Leiðin mín í Ironman

Leiðin mín að IRONMAN byrjaði í desember 2016. Ég var nýorðinn 28 ára og kominn með gallsteina og á leiðinni í aðgerð til að láta taka úr mér gallblöðruna. Mér var orðið ljóst að þetta gengi ekki lengur og ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum til að hlutirnir myndu ekki versna. Stuttu seinna var Amanda konan mín fengin til að fara með hóp í New York Maraþonið og ákvað ég að fara með. Ég skráði mig hjá sama þjálfara og þjálfar Amöndu og áður en ég vissi af var TrainingPeaks orðið fullt af sundi og hjóli.

Ég hafði ekki synt skriðsund síðan í 9 bekk og því komin rúm 15 ár. Betra er seint en aldrei? Ég fékk Amöndu til að standa á bakkanum og leiðbeina mér aðeins, þegar ég var hálfnaður með fyrstu 25 metrana þá var hún komin úr skónum og tilbúin til að stökkva útí, hún hafði einfaldlega ekki trú á því að ég myndi ná yfir. Ég kláraði eina sprettþraut um sumarið og komst svo í gegnum maraþonið um haustið. Þá var einfaldlega ekki aftur snúið. Ég og Leó vinur minn ákváðum að skrá okkur í hálfan járnkarl sumarið 2018, þangað til að hann komst að því að hann fengi ekki að kalla sig járnkarl eftir hálfan, þá tók hann ekki annað í mál en að fara heilan og varð Köben fyrir valinu. Við tók skemmtilegt ferli sem einkenndist af spennu, kvíða, gleði, svita, blóði og tárum… og mikið af blóti þegar TrainingPeaks var opnað á mánudagsmorgnum og planið skoðað fyrir vikuna.

Við Eleanor

Ég og Eleanor (já ég nefndi hjólið mitt) eyddum ófáum klukkustundum saman á Nesjavöllum, í Hvalfirði, á Þingvöllum og inni í stofu á trainernum og áður en ég vissi af þá var gott sem komið að þessu. Síðasta vikan fyrir keppni var full af miklum tilfinningasveiflum og sveiflaðist ég úr miklu sjálfsöryggi yfir í kvíða og efa um mína eigin getu til að taka rökréttar og góðar ákvarðanir. Það sem ég kveið mest fyrir var sundið, enda mín eina reynsla af víðavangssundi komin úr Laugarvatni og Nauthólsvík. Við flugum út á fimmtudagsmorgninum, ég, Amanda og krakkarnir okkar Aurora og Adrían. Leó hafði mætt deginum áður og tók á móti okkur uppá flugvelli enda ekkert grín fyrir okkur smáborgarana úr Reykjavík að komast með tvær töskur, tvö hjól og tvo spennta krakka áfallalaust í gegnum metroið. Restin af deginum fór í afslöppun og að skrá okkur inní keppnina.

Sund og Expo

Á föstudeginum fórum við niður á Amager Strand til að prófa vatnið. Það var trúlega besta ákvörðun sem við gátum tekið, vatnið var 21 gráða og lofthiti 24 gráður. Það að synda þarna var einfaldlega ekki samanburðarhæft við það að synda heima. Maður þurfti ekki aðlagast vatninu fyrst, það var ekki óþægilegt að anda og ég varð hvorki dofinn á tám, puttum né andliti. Auka flotið frá blautbúningnum og saltvatninu þeytti manni líka áfram og var ég að synda góðum 20 sek hraðar per 100m en í sundlaug heima. Við syntum út að fyrstu brúnni og til baka og ég brosti hringinn þegar ég kom uppúr, allur kvíði fyrir sundinu var horfinn og ég var til í þetta. Á laugardaginn kíktum við á expoið og keyptum það síðasta sem vantaði fyrir keppnina, skiluðum búnaðarpokum og hjólum en annars var bara slappað af. Ég reyndi að fara snemma að sofa en stressið gerði það aðeins erfiðara en venjulega. Ég vaknaði klukkan 2:45. Rúmum 45 mín á undan vekjaraklukkunni. Metroið var troðið af keppendum á leiðinni uppá keppnissvæði og drukknum Dönum á leiðinni heim af djamminu, þetta var frekar kómísk blanda, þangað til einn Daninn tróð sér út um hurð á metroinu með hjólið sitt þegar hún var að lokast og lestin festist í nokkrar mínútur. Ég var við það að líða yfir um af stressi, DNS vegna þess að ég væri fastur í biluðum lestarvagni var ekki á planinu. Lestin fór á stað á endanum og að mæta uppá keppnissvæði var upplifun út af fyrir sig, skiptisvæðið opnaði 6:00 og ég var kominn um 5:50, AC/DC ómaði úr hátalarakerfinu og kynnir með mjög þungan suður-afrískan hreim peppaði upp mannskapinn. Fólk var annað hvort mjög spennt eða mjög stressað og andrúmsloftið var hreinlega rafmagnað.

diðrik1Það kom mér á óvart hversu lítið stressaður ég var inni á skiptisvæðinu. Ég var búinn að plana næringuna vel, ég var búinn að leggja inn vinnuna yfir veturinn og sumarið og þarna var kominn tími til að uppskera. Ég skráði mig með græna sundhettu eða í næst síðasta hollið. Þar sem ég stóð og var að fara að hita upp í sjónum sá ég sæþotu koma inn með einn úr hóp tveimur hollum á undan mér. Það setti smá kvíða af stað en ég náði honum úr mér með því að skella mér útí og taka smá upphitun. Áður en ég vissi af var komið að mér að fara útí, ég hafði skráð mig í sterkari hóp en ég taldi mig geta fylgt en fyrstu 600m var ég takandi fram úr alveg hægri vinstri og náði ég góðu drafti eftir það, þangað til að hann synti svolítið út fyrir braut og ég á eftir. Eftir það var ég draftlaus í smá tíma og þá kom það vel í ljós að mér er lífsins ómögulegt að synda beint ef ég er ekki að elta tærnar á einhverjum og ég hefði klárlega átt að æfa „sighting“ betur. Niðurstaðan var sú að samkvæmt Garmin úrinu synti ég ca 4060 metra á 01:23:46 sem var rúmum 6 mínútum undir markmiði. Kvarta ekki þar, að æfa að synda beint og  taka stefnuna verður ofarlega á dagskrá samt í vetur.

diðrikahjóliSkiptingin yfir í hjólið gekk nokkurn vegin klakklaust fyrir sig, nema þegar ég hrasaði þegar ég var að reyna að komast uppá Eleanor eftir línuna en ég lenti samt standandi. Hjólið fór mjög vel af stað, ég var með plan um að halda ákveðnum hjartslætti og var ég að ná að halda góðum meðalhraða undir þeim hjartslætti… þangað til ég er að horfa á úrið og hjóla ofan í holu á veginum sem verður til þess að gelin mín skoppa öll uppúr töskunni og útum allan veg. Ég negli niður, af hjólinu og hleyp um götuna eins og hauslaus kjúklingur í stresskasti að tína upp gelin mín. Ég var búinn að gera ráð fyrir því að sprengja en ekki þessu. Muna að versla tösku með rennilás, franskur er greinilega ekki að gera sig. Uppá hjólið aftur, vona að ég hafi fundið öll gelin og bruna af stað.

Pissað á hjólinu

Þjálfarinn minn var búinn að segja mér að ef ég þurfi ekki að pissa eftir 90 mín á hjólinu þá sé ég ekki að drekka nóg Nú voru komnir 2:30:00 á hjólinu og mér er ekkert mál, SJITT! Ég hef átt í erfiðleikum með krampa, og svo slæma stundum að ég endaði t.d í sjúkratjaldinu í NY með klakapoka teipaða utan um lærin á mér. Það eina sem ég sá í stöðunni var að bæta hressilega í vökvainntökuna og áður en ég vissi þá var mér virkilega mál. Ég var búinn að ákveða að pissa ekki á hjólið, ég væri eingöngu með það markmið að klára og ég gæti því alveg stoppað á kamrinum. Ég stoppa í síðustu drykkjarstöðinni á hring 1 þar sem það hafði komið sambandsleysi í framskiptirinn hjá mér. Ég hélt áfram að taka vel inn af vökva og varð mér virkilega mál aftur, og engin stoppistöð, ég gerði mitt besta en áður en ég vissi af var ég kominn í þá stöðu að fara af hjólinu og míga útí runna. DQ fyrir að pissa útí runna var ekki í boði svo ég læt vaða á hjólið. Ég er ekki frá því að ég hafi fengið smá samviskubit, það þarf einhver greyið sjálfboðaliði að taka við útmignu hjóli í T2, og viti ekki menn svona 5 mín eftir þá kem ég að drykkjarstöð, for helvede. En þetta var búið og gert og enginn tilgangur að stoppa á kamrinum eftir þetta. Svona eftir á að hyggja og eftir að hafa skoðað gögnin þá held ég að ég hafi verið full passívur á hjólinu og vona að ég eigi slatta inni þar en þar sem markmiðið var eingöngu að klára þá labba ég mjög sáttur frá þessu þar sem ég veit ekki hvernig hlaupið hefði farið hefði ég reynt meira á mig á hjólinu. 6:30:50 lokatími á hjólinu. Ég dreif mig ekki í gegnum T2 heldur tók minn tíma í að ná áttum, fóturinn á mér hafði þrútnað svolítið í hitanum á hjólinu og var ég með töluverðan verk í hægri ristinni og utan á fætinum ca fyrstu 10 km á hlaupinu. Ég losaði vel um skóinn og ég held að hann hafi dofnað eftir það.

Stuðningurinn skiptir öllu

Að hafa Amöndu og krakkana á hlaupabrautinni var ómetanlegt. „Blablabla you‘re an Ironman“ heyrðist úr hátalarakerfinu við markið þegar ég hljóp fram hjá því að sækja fyrsta armbandið mitt af fjórum og langaði mig til að leggjast í jörðina og fara að grenja, ég átti rúma 30 km eftir. Ég byrjaði að krampa uppúr 17 km og byrjaði ég að labba meira og meira eftir því sem leið á hlaupið, ég gat þó alltaf skokkað meðfram Nyhavn nema á síðasta hringnum, þar sem Amanda og krakkarnir biðu eftir mér, ég ætlaði sko ekki að láta þau sjá pabba labba. Í eitt skiptið sem ég fór fram hjá þeim heyri ég í Auroru „Daddy you can do it, I believe in you“, á þessum tímapunkti var ég farinn að efast og gaf þetta mér auka orku. Ég er ekki frá því að þessi setning hafi fleytt mér yfir marklínuna. Síðustu 10km voru erfiðari en andskotinn en ég kom mér yfir þessa línu og tilfinningin að fara yfir niður rauða dregilinn og heyra „Didrik Stefansson you‘re an IRONMAN“ er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.
https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2FIronmanDanmark%2Fvideos%2F261124981175948%2F&show_text=0&width=560

Þessi keppni og vegferðin að henni er eitt það skemmtilegasta tímabil sem ég hef upplifað. Þetta er búið að breyta mér á svo marga vegu og núna verður einfaldlega ekki snúið aftur. Stefnan er sett á Flórída 2019 og að bæta tímana í öllum greinum verulega.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s