
Þráhyggju-Þrándur sigraður. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa langloku:
Ég kláraði Ironman Italy- Emilia-Romagna 2021
3.8 km sund – 1 klst 5min og 52 sek
180 km hjól – 5 klst 6 min og 4 sek – 35,29 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 18 min og 59 sek – 4:43 pace
Lokatími : 9 klst 39 min og 18 sek, 16 sæti af 276 í aldursflokki af þeim sem kláruðu, 60 sæti af 1501 skráðum. Fimmta heila Ironman keppnin mín á fimm árum.
Hér kemur langlokan fyrir ykkur hin. En ég mæli með að þið náið ykkur í kaffibolla áður en lengra er haldið, eða setjið popp í örruna, fer eftir tíma dags.
Að skrifa svona pistil hjálpar að viðhalda minningum sem dofna með árunum. Vona að þið látið ekki egóið mitt angra ykkur og vonandi hafið þið gaman af.

Undirbúningur. Eftir Ironman í Eistlandi 2020 var stefnan fljótt sett á Ironman á Ítalíu 2021. Æfingar voru mikið til smíðaðar af mér sjálfum þó Geir Ómarsson hafi verið með puttana í þessu með mér, og fær hann hér með þakkir fyrir. Markmiðin voru skýr eftir að tíminn í Eistlandi náðist ekki, það skyldi farið undir 10 klst í heilum Ironman. Annars kæmi ég ekki heim aftur. Þeir sem hafa verið lengi í þríþrautabransanum skilja þetta. Það þarf mikinn tíma, samviskusemi, heppni, góðan maka og dugnað til að standast þessi markmið. Þessar 10 klst voru orðnar að þráhyggju hjá mér. Hana skildi sigra.
Veturinn var mildur og gekk vel þó Covid setti smá strik í reikninginn með æfingar hjá Ægir3. Ég gat hjólað mikið til vinnu. Hafði einnig hlaupabretti, hjólatrainer og samviskusemi í pain cave skúrnum mínum sem gerðu sitt gagn. Ég fékk svo þá hugdettu að senda Jenna frænda línu hvort hann myndi ekki skella sér í hálfan Ironman með mér sömu helgi. Hann hugsaði málið í tvær vikur og úr varð að Jens Ingvarsson og Erla Edvardsdottir stigu í vagninn og hófu æfingar. Þegar leið á sumarið fann ég og sá á öllum tölulegum gögnum að bætingar voru að eiga sér stað sem gaf góð fyrirheit. Sérstaklega var hlaupið að koma sterkt inn þar sem PB tímar í 10km hlaupi og hálfmaraþoni duttu í hús. Ég tók grimmt þátt í hlaupakeppnum og í júlí var kominn tími að hlusta á líkaman þar sem uppsöfnuð þreyta var farinn að segja til sín.

Lokahnykkurinn var mikilvægur og þá sérstaklega hlaupaæfingar Sigurður Tómas Þórisson sem gerðu útslagið. Takk Siggi! Nú átti að toppa á réttum tíma. Það þurfti hinsvegar að krossa fingur og forðast hina alræmdu Covid veiru sem gæti bundið enda á ferðina til Ítalíu. Þegar vika var í brottför duttu smá áhyggjur í hús. Sonurinn var orðinn veikur. Hann fór með móður sinni í Covid test. Það var kvefpest að ganga svo ég hafði ekki svo miklar áhyggjur. En svo líður og bíður og þegar ekki kemur svar úr testinu og við förum að skoða málið betur kemur niðustaða: vafamál. Ég fékk létt sjokk. Hvað þýðir vafamál? Kannski en samt ekki Covid? Drengurinn þarf að fara í annað test og biðin í einn dag í viðbót var vond. Er ég kannski líka að vera veikur? Ég byrjaði að ræskja mig og finna fyrir ýmsum einkennum, gæti þetta verið Covid? Óþægilegar hugsanir urðu að engu þegar neikvæða testið kom í hús. Hjúkk!Jæja, allt kom fyrir ekki og haldið var af stað til Ítalíu.
Ég ferðaðist á undan Jenna og co. Ég tók flug til Rómar með Wizzair og lest til Bologna. Hafþór Rafn Benediktsson og Almar Viðarsson voru svo elskulegir að sækja mig þangað rúma 100km frá keppnissvæði. Þeir kláruðu svo sinn Ironman með stakri prýði.

Keppnisvikan
Ég er mjög skipulagður þegar kemur að ferðalögum og er ávallt mjög tímalega í öllum bókunum þegar kemur að flugi og hótelum. Ég var búinn að grandskoða keppnissvæðið uppá góða staðsetningu.Því það skiptir miklu máli að vera mjög nálægt og í göngufæri. Sérstaklega ef þú ert ekki með bíl. Samkvæmt Google maps var Hótel Kiss málið. Þriggja stjörnu hótel við hliðina á skiptissvæðinu fyrir hjólin. Geggjuð staðsetning. Ég svaf á þessu og daginn eftir dreif ég í að bóka. Ég skrifaði „Hótel Kiss Cervia“ í Booking leitarvélina og upp kom Hotel Kiss sem ég og bókaði. Þegar Haffi og Almar höfðu skutlað mér uppá Hótel fóru að renna á mig tvær grímur. Er ekki frekar langt á keppnissvæðið hugsaði ég? Daginn eftir var tekinn sundæfing við keppnistartið, 40 mín ganga! Aðra leið. Shit. Ég sendi Jenna frænda skilaboð sem var á leiðinni til Ítalíu daginn eftir með Erlu og Viktori. Hvaða hótel sagði ég þér að bóka? Jú, Hótel Kiss. Það eina er að það eru tvö hótel með sama nafni í Cervia.. Þau höfðu bókað rétta Hótel Kiss sem var við hliðina keppnissvæðinu, ég ekki. Frábært Einar. Ég var því á Hótel Kiss sem var 4km frá keppnisvæðinu. Ekki nóg með það, ég var lang-yngsti gesturinn og sá eini sem var að fara keppa í Ironman. Enda er þetta svæði sumarleyfisstaður Ítala og þarna voru ítalskir eldri borgarar að njóta síðustu sumardaganna.
Þó svo að ég hafi blótað mér í sand og ösku í fyrstu, var þetta lán í óláni. Ég fékk lánað hjól á hótelinu til að ferðast á milli svo þurfti ekki að vera á keppnishjólinu.

Eigendur hótelsins voru hjón sem voru svo elskuleg. Allt starfsfólkið var yndislegt en þar fór fremst í flokki babúskan mín sem þjónaði mér til borðs. Útaf Covid mátti ekkert snerta í matsalnum. Ég sat alltaf við sama borð og átti helst að mæta stundvíslega kl 19:30 og borða með gestunum og eigendum. Allt þjónað til borðs. Daginn áður þurfti ég að fylla út blað fyrir kvöldmatinn sem ég gerði samviskusamlega. Það var þríréttað og babúskan mín lét mig ekki komast upp með að leyfa. Hún talaði mikið við mig ítölsku eins og ég væri innfæddur. Ég skildi ekki neitt. Ég skildi reyndar þegar hún benti á mallann minn og sagði: non grande. Þegar ég bað um kók með matnum og hún mætti með 1.5L af kóki skildi ég sneiðina. Ég átti að borða allar sneiðar. Hún var mjög elskuleg hún Simone þessi 58 ára kona af rúmenskum ættum.
Þar sem ég var kominn 4 dögum fyrir keppni náði ég nokkrum mjög góðum æfingum. Ég ákvað að taka eitt langt hjól á Ítalíu fyrir keppnina. Það var til Rimini í rúmlega 30km fjarlægð. Ástæðan var að árið 1999 fór ég í útskriftarferð með Menntaskólanum við Sund. Það var góð ferð þó tvær mismunandi ástæður voru fyrir báðum þessum ferðum. Ég ákvað að kíkja á lókal pöbbinn okkar sem heitir Rose and Crown þar sem við æskufélagarnir heimsóttum mikið. Þar var ennþá sama starfskonan frá ´99.

Ég mundi svo sem ekki eftir henni frekar en hún eftir mér. En ég átti gott spjall við hana og hún bauð Sigurður Frosti Aðils Baldvinsson félaga mínum vinnu hjá sér sem kokkur. Það gerði hún líka fyrir 22 árum. Allavega….
Keppnin:
Nóttin fyrir keppni hefur alltaf verið erfið. Þá er ég að tala um stress hnútinn í maganum sem er mikill. Ég er búinn að leggja mikið á mig, 450-500klst af æfingum undir belti fyrir þessa keppni. Það koma hugsanir sem erfitt er að stjórna: Hvað ef ég klára ég ekki? Hvað ef mér gengur illa? Ég var búinn að segja ég myndi ekki koma heim ef mér tækist ekki að komast undir 10 klst. Maður fer að hugsa of mikið um hluti sem erfitt er að stýra eins og hitastigi, krampa, hvað ef það springur á dekki, ef ég dett af hjólinu, ógleði… Reyni að róa hugann með jákvæðum hugsunum.Ég vaknaði 4:30 um morguninn. Hef sofið betur. Kannski 3-4 klst. Vá hvað ég er þreyttur og orkulaus hugsa ég. Þetta verður erfiður dagur en svo kemur skynsemisheilinn sterkur inn og segir við mig. Nei, þú ert frábær og munt standa þig vel. Gerðu þitt besta, annað er ekki hægt að biðja um. Borða nestið mitt sem babúskan setti í ísskápinn niðri. Brauðsneiðar með nutella og djús glas. Hvílist aðeins áður en ég rölti niður og tek hótel hjólið og renni af stað í startið. Fæ fimmtán æðislegar mínútur í myrkrinu þangað til að kem að keppnissvæðinu. Loka skoðun á hjólinu, pumpa í dekkinn og blanda drykkina mína á hjólinu. Sólin er að koma upp. Þvílík fegurð. Það er að koma að þessu. Keppnin sem búið er að stefna á í 11 mánuði. Hitti Sigga Tomm og við ákveðum að fara aftast í 60mín áætlaðan sundtíma hólfið. Haffi slæst í hópinn með okkur. Ræsirinn er byrjaður er að telja niður startið. Dropar leka niður marga fætur í sandinn. Það er bara þannig. AC/DC – Thunderstruck er í hátalarnum. Það er rúllandi start. Átta keppendur hlaupa á 8 sekúnda fresti. Horfi á Sigga fara, svo Haffa og áður en ég veit af er ég hlaupinn út í sjóinn. Stress hnúturinn er farinn. Ég er farinn að elta tásur í Adríarhafinu.
Sjórinn var búinn að vera yndislegur alla morgna vikunnar. Hann var fínn, smá öldur en samt ekkert sem hægt er að kvarta yfir. Lítið draft/kjölsog fyrsta kílómetrann. Eftir fyrstu baujuna þar sem tekinn er 90° beygja þéttist hópurinn og ég er búinn að finna fallegar tásur. Sumar sprikla lítið meðan aðrar mikið. Sé einn með langar táneglur sem minnti mig á tærnar hans Gímsa úr útlimakúrsinum í sjúkraþjálfun. Hugsa um þegar Svandís kennari missti á einhvern ótrúlegan hátt sokkinn hans útum gluggann. Hvað var það, var hún líka í sjokki yfir tánöglunum? Skyggni ágætt í sjónum meðað við Eistland fyrir ári. Tíminn mætti líða hraðar, finnst eins og ég sé hálfnaður til Rimini sem minnir mig á þegar ónefndur vinur minn stal Big Mac á Mcdonalds og hljóp undan með starfsfólkið á hælunum. Hann hefur pottþétt verið á 3:45 pace, það er hraði uppá 16km/klst. Elti fleiri tær, næ góðu drafti svona 60% leiðar. Mín spá fyrir keppnina var, 1:05-1:10klst. Niðurstaða : 1:06klst. Ánægður.
T1: Kem ferskur uppúr sjónum með saltbragð í munni. Góð slökun og leyfi þeim sem draftaði mig að synda gegnum hitabylgju. Sé Jenna á sandkantinum hvetjandi. Skiptisvæðið langa var byrjað. Tæpir 600-700m frá sjó og útaf skiptisvæði til að hjóla. Heyrði tröllahlátur þegar ég nálgaðist hjólið. Það er bara einn maður með þennan hlátur, Viktor Viktorsson yfirfararstjóri og stuðningsmaður. Það gekk vel í skiptingunni og ég heyrði að Viktor tönglaðist á því að ég hlyti nú að hafa stundað hröð fataskipti heima hjá konum á mínum yngri árum þar sem kallinn þeirra væri að koma heim og ég yrði að forða mér út. Sannleiksgildið lítið en tek því sem hrósi um góðan skiptitíma. Hmmm, annars. Nú skil ég afhverju Geir Ómarsson er svona svakalegur góður á skiptisvæðunum… jæja bullið búið, áfram gakk.
Hjólið.Ég var ferskur og fullur af eldmóði þegar ég byrjaði að hjóla. Kannski of miklum eldmóði því að á þriðja hringtorgi út úr bænum varð ég full æstur. Ég fer í grimma beygju og rek pedalann/sveifina niður í malbikið. Afturhjólið tekur stökk og ég má hafa mig allan við að detta ekki… Fokk, róa sig og einbeita sér. Planið var að halda 200-210 wöttum. Það endaði í 199 avg wöttum sem gera 3.015 wött per kg fyrir áhugasama. Byrjað var á 20 km legg í smá mótvind út að hraðbraut. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að eiga meðvindinn inni á bakaleiðinni í lok hjóls. Ég náði gríðarlegum hraða á harðbrautinni og allt gekk vel. Ég tók gel á 20-25mín fresti eða u.þ.b 240-280 kaloríur á klst. Ég var búinn að æfa þetta í löngu hjólatúrunum 10 vikum fyrir keppni. Á kílómeter 70 er komið að einu brekkunni sem var farinn tvisvar. Fyrir þá sem ætla í þessa keppni að ári þá er klifrið upp Nesjavallarbrekkuna Reykjavíkur meginn örugglega mjög sambærileg. Þetta var uþb 10-15min klifur með mesta halla uppá u.þ.b 15%. En það sem verra var að hitinn var kominn í 34°. Úff, gjörsamlega að grillast. Muna drekka, geri. Áfram er haldið og hringur tvö á hraðbrautinni. Yndislegt að sjá mikinn hraða. Áður en maður veit af er maður kominn í brekkuna aftur í kílómeter 140. Mikil mildi að það er orðið skýjað. Hjúkket. Frábær stemmning efst í brekkunni mikið af fólki að hvetja mann áfram. Lokahnykkurinn í hjólaleggnum eftir og þá er bara að sigla hjólinu heim í meðvindinum. Kári ætlar samt ekki að hjálpa. Vindurinn er snúinn og þéttings mótvindur til baka. Fæturnir eru farnir að verða lúnir en orkustigið er gott. Hitinn mikill og ég þarf ekkert að pissa allan hjólaleggin, frábært. Mitt markmið fyrir keppni var 5:00klst-5:10klst. Niðurstaða: 5:05klst, allt á plani.
T2: Nokkuð brattur eftir hjólið en mikill léttir að ekkert kom uppá. Stekk af hjóli. Beint í hlaupaskó, derhúfa og sólgleraugu kominn upp. Öskra á Jens; hvar er rigningin sem þú lofaðir mér? Hann öskrar til baka: „Hún kemur á eftir!“ Er brakandi ferskur og þarf að trappa hraðann fljótt niður. Muna það eru 42km eftir.HlaupiðÍ Cervia eru farnir 4 hlaupa hringir. Það var mikið af fólki og mikil stemmning nær allan hringinn. Klárlega ein skemmtilegasta hlaupaleið sem hef farið í Ironman. Planið var að halda 4:45pace. Er á 4:30pace og svíf. Svo hægist aðeins á mér á bakaleiðinni í fyrsta hring… Hitinn farinn að taka sinn toll. Þá fara góðir hlutir að gerast. Hringur tvö er byrjaður og eins og Jens lofaði þá fer að rigna. Þvílíka gjöfin! Sé að Viktor orgar undir tré og ég veit ekki hvort hann er að kvarta undan rigningu eða að hvetja mig áfram. Skiptir ekki máli, ég er á fullri ferð. En í miðri gleðinni verð ég smá leiður. Ég er að taka fram úr æfingafélaga mínum og hlaupalæriföður Sigga Tomm sem er kominn á vondan stað. Hann hvetur mig samt áfram þegar ég fer framúr. Gæinn með harðasta haus sem ég þekki var búinn að grilla lærin sín á hjólinu og er að ströggla í hlaupinu. Það er skrítið að fara fram úr honum. Hann er í sínum síðasta Ironman í bili. Maðurinn sem fór á heimsmeistaramótið á Kona Hawaii fyrir tveimur árum er að ströggla. Hef aldrei unnið hann í hlaupi eða þríþrautamóti. Þetta er í fyrsta skipti. Hann kláraði samt sína keppni með miklum sóma á 10 klst og 6 mín. Hringur þrjú fer sterkt af stað. Ég er peppaður og duglegur að láta fólk á hliðarlínunni og veitingastöðunum við brautina öskra og klappa. Það skiptir svo miklu máli að vera jákvæður. En bíddu nú við. Ég þarf loksins að pissa frá því í sundinu. Aldrei hefur liðið svo langur tími á milli. Ég er samt búinn að næra mig og drekka frekar vel. Núna er kominn hellidemba, það er gott. Ég kem að drykkjarstöð og fer rólega. Ég er aldrei búinn að ganga fram hjá drykkjarstöðinni. Alltaf hlaupið. Ekki núna. Hægi á mér gríp vatn, tek djúpu hugleiðslu öndunina mína. Slaka og allt fer af stað. Klaka stíflan brestur, Gullfoss flæðir eins og þegar fljótið tók örkina hans Nóa. Ég hleyp af stað með dæluna í botni. Ég öskra : ég elska þetta hverfi, meðan áhorfendur klappa fyrir manninum sem pissar á sig hlaupandi. Ég hugsa: „þvílíka vitleysan“. Ef þau bara vissu! Og afhverju er ég að segja frá þessu. Jú, ég ætla undir 9:40klst. Sem ég vissi ekki þá, hver sekúnda telur. Jæja, nálgaðist kílómeter 28. Skrefin farin að þyngjast en ég reyni að halda 4:45-5:00pace. Nú er þetta bara hausinn. Fæturnir eru löngu búnir og ég er kominn með ógeð af geli. Sennilega komin með 20-25 stk í mallakút. Jákvæðar hugsanir um fjölskyldu, mantran „how bad do you want it“ og „hlaupa heim“ er það sem lætur mig halda áfram.
Síðasti hringurinn er erfiður. Ógeðslega erfiður. Verð að halda haus. Það var talsvert af Íslendingum að hvetja í brautinni, ég er þeim mjög þakklátur.Þegar ég er kominn á kílómeter 40 fara gamlir draugar að mæta á svæðið. Krampi í aftanvert læri. Ég stoppa og teygi og krampinn stendur stutt, kannski 45 sek. Rúlla aftur af stað. Er kominn á rauða dregilinn. Tilfinningin sem ég elska svo mikið kemur af fullum krafti. Ég get ekki verið sterkur lengur. Tárin flæða og tilfinningarnar eru æðislegar. Hugsa sér hvað maður er einfaldur. En þetta skiptir mig máli. Meðan aðrir klóra sér í hausnum yfir svona vitleysu. Já, við erum svo ólík og með mismunandi áhugamál. Þráhyggjan er sigruð.Múrinn sem margir þríþrautakappar vilja brjóta er mölbrotinn.

Lokatími er 9 klst og 39 mínútur. Þakklátur fyrir stuðninginn hjá Jenna, Erlu og Viktori. Maraþon tíminn er 3:18 klst. Hafði spáð 3:20-25klst. Ótrúlegt hvað maður er farinn að þekkja sjálfan sig vel. Fyrirfram var 9 klst og 40 mín það sem ég gældi við. 9 klst og 39 mín var lokatíminn. Þegar í mark var komið var tekið á móti Sigga og Haffa. Menn ræddu og gerðu upp keppnina. En það óvænta var eftir. Þegar ég var búinn að sækja hjólið mitt og hjólaði uppá hótel Kiss, beið mín hressing. Var sennilega kominn þangað um kl 20:00. Matsalurinn er ekki ýkja stór. Það sátu kannski 20-25 eldri borgarar og 2-3 yngri fjölskyldur. Þegar ég geng inn taka hjónin sem reka hótelið og babúskan mín á móti mér og faðma mig. Konan segir: „þú lentir í 60. sæti af 1500 þú ert frábær!“ Og ekki nóg með það þá klappa eldri borgararnir í matsalnum og 2-3 standa á fætur. Bara þeir sem voru ekki með hækjur haha. Ég sest niður og fæ mér að borða, og tek á móti mörgum hamingju óskum á ítölsku. Skil auðvitað ekki neitt. Þvílíka veislan! Besta verðlaunafhending ever! Daginn eftir fylgist ég með góðum vinum klára hálfan Ironman. Sérstaklega ferðafélögunum mínum Jens og Erlu sem stóðu sig frábærlega vel í sinni fyrstu keppni. Sjálfur var ég ótrúlega ferskur daginn eftir miðað við fyrri keppnir og álagið sem ég setti á líkamann. Minnir mig alltaf á þennan málshátt: Það skiptir ekki máli hvað þú borðar milli jóla og nýárs heldur nýárs og jóla. Sama má segja með hreyfingu. Einn dagur drepur þig ekki þó strengirnir verði miklir. Svo ég segi: Það skiptir ekki máli hvað hreyfir þig í Ironman heldur hvað hreyfir þig milli Ironman keppna.Og hver er þá gullna reglan. 30mín hreyfing af miðlungs eða mikilli ákefð alla daga, alla ævi. Bingó.
Ég sit núna í flugvél frá Róm heim til Íslands og skrifa þessa keppnissögu. Get ekki endað þetta nema að minnast á stoð mína og styttu sem leyfir mér miðaldra fjölskyldu föður að elta þessa drauma. Ég gæti þetta aldrei án Birna María Karlsdóttir minnar. Falleg að innan og utan og veitir mér ást og stuðning. Þessi lífsfylling mín sem gerir mig vonandi að betri manneskju. En hún er ekki búin. Næsta ár verður farið í víking/Ironman til Kalmar í Svíþjóð með góðu fólki. Yfir og út.
Þakka þeim sem nenntu að lesa þessa langloku. Þessi 5 klst flugferð er búin að líða býsna hratt.Latsinn kveður í bili. Njótið.
