Heimsmeistarinn okkar

Tvíþrautina sund+hlaup köllum við í daglegu tali Marbendil, einkum ef synt er í sjó. Á ITU Multisport-leikunum á Fjóni á vegum Alþjóðaþríþrautarsambandsins var einmitt keppt í Marbendli sem var 1 km sund og 5 km hlaup. Þar sigraði Guðlaug Edda Hannesdóttir og er því heimsmeistari í þessari grein.

Hún varð önnur upp úr vatninu (tími 12:16) en þar voru fremstu stelpurnar mjög jafnar. Hún byggði upp forskot jafnt og þétt í hlaupinu (tími 18:11) og kom í mark á tímanum 31:15 og varð 48 sek á undan Hannah Kitchen frá Bretlandi sem varð önnur. Vida Medic frá Serbíu kom svo 14 sek á eftir í 3. sæti. 

Þessi sigur setur Guðlaugu Eddu og Ísland rækilega á þríþrautarkortið en áhersla hennar er stigasöfnun fyrir Ólympíuleikana 2020. Guðlaug Edda hlaut styrk hjá Ólympíusamhjálpinni í maí en lenti svo í slysi í þríþrautarkeppni í júní og fékk heilahristing. Hún hefur lent í ýmsum hremmingum í keppnum síðustu 3 árin en nær alltaf að ná 100% fókus fljótt aftur eins og þessi sigur  sýnir sannarlega.

Þríþrautin er enn að slíta barnsskónum hér heima og þá skiptir miklu að hafa góðar fyrirmyndir varðandi nýliðun í íþróttinni. Sérsambönd sem státa af heimsmeistara eru ekki mörg en við í ÞRÍ erum þar á meðal. Ef einhver vantar hvatningu, er tilvalið að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.