Sól og sviti í Svíþjóð

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa langloku:

Ég kláraði Ironman í Kalmar Svíþjóð 2022

3.8 km sund – 1 klst 4 min og 23 sek = 1:40 pace

180 km hjól – 5 klst 9 min og 23 sek – 34,91 km meðalhraði.

42.2 km hlaup – 3 klst 28 min og 10 sek – 4:56 pace

Lokatími : 9 klst 47 min og 20 sek

20 sæti af 235 í aldursflokki af þeim sem kláruðu

146 sæti af 1790 sem kláruðu (2050 skráðir)

Sjötta heila Ironman keppnin mín á sex árum.

Hér kemur langlokan fyrir ykkur hin. Ég mæli með að þið náið ykkur í kaffibolla áður en lengra er haldið, eða vatn í glasið eða 10 mín pásu frá því sem þið eruð að gera. Að skrifa svona pistil hjálpar að viðhalda minningum sem dofna með árunum. Vona að þið látið ekki egóið mitt angra ykkur og vonandi hafið þið gaman af.

Aðdragandinn:

Árið 2016 hitti ég Einar Örn Guðmundssonfrænda í veislu hjá Ásu frænku þar sem hann fræddi mig um hóp manna sem ætlaði að taka þátt í Ironman keppni.

Ég óskaði eftir að fá inngöngu facebook hópinn. Einhver þekkti GGeir Ómarssonsem var ægilegur spekingur í Ironman og átti að hitta okkur til að segja okkur allan sannleikann um þetta fyrirbæri. Hann var svo upptekinn að æfa að hann boðaði okkur frekar á kynningu hjá Ægir3 og þá fór boltinn að rúlla.

Það skemmtilega vill svo til að næsta kynning hjá Ægir3 er þann 1. september næstkomandi kl 20:00 í sal við Laugardalslaug. Ef þríþraut kitlar þig þá skaltu mæta!

Til að gera langa sögu stutta. Einsi frændi fór aldrei í IM. Við reyndum árið 2020 en viku fyrir brottför til Suður Afríku greindist fyrsta covid smitið á Íslandi, og bleh…

Sex járnköllum seinna eða í september 2021 var ákveðið að negla á þetta með Einsa. En það var kominn auka manneskja sem vildi vera með í fjörinu. Það vildi svo skemmtilega til að var eiginkona Einsa frænda. Hún heitir Margrét Lára Viðarsdóttir

Undirbúningurinn:

Eins og áður mætti ég mikið á æfingar hjá Ægir3 og kenndi CBC hjólatíma í WorldClass Mosó. Æfingar gengu vel. Ég lagði meiri áherslu á sundið en ég hafði áður gert. Ég setti endurheimt upp á næsta stig þar sem sauna og kaldir pottar voru stundaðir af miklu kappi. Ég hef sjaldan verið ferskari í kroppnum. Ég náði þó ítrekað að trufla ró fólksins sem sótti í infrared saunu í Lágafellssundlaug. Það tengist því að ég tala svo hátt. Svo vilja ótrúlega margir ræða þessi fræði við mig inni í þurr-saununni. Athugið eitt: það eru tveir sauna klefar og ég truflaði fólkið í hinum klefanum. Því allir vilja hlusta í þeim klefa sem ég sit í. Já, ég tala hátt.

Þetta minnir mig á þegar ég ræddi við Sigga Frosta vin minn fyrir mörgum árum í síma í vinnunni á MT stofunni um að við værum eistna bræður. Því við hefðum aðeins eitt eista. Skjólstæðingurinn sem lá á bekknum hjá Oddu sjúkraþjálfara í hinu herberginu hafði engan áhuga að vita neitt um eistu og eistna bræður.

Allavega…

Saunu ferðirnar gengu vel. Oft var ég einn inní saunu og gat þá lagst niður á trébekkinn, hallað aftur augum og hlustað á góða tónlist í sund heyrnartólunum mínum. En þá vissi ég ekki að fólk læddist inn. Í eitt skiptið söng ég lag með David Bowie upphátt, meira svona muldarði: Ground control to major Tom. Take your protein pills and put your helmet on. Countdown og svo taldi ég niður frá 10 niður í 1. Lift off. Þá heyrði ég eldri manni í saununni segja: “Ertu að fara eitthvað vinur?”

Eftir það söng/muldarði ég ekki meir.

Þegar leið á sumarið náði ég mörgum góðum og löngum æfingum. Nokkrar keppnir hér innanlands en ætlaði að enda á Jökulsárhlaupinu, nákvæmlega tveimur vikum fyrir Ironman

Kalmar. Það hentaði einstaklega vel því það var í sveitinni hjá tengdafólkinu mínu í Öxarfirði og gaman væri að taka langt 32 km hlaup í æðislegu umhverfi.

Ég bar það undir yfirþjálfara Ægir3 sem er fyrrnefndur Geir Ómarsson og hann sagði grimmt nei. Ha? Hvað veit hann? Hann hefur ekki nema 15 ára reynslu í þessu. Hann ferðast með grímu í flugvél þó það sé ekki Covid til að vera ekki veikur fyrir sínar keppnir og svo er hann stundum mjög óratvís. Ég ákveð að hlusta ekki á hann og fer samt í hlaupið, þetta getur ekki klikkað.

Á keppnisdegi er bongó veður og allir hressir. Hlaupið fór vel af stað. Ég hélt þægilegu tempói og tiplaði af einskærri list yfir alla steina og gekk vel. Þegar var kominn 14 km og fer yfir Stallá lenti ég í mikilli drullu og hvað gerist…? þið giskuðuð rétt.. ég missteig mig, togna á ökkla. Mér leið fyrst eins og þetta væri lítið svo ég hélt áfram næstu 4 km niður í Hljóðakletta. Dauðlangaði að halda áfram en skynsemin tók völd og fyrsta DNF (did not finish) í keppni var staðreynd.

Ég rúllaði uppí Hafrafellstungu í sófan hjá tengdapabba og taldi mér trú um að þetta væri í lagi. Þrýstingur, kæling og fótur upp í loft. Nokkrum klukkustundum seinna grét ég inn í mér þegar ökklinn byrjaði að bólgna og bólgna. Í stutta stund hélt ég að ég væri þarna búinn að klúðra Ironman keppninni sem ég var búinn að undirbúa í eitt ár. Helvítis fífl get ég verið! Og sjálfsásakanirnar byrja að brjóta mann niður. En svo hugsa ég: Þú breytir ekki því sem orðið er. Er ennþá ekki búinn að segja Geir frá þessu. Bið ykkur að segja honum ekki frá. Áfram gakk!

Note to self. Hlustaðu á þjálfarann! Ég gerði ekkert í 4-5 daga en ég þekki ágætan sjúkraþjálfara sem tók mig strax í meðferð. Hann var búinn að kaupa nýjan laser og þekkti endurheimtunar fræðin býsna vel, kallaður Latsi. Meðferðin þurfti að vera skilvirk og góð því ég átti erfitt með gang daginn eftir tognunina. Hvernig í ósköpunum á ég að hlaupa maraþon eftir minna en tvær vikur!!!

Tapering eða síðustu æfingar fyrir IM keppni breyttist töluvert en ég varð að sníða stakk eftir vexti.

Ferðalagið.

Þetta er í sjötta skiptið sem ég fer í IM en ég hef aldrei tekið fjölskylduna mína með mér. Það mætti segja að ég sé smá einfari og mér finnst þægilegt að vera í minni búbblu. Ég hef þó vissulega farið með öðrum íslenskum keppendum oft áður.

En ekki í þetta skiptið. Konan mín og börnin tvö komu með og svo bætti ég gamla settinu með líka (mömmu Helga Einarsdóttirog pabba Sigurjon Eiriksson. Vá hvað það var gaman! Við flugum til Danmerkur þar sem Kristín Anna frænka og Palli stjönuðu við okkur og hittum svo Einar Örn og Margréti í Svíþjóð ásamt Gumma frænda og Súsönnu. Vorum í þessu stórglæsilega sumarhúsi á eyjunni Öland sem er austan við Kalmar.

Auðvitað var sól, sviti og hitabylgja í Svíþjóð og hitinn fór alla daga vel yfir 28 gráður í forsælu. Svefninn eftir því; sveittur og slitróttur.

Ökklinn náði sér á ótrúlegan hátt og ég tók fyrsta hlaup viku fyrir keppni og vissi þá að hann yrði orðinn keppnisfær á réttum tíma. Það var synt, hjólað og hlaupið með Einsa frænda og Margréti Láru og allt gekk vel… þangað til að næsta óhapp reið yfir.. En í þetta skipti var það hinn Einar eða tvennar. Við vorum í hjólatúr á Öland og ég var nýbúinn að segja við þau hjónin að ég ætlaði að taka smá hjólakeyrslu og brunaði í burtu. Einar er að hjóla út í kanti á veginum og er að líta til baka og athuga stöðuna á Margréti Láru. Augnabliks einbeitingarleysi á sér stað. Hann horfir svo fram aftur og fremra dekkið er komið upp að gangstéttinni svo hann nær ekki að beygja hjólið. Stekkur uppá gangstéttina og hvað haldið þið?. Þar bíður eftir honum staur sem hann þrumar á á 25 km/klst hraða. Höggið beint á bringuna og viðbeinið (mynd). Shiiit. Keppnin farin og hjólið líka.. eða það hélt hann á þessum tímapunkti og Margrét í andlegu áfalli því hún horfir á hann lenda í þessu. Nokkrir ökumenn urðu vitni að þessu og stoppuðu til að huga að okkar manni, sem bar sig vel. Það verður auðvitað að fylgja sögunni og staurinn beyglaðist við höggið og má þekkja hann (staurinn) á löngu færi eftir skellinn. Ég leit á þetta sem spádóm um að Einsi væri að fara að klára þetta og verða Ironman. Grjótharður. Auðvitað var það rétt. Sem betur fer hafði Einsi þrjá daga til að jafna sig sem og hann gerði að mestu.

Veðrið.

Það sem skiptir miklu máli þegar farið er í svona keppni er veðrið. Það var búið að vera mjög heitt og það skrítna var að veðurspáin fyrir keppnisdaginn var mjög breytileg. Veðurspáin breyttist á hverjum degi oft á dag þegar við vorum að skoða hana. Það mætti halda að værum á Íslandi. Tveimur dögum fyrir keppnina fékk ég smá áfall. Í facebook keppnisspjallinu fyrir IM Kalmar var verið að tala um að sundið yrði fellt niður vegna eldinga spár. Ha? hvað er í gangi? Ég lagðist á koddan með vonda tilfinningu þetta kvöldið. Daginn eftir leit þetta betur út. Vindur í hjólabrautinni á Öland og hiti í hlaupinu. En eldingar og sól voru ekki í kortunum. Hjúkk. Ég gat tekið gleði mína að nýju.

Keppnismorgun.

Ég, Einsi og Margrét keyrðum af stað kl 05:10 til Kalmar. Ég fékk að velja lag með Valdimar – Stimpla mig út og U2 – Magnificent. Svo spiluðu þau hjónakornin hvern slagarann á fætur öðrum. Nokkra sænska og ´80s lög. Þvílíka stemmningin. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar hent var í Stjórnina – Ég lifi í voninni með Siggu Beinteins. Veisla.

Það gekk vel að finna bílastæði í Kalmar og við röltum upp á skiptisvæði til að athuga með hjólin og setja brúsa og næringu á sinn stað. Allt leit vel út. Yfir 2000 keppendur og annað eins af áhorfendum. Ég hef sjaldan séð jafn mikið af fólki mætt til að hvetja strax í startinu snemma morguns. Klárlega mesta stemning í keppni sem hef upplifað. Við klæddum okkur í blautbúninga og kvöddumst.

Ég var búinn að ákveða að fara aftarlega í 60 mín hólfið í sundinu (áætlaður sundtími).

Ég finn alltaf þessa streitu og tilhlökkun fyrir keppni. Fiðringur í maganum, hún er góð og erfið en ég þrái hana. Allt í einu kemur þessi svakalegi hvellur. Sprengja? Nema þetta var ekki sprengja. Það var búið að hlaða í fallbyssu til að starta keppnina og fólki brá svo mikið að sumir misstu þvag.. eða kannski var fólk bara að létta á sér fyrir sundið? Sennilega. Ert hvort sem er að hoppa út í sjó sem var þægilega sléttur í morgunsárið.

Keppendur hlupu í tveimur röðum og út í sjóinn. Ég fór aftur í huganum að syngja léttan David Bowie, elska þetta lag: Space Oddity. Taldi niður úr 10 í 1. Lift off alveg eins og í saununni og hoppaði út í sjóinn.

Sundið:

Sundleggurinn er í 20° heitum sjó í tiltölulega flókinni braut. Gular baujur á vinstri hönd, appelsínugular á hægri hönd. Ok. þetta er ekki flókið. Gleymdi því samt um leið. Yfirleitt er kosturinn við sjóinn að það er betra flot út af salti. En nú kemur twistið. Eystrasaltið (þar sem við syndum) er ekki svo salt. Það er eiginlega ekkert salt til þess að gera. Hver skýrði þetta eiginlega EystraSALT?

Fyrstu 500m var ég að ná takti og finna mér stað og tær til að elta. Það gekk brösulega til að byrja með, en svo sá ég einn með appelsínugular skálmar sem mér tókst að elta ágætlega. Ímynda mér að hafi náð að drafta hann í góðan 1 km en missti svo af honum í einni af mörgum beygjum. Hugurinn reikaði ekki svo mikið heldur var einbeiting á sundtak og stíl.

Við eina beygjuna fékk ég svo í fyrsta skipti einn ,,god morning”. Högg beint í gagnaugað en krafturinn ekki svo mikill. Algjört óviljaverk í beygju við bauju. Það þýðir ekkert að gráta Björn bónda eða bingó Bjössa svo áfram með smjörið. Fór undir brú og hélt að ég væri að verða búinn en það var nú ekki svo. Ég hafði ekki tekið eftir þessari ,,auka” brú í lýsingunni svo áfram hélt fjörið. Í gegnum smá þang og allt í einu var skyggnið mjög erfitt og engar tásur sáust. Minnti mig á Eistlands keppnina. En sem betur fer var lítið eftir og allt í einu var verið að hjálpa mér uppúr. Lít á úrið og sé 1:04 klst. Besti sundtíminn minn í IM hingað til. Næstum 2 mín bæting. Mjög glaður. HHjalti Sveinssonfélagi búinn að gefa góð tips, ásamt Tótu og Gylfa. SSveinn Þráinn Guðmundssonæfingarfélagi kom með ágætan punkt þegar hann spurði mig hvernig í ósköpum gastu synt á sama pace (hraða) eins og í Kópavogs þríþrautinni í maí. Hún var 400m en í Kalmar er hún 3800m. Veistu, ég skil það ekki. Þetta hlýtur að vera eitthvað met. Er að spá í að taka Geir vin minn í smá sundþjálfun.

T1

Gekk vel á skiptisvæði. Var frekar óheppinn með staðsetningu því ég þurfti að fara mjög langa leið til að ná í hjólið meðan margir aðrir fengu mun styttri leið. Við erum að tala um uþb 20 sek. Kannski ekki mikið í stóra samhenginu í 10 klst keppni.

Hjólið:

Planið var að halda um 200 wött en hélt uþb 194 normalized wöttum sem eru 2.9 wött per kg fyrir áhugasama. Nýja hjólið mitt býður upp á betri aero stöðu og engir auka brúsar né neitt sem gat hægt á mér. Byrjuðum að hjóla yfir langa og fallega brú yfir á Öland. Fórum í suður átt með vind frá hlið eða úr austur átt. Þegar var kominn uþb 50 km fæ ég þennan bruna sting í innanvert vinstra lærið. Lít niður og hvað haldiði? Það er risastór býfluga búinn að stinga mig og það í gegnum skálmina. Ótrúlegt að hún lendir á mér á talsverðum hraða og er föst í lærinu á mér. Ég horfi niður og slæ hana í burtu en upplifi að sé með rýting í lærinu. Djöfull var þetta vont. Þegar kláraði keppnina og skoðaði lærði var óþægilega stórt stungu sár. Allavega, sársaukinn leið hjá. Svo tóku við beygjur og ég vissi að það ætti að styttast í smá meðvind. Um leið og snúið var til vesturs kom meðvindur. Eða ekki. Er ég kominn til Íslands? Hvernig getur verið austan átt á einum stað en 50km norðar er vestan átt!! Brjálaður. Áfram gakk. Yfir á meginlandið og 180km kláraðir á hjólinu.

Ég nærði mig býsna vel. Tók Maurten gel á uþb 25 mín fresti sem mótshaldarar buðu uppá. Það eru 100 kaloríur í hverju geli. Var einnig með orku í brúsa svo ég var að innbyrða uþb 250 kaloríur á klst fyrir áhugasama. Tel mig vera í þokkalegri fitubrennslu á þessu hjólaálagi.

Temmilega sáttur með hjólatíma. Hefði mátt vera örlítið betri. Bíð enn eftir sub 5 klst.

Verð samt að segja að hjólaleggurinn var erfiðari en ég átti von á. Allskonar vindar. Eins og alltaf upplifði maður meiri mótvind en meðvind. Hefði kannski getað sagt mér það sjálfur þegar sá allar þessar vindmyllur á eyjunni.

T2 – Skiptisvæði tvö.

Mjög hröð skipting frá hjóli yfir í hlaupaskó ásamt 30 sekúnda klósettferð sem mér fannst taka heila eilífð. Enga að síðu hraður og góður skipti tími.

Hlaupið.

Svakalega er gott að komast af hjólinu. Hlaupnir eru 3 hringir. Hringurinn fer um miðbæ Kalmar í ævintýralegri stemningu og svo er farið í norður átt inni í íbúðarhverfi og skóglendi og til baka.

Ég var eitur ferskur eins og alltaf í byrjun hlaups og gjörsamlega át malbikið. Í fyrsta hringnum af þremur gjörsamlega hreinsaði ég upp hvern keppanda á fætur öðrum. Vá hvað mér leið vel. Hefði nú átt að geta sagt sjálfum mér að ég væri kannski að fara of hratt. Sérstaklega þegar hitinn var kominn upp í 27 gráður en það var alveg skýjað. Ég sá pace upp 4:16 á kílómeter þrjú. Fram að 15km var ég að halda mér ágætlega undir 4:30 pace og í góðum fíling.

Ég hitti fjölskylduna sem studdi mig með ráðum og dáðum sem var yndislegt. Aldrei upplifað þetta áður í IM keppni. Þau voru búinn að stúdera brautina og kortleggja hvernig þau gætu hitt á mig 2x í hverjum hring. Ég var enn sprækur sem lækur. Eftir 15km hægðist rólega á mér í 4:45 sem var í fínu lagi. Kláraði hring tvö og fann þá að hamstring vöðvinn var farinn að víbra… Fór auðvitað í vasan á beltinu mínu til að ná í salt töflur…fail! Þær voru ekki þarna. Fokk! Ég gleymdi þeim í töskunni á hjólasvæðinu. Fyrir hausinn og lærið hefði það verið gott að taka saltið því ég er það sem kallast ,,salty sweater” en sennilega var ástæðan fyrir krömpum að ég fór of hratt og mikill hiti. Við kílómeter 28 gerðist það sem ég var eiginlega farinn að bíða eftir. Krampus er mættur á svæðið. Fótur uppá götukannt og reynt að slaka á hamstring vöðva vinstra læris. Horfi yfir götuna í miðju íbúðar hverfi í Kalmar. Þvílíka stemmningin. Verið að spila Abba í einu húsi, Avicii í öðru og auðvitað Eurovison lagið Euphoria í því þriðja og svo var amma gamla að berja á pottinn. Í öll þrjú skiptin sem ég ég hljóp framhjá þessari áttræðu konu hvatti hún keppendur og ég íhugaði að bjóða henni til Íslands í næstu búsáhaldabyltingu.

Á mínum sex árum í Ironman bransanum er þessi stemming í einni keppni einstök. 90% af brautinni er fólk að klappa og HEJA svo les það nafnið mitt á númerabeltinu og kallar: Einar frá Íslandi du er BRA. Það þýðir ekki að ég sé brjóstarhaldari eða önd. Heldur að ég er frábær 🙂 Takk kæru Svíar. En eins og ég elska að pína mig í keppni þá hata ég að fá krampa!

Á kílómeter 30 sé ég að markmiðið mitt um að fara undir 9:23 klst renna mér hægt úr greipum. Þá er tími á möntruna mína: How bad do you wan´t it. Fer með hana stanslaust í 10 mín. Krampa aftur. Hægi meira á hlaupinu. Fer svo með næstu möntru sem ég ætlaði ekki að fara með. En hún átti vel við á þessum tímapunkti þegar krampa í þriðja skiptið.

Ég kveiki á tónlistarmanninum Valdimar í höfðinu á mér og hugsa um textann í laginu: Stimpla mig út. Ég syng inní mér: Ég horfi á klukkuna og mér finnst vísanir ekki hreyfast úr stað. Ég horfi í kringum mig og sé að ég dregst aftur úr. Þeir sem voru aftast nálgast mig svo hratt. Ég gæti tekið forystu ef ég vanda mig en ég nenni varla að hugsa meira um það. Svo ég stimpla mig út og forðast allt púl. Ég geri sem minnst og reyni að halda þetta út. Og það var nákvæmlega það sem ég gerði á þessum tímapunkti. Ég reyndi að halda þetta út. Ég réttlæti það í höfðinu með því að kalla það varnarsigur. Ég verð að sýna stöðugleika og fara undir 10 klst sem mér finnst stórkostlegur árangur þegar aðrir gera það. Fjórir kílómetrar eftir og sé fyrir endan á þessu. Öll gleði hormónin í veldisvexti hellast yfir mig þegar hleyp í markið og þetta er stórkostlegt! Þetta ástæðan fyrir hvað ég eyði miklum tíma í þetta. Þetta er lífsfyllingin mín og stundum þráhyggjan mín. Núna fæ ég að upplifa það með öllu mínu besta fólki. Þvílík veisla!

Ég kem í mark og klukkan slær 9:47 klst. Ég er sáttur. Keppnin var erfiðari en átti von á. En ég hugsa strax: Ég fer í sjöunda sinn. Þá verður það undir 9:23klst.

m

Ég hef ekki verið hjátrúarfullur en ég áttaði mig á því í lok keppni að ég hafði gleymt happa eistanu mínu. Þið munið að ég er með eitt eista en þau voru tvö. Ég á sílíkon eista sem var fjarlægt fyrir 2 árum þar sem það kramdist alltaf þegar sat á hnakknum á hjólinu. Þegar ég fór í ófrjósemisaðgerð spurði ég lækninn hvort hann gæti nú ekki fjarlægt þetta auka sílíkon eista sem ég fékk 16 ára gamall. Í keppninni á Ítalíu sem gekk mjög vel var happa eistað í vasanum allan tíman. Þetta er happa eista sem sagt. Og það gleymdist heima fyrir Svíþjóðarferðina. Jæja, full mikið af upplýsingum geri ég ráð fyrir.

Úff, nú heyrist í flugstjóranum að við séum að nálgast Keflavík. Ég hef setið og slegið á lyklaborðið í 3 klukkustundir. Vá hvað þessi flugferð leið hratt.

Að lokum langar mig að þakka BBirna María Karlsdóttirminni fyrir endalausann stuðning og þvílíka þolinmæði og jafnaðargeð sem þarf að hafa til að búa með svona manni. Yndislegt hreint.