Vorið í Calella

Sigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Jæja, þá er aftur komið að því að skrifa keppnissögu eftir frækna keppni hér í Calella, Barcelona. Ég endaði þessa keppni á mínum besta tíma í hálf maraþoni inni í þríþraut (og mínum besta tíma frá upphafi ef mér skjátlast ekki) og varð á sama tíma 19. í PRO flokki til að hlaupa yfir endamarkið.
Fyrir keppnina í dag var spáð hrikalegu veðri. Þegar ég segi „hrikalegt“, þá meina ég allt sem hægt er að túlka út úr því. Samkvæmt hinni alræmdu og oft mjög svo áreiðanlegu norsku síðu YR.no gátum við búist við allt að 5-8mm rigningu á þeim tíma sem keppnin stóð yfir bæði hérna í Calella og uppi í fjalli þar sem hæsta punkti hjólabrautarinnar var náð. Þar að auki átti hitinn ekki að fara mikið yfir 13 gráður á meðan að herlegheitunum stæði. „Ekta íslenskt sumar“ hugsaði ég með mér kvöldið áður en við fórum í háttinn fyrir stóra daginn. Ég var í þessu ljósi sérstaklega stressaður fyrir hjólinu. Eftir óhappið í Írlandi í fyrra, þegar ég þrusaði mér út af hjólabrautinni á 60 km hraða, einmitt í svipuðum veðuraðstæðum og búið var að spá hérna á Spáni, hef ég ekki verið sá hressasti með að henda mér hratt niður brekkur í bleytu. Ég var þess vegna búinn að ákveða að hjólið yrði tekið nokkuð þétt upp brekkurnar en svo myndi ég ekki hleypa mér of hratt niður aftur. Þannig gæti ég alltaf fundið fyrir þeirri tilfinningu að ég væri 100% við stjórn. Með það hugarfar fór ég í háttinn kvöldið fyrir keppnisdag, kl 10:00 að staðartíma.

Á keppnisdag var vaknað kl 04:00 á spænskum tíma (02:00 á íslenskum tíma) og því ekki fjarri lagi að enn hafi einhverjir verið í party-um sem tengjast hinni Evrópsku söngvakeppni þegar við Rafn röltum niður í morgunmat ásamt öðru mishressu íþróttafólki sem var á leið í sömu vitleysu og við. Tveir félagar okkar Rafns, þeir Mummi og Halli, voru einnig á sama hóteli og við sátum því saman í morgunmatnum að ræða mögulegt úrhellið sem ætti eftir að setja svip sinn á daginn. Ég reyndi að borða eins mikið og ég gat þar sem það voru 3 tímar í ræs og nægur tími til að melta. Ég var búinn að ákveða það að ég ætlaði ekki að gera sömu mistök og í fyrri keppnum og vera að hugsa um „keppnisþyngd“. Maður brennir um 4-5000 hitaeiningum í svona keppni svo það er alveg hægt að dæla aðeins í sig í morgunmatnum (eða það er allavega minn hugsunarháttur).
Klukkan var að verða 06:00 þegar við loksins röltum út að skiptisvæði til að athuga með hjólin, setja upp skipti-pokana okkar og gera allt klárt. Spánverjinn í kallkerfinu var sífellt að vara við þessum hrikalegu aðstæðum sem væru á staðnum: „Eingöngu 12 gráðu lofthiti og FIMMTÁN GRÁÐUR í vatninu!!“ Þetta var svo dramatískt að ég hélt á köflum að hann myndi tilkynna næst að stundið hefði verið stytt niður í 50 metra höfrungahopp. Ég var frekar rólegur í fjörunni, kom mér bara vel fyrir og fékk einhvern ókunnugan gaur til að renna upp blautgallanum. Þegar hann var nýbúinn að renna upp þurfti ég alveg rosalega mikið að pissa. Þetta gerist alltaf svona rétt fyrir start og því gott að vera vanur því að láta bara vaða í blautgallann. Ég gerði það og svo aftur rétt áður en að startflautan fór í gang (Já, þessi aukakíló, maður!).
Þrátt fyrir dómsdagsspár veðurfréttastöðva daginn áður rættist það ekki um morguninn og í staðinn fengum við næstum heiðskíran himin og góðan hita. Engin rigning enn…það lofar góðu.

Sundið

siggi1
BAM. Af stað með ykkur. Já, svona áfram! Rosalega var ég eitthvað seinn úr sporunum. Allir þutu fram úr mér og ég endaði á því að höfrunga mig fram úr nokkrum áður en ég setti allt í botn. Spaðarnir á fullt og fætur í gang. Snúa mjöðmum, anda rólega og reyna að koma sér í takt. Það gekk vel og ég var orðinn fyrstur eftir um 50 metra. Það virtist enginn ætla að reyna að fara eitthvað hraðar svo ég ákvað bara að þetta yrði enn eitt skiptið sem ég myndi bara leiða þetta pakk. Ekki myndi ég að gera það á hjólinu, né í hlaupinu, svo það gæti allt eins verið sundið (broskall). Ég hélt uppi góðum hraða og reyndi að halda jöfnum takti. Það voru góðar aðstæður fyrir hratt sund og við vorum á endanum bara þrír sem að héldum þetta út. Þetta var á vissan hátt mjög viðburðalítið sund, ég elti bara baujurnar og gaurinn sem var á kayak fyrir framan mig. Þægilegt að vera með svona fylgdarmann, þurfti eiginlega ekkert að pæla í baujunum heldur elti bara strákinn í kayak-num. Forréttindi.

Eftir um 22 mínútur og 50 sekúntur (1906m skv. úrinu) kom ég upp úr, sirka 5 sek á undan næstu tveimur sem voru Elliot Smales (endaði í 4. sæti) og David McNamee (endaði í 2. sæti) og meðalpace því sirka 1:12/100m. Bara nokkuð gott hugsaði ég, en þetta var bara nokkuð þægilegt sund þrátt fyrir hraðann. Ég dreif mig inn í T1 og henti mér úr blautgallanum og setti á mig hjálminn. Kippti líka með mér hjólatölvunni en það hefði verið þó nokkur skellur að gleyma henni í pokanum góða. Skiptisvæðið var á gervigras fótboltavelli svo að hlaupið að hjólunum var nokkuð mjúkt og þægilegt. Úti í enda stóðu hjólin og ég kom að standi nr. 14. Ekkert vesen, hjólatölvan á festinguna og hjólið út. Úff…næstu 90 km yrðu strembnir en það var allavega ekki enn byrjað að rigna og lítið útlit fyrir að það myndi breytast í bráð!

Hjólið
Fyrstu 3 km hjólaleiðarinnar út úr Calella voru tæknilegir og við máttum ekki nota letingjana (aero bars) á hjólunum okkar þangað til við værum komin á beinu brautina. Við unnum okkur því í rólegheitunum út úr bænum og svo út á hraðbrautina þar sem að maður setti í keppnisgírinn og byrjaði þessa veislu. Strákarnir tveir sem að komu upp úr sundinu með mér voru þá komnir á undan en ég kippti mér ekki mikið upp við það. Báðir eru þeir virkilega öflugir hjólreiðamenn og ég bjóst líka við því að missa nokkra fleiri fram úr mér á þessum mjög svo strembna hjólalegg.

siggi2

Eftir að hafa hjólað um 7-8 km af brautinni hófum við að klífa upp fyrstu brekkuna. Hæðarprófíllinn skiptist í þrjár veglegar brekkur upp á við og nokkuð tæknilega kafla niður frá hæsta punkti (sjá mynd).

siggi3

Ég var búinn að ákveða að taka aðeins meira á því upp brekkurnar en hvíla frekar á leiðinni niður og vera þá á minni ákefð á þeim köflum. Enn var ekki byrjað að rigna á þessum tímapunkti og það leit út fyrir það að þetta myndi haldast þurrt allan daginn svo það var allavega stór plús fyrir óöruggan hjólreiðamann hræddan við hraðar brekkur. Ég hélt nokkuð jöfnu afli upp þessa fyrstu brekku, sem tók um það bil 27-28 mínútur að fara upp. Meðalaflið um 330 wött. Við tók um það bil 13 mínútna hjól niður en á þessum tímapunkti hafði ég misst um 8 hjólara fram úr mér, tvo á leiðinni upp og sex á leiðinni niður. Mér fannst menn vera ansi glannalegir á leiðinni niður þrátt fyrir að það væri þurrt og ekki leið á löngu þar til ég sá hjól úti í kanti og einhvern liggjandi úti í skurði með tvö mótorhjól að veifa okkur að fara varlega. Flashback á Írland hjá mér, vona að það sé í lagi með kauða.
Fljótlega komu svo fjórir í viðbót fram úr og þeir náðu þessum 6 sem höfðu farið fram úr mér á leiðinni niður brekkuna. Allir voru þeir heldur nálægt hvor öðrum og ég velti því fyrir mér hvort að þeir sem eru í PRO flokki séu eitthvað undanskildir þessum draft reglum því ég fullyrði að enginn þeirra virti 12 metra regluna. Ég hefði örugglega getað hent mér fyrir aftan þá og draftað eins og hinir og mögulega grætt eitthvað á því en það síðasta sem ég vildi var að fá á mig víti svo ég sleppti því. Maður tapar stundum á því að vera heiðarlegur en það er bara eins og það er, því miður.
Næst tók við alvöru klifur sem lá upp í Montseny en þetta var ROSALEGT. Ég tók sömu nálgun á þetta og við fyrsta klifurkaflann og keyrði aðeins meira upp brekkuna til að geta hjólað rólegar niður. Þetta var um 11 km kafli með 500 metra hækkun og því var hraðinn ekki mikill að meðaltali. Meðalwöttin um 325 upp þennan kafla en þetta tók um 32 mínútur í heildina. Það komu engir aðrir fram úr mér hér og því ljóst að það væri nokkur spotti í næsta hóp fyrir aftan. Þegar á toppinn var komið tók við mjög tæknilegur kafli þar sem að ég eiginlega hékk allan tímann á bremsunum og passaði mig að hleypa mér ekki of hratt niður. Frekar að skila sér heilum í T2 heldur en að kynnast betur þeim gróðurtegundum sem uxu þarna uppi í Montseny héraði. Til marks um það hversu þröngir og óútreiknanlegir vegirnir þarna uppi voru þá má sjá skjáskot af einum kafla leiðarinnar á næstu mynd.

siggi4

Eftir að hafa þrætt þessa þröngu vegi komum við loksins að góðum vegarkafla og við tók mjög hraður kafli. Næstu 10 mínútur voru á að meðaltali 50 km/klst en þetta var nokkuð beint og kannski hægt að líkja þessu við Krýsuvíkurveginn frá toppi að Bláfjallaafleggjaranum. Eftir þetta var keppnin í sjálfu sér nokkuð viðburðalítil hjá mér en fljótlega komu fram úr mér 5-6 aðrir hjólarar og ég ákvað í þetta skiptið að reyna bara að halda mig við þennan hóp alla leið í bæinn. Það var eitt klifur eftir áður en við kláruðum brekkurnar og við keyrðum upp þennan síðasta kafla áður en við tók nokkuð léttur kafli síðasta korterið eða svo. Menn farnir að hugsa um hlaupið og tími til að fá sér restina af næringunni og drekka nóg. Það var orðið ágætlega heitt, um 15 gráður og sól svo að hlaupið átti eftir að vera við nokkuð þægilegan hita. Næringin mín á hjólinu var um það bil 900 kcal af gelum sem ég hafði sprautað í brúsa og blandað með vatni. Svo var ég bara með hreint vatn (sem ég drakk ekkert af og burðaðist því með auka 750 gr upp allar þessar brekkur) og 750 ml af Aquarius blöndu til að fá sölt.
Við komum fljótlega aftur að bænum og því tími til að þræða þröngar götur Calella aftur áður en við skiluðum hjólunum og byrjuðum hlaupið. Ég tók mér tíma í þetta og var ekkert að flýta mér og reyndi bara að einbeita mér að því að klessa ekki á neitt. Úr skónum þegar um 500 metrar voru í mount-dismount línuna og svo af hjólinu og inn í T2.
T2 gekk nokkuð vel fyrir sig og ég var kominn í hlaupið eftir um 2 mín í skiptingu.

Hlaupið
Ég var í fyrsta skipti að keppa með Stryd powermæli í hlaupinu núna og fannst áhugavert að fylgjast með því öðru hverju. Þetta kannski gerði ekki mikið gagn í þessari braut þar sem að hún var tiltölulega slétt og því ekki mikil þörf á því að stjórna hraðanum en þetta gefur manni samt góða innsýn í hvernig maður er að halda út hlaupið í heild sinni. Ég byrjaði nokkuð léttur á fæti en fyrstu 1,5 km voru við léttan meðbyr áður en við komum að fyrsta snúningspunktinum. Eftir það voru þetta tveir heilir hringir, samtals um 19,5 km til viðbótar.

siggi5

Mér leið vel fyrstu tvo kílómetrana en svo fór aðeins að síga í og ég fann hvernig hraðinn datt aðeins niður. Ég ákvað því að einbeita mér bara að tækninni og reyna að skila hámarks krafti í hvert skref. Kálfarnir voru á þessum tímapunkti mjög stífir og ég fann að orkan var aðeins farin að minnka. Á næstu drykkjarstöð tók ég því rólega, labbaði í 5 sek á meðan ég henti í mig geli og Red bull, tók eina vatnsflösku, skolaði munninn og drakk aðeins og hellti restinni yfir hausinn og bringuna. Þetta gerði helling en næstu 5 km voru á góðu pace-i sem skilaði fyrstu 10 km á sirka 38:20 mínútum. Ég var nokkuð sáttur með þetta en markmiðið fyrir daginn hafði verið að fara undir 1:20 í hálf-maraþoninu. Ég ákvað því bara að reyna að halda þessari siglingu áfram en kálfarnir voru á þessum tímapunkti farnir að losna aðeins upp og ég gat gefið aðeins í. Ég hélt uppteknum hætti, tók gel á annarri hverri drykkjastöð en hellti alltaf yfir mig vatni og drakk smá. Næstu 10 km voru líka á 38:20 svo það var ljóst að splittið var algjörlega slétt. Ótrúlegt, hugsaði ég. Síðasti kílómetrinn var strembinn en það var mikið af fólki í brautinni og því þurfti ég oft að kalla á fólk til að færa sig. Þetta gekk ekki alltaf upp og endaði ég nokkrum sinnum á því að hlaupa á gangstéttarkantinum. Loksins náði ég á rauða dregilinn og kastaði mér léttur á fæti yfir marklínuna á tímanum 4:24 og því ljóst að hálf-maraþonið hafði verið hlaupið á um 1:19, um mínútu undir markmiðinu. Að neðan má sjá greiningu á hlaupinu í hraða (grænt) og afli (fjólublátt).

siggi6

Að lokum var því nítjánda sæti í PRO flokki af 33 sem kláruðu (40 í starti) staðreynd og 22. í heildina af þeim 2224 sem að kláruðu almennu keppnina. Til gamans má geta að það voru tveir Age Group gæjar rétt á undan mér í aldursflokkinum 25-29 ára og því ljóst að mjög líklega hefði ég náð á HM í Nice ef ég væri ekki að keppa í PRO flokki.

Samantekt
Það er margt mjög gott sem ég tek frá þessari keppni en það gekk eiginlega allt upp hérna í Calella. Sundið var mjög gott en eins og er hef ég líklega náð sama formi þar og þegar ég var upp á mitt besta um árið 2009. Nú hef ég alltaf komið upp í fremsta hóp í sundinu og tvisvar verið fyrstur upp úr vatninu svo það er ljóst að ég og Klaus erum að gera eitthvað rétt þar.
Hjólið var mjög gott á heildina litið og ég var hissa á því hvað aflið var gott. 304W normalized í 2 klst og 37 mín er eitthvað sem ég hefði ekki getað trúað fyrir 2 mánuðum síðan en góðar æfingar og mikilvæg innsýn í mjólkursýrumyndun og eyðslu frá Ragnari Guðmunds í Optimizar urðu til þess að opna augun mín fyrir öðrum æfingaaðferðum sem að hafa svo sannarlega skilað sínu. Ég var samt um 10-15 mín hægari en flestir þeir sem voru á undan mér og það er bara eitthvað til að vinna í enn frekar. Ég veit að ég get náð þeim með markvissum æfingum og það verður gaman að komast einhvern tímann á þann punkt að geta haldið forystunni úr sundinu lengur inn í hjólið og mögulega vera með í topp baráttunni.
Hlaupið var ofar markmiðinu og um mínútu hraðari hlaupatími en áætlað var. Meðalpace um 3:46/km en marmiðið var að vera í kringum 3:48. Markvissar æfingar í vetur hér og engin meiðsli hafa klárlega skilað sínu og ég hlakka til að halda áfram að vinna þennan hlaupatíma niður og vonandi komast nær 1:15 af hjólinu á komandi misserum. Þá fyrst get ég farið að vera samkeppnishæfur við þessa bestu og komið mér inn í Top-10 baráttuna.

siggi7

Að lokum vil ég þakka öllum heima fyrir ótrúlegan stuðning en það er alltaf svo gott að vita af því að fólk sé að fylgjast með og hefur áhuga á því sem maður er að gera. Ég vona líka að það sem ég geri verði til þess að hvetja aðra áfram í því að ná sínum markmiðum, sama hver þau eru og verði til þess að gera þríþraut að vinsælli íþrótt heima fyrir.
Ég þakka öllum þeim Íslendingum sem voru hérna líka í Calella fyrir frábæran félagsskap og óska þeim til hamingju með flottan árangur – frábært að sjá hvað allir voru að standa sig vel í þessari krefjandi braut! Sérstaklega til hamingju Ranna með HM-sætið í Nice!! Ótrúlega vel gert, algjört vélmenni.
Að lokum, þakkir til styrktaraðila minna, en án þeirra væri þetta mun erfiðara verk en það er nú þegar.
– TRI Verslun #becube
– On Running #runonclouds
– Arena á Íslandi #arenawaterinstinct
– Hleðsla Íþróttadrykkur #hledsla
– Hárnýjung #bestaklippingin

-Sportvörur

Næst á dagskrá er IM 70.3 í Finnlandi og svo strax helgina á eftir IM 70.3 í Jönköping, Svíþjóð og verða það því ansi krefjandi 8 dagar. Ég hef nokkrar vikur til að koma mér í stand fyrir það, en fyrst eru það sprettþrautin í Hafnarfirði og Íslandsmót á Laugarvatni. Þangað til næst!

Hákarlar, öldur og brekkur

Björn Reynald Ingólfsson segir frá:

Varla var liðinn mánuður frá því ég tók þátt í Challenge Lissabon þegar Ingi frændi, sem býr í San Diego í Kaliforníu, hringdi og skoraði á mig að taka þátt í Ironman 70.3 Oceanside 6. apríl  2019 með sér. „Þú hefur 24 tíma áður enn það verður uppselt“, sagði Ingi.  Ég  var að drepast í mjöðminni eftir Lissabon og hálft maraþon í Vormaraþoninu 2018 en hálfur járnmaður er alltaf freistandi og ég sló til og skráði mig.

Oceanside er lítill strandbær norður af San Diego. Brimbretta kappar hópast á þennan stað allt árið í kring vegna brimsins. Það fyrsta sem netleitin sýndi mér var frásögn af ungri konu sem hafði orðið fyrir árás  hákarla. Þeir eru tíðir gestir við strandlengjuna þarna.

Ég var allt sumarið að ná mér í mjöðminni. Byrjaði að æfa aftur í september og gekk bara vel framan af. Þá tók við meiðslahrina, kálfar og læri. Stóð í þessu fram til miðjan desember.

Í  janúar og febrúar gengu æfingar ágætlega en í mars tognaði ég aftur í kálfa. Ekki nóg með það heldur náði ég mér í blóðeitrun í litlutána. Þá var aðeins mánuður í mótið. Gat ekkert hlaupið fyrir mótið en hjólaði því meira. Hafði bætt við lyftingum um áramótin.

Égflaug út til San Francisco 2. apríl og þaðan til San Diego. Þetta ferðalag tók 12 tíma. Tímamunur var sjö tímar og ekki veitti af nokkrum dögum til að endurstilla líkamsklukkuna.

Í San Diego hafði rignt í nokkra daga fyrir mótið. Það rignir víst ekki mjög oft í Suður-Kaliforníu. Skráði mig á Facebook síðu sem Oceanside þátttakendur höfðu stofnað. Þar var mikið talað um brekkurnar í fjöllunum. Hvað margir ganga upp þessar tvær bröttu brekkur. Einnig rigninguna og hvort mótinu yrði aflýst ef það myndi rigna. Skildi nú ekkert í þessu því úti var um 15 til 20 stiga hiti og blanka logn þó að það rigndi smá. Ekki minnst á hákarla sem betur fer.

bjorn2sund
Þegar öldurnar eru á hæð við einbýlishús, skipta nokkrir hákarlar ekki máli

Ræsa átti sundið á ströndinni ef ölduhæð var ekki meiri en fimm fet(2m). Annars yrði sundið fært inn í höfnina. Öldurnar þegar ég byrjaði voru um tíu fet(3m). Var hálf ógnvekjandi þegar ég var búinn að vaða sjó upp að mitti og sjá öldurnar koma á móti manni himinháar að manni fannst. En sem betur fer tók ég þátt í æfingu deginum áður hvernig á að tækla svona öldur.

Rétt fyrir en startið var kallað í hátalarakerfið og okkur bent á að kíkja út á haf. „Ekki hafa áhyggjur af þessum uggum þarna úti. Þetta eru höfrungar en ekki hákarlar.“

Ég heyrði í ungum strákum fyrir aftan mig í röðinni telja sekúndurnar. Snéri mér að þeim og spurði hvers vegna þeir væru að telja. „Þú verður að vita hvað þú hefur margar sekúndur til að ná lofti áður enn næsta alda kemur“.

Eftir öldurnar tók við hægri beygja og synt inn í höfnina. Frekar slétt og rólegt en sólin truflaði við að staðsetja baujurnar. Þetta sund var geggjað ævintýri. Erfitt en mikið stuð.

T1. Var allt of lengi á skiptisvæðinu. Þegar manni er mál þá þá er manni mál. Þurfti að bíða aðeins til að komast að á kamrinum. Þetta tók um tíu mínútur.

Hjólið er einn hringur og hjólað frá höfninni í Oceanside og upp í fjöll. Heildar hækkun er um 1000 metrar með tveim löngum 10 til 16 gráðu brekkum. Eftir fjöllin tók við 15 km langur, beinn og sléttur vegur í átt að ströndinni með miklum mótvindi. Þessi kafli tók verulega á fæturna. Hér komu auknar hjólaæfingar og lyftingar til hjálpar.

bjorn3hleyour

T2. Var alveg búinn eftir hjólið. Tók því bara rólega. Lét bera á mig sólkrem og fékk mér smá snarl. Aðrar tíu mínútur.

Hlaupið var það sem ég kveið mest fyrir. Hafði ekki hlaupið í rúman mánuð og lengsta hlaup frá áramótum var 10 km.

Hlaupið var meðfram ströndinni með hafgoluna sem kælingu. Hitinn var þegar ég byrjaði hlaupið um 25 gráður og steikjandi sól. Eftir um 12 km skokk byrjaði ég að fá krampa, fyrst í kálfa og svo aftan í læri. Þá tók við ganga í einn kílómeter og skokk í tvo. Var staðráðinn í að klára þetta sama og það tókst með herkjum á 7:25. Sjaldan verið eins ánægður með sjálfan mig að geta það þó tíminn sé ekki uppá marga fiska.

Að ná settu marki er góð skemmtun..

Það var ljóst um áramótin að ég myndi ekki setja nein met. Markmiðin voru að mæta í þessa keppni, klára og njóta.

Allt í kringum þetta mót var pott þétt. Upplýsingagjöfin fyrir keppni og meðan á henni stóð var til fyrirmyndar. Mæli hiklaust með heimsókn á þessar slóðir í veðurblíðuna og hvað er skemmtilegra en að skella sér í hálfan þegar tækifæri gefst?

bjorn4klarar
Með íslenska fánann var fagnað eftir keppni