Í óveðri í Austurríki

Ólafur Gunnarsson skrifar:
Ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota yfir aðstæður í þessari keppni en lýsingar sem ég heyrði frá öðrum keppendum voru td. “skelfilegt”, “bakaraofn”, “árás af himnum” og heimamenn tala um erfiðustu keppni í sögu Ironman í Austurríki… jú, þetta rímar vel við mína upplifun.

Þegar ég kom til Klagenfurt viku fyrir keppni hafði verið hitabylgja sem ekki sá fyrir endann á. Hitinn var 39 gráður og þetta var eins og að koma inn í draugabæ, ekki sála á ferli. Hitinn lækkaði þó örlítið í vikunni og var um 33 – 35 gráður dagana fyrir keppni.

Áður en ég kom út höfðu keppisnhaldarar gefið út að vatnshiti væri 26 gráður en blautbúningar eru ekki leyfilegir fari vatnshiti yfir 24,5 gráður. 3 dögum fyrir keppni var þó tilkynnt að vatnshiti hefði lækkað og væri kominn í 24,8 gráður og ég hugsaði með mér að þetta myndi sleppa, þarf bara að lækka um 0,3 í viðbót.

En á fundi með keppendum daginn fyrir keppni var sagt að hitinn væri kominn í 26 gráður og því tilkynnt að bannað yrði að nota blautbúninga. BÚMM, þetta var smá sjokk þar sem ég hef ekki æft sjó- eða vatnasund án blautbúnings og gerði alls ekki ráð fyrir þessu. Augljóst var á viðbrögðum keppenda að ég var ekki sá eini sem ekki var undir þetta búinn. Ég var með swim skin með mér sem eykur örlítið hraðan í sundinu en fannst það þrengja að mér og ákvað á síðustu stundu að sleppa því, kannski mistök.

Skv. veðurspánni átti að kólna og þykkna upp með rigningu um kl. 10 á keppnisdag. Þetta hljómaði mun betur en kæfandi hitinn sem hafði verið dagana áður.

Þá var komið að þessu. Ég í mínu besta formi, hef aldrei synt hraðar, hef aldrei skilað hærri vöttum á hjólinu og aldrei hlaupið hraðar. Alveg raunhæft að bæta tíman frá því í fyrra um 8 mínútur og klára undir 10 tímum. Við Íslendingarnir vorum eldhress og tilbúin í þetta. Það var ekkert svo heitt en kl. reyndar 6.30 að morgni.

Sundið.

Við fórum 4 saman í tímahólfið sem er ætlað þeim sem áætla að synda á 1:00 – 1:10 klst. Ég hljóp útí og synti af stað og fannst mér ganga mjög vel, flaut vel og fannst hraðinn góður þar sem ég tók fram úr mörgum en einnig nokkrir sem tóku fram úr mér, reyndi að drafta þá sem fóru fram úr. Eftir ca. 2,5 km fékk ég krampa í báðar yljar, maður þarf að nota lappirnar mun meira án blautbúnings og þarna var ég farinn að finna fyrir því. Þetta gekk samt ágætlega og mér fannst ég halda hópnum vel, fáir að koma framúr. Síðasta 1 km. er synd efitr kanal sem liggur inn í bæinn og þarna þrenngist sundleiðin verulega og verða smá slagsmál. Ég fékk nokkur högg og var ýtt í kaf en ekkert alvarlegt, allt gekk vel. Þegar ég kom uppúr leit ég á úrið og þvílíkur skellur, 1:27!!! Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þvílík vonbrigði. Allir þeir sem ég tók fram voru þá greinilega fólk í vandræðum með að synda án blautbúnings. En jú, fyrsta skiptið sem ég syndi í opnu vatni án blautbúnings og það má reikna með mun slakari sundtíma.

T1

Það var smá spotti sem þurfti að hlaupa frá sundinu og að skiptisvæðinu. Ég var virkilega svekktur og pirraður og vonbrigðin mikil þar sem plan A og B fóru út um gluggan strax í upphafi. En fór í sokka, hjálminn á og hjólað af stað.

Hjólið.

Ég fór yfir game-planið þegar ég kom á hjólið og var orðinn 17 mínútum á eftir áætlun. Annaðhvort var að halda Plani C og stefna á að klára á 10:30 eða taka séns og negla hjólið. Ef maður á ekki að taka séns þegar A og B plan er farið út um gluggann, hvenær þá? Fokk it, ég ætla að negla þetta, hafa gaman, ekki taka þessu of alvarlega og sjá hvað ég get. Brekkurnar voru langar og brattar. Ég tók þær á 270 – 300 vöttum en upphaflegt plan var að fara aldrei yfir 250 vött. Erfitt var að halda hraða niður brekkurnar þar sem vegirnir voru hlykkjóttir og margar hættulegar beygjur. Eftir ca. 40 – 50 km náði ég Ara og hann sagði mér að Einar hefði verið rétt á undan sér í sundinu þannig að ég ákvað að reyna að ná honum.

En hitinn var orðinn kæfandi og sólin brennandi heit. Ég hafði verið með salttöflur sem eiga að sporna við vökvatapi í litlu boxi á hjólinu en boxið hefur flogið af þegar ég tók fyrsta gelið. Fyrstu 100 km gengu vel en þá fór þetta að þyngjast. Ég fór að fá krampa undir vinstri ilina en þeir byrjuðu í sundinu og voru mættir aftur. Kramparnir komu og fóru restina af hjólinu. Líklega var vökvaskortur farinn að segja til sín þar sem hitinn var að drepa mig. Skv. veðurspánni átti að þykkna upp, hvar voru skýin?

Þegar um 150 km voru búnir þykknaði loksins upp. En ekki aðeins þykknaði upp heldur snögg dimmdi og skall á með þrumum, eldingum og þessu svakalega úrhelli. Göturnar breyttust í árfarvegi og þessu fylgdi mikið rok. Skv. veðurstofunni hér í Austurríki var vindhraði 70 km. á klukkustund. Tré brotnuðu, greinar fuku um allt og maður átti í mesta basli með að halda sér á hjólinu og halda hjólinu á veginum. Ég var svo hissa að maður átti ekki orð og hugsaði bara hvað er að gerast hérna. Ég er vanur að hjóla í roki og rigningu en aldrei hef ég hjólað í neinu þessu líku. Eftir smá stund var ég farinn áð skjálfa úr kulda eftir að hafa verið að kafna nokkrum mínutum áður.

T2

Þegar ég kom á skiptisvæðið var allt í steik. Hjólin voru út um allt og höfðu fokið af hjólastöndunum. Járngrindur sem áttu að afmarka hlaupaleiðina höfðu fokið og lágu á hliðinni og rauðir dreglar út um allt. Þvílíkt ástand. Ennþá þetta svakalega úrhelli og allt á floti. Ég reyndi að skorða hjólið mitt við hjólagrindina en líklega hefur það fokið með hinum hjólunum eftir að ég fór. Ég gaf mér tíma í að fara í þurra sokka, fór í hlaupaskóna og hljóp af stað. Skiptitjaldið var fullt af fólki sem var að bíða af sér veðrið.

Hlaupið.

Ég hljóp af stað í pollum og var ansi sigraður eftir hjólið. Ég hugsaði með mér að fyrstu 2 km. væru alltaf vondir eftir langt hjól og pressaði hraðann í 4.30 pace. Fyrstu km. hóstaði ég mikið, hef aldrei lent í þessu áður, kannski bara rigningin.

En verkirnir, kramparnir og vanlíðanin jókst bara með hverjum km og ég var mjög fljótt farinn að labba í gegnum drykkjastöðvar. Kom samt engu niður, var með magakrampa en reyndi að drekka nokkra sopa af vatni. Ég hugaði með mér að ég hefði áður hlaupið maraþon án þess að fá næringu og tekið heilan Ironman með nánast engri næringu þannig að myndi bara gera þetta aftur.

Það hætti að rigna og sólin fór að skína með tilheyrandi hita. Smá saman hægðist á mér og á km. 32 gerðist eitthvað. Það var eins og líkaminn hefði sagt: hingað og ekki lengra. Mér varð mjög óglatt, svimaði mikið, fékk mikla verki neðarlega í bakið, líklega nýrun að kvarta yfir vökva og næringarskorti.

Ég ákvað að labba að næstu drykkjarstöð og gefa mér tíma þar til að reyna að koma einhverri næring niður. Þetta voru lengstu 2 km. sem ég hef labbað og á þessari dauðagöngu minni hitti Ég lúlla sem tók einu myndina og eina snappið sem tekið var af mér í keppninni. Frábær tímasetning Lúlli.  Ég reyndi að halda coolinu en held að það hafi ekki tekist.

Þegar ég loksins kom á drykkjarstöðina stoppaði ég og gaf mér góðan tíma og tókst að koma niður tveimur kók glösum, koffíngeli og smá vatnsmelónu. Labbaði svo af stað og fór mjög fljótt að líða betur og gat joggað létt. Endurtók leikinn á næstu drykkjarstöð og tókst að skokka síðustu kílómetrana í mark,

Kom svo að rauða dreglinum þar sem allir verkir hverfa og hljóp uppá svið og fagnaði vel. Þvílíkur léttir að vera búinn.

Án efa lang erfiðasta keppni sem ég hef farið í.austurriki2

Heildartími: 11:38:04 sem er minn slakasti tími í Ironman keppni.

Eftir keppni svimaði mig ennþá, var óglatt og allur verkjaður. Ákvað því að hinkra á svæðinu þar til ég kæmi einhverju niður áður en ég færi. Tveimur klst síðar var ég farinn að geta borðað.

Þrátt fyrir mikil vonbrigði yfir að ná ekki markmiðum þá gaf þessi keppni mikið og mikil reynsla að lenda í svona mótlæti. Núna hef ég td. tekið IM keppni án galla og veit þá út í hvað ég er að fara þegar (ekki ef) ég næ mér í sæti á Kona.  Einnig lærði ég hversu mikið ég þoli og hversu lengi má pressa áður en líkaminn segir stopp, gott að vita það. Svona reynsla herðir á manni hausinn þannig að ég mæti sterkari andlega í næstu keppni. Fullt af góðum hlutum.

Þakka ferðafélögum fyrir frábæra viku hér í Austurríki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s