Bætingin í Barcelona

FB_IMG_1565698485192

Þetta er nokkuð löng saga um aðdragandann að IM Barcelona sem ég tók þátt í fyrstu helgina í október og svo örfá orð um keppnina sjálfa.

Fyrir mér var mikill sigur að hafa klárað þessa keppni því ég hef átt í basli með einhvers lags „meiðsli“ sem hafa háð mér mjög lengi. Ég set „meiðsli“ innan gæsalappa því einkennin voru og eru frekar óljós og lengi vel áttaði ég mig ekki á því að um meiðsli væri að ræða. Í raun hefur þetta verið þannig undanfarin 2 ár að því meira sem ég æfi og legg á mig í æfingum því lélegri verð ég. Ég ýki ekki þegar ég segi að í sumar sem leið hafi ég alvarlega verið að spá í að hætta að æfa þríþraut, alveg búin að gefast upp á því að leggja hart að mér í æfingum svo mánuðum skipti án þess að það skilaði árangri. Þetta var bara hætt að vera gaman.

Í upphafi var þríþraut

Ég byrjaði að æfa þríþraut 2013. Var dugleg að keppa hér heima bæði í stuttum og lengri keppnum (m.a. þrisvar sinnum ½ IM í Kjós) og gekk bara ágætlega, náði að bæta mig milli ára. Hlaupin hafa alltaf verið mín veika hlið en eftir fyrstu árin í þríþraut hafði ég bætt mig heilmikið í hlaupum.

Barcelona var önnur heila járnkeppnin mín (IM) en ég hafði farið í IM New Zealand (NZ) fyrir rúmu 1 ½ ári síðan. Þeirri keppni lauk ég á tímanum 13.46 en í Barcelona kláraði ég á 12.03. Þetta er náttúrulega geggjuð bæting, 1 klst og 43 mín !! Það er því áhugavert að velta því fyrir sér hvernig standi á þessari bætingu, hvað var öðruvísi við þessar keppnir og þá sérstaklega hvað var öðruvísi við aðdragandann að þeim.

Gúa vinkona mín hafði fyrir löngu ákveðið að fara í IM NZ og plataði mig að koma með. Um haustið 2017 hófst því undirbúningur fyrir keppnina sem fór svo fram í byrjun mars 2018. Þessi vetur var frekar leiðinlegur veðurfarslega séð sem þýddi að löngu hjólaæfingarnar varð að taka á trainer og hlaupaæfingar voru oft í hálku og snjó. Svo þarf náttúrulega ekki að nefna að sundæfingar í víðavatni eða sjó voru ekki teknar á þessu tímabili. Ég fékk æfingaprógram hjá Viðari Braga og hann studdi mig í gegnum undirbúninginn. Ég æfði mjög vel og fór samviskusamlega eftir æfingaprógramminu. Mér leið hinsvegar ekkert sérlega vel og æfingarnar voru oft á tíðum mikið streð. Löngu hlaupin voru erfið, komst ekkert úr sporunum, púlsinn var hár og ég svitnaði eins og svín. Ég átti líka erfitt með að halda uppgefnu afli á hjólinu og sérstaklega á löngu æfingunum. Var meira og minna orðin úrvinda af þreytu í lok æfingar. Þarna fann ég ekki fyrir neinum verkjum eða þannig einkennum, þetta var bara eitthvað svo erfitt. Ræddi þetta oft við Viðar sem mælti með að ég færi í blóðprufu, hugsanlega væri blóðleysi að valda þessu. Blóðprufan reyndist hinsvegar glimrandi fín og ekki vottur af blóðleysi. Svona gekk undirbúningurinn sem sagt, auðvitað eitthvað upp og niður, en þrátt fyrir að hafa lagt vel inn í æfingabankann þá voru litlar sem engar bætingar í gangi á undirbúningstímabilinu. Svo kemur að keppninni í NZ og í stuttu máli þá gekk keppnin algerlega í takt við það hvernig æfingarnar höfðu gengið, byrjaði ágætlega sterk en kláraði veik. Sundið gekk framar vonum (sundtími 1.11). Það var synt í kristaltæru vatni í Lake Taupo sem var ótrúleg upplifun. Hjólið gekk nokkuð vel framan af, hélt því afli sem lagt var upp með en eftir ca 90 km þá fór ég að þreytast mjög, aflið datt niður og þetta var bara streð og mér leið ekkert vel (hjólatími 6.27). Var allveg búin á því eftir hjólið. Ég man að í T2 hugsaði ég jæja, nú ætla ég að hvíla mig, ég get ekki haldið áfram strax. En sjálfboðaliðunum fannst ég eitthvað vera róleg í tíðinni og hálfpartinn ráku mig af stað. Ég held að ég hafi hlaupið örfáa km þangað til að ég bara gat ekki meir og fór að labba. Þannig fór ég meira og minna gangandi í gegnum hlaupalegginn (hlaupa/göngutími: 5.48).

Miðað við IM Barcelona var NZ hjólabrautin með fleiri brekkur og malbikið grófara. Hlaupabrautin í NZ er líka nokkuð erfiðari en í Barcelona, margar brattar brekkur en samt stuttar.

Að safna járni er góð skemmtun

Plön um næsta IM hófust strax eftir NZ og fengum við vinkonurnar þá hugdettu að það væri gaman að taka IM í hverri heimsálfu á næstu 10 árum. Þá var fljótlega ákveðið að við skyldum fara til Brazilíu næst, eða í maí 2019. Á bjartsýnisaugnabliki síðastliðið haust skráði ég mig svo líka í IM Barcelona 2019 (6.október).

Í kjölfarið ákvað ég að leggja meiri áherslu á hlaupið, myndi örugglega verða betri ef ég bara æfði meira. Sumarið og haustið 2018 var ég dugleg að hlaupa. Það gekk samt ekkert sérstaklega vel, fann fyrir einhverju ójafnvægi í hlaupastílnum, svolítið eins og annar fóturinn væri lengri en hinn, þannig var tilfinningin. Fór tvö 10 km keppnishlaup um sumarið með hörmungar árangri, hljóp langtum hægar en ég hafði áður getað hlaupið. Við erum að tala um 7-8 mínútna lakari tími en ég átti best þrátt fyrir að hafa æft vel. Sem sagt þá varð ég sífellt lélegri og lélegri með meiri ástundun þrátt fyrir að um nein meiðsl væri að ræða, a.m.k. fann ég ekki fyrir neinum verkjum. Um haustið 2018 fór ég svo að finna fyrir sviða í hægri mjöðm og framan á læri á hlaupum. Þannig gekk þetta um haustið og veturinn, varð bara hægari á hlaupunum og varð reglulega að stoppa til að hvíla uppsafnaða þreytu og sviða í hægri fæti. Þessi einkenni fóru líka að gera vart við sig á hjólinu, var bara drulluléleg þar, en þetta klárlega háði mér meira á hlaupunum. Fór loksins í sjúkraþjálfun vildi meina að ég væri með vanvirkan hægri rassvöðva. Næstu mánuði gerði ég Jane Fonda æfingar samviskusamlega 2 sinnum á dag til að styrkja og virkja gluteus medius, en það hjálpaði ekki mikið. Fór seinna í sterasprautu þar sem sinafestubólgur á mjaðmasvæði komu í ljós. Þegar upp var staðið þá gerði það heldur ekki mikið fyrir mig.

Að gefast upp er ekki góð skemmtun…

Þetta var sem sagt síðastliðinn vetur og ég var komin í æfingaprógram fyrir IM Brasilíu. Þar sem hlaupin voru að ganga svona illa var planið að massa bara sundið og hjólið og láta svo hlaupið ráðast. En þegar 3-4 vikur voru í Brasilíukeppnina gafst ég upp og hætti við. Það sem réði úrslitum með þá ákvörðun voru sko alvöru „meiðsli“ með alvöru sársauka sem gerði það að verkum að ég gat ekki með nokkru móti hjólað. Þetta voru sko „álagsmeiðsli“ í klofi/hnakksvæði sem hafa reyndar verið krónískt vandamál hjá mér.  Er betri inná milli ef ég passa að sitja ekki dag eftir dag í hnakknum, en með versnunum. Þar með var IM Brasilía úr sögunni og ég sá ekki fyrir mér að IM Barcelona myndi ganga heldur vegna þess hve illa gekk með hlaupin og í raun hjólið líka. Ég mætti til dæmis ekki á fund með Viðari Braga og öðrum Blikum sem voru á leið til Barcelona í upphafi æfingaprógramms í sumar, ég var ekki að fara. Þarna var allt orðið hálf vonlaust, ég farin að hugsa um hvaða annað tómstundargaman ég gæti fundið mér ef ég hætti í þríþraut.

Tímamótin

En svo kemur að ákveðnum tímamótum þegar ég fer til kírópraktors. Hafði mjög litla trú á að það myndi gera neitt fyrir mig en ákveð að prófa. Skv. röntgenmyndum var ég með snúning á spjaldhrygg og snúning upp eftir allri hryggjarsúlunni. Það var bara eins og við manninn mælt að eftir 1-2 hnykk-tíma þá var bara tilfinningin á hjólinu orðin allt önnur. Ég var bara orðin miklu aflmeiri og fór meðal annars 100 km hjólatúr þar sem ég kláraði túrinn sterk. Þetta var ótrúlegt, meira að segja kírópraktorinn trúði þessu ekki. Líklegast voru þetta bara lyfleysuáhrif. Hvað um það, um miðjan júlí í sumar fer ég fer í TT Kleifarvatnskeppnina og var bara full af orku, kláraði sterk og bætti FTP-ið mitt frá því í júní um ca 7%. Ég átti sem sé mánaðargamalt FTP test sem ég tók fyrir WOW-cyclothonið og á þessum mánuði hafði ég bætt mig umtalsvert. Ekkert sérstakt sem ég var að gera öðruvísi á þessum mánuði. Eftir velgengni mína í TT-keppninni og almennt betri upplifun á hjólinu plantaðist fræið um að kannski gæti ég bara farið til Barcelona, en ég var samt ekki alveg að trúa þessari breytingu á mér. Ákveð að halda áfram æfa hjólreiðarnar, tók langar hjólaæfingar um helgar með æfingafélögum mínum sem voru á leið til Barcelona, en fór meira svona sem selskapsdama frekar en ég væri að æfa fyrir IM. Ég ræddi samt við Viðar Braga um það að leyfa mér að fylgjast með IM æfingaprógramminu, ef ske kynni að ég gæti farið. Hugmyndin var æfa hjólreiðarnar og sundið og sleppa því að æfa hlaupin, ég myndi bara labba hlaupalegginn. Viðar Bragi ráðlagði að í staðinn fyrir hlaupaæfingar myndi ég bæta inn 4. hjólaæfingunni (muscular endurance) og 4. sundæfingunni. Var samt öðru hvoru á þessu tímabili að prófa að hlaupa, fara á Esjuna en ég var ennþá hálf máttlaus í fætinum og gat ekki hlaupið án þess að þurfa að stoppa á nokkur hundruð metra fresti til að hvíla fótinn. Hjólreiðarnar gengu hinsvegar ótrúlega vel, og sundið gekk líka vel. Ég varð bara sterkari og sterkari með hverri æfingunni!! Þetta var stórkostleg breyting á mér og seinnipartinn í ágúst tek ég endanlega ákvörðun með það að fara í keppnina. Planið var ennþá að labba hlaupalegginn, hafði lítið hlaupið í sumar og bara stuttar vegalengdir. Í lok ágúst ræddum við Viðar að ég þyrfti nú að kannski að bæta einhvers konar hlaupi eða göngu inn í prógrammið, bæði til að halda hlaupa/göngu-vöðvum í æfingu og svo kannski til að sjá hvað væri raunhæft að ég gæti farið hratt yfir í keppninni. Prófaði þá að strunsa í 2 klukkustundir. Í því testi fann ég út að það hentaði mér að hlaupa/jogga í svona ca 20 andartök og ganga svo í 10 andartök. Eftir þessi 20 andartök var komin uppsöfnuð þreyta í hægri fótinn en með því að ganga inná milli var þetta vel gerlegt. Næstu vikurnar æfði ég þetta og var bara komin í ágætis gír. Þetta struns var orðið nokkuð stabílt á ca. 7 pace sem þýddi að ég ætti að geta farið hlaupalegginn á 5 tímum. Stuttu fyrir keppni tók ég nýtt FTP test og hólý mólý það var ekkert smá mikil bæting (9% bæting frá því í júlí-testinu og 17% bæting frá júní-testinu). Nú var áætlað afl sem ég ætti að geta haldið í keppninni, 30 wöttum hærri en í NZ, það munar nú aldeilis um minna. Ég var líka komin í betra sundform heldur en þá. Ég gerði mér því vonir um að ef allt myndi ganga upp þá gæti ég kannski farið undir 13 tímum. Viðar Bragi áætlaði að ég myndi fara þetta á 12 ½ tímum.

Eins og í draumi

Í raun er frekar lítið um IM Barcelona keppnina sjálfa að segja. Það voru draumaaðstæður þennan dag, hitastig í kringum 20 gráður, skýjað og sjórinn var sléttur. Var bara afslöppuð og hafði góða tilfinningu fyrir keppninni. Var reyndar með hálsbólgu og kvef 2-3 dögum fyrir keppni en leið ágætlega á keppnisdeginum. Sundið gekk vel, rúllandi start (sundtími: 1.08). Hjólaleggurinn gekk líka algerlega eins og í sögu. Var með fulla orku allan tímann, og alls ekkert neitt þreytt og orkulaus seinni helminginn eins og í NZ. Nærði mig á klukkustundarfresti og þá með einu geli, orkubar, eða snickers bita. Þetta var minni orkuinntaka heldur en í NZ en þá tróð ég í mig einhverju á 45 mín fresti. Það var bara allt of mikið fyrir mig (hjólatími 5.22 og meira en klukkutíma bæting frá NZ). Kom fersk inn í T2 og tilbúin í strunsið. Hitti Viðar Braga í brautinni sem sagði að ég væri 4. í aldursflokki eftir hjólið og nú væri bara að halda struns-áætlun. Fyrstu 10 km gengu vel, ca. pace 7 en svo fór mér að verða flögurt þannig að ég þurfti að hægja á mér. Hélt samt meira og minna planinu að labba ekki meira en 10 andartök, en „hlaupaparturinn“ styttist og það hægðist á mér. Hlaupatíminn endaði í 5.20 sem er ca hálftíma bæting frá NZ. Næring á hlaupinu var 1 kóksopi á hverri drykkjarstöð og 2x fékk ég mér appelsínusneið. Var með harðfisk sem ég ætlaði að narta í á hlaupunum, en það var ekki að gera sig og ekki séns að ég kæmi niður geli. Fannst ég ekki endilega vera orkulaus heldur bara með flökurleika sem var hægt að halda í skefjum með því að fara hægt yfir.

annahelgadottir1
Komið í mark á Nýja-Sjálandi. Myndirnar frá Barcelona prentuðust ekki nógu vel!

Endaði keppnina í 14.sæti í aldursflokki (50-55 ára) af 41 sem kláruðu og það má segja að ég sé bara í skýjunum með þetta.

Er búin að átta mig á því að það er hægt að vera „meiddur“ án þess að vita af því –  sem er mjög absúrd. Þannig var klárlega ástandið í aðdragandanum að NZ og ástæða þess að ég gat ekki meira en ég gerði í þeirri keppni. Það var greinilega eitthvað sem var að hrjá mig, eitthvað sem átti eftir að koma betur í ljós seinna… Þetta concept mun örugglega enginn skilja sem les þetta en fyrir mér er þetta svona.

Eftir niðurstöðuna úr IM Barcelona og eftir eftir þróun síðustu vikna og mánuða í mínum „meiðsla“-málum er ég klárlega ekki búin að gefast upp á þríþraut. Við Gúa erum meira að segja búnar að ákveða næsta IM.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s