Með viljann að vopni

Aðdragandi
Eftir að ég kláraði hálfan Ironman í Zell Am See haustið 2019 ákvað ég að skrá mig í annan hálfan Ironman í Cervia á Ítalíu árið 2020. Ég æfði jafnt og þétt í byrjun árs 2020 og fram á sumar. 50 dögum fyrir þá keppni kom tilkynning um að henni yrði frestað um ár vegna COVID. Þá sá ég fram á að geta æft mikið um veturinn og ákvað því að breyta skráningunni minni úr hálfum Ironman í heilan.

Í október 2020 byrjaði ég að æfa markvisst eftir plani frá Sigga Erni þjálfaranum mínum. Ég tvinnaði saman æfingar frá Sigga, æfingar með þríþrautarliðinu mínu Ægi3 og CBC hjólatíma sem ég kenni hjá World Class. Fram að áramótum voru æfingarnar frekar þægilegar og ég var spennt að halda áfram að vinna að markmiðinu mínu á nýju ári. Í lok janúar 2021 fékk ég botnlangakast og fór í botnlangatöku. Þegar mér var sagt að ég mætti ekki æfa í fjórar vikur eftir aðgerðina hélt ég að markmiðið væri úti. En aðgerðin gekk vel, botnlanginn fjarlægður og hans er svo sannarlega ekki saknað.

Ég byrjaði að æfa rólega aftur í mars og skráði mig á framhaldsskriðsundsnámskeið en 1. apríl lokuðu laugarnar útaf COVID. Um leið og fór að vora og hægt var að byrja að synda í stöðuvötnum og sjónum reyndi ég að vera dugleg að synda þar en einhverra hluta vegna finnst mér það miklu skemmtilegra og auðveldara en að synda fram og til baka í sundlaug. Fyrir þá sem ekki vita var ég nánast ósynd í byrjun árs 2019 og hefur sundið því alltaf reynst mér erfiðast af greinunum þremur í þríþraut.

Sumarið mitt einkenndist af löngum æfingum, vinnu og ferðalögum, ýmist til að æfa eða keppa, og ég tók þátt í hinum ýmsu þríþrautar-, hlaupa- og hjólakeppnum til að undirbúa mig fyrir stóra markmiðið. Í lok júlí varð ég þó þreytt á að fylgja strangri æfingaáætlun og “þurfa” að taka ákveðna æfingu á ákveðnu álagi nánast daglega. Ég áttaði mig þó fljótt á því að það er eðlilegt að vera ekki alltaf í stuði fyrir æfingar og leyfði mér að slaka á. Þetta tímabil gekk fljótt yfir og í byrjun ágúst þegar búið var að staðfesta að keppnin yrði haldin datt ég aftur í gírinn og varð allt í einu miklu spenntari og tilbúnari en ég hafði áður verið. Síðustu dagana fyrir keppnina fann ég að ég var 100% tilbúin og í mínum huga fannst mér þetta mjög viðráðanlegt og það kom aldrei upp í hugann að ég myndi ekki klára keppnina. Ég vissi að ég var búin að undirbúa mig eins vel og ég gat en áttaði mig þó á að í svona langri keppni væru 99% líkur á að það myndi ekki allt fara eins og ég hefði gert ráð fyrir.


3800 m SUND

Ég byrjaði að synda og leið strax mjög vel, fannst ég þjóta áfram (miðað við minn sundhraða🤪). Eftir ca. 2500 m fann ég allt í einu að ég varð eitthvað skrítin og nokkrum sekúndum seinna byrjaði ég að kasta upp og var greinilega orðin svona hrikalega sjóveik. Það komu þrjár góðar gusur og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Var þetta í alvöru að gerast? Ég hef oft synt í sjó og stöðuvötnum en aldrei fundið fyrir sjóveiki, hafði ekki hugsað út í að þetta gæti mögulega gerst og því ekki undirbúið þetta. Ég svamlaði að næstu bauju og hékk þar. Þá kom björgunarmaður á báti til mín og spurði hvort ég væri í lagi, ég rétti bara upp þumalfingur enda var mér enn svo óglatt að ég gat varla talað. Eftir dágóða stund á baujunni byrjaði ég að synda aftur en tók þá bringusund og stoppaði svo aftur stuttu seinna. Svona gekk þetta áfram, ég synti í smá stund og fann mér svo bát til að hanga á. Það kom aldrei til greina að hætta keppni þó að ógleðin hafi verið viðbjóður og ég alveg orkulaus. Þegar ca 200 metrar voru í að ég kæmist í land kastaði ég upp þremur gusum til viðbótar í sjóinn og yfir „paddle board” hjá björgunarmanni sem hafði fylgt mér síðasta kílómetrann. Björgunarmaðurinn (sem talaði litla sem enga ensku) sagði þá „you will finish”, ég sagði honum að það kæmi ekki annað til greina, þakkaði honum kærlega fyrir aðstoðina, svamlaði restina og komst í land fegnari en nokkru sinni fyrr. Það getur nú eitt og annað komið upp á í svona keppni en ekki átti ég von á þessari byrjun. Sundtími: 1:51:43 og skiptitími: 7:10.

Ég hljóp upp úr sjónum fagnandi, aldrei verið jafn ánægð að klára sund. Þrátt fyrir ógleði náði ég að hlaupa í gegnum skiptisvæðið, græja mig og byrja að hjóla.


180 km HJÓL

Planið var að fá mér orkustykki um leið og ég byrjaði að hjóla en ég fann strax að ég hafði enga lyst og var orkulaus. Ég var búin að æfa og skipuleggja næringarinntöku alveg í þaula og ætlaði að taka inn næringu á 30 mín fresti. Þetta hafði ég gert á öllum æfingum síðustu mánuðina og alltaf gengið vel. Þrátt fyrir það hafði ég enga lyst eftir uppköstin í sjónum en reyndi þó að troða eitthverri næringu í mig en alls ekki eins og ég hafði planað. Það var ekki fyrr en eftir 90 km sem mér fannst ógleðin hverfa og mér fannst ég þjóta áfram, allt í einu hafði ég fína matarlyst og reyndi að taka inn mikla næringu. VÁ hvað það var gaman að hjóla um ítalskar sveitir í nánast algjöru logni. Eftir ca 130 km á hjólinu byrjaði að rigna sem mér fannst frábært. Stuttu seinna varð hjólatölvan mín batteríslaus en þá notaði ég bara úrið og kláraði hjólið með stæl, þarna var allt að smella og mér fannst þetta heldur betur minn dagur! Hjólatími: 6:22:01. Skiptitími: 5:31
Ég hoppaði af hjólinu, setti það á sinn stað, tók af mér hjálminn, fór í hlaupaskó, setti á mig sólarvörn og hljóp af stað.

Að hjóla í logni og blíðviðri er góð skemmtun


42,2 km HLAUP

Hlaupið hefði ekki geta byrjað betur. Mér fannst ég full af orku og allt eins og það átti að vera. Ég náði að taka inn næringu á 30 mín fresti (eins og planið var) fyrstu 20 km og allt var á réttri leið. Eftir ca 25 km fór mér að líða eitthvað skringilega en áttaði mig ekki á því hvað það var. Ég fór að þurfa að stoppa og labba þangað til ég hálf datt niður á fjórar fætur. Þá kom kona, sem var líka að keppa, til mín og spurði hvort það væri í lagi með mig. Ég sagði henni að ég vissi það ekki en að mig vantaði örugglega bara næringu. Þá kallaði hún hátt yfir allt og spurði hvort einhver ætti til orkugel fyrir mig. Allt í einu voru komin sjö mismunandi gel til mín og ég tók eitt þeirra. Áður en ég vissi af voru fjórir sjúkraflutningamenn komnir til mín og báðu mig um að koma með sér í sjúkrabílinn. Ég sagðist alls ekki ætla að koma, að ég ætlaði aldeilis að klára keppnina en vantaði bara banana (þó að ég hefði ekki hugmynd um hvað væri að). Þá sögðu þeir að þeir vildu bara mæla hjá mér blóðþrýsting og blóðsykur og mögulega gefa mér vökva í æð. Ég hef aldrei lent í alvarlegum orkuskorti í keppni eða á æfingu. Stuttu síðar var Sveinn kominn, hann var þá að klára sinn síðasta hring af fjórum en ég var á þriðja hring. Sjúkraflutningamennirnir útskýrðu fyrir Sveini hvað væri í gangi og hann sannfærði mig um að fara með þeim og svo myndi ég fá að klára keppnina.

Drjúgur varð síðasti áfanginn

Sjúkraflutningamennirnir hjálpuðu mér að standa upp og ganga að sjúkrabílnum. Þarna var ég ekki viss um að líkaminn myndi leyfa mér að halda áfram keppni en áður en Sveinn hélt áfram sagði hann ákveðinn „við sjáumst í markinu”. Í sjúkrabílnum mældu þeir blóðþrýsting og blóðsykur og þær mælingar komu vel út. Þeir vildu þó gefa mér glúkósa og ég drakk ágætis magn af honum. Þá þakkaði ég kærlega fyrir mig og sagðist ætla að klára keppnina. Þeir voru hálf gáttaðir en kvöddu mig og óskuðu mér góðs gengis. Ég gekk af stað og allt í einu var eins og kveikt hefði verið á mér aftur og ég hljóp af stað. Ég kláraði þriðja hringinn og byrjaði á þeim fjórða. Þegar ég hljóp framhjá sjúkraflutningamönnunum á fjórða hring rétti ég upp hendur og gargaði eins og ég hefði sigrað ólympíuleikana „look at me, I’m finishing!!!”. Sjúkraflutningamennirnir litu út fyrir að hafa ekki átt von á að sjá mig klára fjórða hringinn en hrópuðu og klöppuðu fyrir mér. Bræður mínir biðu eftir mér við 39. kílómetra og hlupu með mér restina. Með gleði, jákvæðni og dass af klikkuðu keppnisskapi að vopni tókst mér að komast að rauða dreglinum. Þessi tilfinning! Ég dansaði, hljóp, lyfti höndum, hrópaði og grét þegar ég hljóp dregilinn á enda en þar beið fjölskyldan mín og allir voru með tárin í augunum. Þvílíkur SIGUR. Yngsta íslenska konan sem klárar heilan IRONMAN. Orðlaus.Hlaupatími: 5:06:57. Heildatíminn 13:33,19.


Það sem mér finnst einna skemmtilegast við svona keppni er hvað það þarf að huga að mörgu fyrir hana. Það er eitt og annað sem getur komið upp á en aldrei datt mér í hug að ég yrði svona sjóveik, myndi missa alla orku með uppköstum og krassa í hlaupinu vegna þess. Eins og áður sagði hef ég aldrei lent í neinu slíku en svona getur líkaminn nú komið manni skemmtilega á óvart.Hér sit ég og skrifa keppnissöguna mína með tárin í augunum, er enn að melta allt sem gerðist og á eftir að gera það í langan tíma. Svona keppni er svo miklu meira en bara að synda, hjóla og hlaupa. Allar löngu æfingarnar í roki og rigningu, hafa kollinn á réttum stað, ákvarðanir um næringu, undirbúa og æfa búnaðinn og svo miklu miklu meira. Ég á svo mörgum að þakka þennan sigur. Coach Siggi er búinn að hjálpa mér að undirbúa nánast alla þætti fyrir keppnina og er ég honum virkilega þakklát. TRI verslun og Fætur toga pössuðu upp á að ég væri með besta búnaðinn í keppninni. Liðsfélagar mínir í Ægi3 eru alltaf tilbúnir að gefa mér ráð, lána búnað og hvetja mig áfram. Geir Ómarsson er alltaf innan handar og fínpússaði sundið hjá mér rétt fyrir keppni. Hjólateymið mitt í CBC á Seltjarnarnesi gerði hjólaæfingarnar síðasta vetur svo margfalt skemmtilegri.

Mikilvægast af öllu var þó stuðningur og endalaus hvatning frá fólkinu mínu, Sveini, fjölskyldunni og öllum dýrmætu vinum mínum.
Hugsum lengra, setjum okkur stærri markmið, stefnum hærra og látum draumana rætast – það gerir lífið svo miklu skemmtilegra.

Ísold Norðfjörð

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s