“Ég ætla aftur”

“Ég ætla aftur” var fyrsta hugsun mín þegar ég kom í mark í minni fyrstu Ironman keppni í Kaupmannahöfn 2017. Því var farið í það að skoða hvaða keppni yrði næst fyrir valinu og 6 vikum síðar var ég skráður í Ironman Barcelona.
Markmiðin voru strax skýr, þessi keppni skyldi kláruð á innan við 10 klst. Þar sem ég er þjálfari hjá Ægi3 varð æfingafríið eftir keppni mjög stutt og ég var kominn á fullt í æfingar 2 vikum eftir keppnina í Kaupmannahöfn. Ég æfði fyrstu vikurnar mikið með skemmtilegum hópi byrjenda sem var mjög góð leið til að koma sér af stað aftur og æfingar gengu mjög vel fram að áramótum.
Eftir áramót fór æfingaálagið að þyngjast og þegar dró að vori var ég farinn að finna fyrir meiðslum auk þess sem andlega hliðin var orðin tæp, þunglyndi og æfingagleðin fór dvínandi. Á þessum tíma var Challenge Samorin framundan og var ég farinn að gæla við þá hugmynd að slaufa þeirri keppni. Sú ákvörðun var þó tekin að taka stutt æfingafrí, jafna sig á meiðslum, vinna í andlegu hliðinni og fara til Slóvakíu með því hugarfari að klára þá keppni. Það er jú heiður að fá að keppa í Challenge Championship og óvíst að maður nái þar inn aftur.
Eftir Slóvakíu ferðina var æfingaáætlunin endurskoðuð og yfirfarin og ljóst var að ég þyrfti að setja meiri þunga í sundæfingar þar sem sundið var mín lang slakasta grein. Því æfði ég sundið 4x í viku fram að keppni, 3x í lauginni og 1x í sjónum. Það er hreint ótrúlegt hversu miklum árangri er hægt að ná í sundinu á stuttum tíma með svona átaki. Í hlaupinu og hjólinu voru langar Z2 æfingar og langar tempó-keyrslur lykilæfingar. Þetta skilaði góðum árangri og var ég meiðslalaus, í góðu formi og mjög vel stemmdur fram að keppni.
Mánuði fyrir keppni var ég að skoða hvaða tíma þurfti að ná í keppninni í fyrra til að ná Kona-sæti og sá að 9.45 hafði dugað árið áður. Þarna fór ég að endurskoða markmiðin mín og hugsaði að ef ég ætti toppdag ætti ég að geta synt á 1.05, hjólað á 5.00 og hlaupið á 3.30. Reiknaði svo 7 mínútur í skiptingar og nýtt markmið var að klára á 9.42.00. Hjólabrautin í Barcelona er mjög flöt og hröð en nokkrum dögum fyrir keppni fengum við keppendur tölvupóst um breytingu á hjólaleiðinni þar sem krókur var tekinn úr hefðbundinni leið sem innihélt nokkuð góða brekku, 4 U-beygjur og lengingu á brautinni um 4 km. En þetta verður þá erfiðara fyrir hina líka hugsaði ég.
Félagskapurinn í æfingarferlinu og keppninni sjálfri var frábær. Stór hópur æfingafélaga úr Ægi3 auk fleiri íslendinga voru skráðir til leiks og mjög stór hópur stuðningsmanna hélt til Barcelona og hreint ótrúlegt að sjá íslenska fánan víða í brautinni og sungið og hrópað Áfram Ísland.
Ég mætti til Calella viku fyrir keppni og gat því æft á staðnum sem var frábært. Synda í heitum sjónum, hjóla við góðar aðstæður og hlaupa meðfram ströndinni var góð tilbreyting frá rigningu og slyddu á Krísuvíkurveginum.
Þegar við hittumst í lobbyinu á hótelinu á keppnisdag var þrumuveður og algjört skýfall. Við ákváðum því að klæða okkur í blautbúningana og labba í þeim niður á strönd. Það hafði verið hvasst um nóttina og við ræddum það á leiðinni að við myndum líklega fá öldur.
Sundið.
Ég hafði ákveðið að skrá mig í sundhólf með þeim sem áætluðu að synda á einni klukkustund. En þegar að sundhólfunum kom sá ég aðeins 55 mín hólf og 1.05 og ákvað að fara í 1.05 hólfið. Þegar ég stóð á ströndinni og horfði út á sjó nokkrum mínútum fyrir startið sá ég að öldurnar voru mun stærri en ég bjóst við og líklega þær langstærstu sem ég hafði nokkur tíma synt í. Ég var algjörlega rólegur og tilbúinn í þetta og þakka ég öllum æfingunum í Nauthólsvík í hvaða veðri sem er fyrir þessa ró. Flautið kom og ég hljóp af stað og stakk mér í ölduna. Ég synti frekar rólega af stað fyrstu 2 – 300 metrana og jók svo hraðan. Ég var á góðu róli og öldurnar höfðu lítil áhrif á mig. Gameplanið núna var að finna einhvern sem synti örlítið hraðar en ég og hanga rétt við tærnar á honum og nota þannig kjölsogið en þannig getur maður synt hraðar á minna álagi. Ég gerði nokkrar tilraunir til að finna einhvert til að elta en gafst að lokum upp þar sem fólk virtist synda í allar áttir, þvess og kruss í öldunum. Ákvað því að synda þetta einn. Sundið gekk vel út en eftir snúningspunktinn þurfti að synda til baka á móti öldunum. Það gekk ljómandi vel að synda á móti öldunum en þarna gekk á ýmsu. Fólk virtist vera í töluverðum vandræðum með ölduna og ég var stöðugt að synda fram úr fólki. Þarna fékk ég nokkur högg og þurfti að stoppa tvisvar til að laga sundhettuna sem var við það að losna ásamt sundgleraugunum. Einnig fékk ég nokkuð vænt spark í andlitið frá manni sem var að synda bringusund. Öðru hvoru heyrði ég í fólki æla þar sem sjóveiki hefur verið farin að segja til sín. Á þessum tímapunkti var ég mjög þakklátur að hafa mætt á allar æfingarnar í Nauthólsvíkinni og vera kominn með reynslu af öldum og gleypa sjó. Þetta sund var frábært og eftir á að hyggja hefði ég alls ekki viljað missa af þessari upplifun fyrir örlítið betri sundtíma, þetta var hrikalega gaman.
Sundtími 1.13.31 sem er ásættanlegt miðað við aðstæður og bæting um 12 mínútur og 49 sek.
Hjólið:
Fyrstu og síðustu 3 km á hjólinu voru í gegnum þröngar götur Calella og mátti ekki vera í aero stöðu þessa leið. Eftir það var haldið út á fallega og skemmtilega leið meðfram ströndinni. Aðstæður voru ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir, það var nokkur vindur sem virtist koma úr öllum áttum. Einnig gekk á með skúrum þannig að vegurinn var blautur og rennislétt malbikið varð flughált í bleytunni. Ég sá nokkur hjól liggja í kantinum eftir að fólk hafði dottið og þrisvar var lögregan að hægja á keppendum þar sem var verið að hlúa að fólki sem hafði dottið rétt á undan mér.
Mjög langar halarófur hjólara mynduðust og voru dómarar nokkuð strangir á því að segja fólki að hægja á sér til að vera ekki of nálægt næsta manni og hótuðu tímavíti. Þetta gerði að verkum að planið um að halda jöfnum 200 wöttum á hjólinu fór út um gluggann. Ég hélt á nokkuð löngum köflum 300 – 350 wöttum til að taka fram úr stórum hópum en svo virtist vera að aðrir væru í sömu hugleiðingum því að um leið og ég sló af komu nokkrir fram úr mér og svona gekk þetta ítrekað. Þetta tók mikla orku og grillaði á manni lærin.
Hjólatími: 5.11.21 sem er vel ásættanlegt miðað við breytinguna á hjólabrautinni og veður. Bæting um 20 mínútur og 59 sek.
Hlaupið.
Hlaupið var strax mjög þungt eftir erfitt hjól lærin fóru strax að væla. Ég reyndi ítrekað að reikna út hvaða hraða ég þyrfti að halda til að ná að klára á 10 klukkustundum en aldrei hef ég verið jafn slakur í hugarreikningi.
Hlaupið er 3 og hálfur hringur meðfram ströndinni í Calella og yfir í næsta bæ. Þegar hlaupið er í Calella er mikið um áhorfendur að hvetja sem hjálpar mikið en þegar komið er út fyrir bæinn er maður meira einn sem er erfitt fyrir hausinn.
Ég fór af stað á 4.40 pace-i, en það er hraði þar sem ég er 4 mín og 40 sek að hlaupa 1 km. Þetta gekk vel til að byrja með, púlsinn var góður og mér leið nokkuð vel nema lærin voru mjög þreytt. Ég hugsaði að ég gæti alveg þrælað mér í gegnum þetta. En eftir 15 – 20 km voru lærin enn þreyttari og mér leið á köflum eins og þau væru hreinlega að gefa sig. Fljótlega í framhaldinu fór maginn að kvarta og ég hægði á mér þar sem ég var á mörkunum að æla. Þarna upphófst mikil andleg barátta þar sem mér fannst ég líkamlega geta haldið 4.40 – 4.50 pace-i en á þessum hraða byrjaði ég að kúgast og átti erfitt með magan. Að hlaupa fram hjá markinu og leggja af stað í síðasta 14 km hringinn var gríðarlega erfitt og síðustu 10 km voru virkilega erfiðir þar sem lærin voru algjörlega búin og ég var orðinn hræddur um að þau myndu gefa sig og ég myndi detta í götuna, sem betur fer gerðist það ekki.
Hlaup: 3.34.07 sem ég er ekki alveg sáttur við. Hjólið tók of mikla orku og ég tel mig eiga að geta rúllað þetta á 4.50 pace-i. Bæting 6 mínútur og 59 sekúndur.
Heildartími: 10.07.03 sem ég er nokkuð sáttur með. Þessi tími skilaði mér í 55. sætið í aldursflokki af 573 keppendum sem er top 10% (AWA-brons) sem ég er nokkuð montinn með. Bæting 41 mínúta og 44 sekúndur.
Á síðustu kílómetrunum í hlaupinu hugsaði ég með mér “ALDREI AFTUR”. Sólarhring síðar vorum við Siggi æfingafélagi minn farnir að skoða hvaða keppni ég ætti að taka næsta sumar þannig að ég tel nánast öruggt að ég tek Ironman keppni á næsta ári.
Næsta verkefni er að fara yfir hvað þarf að bæta, hvar ég á mest inni og í hverju þarf að vinna. Ég er búinn að sjá það að til að komast lengra er algjörlega nauðsynlegt að bæta sundið og vera mjög framarlega þar, að öðrum kosti ertu alltaf í basli í hjólabrautinni með mikinn fjölda hjólara fyrir framan þig.
Þessi ferð og þessi keppni var algjörlega frábær skemmtun og vil ég þakka æfingafélögunum í Ægi3, þjálfurum, og mögnuðum stuðningsmönnum fyrir æðislegan tíma í Calella á Spáni. Vonandi komið þið sem flest með í næstu keppni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s