Járnið hamrað í Jönköbing

Þórunn Margrét Gunnarsdóttir segir frá:

Það tók sig upp svakaleg stemning í æfingahópi Ægir3 í september í fyrra og við æstum hvort annað upp í að skrá okkur saman í Ironman 70.3 í Jönköpin 7. júlí 2019.  Besta var að mér tókst að fá manninn minn til að koma með okkur í þetta og hann skráði sig meira að segja á undan mér.  (Nokkurra ára aðgerðaráætlun að skila sér hahaha)

Ástæðan fyrir því að þessi keppni varð fyrir valinu var sú að þetta er einnig Evrópumeistaramót þríþrautarfélaga í Ironman 70.3 og það fannst okkur spennandi.  20 félagar skráðir í upphafi en nokkrir duttu úr skaftinu af ýmsum ástæðum en 14 mættu á keppnisstað og 14 luku keppni.

ÞG2

Þetta var sannkölluð uppskeruhelgi æfingahópsins, 5 í IM Austurríki og 14 í IM 70.3 í Jönköping, þvílíkur hópur, elska þetta fólk!

Mætt á svæðið á fimmtudagskvöld, ferðin gekk vel fyrir utan það að ég gleymdi bakpokanum mínum með hjálminum, keppnisgallanum ofl. í strætó á leiðinni frá flugvellinum að bílaleigunni, smá keppnisþoka að gera vart við sig.

Föstudagurinn var mjög annasamur eiginlega aðeins of…..úps ekki segja Geir þjálfara! Morgunmatur, Expó, hádegismatur, æfingasund, skrúðganga þríþrautarfélaga kl.15, testa hjólið, keppnisfundur kl.18, kvöldmatur.  Hafði smá áhyggjur af því hvað ég var gjörsamlega dauð á föstudagskvöldið eftir daginn. En við fengum skýr skilaboð frá Geir um það að það væri stranglega bannað að fara á Expóið á laugardeginum svo laugardagurinn fór í rólegheit, mjög léttar æfingar og koma öllu fyrir í T1 og T2 fyrir keppnisdag.

Keppnisdagurinn byrjaði ágætlega en hafði reyndar ekki sofið mjög mikið nóttina en það hefur alveg komið fyrir áður og ekkert til að stressa sig yfir.  Komin í mat 06:00 þrír tímar í keppni.  Tróð í mig heilli skál af hafragraut og einum banana en mér gengur nú ekki alltof vel að borða svona rétt fyrir keppni.  Þar sem ég sit og er að taka næst seinasta bitann af banananum kemur einn liðsfélagi minn og sest við hliðina á mér með stóran skammt af eggjahræru og síld í gulbrúnni slepjulegri sósu…….SOS rétt náði inn á klósett og ældi öllum morgunmatnum.  SKELLUR! Fór upp á herbergi og lagðist á rúmið með kuldahroll og viss um að ég væri að fá hita, ætli það sé gúllpsopinn sem ég tók í æfingasundinum í hinu mjög svo grugguga og eiginleg ógeðslega Munksjön eða kranavatnið sem ég er búin að vera að þamba síðustu daga.  Tók svo smá U beygju í huganum og hugsaði NEI, ég er búin að vera dugleg að æfa og er komin alla þessa leið…. ég ætla að fara þarna út og gera mitt besta, klæddi mig í blautbúninginn til hálfs og hélt út og bar höfðuðið hátt. 

Mikið var nú samt gott að hafa eina af sínum bestu vinkonum sér við hlið hana Lóu mína í startinu. Staðsettum okkur við tímamörkin 28-30 mínútur og reyndum svo að dilla okkur við tónlistina og peppa hvor aðra upp og ná í okkur hita í rigningunni.  Áttum að fá að taka upphitun í litlum skurði en það var afturkallað á keppnisfundinum þar sem það væri hætta á ofkælingu hjá keppendum meðan þeir biðu blautir eftir startinu í rigningunni, en eftir að hafa horft ofan í skurðinn þá vorum við viss um að það væri útaf félaga E.coli sem ekki mætti synda í þessum drullupolli.

Sundið:

Tróð í mig 1 geli rétt fyrir start með von um að ég mundi halda því niðri.  4 út í einu, Lóa ræst fyrir framan mig og sá hana ekki meira fyrir utan eitt skipti á leiðinni þegar við vorum allt í einu að þvælast fyrir hvor annarri. Sundið er mín sterka hlið en náði mér einhvern veginn ekki almennilega á strik, fékk lítið sem ekkert kjölsog og var aðallega að taka fram úr eða algjörleg ein að synda, erfitt að sjá á milli bauja og tók tvisvar kolranga stefnu. Leit á úrið þegar ég kom upp úr 32mín Ahhhh hélt ég ætti að geta verið undir 30 en sá svo að úrið sýndi 2020m, en það er nóg eftir af keppninni svo ákvað að vera ekkert að svekkja mig á sundinu.

Sundtími: 32:03

T1: 600m hlaup eftir rauðum dregli á hellusteinum, ekki svo slæmt þrátt fyrir misfellur og var bara nokkuð spræk eftir sundið og tók fram út nokkrum á dreglinum. Gékk vel að finna dótið mitt og náði að gera þetta allt í réttri röð, keppnisþokan ekkert að stríða mér.                                                                       

Tími: 05:56

Hjólið:

Mín veikasta hlið en er búin að vera að bæta mig að undanförnu svo ég hlakkaði bara til að takast á við það.  Var búin að stilla mig inn á að halda ákveðnum meðal wöttum samkvæmt aflprófi sem ég hafði tekið nokkrum vikum fyrir keppni og hélt mig algjörlega við það. Eftir á að hyggja þá hefði ég kannski mátt negla hjólið aðeins meira en fyrir vikið nóg eftir fyrir hlaupið.  Göturnar voru rennandi blautar eftir rigningu morgunsins svo varð aðeins óörugg í fyrstu sérstaklega eftir að gæinn fyrir framan mig skransaði til og frá í enni beygjunni. Svolítil hækkun í byrjun en ekkert mál þar er ég á heimavelli og fékk fáa fram úr mér og tók meira að segja fram úr slatta af liði. Þegar við tóku rúllandi brekkur upp og niður og 180° beygjur þá fóru bunkarnir að fara fram úr mér. Niður brekkur og beygjur þar kemur sér illa að vera ekki með betri hjólatækni en hey þar á ég líka fullt inni, elska þetta sport alltaf hægt að bæta sig!

Reyndi að fylgjast með hvort konurnar sem færu fram úr mér væri ekki örugglega miklu yngri en eiginlega alveg ómögulegt að sjá það.

4 gel, tveir 750ml brúsar af ISO vökva og nokkrir bita af SIS energy bar til að verða ekki tóm í maganum.

Hjólatími: 02:46:52

T2: Gekk vel að ganga frá hjólinu og ná í dótið fyrir hlaupið.

Tími 02:05mín

Hlaupið:

Þegar upp er staðið þá veltur þetta alltaf svolítið á hlaupinu og ná að klára á góðu hlaupi.  Sama hvernig líðanin er á hjólinu þá veit maður samt aldrei hvernig hlaupið verður fyrr en lagt er af stað í það. Fann fljótt eftir að ég byrjaði að hlaupa að ég kom bara nokkuð góð undan hjólinu, passaði mig að verða ekki of gráðug í hraðann og setti krúsið á 4:45 pace og náði að rúlla mestan hluta fyrsta hring af þremur á því. Í lok hringsins var mikið af stefnubreytingum og fram og til baka zikk zakk og hlaupið á steinhellum með miklu bili á milli og það er sko alls ekki það besta fyrir miðaldra konur með líkþorn, sigg og útvaxin bein. Varð alveg hræðilega sárfætt og seinustu tvo hringina rokkaði hraðinn meira upp og niður eftir undirlaginu, en að öðru leyti ágætis tilfinning.  Fékk mér tvo sopa af vatni eða orkudrykk á hverri drykkjarstöð en reyndi að stoppa nánast ekki neitt.  Allir að tala um að það sé svo geðveikt að fá sér kók undir lok hlaups og ætlaði að gera það á seinustu tveimur drykkjarstöðvunum en var mjög vonsvikin þegar það reyndist vatn í glasinu í bæði skiptin en það kom svo sem ekki að sök.  Tvö gel í hlaupinu og tveir sopar af vökva á hverri drykkjarstöð.  Skemmti mér við það á leiðinni að spá í hvað konurnar væru gamlar sem ég tók fram úr. Sannfærði mig um það að þær konur sem hefðu tekið fram úr mér væru pottþétt yngri og ég ánægð að halda mínu sæti og vonandi vinna mig eitthvað upp.

Hlaupatími: 01:43:58

Frábært að fá hvatningu í brautinni og naut góðs af því að sumir félagar mínir í Ægir3 voru með fjölskyldu og vini á hlíðarlínunni. TAKK fyrir hvatninguna!

Lokatími: 05:10:54 og 1. sæti í aldursflokki 45-49 ára.

Kom í mark í sæluvímu en við hrúguðumst svo mörg í einu í mark að ég sá ekki tímann minn birtast og þar sem ég hafði sett úrið mitt af stað aðeins á undan ræsingunni þá var ég alls ekki viss hver lokatíminn væri.  Fór því fljótlega og náði í símann í „Finisher“ pokann svo ég gæti athugað það. Lokatími 5:10:54 já ég var bara mjög sátt við það og 11. sæti í mínum aldursflokki 45-49 ára, ohh var nú að vona að komast alla vega í topp 10….en bíddu var þetta kannski 1?  Þar sem ég var ekki með lonníetturnar með mér í pokanum þá tók mig örugglega 5 mínútur að sannfæri sjálfan mig um að þetta væri í alvörunni 1 ekki 11. Skoðaði úrslitin svo örugglega 20 sinnum næsta klukkutímann til að vera viss um að það stæði ennþá 1st Place.

Hélt til fyrir aftan marklínuna og sá félaga mína í Ægir3 koma í mark og líka alla hina, þvílík gleði og andleg vellíðan sem sveif þar yfir, næring fyrir líkama og sál, minn nýi Hamingjustaður!

Vissi að þessi keppni veitti þátttökurétt á Ironman 70.3 World Championship á Nýja Sjálandi í nóvember 2020 en taldi mig ekki eiga mikinn séns í það. Svo segir Óli maðurinn minn við mig daginn fyrir keppni: „Þú verður að undirbúa þig undir að þurfa kannski að taka ákvörðun um að þiggja sæti á Nýja Sjálandi“.  Mér fannst það mjög langsótt því þó ég væri stundum á palli heima þá væru líkur mínar hér mjög litlar. „…ég mundi alla vega taka með mér passann og visakortið á verðlaunaafhendinguna…“ segir Óli. „Allt í lagi en með einu skilyrði, þú kemur með ef svo ólíklega vill til að enginn vill fara til Nýja Sjálands, OK slegið.“ Svo var það ekki rætt meira.

ÞG5

Hópurinn fór saman á verðlaunaafhendinguna fullviss um að við værum að vinna keppnina besta þríþrautarfélag Evrópu, við vorum alla vega skemmtilegasta félagið, þvílík stemning í hópnum.

Þegar ég var kölluð upp á sviðið og gekk að verðlaunapallinum sem á stóð IRONMAN og mínir frábæru æfingafélagar klöppuðu og hrópuðu, spratt gæsahúðin fram um allan líkamann, ógleymanleg stund.

ÞG6

Hrópaði svo hátt og skýrt YESSS þegar mér var boðið sætið á Nýja Sjálandi. Gaman að keppnin skuli vera á Nýja Sjálandi því það var einmitt vinkona mín hún Sarah Cushing sem kveikti áhuga minn á þríþraut. Takk Sarah!

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa góða heilsu og geta stundað mitt áhugamál af kappi í góðra vina hópi og fá stuðning til þess frá minni fjölskyldu og vinum. Strákarnir mínir þrír fá ekki kvöldmatinn alltaf á „réttum“ tíma en það er vonandi fínt veganesti fyrir þá að þurfa stundum að sýna sveigjanleika þannig að allir fái sitt svigrúm til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt.

ÞG1

Keppnin í Jönköping var með mesta fjölda kvenkyns keppenda frá upphafi IRONMAN 70.3 – ÁFRAM STELPUR!

 

Skýfall í Austuríki

Einar Sigurjónsson lætur allt vaða:

Eftir Ironman í Kaupmannahöfn í fyrra þá ákvað ég strax að ég skildi fara aftur. En var óviss hvert. Fyrst skráði ég mig í hálfan Ironman í Jönköping Svíþjóð sem 14 Íslendingar kláruðu núna á sunnudaginn. Þá sagði pabbi við mig hví ég ætlaði í kúbein? Ég skil núna hvaðan minn húmor kemur en eftir að Ólafur Gunnarsson sagði mér að hann væri að fara til Austuríkisí heilan Ironman hætti ég við kúbeinið og skráði mig í Austuríki. Æfingar byrjuðu í september hjá Þríþrautarfélaginu Ægir3 og það gekk vel. Aldrei hef ég skilað jafn mikið af æfingum, aldrei verið eins skemmtilegt, aldrei hef ég verið í jafn góðu formi á ævinni. Hvort sem það var í watta testum á hjólinu eða hlaupa hraða á lágum púls eða synt eins og hafmeyja. Þetta var skothelt. Markmiðið var að fara undir 10 klst í Austuríki. Búmm. Auðvitað hugsaði ég að þetta myndi vera erfitt. Hjólaleggurinn í Austuríki er erfiður. Hækkun uppá tæpa 1600m sem er t.d helmingi meira en þegar fór í IM Barcelona. En sundið og hlaupið gott.
Vorið og sumarið fór vel af stað. Hvalfjörðurinn var hjólaður mörgum sinnum fram og aftur. Ég keppti í styttri vegalengdum við aðra þríþrautakappa. Þar var Gutti, Guðjón Karl Traustason fremstur meðal jafningja. Hann heldur manni alltaf við efnið. Þakka honum fyrir það. Best gekk mér í Ólympískri þríþraut á Laugarvatni þar sem ég endaði í 4.sæti í heildarkeppninni en 2.sæti í 24-39 ára aldursflokki. Þetta lofaði góðu.
Þessi lífstíll er yndislegur og mín lífsfylling í amstri hins venjulega lífs. Að setja sér háleit markmið gefur miðaldra forréttinda karli gleði, tilgang, ego og það sem skiptir mestu máli, betri manneskju. Oft fæ ég spurningu og fullyrðingar hvort ég sé ekki að skemma eitthvað í líkamanum. Ég er farinn að svara þessu. Það er málsháttur sem hangir uppi í World Class um jólin. Hann hljóðar svo: Það skiptir ekki máli hvað þú borðar milli jóla og nýárs heldur nýárs og jóla. Þessir 358 dagar skipta meira máli. Það er dálítið það sama og í æfingum fyrir Ironman. Keppnin var 7.júli. Þann dag var álagið mikið. Hina 364 dagana var þetta innan skynsemis marka. Og andlega hef ég aldrei verið betri.

einar2
Jæja, þá skulum við vinda okkur til Austuríkis. Ég fór með eðal fólki, Óla þjálfara, Ari Hermann Oddsson formanni órólegu deildarinnar hjá Þríþrautafélagi Kiwanis klúbbs Mosfellsbæjar. Svo voru Brynhildur Georgsdottir og Maggi hennar maður mætt líka. Ég mætti á fimmtudegi þann 4.júlí eftir stífa keyrslu um 400km leið frá Munchen til Klagenfurt í Austuríki. Sund- og hjólaæfing var tekin á föstudegi og 15 mín í hverri grein á laugardegi. Svo var farið á keppnisfund. Svaka stemmning og gleði. Mótshaldari tilkynnti að þetta væri ein fjölmennasta ef ekki sú stærsta Ironman keppni sem haldin hefur verið. 4000 þátttakendur… held það hafi verið nær 3500. Allavega. Þá kom fyrsta sjokkið. Vatnið var komið í 26° en þurfti að vera undir 24,5°… daginn áður hafði það mælst 24,8°. Niðurstaðan: engir blautbúningar leyfðir í sundinu. Ég viðurkenni að ég fékk sting í magan. Það bættust 100 fiðrildi við. Þetta þýddi 7-10% hægari sundtími hugsaði ég með mér. Og það myndi kosta meiri orku að synda þetta. Ekki gott. Gat svo sem getið mér til um þetta miðað við hitann sem hafði verið þarna dagana og vikurnar á undan.

einAR1
Daginn fyrir keppni var farið yfir planið með næringu. Salttöflur áttu að hjálpa við krampa sem glími ávallt við. Ari formaður lagði til að taka imodium sem eru töflur við niðurgang. Það hafði hugsanlega hjálpað Lúlla félaga okkar í Swissman fyrir 2-3 vikum, sem var reyndar mættur þarna galvaskur í stuðningsliðinu. Reyndar voru hægðir orðnar frekar mjúkar og ekki vill maður fá þetta niður í miðri keppni, svo þetta hljómaði bara nokkuð ágætlega. Ari tók hinsvegar skýrt fram að inntakan yrði að vera í gegnum endaþarm, til að minnka álagið á nýrun. Já krakkar mínir, það er ástæða fyrir því að hann er formaður órólegu deildarinnar. Þvílíkur gæðingur. Taflan var tekin klukkutíma fyrir keppni. Ekki í gegnum endaþarm.

Sundið.
Það var gríðarleg stemmning á keppnismorgni og frábært verður. Ég stillti mér í sundhólf með Óla, Ara og Binnu í hraðahólfi 1:00-1:10klst þó að ég væri ekki í galla. Bjartsýnn á gott draft og hörku sund. Það var rúllandi start sem þýðir að 4 hlaupa út í vatnið á 5 sek fresti. Mér leið vel í sundinu og náði að vera í drafti örugglega meira en helmingin af leiðinni. Við enduðum síðustu 1000m í 7-10m breiðum kanal þar sem er mikill hraði. En þegar það voru um 100m í mark byrjaði þetta þvílíka kaos. Þú ert í engum galla og færð því ekki flotið þitt. Ég hef aldrei lent í svona miklum slagsmálum í sundi áður. Drakk vatn og fékk mikið af höggum. Ég átti mjög erfitt með að komast uppúr og margir starfsmenn voru komnir út í vatnið að hjálpa fólki uppúr. Það tókst. En fyrsta áfallið kom þegar leit á klukkuna. 1:18 klst. Strax orðinn 10mín á eftir áætlun. Þetta var dýrt spaug. Þetta þurfti að leiðrétta.

T1
Hljóp einhverja 700 m frá canalinum og í gegnum skiptisvæði. Hafði talsverðan tíma til að hugsa mitt ráð. Niðurstaðan var að hamra hjólið. Þvílíka djöfulsins vitleysan, eftirá að hugsa.

Hjólið.
Ég fór vel af stað og hélt góðum hraða. Margar rúllandi brekkur og sumar frekar brattar. Ég braut allar mínar prinsipp reglur um hvaða Wöttum ég skyldi hjóla á. Fór oft yfir 300W+ í of langan tíma. Svo lét maður sig renna niður oft því það voru margir í brautinni og hlykkjóttir vegir. Of oft þurfti maður að bremsa á leið niður. Það er ekki góð leið til að halda háum meðalhraða. Eftir fyrri 90km hafði ég haldið 210 Np wöttum. Ég er 66kg sem þýðir að þetta voru næstum 3,2 meðalwött per kg. Það er alltof mikið fyrir mig. En ég var ánægður með 35km meðalhraða. Kannski kemst ég upp með þetta? Nú var hitinn farinn að vaxa enn meira í sólinni og þreytan var byrjuð að skila sér grimmt. Þegar klifrin byrjuðu aftur í kringum 110km leið mér eins og í bakarofni. Lærin vorum orðinn well done. Var í léttasta gír að reyna stíga pedalana upp erfið klifur. FOKK. Þetta var farið að bíta vel. Ég drakk og drakk.. en aldrei þufti ég að pissa. Fær enginn golden shower? Skildi það nú ekki. En auðvitað svitnaði ég þessu jafnóðum eða ég drakk bara ekki nóg. Gat það verið? Allavega, umhverfið var stórkostlegt. 100 filar lögðu af stað í leiðangur. Jákvæðar hugsanir er það sem þú getur stjórnað. Ský voru farinn að þéttast. Jess! Hitinn fer lækkandi. Ég bruna niður síðustu brekkuna og er kominn á beina kaflann í átt að skiptisvæðinu fyrir hlaupið. Vissi að ég gæti treyst á þessa blessuðu veðurfræðinga. Þeir lofuðu rigningu eftir hádegi og hún virtist vera að koma. En fyrst kom smá vindur. Hann varð svo aðeins meiri og á engri stundu var kominn stormur að mér fannst. Vegirnir voru þakktir greinum, könglum, laufblöðum og allskyns gróðri. Hvað var í gangi? Skv. Veðurstofu Austuríkis fór vindur upp í 18-19 m/s. En sem betur fer var lítið eftir af hjólaleggnum. Þegar hjólið kláraðist hafði ég haldið um 180 meðalvöttum á seinni 90km sem skilaði sér í 192 meðalwöttum á 180km eða 2.9 wött per kg skv. Trainingpeaks. Það er minna en í fyrra. Vonbrigði.

T2
Skiptisvæðið var eins og á hamfarasvæði. Grindur og hjól lágu útum allt og sjálfboðaliðar að reyna hreinsa þetta til. Ég þurfti að bera hjólið á bakinu meðan ég klofaði yfir milljón krónu hjól sem lágu útum allt. Stökk á klósettið, náði að tæma blöðruna vel. Hugsaði þá hvort þetta væri eitthvað grín eða falin myndavél. Var virkilega stormur að ganga þarna yfir? Hugsaði einnig um þá sem áttu mun meira eftir af hjólaleggnum. Þeir lentu víst nokkrir í miklum vandræðum og einhverjir stoppuðu. Stökk svo í hlaupaskóna og af stað.

Hlaupið
Þá byrjaði að rigna. Þá meina ég riiiigggna. Það var skýfall. Kann ekki tölulegar upplýsingar um millimetra af rigningu á klst en ég held að þetta hafi verið talið í metrum á sekúndu! Var þetta nokkuð haglél hugsaði ég, það var sárt að fá dropana á sig. Hlaupabrautin varð að stórfljóti á köflum. Fólk hljóp víða utanbrautar þar sem Þjórsá var ekki. Geri mér ekki alveg grein fyrir hvað þetta stóð lengi. Langar að giska á 30-40 mín. Ég hélt samt hraða það þurfti að bæta upp fyrir svo hægt hjól. Mætti Óla og svo Binnu í brautinni, smellti einni fimmu á þau. Bíddu, eru þau á undan mér, fór ég að hugsa. Er ég ekki að hlaupa út í enda á brautinni? Getur verið að ég sé ekki búinn að snúa við? Þarna var ég orðinn svo ruglaður að ég gleymdi að ég hafði tekið 180° beygju.
Hlaupið gekk vel fram að 22km. Ég hugsaði þá afhverju ég væri ekki í kúbeininu. Helmingurinn eftir og gamlir draugar farnir að mæta. Ég var enn og aftur farinn að fá krampa í framan og aftanverð læri. Hugsaði hvort Ari hefði haft rétt fyrir sér. Djöfulinn, imodium hefði átt að fara inn um endaþarm. Stóð þarna og reyndi að teygja á hægri hamstring en þá öskraði hægri quadriceps. Gömul austuríks kona kemur hlaupandi til mín. Og talar um vatn á þýsku. Ég sagði no, no og fer í vasan á númerabeltinu og segi: „I want pills“. Hugsaði með mér hvað eru salttöflur á ensku? Gamla segir við mig hvössum augum:“ No drugs!!“ Díses. „This is salttöflur.“ Alveg steiktur. Tek vatnið hjá henni og tvær rótsterkar vefaukandi töflur (salttölfur) og af stað. Pace-ið droppar úr 4:55 pace í 6:00 pace. Ef reyndi að auka hraðan fór vöðvinn að skjálfa. Alveg magnað hreint. Var samt alveg sama því ég vissi að markmiðin voru fokinn út í veður og vind -bókstaflega. En mesti sigurinn var að halda haus. Aðra eins vöðva verki og þreytu hef ég ekki upplifað svona grimmt. Líkaminn sagði „stopp“, hausinn sagði „gleymdu því.“ Þarna fóru jákvæðu hugsanirnar í gang. Vissi að Kolbeinn Guðmundsson félagi minn hefði verið á djammi í gær. Honum líður örugglega mun verr en mér. Hann er þunnur. Ekki ég. Hugsaði þegar Kristrún Sigurjónsdóttir systir hljóp á eftir mér þegar ég var 11 ára með skiptilykil og barði honum í herbergishurðina svo það kom gat. Þá þurfti ég að hlaupa hratt. Kannski gæti ég það núna líka. Þetta er hlutinn við þessa íþrótt sem ég elska: Nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna. Um fjölskyldu og vini. Þetta líður allt saman. Verkur er tilfinning. Reyndu að stýra því sjálfur. Þetta mun klárast. Allt í einu er komið skilti. Það stendur 40 km. Vá! Þetta er að klárast. Maður flýgur áfram, öll líkamleg vanlíðan hverfur eins og dögg fyrr sólu. Allt erfiði undanfarna mánuði er að skila sér. Ástæðan fyrir þessu öllu saman. Stórkostleg vellíðan að standast erfiða þrekþraun. Þú ert búinn að vera að í 10 klst og 45 mín betur á miklu álagi og á einu augnabliki ertu þinn eigin sigurvegari. Mér líður betur en þegar Lionel Messi tekur á móti meistaradeildartitli. Þannig er það bara. Þetta er ástæðan að ég mun fara aftur. Þriðja Ironman keppnin á tveimur árum . Er það ekki fyrirsögn!
Handan marklínu: 
Ég fæ mér að borða og fer í sturtu. Bíð eftir Binnu og Óla. Heyri í Ara formanni órólegu deildarinnar. Hann þurfti að hætti keppni vegna meiðsla – því miður. Lúlli tekur epískt viðtal við hann haltrandi. Lúllí: „Hvað gerðist Ari?“ A: „Ég fékk krampa undir ilina í sundinu og þurfti að stoppa tvisvar á fyrri 90km á hjólinu og sá fram á að þetta mundi ekki ganga.“ Lúlli: „Hvar er verkurinn?“ Ari: „Undir hælnum.“ Lúlli: „Það er ekki hægt að HÆLA þér fyrir þetta!“ – BÚMM! Ari: gefur Lúlla fingurinn. Einmitt það sem þú vildir heyra rétt eftir að þú þurftir að hætta keppni. Magnaðir gæjar! Eftir mat í tjaldinu og tvo Big Mac fór ég upp í íbúð. Kláraði að pakka hjólinu og taka allt til. Þurfti að keyra af stað til Munchen 6:00 morguninn eftir. Klukkan var að detta í miðnætti og ég settist á klósettið. Helvítis, það kemur ekki neitt… Helvítis imodium. Ætla þá að standa upp en krampa þá framan í læri. Veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta. Kalla á hjálp en ég veit að enginn er að fara hjálpa mér. Gamla konan hinum meginn á ganginum heyrði illa þegar heilsaði henni daginn áður. Hvað átti hún svo sem að gera? Ég var farinn að hugsa samtalið. Þetta var orðið of skrítið. Tosaði í sturtu hengið og komst á fætur. Hugarástandið var orðið mjög súrt en gleðilegt. Einn í Austuríki fastur á klósettinu og þykist vera Ironman. Hvaða rugl er þetta?

Niðurlag
Vonbrigðin voru á ákveðnum tímapunktum í keppninni. Það leið yfir. Vaknaði kl 6:30 í morgun og byrjaði að glamra þetta. Ég er stolltur og ánægður. Tíma markmiðin náðust ekki. En ég ferðalagið var gott, félagsskapurinn góður og fullt af frábærum æfingafélögum. Binna var fjórða í sínum aldurslokki í IM Austuríki og svo bárust fréttir af því að Tóta Þórunn Margrét Gunnarsdóttirvann sinn aldursflokk í hálfum Ironman í Jönköping á 5:10klst. Það er geggjað skal ég segja ykkur.

Yndisleg fjölskylda sem ég á og því get ég staðið í þessu. Venjuleg æfingavika á veturnar er 8-10 klst á viku. Og síðustu vikur fyrir keppni fóru 20 klst á viku í æfingar. Allt á góðu jöfnu álagi þar sem passað var uppá líkamann. Auk þessar voru 20 mínútur alla virka daga í styrktaræfingar fyrir mjaðmir, hné og ökkla. Þannig helst maður meiðslalaus… 7,9,13. Fyrir ykkur sem nenntuð að lesa þessa dramtísku langloku, þakka ég fyrir. Þakka einnig fyrir allar kveðjur og skilaboð sem hef fengið. Það skiptir máli. Hreyfið ykkur. Það mun gleðja ykkar líf. Þarf ekki svona vitleysu. Undir 10 klst Ironman markmið mun halda áfram. Þessi keppni fer í reynslubankan. Æfingar fyrir áhugasama byrja hjá Ægir3 í september. Munið að skrá ykkur.

Stutta útgáfan:

 Ironman Austria 2019
3.8 km sund – 1 klst 18 min
180 km hjól – 5 klst 31 min – 32,5 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 46 min – 5.23 min/km
Heildartími með skiptisvæði : 10 klst 45 min
97 sæti af 333 í aldursflokki af þeim sem kláruðu
484 sæti af uþb 3500+ skráðum
Þriðji heili Ironman.

Í óveðri í Austurríki

Ólafur Gunnarsson skrifar:
Ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota yfir aðstæður í þessari keppni en lýsingar sem ég heyrði frá öðrum keppendum voru td. “skelfilegt”, “bakaraofn”, “árás af himnum” og heimamenn tala um erfiðustu keppni í sögu Ironman í Austurríki… jú, þetta rímar vel við mína upplifun.

Þegar ég kom til Klagenfurt viku fyrir keppni hafði verið hitabylgja sem ekki sá fyrir endann á. Hitinn var 39 gráður og þetta var eins og að koma inn í draugabæ, ekki sála á ferli. Hitinn lækkaði þó örlítið í vikunni og var um 33 – 35 gráður dagana fyrir keppni.

Áður en ég kom út höfðu keppisnhaldarar gefið út að vatnshiti væri 26 gráður en blautbúningar eru ekki leyfilegir fari vatnshiti yfir 24,5 gráður. 3 dögum fyrir keppni var þó tilkynnt að vatnshiti hefði lækkað og væri kominn í 24,8 gráður og ég hugsaði með mér að þetta myndi sleppa, þarf bara að lækka um 0,3 í viðbót.

En á fundi með keppendum daginn fyrir keppni var sagt að hitinn væri kominn í 26 gráður og því tilkynnt að bannað yrði að nota blautbúninga. BÚMM, þetta var smá sjokk þar sem ég hef ekki æft sjó- eða vatnasund án blautbúnings og gerði alls ekki ráð fyrir þessu. Augljóst var á viðbrögðum keppenda að ég var ekki sá eini sem ekki var undir þetta búinn. Ég var með swim skin með mér sem eykur örlítið hraðan í sundinu en fannst það þrengja að mér og ákvað á síðustu stundu að sleppa því, kannski mistök.

Skv. veðurspánni átti að kólna og þykkna upp með rigningu um kl. 10 á keppnisdag. Þetta hljómaði mun betur en kæfandi hitinn sem hafði verið dagana áður.

Þá var komið að þessu. Ég í mínu besta formi, hef aldrei synt hraðar, hef aldrei skilað hærri vöttum á hjólinu og aldrei hlaupið hraðar. Alveg raunhæft að bæta tíman frá því í fyrra um 8 mínútur og klára undir 10 tímum. Við Íslendingarnir vorum eldhress og tilbúin í þetta. Það var ekkert svo heitt en kl. reyndar 6.30 að morgni.

Sundið.

Við fórum 4 saman í tímahólfið sem er ætlað þeim sem áætla að synda á 1:00 – 1:10 klst. Ég hljóp útí og synti af stað og fannst mér ganga mjög vel, flaut vel og fannst hraðinn góður þar sem ég tók fram úr mörgum en einnig nokkrir sem tóku fram úr mér, reyndi að drafta þá sem fóru fram úr. Eftir ca. 2,5 km fékk ég krampa í báðar yljar, maður þarf að nota lappirnar mun meira án blautbúnings og þarna var ég farinn að finna fyrir því. Þetta gekk samt ágætlega og mér fannst ég halda hópnum vel, fáir að koma framúr. Síðasta 1 km. er synd efitr kanal sem liggur inn í bæinn og þarna þrenngist sundleiðin verulega og verða smá slagsmál. Ég fékk nokkur högg og var ýtt í kaf en ekkert alvarlegt, allt gekk vel. Þegar ég kom uppúr leit ég á úrið og þvílíkur skellur, 1:27!!! Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þvílík vonbrigði. Allir þeir sem ég tók fram voru þá greinilega fólk í vandræðum með að synda án blautbúnings. En jú, fyrsta skiptið sem ég syndi í opnu vatni án blautbúnings og það má reikna með mun slakari sundtíma.

T1

Það var smá spotti sem þurfti að hlaupa frá sundinu og að skiptisvæðinu. Ég var virkilega svekktur og pirraður og vonbrigðin mikil þar sem plan A og B fóru út um gluggan strax í upphafi. En fór í sokka, hjálminn á og hjólað af stað.

Hjólið.

Ég fór yfir game-planið þegar ég kom á hjólið og var orðinn 17 mínútum á eftir áætlun. Annaðhvort var að halda Plani C og stefna á að klára á 10:30 eða taka séns og negla hjólið. Ef maður á ekki að taka séns þegar A og B plan er farið út um gluggann, hvenær þá? Fokk it, ég ætla að negla þetta, hafa gaman, ekki taka þessu of alvarlega og sjá hvað ég get. Brekkurnar voru langar og brattar. Ég tók þær á 270 – 300 vöttum en upphaflegt plan var að fara aldrei yfir 250 vött. Erfitt var að halda hraða niður brekkurnar þar sem vegirnir voru hlykkjóttir og margar hættulegar beygjur. Eftir ca. 40 – 50 km náði ég Ara og hann sagði mér að Einar hefði verið rétt á undan sér í sundinu þannig að ég ákvað að reyna að ná honum.

En hitinn var orðinn kæfandi og sólin brennandi heit. Ég hafði verið með salttöflur sem eiga að sporna við vökvatapi í litlu boxi á hjólinu en boxið hefur flogið af þegar ég tók fyrsta gelið. Fyrstu 100 km gengu vel en þá fór þetta að þyngjast. Ég fór að fá krampa undir vinstri ilina en þeir byrjuðu í sundinu og voru mættir aftur. Kramparnir komu og fóru restina af hjólinu. Líklega var vökvaskortur farinn að segja til sín þar sem hitinn var að drepa mig. Skv. veðurspánni átti að þykkna upp, hvar voru skýin?

Þegar um 150 km voru búnir þykknaði loksins upp. En ekki aðeins þykknaði upp heldur snögg dimmdi og skall á með þrumum, eldingum og þessu svakalega úrhelli. Göturnar breyttust í árfarvegi og þessu fylgdi mikið rok. Skv. veðurstofunni hér í Austurríki var vindhraði 70 km. á klukkustund. Tré brotnuðu, greinar fuku um allt og maður átti í mesta basli með að halda sér á hjólinu og halda hjólinu á veginum. Ég var svo hissa að maður átti ekki orð og hugsaði bara hvað er að gerast hérna. Ég er vanur að hjóla í roki og rigningu en aldrei hef ég hjólað í neinu þessu líku. Eftir smá stund var ég farinn áð skjálfa úr kulda eftir að hafa verið að kafna nokkrum mínutum áður.

T2

Þegar ég kom á skiptisvæðið var allt í steik. Hjólin voru út um allt og höfðu fokið af hjólastöndunum. Járngrindur sem áttu að afmarka hlaupaleiðina höfðu fokið og lágu á hliðinni og rauðir dreglar út um allt. Þvílíkt ástand. Ennþá þetta svakalega úrhelli og allt á floti. Ég reyndi að skorða hjólið mitt við hjólagrindina en líklega hefur það fokið með hinum hjólunum eftir að ég fór. Ég gaf mér tíma í að fara í þurra sokka, fór í hlaupaskóna og hljóp af stað. Skiptitjaldið var fullt af fólki sem var að bíða af sér veðrið.

Hlaupið.

Ég hljóp af stað í pollum og var ansi sigraður eftir hjólið. Ég hugsaði með mér að fyrstu 2 km. væru alltaf vondir eftir langt hjól og pressaði hraðann í 4.30 pace. Fyrstu km. hóstaði ég mikið, hef aldrei lent í þessu áður, kannski bara rigningin.

En verkirnir, kramparnir og vanlíðanin jókst bara með hverjum km og ég var mjög fljótt farinn að labba í gegnum drykkjastöðvar. Kom samt engu niður, var með magakrampa en reyndi að drekka nokkra sopa af vatni. Ég hugaði með mér að ég hefði áður hlaupið maraþon án þess að fá næringu og tekið heilan Ironman með nánast engri næringu þannig að myndi bara gera þetta aftur.

Það hætti að rigna og sólin fór að skína með tilheyrandi hita. Smá saman hægðist á mér og á km. 32 gerðist eitthvað. Það var eins og líkaminn hefði sagt: hingað og ekki lengra. Mér varð mjög óglatt, svimaði mikið, fékk mikla verki neðarlega í bakið, líklega nýrun að kvarta yfir vökva og næringarskorti.

Ég ákvað að labba að næstu drykkjarstöð og gefa mér tíma þar til að reyna að koma einhverri næring niður. Þetta voru lengstu 2 km. sem ég hef labbað og á þessari dauðagöngu minni hitti Ég lúlla sem tók einu myndina og eina snappið sem tekið var af mér í keppninni. Frábær tímasetning Lúlli.  Ég reyndi að halda coolinu en held að það hafi ekki tekist.

Þegar ég loksins kom á drykkjarstöðina stoppaði ég og gaf mér góðan tíma og tókst að koma niður tveimur kók glösum, koffíngeli og smá vatnsmelónu. Labbaði svo af stað og fór mjög fljótt að líða betur og gat joggað létt. Endurtók leikinn á næstu drykkjarstöð og tókst að skokka síðustu kílómetrana í mark,

Kom svo að rauða dreglinum þar sem allir verkir hverfa og hljóp uppá svið og fagnaði vel. Þvílíkur léttir að vera búinn.

Án efa lang erfiðasta keppni sem ég hef farið í.austurriki2

Heildartími: 11:38:04 sem er minn slakasti tími í Ironman keppni.

Eftir keppni svimaði mig ennþá, var óglatt og allur verkjaður. Ákvað því að hinkra á svæðinu þar til ég kæmi einhverju niður áður en ég færi. Tveimur klst síðar var ég farinn að geta borðað.

Þrátt fyrir mikil vonbrigði yfir að ná ekki markmiðum þá gaf þessi keppni mikið og mikil reynsla að lenda í svona mótlæti. Núna hef ég td. tekið IM keppni án galla og veit þá út í hvað ég er að fara þegar (ekki ef) ég næ mér í sæti á Kona.  Einnig lærði ég hversu mikið ég þoli og hversu lengi má pressa áður en líkaminn segir stopp, gott að vita það. Svona reynsla herðir á manni hausinn þannig að ég mæti sterkari andlega í næstu keppni. Fullt af góðum hlutum.

Þakka ferðafélögum fyrir frábæra viku hér í Austurríki.

Ber er hver að baki nema bróður eigi…

Dandý segir frá:

Það var síðastliðið haust að ég ásamt nokkuð fleiri heldri borgurum frá Egilsstöðum ákváðum að æfa okkur og taka þátt í IM 70.3 í Helsingör. Ég, Guðbjörg og Keli (minn) fórum 2017 og ákváðum að fara aftur þangað. Því styttra því betra – tengiflugið okkar er alltaf EGS – RVK.  Í niðursuðudós.

Kobbi bróðir, sá eðaldrengur ákveður að koma líka. Jibbí, bónus fyrir mig.

Veturinn líður, það eru þrjár vikur í keppni og ég rifja upp:

  • Við Kobbi höfum margt brallað eins og önnur systkin en fyrsta hreyfiþrautin okkar saman eftir grunnskóla var að fara Laugaveginn 2011. Þá fylgdi hann mér alla leið.
  • 2013 förum við Landvættinn og hann fylgdi mér síðustu þrautina. Svo við urðum Landvættir saman.
  • 2016 tökum við Álkarlinn á Austurlandi saman.
  • Fyrir utan að hafa farið saman (hann aðeins á undan) i fyrsta IM í Kalmar 2014.

Við vorum búin að ræða það að rúlla einn svona IM saman einn daginn. Svo ég henti þessu fram á fjölskyldu snappið „Kobbi, er þetta sá sem við gerum saman“.

„Já já“ Hann sagði: „úr því ég ætlaði hvort sem er að bíða eftir þér einn daginn best að gera það í hálfum og ljúka því af“.

Nema sko þetta er ekki svo einfalt.

Keppnisdagur hefst eins og áður á því að allir tékka dekkin, smyrja kroppinn, pissa, kúka (þeir sem geta) og allt það sem menn reyna að gera til að létta sál og líkama fyrir svona átök. Plast í eyrun, hettan á og jibbí. Veislan er að byrja.

Sund:  Startið er fínt, við hendum okkur í sjóinn hlið við og Kobbi ætlar að hafa auga með mér. Ég sá hann enn eftir um 300 metra en þá kemur að smá kraðaki i sundinu. Það verður einhver barningur og ég fæ högg á sundgleraugun. Við það springur annað glerið og festingin milli glerja skemmist. Frábært bara 1600 metrar eftir. Konan sem tapaði gleðinni var skipað upp í bát því þetta var jú ekki liðsandinn og hún var köttuð út. Ég spyr hvort ég ætti ekki bara að hætta því það væri nokkuð vonlaust að synda þetta án gleraugna. „Nei nei ef þér líður vel reyndu þá við fylgjumst með þér“. UH OK takk.

Ég fann appelsínugulan galla og fylgdi honum því annað hreinlega sá ég ekki. Náði þó annað slagið að stoppa og festa gleraugun eða tylla þeim svo að þetta var nú ekki eins slæmt og hefði getað verið, annað glerið virkaði alltaf um 100 metra í einu. Synti bara með hægri hendi og hætti að vorkenna mér. Þarna var fólk að taka þátt sem var blint og menn með auka einstaklinga í farteskinu svo mér var bara anskotans engin vorkunn.

Sundið 41 mín og einhverjar sek.  Bara töf um sirka þrjár mínútur út af þessu veseni. EN HVAR ER KOBBI.

T1 og hjól:  Ég hendist á skiptisvæðið og litast um en sé ekki Kobba. Hugsa að hann hafi líklega farið, eins og ég sagði við hann „ekki vera að bíða eftir mér ef þú nennir ekki og ég er eitthvað sein“. 

Býst bara við því að hann sé á öðru hundraðinu í hjólabrautinni. Sé mágkonu mína sem húrrar mig áfram og held því að ég hafi rétt fyrir mér. Jogga að hjóli og off I go. Átti bara fínan hjólatíma. Þurfti að stoppa á síðustu stöð eða um 70 km mark því að stómapokinn minn var farinn að lafa og þá er betra að gefa sér fimm til sjö mín krakkar mínir. Það vill enginn hafa kúk í buxum í marki og hvað þá frá miðjum nafla. Konur eru oftast nær skipulagðar svo ég var með allar stómagræjur af þeim fáu sem ég tók með að heiman innan á hjólatreyjunni minni. Húrra fyrir mér.

Hef ekki ennþá séð Kobba. Gæti verið vegna þess að þetta er svolítið þvers og kruss hjólaleið. Klára hjólið á rétt um 3 klst og það er bara mín besta geta á gamla racernum mínum og all weather 25 dekkjum.

HVAR ER KOBBI

T2 og hlaup/labb/sljogg:

Ég vissi að ég myndi ekki hlaupa þetta. Í fyrsta lagi braut ég rif tveimur vikum fyrir keppni. Alls ekkert sem truflaði mig nema bara í hlaupi því að þetta var brot á besta stað og svo var ég ekki með hreyfistómavörurnar mínar. VEL GERT DANDÝ.

Tók ákvörðun um að hlaupa þar til ég fyndi það mikið til að ég gæti ekki hlaupið meira. Og það gerðist bara strax eftir fjóra km svo ég lét mig vaða að fyrstu teygju (gul) og svo var ég sigruð vegna rifjaverkja. EN krakkar mínir, eins og við segjum „þetta er bara verkur, bara líkamlegur verkur og það er bara allt í lagi“.

Meðan hausinn vill þig lengra haldu þá áfram. Ég hafði nægan tíma.

HVAR ER KOBBI

Nú labba ég og strunsa eins og ég get en þarna er heitt. Alltof heitt fyrir mig svona endurlýsandi mjólkurhvítt kvikindi. Nokkrum kílóum of þung, með slitin krossbönd og brotin rifbein þá var gangan tekin á nýtt level.

Ég naut þess að hrósa starfsfólki, pósa fyrir myndavélarnar og sjá alla vini mína út um allt hamast eins og túrbínur.

VAR ÞÁ EKKI KOBBI MÆTTUR. Hann sagði „þú ert á undan og ekki fara að bíða eftir mér, þú tekur þetta bara“.  Waddafúkk. Hvað gerðist? Þarna fékk ég nýtt hugarverkefni meðan ég hjassaðist þessa hringi sem eftir voru.

1.       Hugsa um hvað kom fyrir Kobba

2.       Hugsa um hvar er Kristbjörg

3.       Hugsa um Geira frænda sem var að fara i sinn fyrsta 66 ára gamall og frekar utan við sig

4.       Hugsa um að ég gat ekki hlussast áfram en samt myndi ég vera á betri tíma en síðast

5.       Þakka almennilega fyrir mig á öllum stöðum

Klára þetta á sléttum 7 klst og einhverjum sek sem má eyða.

dandy2
Dandý oog Kobbi með Ásgeiri Kristjáns (66 ára)

TAKIÐ NÚ VEL EFTIR

Kobbi, þessi einstaki bróðir hann beið eftir mér og leitaði að mér á T1 í 49 mínútur. Það eru fjörutíuogníumínútur. Hann setti klárlega met á skiptisvæði.

Bið ykkur um að rétta ekki upp hönd og segja að þið eigið betra eintak. Ætla ekki að hlusta.

Kristbjörg vinkona kom frá Seattle daginn áður og var ekki í andlegu standi fyrir sundið og lenti strax í vandræðum. Hún kemur og klárar næst. Hún var geggjuð sem stuðningsmaður. Mæli með.

Allir Egilsstaðabúar sem fóru af stað kláruðu. Stoltið gæti drepið mig því þau tilkynntu mér hátt og snjallt að þeirra þátttaka væri mér að kenna. Takk ég elska þegar það er mér að kenna að aðrir hreyfa sig og hafa markmið.

Hlakka til að fara aftur, vera þreytt og finna að ég lifi við þau forréttindi að geta þetta þó ég sé skjaldbaka í hraða. Ekki segja „ég get þetta ekki fyrr en þú getur það ekki.“ Reyndu.

dandy3
Hrafnkell, Dandý og Kobbi