Frá Jönköping á heimsmeistaramótið í Nice

Hjördís Ýr Ólafsdóttir segir frá:

Aðdragandinn

 Síðasta haust tók ég þátt í Ironman 70.3 Dublin. Það var eiginlega skyndiákvörðun hjá mér eftir að hafa þurft að hætta keppni á Laugarvatni vegna kulda, en ég hefði ekki verið sátt með að ljúka árinu þannig. Þrátt fyrir mikið bakslag á Laugarvatni þá náði ég mér þokkalega fljótt og gekk mjög vel í Dublin. Náði 2. sæti sem tryggði mér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Ironman 70.3 í Suður Afríku sem haldið er 1. September næstkomandi. Þegar maður tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramóti þá kemur lítið annað til greina en að fara. Fyrir þá sem þekkja fyrirkomulagið ekki þá virkar þetta þannig að aðeins örfá sæti eru fyrir hvern aldursflokk í hverri keppni, t.d. voru einungis 2 sæti fyrir minn aldursflokk (35-39) og oft bara einungis pláss fyrir fyrsta sætið. Þú verður að ákveða þig á staðnum og borga keppnisgjald, ef þú þiggur ekki sætið fær næsta sæti fyrir neðan keppnisréttinn og svo koll af kolli.

Núna í ár ákvað ég einungis að keppa erlendis þar sem ég var ekkert allt of spennt að keppa heima eftir síðasta sumar og svo hef ég takmarkaðan tíma þar sem ég vinn vaktavinnu og oft um helgar. Einnig þarf ég tíma til að sinna börnunum mínum sem eru 5 og 9 ára. Keppnin sem ég var að ljúka í Jönköping átti því eiginlega að vera undirbúningur fyrir keppnina mína í S-Afríku í stað tímabils á Íslandi því ég bjóst ekki við að fá keppnisrétt aftur, og þá á heimsmeistaramótið 2019 sem verður í Nice. Munurinn á heimsmeistaramótinu í heilum og hálfum er auðvitað vegalengdin og svo er alltaf ný staðsetning á hverju ári fyrir hálfan, á meðan heill er alltaf á Hawaii.

Ferðalagið 

Ég og bróðir minn Páll Ólafsson, ákváðum að fara saman til Jönköping. Við flugum til Stokkhólms á Föstudegi en þegar við fengum hjólin ákváðum við að athuga hvort allt væri ekki örugglega í heilu lagi þar sem við værum í Stokkhólmi og ekki langur tími í keppni. Gírskiptinn aftan á hjólinu mínu var dottinn af og jafnvel brotinn. Nett taugaáfall því ég er með Shimano Di2 frá Erninum og sá ekki að það væri eitthvað sem væri hægt að redda á þessum 4 klst sem við höfðum í borginni. Við fundum hjólabúð og fórum þangað. Það kom svo í ljós að ekkert var brotið og þeir gátu reddað okkur.

Við keyrðum til Jönköping en það tók um 3,5 tíma og á leiðinni stoppuðum við og tókum góðan sundsprett í Vatten sem var yndislegt. Dagurinn á eftir fór í að taka létta æfingu, ná í keppnisgögn og svo smá hvíld fyrir morguninn sem ekki veitti af enda ágætt ferðalag að baki, taugaspenna í kringum hjólið mitt og svo svaf ég ekki nema 2 tíma nóttina fyrir keppni.

pallihjördis

Palli og Hjördís við Vattern í Svíþjóð sem er örlítið stærra en Kleifarvatn. Þar er gott að synda. 

Keppni 

Veðrið var æðislegt en það voru um 25 gráður þegar sundinu var startað en keppnin byrjaði frekar seint eða í kringum 9 um morguninn. Það var synt í Munksjön sem er í miðbænum og áhorfendur fá gott útsýni yfir svæðið en það var synt í U. Það var rúllandi start en mér fannst samt sem áður svolítill troðningur, sérstaklega borið saman við Dublin árið áður þar sem einnig var rúllandi start. Sundið er minn versti partur svo ég er oftast bara nokkuð sátt þegar það er búið, ég kláraði á 34:20.

Það var nokkuð langt í skiptisvæðið frá vatninu en ég var í 5 mínútur og 30 sek. Mér fannst allt ganga nokkuð vel þangað til ég kom að hjólinu mínu. Ég var alveg með system til að finna það en í stressinu fann ég það svo ekki fyrr en eftir þó nokkra leit. Vonandi læri ég (og þeir sem lesa þetta) af því.

Það var byrjað á því að hjóla úr bænum og upp í sveitina en til þess þurfti að byrja í nokkrum þéttum brekkum en leiðin var mjög hæðótt og mikið af rúllandi brekkum. Ég tek oftast fram úr mörgum á hjólinu og var þessi keppni engin undantekning þar sem brekkur eru líka mér í hag. Ég er oftast mjög dugleg að borða og drekka á hjólinu en ég drakk tvo brúsa af vatni með SIS Electrolytes og svo gel frá SIS (Hreysti) eða SIS orkustangir sem hafa reynst mér vel á hjólinu. Tími: 2:38:43.

Þegar ég byrjaði að hlaupa var orðið nokkuð heitt eða um 28 gráður. Það voru hlaupnir 3 hringir í kringum Munksjön sem er vatnið sem synt var í. Nokkuð flöt braut og þvílík stemning á brautinni. Mér leið nokkuð vel og hitinn hafði ekki mjög mikil áhrif á mig en ég hellti yfir mig vatni á drykkjarstöðvunum og setti inn á mig klaka, einnig tók ég tvö gel. Hlaupatíminn var 1:41:45.

hjördísapalli

2. sæti í Ironman 70.3 Jönköping og keppnisréttur á heimsmeistaramótið í Nice 2019

Heildartíminn var 5:02:47 og endaði ég í 2. sæti í mínum flokki af 83 konum. Þegar ég kom í mark hitti ég Palla bróður minn sem var á tímanum 4:54:13. Það er gaman að taka fram að met var sett í þátttöku kvenna miðað við karla í þessari keppni, og það voru einnig fleiri Íslendingar í þessari keppni aðrir en við. Einnig vann ég mér inn keppnisrétt fyrir Nice 2019 og ákvað þá að sleppa S-Afríku þar sem það er ekki alveg næsti bær og erfitt og dýrt ferðalag. Ég er strax farin hlakka til keppninnar í Nice á næsta ári.

Jönköping eftir keppni

Páll og Hjördís eftir keppni. Þau eru bæði í 3SH. Þarna er sumarveður!