Með viljann að vopni

Aðdragandi
Eftir að ég kláraði hálfan Ironman í Zell Am See haustið 2019 ákvað ég að skrá mig í annan hálfan Ironman í Cervia á Ítalíu árið 2020. Ég æfði jafnt og þétt í byrjun árs 2020 og fram á sumar. 50 dögum fyrir þá keppni kom tilkynning um að henni yrði frestað um ár vegna COVID. Þá sá ég fram á að geta æft mikið um veturinn og ákvað því að breyta skráningunni minni úr hálfum Ironman í heilan.

Í október 2020 byrjaði ég að æfa markvisst eftir plani frá Sigga Erni þjálfaranum mínum. Ég tvinnaði saman æfingar frá Sigga, æfingar með þríþrautarliðinu mínu Ægi3 og CBC hjólatíma sem ég kenni hjá World Class. Fram að áramótum voru æfingarnar frekar þægilegar og ég var spennt að halda áfram að vinna að markmiðinu mínu á nýju ári. Í lok janúar 2021 fékk ég botnlangakast og fór í botnlangatöku. Þegar mér var sagt að ég mætti ekki æfa í fjórar vikur eftir aðgerðina hélt ég að markmiðið væri úti. En aðgerðin gekk vel, botnlanginn fjarlægður og hans er svo sannarlega ekki saknað.

Ég byrjaði að æfa rólega aftur í mars og skráði mig á framhaldsskriðsundsnámskeið en 1. apríl lokuðu laugarnar útaf COVID. Um leið og fór að vora og hægt var að byrja að synda í stöðuvötnum og sjónum reyndi ég að vera dugleg að synda þar en einhverra hluta vegna finnst mér það miklu skemmtilegra og auðveldara en að synda fram og til baka í sundlaug. Fyrir þá sem ekki vita var ég nánast ósynd í byrjun árs 2019 og hefur sundið því alltaf reynst mér erfiðast af greinunum þremur í þríþraut.

Sumarið mitt einkenndist af löngum æfingum, vinnu og ferðalögum, ýmist til að æfa eða keppa, og ég tók þátt í hinum ýmsu þríþrautar-, hlaupa- og hjólakeppnum til að undirbúa mig fyrir stóra markmiðið. Í lok júlí varð ég þó þreytt á að fylgja strangri æfingaáætlun og “þurfa” að taka ákveðna æfingu á ákveðnu álagi nánast daglega. Ég áttaði mig þó fljótt á því að það er eðlilegt að vera ekki alltaf í stuði fyrir æfingar og leyfði mér að slaka á. Þetta tímabil gekk fljótt yfir og í byrjun ágúst þegar búið var að staðfesta að keppnin yrði haldin datt ég aftur í gírinn og varð allt í einu miklu spenntari og tilbúnari en ég hafði áður verið. Síðustu dagana fyrir keppnina fann ég að ég var 100% tilbúin og í mínum huga fannst mér þetta mjög viðráðanlegt og það kom aldrei upp í hugann að ég myndi ekki klára keppnina. Ég vissi að ég var búin að undirbúa mig eins vel og ég gat en áttaði mig þó á að í svona langri keppni væru 99% líkur á að það myndi ekki allt fara eins og ég hefði gert ráð fyrir.


3800 m SUND

Ég byrjaði að synda og leið strax mjög vel, fannst ég þjóta áfram (miðað við minn sundhraða🤪). Eftir ca. 2500 m fann ég allt í einu að ég varð eitthvað skrítin og nokkrum sekúndum seinna byrjaði ég að kasta upp og var greinilega orðin svona hrikalega sjóveik. Það komu þrjár góðar gusur og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Var þetta í alvöru að gerast? Ég hef oft synt í sjó og stöðuvötnum en aldrei fundið fyrir sjóveiki, hafði ekki hugsað út í að þetta gæti mögulega gerst og því ekki undirbúið þetta. Ég svamlaði að næstu bauju og hékk þar. Þá kom björgunarmaður á báti til mín og spurði hvort ég væri í lagi, ég rétti bara upp þumalfingur enda var mér enn svo óglatt að ég gat varla talað. Eftir dágóða stund á baujunni byrjaði ég að synda aftur en tók þá bringusund og stoppaði svo aftur stuttu seinna. Svona gekk þetta áfram, ég synti í smá stund og fann mér svo bát til að hanga á. Það kom aldrei til greina að hætta keppni þó að ógleðin hafi verið viðbjóður og ég alveg orkulaus. Þegar ca 200 metrar voru í að ég kæmist í land kastaði ég upp þremur gusum til viðbótar í sjóinn og yfir „paddle board” hjá björgunarmanni sem hafði fylgt mér síðasta kílómetrann. Björgunarmaðurinn (sem talaði litla sem enga ensku) sagði þá „you will finish”, ég sagði honum að það kæmi ekki annað til greina, þakkaði honum kærlega fyrir aðstoðina, svamlaði restina og komst í land fegnari en nokkru sinni fyrr. Það getur nú eitt og annað komið upp á í svona keppni en ekki átti ég von á þessari byrjun. Sundtími: 1:51:43 og skiptitími: 7:10.

Ég hljóp upp úr sjónum fagnandi, aldrei verið jafn ánægð að klára sund. Þrátt fyrir ógleði náði ég að hlaupa í gegnum skiptisvæðið, græja mig og byrja að hjóla.


180 km HJÓL

Planið var að fá mér orkustykki um leið og ég byrjaði að hjóla en ég fann strax að ég hafði enga lyst og var orkulaus. Ég var búin að æfa og skipuleggja næringarinntöku alveg í þaula og ætlaði að taka inn næringu á 30 mín fresti. Þetta hafði ég gert á öllum æfingum síðustu mánuðina og alltaf gengið vel. Þrátt fyrir það hafði ég enga lyst eftir uppköstin í sjónum en reyndi þó að troða eitthverri næringu í mig en alls ekki eins og ég hafði planað. Það var ekki fyrr en eftir 90 km sem mér fannst ógleðin hverfa og mér fannst ég þjóta áfram, allt í einu hafði ég fína matarlyst og reyndi að taka inn mikla næringu. VÁ hvað það var gaman að hjóla um ítalskar sveitir í nánast algjöru logni. Eftir ca 130 km á hjólinu byrjaði að rigna sem mér fannst frábært. Stuttu seinna varð hjólatölvan mín batteríslaus en þá notaði ég bara úrið og kláraði hjólið með stæl, þarna var allt að smella og mér fannst þetta heldur betur minn dagur! Hjólatími: 6:22:01. Skiptitími: 5:31
Ég hoppaði af hjólinu, setti það á sinn stað, tók af mér hjálminn, fór í hlaupaskó, setti á mig sólarvörn og hljóp af stað.

Að hjóla í logni og blíðviðri er góð skemmtun


42,2 km HLAUP

Hlaupið hefði ekki geta byrjað betur. Mér fannst ég full af orku og allt eins og það átti að vera. Ég náði að taka inn næringu á 30 mín fresti (eins og planið var) fyrstu 20 km og allt var á réttri leið. Eftir ca 25 km fór mér að líða eitthvað skringilega en áttaði mig ekki á því hvað það var. Ég fór að þurfa að stoppa og labba þangað til ég hálf datt niður á fjórar fætur. Þá kom kona, sem var líka að keppa, til mín og spurði hvort það væri í lagi með mig. Ég sagði henni að ég vissi það ekki en að mig vantaði örugglega bara næringu. Þá kallaði hún hátt yfir allt og spurði hvort einhver ætti til orkugel fyrir mig. Allt í einu voru komin sjö mismunandi gel til mín og ég tók eitt þeirra. Áður en ég vissi af voru fjórir sjúkraflutningamenn komnir til mín og báðu mig um að koma með sér í sjúkrabílinn. Ég sagðist alls ekki ætla að koma, að ég ætlaði aldeilis að klára keppnina en vantaði bara banana (þó að ég hefði ekki hugmynd um hvað væri að). Þá sögðu þeir að þeir vildu bara mæla hjá mér blóðþrýsting og blóðsykur og mögulega gefa mér vökva í æð. Ég hef aldrei lent í alvarlegum orkuskorti í keppni eða á æfingu. Stuttu síðar var Sveinn kominn, hann var þá að klára sinn síðasta hring af fjórum en ég var á þriðja hring. Sjúkraflutningamennirnir útskýrðu fyrir Sveini hvað væri í gangi og hann sannfærði mig um að fara með þeim og svo myndi ég fá að klára keppnina.

Drjúgur varð síðasti áfanginn

Sjúkraflutningamennirnir hjálpuðu mér að standa upp og ganga að sjúkrabílnum. Þarna var ég ekki viss um að líkaminn myndi leyfa mér að halda áfram keppni en áður en Sveinn hélt áfram sagði hann ákveðinn „við sjáumst í markinu”. Í sjúkrabílnum mældu þeir blóðþrýsting og blóðsykur og þær mælingar komu vel út. Þeir vildu þó gefa mér glúkósa og ég drakk ágætis magn af honum. Þá þakkaði ég kærlega fyrir mig og sagðist ætla að klára keppnina. Þeir voru hálf gáttaðir en kvöddu mig og óskuðu mér góðs gengis. Ég gekk af stað og allt í einu var eins og kveikt hefði verið á mér aftur og ég hljóp af stað. Ég kláraði þriðja hringinn og byrjaði á þeim fjórða. Þegar ég hljóp framhjá sjúkraflutningamönnunum á fjórða hring rétti ég upp hendur og gargaði eins og ég hefði sigrað ólympíuleikana „look at me, I’m finishing!!!”. Sjúkraflutningamennirnir litu út fyrir að hafa ekki átt von á að sjá mig klára fjórða hringinn en hrópuðu og klöppuðu fyrir mér. Bræður mínir biðu eftir mér við 39. kílómetra og hlupu með mér restina. Með gleði, jákvæðni og dass af klikkuðu keppnisskapi að vopni tókst mér að komast að rauða dreglinum. Þessi tilfinning! Ég dansaði, hljóp, lyfti höndum, hrópaði og grét þegar ég hljóp dregilinn á enda en þar beið fjölskyldan mín og allir voru með tárin í augunum. Þvílíkur SIGUR. Yngsta íslenska konan sem klárar heilan IRONMAN. Orðlaus.Hlaupatími: 5:06:57. Heildatíminn 13:33,19.


Það sem mér finnst einna skemmtilegast við svona keppni er hvað það þarf að huga að mörgu fyrir hana. Það er eitt og annað sem getur komið upp á en aldrei datt mér í hug að ég yrði svona sjóveik, myndi missa alla orku með uppköstum og krassa í hlaupinu vegna þess. Eins og áður sagði hef ég aldrei lent í neinu slíku en svona getur líkaminn nú komið manni skemmtilega á óvart.Hér sit ég og skrifa keppnissöguna mína með tárin í augunum, er enn að melta allt sem gerðist og á eftir að gera það í langan tíma. Svona keppni er svo miklu meira en bara að synda, hjóla og hlaupa. Allar löngu æfingarnar í roki og rigningu, hafa kollinn á réttum stað, ákvarðanir um næringu, undirbúa og æfa búnaðinn og svo miklu miklu meira. Ég á svo mörgum að þakka þennan sigur. Coach Siggi er búinn að hjálpa mér að undirbúa nánast alla þætti fyrir keppnina og er ég honum virkilega þakklát. TRI verslun og Fætur toga pössuðu upp á að ég væri með besta búnaðinn í keppninni. Liðsfélagar mínir í Ægi3 eru alltaf tilbúnir að gefa mér ráð, lána búnað og hvetja mig áfram. Geir Ómarsson er alltaf innan handar og fínpússaði sundið hjá mér rétt fyrir keppni. Hjólateymið mitt í CBC á Seltjarnarnesi gerði hjólaæfingarnar síðasta vetur svo margfalt skemmtilegri.

Mikilvægast af öllu var þó stuðningur og endalaus hvatning frá fólkinu mínu, Sveini, fjölskyldunni og öllum dýrmætu vinum mínum.
Hugsum lengra, setjum okkur stærri markmið, stefnum hærra og látum draumana rætast – það gerir lífið svo miklu skemmtilegra.

Ísold Norðfjörð

Uppgjör við þungan málm

Fyrirvari

Ætla að biðjast afsökunar á ritræpunni sem hér fylgir en ég virðist bara hafa rosalega mikið frá þessu að segja. Ef þetta textaflóð er yfirþyrmandi, þá er hér lyfturæðan fyrir óþolinmóða…

Lyfturæðan

Fór mína fjórðu Ironman keppni á Ítalíu í september 2021 ásamt góðum hópi Íslendinga, sem kepptu í heilum og hálfum IM og ólympískri þraut.

Var með markmið um að komast undir 9 tíma (átti best 9:06 frá Barcelona 2018) en ég grillaði mig á hjólinu eftir að sundið var undir væntingavísitölu og aðstæður á hjólinu voru ekki ákjósanlegar.

Kláraði þrautina á 10:06:45, í 34. sæti í AG M40-44 (af ca. 300 sem kláruðu) og 161. sæti overall (af tæplega 2000 sem kláruðu) – eftir að hafa labbað og hlaupið til skiptis rúma 30km með lærin í mauki. Nokkuð vel sloppið miðað við að það stefndi í að ég myndi ekkert ná að hlaupa þessa 30km+ og enda á 12-13 tímum.

Sund: 1:08:24 (71. í AG, 329 overall)
Hjól: 4:56:42 (15. í AG, 69. overall)
Hlaup: 3:52:01 (34. í AG, 161. overall)

Þessi járnkarl var minn síðasti að sinni og ætla ég að setja sund-hjól-hlaup eitthvað neðar á forgangslistann en verið hefur undanfarin ár. Enginn veit hvenær endurkomufiðringurinn kemur yfir mann – kannski eftir ár, eða tvö eða tíu… Þakka öllum sem hafa fylgst með ævintýrum mínum þessi fimm ár í þríþrautinni.

Laaaaaanga útgáfan

Ég tók mér frí frá Ironman undirbúningi 2020. Ákvað að það væri kominn tími á rólegri tíma eftir þrjá IM í röð (2017, ´18 og ´19). En ég skráði mig í staðinn í Laugavegshlaupið með metnaðarfullt markmið (undir 5 tíma) þannig að ég endaði sennilega á að æfa svipað mikið og fyrir IM þann vetur og sumar svo það gafst ekki mikið meiri tími fyrir önnur hugðarefni en sund-hjól-hlaup (bara meira hlaup og minna hitt þetta sumar).

Eftir Laugaveginn ákvað ég að kýla á einn IM í viðbót (minn fjórða) áður en ég tæki mér ótímabundið frí frá lengri þríþrautum og stefndi á að setja þríþraut almennt neðar á forgangslistann en verið hefur. Þetta hafa verið ansi viðburðarrík 5 ár í þessu sporti og lítið annað komist að, sérstaklega seinni árin. Það var því kominn hugur í mig að setja kletta- og ísklifur aftur í forgang og losa um frítíma til að sinna fjölskyldu, heimili og öðru betur en ég hef gert undanfarin ár.

Náði að plata Einar Sigurjóns (Latsa) Ægir3-ing með mér í Ironman Italy – í bænum Cervia í Emilia-Romagna héraði á norð-austur Ítalíu, við Adríahafs-ströndina. Þar voru fyrir skráðir fjölmargir Íslendingar í hálfum og heilum IM – flestir frá fyrra ári en 2020 keppninni var aflýst vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Reyndar urðu ca. helmings afföll fyrir rest því allnokkrir duttu út á síðustu mánuðunum vegna meiðsla eða ákváðu að fresta þátttöku til 2022 (vegna Covid).

Við Latsi náðum okkur í sæti í gegnum Nirvana bókun í september ´20, því venjuleg sæti voru löngu uppseld út af 2020 frestuninni. Vorum heppnir að komast að því Trausti og Gutti reyndu t.d. líka að fá sæti sama dag en voru aðeins of seinir og komu að tómum kofanum (þeir komust þó inn í IM Barcelona, sem er haldinn 2 vikum síðar).

Höfundur og Einar Sigurjónsson (Latsi) á ströndinni í Cervia, nýbúnir að ganga frá hjólum fyrir keppnisdaginn.

Fyrir þau sem ekki til þekkja, þá er Nirvana ferðaþjónustufyrirtæki sem kaupir ákveðið hlutfall sæta í flestum IM keppnunum og selur með álagningu (yfirleitt eftir að almenn sæti seljast upp) ásamt hótelgistingu og annarri þjónustu (s.s. sækja hjólið manns heim, „gæduðum“ ferðum um hjóla- og hlaupabrautirnar, hjólasamsetningu og alls konar). Við náðum s.s. að kaupa sæti í einhverri kippu sem Nirvana átti frá fyrra ári eða hafði fengið til viðbótar fyrir 2021. En þetta kostar sitt og ef maður kaupir í gegnum Nirvana og nýtir sér ekki hótel-inneign sem fylgir með (sem hvorugur okkar gerði), þá er keppnisgjaldið komið vel yfir 100þús kallinn.

Ítalíu-keppnin varð fyrir valinu því við Latsi vorum báðir búnir með IM Barcelona og Austurríki (og hann Kaupmannahöfn) og Ítalía var ásamt ásamt Kalmar (í Svíþjóð) metin sem hraðasta brautin sem við áttum báðir eftir í Ironman seríunni í Evrópu. Hann var með markmið um að fara undir 10 tímana og ég undir 9 tímana þannig að brautin þurfti að vera hröð til að einhver von væri um slíkt (amk. hvað mig varðar). Tímasetningin var líka ákjósanleg (18. september) til að hafa allt sumarið til undirbúnings án þess þó að draga þetta langt fram í haustið (Barcelona og Kona eru t.d. fyrri part október sem er í seinna lagi fyrir minn smekk).

Út af óvissunni með Covid, þá dró ég að panta flugmiða þar til í maí og endaði á að panta fyrir mig einan, en Ása hafði upphaflega ætlað að fara með mér (og plata forelda sína suður til að passa grísina á meðan). Að endingu varð planið það að ég færi einn út á miðvikudeginum (keppnin á laugardegi) og lengja ferðina um rúma viku og fara í löngu tímabæra heimsókn til Robba og Katrínar („gamalla“ klifurfélaga minna sem búa í Sviss) og ná nokkrum klifurdögum í Ölpunum með þeim – ef skrokkurinn væri í sæmilegu standi eftir keppnina.

Undirbúningur

Ég gerði eitt og annað öðruvísi en fyrir fyrri IM keppnirnar þrjár en notaði áfram það sem mér fannst virka vel fyrir mig. „If it ain´t broken, don´t fix it!“

Endurheimt: Eftir að hafa lent (nánast) á hverju ári í einhver konar „breakdown“ tímabilum, þar sem ég hef væntanlega verið kominn í ofþjálfun, þá var endurheimt atriði sem ég ætlaði að leggja ríka(ri) áherslu á.

Ég hætti alveg að taka morgunæfingar – með áherslu á svefn frekar en æfingamagn.

Fékk mér HRV4Training farsímappið til að fylgjast með HRV (Heart Rate Variability). Byrjaði að nota það síðasta haust. Einfalt tól sem tekur HRV með myndavélinni á símanum (á fingri), helst í byrjun hvers dags, og gefur ráð um hvíld og álag.

Fékk mér síðan Whoop (úlnliðs) strappa til að fylgjast betur með álagi, endurheimt og svefni. Fékk Whoop í byrjun árs (jan eða feb) og hann gefur mun betri upplýsingar um endurheimt en HRV4Training. Sá nokkrum sinnum merki um að ég væri að stefna í ofþjálfun eða að ég þyrfti að bæta í svefninn. En það verður að viðurkennast að Whoop hefur aðallega bara sýnt mér hversu illa ég sef frekar en að hann hafi hjálpað mér að bæta úr því.

Er búinn að vera að glíma við svefnvandamál síðustu ár og sérstaklega þennan veturinn. Búinn að reyna alls konar bótaúrræði og það er eitthvað minna um árangur af þeim – melotónín, svefntöflur (uppáskrifaðar frá lækni), turmerik-te, hugleiðslu, eyrnatappa, svefngrímu, sleppa koffíni, sleppa sæng (bara með lak sem ábreiðu), sofa einn í gestaherberginu, sleppa hljóðbókum fyrir svefninn, lesa fyrir svefninn, lesa ekki fyrir svefninn, fara fyrr að sofa, fara seinna að sofa, sofa ekki út um helgar, sofa lengi út um helgar, borða ekkert eftir kvöldmat, „binaural“ hljóð (til að „entrain-a“ heilabylgjurnar), og örugglega sitthvað fleira…

Mataræði: Almennt borða ég frekar hollan mat en leyfi mér alveg að sukka endrum og eins. Fæ mér annað slagið bjór yfir sjónvarpinu eða á spjalli með félögunum og nokkrum sinnum á ári á eitthvað „djamm“. Eigum við ekki að segja að ég sé svona 90/10 maður í hollustu?

Eitt af því sem ég datt óvart inn á fyrir þessa keppni var lágkolvetna mataræði.

Ása skráði sig í Greenfit matarkúr í nóvember og þar sem hún er kokkurinn á heimilinu, þá fylgdi ég bara með í því. Þetta var 3 eða 4 vikna kúr með nokkurn veginn „paleo“ mataræði – ekki ketó en frekar nett á kolvetnunum – enginn sykur, ekkert kaffi, enginn unninn matur. Alls ekki neinn megrunarkúr (borðaði mig alltaf saddan), bara náttúrulegt hollt fæði.

Þetta fór frekar vel í okkur bæði (Ása léttist mjög hratt og ég eitthvað smá) og við héldum aðeins meira „loose“ línu í mataræðinu fram að jólum.

Í desember tókum við Geir Ómars saman námskeið um lágkolvetnafæði fyrir langar úthaldsíþróttir (einkum þríþraut) hjá EndureIQ.com. Það var mjög fróðlegt námskeið og með því sökkti ég mér niður í þessa næringarfræði, sem ég hafði svo sem ekki mikið pælt í – bara reynt að borða frekar hollt, vera með kolvetni við áreynslu og borða prótein eftir átök fyrir endurheimtina. Þar var kynnt vegferð fyrir fólk eins og mig (á leið í langa þríþraut) til að hámarka árangur í íþróttum og heilsuna um leið með lágkolvetna mataræði – fókus á hollan mat og bætingu í fitubrennslugetu líkamans.

Vegferðin fól í sér m.a. 3 vikur af ketó (í janúar) lágkolvetna mataræði í kjölfarið, fókus á fastandi langar helgaræfingar (til að bæta fitubrennsluna) og strategíska tímasetningu kolvetnainntöku (fyrir, eftir og við æfingar).

Ég tók þessa vegferð ekki alveg eins heilögum tökum eins og Geir, sem mældi ofan í sig hverja kaloríu og pældi mikið í makró hlutföllunum. Ég lét mér nægja að vera mjög stífur í ketó vikunni og fylgjast sæmilega með mataræðinu í byrjun lágkolvetna kaflans, borða mikið af fitu, hóflega af próteinum og halda kolvetnum í miklu hófi (og tímasetja þau almennt samkvæmt plani). Nennti ómögulega að telja matinn ofan í mig og láta þetta stjórna lífinu dags daglega. Flestar helgaræfingar voru teknar fastandi og gengu almennt mjög vel.

Álagspróf

Fór í próf hjá Sigga Erni í Greenfit fljótlega eftir ketó vikurnar (í byrjun febrúar) og aftur í maí – til að sjá fitubrennsluprófílinn, nákvæma aerobic-, anaerobic- þröskulda og fleira.

Fór í tvö próf hjá Sigga fyrir Kona 2019 (áður en Greenfit kom til) en niðurstaðan úr þeim var ekki eins ítarleg eins og í fínu tækjunum hjá Greenfit og því erfitt að bera þær saman við Greenfit prófin.

Fékk fínar niðurstöður í febrúar og enn betri í maí – allar tölur vel upp og hámarks fitubrennslu álagið (FATmax) komið nærri plönuðu Ironman keppnisálaginu.

Keppnisnæring

Er búinn að vera að nota GU gel í gegnum árin í keppnum (venjulega og Roctane) og prófaði Maurten gel og drykki í Kona með ágætis árangri. En maginn hefur ekki verið neitt allt of hrifinn af GU þannig að ég hef verið að hneigjast í átt að Maurten og finnst þau fara betur í belginn.

Prófaði í lok undirbúningsins að næra mig með UCAN „superstarch“, sem eru flóknari kolvetnakeðjur en eru í venjulegu frúktósa/maltódextrín geli og drykkjum. UCAN á að gefa manni jafnari blóðsykur en hefðbundin keppnisnæring og halda fitubrennslu í betri gír (sem er mjög mikilvægt í járnkarli).

Morgunmatur á keppnisdegi: tröllahafrar með hnetusmjöri 3 tímum fyrir keppni, UCAN drykkur (1 bréf) klukkutíma fyrir keppni

Á hjólinu: útþynntur UCAN drykkur á 15mín fresti (þynntur út 50%, bréfið í 1 1/2 brúsa) með teskeið af electrolyte þykkni út í hvern brúsa (3x 750ml brúsar og einn 500ml brúsi, planið að drekka einn brúsa á klukkutíma), Maurten vs GU Roctane gel á hálftíma fresti. UCAN stykki eftir 1klst og 3klst.

Á hlaupinu: UCAN gel í softflask (3-4 gel)

Hitaaðlögun

Fyrir Kona 2019 fór ég í mikla hitaaðlögun enda aðstæður þar afar krefjandi. Fyrir Barcelona 2018 tók ég heldur nettari hitaaðlögun.

Ályktaði sem svo að tölfræðin fyrir Ítalíu væri þannig að von væri á amk. 20°C og töluverðar líkur á 25-30°C og sól þannig að það væri full ástæða til að fara í einhverja aðlögun.

Þetta endaði því sem ca. 2 mánaða prósess þar sem ég tók gufubað 1-2x í viku. Byrjaði stutt en smá lengdi settin og tónaði þetta svo niður síðustu 2 vikurnar og tók síðasta settið rúmri viku keppni.

Þessi aðlögun á að láta mann svitna minna í hita (skilvirkari kæling) og lætur líkamann halda betur í söltin (minni salttap í gegnum svitann).

Í lokin tók ég líka netta „steinefna-hleðslu“, þar sem ég drekk aðeins óhóflega af saltdrykkjum í ca. viku til að hlaða vöðvana af þessum fjórum lykilsöltum:- kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum. Ráð sem ég sótti frá Chris McCormack eftir hans baráttu við krampa og ógleði í Kona árum saman áður en hann stillti sig inn á aðstæður þar, ma. með þessari steinefnahleðslu.

Gerði báðar þessar aðlaganir fyrir Kona og þó ég hafi vissulega þurft að glíma við krampa þar síðustu 15km, þá held ég að þeir hefðu orðið enn verri ef ég hefði ekki gert þessa hitaaðlögun og steinefnahleðslu, því ég svitna frekar mikið og er almennt ekki góður í hita.

Sund

Ég ætla bara að vera hreinskilinn með það að mér finnst ekkert voðalega gaman að synda. Eða við skulum orða það þannig að mér finnst alveg gaman að synda, einkum víðavatnssund í hlýjum sjó/vötnum erlendis og mér finnst sundið vera stór partur af upplifuninni við Ironman keppnirnar (þó ég sé ekkert spes í þeirri grein). En mér finnst ekki sérlega gaman að æfa sund, er orðinn ansi langþreyttur á hægri bætingakúrvu í sportinu og finnst alveg ferlegt að þurfa að djöflast í ísköldu víðavatnssundi hér heima allt sumarið (í æfingum og keppni) til að undirbúa þessar Ironman keppnir.

Já ég veit alveg að ef ég hefði meiri metnað fyrir sundinu, þá myndi ég eflaust bæta mig hraðar og mögulega hafa meira gaman að þessu („acquired taste“?) en það er bara ekki alveg að virka fyrir mig. Finnst einfaldlega svo miklu skemmtilegra að æfa hlaup og hjól – kann að æfa þau sport, veit hvað þarf til að verða góður – og finnst ég sjá sorglega lítinn mun á sundgetunni hjá mér þau tímabil sem ég syndi lítið sem ekkert og þegar ég mæti oftar í sund (fann reyndar mikinn mun á mér þegar ég tók „30 daga áskorun“ í sundi vorið fyrir Kona en ég hef ekki tíma og áhuga til að synda upp á hvern dag).

Hvað um það, þá er ég samt alltaf með metnað fyrir að verða góður (eða betri amk) í sundi en sá metnaður er ekki að skila sér nógu vel í gleði, ákafa og ástundun. Ákvað síðasta sumar (2020) að taka nokkur skref afturábak og synda minna og drilla meira. Keypti fína rafbók með góðu drilluprógrammi frá Triathlon Taren og var nokkuð duglegur við það um sumarið og inn í haustið. Þar var pælingin að reyna að ná betur þessum grunnatriðum sem ég sem miðaldra skrifstofumaður án nokkurs sundbakgrunns er með í molum. Atriði sem ég vil meina að ég muni aldrei laga með því að „synda bara meira“ því jú ég kemst kannski hraðar með því að verða „meira fit“ en mig langar til að verða hraðari með því að verða „betri sundmaður“, sem felur í sér betra sundform en einkum betri tækni og flæði.

Algengt upplegg á æfingum hjá mér var: 4×50 upphitun, 400-600 drillur og svo 400-1500 af styttri (oftast) eða lengri (sjaldnar) sprettum þar sem ég fókusaði á tækni og hraða (lítið í „mileage“ nema bara síðustu vikurnar). Mætti á einstaka Ægir3 æfingar en þær voru fáar og óreglulegar.

Synti eitthvað minna í sundlaug (út af Covid og áhugaleysi) en vann það upp með æfingum í bílskúrnum með æfingateygjum – styrkti mig töluvert í öxlum og latsa og reyndi að vinna í háum olnboga og „catchinu“. Var því sterkari og úthaldsmeiri í öxlum og latsa þegar ég fór að auka magnið í lokin og fannst ég ná að tengja sund og skúræfingar ágætlega á þessum síðustu vikum. Lifi í þeirri trú að þessar drillur hafi bætt tæknina hjá mér eitthvað, en það er kannski bara óskhyggja…

Heildaræfingatími tengdur sundi því líklega svipaður og undanfarnar keppnir.

Keypti mér nýjan blautbúning, sem passaði mér betur (Zone3 Advance). Sá er liprari yfir axlirnar og þéttari í hálsinn en gamli. Kannski engin bylting því gamli gallinn var ágætur en kannski eitthvað örlítið sem ég mögulega græði á þessari uppfærslu.

Hjól

Fór í áskrift hjá TrainerRoad (hjólaþjálfun) og var mjög duglegur þar (og á Zwift) framan af hausti þegar ég byrjaði að æfa eftir sumarfríið (Laugarvegurinn var aðal markmið sumarsins). Var lítið að hlaupa á þeim tíma og hjólaði þeim mun meira (4-5x í viku).

Raunar var ég svo duglegur að ég hjólaði mig í ofþjálfun um mitt haust í annarri æfingablokkinni (miðjan október ca.) og var það blanda af mjög miklu og erfiðu hjóli, lélegum svefni (var oft að horfa á NBA körfuboltann fram á nætur á þessu tímabili) og vinnuálagi (sem var mjög mikið allt haustið).

Var ekki kominn með Whoop á þessum tíma en var þó að reyna að fylgjast með endurheimtinni með HRV4Training farsímaappinu, en það annað hvort sýndi yfirálagið ekki nógu vel eða ég var ekki að hlusta á vísbendingarnar. Var í öllu falli of seinn að átta mig á í hvað stefndi og það endaði með krassi og ég þurfti að taka mjög rólegar nokkrar vikur til að jafna mig sæmilega og var svo í rólegri endurkomu fram að áramótum.

Var kominn aftur í góðan gír um áramótin og í svipuðu standi og fyrir ofþjálfunina og byggði svo ofan á því fram á vorið. Var með tölur sem voru ca. 10W hærri en fyrir Kona á línuna, hvort sem það var FTP, FATmax, aerobic eða anaerobic þröskuldar. Fór t.d. upp um 10W og 10-12 púlsslög í FATmax (álagið þar sem fitubrennslan er í hámarki) milli Greenfit prófanna í febrúar og maí og var þá kominn með FATmax mjög nærri Ironman álaginu á hjólinu.

High-end aflið minnkaði svo aðeins þegar leið á sumarið með auknu æfingamagni á keppnisálagi en það er eðlilegt – maður fórnar því fyrir meiri getu á keppnisálaginu.

Annars var hjólakittið að mestu það sama nema ég keypti mér nýja aerobar púða (51 SpeedShop, sem voru miklu þægilegri en gömlu) og nýtt sveifasett að framan (170mm með 53/36 tönnum í stað 175mm 53/42 tanna), til að minnka „hip-angle“ í aero-stöðunni og fá léttari léttasta gír fyrir brattar brekkur. Samhliða nýja sveifasettinu breytti ég aðeins stillingunum á hjólinu – reisti aerobörin aðeins upp og færði hnakkinn aðeins framar og upp um ca. 1cm. Ekki stórkostlegar breytingar en fannst þetta vera betra fyrir axlirnar en í gömlu stöðunni og fannst aero-prófílinn á mér nokkuð aggressívur en þó nógu afslappaður til að geta haldið stöðunni frekar lengi.

Tölurnar í lokin á buildupinu voru þannig að ég var að taka langar IM keyrslur á 230-240W (ca. 10W hærra en 2018 og ´19) og miðað við Greenfit prófin, þá var ég í ca. 75% fitubrennslu á því álagi (púlsi 140-150) og að brenna um 240kcal/klst af kolvetnum, sem er ca. það ég ætti að ná að innbyrða jafnóðum (og ætti því ekki að ganga mikið á innri kolvetnabirgðirnar á hjólinu).

Hlaup

Hef átt mjög góð hlaup í öllum þremur Ironman keppnunum mínum (3:13, 2:59 og 3:11) svo það var svo sem ekki mikið rými fyrir bætingu þar á bæ. Var þó með markmið um að fara aftur undir 3 tímana og draumamarkmið að bæta 2:57 metið hans Geirs frá Barcelona 2017 (ég á að ég held annan besta íslenska IM maraþontímann, frá Barcelona 2018). Markmiðið var að komast í ~2:50 maraþon form (eins og fyrir Barcelona og Kona) og að nýju Brooks carbon skórnir gæfu mér einhverja bætingu.

Hef yfirleitt ekki verið með mikinn hlaupafókus fyrr en í buildupinu í lokin. En þó þannig að ég mæti á Ægis-æfingarnar í Höllinni og tek hraustlega á því og er að taka 1-2 æfingar sjálfur að heiman í viku (yfirleitt frekar stutt nema þegar komið er inn í sumarið).

Fékk tak í kálfann í mars og gat lítið hlaupið út af því fyrr en eftir páska. Þegar kálfinn loksins var kominn í sæmilegt stand, þá fékk ég verri meiðsli en þá í lærið. Þessi meiðsli voru svo slæm að þrátt fyrir nokkurra vikna hvíld frá hlaupum, þá gat ég ekki hlaupið meira en 30-40mín þegar ég reyndi að byrja að æfa aftur í maí – ef ég fór lengra þá var ég að drepast og endaði oftast á að haltra heim. Fékk Latsa til að hamast á mér nokkur skipti og það mýkti mig eitthvað en samt neitaði þetta að fara alveg (komst að í segulómun um síðir en það sýndi ekki neitt enda kannski orðið gróið þá). Um miðjan júní var ég orðinn nokkuð örvæntingarfullur og varð einfaldlega að fara að æfa almennilega til að eiga einhverja von um að komast í sub-3:00 form fyrir haustið. Fór því að hamast á löppinni og lærið var orðið þannig að ég gat beitt mér sæmilega, en var að auki kominn með eymsl ofan og neðan við og var það sérstaklega stífleiki upp undir (og í) mjöðm sem var að plaga mig. Hlaupa buildupið var því hálfgert diet-prógramm framan af því ég þorði ekki að taka langar rólegar æfingar og ekki heldur langar tempó æfingar (mest styttri sprettir, brekkusprettir og Nx800m) en þetta dugði þó til að koma mér í merkilegt gott stand í lok sumarfrísins. Náði ágætis „big-day“ hlaupi, Fjögurra skóga hlaupinu og Súlur Vertical hlaupinu fyrir norðan í lok júlí.

Í ágúst var svo komið að alvöru maraþon buildup fram að járnkarlinum með rúman mánuð til stefnu. Tók fyrstu „maraþon-samlokuna“ 7. ágúst, 30km æfing – 6+6km á maraþon hraða (4:10/km) með 1600m á T/threshold á milli (3:45/km) og hún gekk vel en ég hljóp haltrandi heim síðasta kaflann. Vikuna eftir var lengt í 8+8km samloku og gekk hún ágætlega þó ég hafi fundið fyrir löppinni strax eftir klukkutíma. Yasso 10x800m voru teknir á brautinni vikuna eftir (á 3:30-35/km) með lágmarks eymslum – lofaði góðu.

Helgina eftir var Big-Day #2 (4 vikum fyrir keppni) og þar stytti ég hlaupið úr 2 tímum í klukkutíma á tempó (á 4:05-10/km) með smá niðurskokki. Var sæmilegur í löppinni en framundan var þung vika með Michigan-æfingunni og 10+10km samloka næstu helgi og ég vildi vera í góðu standi fyrir þær lykilæfingar – var búinn að fá það sem ég þurfti út úr big-day hlaupinu eftir klukkutímann.

Michigan æfingin var tekin með Ægir3 á Varmárvellinum rúmum 3 vikum fyrir IM. Náði ekki alveg að negla það sem ég lagði upp með, sem var maraþon pace upp á 4:05 (~2:52 maraþon). Hröðu settin voru aðeins of erfið og ég náði ekki að halda pace á þeim og 4:05 náðist ekki alveg á rúll köflunum. En ég var alltaf undir 4:10 svo þetta var bara fínt – það vantaði bara aðeins meiri dýpt í formið.

Síðasta samlokan, 10+10km með 1600 T á milli og 10km Z2 á undan (samtals ~34km) hafðist á target með þrjár vikur í keppni. En löppin var handónýt þegar ég var búinn með tempóið svo ég labbaði 4km heim úr Fossvoginum því ég gat hreinlega ekki niðurskokkað.

Síðustu 3 vikurnar voru teknar í miklum sparakstri hlaupalega. Tók 2 tíma Heiðmerkurhlaup sléttum 2 vikum fyrir keppni. Hélt að mjúkir stígarnir myndu gera mér gott en áhrifin voru þveröfug og ég var handónýtur í löppinni seinni klukkutímann og útlitið ekki gott fyrir keppnina. Ákvað því að hlaupa sáralítið síðustu 2 vikurnar. Tók bara örfáar 20-40mín æfingar á melló hraða til að halda mér mjúkum. Hæpið að þetta næði að jafna sig á tveimur vikum fyrst ástandið var ekki betra en þetta í Heiðmörkinni. Ekki gott.

Æfingaálag

Ég æfði mjög svipað og fyrir hinar IM keppnirnar. Var almennt að taka 2-3 æfingar í hverju sporti í viku og óreglulega styrktaræfingar meðfram (tók nokkurra vikna rispur en datt niður á milli).

Meðal vikan yfir veturinn var upp á ca. 6-8 tíma á viku fram á vorið þegar helgar hjólaæfingarnar fóru að lengjast (fyrst á trainer og síðan útihjól eftir páska).

Stærstu vikurnar voru um 16 1/2 tími – 4 vikum fyrir keppni (Big Day #2 þá viku) og 2 vikum fyrir keppni (stærsta hjólavikan) en auk þess all nokkrar 10-14 tíma vikur frá apríl fram í ágúst.

Keppnir

Tók þátt í nokkrum keppnum í hinum ýmsu greinum í sumar eins og endranær.

Kópavogsþríþrautin í maí (sprett þríþraut)

Gekk ágætlega þrátt fyrir kulda og vind. Endaði þar í sjöunda sæti eftir að hafa misst mann klaufalega fram úr mér á leiðinni að markinu (ég villtist öfugu megin við girðinguna). Synd því sundið gekk óvenju vel hjá mér (15. sæti), hjólið frekar vel (5. sæti) og hlaupið ágætlega miðað við að hafa lítið sem ekkert hlaupið allt vorið (6. sæti).

Íslandsmót í TT í júní (22km á Suðurstrandarvegi). Bara mætt tvisvar í TT keppni – á Krýsuvíkurvegi fyrir 3-4 árum og á Akureyri fyrir 2 árum.

Skráði mig í Masters flokk (40-49 ára) því mér sýndist á ráslistanum að allir í Elite væru miklu betri en ég. En keppnin gekk frekar vel í hífandi roki enda formið orðið nokkuð gott þarna og aero staðan að gefa í mótvindinum til baka (seinni 11km). Endaði efstur í mínum Masters flokki (1mín á undan Eiríki Jóhanns) og í fimmta sæti í heildina . Hefði s.s. verið nálægt því að blanda mér í verðlaunabaráttuna ef ég hefði þorað að skrá mig í Elite flokk.

Held ég verði að taka þátt í Elite flokki ef ég verð í sæmilegu formi næsta sumar. Sýnist ég eiga fullt erindi þangað.

Síminn Cyclothon í júní (hjóla kringum landið liðakeppni)

Var með vinnufélögunum í Síma-liðinu í cyclothoninu í júní – kenndu við Símann að þessu sinni út af ónefndu gjaldþroti í flugbransanum. Hjólaði þar um 230km í 26 sprettum á tveimur sólarhringum í fínu samfloti við þrjú önnur lið (með þrjá aðra Ægiringa innanborðs). Alltaf mikið ævintýri og stemning að hjóla cyclothonið þó það sé vissulega erfitt á líkama og sál.

Laugarvatnsþríþrautin í júlí (hálfur járnkarl)

Keppnin var á dagskrá fyrri part júní en var frestað vegna afleitrar veðurspár. Var svo haldin í júlí í frábæru veðri – líklega sjaldan verið haldin þríþraut hér heima í svona góðu veðri. Undirbúningur var meiri en oft áður hjá mér því ég hafði auka mánuð inn í sumarið – annars hefur þessi keppni almennt ekki verið í sérstökum fókus hjá mér og yfirleitt svo löngu fyrir þessar Ironman keppnir að ég hef ekki verið kominn í almennilegt „long distance“ form fyrir hana. En að þessu sinni, þá fékk ég s.s. næstum heilan mánuði aukalega til að byggja upp lengd í greinunum þremur og það gekk bara bærilega nema að ég var enn að glíma við hlaupameiðslin og gat því ekki undirbúið þann hluta almennilega.

Sundið gekk frekar vel hjá mér á ca. IM álagi – ætlaði að reyna að hanga í Eiríki en það gekk ekki, náði ekki alveg tempóinu sem ég ætlaði og krampaði nokkrum sinnum í kálfunum og það skemmdi taktinn að þurfa að draga fæturna á eftir sér.

Hjólið gekk sæmilega. Ætlaði að keyra það á 260-270W en það var ekki alveg innistæða fyrir því og ég dalaði á seinni hringnum niður í 230-240W í lokin. En var samt ánægður með að keyra út fyrir þægindarammann (bara aðeins of mikið) og var „ekki nema“ 15mín á eftir fyrstu mönnum (sem eru deild eða tveimur betri en ég á hjólinu).

Út af meiðslunum hljóp ég bara einn hring (af fjórum) til að taka sem múrsteins-æfingu. Vildi ekki sénsa á að taka alla 20km með löppina tæpa með bara 2 mánuði í járnkarlinn í september. Tók því mitt fyrsta DNF (Did Not Finish) í þríþraut en sýnist á lokatímunum að ég hefði líklega getað haldið fjórða sætinu.

Iceland Extreme Triathlon í júlí (hjólaleggurinn í hálfum járnkarli)

Með Ara Odds (hlaup) og Aðalsteini (sund) í „boðþrautar“ liði. Nokkrir Ægiringar í hálfum IM í þessari keppni á Snæfellsnesi (og einn í heilum), sem er ræst eftir miðnætti skömmu eftir sumarsólstöðurnar. Var helgina eftir Laugarvatn og veður eins og oft verður á Snæfellsnesi – hvasst og nokkuð kalt (hékk þó að mestu þurrt).

Tók við af Alla eftir sundið um kl. 2 um morguninn og þar sem ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af hlaupi á eftir, þá keyrði ég þetta á þéttu trukki, kringum 250-260W (160bpm+). Fór raunar svo geyst að fyrr en varði var ég búinn að fara fram úr öllum í heila og hálfa járnkarlinum (heili ræsti klukkutíma á undan okkur) og orðinn fremstur á þjóðveginum (eða ég held það amk). Leiðin var frá lóninu milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur og vestur nesið út fyrir jökulinn og yfir Fróðárheiði aftur til Ólafsvíkur, þar sem markið var (97km leið). Vegna hvassviðris ákváðu mótshaldarar í miðju kafi að breyta leiðinni fyrir hálfan IM og snúa okkur við rétt fyrir Arnarstapa og breyta leiðinni eitthvað fyrir heilan IM líka. Ekki gekk það betur en svo að ég þaut framhjá einhverju fólki sem var að veifa í vegkantinum og skildi þeirra nærveru ekki öðruvísi en sem klapplið fyrir aðra keppendur. Húsbíll keyrði svo framhjá mér skömmu síðar og mögulega voru menn þar eitthvað að reyna að tala við mig en ég var mjög einbeittur að hjóla á fullu með aerohjálminn í hífandi roki og heyrði ekki neitt. Svo ég hjólaði bara áfram. Síðan var það ekki fyrr en löngu eftir Arnarstapa að Ari og Alli stoppuðu mig í brekku rétt áður en kom að beygjunni upp á Fróðárheiði. Þá höfðu þeir um síðir fengið upplýsingar frá mótsstjórn um að ætti að snúa hálfa IM við og það hefði ekki tekist að stoppa mig (ég vil meina að það hafi ekki verið reynt mjög fast…). Jæja, nett fúll yfir þessu enda kominn ansi langt frá Ólafsvík og langt fram yfir snúningspunktinn (sem átti að gera hjólið kringum 90km) þannig að það stefndi í ansi langa nótt hjá mér. En þar sem við vorum eina boðþrautar liðið, þá var engin samkeppni í þessu – við myndum vinna bara við að skila okkur í mark. Svo ég hélt bara uppteknum hætti og reyndi að halda mínu trukki áfram þó ég væri aðeins farinn að þreytast – skipti úr HIM álagi niður í IM álag (145-150bpm). Hjólið hjá mér endaði svo í 134km í stað rúmlega 90km – um klukkutíma lenging frá upphaflegri leið (4:05 hjólatími).

En þetta skipti náttúrulega engu máli og var bara fín æfing fyrir járnkarlinn og þessi klukkutíma lenging varð til þess að við vorum ekki lang fyrstir í hálfa IM heldur í fimmta sæti með Gutta, Trausta og tvo Ameríkana á undan okkur. Úr varð því fínasti eltingaleikur fyrir Ara á brakandi ferskum löppum að hala inn hlauparana fyrir framan, sem voru orðnir lúnir eftir langa nótt á sundi og hjóli. Hann reyndi að koma þeim skilaboðum til þeirra sem hann náði og mætti að hann væri í boðþrautarliði og þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af honum – en það skilaði sér ekki til fremsta manns sem gerði gríðarlega vel í að halda Ara fyrir aftan sig – og vinna hálfa IM keppnina.

Við áttum svo góðar stundir í félagsheimilinu í Ólafsvík að spjalla við mótshaldara, hina keppendurna (útlendingana, Trausta/Gutta feðgana og fleiri). Brunaðum svo aftur í borgina og vorum komnir þangað um hádegið eftir skemmtilegan túr.

Fjögurra skóga hlaupið í júlí (Fnjóskadalur niður í Vaglaskóg, 18km utanvegahlaup)

Við Ása skráðum okkur í þetta með stuttum fyrirvara. Var hikandi með þetta út af hlaupameiðslunum en lét til leiðast. Fínasta tempó æfing í mikilli hitamollu.

Gangamótið í júlí (Siglufjörður-Akureyri götuhjólakeppni, rúmir 80km)

Hef tvisvar keppt í þessari keppni. Hefur passað ágætlega inn í sumarfrísplön fjölskyldunnar fyrir norðan. Keppti í Masters flokki og endaði í 5. sæti eftir mikla baráttu upp Hlíðarfjallsbrekkuna upp í Skíðastaði.

Súlur Vertical í júlí (28km utanvegahlaup).

Ása skráði okkur saman í þessa keppni í vor. Ég féllst á það því 28km lengdin virtist passa ágætlega inn í prógrammið þó ég væri ekki neitt í utanvegahlaupum. En svo komu meiðslin til og ég fór ekki í eitt einasta utanvegahlaup og 28km var miklu lengra en allt sem ég hafði tekið á æfingum þegar hér var komið við sögu – fyrir utan að næstum 1000m klifur og niðurhlaup var langt út fyrir þægindarammann. Kom í mark í fjórða sæti á rúmum þremur tímum – seinasti klukkutíminn var hrikalega erfiður…

Fyrir keppni er gott að raða öllu upp og yfirfara, til að ekkert gleymist.

Væntingar

Stefnan frá upphafi prógramms var að reyna að komast í form til að reyna við 9 tímana í IM. Átti best 9:06 frá Barcelona 2018 og þar voru aðstæður ekkert spes – sjórinn úfinn og hvasst á hjólinu (og blautt á kafla). Fannst eftir þá keppni að ef aðstæður hefðu verið fullkomnar þá hefði ég mögulega verið í standi til að fara kringum 9 tíma.

Kona 2019 var náttúrulega allt önnur skepna í fáránlegum aðstæðum (hita, raka og roki) þannig að það er erfitt að átta sig á hvar ég stóð þar en tíminn upp 9:39 var ekkert slor og formið líklega sambærilegt við Barcelona.

Sundið – 1:08:24

Var búinn að plata Einar og Hafþór til að koma með mér í <60mín hólfið, þó enginn okkar væri líklegur til að fara undir klukkutímann. Reynslan frá fyrri keppnum er að flestir annað hvort ofmeta eigin getu eða fara viljandi í hraðara hólf en innistæðar er fyrir. Við vorum allir með væntingar um rúman klukkutíma þannig að við plöntuðum okkur aftarlega í þetta fremsta hólf. Ég var heldur æstari að mjaka mér framar í þvögunni en strákarnir voru á bremsunni og héldu sig til hlés, svo ég lét mig síga aftur á bak til þeirra til að við myndum fylgjast að alveg inn að rásrennunum.

Planið með að staðsetja okkur þarna var að vera í þeirri stöðu að vera með hraðari sundmenn í kringum okkur til synda í kjölsoginu (draftinu) frá þeim. En samt ekki það framarlega að allir í kringum okkur væru miklu hraðari og við ættum ekki séns á að hanga í tánum á þeim. Maður vill heldur ekki vera miklu hægari en allir í kring til að vera fyrir og tefja fyrir öðrum keppendum. Annar kostur við að vera svona framarlega er að maður kemst fyrr út á hjólabrautina með færri fyrir framan sig og fyrir sterka hjólara þýðir það færri framúrakstra, sem alltaf taka sinn toll.

Spenningurinn fyrir keppnina var frekar yfirþyrmandi eins og venjulega og þessi hálftími í hólfinu ætlaði venju samkvæmt aldrei að líða. Fyrstu sundmenn ræstir kl. 07:30 og við þrír í röð ca. 7:45.

Væntingar upp á 1:00-05 en þær væntingar svo sem ekki byggðar á sérlega vísindalegum grunni. Bara tilfinning um að ég væri aðeins hraðari en í fyrri keppnum – 1:08 í Barcelona í úfnum sjó og 1:11 í Kona í úfnum sjó og án blautbúnings – orðinn aðeins sjóaðri og í betri blautbúningi. En vinnuframlagið í sundinu var óneitanlega heldur í minni kantinum þannig að kannski bjartsýni að halda að ég ætti mikla bætingu inni.

Sjórinn aðeins úfinn og undiralda eftir umhleypinga dagana á undan en svo sem ágætis aðstæður (þó ekki ákjósanlegar).

Reyndi að elta tær allan tímann en var sennilega hátt í hálfa leiðina einn að svamla, að hluta til af því ég leita alltaf aðeins til hægri og týni oft tánum sem ég var að elta. Tók nokkra spretti til að ná hópum á undan mér eftir að hafa týnt tánum fyrir framan mig en það tekur alltaf aðeins úr manni þannig að ég gerði lítið af því seinni partinn.

Fannst þetta ganga frekar vel þó þetta hafi tekið heila eilífð og mér brá þegar ég kem upp á ströndina á 1:08 eitthvað. Bjóst svo sem ekki við klukkutímanum en átti von á tíma nær 1:05.

Ég endaði á 1:08:24, sem er svo sem ekki sem verst því Einar var á tæplega 1:06 og Hafþór á 1:04, báðir sterkari sundmenn en ég.

1:49/100m pace.
Max púls 170
71. í AG, 329. overall.
Óvenju gott fyrir mig þó þetta sé alltaf mín lang slakasta grein. Segir mér að þetta hafi líklega verið frekar hægt sund almennt hjá fólki.

Gami Rauður beið þolinmóður á skiptisvæðinu. Kannski var þetta hans síðasta járn….

T1 – 3:52

Fattaði það þegar ég skilaði hjólinu af mér daginn áður að ég var ekki búinn að æfa skiptingarnar neitt – fyrir utan að hnoða mér úr gallanum í hraði eftir sundæfingar í galla. Og ég keppti bara í tveimur þríþrautum í sumar (Kópavogi og Laugarvatni) svo það verður nú seint sagt að þetta hafi verið þaulæft hjá mér. En skipting í járnkarli er nú ekki alveg sama paník athöfnin og í stuttu þrautunum og ég bý að þessum fimm árum í sportinu og all nokkrum keppnum undir belti. Þannig að ég var nú ekkert að stressa mig á þessu.

Eins og venjulega var ég mjög feginn að koma loksins í land eftir sundið, sem mér finnst alltaf taka óhemju langan tíma (já, 3,8km er mjög langt…).

Missti sundgleraugun við sturtuhausana í fátinu. Snöggur að snúa við þessa 2m og spretta úr spori upp á skiptisvæðið, sem var um 100m frá sundmarkinu. Var kominn í toppinn á þríþrautargallanum (synti með hann gyrtan hálfa leið) þegar ég kom inn á svæðið og sprettaði svo þessa 100m sem voru upp að hjólinu mínu. Úr blautgallanum á núlleinni, númerabeltið um mittið og hjálminn á kollinn.

Frá hjólarekkanum voru svo 400-500m sem ég þurfti að leiða hjólið á skokkinu út að jaðri skiptisvæðisins. Alveg fáránlega langt skiptisvæði og mjög spes hvernig þetta var númerað. Við Einar vorum s.s. báðir með AWA status (All World Athlete – ég brons og hann gull) og ég með númerið 435, sem yfirleitt ætti að skila manni mjög góðri staðsetningu (var t.d. á mjög góðum stað í Barcelona með svipað lágt númer). Í fyrstu röð voru s.s. númer frá 100-580 ca. og í annarri röð frá 580 upp í 1070 eða álíka. Og þar sem ég var með 435, þá var ég langleiðina í burtu frá útganginum (Einar var með 243 og því töluvert nær útganginum). Þar af leiðandi þurfti ég að hlaupa með hjólið þessa óskapa leið frá mínum stað á rekkanum (í báðar áttir).

En ég var svo sem snöggur að þessu og hleyp ekkert mikið hægar með hjól við hliðina á mér heldur en án þess. Svo þetta gekk bara fínt og tími undir 4mín í T1 er bara mjög gott þarna. Gaurinn sem vann AG40-44 (á 8:43) var t.d. 4:02 með T1 (10sek hægari en ég).

Hjólið – 4:56:42

Var sem sagt frekar svekktur yfir sub-optimal sundi en það var lítið við því að gera og allur dagurinn framundan. Kom mér ágætlega af stað á hjólinu í gegnum þvælinginn í bænum. Passaði mig að lenda ekki aftan við einhverja strollu og eiga hættu á bláa spjaldinu (5mín drafting víti). Var annars mest að taka fram úr fólki fyrstu km á leið upp á hraðbrautina. Strax eftir 5-10km var ég kominn fram úr ansi mörgum og farið að verða aðeins gisnara á milli hjólara svo það var auðveldara að fara fram úr einum og einum og hægt að halda aðeins jafnara tempó á milli.

Ég fór fram úr kunnuglegum kauða kringum 10-15km en það var þá sjálfur Latsinn, sem hafði synt 2:30 hraðar en misst 40sek af því strax í T1. Hafþóri náði ég uppi á hraðbrautinni kringum 25km en hann hafði synt 3:30 hraðar en missti vel rúma mínútu á mig í T1.

Annars gekk þetta svona framan af hjólinu eins og venjulega. Ég reyndi að halda mínu planaða 230-240W álagi meðan ég var einn en svo lenti ég aftan við einhverja halarófu og þurfti að hægja á mér en gefa svo í til að fara fram úr henni. Stundum komu einhverjir trukkar fram úr mér og hægðu svo á þegar þeir voru komnir fram úr og ég þurfti að hægja á mér niður í ~200W sem var allt of rólegt miðað við planið. Svo þá þurfti ég að gefa í til að þjóta fram úr þeim aftur. Ekki ákjósanlegt að vera alltaf í þessum sprettum endalaust.

Eftir snúninginn efst á hraðbrautinni kringum 30km var þetta orðið sæmilega gisið og ég gat farið að rúlla á mínum hraða. Þetta var tiltölulega snemma miðað við fyrri keppnir (t.d. Barcelona), þar sem ég hef verið næstum hálfa hjólaleiðina að komast úr því að vera í endalausum framúrakstri yfir í að geta rúllað sæmilega jafnt. Taktíkin að ræsa frekar framarlega í sundinu að skila sér.

Þegar hér var komið við sögu gafst loksins tóm til að fara í greiningarvinnu. Þarna fór ég að reikna í huganum. Ef ég ætlaði að ná 9 tímum og ég gef mér að ég nái að hlaupa á 3 tímum og ég brenndi upp næstum 9 mín fram yfir klukkutímann á sundinu og skiptingarnar verða ekki minna en 7-8mín, þá þarf ég s.s. að vera amk. 15mín undir 5 tímunum að hjóla eða 4:45. Miðað við BestBikeSplit.com greininguna á brautinni, þá rámaði mig í að 230W myndi gefa mér ca. 4:50 og 240W myndi gefa mér ca. 4:45 og það var miðað við lygnt veður og frekar slétt malbik. En staðan þarna var að malbikið var oftar en ekki frekar dapurt og það stefndi í mótvind bæði leiðina upp á hraðbraut (20km) og til baka niður í Cervia af hraðbraut í lokin (20km) (því vindáttin átti að snúast yfir daginn) en annars ætti þetta að vera eitthvað í fangið, bakið og hliðina til skiptis á hraðbrautinni og upp að klifrinu í Bertinoro.

Þarna tókust á Dr. Jekyll og Mr Hyde í kollinum á mér:

a) skynsami verkfræðingurinn (Dr Jekyll) sagði mér að taka enga sénsa og halda plani á 230-240W og láta bara daginn gefa eins og aðstæður byðu upp á. Miðað við aðstæður yrði þá hjólið ekki undir 4:55-5:00 og ég myndi ekki eiga nokkra von um að fara undir níu tímana, því nokkuð ljóst að ég væri aldrei að fara að hlaupa á 2:45-50.

b) keppnismaðurinn (Mr Hyde) sagði mér hins vegar að þetta væri minn síðasti séns, því ég væri á leiðinni í Ironman pásu og kannski yrði ég aldrei aftur í formi til að reyna við níu tímana. Hér þyrfti hins vegar að fara út fyrir þægindarammann og taka meiri áhættu en ég hef gert í fyrri keppnum og trukka hjólið verulega upp til að vinna upp eitthvað af þessum tíma sem nú þegar var búinn að blæða og aðstæður myndi líklega kosta meira á hjólinu.

Skynsami verkfræðingurinn laut í gras þennan daginn og ég gíraði mig upp um ~10W og fór að keyra á 240-250W og mér fannst það ekki taka mikið meira á en rúllið framan af (sem var reyndar mjög mikið í framúrakstri).

Það var farið að hitna all nokkuð þarna í meðvindinum á hraðbrautinni en samt var ég ekki farinn að hafa áhyggjur af því á þessum tímapunkti. Sötraði minn útþynnta UCAN drykk – ætlaði að drekka einn brúsa á klukkutíma – og fékk mér gel eða stöng á hálftíma fresti.

Kringum 65-70km var komið að Bertinoro klifrinu, sem er ca. 150m hækkun með mesta halla upp á ~15%. Við vorum búnir að keyra þetta og skoða í vikunni og þetta var jú nokkuð bratt á stuttum köflum en samt ekkert svo hræðilegt. Og maður fengi góða endurheimt og fríkeypis hraða í rennslinu aftur niður á flatlendið.

Ég var búinn að ákveða að leyfa mér að fara „aðeins yfir 300W“ upp bröttustu kaflana en reyna sem mest að halda mig í Z4 í 270-300W í klifrinu. En svo var þetta bara ansi mikið brattara en ég átti von á og ég stóð mig að því að fara hátt í 400W á köflum og að kófsvitna í hitamollunni (Mr Hyde að störfum). Það var samt frekar skammt liðið á hjólið (tæpa tvo tíma) og ég ennþá frekar ferskur svo þetta var nú frekar lítið mál og ég hafði ekki áhyggjur af að ég væri að grilla mig þarna (sem ég sennilega var samt að gera) – var búinn að taka svona kafla (ásamt framúrakstinum) á flestum löngum æfingum í buildupinu.

Rúllið niður á hraðbraut aftur var tíðindalaust og ég að mestu einn að dóla með einum og einum framúrakstri og fáum sem fóru fram úr mér. Þegar ég kom á hraðbrautina var ég orðinn ansi þyrstur og tók vatnsflösku og orkudrykk á drykkjarstöð (var annars ekki búinn að taka neitt því með allar brúsafestingar fullar fram að því). Fannst ég vera búinn að vera sæmilega duglegur að drekka en samt var grunsamlega lítið búið að ganga á drykkinn minn. Búinn að fylla einu sinni á stýrisbrúsann og hann var ekki orðinn tómur – en ég hefði átt að vera kominn langleiðina á þriðja brúsa hérna. Var orðinn eitthvað lystarlaus og var ekki að taka gelin alveg samkvæmt plani heldur (þó að mestu).

Kringum drykkjarstöð kringum 90km fór lítill hópur af sterkum hjólurum fram úr mér og ég hengdi mig á hann en eins og oft áður þá fannst mér þeir hægja á sér svo ég fór fram úr flestum fljótlega aftur. Nema fremsti gaurinn var greinilega sprækur og var að síga fram úr halarófunni svo ég hengdi mig aftan á hann (með bili eins og lög gera ráð fyrir).

Hinir sigu aftur úr okkur og við vorum komnir tveir í litla „pace-línu“ þarna. Vorum svo sem ekki farnir að tala neitt saman en við jójóuðum hvor fram úr öðrum annað slagið þegar okkur leiddist þófið og fannst fremri maðurinn ekki fara nógu hratt (hlutverkaskipti byggð á pirringi frekar en samkomulagi). Þegar fór að nálgast snúninginn efst á hraðbrautinni kringum 100km vorum við farnir að horfa aðeins hvor á annan og ég amk. var farinn að flikka olnboganum eftir temmilega törn sem fremri maður til að gefa merki um að hann mætti gjarnan færa sig fram fyrir. Svona pace-línur eru algengar í Ironman og eru löglegar meðan menn standa löglega að framúrakstri og halda 10-12m bilið almennt (6 hjólalengdir). Ef ekki er mikill hliðarvindur, þá er alveg teljandi drafting sparnaður þó það sé þetta langt bil milli manna, sérstaklega ef margir eru í línunni. Ég reyndi að passa mig í framúrakstrinum fram úr gæjanum og þeim sem við fórum fram úr en mér fannst hann alltaf vera ansi kræfur í hvað hann seig lítið aftan við mig og hvað hann var grófur í að hjóla alveg í rassinn á þeim sem við fórum fram úr áður en hann fór til hliðar og framhjá.

Alla vega, þá var þetta ágætis fyrirkomulag. Við vorum að taka 2-3km fyrir framan á aðeins óþægilega háu álagi (240-250W) en sem aftari maður var maður eitthvað rólegri (210-230W?) og gat aðeins hvílt og teygt úr sér. En þetta þýddi að ég var að eyða ansi miklu púðri í þessa endalausu framúrakstra fram úr kauða (á 250-300W) og það hefur tekið sinn toll úr löppunum.

Það var mikið af dómurum á mótorhjólum alla leiðina og einhverjir sem fengu bláa spjaldið í kringum mig. Þegar við voru að nálgast endann á hraðbrautarkaflanum í 115-120km, þá heyri ég flautað fyrir aftan mig og mér brá eins og alltaf og þá hafði þessi pace-línu félagi minn fengið bláa spjaldið, líklega fyrir að hanga langt (og/eða lengi) innan við löglega fjarlægð fyrir aftan mig (eins og mér sýndist hann almennt gera).

Ég var skíthræddur um að ég fengi víti líka en svo var ekki – enda reyndi ég að passa bilið eins og ég gat þó eflaust hefði verið oft hægt að góma mig á óheppilegum tímapunkti innan fjarlægðarmarka (en þó örugglega ekki lengi þannig).

Gaurinn hjólaði svo fram úr mér og sagðist hafa fengið víti og ég sagði bara „Oh man, tough luck!“ en ég meinti samt „Gott á þig, svindlarinn þinn“ 🙂 Hann greinilega ætlaði að bruna að penalty boxinu og hvíla sig þar í 5mín vítinu.Hann náði mér svo aftur kringum 140-150km þegar ég var að nálgast hraðbrautina á leiðinni heim. En ég ákvað að elta hann ekki.

Undir lokin á þessari skilvirku en líklega eitruðu samvinnu okkar (fyrir mig amk) var ég farinn að þyngjast töluvert og farinn að lækka afltölurnar sem fremri maður og ekki lengur að stressa mig á lágum tölum sem aftari maður. Þegar hann hvarf svo á braut með bláa spjaldið sitt, þá ákvað ég að stokka spilin upp á nýtt og endurmeta stöðuna. Ég var þarna kominn um 120km, orðinn djöfullega þyrstur, ekkert búinn að pissa, langaði ekkert í gelin mín og orðinn ansi lúinn í löppunum og farinn að ströggla við upprunalega 230-240W markið. Tónaði mig því aðeins niður, kringum 210-220W til að reyna að endurheimta smá mojo, þó það væri sennilega orðið of seint.

Tók fram úr Ísold á flatanum upp að Bertinoro en hún hafði lenti í miklum hremmingum í sundinu og ég var þarna kominn 70km á undan henni (hún ræsti líka seinna en ég). Ég hrópaði hvatningarorð til hennar en það gafst ekki tóm fyrir djúpar heimspekilegar samræður þarna. Hún var bara sæmilega hress sýndist mér, líklega sprækari en ég…

Á drykkjarstöðinni í bænum undir Bertinoro var enginn að rétta drykki svo ég reyndi að grípa vatnsflösku af borði en klúðraði því og var nálægt því að hjóla á eitthvað borð – satans! Hefði svo þurft á þessari flösku að halda því orðinn vel skrælnaður þarna og langaði lítið í volgan UCAN drykkinn (sem ég var búinn að þynna meira út með vatninu frá fyrri drykkjarstöð).

Sem betur fer var aðeins farið að draga fyrir sólu þarna og dropaði aðeins úr lofti líka svo hitinn lækkaði aðeins. En klifrið var eftir upp hæðina og í þetta skiptið tók það mun meira á en á fyrri hringnum, kominn 130km inn í hjólið. Í þetta skiptið var enginn æsingur í mér og ég svigaði meira að segja upp hluta af bröttustu köflunum til að minnka aflið aðeins. En þetta reif samt vel í lappirnar. Fór fram úr hjólurum (líklega á fyrri hring) sem varla voru að ná að hjóla bröttu kaflana og líka fólki sem var búið að gefast upp á að hjóla og var að labba með hjólið upp. Gríðarlega feginn þegar ég komst upp í bæinn og að hápunktinum og kunni svo sannarlega að meta hressann múginn sem var þarna að hvetja – fannst vera mun fleiri þarna á seinni hringnum en kannski var það bara hausinn á mér sem skynjaði þetta öðruvísi. Nokkuð frakkur niður brekkuna aftur en mig minnir að það hafi verið blautt þarna svo það þurfti að fara varlega enda þröngt á köflum og nokkrar blindbeygjur.

Niðri í bænum undir hæðinni voru „bara“ 40km eftir og það að mestu á flata. Lítið annað að gera en að halda bara sjó í áframhaldandi sparakstri og reyna að jafna sig fyrir hlaupið. Tók tvær drykkjarflöskur á stöðinni kringum 160km og sturtaði í mig en var þá kominn í ansi duglega vökvaskuld og búinn að sleppa nokkrum gelum til viðbótar (var orðið hálf ómótt á þessum lokakafla).

Kom aleinn niður af hraðbrautinni niður á sveitaveginn og þar kárnaði gamanið, því þar mætti mér ansi stíf hafgola í fangið (eins og spáð hafði verið). Komst ekkert áfram þarna – var bara í ~200W eða rétt þar um kring svo þetta tók heila eilífð – orðinn aumur í öxlum, baki, klofi og lærum (eins og alltaf í lok IM hjólsins reyndar). Það fór einn gaur fram úr mér þarna en hann var það hraður að ég treysti mér ekki til að elta hann og hélt bara mínu (hæga) striki.

Kom fyrir rest inn í Cervia og vissi ekki hvað biði mín þar. Hef verið vel hamraður í lokin á hjólinu í hinum IM keppnunum – og samt átt þrusu góð hlaup – en ekki alveg svona kraftlaus sennilega. Jæja, var alla vega mjög feginn þegar ég tók síðustu beygjurnar og hringtorgin og renndi inn í T2.

Garmin segir að brautin hafi verið rúmlega 179km og hækkunin 620m (hjólatölvan) vs 670m (úrið). Ironman gefa upp opinberan hæðarprófíl sem 400m sem er bara kjaftæði – kalla Bertinoro „little speedbump“… Þeir segja líka: „the road surface is generally good so this is a fast course“. Get alveg fallist á að þetta sé „frekar hröð braut“ en 650m hækkun er töluvert annað en 400m hækkun og Bertinoro klifrið er „vel krefjandi“ og malbikið er oftar en ekki frekar glatað…

Og mig grunar að vindurinn þennan daginn hafi ekki verið eitthvað einsdæmi og þetta sé bara dæmigert á þessum slóðum – landátt að morgni með mótvind á leið upp á hraðbraut og hafgola um miðjan daginn með mótvind á leið niður í bæ. En ég er svo sem enginn veðurfræðingur…

Meðalhraði: 36,3km/klst
Normalized afl: 225W
Max afl: 673W
Max 20mín afl: 248W (allt of hátt!!)
13. í AG, 54. overall.

Mitt lang besta hjól í járnkarli (ekki tímalega en í sæti í AG) – enda heldur hraðar farið en innistæða var fyrir…

Skiptisvæðið eftir hjól. Frekar lítil gleði, enda varla göngufær.

T2 – 5:49

Fann það síðasta kaflann niður frá hraðbrautinni að ég var orðinn verulega þungur í löppunum, en það er svo sem ekkert nýtt í járnkarli. Maður er alltaf orðinn ansi grillaður eftir fimm tíma í hnakkinum – í löppum, klofi og öxlum. En ástandið í T2 var verra en ég óttaðist.

Um leið og ég steig af hjólinu urðu lappirnar sem steinrunnar og ég átti erfitt með að ganga í gegnum skiptisvæðið (það er nýjung fyrir mig). Þurfti að stoppa miðja leið að rekkanum mínum út af sársauka og stífleika.

En ég náði að hrista þetta ágætlega af mér lokametrana inn að rekkanum og var orðinn sæmilegur þegar ég losaði mig við hjólið og hjálminn.

Klæddi mig sitjandi í skóna og greip húfu, gleraugu og gelflösku og þrumaði mér út af skiptisvæðinu. Fannst ég hafa verið þarna inni í 10-15mín en þetta voru ekki nema 5:49, sem var bara ágætt miðað við að geta varla gengið með hjólið (hvað þá hlaupið) og að hafa stoppað í dágóða stund til að jafna mig.

Til samanburðar var Einar með 3:48 og AG sigurvegarinn með 4:07 í T2.

Hlaupið – 3:52:01

Eftir að ég jafnaði mig sæmilega á labbinu að hjólarekkanum í T2, þá komst ég strax á fínt rúll á ca. 4:10/km pace, sem var target til að fara undir 3 tímana. Gekk ágætlega fyrstu 2-3km en það hægði fljótt á mér niður í 4:30-4:45/km. Var svo sem búinn að búa mig undir að geta ekki haldið hraða þannig að ég vonaði bara að ég gæti haldið mér einhver staðar undir 5:00/km og sigla þessu einhvers staðar milli 3:00 og 3:30. Pissaði loksins kringum 3-5km. Sleppti einhverjum bunum fyrir sundið og í því en pissaði ekkert á hjólinu (sem er ekki góðs viti). Þannig að ég hef verið orðinn ansi skorpinn miðað við það magn vökva sem ég innbyrti þessa rúmu fimm tíma þangað til þessi buna loksins lak niður fótlegginn niður í skóinn á einhverri drykkjarstöðinni…

En undir lok fyrsta 10km hringsins, þá gáfu lappirnar sig og ég þurfti að byrja að labba rétt fyrir drykkjarstöð kringum 9km. Ætlaði ekki að koma mér af stað labbandi einu sinni fyrir sársauka og haltraði áfram í dágóða stund og reyndi að jafna mig. Sá þarna fram á að þurfa að labba rúma 30km í mark (og það á frekar hægri göngu) og það myndi taka mig all nokkra klukkutíma og myndi klára þrautina á kannski 12-13 tímum í besta falli.

Sýnist ég hafa labbað rúman km þarna með smá stoppi á drykkjarstöðinni. Kom mér að lokum aftur í hlaup á rétt undir 5:00/km en það entist ekki nema 2-3km áður en ég þurfti að labba aftur. Annar ca. kílómetri hlaupum en svo var ég kominn á brauðfætur og gat ekki hlaupið meira. Var þarna kominn um 17km og snarstoppaði – minnir að ég hafi séð drykkjarstöðina í fjarska (í lok annars hrings) en gat ómögulega hlaupið alla leið þangað. Man ekki nógu vel hvað ég setti ofan í mig um þetta leyti og hversu mikið en ég man að á einhverri drykkjarstöðinni fékk ég mér orkudrykk og RedBull og var ómögulegur í maganum á eftir (það gæti reyndar hafa verið á 9km stöðinni). Var nálægt því að skella í væna spýju en það slapp fyrir horn. Ákvað að sleppa rauðnautinu eftir þetta en mátaði mig við orkudrykkinn (og banana og vatn) smátt og smátt það sem eftir lifði hlaups (til að fá kolvetni og sölt í mig) og það slapp ágætlega í mallann. Tók nokkur orkugel líka en þau voru fá eða engin seinnipart hlaups.

Allt eftir ca. 10km er annars í all nokkurri þoku hjá mér. Þessir þrír seinni hringir renna allir saman í eitt. Einar fór fram úr mér á öðrum hring líklega (frekar en þriðja). Ég var svo sem að bíða eftir því og í ljósi ástandsins á mér þá var ég alls ekki tapsár yfir að það gerðist – var bara mjög ánægður að sjá „lærlinginn“ minn í góðum gír og vonaði að hann væri á siglingu að ná 10 tíma markmiðinu sínu (sem hann gerði glæsilega á 9:39 í 16. sæti í AG40-44!). Það fór að rigna um svipað leyti og ég bölvaði því í fyrstu enda allt í pollum og skór og galli holdvot, en þegar ég sætti mig við hana var rigningin bara svalandi.

Fór framhjá Davíð og Óla nokkrum sinnum auk fleiri Íslendinga á hliðarlínunni og allir voru voða elskulegir að hvetja mig áfram með öllum ráðum. En ég var bara svo reiður yfir ástandinu og svo einbeittur að berjast við nístandi sársaukann í lærunum að ég gerði sennilega lítið annað en að hvæsa „Takk“ með gremjusvip. Mætti Ísold og Sveini amk. 1-2x hvoru en man ekki til þess að hafa rekist á Hafþór, Almar eða Guðjón.

Á hlaupinu…

Eftir þetta krass kringum 17km datt ég inn í labb-hlaup takt þar sem ég reyndi að labba ekki meira en 200-300m og hlaupa nokkur hundruð metra í senn áður en ég þurfti að haltra aftur í labb vegna sársaukans. Einstaka sinnum tókst mér að plata sjálfan mig til að ná um kílómetra eða svo á hlaupum með því að sigta út drykkjarstöð, eitthvert kennileiti eða heilan/hálfan kílómetra á úrinu en það leiddi bara af sér að ég var handónýtur og þurfti að labba þeim mun lengra áður en ég gat hlaðið í nægan andlegan styrk til að hlaupa aftur. Með þessu móti var ég að klukka hvern kílómetra framan af kringum 6:30-7:00/km. Þegar á leið fóru hlaupakaflarnir að lengjast aðeins en þó ekki þannig að ég gæti hlaupið samfellt, jafnvel þó ég reyndi að hlaupa hægt – það gekk betur að hlaupa sæmilega hratt í stuttan tíma í senn. Undir lokin, frá ca. 30km og í mark var ég farinn að ná meðal kílómetra hraða upp á 5:30-6:00. Var mjög einbeittur í að reyna að hlaupa samfellt frá 37km markinu síðustu 5km í mark en það var ekki að fara að gerast og ég bugaðist sem fyrr eftir uþb. kílómetra. Það var ekki fyrr en kringum 39km eða 40km markið sem ég náði viljastyrk til að hlaupa samfellt í mark. Tókst að rífa hraðann aðeins upp kringum hringtorgið þar sem maður beygir niður að marksvæðinu með nokkur hundruð metra eftir og „endaspretturinn“ var á 4:10/km pace. Náði í restina einum sem var alveg bugaður og mér tókst að hvetja hann eitthvað áfram og fylgja mér í markið (hann var vonandi þakklátur).

Einar beið mín í markinu og var að vonum kampakátur með sitt góða gengi. Ég samgladdist honum innilega en mér leið svo hrikalega illa að ég var ekki sérlega skemmilegur félagsskapur – svimaði hrikalega mikið og var óglatt. Langaði hvorki í mat né drykk. Sat dágóða stund með Einari og svo kom Hafþór í mark skömmu á eftir mér og settist hjá okkur. Ég ákvað svo að fara í sjúkratjaldið (enn einu sinni) til að láta tékka á mér. Vildi ekki fara einn upp á hótelið í þessu ástandi. Það var svo sem ekki mikið að mér (líklega bara mikill vökvaskortur) en ég lá þarna á sjúkrabörum undir álteppi um klukkutíma áður en ég óskaði eftir að fá að skakklappast heim.

Garmin gefur mér að hlaupið hafi ekki verið nema 41,4km og með nánast engri hækkun (13m). Eini gallinn við brautina er að það er ansi mikið af kröppum beygjum, sem eru áskorun – sérstaklega seinni partinn þegar lappir orðnar þungar. En að öðru leyti ætti þessi braut að bjóða upp á mjög góða tíma. Myndi segja að hún væri töluvert hagstæðari og skemmtilegri en Barcelona hlaupabrautin, sem er ágætlega flöt, aðeins of stutt en með mjög langa og leiðinlega mannlausa kafla.

Meðalhraði: 5:36/km
Hægasti km: 8:20 (#17 eða #18)
85. í AG, 375. overall.

Óvenju slakt hjá mér enda gekk þetta frekar brösulega. Er yfirleitt með allra hröðustu hlaupurunum, ekki bara í aldursflokki heldur overall.

Uppgjör

Sit hér heima við tölvuna í borg óttans þegar ég lýk þessum maraþonskrifum tæpum 3 vikum eftir keppnina. Er búinn að bútasauma pistilinn í skömmtum síðustu vikurnar. Þannig að ég er kominn með næga fjarlægð frá þessum ósköpum til að geta „reflektað“ sæmilega gáfulega á keppnina.

Ég get ekki neitað því að það er með frekar súrt bragð í munni sem ég skil við þennan járnkarl. Hinir þrír höfðu gengið svo vel, þó þeir hafi allir verið hrikalega erfiðir líka. Fannst í hinum þremur keppnunum að ég hafi náð öllu út úr mér og skilið allt eftir í brautinni. Auðvitað gekk ekki allt að óskum í þeim heldur en ég náði að naga mig í gegnum erfiðleikana þannig að mér fannst sómi af. Þar náði ég þessum góða árangri með miklum viljastyrk ofan á dýrmæta keppnisreynslu og gott líkamlegt form.

Það er auðvitað þannig að ég fór inn í þessa keppni með mjög metnaðarfullt markmið enda egóið stórt og það þarf að næra það. Átti að vera mitt „magnum opus“ í minni síðustu Ironmam keppni. Miklum metnaði fylgir líka að maður þarf að þrýsta á öll þolmörk til að kreista út allt sem skrokkurinn hefur upp á að bjóða. Þannig að það var ljóst að ég myndi þurfa að fara nær mínum mörkum en nokkru sinni fyrr, jafnvel þó ég væri í mínu besta hjólaformi (sundið var líklega á pari og hlaupaformið kannski eitthvað síðra út af meiðslunum).

Það voru náttúrulega eftir á að hyggja taktísk mistök að þrjóskast við að stefna á níu tímana þegar það var ljóst af veðurspánni og landslaginu að það yrði erfitt að fara mikið undir fimm tímana á hjólinu. Ég hefði átt að gera eins og ég hef alltaf gert – að halda plani – því í buildupinu (einkum BigDay) var ég búinn að máta mig við keppnisálagið og ákvarða þar hvar þolmörkin lágu.

Á hjólinu tók ég þessa „gut feeling“ ákvörðun frekar snemma (kringum 20-30km) um að taka sénsinn og keyra á 10W umfram „planið“ til að vinna upp tíma sem ég hafði „tapað“ á sundinu. Í Barcelona tók ég sambærilega ákvörðun en þar var hún tekin eftir 90km þegar ég var kominn 5-10mín á eftir áætlun á miðri leið. Þar var staðan hins vegar sú að út af mannmergð og aðstæðum (vindi og bleytu) var ég ekki að ná að halda uppi target afli á fyrri helmingnum, svo ég gíraði mig upp og fór aðeins yfir target seinni partinn til að vinna upp „tapið“. Þar kom ég líka vel hamraður inn í T2 eftir að hafa glímt við krampa síðustu 20km á hjólinu. Ég slapp með skrekkinn þar og átti frábært hlaup upp á 2:59 og vann mér inn Kona sætið fyrir vikið. Ef ég hefði ekki tekið sénsinn þar á seinni 90km, þá hefði ég ekki komist til Kona…

Vogun vinnur – vogun tapar. Og í þessari keppni gekk kapallinn bara ekki upp og ég sat uppi með Svartapétur á hlaupinu og leið verulega fyrir það.

En hvað er ég annars að væla? Ég klára keppnina á 10:06:45, sem er tími sem flesta bara dreymir um og ég er hundfúll með að hafa „klúðrað keppninni.“ Er bara orðinn svo góðu vanur… 🙂

Get alveg verið stoltur af minni frammistöðu miðað við hvernig spilaðist úr þessu. Að ná að þjarka mér í mark í hlaupinu á undir 4 tímum með skrokkinn í molum og vera ekki nema 6 mínútum frá því að fara undir 10 tímana í keppni sem „klúðraðist“ er ekki amarlegt, þó ég hafi ætlað mér stærri hluti.

Hugga mig við það að ef ég hefði verið skynsamur á hjólinu og haldið plani og lappirnar verið í góðum gír fyrir hlaupið, þá hefði ég mögulega skilað mér í mark á 9:10 og endað í 4. sæti eða á 9:20 og í 6. sæti í AG. En í staðinn enda ég 34. í AG (161. overall og þriðji í kvennaflokki 🙂

Eftir keppni eru allir kátir. Höfundur, Sveinn, Einar og Ísold.

Nú er komið að kveðjustund hjá mér í þessum þríþrautar „kreðsum“.

Mínum Ironman ferli er lokið að sinni og óvíst hvort og þá hvenær ég keppi í slíkri þraut aftur. Er með það bakvið eyrað að taka kannski IM kringum fimmtugt (eftir 6 ár) og reyna að komast aftur til Kona. Það vita það amk. allir sem til mín þekkja að ég er ekkert að fara að setjast upp í sófa að safna spiki. Ég mun pottþétt vera duglegur að hjóla og hlaupa í framhaldinu þannig að það er stutt í endurkomu ef hugurinn leitar þangað, þó svo sundhettan muni líklega blotna eitthvað minna en undanfarin misseri.

Markmiðið fyrir 2022 er að vera ekki með neitt stórt „endurance“ markmið nema kannski hálfmaraþon (hér heima) eða eitthvað slíkt. Klifurmarkmið verða efst á listanum og markmið að hafa minna að gera í lífinu… 🙂

Markmið fyrir árin þar á eftir eru enn óráðin en það er búið að vera lengi á dagskrá að taka 100km fjallahlaup og mögulega eitthvað ennþá lengra í fjarlægri framtíð.

Þakka þeim sem hafa fylgst með mér síðustu ár og sérstaklega þeim sem nenntu að lesa gegnum þetta ritverk.

Þakka fjölskyldunni minni fyrir mikla þolinmæði, skilning og hvatningu.
Þakka stuðningsaðilunum: Símanum/Mílu, Fætur toga og GÁP.
Þakka æfingafélögum í Ægir3 fyrir samfylgdina. Ég kíki eitthvað á æfingar með ykkur í framhaldinu þó það verði eitthvað sjaldnar en liðin misseri.

Hef vonandi orðið einhverjum hvatning til dáða og náð að gefa eitthvað af mér og minni reynslu með þessu brölti mínu og sögum af því.

Sigurður Tómas Þórisson