Hálfur járnmaður í Gdynia

ENE196_55283_2018Sigurður Örn segir frá:

Jæja, fyrsta 70.3 keppnin hjá mér búin og líkt og einhver ykkar hafa séð á myndbandinu sem ég setti á Facebook fyrir skömmu síðan þá var þetta ekki alveg draumakeppnin og voru nokkrir hlutir sem hefðu getað farið betur. Fyrir áhugasama þá kemur hér smá keppnissaga ásamt nokkrum orðum um undirbúninginn hjá mér síðustu vikur.

Ég tók þá ákvörðun fyrr á árinu að snúa mér að lengri keppnum á seinni hluta tímabilsins og nota keppnirnar heima til að trappa mig upp í átt að nokkrum 70.3 keppnum núna í ágúst og september. Æfingar höfðu gengið vel fyrir þessa viðburði og ég fann hvernig formið var alltaf að verða betra og betra. Síðustu þrjár vikurnar fyrir 70.3 keppnina í Gdynia var ég í Kanada hjá skyldfólki Helenu, unnustu minnar, til að venjast hitanum sem ég gæti búist við á meginlandi Evrópu á þessu mjög svo heita sumri. Það átti eftir að koma sér vel, enda var hitinn um 26-27 gráður á keppnisdag. Uppleggið hjá mér var að nota sundið mitt til að halda mig framarlega í hópnum og eiga svo góða skiptingu yfir á hjólið. Ég vissi fyrirfram að ég væri nokkuð langt frá því að vera besti hjólamaðurinn þarna, enda nokkrir af topp lengri-vegalengda þríþrautamönnum heims að keppa sem og flestir af þeim bestu í Póllandi. Hlaupið var svo bara eitt stórt spurningamerki, enda færi það alfarið eftir því hversu vel hjólið gengi upp sem og hvort næringin sem ég hafði myndi skila mér góðum út úr T2. Þar sem þetta var mín fyrsta keppni í þessari vegalengd ákvað ég að vera ekkert að ofhugsa hlutina of mikið, heldur bara að einbeita mér að því að hafa gaman af þessu.

Á keppnisdag vaknaði ég kl 06:00 og fór niður að fá mér morgunmat á hótelinu. Skellti í mig eggjahræru ásamt banana og litlu rúnstykki. Næst rölti ég út á skiptisvæði til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og koma hjólatölvunni fyrir á hjólinu. Tók pumpuna með til vonar og vara ef þrýstingurinn hefði fallið í dekkjunum yfir nóttina. Klukkan 7:40 fór ég að starthliðinu og tók létta upphitun. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af staðsetningu, þar sem við sem vorum í PRO flokki vorum bara 26 og fórum fram fyrir alla þvöguna sem myndast hafði við hliðið eftir upphitunina. Fimm mínútur í start tók ég tvö orkugel og kom mér fyrir. Ég var ekkert stressaður á þessum tímapunkti, enda vissi ég svosum ekkert út í hvað ég væri að fara. Markmiðið var þó að eiga gott sund og einbeitti ég mér þess vegna að því að eiga gott start til að geta haldið vel í fremstu menn.

Okkur var tilkynnt þegar mínúta var eftir í start og þá kom smá spenningur. Næst fengum við létta niðurtalningu og að lokum var startað með því að hleypa úr FALLBYSSU. Hún var staðsett um það bil 5 metrum frá vinstra eyranu mínu – takk fyrir – og ég fann vel fyrir þrýstingssveiflunum í loftinu þegar blessaða hljóðbylgjan hristi hljóðhimnuna mína eins og smjörpappír í 20 metrum á sekúndu. Jæja, ekkert mikið verið að pæla í því núna heldur hlupum við út í og tókum nokkur höfrungahopp þar sem að það var ansi grunnt allt að 50 metrum frá landi. Þetta var nokkuð „controlled effort“ hjá mér miðað við byrjunina í flestum styttri vegalengdunum í ITU/ETU og ég kom mér strax í lappirnar hjá Tim O‘Donnell og Nils Frommold þar sem ég gat mér til þess að þeir ættu eftir að synda nokkuð vel. Sú ákvörðun var góð þar sem við héldum okkur í um 6 manna hópi fremst allt til enda. Það var aðeins farið að síga undan hjá mér síðustu metrana og ég missti strákana aðeins frá mér undir lokin en ekki svo að það hafi skipt einhverju máli. Sundtíminn 23 mínútur og 15 sek eða um 1:13 meðal-pace á hverja 100 metra og ég var 3. eða 4. upp úr. Nokkuð gott bara og ég flýtti mér í gegnum T1 og á hjólið.

fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl
fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl

Fyrstu kílómetrarnir á hjólinu voru nokkuð þungir, það tók smá tíma að fá almennilega tilfinningu í lappirnar og ég missti nokkra fram úr á leiðinni upp nokkuð bratta brekku fyrstu 20 km af leiðinni. Fljótlega var ég kominn í 15. sæti eða svo en náði að halda því nokkuð stöðugu út hjólið. Ég passaði að huga að því að drekka reglulega og taka inn gel á 25-30 mínútna fresti (sem gæti hafa verið of langt millibil eftir á að hugsa) en ég nýtti drykkjastöðvarnar einnig í að fá mér vatn til að halda vökvabúskapnum í lagi. Ég hélt stöðugu afli út hjólalegginn framan af en markmiðið var að vera á um 290-300 wöttum. Þegar það voru komnir um 60 kílómetrar á klukkuna var ég á leiðinni að fá mér mitt þriðja gel á leiðinni. Vegurinn var fínn og umhverfið róandi og skemmtilegt – mikið af trjám og sólin skein. Það gat eiginlega ekki verið að þessi skemmtilega tilfinning gæti enst eitthvað mikið lengur en í sömu andrá og ég er að líta niður til að ná mér í gel í töskuna (og tek þá jafnframt ekki eftir holu sem er í malbikinu á miðjum veginum), dettur framdekkið niðurávið og ég hef engan tíma til að hugsa neitt annað en „f**k!!“. Sekúndubroti síðar lendi ég á öxlinni af 45 km/klst, rúlla einn hring að stöðvast svo í kantinum. Hjólið liggur í götunni um 5 metra frá mér, Garmin tölvan er horfin, gelin á víð og dreif um götuna og allt í skralli. Ég verð að segja að þetta kom mér nú ekki sérstaklega á óvart, enda er ég orðinn ansi vanur því að lítt skemmtilegir hlutir hendi mig á hjólinu, hvort sem það eru sprungin dekk, það að detta eða eitthvað annað. Ég var þó ótrúlega heppinn að sleppa með minniháttar skrámur og engin brotin bein í þessu tilfelli. En eins og almennilegum þríþrautarmanni sæmir var það nú ekki aðal áhyggjuefnið á þessum tímapunkti heldur frekar hvort það væri nú ekki ábyggilega í lagi með HJÓLIÐ. Ég rölti því að hjólinu eftir að hafa nokkuð óörugglega komið mér á fætur, athugaði gírana, dekkin og stellið og allt virtist vera í lagi. Ég þurfti reyndar að rétta stýrið af aftur, koma keðjunni aftur upp á fremra tannhjólið en það virtist vera það eina. Ótrúlegt. Ég kláraði því þessa síðustu 30 km „blindandi“, án tölvu og nokkuð fúll eftir fallið. Ég tók bara þá ákvörðun á þessum tímapunkti að klára sama hvað, það væri hvort sem er engin afsökun þar sem ég væri ekki brotinn eða meiddur og hjólið væri ennþá í gangfæru standi.

Þegar ég kom inn á skiptisvæðið fyrir T2 var ég orðinn ansi orkulaus. Ég hefði líklega þurft eitthvað meira á hjólinu eða að vera búinn að borða meira daginn áður. Hvort sem það er mun ég skoða það betur fyrir næstu keppni hjá mér en eins og margir hafa líklega upplifað í þessum lengri þríþrautum er ekkert sérstaklega gaman að hlaupa hálfmaraþon með enga orku í vöðvunum. Ég stönglaðist því í gegnum hlaupið og það var hálf niðurdrepandi að fylgjast með hraðanum hægjast og hægjast með hverjum kílómetranum. Ég var duglegur að drekka og taka inn orku á drykkjarstöðvunum en það er bara of seint þegar líkaminn er kominn í það ástand sem ég var í þarna. Að lokum komst ég í mark, kláraði þetta blessaða hálfmaraþon á 1 klst og 27 mínútum rúmum og lokatíminn um 4 klst og 20 mín. Kannski ekkert allt of slæmt miðað við að þetta var mín fyrsta 70.3 keppni en svekkjandi þar sem ég veit að ég átti mun meira inni og get ekki beðið eftir að sýna það í næstu keppnum.

Nú eru það því bara 2 vikur í hvíld og undirbúning fyrir næstu áskorun en næst er það 70.3 í Dun Laoghaire á Írlandi. Hjólið þar verður nokkuð erfitt en hækkunin á 90 km þar verður um 1400 metrar. Næringin mun því vera algjört lykilatriði. Fyrst mun ég þó taka fyrir eina keppni hérna heima til gamans, þ.e. samvinnuverkefni þríþrautafélaganna uppi í Kjós en það verður ágætis leið til að halda líkamanum í keppnisstandi á milli þessara tveggja lengri keppna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s