Frá Jönköping á heimsmeistaramótið í Nice

Hjördís Ýr Ólafsdóttir segir frá:

Aðdragandinn

 Síðasta haust tók ég þátt í Ironman 70.3 Dublin. Það var eiginlega skyndiákvörðun hjá mér eftir að hafa þurft að hætta keppni á Laugarvatni vegna kulda, en ég hefði ekki verið sátt með að ljúka árinu þannig. Þrátt fyrir mikið bakslag á Laugarvatni þá náði ég mér þokkalega fljótt og gekk mjög vel í Dublin. Náði 2. sæti sem tryggði mér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Ironman 70.3 í Suður Afríku sem haldið er 1. September næstkomandi. Þegar maður tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramóti þá kemur lítið annað til greina en að fara. Fyrir þá sem þekkja fyrirkomulagið ekki þá virkar þetta þannig að aðeins örfá sæti eru fyrir hvern aldursflokk í hverri keppni, t.d. voru einungis 2 sæti fyrir minn aldursflokk (35-39) og oft bara einungis pláss fyrir fyrsta sætið. Þú verður að ákveða þig á staðnum og borga keppnisgjald, ef þú þiggur ekki sætið fær næsta sæti fyrir neðan keppnisréttinn og svo koll af kolli.

Núna í ár ákvað ég einungis að keppa erlendis þar sem ég var ekkert allt of spennt að keppa heima eftir síðasta sumar og svo hef ég takmarkaðan tíma þar sem ég vinn vaktavinnu og oft um helgar. Einnig þarf ég tíma til að sinna börnunum mínum sem eru 5 og 9 ára. Keppnin sem ég var að ljúka í Jönköping átti því eiginlega að vera undirbúningur fyrir keppnina mína í S-Afríku í stað tímabils á Íslandi því ég bjóst ekki við að fá keppnisrétt aftur, og þá á heimsmeistaramótið 2019 sem verður í Nice. Munurinn á heimsmeistaramótinu í heilum og hálfum er auðvitað vegalengdin og svo er alltaf ný staðsetning á hverju ári fyrir hálfan, á meðan heill er alltaf á Hawaii.

Ferðalagið 

Ég og bróðir minn Páll Ólafsson, ákváðum að fara saman til Jönköping. Við flugum til Stokkhólms á Föstudegi en þegar við fengum hjólin ákváðum við að athuga hvort allt væri ekki örugglega í heilu lagi þar sem við værum í Stokkhólmi og ekki langur tími í keppni. Gírskiptinn aftan á hjólinu mínu var dottinn af og jafnvel brotinn. Nett taugaáfall því ég er með Shimano Di2 frá Erninum og sá ekki að það væri eitthvað sem væri hægt að redda á þessum 4 klst sem við höfðum í borginni. Við fundum hjólabúð og fórum þangað. Það kom svo í ljós að ekkert var brotið og þeir gátu reddað okkur.

Við keyrðum til Jönköping en það tók um 3,5 tíma og á leiðinni stoppuðum við og tókum góðan sundsprett í Vatten sem var yndislegt. Dagurinn á eftir fór í að taka létta æfingu, ná í keppnisgögn og svo smá hvíld fyrir morguninn sem ekki veitti af enda ágætt ferðalag að baki, taugaspenna í kringum hjólið mitt og svo svaf ég ekki nema 2 tíma nóttina fyrir keppni.

pallihjördis

Palli og Hjördís við Vattern í Svíþjóð sem er örlítið stærra en Kleifarvatn. Þar er gott að synda. 

Keppni 

Veðrið var æðislegt en það voru um 25 gráður þegar sundinu var startað en keppnin byrjaði frekar seint eða í kringum 9 um morguninn. Það var synt í Munksjön sem er í miðbænum og áhorfendur fá gott útsýni yfir svæðið en það var synt í U. Það var rúllandi start en mér fannst samt sem áður svolítill troðningur, sérstaklega borið saman við Dublin árið áður þar sem einnig var rúllandi start. Sundið er minn versti partur svo ég er oftast bara nokkuð sátt þegar það er búið, ég kláraði á 34:20.

Það var nokkuð langt í skiptisvæðið frá vatninu en ég var í 5 mínútur og 30 sek. Mér fannst allt ganga nokkuð vel þangað til ég kom að hjólinu mínu. Ég var alveg með system til að finna það en í stressinu fann ég það svo ekki fyrr en eftir þó nokkra leit. Vonandi læri ég (og þeir sem lesa þetta) af því.

Það var byrjað á því að hjóla úr bænum og upp í sveitina en til þess þurfti að byrja í nokkrum þéttum brekkum en leiðin var mjög hæðótt og mikið af rúllandi brekkum. Ég tek oftast fram úr mörgum á hjólinu og var þessi keppni engin undantekning þar sem brekkur eru líka mér í hag. Ég er oftast mjög dugleg að borða og drekka á hjólinu en ég drakk tvo brúsa af vatni með SIS Electrolytes og svo gel frá SIS (Hreysti) eða SIS orkustangir sem hafa reynst mér vel á hjólinu. Tími: 2:38:43.

Þegar ég byrjaði að hlaupa var orðið nokkuð heitt eða um 28 gráður. Það voru hlaupnir 3 hringir í kringum Munksjön sem er vatnið sem synt var í. Nokkuð flöt braut og þvílík stemning á brautinni. Mér leið nokkuð vel og hitinn hafði ekki mjög mikil áhrif á mig en ég hellti yfir mig vatni á drykkjarstöðvunum og setti inn á mig klaka, einnig tók ég tvö gel. Hlaupatíminn var 1:41:45.

hjördísapalli

2. sæti í Ironman 70.3 Jönköping og keppnisréttur á heimsmeistaramótið í Nice 2019

Heildartíminn var 5:02:47 og endaði ég í 2. sæti í mínum flokki af 83 konum. Þegar ég kom í mark hitti ég Palla bróður minn sem var á tímanum 4:54:13. Það er gaman að taka fram að met var sett í þátttöku kvenna miðað við karla í þessari keppni, og það voru einnig fleiri Íslendingar í þessari keppni aðrir en við. Einnig vann ég mér inn keppnisrétt fyrir Nice 2019 og ákvað þá að sleppa S-Afríku þar sem það er ekki alveg næsti bær og erfitt og dýrt ferðalag. Ég er strax farin hlakka til keppninnar í Nice á næsta ári.

Jönköping eftir keppni

Páll og Hjördís eftir keppni. Þau eru bæði í 3SH. Þarna er sumarveður!

Heimsmeistarinn okkar

Tvíþrautina sund+hlaup köllum við í daglegu tali Marbendil, einkum ef synt er í sjó. Á ITU Multisport-leikunum á Fjóni á vegum Alþjóðaþríþrautarsambandsins var einmitt keppt í Marbendli sem var 1 km sund og 5 km hlaup. Þar sigraði Guðlaug Edda Hannesdóttir og er því heimsmeistari í þessari grein.

Hún varð önnur upp úr vatninu (tími 12:16) en þar voru fremstu stelpurnar mjög jafnar. Hún byggði upp forskot jafnt og þétt í hlaupinu (tími 18:11) og kom í mark á tímanum 31:15 og varð 48 sek á undan Hannah Kitchen frá Bretlandi sem varð önnur. Vida Medic frá Serbíu kom svo 14 sek á eftir í 3. sæti. 

Þessi sigur setur Guðlaugu Eddu og Ísland rækilega á þríþrautarkortið en áhersla hennar er stigasöfnun fyrir Ólympíuleikana 2020. Guðlaug Edda hlaut styrk hjá Ólympíusamhjálpinni í maí en lenti svo í slysi í þríþrautarkeppni í júní og fékk heilahristing. Hún hefur lent í ýmsum hremmingum í keppnum síðustu 3 árin en nær alltaf að ná 100% fókus fljótt aftur eins og þessi sigur  sýnir sannarlega.

Þríþrautin er enn að slíta barnsskónum hér heima og þá skiptir miklu að hafa góðar fyrirmyndir varðandi nýliðun í íþróttinni. Sérsambönd sem státa af heimsmeistara eru ekki mörg en við í ÞRÍ erum þar á meðal. Ef einhver vantar hvatningu, er tilvalið að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.

Laugarvatnsþríþrautin 2018 – Keppnissaga

36063336_2113078438903626_4421715126684483584_nSigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Undanfarin þrjú ár hef ég tekið þátt í Ólympísku þríþrautinni sem haldin er á Laugarvatni og finnst þetta alltaf jafn skemmtileg keppni. Það er eitthvað heillandi við að synda í „opnu“ vatni samanborið við sundlaug en eini gallinn við slíkar keppnir á Íslandi er hitastigið, sem hefur jú verið ansi mikið að stríða landanum þetta árið – sér í lagi á suðvestur horninu þar sem hitinn hefur vart skriðið yfir 13 gráðurnar. Í ljósi þess hversu kalt vatnið var í fyrra ásamt lofthitanum, með tilheyrandi vandamálum sem sköpuðust fyrir keppendur, var ráðist í aðgerðir við að setja upp reglugerðir sem ákvarða lengd sundleggs í „opnu“ vatni á Íslandi út frá þessum tveimur mælieiningum. Þríþrautasambandið skilaði af sér góðri vinnu þar sem tafla var gefin út og kemur þar skýrt fram hvernig haga skuli keppni hvað sundið varðar – þ.e. hvort stytta þurfi úr 1500m niður í 750, eða hreinlega sleppa sundinu og breyta keppni yfir í tvíþraut. Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn nokkuð stressaður fyrir þessum breytingum daginn fyrir keppni, enda hefur sundið ætíð verið minn sterki hluti þríþrautarinnar og oft á tíðum næ ég góðu forskoti þar fyrir hjólið. Það leit út fyrir að þetta gæti sloppið, er stöðugar mælingar á vatninu nokkra daga fyrir keppni gáfu fyrirheit um að hitinn gæti verið eitthvað um 13 gráður. Íslensk veðrátta hafði þó ekki sagt sitt síðasta og kólnaði vatnið um heilar tvær gráður á jafn mörgum dögum. Um morguninn á keppnisdag voru vatnshiti og lofthitastig 11 gráður og því ákvörðun tekin um að stytta sundið í 750m. Þannig urðu vegalengdirnar því 750m sund, 40 km hjól og 10 km hlaup.

Undirbúningurinn

Ég fór í bústað í Grímsnesi daginn fyrir keppni til að koma mér í gírinn og undirbúa mig fyrir átök morgundagsins. Æfingarnar síðustu þrjár vikurnar fyrir keppni höfðu verið góðar en heildarmagnið var um 68 klst, með 17 klukkustunda „keppnisviku“. Í vetur hef ég verið að vinna mikið í æfingamagninu og álaginu en eftir að hafa kynnst æfingaaðferð norska landsliðsins í þríþraut miðast flestar æfingar hjá mér við að eyða langmestum tíma æfinganna í „léttum gír“, þ.e. það sem við köllum Zone 1 eða 2. Þessi ákefð er um 80 prósent af heildartímanum sem fer í æfingar en restin, 20 prósent, er á mjög háu álagi. Bætingarnar í sumar hafa ekki látið á sér standa eftir að hafa tekið upp þessar æfingar en mest hefur framförin verið á hjólinu. Ég var því nokkuð stressaður fyrir því að sundið yrði stytt á keppnisdag en vissi samt sem áður að ég ætti nóg inni til að geta átt góðan hjólalegg og þar með skákað helstu keppinautum mínum þegar á reyndi.

Bústaðurinn er í um hálftíma fjarlægð frá Laugarvatni og því skellti ég mér á laugardagsmorgun í smá brautarskoðun. Hjólabrautin var önnur þetta árið heldur en undanfarin ár sökum vegaframkvæmda á afleggjaranum meðfram Svínavatni en hún fól í sér snarpa hækkun upp á Lyngdalsheiði með nokkrum flötum og hröðum köflum. Ég hugsaði að þessi braut hentaði mér ágætlega, enda búinn að léttast talsvert síðan í fyrra og því gæti ég náð betri árangri í slíkri braut heldur en flatri og hraðri braut. Ég setti því upp plan um það hvernig ég ætlaði að taka brekkuna upp á heiðina, í hvaða gír væri best að vera og hvort ég gæti setið eða staðið hjólið upp brattasta hluta brekkunnar. Markmiðið var að halda að meðaltali milli 330-340W yfir hjólalegginn, með smá auka ákefð upp á heiði samanborið við leiðina niður. Ég var nokkuð sannfærður um að ég gæti haldið þessari ákefð þar sem að í meðaltali voru wöttin um 350W í hálf-Ólympísku þrautinni í Hafnarfirði þremur vikum áður. Ég var með 52-36T að framan á TT hjólinu hjá mér sem gaf mér fræðilegan hámarkshraða upp á 54 km/klst á um 90 snúningum og því vissi ég að á leiðinni niður yrði erfitt að halda sömu wöttum og upp á við (verkfræðingurinn alltaf að reikna út dæmið, sko 😛 ).
Í einfaldri mynd var því planið: meiri ákefð upp – minni niður.

Með þessa vitneskju var planið næst að fara í vatnið og finna hitastigið. Ég klæddi mig í blautgallann og prófaði að synda léttan kílómeter í vatninu. Eins og alltaf, var mjög kalt til að byrja með en svo hitnaði aðeins og mér leið bara nokkuð vel. Ég fékk síðar að vita að hitastigið hafi verið milli 11 og 12 gráður þennan dag og því var ég nokkuð viss um hvernig tilfinningin yrði daginn eftir í keppninni. Ég skellti mér svo bara í sund og fór beint í pottinn til að ná upp líkamshita aftur og hafði svo notalegan eftirmiðdag að horfa á HM og fara yfir keppnisplanið í huganum.

Kvöldið fyrir keppnisdaginn hélt ég síðan úr bústaðnum okkar og á Laugarvatn, þar sem ég átti pantaða gistingu á Hótel Eddu. Í fyrra hafði ég verið ansi tæpur á tíma, sem varð að lokum til þess að ég átti í erfiðleikum á hjólinu og hálf eyðilagði keppnina fyrir sjálfum mér. Ég ætlaði því ekki að láta það koma fyrir aftur og vildi því vera viðstaddur innan við 200 metra frá skiptisvæðinu. Það yrði því erfitt fyrir prófessorinn mig að klúðra því (aldrei segja aldrei, þó!).

Keppnisdagurinn

Ég vaknaði 6:30 um morgun keppnisdags, á sama tíma og ég vakna alla daga og var strax spenntur fyrir keppninni. Undirbúningurinn var búinn að vera góður og nú átti ég bara eftir að framkvæma og sjá hvað myndi gerast. Ég borðaði morgunmat á herberginu og hélt svo út niður á skiptisvæði. Ég náði, aldrei þessu vant að taka góða upphitun á hjólinu og var tímanlega að setja allt upp fyrir skiptingarnar. Á keppnisfundinum kom í ljós að vatnið var 11 gráður sem og lofthiti og var sundið því stytt úr 1500m í 750m. Ég var búinn að búa mig undir þetta í huganum kvöldið áður og því ekkert að gera en að sprengja þessa 750 metra og ná eins góðu forskoti og hægt var fyrir hjólið.

Eftir að hafa græjað mig í blautgallann tók ég smá upphitun í vatninu. Frá gærdeginum vissi ég að fyrstu augnablikin yrðu nokkuð erfið eftir að ég fór út í vatnið og því mikilvægt að ná að slaka á og venjast kuldanum aðeins áður en að keppnin hófst. Ég synti nokkrar ferðir fram og til baka þangað til hjartað var komið í gang og lét það þá gott heita. Þá kom ég mér upp á startlínunni og beið – 90 sekúndur í start samkvæmt þeim sem stóðu á bakkanum og sáu um ræsinguna.

Sundið

BAM – allir af stað og ég henti mér áfram með því að spyrna mér í botninn og síðan fóru hendurnar á fullt. Ég passaði mig samt að fara af stað á ekki alveg fullri ákefð enda væri þá hætta á því að ég stífnaði upp í köldu vatninu. Vöðvarnir þurfa tíma til að venjast svona háu álagi í kulda og því mikilvægt að leyfa pumpunni að ganga nokkuð vel og koma blóði til helstu vöðva án þess að sprengja sig alveg. Ég var orðinn nokkuð góður þegar ég kom að fyrstu bauju, og þá jók ég álagið örlítið. Ég hugsaði vel um öndun, slakaði á og lét mig renna vel í hverju taki, passaði olnbogann, hvernig höndin kom ofan í vatnið, engar loftbólur í lófana – allt þetta helsta. Ég hef lært það í gegnum öll mín sund-ár að um leið og maður tapar tækninni, er hraðinn fljótur að detta niður og því vildi ég halda eins mikið og ég gat í rétta tækni allan tímann og það tók á vissan hátt athyglina frá kuldanum og álaginu. Áður en langt um leið var ég kominn hringinn og kom upp úr vatninu á um það bil 9 mínútum og 30 sekúndum, meðalhraði upp á 1:15-1:16/100m sirka og nokkuð sáttur við það í þessum aðstæðum. Ég kom mér fljótt upp úr og inn á skiptisvæðið þar sem hjólið beið mín. Keppendur höfðu verið beðnir um að fara í yfirhafnir af dómurum keppninnar á hjólinu og því var ég með eina slíka. Það reyndist nokkur þrautaganga að koma sér í peysuna, enda líkaminn þreyttur, blautur og kaldur og ég að hugsa um forskotið sem ég væri að glata með því að troða mér í þessa peysu. Það gekk ekkert allt of vel framan af en loksins komst ég í yfirhöfnina og dúndraði af stað á hjólinu upp brekkuna frá skiptisvæðinu á Laugarvatni og út á veginn í átt að Lyngdalsheiði.

Hjólið

Áður en ég vissi af var ég kominn í gegnum hringtorgið hjá Laugarvatnsafleggjaranum og stefndi upp á Lyngdalsheiðina. Eftir að hafa hjólað leiðina daginn áður var ég með leiðina í hausnum og vissi hvernig ég ætlaði að tækla brekkuna og ferðirnar fram og til baka. Það gekk ágætlega að koma afli úr löppunum í hjólið og planið gekk vel þangað til ég var hér um bil hálfnaður með fyrstu ferð. Þá var eins og það drægi aðeins úr kraftinum í kerfinu hjá mér og ég náði ekki að setja það afl í hjólið sem ég var búinn að ákveða að gera, sama hvað ég reyndi. Ég náði samt að halda nokkuð góðum wöttum en var um 15-20 undir því sem ég hafði sett mér sem markmið fyrir keppnina. Nú var því bara að gera það besta úr þessu og vona að það væri nóg til að missa keppinautana ekki of nálægt mér eða langt fram úr áður en að hlaupið byrjaði. Eftir fyrstu ferð sá ég að það voru um það bil 2 mínútur í Rúnar Örn og nokkrar sekúndur í viðbót þangað til Hákon kæmi en ég vissi í raun ekki hvernig þeir höfðu synt svo ég var ekki alveg með á hreinu þarna eftir fyrsta snúning hvort þeir væru búnir að draga mikið á mig. Ég reyndi því bara að einbeita mér að pedalatækninni og að ná góðum snúningum án þess að sýra lappirnar of mikið. Ég keyrði svoleiðis niður eftir leiðina til baka og á seinni snúning, eftir einn hring af tveimur sá ég að forskotið var komið niður í 90 sekúndur á Rúnar Örn. Ég gæti því gert ráð fyrir því að hann væri að draga á mig um allavega mínútu á hverjum hring. Seinni hringinn kárnaði gamanið hjá mér en þá duttu wöttin enn meira niður á við, ég var fastur í um 315W í staðinn fyrir þessi 330-340 sem ég hafði sett mér markmið um og því reyndi ég bara mitt besta til að halda því stöðugu. Leiðin upp á heiðina í annað skiptið var þung og erfið og erfitt að koma löppunum í gírinn eftir klifrið til að ná upp hraða fyrir flata kaflann á heiðinni. Það hafðist þó og ég keyrði eins og ég gat fram að síðasta snúningi uppi á heiði. Eftir hann sá ég að ekki væru mikið meira en 30 sekúndur í Rúnar og því hafði hann dregið um mínútu á mig á þessum 10 km kafla sem lá upp á heiði. Ég keyrði því aðeins meira á hraðann eftir snúninginn og niður eftir til að reyna að lágmarka þann tíma sem hann myndi geta náð á mig fyrir hlaupið. Þegar um 7-8 km voru eftir af hjólaleggnum fór Rúnar fram úr. Ég hugsaði að nú þyrfti ég bara að keyra lappirnar út eins mikið og ég gæti og vona það besta á hlaupinu. Ég setti auka ákefð í það sem eftir var og reyndi eins og ég gat að sprengja á eftir honum, marmiðið var að hafa hann alltaf í augsýn. Það tókst svona næstum því en þegar ég var kominn aftur að hringtorginu hjá Laugarvatnsafleggjaranum var hann horfinn úr augsýn. Ég vissi þó að hann væri ekki langt undan og þegar ég kom niður á skiptisvæði var einhver sem sagði „50 sekúndur“ eða eitthvað álíka.
Ég vippaði hjólinu upp á skiptistandinn, tróð mér í hlaupaskóna – sem tók reyndar lengri tíma en ég var að vona – og hentist af stað á eftir honum á gjörsamlega búnum löppum. Næstu 10 kílómetrarnir á hlaupinu yrðu erfiðir.

Hlaupið

Ég vissi að til að ég gæti unnið þetta þyrfti ég að vera fljótur að minnka forskotið. Hlaupnir voru 3 hringir og ég get sagt að ég hugsaði ekki mikið um ákefðina fyrsta hringinn á hlaupinu, markmiðið var sett á að ná Rúnari hvað sem það kostaði og sjá svo til með restina. „Þegar fyrsti hringurinn er búinn væru hvort sem er bara rúmir 6 km eftir og það er ekki neitt hvort sem er“ – var hugarástandið á mér á þessum tímapunkti. Ég hugsaði því ekki neitt á þessum fyrsta hring og náði að draga hægt og bítandi á Rúnar þangað til ég náði honum við malarkaflann, þegar um 600 metrar eru eftir af fyrsta hring hlaupsins. Fyrsti hringurinn var kláraður á um það bil 11 mínútum og 50 sekúndum og það innihélt mínútu af auka-ferð sem var farin á fyrsta hring til að hafa hlaupið akkurat 10 km. Það var því ljóst að héldi ég þessum hraða yrði hlaupið klárað á rúmum 33 mínútum. Ég vissi strax að það væri ekki að fara að gerast enda var ég gjörsamlega sprunginn á þessum tímapunkti. Ég náði hins vegar að halda hraðanum ágætum í svona „tempo-fíling“ á hring númer 2 og hugsaði bara um það að halda tækni, líkt og ég hafði gert í sundinu. Annar hringurinn leið furðulega fljótt og þá var það bara að klára síðasta hringinn. Ég var alltaf að líta aftur til að vera viss um að ég væri öruggur með forystuna en ég vissi að ég hefði ekki mikið í endasprett í því ástandi sem ég var í á þessum tímapunkti. Lappirnar höfðu verið búnar á því áður en þetta blessaða hlaup byrjaði svo það var ekki á þær leggjandi að fara í villtar hraðabreytingar. Ég náði að halda forskotinu góðu á síðasta hringnum og kláraði hlaupið á um 35 mínútum sléttum. Svosum fínn tími gefið aðstæðurnar og nokkuð erfiða braut þannig ég var sáttur. Heildartíminn 1:51:45 með 2:10 mínútum í skiptingar sem hefði mátt framkvæma betur en heilt yfir mjög sáttur með árangurinn.

Að lokum vil ég þakka skipuleggjendum fyrir góða keppni og öllum þeim sjálfboðaliðum sem tóku þátt við að gera keppnina eins góða og hún var. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Næstu skref eru fjórar IM70.3 keppnir sem ég tek þátt í sem PRO og því um að ræða nýjan kafla í þríþrautaferli mínum en ég hef aldrei keppt áður í svo löngum keppnum, hvað þá sem atvinnumaður. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur en ég er vongóður, enda æfingarnar búnar að skila miklu í vetur nú þegar og ég sé ekki annað en að leiðin liggi uppávið næstu árin.“

Öll úrslit frá Laugarvatni: