Sigurður Tómas Þórisson gerir upp járnið
Undirbúningur
Eftir Ironman Austurríki í júlí fyrrasumar (2017) var ég nokkuð rólegur fram að áramótum. Var duglegur að hjóla restina það sem eftir lifði sumars og mætti óreglulega á Ægir3 æfingar á haustmánuðum því við fjölskyldan vorum að undirbúa flutninga, sem fóru svo fram í desember. Eftir jólin hófst formlegt prógramm fyrir Barcelona – 9 mánuðir af nokkuð markvissum æfingum.
Fyrir Austurríki hafði ég æft einn míns liðs (með eigið prógramm) frá október fram í mars þegar ég mætti fyrst á æfingu hjá Ægir3. Ég ætlaði að byrja miklu fyrr með Ægi en ég miklaði fyrir mér að koma föstum æfingatímum inn í prógrammið hjá mér, sem var nokkuð þétt þá þegar – með þrjú börn, krefjandi vinnu og klifuræfingar. Sóló gat ég valið eftir hentisemi hvenær ég æfði og það var hentug leið til að gera Ironman prógrammið sæmilega áhrifalítið fyrir fjölskylduna. Var stundum að hjóla á trainer seinni partinn eftir að ég sótti krakkana í skóla/leikskóla, að hlaupa eða gera æfingar í ræktinni eftir háttatíma hjá þeim og synda fyrir vinnu á morgnana. Það er líka mikill tímasparnaður að æfa einn – minna um ferðalög milli staða, enginn tími í að safna saman hópnum, enginn tími í að blaðra fyrir og eftir æfingu. Og svo er líka gott fyrir hausinn að æfa einn, því á keppnisdegi er maður jú eyland og þarf að berjast við eigin djöfla og enginn sem bjargar manni úr sálarkrísu.
Maður er manns gaman
En þegar leið að keppninni ákvað ég að það væri of mikið sem ég væri að missa af sem einfari. Í fyrsta lagi væru lengri æfingar (hlaupa og hjóla) framundan sem væri skemmtilegra að gera með öðrum. Í öðru lagi er drekkhlaðinn reynslubanki í þríþrautarklúbbunum, sem meðlimir geta tappað af með því að ræða við reynsluboltana og læra af þeirra aðferðum og hugarfari. Í þriðja lagi er maður manns gaman og þó ég sé nokkuð mikill einfari í mér og líði ágætlega í eigin félagsskap, þá er mikið krydd í tilveruna að æfa með öðrum – og fyrir marga er þetta einn stærsti kosturinn við að æfa í klúbbi. Í fjórða lagi erum við í eðli okkar kappsamar verur – maður reynir einfaldlega meira á sig þegar einhver er að sperra sig við hliðina á manni heldur en ef maður er einn að hamast.
Fyrir Barcelona ákvað ég að vera í Ægir3 „Ironman pakkanum“ að langmestu leyti. Ég mætti reyndar bara á um helminginn af æfingunum en tók langoftast þær æfingar sem voru á planinu – helst að ég tæki sundæfingarnar öðruvísi en planið sagði til um. Sérstaklega sótti ég í hlaupabrautina á mánudögum, kvöldsund á fimmtudögum og löngu hjóla/brick á laugardögum og mætti í þær lang flestar.
Eftir Austurríki var alveg ljóst að ég þyrfti að fara upp um minnst eina deild í sundinu, því ég var þar fyrir miðjum hópi í 1200. sæti eftir sundið (á 1:16) og það tafði mig verulega á hjólinu í kjölfarið. Ég lagði því mikla vinnu í að lesa mér meira til um sund, pæla í tækni og slíku og reyndi að vinna í því sem ég var slakastur í (öndun, langsund, o.fl). Horfði á endalaust af vídeóum og náði að bæta mig helling milli ára en fyrir gamalmenni með núll bakgrunn í sundi eru tvö ár bara ekki nóg til að komast á þann stað að teljast „góður sundmaður“. Tel mig þó geta sæmilega skammlaust talist „þokkalegur“, sérstaklega í blautbúningi á langsundi (aðeins slakari í laug og vantar aðeins upp á hraðann í styttri vegalengdunum). Síðustu vikurnar fyrir keppni voru all þungar í sundinu og ég tók eina 5km æfingu, eina 3.8km og tvær 3km auk fjölmargra yfir 2km. Í fyrra fór ég til samanburðar lengst 2,5km í galla, ca. 2 vikum fyrir keppni. Miðað við ganginn á þessum löngu æfingum, þá var ég með vonir um að bæta mig um ca. 10mín og enda á kringum 1:05.
Hlaupið í Austurríki gekk svo sem vel á 3:13 en hnémeiðsli í klifri í desember klipptu út allar hlaupaæfingar fram í byrjun mars þegar ég byrjaði rólega að hlaupa og var bara rétt að detta í þokkalegt keppnisform þegar ég fór út í keppnina. Hefði þurfti alla vega einn og helst tvo mánuði í viðbót til að komast í gott maraþonform og ég fann það í lokin á þeirri keppni að það vantaði slatta af kílómetratugum í lappirnar. Núna í vetur var ég nánast alveg meiðslalaus. Hnéð var til friðs nema örfáa daga og jafnaði sig með smá hlaupastoppi. Interval æfingarnar í Höllinni komu mér ansi nálægt mínum gamla hraða í lengri og styttri vegalengdunum og ég átti góða hálfmöru í Vorþoninu – fjarri mínu besta en samt betra en formið átti að leyfa. Eftir smá óreglu í æfingum á vormánuðum milli inni- og úti-tímabils, fór að komast form á miðvikudagsæfingarnar (í Dalnum eða á brautinni) og helgaræfingarnar fóru að lengjast. Formið batnaði smátt og smátt fram að sumarfríi og í ágúst og september var fókusinn hjá mér töluverður á hlaupin. Ég bætti við stuttum sprettæfingum á mánudögum (oftast) og setti inn lykilæfingar úr maraþonprógrammi frá Þorláki Jóns í loka buildupinu til að gera mig kláran fyrir alvöru maraþonhlaup (s.s. ekki bara lifa hlaupið af…). Í lokin á buildupinu taldi ég mig vera kominn í ca. 2:50 maraþonform (nærri mínu besta) og var planið að stefna undir 3:00 í Barcelona. Síðustu erfiðu æfingarnar gengu meira að segja svo vel í september að ég var farinn að gæla við að reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57, þegar hann bætti Íslandsmetið í IM) ef mér liði vel eftir hjólið.
Hjólið tók ég svo sem svipað og veturinn á undan. Sprettir og tempó og brekkur af öllum stærðum og gerðum á trainer og á götu. Keypti notað TT hjól og fékk lánaðar ægilega fínar gjarðir hjá járnafanum, keypti mér powerpedala, betri hjólaskó, aero hjálm (fór Austurríki á 5:15 á racer með clip-on aerobar, æfingagjarðir, fjallahjólaskó, götuhjólahjálm og án powermælis) og rakaði meira að segja á mér lappirnar fyrir keppnina (þó það hafi sennilega engin áhrif). Fór aftur í WOW Cyclothon en í þetta skiptið með meistara Geir í 4ra manna liði GÁP Cannondale og það var all nokkuð harðari hjólamennska en í 10 manna liði Símans árið áður. Tók þátt í Tour of Reykjavík og Íslandsmóti í TT, hjólaði í vinnuna á hverjum degi (núna tæpa 6km hvora leið í stað 1km á gamla staðnum) og tók hraustlega á því í sumarfríinu fyrir norðan (keppti ma. í Gangamótinu frá Siglufirði til Akureyrar og barðist við Strava KOM í nokkrum hressum þjóðvegabrekkum). Eftir óendanlegar lúppur á Krýsvíkurveginum og á helstu leiðum kringum borgina taldi ég að mig vera kominn í form til að stefna á svipaðan tíma og Geir var með í Barcelona í fyrra (4:40) ef aðstæður væru hagfelldar.
Munkalíf og gufubaðsæfingar
Lokahnykkurinn að undirbúningnum var svo að eftir all nokkurt munúðarlíf í sumarfríinu í júlí setti ég mér nokkrar einfaldar „munkalífsreglur“ sem skyldu heiðraðar fram að keppninni tveimur mánuðum seinna. Reglurnar sneru aðallega að mataræði – áfengi, sykri, snakki, frönskum, kaffidrykkju etc. en voru svo áhrifaríkar að ég fór úr ca. 77kg í byrjun ágúst niður í 72,5kg um miðjan september (í hámarks æfingaálagi) og keppnisþyngd í Barcelona hefur verið kringum 73kg eftir smá afslátt frá munkinum og minni kaloríubruna í taper vikunum í restina. Það munar ekkert smá mikið um 4kg fyrir mann með minn skrokk, sérstaklega á hlaupinu.
Samhliða munkalífinu tók ég 2ja mánaða hitaaðlögun fyrir keppnina til að gera mig þolnari fyrir mögulegum heitum sólardegi og til að minnka svitamyndun og salttap almennt. Fór í gufubað tvisvar í viku frá byrjun ágúst fram að keppni, oftast eftir hlaupa eða hjólaæfingu. Þetta var stigvaxandi þjáning frá 5-10mín í byrjun þar sem ég var alveg að deyja frá fyrstu mínútu og kom út úr gufunni með urrandi svima og upp í 2x15mín og 1x25mín effort í lokin þar sem ég fann lítið fyrir hitanum fyrr en eftir 10-15mín inn í settið og leið bara ágætlega á eftir.
Aðdragandi
Síðustu 10 dagana tók ég svo nokkuð óskipulega steinefnahleðslu, þar sem maður ofhleður skrokkinn með þessum fjórum aðal steinefnum sem tapast við áreynslu (magnesíum, kalíum, natríum og calcium). Það tekur víst skrokkinn 7-10 daga að ná „deep muscular hydration“ á meðan „plasma hydration“ tekur bara dag eða tvo. Á keppnisdegi tapar maður miklum svita og vökvatapið verður aðallega á „plasma-leveli“ og ef maður er með góða „muscular hydration“, þá á maður að geta minnkað líkur á að lenda í „electrolyte-imbalance“ með tilheyrandi krömpum og frammistöðuvandamálum sem þeim fylgja.
Eftir vel heppnaðan undirbúning og nokkra yfirlegu um markmið í hverri grein var ég kominn niður á plan A, B, C og D. A-markmiðið væri 9 tíma Ironman og sub-3:00 hlaup. B-markmið væri hressilega bæting frá Austurríki (9:30 eða eitthvað slíkt). C-markmiðið væri bæting frá Austurríki (sub-9:52) og D-markmiðið væri einfaldlega að skakklappast í mark yfir höfuð.
Við Ása flugum (barnlaus, takk tengdó 🙂 út til Calella þann 3. október ásamt flestum í Ægi og slatta af hinum Íslendingunum. Leigðum okkur bíl á vellinum og komum á hótelið upp úr miðnætti og gripum okkur bita á McD og Istanbul kebab.
Við Ægiringarnir tóku sundæfingu í sjónum á hverjum degi og tókum hlaup og hjól flesta daga. Fórum nokkrum sinnum út að borða, meðal annars í feita nautasteik á úrúgvæískum veitingastað í Calella á fimmtudeginum. Að öðru leyti reyndi ég að vera sem minnst á fótum, vökva mig vel og borða ekki eitthvað framandi
Við Ása fórum í túristaferð til Montserrat á laugardeginum (2 dögum fyrir keppnina) og það var gaman en í hádegismatnum fór mér að líða eitthvað undarlega (og Ásu á leiðinni). Var hálf óglatt, svimaði slatta og var kominn með magakveisu með tilheyrandi klósettferðum. Grunaði helst að þetta tengdist eitthvað því að við vorum komin þarna í 1200m hæð beint frá sjávarmáli. Síðar kom í ljós að all nokkrir af okkur nautasteikarstrákunum vorum með magavesen og nokkrir með pípandi niðurgang. Mér leist ekkert á þetta og lá bara hálfskjálfandi undir teppi á hótelherberginu eftir að við komum til baka og hálfan laugardaginn líka. Á laugardagskvöld var mér farið að líða skítsæmilega og ekkert annað að gera en að vona að maginn yrði til friðs á sunnudeginum. Reyndi bara að vera duglegur að hvíla mig og vökva.
Útkoma
Keppnin gekk svona líka vel og ég endaði á 9:06:34 og krækti mér í Kona sæti í október að ári.
Sund – 1:08:45 (116. í aldursflokki, 616. overall)
T1 – 2:51
Hjól – 4:53:06 (18. í aldursflokki, 105. overall)
T2 – 2:00
Hlaup – 2:59:54 (3. í aldursflokki, 23. overall)
Var í 7. sæti í 40-44 karlaflokkinum og í þeim flokki voru 6 Kona sæti í boði þetta árið og amk. einn ef ekki tveir fyrir ofan mig afþökkuðu sitt sæti og því komst ég inn.
Náði ekki alveg A-markmiðinu en var ansi nálægt því og held ég hafi alveg verið í formi fyrir 9 tíma þraut ef aðstæður í sundinu og hjólinu hefðu verið fullkomnar.
Kona sæti var svo sem alls ekkert markmið hjá mér en ég var búinn að sjá það út frá tölfræði síðustu ára að ef ég yrði kringum 9 tímana, þá væri ég annað hvort með sæti eða ansi nálægt því. Var búinn að semja við yfirvaldið um að ef Kona byðist, þá myndi ég segja já við því. Maður veit aldrei hvernig staðan verður á komandi árum. Kannski verð ég aldrei aftur í þessu formi, kannski lendi ég í meiðslum eða slysi, nenni þessum Ironman leik ekki lengur eða eitthvað. Carpe diem!
Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Langefst á lista ber náttúrulega að nefna hana Ásu ofurmömmu fyrir í fyrsta lagi að gefa mér grænt ljós á að fara aftur í Ironman og fyrir óendanlega þolinmæði og stuðning í gegnum þessa vitleysu mína síðustu tvö árin, sérstaklega þessa síðustu þungu „buildup“ mánuði fram að Barcelona. Grísirnir mínir, Þórir (12 ára), Katla (8 ára) og Krissi (6 ára) fá líka mikið hrós fyrir að þrauka föðurmissinn – ég lofa að vera meira heima næstu mánuði og sinna ykkur betur 🙂
Allir æfingarfélagar og þjálfarateymið í Ægir3 sem svitnuðu með mér síðustu misseri. Mikill kraftur í þessum hópi og þó ég taki ca. helminginn af æfingunum sóló, þá er ómetanlegt að vera hluti af drífandi hóp og það lyftir öllum upp á hærra plan. Vonandi hef ég gefið eitthvað af mér inn í hópsálina og verið einhverjum hvatning til afreka.
José í GÁP fær stórt hrós fyrir aðstoðina með bikefit og almennar lífslexíur frá sjónarhorni uppgjafar þríþrautarkappa. Vonandi heldur hann áfram með comebackið og fer að æfa og keppa með okkur í vetur.
Gulli fær svo þakkir fyrir lánið á hjólatöskunni og fyrir áhugann. Treysti á að hann bæti fyrir svikna „Ironman um fertugt“ planið okkar og skelli sér í járn fljótlega.
Langa útgáfan
Hér að neðan er síðan all nokkuð ítarleg útlistun á hverjum hluta keppninnar fyrir þau allra áhugasömustu.
Sundið
Hér var markmiðið að vera á 1:05 en allt undir 1:10 væri bara fínt og ef hjól og hlaup gengju vel, þá gæti 9 tíma markmiðið hafist.
Þetta leit alls ekki vel út í startinu. Það var strekkings gola frá sjónum og RISA stórar öldur sem hömruðu á ströndinni af miklum krafti. Fólk sem var að reyna að hita upp fyrir startið var í bölvuðu brasi með að komast út og aftur í land í briminu.
En ég var svo sem ekkert að stressa mig á þessu. Vorum búnir að lenda í svona aðstæðum í Nauthólsvík nokkrum sinnum þannig að ef eitthvað væri, þá værum við mörlandarnir betur undirbúnir en aðrir í svona ævintýri. Kannski ekki bestu aðstæður til að setja einhverja met sundtíma en þetta ætti að hægja jafnt á öllum og jafnvel meira á hinum en mér.
Skv. ráðleggingum frá Geir þjálfara, þá stillti ég mér upp í 60mín hólfinu, sem var í raun bara aftari hlutinn af 50mín hólfinu (engin skilrúm) og var frekar fámennt. Næsta hólf á eftir var 1:05 og miðað við að flestir setja sig í hólf hraðara en þeir eiga í raun erindi, þá ákvað ég að það væri bara fínt fyrir mig að vera fyrir miðju þessu hólfi. Rakst á Smára Þríkó í hólfinu og átti von á að sjá Óla, Ara og Davíð og jafnvel fleiri úr Ægi en þeir voru hvergi sjáanlegir.
Jæja, ég sogaðist svo bara með mannhafinu í átt að ráshliðunum. Fyrst biðum við meðan Pro og XC (executive-challenged/fatlaðir) voru ræstir en síðan gekk þetta skuggalega hratt og áður en ég vissi af var ég kominn alveg að hliðinu. Var aðeins stressaður eins og eðlilegt er og maginn aðeins öfugur en þó svo miklu rólegri en í fyrra þó ég væri núna frekar framarlega í 3400 manna hjörð að fara að stefna á að fara alveg að mínum getumörkum í 9 tíma og með þennan snarbrjálaða sjó fyrir framan mig. Svo var ég bara kominn að fólkinu sem var að hleypa út í – nokkur „blíp, blíp, dut“, „blíp, blíp, dut“ og var ég farinn af stað út í brimið…
Þetta var eins og verstu Nauthólsvíkurferðirnar í sumar – himinháar öldur sem þurfti að hálf klifra yfir næst landi en svo skánaði þetta aðeins þegar utar dró. Ég var bara sultuslakur á frekar þægilegum hraða og var ekkert að stressa mig þó það væri fullt af liði að sigla fram úr mér. Planið var að reyna að hanga eins og ég gæti í þessum hraðari sundmönnum til að mjólka kjölsögið frá þeim í smástund eftir að þeir færu fram úr mér. Síðan myndi ég bara fara á mínum hraða þess á milli og leita að nýju kjölsogi.
Gekk nokkuð greiðlega út að fyrstu beygju-baujunni en þá tók við 1750m kafli niður meðfram ströndinni. Á þeim kafla var ágætis skriður á manni „með öldunni“ en fólkið var út um allt og erfitt að finna hóp til að elta. Var því ansi mikið sjálfur að dúlla mér á sæmilega þéttu rúlli og datt í einstaka kjölsog hér og þar. Eitt eða tvö létt kjaftshögg og spörk en ekkert alvarlegt – engin gleraugu af eða neitt slíkt. Smá pirringur náttúrulega í mesta barningnum en samt ekki þannig að ég yrði eitthvað reiður eða væri mikið að bölva ástandinu – maður átti bara fullt í fangi með að glíma við öldurnar og sjálfan sig syndandi svo það var varla rúm fyrir annað.
Ég hélt þessar baujur ætluðu aldrei að klárast – fannst ég vera búinn að synda endalaust langt – en eftir dúk og disk kom að beygjunni og það var mikill léttir, því þá voru bara 100m þvert og svo 1450m til baka í markið – mér leið bara nokkuð vel og var nokkuð ferskur en hafði náttúrulega ekki hugmynd hvernig tímanum leið (og var svo sem alveg sama á þessu tímapunkti).
Eftir stutta þverkaflann kárnaði gamanið heldur, því þá beygðum við til baka meðfram ströndinni í átt að skiptisvæðinu og fengum ölduna í fangið. Maður hentist fram og til baka í ölduganginum og vissi ekki alveg hvað sneri upp og hvað niður, hvað þá hvort maður væri að synda í rétta átt eða hvað. Þetta var hálft í hvoru ævintýraleg og skemmtileg áskorun (og ég hálf hlæjandi að þessu öllu saman) og hins vegar pælingar eins og „hvaða rugl er þetta eiginlega?“ og „hvað er ég eiginlega að gera hérna?“
Hægt og bítandi mjakaðist ég þó áleiðis uppeftir og smeygði mér framhjá síðustu baujunni og synti síðustu 100-200m í átt að landi. Ætlaði varla að komast upp úr sjónum fyrir brimi. Var staðinn upp á leið að sjálfboðaliða í fjörunni þegar risa alda skellti mér um koll og dró mig nokkra metra aftur út. Stóð fljótt upp og brunaði upp að skiptasvæðinu. Sá Ásu og fleiri Íslendinga fremst í áhorfendahópnum og ég hélt ég hefði vinkað þeim eitthvað en ég sá það á vídeói af mér að ég var með grimman svip og strunsaði mjög ákveðinn framhjá.
3.750m var vegalengdin sem ég synti skv. Garmin þannig að brautin hefur sennilega verið aðeins í styttra lagi og ég virðist ekki hafa synt sérlega mikið úr leið – ljóst að ég er farinn að synda beinna en ég gerði og orðinn betri í „sighting“.
Lokatími 1:08:45, 116. í aldursflokki og 616. í heildina.
Meðalhraði (official mv. 3,8km) 1:49/100m
Skiptisvæðið-T1
Lappaði úrið og kíkti örstutt á skjáinn og sýndist ég sjá 1:08 – ekki sem verst miðað við ástandið þó þetta hafi ekki alveg verið samkvæmt björtustu vonum.
Stoppaði 1sek undir sturtunum til að skola saltpækilinn úr andlitinu og svo bara beint upp í tjaldið þar sem pokarnir okkar héngu á númeruðum snögum. Var sæmilega fljótur úr gallanum en samt ekkert ævintýralega að mér fannst. Númerabeltið á mittið, hjálminn á hausinn, sunddótið ofan í og pokann aftur á snagann. Hljóp svo beint að hjólinu og leiddi það á skokkinu að línunni við endann á skiptisvæðinu. Stökk þar á bak og tókst að smeygja mér sæmilega hratt í skóna þó það sé alltaf aðeins kómísk aðgerð – smá zikkzakk og næstum búinn að klessa á eitthvað annað fólk þarna en það hafðist þó slysalaust og ég kominn strax á siglingu.
Lokatími 2:51, sem er bara ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði. Er t.d. bara 50s hægari en sigurvegarinn í keppninni og hann vinnur við þetta 🙂
Hjólið
Hér var markmiðið að vera á kringum 4:40-45 á 220-230W og helst á púls undir 140 að jafnaði. Ætlaði að leyfa mér að fara upp í 250-270W og 150 púls í framúrakstri og brekkum en helst ekki hærra.
Skemmst er frá því að segja að þessi áætlun stóðst ekki. 🙂
Fyrsti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Það var blautt eftir rigningar næturinnar þannig að það var vissara að fara varlega. Kláraði að festa skóna og fór sæmilega þétt upp á aðalgötuna.
Keyrði vöttin aðeins upp í byrjun til að komast fram úr sem flestum hraðari sundmönnum til að hafa meira pláss til að hjóla. Í fyrra í Austurríki kom ég upp úr vatninu fyrir miðjum hópi í sæti 1200+ og það var mikill barningur að koma sér upp hópinn og geta hjólað á sínum hraða í stað þess að vera endalaust að taka fram úr og hægja til að vera ekki í kjölsogi. Núna ræsti ég í fyrsta lagi framar svo ég var með nokkurra mín byssutíma forskot á massann og svo gekk sundið líka nokkuð vel svo ég var í miklu betri málum en í fyrra. Var svo sem ekki nema í sæti 600+ en kraðakið var svo margfalt minni núna.
Mér var skítkalt þegar ég byrjaði að hjóla. Það var enn skýjað og það var hrollur í mér eftir sundið og fyrsta kaflann var smá regnúði sem kældi mann enn frekar niður. Var ekki kominn með hita í kroppinn fyrr en ca. hálftíma inn í hjólið. Hitaaðlögunin hefur náttúrulega hækkað þægindahitann hjá mér upp um nokkrar gráður þannig að ég er aðeins viðkvæmari fyrir kulda en ella. Hörku hjólastelpa frá Finnlandi (Aina Luoma, vann 30-34 ára á 9:27) fór fram úr mér á leiðinni upp í T-lúppuna og ég fylgdi henni – hún var sæmilega jöfn í hraðanum svo ég var oftast fyrir aftan en stundum fyrir framan þegar mér fannst hún vera að gefa eftir – og við svo með nokkra gaura fljótandi fram og aftur í kringum okkur. Þessi litla grúppa okkar hélt sig saman að mestu frá ca. 20-30km og að snúningnum við 90km og var á nokkuð þéttu trukki sem passaði ágætlega við target W hjá mér. Var næstum dottinn á drykkjarstöð á hjólinu í lok fyrri hrings þegar ég nuddaðist næstum í dekk á einhverjum á undan mér í þvögunni. Rétt náði að sveigja dekkið mitt frá hinu og halla mér í hina áttina til að ná jafnvægi.
Þegar ég sá 2:25 á úrinu eftir 90km (=> 4:50 heildartími EF ég héldi sama hraða), þá gaf ég slatta í og stakk hópinn minn af því ég var að stefna á 4:40-45 til að eiga möguleika á sub-9:00 því sundið var þegar búið að klippa 3 mín af svigrúminu sem ég hafði. Tók fram úr nokkrum fljótlega og var svo á sæmilega auðum sjó með bara staka hjólara á stangli næstu nokkra tugi km og gat þá stillt hraðann eftir eigin höfði og það var mjög gott.
Þetta var samt áhættusöm strategía því ég var búinn að keyra fyrri hlutann af fyrri hringnum nokkuð yfir viðmiðunarvöttum til að koma mér í sterkari hóp og taka slatta af sprettum allan tímann til að komast fram úr fólki og hanga í öðrum. Hættan var sú að ég myndi grilla lærin á hjólinu og sá sparnaður sem ég fengi í hjólatíma gæti komið margfalt í bakið á mér á hlaupinu.
Þegar ég var búinn með lúppuna uppeftir og kominn áleiðis að snúningnum við Montgat, þá var ég farinn að ná sífellt fleirum svo ég stillti mig í aðeins lægri vött bakvið aðra annað slagið til að jafna mig eftir þétta keyrslu síðasta klukkutímann ca frá því ég stakk af við 90km markið. Rétt kringum snúninginn með ca. 35km eftir fór nokkuð sterkur gaur fram úr mér og ég ákvað að hengja mig á hann og við skiptumst á að stilla hraðann langleiðina í mark. Það var fín ferð á okkur og við fórum fram úr fullt af liði í misgóðu ástandi (einhverjir enn á fyrri hring sjálfsagt). Hann var greinilega orðinn stífur og fór standandi í flestar brekkurnar og settist upp reglulega en var samt sterkur og með jafnan hraða. Mér leið þannig lagað ágætlega en lærin voru ekki búin að batna neitt þó ég hafi verið að hjóla jafnar en fyrri partinn. Reyndi að fara standandi í brekkurnar en fann fljótlega að það bara verra og ég byrjaði að krampa. Reyndi líka að standa upp á pedalana og hoppa aðeins og fetta mittið að stýrinu og þó það gerði skrokknum almennt gott, þá voru lærin ekki par hrifin af því og bauluðu. Í restina fór ég því bara sitjandi í brekkurnar og reyndi að losa um axlirnar eins og ég gat. Í undirbúningnum hafði ég yfirleitt komið nokkuð ferskur í löppunum úr löngu hjólatúrunum og var aðallega steiktur í bakinu og öxlunum (og stundum klofinu). Það var því ljóst að ég væri að fara á óþekktar slóðir í hlaupinu þennan daginn með lærin umtalsvert hömruð…
Með ca. 5-10km eftir í mark fór hinn gaurinn að gefa aðeins í en þá ákvað ég að slá aðeins af til að jafna mig fyrir hlaupið. Þetta var ekki mikið – smá vattalækkun snúningshækkun – en nóg til að hann sigldi rólega í burtu. Tók síðasta gelið með ca. 15km eftir – langaði bara ekkert í fleiri. Kláraði síðasta drykkinn en tók vatnsflösku á síðustu drykkjarstöðinni og setti helminginn í brúsann minn.
Síðasti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Þessi kafli var blautur þegar ég kom þangað og þess utan slatti af fólki á undan mér í þrengslunum þannig að það var ekki þorandi að ætla að fara eitthvað hratt þar í gegn. Mundi ekki nógu vel hvernig síðasti kaflinn var svo ég losaði skóna á leið niður brekkuna með ca. 2km eftir (því nóg pláss þar) og fór ofan á skóna líka aðeins of snemma með smá þræðing til baka eftir að skiptisvæðinu. Kostaði svo sem engan tíma en þarna hefði verið sniðugt að leggja betur á minnið hvernig leiðin að svæðinu var nákvæmlega. Hefði alveg getað losað og farið úr skónum á síðustu 300-400m sennilega eftir að við fórum í undirgöngin og snerum við til baka.
Hjólið í tölum
Meðal – 215W, 139bpm, 37,1km/klst og 83rpm (cadence)
Max – 526W, 155bpm, 62,6km/klst og 116rpm (cadence)
Weighted average – 220W
Normalized – 223W
Max meðal yfir 20mín – 234W
Vegalengd 181,3km, 792m hækkun
Kaloríur brenndar – 3.788
Fín frammistaða en bara dugði engan veginn til að vera nálægt 4:40 eins og bjartsýna planið gekk út á. Brautin var (að mér sýnist) 2km lengri en í fyrra (181km skv. Garmin), þessi T-lúppa ofan við Mataró er með smá hækkun og fleiri snúningspunktum og svo kostaði vindurinn og bleytan einhverjar mínútur líka uppsafnað.
Lokatími 4:53:06, 18. í aldursflokki og 105. overall
Mjög góður tími en langt frá því sem þurfti til að eiga séns í 9 tímana nema ég myndi eiga eitthvað ævintýrilega gott hlaup (2:55ish), sem var harla ólíklegt miðað við ástandið á lærunum á mér í lokin á seinni hjólahringnum.
Held að staðan sé líka bara þannig í svona fjölmennri keppni að meðan ég er ekki betri sundmaður en raun ber vitni, þá muni ég þurfa að eiga við þessi „umferðarvandamál“ að etja og þar með ekki geta hjólað „mitt hjól“ á jöfnum TT hraða. Með 600 manns á undan mér, flesta mun slakari hjólara en mig, þá verður óendanlegur fjöldi framúrakstra óhjákvæmilegur og þeir taka sinn toll, því þeir eru ekki bara tveir eða þrír talsins heldur 50 100 eða 200 eða eitthvað í þeim dúr og ég var einfaldlega ekki nógu vel undirbúinn undir svoleiðis álag. Sundið er í hægfara framför en á meðan ég er ekki kominn í sub-klukkutíma kalíber á sundinu (ef það hefst einhvern tímann), þá sýnist mér ég þurfa að breyta aðeins hvernig löngu hjólatúrarnir eru tæklaðir í buildupinu – t.d. að í stað þess að taka jafna Ironman-vött æfingu í 4-5 tíma, þá að taka frekar IM-vatta „base-cruise“ í 4-5 tíma með kannski 15-60sek „surge“ á 2-5 mín fresti, því þannig er Ironman hjólið fyrir mig – það var þannig í fyrra líka nema bara ennþá verra, því þá voru 1200 manns á undan mér…
Skiptisvæðið T2
Ég stökk af baki á ferðinni en það var eitthvað af fólki fyrir mér á dreglinum strax innan við línuna svo ég varð að stoppa aðeins og smeygja mér framhjá þeim. Einhverjar sekúndur sem töpuðust þar. Fannst ég sjá 4:50 og eitthvað á úrinu þegar ég lappaði það inn í T2 en var samt ekki mikið að pæla í hjólatímanum – það var bara búiðö mál og ekkert við því að gera annað en að hlaupa eins og maður og gera það besta úr stöðunni.
Skokkaði nokkuð léttfættur upp að hjólarekkanum og henti hjólinu á sinn stað og losaði hjálminn á leiðinni upp í tjaldið þar sem ég smeygði mér í gelbeltið og fór í sokka og skó og greip húfu, gleraugu og úlnliðsband. Hjálminn ofan í pokann og hengdi hann aftur á snagann og strunsaði út á hlaupabrautina, klæddi mig í húfuna og hitt sem ég hélt á og gúffaði í mig geli.
Lokatími 2:00, sem er aftur ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði (er t.d. 9s hraðari en sigurvegarinn)
Hlaupið
Maraþonið í IM í fyrra gekk mjög vel framan af – kom þar mjög ferskur af hjólinu og var að rúlla út á 4:15-20/km hraða(target pace 4:35/km þá) og var í mjög góðum málum upp í 19km þegar fór aðeins að hægja á mér. Í 27km fóru lappirnar á mér í steik og síðustu 15km voru hrikalega erfiðir og ég var að berjast við að halda mér undir 5:00/km hraðaí lokin og náði að klóra mig í mark á 3:13, sem telst víst all gott. Því náði ég þrátt fyrir að missa alveg úr 3 mánuði (des-feb) af hlaupum vegna meiðsla í hné þannig að ég var eiginlega bara hálfnaður með hlaupa-buildupið þegar kom að IM í byrjun júlí.
Í ár voru væntingar um hlaupatíma undir 3 tímana – bæði því ég taldi mig eiga erindi í þann hraða eftir gott hlaup í fyrra og það var líka sá tími sem þurfti til að 9 tímar væru eitthvað á teikniborðinu. Minn besti tími í maraþoni er 2:44 frá Rotterdam 2016 og taldi mig vera kominn í ca. 2.50 form núna í lokin eftir mjög markvissan undirbúning sérstaklega fyrir IM hlaupið. 3:00 tími í maraþoni þýðir hraði upp á ca. 4:15/km og ég var búinn að fara frekar sannfærandi í gegnum langar lykilæfingar á þeim hraða og var því með það upplegg að ég myndi leggja af stað á 4:10/km fyrstu 5-10km og meta stöðuna þá. Ef mér liði vel, þá myndi ég reyna að halda mig kringum 4:05-4:10/km og reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57 eitthvað) en annars reyna að halda sjó á 4:15/km hraða og ná undir 3 tímana. Neyðarplanið var að berjast eins og ljón ef allt færi til fjandans og fara ekki hægar en 4:30/km til að hanga undir 3:10.
Byrjað er að fara ca. 1600m frá skiptisvæðinu að snúningspunkti við marksvæðið og eftir það eru svo farnar þrjár 13,5km lúppur til Santa Susanna, samtals 42,1km eða þar um bil (Ironman eru ekki með löglega mældar brautir skv. IAAF staðli heldur eru þetta bara slembiþon)
Jæja, feginn að vera loksins laus af fjandans hjólinu eftir rétt tæpa fimm tíma á hnakknum og ég fór sæmilega sannfærandi af stað á 4:00-4:05/km hraðaog náði ekki almennilega beygjunni við pálmatréð hjá marksvæðinu og hljóp út í kantstein og datt nánast á grindverkið. Fann samt strax fyrir lærunum eftir hjólið og kveið óneitanlega fyrir komandi þriggja tíma „sufferfest“. Á þessu svæði eru skemmtileg trjágöng og fullt af fólki að horfa á – þar á meðal Ása og allir hinir Ægir3 fylgifiskarnir. Virkilega gaman á þessum kafla með íslenska fánann á nokkrum stöðum og marga að hvetja almennt og svo okkar fólk að hvetja mig persónulega. Þegar ég var að koma að snúningnum við pálmatréð sé ég Ironman kynninn með míkrófóninn í kantinum. Hann er að telja upp eitthvað um hvernig gengi hjá atvinnumönnum og svo heyri ég bara allt í einu „and here we have an athlete from Iceland in the mix“ – gaman að því. Ása var greinilega ekki alveg með statusinn á mér á hreinu, því ég sá hana eftir snúninginn (eftir ca. 1800m) og hóaði til hennar og henni krossbrá við að sjá mig þarna en gólaði svo hvatningarorð meðan ég stormaði framhjá henni.
Fyrsti hringurinn til Santa Susanna og til baka gekk nokkuð vel á þessu target 4:10-15/km hraða en í meðvitundinni leið hins vegar afar hægt og ég hélt ég ætlaði aldrei að vera kominn úteftir að snúningi. Síðasti kaflinn fyrir snúninginn útfrá er nánast mannlaus og lítið að frétta í landslagi, trjám eða áhorfendum til að dreifa huganum. Smá mótvindur til baka hægði svo meira á mér og hitinn var að aukast eftir því sem skýin þynntust á himninum og sólin fór að láta á sér kræla.
Eftir fyrsta hring kemur maður til baka að pálmatrénu góða og þá reynir á sálartetrið. Maður sér „frárein“ út úr beygjunni í átt að Ironman hliðinu í marksvæðinu EN NEI – ég er bara búinn með einn hring og á TVO HRINGI EFTIR – helvítis 27km eftir… Ekkert annað að gera þar en bíta á jaxlinn setja kassann upp og halda áfram að gera það sem gera þarf – halda hraðanum uppi og komast klakklaust í mark.
Þó það sé óneitanlega frekar niðurdrepandi að fara svona oft framhjá marksvæðinu, þá hefur þetta fyrirkomulag nokkra kosti: a) maður sér stuðningsfólkið sitt frekar oft – tvisvar á stuttum kafla á hverjum hring ef þau eru nálægt marksvæðinu, b) það er hægt að hafa drykkjarstöðvar mjög þétt (voru á 2-3km fresti) og c) kílómetrarnir liðu alltaf hraðar og hraðar, þó ég væri að fara hægar og hægar yfir – bara út af þessum „kunnugleika“ að hafa verið á þessum slóðum áður og maður veit hvað er í vændum og getur hlakkað til einhvers sem maður veit að er að koma í framhaldinu.
Seinni tveir hringirnir runnu framhjá í hálfgerðri þoku. Mætti annað slagið Ægis strákunum í misfersku ástandi og reyndi að frussa út úr mér einhverjum hvatningarorðum sem vonandi hafa gert eitthvað fyrir þá. Spænskur pro gaur fór fram úr mér á fyrsta hring (hann á sínum öðrum) og ég notaði hann sem mótíveringu til að halda mínum hraða uppi. Missti hann þó frá mér eftir nokkra km en mjólkaði framúraksturinn þó eins og ég gat. Á svipuðu stað á öðrum hring fór ég svo fram úr honum þegar hann var farinn að ströggla á þriðja hring með örfáa km í mark og ég greinilega að halda mínu nokkuð vel. Fór fram úr Ara og Lúlla eftir snúninginn á þriðja hring og þeir greinilega orðnir ansi þungir og áttu þá 1 1/2 hring eftir (næstum 20km). Lítið annað að gera en klappa þeim létt á bakið og góla „komaso“ eða hvað það var sem ég baulaði (söng amk. ekki „Hvíta máva“). Var orðinn ansi verkaður þarna í ca. 37km með 5km eftir í mark -hraðinn dottinn niður í 4:25-30/km og meðalhraði á hlaupinu skriðinn yfir 4:15/km þannig að ég var hægt og sígandi að missa frá mér 3 tíma takmarkið. Hafði svo sem ekki mikið fram að færa á þessum tímapunkti til að lagfæra það því ég komst bara ekki hraðar með lærin að stífna meira og meira og farinn að stífna verulega upp í náranum líka þegar komið var inn í seinni partinn af hlaupinu. Hélt þó þessum hraða nokkurn veginn í átt að skiptisvæðinu og þar loksins lagði ég í að stíga á bensínið með 1600m í mark. Þetta var nú ekki neitt urrandi endasprettur en fór þarna vaxandi upp í nálægt 4:00/km.
Endaspretturinn út af pálmatréslúppunni eftir svarta dreglinum í átt að Ironmark markinu var tekinn gjörsamlega á fullu gasi – hafði ekki hugmynd um hvort ég væri nálægt 3 tíma hlaupi eða 9 tíma heildartíma, því þarna kemst ekkert annað að en að klára í mark og það sem fyrst. Sá ekki Ásu og hina Íslendingana eða neitt svo sem á endasprettinum, því ég var svo fókusaður á þetta og alveg út úr heiminum. Var alveg bugaður í markinu – rétt náði að pumpa hnefana eitthvað út í loftið og slökkva á úrinu og var svo studdur inn í veitingatjaldið af hjálpfúsum sjálfboðaliða.
Í tjaldinu sat ég svo örmagna í einsemd minni og var ekki að koma neinu niður nema smá gosi og melónu. Reyndi að bíta í brauð en kúgaðist og gat varla staðið upp til að sækja mér meira, því ég var svo þreyttur og lappirnar alveg í hakki. Sat því dágóða stund og sötraða drykk og ákvað svo fyrir rest að fara í sturtu. Hún var náttúrulega ísköld en mér var alveg sama. Pissaði í sturtunni rauðbrúnni bunu og hugsaði bara „ósjitt“ – í besta falli brúnt út af myoglobin vöðvaniðurbrotspróteinum (rhabdomyolysis), í versta falli rautt út af blæðingum. Hef nokkrum sinnum fengið mjög dökkt piss eftir maraþon, langar tempó æfingar og svo járnkarlinn í fyrra þannig að ég var ekkert að stressa mig allt of mikið á þessu og einbeitti mér bara að vökvainntöku. Næsta buna uppi á hóteli var helmingi ljósari og þriðja bunan nokkrum tímum síðar var í nokkurn veginn „náttúrulegum“ lit…
Óli kom svo rúmum klukkutíma á eftir mér í mark og Ari og Lúlli í kjölfarið. Það var gaman að hitta æfingafélagana og fara yfir upplifun dagsins. Í fyrra var ég nefnilega aleinn að keppa og hafði engan til að tala við eftir keppnina fyrr en ég fór út af marksvæðinu til fjölskyldunnar. Ég var því ekkert að stressa mig á að fara út úr tjaldinu til Ásu og hélt hún væri bara í góðum félagsskap í góða veðrinu með hinum Íslendingunum. Það var því sjokk þegar ég loksins fór út úr tjaldinu að ég rakst á Ásu, sem hafði þá beðið eftir mér í 3 tíma og fékk ekki að fara inn í tjaldið og stóð því núna í ausandi rigningu og vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðinn… Ég hafði nefnilega ekki sett síma í götufatapokann og hélt ég gæti ekki komist út úr tjaldinu til að kasta kveðju á hana og tíminn leið greinilega miklu hraðar úti á götu heldur en hjá mér í „post-race oblivion“ inni í tjaldinu. Í ljósi skrautlegrar sögu minnar með ofreynslu og sjúkratjöld í svona keppnum, þá eru hennar áhyggjur skiljanlegar og algjör aulaskapur í mér að vera ekki búinn að plana betur samskiptin eftir að ég kæmi í mark – setja síma í pokann, kalla til hennar út um útganginn, gefa upp tíma sem ég myndi vera inni í tjaldinu eða eitthvað. Gerum betur hvað þetta varðar næst…
Hlaupið í tölum
Hraðasti km – 3:58 (fyrsti)
Hægasti km – 4:38 (km 34)
Meðal hraði- 4:18/km (4:16/km skv. opinberum tölum mv. að hlaupið hafi verið 42,2km)
Garmin sýnir hlaupið sem 41,8km og þar sem það sýnir yfirleitt aðeins of mikið, þá hefur brautin sennilega ekki verið nema 41,5km eða þar um bil – við fögnum því 🙂
Lokatími 2:59:54, 3. í aldursflokki og 23. overall
Bara tvær konur á undan mér í allri keppninni – 1. og 2. sætið í Pro kvenna.
Járnið í heild
7. sæti í aldursflokki af 471 – 19 sek frá 6. sæti og 1:32 frá 5. sæti.
54. sæti karla overall
55. sæti overall
Hefði dugaði til sigurs í 45-49 karla og overall AG kvenna og öðru sæti overall kvenna og 31. sæti pro karla.
Ekki sem verst 🙂