Hamagangur í Hamborg

Sebastian Vignisson segir frá:

IRONMAN Hamburg 🇩🇪 Sund – 1:15:10 Hjól – 6:32:03 Hlaup – 4:18:15 Heildar tími með skiptingum – 12:23:11

Þeir sem þekkja mig vita að ég hef alltaf haft gaman af áskorunum. Það hafa allskonar þrautir og áskoranir blundað í mér og þegar ég frétti af IRONMAN að þá fann ég pínu kítl við að láta reyna á það. Mér fannst fólk vera ruglað sem keppti í þessu og hvað þá kláraði. Vegna fáfræði minnar að þá vissi ég ekki að það væri keppt í svona löngum þríþrautum á Íslandi og var ekki alveg að tíma að leggja allann þennan kostnað að fljúga út fyrir eina keppni sem að ég vissi ekki hvort ég gæti klárað. Þannig þegar ég flutti út til Þýskalands varð þetta mun einfaldara. Mig langaði helst að æfa sem minnst fyrir þetta og taka þetta bara á hörkunni. Ég var eitthvað að tala um að langa að fara í IRONMAN í vinnunni þegar einn vinnufélagi minn sagði að hann væri alveg til í að gera þetta með mér. Ég hló bara og sagði að það væri geggjað. Næsta dag kom hann til mín og sagði að hann hafi verið að leita af hjóli til að kaupa í allt gærkvöldi. Ég trúði ekki að honum væri alvara með að fara í þetta með mér. Þá er ekkert annað í stöðunni en að leita að hjóli og bíða eftir að skráningin opni. Þegar skráningin loks opnaði náði ég að kaupa miða en ekki hann.

Þegar ég skráði mig var það lengsta sem ég hafði hlaupið 15km. Ég átti ekki reiðhjól og hafði aldrei prufað að hjóla á “racer”. Ég hafði einu sinni synt í opnu vatni en það má varla telja með þar sem ég þorði varla að setja hausinn ofaní 😂 Ég vissi ekkert hvað ég var búinn að koma mér út í og vissi ekkert hvernig ég ætlaði að leysa þetta verkefni. Ég keypti mér æfingarplan á netinu og byrjaði á fyrstu æfingunni 25.október 2020. Ég fann þríþrautaklúbb í bænum mínum og hafði samband. Ég náði að mæta á eina hlaupaæfingu áður en öllu var lokað vegna covid. 🤢 Ég lét það ekki stoppa mig og æfði einn eftir mínu plani. Ég horfði örugglega á yfir 1000 youtube myndbönd um hvernig ætti að gera hitt og þetta. Öll byrjenda myndböndin voru gerð fyrir fólk sem var að fara í styttri vegalengdir, ekki full distance eins og vittleysingurinn ég. Þegar leið á æfingarplanið fann ég að það var alls ekki að passa fyrir mig þannig ég tók málin í mínar eigin hendur og fór að breyta planinu með allri youtube þekkingu minni 😂 Æfingarnar voru margar mjööög langar og ég get ekki sagt að ég hafi verið ógeðslega æstur að fara á allar æfingar. En þá var rosalega gott að vera með eina Sólrúnu sem sparkaði manni út úr húsi og á æfingu🙏🏼

Stressið var alls ekki að hrjá mig fyrir keppni og það er bara ótrúlegt að ég hafi náð tveim nóttum af góðum svefn fyrir keppnina. Á keppnisdags morgun þegar maður sá alla keppendurna vera komna saman að fara yfir skipti pokana og tékka hvort hjólið væri ekki í lagi kom stressið. Ég hélt að ég myndi æla og fannst ég vera eins og dúfa á sædýrasafni, passaði engan veginn inn í. Sem betur fer að þá náði ég að spjalla við einn danskan strák sem var í sama sundholli og ég. Það róaði mig töluvert að geta dreift huganum. Þegar röðin var komin að mér að fara ofaní vatnið gat ég ekkert annað en brosað, það var komið að þessu! Vatnið var í kaldari kantinum, 17,5 gráður 🥶 og frekar skítugt. Skyggnið var um 1,5m ofaní vatninu. Sundbrautin var mjög skemmtileg og fór undir nokkrar brýr. Þegar ég synti undir brýrnar sá ég ekki neitt, bara synda í átt að ljósinu hinu megin og vonast til að synda ekki á annan keppanda. Þegar ég kom upp úr sundinu voru tærnar frekar kaldar en það skipti engu máli þegar ég sá að ég synti 3,8km á 1klst og 15mín🤯 Ég brosti út að eyrum þegar ég sá allt fólkið vera að hvetja mann áfram. Þegar ég var búinn að skipta úr blautgallanum og setja á mig hjálm hljóp ég að ná í hjólið.

Hjólabrautin voru þrír 60km hringir. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar kaldir meðan ég var ennþá að þorna eftir sundið. Það skipti samt litlu máli þar sem það skiptist á að vera rigning og skýjað restina af hjólinu. Það varð alveg augljóst að hjólið er mín veikasta grein þar sem það tóku örugglega 200 manns framúr mér þar. Það var guðsgjöf að fá að pissa og fá hálfan banana í km 110 þegar ég var orðinn vel þreyttur. Orkan sem að ég fékk úr banananum var ótrúleg og ég var með minions að syngja “ba ba ba bananana” á heilanum í vel yfir klukkutíma. Ég kláraði 180km hjólatúrinn á 6klst og 32mín. Þá var loksins komið að hlaupinu. Hlaupabrautin var mjög skemmtileg og áhorfendavæn þannig Sólrún, mamma og Díana gátu hvatt mig vel áfram. Það var líka mjög skemmtilegt að fá að sjá restina af fjölskyldunni á facetime hjá Sólrunu þegar ég kom framhjá. hlaupið var fjórir 10km hringi í miðbæ Hamburg. Fyrsti hingurinn gekk mjög vel, mér leið rosalega vel að vera kominn af hjólinu og fá svona mikla hvatningu. Ég var í kring um 6:00 pace á fyrsta hringnum. Hringur tvö var svolítið erfiðari en ég náði þó að halda ágætu tempoi, ca. 6:25 pace. Það sem gekk á í hausnum á mér þann hring voru aðallega samningsviðræður við magann um hverju ég gæti komið niður á næstu drykkjarstöð.

Sebastian og Sólrún rétt fyrir keppni. Allt tilbúið. Ekki var synt með grímuna!

Í byrjun á þriðja hring stoppaði ég aðeins til að ná í mikilvægt knús frá Sólrúnu. Hringur þrjú var lang erfiðasti hringurinn og ég var farinn að halda að ég byrjaði of hratt. Ég hljóp á ca. 6:45 pace. Ég reyndi að borða aðeins meira og náði að innbyrgða svolítið af koffíni. Þegar ég var kominn á hring númer fjögur fann ég lyktina af endamarkinu og orkan farin að skila sér til vöðvanna. Þegar það voru 8km eftir fannst mér ég eiga smá orku eftir og bætti töluvert í hraðann, fór niður í 5:35 pace. Þegar hringurinn var að klárast fann ég varla fyrir þreytu. Adrenalínið tók öll völd og ég spretti í áttina að endamarkinu. Heilt marathon klárað á 4klst og 18mín. Það var ótrulegt að koma í mark á þessum tíma 12:23:11 sem var betri en besti tími sem að ég gerði mér von um. Ég settist niður eftir endamarkið með tárin í augunum að reyna að trúa því að það var ég sem átti þennan frábæra tíma! Þegar ég ætlaði að standa upp aftur sagði þreytan loks til sín. Það tók við dálítill spölur af labbi inn í athlete garden þar sem ég fékk að skipta um föt og fékk finisher bolinn og medalíuna.

Labbið aftur upp á hótel eftir keppnina var þrekraun útaf fyrir sig 😂 Ég er rosalega þakklátur fyrir alla sem studdu við mig í þessu. Þá sem nenntu að spjalla við mig í símann á meðan ég var að hlaupa löngu túrana og í þau fáu skipti sem það kom einhver með mér út á æfingu. Þetta hefði ekki verið mögulegt án Sólrúnar. Hún hífði mig upp eftir erfiðar æfingar þegar efasemdirnar voru sem mestar og hélt mér líka á jörðinni þegar ég var með hausinn í skýjunum. Þetta var rosaleg lífsreynsla sem ég mun seint gleyma og hver veit nema þetta verði endurtekið🤭 en þá verður það klárlega með góðum æfingafélaga og eftir þó nokkur ár! Þetta var mín fyrsta enn alls ekki síðasta þríþraut þó þær verði kannski í styttra lagi miðað við þessa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s