Sú eftirminnilegasta hingað til

Sigurður Örn segir frá:

  1. sæti PRO/Overall

Það er ekki oft sem það gerist að keppnir ganga alveg samkvæmt plani frá upphafi til enda og að því sögðu, þá get ég ekki sagt að keppnin hér í Finnlandi hafi farið 100% eftir áætlun. Engu að síður var lokaniðurstaðan gríðarlega góð og geng ég mjög ánægður frá þessari keppni í átt að þeirri næstu í Jönköping eftir 8 daga.

Heldur óhefðbundin tímasetning varð fyrir valinu hvað þessa keppni varðar en startað var klukkan 15:30 að staðartíma sem gerði það að verkum að fólk var að klára allt fram að miðnætti. Það kom þó ekki að sök þar sem afstaða Lahti til sólar er svipuð Reykjavík og því bjart allan sólarhringinn á þessum tíma sumars. Ég er sjálfur svolítill morgunhani svo að þetta var ekki það allra besta fyrir mig svona andlega séð en maður aðlagar sig bara að aðstæðunum hverju sinni. Keppnisdagurinn sjálfur var því tekinn aðeins öðruvísi en venjulega.

sigginokia2

Ég vaknaði slakur klukkan 8:00 og fékk mér góðan morgunverð. Fjögur egg, 200ml af kókosmjólk og hafrar soðið saman í potti, um það bil 1100 kaloríur til að starta deginum. Maginn ekki sáttur en mér var slétt. Svo var slakað á fram til klukkan 10, þegar ég kom mér niður að skiptisvæði til að tékka hjólið og pokana inn á svæðið. Ég vildi gera þetta eins snemma og hægt væri til þess að geta komið mér aftur upp í íbúð til að slaka á fyrir keppnina seinni partinn. Mamma og pabbi eru með í för í þessum tveimur keppnum og voru því að einhverju leyti notuð sem burðardýr fyrir poka og dót á leiðinni niður á svæði. Klukkan ellefu vorum við komin aftur upp í íbúð og þá tók við hádegismatur og slökun. Fullur pottur af parboiled hrísgrjónum (hafa 3x minni áhrif á blóðsykur en venjuleg), ristað brauð, steinefnablöndur, vatn og Green and Black‘s súkkulaði urðu fyrir valinu í þetta skiptið og ég var alveg pakkaður 3 tímum fyrir keppni. Fínt, hugsaði ég, og skellti mér í ReBoots recovery buxurnar mínar til að pressa vöðvana aðeins áður en haldið yrði niður á svæði.

sigginokia3

Keppnin

Við vorum mætt um klukkustund fyrir start en ég vil alltaf vera tímalega niður á svæði til að gefa mér nægilegt svigrúm fyrir upphitun og til að lágmarka stress. Upphitunin fór fram á aðeins öðrum stað heldur en startið var svo að maður þurfti að labba smá spöl frá upphitunarsvæðinu og í startið. Ég fór því ofan í um fimm mínútum fyrir klukkan þrjú og synti í um korter til að koma blóðinu af stað. Næst var haldið að sundstartinu og beðið eftir ræsingu.

Það er alltaf smá stress þegar beðið er eftir flautunni sem að hleypir öllu af stað. Ég vissi að í dag væru nokkrir góðir sundmenn og hafði það að markmiði að skoða mig aðeins um fyrstu 300-400 metrana og meta svo hvort ég vildi þvinga þetta eitthvað hraðar eða ekki. Þegar sundið byrjaði náði ég ágætis stöðu og var strax kominn á meðal þeirra fjögurra fremstu í hópnum. Við héldum þessu fram að fyrsta snúning en öldugangurinn reyndist snúinn og það var virkilega erfitt að sjá yfir höfuð hvert maður væri að fara. Ég reyndi bara að einbeita mér að loftbólunum frá næsta sundmanni fyrir framan en það var samt ekki hlaupið að því heldur. Ég gleypti um þrisvar sinnum smá vatn og svelgdist á en þegar það gerðist reyndi að slaka á og hægja á öndun, láta mig renna í hverju taki og reyna svo að keyra hraðann upp aftur. Ekki það auðveldasta í heimi þegar að önnur hver alda virtist hafa það að markmiði að keyra mann í kaf. Á snúningnum missti ég aðeins lappirnar á næsta manni sem varð til þess að ég villtist örlítið af leið áður en mér tókst að finna næstu bauju aftur. Tók smá auka krók að því er virtist og þurfti að hafa fyrir því að missa ekki alveg sjónar á þeim þremur sem voru fyrir framan. Ég synti því einn alveg frá snúning og inn í höfn þessa síðustu 1000 metra og kom upp úr um 15-20 sek á eftir fremstu mönnum. Ekki besta sund sem ég hef átt en er samt sáttur með tímann, 23:40 í þessum aðstæðum er ekki neitt til að kvarta yfir!

sigginokia4Skiptingin gekk nokkuð tíðindalaust fyrir sig þangað til komið var að því að henda sér á hjólið. Þá kom smá…skellur. Bókstaflega. Þegar ég henti mér á hjólið með þeirri aðferð sem ég kýs að kalla „The flying mount“ kom í ljós að hnakkurinn var ekki alveg nógu vel hertur og hann datt niður um 1,5 cm eða svo. Nægilega mikið til að skafa smá part úr númerinu sem ég var búinn að koma fyrir og að ég fann fyrir því þegar ég settist á hjólið að staðan var nokkuð hressilega „off“. Á þessum tímapunkti var ég að hugsa hvað væri hægt að gera og komst að þeirri niðurstöðu að bara tvennt væri í stöðunni. Annars vegar gæti ég bara hætt að hugsa um þetta og keyrt hjólið svona út þessa 90 km. Hins vegar væri hægt að stoppa í 18km og fá hjálp hjá viðgerðarfólkinu þar við að hækka hnakkinn aftur upp í sína venjulegu stöðu. Ég valdi að halda áfram keppni og klára bara þessa 90 km með aðeins lægri sætishæð, jafnvel þó það gæti komið eitthvað niður á frammistöðu. Ég myndi allavega ekki tapa 2-3 mínútum í það að stoppa, losa hnakkinn, hækka, herða og fara svo aftur af stað. Hver veit, kannski hefði það verið betri kostur? Allavega of seint að pæla í því núna 😛sigginokia5

Hjólaleggurinn var tiltölulega „sléttur“, svona miðað við Barcelona keppnina en brautin innihélt um 650 hæðarmetra skv. Garmin tölvunni. Töluverður vindur var á leiðinni út að snúning í 45 km og meðalhraðinn aðeins undir 40 km/klst til að byrja með. Ég missti fyrstu menn fram úr mér eftir um 20 km og fljótlega komu þrír í hóp fram úr sem að voru nánast ofan í hvor öðrum. Ótrúlegt að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd á þetta en þeir voru augljóslega að græða á því að hjóla í hóp og höfðu minna fyrir þessu fyrir vikið. Ég reyndi að hanga í þeim í 15 km og var ennþá með þá í augsýn þegar við snerum eftir 45 km leið en þá tók við mjög hraður kafli með talsverðum meðvindi. Ég lét þá bara fara á þessum tímapunkti og reyndi að einbeita mér að því að halda aflinu góðu. Ég fann fljótlega að það var töluverð þreyta farin að safnast fyrir í vöðvunum, líklega vegna lélegrar stöðu á sætinu en svona mikil breyting á sætisstöðu getur haft talsverð áhrif á það hvernig maður nær að skila aflinu niður í pedala. Restin var mjög viðburðalítil, ég drakk og kláraði báðar drykkjarflöskurnar mínar á leiðinni til baka en næringin samanstóð eingöngu af níu GU gelum og vatni. Um 900 kcal í heildina. Síðasti dropinn af vatni var kláraður á leiðinni inn í T2 og ég var nokkuð feginn þegar hjólið var klárað. Rassvöðvarnir orðnir vel súrir og fínt að fá annað álag á lappirnar. Meðalaflið skv. Stages mælinum hjá mér var um 312W normalized og tíminn 2:14:55 sem skilaði rétt rúmlega 40 km/klst meðalhraða yfir þessa 90 km. Mjög sáttur með hjólið almennt, sérstaklega í ljósi þess að staðan var algerlega út úr kú en ég bjóst engu að síður við ögn hraðari hjólatíma. Jæja, alltaf rúm fyrir bætingar!

sigginokia6T2 gekk vel og ég var fljótlega kominn út í hlaupið, í 7. sæti á þessum tímapunkti. Ég reyndi að fara nokkuð hressilega af stað og hægja svo á mér eftir um 1-2 km og ná mér í réttan takt. Mér finnst alltaf betra að byrja aðeins hraðar og hægja svo á mér niður í „target pace“ frekar en hitt svo það var það sem ég gerði. Fyrstu 2 km voru nokkuð niður í móti þar að auki svo meðalpace var um 3:30 á þeim tímapunkti. Ég hægði á mér eftir þetta og reyndi að halda þessu gullna 3:49/km pace sem er eiginlega það hraðasta sem ég get gert á þessum tímapunkti eftir hjólið. Mjög skrýtið að lýsa því en mér finnst eins og hjarta- og öndunarkerfið ráði við hraðara pace en einhvern veginn vilja lappirnar ekki leyfa mér að fara hraðar. Þarf að vinna í að ná hámarkshraðanum upp fyrir næsta vetur og þá ætti þetta að verða nokkuð gott.

Drykkjarstöðvarnar voru allar notaðar vel og ég var búnn að skipuleggja hvernig ég myndi tækla þær. Röðin á hverri stöð var eftirfarandi: Vatn – Kók – Gel – Bananar/föst fæða – Orkudrykkur – Vatn. Ég hljóp í gegnum allar stöðvarnar ólíkt því sem ég gerði í Barcelona en ég vildi reyna að halda í 7. sætið eins lengi og hægt væri þar sem að strákarnir í sætum 8.-10. voru ekki langt fyrir aftan. Ég byrjaði alltaf á því að taka vatn og drekka ásamt því að ná strax í annað glas og hella yfir mig og kæla kerfið. Tók því næst kókglas, drakk smá, náði strax í gel, reif það og þrykkti því í mig, aftur smá kók, og að lokum vatn yfir líkama og restin upp í mig til að skola munninn. Þannig var þetta á hverri drykkjarstöð og gekk þetta nokkuð smurt fyrir sig. Það er smá æfing að ná að gera þetta allt á um 10 sekúndum en þetta er farið að ganga nokkuð vel fyrir sig núna og sparar heilmikinn tíma. Eftir um 15-16 km kom 8. sætið fram úr mér og ég því dottinn niður um eitt sæti. Allt í góðu, hugsaði ég, mig grunaði hvort sem er að þetta væri að fara að gerast. Sá sem kom fram úr er strákur sem ég þekki vel frá Noregi og er hörku hlaupari. Ég ákvað samt að reyna að halda honum í augsýn og það var smá gulrót sem virkaði vel til þess að rífa hraðann aðeins upp þessa síðustu kílómetra hlaupsins. Kálfarnir voru líka farnir að losna aðeins upp núna og því gat ég aðeins gefið í og verið slakari í hverju skrefi. Ég hugsaði nær eingöngu um tækni síðustu 5 kílómetrana og skilaði það sér í góðum takti og átti að mínu mati þátt í því að ég hélt 9. sætinu fyrir aftan mig alla leiðina í markið.

sigginokia7Að sjá 21 km skiltið og taka hægri beygjuna út úr hlaupabrautinni og inn á rauða dregilinn er ólýsanleg tilfinning. 4:03 á klukkunni og því minn hraðasti tími hingað til í 70.3 og jafnframt 8. sæti tryggt. Ég fagnaði nánast eins og ég hefði unnið keppnina þegar ég fór yfir línuna enda ekki neitt til þess að vera óánægður yfir, fyrsta Top-10 keppnin mín í PRO flokki raunin. Hlaupatíminn var svosum ekki upp á marga fiska út frá mínu sjónarhorni, um 1:20, en samt nokkuð gott þar sem það var talsvert hvasst í dag og hafði það áhrif á meðalhraðann á stórum hluta hlaupaleiðarinnar. Ég geng því ánægður frá þessari keppni hér í Finnlandi og er kominn með augun á næstu áskorun.

Eftir aðeins 7 daga fer ég af stað aftur í Jönköping 70.3 ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi og verður áhugavert að sjá hvernig lappirnar eru eftir svona stutta hvíld á milli. Mér líður ágætlega þegar ég skrifa þetta núna á sunnudeginum en ég veit að þreytan kemur ekki fyrr en á morgun og á þriðjudaginn. Það verður því mikilvægt að taka því rólega næstu daga og byrja svo mjög létt á þriðjudag/miðvikudag. Vonandi slæ ég hnakkinn ekki niður í Svíþjóð eins og ég gerði hér og þá mögulega get ég gert eitthvað af viti á hjólinu – við sjáum til! Ég læt að lokum fylgja með mynd sem tekin var af mér og Kristian frá Noregi sem að kláraði í 7. sætinu á undan mér, eftir að hann tók fram úr mér eftir um 15 km í hlaupinu.

sigginokia8

Þangað til næst!

 

 

 

Húsmæðraorlof í Helsingör

Margrét Valdimarsdóttir ritar:
Ég ákvað haustið 2018 að skella mér með Ásu vinkonu í hálfan Ironman í Helsingör þar sem hún átti skráningu og mig vantaði gulrót fyrir komandi vetur. Hér var ekkert tvínónað við hlutina, bara henda inn skráningu. Gott og vel.
Hjólaæfingar gengu vel fram eftir hausti og ég fékk blússandi fína útkomu í FTP testi nóvembermánaðar en þá kom desember með jólin og allt stússið í kringum þau og ég virtist bara ekkert geta á æfingum, orkulaus og þreytt og allskonar. Mætti nú samt á æfingar og hélt mínu striki. Reyndi fleiri test í des og jan en var ekkert nálægt nóvembertölunum. Þarna ákvað ég að lækka bara aðeins áreynsluna á æfingum og sjá hverju það skilaði og viti menn, maítestið sýndi bætingu upp á einhver 11W – loksins!
Sundæfingar voru teknar að hætti Nick Saunders þ.e. mjööög róleg upphitun 6-8×50 og svo þéttari keyrslur. Æfði sundið ekki mikið eftir plani en var dugleg að mæta og synda 1500-2000m æfingar 3-4x í viku.
Eins og flestir vita sem þekkja mig þá eru hlaup alls ekki mín sérgrein og þar af leiðandi mæti ég sjaldnast á hlaupaæfingar😊 Ákvað að taka hlaupin eins og sundið, mjöööög rólega upphitun og bæta svo aðeins í. Passa að fara ekki of geyst því þá fæ ég verk í „hamstring“. Reyndi að vera dugleg að hlaupa líka oftar og stutt í einu, tók svo laugardagana í lengri hlaup frá ca. apríl og hljóp lengst 19km 2 vikum fyrir keppni.
Og þá að keppninni sjálfri.
Ferðafélaginn var ekki af verri endanum, reynsluboltinn Kristjana Bergsdóttir æðardúnsbóndi með meiru af Melrakkasléttu. Ása meiddist í vetur og þurfti að hætta við keppni en við Kristjana slógum til.
Við flugum út á fimmtudegi til að eiga smá tíma fyrir keppni sem mér finnst gott. Prófuðum sjóinn fyrir utan hótelið, hjóluðum og hlupum aðeins dagana fyrir keppni og mér leist bara mjög vel á aðstæður.
Fórum mjööög snemma að sofa kvöldið fyrir keppni og vöknuðum, önnur kl. 23 og hin kl. 24, algjörlega úthvíldar og til í keppni, þurftum samt að loka augunum aftur og sofa aðeins lengur – smá spenningur í gangi greinilega.
Vöknuðum kl. 6 og fórum í morgunmat. Röltum svo út á keppnissvæði um kl. 7. Kíktum á hjólin, pumpuðum í dekk og gengum frá næringu. Ég náði í sólarvörn í hlaupapokann og gluðaði á mig þar sem ég á það til brenna. Ekki skyldi það gerast í þetta skiptið 😉
Skellti mér í sundgallann og við tókum rólegt upphitunarsund í höfninni. Hitinn á sjónum var ca 17°C, gæti ekki verið betra. Mér finnst mjög óþægilegt að synda í „Open Water“ kraðaki en þegar ég sá fyrirkomulagið í upphituninni róaðist ég mjög. Þeir voru búnir að setja 3 stiga niður af bryggjunni fyrir fólk þannig að á ca 5sek fresti fóru 3 í einu út í og syntu af stað og svo koll af kolli.
Ég hafði valið mér græna sundhettu, sundtíma upp á einhverjar 35-39 mínútur og kom mér fyrir í þeirri röð. Hitti Guðmund Inga og Edda í startinu og við röltum þarna niður á bryggjuna. Þegar kom að mér að henda mér útí gerði ég nákvæmlega það og synti af stað. Ekkert vesen. Bara synda – hægri, vinstri, anda, hægri, vinstri, anda osfrv. Ekkert flókið. Lenti í smá bringusundsspörkum og rangskreyðum manni sem vissi ekkert hvert hann var að fara en hann komst á leiðarenda eins og ég.
mv1
Synti bara á jöfnum hraða og var ekkert að sperra mig, leið nokkuð vel allan tímann. Hitti nokkrar marglyttur á leiðinni en þær voru svo litlar að það var eiginlega ekki hægt að verða eitthvað skelkaður. Allt í einu var þetta svo bara búið og ég fékk að hlaupa á rauðum dregli alla leið á T1 þar sem hjólaskórnir og hjálmurinn beið í poka.
Hef alltaf verið með kók í T1 ef mér er bumbult eftir sjóinn og fékk mér smá sopa, dansaði af mér blautgallann, þurrkaði mig aðeins, henti svo á mig hjálminum, greip skóna og hljóp af stað að hjólinu. Það var smá spölur þangað og ekki gott að hlaupa á hjólaskóm þannig að ég hljóp á tánum að svæði sem ætlað var til þess að klæða sig í skóna og sá þá að ég var öll í sandi. Ekki gott fyrir mínar tær þegar kemur að hlaupinu en það var seinni tíma vandamál. Fyrst mátti ég hjóla. Ég elska að hjóla, það er eiginlega skemmtilegasta hreyfing sem ég hef stundað. Mér er alveg sama þó það sé vindur, brekkur eða hvaðeina (fer reyndar ekkert voða hratt upp brekkur en ég get farið rosa hratt niður þær). Þarna var ég í essinu mínu. Dreif mig út af skiptisvæðinu og brunaði af stað. Vá hvað þetta var geggjað, frábært malbik, sól í heiði og allt dásamlegt. Ég bara hjólaði og hjólaði og leið svakalega vel allan tímann. Sá Sigurjón í brautinni eftir ca 13km en þá var hann kominn allavega einhverja 30km, Halldór dúndraði svo fram úr mér í 70km. Þegar ég kom í síðustu beygjuna fyrir T2 heyrði ég gargað „áfram Magga“ og vissi bara ekkert hver var að hvetja mig. Mjög skemmtilegt að fá svona hvatningu og komst að því seinna um daginn að það var Kristjana sem hafði hætt keppni í sundinu vegna astma einkenna.
mv2
T2 gekk vel, var búin að hugsa það á hjólinu hvernig ég myndi þurrka af mér tásusandinn og komst að því að það eina sem ég var með voru „armwarmers“ sem ég hafði sett á mig í T1. Það gekk ágætlega að þrífa sandinn og ég fór í sokka, nýju Hoka skóna sem ég hafði keypt á Expoinu 2 dögum áður, setti á mig derhúfu og númerabelti og af stað (veit að maður á aldrei að vera í einhverju nýju í keppni en ég hef átt nokkra Hoka Clifton þannig að ég treysti alveg á Clifton 5. Sé sko ekki eftir því, þeir voru æði).

Fyrsti hringur í hlaupinu var í kringum Kronborgarkastala. Virkilega fallegt umhverfi en það var pínu heitt þarna undir kastalaveggjunum. Ég lét mig samt hafa það og skokkaði áfram mitt hlaupaskokk, fjóra hringi um kastalann og þrjá um miðbæinn. Mjög gott fyrir minn haus að geta talið niður. Nartaði í harðfiskinn sem ég fékk hjá Gutta og það gladdi mig þar sem ég hafði gleymt bitunum heima sem áttu að koma með út. Fékk mér vatn, appelsínubita og smá kóksopa á drykkjarstöðvunum en var annars bara nokkuð góð í orkunni. Hitti Kristjönu nokkrum sinnum í hlaupinu og það er algjörlega frábært að hafa einhvern á hliðarlínunni. Stemningin í bænum var líka mögnuð, fólk úti um allt að hvetja og tónlist á hverju horni. Höskuldur kom aftan að mér þegar ég var á fyrsta hring og hvatti mig áfram, Sigurjón kom stuttu seinna á sínum síðasta hring á svakalegri siglingu (man reyndar ekkert hvorn ég hitti fyrst) og svo hitti ég Gumma og Edda á öðrum hring að mig minnir. Viðurkenni alveg að það var ljúft að fá síðustu teygjuna á úlnliðinn og eiga bara eftir að hringa kastalann einu sinni og mega þá taka vinstri beygju inn rauða dregilinn að marklínunni.

Lokatími 6:19:37
Það eru forréttindi að geta tekið þátt í svona veislu og alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp. Mér leið vel allan tímann, fékk smá blöðrur á litlutærnar (líklega út af sandi) en það truflaði nú ekki mikið. No pain, no gain! segja þeir í útlöndum.
Þríþraut er frábær. Hún heltók mig algjörlega þegar ég byrjaði, þetta er mitt aðal áhugamál fyrir utan fjölskyldu og er búið að vera undanfarin ár. Mér finnst gott og gaman að synda, frábært að hjóla og hef tekið hlaupin bara á mínu dóli. Að fara til útlanda og keppa er að lokum stór gulrót sem gaman er að uppskera 😊

mv3

Hálfmaðurinn í Helsingör

Sigurjón Björnsson segir frá:

Þessi keppni var stóra keppnin á árinu hjá mér og í lok síðasta árs setti ég mér markmið um að ná að fara þetta á undir 5 tímum og 15 mínútum. Til að ná því setti ég mér raunhæf markmið um bætingar í öllum greinunum. Eftir áramót byrjaði ég frekar samviskusamlega að fylgja æfingplani sem þjálfararnir okkar settu á TP og gekk þetta allt mjög vel og án meiðsla.

Ég tók þátt í keppnum sumarsins á Íslandi sem gengu miklu betur en ég hafði reiknað með og sá þá að sennilega væri upphaflega tímamarkmiðið ansi varfærnislegt. Það var því raunhæfur möguleiki að ef aðstæður væru góðar og allt gengi upp hjá mér í keppninni þá ætti ég að geta komist undir 5 tíma.

Veðrið að morgni keppnisdags var frábært, hægur vindur, 16°C og sól. Það stefndi því í fullkomnar aðstæður og ekkert annað í boði en að gefa allt í þetta.

1Sundið 1900m
Ég reiknaði með að synda á 31-32 mínútum, ætlaði ekkert að vera að sprengja mig. Sundið gekk vel en í brautinni eru frekar margar beygjur og þar myndast oft mikið kraðak. Mér leið mjög vel og var ekkert að fylgjast með tímanum. Mér fannst ég vera að synda fram úr frekar mörgum. Ég fann þó reglulega fætur sem ég gat fylgt en þeir týndust venjulega eftir beygjurnar og hófst þá leit að nýjum fótum. Í lok sundsins var ég hífður uppúr vatninu því rampurinn nær nánast ekkert ofan í vatnið. Þegar ég leit á úrið fattaði ég af hverju ég tók fram úr svona mörgum, ég hefði greinilega átt að fara í hraðari hóp.
Sundtími: 30:02

T1
Skiptisvæðið er frekar langt (heildar hlaupavegalengd var næstum 900 metrar). Ég var því búinn að fara úr gallanum niður á mitti og taka af mér gleraugun og sundhettuna þegar ég kom að pokanum mínum. Klára að fara úr gallanum, setti á mig hjálm og sólgleraugu. Tók upp skóna, sokkana og döðlustykkið sem ég ætlaði að borða í byrjuninni á hjólinu (hef áður haft það á hjólinu og í bæði skiptin hefur það tapast áður en ég náði að borða það). Setti sunddótið í pokann og hengdi hann upp. Ég hélt svo á skónum og sokkunum því það var nokkuð langt að hjólarekkunum og þar voru bekkir til að klæða sig í skóna. Á leiðinni byrjaði ég að borða döðlustykkið og var búinn með það þegar ég tók hjólið úr rekkanum.
T1 tími: 6:11

2
90 kílómetrar á hjóli

Hjólabrautin er um litla sveitavegi fyrir utan Helsingör. Allstaðar var malbikið mjög gott en vegirnir oft frekar þröngir. Það eru engar mjög brattar brekkur í brautinni, en svona 2-3 stuttar þar sem maður fer e-ð undir 30 km hraða en taka ekkert of mikið úr lærunum. Planið var að hjóla þetta á nákvæmlega 260 wöttum allan tímann (eftir að Hákon Hrafn fullyrti að ég færi létt með það, mér leist betur á eitthvað minna en treysti þjálfaranum sem auðvitað hafði rétt fyrir sér). Það plan fór eiginlega út um gluggann þegar ég sá hvað það var mikið af hjólurum í brautinni. Flestir gerðu sitt besta í að vera ekki að drafta en það komu samt tveir hópar fram úr mér sem voru ekkert að reyna að fela draftið. Ég reyndi að hjóla á mínum hraða en oft þurfti bæta í til að taka framúr eða slaka á þegar mikil umferð var fyrir framan. Ég var með fjögur gel á hjólinu sem ég borðaði á ca 30 mín fresti. Ég tók banana á fyrstu og þriðju drykkjarstöð og fékk brúsa á annarri. Matarplanið var að borða eins mikið og ég gæti svo ég hefði næga orku á hlaupinu, ég held að það hafi gefist mjög vel.
Hjólatími: 2:23:50

T2
Hjólið var tekið og sett á rekkann fyrir mig svo ég gat hlaupið beint að pokanum mínum. Tók af hjálminn, sólgleraugun voru ekki svo sveitt að ég ákvað að vera með þau áfram þó ég væri með auka í hlaupapokanum. Ég setti á mig derhúfuna, fór svo úr hjólaskónum og í hlaupaskóna. Greip tvö gel og setti í vasann.
T2 tími: 1:52

3
Hálft maraþon í góða veðrinu

Hlaupið er 3,5 hringir í miðbæ Helsingör. Farið er í kringum kastala og svo eru þröngar verslunargötur þræddar framm og til baka. Ég leit á klukkuna þegar ég kom hlaupandi út úr T2 og sá að það voru bara búnir 3 tímar og 2 mínútur. Ég hafði hlaupið mjög létt hálfmaraþon á 1:55:00 tveimur mánuðum áður svo ég sá að 5 tíma markmiðið var ennþá innan seilingar. Ég ákvað að byrja á 5:15 pace og sjá hvort ég gæti gefið í undir lokin. Að halda þessum hraða gekk mjög erfiðlega fyrstu 2-3 kílómetrana og var ég að hlaupa miklu hraðar, ca 4:45 pace. Ég vissi að þessi hraði gengi ekki upp allt hlaupið og náði að hægja mátulega mikið á og byrja að vinna niður þessa 21 kílómetra sem þurfti til að klára. Næringarplanið var ekkert niðurneglt nema að reyna að drekka smá orkudrykk eða kók á flestum drykkjarstöðvum og fá mér svo koffíngelið á síðasta hring. Hitinn var orðinn ansi mikill undir skínandi sólinni þannig að vatnið sem ég greip á drykkjarstöðvunum fór að mestu utaná mig til kælingar. Ég reyndi samt að drekka alltaf smá og svo fékk ég mér einu sinni kex og tvisvar appelsínubáta sem var fínt að narta í á milli drykkjarstöðva. Ég náði að halda góðum hraða fyrstu 2,5 hringina og spjalla aðeins við einn Dana sem sagði mér ævisögu sína (efni í aðra grein), það var fín afþreying. Þegar ca. 5 kílómetrar voru eftir byrjaði að vera erfitt að halda hraða og síðustu þrír km kröfðust mikils viljastyrks. Ég kláraði svo síðasta hringinn í kringum kastalann og hljóp inn rauða dregillinn í alsælu.
Hlaupatími: 1:47:57

4Heildartími: 4:49:51

Ég er alveg í skýjunum með tímann minn sem er framar öllum vonum. EFtir nudd og sturtu var frábært að hitta aðra keppendur úr Breiðablik í mathöllinni og ræða afrek dagsins.

Nú þegar ég náði að fara undir 5 tíma veit ég ekki alveg hvað næsta tímamarkmið verður nema að í næstu keppni verður ofarlega á lista að taka betur eftir ljósmyndurunum svo það náist skárri myndir :). En eitt er víst, ég ætla í aðra keppni.

Ég vil þakka öllum þjálfurum í Breiðablik fyrir að hjálpa mér að ná þessum árangri, öllum æfingafélögunum sem gerðu æfingarnar að hreinni skemmtun, öllum sem komu frá Íslandi að keppa og gerðu bjórinn eftir keppni 10 sinnum betri, Hafþór hlaupaþjálfara fyrir lánið á afturgjörðinni og fjölskyldunni, Aldísi, Eyrúnu og Birni, fyrir að leyfa mér að njóta þeirra forréttinda sem þessi íþrótt er.6