Átökin í Emilio-Romagna

Járn er hvetjandi

Fyrir réttu ári var ég á expóinu fyrir RM og hitti þar félagana Rúnar og Sigga sem ég hef verið rekast á annað slagið í hlaupabrölti mínu og þeir spyrja mig um hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur í vetur en þarna í júlímánuði hafði ég lokið Laugavegshlaupinu og var ekki komin með önnur markmið og fannst vanta hvatningu til að fara út að skokka.
Þeir fara að segja mér frá keppni sem ber nafnið Ironman og er 3,8 km sund, 180 km hjól, 42 km hlaup og segjast vera búnir að skrá sig í Ironman Italy í Cervia og hvort ég vilji ekki bara skella mér með. Mér leist nú ekkert á þetta, fannst þetta vera utan minnar getu því ég hafði aldrei stigið á racer eða TT hjól og var sem næst ósyndur. Þetta fannst þeim ekki mikið mál enn sögðu einnig að það væri sennilega betra fyrir mig ef ég slægi til að skrá mig í þríþrautarfélag og byrja að synda strax á morgun 😊
Ég velti þessu fyrir mér í smá tíma, fór á kynningar hjá Breiðablik og Ægir3 og var uppnuminn af þessu fólki sem var að kynna þríþrautina því allir sem töluðu höfðu svo mikla ástríðu fyrir efninu að það var ekki hægt annað enn að hrífast með. Ég ákvað eftir þessa fundi að skrá mig og sjá til hvernig gengi og Ægir3 varð fyrir valinu sérstaklega vegna staðsetningar.
Sundæfingar gengu vel undir handleiðslu Gylfa og er hann held ég einn þolinmóðasti maður sem ég hef hitt, endalaust að svara sömu spurningunum frá manni og aldrei vottur af pirring yfir sundþokunni sem tekur yfir hausinn á manni eftir nokkra metra í sundinu.
Ég mætti á hjólaæfingar á Hybrid hjólinu mínu sem var verslað eftir þarfagreiningu síns tíma og tók þátt í öllum hjólaæfingum sem í boði voru og gerði mitt besta til að hanga aftan í mannskapnum enn þjálfararnir voru líka duglegir að hífa mann upp ef maður dróst aftur úr.
Svo var komið að því að kaupa racer til að geta tekið æfingar á næsta stig og mætir menn fundu rétta hjólið fyrir mig á tilboði sem ekki var hægt að hafna ( við vorum fjórir sammála um það ) og þarna fjárfesti ég í hjóli án pedala sem föður mínum heitnum hefði þótt skrítin kaup.
Konan mín var ekki jafn sammála okkur fjórum með ágæti kaupanna því í sömu viku var verið að skipta um allar hurðir í íbúðinni og hjólið slagaði upp í þá tölu með wattamæli.
Til að gera langa sögu stutta þá reyndi ég að mæta vel á æfingar allan veturinn og keppa í öllum sprettþrautum og sjósundum sem í boði voru hér heima um vorið og sumarið til að öðlast keppnisreynslu enda mælt með því af þessu úrvals þjálfarateymi sem Ægir3 hefur upp á að bjóða.

Keppnin

Emilia-Romagna svæðið geymir strandbæinn Cervia sem er í norður Ítalíu og er þekktur fyrir strendurnar sínar og fiskinn. Við vorum 9 manna hópur af fólki úr öllum áttum með mökum sem ætluðum að tækla þessa þraut. Hótelið mitt var vel staðsett, skiptisvæðið var beint fyrir utan innganginn á hótelinu.
Á föstudag var keppnisfundur og svo var hjólunum skilað á sinn stað á grindur sem voru merktar með keppnisnúmerinu og passaði ég mig á að taka mynd af staðsetningunni og leggja hana á minnið því enginn fer að leita að hjólinu sínu í hópil 3000 annara hjóla að morgni keppnisdags.
Að morgni laugardagsins fór ég snemma á skiptisvæðið sem var opið frá 05:00 og ætlaði að koma fyrir drykkjarbrúsum og hjólatölvu og athuga með hjólið en fann það hvergi og leitaði í stundarfjórðung sem var frekar stressandi en þá kom í ljós að ekki aðeins hafði hjólið verið fært frá götubrún að miðjusvæði heldur allur rekkinn líka um 50 metra og var ég ekki of glaður með það og fékk svo sem öngvar skýringar á því.
Dreif mig niður á strönd og sjórinn leit bara vel út, smá alda en ekkert til að hafa áhyggjur af en rauð flögg höfðu verið á sjónum í 2 daga.
Kom mér í fremsta sundhólfið sem var með tímann – 60 mín og voru keppendur ræstir 5 saman á 5 sek fresti. Mig langaði að reyna að negla sundið aðeins þrátt fyrir að vera með bólgna sin í öxlinni sem hafði strítt mér allan veturinn enn Gylfi sundþjálfari sagði við mig að sennilega hefðu þessi meiðsli bætt tæknina hjá mér því ég var alltaf að spara mig svo ég gæti synt án sársauka.

AðalsteinnSund
Sundið gekk ótrúlega vel, svona framarlega voru góðir sundmenn svo það var enginn í bringusundi sem þýddi færri spörk og betra draft enn auðvitað var eitthvað um að fólk gripi í fótinn á þér en ég held að það sé partur af þessu því maður gerði það sjálfur líka óviljandi enda held ég að enginn sé að leika sér að þessu. Jók hraðann í kringum snúningsbaujur til að fá betra flot og til að lenda ekki undir einhverjum og gekk það vel upp.
Sundtími á 1:06:40 3,8 km
Hljóp skiptisvæðið sem var 400 mtr og var búin að setja skóna á pedalana því það var bannað að hlaupa með þá í hendinni og ég vildi ekki hlaupa þessa vegalengd á skónum því það væri eins og að hlaupa á háum hælum (held ég).
T1 06:56

Fall er ekki fararheill

AðalsteinnHjól
Það var gott að komast á hjólið. Ég ætlaði að halda 170 wöttum sem tókst og meðalwöttin hjá mér voru 176 . Fyrstu 30 mín á hjólinu voru hálf óbærilegar vegna sársauka í öxlinni eftir sundið en hver hola í malbikinu stakk mig svo mig langaði að orga enn svo dofnaði allt draslið og hjólið varð bærilegra.
Hjólaðir voru 2 hringir með 20 km upphafs og endakafla og veðrið var mjög gott enn hitinn um 20°c og fór hækkandi, brautin frekar flöt enn með 2 hækkunum sem voru stuttar enn brattar. Mér gekk vel að halda mínum wöttum og var ákveðinn að víkja ekki frá plani í fyrstu keppni en fannst oft ég geta gert mikið betur á hjólinu en plan er plan. Atvinnumennirnir tóku framúr og eins og Þórhallur vinur minn orðaði það, þá voru þeir eins og róbótar, langir, samlitir búningar og hjól, já eins og transformers, ógnarhraðir. Sá það var nóg að gera hjá sjúkrabílunum á hraðbrautinni enda nokkuð um slys og örmögnun.
Á einni drykkjarstöðinni í litlum bæ lenti ég í óhappi og féll harkalega á hellulagða götuna og fann mikið til í skrokknum, stumraði yfir hjólinu til að tékka á hvort það væri heilt og hélt þarna að keppnin væri búin hjá mér enda lak úr mér blóðið úr handlegg og fótlegg en Ítalarnir þarna skelltu mér upp á fákinn og ýttu mér af stað hrópandi einhverja vitleysu og það tók mig svona 3 mín að bíta sársaukann frá mér og halda haus.
Næring: 2 orkustykki 12 gel og sennilega 7-8 ltr af vökva innvortis og útvortis
Hjól 5:52:19 180 km
Skiptingin gekk allvel enn gleymdi sólarvörn í látunum
T2 07:11

Að æla í markinu er góð skemmtun…

Lagði af stað í hlaupið og leið vel en þarna var farið að bæta í hitann og hitastigið sennilega um 25°c. Passaði mig á að grípa svampa og klaka á öllum drykkjarstöðvum og planið var að hlaupa á pace 5:50 sem fljótlega fór suður hjá mér enn hlaupið var mér erfitt sökum hita. Eftir 21 km langaði mig bara að labba restina en lét mig hafa það að labba bara í gegnum drykkjarstöðvar. Um miðbik keppninar var mér orðið svo lítið óglatt og ældi í munninn svona 2x en stoppaði ekki. Kom í mark á 4:29 sem var svona 15 min frá því sem ég var búin að sjá fyrir mér og tók ég góðann endasprett í markið því þjálfararnir Geir og Ólafur voru búnir að segja að það mætti ekki skilja neitt eftir í brautinni og það væri ákveðið gæðamerki að æla í markinu og vildi ég alls ekki valda þeim vonbrigðum og uppfyllti samviskulega það skilyrði 10 min eftir að ég kom í mark.
Ég settist á bekk í tjaldinu og reyndi jafna mig og fyrir framan mig var bakki með einhverjum pylsum og gramsi og mér varð svo óglatt að horfa á hann að ég ældi í bakkann sem var mikill léttir á magann. Sjúkraliðar 2 stk voru beint fyrir framan mig og komu strax og tékkuðu á mér en töluðu enga ensku. Allt í einu var kominn hjólastóll fyrir framan mig sem mér fannst nú undarlegt, vissu þeir ekki að ég væri nýbúinn með maraþon 😊 en ákvað svo með sjálfum mér að þessir góðu menn ætluðu sennilega að trilla mér með forgang í nuddið og sturtuna sem mér var búið að hlakka svo til að fara í þegar ég kæmi í mark. Settist í stólinn og var keyrt beint fyrir framan sjúkratjald og beðinn að setjast á bekk þar, engin sturta eða nudd heldur 5 min bið þar sem ég horfði á þá og þeir á mig þangað til ég stóð upp, kvaddi og skellti mér i myndatöku og sturtu án hjálpar.
Næring. 8,5 gel,mikið vatn og Isiodrykkir
Hlaup 4:29:06 42 km
Heild:11:40:51

AðalsteinnKlárar
Sjálf keppnin var uppskeruhátíð ársþjálfunar með bestu æfingafélögum og þjálfurum sem ég hef kynnst og hlakka ég mikið til að halda áfram í þessu sporti
Það sem er mjög magnað að aldrei á þessum tíma sagði neinn af þessum reynsluboltum að þetta verkefni væri of erfitt heldur var alltaf hvatning í gangi og jákvætt tal hvernig best væri að framkvæma þetta og mér finnst við öll vera að uppskera þegar einhver af okkur klárar svona þraut hvar sem það er í heiminum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s