Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson búa í Bolungarvík og æfa þar þríþraut en frekar fámennt er á æfingum því þau eru bara tvö. Þau eru skráð í 3SH. Katrín sendi okkur þessa ferðasögu:
Í ullarfötum á trainer
Undirbúningurinn hófst eiginlega í janúar á þessu ári, ég er búin að
vera að basla við runners knee í eitt ár þannig ég fór varlega í
hlaupin. Ég var búin að heyra frá fyrri keppendum að hitinn í Samorin
hefði verið svakalegur í fyrra þannig ég var frekar stressuð fyrir því
og ákvað að undirbúa mig vel undir hitann. Á trainer æfingum hjólaði ég
reglulega með hitablásara og í ullarfatnaði og var alveg að grillast á
æfingum. Ég hugsa að það hafi hjálpað svolítið því mér leið mjög vel í
keppninni úti og upplifði aldrei þennan ofsahita, þrátt fyrir að
hitastigið hafi verið 34°c.
1900 metra sund
Sundið gekk ágætlega en ekki eins vel og ég ætlaði mér, var 37 min en stefndi á 34 min. Ég synti reyndar rúmlega 2 km. Sundgallinn sem ég var í reyndist vera aðeins of stór, þannig hann fylltist fljótt af vatni. Leið eins og ég væri að synda í peysu þar sem báðar ermarnar voru orðnar fullar. En það var svolítill
mótvindur og töluverður straumur í vatninu sem hægði aðeins á. En vatnið var um 20°heitt þannig það var yndislegt að synda í því, sólin skein og fuglarnir flugu fyrir ofan mann. Ég ákvað bara að njóta þess að synda og halda önduninni jafnri.
Hjól 90 km
Svo var skellt sér upp úr og beint á skiptisvæðið, ég er enn svolítill
klaufi í skiptingunum þannig ég ákvað að hlaupa í hjólaskónum allt
skiptisvæðið, þarf að æfa þetta betur. En hjólið gekk mjög vel þrátt
fyrir töluverðan mótvind á köflum og svolítið skemmdan veg. Auka
brúsinn minn flaug af hjólinu í einum hossinginum en sem betur fer
voru tvær drykkjarstöðvar eftir sem ég nýtti mér. Ég passaði mig á að
drekka vel allt hjólið, borðaði eitt orkustykki yfir hjólalegginn og
eitt gel. Hjólatíminn var 2:32.
Hlaup 21 km
Hlaupið er slakasta þrautin mín og um leið og ég stökk af hjólinu fann
ég að runners kneeið var mætt á svæðið en ég vissi alveg að verkurinn
myndi koma um leið og ég færi af hjólinu þannig hann kom mér ekki á
óvart. Ég ákvað bara að láta eins og ég fyndi ekki fyrir verkinum og
hugsaði jákvætt allan tímann. Kannski fann ég þess vegna ekki fyrir
hitanum þar sem ég var að einbeita mér að því að finna engan verk. En
ég stoppaði á hverri drykkjarstöð, fékk mér vatn, orkudrykk og banana.
Nýtti mér einnig svampa á svæðinu og kældi líkamann. Ég var með tvö
markmið í hlaupinu, það var að ganga ekkert og fara ekki yfir 6 mínútna hraða.
Þannig ég náði að klára hlaupið á 2:03 sem er um 5:52 í meðalhraða. Var
ótrúlega ánægð með það.
Ég kláraði keppnina á 5:21 min, sem er um 40-50 min betri tími en ég
kláraði Kjósarþrautina hér á Íslandi.
Ég var ótrúlega ánægð með keppnina, mun betri árangur en ég þorði að
vona, sérstaklega þar sem ég og Þorsteinn erum bara tvö að æfa í
Bolungarvík og með engan þjálfara. En erum samt skráð í 3SH og höfum
nýtt okkur þekkingu þeirra.
Þú ert alveg einstök, elsku tengdadóttir mín. Þið Steini eruð svo miklir naglar
Líkar viðLíkar við