Frá Kaupmannahöfn til Kona

Aðdragandinn

Gísli hafði samband og bað mig um að skrifa nokkur orð um keppnina mína núna í Köben. Það hljómar mjög einfalt en þessi keppni og aðdragandinn að henni hefur verið mun flóknari en ég hef gefið upp en ætla núna að láta allt flakka.

Á ströndinni á Kona 2016 eftir keppnina var það ákveðið að næsta stóra markmið væri Kona 2018 og komast á verðlaunapall. Leiðin þangað var plottuð upp fram að jólum ásamt þeim breytingum sem við töldum nauðsynlegar til að ná þessu.

Í stuttu máli var það eftirfarandi:

• Minnka við mig vinnu til að geta æft meira án þess að það bitni á fjölskyldu þar sem á þeim tíma áttum við að verða 2 ára og annað á leiðinni.
• Fá mér þjálfara til að leiðbeina mér á þessari vegferð.
• Vinna mér inn keppnisrétt í Ironman Barcelona til að hafa 1 ár til að undirbúa mig fyrir Kona.

Frá og með janúar og út júní 2017 var ég í 60% starfi hjá Mannvit og gekk það vel en andlega var það mjög slítandi að sinna vinnunni og á sama tíma að koma öllum æfingum fyrir áður en Dagný Katla væri búin í leikskólanum svo frá júlí og fram að Ironman Barcelona sem var í lok september tók ég mér alveg frí frá vinnu til að geta æft á milli 8-16 á daginn. Það var mikill munur og náði ég inn miklu magni ásamt miklum gæðum þar sem recovery er mun betra þegar verkefni dagsins er ekkert annað en að æfa. Að hafa fengið að prófa þetta eru algjör forréttindi og endurspeglar vel þann gríðarlega stuðning og skilning sem ég hef frá Önnu Jónu því eins og við segjum við erum saman í þessu og þetta er eitt af fjölmörgu skiptum sem hún sýnir það í verki.

Ég gaf mér nokkrar vikur til að finna þjálfara með það að markmiði að geta byrjað að vinna með honum í janúar 2017. Eftir að hafa búið til lista af nokkrum sem mér fannst koma til greina og fór gott orð af valdi ég David (http://www.tilburydavis.com/) og var svo heppinn að það var laust pláss hjá honum. Ég er eflaust ekki léttasta týpan til að þjálfa eftir að hafa séð um þetta fyrir mig sjálfur í nokkur ár en ég hafði lofað mér og Önnu því að ég myndi setja allt mitt traust á hann sem ég gerði. Ég hef lært rosalega mikið í gegnum þetta tímabil með honum ásamt því að ná miklum framförum í öllum greinum og þá sérstaklega hjóli og hlaupi.

Þriðji punkturinn að ná mér inn í keppnisrétt í Barcelona gekk ekki upp og eins og flestir eflaust vita hef ég verið að glíma við næringavandamál í þessum lengri keppnum sem náðu hámarki í þessari keppni í Barcelona..

Ég fór MJÖG langt niður andlega eftir Barcelona keppnina og lengi á eftir átti ég mjög erfitt með að tala um hana án þess að detta aftur niður andlega. Þarna kom Anna sterk inn og fyrstu dagana eftir keppni fórum við yfir allt sem endaði með því að ég lofaði henni að þetta væri ekki endirinn á Kona 2018 markmiðinu og ég myndi fara til sálfræðings til að ræða þetta við hlutlausan aðila og hjálpaði það mjög mikið og er ég töluvert sterkari andlega eftir þá vinnu.

Eftir Barcelona tók ég mér 1 viku í frí frá æfingum og kom mér svo af stað því framhaldið var óljóst en við vorum að skoða tvo möguleika sem var keppni í lok nóvember eða apríl 2018. Því miður var uppselt í allar keppnir í lok nóvember svo þá var ákveðið að taka Suður-Afríku í apríl 2018 sem gæfi enn góðan tíma í undirbúning fyrir Kona.

En eins og ég er þá vildi ég fá staðfestingu að ég væri enn í góðu formi þrátt fyrir að æfingamagn væri orðið meira en helmingi minna. Ég notaði Gamlárshlaup ÍR og svo 12min og 4min power test á hjólinu viku seinna sem fyrsta check point uppá hvort ég ætti að halda áfram í þessu. Línan sem þurfti að nást til ég myndi gefa sjálfum mér grænt ljós á að halda áfram voru eftirfarandi:

• Undir 35min í 10km (átti best á þeim tíma 36:38 frá 2016)
• Ná sama eða hærra og besta power test 2017

runartafla

Þetta náðist, hljóp á 34:43, 400W í 12min og 452W í 4min. Það sem David segir eftir seinna testið lýsir vel hvernig staðan var.

runarhleypur
En eftir þetta byrjar tímabil sem vonandi klárast núna 10. september nk. og er það að þá verðum við vonandi kominn með dagvistun fyrir Emblu Björgu. Planið var að hún myndi byrja hjá dagmömmu í janúar og svo leikskóla í lok ágúst sem við vorum nokkuð viss um að myndi ganga. En á þessum tíma var ómögulegt að fá dagmömmu og eftir ítrekaðar tilraunir í nokkra mánuði gáfumst við upp og fundum aðra lausn sem var að fá Au-Pair stelpu til okkar. Hún kom um miðjan janúar en enntist því miður ekki lengi því eftir rúmar 5 vikur fer hún til baka vegna þess að hún var með heimþrá.

Þarna var ekkert annað í stöðunni en að ég tók mér launalaust frí frá vinnu frá miðjum febrúar og út maí til að vera með Emblu Björgu á daginn. Þetta var æðislegur tími og reyndist okkur vel. En á sama tíma þá var það augljóst að keppnisferð til Suður-Afríku var ekki inní myndinni. Þarna var ég orðinn mjög svartsýnn aftur og svipaðar tilfinningar og eftir Barcelona komu aftur upp. Enn á ný var Anna eins og klettur í gegnum þetta og eitt kvöldið eftir að þær voru sofnaðar erum við að ræða málin og skoða hvaða möguleikar væru enn í boði og sáum þá að Ironman Copenhagen var enn með laus sæti. Eftir smá spjall var það neglt – 2016 planið yrði tekið aftur.

Þetta voru blendnar tilfinningar því eftir Kona 2016 var ég handviss að ég ætlaði ekki að gera þetta aftur með svona litlum fyrirvara en á sama tíma var þetta orðinn eini möguleikinn. Ég ræddi þetta við David sem sagði að þetta gæti vel gengið.

Þrátt fyrir að vera búinn að skrá mig og kominn með nýtt markmið og mars bara rétt að byrja að þá ákvað ég að pæla ekkert í þessari keppni fyrr en eftir Íslandsmótið í TT sem væri seinasta keppnin áður en loka undirbúningur fyrir Köben ætti að byrja.

Æfingar gengu vel frá mars og út júní en æfingamagn var mun minna en ég er vanur og er meðaltal fyrir þennan tíma 10 klst og 45min. Áherslan var mikil á interval æfingar á hjóli og hlaupi til að fá sem mest út úr þeim tíma sem ég hafði.

Þessi strúktúr virkaði vel og vann ég þau 3. TT mót sem ég tók þátt í og varð Íslandsmeistari sem var eitt af markmiðum ársins.

David hafði sagt við mig að eftir Íslandsmótið í TT og fram að Köben sem eru 8 vikur þyrfti ég að finna meiri tíma fyrir lengri æfingar og koma æfingamagni uppí ca. 15klst.

Það gekk og næstu 5 vikur voru rétt yfir 16klst áður en æfingamagn minnkaði rólega fram að keppni.

Þetta tímabil gekk vel og þá sérstaklega löngu hlaupin og hjólin um helgar.

Núna var komið að keppninni og var ég mjög spenntur að komast af stað því formið hafði aldrei verið betra og hafði það verið staðfest af öllum æfingum í aðdragandanum. En til að læra af reynslunni að þá var planið að vera mjög rólegur á hjólinu til að eiga enn auðveldar með það að taka upp næringu.

Í Kaupmannahöfn

Þá kemur LOKSINS keppnissagan hugsa eflaust margir 😉
Sundið: 56:57 – Takmark: sub 60
Hér gekk allt upp. Hafði ákveðið að staðsetja mig fremst og var nr 6-12 ofan í í “Rolling Start” sem Ironman keppnir (fyrir utan Kona) nota. Eftir ca. 300m sund fann ég einn sem var að synda aðeins hraðar en ég og kom mér fyrir aftan hann og elti hann næstu 3500m. Ég hef aldrei áður náð að drafta svona vel í keppni og ég get sagt núna að það munar! Mér leið mjög vel allan tímann og kíkti meira segja nokkrum sinnum á klukkuna til að staðfesta að þetta væri nógu hratt.

runarsund.jpg

Hjól: 4:40:17 – Takmark: sub 4:35
Fyrir keppni var ég búinn að ákveða að vera mjög varkár á hjólinu því ég vildi gera allt til þess að eiga gott hlaup. Þetta gekk eftir og mér leið vel allan tímann á hjólinu. Hérna er hægt að sjá samanburð á HR á milli Köben 2016 og 2018 og eins og sést er ansi mikill munur þarna á milli.

heartraterunar

runarhjol
Hlaup: 3:18:46 – Takmark: 2:59

Hlaupið byrjaði vel og fyrstu ca. 45min var ég á réttu pace-i en samhliða því var ég farinn að finna fyrir ógleðinni sem jókst með hverri mínutu. Þegar ég var búinn með 60min á hlaupinu vissi ég að þetta yrði alls ekki minn dagur og fór bara að hugsa um að komast í mark og vona að það myndi duga fyrir Kona sæti. Það er mjög erfitt að lýsa því sem fer í gegnum hugann og tilfinninga rússíbanann sem er í gangi seinni hlutann í þessu maraþoni en það var ein hugsun sem hélt mér gangandi og var það að daginn áður fórum við með Dagnýju Kötlu í Iron Kids hlaupið þar sem hún þaut af stað og eins og gerist nokkuð oft hjá henni fer hún hraðar en fætur leyfa og flýgur á hausinn stendur upp hágrátandi, strax kominn með risa kúlu á ennið og eftir smá faðmlag heldur hún áfram og klárar með stæl. Þessi harka gaf mér mikla orku.

DagnyKatla
Michelle Vesterby og Dagný Katla. Michelle sigraði í Kaupmannahöfn í fyrra og verður í hópi vaskra kvenna í Kona í haust.

Ég kem í mark á 9:00:52, í 4 sæti í mínum aldursflokki og seinna um kvöldið vissi ég að þetta myndi duga fyrir sæti í Kona.

Ég ætlaði aldrei að skrifa þennan pistil og hefur Gísli verið að ýta við mér núna í rúmar tvær vikur um að klára þetta.

Eflaust mun einhver ekki skilja þetta, en ástæðan fyrir því hvað það hefur verið erfitt að koma þessu frá sér er að ég er ekki sáttur með þennan árangur, og fyrstu vikuna eftir keppni átti ég mjög erfitt með að taka við hamingjuóskum með flotta keppni þar sem mér fannst þetta alls ekki vel gert og hálfpartinn skammaðist mín fyrir þetta. Eins var tilfinningin daginn eftir að taka við Kona sætinu mjög blendin því síðast var ég í skýjunum að hafa náð þeim áfanga en núna var þetta mjög súrt og fannst ég ekki eiga þetta skilið eftir svona frammistöðu en inná milli skein í gegn góð tilfinning um að Kona 2018 markmiðið væri enn á lífi.

Síðan keppnin kláraðist hef ég ítrekað skoðað gögnin mín, tímana og annað til að sættast við þetta og einnig til að sjá að þó þetta hafi verið langt frá mínum besta degi að þá var þetta samt ágætis árangur. Kannski er það farið að skína í gegn en ég get verið minn versti óvinur þegar illa gengur því ég loka allt inni og fer mjög langt niðir andlega en Anna kann á mig og hefur hjálpað mér að melta þessa keppni og sjá ljósu punktana.

Einn af þeim er að 2016 fór ég sáttur til Kona en núna er hungrið mikið og tel ég niður dagana til að fá annað tækifæri til að keppa við þá bestu. Við David erum með plan, ég þarf að taka inn meiri næringu/vökva í keppninni og við öll höldum áfram með markmiðið á pall í Kona.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s