Ólympíusamhjálpin styrkir Guðlaugu Eddu Hannesdóttur vegna undirbúnings fyrir Tókýó 2020

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir hlaut í vikunni styrktarsamning hjá Ólympíusamhjálpinni vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Átta einstaklingar frá sex sérsamböndum ÍSÍ fengu þennan styrk að þessi sinni og því um mikinn heiður að ræða fyrir hana og þríþraut á Íslandi.

Fjórir af sex styrkþegum sem undirrituðu samning við Ólympíusamhjálpina ásamt fulltrúum ÍSÍ og sérsambandanna.

Um er að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega að upphæð 1.000 bandaríkjadali vegna kostnaðar við æfingar og keppnir.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 18 einstaklinga frá sjö sérsamböndum.

Allir þessir einstaklingar hafa það á stefnu sinni að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og hafa hafið stífan og kostnaðarfrekan undirbúning vegna þessa. Styrktímabil hófst þann 1. maí 2018 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.

Heildarkostnaðaráætlun styrkþega fram að leikum er margföld þeirri upphæð sem styrkir Ólympíusamhjálparinnar og ÍSÍ nema, en lauslega áætlað má reikna með að árlegur kostnaður á hvern einstakling í fremstu röð í heiminum sé um 10 m.kr.

Árangur íslensks afreksíþróttafólks skiptir miklu máli, en á bak við árangurinn eru einstaklingar sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu sem og auknu fjármagni.

Stjórn Þríþrautarsambands Íslands er einstaklega þakklát Ólympíusamhjálpinni og ÍSÍ að hafa valið Guðlaugu Eddu sem styrkþega. Stjórnin hefur mikla trú á Guðlaugu Eddu og er þess fullviss að hún muni verða fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo árið 2020.

Guðlaug Edda ásamt Halldóru Gyðu formanni Þríþrautarsambands Íslands og Hákoni Hrafn gjaldkera.

Guðlaug Edda skrifaði pistil á fésbókarsíðu sína eftir að hún fékk styrkinn. Hún vonar að hún geti verið öðrum góð fyrirmynd og hvatning til uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut á Íslandi sem og þeim er stunda, sund, hjól og hlaup. Hún veit að hjarta hennar slær íþróttum og hún lifir fyrir þennan draum að komast á Ólympíuleikana í Tokyo 2020.

Hennar markmið er „Framför ekki fullkomnun“, sem verður hennar merki og hún hvetur alla til þess að fylgjast með sér, en hún er með fésbókarsíðuna edda@triathlon

Hér að neðan er að finna greinina sem Guðlaug Edda skrifaði:

GUÐLAUG EDDA SKRIFAÐI EFTIRFARANDI Á FÉSBÓKAR SÍÐU SÍNA:
Mánudaginn 25.06.2018 skrifaði ég undir Ólympíustyrk frá Ólympíusamhjálpinni fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020 ásamt Þríþrautarsambandi Íslands.

Styrkurinn felur í sér fjárhagsaðstoð að Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 og er veittur þeim sem möguleika eiga á að ná lágmarki á leikana, en þurfa til þess nauðsynlega peningaaðstoð til þess að styðja við keppnisferðir, æfingar og æfingabúðir, sjúkraþjálfun og annað sem þarft er.

Það er enn langt í land með að festa þríþraut í sessi á Íslandi, og þá sérstaklega í draft-legal keppnum, en ég vona að núna geti hafist uppbygging á slíku starfi. Ég trúi því að nú fari sýnileiki íþróttarinnar, sem við elskum öll svo mikið, að aukast, og þá sérstaklega á meðal krakka og ungmenna sem enn eru fá á Íslandi.

Það er ótrúleg viðurkenning í íslensku afreksíþróttalífi að hljóta þennan styrk. Fyrir mig mun styrkurinn muna ótrúlega miklu og gera mér kleift að fara í keppnisferðir sem nauðsynlegar eru til þess að safna stigum fyrir Tokyo, en ég hefði annars ekki getað farið í vegna peningaskorts. Fyrir þríþraut á Íslandi er þetta hvatning fyrir uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut til þess að fjölga þátttakendum Íslands í keppnum ITU og ETU (junior og senior) á næstu árum og áratugum.

Ég vona að þáttaka mín í þessum draft-legal keppnum í þríþraut og vegferð að Ólympíuleikunum í Tokyo verði ungum og upprennandi sund-, hjóla-, hlaupa- og þríþrautarkrökkum hvatning til þess að prufa þríþraut eða aðrar multisport-keppnir. Ég vona að ég geti verið þeim fyrirmynd bæði í keppnum og fyrir utan þær.

Ég hef aldrei verið “hæfileikarík” íþróttakona, hvað svo sem það þýðir. Allur minn árangur í íþróttum hefur komið frá endalausri erfiðisvinnu á hverjum einasta degi og mínu vali á að setja íþróttir í forgang alla daga. Hefðir þú spurt gamlan þjálfara þá hefði sá hinn sami líklega ekki giskað á að ég væri komin á þennan stað í íþróttum. Ég var alltaf nokkuð góð, en ekki nógu góð til þess að ná á “hæsta stig” í íþróttum. Ég var of lítil, ekki með nógu góða tækni, ekki nógu löng tök, ekki nógu dýnamísk skref, of áköf, með of mikið af vöðvum, byrjaði “of seint” að synda og ég byrjaði “of seint” að hlaupa. En hjartað mitt slær í íþróttum (eins dramatískt og það hljómar). Ég elska íþróttir. Ég eyddi nokkrum mánuðum í að reyna að sannfæra sjálfa mig um að svo væri ekki. Að ég ætti að fá mér góða menntun, fá háar einkunnir, komast í frábæra skóla og á enda á vinnumarkaðinum í góðu og öruggu starfi. Það var reyndar frábær tími og ég lít upp til allra vinkvenna minna, vina og ástvina sem elt hafa sína drauma á þennan hátt. En sama hvað ég reyndi þá fór ég alltaf aftur í íþróttir og ég setti þær framar félagslífi, fjölskyldutíma og öllu öðru sem er svo yndislegt í lífinu líka. En það var mitt val og hefur skilað mér á þann stað sem ég er á núna. Hjartað mitt sló í íþróttum og ég fann að ég átti enn mikið eftir að gefa af mér á þeim vettvangi áður en ég færi í “venjulega” vinnu.

Sem betur fer á ég góða fjölskyldu og frábæra vini sem standa mér við hlið sama þótt ég geti ekki mætt í veislur, partý, eða hist jafn oft og ég myndi vilja. Það er erfitt og mjög eigingjarnt að vera fúli Jón sem aldrei getur gert neitt útaf æfingum og/eða keppnum, en þetta er mín “vinna” núna og ég er á vakt allan daginn. Takk fyrir að trúa á mig, yfirgefa mig ekki (þó ég sé stundum fúli Jón) og taka tillit til allra þessara æfinga. Án ykkar væri ekkert ég.

Mig langar til þess að vera fyrirmynd fyrir þá krakka sem telja sjálfum sér trú um að þeir séu ekki eða muni aldrei verða nógu góðir í þeirri íþrótt sem þau stunda. Ég vona að ég geti verið lifandi dæmi um hvað erfiðisvinna, óbilandi passjón, trú, sviti og tár geta skilað okkur langt í íþróttum (og lífinu almennt). Ég stend frammi fyrir erfiðri og langri vegferð, að reyna að komast inn á Ólympíuleikana í íþrótt sem ég hef stundað í tæp tvö ár. Hvort ég komist inn eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. Ég er harðákveðin í því að gera mitt besta og ganga frá þessari vegferð stolt eftir að hafa gefið allt sem ég átti í þetta markmið. En sama hvað verður þá vona ég að mín vegferð verði innblástur fyrir aðra að láta drauma sína rætast og elta hjartað sitt. Mig langar til þess að keppa með það í hjarta að allt sem ég geri núna muni skila sér lengra og gefa þeim sem á eftir mér koma meiri tækifæri og betri undirbúning.

Ég fæ stundum þá spurningu ,,hvað ef þú nærð þessu ekki?” og ég hef átt erfitt með að svara því enda augljóslega stórt markmið hjá mér sem ég hef sett út í kosmósið og deilt með öllum þeim sem áhuga hafa. Eftir að hafa rætt þessa spurningu fram og aftur við Axel þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að svara ,,en hvað þetta tekst?”. Ég hef eytt alltof löngum tíma í lífi mínu hrædd við að mistakast með bilaða fullkomnunaráráttu og skammast mín ef ég fékk lágar einkunnir í prófum eða gekk illa í keppnum. Ég mun líklega aldrei verða fullkomin og það er allt í lagi. Ég vil frekar gera 100 mistök og mögulega ná árangri, heldur en að gera 0 en standa í stað. Þessvegna verður mitt hashtag #framförekkifullkomnun í öllu þessu ferli. Þó það verði án efa erfitt stundum, þá er ég harðákveðin í því að halda sjálfri mér ábyrgri og fylgja því eftir!

Ég hlakka til að deila þessum tímum með ykkur hérna á síðunni og taka ykkur með mér í þessa vegferð! Takk fyrir stuðninginn, án ykkar væri ég ekki hérna.
#AlltFyrirTokyo og #AlltFyrirÍsland

Stiffur í stuði

Hópur vaskra kvenna hélt til strandhéraðs skammt frá Barselónuborg á Spáni í vor þar sem boðið var upp á hálfan járnmann á vegum Ironman-fyrirtækisins. -Ironman Barcelona 70.3. Þetta er saga þeirra:

Aðdragandinn

Eins og konur gera á þriðjudögum þá hittust nokkrar í kampavínsboði (lesist: fjórðu þrautinni) 24. október 2017. Þar fengu þær Guðrún og Hansína þá snilldarhugmynd að við myndum skella okkur í hálfan járnkarl í útlöndum á vordögum, þannig kæmum við okkur í form fyrir sumarið og þyrftum ekki að vera streða neitt yfir hábjargræðistímann. Korteri síðar voru flestar viðstaddar skráðar og búnar að redda sér þjálfara. Þar sem við vorum með mismunandi áherslur sóttum við í hina ýmsu þjálfara, en þeir sem komu Stiffunum á áfangastað voru Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Geir Ómarsson, Jón Oddur Guðmundsson, María Ögn Guðmundsdóttir og Stephen Patrick Bustos. Hópurinn fékk heitið Stiffurnar en aðeins fæst uppgefið í góðra vina hópi hvaðan það nafn kemur.

Við vorum misgóðar í þessum þremur greinum og sumar þurftu að læra að synda fyrir Þorláksmessusundið og aðrar að læra að hlaupa fyrir gamlárshlaupið. Þótt við séum hógværðin uppmáluð þá tókst okkur býsna vel upp í þessum keppnum. Kannski af því að við vissum að fjórða þrautin beið okkar í hvort sinn. Annars gengu æfingar vetrarins oftast vel en veikindi af ýmsum toga settu vissulega sitt strik í reikninginn, eins og búast má við á þessu landi. Við tókum líka framförum því við vorum ferlega duglegar að æfa okkur.

Fyrir keppni

Á endanum héldu átta Stiffur og eitt viðhengi til keppni á Spáni, vorum nánar tiltekið í bæ sem heitir Calella og er rétt fyrir utan Barcelona. Við mættum á miðvikudagskvöldi þannig að við höfðum þrjá heila daga fyrir keppni að fá tilfinninguna fyrir staðnum, sjónum og veðrinu. Á hótelinu okkar, sem var staðsett beint fyrir framan skiptisvæðið, fundum við tvær íslenskar stelpur sem bættust í hópinn.

Við syntum á hverjum degi í sjónum enda höfðu fæstar áður prófað sjósund og sumar voru að fara í blautgalla í fyrsta sinn. Sjórinn fór misvel í okkur en á þriðja degi vorum við margar hverjar komnar með aukið sjálfstraust í þá baráttu sem framundan var. Auk þess hjóluðum við aðeins og hlupum, en ljóst var að hitinn myndi mögulega leika okkur grátt – enda í lítilli hita-æfingu.

Áður en stóri dagurinn rann upp mætti enn ein Stiffan á svæðið og var frábært að hafa Maríu Ögn á kantinum á keppnisdag sem og þau tvö viðhengi sem hún hafði með í farteskinu – að heyra þau öskra á okkur í brautinni gaf okkur aukabensín.

Keppnisdagur 20. maí 2018

Við eyddum ekkert mörgum klukkutímum í svefn og vorum mættar í morgunmatinn kl. 4:30. Eins og venja er á svona dögum voru auðvitað allir að vonast til að geta klárað nr. 2 áður en farið var í blautbúninginn. Ekki bárust nokkrar fregnir af vandkvæðum við það.

Flestar vorum við búnar að ákveða í hvaða tímahólf við myndum koma okkur fyrir í sundinu en margir höfðu sagt okkur að fólk setti sig ávallt hólf yfir getu. Við röðuðum okkur hingað og þangað en það sem kom skemmtilega á óvart var stemningin sem keppnishaldarar bjuggu til með rokktónlist og afskaplega peppuðum kynni. Sundið gekk almennt vel og engin drukknaði en sagan segir að yfirborð sjávar hafi lækkað þar sem nokkrar drukku óþarflega mikið af Miðjarðarhafinu.

Fyrirfram vissum við að hjólaleiðin yrði erfið með rúmlega 1200 metra hækkun og ofan á hana gerði hitinn okkur aðeins erfitt fyrir. En það sem fer upp, kemur niður og það var ekkert leiðinlegt að rúlla til baka.

Já, það var heitt á okkur þennan dag eða um 24°C og sól svo við áttum flestar í „ástarhatur-sambandi“ við veðrið. Það var því mjööög næs að smella inn á sig köldum blautum svömpum á hlaupaleiðinni.

Allt utanumhald um keppnina var til fyrirmyndar og matar- og drykkjarstöðvar með góðu millibili á hjólaleið og hlaupaleið og er því óhætt að mæla eindregið með þessari keppni.

Eftir keppni

Við vorum ekki einu Íslendingarnir sem tóku þátt í IM Barcelona 70.3 heldur voru þarna nokkrir frá Ægir3 og öðrum félögum. Við borðuðum öll saman á veitingastað um kvöldið og gerðum upp daginn (hver á sinn hátt).

Það skipti okkur miklu máli að verja tæplega þremur daga saman eftir keppni – slaka, hjóla til Girona, fá sér kannski einn eða tvo og haffa gaman.  Mælum með því.

Persónur og leikendur

Það verður að segjast eins og er að það skemmdi ekkert fyrir okkur að hafa í þessum hópi reynslubolta, lækni, sjúkraþjálfara, „do-er“ og spænskumælandi. En aðalleikarar og Stiffur sem tóku þátt: Berglind Berndsen, Eva Jónasdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Helga Garðarsdóttir, Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, Jórunn Jónsdóttir, Lukka Pálsdóttir, María Sæmundsdóttir og Þóra Katrín Gunnarsdóttir.

Varastiffur sem gátu ekki tekið þátt að þessu sinni: Birna Jenna Jónsdóttir, Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Kristín Laufey Steinadóttir og María Ögn Guðmundsdóttir.

Viðbótarstiffur sem við fundum á hótelinu: Sandra Ósk Sigurðardóttir og Sigríður Erlendsdóttir.

Endurhæfing í Elsinore!

Hópur Breiðabliksfélaga hélt í víking til Elsinore í Danaveldi til hálfs járnmanns í veðurblíðunni þar ytra. Öllum gekk vel eins og tölur herma.  Sigurður Nikulásson lauk keppni á tímanum 4.55 klst., Birna Íris Jónsdóttir á 5.03 klst., Kristín Vala Matthíasdóttir á 5.16 klst., Sigríður Lára Guðmundsdóttir á 5.23 klst., Ármann E. Lund á 5.36 klst., Jón Ágúst Gunnlaugsson á 6.01 klst. og Inga Rut Jónsdóttir á 6.32 klst.

Eins og sjá má leiddist engum, sérstaklega eftir keppni og medalían er á stærð við þokkalega undirskál.

Sigurður Nikulásson skíðaþjálfari og þríþrautarberserkur féllst á að segja lauslega frá aðdraganda og keppninni sjálfri.

„Eftir að hafa verið með brotinn hryggjarlið og framskrið í 10 ár og farið fjórum sinnum í  Ironman þannig á mig kominn,  var komið að endastöð. Ég fór í aðgerð 14. júní 2017. Lá meira og minna í 3 mánuði svo tók endurhæfing við og ég ákvað að hluti af endurhæfingunni væri að fara í IM Barcelona okt 2018.
Frá jan 2018 hef ég reynt að æfa þegar það er lokað í Bláfjöllum..(er jú skíðaþjálfari). Fara.á styrktaræfingar í sporthusinu – sjúkraþjálfun – teygjuprogram – core og fl.
Svo 10 maí var allt sett á fullt í æfingum þó að veðráttan á Ísl. sé ekki til fyrirmyndar þá verður maður bara að láta sig hafa það. Reyni alltaf að velja góðu dagana til að gera extra og slæmu í minna. Fór í lok mai í 10 daga hjólaferð til Spánar og var hún nýtt vel.
Ég ákvað um miðjan mai að skella mér í 12 IM til Elsinore Danmörk til að testa skrokkinn.
Ég er algjörlega kominn með það markmið að njóta og reyna að þjóta. Allt sem maður afrekar er jákvætt, alveg sama hvaða tíma ég fæ þá bara hafa gaman, aldrei keyra á þeim hraða að það verið píning eða óbærilegur sársauki hver væri tilgangurinn. Ég er að gera þetta til að vera í formi og líða vel, brosa allan tímann og vera þakklátur fyrir að geta bara tekið þátt.

Sundið
var flott, sjórinn frábær, mjög flókin sundbraut, endalausar beygjur fram og til baka.
34 mín..svo svaka langt hlaup í skiptisvæðið. Ég gaf mér bara tíma í að smyrja allt vel og fara í ermar og hjólasokka því ég er jú kuldafælinn með afbrigðum.

Hjól
Hjólabrautin hröð, töluverður mótvindur og rigning, einnig töluverður meðvindur og sól. Meðalhraði 36 km og tími 2.27.
Hlaup :
Nýir sokkar enda búin að pissa slatta í hina.
3.5 hringir inn í miðbæ Elsinore svaka stemming og hvatning sem ég tók inn og nýtti mér ég hélt 4.40-4.50 pace labbaði í gegnum allar drykkjarstöðvar, borðaði harðfisk bita og fékk mér kók.
Tími 1.41 og endaði í heildartíma 4.55. Váá hvað ég er ánægður með það. Kíkti aldrei á heildartímann fyrr enn 4 km voru eftir, þá sá að ég myndi geta rúllað undir 5 tíma með sama pace tíma og ég var á. Gaf í til að vera öruggur enda eitthvað eftir á tanknum því ég var að njóta og reyna að þjóta. Ef heildartíminn hefði sýnt að ég hefði verið yfir 5 tímum þá ætlaði ég að labba og njóta síðustu 4 km enda var það flottasti hlaupaparturinn.

Næring. 3x brúsar bcca frá Now á hjólinu 3 sis gel frá Hreysti og 3 salttöflur.
Hlaup 3x gel sis 2 x með koffín..harðfiskur og coke.

Ofurskemmtileg keppni í alla staði og mæli 100% með þessu.
Hvet svo þetta fáa fólk á Íslandi sem er í þríþraut að gera meira saman og njóta saman í svona keppnum. Samstaða..hvatning..gleði.

Svo að lokum Barcelona here I come😜😜

Laugarvatnsþrautin 24. júní.

Ægir3 stendur fyrir sjötta Íslandsmeistaramótinu í ólympískri þríþaut á Laugarvatni  sunnudaginn 24. júní 2018.
Synt í Laugarvatni – Búningaaðstaða og slökun í Fontana.

ÓLYMPÍSK ÞRÍÞRAUT – Íslandsmeistaramót
SUND – 1500m/ HJÓL – 40km/ HLAUP – 10 km
Einstaklings- og liðakeppni(boðsveitir)
Keppni hefst kl: 9:00

HÁLF ÓLYMPÍSK ÞRAUT
SUND – 750m/ HJÓL – 20km/ HLAUP– 5 km
Einstaklingskeppni
Keppni hefst kl: 10:00

Skráning:
Í lengri vegalengdinni er bæði einstaklings- og liðakeppni ásamt byrjendaflokki.
Keppnisgjald er 8.500 kr. fyrir einstaklinga en 9.500 kr. fyrir lið (boðsveit).

Í styttri vegalengdinni er eingöngu einstaklingsskráning.
https://www.netskraning.is/laugarvatnsthrithraut/
Skráningu lýkur kl.23.59 miðvikudaginn 20. júní.

Ægir 3 triathlon club hosts a triathlon event at Laugarvatn (postcode 840), Sunday June 24th, 2018. Olympic distance and a half olympic distance. Wetsuit and helmet are mandatory.

Viðbót 12.júní: Keppnishaldarar Laugarvatnsþríþrautar vilja upplýsa að:
1. Hitastigið í vatninu er núna um 12-13 gráður. Það verður svo nánar mælt fyrir keppni og upplýsingar veittar.
2. Það verður heimilt að nota neoprene sokka og neoprene húfu. Utan yfir verður þó að setja sundhettu.
3. Nánari upplýsingar varðandi hvað verður gert ef vatnið er of kalt eða ef lofthiti/vindkæling er óhagstæð er að vænta alveg á næstunni frá ÞRÍ. Við munum strax setja þessar upplýsingar inn þegar þær berast.
3. Hægt verður að krefja keppendur um að fara í utanyfirgalla á hjólinu ef keppnishaldarar meta aðstæður þannig.
4. Tölvupóstur með nánari upplýsingum verður sendur til skráðra þátttakanda daginn eftir að skráningu lýkur.
5. Hjólaleiðin verður með breyttu sniði í ár vegna framkvæmda og verður farið um Lyngdalsheiði.

Leiðarlýsingar

Sund
 Í ólympískri vegalengd eru syntir tveir “hringir” en einn hringur í hálfri ólympískri vegalengd. Leiðin verður merkt með baujum og flöggum.

Hjól – Ólympísk
Hjólað er frá Íþróttahúsinu upp Laugabraut og beygt til vinstri inn á Dalbraut (vegur 37) að hringtorginu þar sem fyrsti útgangur er tekinn inn á Lyngdalsheiðina (vegur 365). Hjólað er tæpa 10 km eftir Lyngdalsheiðarvegi, að snúningspunkti sem er u.þ.b 400 metrum vestan við Bragabót. Hjólað aftur að hringtorginu, hjólaður heill hringur í því  og Lyngdalsheiðarvegurinn hjólaður aftur upp að snúningspunkti. Síðan er hjólað til baka að hringtorginu, Dalbrautin hjóluð þangað til beygt er til hægri niður Laugabraut og endað við Íþróttahúsið.

Lyngdalsheidi_start_Stop Lyngdalsheidi_oll

Hjólaleið

Hjól – hálf ól.
Hjólað er frá Íþróttahúsinu upp Laugabraut og beygt til vinstri inn á Dalbraut (vegur 37) að hringtorginu þar sem fyrsti útgangur er tekinn inn á Lyngdalsheiðina (vegur 365). Hjólað er tæpa 10 km eftir Lyngdalsheiðarvegi, að snúningspunkti sem er u.þ.b 400 metrum vestan við Bragabót. Hjólað aftur að hringtorginu, Dalbrautin hjóluð þangað til beygt er til hægri niður Laugabraut og endað við Íþróttahúsið.

 

Hlaup – Ólympísk:
Byrjað er á að hlaupa eftir Hverabraut í átt að gamla íþróttakennaraskólanum og snúið við um keilu. Síðan eru hlaupnir 3 hringir af eftirfarandi: Framhjá íþróttahúsinu, beygt til vinstri inn Laugabraut og svo til hægri inn Lindarbraut. Lindarbrautin er hlaupin þangað til hún beygir til vinstri, en þar er haldið beint áfram eftir göngustíg þangað til komið er í Hrísholt. Hlaupið eftir Hrísholtinu þangað til beygt er til vinstri inn á Dalbraut. Hlaupið eftir Dalbraut framhjá menntaskólanum og hringtorginu. Fyrsta beygja til vinstri eftir hringtorgið og eftir malarvegi og stíg þangað til að komið er að íþróttahúsinu aftur.

Hlaup, ólympísk vegalengd

Hlaup, ólympísk vegalengd

Hlaup – hálf ól.
Hlaupnir eru 2 hringir, fyrst minni hringur og síðan stærri hringur. Stærri hringurinn er sá sami og heila ólympíska fer. Hlaupið frá íþróttahúsinu til vinstri inn á Laugabraut. Beygt til vinstri inn á Dalbraut. Hlaupið eftir Dalbraut framhjá menntaskólanum og hringtorginu. Fyrsta beygja til vinstri eftir hringtorgið og eftir malarvegi og stíg framhjá íþróttahúsinu aftur (fyrri hring lokið), beygt til vinstri inn Laugabraut og svo til hægri inn Lindarbraut. Lindarbrautin er hlaupin þangað til hún beygir til vinstri, en þar er haldið beint áfram eftir göngustíg þangað til komið er í Hrísholt. Hlaupið eftir Hrísholtinu þangað til beygt er til vinstri inn á Dalbraut. Hlaupið eftir Dalbraut framhjá menntaskólanum og hringtorginu. Fyrsta beygja til vinstri eftir hringtorgið og eftir malarvegi og stíg þangað til að komið er að íþróttahúsinu aftur.

Hlaup, hálf ólympísk vegalengd

Hlaup, hálf ólympísk vegalengd

Keppnin
Ræst verður úti í vatninu og allir ræstir á sama tíma í sömu vegalengd. Keppendur eru í blautgöllum og með flöguna festa við ökkla. Keppendur labba út að rásmarki í vatninu sem merkt verður með flöggum. Það er hægt að botna á flestum stöðum í Laugarvatni en einnig verður bátur á vatninu til að gæta öryggis sundfólks. Eftir að sundi er lokið á að fara aftur á milli flagganna á leiðinni í land. Á skiptisvæðinu eru gallarnir skildir eftir við hjólastæðið og keppendur taka hjálm, númer á númerabelti (númerið snúi aftur) og hjól. Boðsveitir færa flöguna á milli liðsfélaga. Við mælum með að fólk fari í peysu eða jakka eftir sundið svo það nái að halda á sér hita á hjólinu. Mótstjórn er komin með leyfi til að krefjast þess að keppendur klæði sig vel fyrir hjólið ef samspil vatns- og lofthita verður óhagstætt. Hjólið er leitt út af skiptisvæðinu að merktri línu þar sem má fara á hjólið og hjóla af stað (sjá mynd af hjólaleið). Eftir hjólalegg er aftur hjólað að skiptisvæði, farið af hjólinu við línuna og hjólinu skilað á sama hjólastæði. Númerabeltinu er nú snúið þ.a. númerið sjáist framan á keppandanum. Ekki má fara út af skiptisvæðinu með hjálminn. Keppendur í ólympískri vegalengd hlaupa þrjá merkta hringi með smá (sjá hér ofar lýsingu og mynd af hlaupaleið) en keppendur í hálfri vegalengd hlaupa aðra leið í byrjun og svo einn hring eins og ólympíska vegalengdin (sjá leiðarlýsingu ofar).

Reglur
Ólympíska vegalengdin er hluti af stigakeppni Þríþrautasambands ÍSÍ og keppt er eftir reglum sambandsins í báðum vegalengdum, sjá reglurnar.  Við minnum sérstaklega á nokkur atriði: Blautbúninga- og hjálmaskylda. Bannað er að hjóla með tónlist í eyrunum, bannað er að henda rusli t.d. utan af orkugeli. Hjóla þarf hægra megin á veginum með 10 metra lágmark í næsta keppanda því bannað er að nýta sér skjól af keppanda og bílum.
Aldurstakmark er 16 ára, miðað við fæðingarár.
Allir keppendur eru á eigin ábyrgð í keppnum.

Hálfur járnmaður í Lissabon

Bjarki Freyr Rúnarsson er í þjálfarateymi 3SH og tilkynnti skömmu eftir jól í vetur að hann stefndi á hálfan járnmann í Lissabon. Með honum fóru þrír aðrir úr félaginu, Kolbeinn Sigurðsson, Björn Reynald Ingólfsson og Halldór Benjamín Hreinsson. Þetta er saga hans:

Eftir að hjólið klikkaði í Challenge Iceland í fyrra hefur mig langað í hálfan járnkarl aftur og þá með það í huga að bæta tímann minn. Challenge Lisboa hefur verið þekkt fyrir flata og hraða braut þannig það hljómaði vel og skráði ég mig í janúar.Sundið hefur verið að batna mikið undanfarin 2 ár þar sem ég hef synt virkilega mikið miðað við áður, yfir 220km á ári miðað við tæplega 100km. Ég tók mánaðarpásu frá sundi um áramótin þegar platan var tekin úr viðbeininu og var farinn að nálgast tímana fyrir pásu í apríl. Hjólið er búið að batna þónokkuð en í FTP testi í mars fékk ég 329W út sem var persónulegt met. Þetta var stuttu eftir æfingaferð 3SH á Tenerife en við fórum í 9 daga ferð í febrúar. Hlaupið hefur svo alltaf legið vel fyrir mér þannig ég hef ekki verið mjög duglegur að stunda það reglulega en núna í vetur bætti ég aðeins í þar og hélt góðum dampi. Æfingarnar tók ég yfirleitt einn og yfirleitt óskipulagt, það er, ég stökk út um hurðina heima, hljóp í frá 5-22km, stundum allt rólegt, stundum allt í botni en yfirleitt skokk + tempó í bland. Þetta skilaði sér í 2ja mínútna bætingu og sigri í hálfu maraþoni í apríl og 2. Sæti í FH Bose hlauparöðinni jan-mars. Æfingatímar á viku voru yfirleitt ekki nema rétt um 5-9 tímar sem er minna en ég hef yfirleitt miðað við en á móti kemur að ég hélst alveg meiðslalaus og hélt jöfnu álagi yfir tímabilið.Veður hefur spilað stóran þátt í undirbúning en haglél í maí er ekki eitthvað sem ég gerði ráð fyrir.. Lengri TT æfingar voru því ekki framkvæmdar og tími á þríþrautahjólinu mun minni en ég hefði viljað. Á móti kemur að veður var flott frá byrjun mars og náði ég að æfa vel á racer á þeim tíma og hjólaformið almennt í fínum gír. Undirbúningskeppnirnar fyrir Challenge Lisboa voru Vormaraþonið sem enduðu í sigri og góðri bætingu, Reykjanesmótið (106km götuhjól) sem voru 2:42 og 271NP sem lofaði góðu fyrir keppnina en planið var að halda 260NP þar og síðast en ekki síst var Kópavogsþríþrautin þar sem ég náði 80sek bætingu frá 2016, synti í fyrsta sinn undir 6:00/400m í keppni og endaði í 2. Sæti! Systir mín ákvað að skella sér með að vera sérstakur stuðningsmaður og sjá um myndatöku og stóð hún sig eins og hetja í því. Við flugum út á miðvikudagsmorgun í gegnum Luton með 5 tíma bið þar og vorum komin í íbúðina um 21:30 um kvöldið. Ég púslaði saman hjólinu og við sóttum keppnisgögnin og hittum ferðafélagana í kvöldmat en við vorum fjórir úr 3SH að keppa. Á föstudag fórum við í brautarskoðun á sundbrautinni og var fílingurinn mjög góður, vatnið vel gruggugt og salt en engar öldur og baujurnar nokkuð vel sýnilegar. Seinnipartinn fórum við með hjólin og settum upp skiptisvæðið, höfðum hjólapoka og hlaupapoka en vegna klúðurs (hjá birgja segja þeir) þá voru pokarnir of litlir. Hjálmurinn stóð hálfur uppúr þó ekkert annað væri í honum, hlaupaskórnir rétt sluppu í pokann með gleraugum og derhúfu en þetta slapp allt saman til. Eftir uppsetninguna þá fórum við á keppnisfund þar sem óskipulag keppninnar kom betur í ljós en vegna Eurovision og annarra þátta átti ekki að halda keppnina en þeir þrjóskuðust við og redduðu því. Þessi redding kostaði miklar þrengingar á skiptisvæði. Þegar keppnin varð að Challenge (2016) þá var hjólabrautin lengd til að ná 90km, þetta var gert með því að setja inn tvær U-beygjur á hraðbrautinni á alla fjóra hringina. Þetta var ekki á neinu korti og kynnirinn kunni nánast illa við það að nefna þetta á fundinum. Annars leit allt ágætlega út og við vorum klárir. Eftir fundinn var kvöldmatur og beint í háttinn.

Keppnisdagur

Ég vaknaði um 4:10 eftir svefnlitla nótt, fékk mér morgunmat, fór í keppnisgallann og skellti á mig númeratattooinu. Bar á mig sólarvörn og lögðum af stað niður á keppnissvæði um 5:40. Ég græjaði hjólið, vökva í brúsana (GU Roctane orkuduft, um 1.7L með 750kkal ca), púðraði skóna og festi með teygjum og hitti svo á keppnisfélagana. Fór í blautbúninginn og í klósettröð sem dróst nánast fram að starti. Tók létta upphitun á landi og svo var það að fara niður að starti.Ég stillti mér upp í annarri röð og beið eftir flautunni. Ég var fyrir miðju í röðinni og fékk þrengingar úr báðum áttum, synti yfir menn, synt yfir mig, barið og barði en eftir fyrstu bauju þá var búið að slakna á barning. Þá kom ég mér í draft og elti hóp, líðanin var nokkuð góð, stífur í öxlunum en fannst mér ganga nokkuð vel. Ég fylgdi hópnum alveg fram að lokum, lokatími rétt undir 29 mínútur á úri. Klæddi mig úr gallanum að ofan, hettu og gleraugu í ermina, greip hjólapokann og fór í skiptitjaldið. Tók hjálminn og beltið úr, kláraði að fara úr gallanum, setti beltið á mig og tróð gallanum í pokann, setti hjálminn á hausinn, henti pokanum að starfsfólki, smellti hjálmnum og tók hjólið. Hljóp af skiptisvæðinu og á hjólið.Á hjólinu ætlaði ég að halda um 260W og taka þetta easy á 2:15, það hljómaði easy miðað að brautin var marflöt og á hraðbraut, ein brekka með 70m hækkun farin fjórum sinnum. Þó þessar U-beygjur væru þarna þá væri þetta nú samt ekkert mál, fljótt að ná upp hraðanum aftur og bara keyra á þetta. Nema hvað að brautin var bara alls ekki marflöt, það var stanslaust rúll upp og niður og brekkan undir lokin var alveg þokkaleg. U-beygjurnar voru með um 100m á milli þannig það var farið hægt í gegnum báðar. En það var lítið annað en að halda plani og vona það besta. Eftir fyrstu tvo hringina var NP 257W sem var vel eftir plani. Tíminn aftur á móti var ekki eftir plani, fyrstu tveir voru á 71:53. Meðalhraðinn var að flökta í kringum 36km/h í staðinn fyrir 40km/h eins og planið var. En jæja, lítið í því að gera. Rúllaði seinni tvo hringina á 72:10, mjög steady. En var þar farinn að finna fyrir rassvöðvanum og stressaðist aðeins með hlaupið. Kláraði um 1.3L á hjólinu og greip bananabita á drykkjarstöð. Wöttin voru um 255W NP en ég tengdi ekki wattamælinn við úrið og eyddi úr tölvunni án þess að doublechekka þannig er ekki með tölurnar. Ég fór úr skónum fyrir dismount, stökk af hjólinu og hljóp með það að rekka, fann vel fyrir rassvöðva þarna og leist ekki of vel á hlaupið. Setti hjálminn á hjólið, sótti hlaupapokann, fór í sokka og skó, setti gleraugun á mig, tók derhúfuna og fór af stað. Hljóp á um 4:10 pace en draumurinn hafði verið sub 4:00. Hellti vatni yfir mig á fyrstu drykkjarstöð, fékk mér red bull og hellti yfir mig vatni á annarri, hellti svo yfir mig ýmist glasi eða flösku af vatni á hverri drykkjarstöð (um 2.5km fresti). Eftir tvo hringi á hlaupinu þá var tíminn ekki nema tæpar 39mín. Þetta var ekki að stemma þar sem lykkjan að markinu væri ekki að fara að fylla upp. Hugsaði með mér að svona myndi ég þó kannski ná að bæta upp fyrir hjólið og ná undir 4:20. Splittin á hringina voru 18:58-19:39-19:50-19:31 en hver hringur var rétt um 4.6km í stað 5km sem hann hefði átt að vera. Ég reyndi að halda vel uppi tempó til að eiga séns í sub 4:20 og leit það út fyrir að ætla að ganga, en þar sem ég var ekki viss hve langt væri að hlaupa að markinu eftir síðasta hring þá var bara að halda vel á spöðunum. Pikkaði vel upp af fólki á hlaupinu en þar sem þetta voru fjórir hringir og 3 mismunandi keppnir á sama tíma þá vissi ég aldrei hvort ég væri að græða sæti eða bara egoboost. Eftir síðasta hringinn hélt ég góðu tempói í markið og kláraði undir 4:19. Markmiðinu náð þrátt fyrir ólöglega braut. 

Lokaorð

Keppnin sjálf gekk mjög vel upp. Ég stóð nánast við allar tölur sem ég ætlaði að gera, næringin small vel saman, aldrei orkuskortur eða vesen. Sundið var frábært, undir 29mín á klukku sem er um 2ja mínútna bæting. Hjólið var mun hægara en það átti að vera en það var ekki undir minni stjórn, gerði það besta sem ég gat úr aðstæðum þar. Samt sem áður bæting um 7 mínútur frá í Hafnarfirði 2016 og bæting um ca 15W. Hlaupið er á svipuðu pace og í Hafnarfirði 2016, tel þá braut mun betri, var þar á lægri púls og svipuðum hraða, en hitinn hefur svosem sitt að segja hér. En tímabæting í hlaupinu er 8 mín en það er eingöngu sökum styttri brautar. Heildarbæting var 18 mínútur sem er vel ásættanlegt.

Brautin í Lissabon er nokkuð skemmtileg, hjóla á lokaðri hraðbraut og svona, en að þetta sé svona svakalega hröð og flöt braut er overstatement ef brautin er eins og hún var nú í ár (reddingar sem breyttu hlutum, veit ekki nákvæmlega hvað).

Þetta var mjög góð ferð, mjög gott stöðumat á formi og sumarið verður klárlega skemmtilegt.

Bjarki bloggar um æfingar sínar, keppnir og fleira á þessari síðu.

Kata í Samorin

Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson búa í Bolungarvík og æfa þar þríþraut en frekar fámennt er á æfingum því þau eru bara tvö. Þau eru skráð í 3SH. Katrín sendi okkur þessa ferðasögu:

Í ullarfötum á trainer

Undirbúningurinn hófst eiginlega í janúar á þessu ári, ég er búin að
vera að basla við runners knee í eitt ár þannig ég fór varlega í
hlaupin. Ég var búin að heyra frá fyrri keppendum að hitinn í Samorin
hefði verið svakalegur í fyrra þannig ég var frekar stressuð fyrir því
og ákvað að undirbúa mig vel undir hitann. Á trainer æfingum hjólaði ég
reglulega með hitablásara og í ullarfatnaði og var alveg að grillast á
æfingum. Ég hugsa að það hafi hjálpað svolítið því mér leið mjög vel í
keppninni úti og upplifði aldrei þennan ofsahita, þrátt fyrir að
hitastigið hafi verið 34°c.

1900 metra sund

Sundið gekk ágætlega en ekki eins vel og ég ætlaði mér, var 37 min en stefndi á 34 min. Ég synti reyndar rúmlega 2 km. Sundgallinn sem ég var í reyndist vera aðeins of stór, þannig hann fylltist fljótt af vatni. Leið eins og ég væri að synda í peysu þar sem báðar ermarnar voru orðnar fullar. En það var svolítill
mótvindur og töluverður straumur í vatninu sem hægði aðeins á. En vatnið var um 20°heitt þannig það var yndislegt að synda í því, sólin skein og fuglarnir flugu fyrir ofan mann. Ég ákvað bara að njóta þess að synda og halda önduninni jafnri.

Hjól 90 km
Svo var skellt sér upp úr og beint á skiptisvæðið, ég er enn svolítill
klaufi í skiptingunum þannig ég ákvað að hlaupa í hjólaskónum allt
skiptisvæðið, þarf að æfa þetta betur. En hjólið gekk mjög vel þrátt
fyrir töluverðan mótvind á köflum og svolítið skemmdan veg. Auka
brúsinn minn flaug af hjólinu í einum hossinginum en sem betur fer
voru tvær drykkjarstöðvar eftir sem ég nýtti mér. Ég passaði mig á að
drekka vel allt hjólið, borðaði eitt orkustykki yfir hjólalegginn og
eitt gel. Hjólatíminn var 2:32.

Hlaup 21 km
Hlaupið er slakasta þrautin mín og um leið og ég stökk af hjólinu fann
ég að runners kneeið var mætt á svæðið en ég vissi alveg að verkurinn
myndi koma um leið og ég færi af hjólinu þannig hann kom mér ekki á
óvart. Ég ákvað bara að láta eins og ég fyndi ekki fyrir verkinum og
hugsaði jákvætt allan tímann. Kannski fann ég þess vegna ekki fyrir
hitanum þar sem ég var að einbeita mér að því að finna engan verk. En
ég stoppaði á hverri drykkjarstöð, fékk mér vatn, orkudrykk og banana.
Nýtti mér einnig svampa á svæðinu og kældi líkamann. Ég var með tvö
markmið í hlaupinu, það var að ganga ekkert og fara ekki yfir 6 mínútna hraða.
Þannig ég náði að klára hlaupið á 2:03 sem er um 5:52 í meðalhraða. Var
ótrúlega ánægð með það.

Ég kláraði keppnina á 5:21 min, sem er um 40-50 min betri tími en ég
kláraði Kjósarþrautina hér á Íslandi.

Ég var ótrúlega ánægð með keppnina, mun betri árangur en ég þorði að
vona, sérstaklega þar sem ég og Þorsteinn erum bara tvö að æfa í
Bolungarvík og með engan þjálfara. En erum samt skráð í 3SH og höfum
nýtt okkur þekkingu þeirra.

Glæsilegur árangur í Cagliari

2. júní náði Guðlaug Edda Hannesdóttir 17. sæti á Heimsbikarmótinu í þríþraut sem fram fór í Cagliari á Sardiníu á Ítalíu en keppt var í hálf ólympískri vegalengd. Guðlaug náði að staðsetja sig vel í sundinu strax við fyrstu stungu og að loknu 750 metra sundi var hún í 8 sæti, rétt á eftir fyrstu konu. Guðlaug endaði í öðrum hjólahóp, á eftir 9 sterkum konum. Þar hjólaði hún allan hjólalegginn en þegar honum lauk var Guðlaug í 18. sæti. Guðlaug átti gríðarlega gott hlaup og hljóp sig upp um eitt sæti og endaði sem áður sagði í 17. sæti. Þetta er hennar þriðji besti árangur á heimsbikarmóti hingað til. Guðlaug er sem stendur í 158. sæti heimslistans og 64. sæti á Ólympíulistanum og því ljóst að þessi árangur mun fleyta henni hærra upp listann. Hún er núna eini fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi í stigakeppni heimsbikarmótaraðarinnar og stefnir á Ólympíuleikana.

Hvíldin fyrir Guðlaugu er stutt, því næstu helgi fer fram Heimsmeistara serían í þríþraut í Leeds (World Triathlon Series) en þar mun Guðlaug keppa í fyrsta skipti. Við óskum Guðlaugu til hamingju með árangurinn í dag og hlökkum til að fylgjast með henni í Leeds næstu helgi.

Guðlaug Edda er á Facebook og hefur þar frá mörgu skemmtilegu að segja.

Nýtt brautarmet í Hafnarfirði

27. maí  fór fram annað mótið í ís­lensku þríþrauta­mótaröðinni, WOW-hálfólýmpíska þrautin í Hafnar­f­irði. Synt­ir voru 750 metr­ar í Ásvallalaug, því næst hjólaðir 20 km á Krýsu­vík­ur­veg­in­um og að lok­um hlaupn­ir 5 km í Valla­hverf­inu. Keppendur voru flestir frá Breiðabliki (Þríkó) en einnig frá 3SH, Ægi, 3N og nokkrir voru ófélagsbundnir.

Kepp­end­ur voru alls 61 tals­ins, þar af 17 í byrj­enda­flokki og voru aðstæður góðar. Sig­urður Örn Ragn­ars­son  úr Breiðabliki kom þar fyrst­ur í mark á nýju braut­ar­meti, 56 mín­út­ur og 25 sek­únd­ur, en með því bætti hann gamla metið um nærri tvær og hálfa mín­útu, en það átti Hákon Hrafn Sigurðsson.

„Ég er al­veg ótrú­lega sátt­ur með þetta og trúi í raun ekki al­veg hvað ég náði góðum ár­angri, eft­ir sundið ákvað ég bara að keyra mig al­veg út og sjá hvað myndi ger­ast og þetta var niðurstaðan,“ sagði Sig­urður aðspurður.

Þetta var ann­ar sig­ur­inn hjá Sig­urði á þessu tíma­bili en hann bar einnig sig­ur úr být­um í Kópa­vogsþríþraut­inni sem hald­in var þann 13. maí síðastliðinn, þá líka á nýju braut­ar­meti.

1. sæti: Sigurður Örn Ragnarsson, 1991, Umf. Breiðablik, 00:56:25 klst. 2. sæti: Geir Ómarsson, 1975, Sundfélagið Ægir, 01:00:44 klst. 3. sæti: Bjarki Freyr Rúnarsson, 1994, Sundfélag Hafnarfjarðar, 01:01:17 klst.
1. sæti: Amanda Ágústsdóttir, 1990, Umf. Breiðablik, 01:08:26 klst. 2. sæti: Rannveig Anna Guicharnaud, 1972, Umf. Breiðablik, 01:12:04 klst. 3. sæti: Birna Íris Jónsdóttir, 1973, Umf. Breiðablik, 01:12:37 klst.

Myndirnar tók Guðni Gíslason ritstjóri Fjarðafrétta og fleiri skemmtilegar myndir frá þrautinni má sjá hér.

Krakkaþraut Klóa 2018

Krakkaþraut Klóa var haldin í Hafnarfirði 27. maí og hófst strax í kjölfar WOW-þrautarinnar þar sem fullorðið og miðaldra fólk reyndi með sér.  Forkólfur þrautarinnar, Stefanie Gregersen, sagði þátttökuna hafa komið sér mjög á óvart en alls luku 58 börn keppni í fjórum aldursflokkum og fóru vegalengdir eftir aldri.

Veðrið hefði getað verið betra en þrátt fyrir sudda og napran gust létu börnin það ekkert á sig fá og fannst afskaplega gaman að keppa eins og fullorðna fólkið, enda var reynt að hafa umgjörðina sem líkasta.

Nokkrar myndir frá þrautinni sýna hvernig þetta var.

Sarah Cushing hefur oft staðið á verðlaunapalli hjá okkur en er í fríi í ár. Hér eltir hún Lilju Rakel sem geysist af stað á hlaupaleggnum.
Gylfi formaður 3SH fylgir dóttur  inn á skiptisvæðið.

Fleiri myndir má sjá á þessari slóð.