Hálfur járnmaður í Lissabon

Bjarki Freyr Rúnarsson er í þjálfarateymi 3SH og tilkynnti skömmu eftir jól í vetur að hann stefndi á hálfan járnmann í Lissabon. Með honum fóru þrír aðrir úr félaginu, Kolbeinn Sigurðsson, Björn Reynald Ingólfsson og Halldór Benjamín Hreinsson. Þetta er saga hans:

Eftir að hjólið klikkaði í Challenge Iceland í fyrra hefur mig langað í hálfan járnkarl aftur og þá með það í huga að bæta tímann minn. Challenge Lisboa hefur verið þekkt fyrir flata og hraða braut þannig það hljómaði vel og skráði ég mig í janúar.Sundið hefur verið að batna mikið undanfarin 2 ár þar sem ég hef synt virkilega mikið miðað við áður, yfir 220km á ári miðað við tæplega 100km. Ég tók mánaðarpásu frá sundi um áramótin þegar platan var tekin úr viðbeininu og var farinn að nálgast tímana fyrir pásu í apríl. Hjólið er búið að batna þónokkuð en í FTP testi í mars fékk ég 329W út sem var persónulegt met. Þetta var stuttu eftir æfingaferð 3SH á Tenerife en við fórum í 9 daga ferð í febrúar. Hlaupið hefur svo alltaf legið vel fyrir mér þannig ég hef ekki verið mjög duglegur að stunda það reglulega en núna í vetur bætti ég aðeins í þar og hélt góðum dampi. Æfingarnar tók ég yfirleitt einn og yfirleitt óskipulagt, það er, ég stökk út um hurðina heima, hljóp í frá 5-22km, stundum allt rólegt, stundum allt í botni en yfirleitt skokk + tempó í bland. Þetta skilaði sér í 2ja mínútna bætingu og sigri í hálfu maraþoni í apríl og 2. Sæti í FH Bose hlauparöðinni jan-mars. Æfingatímar á viku voru yfirleitt ekki nema rétt um 5-9 tímar sem er minna en ég hef yfirleitt miðað við en á móti kemur að ég hélst alveg meiðslalaus og hélt jöfnu álagi yfir tímabilið.Veður hefur spilað stóran þátt í undirbúning en haglél í maí er ekki eitthvað sem ég gerði ráð fyrir.. Lengri TT æfingar voru því ekki framkvæmdar og tími á þríþrautahjólinu mun minni en ég hefði viljað. Á móti kemur að veður var flott frá byrjun mars og náði ég að æfa vel á racer á þeim tíma og hjólaformið almennt í fínum gír. Undirbúningskeppnirnar fyrir Challenge Lisboa voru Vormaraþonið sem enduðu í sigri og góðri bætingu, Reykjanesmótið (106km götuhjól) sem voru 2:42 og 271NP sem lofaði góðu fyrir keppnina en planið var að halda 260NP þar og síðast en ekki síst var Kópavogsþríþrautin þar sem ég náði 80sek bætingu frá 2016, synti í fyrsta sinn undir 6:00/400m í keppni og endaði í 2. Sæti! Systir mín ákvað að skella sér með að vera sérstakur stuðningsmaður og sjá um myndatöku og stóð hún sig eins og hetja í því. Við flugum út á miðvikudagsmorgun í gegnum Luton með 5 tíma bið þar og vorum komin í íbúðina um 21:30 um kvöldið. Ég púslaði saman hjólinu og við sóttum keppnisgögnin og hittum ferðafélagana í kvöldmat en við vorum fjórir úr 3SH að keppa. Á föstudag fórum við í brautarskoðun á sundbrautinni og var fílingurinn mjög góður, vatnið vel gruggugt og salt en engar öldur og baujurnar nokkuð vel sýnilegar. Seinnipartinn fórum við með hjólin og settum upp skiptisvæðið, höfðum hjólapoka og hlaupapoka en vegna klúðurs (hjá birgja segja þeir) þá voru pokarnir of litlir. Hjálmurinn stóð hálfur uppúr þó ekkert annað væri í honum, hlaupaskórnir rétt sluppu í pokann með gleraugum og derhúfu en þetta slapp allt saman til. Eftir uppsetninguna þá fórum við á keppnisfund þar sem óskipulag keppninnar kom betur í ljós en vegna Eurovision og annarra þátta átti ekki að halda keppnina en þeir þrjóskuðust við og redduðu því. Þessi redding kostaði miklar þrengingar á skiptisvæði. Þegar keppnin varð að Challenge (2016) þá var hjólabrautin lengd til að ná 90km, þetta var gert með því að setja inn tvær U-beygjur á hraðbrautinni á alla fjóra hringina. Þetta var ekki á neinu korti og kynnirinn kunni nánast illa við það að nefna þetta á fundinum. Annars leit allt ágætlega út og við vorum klárir. Eftir fundinn var kvöldmatur og beint í háttinn.

Keppnisdagur

Ég vaknaði um 4:10 eftir svefnlitla nótt, fékk mér morgunmat, fór í keppnisgallann og skellti á mig númeratattooinu. Bar á mig sólarvörn og lögðum af stað niður á keppnissvæði um 5:40. Ég græjaði hjólið, vökva í brúsana (GU Roctane orkuduft, um 1.7L með 750kkal ca), púðraði skóna og festi með teygjum og hitti svo á keppnisfélagana. Fór í blautbúninginn og í klósettröð sem dróst nánast fram að starti. Tók létta upphitun á landi og svo var það að fara niður að starti.Ég stillti mér upp í annarri röð og beið eftir flautunni. Ég var fyrir miðju í röðinni og fékk þrengingar úr báðum áttum, synti yfir menn, synt yfir mig, barið og barði en eftir fyrstu bauju þá var búið að slakna á barning. Þá kom ég mér í draft og elti hóp, líðanin var nokkuð góð, stífur í öxlunum en fannst mér ganga nokkuð vel. Ég fylgdi hópnum alveg fram að lokum, lokatími rétt undir 29 mínútur á úri. Klæddi mig úr gallanum að ofan, hettu og gleraugu í ermina, greip hjólapokann og fór í skiptitjaldið. Tók hjálminn og beltið úr, kláraði að fara úr gallanum, setti beltið á mig og tróð gallanum í pokann, setti hjálminn á hausinn, henti pokanum að starfsfólki, smellti hjálmnum og tók hjólið. Hljóp af skiptisvæðinu og á hjólið.Á hjólinu ætlaði ég að halda um 260W og taka þetta easy á 2:15, það hljómaði easy miðað að brautin var marflöt og á hraðbraut, ein brekka með 70m hækkun farin fjórum sinnum. Þó þessar U-beygjur væru þarna þá væri þetta nú samt ekkert mál, fljótt að ná upp hraðanum aftur og bara keyra á þetta. Nema hvað að brautin var bara alls ekki marflöt, það var stanslaust rúll upp og niður og brekkan undir lokin var alveg þokkaleg. U-beygjurnar voru með um 100m á milli þannig það var farið hægt í gegnum báðar. En það var lítið annað en að halda plani og vona það besta. Eftir fyrstu tvo hringina var NP 257W sem var vel eftir plani. Tíminn aftur á móti var ekki eftir plani, fyrstu tveir voru á 71:53. Meðalhraðinn var að flökta í kringum 36km/h í staðinn fyrir 40km/h eins og planið var. En jæja, lítið í því að gera. Rúllaði seinni tvo hringina á 72:10, mjög steady. En var þar farinn að finna fyrir rassvöðvanum og stressaðist aðeins með hlaupið. Kláraði um 1.3L á hjólinu og greip bananabita á drykkjarstöð. Wöttin voru um 255W NP en ég tengdi ekki wattamælinn við úrið og eyddi úr tölvunni án þess að doublechekka þannig er ekki með tölurnar. Ég fór úr skónum fyrir dismount, stökk af hjólinu og hljóp með það að rekka, fann vel fyrir rassvöðva þarna og leist ekki of vel á hlaupið. Setti hjálminn á hjólið, sótti hlaupapokann, fór í sokka og skó, setti gleraugun á mig, tók derhúfuna og fór af stað. Hljóp á um 4:10 pace en draumurinn hafði verið sub 4:00. Hellti vatni yfir mig á fyrstu drykkjarstöð, fékk mér red bull og hellti yfir mig vatni á annarri, hellti svo yfir mig ýmist glasi eða flösku af vatni á hverri drykkjarstöð (um 2.5km fresti). Eftir tvo hringi á hlaupinu þá var tíminn ekki nema tæpar 39mín. Þetta var ekki að stemma þar sem lykkjan að markinu væri ekki að fara að fylla upp. Hugsaði með mér að svona myndi ég þó kannski ná að bæta upp fyrir hjólið og ná undir 4:20. Splittin á hringina voru 18:58-19:39-19:50-19:31 en hver hringur var rétt um 4.6km í stað 5km sem hann hefði átt að vera. Ég reyndi að halda vel uppi tempó til að eiga séns í sub 4:20 og leit það út fyrir að ætla að ganga, en þar sem ég var ekki viss hve langt væri að hlaupa að markinu eftir síðasta hring þá var bara að halda vel á spöðunum. Pikkaði vel upp af fólki á hlaupinu en þar sem þetta voru fjórir hringir og 3 mismunandi keppnir á sama tíma þá vissi ég aldrei hvort ég væri að græða sæti eða bara egoboost. Eftir síðasta hringinn hélt ég góðu tempói í markið og kláraði undir 4:19. Markmiðinu náð þrátt fyrir ólöglega braut. 

Lokaorð

Keppnin sjálf gekk mjög vel upp. Ég stóð nánast við allar tölur sem ég ætlaði að gera, næringin small vel saman, aldrei orkuskortur eða vesen. Sundið var frábært, undir 29mín á klukku sem er um 2ja mínútna bæting. Hjólið var mun hægara en það átti að vera en það var ekki undir minni stjórn, gerði það besta sem ég gat úr aðstæðum þar. Samt sem áður bæting um 7 mínútur frá í Hafnarfirði 2016 og bæting um ca 15W. Hlaupið er á svipuðu pace og í Hafnarfirði 2016, tel þá braut mun betri, var þar á lægri púls og svipuðum hraða, en hitinn hefur svosem sitt að segja hér. En tímabæting í hlaupinu er 8 mín en það er eingöngu sökum styttri brautar. Heildarbæting var 18 mínútur sem er vel ásættanlegt.

Brautin í Lissabon er nokkuð skemmtileg, hjóla á lokaðri hraðbraut og svona, en að þetta sé svona svakalega hröð og flöt braut er overstatement ef brautin er eins og hún var nú í ár (reddingar sem breyttu hlutum, veit ekki nákvæmlega hvað).

Þetta var mjög góð ferð, mjög gott stöðumat á formi og sumarið verður klárlega skemmtilegt.

Bjarki bloggar um æfingar sínar, keppnir og fleira á þessari síðu.