Hamfarasaga nýliðans

Ég er ekki íþróttakona.
Þess vegna er erfitt að útskýra stundarbrjálæðið sem heltók mig þegar ég skráði mig í sprettþraut Þríþrautarsambandsins í Kjós (sem ég nefni Járndreng). Ætli það sé ekki blanda af hvatvísi, áhættusækni og ævilangri minnimáttarkennd gagnvart öllu afreksíþróttafólkinu í fjölskyldunni sem þar hafi spilað sterkast inn í. Í öllu falli skráði ég mig, mætti og þreytti þessa snarbrjáluðu keppni og sé ekki eftir því. Það er jú ekkert minna en tjúllun að flétta saman þremum níðþungum íþróttategundum svo úr verður sársaukafull þrekraun sem minnir á fæðingu eða annars konar hreinsunareld. Enda sýnist mér bara veljast væntumþykjanlegir brjálæðingar í þetta sport, í það minnsta var hópurinn sem mætti mér á morguni keppnisdags bæði líflegur og vingjarnlegur.

Búningsherbergið
Guðrún Sóley mætti vel undirbúin og hafði búningsherbergi með sér í kassa.

Dagurinn hófst á morgunmat. Þar fékk maður smjörþefinn af kvalræði dagsins því það er erfitt verk að troða ofan í sig mörghundruð auðmeltum hitaeiningum fyrir allar aldir. Ég gerði samt mitt besta og mokaði í mig möndlusmjöri og banana svo lá við uppköstum.

Að morgni dags var haldinn fundur til að upplýsa keppendur um ferlið, sem var bæði gagnlegt og bráðnauðsynlegt fyrir byrjanda eins og mig. Aðstæður voru ágætar, örlítill grámi og gola en það kom ekki að sök. Eftir því sem nær dró keppni jókst fiðringurinn í maganum, allt í kringum mig voru Adonis-legir íþróttakappar að setja saman flókinn keppnisgalla með vönum handtökum. Eins og fram hefur komið er ég er algjör viðvaningur í þríþraut og fékk því næstum allar græjur að láni. Það tók mig drjúgt korter að troða mér í blautbúning og aðrar græjur sem þurfti til sundsins. Ég var rétt svo búin að toga sundgleraugun niður á trýnið þegar flautað var til leiks og við busluðum af stað. Hitastig Meðalfellsvatns var um 13’c og beit vel í fyrstu mínúturnar, en vandist furðu fljótt. Sundkappatorfan var snögg að taka fram úr mér meðan ég silaðist áfram með bringusundtökum sem voru kennd í barnaskóla. Einhvern veginn gekk þetta þó og ég komst í land. Þar biðu indælir áhorfendur sem hvöttu til dáða meðan maður skakklappaðist að hjólasvæði, togaði sig úr blautbúningi með gegnfrosnum höndum og hófst handa við hjólreiðar. Þó ég iðki spinning af kappi hef ég ekki sest á reiðhjól í 12 ár. Ég ákvað í aðdraganda keppninngar að vænlegast væri að spara rassinn alveg fram að keppni. Ég var því að hjóla í fyrsta sinn, á ókunnu lánshjóli og rásaði um meðan ég reyndi að finna út úr því hvernig ósköpunum maður skipti um gír. Fljótt fann ég samt taktinn og reyndi að halda eins hröðu tempói og mér var frekast unnt með vind í fangið og vitlaust stilltan hjálm. Það var ekkert minna en yndislegt að þeysa um Hvalfjörðinn, mæta nokkrum hestum og einni og einni kú og njóta náttúrunnar. Kílómetrarnir 20 voru fljótir að líða en lærin voru því fegin þegar ég kom í mark.

Einn af stærstu kostum þríþrautar er hvað manni léttir þegar einum kafla lýkur og annar tekur við, manni leiðist aldrei. Ég losaði mig við hjól og hjálm og skokkaði af stað. Aldrei nokkurn tíma hefur mér liðið eins og jafn hægfara, illa smurðum traktor eins og á fyrstu metrum þessa „hlaups“. Eftir hraða hjólreiðanna virkar hlaupahraði eins og snigilstempó, en sem fyrr vandist það eftir stutta stund. Þessa 5 kílómetra þræddi ég á hreinni undrun yfir því að ég væri í raun og veru komin í síðasta kafla þrautarinnar. Mér hafði fram að því aðeins þótt fjarstæðukenndur möguleiki að ég gæti í raun og veru komist í mark, en nú glitti aldeilis í endalínuna. Ég ákvað að njóta eins og ég mögulega gat og hlaupið varð furðu ánægjulegt. Eftir endasprett þar sem allt var lagt í sölurnar tók á móti mér brosmildur hópur, hellingur af hæ-fævum og einskær gleði. Þreytan var ljúf og góð. Síðan tók við frekara bananaát, spjall og frágangur. Það var ágætis verkefni að tína saman spjarir, græjur og dót sem maður hafði þeytt um allar trissur meðan á keppni stóð. Allt small þetta að lokum og ég gekk hamingjusöm frá keppnisstað.

Alltaf gaman að koma í mark í þríþraut!

Þó það sé í besta máta óæskilegt að fara óundirbúinn og glórulaus í keppni sem þessa, var upplifunin engu að síður frábær. Svona keppni minnir mann á frelsið sem fylgir því að búa í frískum skrokki, geta hreyft sig og spriklað og notið íslenskrar náttúru. Keppnin tengir mann rækilega við náttúruöflin og gefur manni snertingu við umhverfið sem er engu lík.

Ég vil þakka kærlega fyrir mig; alla hjálp, græjulán, hvatningu og gleði.
Aftur að ári! (kannski)

Guðrún Sóley Gestsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s