Járnið hamrað í Jönköbing

Þórunn Margrét Gunnarsdóttir segir frá:

Það tók sig upp svakaleg stemning í æfingahópi Ægir3 í september í fyrra og við æstum hvort annað upp í að skrá okkur saman í Ironman 70.3 í Jönköpin 7. júlí 2019.  Besta var að mér tókst að fá manninn minn til að koma með okkur í þetta og hann skráði sig meira að segja á undan mér.  (Nokkurra ára aðgerðaráætlun að skila sér hahaha)

Ástæðan fyrir því að þessi keppni varð fyrir valinu var sú að þetta er einnig Evrópumeistaramót þríþrautarfélaga í Ironman 70.3 og það fannst okkur spennandi.  20 félagar skráðir í upphafi en nokkrir duttu úr skaftinu af ýmsum ástæðum en 14 mættu á keppnisstað og 14 luku keppni.

ÞG2

Þetta var sannkölluð uppskeruhelgi æfingahópsins, 5 í IM Austurríki og 14 í IM 70.3 í Jönköping, þvílíkur hópur, elska þetta fólk!

Mætt á svæðið á fimmtudagskvöld, ferðin gekk vel fyrir utan það að ég gleymdi bakpokanum mínum með hjálminum, keppnisgallanum ofl. í strætó á leiðinni frá flugvellinum að bílaleigunni, smá keppnisþoka að gera vart við sig.

Föstudagurinn var mjög annasamur eiginlega aðeins of…..úps ekki segja Geir þjálfara! Morgunmatur, Expó, hádegismatur, æfingasund, skrúðganga þríþrautarfélaga kl.15, testa hjólið, keppnisfundur kl.18, kvöldmatur.  Hafði smá áhyggjur af því hvað ég var gjörsamlega dauð á föstudagskvöldið eftir daginn. En við fengum skýr skilaboð frá Geir um það að það væri stranglega bannað að fara á Expóið á laugardeginum svo laugardagurinn fór í rólegheit, mjög léttar æfingar og koma öllu fyrir í T1 og T2 fyrir keppnisdag.

Keppnisdagurinn byrjaði ágætlega en hafði reyndar ekki sofið mjög mikið nóttina en það hefur alveg komið fyrir áður og ekkert til að stressa sig yfir.  Komin í mat 06:00 þrír tímar í keppni.  Tróð í mig heilli skál af hafragraut og einum banana en mér gengur nú ekki alltof vel að borða svona rétt fyrir keppni.  Þar sem ég sit og er að taka næst seinasta bitann af banananum kemur einn liðsfélagi minn og sest við hliðina á mér með stóran skammt af eggjahræru og síld í gulbrúnni slepjulegri sósu…….SOS rétt náði inn á klósett og ældi öllum morgunmatnum.  SKELLUR! Fór upp á herbergi og lagðist á rúmið með kuldahroll og viss um að ég væri að fá hita, ætli það sé gúllpsopinn sem ég tók í æfingasundinum í hinu mjög svo grugguga og eiginleg ógeðslega Munksjön eða kranavatnið sem ég er búin að vera að þamba síðustu daga.  Tók svo smá U beygju í huganum og hugsaði NEI, ég er búin að vera dugleg að æfa og er komin alla þessa leið…. ég ætla að fara þarna út og gera mitt besta, klæddi mig í blautbúninginn til hálfs og hélt út og bar höfðuðið hátt. 

Mikið var nú samt gott að hafa eina af sínum bestu vinkonum sér við hlið hana Lóu mína í startinu. Staðsettum okkur við tímamörkin 28-30 mínútur og reyndum svo að dilla okkur við tónlistina og peppa hvor aðra upp og ná í okkur hita í rigningunni.  Áttum að fá að taka upphitun í litlum skurði en það var afturkallað á keppnisfundinum þar sem það væri hætta á ofkælingu hjá keppendum meðan þeir biðu blautir eftir startinu í rigningunni, en eftir að hafa horft ofan í skurðinn þá vorum við viss um að það væri útaf félaga E.coli sem ekki mætti synda í þessum drullupolli.

Sundið:

Tróð í mig 1 geli rétt fyrir start með von um að ég mundi halda því niðri.  4 út í einu, Lóa ræst fyrir framan mig og sá hana ekki meira fyrir utan eitt skipti á leiðinni þegar við vorum allt í einu að þvælast fyrir hvor annarri. Sundið er mín sterka hlið en náði mér einhvern veginn ekki almennilega á strik, fékk lítið sem ekkert kjölsog og var aðallega að taka fram úr eða algjörleg ein að synda, erfitt að sjá á milli bauja og tók tvisvar kolranga stefnu. Leit á úrið þegar ég kom upp úr 32mín Ahhhh hélt ég ætti að geta verið undir 30 en sá svo að úrið sýndi 2020m, en það er nóg eftir af keppninni svo ákvað að vera ekkert að svekkja mig á sundinu.

Sundtími: 32:03

T1: 600m hlaup eftir rauðum dregli á hellusteinum, ekki svo slæmt þrátt fyrir misfellur og var bara nokkuð spræk eftir sundið og tók fram út nokkrum á dreglinum. Gékk vel að finna dótið mitt og náði að gera þetta allt í réttri röð, keppnisþokan ekkert að stríða mér.                                                                       

Tími: 05:56

Hjólið:

Mín veikasta hlið en er búin að vera að bæta mig að undanförnu svo ég hlakkaði bara til að takast á við það.  Var búin að stilla mig inn á að halda ákveðnum meðal wöttum samkvæmt aflprófi sem ég hafði tekið nokkrum vikum fyrir keppni og hélt mig algjörlega við það. Eftir á að hyggja þá hefði ég kannski mátt negla hjólið aðeins meira en fyrir vikið nóg eftir fyrir hlaupið.  Göturnar voru rennandi blautar eftir rigningu morgunsins svo varð aðeins óörugg í fyrstu sérstaklega eftir að gæinn fyrir framan mig skransaði til og frá í enni beygjunni. Svolítil hækkun í byrjun en ekkert mál þar er ég á heimavelli og fékk fáa fram úr mér og tók meira að segja fram úr slatta af liði. Þegar við tóku rúllandi brekkur upp og niður og 180° beygjur þá fóru bunkarnir að fara fram úr mér. Niður brekkur og beygjur þar kemur sér illa að vera ekki með betri hjólatækni en hey þar á ég líka fullt inni, elska þetta sport alltaf hægt að bæta sig!

Reyndi að fylgjast með hvort konurnar sem færu fram úr mér væri ekki örugglega miklu yngri en eiginlega alveg ómögulegt að sjá það.

4 gel, tveir 750ml brúsar af ISO vökva og nokkrir bita af SIS energy bar til að verða ekki tóm í maganum.

Hjólatími: 02:46:52

T2: Gekk vel að ganga frá hjólinu og ná í dótið fyrir hlaupið.

Tími 02:05mín

Hlaupið:

Þegar upp er staðið þá veltur þetta alltaf svolítið á hlaupinu og ná að klára á góðu hlaupi.  Sama hvernig líðanin er á hjólinu þá veit maður samt aldrei hvernig hlaupið verður fyrr en lagt er af stað í það. Fann fljótt eftir að ég byrjaði að hlaupa að ég kom bara nokkuð góð undan hjólinu, passaði mig að verða ekki of gráðug í hraðann og setti krúsið á 4:45 pace og náði að rúlla mestan hluta fyrsta hring af þremur á því. Í lok hringsins var mikið af stefnubreytingum og fram og til baka zikk zakk og hlaupið á steinhellum með miklu bili á milli og það er sko alls ekki það besta fyrir miðaldra konur með líkþorn, sigg og útvaxin bein. Varð alveg hræðilega sárfætt og seinustu tvo hringina rokkaði hraðinn meira upp og niður eftir undirlaginu, en að öðru leyti ágætis tilfinning.  Fékk mér tvo sopa af vatni eða orkudrykk á hverri drykkjarstöð en reyndi að stoppa nánast ekki neitt.  Allir að tala um að það sé svo geðveikt að fá sér kók undir lok hlaups og ætlaði að gera það á seinustu tveimur drykkjarstöðvunum en var mjög vonsvikin þegar það reyndist vatn í glasinu í bæði skiptin en það kom svo sem ekki að sök.  Tvö gel í hlaupinu og tveir sopar af vökva á hverri drykkjarstöð.  Skemmti mér við það á leiðinni að spá í hvað konurnar væru gamlar sem ég tók fram úr. Sannfærði mig um það að þær konur sem hefðu tekið fram úr mér væru pottþétt yngri og ég ánægð að halda mínu sæti og vonandi vinna mig eitthvað upp.

Hlaupatími: 01:43:58

Frábært að fá hvatningu í brautinni og naut góðs af því að sumir félagar mínir í Ægir3 voru með fjölskyldu og vini á hlíðarlínunni. TAKK fyrir hvatninguna!

Lokatími: 05:10:54 og 1. sæti í aldursflokki 45-49 ára.

Kom í mark í sæluvímu en við hrúguðumst svo mörg í einu í mark að ég sá ekki tímann minn birtast og þar sem ég hafði sett úrið mitt af stað aðeins á undan ræsingunni þá var ég alls ekki viss hver lokatíminn væri.  Fór því fljótlega og náði í símann í „Finisher“ pokann svo ég gæti athugað það. Lokatími 5:10:54 já ég var bara mjög sátt við það og 11. sæti í mínum aldursflokki 45-49 ára, ohh var nú að vona að komast alla vega í topp 10….en bíddu var þetta kannski 1?  Þar sem ég var ekki með lonníetturnar með mér í pokanum þá tók mig örugglega 5 mínútur að sannfæri sjálfan mig um að þetta væri í alvörunni 1 ekki 11. Skoðaði úrslitin svo örugglega 20 sinnum næsta klukkutímann til að vera viss um að það stæði ennþá 1st Place.

Hélt til fyrir aftan marklínuna og sá félaga mína í Ægir3 koma í mark og líka alla hina, þvílík gleði og andleg vellíðan sem sveif þar yfir, næring fyrir líkama og sál, minn nýi Hamingjustaður!

Vissi að þessi keppni veitti þátttökurétt á Ironman 70.3 World Championship á Nýja Sjálandi í nóvember 2020 en taldi mig ekki eiga mikinn séns í það. Svo segir Óli maðurinn minn við mig daginn fyrir keppni: „Þú verður að undirbúa þig undir að þurfa kannski að taka ákvörðun um að þiggja sæti á Nýja Sjálandi“.  Mér fannst það mjög langsótt því þó ég væri stundum á palli heima þá væru líkur mínar hér mjög litlar. „…ég mundi alla vega taka með mér passann og visakortið á verðlaunaafhendinguna…“ segir Óli. „Allt í lagi en með einu skilyrði, þú kemur með ef svo ólíklega vill til að enginn vill fara til Nýja Sjálands, OK slegið.“ Svo var það ekki rætt meira.

ÞG5

Hópurinn fór saman á verðlaunaafhendinguna fullviss um að við værum að vinna keppnina besta þríþrautarfélag Evrópu, við vorum alla vega skemmtilegasta félagið, þvílík stemning í hópnum.

Þegar ég var kölluð upp á sviðið og gekk að verðlaunapallinum sem á stóð IRONMAN og mínir frábæru æfingafélagar klöppuðu og hrópuðu, spratt gæsahúðin fram um allan líkamann, ógleymanleg stund.

ÞG6

Hrópaði svo hátt og skýrt YESSS þegar mér var boðið sætið á Nýja Sjálandi. Gaman að keppnin skuli vera á Nýja Sjálandi því það var einmitt vinkona mín hún Sarah Cushing sem kveikti áhuga minn á þríþraut. Takk Sarah!

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa góða heilsu og geta stundað mitt áhugamál af kappi í góðra vina hópi og fá stuðning til þess frá minni fjölskyldu og vinum. Strákarnir mínir þrír fá ekki kvöldmatinn alltaf á „réttum“ tíma en það er vonandi fínt veganesti fyrir þá að þurfa stundum að sýna sveigjanleika þannig að allir fái sitt svigrúm til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt.

ÞG1

Keppnin í Jönköping var með mesta fjölda kvenkyns keppenda frá upphafi IRONMAN 70.3 – ÁFRAM STELPUR!

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s