Lanzarote

Rannveig Guicharnaud segir frá:

Ég hafði hugsað mér að skrifa langan íþróttastatus á FB þótt það sé það allra hallærislegasta sem hægt er að gera á FB samkvæmt sonum mínum. Gamalt fólk á ekki að nota FB til þess að skrifa ritgerðir, einnar setningar stöðufærsla er málið. Þetta er víst m.a. ástæðan fyrir því að unga fólkið fór af FB yfir á Instagram.  Mér skilst svo að gamla fólkið sé komið þangað líka (enginn friður) og þau að flýja þaðan líka. Þetta voru sem sagt fréttir úr heimi  unga fólksins og átti alls ekki að vera umræðuefni þessa pistils.

Nú, nú, í millitíðinni hafði Gísli Ásgeirsson samband við mig og bað mig um að skrifa keppnissögu og ég ákvað að fara að ráðum sona minna , ekki skrifa ritgerð á FB heldur frekar blogg og halda þar með kúlinu.

Hálfur járnkall á Lanzarote.

Vá, þvílíkt ævintýri. Ég er alveg heilluð af þessari eyðimerkureldfjallaeyju. Hér er allt rólegt, hrátt og afslappað. Landbúnaðurinn hér mjög frumstæður (já, ég er áhugamanneskja um landbúnað og landbúnaðarvörur og þá sérstaklega ræktun í eldfjallaumhverfi og gerði doktorsverkefnið mitt um eldfjallajarðveg). Ég hef sem sagt önnur áhugamál en þríþraut, kreisí, ég veit!

Hér er ekki margmenni, ósnortið landslag og fáir vegir sem er gott fyrir mig, því eins og alþjóð veit er ég ekki ratvísasta manneskja í heimi þannig ég þarf að leggja mig fram við að týnast hér á hjólinu. Það voru líka fáir í sjónum þegar ég fór í sundprófun.

1 Sundprófun
Sundprófun

Hér er líka lögum og reglum ekkert tekið of hátíðlega og hvað þá í þríþrautarheiminum. Þegar ég kom á skiptisvæðið með hjólið mitt daginn fyrir keppni var ekkert verið að skoða keppnisnúmer, tékka á bremsum eða hjálmi. Það var bara sagt, buonas tardes señora, settu hjólið þitt á rekkann og málið er dautt.

Sund start

Eins og í mörgum svona keppnum var svartamyrkur á T1 um morguninn. Keppnishaldarar voru búnir að lofa að svæðið yrði lýst, en það var ekki alveg þannig.  Bara einn ljósastaur á svæðinu sem lýsti á skiptitjaldið þannig að allir notuðu ljósin í símunum sínum til að geta stússast og gera hjólin tilbúin fyrir keppni. Liðinu var síðan smalað niður í sundstart en þá var ennþá kolniðamyrkur og upphitunarsundið var tekið í myrkri. Ég hef aldrei lent í því áður og fannst það frekar spennandi.

2 sundstart
Í morgunrökkrinu vorum við ræst

Hafið bara kolsvart, maður horfði bara ofan í svarta myrkur þegar maður synti þarna um. Svona eins og maður ímyndar sér hvernig það er upp í himingeimnum. Svo var bara allt í einu komin sólarupprás 10 mín fyrir start.

Ég var ekki alveg nógu ánægð með fyrirkomulagið á sundinu. Konur störtuðu mínútu á eftir körlunum og ekki rolling start (3).

3 Konu og karlastart
Karlar og konur í ræsingu.

Ef að maður getur eitthvað synt sem kona þá er þetta frekar glatað því hraðari konur þurfa þá að synda í gegnum haf af hægum körlum og eins og við vitum eru þá eru alltaf mun fleiri karlar en konur að keppa.  Ég var reyndar vön því að hafa sér konu start frá því ég æfði þríþraut á Ítalíu en þá voru konurnar látnar byrja nokkrum mín. á undan körlunum.  Þar sem konurnar voru alltaf færri var lítið mál fyrir hröðu karlana að synda í gegnum konurnar.

Sundið hófst kl 7:35 og það var eins ég og ég hélt, ég var varla búin að taka 10 sundtök þegar ég þurfti að byrja að synda í gegnum haf af körlum mun stærri og sterkari en ég og margir að synda bringsund þannig að maður þurfti að hafa sig allan við að fá ekki spark í rifbeinin.  Eftir svona 10 mín leystist þó aðeins úr flækjunni en ég var þó föst með nokkrum körlum sem syntu af leið og ég með þeim.  Allt í einu voru komnir fullt af kanóum og flautað á okkur eins og enginn væri morgundagurinn og við rekin eins of afreka hvalir aftur á rétta braut. Hér voru sundgleraugun mín byrjuð að leka í fyrsta sinn (held vegna vaselíns) þannig að ég synti bara með gleraugun hálffull af sjó sem var ekki mjög þægilegt. Mér fannst ég hins vegar ekki hafa neinn tíma til þess að reyna að laga þetta vegna þess að ég hafði synt af leið. Allt í einu var svo sundið bara búið og ég kom önnur upp úr í aldursflokki, 22/126 konum.  Ég var mjög hissa eftir allt brasið í sundinu.

Hjólið 

Ég skottaðist síðan inn á T1 og fór úr gallanum, drakk smá úr brúsa sem ég var með í skiptipokanum og tók 3 bita af próteinbar og fór svo á hjólið.

4 út á hjól
Farið út á hjólið. Sólin komin upp.

Ég var alveg í eigin heim á hjólinu og missti allt tímaskyn, mér fannst svo gaman. Hjólaleiðin samanstendur af löngum aflíðandi brekkum í gegn um kolsvart hraunið og gígaraðir.  Það var heitt þennan dag og hitinn magnaðist upp í svörtu hrauninu.

 

5 Landslagið á hjólaleiðinni
Svona var landslagið á hjólaleiðinni
6 Kjalarnes Lanzarote
Er stundum rok á Lanzarote? Álíka mikið og á Kjalarnesi.

Svitinn rann undan TT hjálminum og ég fann saltbragð í munninum þegar svitadroparnir runnu meðfram andlitinu og mér fannst það æðislegt.

Ég var með lágkolvetnalausn með söltum út í á hjólinu því sykurdrykkir og gel fara illa í mig og gera mig bara þyrsta enda basic efnafræðilögmál þar á ferð sem er óþarfi að útskýra hér. Ég ætlaði síðan að borða 3 bör á hjólinu og fá mestu kaloríurnar þaðan.  Ég hafði skorið börin í litla bita og fyllt bentoboxið af þeim. Planið var svo að drekka alla vega tvo brúsa (2x 750 ml).   Mér fannst ég raunverulega oft fá mér úr bentoboxinu og drakk reglulega á hjólinu. Þegar ég tók hins vegar stöðuna eftir keppni sá ég að bentoboxið var ennþá fullt og ég hafi borðað í mesta lagi eitt bar (sjá mynd).  Ég hafði líka bara drukkið rétt yfir 1 L á hjólinu. Ég var mjög hissa, því ég upplifði þetta alls ekki svona en þegar maður fer í þetta tímaleysi ruglast maður bara í ríminu.

Þegar ég átti 20 K eftir af hjólinu losnaði franski rennilásinn sem heldur brúsanum framan á TT stöngunum þegar ég fór niður eina brekkuna sem var með grófasta  malbiki sem ég hef lent í, hristingurinn var svo mikill að festingin losnaði og ég hélt að handleggirnir myndu detta af mér og heilinn poppa úr hausnum á mér. Ég get svo svarið fyrir það. Smá ýkjur þarna, en samt, þetta var rosalegt.

7 Kreisí Lanzamalbik
Kreisí malbik á Lanzarote

Ég hélt þó áfram að hjóla en sá að brúsinn var orðin laflaus og í honum var ekki bara drykkur heldur var  Garmin tölvan föst á brúsanum, sem sagt líflínan mín. Ég átti eftir að hjóla 15 K upp og svo 15 K niður og vissi að ef ég missti brúsann væru ekki neinir 30 K fram undan hjá mér.  Ég tók því þá ákvörðun að stoppa og festa brúsann aftur á hjólið.  Ég var alveg róleg svo þetta tók ekki nema í mesta lagi 1 mín held ég.  Ég var reyndar í þessu tímaleysi, þannig að ég get ekki svarið fyrir það.  Svo var ég bara allt í einu búin hjóla og mér fannst ég bara rétt nýbyrjuð.  Svona getur verið gaman hjá manni stundum. Ég var ennþá önnur í aldursflokki eftir hjólið og áttunda overall, en ég vissi vel að ég myndi ekki halda þessari stöðu á hlaupunum.

Hlaupið

Ég skilaði síðan hjólinu fór í hlaupaskóna og var bara í góðum gír þrátt fyrir að vita að þessi hlaupaleið væri alls ekki fyrir mig. Þetta voru aflíðandi brekkur upp og niður í svörtu hrauninu og hluti á rauðbrúnum moldarvegi.  Mjög falleg mold reyndar (8).

8 Hluti hlaupaleiðarinnar
Hluti hlaupaleiðarinnar. Gæti verið fjallvegur á sunnanverðum Vestfjörðum.

Malbikið var líka mjög gróft eins og margoft hefur komið fram og það var mjög erfitt að hlaupa á því, að minnsta kosti þegar maður er búinn að safna upp þreytu í lappirnar.  Ég var búin að ákveða að hlaupa fyrsta hringinn á 5:20 pace og gefa svo aðeins í. Ég hélt plani fyrsta hringinn en svo fór allt að dala hjá mér og ég hægði alltaf meira og meira á mér.  Ég held að ég hafi bara verið á sama hraða upp og niður brekkurnar síðustu tvo hringina, hvernig sem það er nú hægt. Einstein sveik mig eitthvað þarna.  Ég var samt aldrei að bíða eftir næstu drykkjastöð og hljóp þetta bara. Ég notaði samt allar drykkjarstöðvarnar til þess að kæla mig og drakk kók í vatni eftir fyrsta hringinn, en þeir voru þrír.  Mér skilst á Bergi að ég hafi ennþá verið í 2. sæti eftir fyrsta hringinn á hlaupunum en svo missti ég það. Datt niður í 3, svo 4 og 5 í síðustu brekkunni.

9 Í mark
Komin í mark!

Það var svakalega heitt á hlaupunum og óvenjulega heitt fyrir þennan árstíma á Lanza og það hægðist á flestum eftir fyrsta hringinn nema þessum sterkustu og mjög margir duttu úr keppni.  Hlaupatímarnir voru almennt hægir hjá flestum og þrátt fyrir að ég hefði hlaupið á 5:45 pace var þetta 6 hraðasti tíminn af 19 í aldursflokknum. Allt í allt voru 130 sem skiluðu sér ekki í mark. Bergur sá marga detta úr keppni á hlaupunum og sá að fimmta overall konan droppaði grátandi þegar hún átti 7 km eftir í mark.

Bakþankar 

Svona eftir á að hyggja held ég að næringarleysi hafi valdið því hvað ég hægði svona mikið á mér á hlaupunum. Í fyrstu hélt ég að það hefði verið fyrst og fremst verið vegna þess að ég væri ekki nógu sterk en ég var mjög hissa á því hvað ég hafi í raun borðað og drukkið lítið í keppninni því eins og ég hef áður sagt hér, þá upplifði ég þetta alls ekki þannig.   Reyndar var það Bergur sem tók af mér hjólið þegar ég sótti það á skiptisvæðið eftir keppni sem sagði, leyfðu mér að skoða ofan í bentoboxið þitt. Þá var það bara nánast fullt (10).

10 Bentobox eftir keppni...
Bentoboxið eftir keppni. „Einhver“ gleymdi að borða nestið sitt.

Þetta var það sem mig grunaði sagði hann, frekar strangur í málrómnum að mér fannst sko.

Ef ég gæti gert þetta aftur þá myndi ég ekki troða litlum bitum í bentoboxið því það er erfitt að fylgjast með því hvað maður borðar því maður sér ekkert ofan boxið og hefur ekki tilfinningu fyrir því hvað maður er að borða mikið magn. Það hefði bara verið betra að setja börin í vasann á gallanum mínum. Man þetta næst.  Ég bjó til drykkinn minn sjálf, þannig að ég veit nákvæmlega hvað var í honum og hvað mikið af Kcal. Þegar ég taldi svo bitana upp úr boxinu og sá stöðuna á brúsunum á hjólinu sá ég að ég hafi tekið inn um 300 Kcal á hjólinu sem er náttúrulega algjört rugl og þá sérstaklega í þessum hita og vindi.

Þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í þessu nema áður hef ég vitað upp á mig skömmina um leið og ég  steig af hjólinu en ekki í þetta sinn.  Í þetta sinn upplifði ég bara hlutina alls ekki eins og þeir voru í raunveruleikanum.   En ég er bara ákveðnari að gera betur næst og hlakka til að mastera þetta næringarplan. Ég er nú þegar lögst í rannsóknarvinnu.

Að lokum

Ég gerði samning við Berg eftir keppni, jæja þá, kannski svona meira tilkynning af minni hálfu, frekar en samningur, að ég mætti vera pirruð út í sjálfa mig og tala um það, það sem eftir væri dags og að þetta mætti vera það síðasta sem ég talaði um áður en ég myndi sofna þetta kvöldið og svo yrði þetta búið.  Merkilegt nokk, þá stóðst það. Ég er sátt með að hafa verið nr. 26 af 128 skráðum konum og vera þar sem í efstu 20% í svona erfiðari keppni, sú erfiðasta sem ég hef tekið þátt í.  Þetta svarta hraun drepur ég er að segja ykkur það.  Aumingja Kona, Hawaii fólkið (11)

11 Tanlínur eftir keppni þrátt fyrir sun block fyrir ungabörn
Tanlínurnar eftir keppnina þrátt fyrir sólarvörn sem hæfir ungbörnum!

en vá hvað það verður gaman að fylgjast með þeim um næstu helgi. Meiriháttar ævintýri hjá þeim.

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s