Sjö tímar og sjö mínútur í Salou

mynd1
Inga Hrund Gunnarsdóttir segir frá:

7.apríl 2019 kláraði ég hálfan járnkarl í Challenge Salou keppninni á Spáni: 1900 m sund, 90 km hjól og hálfmaraþon hlaup.
Ég er vanalega stuttorð en mig langaði að ná að skrifa niður allt um þessa fyrstu stóru keppni sem ég fór í erlendis þannig að náðu í kaffi núna eða rúllaðu niður að kaflanum “Keppnisdagur” ef tíminn er naumur.

Bakgrunnur
Þegar ég var barn þá æfði ég frjálsar og sund því það var í boði í Mývatnssveit. Það voru unglingar og foreldrar að þjálfa af góðum hug en hafa sennilega ekki fengið mikla tilsögn sjálfir. Ég var alltaf seinust í öllu, ekki bara í keppnum heldur líka á æfingum og getuskipting hefði hentað mér á þessum tíma. Ég hefði bara átt að hlaupa tvo hringi á æfingum á meðan hinir fóru þrjá. Svo hefði verið fínt ef einhver þjálfari hefði sýnt mér persónulega áhuga en í minningunni þá fannst manni þjálfarar og íþróttakennarar bara hafa áhuga á krökkunum sem fóru hraðast. Kannski var það ekkert þannig og ég vona að það sé alls ekki þannig núna. Vildi líka að mér hefði verið kennt skriðsund í staðinn fyrir að segja mér að synda fjórar ferðir af skriðsundi. Flutti svo í Árbæinn, reyndi að æfa fótbolta en fannst erfitt að vera nýr iðkandi á nýjum stað, lítið var kennt og  og ég hætti eftir nokkrar vikur. 12-13 ára minnir mig að ég hafi ekki hreyft mig neitt því það myndi hvort sem er engu skila, ég yrði bara alltaf í lélegu formi. Flutti í Mosó, tók eina önn í jazzballett og 14 ára keyptum við Solla vinkona okkur kort í WorldClass Skeifunni. Lögðum á okkur að taka Mosfellsleið niður á Grensás til að mæta í eróbikk og pallatíma. Mig minnir að við höfum nú ekki verið með mikil árangurs- eða heilsufarsmarkmið í huga, heldur fannst okkur þetta bara skemmtilegt. Aldrei datt mér samt í hug að fara út að hlaupa.
Svona liðu árin og ég tók tarnir í líkamsræktarhóptímum og tækjasal, var sem sagt ekki stanslaust í sófanum. Labbaði á nokkur fjöll með fjölskyldunni, (19 árum eldri en ég tengamamma mín alltaf í geggjuðu formi, svífandi upp brekkurnar á undan mér!) Eignaðist börn, fór í ræktina og jóga og svo allt í einu, 39 ára þegar yngsta barnið var að verða eins árs þá kom rétti glugginn og ég var tilbúin að stíga upp úr sófanum og fara að hlaupa.
Í maí 2014 var heilsumánuður í vinnunni, Íslenskri erfðagreiningu. Hljómar kannski klisjukennt en þetta kom mér af stað. Þorlákur Jónsson langhlaupari vann þá hjá ÍE og var fenginn til að sjá um byrjendur í hlaupum. Mig minnir að við höfum hlaupið tvisvar í viku og við hlupum í 2-3 mín og gengum í 2-3 mín. Þorlákur hljóp og labbaði alltaf með okkur og það hélt mér við efnið að hafa félagsskapinn frekar en að vera ein með klukkunni. Ég hugsa alltaf mjög hlýlega til Þorláks fyrir þessa fagmennsku og þolinmæði. Eftir rúman mánuð af æfingum tók ég þátt í mínu fyrsta almenningshlaupi og fór 3 km í fyrsta sinn án þess að labba. Tími 18.22 (pace 6.07). Markmiðið var svo að fara 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég fór lengst 7 km á æfingatímabilinu, þetta var alltaf erfitt. Svo fórum við Steinunn Kristjáns vinnufélagi minn þetta saman á 71 mín í keppninni. Hefðum kannski komist hraðar ef við hefðum átt hlaupaúr og kynnum að stilla hraðann okkar betur en við vorum byrjendur og mjög lukkulegar með árangurinn. Árið eftir, 2015, hljóp ég 10 km á 60 mín og 5 sek (djöfuls 6sek!), 2016 fór ég hálft maraþon og 2017 heilt maraþon á 4 klst 20 mín. Best á ég 53.35 í 10 km 31.des 2017.Þá hugsa ég að ég hafi loksins verið komin í betra form heldur en sextug tengdamóðir mín en ég þori samt ekki ennþá að skora á hana í tímatöku í fjallgöngu með 12 kg bakpoka! Æfði árin 2015-2017 með Almenningsdeild Víkings, hlaup og hjól, frábært félag, skipti bara af því ég vildi fara í þríþraut en Ægir3 er auðvitað stórkostlegt félag, ég vona að öllum líði vel í sínu félagi 🙂
Með þessum æfingaáhuga bættust hjólreiðarnar við. Ég keypti götuhjól 2015 og fór fjögur ár samfellt í cyclothonið og hef tekið þátt í fullt af keppnum. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í viðburðum og keppnum þótt árangurinn sé misjafn og þyrfti eiginlega sponsor til að borga öll þessi keppnisgjöld. Er ekki einhver þarna úti sem vill styrkja húsmóður í B-flokki??

Þríþraut
Það hafði blundað í mér lengi að læra að synda skriðsund þannig að ég endist í meira en 100 metra. Fór á námskeið tvisvar með nokkurra ára millibili áður en ég byrjaði hjá Ægi3 en þetta hefur bara gengið mjög illa hjá mér. Veit ekki hvað ég þarf helst að bæta, tæknina væntanlega en sundið mitt lítur víst ekki svo illa út þannig að kannski þarf ég að bæta handstyrkinn? Á vídeó ef einhver vill ólmur sjá og gefa ráð!
En þríþrautin var byrjuð að heilla, ég fór með vinnufélögum í boðsveit í sprettþraut (hjólaði) og svo með cyclothon stelpum í boðsveit í hálfum járnkarli í Kjós 2017 þar sem ég tók hlaupið. Svo missti Guðrún vinkona út úr sér að hún vildi prófa að æfa þríþraut og ég greip það á lofti og við fórum að æfa hjá Ægi3 haustið 2017. Markmiðið mitt var að fara í hálfan járnmann.
Upphaflegi ótti minn við sundið hafði verið það að mér er svo illa við að synda í köldu vatni en svo reyndist það vera hraðinn sem var mín helsta fyrirstaða. Mér fannst sundið aldrei smella hjá mér og hætti við að skrá mig í stóra keppni 2018. Fór í þrjár sprettkeppnir þá um sumarið. Haustið 2018 þá var ég nú hætt að vera eins búin á því eftir sundæfingar þannig að eitthvað var mér að fara fram en hraðinn var ekki að lagast mikið, en væntanlega var ég nú að fara úr 3.00/100m niður í 2.45/100m. Á best 2.30/100m í 200 m spretti.
Félagar í Ægi3 voru nú farnir að æsa hvorn annan upp í keppni í Jönköping í Svíþjóð í júlí 2019 en mér leist ekki á tímasetninguna af ýmsum ástæðum eins og sumarfríum barnanna og svo vildum við hafa sumarið til að hjóla. Eitt leiddi af öðru og Kári maðurinn minn ákvað að byrja að æfa þríþraut og koma með mér í hálfan járnkarl í apríl 2019. Samið var við elsta barnið og ömmurnar um pössunarplan og allt sett í gang.
Ég valdi Challenge Salou á Spáni 7.apríl meðal annars út af tímasetningu en líka því að hjólaleiðin átti að vera góð og það eru ekki aukatímamörk í hjólinu eins og er t.d. í 70.3 HIM Barcelona. Þar sem sundtíminn minn yrði langur þá varð ég að geta slakað aðeins á í hjólinu. Helsti gallinn við tímasetninguna var að geta ekki æft af viti utandyra yfir veturinn, bara útihlaupin. Ég fór ekkert út að hjóla á götuhjóli frá því í lok september og á ekki cyclocross hjól. Hjólaði í vinnuna á fjallahjóli, 2×15 mín á hverjum virkum degi í næstum öllum veðrum. Ég hafði fulla trú á að reynsla úr keppnis- og æfingahjólreiðum síðustu fjögurra hjólasumra myndu duga til þess að 90 km yrðu vel gerlegir. Ég fór ekkert í sjósund um veturinn út af kuldahræðslu en hafði farið tvisvar í sjó í blautbúningi í ágúst og leið alveg vel svo ég vottaði sjálfa mig óhrædda við sjó.

Æfingar og næring
Ægir3 er með 7 æfingar með þjálfara auk einnar sundæfingar án þjálfara í viku fyrir félaga í æfingahóp og maður fær líka áætlun þar. Ég var yfirleitt að taka fimm æfingar á viku í samtals 6-8 klst: Tvö hlaup, tvö sund og eina langa brick æfingu þar sem við vorum á vattahjólum og hlupum svo á eftir. Var með eigið hjól á trainer heima sem ég ætlaði að nota í staðinn fyrir eina Ægis3 hjólaæfingu en var hreinlega frekar löt að nota hann. Tók nokkrum sinnum þjálfaralausu sundæfinguna.
Var með smá verk í hné á tímabili en var annars meiðslalaus.
Ég hefði ekki viljað auka æfingamagnið, þetta er meira en nóg til að gera það sem ég vil, nema að ég hefði mátt vera duglegri að gera styrktaræfingar sjálf.
Uppáhaldsæfingarnar voru mánudagshlaupasprettir inni í Frjálsíþróttahöllinni og sunnudagshjól- og útihlaup á vattahjólunum í Sólum. Ekki spillti fyrir að fara saman á kaffihús á eftir og tala um þríþraut!

Breytti nær engu í mataræði, borða og borðaði bara venjulegan mat, “hollt í hádeginu” (alltaf grænmeti með matnum í vinnunni og fiskur tvisvar í viku) en hollustan aðeins sveigjanlegri heima og við látum t.d. Megaviku aldrei framhjá okkur fara og gos og snakk er ekki bannað. Ég minnkaði samt naslið yfir sjónvarpinu á kvöldin og nú er bara ostur, kók og Ritz kex einu sinni í viku í staðinn fyrir þrisvar! Fuku af mér 2 kíló við það! Ég er ekkert að mæla með þessu mataræði en bara svona að láta fólk vita að maður þarf ekki að fara alla leið til að stunda æfingar og taka þátt í keppnum. En ef þú ætlar að komast á pall þá er sennilega betra að borða aðeins minna af kökum og frönskum heldur en ég geri.

Kvíðatímabilið
Keppnin nálgaðist og raddir efasemda grófu um sig í hausnum á mér. Hvað var ég að spá? Fara út bara til að ná ekki tímamörkum í sundinu? Búin að eyða tveimur árum í æfingar, kaupa flug, hótel og keppnisskráningu? Ég reyndi að segja sem fæstum frá því að við værum að fara í hálfan járnkarl þannig að ég þyrfti að segja færra fólki frá þegar það myndi misheppnast. Var samt búin að synda 1900 m á tæpum klukkutíma í sundlaug og einu sinni 2400 m í galla í laug undir heildartímamörkum (sem voru 1 klst 10 mín) þannig að á pappír átti ég að ná tímamörkunum í sjósundinu. Var fyrst bara að hugsa um þetta fúla sund en svo fór ég að kvelja sjálfa mig yfir að hafa ákveðið að taka eigin hjól með út í stað þess að leigja hjól. Hjólin myndu ábyggilega týnast á leiðinni eða skemmast. Svo kostaði flutningurinn fyrir þau 14.000 kr. stk. Ég hafði reyndar verið það skynsöm að panta flug með Norwegian en ekki WOW en oft þegar ég minntist á Norwegian þá sagði einhver “er Norwegian ekki að fara á hausinn?” Þegar WOW loksins fór á hausinn þá hækkaði hvíldarpúlsinn minn um eflaust 20 slög og hélst þannig þangað til ég var lent úti á Spáni.

Til Spánar
Við flugum út á fimmtudegi en keppnin var á sunnudegi. Eftir á séð hefði verið betra að fara út einum degi fyrr en út af vinnu og flugáætlunum varð þetta svona. Hjólin skiluðu sér! Við vorum ekki komin á áfangastað fyrr en um kvöldmat en sólsetur átti ekki að vera fyrr en um klukkan níu þannig að við drifum okkur í sjóinn í blautgöllunum okkar. Og hugsa sér, það var bara ekkert hræðilegt, ekki svo kalt og ég gat auðveldlega synt. Vorum bara stutt samt.
Næsti dagur fór í smá stúss eins og að sækja keppnisgögn og kaupa gashylki fyrir pumpurnar. Fórum aftur í sjóinn og nú voru meiri öldur við ströndina. Missti af Kára og fannst það mjög óþægilegt, fór meira að segja að hugsa um hákarla sem höfðu, merkilegt nokk, ekki verið á listanum mínum yfir hluti til að hafa áhyggjur af! Fór í land og beið eftir að Kári skilaði sér.

mynd2
Þar sem á ströndu hvítar bárur brotna…

Daginn fyrir keppni fórum við aftur í sjóinn og þá voru enn meiri öldur við ströndina. Ég hef enga reynslu af sjó fram yfir busl í sólarlandaferðum þ.a. ég veit ekkert hvar þetta var á einhverjum mælikvarða. Kári alltaf brattur og við komum okkur út í, bara fara út í og pæla í seinna hvernig við komumst aftur í land! Fékk vænt högg í andlitið þegar alda brotnaði framan í mig og sundgleraugun fylltust við það af sjó. Svo kom næsta líka á mig, hvernig á eiginlega að gera þetta, synda baksund? Stinga sér í gegnum ölduna? En eftir 2-3 öldur þá vorum við komin út fyrir brimið og gátum farið að synda. Ég var samt með háan púls eftir þessa baráttu og ekki með mikla orku fyrir sund og synti næstum ekkert. Það var síðan hrikalega erfitt að komast í land aftur. Vorum saman og Kári hélt í mig á meðan öldurnar skullu á okkur, mikið var ég fegin því. Aftur, 2-3 stórar. Í einni þeirra fóru af mér sundgleraugun en sem betur fer náðum við þeim aftur í öldudalnum en það var enginn tími til að setja þau á sig aftur áður en næsta alda keyrði á okkur. Ég fór samt, að mig minnir, aldrei alveg á kaf, var í frussinu en ekki með stjórn á aðstæðum og erfitt að hugsa hvort maður ætti að anda frá sér eða halda niðri í sér andanum. Eftir þessa baráttu varð samt að halda áætlun og taka 15 mín af hjóli og hlaupi með viðkomu á hótelherberginu sem var skiptistöðin okkar.
Eftir þá æfingu lagði ég mig og dreymdi öldu að koma á móti mér.
Seinnipartinn var svo komið að pastaveislu, keppnisfundi og að skila inn hjólum og skiptisvæðispokum en í þessari keppni var maður með sitt hvorn pokann fyrir T1 og T2.

mynd3
Kolvetnin klikka ekki!

mynd4
Einhver spurði á fundinum hvað yrði gert ef það yrði ekki hægt að synda og ég hugsaði einmitt að ég yrði bara fegin ef sundinu yrði hreinlega sleppt.
Það var pínu erfitt að sofna kvöldið fyrir keppni en ég var samt orðin miklu minna stressuð, það róaði mig að vita að keppnisstjórnin ætlaði auðvitað ekki að demba fólki út í sjóinn ef aðstæður væru tvísýnar. Bylti mér í næstum klukkutíma og fékk mér svo banana og sofnaði.

Keppnisdagur
Vöknuðum kl.6.00 og græjuðum okkur, matur, nuddvörn, sólarvörn, vel heppnaðar klósettferðir og TVÆR sundhettur því ég ætlaði sko ekki að týna sundgleraugunum og var með þau á milli hettanna. Tók líka önnur með mér og var með þau um ökklann. Löbbuðum á keppnissvæðið og vorum mætt um 7.30 en ræs hjá Kára var 8.20 og 8.30 hjá mér. Skiluðum götuskóm og eftirátöskunni í guardarropa. Borðaði banana sem ég hafði tekið með mér. Áætlað hitastig sjávar 14-16°C.
Sjórinn leit mjög vel út og ég var sultuslök, loksins! Þetta sund leit út fyrir að vera vel gerlegt. Horfðum á atvinnuíþróttafólkið byrja kl.8.00 og 8.10 og svo var bara komin röðin að okkur. Það var hópstart og ræstu um 500 karlar saman með Kára. Svo ræstu konurnar sér og ég held að við höfum verið 70-100. Búmm, skotið reið af fallbyssunni og ég labbaði út í sjóinn. Byrjar þá flagan að skrölta við ökklann á mér! Laga í flæðarmálinu eða drífa sig? Ég losaði flöguna og herti festinguna vel og hélt svo áfram. Það var ekkert mál að komast út í, ég var í góðum málum. Verra var að sjá leiðina þó ég hafi mikið æft að kíkja eftir baujum. Endaði á að synda mikið bringusund til að sjá betur, var slétt sama.
Synt var í ferhyrning, fyrri skammhlið og langhlið gengu vel. Ég var því sem næst ein allan tímann eins og ég vissi en sá oft í aðrar konur og það veitti mér öryggi. Svo var seinni skammhliðin þokkaleg en meiri öldugangur þar. Seinni langhliðin var erfið, mér fannst vera straumur á móti mér og erfitt að sjá í baujur út af sólinni. Hugsaði þá til Breta sem var á hótelinu okkar, við höfðum verið að spjalla við hann um reynsluleysi okkar í sjósundi og hann sagði að það væri gott að hafa í huga að þótt manni fyndist manni ekkert miða áfram á móti straumnum, þá væri maður samt að fara áfram. Eitt af betri ráðum sem ég fékk fyrir þessa keppni!
Synti nú að seinustu baujunni og gekk í land, níðþung. Leit á klukkuna og sá að ég hafði náð þessu á undir klukkutíma eins og takmarkið var, flögutíminn var 56 mín. Var svo glöð að hafa náð þessu að ég var ekkert að flýta mér, labbaði inn á skiptisvæðið en hljóp ekki. Varð skítkalt þegar ég var að koma mér úr blautgallanum. Drakk kók, fékk mér mentolbrjóstsykur til hressingar, setti á mig sólarvörn. Fór í tvo hjólajakka og setti á mig eyrnaband. Það var erfitt að renna jökkunum því ég skalf svo mikið. Leit á klukkuna og sá að ég hafði nú dundað mér fulllengi þarna en mér var bara alveg sama um þennan skiptitíma þetta augnablikið því ég hafði komist í gegnum sundið og var að fara að klára þessa keppni nema að ég slasaði mig á hjólinu eða að það myndi bila.
Hljóp af stað að hjólarekkunum, gerði þau mistök að treysta á eigin talningu frá því daginn áður frekar en að horfa á númerin á rekkunum og fór fyrst fram hjá hjólinu. Svo tók ég alveg hálfa til heila mínútu í að bíða eftir GPS sambandi á hjólaúrinu, já ég er Strava fíkill. T1 tíminn minn var tæplega 15 mínútur en ég var ekki pirruð yfir því eftir á heldur fannst það bara fyndið.
Hjólið gekk vel og Sensa hjólið mitt var eins og hugur manns. Það var helst svekkjandi hvað það var mikill vindur. Norska spáin sagði að það hefðu verið 8 m/s. Ég missti hraðann oft undir 20 km/klst, það hafði svo sannarlega ekki verið á áætluninni! Ég hafði bara notað liggistýrið á trainernum inni heima og svo þessi stuttu æfingaskrepp á Spáni dagana fyrir keppni en það gekk ótrúlega vel að nota stýrið. Ég var allavegana dauðfegin að hafa það út af vindinum en hafði vonast eftir að geta hvílt meira á því. Ég fann ekki fyrir neinum eymslum eða dofa nema kannski aumum setbeinum í lokin enda á grjótharða hnakkinum mínum og með mjög þunnan þríþrautarhjólapúða í keppnisgallanum. Var reyndar með aumar axlir daginn eftir sem ég veit ekki hvort var eftir sundið eða hjólið.
Ég var fegin að vera með eyrnabandið og í tveimur jökkum því mér varð aldrei of heitt á hjólinu. Veðrið var nefnilega svipað og daginn áður og ég hafði ákveðið að ef mér yrði heitt að þá ætlaði eg bara að stoppa og setja annan jakkann í bakvasa. Fannst líka gott að vera með nóg af slöngum í bakvösunum. Var samt örugglega mest klæddi keppandinn…
Ég hjólaði bara eftir tilfinningu (á ekki wattamæli), vildi ekki fá háan púls og reyndi að herða mig þegar hraðinn fór undir 23 km/klst. Var ekki með púlsinn á hjólaskjánum en fletti einu sinni yfir á hann og sá að hann var 140. Samkvæmt upptökunni var púlsinn í Z3 allan hjólatímann.
Hjólið var klárlega skemmtilegast og hluti af því sem ég hafði hlakkað til var að borða. Var með stór Corny stykki og fékk mér á um hálftíma fresti. Svo var ég lengi að borða hvert stykki þannig að ég var eiginlega borðandi allan tímann! Fann einu sinni eða tvisvar fyrir hungurtilfinningu þrátt fyrir þetta stanslausa át. Þá hafði kannski liðið heill hálftími á milli fóðrunar. Var með þetta allt í risastórri tösku á stönginni. Ekki neitt straumlínulaga dót. Var líka með gel og borðaði tvö, seinna gelið borðaði ég á seinustu kílómetrunum. Var með vatn í eigin brúsa og svo powerade í upprunalegum brúsa, skröltandi í brúsahaldaranum (kom ekki að sök, hann datt ekki úr enda fínir vegir, mæli samt ekki með þessu).

mynd5
Hjólaðir voru þrír hringir með þremur botnlöngum. Fólk þeyttist fram úr mér og maður mætti öðrum keppendum á hinni akreininni. Var að gá hvort ég sæi Kára þarna einhvers staðar og viti menn, var hann ekki þarna að koma á móti mér! Ég gólaði KÁRI!!! Og HÆÆÆ en þegar furðu lostinn maðurinn leit upp þá mundi ég að Kári hafði ætlað að vera í jakka en ekki svarta og hvíta þríþrautargallanum á hjólinu og þetta var alls ekki hann!
Þegar ég byrjaði þriðja hringinn minn voru næstum engir eftir í brautinni og þá var ekki eins gaman. Þá lenti ég í smá stress atviki því ég hélt að ég hefði gleymt að beygja inn einn botnlangann. Við afleggjara var einn sjálfboðaliði að horfa út í loftið og ein keila. Átti ég að beygja þarna? Átti ég að stoppa og spyrja? Þetta var í þriðja sinn sem ég hjólaði þarna og ég átti að þekkja þetta. Hélt áfram en ekki á fullu afli ef ég skyldi þurfa að snúa við, svona fer skynsemin stundum forgörðum. Kom loksins að réttum botnlanga, þar voru auðvitað þrír starfsmenn og 10 keilur. Gaf í og náði meira að segja að taka fram úr tveimur!

mynd6

Kom nú að drykkjarstöðinni í þriðja sinn, hafði losað mig við tóma powerade flöskuna áður og greip isodrykk í brúsa, sjá mynd! Var nú sennilega óþarfi því það var enn nóg af vatni í vatnsbrúsanum mínum og ég átti enn til gel en hey ég hef aldrei á ævinni gripið brúsa á drykkjarstöð!
Var alltaf að reikna í huganum hvað ég yrði lengi ef ég myndi halda hinum og þessum meðalhraða og það var nóg að gera hjá mér þannig að þessi 3,5 klst leið mjög hratt. Undir lok hjólsins var mér mál að pissa í fyrsta sinn en gerði ekkert í því. Held líka að fugl hafi skitið á hausinn á mér við 80 km en sá engin ummerki um það við skoðun í spegli eftir keppnina.
90 km í hús á 3:33 Meðalhraði 25,5km/klst. Áætlun hefði verið 26 km/klst svo að þetta var á pari. Af hjólinu og hlaupa með það að rekkanum eða hvað? Gat ekki hlaupið heldur skjögraði með hjólið eins og hjólbeinóttur kúreki, fannst eins og liðamótin við setbeinin hefðu færst til og ég þyrfti að krossleggja fætur til að koma þessu í lag. Gerði það samt ekki og labbaði með hjólið að rekkanum og sótti hlaupapokann. Reif mig úr jökkum og öllu hjólatengdu, setti á mig der, hlaupaskó og klessti á mig sólarvörn. Fannst erfitt að setja á mig sólarvörnina, hefði viljað vera með úðabrúsa fyrir allt nema andlitið. Hafði farið í sokka fyrir hjólið og sett á mig tásukrem þá þannig að þar þurfti ekkert að gera. Vildi að það hefðu verið kamrar inni á skiptisvæðinu svo að pissutími yrði hluti af skiptitíma en ekki hlaupatíma. Ákvað að halda í mér þótt það gæti þýtt vanlíðan í hlaupinu. Hljóp af stað, gleymdi að kveikja á hlaupaúrinu, kveikti á því í ofboði, hljóp á svaka hraða 5.50 en 6.00 hafði verið áætlaður hámarkshraði. Eftir kannski 500 m sá ég kamar! Og engin röð! Dreif mig inn og þvílíkur léttir, sá sko ekki eftir að hafa stoppað.
Það var mikil gola á hlaupaleiðinni sem var 4x5km við ströndina. Á kafla var samt skjól og þá varð mjög heitt en hitastigið var samt held ég ekki yfir 20°C. Það var sól allan tímann og ég þakkaði fyrir að hafa haft vit á að kaupa mér þetta der sem ég hljóp með ásamt sólgleraugum. Skýldi mér stundum á bakvið aðra hlaupara í mesta vindinum.

mynd7

Fór að svíða í hægri holhöndina strax á fyrsta hring en ég hef áður fengið nuddsár þarna þegar ég hef hlaupið í ermalausu. Hafði ekki sett nuddkrem þarna í T2, bara sólarvörn. Reyndi að lyfta hendinni og harkaði þetta af mér, þetta verður bara vont seinna, nú þarf ég að hlaupa. Fór svo að hella vatni á þetta á drykkjarstöðinni og það hjálpaði mikið.
Brautin var hlaupin fram og tilbaka og þannig að maður fór tvisvar í gegnum drykkjarstöðina á hverjum 5 km hring.
Það var mjög gaman að hlaupa svona fram og til baka því þá hittir maður svo marga. Við Kári hittumst oft og hann hvatti mig en mér datt ekkert sniðugt í hug til að segja. Held að við höfum náð allavega einni fimmu.

mynd8
Ég var búin að hlakka mikið til að fara að hlaupa því þá er maður svo öruggur. Í hlaupi fær maður ekki sjó upp í sig eða sprengir dekk. Ég get líka vel hlaupið í tvo tíma, finnst það ekkert ógnvænlegt, er eins og áður sagði ekkert að fara á neinum afrekshraða. En það verður að segjast að hlaupið var mjög erfitt. Mig langaði SVO mikið að labba. Byrjaði eins og fyrr segir á 6.00 (besti hraði) en hægði fljótlega á mér og var mikið á 6.15 fyrri helminginn en seinustu 9 km hægði ég verulega á mér, niður í 6.40 sirka. Leyfði mér að labba við drykkjarstöðina og svo labbaði ég tvö gel af fjórum. Var líka með háan púls, 161-166 slög og fannst það vera zone 4 púlsinn minn og vildi reyna að ná honum niður. Þarf að endurskoða þetta því varla var ég í Z4 í yfir 2 klst.
Kári var kominn í mark og í finisher bol þegar ég byrjaði seinasta hringinn. Þetta var allt að ganga upp hjá mér. Mikið farið að fækka í brautinni en ekki jafn einmanalegt og á seinasta hjólahringnum. Svo var bara komið að þessu. Seinasti kílómetrinn! Kláraði hlaupið á 2:17:06 (pace 6.30) með pissustoppi og smá labbi! Markmiðið hafði verið 2:14. Kári tók á móti mér í markinu. Mikið var þetta skrýtið, tveggja ára undirbúningur og markmiðið í höfn, ég brosti hringinn en djöfull var ég búin á því. Dreif mig samt í niðurskokk því mig vantaði nokkur hundruð metra inn á úrið frá því ég gleymdi að setja það af stað og ég hleyp sko ekki hálft maraþon án þess að það fari inn á Strava!
Þetta tók mig sem sagt 7 klst og 7 mín sem var á pari við væntingar.
Borðaði banana og iso drykk, tókum myndir af okkur í bolunum, náðum í dótið okkar og löbbuðum heim í sturtu. Borðuðum á McDonalds því ég nýt mín ekki við dúkað borð eftir svona átök! Hafið ekki áhyggjur, næsta dag fórum við á tapas stað með hvítum dúkum.

mynd10

Mig langar að þakka fullt af fólki fyrir ýmsa aðstoð við undirbúning. Kára, manninum mínum, fyrir að drífa sig með mér og vera hjólaviðgerðarmaður. Stóra stelpan okkar, Anna Valgerður, tók að sér að passa yngri systkin sín mjög mikið, þurfti oft að koma þeim ein í rúmið og það er sko ekki auðvelt. Takk elsku Anna mín 🙂
Foreldrar okkar beggja hjálpuðu mikið við pössun. Þegar við fórum á hjólaæfingar á sunnudagsmorgnum kl.8.00 þá sóttu tengdó krakkana um tíuleytið og fóru með þau heim til sín í morgunmat. Við komum svo og sóttum þau og fengum dýrindis mat í leiðinni. Mamma mín sá um ballettinn hjá þeirri 5 ára og þá hlupum við langa hlaupið á meðan. Svo hefur sú amma verið ótrúlega þolinmóð á pössunarútkallsvakt og þau pabbi margoft tekið börnin í bústað yfir helgi. Vigdís, Ragnheiður, Gunnar Ingi og Halldór, takk innilega fyrir hjálpina.
Ég vil þakka þjálfurunum hjá Ægi3; Geir, Gylfa og sérstaklega Óla sem hefur verið þolinmóður að gefa mér ráð og hafa trú á mér. Löngu brick æfingarnar hjá Karen Axels skiluðu líka sínu.
Vinir, vinnu- og æfingafélagar gáfu, lánuðu eða seldu ódýrt ýmsar græjur sem okkur vantaði: Guðrún Jóns og Brynja Stefáns (þær voru líka svo duglegar að hvetja mig, ég veit að þið trúið ekki hvað ég hugsaði mikið til ykkar og um mörg góð ráð sem ég fékk frá ykkur), Anna Helgadóttir og Gúa Geirs (eðalteymi), Ólafur Þór M, Trausti Vald, Siggi Tommi.
Ég mæli með Salou keppninni fyrir þá sem eru til í að fara í keppni svona snemma á árinu. 2020 verður keppnin 29.mars. Ég hef auðvitað ekki samanburð en keppnisleiðirnar eru mjög fínar og það er úrval hótela í göngufæri við keppnissvæðið, 3 km í stóra íþróttabúð ef þú gleymdir einhverju heima, menningin er þægileg, flestir með posa og nokkuð góðar samgöngur. Það er heldur ekki of heitt á þessum árstíma.

Nú er auðvitað spurningin hvað er næst, hvort maður hugsi stærra. Heill járnkarl finnst mér vera í allt annarri deild en það væri nú alveg gaman að fara aftur í hálfan. Daginn eftir keppnina, þegar ég var með svo miklar harðsperrur í lærunum að ég gat ekki sest niður án þess að styðja mig við, þá hugsaði ég að þetta hafi nú ekki verið svo erfitt? Þetta var nú samt erfitt.
Í ágúst ætlum við hjónin að taka þátt í Glacier360.is sem er þriggja daga hjólakeppni (ef einhver sem vill ólmur styrkja okkur þá vantar okkur Kára liðsbúninga fyrir þann viðburð) þannig að það má ekkert slá slöku við í sumar. Ég ætla líka í nokkrar íslenskar þríþrautarkeppnir og vonast til að hitta sem flesta í ólympískri þraut eða hálfum járnkarli á Laugarvatni 15.júní (sjá https://www.aegir3.is/laugarvatnsthrautin ).
Takk fyrir lesturinn, þið sem hélduð þetta út!