„Brostu! Þú borgaðir fyrir þetta!“

Þetta stóð á skilti hjá áhorfanda þegar ég var í „smá sunnudagsskokki“ (lesist með vott af kaldhæðni), í Kaupmannahöfn 19. ágúst. Þetta var hluti af keppni í svokölluðum Járnmanni sem samanstendur af 3800 m sundi í sjónum við Amager, 180 km hjólaferð um sveitir Norður-Sjálands og 42,2 km maraþonhlaupi í miðbæ Kaupmannahafnar með mörg þúsund áhorfendum.

Að „næstum því“ venjuleg, næstum því miðaldra, mjög upptekin húsmóðir í fullri vinnu, með börn, mann, vini, hús, garð, sjálfboðavinnu, foreldrafundi og fleira á könnunni, detti í hug að skrá sig í heilan járnmann er kannski ekkert einsdæmi. En fyrir akkúrat þessa „næstum því“ venjulegu konu varð þetta ævintýri og leiðin þangað, að einstakri upplifum sem ég ætla að reyna að lýsa hér eftir bestu getu.

Upphafið
Haustið 2015 eða „korter“ í fertugt ákvað ég að byrja að æfa þríþraut. Hafði hlaupið í þrjú ár og náð ágætis árangri í því á stuttum tíma. Hlaupið hálfmaraþon tvisvar sinnum og ákvað að heilt maraþon var ekkert fyrir mig og því var þríþraut vænlegur kostur. Öfugt við marga sem byrja í þríþraut þá var ég í ágætis sundþjálfun eftir 7 ára æfingar og keppnir með sundfélagi UMSB og Ægi fyrir 25 árum. Hafði að vísu varla synt einn metra á þessum 25 árum en eftir að hafa dottið inn á sundæfingu hjá þríþrautarklúbbnum og náð að synda 2000 m og líða þokkalega vel á eftir þá var ekki aftur snúið. Hjóla kunni ég, allavega á milli staða en að æfa hjól var eitthvað sem maðurinn minn sá um í okkar fjölskyldu. Varð fljótt hluti af litlu en mjög skemmtilegu þríþrautarsamfélagi hér í bænum.

Einkaþjálfarinn
Upprunalega planið var ekki að stunda æfingar fyrir einhverja ofurþraut. Aðrir gátu séð um það. Ólympísk vegalengd var markmiðið (1500m , 40km , 10km) en þegar því markmiði var náð, þá langaði mig í enn meiri áskorun og fékk mikla hvatningu frá félögum í klúbbnum að taka þátt í lengri keppnum. Hálfur járnmaður í Haugesund (1900m, 90km, 21,1km) varð fyrir valinu sumarið 2017. Eftir að ég kom í mark í þeirri keppni var ég alveg staðráðin í því að ég myndi sko aldrei taka þátt í heilum járnmanni. Ekki af því að það gekk eitthvað illa, það gekk framar öllum vonum. En heill járnmaður er tvöfalt lengri enda tvöfalt lengra og það myndi ég sko ekki hafa þolinmæði til.
Gleymdi þessu eins og skot og fjórum mánuðum seinna var ég búin að skrá mig í Kaupmannahafnarjárnmanninn. Óvenjulega auðvelt að sannfæra manninn um þetta brjálaða plan og held að hann orðið svo feginn því að ég komst ekki inn í Norseman og að núna þyrfti ég «bara» að æfa fyrir venjulegan Járnmann. Hann hvatti mig meira að segja til að kaupa TT þríþrautarhjól. Ég átti greinilega að gera þetta með stæl.
Með 9 mánaða undirbúningstíma ákvað ég að fá mér einkaþjálfara til að setja upp æfingaáætlun. Vinkona mín í klúbbnum Christine Jacobsen og sambýlismaður hennar sem æfir með norska landsliðinu í þríþraut tóku áskoruninni. Þýðir ekkert annað en topp hjálp frá toppfólki til að koma þeirri hálfgömlu í gegnum þessa þrekraun.
Aðalmarkmiðið var að komast í gegnum keppnina, 12-13 tímar vorum við Christine sammála um að væri raunhæft bónusmarkmið. Úr varð mjög flott plan sem tók mið af mínum aðstæðum sem fjölskyldumanneskja í fullri vinnu og á sama tíma var sveigjanleiki.

Fjölskylduvænt æfingaplan

Meðalæfingatíminn þessa 9 mánuði var sirka 6-8 tímar á viku með einhverjar vikur með 9-12 tíma þegar ég hjólaði sem mest. Helstu áherslurnar voru lengri og rólegri æfingar en ég var vön. Mikil áhersla á hjólaæfingar og allt sem við kemur hjólinu. Ég kunni ekki að skipta á slöngu og vissi varla hvað snéri upp og niður. En ég ætlaði ekki að leggja alla þessa vinnu í æfingar og undirbúning og eiga svo á hættu að geta ekki klárað keppnina út af sprungnu dekki. Þannig að margir tímar fóru í að æfa að skipta um slöngu, taka af og setja dekkið á og setja keðjuna á.
Christine bætti einnig inn styrkarþjálfun x1 í viku til að bæta vöðvamassann og sérstaklega fyrir hjólið og í sundinu var áhersla á sundtækni í lauginni um veturinn og svo lengri sund í «open water» þegar hægt var að byrja að synda úti í apríl/maí. Bý við þau forréttindi að geta æft í Noregi við góðar aðstæður og það er 10 mín að labba frá heimili mínu út að sjó og 5 mín í stórt stöðuvatn sem er rétt við húsið mitt. Meðalhitinn í sjónum hérna í Suður-Noregi í sumar var um 20 gráður og var um 23 gráður í vatninu stóran hluta af sumrinu.
Keppnin nálgaðist óðfluga og ég mátti æfa það sem margir kalla 4 greinina í þríþraut; næringu. Útbjó næringaráætlun fyrir keppnina og reiknaði út þörf á kolvetnum og vökva per klukkutíma. Áætlunin fyrir hjólið var skotheld en fyrir hlaupið kom í ljós að næringin var ekki úthugsuð.
Ég gerði mér grein fyrir að þessi keppni myndi reyna mjög svo á þolinmæði mína þannig að undirbúningurinn var ekki síður andlegur en líkamlegur.

KEPPNIN
Áður en ég vissi var búið að fylla bílinn, setja hjólið á þakið og ég, Siggi, Víkingur og Freyja (maðurinn minn og börnin mín tvö) á leiðinni til Köben. Ég hafði undirbúið mig eins vel og ég gat og nú var ekki aftur snúið.

HafdísSundSUNDIÐ
Hafði valið mér bláa sundhettu sem er tímin 1.06-1.11 fyrir 3800 m. Hafði aldrei synt svona langt án þess að stoppa og markmiðið var að líða vel í sundinu. Var pínu óviss um val á sundtíma og ekki viss um að ég gæti haldið þessum hraða og ákvað þess vegna að vera alveg öftust í þessum hóp ef ske kynni að ég næði ekki að halda hraðanum og þá væri ég ekki fyrir neinum sem vildi synda hratt.
Áður en ég vissi var ég komin í vatnið og tilfinningin var frábær. Góður hiti og ég reyndi að drafta en gekk ekki vel. Það verður æft fyrir framtíðina. Áður en ég vissi af var ég komin upp úr vatninu og nr. 19 í mínum aldursflokki og nr. 1001 af 2600 þáttakendum á tímanum 1.13. Mjög sátt við það og leið mjög vel þegar ég kom upp úr.

Var ekkert að flýta mér á skiptisvæðinu, enda myndi ég verða að allan daginn, og mikilvægt að halda einbeitingunni, drekka smá og passa að gleyma ekki neinu. Eyddi 8 mínútum sem liðu mjög hratt.

hafdishjol
HJÓLIÐ
Komin á hjólið og byrjuð að telja öll vöðvabúntin sem brunuðu fram hjá mér. 1, 2, 3, 4…….. Og þar sem ég er yfir meðallagi fljót upp úr sundinu og vel undir meðallagi fljót á hjólinu er ég löngu búin að sætta mig við í keppnum að tekið er fram úr mér. En þar sem ég vissi að þetta yrði langur dagur ákvað ég sjá hversu lengi ég myndi hafa úthald til að telja alla sem fóru fram úr mér og hvort ég myndi ná að fara fram úr einhverjum, bara svona til að hafa eitthvað að gera. ….5, 6, 7, 8……… og þegar talan var komin upp í 60 og bara 6 sem ég hafði tekið fram úr og ekki búin að hjóla meira en 20 km, ákvað ég að þetta væri orðið gott, enda skipti það engu máli hversu margir tækju fram úr. Ákvað í staðinn að skoða öll Ironman húðflúrin sem þáttakendurnir voru með. Komst að því að það eru margir möguleikar, mynstur og litir og í hita leiksins var ég meira að segja farin að hugsa um að láta skella einu svona á mig ef ég myndi klára þetta.

Annars naut ég hjólaleiðarinnar í botn. Ég var á þekktum slóðum enda hafði ég farið þessa leið með lest næstum daglega í 4 ár þegar ég lærði hjúkrunarfræði í Hillerød í lok 20. aldar. Markmiðið var að halda meðalhraðanum í kringum 30 km/klst. Gekk mjög vel þrátt fyrir mótvind og hæðótta leið á leiðinni tilbaka til Kaupmannahafnar. Þessir 6 tímar liðu ótrúlega hratt en það var mjög gott að geta tekið af sér hjálminn og komast úr „aero“ stöðunni á hjólinu. Fann svolítið fyrir verk í öxlum og baki enda hafði ég ekki náð að æfa eins mikið á TT hjólinu og ég vildi, aðeins 1,5 mánuð. Kom á skiptisvæði 2 og mjög sátt við rúma 6 tíma á hjólinu. Framar öllum vonum.

HafdishlaupMARAÞONHLAUP
Eyddi einnig 8 mínútum á skiptisvæðinu sem var bílakjallari í miðbænum. Hljóp upp á götu og alveg ólýsanleg stemming mætti mér og öðrum þátttakendum. Hafði verið mjög dugleg að fylgja næringar-og vökvaplaninu á hjólinu og var full af orku. Nú var bara eitt stykki maraþonhlaup eftir, og ég sem hafði aldrei hlaupið meira en 23 km í einu. Þetta myndi ég sko geta.
Leit fljótt á heildartímann á klukkunni í fyrsta skiptið alla kepnnina og 7,5 tímar voru liðnir frá því ég stakk mér í sundið. Enn raunhæft að ná lokatíma í kringum 12 tíma. Fæturnir voru mjög léttir og ég fann að margar brikkæfingar voru að skila sér. Eftir nokkra km ætlaði ég varla að trúa mínum eigin augum, meðaltíminn var í kringum 4.45-5.00 mín á km, mér leið nú ekki eins og ég hlypi svo hratt. Vissi alveg að ég gæti aldrei haldið þessum hraða, þannig að ég ákvað að draga aðeins úr hraðanum og halda mig nær 6 mín á km sem væri raunhæfara fyrir mig. Það gekk ágætlega fyrst 10-15 km. Svo byrjaði maginn að mótmæla.
Planið var að borða og drekka á hverri matar- og drykkjarstöð en var ekki búin að reikna út að það var á 2 km fresti. Varð óglatt og leið ekki vel. Það hægði á mér, en byrjaði ekki að hægja almennilega á mér fyrr en eftir 15-20 km. þegar ég byrjaði að fá slæma verki í utanvert hné. Þekkt meiðsli hjá hlaupurum og eitthvað sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. Verkurinn kom þegar ég hægði á mér á matarstöðvunum og fór þegar ég byrjaði aftur að hlaupa. Ég hugsaði mér að ég ætti tvo möguleika. Annað hvort er þetta að segja þér að halda ekki áfram vegna verkja, eða ekki stoppa því þá færðu verki. Ég ákvað að stóla á seinni möguleikann.
Og áfram hélt ég, en hratt fór ég ekki. Á tímabili gekk þetta svo hægt að einn af þátttakendunum fór á sama hraða og ég á meðan hann gekk og ég hljóp. En ég gat ekki gengið því þá fékk ég verki þannig að ég „hljóp“ allan tímann. Eftir hálfmaraþon kláraðist batteríið í úrinu mínu. Og þvílíkur léttir. Þá slapp ég að horfa á hvað þetta gekk hægt, enda skipti það engu máli. Eina markmiðið var að koma þessari gömlu í mark og helst fyrir myrkur. Því vá hvað þetta reyndi á þolinmæðina mína.
Hlaupnir voru fjórir hringir í miðbæ Kaupmannahafnar og í lok 3. hringsins sagði líkaminn stopp í smá stund. Ég hristist og skalf og var náhvít í framan, er mér sagt. Fékk hjálp frá áhorfanda sem gaf mér vatn og ég hafði rænu á að hugsa að kannski vantar mig salt. Og dró upp lítinn ikeaplastpoka með hafsalti upp úr vasanum (viðbúin öllu) og leið betur á eftir. Siggi og börnin stóðu á hliðarlínunni og hvöttu mig áfram ásamt félögum úr klúbbnum. Að fá stuðning gaf mér auka orku. Ég ætlaði sko í mark og hausinn sá um að koma mér í mark á síðustu 21 km.

ENDASPRETTURINN
Svo kom ég auga á markið og spýtti í lófana og tók minn langbesta endasprett. Ég veit ekki hvaðan ég fékk þessa orku en ætlaði að koma mér í mark með stæl. Enginn verkur neins staðar og bara einbeiting um að spretta eins og ég gat.

Ólýsanleg tilfinning að geta hlaupið svona á endasprettinum og í þokkabót taka fram úr 5 manns eftir þá mörg hundruð sem tóku fram úr mér. Ekki að það sé það mikilvægasta en talan yfir þá sem tóku fram úr mér síðan ég kom upp úr sundinu um 11,5 tímum á undan lækkaði úr 730 í 725. Gott ég hætti að telja eftir 20 km, segi ég nú bara.
Siggi tók video af endasprettinum og nú er það myndband notað í klúbbnum sem innblástur fyrir nýja og gamla meðlimi í þríþrautarklúbbnum. Lokatími 12 klukkutímar og 49 mínútur. Ekki sem verst.
Og þvílík tilfinning að klára, er svo ótrúlega stolt af sjálfri mér. Kom í mark og fékk bjór í hönd. Hafði nákvæmlega enga lyst á honum og hugsaði til stúlkunnar sem sat í Kaupmannahöfn fyrir rúmum 20 árum síðan, einnig með bjór í hönd, nýflutt í borgina og hafði ekki hugmynd að hún myndi búa þarna í 6,5 ár og hvað þá síður koma aftur rúmum 20 árum seinna og klára svona klikkaða keppni.

Hvort ég geri þetta aftur er ekki víst. En aldrei að segja aldrei og núna langar mig að einbeita mér að styttri keppnum.

Þetta var erfitt en yfirstíganlegt og ég vona að ykkur sem langar að hoppa í svona verkefni en þorið ekki alveg að taka skrefið geti notað þetta sem innblástur. Ef hálfgamla húsmóðirin gat þetta þá getur þú þetta líka.

Hafdís Helgadóttir
Kristiansand september 2018

.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s