Slysið á Írlandi

Dún Laoghaire 70.3 – Mín önnur hálf-IM keppni sem PRO

 Ég veit ekki alveg hvar skal byrja, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var ekki einu sinni viss um það hvort ég ætti að skrifa sérstaka keppnissögu yfir höfuð frá þessari tilteknu keppni en ég held það sé mikilvægt að ná þessu niður á blað til að hjálpa mér að vinna úr þessu sem og að gefa ykkur hinum innsýn í hvað ég er að hugsa á þessum tímapunkti. Dún Laoghaire 70.3 var líklega ein erfiðasta lífsreynsla sem ég hef lent í – og ég er því miður ekkert að ýkja þegar ég segi það. Ég hef alltaf reynt að sjá jákvæðu hlutina við allar keppnir hjá mér, sama hvort það gangi vel eða illa og yfirleitt get ég sett hlutina upp á svona nokkuð hlægilegan máta eftirá þegar ég skrifa keppnissögur og geri upp það sem illa fór. Ég ætla að reyna mitt besta við að gera það líka núna en á sama tíma ætla ég að segja frá viðburðum helgarinnar án þess að vera að skafa eitthvað af hlutunum. Þríþraut er „brútal sport“ á marga vegu en getur verið sérstaklega „brútal“ í einstaka tilfellum. Þetta sem kemur hér á eftir er eitt þeirra og vona ég að sem fæstir muni nokkurn tímann þurfa að upplifa eitthvað svipað og ég gerði. En við byrjum á byrjuninni.

Eftir að hafa rekist nokkuð harkalega á vegg, næringarlega séð, í keppninni í Gdynia ákvað ég að gera ekki sömu mistök og þá og passa upp á matarplanið dagana fyrir keppnina sem og á keppnisdag. Þetta fól í sér að hætta að hugsa um kaloríur og þyngd og einblína bara á tilfinningu og vellíðan. Ég borðaði vel dagana fyrir keppni og leið alveg einstaklega vel þegar ég vaknaði á sunnudaginn. Það var svolítið kalt þegar við Helena fórum út í leigubíl kl 05:00 um morguninn en spáin fyrir daginn var góð svo við vissum að það myndi nú rætast úr þessu. Við vorum komin vel tímanlega á staðinn fyrir startið og ég hafði góðan tíma til að fara yfir skiptingar í síðasta sinn og hita vel upp. Sjórinn var 16 gráður svo það var útlit fyrir þægilegt sund en þó voru nokkrar öldur sem gerðu sundið út eftir fyrsta kílómeterinn nokkuð strembið. Brautin var einföld, við syntum bara út meðfram baujum að fyrstu beygju og svo var þetta bara svona einfaldur „kassi“ eða svo. Eftir að hafa hitað upp í sjónum í um 10 mínútur vorum við kölluð aftur að landi og sagt að það væru 10 mínútur í start. Eins og vanalega leið þessi tími nokkuð hratt og áður en ég vissi var komið að niðurtalningu: 5…4…3…2…1…BAM. Út í vatnið hentumst við og ég fann strax að þetta ætti eftir að vera góður dagur fyrir mig. Það voru nokkrir sterkir sundmenn í hópnum svo ég ákvað að keyra aðeins á þetta til að byrja með til að vera viss um að vera í fremsta hópnum. Áður en langt um leið vorum við að því er virtist bara 3 fremstir: ég, Andy Potts og Elliot Smales. Þeir tveir fóru að lokum alla leið og tóku 1. og 2. sætið þann daginn. Við syntum saman alveg út að fyrstu snúningsbauju en um 50 metrum áður en við tókum beygjuna fannst mér ég geta gefið aðeins í og því gerði ég það. Ég fann hvernig ég sigldi fram úr þeim frekar auðveldlega og náði mjög „clean“ snúningi við endabaujuna. Ég hélt taktinum alveg út sundið og vonaði að ég hefði náð að mynda smá bil á þá fyrir aftan. Það kom hins vegar á daginn að þeir höfðu bara farið beint í draftið hjá mér og héngu í löppunum á mér alveg þangað til við kláruðum sundið 3 saman, um það bil 2-3 mínútum á undan næstu mönnum. Sæll. Þetta stefndi í góðan dag!

IMG_20180824_104542_346Upp úr fórum við og beint inn á skiptisvæði. Ég var helst til of lengi að fara úr blautgallanum og tapaði aðeins forystunni en kom þó út af T1 nokkrum sek á eftir Andy Potts. Ég ákvað að halda álaginu á hjólinu nokkuð stýrðu en var yfirleitt í kringum 300W, sem er sirka 87-88% af FTP. Kannski svolítið hátt effort en mér leið vel og keyrði því bara á það. Ég hélt Andy í augsýn nokkuð vel fyrstu 15-20 km en svo gaf hann aðeins í og eftir 35km var hann kominn um 2 mín á undan. Brautin var mjög hæðótt og ég held í alvöru að ég hefði verið betur settur á racer með 40mm gjarðir að framan og aftan heldur en á TT með disk. Ég var með 11-28 kasettu að aftan og eingöngu 52-36 hringi að framan en þurfti samt að henda út um 400W í sumum brekkunum einfaldlega til að stoppa ekki. Ég veit ekki alveg hvernig sumir af strákunum gerðu þetta með compact kasettu og 55-42 en það hefur ekki verið auðvelt.

Smátt og smátt fikruðum við okkur upp hverja brekkuna á fætur annarri með einstaka köflum sem lágu niður á við í gegnum hlykkjótta sveitavegi sem líktust frekar malarvegi á sumum köflum heldur en malbiki. Mér leist ekkert á blikuna á tímabili þegar hjólið hristist svo mikið að það lá við að ég nánast missti allt vatnið úr aero-brúsanum hjá mér. Að lokum var komið að síðustu brekkunni – í kringum 50 km voru búnir af hjólinu á þessum tímapunkti en þessi brekka var það löng og brött að ég sá alla þá 4 sem á undan mér voru þrátt fyrir að bilið væri um 6 mínútur í fremsta mann. Ég var orðinn nokkuð súr þegar að þessu kom en þjösnaðist upp á þrjóskunni en passaði þó að sprengja mig ekki alveg. Meðalaflið var ennþá í um 300W hér og útlit fyrir að ég næði að halda því vel út það sem eftir væri og því var ég nokkuð sáttur á þessum tímapunkti, sitjandi í 5. sæti í heildina. Þegar upp var komið tók við allt annað veður en hafði verið fyrri hluta leiðarinnar. Skyndilega keyrðum við inn í þoku og hífandi rok og var á tímabili erfitt að halda sér á veginum. Ekki hjálpaði til þegar það byrjaði að rigna nokkuð vel og útsýnið var þá orðið um 25 metrar fram fyrir mig og ég þurfti stanslaust að þurrka vatnið af hjálminum til að sjá betur út. Það er ekkert allt of þægilegt að keyra áfram á 40 km hraða með eins lítið skyggni og var ásamt því að það var mikið rok og rigning – ekkert ósvipað íslensku sumri 2018.

Loks lá leiðin niður á við og vorum við hér komnir um 53-54 km inn í hjólaleiðina. Úff, erfiðasti parturinn búinn og nú var bara að skila sér til baka á skiptisvæðið og hamra hlaupið. Eða ég hélt þetta yrði svo einfalt. Þegar ég kom yfir eina hæðina gerði mjög mikið rok og voru sviptivindarnir það hættulegasta – stanslaust að rífa í diskinn hjá mér og hjólið í heild. Vindurinn stóð ská aftan á mig þannig hann bæði ýtti mér áfram niður brekkuna og hafði áhrif á jafnvægið. Vegurinn var blautur þar sem rigningin sem við höfðum rétt lokið við að hjóla í gegnum var nýbúin að fara yfir þetta svæði og því var gripið ekki eins gott og í þurru. Ekki hjálpaði svo til að vegurinn lá í hlykkjum niður brekkuna og var í raun bara einbreiður með bundnu slitlagi. Ég reyndi eins og ég gat að fara varlega þarna og var með fullan kraft á bremsunum þegar að ein sviptivindhviðan tekur svoleiðis í hjólið hjá mér að ég fipast og framdekkið hrekkur út af veginum hægra megin – Shit. Þar sem ég fer út af er svona smá „öxl“ með möl svo ég hafði smá tíma til að líta betur fram og sjá hvað var í boði áður en ég áttaði mig á því að þetta væri nú líklega búið. Framundan var engin öxl með möl, þar sem ég er staddur á hægri öxlinni og vegurinn er að hlykkjast til hægri. Um 20-30 metrum fyrir framan mig er svona skurður eða dæld í grasinu en ég hafði smá tíma til að gera mér allavega grein fyrir því hvað væri að fara að gerast. Ég var á 56 km/klst hraða skv. Garmin Edge tölvunni þegar framdekkið dettur ofan í dældina og áður en ég veit af er ég í loftinu. Ég snýst einn hring yfir mig og skrapa öxlinni í jörðina áður en ég lendi í grasinu með lappirnar fyrst í nokkurn veginn sitjandi stöðu. Líklega hafa vöðvarnir hjá mér verið allir spenntir í einu á sama tíma því ég finn hvernig líkaminn stífnar allur upp og á sama tíma og ég lendi fæ ég hrikalegan þrýsting á bakið, smá brak og fetta á mjóbakið og svo slengist ég yfir mig hálfan hring í viðbót og lendi kylliflatur á malbikinu. Sársaukinn var sá mesti sem ég hef fundið á ævi minni. Mig verkjaði alstaðar en þó mest í bakinu. Næsta mínúta eða svo fór mest öll í að öskra, bæði úr sársauka en líka úr hræðslu (svona eftirá að hugsa) þar sem ég taldi næsta öruggt að ég hefði brotið eitthvað miður skemmtilegt miðað við sársaukann. Fljótlega kom næsti keppandi fram úr og hann kallaði eitthvað á mig en ég var ekki í standi til að svara honum. Ég byrjaði á því að liggja flatur og reyna að slaka á, ná andanum aftur og sjá hvort ég fyndi fyrir löppunum. Þegar ég sá að ég gat hreyft lappirnar fór ég næstum að hlæja þar sem ég var feginn því að hafa ekki lamast við þessa byltu. Ég fór að hreyfa fleiri líkamsparta og smám saman náði ég með herkjum að koma mér yfir á magann. Þá komu tveir hjólamenn í viðbót fram úr og ég kallaði á þá að ná í hjálp neðar í brautinni og senda einhvern upp eftir. Þeir jánkuðu því og héldu áfram niður eftir. Ég vann mig frá liggjandi magastöðu og upp á hnén og þegar ég sá að ég gat það þá stóð ég upp. „Okok, ég get allavega staðið og gengið“ hugsaði ég þegar ég fikraði mig út í móa til að athuga hvort ég sæi hjólið. Hvar var nú blessað hjólið? Ég sá að staðurinn þar sem ég hafði farið út af var um 5 metrum ofar í brekkunni samanborið við þar sem ég hafði lent og það var ekki fyrr en ég hafði gengið aðeins inn í grasið utan við brautina að ég sá hjólið öðrum 5 metrum neðar í brekkunni. Þvílík og önnur eins flugferð sem það hafði fengið. „Jæja, ætli ég geti kannski haldið áfram þar sem ég virðist geta gengið, ef hjólið er í lagi?“ hugsaði ég algjörlega kexruglaður eftir fallið. Hvernig mér datt í hug á þessum tímapunkti að mögulega halda áfram eftir svona byltu get ég eiginlega ekki skilið. Þeim vonum var þó fljótlega kippt undan mér þegar ég kom auga á framgjörðina. Algjörlega í steik og stýrið skakkt. Annað virtist þó vera í lagi en það verður þó að bíða frekari skoðunar. Ég hirti því hjólið, Garmin tölvuna og gjörðina úr grasinu og stóð svo drykklanga stund úti í vegkanti og reyndi að vara aðra hjólamenn sem komu við hættunni. Að lokum gafst ég upp á því að bíða þar sem mér var farið að vera nokkuð kalt og byrjaði að labba niður eftir í átt að næsta bæ.

Ég hafði ekki gengið meira en 150 metra þegar brautarstarfsmaður kom keyrandi á móti mér á mótorhjóli. Hann sagði mér að sjúkrabíll væri á leiðinni til að sækja mig og gaf mér vatn og smá næringu. Ég var farinn að skjálfa mjög mikið fljótlega eftir að hann kom og lánaði hann mér regnbuxur sem hann var með yfir sínar eigin og setti mig í jakkann sem hann var í. „Yer lips look blu“ sagði hann við mig og ég bara kinkaði kolli og sagði að mér væri orðið nokkuð kalt. Hitinn af mótorhjólinu hélt mér aðeins heitum og svo hjálpuðu buxurnar og jakkinn hans til einnig. Um 10 mínútum síðar kom sjúkrabíllinn til okkar og þar tóku tvær einstaklega góðar manneskjur við mér. Ég fékk að vita að súrefnismettunin hjá mér væri mjög lág og líkamshitinn nálægt því að detta undir 35 gráður. Ég fékk því súrefnisgrímu í bílnum hjá þeim og nóg af teppum og svona einangrandi filmum til að ná upp hita aftur. Ég hélt áfram að skjálfa í nokkurn tíma í viðbót og var mér sagt að það væri bara sjokk eftir byltuna og að adrenalínið væri að ganga niður.

received_1774580749310243Leiðin niður að svæði tók ekki það langan tíma og fljótlega var ég kominn inn í sjúkratjaldið og í hendur fleiri góðmenna sem hlúðu að mér. Læknirinn á svæðinu athugaði með hrygginn á mér og gekk úr skugga um að ég væri ekki brotinn þar og líklega hefði ég sloppið merkilega vel. Kannski bara marin/brákuð rifbein og tognaðir bakvöðvar. Ekkert sem ætti að hindra það að taka þátt í keppni aftur eftir 3 vikur, spurði ég, og uppskar hlátur og bros frá öllum í kring. Ég sá nákvæmlega hvað þau voru að hugsa og ég skil þau vel, einhver snarbilaður gaur sem er nýbúinn að næstum brjóta á sér bakið, getur varla staðið sjálfur úr sársauka og talar um að fara að keppa aftur í hálfum járnkarli þremur vikum síðar.

Ég eyddi þó nokkrum tíma í sjúkratjaldinu þangað til hitinn hjá mér var orðinn eðlilegur aftur og þá fékk ég íbúfen verkjatöflur og var jafnframt sagt að ef ég færi að finna fyrir einhverju óeðlilegu þá ætti ég að koma strax aftur. Þannig labbaði ég út, fékk mér pasta og hélt svo áfram út á marksvæðið til að reyna að finna Helenu. Það hefur líklega ekki verið neitt erfitt að koma auga á mig á þeim tímapunkti, þar sem ég labbaði eins og ég væri fastur við spýtustaur og allur þakinn í gylltri og silfraðri álfilmu. Svona svipaðri og maður fær eftir að hafa klárað langar keppnir til að halda uppi hita. Helena kom auga á mig um leið og við héldum upp á hótel um leið og ég fékk hjólið mitt aftur. Gaurinn sem kom með hjólið var svo hissa að sjá eigandann standandi að hann tók mynd af sér með mér og setti á Instagram.

received_666586523707658Restin af deginum fór í að gera að minniháttar sárum og tína nálar úr fótum og handleggjum en ég hafði lent í einhverjum runna í byltunni sem gerði það að verkum að yfir 60 pínulitlar nálar festust í mér (já við erum að telja) og þær eru enn að koma upp núna 2 vikum síðar. Ég get glaður sagt að ég er að fara til Þýskalands næstu helgi til að keppa í 70.3 Rugen, aðeins 3 vikum eftir að hafa nánast gert út af við allar vonir um að geta keppt í þríþraut aftur. Ég er með smá verk í rifbeinum að framan og aftan en ekkert sem ég ætti ekki að ráða við. Ég hef ekki hlaupið í næstum 2 og hálfa viku núna en það skiptir engu máli. Markmiðið er að klára þessa keppni og læra helling fyrir næsta season. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sem skilgreinir góða íþróttamenn er ekki það hvernig við bregðumst við og högum okkur þegar vel gengur, heldur hvernig við tökumst á við leiðinlegu augnablikin og þær aðstæður þar sem það virðist eins og allt sé á móti manni. Það að geta brosað framan í óhöppin og jafnvel hræðilegar aðstæður eins og þær sem ég lenti í á Írlandi gerir okkur bara sterkari á lengri tíma litið. Ég reyni mitt besta við að vera sú týpa af íþróttamanni og vonandi get ég fært góða sögu frá Þýskalandi næstu helgi, eða allavega sögu þar sem hjólið gengur „eins og í sögu“ 😉

Sigurður Örn Ragnarsson

 

Uppgjör á járnglímu

Satt best að segja þá langaði mig ekkert til að skrifa keppnissögu eftir þessa keppni. En Gísli gafst ekkert upp og ég lét mig hafa mig það 😉  Maður hefur gott af því að fara yfir keppnina og skoða hvað gekk vel og hvað má gera betur.

Aðdragandinn:

Eftir Ironman í Texas í lok apríl vissi ég að ég ætti meira inni, bæði í sundinu og hlaupinu. Svo þegar ég sá fram á að hafa aðeins rýmri æfingatíma um sumarið og ennþá opin skráning í Köben ákvað ég að slá til. Skráði mig í Köben og og við Rúnar (#feelgoodtraining) settum saman massíft æfingaplan fyrir sumarið. Æfingarnar fóru mjög vel af stað, var með mikla áherslu á sundið og hlaupin og var að ná að æfa ca 15-20 tíma á viku sem er töluvert meira en ég hef verið að gera hingað til. Í byrjun júlí fór ég svo að finna fyrir verk í nára, fyrst bara eftir hlaup og svo í upphafi hlaupa líka en alltaf fór verkurinn eftir smá stund þannig ég hafði ekki miklar áhyggjur og hélt mínu striki. Í lok júlí, um 3 vikum fyrir keppni, var verkurinn enn að versna og ég var farin að finna til við gang. Nú voru góð ráð dýr. Allir sjúkraþjálfarar í fríi en Baldur var svo góður að troða mér að. Niðurstaðan var stífur psoas vöðvi og bólga í mjöðm. Hvíla hjól og hlaup á meðan þetta jafnar sig, úff. En ég nýtti vel á meðan og synti eins og selur á meðan. 2 vikur í hvíld, psoas-inn orðinn sultuslakur, 10 dagar í keppni og ég ekkert betri. Hvað nú? Tókst að troða mér að hjá bæklunarlækni. Röntgen af liðnum og allt leit vel út. Þá var það síðasta hálmstráið, sprauta sterum í liðinn og vona að það dragi úr bólgu og verkjum. Eftir sterasprautu þarf að hvíla alveg þannig að ég mátti ekkert gera nema synda þangað til 3 dögum fyrir keppni. Ég fór og reyndi að hugsa ekkert alltof mikið um þetta, reyna að vera jákvæð og vona það besta. Vona að þetta smelli allt saman. Syndi nokkrum sinnum í brautinni og sá að sundið var að lofa góðu. Fimmtudag fyrir keppni gat ég loksins prófað að hjóla og hlaupa, þá var ég ekkert búin að hlaupa í 3 vikur og ekkert búin að hjóla í 2 vikur. Hjólaði bara rólega og allt í góðum gír 🙂 Prófaði svo að hlaupa. Hljóp mjög rólega í 15 mín. Fann ekkert svo mikið til, jú þetta gæti gengið. Hjúkk. Á föstudag ætlaði ég svo aftur að hlaupa smá til að koma löppunum í gang fyrir sunnudag. Skokkaði rólega af stað og fann strax að þetta var ekki að gerast. Andskotinn sjálfur! Best að stoppa bara og reyna að gera ekki illt verra. Reyndi eins og ég gat að hugsa sem minnst um þetta, ekkert hægt að gera úr þessu nema fara af stað og vona það besta.

Keppnismorgunn:

Vaknaði kl. 3:30 til að geta verið mætt í startið um leið og skiptisvæðið opnaði klukkan 5:00. Ætlaði sko ekki að lenda í sama stressinu og í Texas 😮 Hafragrautur með nutella og banana og kaffi. Lokatékk á dótinu og rölta svo út á lestarstöð. Vorum komin á skiptisvæðið rétt rúmlega fimm. Nægur tími og ég hef aldrei verið jafn afslöppuð fyrir keppni. Kannski reynslan eða þá að loksins var ég frekar örugg með sundið. Gott að vera komin svona snemma því þá er engin röð á klósettið og ennþá þokkalega snyrtilegt. Búin að græja næringu á hjólið, pumpa í dekkin og fara tvisvar að pissa. Allt klárt, klukkan bara 6 og startið mitt ekki fyrr en 7:30! Settist bara niður og slappaði aðeins af, meira að segja nægur tími til að fara enn einu sinni að pissa með tilheyrandi biðröð. Koma sér í gallann í rólegheitunum og skila fatapokanum (street bag.) Rölti svo með Hafdísi að upphitunarsvæðinu að “hita upp” fyrir sundið, samt aðallega til að venjast kuldanum og pissa enn einu sinni. Vatnið var um 19 gráður, ekki beint kalt en gott að venjast aðeins. Fór svo í sundhólfið mitt, bleiku hetturnar. Besta skipulag sem ég hef séð á sundstartinu. Maður valdi sér lit á sundhettu miðað við áætlaðan sundtíma og þannig var ekkert mál að finna sinn hóp. Gekk mjög vel að koma öllum ofan í og á slaginu 7:30 hljóp ég út í Amager Strandpark.

MP1

Sundið (3993m; 1:18:55; hraði 1:58; AG 33):

Hef alltaf hlakkað til að vera búin með sundið en núna naut ég þess að synda. Gekk pínu brösuglega til að byrja, sundgleraugun vildu ekki vera til friðs og voru að leka en það hafðist eftir 3 stutt stopp og nú gat ég rúllað mitt sund. Planið var að halda sub 2:00 pace, smá mótstraumur að fyrsta snúningspunkti þannig að ég vissi ég yrði aðeins hægari þar og myndi svo vinna það upp á leiðinni tilbaka. Komin að snúningspunkti, pace 2:05. Yes, spot on og ennþá í þrusufíling. Nú er bara að halda dampi á leiðinni tilbaka. Var búin að vera inni í þvögunni mest allan tímann en var allt í einu orðin ein. Leit aðeins í kringum mig og sá góðan hóp aðeins fyrir framan mig. Best að gefa aðeins í og ná þeim og það tók stuttan tíma. Síðasta brúin, þetta er bara alveg að verða búið. Leit á úrið, 1:59 meðalhraði. Vá hvað ég var glöð 🙂 Allir í einni kássu að busla í kringum snúningspunktinn og svo bara nokkur hundruð metrar eftir. Fæ þá þennan líka rosa krampa í annan kálfann. Anda rólega, halda áfram að synda og reyna að slaka á kálfanum. Best að gefa aðeins í og klára þetta með trompi. Upp úr vatninu, meðalhraði 1:58. Hell yeah!! Fyrsta markmiði náð 🙂

T1 (06:02):

Ná í pokann og var send inn í skiptitjald, konur mega sko ekki fara úr blautgallanum undir berum himni 😮 Enga stund að rífa mig úr gallanum. Í sokka, skó og hjálm, pokinn á sinn stað og skokka að hjólinu. Ok, kálfinn pínu tæpur á að krampa aftur þannig að líklega best að labba bara. Skiptisvæðið virtist endalaust langt, en var samt bara 500m

MPhjólHjólið (178 km; 5:33:40; hraði 32,6 km/klst; AG 14; 5 mín í skammarkróknum):

Alltaf gott að komast á hjólið en samt var eitthvað ekki í lagi. Axlirnar svolítið stífar eftir sundið og púlsinn hár en lappirnar góðar þannig að ég hlýt að detta í gírinn. Endalaust sikk sakk í gegnum bæinn en ágætis hraði. Komin á Strandvejen og get núna farið að sigla á mínum wöttum. En alveg sama hvað ég reyni, næ ekki að halda mínum wöttum og púlsinn er ennþá alltof hár. Kannski hreyfingaleysi síðustu vikna eða bara hausinn með stæla. Bara reyna sitt besta og velta sér ekkert alltof mikið upp úr þessu. Gaman að rúlla í gegnum dönsku sveitina og nóg um að vera í brautinni, upp og niður og beygjur. Mikill munur að koma svona snemma úr sundinu (startaði líka framar en vanalega) og þurfa ekki að vera eins mikið að taka framúr. Gríp banana og vatn á öllum drykkjarstöðvum. Sötra á orkudrykk og narta í haribo gummi bears þess á milli. Orkan fín en allt kemur fyrir ekki. Jey, fyrri hringurinn að klárast og þetta gengur nú alveg þokkalega. Andsk…mjöðmin farin að láta vita af sér. Hélt ég myndi sleppa í gegnum hjólið án verkja :-/ Var vel birg af verkjalyfjunum þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að byrja á þeim því ég vildi ekki fara verkjuð inn í hlaupið. Verkurinn horfinn, gott mál. Áhyggjur af hlaupinu farnar að laumast að en ég reyni að halda þeim frá. Rúllaði á eftir nokkrum strákum stóran part af seinni hringnum og ágætt að geta einbeitt sér að því að elta einhvern þá líður tíminn ansi hraðar. Þeir hurfu svo í einni brekkunni. Hélt áfram að taka framúr nokkrum en enginn á sama hraða til að fylgja eftir. Lappirnar orðnar pínu þungar og hausinn aðeins að stríða mér, ekki alveg að nenna þessu lengur. Eftir skóginn tók við hraðbrautin. Þá fer þetta að styttast. Rúlla niður þessu fínu brekku og gleymi mér aðeins í gleðinni. Er beint fyrir aftan annan hjólara og dómarinn kemur og flautar á mig. 5 mín í skammarkrókinn með þig. Ansans, átti þetta fyllilega skilið en þvílíkur klaufaskapur. Missi pínu dampinn meðan ég rúlla að næsta penalty boxi. Verulega erfitt að standa kyrr í 5 mínútur og horfa á stelpurnar sem ég var búin að taka framúr rúlla framhjá 😦 Loksins kemst ég af stað aftur, bara 20 km eftir.

T2 (04:57):

Eins og það er gott að komast á hjólið þá er líka jafngott að komast af því eftir 5-6 tíma setu og nuddsár á stöðum sem maður hélt væri ekki hægt að fá sár á. Sjálfboðaliðar grípa hjólið og ég fer beint að finna pokann minn. Sest niður og klæði mig rólega í hlaupaskó, der, sólgleraugu og númerabelti. Léttur kvíðahnútur í maganum, mun ég geta hlaupið? Rölti og skila pokanum og byrja að rölta útaf skiptisvæðinu, þori varla að byrja að hlaupa. En samt, 1, 2 og af stað!

MP2

Hlaupið (42,2 km; 4:55:24; pace 7:00; AG 29):

Úff! Alltaf jafn erfitt að byrja að hlaupa og svo þurfum við að hlaupa upp brekku út úr T2 WTF! Lappirnar pínu stífar en engir verkir!. Kílómeter tvö og ég er komin á pace-ið mitt 🙂 5 km og ég er ennþá á fínum hraða og þetta virtist ætla að ganga. Rek tánna í götustein og þarf að setja hægri (vonda) fótinn snögglega fram, þvílíkur sársauki. Núna er þetta búið 😦 Var með þvílíkan verk í mjöðminni og langaði mest að setjast niður og grenja, af sársauka og vonbrigðum. Náði samt að sannfæra sjálfa mig til að skokka rólega áfram meðan verkurinn hjaðnaði og tók verkjatöflu á næstu drykkjarstöð. Eftir 1-2 km var verkurinn að mestu farinn og bjartsýnin tók aftur við. Stuttu seinna fæ ég nístandi verk í vinstra hnéð. Andskotinn sjálfur, engin hlaup nokkrar vikur fyrir maraþon er ekki líklegt til árangurs. Reyni að skokka áfram en neyðist á endanum til að labba meðan verkurinn hjaðnar. „Jæja, ætti ég bara að láta þetta gott heita og hætta núna? Ég er ekki að fara að hlaupa mikið meira. Nei, andskotinn ég er ekki að fara að hætta. Hvað ætli ég sé lengi að labba þetta? Nei, Jesús þá verð ég langt fram að kvöld að þessu. Best að reyna að skokka smá.“ Kláraði svo restina af hlaupinu, rúma 35 km með því að skokka rólega þangað til verkurinn var orðinn óbærilegur (annaðhvort í mjöðminni eða hnénu) og labba svo þangað til verkurinn hjaðnaði aftur. Eftir 28 km var úrið orðið batteríslaust og ég gerði mér engan grein fyrir hvað ég var að fara hratt/hægt. Fannst hlaupið engan endi ætla að taka og var orðin svo rugluð í hausnum á tímabili að ég hélt ég væri að fara að klára þetta á 13 tímum. Þvílíkur léttir þegar ég fékk loksins að hlaupa inn rauða dregilinn og sá að tíminn var þó alla vega undir 12 tímum.

Lokatími 11:58:58

Lélagasti Ironman-tíminn minn hingað til en aldrei verið jafn erfitt að klára, Rétt náði þó undir 12 tíma, það er eitthvað ;p. Sjúklega ánægð með 7 mínútna bætingu í sundinu sem er að mestu að þakka æfingum á sundbekknum. Þarf aðeins að taka hausinn í gegn á hjólinu en hann er helsta ástæðan fyrir því að ég náði ekki mínum markmiðum þar. Ætla ég aftur? Jú, ætli það ekki. Veit samt ekki alveg hvenær það verður 😉 Tveir Ironman á þessu ári er alveg ágætt 😉