Eva Ólafsdóttir segir frá:
Ég tók þátt í mínum fyrsta heila járnmanni þann 6. október síðastliðinn og þvílík upplifun! Við mættum á keppnissvæðið á sunnudagsmorgni í svartamyrkri og horfðum á sólina rísa úr Miðjarðarhafinu. Það var blankalogn og nánast sléttur sjór þegar sundið var ræst. Ég reiknaði með að vera 1:30 – 1:40 með sundið og tók mér stöðu í 1:30 hólfinu. Startið var rúllandi og fimm ræstir í einu á fimm sekúndna fresti og hlaupið út í sjó. Leiðin virtist endalaus en sundið gekk vel og ég dundaði mér við að telja marglyttur og leita að Nemo (fann hann ekki). Sjórinn var dásamlegur, 21 gráða og ég slapp að mestu við högg og spörk frá öðrum keppendum. Nokkrir voru á bringusundi og tóku dálítið pláss en ég náði að drafta á milli og ná þannig upp hraða og kláraði sundið á 1:29:40. Ótrúlega ánægð með það og þessi grein, sem ég var lélegustu í fyrir ári síðan reyndist mér sú auðveldasta í keppninni. Grunnur minn í sundi er sá að ég skrópaði í flesta tíma í skólasundi og lauk aldrei þeim stigum sem til var ætlast. En ég er vön sjónum og hef synt í honum allt árið síðustu 9 ár, en alltaf á bringusundi þó þar til ég fór að æfa með Ægi3 í fyrrahaust.
Ég hljóp upp úr sjónum og var blessunarlega laus við sjóriðu sem ég hef annars oft fundið fyrir og byrjaði að fletta af mér gallanum á hlaupunum upp á skiptisvæðið. Var smá stund að gaufa þar, borðaði eitt hnetustykki sem hafa hentað mér vel á æfingum og í keppnum, hoppaði í hjólagallann og af stað út í hjólabrautina. Þar sem rassinn hefur þolað illa langar setur á hjólinu þrátt fyrir að hafa prófað nokkra mismunandi hnakka, var ég búin að klippa gamlar hjólabuxur og fór í þær utan yfir gallann. Þessi extra púði hefur alveg bjargað mér á löngu æfingunum og kom sannarlega að góðum notum þessa 180 km, en ég hafði lengst hjólað 140 km fram að þessu.
Hjólið (tveir 90 km hringir) gekk bara ágætlega en strax í byrjun pípti úrið á mig að wattamælirinn væri batteríislaus. Var samt nýlega búin að skipta en hvað um það – þýddi ekkert að fárast yfir því úr þessu. Ég náði að næra mig og vökva vel á hjólinu, borðaði á ca. 40 mínútna fresti gel og hafrastykki sem ég var með í bitum í hjólatöskunni. Var auk þess með salttöflur og svo sterka blöndu af söltum og bcaa í einum brúsa sem ég tók smá sopa af reglulega. Svo alltaf vatn á hverri drykkjarstöð, bæði innvortis og útvortis til að kæla mig en hitastigið var reyndar fullkomið þennan dag, um 20 gráður og að mestu skýjað (náði samt á einhvern undraverðan hátt að sólbrenna, en það er svosem ekkert nýtt fyrir mig). Á seinni hringnum fór ég aðeins að fá sjóntruflanir og tók þá strax salttöflu og drakk vel af vatni. Það lagaði ástandið aðeins en síðustu kílómetrana var fjarlægðarskynið í rugli og sjónin eins og ég væri á sýru (ímynda ég mér, án þess að ég hafi reynslu af slíku ástandi!). Kannski var ég bara á mjólkursýru J Ég hefði gjarnan viljað vera á 6:20 – 6:30 á hjólinu en lokatíminn var 6:53:53. Ætla samt ekki að eyða tárum í það og gott að eiga þarna rúm fyrir bætingu.
Ég skottaðist af hjólinu upp á skiptisvæðið aftur og beint í hlaupagallann. Borðaði líka annað hnetustykki á meðan ég gekk frá hjóladótinu. Ég var frekar spennt fyrir hlaupinu því ég er sterkust þar og hlakkaði til að enda á því. Planið mitt var að fara út á 5:40 hraða og reyna að halda honum sem lengst. Draumurinn minn var að ná undir 4 tíma sem ég vissi að væri ansi bratt og til þess að það næðist þyrfti allt þyrfti að ganga upp. Brautin var nokkuð fjölbreytt og skemmtileg og hlaupnir þrír 14 km hringir. Mér leið vel þrátt fyrir að smá þreyta væri farin að segja til sín, en eftir um 12 km heimtaði maginn að ég stoppaði og þá hlýðir maður. Þarna fóru dýrmætar 4 mínútur en ég hélt ótrauð áfram og markið færðist nær. Ég tók gel og vatn á fyrri tveimur hringjunum en svo bara kók á þeim síðasta. Braut þar gullna reglu því ég hef aldrei drukkið kók í keppni og drekk venjulega ekki gos. En kókið hressti mig við og var kærkomin tilbreyting frá gelunum. Það var komið svartamyrkur á síðasta hringnum og skemmtileg stemning í brautinni, hlauparar reyndar orðnir í mjög misjöfnu ástandi en mér leið ennþá vel þrátt fyrir smá þreytu. Við lok síðasta hrings tók ég snarpa hægri beygju og hljóp lokasprett niður rauðan dregil og alla leið í mark! Lokatími í hlaupinu 4:02:28 – og hefði náðst undir fjórum ef mallinn hefði ekki verið með stæla.
Tilfinningin að klára járnið eftir allan undirbúninginn er ólýsanleg og ekki laust við að ég fengi kusk í augað þegar ég heyrði nafnið mitt kallað: „You are an Ironman!“ Heildartíminn minn var 12:37:59 og ég er bara sjúklega ánægð með það.
Ég fór strax og fékk mér að borða og drekka og passaði að halda mér á hreyfingu. Rölti svo að sturtunum þar sem eintómir karlmenn voru að baða sig svo ég fór og spurði starfsmann um kvennasturturnar. „Welcome to Spain!“ var svarið – hér baða allir sig saman. Sturtan var ísköld – sem var kannski bara gott því ég tók enga niðurdýfu eftir keppnina og á engar gubbusögur handa ykkur. Leið bara ótrúlega vel og þvílíkt glöð með að hafa klárað. Ég var búin að fara vel í gegn um keppnina í huganum og undirbúa mig því ég hef stundum dottið í neikvæðar hugsanir og niðurrif í þeim maraþonum sem ég hef hlaupið. En gleðin var með mér alla leið í IM Barcelona og frábært að labba frá þessu með svo jákvæða upplifun J Brautin er frábær – flöt og skemmtileg og ég mæli 100% með henni sem fyrsta járninu!
