Stiffur í stuði

Hópur vaskra kvenna hélt til strandhéraðs skammt frá Barselónuborg á Spáni í vor þar sem boðið var upp á hálfan járnmann á vegum Ironman-fyrirtækisins. -Ironman Barcelona 70.3. Þetta er saga þeirra:

Aðdragandinn

Eins og konur gera á þriðjudögum þá hittust nokkrar í kampavínsboði (lesist: fjórðu þrautinni) 24. október 2017. Þar fengu þær Guðrún og Hansína þá snilldarhugmynd að við myndum skella okkur í hálfan járnkarl í útlöndum á vordögum, þannig kæmum við okkur í form fyrir sumarið og þyrftum ekki að vera streða neitt yfir hábjargræðistímann. Korteri síðar voru flestar viðstaddar skráðar og búnar að redda sér þjálfara. Þar sem við vorum með mismunandi áherslur sóttum við í hina ýmsu þjálfara, en þeir sem komu Stiffunum á áfangastað voru Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Geir Ómarsson, Jón Oddur Guðmundsson, María Ögn Guðmundsdóttir og Stephen Patrick Bustos. Hópurinn fékk heitið Stiffurnar en aðeins fæst uppgefið í góðra vina hópi hvaðan það nafn kemur.

Við vorum misgóðar í þessum þremur greinum og sumar þurftu að læra að synda fyrir Þorláksmessusundið og aðrar að læra að hlaupa fyrir gamlárshlaupið. Þótt við séum hógværðin uppmáluð þá tókst okkur býsna vel upp í þessum keppnum. Kannski af því að við vissum að fjórða þrautin beið okkar í hvort sinn. Annars gengu æfingar vetrarins oftast vel en veikindi af ýmsum toga settu vissulega sitt strik í reikninginn, eins og búast má við á þessu landi. Við tókum líka framförum því við vorum ferlega duglegar að æfa okkur.

Fyrir keppni

Á endanum héldu átta Stiffur og eitt viðhengi til keppni á Spáni, vorum nánar tiltekið í bæ sem heitir Calella og er rétt fyrir utan Barcelona. Við mættum á miðvikudagskvöldi þannig að við höfðum þrjá heila daga fyrir keppni að fá tilfinninguna fyrir staðnum, sjónum og veðrinu. Á hótelinu okkar, sem var staðsett beint fyrir framan skiptisvæðið, fundum við tvær íslenskar stelpur sem bættust í hópinn.

Við syntum á hverjum degi í sjónum enda höfðu fæstar áður prófað sjósund og sumar voru að fara í blautgalla í fyrsta sinn. Sjórinn fór misvel í okkur en á þriðja degi vorum við margar hverjar komnar með aukið sjálfstraust í þá baráttu sem framundan var. Auk þess hjóluðum við aðeins og hlupum, en ljóst var að hitinn myndi mögulega leika okkur grátt – enda í lítilli hita-æfingu.

Áður en stóri dagurinn rann upp mætti enn ein Stiffan á svæðið og var frábært að hafa Maríu Ögn á kantinum á keppnisdag sem og þau tvö viðhengi sem hún hafði með í farteskinu – að heyra þau öskra á okkur í brautinni gaf okkur aukabensín.

Keppnisdagur 20. maí 2018

Við eyddum ekkert mörgum klukkutímum í svefn og vorum mættar í morgunmatinn kl. 4:30. Eins og venja er á svona dögum voru auðvitað allir að vonast til að geta klárað nr. 2 áður en farið var í blautbúninginn. Ekki bárust nokkrar fregnir af vandkvæðum við það.

Flestar vorum við búnar að ákveða í hvaða tímahólf við myndum koma okkur fyrir í sundinu en margir höfðu sagt okkur að fólk setti sig ávallt hólf yfir getu. Við röðuðum okkur hingað og þangað en það sem kom skemmtilega á óvart var stemningin sem keppnishaldarar bjuggu til með rokktónlist og afskaplega peppuðum kynni. Sundið gekk almennt vel og engin drukknaði en sagan segir að yfirborð sjávar hafi lækkað þar sem nokkrar drukku óþarflega mikið af Miðjarðarhafinu.

Fyrirfram vissum við að hjólaleiðin yrði erfið með rúmlega 1200 metra hækkun og ofan á hana gerði hitinn okkur aðeins erfitt fyrir. En það sem fer upp, kemur niður og það var ekkert leiðinlegt að rúlla til baka.

Já, það var heitt á okkur þennan dag eða um 24°C og sól svo við áttum flestar í „ástarhatur-sambandi“ við veðrið. Það var því mjööög næs að smella inn á sig köldum blautum svömpum á hlaupaleiðinni.

Allt utanumhald um keppnina var til fyrirmyndar og matar- og drykkjarstöðvar með góðu millibili á hjólaleið og hlaupaleið og er því óhætt að mæla eindregið með þessari keppni.

Eftir keppni

Við vorum ekki einu Íslendingarnir sem tóku þátt í IM Barcelona 70.3 heldur voru þarna nokkrir frá Ægir3 og öðrum félögum. Við borðuðum öll saman á veitingastað um kvöldið og gerðum upp daginn (hver á sinn hátt).

Það skipti okkur miklu máli að verja tæplega þremur daga saman eftir keppni – slaka, hjóla til Girona, fá sér kannski einn eða tvo og haffa gaman.  Mælum með því.

Persónur og leikendur

Það verður að segjast eins og er að það skemmdi ekkert fyrir okkur að hafa í þessum hópi reynslubolta, lækni, sjúkraþjálfara, „do-er“ og spænskumælandi. En aðalleikarar og Stiffur sem tóku þátt: Berglind Berndsen, Eva Jónasdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Helga Garðarsdóttir, Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, Jórunn Jónsdóttir, Lukka Pálsdóttir, María Sæmundsdóttir og Þóra Katrín Gunnarsdóttir.

Varastiffur sem gátu ekki tekið þátt að þessu sinni: Birna Jenna Jónsdóttir, Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Kristín Laufey Steinadóttir og María Ögn Guðmundsdóttir.

Viðbótarstiffur sem við fundum á hótelinu: Sandra Ósk Sigurðardóttir og Sigríður Erlendsdóttir.