Geir Ómarsson segir frá:
Eftir að ég kláraði minn þriðja járnkarl á 11 mánuðum í Challenge Roth 2016 var planið að taka járnkarlslaust ár árið 2017. En eins og þeir vita sem klárað hafa svona keppni þá er þetta stórkostlega ávanabindandi, sérstaklega ef maður veit að maður getur gert ennþá betur (sem maður getur alltaf). Málið var að þrátt fyrir að hafa náð besta tíma Íslendings í vegalengdinni í Roth þá varð ég í 4. sæti í mínum flokki. Mig langaði semsagt fjári mikið á verðlaunapall og ég var 17 sekúndum frá því í Roth að hlaupa maraþonið á undir 3 tímum. Þetta varð að laga. Ofan á það þá var kominn töluverð pressa frá stelpunum á heimilinu að fara aftur á heimsmeistaramótið á Hawaii. Án gríns. Þær plötuðu mig í þetta. Ironman Barcelona varð fyrir valinu þar sem að sú braut er hröð og flöt en samkeppnin þar getur aftur á móti verið töluverð.
Undirbúningur
Undirbúningur fyrir Barcelona gekk mjög vel fyrir utan leiðinda lungnabólgu sem ég fékk 10 mánuðum fyrir keppni en ég var sem betur fer nokkuð snöggur að jafna mig eftir hana. Ég fór samt mjööög varlega af stað og tók langt tímabil þar sem ég æfði á mjög lágu álagi, sem ég reyndar geri alltaf snemma á undirbúningstímabilinu. Þetta geri ég til að þjálfa líkamann í að nýta fitu sem orkugjafa og á sama tíma minnka ég kolvetnin í fæðunni, sérstaklega unnin kolvetni (sykur og hveiti). Einnig er það liður í að toppa ekki of snemma og vera ekki útbrunninn áður en keppnistímabilið hefst. Þegar nær dregur keppnistímabilinu hér heima jók ég svo ákefðina í æfingum og lagði mikla áherslu á sundið og hjólið þar sem að þar taldi ég mig eiga mest inni, þ.e. æfa veikleikana. Æfingar gengu vel og ég var klár í slaginn.
Keppnin í Barcelona gekk eins og í sögu. Ég skipulagði keppnina mjög vel undirbjó mig ekki síst andlega og öll plön gengu 100% upp og eiginlega mun betur en það. Fyrsta sætið í aldursflokki var raunin á nýju meti ef met 8:39:34 skyldi kalla :-), maraþon á 2:57:09 og miði á heimsmeistarmótið á Kona-Hawaii 2018. Aloha!
Æfingar
Strax eftir keppni byrjaði undirbúningur fyrir Hawaii. Það fyrsta var að skoða tíma úr mínum aldursflokki undanfarin ár og setja sér markmið. Síðast þegar ég fór til Hawaii 2015 þá fór ég á 10:26:17. Keppnin það ár var frekar hæg m.v. önnur ár, ég þreyttur eftir IM Köben 7 vikum áður en nú hef ég ekki þá afsökun og að auki tel ég mig mun sterkari í öllum greinum í dag og ekki síst andlega sem skiptir gríðarlegu máli í svona langri og erfiðri keppni. Markmiðið núna er að fara undir 9:30 sem ætti að gefa topp 10 í aldursflokki en þá þarf allt að ganga upp. Sundið verður mjög krítískt því þrátt fyrir ótrúlega kóralla, höfrunga og Nemofiska þá er sundið á Hawaii erfitt. Sundið 2015 gekk illa 1:19 en það mun ekki endurtaka sig og markmiðið er að vera nálægt 1:05 í ár. Hjólið nálægt 5 tímum og svo hlaup um 3:10 sem ásamt skiptitímum ætti að vera undir 9:30.
Lykillinn að þessu er að synda mikið síðustu vikurnar 12 vikurnar, lykilæfingar á hjólinu eru löngu 5-6 tíma æfingarnar sem ég tek einu sinni í viku og löngu hlaupaæfingarnar á 2,5-3 tímar á frekar lágum hraða, nema einstaka sem ég tek á nálægt keppnishraða. Aðrar mikilvægar æfingar eru tempó æfingar en löngu æfingarnar eru númer 1,2 og 3 að mínu mati. Aðrir þættir sem skipta miklu máli er að fá nægilega hvíld á milli æfinga, sofa vel, fara í nudd, holl og góð næring og fullt af litlum atriðum eins og uppfærslur og búnaður á hjólinu, rakaðir fótleggir og fleira sem skila sekúndum hér og þar þegar í keppnina er komið. Hitinn og rakinn á Hawaii getur verið rosalegur, rokið oftast mikið og hlaupið nokkuð hæðótt. Það er pottþétt að þetta verður ógeðslega erfitt en þannig á þetta líka að vera og ég er algjörlega tilbúinn að takast á við það og mikið rosalega verður þetta gaman.

Ég á frábæra fjölskyldu sem styður mig 100% í þessu brölti. Ég get ekki hugsað mér að fara í svona mikilvæga keppni án þess að Hrefna, Arna og Freyja komi með og mamma og pabbi koma líka með í þetta skiptið sem verður frábært. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vita af þeim á fyrirfram ákveðnum stað í brautinni og svo að taka á móti mér í markinu í lokin.
Ekki skemmir fyrir að Viðar Bragi, Rúnar Örn og Raggi Guðmunds eru allir á leiðinni til Kona þ.a. þetta verður þvílík veisla. Stelpur! Það þarf að laga kynjahlutfallið á næsta ári, hver ætlar 2019?
Planið hjá mér er að taka járnkarlslaust ár 2019 en ég veit ekki hvort að ég fái það samþykkt á næsta fjölskyldufundi. Þið ráðið hvort að þið trúið þessu ;-).