði, drykkjarstöðvar og slíkt.
Árið 1982 urðu vatnaskil í sögu Ironman þegar ABC mætti með myndatökulið til að sjónvarpa frá keppninni (ekki í beinni útsendingu þó). Tökuliðið nær upptökum af ótrúlegri dramatík þegar Julie Moss, þá fyrst kvenna, hnígur niður á lokametrunum og nær á einhvern ótrúlegan hátt að skríða yfir marklínuna eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að hlaupa í mark. Í hamaganginum sáu fáir Kathleen McCartney hlaupa fram úr Moss í myrkrinu og stela sigrinum í kvennaflokki með 26sek mun yfir Moss. Dave Scott hafnar í öðru sæti í karlaflokki eftir að hafa misst af 1981 keppninni vegna meiðsla.
Keppnin var færð frá febrúar til október og voru því tvær keppnir haldnar árið 1982. Dave Scott vinnur sína aðra keppni og verður þar með fyrstur til að vinna í tvígang. Mark Allen er einn þeirra fjölmörgu ungu íþróttamanna sem heilluðust af Ironman eftir umfjöllun ABC útsendingarinnar. Allen ógnar sigri Scott en hjólhesturinn bilar og hann hættir keppni.
Árið 1983 er brugðist við auknum áhuga með fyrstu „úrtökumótunum“ í Bandaríkjunum og 17 klst tímamarkinu er komið á fót (og er enn við lýði).
Dave Scott vinnur keppnina samtals sex sinnum fram til 1988.
Paula Newby-Fraser vinnur keppnina 1986 á 9:49 (nýju kvennameti) og hún vinnur keppnina alls átta sinnum fram til 1996, mest allra.
Mark Allen vinnur svokallað „Iron War“ – sögulegt einvígi milli hans og Dave Scott árið 1989 en sú keppni hefur verið kölluð „the greates race ever run“. Allen vinnur keppnina alls sex sinnum til 1995, jafn oft og Scott.
Margar Ironman hetjur hafa sett nafn sitt á spjöld sögunnar í Kona, þám. Chrissie Wellington, Miranda Carfrae, Daniela Ryf, Jan Frodeno, Chris McCormack, svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.
Ironman er í dag orðið gríðarstórt apparat og í aðdraganda Kona keppninnar 2019 voru haldnar hátt í 50 keppnir í heilum Ironman í 27 löndum um allan heim með um 95.000 keppendum (og amk. annað eins í hálfum Ironman auk þess sem fjöldi keppna í heilum og hálfum eru í Challenge seríunni). Um 100 atvinnumenn (50+ af hvoru kyni) og 2368 áhugamenn („age-groupers“) unnu sér inn þátttökurétt í ár í undankeppnunum, þar af 73% karlar. 45-49 ára karlar voru fjölmennastir (rúmlega 300), aðeins fleiri en 40-44 ára karlar (minn aldursflokkur). 256 keppendur voru 60 ára eða eldri, sá elsti 86 ára (japanskur karl) og yngsti 18 ára (frönsk kona).
2271 keppandi (96%) kláraði keppnina í ár innan 17 tíma markanna þannig að um 100 manns hafa ýmist ekki náð að klára eða ekki hafið keppni.
Áætlað er að um 20 milljón manns hafi fylgst með streymisútsendingu frá keppninni í Kona árið 2018.

(Heimildir:  Og ironman.com, Iron War)

Undirbúningur

Í aðdraganda Kona gerði ég hlutina svipað og fyrir Barcelona 2018 enda gekk sá undirbúningur mjög vel og því lítil þörf á einhverri uppstokkun í prógramminu. Ég tók restina af október eftir Barcelona í æfingafrí og byrjaði rólega í nóvember og var fram að áramótum að koma mér í gang aftur. Fór þó ekki almennilega í gang fyrr en seinni part febrúar því ég tók eldhúsið heima í gegn í janúar og febrúar og það tók sinn toll á frítímann og á skrokkinn.
Eftir sumarfríið í byrjun ágúst bætti ég loksins við stuttum þrekæfingum 1-2x í viku. Gerði töluvert af þessum æfingum fyrir Austurríki 2017 en afar lítið fyrir Barcelona. Þetta voru aðallega stuttir þrekhringir (20-30mín) með fókus á kjarnaæfingar en einnig voru þarna æfingar fyrir axlir, læri, hamstring og fleira. Ég held að þetta hafi gert mér gott, sérstaklega fyrir efri hlutann og það vonandi skilað einhverju, einkum í sundinu, og vonandi minnkað líkur á meiðslum.
Æfingamagn var annars „hóflegt“ framan af (6-10 tímar á viku) en jókst töluvert skarpt kringum 1. júlí þegar fór að líða að sumarfríi og stigmagnaðist fram í miðjan september þegar „tapering“ hófst fram að Kona. Stærsta vikan var um miðjan september, tæpir 16 tímar þá vikuna (6km sund, 247km hjól og 43km hlaup auk hitaaðlögunar).
Sund:
Ljóst var að ég þyrfti að hysja upp um mig brækurnar í sundinu, því í Kona er synt í heitum sjó og blautbúningar ekki leyfðir – bara sundskinn („swimskin“), sem veita ekki flot en efnið í þeim gerir mann aðeins rennilegri í vatninu.
Ég var sæmilega duglegur að synda eftir að ég komst aftur í gang eftir haustfríið en þó ekki neitt sérlega markviss í æfingum. Mætti lítið undirbúinn og frekar stressaður í Þorláksmessusundið og það gekk alls ekki vel og var ég að synda þar mikið hægar en ég ætti að geta en það endurspeglaði bara langsundsformið á þeim tíma (og hvað ég er/var með litla hraðatilfinningu í sundinu).
Í apríl tók ég eigin „30 daga sundáskorun“, þar sem ég fór nánast á hverjum degi að synda í heilan mánuð (held ég hafi misst úr tvo daga). Krafan var ekki á magn heldur ástundun – bara mæta í laugina með fókus á tilfinningu og að líða vel í vatninu og synda að lágmarki 500m. Á þessum 30 dögum tókst mér loksins að ná kollhnís snúningnum, sem ég var búinn að streða við í tvö ár en aldrei náð almennilega. Framfararnir í hraða og líðan í vatninu voru líka miklar og stórbætti ég mig í CSS testi hjá Gylfa þjálfara í maí.
Náði ekki að mæta nógu oft í víðavatnssund vegna árekstra í fjölskyldudagatalinu en náði þó nokkrum ágætis túrum yfir sumarið. Hefði þó viljað fara miklu oftar en raunin varð en það slapp til því mér fannst mikilvægara að vinna í hraðanum í sundlauginni heldur en bæta reynsluna í víðavatnssundi, því mér hefur liðið ágætlega í opnu vatni og gengið nokkuð vel að synda beint og synda í kjölsogi frá öðrum sundmönnum.
Sundið í Kópavogs- og Hafnarfjarðarþrautunum í maí gengu nokkuð vel en Laugarvatn (hálfur járnkarl) og Kjósarspretturinn (hálfólympísk) ekki nógu vel.
Sundæfingar í ágúst og september miðuðu á að byggja upp úthald og tempó getu í sundskinni og gekk það prógramm ágætlega. Þegar leið að keppni var ég farinn að geta synt 3000m samfellt frekar áreynslulaust á 1:55/100m og nokkur 600-800m sett á undir 1:50/100m. Var því með vonir um að geta synt í Kona í söltum sjó í einhverju drafti, vel hvíldur og í keppnisskapi á kringum 1:50/100m eða um 1:10 IM tíma og í versta falli á tæplega 2:00/100m eða um 1:15 IM tíma. Til samanburðar tel ég að ári fyrr hefði ég sennilega ekki getað gert mér vonir um nema í besta falli 1:15-20 IM tíma án blautbúnings þannig að þó sundið sé enn mín langveikasta grein, þá er ég samt búinn að bæta mig um 5-10mín á IM vegalengdinni á einu ári. Enn nóg rými til úrbóta og þetta kemur allt með kalda vatninu…
Hjól:
Breytti litlu í hjólaæfingum frá Barcelona. Helsta breytingin var að ég fór í júní og september í mjólkursýrupróf hjá Sigga Erni til að fá nákvæmari tölu á fitubrennslu- og mjólkursýruþröskuldana hjá mér heldur en FTP testin gefa. Gerði nokkrar taktískar æfingar út frá þeim sem miða að því að hækka mjólkursýruþröskuldinn og úthald nálægt þeim þröskuldi. Það kom mér reyndar á óvart hversu lítið ég hreyfði við þessum mælingum miðað við hvað ég hjólaði mikið (og erfitt) yfir sumarið. En einhver hluti af skýringunni gæti verið hversu lítið ég var í innihjóli milli prófanna en þau voru tekin á trainer á mínu eigin hjóli. Það var reyndar marktækur munur á hversu mikið lægri púlsinn hjá mér var á fitubrennsluþröskuldinum, sem er góðs viti á löngum hjólalegg eins og í Ironman (~5 tíma).
Að öðru leyti var sumarið svipað og árið áður. Byrjaði fljótlega eftir páska að fara á racer og TT-hjóli út á þjóðvegina (með Ægir3, Síma-liðinu og einn) og var farinn að hjóla 100km túra strax í lok apríl og fór samtals tólf 100km+ túra yfir sumarið (lengsti 133km, tæpir 5 tímar).
Keppti með Símanum í WOW Cyclothon (10 manna lið), í Gangamótinu milli Siglufjarðar og Akureyrarog í TT keppni á Akureyri auk allra þríþrautanna hér heima að sjálfsögðu.
Eftir seinna mjólkursýruprófið og síðustu tempó æfingarnar fyrir Kona taldi ég mig vera í jafnvel örlítið betra formi en fyrir Barcelona og ég ætti að geta haldið 230-240W við bestu aðstæður en þyrfti mögulega að tóna það niður um 10-20W út af hitanum í Kona.
Hlaup:
Hlaupin hafa almennt verið aftast hjá mér á forgangslistanum, einfaldlega vegna þess að þar er ég langsterkastur og þarf tiltölulega lítið að hlaupa til að koma mér í 90-95% form og með hjóli og sundi hef ég hreinlega ekki tíma til að ná þessum síðustu 5-10% upp í mitt allra besta hlaupaform.
Framan af vetri var prógrammið litað af hálfmaraþoni í Berlín í apríl, sem Ása plataði mig með sér í. Ása vildi að ég færi bara með henni og vinafólki út og „joggaði“ 21km með þeim en það er alveg fráleitt fyrir mig að mæta í keppnishlaup í hraðri braut í útlöndum án þess að gera mitt besta (eða reyna það alla vega). 🙂 Æfingar á brautinni með Ægi gengu mjög vel og ég var að bæta mig í Cooper testi, átti ágætis Powerade- og Gamlárshlaup og fór 3000m á öldungamóti í febrúar á 9:57. En í kjölfar öldungamótsins reif ég eitthvað aftan í hamstring og gat eiginlega ekkert hlaupið í 3-4 vikur í febrúar og mars og óljóst hvort ég gæti yfir höfuð hlaupið í Berlín, hvað þá náð að bæta mig. En ég gat hjólað þrátt fyrir meiðslin og meistari Einar sjúkraþjálfari hamaðist á mér og náði að tjasla mér í nógu gott stand til að geta náð nokkrum gæðavikum fyrir keppnina.
Ég vissi ekki alveg hvort ég hefði trú á sjálfum mér og undirbúningnum þegar ég mætti á ráslínuna í Berlín í byrjun apríl en var ákveðinn í að gefa allt sem ég ætti í þetta fyrst ég var búinn að ná þó þetta góðum vetri fram að meiðslunum og var búinn að ná mér skítsæmilega. Markmiðið í upphafi vetrar var að fara undir 1:17 en eftir meiðslin var ég búinn að tóna það niður í undir 1:18 sem A-markmið og bætingu sem B-markmið (gamla PB 1:18:47). Keppnin gekk vel framan af og ég var á target hraða fyrstu 12-13km en var farinn að streða seinni partinn og það stefndi í að ég væri að missa af markmiðinu kringum 15-17km markið en ég náði að rífa mig aftur í gang kringum 17-18km og síðasti km var tekinn af krafti og ég skilaði mér í mark á 1:17:46 (61sek bæting, 3:41/km).
Eftir Berlín hvíldi ég hlaupin alveg í næstum mánuð til að gefa hamstring færi á að jafna sig almennilega til að vera ekki hálf-laskaður í aðdraganda Kona. Var því ekki í neitt sérstaklega góðu hlaupaformi þegar ég mætti í hálfa járnkarlinn á Laugarvatni í júní og hlaupið mitt þar í samræmi við það.
Ég tók hlaupin svo föstum tökum í júlí, ágúst og september og var kominn á mjög góðan stað í byrjun september (eiginlega of snemma). Var þá að klára nokkuð sannfærandi langar æfingar úr maraþonprógrammi miðað við 4:05-4:10/km hraða þannig að hraði upp á 4:15/km (3ja tíma maraþon) var frekar þægilegur og vel raunhæfur í járnkarli við góðar aðstæður – en svo var óljóst hversu mikið hitinn og rakinn í Kona myndu hægja á mér.
Hiti:
Hitinn og rakinn í Kona var mitt stærsta áhyggjuefni. Ég er sæmilega stór skrokkur (~75-77kg öllu jöfnu og ~73kg keppnisþyngd) og ég svitna þess utan frekar mikið og það tvennt vinnur mjög gegn mér í hita (minni skrokkar kæla sig betur í hita). Það var því ljóst að ef ég ætlaði að eiga einhvern möguleika á góðu gengi í Kona, þá þyrfti ég að fara í markvissa hitaaðlögum.
Fyrir Barcelona tók ég góðan slatta af gufubaðsæfingum og mér fannst það gera mér gott. Í aðdraganda Kona tók ég þetta einu skrefi lengra enda um mun erfiðari aðstæður að ræða. Byrjaði að sitja óreglulega í gufu frá byrjun júlí en þetta var ekki farið að kallast „prógramm“ fyrr en í byrjun ágúst (tveimur mánuðum fyrir keppni) en í ágúst var ég oftast 2x í viku í einhvers konar hitaaðlögun og í lokavikunum var ég 2-3x í viku.
Framan af voru þetta bara gufubaðsferðir eftir æfingar (heima eða í sundi/ræktinni) en í lok ágúst fór ég að bæta við traineræfingum með hjólið í dyragættinni á gufunni heima og með hitara og viftu í sólskálanum (lengst 2 tímar svoleiðis). Tók eina æfingu í Laugum þar sem ég var til skiptis í eimbaði og á hlaupabretti í 10mín í senn (þrjú svoleiðis sett). Síðustu 2-3 vikurnar fór ég reglulega í eimbaðið í Laugum eftir sundæfingar því það ætti að líkja betur eftir Kona aðstæðum heldur en þurrgufa (sauna), sem er heitari en með lítinn raka.
Þegar ég kom út var ljóst að það veitti ekkert af þessum undirbúningi, því það er virkilega heitt og rakt í Kona. Þegar við komum á flugvöllinn kl. 21 um kvöld mætti okkur veggur af þykku heitu lofti sem var alveg kæfandi – 25-26°C og 80% raki.
Það var erfitt að sofa almennilega fyrstu dagana því það var jafn heitt inni í íbúðinni og úti – ég lá bara berháttaður á rúminu með viftuna í botni í svitakófi. Þetta smá vandist eftir nokkra daga en var samt ekki nema rétt bærilegt eftir rúmlega viku dvöl.
Fyrsta morguninn fór ég snemma út að hlaupa – kl. 8 eða svo – en strax þá var sólin komin hátt á loft og mér leið eins og í bakaraofni. Gat hlaupið ágætlega á flötum köflum en í brekkunum komst ég ekkert áfram. Ákvað að ég skyldi fara mjög rólega í æfingar fyrstu dagana. Hitinn almennt yfir daginn var 30-31°C, brakandi sól og 60-70% raki.
Ég synti nánast á hverjum degi og tók einhverjar hlaupa- og/eða hjólaæfingar flesta dagana fram að keppni (nema daginn fyrir) og þetta smá vandist en var samt alltaf aðeins erfitt, sérstaklega að hlaupa – fann minna fyrir hitanum á hjólinu en svitinn lak samt í stríðum straumum.
Hitaaðlögunin virðist raunar hafa gengið það vel að þegar ég fór með fjölskyldunni að snorkla tveimur dögum fyrir keppni á skýjuðum rigningardegi með kannski 25°C hita, þá skalf ég af kulda, bæði í sjónum og uppi á landi. 🙂

IMG_9322
Morgunstund gefur…

Fyrir keppni:
Skilaði af mér hjólinu á skiptisvæðið eftir hádegið á föstudeginum. Sjálfboðaliði tók við mér og fór með mig ítarlega afturábak í gegnum skiptingarnar, sem var pínu ruglandi því það voru ekki komnar allar girðingar sem yrðu í keppninni og ekki nema ca. helmingur af hjólunum kominn á svæðið. En ég sá þetta nokkurn veginn fyrir mér og ætlaði að renna gróflega í gegnum þetta í réttri röð þegar ég mætti um morguninn. Var í smá vafa um hvort ég ætti að festa skóna á hjólið eða taka þá með um morguninn. Gaurinn mælti mjög sterklega með að setja þá á hjólið, því fólk hafi lent í því þarna að gleyma skónum heima um morguninn og þá er oft orðið of seint að redda því þegar það uppgötvast – bömmer! Það var rigning í kortunum svo ég hikaði en ég kæmi svo sem hvort eð er rennblautur upp úr sundinu svo skórnir yrðu alltaf hundblautir strax.
Fór að sofa um kl. 19 kvöldið fyrir og svaf ágætlega til ca. 1 um nóttina en þá fór ég að pissa og sofnaði ekki aftur fyrir fiðringi. Lá því andvaka til kl. rúmlega 3 og fór þá að græja mig. Fékk mér tvær ristaðar beyglur með hnetusmjöri og sultu og smá orkudrykk og var snöggur að græja mig í gallann og smyrja mig með núningskremi. Svo var bara að skella dótinu í pokann og henda sér út úr húsi kl. rúmlega 4.
Það er alltaf spennuþrungið að fara af stað að járnmorgni. Kolniðamyrkur og fiðringur í loftinu en samt einhver stóísk ró yfir öllu. Við vorum svo heppin að gistingin okkar var í 10 mín göngufjarlægð frá fyrsta stoppi fyrir skutlustrætó á vegum keppninnar. Ása slapp því við að skutla mér niður í bæ um miðja nótt og ég rölti í rólegheitum einn míns liðs þangað í myrkrinu. Vinalegir járnfarendur á bíl buðu mér far þegar ég var næstum kominn en ég afþakkaði boðið. Skutlan rúllaði af stað og keyrði eftir Ali´i Drive langleiðina inn að marksvæðinu. Ég var einn af ca. 5 sem fóru inn á fyrstu stöð en síðan bættust nokkrir við á nokkrum stoppum á leiðinni og ca. miðja leið í bæinn var skutlan orðin stappfull og tók ekki við fleirum, en það átti að vera samfelldur skutlugangur allan morguninn þannig að væntanlega hafa allir fengið far fyrir rest.

237_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_032542-35194088
Höfnin og skiptisvæðið. „Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn…“ (EB)

Um 5 mín labb var frá skutlustoppinu að skiptisvæðinu og ég var kominn þangað vel fyrir kl. 5. Fyrsta verk var að finna pumpu, því það mátti ekki mæta með sína eigin, en það var ágætis framboð af þeim í boði hússins þannig að áhyggjur mínar af linum dekkjum og stressi við að fá pumpu voru ástæðulausar. Næsta verk var að núllstilla aflmælinn og síðan að fylla á brúsana og koma þeim fyrir á hjólinu. Þetta tók ekki nema örfáar mínútur en ég dundaði mér samt aðeins lengur við hjólið og fór svo einu sinni í gegnum allt skiptisvæðið og fór í þúsundasta skiptið yfir í huganum hvað ég ætlaði að gera í T1 og T2 og í hvaða röð.
Þegar þessum fáu morgunverkum var lokið var ekkert annað að gera en að fara í sundgallann, smyrja tærnar með sleipiefni og skila af sér morgunfötunum og skónum og skella sér í kamarröðina til að kreista út eitt lokahlass. Var búinn að fara eina kamarferð þegar ég mætti á marksvæðið og var þá með símann til að lýsa upp dolluna en þarna í seinni ferðinni var ég búinn að losa mig við allt nema sundgleraugu og -hettu svo þetta síðasta morgunverk varð óhjákvæmlega að leysa af hendi í svartamyrkri…
Fisléttur og til í slaginn skellti ég mér svo út á Ali´i Drive þar sem sund starthólfin voru.

Sundið – 1:11:39
Sundstartinu var breytt í ár en alla tíð hefur Kona verið með hópstart þar sem allur mannskapurinn er ræstur í einu (nema atvinnumennirnir sem voru og eru ræstir fyrst í karlaflokki og 5 mín síðar í kvennaflokki). Þetta fyrirkomulag er búið að liggja þungt á sálarlífi mínu frá því ég skráði mig fyrst í járnkarl 2016 en bæði Austurríki og Barcelona voru með rúllandi start þannig að ég hef sloppið við þessi ósköp hingað til. Að synda af stað í 2000 manna þvottavél og eiga hættu að verða ýtt í kaf, láta synda yfir mig eða fá spörk og högg í hausinn var ekki að hljóma eins og góð skemmtun í mínum eyrum. Hafði lesið sögur af fólki í Ironman, sem var nánast drukknað á upphafsmetrunum þegar það varð undir holskeflunni og ekki gert meira þann daginn en að synda strax í land og fara heim með skottið á milli lappanna.
Alla vega, þá var breytingin í ár sú að ræsa aldursflokkana í 11 rásbylgjum, sem færu af stað á 5 mín fresti fram eftir morgni. Markmiðið með breytingunni væri ekki að róa mitt sálartetur heldur til að dreifa fólki betur í tíma og rúmi, yfir sundbrautina, skiptisvæðið og síðast en ekki síst á hjólaleiðinni, þar sem hefur verið vandamál með umferðarsultu. Pælingin var að fólk yrði áfram ræst með sínum aldursflokki þannig að „absolute tími“ gilti í keppninni þannig að röð manna/kvenna yfir marklínuna í hverjum aldursflokki væru röð þeirra í aldursflokkakeppninni – sem er ekki tilfellið í venjulega rúllandi startinu þar sem fólk fer út að synda á alls konar tímum, óháð aldursflokki (ég gæti komið hálftíma á eftir jafnaldra mínum yfir línuna en samt verið fljótari en hann ef hann hefði farið meira en hálftíma á undan mér af stað í sundið). Þetta þýddi að 200-300 manns færu af stað í hverri bylgju og það hljómaði aðeins yfirþyrmandi en þó mun skárra en 2000+ manna hópstartið og þýddi að ég hefði möguleika á að hengja mig t.d. í kjölsog á hröðum sundmönnum úr bylgjunni á eftir mér (sem hefðu þá unnið upp 5 mín forskotið á mig) ef ég missti af góðum hóp í minni eigin bylgju. Einn galli á gjöf Njarðar – ef maður missir af starthópnum sínum og ræsir í röngum hóp, þá er maður rekinn úr keppni! (nema maður mátti í algjörri neyð ræsa með aftasta hópnum kl. 7:30, Kukui, en væri þá ekki gjaldgengur til verðlaunasætis í aldursflokki).
Jæja, ég var tæpan klukkutíma í starthólfinu fyrir sundið. Sá þar á risaskjá startið hjá atvinnumönnunum (karla kl. 6:25 og kvenna kl. 6:30) og var furðu rólegur miðað við hverju ég átti von á. Eftir atvinnumannastartið voru hreyfihamlaðir/hand-cycle ræstir og kl. 6:55 var fyrsta aldursflokka-ræsið hjá 18-39 ára körlum og þá var ég kominn að stiganum niður í fjöruna og þurfti að passa mig að slóra ekki því ég þurfti að synda eina 150m út að startbaujunum fyrir ræsið mitt kl. 7:00. Mér fannst ég vera á hættu á að missa af startinu því það tók dágóða stund að synda þennan spöl en ég endaði svo á að svamla á línunni í 1-2 mín áður en ræst var. Ég staðsetti mig ca. 1/3 frá innri baujunni (þar sem hröðustu ættu flestir að vera), því ég vildi vera með sæmilega hraða sundmenn í kringum mig til að fá gott kjölsog án þess að vera fyrir þeim hröðustu og láta synda mig í kaf. Þessi strategía gekk bara ágætlega og ég fór sæmilega þétt af stað án þess að streða eitthvað mikið, reyndi að finna lappir til að elta og það gekk alveg. Flestir í kringum mig voru full hraðir reyndar eftir startið og það var ansi mikil kraðak þarna svo það var erfitt að finna einhvern „passlega hraðann“ sem var nóg pláss í kringum til að elta. Smám saman tognaði á hópnum og tempóið settlaðist aðeins í kringum mig og ég var eitthvað að synda á milli fóta en gat ekki elt neinn einn í mjög langan tíma og synti örugglega hátt í 1/2 eða 1/3 af fyrri partinum einn míns liðs á milli hópa en það gekk alveg fínt samt.
Fékk nokkur högg eða spörk í smettið, sérstaklega í byrjun, en ekkert þeirra það alvarlegt að ég þyrfti að stoppa til að laga gleraugun. Oftast voru höggin frá einhverjum frekum hröðum gæjum sem voru að troða sér fram úr mér og öðrum en stundum voru þau eflaust mér að kenna þegar ég var að synda til hægri eða vinstri í leit að fótum til að elta…
Var orðinn aðeins lúinn þegar ég kom að bátnum þar sem snúningurinn var (í 1,9km) en það var líka farið að hægja á öllum í kringum mig. Þarna var ég ekki bara með dökkbláu sundhettugaurana úr mínum hópi í kringum mig heldur líka ljósbláa úr 6:55 startinu (sem ég var búinn að ná) og appelsínugula, væntanlega hraða gaura úr 7:05 (karlar 45-49), sem voru búnir að vinna upp 5mín á mig þarna um miðja leið (hröðustu amatörar eru kringum 50mín að synda þetta eða um 20mín hraðar en ég!).
Svo ég hengdi mig bara til skiptis á gaura sem mér fannst vera á passlegum hraða fyrir mig og það var oft gaur með ljósbláa hettu sem synti ekki alltaf sérlega beint. Eftir á að hyggja var kannski ekki sérlega taktískt að elta gaura úr ljósbláa hópnum, því fyrst ég var búinn að ná þeim, þá voru þeir amk. 5mín hægari sundmenn en ég, en ég var reyndar lítið að pæla í sundhettum þarna og á þessum tímapunkti var mér bara nokk sama um tíma og hraða, bara að dr***a mér í land til að fara að gera eitthvað sem ég er góður í… 🙂
Var í púls 155-160 fyrsta hálftímann, hægði aðeins á mér niður í púls 150 næstu 20mín og 140-145 síðustu 20mín í land (meðal púls 152).
Sjórinn var nokkuð bólginn („swells“) þannig að það voru ekki kjöraðstæður en þó líklega ekki svo slæmt heldur (skárra en miklar öldur sem trufla öndunina) og gekk svo sem ágætlega miðað við mína sundgetu og væntingar. Markmiðið var að reyna að ná kringum 1:10 en ég var undir það búinn að vera 1:15-20 ef gengi illa að ná kjölsogi eða væri vont í sjóinn. Þannig að ég var bara nokkuð sáttur við 1:11:39, sem er 1:51mín/100m hraði. 188. sæti í aldursflokki og 1254. af heildinni. Var 3mín hægari en meðaltalið í aldursflokki en 40sek hraðari en meðaltalið í keppninni.

T1 – 3:14
Ágætis skiptitími því stórt svæði á bryggjunni sem þurfti að hlaupa kringum og svo leiða hjólið dágóðan spöl að línunni þar sem mátti fara á bak. Auk þess þurfti ég að þurrka mér á löppum og hálsi til að sprauta á mig sóláburði og setja síðan á mig ermar til að minnka sólbrunasvæðin (á úlnliðina, rúllaði þeim svo alla leið upp á hjólinu).
55. hraðasti skiptitíminn í aldursflokki, 1:21 hraðari en meðal skiptitíminn.

277_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_149072-35194128
Á Queen K í góða veðrinu.

Hjólið – 5:10:18
Ég tók „fljúgandi söðulreið“ (flying mount) upp á hjólið eftir T1 og það gekk stórslysalaust að komast í skóna eftir að ég rúllaði af stað.
Það er byrjaði að hjóla stutt upp Palani Road og svo strax til vinstri (norðurs) smá lúppu að útjaðri Kailua og þaðan Kuakini Highway aftur yfir Palani og suður ofan við miðbæinn að snúningi við Queen-Ka´ahumanu Highway (betur þekkt sem „Queen-K“). Á þessum kafla var ansi mikil umferðarteppa, sérstaklega þegar nálgaðist snúninginn. Ég var frekar grimmur þarna og hikaði ekki við að fara fram úr fólki og var nokkrum tugum watta yfir því sem ég ætlaði að rúlla á almennt. Það var engin leið að ætla að gefa fólki tímavíti fyrir kjölsog („drafting“) þarna út af umferðarteppu svo ég var ekkert að stressa mig mikið á því. Þegar ég var svo búinn að rúlla aftur til baka niður Kuakini og kominn upp á Queen-K, þá róaði ég mig fljótlega og reyndi að koma mér niður á 220-240W markmið dagsins (og hámarkspúls 150). Fyrstu 10km á 35km/klst og 220W.
En það var bara ansi mikil umferð þarna líka og fólk á mjög misjöfnum hraða. Ég fór kannski fram úr fimm manns í einu og reyndi svo að koma mér inn í röðina og búa til 12m bil í næsta fyrir framan, en þá var það oftast allt of rólegt tempó og ég sé gaura á mínum kalíber rjúka fram úr mér strax. Svo þetta varð ægilegt jójó þarna fyrsta klukkutímann við að þjóta fram úr einhverri strollu af fólki án þess að liggja alveg klesstur upp við næsta mann á undan (sem var líka að fara fram úr) og stundum að fara fram úr fólki, sem var að fara fram úr öðrum ennþá hægari lengri til hægri. Drafting dómaranir voru duglegir fyrri partinn þannig að ég reyndi að passa bilið eins og hægt var en var óhjákvæmilega oft á gráu og jafnvel svörtu svæði en taldi mig þó vera eins löglegan og praktískt var miðað við mannfjölda og vegpláss.
Á sæmilega löngum kafla frá Kailua til Kawaihae náði ég að vera í sæmilega góðri hraðalínu (pace), sem var að rúlla á hraða sem var nærri mínu markmiði. Ég vildi ekki fara mikið yfir 230W því ég var búinn að trukka vel yfir því í byrjun en vildi heldur ekki eyða tíma með því að fara eitthvað undir 200W. Langleiðina til Kawaihae (um 40km, ca. hjá Waikoloa) var ég með 10km splitt upp á rétt kringum 15mín (40km/klst) á 200-220W, sem mér fannst grunsamlega hratt miðað við ekki hærra afl en ályktaði að það væri kannski bara svona gott „hálf-draft“ í þessum framúrakstri og línu sem ég var búinn að vera í. En skýringin var amk. líklega að hluta til meðvindur á þessum kafla á þjóðveginum. Mér leið bara nokkuð vel þarna enda sólin tiltölulega nýkomin upp og smá skýjahula yfir Kailua og eitthvað áleiðis eftir þjóðveginum.
Þegar nálgaðist Kawaihae hægði á mér niður um 35km/klst þegar vindurinn var kominn meira á hlið og í fangið, komnar nokkrar aðeins brattari brekkur og hitinn farinn að aukast þegar skýjahulan náði ekki lengra norður og sólin farin að baka okkur af öllum sínum krafti. Var duglegur að drekka Maurten orkudrykkinn og vatn og skvetti alltaf helmingnum af vatninu yfir mig og inn í hjálminn til að kæla mig.
25km hækkunin upp að snúningspunktinum í Hawi gekk mjög hægt á 29-32km/klst og ég missti einhverja frá mér þarna og var eitthvað hálf kraftlaus á um 210W. Þessi kafli er eiginlega bara „rolling hills“ með örlítið meira af upp en niður og fáum bröttum brekkum og ég fór þetta á fínum hraða í æfingatúr í vikunni en núna var miklu hvassara þarna og þreyta eitthvað farin að segja sín eftir 2-3 tíma á hjólinu í sólinni (brekkan byrjar eftir um 1:50 og ég sný í Hawi kringum 2:45).
Eftir snúninginn þaut ég af stað niður brekkuna fullur af eldmóði, fullviss um að mín reynsla af íslensku roki ætti að halda mér í góðum gír meðan einhverjir af hinum væru smeykir við að keyra hratt þarna niður. Það er vel bratt næst Hawi og ég fór fyrstu 10km á nálægt 50km/klst meðalhraða en svo datt hraðinn eitthvað niður. Ég fór fram úr haug af liði þarna og gekk nokkuð vel fyrir utan að missa tvo vatnsbrúsa aftan af hjólinu. Á einum stað, fljótlega eftir Hawi, var ég sennilega óþarflega glannalegur í framúrakstrinum. Var þá að fara fram úr nokkuð hröðum gæja, sem ákvað svo að setjast á topptúbuna á hjólinu (eins og þeir bestu gera í götuhjólakeppnum til að lágmarka loftmótsstöðu þegar þeir renna niður brekkur) nema af því hann var að fara frekar hratt, þá tók framúraksturinn langan tíma og hann var svo kominn í framúrakstur fram úr gæja, sem var svo að fara fram úr fjórða gæjanum næst hægri kantinum. Ég var því þarna á 50-60km/klst innan við 1m frá setjandi gæjanum og með hjólin nánast á miðlínunni (sem má ALLS EKKI fara yfir!). Gaurinn sem sitjandi gæinn var að fara úr sá okkur koma þarna nánast í hnapp fram úr og gólaði á hann/okkur, enda óneitanlega verulega vafasamt dæmi í gangi þarna öryggislega séð. Ég hugsaði bara SJITT en varð að klára framúraksturinn, því ég var kominn með framhjólið fram yfir sitjandi gæjann þarna og var allt of seinn að ætla að hægja á mér þegar í þessa stöðu var komið. Kláraði framúraksturinn, horfði aftur fyrir mig til að sjá hvort þeir hafi nokkuð flækst saman (sem var ekki), vissi upp á mig skömmina og ákvað að ég skyldi ekki vera svona ákafur í framhaldinu…
Þetta gekk fínt langleiðina niður til Kawaihae en það var nokkuð um hina frægu „mumuku“ sviptivinda á þeim kafla og það reif duglega í hjólin á köflum en það hægði svo sem ekki mikið á mér. Það varð nokkuð margt um manninn síðustu km niður til Kawaihae og aftur orðið erfitt að finna sig í rununni. Ég vildi settla mig niður á góðan takt í rununni en þeir fóru oftast aðeins of hægt en það var aðeins of mikið streð að vera í sífelldum framúrakstri. Svo þetta var aðeins eins og fyrsti klukkutíminn á þeim kafla. Brekkan upp frá Kawaihae var heit, brött og hvöss á móti og gekk afar hægt. Var orðinn ansi þyrstur þarna eftir að hafa ekki drukkið mikið í hamaganginum niður brekkuna og hafandi misst þessa tvo brúsa af hjólinu fljótlega eftir síðustu drykkjarstöð og var því bara með smá lögg af sjóðandi heitu Gaterade í stýrisbrúsanum fram að næstu drykkjarstöð uppi á Queen-K.
Kaflinn frá Kawaihae til Waikoloa gekk hægt í nokkuð hvössum vindi. Ég var orðinn þreyttur í baki, klofi og öxlum og ansi þyrstur og lærin eitthvað farin að þyngjast líka. Og á þessum tímapunkti var ég ekki mikið að pæla í watta-tölur og settist upp í flestum brekkum. Eftir að hafa vökvað loksins mig vel á drykkjarstöð fékk ég vind í seglin og vilja til að pressa aðeins. Það var ekki nema rúmur klukkutíma heim en ég var ekki að ná nema rétt rúmlega 30km/klst hraða þarna í mótvindinum þó ég væri að skila ágætis afltölum. Mér sýndist ég eiga kannski enn einhvern séns í 5 tíma markmið en það myndi þó ekki hafast á 30km/klst hraða, það var nokkuð ljóst… Það var ekki fyrr en ég var kominn yfir aflíðandi hæð langleiðina að flugvellinum með um 20km eftir sem þetta fór að ganga sæmilega og ég komst á 35-37km/klst hraða aftur – malbikið varð sléttara, smá brekka niðurímóti inn í bæ og vindurinn sennilega eitthvað að detta niður.
Eins og venjulega var ég afskaplega feginn þegar ég kom aftur inn í Kailua. Þessir síðustu tveir tímar voru búnir að vera frekar erfiðir og mig langaði bara til að gera hvað sem er annað en að hjóla – hvað með að hlaupa maraþon við fáránlega erfiðar aðstæður? Losaði strappana á skónum þegar ég rúllaði niður brekkuna frá Queen-K og fékk alveg subbulega magakrampa þegar ég losaði mig svo úr skónum og steig ofan á þá rétt fyrir markið. Leist ekki allt of vel á að fara í skiptingunu með slíka krampa – hef verið í vandræðum með að fara í hlaupaskóna þegar ég hef fengið slæma svona krampa í þrautunum heima… 😦

Ég var með „Maurten 320“ drykk í aerobar brúsanum (tæpur 1L) og í tveimur ~700ml brúsum aftan á sætinu, samtals um 2,5L. Þetta átti að duga til að halda mér sæmilega vökvuðum og kaloríumettum fyrstu ca. 2 tímana með smá viðbót af vatni á drykkjarstöðvunum. Þess utan tók ég átta „Maurten 100“ gel á seinni hlutanum (þegar drykkurinn var búinn) á móti vatni og orkudrykk (Gatorade) og líklega fjórar salttöflur. Var því að gúffa í mig ca. 1800Cal samtals af Maurten á hjólinu og á að giska 500-1000Cal úr Orkudrykk. Var fínn í maganum þannig að ég held ég verði bara að gefa Maurten næringunni fyrirtaks einkunn (í Barcelona mér var orðið ansi bumbult eftir ca. 10 GU gel og sleppti að éta gel í restina á hjólinu og kom fáum niður á hlaupinu). Hef annars ekki hugmynd um hvað ég drakk af vatni og Orkudrykk en það voru ansi margir lítrar (auk annars eins af vatni sem ég sprautaði yfir mig). Pissaði samt bara einu sinni á hjólinu, nálægt Waikoloa eftir 3,5-4 tíma þannig að ég hefði sennilega þurft að drekka aðeins meira.

Meðal hraði: 34,9km/klst
Max hraði: 69,6km/klst.
Meðal power: 206W (9W lægra en í Barcelona)
Normalized power: 215W (8W lægra en í Barcelona)
Max power: 475W
Max 20mín power: 230W
Meðal púls: 144 (5 slögum hærra en í Barcelona)
Max púls: 161
Meðal cadence: 87rpm (heldur hærra en ég er vanur, er yfirleitt nær 80rpm)
Max cadence: 116rpm
Heildarhækkun 1772m (1000m hærra en í Barcelona)

35,04km/klst meðalhraði, 93. sæti í aldursflokki og 559. af heildinni. Var um 18mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 36mín hraðari en meðaltalið í keppninni.
Í ljósi hita- og vindaðstæðna, þá verð ég að vera sæmilega sáttur við hjólið. Var að vonast til að vera undir 5 tímum en þá hefði ég annað hvort þurft að vera slatta mikið ákafari í framúrakstrinum (með hættu á að sprengja mig og klúðra hlaupinu), nú og sjálfsagt hefði verið minni traffík ef ég hefði synt 5-10mín hraðar (veit það samt ekki) en það þýðir ekkert að spá í það. Er að skila næstum 10W lægra afli en í Barcelona, þó ég telji mig hafa verið í 10W betra formi en þá. En þar var ekki bullandi hiti með tilheyrandi álagi á skrokkinn þannig að það hefði sennilega verið áhættusamt að ætla sér að pressa hjólið eitthvað meira en ég gerði – því ég var alveg orðinn sæmilega grillaður í lærunum síðustu 2 tímana og farinn að krampa aðeins, sérstaklega þegar ég reyndi að rétt úr mér.

T2 – 3:18
Það var slatti af liði að koma inn í T2 á sama tíma og ég svo ég gat ekki hlaupið eins hratt kringum svæðið og ég hefði viljað (fæstir jafn stressaðir og ég á tímanum greinilega).
Sjálfboðaliðarnir taka við hjólinu af manni eftir  línuna svo það þurfti amk. ekki að fara með það í rekkann. Þurfti hins vegar á móti að skila hjálminum af mér í T2 pokann.
Þurfti að úða á mig öðrum umgangi af sólvörn og setja á mig alls konar dót í tjaldinu (skyggni, sólgleraugu, gelflösku, númerabelti) og þar sem ég fékk djöfullega magakrampa þegar ég var að losa skóna á hjólinu þurfti að vanda mig við að fara í sokkana og skóna til að ná yfir höfuð að standa upp aftur.
17. hraðasti skiptitíminn í aldursflokki, 2:16 hraðari en meðal skiptitíminn.

IMG_3058
Að hlaupa í Kona er góð skemmtun…

Hlaupið – 3:11:02
Ég var ótrúlega sprækur þegar ég byrjaði að hlaupa og fann ekkert fyrir magakrömpunum, sem voru að stríða mér í skiptingunni. Rauk af stað á rétt um 4:00mín/km hraða upp á Kuakini Highway og niður á Ali´i Drive en þar eru hlaupnir 5-6km til suðurs og aftur til baka inn í miðbæ Kailua – samtals um 12km lúppa áður en farið er upp á Queen-K þjóðveginn. Þessi kafli er alræmdur fyrir að vera funheitur því hafgolan nær ekki að blása um götur bæjarins. En mér leið bara bærilega enda nýstiginn af hjólinu og það var ótrúlegur léttir.
Það eru drykkjarstöðvar á ca. 1mílu fresti (1600m) og þar eru í boði blautir svampar, vatn, klakar, orkudrykkir og kók (stundum RedBull). Ég var nokkrar stöðvar að ná bestu aðferðinni í þessum aðföngum og það var ekki alltaf hægt að ná því sem maður vildi ef það voru hlauparar rétt á undan manni og flestar stöðvar voru að þjóna báðum áttum svo það var mismargt fólk í þjónustunni sitt hvoru megin. Fyrstu nokkrar stöðvarnar fékk ég stundum svampa, stundum klaka og alltaf einhvern drykk (oftast vatn framan af). Svamparnir fóru á axlirnar og bringuna og klakar á kviðinn og bakið og vatni skvett yfir hausinn, bakið og hendurnar. En þegar leið á hlaupið þá var farið að dreifast meira úr fólkinu og maður fékk nokkurn veginn það sem maður vildi á hverri stöð. Það munaði ótrúlega mikið um þessar kæliaðferðir og mér var ekki sérlega heitt á hlaupinu en mér skilst á Ásu að áhorfendum hafi verið verulega heitt að standa kyrrir að horfa á keppnina á þessum tíma (er að byrja að hlaupa rétt um 13:30). Miðað við hversu hrikalega heitt mér var að hlaupa í bænum og á Energy Lab svæðinu í seinniparts sólinni í vikunni án svampa og klaka, þá var þetta bara fínt í keppninni, því ég var mjög reglulega að fylla á klakana og skipta um svampa og hella yfir mig (mis)köldu vatni.
Ég var með fimm „Maurten 100“ gel í mjúkri flösku („softflask“) inni á gallanum. Það var aðeins erfitt að kreista þykkt gelið úr flöskunni en hún lá þarna á kviðnum á mér kringum klakana og svampana þannig að gelið hélst sæmilega kalt og „lystugt“ en pælingin með flöskunni var að sleppa við að vera með gelbelti og vesenið og klístrið sem fylgir því að opna gelbelti og drekka úr þeim á hlaupum. Fékk mér smá sopa af geli (~1/3 af einu gelbréfi) á nokkurra km fresti og 3-4 salttöflur samtals óreglulega yfir hlaupið.

Jæja, þessi 12km Kailua lúppa gekk vel og Ása og krakkarnir voru þarna í margmenninu á Ali´i Drive og sáu mig í ca. 2km og 10km (þau sáu mig líka á Kuakini í byrjun á hjólinu en svo sást ég ekki næstu 4,5 tímana meðan ég hjólaði til Hawi…). Var þarna á ca. target fyrir 3ja tíma hlaup (~4:15/km) eins og planið var og leið bara vel. Samt var ég aðeins farinn að leita mér að afsökun til að stoppa í lokin á lúppunni, á drykkjarstöð eða í brekku. Vissi að Palani Road brekkan væri brött og hugsaði að þar væri lögmæt afsökun til að labba með góðri samvisku (hausinn er alltaf að reyna að fá mann til að hætta þessari vitleysu :).
Palani er sannarlega brött og erfið en ég gat ekki sannfært sjálfum mig um að labba þetta snemma á hlaupinu en ég fór ekki hratt þar upp – minnir að ég hafi verið dottinn niður á 5:45/km á brattasta kaflanum (en hann var stuttur). Þessi km kringum Palani var næsthægasti á hlaupinu á 4:55/km.
Eftir Palani er maður kominn aftur upp á Queen-K þjóðveginn og þar er 15km endalaust hlaup að snúningspunkti við svokallað „Energy Lab“ (rannsóknarmiðstöð um náttúrulega orkugjafa) og þaðan eru svo aðrir 15km að markinu niðri í miðbæ. Á þessum kafla er sáralítið af áhorfendum en drykkjarstöðvarnar eru alltaf á sínum stað og halda manni við efnið. Það fór greinilega einhver vindur úr mér í Palani brekkunni, því ég kom mér bara ekki aftur á 4:15 hraðann, sem ég hafði verið að rúlla nokkuð þægilega á niðri í bænum. Þjóðvegurinn er með smáræðis „undulating“ brekkum þannig að það er aðeins snúið að stýra hraðanum þarna, því það er snúið að átta sig hvort maður er á flötum kafla eða að fara upp eða niður smá halla. Ég fann sæmilegan takt eftir Palani á aðeins hægara tempó en fyrir, kringum 4:20-4:40 og vissi að ég myndi ekki ná 3 tímum þannig en mér var svo sem alveg sama – fókusinn var bara á að finna tempó sem væri skilvirkt án þess að vera of mikið streð. Fór úr púls 155-160 inni í bæ niður 150-155 út að Energy Lab snúninginum þannig að ég var klárlega bara að pressa hraðann minna á þjóðveginum en í byrjun (meðvitað eða ómeðvitað, sitt lítið af hvoru sennilega). Leið svo sem ekkert illa en dagurinn og hitinn voru bara farin að segja aðeins til sín (kominn 7+ tíma inn í daginn) – var ekki með krampa, var ekki illt í maganum eða neitt slíkt en orkustigið bara aðeins farið að síga. Fékk smá seyðing af krömpum í neðri hluta lappanna kringum 20km en það var sæmilega til friðs og versnaði ekki teljandi. Þjóðvegurinn er roooosalega langur og mér fannst ég ekkert komast áfram. Var alltaf að bíða eftir sólarsellu stæðunni sem er ofan við Energy Lab og sést úr fjarska en aldrei kom hún. Var búinn að hjóla þennan kafla í vikunni og keyra þetta margoft og þá virkar þessi kafli örstuttur en hlaupandi tekur þetta heila eilífð og er frekar niðurdrepandi… Hafðist þó að lokum og við beygjuna niður af þjóðveginum niður í Energy Lab er ég kominn 11-12km af þessum 15km að snúninginum.
Gekk fínt niður brekkuna frá þjóðveginum og ég horfði þar á Special-Needs tjöldin og bölvaði því að hafa ekki sett eitthvað gúmmelaði handa mér í poka – ákvað að sleppa Special-Needs pokunum bæði á hjóli og hlaupi (setti í poka í Austurríki og Barcelona en notaði í hvorugt skiptið). Margir aðrir voru að fá pokana sína en ég fékk ekki neitt – bömmer því ég var orðinn ansi þyrstur þarna og enga þjónustu aðra að fá. En um 500m seinna var drykkjarstöð svo þessi vonbrigði voru fljót að hverfa úr hausnum á mér. Það var RedBull tjald skömmu síðar við snúninginn og ég fékk mér glas af því en var annars mest búinn að drekka vatn og einstaka sinnum Orkudrykk.
Kaflinn eftir snúninginn er andlega erfiður – það er fjandi heitt þarna og það er smá hækkun til baka upp á þjóðveginn og ég var ansi þungur upp brekkuna, þó ég væri á ágætis hraða svo sem og það hjálpaði að hafa hlaupið þetta í funhita á æfingu í vikunni. Stoppaði örstutt á drykkjarstöðinni eftir aðal brekkuna og fékk mér klaka og kók og hresstist mikið við það. Var þá kominn 28-29km.
Næstu 2-3km gengu ágætlega uppi á þjóðveginum en í 33km kom loksins babb í bátinn. Lærin og kálfarnir voru í góðum gír en þarna fékk ég allt í einu massíva krampa undir ilina og kringum ökklann á vinstri þannig að tærnar fettust niður í skóinn og ökklinn inn á við. Þetta hljómar ekki sérlega merkilegt en það var alveg vonlaust að hlaupa svona því ég var við það að flækja fótinn í malbikinu í hverju skrefi. Hægði aðeins á mér og reyndi að hugsa um eitthvað annað en það breytti engu. Ég skrölti því skakkfættur inn á næstu drykkjarstöð og stoppaði þar og drakk þrjú glös af Orkudrykk og tvö af kóki og labbaði rólega af stað. Þessi kafli var hægasti hjá mér á 5:30/km. En ég skánaði við þetta stopp og komst aftur á 4:30-45/km hraða en kramparnir voru samt stríða mér. Ég labbaði því í gengum næstu 2-3 drykkjarstöðvar til að koma meiru af vökva í mig. Þetta kostaði smá tíma á hverri stöð en ég var samt yfir 5:00/km meðalhraða á þessum kafla þannig að ég mjakaðist hægt en örugglega í átt að Kailua. Var lítið farinn að pæla í heildartímanum og var eiginlega búinn að afskrifa það að ná tímanum hans Geirs síðan í fyrra (3:16:41) – fannst ég vera búinn að brenna svo miklum tíma á þessu krampaveseni mínu og væri farinn að hlaupa það hægt að það væri vonlaust. En þegar ég fór að nálgast 40km fór ég að reikna þetta í huganum og sá að ég ég væri ekki svo langt yfir 3 tímana. Lappirnar voru líka óðum að skána og ég farinn að rúlla sæmilega aftur. Ég hljóp því í gegnum síðustu drykkjarstöðvarnar á þjóðveginum, sleppti að taka svampa og ís og tók bara eitt glas af orkudrykk. Með ca. 3km í mark kemur Palani Hill, sem er síðasta brekkan á leiðinni og staðurinn þar sem Mark Allen náði loksins að stinga Dave Scott af í Iron War árið 1989 og vinna þá sögulegu keppni. Þetta er svo sem ekki stórkostleg brekka en þó aðeins upp í móti í tæpan km og eftir næstum 40km hlaup og yfir 9 tíma puð yfir daginn rífur þetta aðeins í. Ég náði að halda ca. 4:55/km hraða þarna upp og var mjög ferskur ofan við brekkuna og flaug niður Palani Road hinu megin og áfram inn á Kuakini. Sá km var sá hraðasti hjá mér á 4:00/km enda helmingurinn niður bratta brekkuna. Það er svo lúmskt langt eftir Kuakini að Hualalai Road, sem skilar manni niður á Ali´i Drive þar sem eru bara um 700m í mark. Ég hélt fínu tempói á lokakaflanum án þess þó að keyra allt í botn, því ég vildi líka njóta lokakaflans á þessari frægustu götu þríþrautarheimsins. Ása og krakkarnir voru á Ali´i með um 300m eftir og ég fékk tvo íslenska fána hjá þeim þegar ég hljóp framhjá. Hljóp því yfir marklínuna sem stoltur Íslendingur og hvílíkur léttir sem það var… „You are an Ironman“ gólið (og nafnið mitt) hjá Mike Reilly í kallakerfinu var ekki að gera eins mikið fyrir mig núna eins og í fyrstu keppninni minni 2017 en var samt hressandi, því þarna var ég sannarlega að klára „The Ironman“ en ekki bara „An Ironman“ 🙂

316_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_204937-35194167


Heimsókn í sjúkratjaldið

Var ansi verkaður þegar ég stoppaði eftir marklínuna og var studdur af sjálfboðaliðum í burtu. Þau spurði mig hvort mér liði sæmilega og ég tjáði þeim að mig svimaði aðeins og hefði í gegnum tíðina verið að missa mikið af söltum í þessum keppnum og byrjaði að krampa um leið og ég stoppaði. Fór því í sjúkratjaldið í skoðun og þau tóku púls og blóðþrýstingsmælingar á mér. Púlsinn ansi hár þarna strax eftir að ég kom í mark en blóðþrýstingurinn fínn en ég var næstum 3kg léttari en þegar ég lagði af stað svo ég var búinn að missa óheyrilega mikið af vökva þrátt fyrir þau ósköp sem ég innbyrti yfir daginn. Ég lá á bekk í næstum hálftíma með klakapoka á mér og drakk orkudrykk. Þegar ég var svo látinn reyna að setjast upp, þá fékk ég massíva krampa í lærin í viðbót við kálfa- og ökklakrampa sem ég var með þegar ég lá á bekknum. Ég var því færður á annan bekk og fékk einn poka af saltlausn í æð og þau ætluðu að setja mig á magnesíum-lausn ef ég skánaði ekki. Drakk orkudrykk og kjúklingasoð meðan ég lá í hálftíma á dælustöðinni og leið miklu betur á eftir – settist upp og fann lítið fyrir krömpum en var náttúrulega hressilega stífur eftir ósköpin. Var því útskrifaður og fór minnar leiðar, sótti medalíuna mína og það dót og svo morgunfötin mín og hitti Ásu og krakkana á veitingastað og tróð sveittum hamborgara og miði ofan í mig af mikilli lyst…

Hraðasti km: 4:03 (1. þó ég hafi ekki ætlað að spretta af stað 🙂 og 4:00 (41. niður Palani)
Hægasti km: 4:55 (12. upp Palani) og 5:30 (34. langt stopp á drykkjarstöð þegar krampar voru verstir til að drekka 3x orkudrykk og 2x kókglös…)
4:31mín/km meðalhraði, 11. sæti í aldursflokki og 115. af heildinni. Var næstum 50mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 1klst 6mín hraðari en meðaltalið í keppninni.

Hljóp hraðar en 10-12 Pro karlar (af 41 sem kláraði), og hraðar en 25 Pro konur (af 37 sem kláruðu) – ekki slæmt það. Var t.d. 3mín hraðari en Alistair Brownlee, margfaldur heims- og ólympíumeistari í ólympískri þríþraut og Lionel Saunders, sem hefur stundum verið meðal efstu manna í Kona undanfarin ár. 🙂

Heildartíminn, 9:39:29, var 1klst 8mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 1klst 47mín hraðari en meðaltalið í keppninni.
39. í aldursflokki í heildartíma. Vann mig upp úr 188. sæti eftir sundið.

IMG_3080
Járnmaðurinn og járnfjölskyldan.

 

Hitinn, vindurinn og allt hitt brjálæðið í Lanzarote

Sigurður Örn segir frá:
Það var seint í sumar sem ég ákvað hvaða keppnir skyldu verða fyrir valinu hjá mér til að loka þessu tímabili en ég var lengi að velkjast fram og til baka með hvert ég ætti að fara. Það var margt í boði en samt eitthvað svo takmarkað sem ég hafði áhuga á. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að Weymouth og Lanzarote skyldu verða punkturinn yfir i-ið hjá mér og skráði mig því í þessar tvær keppnir ásamt því að bóka flug og hótel.
Til að gera langa sögu stutta í sambandi við Weymouth, þá sprengdi ég dekk þar – já AFTUR vesen á hjólinu – og engin leið að gera við það á staðnum. Sú keppni var því ónýt eftir um 950m sund og 18 km hjól, en sundið hafði verið stytt vegna örðugleika við að setja upp baujur í sjóinn daginn áður. Spólum því fram um tvær vikur og þá erum við mætt á „eldfjallið“ Lanzarote.
Lanzarote, líkt og Fuerteventura, og mjög líklega aðrar eyjur þarna í Canaria-klasanum er mjög fyndinn staður. Yfirborð eyjunnar minnir helst á Mars og ekkert nema gígar og brúnn sandur svo langt sem augað eygir. Stöku runnar finnast víða og í raun ótrúlegt að gróður nái yfir höfuð að festa rætur þarna miðað við það að það eru að minnsta kostir 8 m/s allan sólarhringinn. Strendurnar eru þó mjög fínar og aragrúi af hótelum hafa risið við helstu staðina á eyjunni. Af þeim sökum koma bara tvær týpur af fólki til Lanzarote – annars vegar íþróttafólk sem ætlar sér að æfa eða keppa af sér allt vit, og hins vegar fólk sem er ekki komið til neins annars en að liggja á sama staðnum í sólinni næstu dagana.
Ég var jú að sjálfsögðu hluti af fyrrnefndum hóp fólks enda Ironman 70.3 Lanzarote næst á dagskrá. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég mætti var ótrúlegur hiti, en yfir daginn náði hann yfirleitt um 30 gráðum og sólin bakaði fólk á heiðskýrum himni. Það var því útlit fyrir áhugaverða keppni.
Daginn fyrir start fengum við að vita að sundinu hefði verið aflýst vegna skipunar frá spænskum yfirvöldum, en hætta var á því að svarmur af lífshættulegum marglyttum myndi skola upp að landi á bæði Lanzarote og Fuerteventura og því allt almenningssund á þessum stöðum bannað. „Yndislegt“, hugsaði ég – þá er búið að kippa bestu greininni minni úr keppni og því sú forysta sem ég hafði venjulega á flesta gaurana algjörlega farin. Okkur var svo tjáð að við yrðum startaðir allir í einu, 43 saman, og því yrðu slagsmál að komast inn á skiptisvæðið, fara í pokana og ná í hjálminn fyrir hjólið. Þetta gat bara ekki klikkað. Eitt var þó víst – þetta myndi skapa frábært efni fyrir áhorfendur á hliðarlínunni, sem það jú gerði.

10_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_006399-34381633
Keppnisdagur
Að morgni keppnisdags fór ég niður í morgunmat á hótelinu kl 5:00 og fékk mér létta máltíð sem samanstóð af eggjahræru, brauðsneiðum með nutella og banana. Hélt svo upp á herbergi til að klára að taka saman fyrir keppnina. Var mættur um 90 mín fyrir start til að pumpa í dekkin á hjólinu og klára að setja allt upp. Það átti eftir að verða heitt, svo planið var að byrja með 750ml af vatni, 10 gel í brúsa ásamt vatni og Aquarius íþróttadrykk í öðrum 500ml brúsa. Ég myndi svo henda brúsunum og fá nýja á drykkjarstöðvunum. Lykillinn myndi verða að stýra álaginu og vökva sig rétt yfir alla 90 km til að eiga einhvern séns á að verða starfhæfur á hlaupinu.
Korter í start var okkur strákunum safnað saman við startlínuna, en planið var sem sagt að við myndum hlaupa inn á skiptisvæðið og að pokunum okkar til að ná í hjálmana. Eins og ég nefndi hér að ofan, þá var þetta líklega ekki alveg hugsað út í gegn, en plássið fyrir framan snagana þar sem pokarnir héngu var ekki mikið og rúmaði svo sannarlega ekki 43 einstaklinga. Engu að síður vorum við startaðir svona og þá hófst fjörið.
Allir þutum við að snögunum og fljótlega myndaðist svona skemmtileg „umferðarteppa“ við innganginn að okkar rekka. „Absolute carnage“ og „what a shitshow“ heyrðist í einhverjum fyrir utan girðinguna þegar fólk fylgdist með 43 fullvaxta karlmönnum, klæddum þröngum og litskrúðugum samfestingum, berjast innan um hvorn annan til að ná í númeraða lilla-bláa poka sem héngu á snaga. Svona eins og á leikskólanum í den, fyrir utan að þá var þetta merkt með nafni en ekki númeri. Ég var búinn að ákveða að vera ekki að stressa mig mikið enda ætlaði ég mér að klára þessa keppni og því ætlaði ég ekki að gera þau mistök að fara of hratt af stað og enda á því að klára orkuna. Svo ég fékk hjálminn á endanum og hélt að hjólinu. Hjálmur á hausinn, hjólið gripið og ÚT.
Þetta byrjaði ekkert allt of vel þegar ég hoppaði á hjólið og fipaðist þannig ég klessti beint á grindverkið til vinstri í hjólabrautinni. Æjæj, fæ kannski að sjá replay af þessu undir „fails“ á Reddit.com einhvern tímann. Kemur í ljós. Náði að komast á hjólið og hélt af stað.
Keyrslan út úr bænum var andstyggilega erfið sálrænt þar sem manni fannst að það væri ekkert að gerast þrátt fyrir ákefðina. Ég hélt 315W fyrstu 45 mínúturnar en fór ekki nema rétt rúma 20 km á þeim tíma sökum hækkunar og brjálaðs vinds en það var á tíma erfitt að halda sér á hjólinu. Three-spoke framgjörð og diskur að aftan hjálpuðu líklega ekkert mikið í þessum aðstæðum og gerðu illt verra ef eitthvað var. Ég drakk vel og hélt mér nærðum á þessum tíma en ég ætlaði að passa að lenda ekki í því að „krassa“ næringarlega séð. Ég vildi því ná að koma slatta ofan í mig á fyrri hluta hjólsins til að geta sett inn betri síðari helming.

5_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001731-34381628
Næstu 40 mínútur voru skárri þar sem við vorum mikið til í skjóli frá vindi og lentum í því að fá vindinn í bakið á hluta leiðarinnar og því meðalhraðinn þar um 40 km/klst með rúllandi hækkun og lækkun upp á 320 metra. Það var aðeins þægilegra sálrænt og þá sérstaklega þar sem að hér var ég farinn að éta uppi nokkra hjólara sem höfðu byrjað of hratt og þurft að hægja á sér. Ánægjulegt að vera sá sem tekur fram úr til tilbreytingar, gæti vanist þessu en geri mér engar vonir samt sem áður. Við komum fljótlega að síðasta klifrinu áður en við tók sléttur kafli síðustu 30 km hjólsins. Þetta var brútal en rúsínan í pylsuendanum var sú að það var drykkjarstöð á toppnum og því til einhvers að hlakka. Ég var búinn að þaulplana þetta í hausnum, búinn að klára úr brúsunum hjá mér og ætlaði svo aldeilis að taka þetta með stæl. Þegar ég nálgast drykkjarstöðina held ég á tómum brúsa í vinstri hendi og ætla að henda honum í ruslakörfuna. Þetta tekst ekki betur en svo að í leiðinni og ég hendi brúsanum slæ ég Garmin Edge tölvuna mína úr stæðinu sínu og hún fleygist af hjólinu og í götuna. What. A. PRO. Annað myndskeið fyrir fail-compilation ef einhver var með video-upptöku í gangi þarna. Jæja, mjög ákafur sjálfboðaliði rétti mér tölvuna aftur, ég henti brúsum á hjólið og fyllti á vatnið áður en ég hélt áfram og tapaði nú líklega ekki nema bara 15 sek þarna sem liðu þó eins og tvær mínútur.

Fokið niður brekku
Næsti kafli var síðasti tæknilega erfiði kaflinn í brautinni en hérna fórum við niður rosalega brekku í brjáluðum vindi á leið okkar aftur til bæjarins. Ég hugsaði oft um líf mitt á leiðinni þarna niður og þurfti ekki að gera neitt annað en að liggja á bremsunum til að halda hraðanum bara á 74 km/klst. Mér fannst það svona það mesta sem ég þoldi andlega. Eftir keppnina sá ég að Fredric, sá sem sigraði, fór á 94 km/h þarna niður og ég á erfitt með að trúa því, ekki nema hann eigi sér dauðaósk. Eftir að komast loks í bæinn aftur tók við 30 km lykkja fram og til baka sem var að mestu flöt en á þessum tímapunkti var orðið ansi erfitt að halda afli og síðustu 20 mínúturnar voru eingöngu á um 270W að meðaltali þar sem vöðvarnir voru orðnir of tollaðir eftir að hafa barist við vindinn og brekkurnar. Hjólið endaði í um 2:29 klst, en ég hef sjaldan verið jafn feginn að klára hjólalegg í keppni og ég var þarna.
Normalized afl yfir 90 km hjólið var 300W, sem var aðeins undir væntingum mínum en ég hafði vonast eftir allavega 310W á góðum degi. Líklega hefur hitinn og vindurinn spilað stórt hlutverk þar. Ég drakk samtals 4 lítra af vökva yfir hjólið og átti það líklega stóran þátt í því hversu ferskur ég var til að byrja með í hlaupinu.

Hlaupið var fjórir 5 km hringir plús smá kafli í átt að marklínunni. Þetta byrjaði vel, fyrsti hringurinn var á target pace, um 3:41/km og mér leið vel. Í lok fyrsta hringsins kom Frederic, sigurvegari dagsins, fram úr mér og til marks um það að formið var í góðu lagi náði ég að halda vel í hann langt inn í hring númer tvö. Mér leið stórkostlega, nýtti drykkjarstöðvarnar vel, hellti yfir mig, drakk vel, notaði svampana og tróð þeim inn á gallann til að nota á milli stöðva. En rétt eins og nóttin er dimmust áður en birtan kemur, er dagurinn einnig bjartastur áður en myrkrið skellur á. Á þriðja hring er eins og einhver hafi sprengt blöðru. Allt í einu var öll sú orka sem ég bjó yfir farin og það fór að hægjast vel á mér. Ég reyndi að einbeita mér að tækninni og halda skrefatíðni stöðugri, anda rólega og reyna að komast aftur í rhythma en allt kom fyrir ekki. Ég ákvað á þeim tímapunkti að það yrði bara markmið númer eitt, tvö og þrjú að komast í mark. Þegar hér er komið við sögu var hitinn kominn upp í 33 gráður og heiðskýrt á himni með sólina beint fyrir ofan sem bakaði okkur rækilega. Þegar munurinn á kjörhita líkamans og úthitastigi er eingöngu 4°C er því miður ekki mikið eftir til að vinna með hvað kælingu varðar og því var líkaminn í raun bara að ofhitna á þessum tímapunkti. Þetta sést líka á aflinu á hverjum hring, en á meðan hjartslátturinn hélst stöðugur eða jókst meira að segja örlítið, fór aflið á hverjum hring úr 351W, niður í 333W, þaðan í 315W og loks 295W á síðasta hring.
4_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001595-34381627Þetta endaði svo á því að ég tapaði endasprett við Manuel Kung, en sá hefur oft átt betri keppni og endar oftar en ekki á palli í þessum keppnum. Segir ýmislegt um það hvernig dagurinn var að fara í menn þarna og sýnir líka að þeir bestu geta átt slæman dag og verið eins og við hin sem erum mannleg 😛 . Ég endaði að lokum 18. PRO og 21. í heildarkeppninni og því einhverjir þrír sterkir Age Group gæjar sem hafa laumað sér á topplistann með okkur í PRO flokknum. Af þeim 43 sem að hófu keppni kláruðu hins vegar bara 23 í PRO og segir það nokkuð um erfiðleikastigið í dag. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta og sérstaklega í ljósi þess að mín sterkasta grein, sundið, var ekki hluti af keppninni. Þetta hefði hæglega getað farið allt öðruvísi hefðum við fengið að busla í 20-30 mínútur í sjónum áður en við stukkum á hjólið en það verður að bíða betri tíma.
Nú tekur við pása hjá mér næstu tvær vikurnar áður en undirbúningur fyrir næsta tímabil hefst. Það eru stór markmið framundan og verður gaman að deila því með ykkur þegar þar að kemur. Þangað til næst!
Siggi

Upplifunin er eilíf…

Eva Ólafsdóttir segir frá:

Ég tók þátt í mínum fyrsta heila járnmanni þann 6. október síðastliðinn og þvílík upplifun! Við mættum á keppnissvæðið á sunnudagsmorgni í svartamyrkri og horfðum á sólina rísa úr Miðjarðarhafinu. Það var blankalogn og nánast sléttur sjór þegar sundið var ræst. Ég reiknaði með að vera 1:30 – 1:40 með sundið og tók mér stöðu í 1:30 hólfinu. Startið var rúllandi og fimm ræstir í einu á fimm sekúndna fresti og hlaupið út í sjó. Leiðin virtist endalaus en sundið gekk vel og ég dundaði mér við að telja marglyttur og leita að Nemo (fann hann ekki). Sjórinn var dásamlegur, 21 gráða og ég slapp að mestu við högg og spörk frá öðrum keppendum. Nokkrir voru á bringusundi og tóku dálítið pláss en ég náði að drafta á milli og ná þannig upp hraða og kláraði sundið á 1:29:40. Ótrúlega ánægð með það og þessi grein, sem ég var lélegustu í fyrir ári síðan reyndist mér sú auðveldasta í keppninni. Grunnur minn í sundi er sá að ég skrópaði í flesta tíma í skólasundi og lauk aldrei þeim stigum sem til var ætlast. En ég er vön sjónum og hef synt í honum allt árið síðustu 9 ár, en alltaf á bringusundi þó þar til ég fór að æfa með Ægi3 í fyrrahaust.

IMG_20191009_143749_296

Ég hljóp upp úr sjónum og var blessunarlega laus við sjóriðu sem ég hef annars oft fundið fyrir og byrjaði að fletta af mér gallanum á hlaupunum upp á skiptisvæðið. Var smá stund að gaufa þar, borðaði eitt hnetustykki sem hafa hentað mér vel á æfingum og í keppnum, hoppaði í hjólagallann og af stað út í hjólabrautina. Þar sem rassinn hefur þolað illa langar setur á hjólinu þrátt fyrir að hafa prófað nokkra mismunandi hnakka, var ég búin að klippa gamlar hjólabuxur og fór í þær utan yfir gallann. Þessi extra púði hefur alveg bjargað mér á löngu æfingunum og kom sannarlega að góðum notum þessa 180 km, en ég hafði lengst hjólað 140 km fram að þessu.

IMG_20191009_143451_456

Hjólið (tveir 90 km hringir) gekk bara ágætlega en strax í byrjun pípti úrið á mig að wattamælirinn væri batteríislaus. Var samt nýlega búin að skipta en hvað um það – þýddi ekkert að fárast yfir því úr þessu. Ég náði að næra mig og vökva vel á hjólinu, borðaði á ca. 40 mínútna fresti gel og hafrastykki sem ég var með í bitum í hjólatöskunni. Var auk þess með salttöflur og svo sterka blöndu af söltum og bcaa í einum brúsa sem ég tók smá sopa af reglulega. Svo alltaf vatn á hverri drykkjarstöð, bæði innvortis og útvortis til að kæla mig en hitastigið var reyndar fullkomið þennan dag, um 20 gráður og að mestu skýjað (náði samt á einhvern undraverðan hátt að sólbrenna, en það er svosem ekkert nýtt fyrir mig). Á seinni hringnum fór ég aðeins að fá sjóntruflanir og tók þá strax salttöflu og drakk vel af vatni. Það lagaði ástandið aðeins en síðustu kílómetrana var fjarlægðarskynið í rugli og sjónin eins og ég væri á sýru (ímynda ég mér, án þess að ég hafi reynslu af slíku ástandi!). Kannski var ég bara á mjólkursýru J Ég hefði gjarnan viljað vera á 6:20 – 6:30 á hjólinu en lokatíminn var 6:53:53. Ætla samt ekki að eyða tárum í það og gott að eiga þarna rúm fyrir bætingu.

Ég skottaðist af hjólinu upp á skiptisvæðið aftur og beint í hlaupagallann. Borðaði líka annað hnetustykki á meðan ég gekk frá hjóladótinu. Ég var frekar spennt fyrir hlaupinu því ég er sterkust þar og hlakkaði til að enda á því. Planið mitt var að fara út á 5:40 hraða og reyna að halda honum sem lengst. Draumurinn minn var að ná undir 4 tíma sem ég vissi að væri ansi bratt og til þess að það næðist þyrfti allt þyrfti að ganga upp. Brautin var nokkuð fjölbreytt og skemmtileg og hlaupnir þrír 14 km hringir. Mér leið vel þrátt fyrir að smá þreyta væri farin að segja til sín, en eftir um 12 km heimtaði maginn að ég stoppaði og þá hlýðir maður. Þarna fóru dýrmætar 4 mínútur en ég hélt ótrauð áfram og markið færðist nær. Ég tók gel og vatn á fyrri tveimur hringjunum en svo bara kók á þeim síðasta. Braut þar gullna reglu því ég hef aldrei drukkið kók í keppni og drekk venjulega ekki gos. En kókið hressti mig við og var kærkomin tilbreyting frá gelunum. Það var komið svartamyrkur á síðasta hringnum og skemmtileg stemning í brautinni, hlauparar reyndar orðnir í mjög misjöfnu ástandi en mér leið ennþá vel þrátt fyrir smá þreytu. Við lok síðasta hrings tók ég snarpa hægri beygju og hljóp lokasprett niður rauðan dregil og alla leið í mark! Lokatími í hlaupinu 4:02:28 – og hefði náðst undir fjórum ef mallinn hefði ekki verið með stæla.

IMG_20191009_144146_582

Tilfinningin að klára járnið eftir allan undirbúninginn er ólýsanleg og ekki laust við að ég fengi kusk í augað þegar ég heyrði nafnið mitt kallað: „You are an Ironman!“ Heildartíminn minn var 12:37:59 og ég er bara sjúklega ánægð með það.

Ég fór strax og fékk mér að borða og drekka og passaði að halda mér á hreyfingu. Rölti svo að sturtunum þar sem eintómir karlmenn voru að baða sig svo ég fór og spurði starfsmann um kvennasturturnar. „Welcome to Spain!“ var svarið – hér baða allir sig saman. Sturtan var ísköld – sem var kannski bara gott því ég tók enga niðurdýfu eftir keppnina og á engar gubbusögur handa ykkur. Leið bara ótrúlega vel og þvílíkt glöð með að hafa klárað. Ég var búin að fara vel í gegn um keppnina í huganum og undirbúa mig því ég hef stundum dottið í neikvæðar hugsanir og niðurrif í þeim maraþonum sem ég hef hlaupið. En gleðin var með mér alla leið í IM Barcelona og frábært að labba frá þessu með svo jákvæða upplifun J Brautin er frábær – flöt og skemmtileg og ég mæli 100% með henni sem fyrsta járninu!

hopur
Fáttt jafnast á við að fara í keppni með skemmtilegum félögum.

 

Að hamra járnið er góð skemmtun…

Guðjón Karl segir frá:

guttimeðdrykkinnÉg finn að líkami og sál er búið að jafna sig eftir Ironman Barcelona, nú þegar tíu dagar eru frá keppni. Ég er byrjaður að lyfta létt og hjóla og hlaupa.
Ég veit um marga sem fylgjast með kallinum og fá hugmyndir og þess vegna er við hæfi að deila nokkra ára reynslu af árlegri þátttöku í heilum járnmanni.
Hvíld er góð
Sjálfur var ég agaður í að hvíla þol og högg á liði 2x per viku alveg frá Ironman Wales og er því meiðslalaus í dag. Hvíldi og hvíla nánast alltaf annan helgardaginn allt árið. Fann líka hvað það hentaði betur að synda bara 1 x í viku, einnig voru axlir og lendhryggur töluvert betri í kjölfarið. Þannig sleppti ég alveg morgun (hóst) æfingum í miðri viku alveg í heilt ár og mun gera slíkt fram að Ironman South Africa.
Ég æfði að venju 10 klst per viku frá IM Wales og fylgdi bara mínu eigin programmi sem ég bjó til fyrir hvern mánuð og hverja viku. Þannig var fjölbreytnin mikil. Æfði 3-4 x per viku múrsteinshlaup allt árið, tók þátt í maraþoni í april og Reykjavíkurmaraþoni í Ironman æfingaprogrammi og fannst mér það alveg vel við hæfi.
Ég gat sparað tíma með því að lyfta ekki í ræktarsal en get og gerði viðeigandi styrkjandi æfingar í lok hvers vinnudags á stofunni ca 3-4 x per viku, 10 mín í senn.

Tölur frá Barcelona
Árangurinn í Ironman Barcelona var 65 mín sund eða 1,44 min/100m og vel sáttur við það. Hefði farið sub 5 klst í hjólaleggnum ef ég hefði ekki lent í vægum árekstri eftir 56km. Var mjög ánægður með 5,01 klst enda hjólaði ég mest 4 klst á æfingu og 4x 3klst. guttiíbikefitFann mikinn mun eftir bike fit hjá Bikefit Sigga og engin óþægindi á hjólinu. Viljandi rétti ég úr mér í racer stöðu per 5 mín og fór í TT stöðuna á 5 mín fresti. Hjólaleggurinn og frjálslegar draftreglur í járninu í Barcelona bjóða uppá þetta.

Pínu vonbrigði með hlaupalegginn eða 4,16 klst en þetta er samt bara sæmilegur tími m.v. vaxandi aldur og brjóskrof í lendhryggnum. Gleymdi líka harðfisknum á T2 og brúsarnir með GU roctane mixinu hurfu þegar datt á hjólinu og því var bara kolvetni og steinefni í Enervit Iso drykk í ca 120 km á hjólinu. Tankurinn var því ansi tómur þegar ég byrjaði að hlaupa.
Bjóst við ca 11,15 klst og því kom 10.33 klst á óvart. Ég á það til að sleppa garmin hraða/wöttum, sem ég gerði eftir sundið. Sá bara hvað klukkan var og ca hver tíminn var eftir hjólið. Afslappað og gott. Kannski ekki nógu vísindalegt eða markvisst.

Ég keppti í öllum 4 þriþrautar keppnunum hér heima fyrir Barcelona járnkarlinn og lenti í 5. sæti í stigakeppni ÞRÍ og vel sáttur við það.

Það er því vel hægt að keppa árlega í járnkarli og hinum styttri keppnunum hérlendis ef æft er 10 klst vikulega og hvílt allt árið 2 daga og getum alveg lyft létt líka.

Er sjálfur gíraður í að rúlla 21k í haust hálfþoni 26.10 eða 3 vikum eftir Ironman. Vonandi þú líka lesandi góður. Hér er slóðin ef þú hefur ekki skráð þig.
https://marathonhlaup.is/registration/
guttiáströndinni
Að lokum vil ég þakka Viðari Braga og Þríkó en fékk að vera með þeim góða hópi í húsi nálægt keppnissvæðinu. Ég æfði ekkert með þeim í IM programminu og fann að ég vildi frekar gera minn undirbúning. Finnst sjálfum stundum erfitt að æfa samkvæmt annarra manna prógrammi en ætla að vera 2-3 x per viku með Ægir3 í vetur.

Þakka lesninguna, ykkar Gutti 😉