Uppskeruhátíð ÞRÍ

Uppskeruhátíð Þríþrautarsambands Íslands var haldin á efri hæðinni á Sólon Bístró í Bankastræti og svo skemmtilega vildi til að sælustund eða Happy Hour hófst þegar fyrsti gesturinn gekk í salinn. Margar myndir voru teknar og ef þær prentast vel má sjá gleðina skína af hverju trýni.

stjórnÞrÍ
Þetta er stjórn ÞRÍ: Talið frá vinstri eru Bjarki Rúnar, Kristín Laufey, Hákon, Rannveig, Hákon Jónsson og Halldóra forseti
benni og birna
Birna Íris Jónsdóttir sagði frá lífi sínu í þríþraut og öllum sem því fylgir, birti meira að segja tölur úr heimilisbókhaldinu og gaf kost á spurningum um rómantík. Benni Hjartar sagði frá Ermasundi og öllu sem því fylgir og sýndi skemmtilegar myndir. Hann fékk spurningar um smurningu.
breiðablik
Þetta er stigahæsta lið sumarsins og kennir sig við Breiðablik. Önnur frá hægri er Maja.
Birna, ranna, bjarki, hákon Siggi
Þetta vaska fólk fékk bikara fyrir árangur í stigakeppninni. Siggi og Rannveig fengu þá stærstu. Með þeim á myndinni eru Birna, Bjarki og Hákon. Rannveig og Hákon urðu einnig Íslandsmeistarar í ofursprettþraut.
IngvarogBrynhildurnýliðarársins
Þetta eru nýliðar ársins með bikarana sína. Ingvi Jónasson og Brynhildur Georgsdóttir.
Siggiogmammagullu
Fulltrúar ÞRÍ á viðurkenningahátíð ÍSÍ eru þríþrautarkarl og þríþrautarkona ársins. Þangað mætir Sigurður Örn Ragnarsson og Guðlaug Edda Hannesdóttir sem hafa farið mikinn í sumar. Með Sigga á myndinni er mamma Gullu.

Síðan var borinn fram matur og smjöttuðu flestir vel á veitingunum sem voru tapasbitar á stærð við smáfugla og kjötspjót af nauti og kjúklingi. Þeim fylgdi sósa sem einhverjum var talin trú um að væri orkugel og þá rann það fljótt og vel út.

Á skjánum var útsendingin frá Kona sem gladdi augu margra en aðrir voru kvöldsvæfir og fóru heim til að ná hvíld fyrir morgunæfinguna.

 

Ólympíusamhjálpin styrkir Guðlaugu Eddu Hannesdóttur vegna undirbúnings fyrir Tókýó 2020

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir hlaut í vikunni styrktarsamning hjá Ólympíusamhjálpinni vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Átta einstaklingar frá sex sérsamböndum ÍSÍ fengu þennan styrk að þessi sinni og því um mikinn heiður að ræða fyrir hana og þríþraut á Íslandi.

Fjórir af sex styrkþegum sem undirrituðu samning við Ólympíusamhjálpina ásamt fulltrúum ÍSÍ og sérsambandanna.

Um er að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega að upphæð 1.000 bandaríkjadali vegna kostnaðar við æfingar og keppnir.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 18 einstaklinga frá sjö sérsamböndum.

Allir þessir einstaklingar hafa það á stefnu sinni að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og hafa hafið stífan og kostnaðarfrekan undirbúning vegna þessa. Styrktímabil hófst þann 1. maí 2018 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.

Heildarkostnaðaráætlun styrkþega fram að leikum er margföld þeirri upphæð sem styrkir Ólympíusamhjálparinnar og ÍSÍ nema, en lauslega áætlað má reikna með að árlegur kostnaður á hvern einstakling í fremstu röð í heiminum sé um 10 m.kr.

Árangur íslensks afreksíþróttafólks skiptir miklu máli, en á bak við árangurinn eru einstaklingar sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu sem og auknu fjármagni.

Stjórn Þríþrautarsambands Íslands er einstaklega þakklát Ólympíusamhjálpinni og ÍSÍ að hafa valið Guðlaugu Eddu sem styrkþega. Stjórnin hefur mikla trú á Guðlaugu Eddu og er þess fullviss að hún muni verða fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo árið 2020.

Guðlaug Edda ásamt Halldóru Gyðu formanni Þríþrautarsambands Íslands og Hákoni Hrafn gjaldkera.

Guðlaug Edda skrifaði pistil á fésbókarsíðu sína eftir að hún fékk styrkinn. Hún vonar að hún geti verið öðrum góð fyrirmynd og hvatning til uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut á Íslandi sem og þeim er stunda, sund, hjól og hlaup. Hún veit að hjarta hennar slær íþróttum og hún lifir fyrir þennan draum að komast á Ólympíuleikana í Tokyo 2020.

Hennar markmið er „Framför ekki fullkomnun“, sem verður hennar merki og hún hvetur alla til þess að fylgjast með sér, en hún er með fésbókarsíðuna edda@triathlon

Hér að neðan er að finna greinina sem Guðlaug Edda skrifaði:

GUÐLAUG EDDA SKRIFAÐI EFTIRFARANDI Á FÉSBÓKAR SÍÐU SÍNA:
Mánudaginn 25.06.2018 skrifaði ég undir Ólympíustyrk frá Ólympíusamhjálpinni fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020 ásamt Þríþrautarsambandi Íslands.

Styrkurinn felur í sér fjárhagsaðstoð að Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 og er veittur þeim sem möguleika eiga á að ná lágmarki á leikana, en þurfa til þess nauðsynlega peningaaðstoð til þess að styðja við keppnisferðir, æfingar og æfingabúðir, sjúkraþjálfun og annað sem þarft er.

Það er enn langt í land með að festa þríþraut í sessi á Íslandi, og þá sérstaklega í draft-legal keppnum, en ég vona að núna geti hafist uppbygging á slíku starfi. Ég trúi því að nú fari sýnileiki íþróttarinnar, sem við elskum öll svo mikið, að aukast, og þá sérstaklega á meðal krakka og ungmenna sem enn eru fá á Íslandi.

Það er ótrúleg viðurkenning í íslensku afreksíþróttalífi að hljóta þennan styrk. Fyrir mig mun styrkurinn muna ótrúlega miklu og gera mér kleift að fara í keppnisferðir sem nauðsynlegar eru til þess að safna stigum fyrir Tokyo, en ég hefði annars ekki getað farið í vegna peningaskorts. Fyrir þríþraut á Íslandi er þetta hvatning fyrir uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut til þess að fjölga þátttakendum Íslands í keppnum ITU og ETU (junior og senior) á næstu árum og áratugum.

Ég vona að þáttaka mín í þessum draft-legal keppnum í þríþraut og vegferð að Ólympíuleikunum í Tokyo verði ungum og upprennandi sund-, hjóla-, hlaupa- og þríþrautarkrökkum hvatning til þess að prufa þríþraut eða aðrar multisport-keppnir. Ég vona að ég geti verið þeim fyrirmynd bæði í keppnum og fyrir utan þær.

Ég hef aldrei verið “hæfileikarík” íþróttakona, hvað svo sem það þýðir. Allur minn árangur í íþróttum hefur komið frá endalausri erfiðisvinnu á hverjum einasta degi og mínu vali á að setja íþróttir í forgang alla daga. Hefðir þú spurt gamlan þjálfara þá hefði sá hinn sami líklega ekki giskað á að ég væri komin á þennan stað í íþróttum. Ég var alltaf nokkuð góð, en ekki nógu góð til þess að ná á “hæsta stig” í íþróttum. Ég var of lítil, ekki með nógu góða tækni, ekki nógu löng tök, ekki nógu dýnamísk skref, of áköf, með of mikið af vöðvum, byrjaði “of seint” að synda og ég byrjaði “of seint” að hlaupa. En hjartað mitt slær í íþróttum (eins dramatískt og það hljómar). Ég elska íþróttir. Ég eyddi nokkrum mánuðum í að reyna að sannfæra sjálfa mig um að svo væri ekki. Að ég ætti að fá mér góða menntun, fá háar einkunnir, komast í frábæra skóla og á enda á vinnumarkaðinum í góðu og öruggu starfi. Það var reyndar frábær tími og ég lít upp til allra vinkvenna minna, vina og ástvina sem elt hafa sína drauma á þennan hátt. En sama hvað ég reyndi þá fór ég alltaf aftur í íþróttir og ég setti þær framar félagslífi, fjölskyldutíma og öllu öðru sem er svo yndislegt í lífinu líka. En það var mitt val og hefur skilað mér á þann stað sem ég er á núna. Hjartað mitt sló í íþróttum og ég fann að ég átti enn mikið eftir að gefa af mér á þeim vettvangi áður en ég færi í “venjulega” vinnu.

Sem betur fer á ég góða fjölskyldu og frábæra vini sem standa mér við hlið sama þótt ég geti ekki mætt í veislur, partý, eða hist jafn oft og ég myndi vilja. Það er erfitt og mjög eigingjarnt að vera fúli Jón sem aldrei getur gert neitt útaf æfingum og/eða keppnum, en þetta er mín “vinna” núna og ég er á vakt allan daginn. Takk fyrir að trúa á mig, yfirgefa mig ekki (þó ég sé stundum fúli Jón) og taka tillit til allra þessara æfinga. Án ykkar væri ekkert ég.

Mig langar til þess að vera fyrirmynd fyrir þá krakka sem telja sjálfum sér trú um að þeir séu ekki eða muni aldrei verða nógu góðir í þeirri íþrótt sem þau stunda. Ég vona að ég geti verið lifandi dæmi um hvað erfiðisvinna, óbilandi passjón, trú, sviti og tár geta skilað okkur langt í íþróttum (og lífinu almennt). Ég stend frammi fyrir erfiðri og langri vegferð, að reyna að komast inn á Ólympíuleikana í íþrótt sem ég hef stundað í tæp tvö ár. Hvort ég komist inn eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. Ég er harðákveðin í því að gera mitt besta og ganga frá þessari vegferð stolt eftir að hafa gefið allt sem ég átti í þetta markmið. En sama hvað verður þá vona ég að mín vegferð verði innblástur fyrir aðra að láta drauma sína rætast og elta hjartað sitt. Mig langar til þess að keppa með það í hjarta að allt sem ég geri núna muni skila sér lengra og gefa þeim sem á eftir mér koma meiri tækifæri og betri undirbúning.

Ég fæ stundum þá spurningu ,,hvað ef þú nærð þessu ekki?” og ég hef átt erfitt með að svara því enda augljóslega stórt markmið hjá mér sem ég hef sett út í kosmósið og deilt með öllum þeim sem áhuga hafa. Eftir að hafa rætt þessa spurningu fram og aftur við Axel þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að svara ,,en hvað þetta tekst?”. Ég hef eytt alltof löngum tíma í lífi mínu hrædd við að mistakast með bilaða fullkomnunaráráttu og skammast mín ef ég fékk lágar einkunnir í prófum eða gekk illa í keppnum. Ég mun líklega aldrei verða fullkomin og það er allt í lagi. Ég vil frekar gera 100 mistök og mögulega ná árangri, heldur en að gera 0 en standa í stað. Þessvegna verður mitt hashtag #framförekkifullkomnun í öllu þessu ferli. Þó það verði án efa erfitt stundum, þá er ég harðákveðin í því að halda sjálfri mér ábyrgri og fylgja því eftir!

Ég hlakka til að deila þessum tímum með ykkur hérna á síðunni og taka ykkur með mér í þessa vegferð! Takk fyrir stuðninginn, án ykkar væri ég ekki hérna.
#AlltFyrirTokyo og #AlltFyrirÍsland

Glæsilegur árangur í Cagliari

2. júní náði Guðlaug Edda Hannesdóttir 17. sæti á Heimsbikarmótinu í þríþraut sem fram fór í Cagliari á Sardiníu á Ítalíu en keppt var í hálf ólympískri vegalengd. Guðlaug náði að staðsetja sig vel í sundinu strax við fyrstu stungu og að loknu 750 metra sundi var hún í 8 sæti, rétt á eftir fyrstu konu. Guðlaug endaði í öðrum hjólahóp, á eftir 9 sterkum konum. Þar hjólaði hún allan hjólalegginn en þegar honum lauk var Guðlaug í 18. sæti. Guðlaug átti gríðarlega gott hlaup og hljóp sig upp um eitt sæti og endaði sem áður sagði í 17. sæti. Þetta er hennar þriðji besti árangur á heimsbikarmóti hingað til. Guðlaug er sem stendur í 158. sæti heimslistans og 64. sæti á Ólympíulistanum og því ljóst að þessi árangur mun fleyta henni hærra upp listann. Hún er núna eini fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi í stigakeppni heimsbikarmótaraðarinnar og stefnir á Ólympíuleikana.

Hvíldin fyrir Guðlaugu er stutt, því næstu helgi fer fram Heimsmeistara serían í þríþraut í Leeds (World Triathlon Series) en þar mun Guðlaug keppa í fyrsta skipti. Við óskum Guðlaugu til hamingju með árangurinn í dag og hlökkum til að fylgjast með henni í Leeds næstu helgi.

Guðlaug Edda er á Facebook og hefur þar frá mörgu skemmtilegu að segja.

Nýtt brautarmet í Hafnarfirði

27. maí  fór fram annað mótið í ís­lensku þríþrauta­mótaröðinni, WOW-hálfólýmpíska þrautin í Hafnar­f­irði. Synt­ir voru 750 metr­ar í Ásvallalaug, því næst hjólaðir 20 km á Krýsu­vík­ur­veg­in­um og að lok­um hlaupn­ir 5 km í Valla­hverf­inu. Keppendur voru flestir frá Breiðabliki (Þríkó) en einnig frá 3SH, Ægi, 3N og nokkrir voru ófélagsbundnir.

Kepp­end­ur voru alls 61 tals­ins, þar af 17 í byrj­enda­flokki og voru aðstæður góðar. Sig­urður Örn Ragn­ars­son  úr Breiðabliki kom þar fyrst­ur í mark á nýju braut­ar­meti, 56 mín­út­ur og 25 sek­únd­ur, en með því bætti hann gamla metið um nærri tvær og hálfa mín­útu, en það átti Hákon Hrafn Sigurðsson.

„Ég er al­veg ótrú­lega sátt­ur með þetta og trúi í raun ekki al­veg hvað ég náði góðum ár­angri, eft­ir sundið ákvað ég bara að keyra mig al­veg út og sjá hvað myndi ger­ast og þetta var niðurstaðan,“ sagði Sig­urður aðspurður.

Þetta var ann­ar sig­ur­inn hjá Sig­urði á þessu tíma­bili en hann bar einnig sig­ur úr být­um í Kópa­vogsþríþraut­inni sem hald­in var þann 13. maí síðastliðinn, þá líka á nýju braut­ar­meti.

1. sæti: Sigurður Örn Ragnarsson, 1991, Umf. Breiðablik, 00:56:25 klst. 2. sæti: Geir Ómarsson, 1975, Sundfélagið Ægir, 01:00:44 klst. 3. sæti: Bjarki Freyr Rúnarsson, 1994, Sundfélag Hafnarfjarðar, 01:01:17 klst.
1. sæti: Amanda Ágústsdóttir, 1990, Umf. Breiðablik, 01:08:26 klst. 2. sæti: Rannveig Anna Guicharnaud, 1972, Umf. Breiðablik, 01:12:04 klst. 3. sæti: Birna Íris Jónsdóttir, 1973, Umf. Breiðablik, 01:12:37 klst.

Myndirnar tók Guðni Gíslason ritstjóri Fjarðafrétta og fleiri skemmtilegar myndir frá þrautinni má sjá hér.

Krakkaþraut Klóa 2018

Krakkaþraut Klóa var haldin í Hafnarfirði 27. maí og hófst strax í kjölfar WOW-þrautarinnar þar sem fullorðið og miðaldra fólk reyndi með sér.  Forkólfur þrautarinnar, Stefanie Gregersen, sagði þátttökuna hafa komið sér mjög á óvart en alls luku 58 börn keppni í fjórum aldursflokkum og fóru vegalengdir eftir aldri.

Veðrið hefði getað verið betra en þrátt fyrir sudda og napran gust létu börnin það ekkert á sig fá og fannst afskaplega gaman að keppa eins og fullorðna fólkið, enda var reynt að hafa umgjörðina sem líkasta.

Nokkrar myndir frá þrautinni sýna hvernig þetta var.

Sarah Cushing hefur oft staðið á verðlaunapalli hjá okkur en er í fríi í ár. Hér eltir hún Lilju Rakel sem geysist af stað á hlaupaleggnum.
Gylfi formaður 3SH fylgir dóttur  inn á skiptisvæðið.

Fleiri myndir má sjá á þessari slóð.