Með fellibyljum í Flórída

Tómas Beck segir frá:

Þetta byrjaði sem frábær hugmynd. Flórida hlýtur að vera ágætur staður fyrir fyrsta járnið, flöt og þægileg braut, ekkert vesen með vatn og hita, beint á ská flug, smá bíltúr, nóg af sól og eitthvað fyrir alla? Þetta átti að verða fjölskyldufrí í leiðinni í Panama City sem er skammt frá Tampa (bara sex tímar í bíl) og þannig yrði íslenska sumarið lengt.

Margrét Elín konan mín gekk frá skráningunni í febrúar og þá byrjaði ég að hvetja æfingarfélaga til að skrá sig líka. Raunsæisraddir fóru að tala um að þetta væri í lok fellibyljatímabilsins en Bjarki Freyr Rúnarsson lét til skara skríða og dró Rúnar Már Jóhannsson föður sinn til að vera honum (og mér) til halds og trausts.
Hugmyndir um fjölskyldufrí fóru fljótt að dvína þar sem ferðalagið yrði mjög langt og erfitt, allur fókus yrði á keppnina dagana fyrir og þreyta dagana á eftir, þannig að niðurstaðan var strákakeppnisferð.

Æfingar og undirbúningur:
Æfingar gengu þolanlega miðað við vaktavinnu og fjölskyldulíf og varð mér ljóst að lykilatriði í þessum undirbúningi var að sýna þessu hóflegan sveigjanleika. Væntingar lágu ekki fyrir þar sem maður hafði engar fyrri forsendur til að meta eigin burði og því voru einu markmiðin til að byrja með að klára. Ég hafði í fyrra klárað Challenge Iceland í Kjósinni sem er hálfur járnmaður þannig ég hafði smá hugmynd um hvað koma skyldi. Markvissar æfingar fyrir #IMFL2018 hófust í maí en aðrir tímafrekir viðburðir sumarsins tróðu sér inn á æfingaplanið. Meðal annars má nefna, allar íslensku þríþrautarkeppnirnar (nema í RNB), flest götuhlaup á höfuðborgarsvæðinu, Ísl. Mót Garpa í sundi í 25m laug, ólöglegt RVK Maraþon, Laugavegshlaupið, hlaup yfir Fimmvörðuháls, Hvítasunnuhlaup Hauka og  fjölskyldufrí á Krít. Þar fór ég nokkra langa hjólatúra í hita og brekkum. Hitinn var það sem ég óttaðist mest og vann markvisst í að æfa innandyra á Íslandi og að næring yrði að vera í samræmi við vökvatap.

Stormur í vatnsglasi? Nei þetta er alvöru:
tómasbeck54 vikum fyrir keppni er ég að skoða veðurkort af Atlantshafinu og er að róa mig yfir því að engir fellibyljir voru í uppsiglingu sem miðuðu á Flórídaskaga. Nema þar til á einhverri vefsíðu sé ég að 4. stigs fellibylur, Michael, stefndi í átt að Panama City. Þá hafði “fæðst” lítill skratti syðst í Mexíkóflóa sem óx svona rosalega í hlýjum sjónum og dúndraði beint yfir keppnisstað og nærliggjandi svæði með svakalegri eyðileggingu. Get sagt það alveg hreint út að ég hefði veðjað á að keppninni yrði aflýst þetta árið. En tæpri viku eftir Michael kom tilkynning frá Ironman að keppnin yrði færð til bæjarins Haines City sem er 73km austur af Tampa og seinkað um einn dag og nú yrði keppt þann 4. vóvember. Í þessari viku meðan Michael fæddist og fór þarna yfir og dagana í kjölfarið datt dáldið dampurinn úr æfingum. Maður var nánast búinn að afskrifa þetta og farinn að spyrja sig til hvers að sitja á trainer í 160 “Zwift” km og taka svo 30km brick á bretti. En eftir að flutningurinn var staðfestur gat maður ekki annað en hysjað upp um sig buxurnar og klárað þetta.

Ég ætla ekki fara skrifa neitt um ferðalagið og allt það heldur reyni ég að kom mér að kjarna málsins:

Keppnisdagur:
Vöknuðum 03:30 (meira að segja á undan vekjaraklukkunni) og gerðum okkur klára. Klukkan tvö um nóttina hafði day-light savings skollið á í Ameríkulandi þannig við fengum auka klukkutíma svefn. Vakna, bursta tennur, áburður, keppnisgallinn, púlsmælir, GPS´ið, tímaflagan, næring og út. Hjólið og allt hitt hafði verið tékkað inn daginn áður. Korteri eftir að við vöknuðum húrruðumst við út í bíl og brunuðum á 24/7 morgunverðarstaðinn sem var út í vegkanti við þjóðveginn. Eftir eggjaköku og ½ kaffi var aftur sest uppí bíl og keyrt í rúma klukkustund í kolniðamyrkri á keppnisstaðinn, Haines City. Þar voru ljóskastarar á víð og dreif um keppnissvæðið og tónlist í hátalarakerfum út um allt á meðan fólk var að gera sig klárt. Það var talsverð (andleg) ró yfir svæðinu (fannst mér) og flestir að klára síðasta frágang og bíða eftir startinu með bros á vör. Keppnin var ræst kl. 06:30 og höfðu fyrstu geislar sólar brotist fram korteri fyrr. Þjóðsöngurinn fékk að óma 4 mínútum fyrir start. Svo drundi fallbyssan og þá varð ekki aftur snúið.

Sundið:
Ég hafði staðsett mig fyrir miðju sundholli sem ætlaði að synda á 1:10;00 (klst:mín;sek) en hefði betur mátt troða mér framar því ég var allan tímann að taka framúr fólki. Þetta byrjaði frekar rólega, sundleiðin var “W” laga braut sem var synt tvisvar. Í öllum þessum 90’ beygjum (14 samtals) kom í ljós að sumir voru lítið sem ekkert að spá hvert þeir voru að fara. Ég fékk einn sundmann 90 gráður þvert á mig á fullu spani og allt í einu var ég að synda hornrétt á rétta leið (sem betur fer ekki nema tvö sundtök). Einstaka hnoð hér og þar kom ekki að sök og var ég búinn að gíra í mig smá barning. Vitrari menn höfðu af sínum reynslu sögum sagt að það væri barningur að staðsetja sig fyrstu 400m en svo ertu kominn í rólegri gír og klárar þar. Það var ekki þennan daginn. Mér fannst þetta bara versna á seinni hring. Þá var maður farinn að synda frammúr fólki sem áætlaði 1:50;00 mínútur og tróðu sumir marvaða og aðrar frjálsari aðferðir. Það var bara gaman (eftirá) en held ég hafi fengið 3 góð spörk í augun, ein kona (sem var að synda í kolvitlausa átt) stoppaði til ýta mér í burtu og margir fundu sig knúna til að grípa í kálfann á mér þegar ég synti framúr þeim.
Markmiðið var 1:10;00, lokatími: 1:12; 00 -mjög sáttur

tómasbeck3
T1:
Gekk pínu brösulega við að koma mér úr blautgallanum helst þá við að losna úr við ökklana en ég fattaði seinna að ég smurði mig ekki þar. Áhorfendur og stuðningsfólk var gjörsamlega að missa vitið, þetta var af allt öðru kaliberi en ég hef nokkurntíma upplifað. Ég var hálf hræddur við allt þetta fólk ÖSKRANDI á mig! “GO” “GO” “GO” eins og ÞAÐ væri við það deyja ef ÉG mundi ekki drulla mér úr fjörunni, upp að tennisvellinum og sækja hjálminn og út að hjóla! Það voru ca 300m að pokanum og skiptiklefa og svo aðrir 400m að hjóli.
Ekkert markmið bara ekki drolla: tími; 00:06;33 -sáttur

Hjól:
tómasbeck4Virkilega gaman að byrja að hjóla. Sá að púlsinn var frekar hár eftir sundið og T1. Þurfti fyrst að koma mér útúr bænum (2-3 brekkur) og svo út á sveitaveg í stöðuga keyrslu á 200W og púls undir 150bpm (raunin var svo meðal wött 177W á 144bpm). Tveir hringir tæpir 90km hver, ekkert mál. Það var skýjað (6/8 BKN), hitinn var meirihluta leiðarinnar á bilinu 22-26´C og lítill vindur 2-3 m/s. Hitinn náði hæðst 31´C á Garmin 520 hjólatölvunni minni en hún dó dularfullum tölvudauða þegar 14km voru eftir. Aftur á móti voru þarna brekkur sem höfðu ekki náð athygli minni í leiðarlýsingunni. Fannst þær heldur ekkert svo langar og brattar í samanburði við Hvalfjörðinn þannig hjólið var allan tímann bara gleði og góð vinna. Ég drakk rúma 5 lítra af vökva og pissaði aldrei (2,3L Maurten blöndu úr Iron Viking og 6x600ml Gatorade endurance á drykkjarstöðvunum).
Markmið: 5:25;00 lokatími: 5:34:48sek. -aftur sáttur.

T2:
Gekk eins og í sögu. Fór úr hjólaskónum þegar ca. 1km var í mark, jók snúningana og lækkaði gírana til að koma mér í hlaupastuð, steig af rétt á undan “dismount” línu og tölti með Trek´inn góða Equinox í hendur á sjálfboðaliða sem kom því á sinn stand. 600m tölt á tennisvöllinn til að sækja seinni pokann, hjálmur af, sokkar af. Sokkar á, skór á, der og sólgleraugu. Út í maraþon -nú getur EKKERT klikkað!, hugsaði ég. Rétt við línuna þar sem hlaupið byrjaði staldraði ég við til að fá sólarvörn á mig þar sem skýin voru að brotna upp og hitinn var farinn að vera óþægilegur.
Ekkert markmið bara ekki stoppa: Tími: 00:04;32.

Hlaup:
Byrjaði alveg lygilega vel. Búinn að jogga nánast allan stífleika úr á skiptisvæðinu og fannst ég bara geta byrjað að brokka og hafði virkilega góða tilfinningu að hafa sparað orku á hjóli og nært mig vel. KOMASVO bara 5:30-6:00min/km. Fyrstu 3 kílómetrana var þetta ekkert mál (fyrir utan hitann) en svo fór að halla undan fæti. Brekkurnar voru allt í einu rosa langar og brattar og hitinn jókst og jókst. Ég þurfti að pissa og brá mér á salerni á annari drykkjarstöð og hugsaði mér gott til glóðarinnar að létta af mér þessum 5L sem ég hafði torgað í mig á hjólinu en ekkert kom.En fljótlega fór ég að finna fyrir spennu og kippum í öllum vöðvum í efrihluta líkamans. Hendur og brjóstvöðvar voru með krampa einkenni (ég í alvörunni hló og fannst það svo fyndið) en fór þá að hægja og fór að hrista hendurnar til að reyna losa um þetta. Það gekk ágætlega en þá fluttist þessi tilfinning niður í fæturna, bæði fyrir ofan og neðan hné (læri að framan og aftan og kálfanum). Til að gera langa sögu stutta þurfti ég slá rosalega af til þess að krampa ekki upp. Hlaupið byrjaði á upphitun (spotti út úr bænum eins og á hjólinu) og svo þrír skrítnustu hringir sem ég hef hlaupið í kringum vatnið sem synt var í um morguninn. Fyrsti hringurinn var verstur, þá horfði ég á markmið mín fjara hægt út. Seinni tveir hringirnir voru komnir í væntingastjórnun og bara rumpa þessu af. Það loks fór að ganga betur þegar manni tókst að skokka 7:00min/km pace þegar nánast ALLIR í brautinni voru að labba.
Marmið 3:50;00 lokatími: 5:03;38 -ekki sáttur með tímann en sáttur með að hafa klárað.

Lokatími: 12:03;01

Niðurstaða:
Þetta var ógeðslega erfitt og sérstaklega þegar frávik frá markmiðinu var orðið svona mikið þá fór andlega hliðin að draga mann líka niður. Erfiðasti hjallinn í þessari keppni fannst mér að halda haus síðustu 2-3 klukkutímana og klára. Eftir á að hyggja get ég eflaust giskað á að aðstæður dagsins voru öllum erfiðar. Margir voru að kvarta á meðan þeir gengu í brautinni hversu erfitt allt hefði verið þennan dag. Þetta var alls ekki auðvelt og viðkenni að ég vanmat erfiðleikastuðulinn pínu. Sjáum svo hvað setur, rykið af þessari keppni er enn að setjast. Þetta er ekki fyrir alla, EN ég get alveg mælt með þessu! 🙂

Ég vildi þakka fjölskyldu minni og sérstaklega eiginkonu minni, Margréti, fyrir stuðninginn við skráningu og undirbúning og hversu þakklátur ég er fyrir að hafa þau. Og svo vildi þakka ferðafélögum mínum Bjarka og Rúnari fyrir frábæra ferð og alla hjálpina í gegnum þetta. Til hamingju Bjarki Freyr með annað sæti í aldursflokki. Þetta eru forréttindi að geta gert þetta.