Leiðin til Kona

Geir Ómarsson segir frá:

Eftir að ég kláraði minn þriðja járnkarl á 11 mánuðum í Challenge Roth 2016 var planið að taka járnkarlslaust ár árið 2017. En eins og þeir vita sem klárað hafa svona keppni þá er þetta stórkostlega ávanabindandi, sérstaklega ef maður veit að maður getur gert ennþá betur (sem maður getur alltaf). Málið var að þrátt fyrir að hafa náð besta tíma Íslendings í vegalengdinni í Roth þá varð ég í 4. sæti í mínum flokki. Mig langaði semsagt fjári mikið á verðlaunapall og ég var 17 sekúndum frá því í Roth að hlaupa maraþonið á undir 3 tímum. Þetta varð að laga. Ofan á það þá var kominn töluverð pressa frá stelpunum á heimilinu að fara aftur á heimsmeistaramótið á Hawaii. Án gríns. Þær plötuðu mig í þetta. Ironman Barcelona varð fyrir valinu þar sem að sú braut er hröð og flöt en samkeppnin þar getur aftur á móti verið töluverð.

Undirbúningur

Undirbúningur fyrir Barcelona gekk mjög vel fyrir utan leiðinda lungnabólgu sem ég fékk 10 mánuðum fyrir keppni en ég var sem betur fer nokkuð snöggur að jafna mig eftir hana. Ég fór samt mjööög varlega af stað og tók langt tímabil þar sem ég æfði á mjög lágu álagi, sem ég reyndar geri alltaf snemma á undirbúningstímabilinu. Þetta geri ég til að þjálfa líkamann í að nýta fitu sem orkugjafa og á sama tíma minnka ég kolvetnin í fæðunni, sérstaklega unnin kolvetni (sykur og hveiti). Einnig er það liður í að toppa ekki of snemma og vera ekki útbrunninn áður en keppnistímabilið hefst. Þegar nær dregur keppnistímabilinu hér heima jók ég svo ákefðina í æfingum og lagði mikla áherslu á sundið og hjólið þar sem að þar taldi ég mig eiga mest inni, þ.e. æfa veikleikana. Æfingar gengu vel og ég var klár í slaginn.

Keppnin í Barcelona gekk eins og í sögu. Ég skipulagði keppnina mjög vel undirbjó mig ekki síst andlega og öll plön gengu 100% upp og eiginlega mun betur en það. Fyrsta sætið í aldursflokki var raunin á nýju meti ef met 8:39:34 skyldi kalla :-), maraþon á 2:57:09 og miði á heimsmeistarmótið á Kona-Hawaii 2018. Aloha!

GeirÍbarcelona

Æfingar

Strax eftir keppni byrjaði undirbúningur fyrir Hawaii. Það fyrsta var að skoða tíma úr mínum aldursflokki undanfarin ár og setja sér markmið. Síðast þegar ég fór til Hawaii 2015 þá fór ég á 10:26:17. Keppnin það ár var frekar hæg m.v. önnur ár, ég þreyttur eftir IM Köben 7 vikum áður en nú hef ég ekki þá afsökun og að auki tel ég mig mun sterkari í öllum greinum í dag og ekki síst andlega sem skiptir gríðarlegu máli í svona langri og erfiðri keppni. Markmiðið núna er að fara undir 9:30 sem ætti að gefa topp 10 í aldursflokki en þá þarf allt að ganga upp. Sundið verður mjög krítískt því þrátt fyrir ótrúlega kóralla, höfrunga og Nemofiska þá er sundið á Hawaii erfitt. Sundið 2015 gekk illa 1:19 en það mun ekki endurtaka sig og markmiðið er að vera nálægt 1:05 í ár. Hjólið nálægt 5 tímum og svo hlaup um 3:10 sem ásamt skiptitímum ætti að vera undir 9:30.
Lykillinn að þessu er að synda mikið síðustu vikurnar 12 vikurnar, lykilæfingar á hjólinu eru löngu 5-6 tíma æfingarnar sem ég tek einu sinni í viku og löngu hlaupaæfingarnar á 2,5-3 tímar á frekar lágum hraða, nema einstaka sem ég tek á nálægt keppnishraða. Aðrar mikilvægar æfingar eru tempó æfingar en löngu æfingarnar eru númer 1,2 og 3 að mínu mati. Aðrir þættir sem skipta miklu máli er að fá nægilega hvíld á milli æfinga, sofa vel, fara í nudd, holl og góð næring og fullt af litlum atriðum eins og uppfærslur og búnaður á hjólinu, rakaðir fótleggir og fleira sem skila sekúndum hér og þar þegar í keppnina er komið. Hitinn og rakinn á Hawaii getur verið rosalegur, rokið oftast mikið og hlaupið nokkuð hæðótt. Það er pottþétt að þetta verður ógeðslega erfitt en þannig á þetta líka að vera og ég er algjörlega tilbúinn að takast á við það og mikið rosalega verður þetta gaman.

Geir og fjölskylda
Arna og Freyja, Geir og Hrefna.

Ég á frábæra fjölskyldu sem styður mig 100% í þessu brölti. Ég get ekki hugsað mér að fara í svona mikilvæga keppni án þess að Hrefna, Arna og Freyja komi með og mamma og pabbi koma líka með í þetta skiptið sem verður frábært. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vita af þeim á fyrirfram ákveðnum stað í brautinni og svo að taka á móti mér í markinu í lokin.

Ekki skemmir fyrir að Viðar Bragi, Rúnar Örn og Raggi Guðmunds eru allir á leiðinni til Kona þ.a. þetta verður þvílík veisla. Stelpur! Það þarf að laga kynjahlutfallið á næsta ári, hver ætlar 2019?

Planið hjá mér er að taka járnkarlslaust ár 2019 en ég veit ekki hvort að ég fái það samþykkt á næsta fjölskyldufundi. Þið ráðið hvort að þið trúið þessu ;-).

Bæting í Kaupmannahöfn

Hvernig segir maður keppnissögu? Mér finnst gott að skrifa nokkur orð til að muna betur upplifunina. Eftir Ironman Barcelona var ég ekki alveg viss að taka heilan strax aftur. Skráði mig í hálfan Ironman í slóvakíu í maí. Svo þegar við Birna María Karlsdóttir vorum á leiðinni norður um páskana viðra ég þessa hugmynd að langaði að nýta þetta góða form eftir að myndi klára hálfan í maí. Lagði til IM köben og mín jánkaði strax. Það kom mér opna skjöldu að hún skildi jánka strax.. ég skráði mig því í Staðarskála í hrútafirði áður en hún myndi fatta hvað hún hafði gert… Það sem ég er heppinn að vera giftur henni.. Svona æfingar sem fylgja svona ,,vitleysu“ er ekki fyrir hvern sem er að skilja. En þetta gefur manni svo ógeðslega mikið að fá öll þessi velíðunar hormón eftir æfingar að þið skuluð ekki prófa þetta 😁 Þannig það byrjaði sami rúnturinn.. hjóla Hvalfjörðinn.. hjóla til Sunny kef, hjóla til Þorlákshafnar.. hlaupa útum allar trissur.. synda í Hafravatni og Nauthólsvík.. taka pulsu rúnta á Krísuvíkur vegi.. hitta frábært fólk í Ægir3 og vera með skemmtilegu vitleysingunum í þríþrautadeild Kiwanis klúbbs Mosfellsbæjar.

Þegar nær dróg keppni fann ég að formið var orðið mun betra en í Barcelona. Svo ég reyndi að stýra væntingunum. Draumurinn er auðvitað að vera undir 10klst og á góðum degi ef allt gengi upp gæti það gengið.. Dagarnir í Köben voru góðir. Var í góðu yfirlæti hjá Kristin Anna Einarsdóttirfrænku systur mömmu og Palla. Tók góðar æfingar og heimsótti gamla skólan minn þegar ég var 12 år gammel og við bjuggum í Trørød. Færði mig svo uppá hótel nálægt keppnisstað daginn fyrir keppni.

Ég var óvenju rólegur fyrir þessa keppni. Ekki sama stressið. Veit að Birna þolir ekki þessa samlíkingu.. Alveg eins og þegar við eignuðumst barn númer tvö. Þá var ég sultu slakur eins og nú. Birna kominn með talsverða samdrætti og við á leiðinni uppá spítala.. segi við hana að ætla ekki gera sömu mistök og við fyrsta barn, að taka ekkert nesti. Þá var ég mjög svangur og vantaði samlokurnar mínar og monster… svo ég stoppa á N1 með hana öskrandi.. segi við hana: þetta er alltí lagi barnið kemur ekki strax. Ætla ná mér samloku, súkkulaði og kók og monster.. vilt þú eitthvað.. B: Drífðu þig! Í hvössum tón. Því gekk þetta mun betur hér í annað skiptið. Svaf betur Og náði að njóta mun meira.

Sund 3800 metrar

Það var fínt veður á keppnisdag. 21 gráða og 4-7m/s suðvestanátt. Smá gárur í sjónum. Hefði getað verið verra. Sundið gekk framar vonum. Skráði mig í hraðara hólf og viti menn.. hélt mig í þeim tímaramma þó ég synti næstum í vitlausa átt og stúlka á kajak bankaði í hausinn á mér og benti mér á rétta leið. Náði drafti svona helminginn af tímanum. Kitlaði einn mann svo mikið að hann stoppaði og öskraði á mig. Held að hann hafi sagt: hvad fand laver du! Ég stefndi á 1:15klst en var 5 min betur. Lenti samt í undarlegum atburði. Þegar maður syndir svona. Gengur mér illa að halda stefnu. Geir var búinn að tala um brýr og aðra hluti til að stefna á. Gleymdu því…. mig minnti að það væru 2 eða 3 brýr á útleið og 3 eða 4 til baka.. ótrúlegt að hafi þetta ekki á hreinu.. svo syndi ég og syndi.. og aldrei finnst mér ég snúa við.. ég skildi þetta ekki.. svo kemur 5 brúin og ég tel mig ekki hafa ennþá snúið við.. ég var farinn að halda að myndi lenda á bellavue ströndinni þar sem pabbi sendi mig, systkini mín og Grétar frænda forðum daga.. árið 1993 að sækja íspinna á útvarpsstöð sem var að senda út á ströndinni.. íspinnarnir voru banana smokkar.. eignaðist mína fyrstu 30 smokka þarna.. 12 ára. Auðvitað þurftu ég og gretar að opna einn inná baðherbergi heima.. blása upp og svona.. nema litla systir Kristrún kallaði yfir allt hús: það er banalykt inná baði.. men..
Allavega. Ég hélt þegar ég snéri við eftir 3000m í sundi að loksins væri ég að verða hálfnaður. Shit hvað ég dansaði í vatninu þegar fattaði hið rétta… eitthvað slökknaði á mér.. sennilega fóta ofskynjunarsveppur í kítli tánni sem ég fékk í mig.

EinarSigurjónshjól

Hjól 180 km

Skipti svæði gekk vel. Stökk uppá hjól og gaf í. Hjólið gekk mjög vel. Talsverður vindur en í hagstæða átt. Hjólaði framhjá Bellevue stranden.. fékk engar gjafir.. hjólaleiðin er miklu meira rúllandi en í Barcelona. Ekki eins hröð. En að máli málanna…
Í Barca reyndi ég að pissa á hjólinu, gekk ekki. Gat haldið í mér fram að hlaupi.. núna.. gleymdu því. Var gjörsamlega að farast í þvagblöðrunni.. Var farið að hafa áhrif á hjóla læri.. svo leit aftur fyrir mig.. langt í næsta. Lét mig renna.. reyndi að pissa.. þetta er ekki auðvelt skal ég segja ykkur.. svo kom þetta.. golden shower.. nema ég pissaði svo mikið og lengi að næsti dúddi var mættur á eftir mér. Duddi með grimma rödd: what are you doing.. hann vissi það svo sem. Ég: the bike is leaking.. svo setti ég í næsta gír og strauaði áfram.. enda svona 500gr léttari.. újé.. djöfull leið mér vel þá.. jebb.. ég pissaði á mig og er stolltur að vera kominn í klúbbinn.. þarf reyndar að mastera þetta betur 😉

Maraþon

Þá varð það hlaupið. Hafði meðvitað hægt aðeins á mér til að vera betur í stakk búinn fyrir hlaupið. Var frekar ferskur og hélt mun betra pace en í Barca. Var enn undir 5:00 pace þegar var hálfnaður og það hefði skilað sub10 klst. En eins og ég hef glímt við í öllum löngum hlaupum.. þá krampa ég.. aftan í hamstring hægra meginn. Það sama gerðist í kringum 25km og því hægðist verulega á mér. Eigilega varð hlaupið mun erfiðara en í minningunni í barca.. sem er mun flatari líka.. ég eigilega varð mjög leiður þegar sá að myndi ekki ganga að ná sub10.. en það gleymdist þegar í mark var komið. Segi eins og Geir þjálfari.. þríþraut verður fíkn. Þvílíka vellíðunnar tilfinningin sem gerir þetta allt þess virði. Að setja sér háleit markmið og standast þau gefur manni ótrulega mikið í þessu lífi.. meðan engin veit hver tilgangur lífsins er.. fullt af tilgátum. Þá geri ég þetta.. kannski í minni skömmtum á næsta ári.. ég meina.. Ná Birnu í góðan bíltúr.. og allt getur gerst. En ég segi eins og áður. Eigðu góðan maka eða ekki eiga maka. Þá er hægt að fara í svona. En frúin fær bestu þakkirnar.. þá er Ægir3 með besta þjálfarann. Takk fyrir stuðninginn og æfingarnar Geir Ómarsson. Nýliðanámskeið hjá ægir3 er fimmtudaginn 6. September í fundarsal á 2. Hæð í laugardalslaug.
Hvað næst? Óákveðið en ekki hættur..

EinarSigurjónssonKaupinh1

Í stuttu máli:

3.8 km sund – 1 klst 10 min 
180 km hjól – 5 klst 8 min – 35 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 38 min – 5.12 min með hvern 1km
Heildartími með skiptisvæði : 10 klst 5 min
57 sæti af 263 í aldursflokki
291 sæti af uþb 2500 skráðum

Járnið í Kaupinhafn

Sunnudagurinn verður mikill járndagur! Þá keppa þessi í Kaupmannahafnarjárninu.

431 Stefan Karl Saevarsson   M35-39 Bronze Heleneholms Tri Team ISL (Iceland)
432 Benedikt Sigurdsson       M50-54 Bronze ISL (Iceland
2477 Margret Palsdottir         F40-44 Thriko ISL (Iceland)
2478 Hafdis Helgadottir        F40-44 ISL (Iceland)
2479 Didrik Stefansson          M30-34 ISL (Iceland)
2480 Runar Orn Agustsson M30-34 ISL (Iceland)
2481 Leó Einarsson               M30-34 ISL (Iceland)
2482 Einar Sigurjónsson        M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2483 Arnar Ingolfsson           M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2484 Solvi Thordarson          M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2485 Johannes Gunnarsson    M35-39 ISL (Iceland)
2486 Helgi Snæbjörnsson      M40-44 Vejen Tri og Motion ISL (Iceland)
2487 Ragnar Gudmundsson M50-54 ISL (Iceland)
2488 Sveinn Simonarson       M55-59 3SH ISL (Iceland)
2489 Bogi Jonsson                 M60-64 ISL (Iceland)

Við mörlandar fjölmenntum fyrst til Kaupmannahafnar 2010 og það þótti svo fréttnæmt að baksíða Moggans birti þetta viðtal við Vigni og Karen.

Vignir ogKaren 2010

2015 var gott ár fyrir okkur. Þá komst Geir Ómarsson til Kona.

Screenshot 2015-08-23 14.20.06Í gær fór fram Járnmannskeppni í Kaupmannahöfn, þar sem syntir eru 3,8 km í sjó, hjólaðir 180 km um Sjáland og nágrenni og endað á maraþoni. Fulltrúi íslenska þríþrautarsamfélagsins var Geir Ómarsson, sem keppir fyrir Ægir3, og nægði árangur hans til sætis á heimsmeistaramótinu á Havaí sem fer fram í október ár hvert og þykir mikil vegsemd að komast þangað. Árangur Geirs var sem hér segir:geirkoben

Þetta er þriðji besti árangur Íslendings í járnmanni en besta tímann(8:56;29) á Stefán Guðmundsson sem hann setti í Kaupmannahöfn í fyrra. Með þessum árangri er Geir sá fimmti sem vinnur sér inn keppnisrétt í Kona.

Maraþontími Geirs er sá sjötti besti í keppninni í Kaupmannahöfn og hefði dugað í verðlaunasæti í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. En þar þurftu keppendur víst ekki að synda og hjóla í rúma sex tíma fyrst.

Á meðfylgjandi mynd sést Geir á endasprettinum og gleðin leynir sér ekki þegar hann stekkur yfir marklínuna.

2016 gerði Rúnar Örn góða reisu til Kaupmannahafnar:

11 Íslendingar glímdu við danska járnið í dag.

runaraskiptisvæði

Fremstur í flokki þeirra var Rúnar Örn Ágústsson (Breiðablik) sem synti á 58,39 mínútum, hjólaði á 4:37,49 og hljóp maraþonið á 3:02,49. Heildartími hans er 8 klukkustundir, 43 mínútur og 31 sekúnda. Þessi árangur skilar honum í 14. sæti í heildina og silfri í aldursflokkinum 30-34 ára sem þýðir sæti á heimsmeistaramótinu í Kona á Havaí.

Þetta er gaman að rifja upp í tilefni sunnudagsins. Væntanlega vöknum við snemma sem heima sitjum, tékkum á sundtímum félaga okkar og tökum svo sunnudagsæfinguna með þau hjóla.

Hamfarasaga nýliðans

Ég er ekki íþróttakona.
Þess vegna er erfitt að útskýra stundarbrjálæðið sem heltók mig þegar ég skráði mig í sprettþraut Þríþrautarsambandsins í Kjós (sem ég nefni Járndreng). Ætli það sé ekki blanda af hvatvísi, áhættusækni og ævilangri minnimáttarkennd gagnvart öllu afreksíþróttafólkinu í fjölskyldunni sem þar hafi spilað sterkast inn í. Í öllu falli skráði ég mig, mætti og þreytti þessa snarbrjáluðu keppni og sé ekki eftir því. Það er jú ekkert minna en tjúllun að flétta saman þremum níðþungum íþróttategundum svo úr verður sársaukafull þrekraun sem minnir á fæðingu eða annars konar hreinsunareld. Enda sýnist mér bara veljast væntumþykjanlegir brjálæðingar í þetta sport, í það minnsta var hópurinn sem mætti mér á morguni keppnisdags bæði líflegur og vingjarnlegur.

Búningsherbergið
Guðrún Sóley mætti vel undirbúin og hafði búningsherbergi með sér í kassa.

Dagurinn hófst á morgunmat. Þar fékk maður smjörþefinn af kvalræði dagsins því það er erfitt verk að troða ofan í sig mörghundruð auðmeltum hitaeiningum fyrir allar aldir. Ég gerði samt mitt besta og mokaði í mig möndlusmjöri og banana svo lá við uppköstum.

Að morgni dags var haldinn fundur til að upplýsa keppendur um ferlið, sem var bæði gagnlegt og bráðnauðsynlegt fyrir byrjanda eins og mig. Aðstæður voru ágætar, örlítill grámi og gola en það kom ekki að sök. Eftir því sem nær dró keppni jókst fiðringurinn í maganum, allt í kringum mig voru Adonis-legir íþróttakappar að setja saman flókinn keppnisgalla með vönum handtökum. Eins og fram hefur komið er ég er algjör viðvaningur í þríþraut og fékk því næstum allar græjur að láni. Það tók mig drjúgt korter að troða mér í blautbúning og aðrar græjur sem þurfti til sundsins. Ég var rétt svo búin að toga sundgleraugun niður á trýnið þegar flautað var til leiks og við busluðum af stað. Hitastig Meðalfellsvatns var um 13’c og beit vel í fyrstu mínúturnar, en vandist furðu fljótt. Sundkappatorfan var snögg að taka fram úr mér meðan ég silaðist áfram með bringusundtökum sem voru kennd í barnaskóla. Einhvern veginn gekk þetta þó og ég komst í land. Þar biðu indælir áhorfendur sem hvöttu til dáða meðan maður skakklappaðist að hjólasvæði, togaði sig úr blautbúningi með gegnfrosnum höndum og hófst handa við hjólreiðar. Þó ég iðki spinning af kappi hef ég ekki sest á reiðhjól í 12 ár. Ég ákvað í aðdraganda keppninngar að vænlegast væri að spara rassinn alveg fram að keppni. Ég var því að hjóla í fyrsta sinn, á ókunnu lánshjóli og rásaði um meðan ég reyndi að finna út úr því hvernig ósköpunum maður skipti um gír. Fljótt fann ég samt taktinn og reyndi að halda eins hröðu tempói og mér var frekast unnt með vind í fangið og vitlaust stilltan hjálm. Það var ekkert minna en yndislegt að þeysa um Hvalfjörðinn, mæta nokkrum hestum og einni og einni kú og njóta náttúrunnar. Kílómetrarnir 20 voru fljótir að líða en lærin voru því fegin þegar ég kom í mark.

Einn af stærstu kostum þríþrautar er hvað manni léttir þegar einum kafla lýkur og annar tekur við, manni leiðist aldrei. Ég losaði mig við hjól og hjálm og skokkaði af stað. Aldrei nokkurn tíma hefur mér liðið eins og jafn hægfara, illa smurðum traktor eins og á fyrstu metrum þessa „hlaups“. Eftir hraða hjólreiðanna virkar hlaupahraði eins og snigilstempó, en sem fyrr vandist það eftir stutta stund. Þessa 5 kílómetra þræddi ég á hreinni undrun yfir því að ég væri í raun og veru komin í síðasta kafla þrautarinnar. Mér hafði fram að því aðeins þótt fjarstæðukenndur möguleiki að ég gæti í raun og veru komist í mark, en nú glitti aldeilis í endalínuna. Ég ákvað að njóta eins og ég mögulega gat og hlaupið varð furðu ánægjulegt. Eftir endasprett þar sem allt var lagt í sölurnar tók á móti mér brosmildur hópur, hellingur af hæ-fævum og einskær gleði. Þreytan var ljúf og góð. Síðan tók við frekara bananaát, spjall og frágangur. Það var ágætis verkefni að tína saman spjarir, græjur og dót sem maður hafði þeytt um allar trissur meðan á keppni stóð. Allt small þetta að lokum og ég gekk hamingjusöm frá keppnisstað.

Alltaf gaman að koma í mark í þríþraut!

Þó það sé í besta máta óæskilegt að fara óundirbúinn og glórulaus í keppni sem þessa, var upplifunin engu að síður frábær. Svona keppni minnir mann á frelsið sem fylgir því að búa í frískum skrokki, geta hreyft sig og spriklað og notið íslenskrar náttúru. Keppnin tengir mann rækilega við náttúruöflin og gefur manni snertingu við umhverfið sem er engu lík.

Ég vil þakka kærlega fyrir mig; alla hjálp, græjulán, hvatningu og gleði.
Aftur að ári! (kannski)

Guðrún Sóley Gestsdóttir

Kátt í Kjósinni

Þríþrautarfélögin á suðvesturhorninu héldu sameiginlega hálfólympíska þraut við Meðalfellsvatn í Kjós í dag við kjöraðstæður og þar var glatt á hjalla eins og meðfylgjandi myndir sýna.

IMG-1765
Vatnið þótti þægilega volgt, 13 gráður og keppendur þyrptust út í til að bleyta sig og venja sig við. Rásmarkið var við baujuna sem sést vinstra megin á myndinni.

En engin keppni er án starfsmanna sem bera hitann og þungann af skipulagi, undirbúningi og framkvæmd og þessi fríði hópur var mættur til starfa.

IMG-1763

Þríþraut er fjölskyldusport og tengslanetið lá víða. Margir höfðu meðferðis börn og skyldmenni og fulltrúar stórfjölskyldu Trausta Valdimarssonar voru í sólskinsskapi eftir keppnina.

IMG-1766

Og svo var komið að verðlaunaafhendingu. Hér eru allir sem fengu medalíu um hálsinn. Öll úrslit er að finna hér. Seinna verður bætt við myndum sem hirðljósmyndari ÞRÍ tók. Hákon Hrafn sigraði í opnum karlaflokki, Sigurður Tómas var annar og Ólafur Magnússon þriðji en Rannveig kom fyrst í mark í kvennaflokki, síðan Birna Íris og þá Steffi Gregersen.

IMG-1771

 

Hálfur járnmaður í Gdynia

ENE196_55283_2018Sigurður Örn segir frá:

Jæja, fyrsta 70.3 keppnin hjá mér búin og líkt og einhver ykkar hafa séð á myndbandinu sem ég setti á Facebook fyrir skömmu síðan þá var þetta ekki alveg draumakeppnin og voru nokkrir hlutir sem hefðu getað farið betur. Fyrir áhugasama þá kemur hér smá keppnissaga ásamt nokkrum orðum um undirbúninginn hjá mér síðustu vikur.

Ég tók þá ákvörðun fyrr á árinu að snúa mér að lengri keppnum á seinni hluta tímabilsins og nota keppnirnar heima til að trappa mig upp í átt að nokkrum 70.3 keppnum núna í ágúst og september. Æfingar höfðu gengið vel fyrir þessa viðburði og ég fann hvernig formið var alltaf að verða betra og betra. Síðustu þrjár vikurnar fyrir 70.3 keppnina í Gdynia var ég í Kanada hjá skyldfólki Helenu, unnustu minnar, til að venjast hitanum sem ég gæti búist við á meginlandi Evrópu á þessu mjög svo heita sumri. Það átti eftir að koma sér vel, enda var hitinn um 26-27 gráður á keppnisdag. Uppleggið hjá mér var að nota sundið mitt til að halda mig framarlega í hópnum og eiga svo góða skiptingu yfir á hjólið. Ég vissi fyrirfram að ég væri nokkuð langt frá því að vera besti hjólamaðurinn þarna, enda nokkrir af topp lengri-vegalengda þríþrautamönnum heims að keppa sem og flestir af þeim bestu í Póllandi. Hlaupið var svo bara eitt stórt spurningamerki, enda færi það alfarið eftir því hversu vel hjólið gengi upp sem og hvort næringin sem ég hafði myndi skila mér góðum út úr T2. Þar sem þetta var mín fyrsta keppni í þessari vegalengd ákvað ég að vera ekkert að ofhugsa hlutina of mikið, heldur bara að einbeita mér að því að hafa gaman af þessu.

Á keppnisdag vaknaði ég kl 06:00 og fór niður að fá mér morgunmat á hótelinu. Skellti í mig eggjahræru ásamt banana og litlu rúnstykki. Næst rölti ég út á skiptisvæði til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og koma hjólatölvunni fyrir á hjólinu. Tók pumpuna með til vonar og vara ef þrýstingurinn hefði fallið í dekkjunum yfir nóttina. Klukkan 7:40 fór ég að starthliðinu og tók létta upphitun. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af staðsetningu, þar sem við sem vorum í PRO flokki vorum bara 26 og fórum fram fyrir alla þvöguna sem myndast hafði við hliðið eftir upphitunina. Fimm mínútur í start tók ég tvö orkugel og kom mér fyrir. Ég var ekkert stressaður á þessum tímapunkti, enda vissi ég svosum ekkert út í hvað ég væri að fara. Markmiðið var þó að eiga gott sund og einbeitti ég mér þess vegna að því að eiga gott start til að geta haldið vel í fremstu menn.

Okkur var tilkynnt þegar mínúta var eftir í start og þá kom smá spenningur. Næst fengum við létta niðurtalningu og að lokum var startað með því að hleypa úr FALLBYSSU. Hún var staðsett um það bil 5 metrum frá vinstra eyranu mínu – takk fyrir – og ég fann vel fyrir þrýstingssveiflunum í loftinu þegar blessaða hljóðbylgjan hristi hljóðhimnuna mína eins og smjörpappír í 20 metrum á sekúndu. Jæja, ekkert mikið verið að pæla í því núna heldur hlupum við út í og tókum nokkur höfrungahopp þar sem að það var ansi grunnt allt að 50 metrum frá landi. Þetta var nokkuð „controlled effort“ hjá mér miðað við byrjunina í flestum styttri vegalengdunum í ITU/ETU og ég kom mér strax í lappirnar hjá Tim O‘Donnell og Nils Frommold þar sem ég gat mér til þess að þeir ættu eftir að synda nokkuð vel. Sú ákvörðun var góð þar sem við héldum okkur í um 6 manna hópi fremst allt til enda. Það var aðeins farið að síga undan hjá mér síðustu metrana og ég missti strákana aðeins frá mér undir lokin en ekki svo að það hafi skipt einhverju máli. Sundtíminn 23 mínútur og 15 sek eða um 1:13 meðal-pace á hverja 100 metra og ég var 3. eða 4. upp úr. Nokkuð gott bara og ég flýtti mér í gegnum T1 og á hjólið.

fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl
fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl

Fyrstu kílómetrarnir á hjólinu voru nokkuð þungir, það tók smá tíma að fá almennilega tilfinningu í lappirnar og ég missti nokkra fram úr á leiðinni upp nokkuð bratta brekku fyrstu 20 km af leiðinni. Fljótlega var ég kominn í 15. sæti eða svo en náði að halda því nokkuð stöðugu út hjólið. Ég passaði að huga að því að drekka reglulega og taka inn gel á 25-30 mínútna fresti (sem gæti hafa verið of langt millibil eftir á að hugsa) en ég nýtti drykkjastöðvarnar einnig í að fá mér vatn til að halda vökvabúskapnum í lagi. Ég hélt stöðugu afli út hjólalegginn framan af en markmiðið var að vera á um 290-300 wöttum. Þegar það voru komnir um 60 kílómetrar á klukkuna var ég á leiðinni að fá mér mitt þriðja gel á leiðinni. Vegurinn var fínn og umhverfið róandi og skemmtilegt – mikið af trjám og sólin skein. Það gat eiginlega ekki verið að þessi skemmtilega tilfinning gæti enst eitthvað mikið lengur en í sömu andrá og ég er að líta niður til að ná mér í gel í töskuna (og tek þá jafnframt ekki eftir holu sem er í malbikinu á miðjum veginum), dettur framdekkið niðurávið og ég hef engan tíma til að hugsa neitt annað en „f**k!!“. Sekúndubroti síðar lendi ég á öxlinni af 45 km/klst, rúlla einn hring að stöðvast svo í kantinum. Hjólið liggur í götunni um 5 metra frá mér, Garmin tölvan er horfin, gelin á víð og dreif um götuna og allt í skralli. Ég verð að segja að þetta kom mér nú ekki sérstaklega á óvart, enda er ég orðinn ansi vanur því að lítt skemmtilegir hlutir hendi mig á hjólinu, hvort sem það eru sprungin dekk, það að detta eða eitthvað annað. Ég var þó ótrúlega heppinn að sleppa með minniháttar skrámur og engin brotin bein í þessu tilfelli. En eins og almennilegum þríþrautarmanni sæmir var það nú ekki aðal áhyggjuefnið á þessum tímapunkti heldur frekar hvort það væri nú ekki ábyggilega í lagi með HJÓLIÐ. Ég rölti því að hjólinu eftir að hafa nokkuð óörugglega komið mér á fætur, athugaði gírana, dekkin og stellið og allt virtist vera í lagi. Ég þurfti reyndar að rétta stýrið af aftur, koma keðjunni aftur upp á fremra tannhjólið en það virtist vera það eina. Ótrúlegt. Ég kláraði því þessa síðustu 30 km „blindandi“, án tölvu og nokkuð fúll eftir fallið. Ég tók bara þá ákvörðun á þessum tímapunkti að klára sama hvað, það væri hvort sem er engin afsökun þar sem ég væri ekki brotinn eða meiddur og hjólið væri ennþá í gangfæru standi.

Þegar ég kom inn á skiptisvæðið fyrir T2 var ég orðinn ansi orkulaus. Ég hefði líklega þurft eitthvað meira á hjólinu eða að vera búinn að borða meira daginn áður. Hvort sem það er mun ég skoða það betur fyrir næstu keppni hjá mér en eins og margir hafa líklega upplifað í þessum lengri þríþrautum er ekkert sérstaklega gaman að hlaupa hálfmaraþon með enga orku í vöðvunum. Ég stönglaðist því í gegnum hlaupið og það var hálf niðurdrepandi að fylgjast með hraðanum hægjast og hægjast með hverjum kílómetranum. Ég var duglegur að drekka og taka inn orku á drykkjarstöðvunum en það er bara of seint þegar líkaminn er kominn í það ástand sem ég var í þarna. Að lokum komst ég í mark, kláraði þetta blessaða hálfmaraþon á 1 klst og 27 mínútum rúmum og lokatíminn um 4 klst og 20 mín. Kannski ekkert allt of slæmt miðað við að þetta var mín fyrsta 70.3 keppni en svekkjandi þar sem ég veit að ég átti mun meira inni og get ekki beðið eftir að sýna það í næstu keppnum.

Nú eru það því bara 2 vikur í hvíld og undirbúning fyrir næstu áskorun en næst er það 70.3 í Dun Laoghaire á Írlandi. Hjólið þar verður nokkuð erfitt en hækkunin á 90 km þar verður um 1400 metrar. Næringin mun því vera algjört lykilatriði. Fyrst mun ég þó taka fyrir eina keppni hérna heima til gamans, þ.e. samvinnuverkefni þríþrautafélaganna uppi í Kjós en það verður ágætis leið til að halda líkamanum í keppnisstandi á milli þessara tveggja lengri keppna.

10 tímar á viku fyrir járnmann?

Guðjón Karl Traustason segir frá:

Margir telja nauðsynlegt að æfa í 15-20 klst/viku í minnst 3 mánuði fyrir hálfan eða heilan járnmann. Sjálfur hef ég, eins og mörg okkar, ekki ótakmarkaðan tíma, enda tveggja barna faðir og í fullri vinnu. Einnig legg ég metnað í að eiginkona mín fái líka sinn frítíma. Flestir æfa ca 7-10 klst 6-9 mánuði ársins en keyra svo upp magnið síðustu þrjá mánuði fyrir keppni. Hvíldardagar verða þá fáir en tel ég það óæskilegt. Ég hvíli oftast tvo daga vikulega og þá í samráði við eiginkonuna. Æfi allt árið svipað í klukkutímum talið en ákefðin breytist og notast ég að hluta til við Trainingpeaks kerfi Þríkó.

Kjarni málsins:

Forsendur þess ná að klára Ironman og það jafnvel árlega og bara æfa 10 tíma er að gera 2-3 brickæfingar, oft langar æfingar, jafnvel í miðri viku og mesta lagi tvær sundæfingar t.d. 3x 30 mín. Stundum legg ég æfingar þannig upp að ég hjóla stutt en tek svo langt hlaup strax. Ég hvíli nánast alltaf laugardag eða sunnudag. Geri styrkjandi æfingar, bara um 10 mín í senn, fyrir eða eftir þol(endurance)æfingar. Ef álagseinkenni gera vart við sig þá hvíli ég gjarnan tvo daga þolæfingar en geri léttar styrkjandi og liðkandi æfingar í stađinn, oft án lóða. Þađ er mikill tímasparnađur ađ fara ekki í gymmiđ í 60 mín eđa svo vikulega, heldur fá áhrifin á 10 mín, 2-3 sinnum í viku Þá er bara 1 sett og hægar endurtekningar. Slíkar hreyfingar örva betur djúpu kviđ- og bakvöđva og fara líka betur međ vöđvasinamót.

Dæmigerð vika

Sund; Mánudags -og miðvikudagsmorgnar eldsnemma og syndi í 45-60 mín.  Brikkæfingar, sem eru hjól og hlaup saman eru á þriðjudögum og fimmtudögum eða föstudögum og í 2 til 4 tíma þar sem hjólið er um 60 til 70% og hlaupin 40 eða 30%. Um helgar er annar dagurinn langur, t.d. 3 eða 5 tímar hjól og 15-60 mín hlaup.  Tvisvar í mánuði hleyp ég án hjóls á undan og reyni oftast að láta hjól og hlaup fara saman. Ég er svo lánsamur að geta gert styrktaræfingar í vinnunni og geri þær allt árið. Þar fyrir utan nýtir maður lausar stundir þegar þær gefast.

Feðgar á ferð
Gutti og Ólafur Trausti

Magn og gæði

Með þessum pælingum vil ég hvetja sem flest fjölskyldufólk til ađ fælast ekki frá þátttöku í lengri þríþrautar keppnum. Þetta er afskaplega góð líkamleg og andleg endurnæring. Ég finn ekki fyrir þreytu né leiđa af æfingum en vitaskuld hef ég oft þurft ađ reyna mikiđ á líkama og sál í löngum og strembnum keppnum. Það þarf heldur ekki að taka fram að það er hægt að æfa hvenær sem er sólarhringsins. Oft getur þađ hjálpađ ađ æfa í hóp en þađ er óþarfi ađ sleppa einhverju tengt fjölskyldu og vinum út af æfingu sem verđur ađ vera á vissum tíma.  Sjálfur hef ég oft fariđ mínar eigin leiðir í æfingaferlinu. Ég hef ekki gráðu í þríþrautarþjálfun en tel mig vita nokkurn veginn hvað þarf til að klára járnmanninn og einnig hvað orsakar meiðsli því sem sjúkraþjálfari hef ég oft þurft að hlusta á eigin tuð OG farið eftir því. Mitt æfingamagn hefur vissulega ekki skilað mér toppsætum í þríþrautarkeppnum en hefur dugað mér vel í tíu ár og væntanlega um ókomna tíð. Ég hef náð að klára tíu hálfa járnmenn og stefni á fjórða heila járnið mitt í Wales á næstunni. Bestu tímarnir eru 10:30 í heilum og 5:10 í hálfum.

Ég vona að hálfur járnmaður verði aftur haldinn hérlendis. Við þurfum að vera dugleg að mæta í keppnir hér heima og það er miður að sjá að þátttakan hefur dalað í ár. En ef ekki verður af járnmanni hér heima er stefnan hjá mér að fara í slíkan utanlands og einnig heilan árlega. Ég tel ósennilegt að æfingamagnið breytist hjá mér. Þó gaman sé að fá árlega ný nöfn í okkar ágætu íþrótt, þá eru of margir sem einblína of hratt á heilan járnmann, æfa full mikið að mínu mati og halda ekki út nema í nokkur ár. Magn og gæði verður að fara saman og tíu tíma uppskriftin er ávísun á langan feril og heilan skrokk ef allt gengur eftir. Þolinmæði er dyggð.

Um höfund:

Undirritaður er 39 ára járnmaður og mikill áhugamađur um að æfa helst ekki nema 10 klst vikulega. Hef klárađ allar þríþrautar keppnir á höfuborgarsvæðinu s.l. 8 ár eđa svo, 10 hálfa og 3 heila járnmenn.