Hitinn, vindurinn og allt hitt brjálæðið í Lanzarote

Sigurður Örn segir frá:
Það var seint í sumar sem ég ákvað hvaða keppnir skyldu verða fyrir valinu hjá mér til að loka þessu tímabili en ég var lengi að velkjast fram og til baka með hvert ég ætti að fara. Það var margt í boði en samt eitthvað svo takmarkað sem ég hafði áhuga á. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að Weymouth og Lanzarote skyldu verða punkturinn yfir i-ið hjá mér og skráði mig því í þessar tvær keppnir ásamt því að bóka flug og hótel.
Til að gera langa sögu stutta í sambandi við Weymouth, þá sprengdi ég dekk þar – já AFTUR vesen á hjólinu – og engin leið að gera við það á staðnum. Sú keppni var því ónýt eftir um 950m sund og 18 km hjól, en sundið hafði verið stytt vegna örðugleika við að setja upp baujur í sjóinn daginn áður. Spólum því fram um tvær vikur og þá erum við mætt á „eldfjallið“ Lanzarote.
Lanzarote, líkt og Fuerteventura, og mjög líklega aðrar eyjur þarna í Canaria-klasanum er mjög fyndinn staður. Yfirborð eyjunnar minnir helst á Mars og ekkert nema gígar og brúnn sandur svo langt sem augað eygir. Stöku runnar finnast víða og í raun ótrúlegt að gróður nái yfir höfuð að festa rætur þarna miðað við það að það eru að minnsta kostir 8 m/s allan sólarhringinn. Strendurnar eru þó mjög fínar og aragrúi af hótelum hafa risið við helstu staðina á eyjunni. Af þeim sökum koma bara tvær týpur af fólki til Lanzarote – annars vegar íþróttafólk sem ætlar sér að æfa eða keppa af sér allt vit, og hins vegar fólk sem er ekki komið til neins annars en að liggja á sama staðnum í sólinni næstu dagana.
Ég var jú að sjálfsögðu hluti af fyrrnefndum hóp fólks enda Ironman 70.3 Lanzarote næst á dagskrá. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég mætti var ótrúlegur hiti, en yfir daginn náði hann yfirleitt um 30 gráðum og sólin bakaði fólk á heiðskýrum himni. Það var því útlit fyrir áhugaverða keppni.
Daginn fyrir start fengum við að vita að sundinu hefði verið aflýst vegna skipunar frá spænskum yfirvöldum, en hætta var á því að svarmur af lífshættulegum marglyttum myndi skola upp að landi á bæði Lanzarote og Fuerteventura og því allt almenningssund á þessum stöðum bannað. „Yndislegt“, hugsaði ég – þá er búið að kippa bestu greininni minni úr keppni og því sú forysta sem ég hafði venjulega á flesta gaurana algjörlega farin. Okkur var svo tjáð að við yrðum startaðir allir í einu, 43 saman, og því yrðu slagsmál að komast inn á skiptisvæðið, fara í pokana og ná í hjálminn fyrir hjólið. Þetta gat bara ekki klikkað. Eitt var þó víst – þetta myndi skapa frábært efni fyrir áhorfendur á hliðarlínunni, sem það jú gerði.

10_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_006399-34381633
Keppnisdagur
Að morgni keppnisdags fór ég niður í morgunmat á hótelinu kl 5:00 og fékk mér létta máltíð sem samanstóð af eggjahræru, brauðsneiðum með nutella og banana. Hélt svo upp á herbergi til að klára að taka saman fyrir keppnina. Var mættur um 90 mín fyrir start til að pumpa í dekkin á hjólinu og klára að setja allt upp. Það átti eftir að verða heitt, svo planið var að byrja með 750ml af vatni, 10 gel í brúsa ásamt vatni og Aquarius íþróttadrykk í öðrum 500ml brúsa. Ég myndi svo henda brúsunum og fá nýja á drykkjarstöðvunum. Lykillinn myndi verða að stýra álaginu og vökva sig rétt yfir alla 90 km til að eiga einhvern séns á að verða starfhæfur á hlaupinu.
Korter í start var okkur strákunum safnað saman við startlínuna, en planið var sem sagt að við myndum hlaupa inn á skiptisvæðið og að pokunum okkar til að ná í hjálmana. Eins og ég nefndi hér að ofan, þá var þetta líklega ekki alveg hugsað út í gegn, en plássið fyrir framan snagana þar sem pokarnir héngu var ekki mikið og rúmaði svo sannarlega ekki 43 einstaklinga. Engu að síður vorum við startaðir svona og þá hófst fjörið.
Allir þutum við að snögunum og fljótlega myndaðist svona skemmtileg „umferðarteppa“ við innganginn að okkar rekka. „Absolute carnage“ og „what a shitshow“ heyrðist í einhverjum fyrir utan girðinguna þegar fólk fylgdist með 43 fullvaxta karlmönnum, klæddum þröngum og litskrúðugum samfestingum, berjast innan um hvorn annan til að ná í númeraða lilla-bláa poka sem héngu á snaga. Svona eins og á leikskólanum í den, fyrir utan að þá var þetta merkt með nafni en ekki númeri. Ég var búinn að ákveða að vera ekki að stressa mig mikið enda ætlaði ég mér að klára þessa keppni og því ætlaði ég ekki að gera þau mistök að fara of hratt af stað og enda á því að klára orkuna. Svo ég fékk hjálminn á endanum og hélt að hjólinu. Hjálmur á hausinn, hjólið gripið og ÚT.
Þetta byrjaði ekkert allt of vel þegar ég hoppaði á hjólið og fipaðist þannig ég klessti beint á grindverkið til vinstri í hjólabrautinni. Æjæj, fæ kannski að sjá replay af þessu undir „fails“ á Reddit.com einhvern tímann. Kemur í ljós. Náði að komast á hjólið og hélt af stað.
Keyrslan út úr bænum var andstyggilega erfið sálrænt þar sem manni fannst að það væri ekkert að gerast þrátt fyrir ákefðina. Ég hélt 315W fyrstu 45 mínúturnar en fór ekki nema rétt rúma 20 km á þeim tíma sökum hækkunar og brjálaðs vinds en það var á tíma erfitt að halda sér á hjólinu. Three-spoke framgjörð og diskur að aftan hjálpuðu líklega ekkert mikið í þessum aðstæðum og gerðu illt verra ef eitthvað var. Ég drakk vel og hélt mér nærðum á þessum tíma en ég ætlaði að passa að lenda ekki í því að „krassa“ næringarlega séð. Ég vildi því ná að koma slatta ofan í mig á fyrri hluta hjólsins til að geta sett inn betri síðari helming.

5_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001731-34381628
Næstu 40 mínútur voru skárri þar sem við vorum mikið til í skjóli frá vindi og lentum í því að fá vindinn í bakið á hluta leiðarinnar og því meðalhraðinn þar um 40 km/klst með rúllandi hækkun og lækkun upp á 320 metra. Það var aðeins þægilegra sálrænt og þá sérstaklega þar sem að hér var ég farinn að éta uppi nokkra hjólara sem höfðu byrjað of hratt og þurft að hægja á sér. Ánægjulegt að vera sá sem tekur fram úr til tilbreytingar, gæti vanist þessu en geri mér engar vonir samt sem áður. Við komum fljótlega að síðasta klifrinu áður en við tók sléttur kafli síðustu 30 km hjólsins. Þetta var brútal en rúsínan í pylsuendanum var sú að það var drykkjarstöð á toppnum og því til einhvers að hlakka. Ég var búinn að þaulplana þetta í hausnum, búinn að klára úr brúsunum hjá mér og ætlaði svo aldeilis að taka þetta með stæl. Þegar ég nálgast drykkjarstöðina held ég á tómum brúsa í vinstri hendi og ætla að henda honum í ruslakörfuna. Þetta tekst ekki betur en svo að í leiðinni og ég hendi brúsanum slæ ég Garmin Edge tölvuna mína úr stæðinu sínu og hún fleygist af hjólinu og í götuna. What. A. PRO. Annað myndskeið fyrir fail-compilation ef einhver var með video-upptöku í gangi þarna. Jæja, mjög ákafur sjálfboðaliði rétti mér tölvuna aftur, ég henti brúsum á hjólið og fyllti á vatnið áður en ég hélt áfram og tapaði nú líklega ekki nema bara 15 sek þarna sem liðu þó eins og tvær mínútur.

Fokið niður brekku
Næsti kafli var síðasti tæknilega erfiði kaflinn í brautinni en hérna fórum við niður rosalega brekku í brjáluðum vindi á leið okkar aftur til bæjarins. Ég hugsaði oft um líf mitt á leiðinni þarna niður og þurfti ekki að gera neitt annað en að liggja á bremsunum til að halda hraðanum bara á 74 km/klst. Mér fannst það svona það mesta sem ég þoldi andlega. Eftir keppnina sá ég að Fredric, sá sem sigraði, fór á 94 km/h þarna niður og ég á erfitt með að trúa því, ekki nema hann eigi sér dauðaósk. Eftir að komast loks í bæinn aftur tók við 30 km lykkja fram og til baka sem var að mestu flöt en á þessum tímapunkti var orðið ansi erfitt að halda afli og síðustu 20 mínúturnar voru eingöngu á um 270W að meðaltali þar sem vöðvarnir voru orðnir of tollaðir eftir að hafa barist við vindinn og brekkurnar. Hjólið endaði í um 2:29 klst, en ég hef sjaldan verið jafn feginn að klára hjólalegg í keppni og ég var þarna.
Normalized afl yfir 90 km hjólið var 300W, sem var aðeins undir væntingum mínum en ég hafði vonast eftir allavega 310W á góðum degi. Líklega hefur hitinn og vindurinn spilað stórt hlutverk þar. Ég drakk samtals 4 lítra af vökva yfir hjólið og átti það líklega stóran þátt í því hversu ferskur ég var til að byrja með í hlaupinu.

Hlaupið var fjórir 5 km hringir plús smá kafli í átt að marklínunni. Þetta byrjaði vel, fyrsti hringurinn var á target pace, um 3:41/km og mér leið vel. Í lok fyrsta hringsins kom Frederic, sigurvegari dagsins, fram úr mér og til marks um það að formið var í góðu lagi náði ég að halda vel í hann langt inn í hring númer tvö. Mér leið stórkostlega, nýtti drykkjarstöðvarnar vel, hellti yfir mig, drakk vel, notaði svampana og tróð þeim inn á gallann til að nota á milli stöðva. En rétt eins og nóttin er dimmust áður en birtan kemur, er dagurinn einnig bjartastur áður en myrkrið skellur á. Á þriðja hring er eins og einhver hafi sprengt blöðru. Allt í einu var öll sú orka sem ég bjó yfir farin og það fór að hægjast vel á mér. Ég reyndi að einbeita mér að tækninni og halda skrefatíðni stöðugri, anda rólega og reyna að komast aftur í rhythma en allt kom fyrir ekki. Ég ákvað á þeim tímapunkti að það yrði bara markmið númer eitt, tvö og þrjú að komast í mark. Þegar hér er komið við sögu var hitinn kominn upp í 33 gráður og heiðskýrt á himni með sólina beint fyrir ofan sem bakaði okkur rækilega. Þegar munurinn á kjörhita líkamans og úthitastigi er eingöngu 4°C er því miður ekki mikið eftir til að vinna með hvað kælingu varðar og því var líkaminn í raun bara að ofhitna á þessum tímapunkti. Þetta sést líka á aflinu á hverjum hring, en á meðan hjartslátturinn hélst stöðugur eða jókst meira að segja örlítið, fór aflið á hverjum hring úr 351W, niður í 333W, þaðan í 315W og loks 295W á síðasta hring.
4_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001595-34381627Þetta endaði svo á því að ég tapaði endasprett við Manuel Kung, en sá hefur oft átt betri keppni og endar oftar en ekki á palli í þessum keppnum. Segir ýmislegt um það hvernig dagurinn var að fara í menn þarna og sýnir líka að þeir bestu geta átt slæman dag og verið eins og við hin sem erum mannleg 😛 . Ég endaði að lokum 18. PRO og 21. í heildarkeppninni og því einhverjir þrír sterkir Age Group gæjar sem hafa laumað sér á topplistann með okkur í PRO flokknum. Af þeim 43 sem að hófu keppni kláruðu hins vegar bara 23 í PRO og segir það nokkuð um erfiðleikastigið í dag. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta og sérstaklega í ljósi þess að mín sterkasta grein, sundið, var ekki hluti af keppninni. Þetta hefði hæglega getað farið allt öðruvísi hefðum við fengið að busla í 20-30 mínútur í sjónum áður en við stukkum á hjólið en það verður að bíða betri tíma.
Nú tekur við pása hjá mér næstu tvær vikurnar áður en undirbúningur fyrir næsta tímabil hefst. Það eru stór markmið framundan og verður gaman að deila því með ykkur þegar þar að kemur. Þangað til næst!
Siggi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s