Sigurður Örn segir frá:
- sæti PRO/Overall
Það er ekki oft sem það gerist að keppnir ganga alveg samkvæmt plani frá upphafi til enda og að því sögðu, þá get ég ekki sagt að keppnin hér í Finnlandi hafi farið 100% eftir áætlun. Engu að síður var lokaniðurstaðan gríðarlega góð og geng ég mjög ánægður frá þessari keppni í átt að þeirri næstu í Jönköping eftir 8 daga.
Heldur óhefðbundin tímasetning varð fyrir valinu hvað þessa keppni varðar en startað var klukkan 15:30 að staðartíma sem gerði það að verkum að fólk var að klára allt fram að miðnætti. Það kom þó ekki að sök þar sem afstaða Lahti til sólar er svipuð Reykjavík og því bjart allan sólarhringinn á þessum tíma sumars. Ég er sjálfur svolítill morgunhani svo að þetta var ekki það allra besta fyrir mig svona andlega séð en maður aðlagar sig bara að aðstæðunum hverju sinni. Keppnisdagurinn sjálfur var því tekinn aðeins öðruvísi en venjulega.
Ég vaknaði slakur klukkan 8:00 og fékk mér góðan morgunverð. Fjögur egg, 200ml af kókosmjólk og hafrar soðið saman í potti, um það bil 1100 kaloríur til að starta deginum. Maginn ekki sáttur en mér var slétt. Svo var slakað á fram til klukkan 10, þegar ég kom mér niður að skiptisvæði til að tékka hjólið og pokana inn á svæðið. Ég vildi gera þetta eins snemma og hægt væri til þess að geta komið mér aftur upp í íbúð til að slaka á fyrir keppnina seinni partinn. Mamma og pabbi eru með í för í þessum tveimur keppnum og voru því að einhverju leyti notuð sem burðardýr fyrir poka og dót á leiðinni niður á svæði. Klukkan ellefu vorum við komin aftur upp í íbúð og þá tók við hádegismatur og slökun. Fullur pottur af parboiled hrísgrjónum (hafa 3x minni áhrif á blóðsykur en venjuleg), ristað brauð, steinefnablöndur, vatn og Green and Black‘s súkkulaði urðu fyrir valinu í þetta skiptið og ég var alveg pakkaður 3 tímum fyrir keppni. Fínt, hugsaði ég, og skellti mér í ReBoots recovery buxurnar mínar til að pressa vöðvana aðeins áður en haldið yrði niður á svæði.
Keppnin
Við vorum mætt um klukkustund fyrir start en ég vil alltaf vera tímalega niður á svæði til að gefa mér nægilegt svigrúm fyrir upphitun og til að lágmarka stress. Upphitunin fór fram á aðeins öðrum stað heldur en startið var svo að maður þurfti að labba smá spöl frá upphitunarsvæðinu og í startið. Ég fór því ofan í um fimm mínútum fyrir klukkan þrjú og synti í um korter til að koma blóðinu af stað. Næst var haldið að sundstartinu og beðið eftir ræsingu.
Það er alltaf smá stress þegar beðið er eftir flautunni sem að hleypir öllu af stað. Ég vissi að í dag væru nokkrir góðir sundmenn og hafði það að markmiði að skoða mig aðeins um fyrstu 300-400 metrana og meta svo hvort ég vildi þvinga þetta eitthvað hraðar eða ekki. Þegar sundið byrjaði náði ég ágætis stöðu og var strax kominn á meðal þeirra fjögurra fremstu í hópnum. Við héldum þessu fram að fyrsta snúning en öldugangurinn reyndist snúinn og það var virkilega erfitt að sjá yfir höfuð hvert maður væri að fara. Ég reyndi bara að einbeita mér að loftbólunum frá næsta sundmanni fyrir framan en það var samt ekki hlaupið að því heldur. Ég gleypti um þrisvar sinnum smá vatn og svelgdist á en þegar það gerðist reyndi að slaka á og hægja á öndun, láta mig renna í hverju taki og reyna svo að keyra hraðann upp aftur. Ekki það auðveldasta í heimi þegar að önnur hver alda virtist hafa það að markmiði að keyra mann í kaf. Á snúningnum missti ég aðeins lappirnar á næsta manni sem varð til þess að ég villtist örlítið af leið áður en mér tókst að finna næstu bauju aftur. Tók smá auka krók að því er virtist og þurfti að hafa fyrir því að missa ekki alveg sjónar á þeim þremur sem voru fyrir framan. Ég synti því einn alveg frá snúning og inn í höfn þessa síðustu 1000 metra og kom upp úr um 15-20 sek á eftir fremstu mönnum. Ekki besta sund sem ég hef átt en er samt sáttur með tímann, 23:40 í þessum aðstæðum er ekki neitt til að kvarta yfir!
Skiptingin gekk nokkuð tíðindalaust fyrir sig þangað til komið var að því að henda sér á hjólið. Þá kom smá…skellur. Bókstaflega. Þegar ég henti mér á hjólið með þeirri aðferð sem ég kýs að kalla „The flying mount“ kom í ljós að hnakkurinn var ekki alveg nógu vel hertur og hann datt niður um 1,5 cm eða svo. Nægilega mikið til að skafa smá part úr númerinu sem ég var búinn að koma fyrir og að ég fann fyrir því þegar ég settist á hjólið að staðan var nokkuð hressilega „off“. Á þessum tímapunkti var ég að hugsa hvað væri hægt að gera og komst að þeirri niðurstöðu að bara tvennt væri í stöðunni. Annars vegar gæti ég bara hætt að hugsa um þetta og keyrt hjólið svona út þessa 90 km. Hins vegar væri hægt að stoppa í 18km og fá hjálp hjá viðgerðarfólkinu þar við að hækka hnakkinn aftur upp í sína venjulegu stöðu. Ég valdi að halda áfram keppni og klára bara þessa 90 km með aðeins lægri sætishæð, jafnvel þó það gæti komið eitthvað niður á frammistöðu. Ég myndi allavega ekki tapa 2-3 mínútum í það að stoppa, losa hnakkinn, hækka, herða og fara svo aftur af stað. Hver veit, kannski hefði það verið betri kostur? Allavega of seint að pæla í því núna 😛
Hjólaleggurinn var tiltölulega „sléttur“, svona miðað við Barcelona keppnina en brautin innihélt um 650 hæðarmetra skv. Garmin tölvunni. Töluverður vindur var á leiðinni út að snúning í 45 km og meðalhraðinn aðeins undir 40 km/klst til að byrja með. Ég missti fyrstu menn fram úr mér eftir um 20 km og fljótlega komu þrír í hóp fram úr sem að voru nánast ofan í hvor öðrum. Ótrúlegt að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd á þetta en þeir voru augljóslega að græða á því að hjóla í hóp og höfðu minna fyrir þessu fyrir vikið. Ég reyndi að hanga í þeim í 15 km og var ennþá með þá í augsýn þegar við snerum eftir 45 km leið en þá tók við mjög hraður kafli með talsverðum meðvindi. Ég lét þá bara fara á þessum tímapunkti og reyndi að einbeita mér að því að halda aflinu góðu. Ég fann fljótlega að það var töluverð þreyta farin að safnast fyrir í vöðvunum, líklega vegna lélegrar stöðu á sætinu en svona mikil breyting á sætisstöðu getur haft talsverð áhrif á það hvernig maður nær að skila aflinu niður í pedala. Restin var mjög viðburðalítil, ég drakk og kláraði báðar drykkjarflöskurnar mínar á leiðinni til baka en næringin samanstóð eingöngu af níu GU gelum og vatni. Um 900 kcal í heildina. Síðasti dropinn af vatni var kláraður á leiðinni inn í T2 og ég var nokkuð feginn þegar hjólið var klárað. Rassvöðvarnir orðnir vel súrir og fínt að fá annað álag á lappirnar. Meðalaflið skv. Stages mælinum hjá mér var um 312W normalized og tíminn 2:14:55 sem skilaði rétt rúmlega 40 km/klst meðalhraða yfir þessa 90 km. Mjög sáttur með hjólið almennt, sérstaklega í ljósi þess að staðan var algerlega út úr kú en ég bjóst engu að síður við ögn hraðari hjólatíma. Jæja, alltaf rúm fyrir bætingar!
T2 gekk vel og ég var fljótlega kominn út í hlaupið, í 7. sæti á þessum tímapunkti. Ég reyndi að fara nokkuð hressilega af stað og hægja svo á mér eftir um 1-2 km og ná mér í réttan takt. Mér finnst alltaf betra að byrja aðeins hraðar og hægja svo á mér niður í „target pace“ frekar en hitt svo það var það sem ég gerði. Fyrstu 2 km voru nokkuð niður í móti þar að auki svo meðalpace var um 3:30 á þeim tímapunkti. Ég hægði á mér eftir þetta og reyndi að halda þessu gullna 3:49/km pace sem er eiginlega það hraðasta sem ég get gert á þessum tímapunkti eftir hjólið. Mjög skrýtið að lýsa því en mér finnst eins og hjarta- og öndunarkerfið ráði við hraðara pace en einhvern veginn vilja lappirnar ekki leyfa mér að fara hraðar. Þarf að vinna í að ná hámarkshraðanum upp fyrir næsta vetur og þá ætti þetta að verða nokkuð gott.
Drykkjarstöðvarnar voru allar notaðar vel og ég var búnn að skipuleggja hvernig ég myndi tækla þær. Röðin á hverri stöð var eftirfarandi: Vatn – Kók – Gel – Bananar/föst fæða – Orkudrykkur – Vatn. Ég hljóp í gegnum allar stöðvarnar ólíkt því sem ég gerði í Barcelona en ég vildi reyna að halda í 7. sætið eins lengi og hægt væri þar sem að strákarnir í sætum 8.-10. voru ekki langt fyrir aftan. Ég byrjaði alltaf á því að taka vatn og drekka ásamt því að ná strax í annað glas og hella yfir mig og kæla kerfið. Tók því næst kókglas, drakk smá, náði strax í gel, reif það og þrykkti því í mig, aftur smá kók, og að lokum vatn yfir líkama og restin upp í mig til að skola munninn. Þannig var þetta á hverri drykkjarstöð og gekk þetta nokkuð smurt fyrir sig. Það er smá æfing að ná að gera þetta allt á um 10 sekúndum en þetta er farið að ganga nokkuð vel fyrir sig núna og sparar heilmikinn tíma. Eftir um 15-16 km kom 8. sætið fram úr mér og ég því dottinn niður um eitt sæti. Allt í góðu, hugsaði ég, mig grunaði hvort sem er að þetta væri að fara að gerast. Sá sem kom fram úr er strákur sem ég þekki vel frá Noregi og er hörku hlaupari. Ég ákvað samt að reyna að halda honum í augsýn og það var smá gulrót sem virkaði vel til þess að rífa hraðann aðeins upp þessa síðustu kílómetra hlaupsins. Kálfarnir voru líka farnir að losna aðeins upp núna og því gat ég aðeins gefið í og verið slakari í hverju skrefi. Ég hugsaði nær eingöngu um tækni síðustu 5 kílómetrana og skilaði það sér í góðum takti og átti að mínu mati þátt í því að ég hélt 9. sætinu fyrir aftan mig alla leiðina í markið.
Að sjá 21 km skiltið og taka hægri beygjuna út úr hlaupabrautinni og inn á rauða dregilinn er ólýsanleg tilfinning. 4:03 á klukkunni og því minn hraðasti tími hingað til í 70.3 og jafnframt 8. sæti tryggt. Ég fagnaði nánast eins og ég hefði unnið keppnina þegar ég fór yfir línuna enda ekki neitt til þess að vera óánægður yfir, fyrsta Top-10 keppnin mín í PRO flokki raunin. Hlaupatíminn var svosum ekki upp á marga fiska út frá mínu sjónarhorni, um 1:20, en samt nokkuð gott þar sem það var talsvert hvasst í dag og hafði það áhrif á meðalhraðann á stórum hluta hlaupaleiðarinnar. Ég geng því ánægður frá þessari keppni hér í Finnlandi og er kominn með augun á næstu áskorun.
Eftir aðeins 7 daga fer ég af stað aftur í Jönköping 70.3 ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi og verður áhugavert að sjá hvernig lappirnar eru eftir svona stutta hvíld á milli. Mér líður ágætlega þegar ég skrifa þetta núna á sunnudeginum en ég veit að þreytan kemur ekki fyrr en á morgun og á þriðjudaginn. Það verður því mikilvægt að taka því rólega næstu daga og byrja svo mjög létt á þriðjudag/miðvikudag. Vonandi slæ ég hnakkinn ekki niður í Svíþjóð eins og ég gerði hér og þá mögulega get ég gert eitthvað af viti á hjólinu – við sjáum til! Ég læt að lokum fylgja með mynd sem tekin var af mér og Kristian frá Noregi sem að kláraði í 7. sætinu á undan mér, eftir að hann tók fram úr mér eftir um 15 km í hlaupinu.
Þangað til næst!