Mánuður í Kona

Viðar Bragi skrifar:

Það er mánuður í keppnina í Kona núna.  Tíminn líður hratt og nóg að gera. Ekki bara vinna og æfa líka bætist við að vetrarplanið hjá fjölskyldunni er komið í gang með skólagöngu og tómstundum barna. Þá er prógrammið hjá Þríkó og Breiðablik farið í gang og þó að aðrir en ég beri hitann og þungann af þessu núna þá er þetta viðbót samt.
Var mjög sáttur með formið í vikunni eftir Reykjavíkurmaraþonið sem virtist ekki sitja neitt í mér að ráði. Tók 3 tíma á hjólinu á sunnudaginn eftir maraþon og var bara mjög fínn. Fór í nudd hjá Guðbrandi á miðvikudeginum og það vara bara fyrirbyggjandi, var alls ekki slæmur í nuddinu. Náði góðum hot yogatímum í Sporthúsinu bæði á mánudag og föstudag og er loksins að sjá einhverja framför þar. Fílaði mig sterkan þar sem hefur ekki verið mjög lengi enda var kviðslitið að trufla það verulega síðustu ár og sérstaklega nú frá áramótum.

PéturViðarAgnarArnarogJónIngi
Laugardagshlaup viku eftir RM. Pétur Ívarsson, Jóhann, Jón Ingi, Agnar, Arnar og Viðar.

Sundið var hressandi í vikunni, á miðvikudag vorum við fjórir, ég Hákon Hrafn, Geir og Nicholas Chase. Nick er bandarískur atvinnumaður í þríþraut sem býr í Florida. Ég kynntist honum vel í Ch. Iceland keppninni 2017 þar sem hann keppti. Hann var hér til að undirbúa sig fyrir Patagoniaman extreme keppni og vill æfa í aðeins kaldara loftslagi með meiri vindi og ósléttari vegum.  (Þess má geta að Jón Oddur Guðmundsson í 3N er skráður í þessa keppni. ) Nick er mun sterkari í sundinu en við og hélt okkur vel við efnið. Ég hef svo synt með Rúnari eftir að hann fór aftur í gang eftir Kaupmannhöfn og hefur það verið frábært. Það er alveg meiriháttar skemmtilegt að Rúnar komst inn í Kona í Köben og líka Ragnar Guðmundsson. Við verðum þá fjórir Íslendingar í keppninni og er þetta sennilega met fjöldi þátttakenda frá einu landi mv. höfðatölu frá upphafi. Við erum allir í sitt hvorum aldursflokknum. Rúnar 30-34, Geir 40-44, ég 45-49 og Raggi 50-54. Við verðum því ekki að keppa beint hver við annan þó auðvitað sé ákveðin samkeppni á milli okkar og við viljum ná sem bestum tíma.

viðarogpallieftirhjólaferðinamiklu
Að lokinni langri hjólaferð er einboðið að svala þorstanum.

Annars hefur gengið mjög vel að æfa svo ekki sé meira sagt þessar síðustu 3 vikur og aldrei betur. Hef verið sterkari í sundi og kannski aðeins í hlaupi en varla á hjólinu og alls ekki í öllum greinunum þremur á sama tíma. Þurfti að fara í vinnuferð til Svíþjóðar í viku 35 en tók hjólið með og ég og Palli vinur minn náðum að hjóla frá Osló til Stokkhólms um helgina eftir að vinnuhluta ferðarinnar var lokið. Þetta var alveg frábært og óhætt að mæla mjög með hjólreiðum í Svíþjóð. Við hjóluðum 228km, 223km og 180km þrjá daga í röð og finnst mér þetta hafa komið vel út enda var 163km hjólið hér heima síðasta sunnudag bar “stutt” og verulega þægilegt en þó með rúmlega 1700m hækkun.

Vikurnar hafa verið svona
Vika 34 20.-26. ágúst : sund 13km, hjól 149km, hlaup 46,5km 902 TSS
Vika 35 27. ágúst- 2. sept. sund 2,9km, hjól 790km, hlaup 14,3km 1179 TSS
Vika 36 3. – 9. Sept sund sund 12km, hjól 246km, hlaup 31,7km 1166 TSS

Markmiðin fyrir Havaí

Það er þá rétt að ég fari aðeins yfir markmiðin mín á mótinu. Þegar ég fór 2014 vildi ég fyrst og fremst klára. Hafði ekki sérstök tímamarkmið þó að ég vissi nokkuð nákvæmlega hversu hratt ég myndi fara hvern legg. Var búinn að reikna með 10 klst. og 10 mín. Reyndist vera 10:09:21. Var einnig að spá hvort ég næði að vera í topp 100 í aldursflokknum (topp 33%) og ca. topp fjórðungnum af öllum keppendum. Þetta heppnaðist allt og rúmlega það.

Það sem mig langar til að reyna núna er að vera í topp 10% í aldursflokknum og klára undir 10 klukkustundum. Það myndi þá vera svona: sund 1:05:00, T1 3:44, hjól 5:00:00, T2 3:44, hlaup 3:40:00 eða 9:57:28. Þetta er sami sundtími og síðast, líka skiptitímar. Ég sé fyrir mér aðeins betri hjólatíma, var nokkuð passívur síðast þar sem ég vildi aðallega klára. Einnig aðeins betri hlaupatíma þar sem ég held að ég sé orðinn aðeins sterkari þar fyrir utan auðvitað að mataræðið er allt annað. Nú er ég orðinn 100% fat-adapted sem ég var alls ekki 2014, þannig get ég haldið orkunni mun lengur. Aldurinn vinnur auðvitað ekki með mér og maður sé að meðaltímar í 45-49 eru mun hægari en í 40-44. Ég var líka í afar góðu formi 2014. Það getur auðvitað verið að ég breyti aðeins planinu í aðra hvora átt eftir því hvernig gengur að æfa næstu 4 vikur, en eins og staðan er í dag þá lítur þetta afar vel út.

Einhverjum gæti fundist ég vera hógvær í tímamarkmiðum en það er alveg ljóst að keppnin í Kona er ekkert lík “venjulegum” Ironman. Þó að allar keppnir séu krefjandi bæði í þessari vegalengd og styttri þá er þetta mjög erfitt að mínu mati. Það sem helst má nefna er að sundið er alltaf án neoprenegalla með talsverðum straumum og öldu ásamt miklum troðningi, Flestir keppendur koma uppúr á sama tíma sem gerir mikinn troðning í skiptingum og byrjun hjólaleggs. Hjólabrautin er hæðótt, það er alltaf vindur og mikill hiti. Ég mældi síðast 37°C á hjólinu og mjög rakt. Þetta gerir það að verkum að manni gengur illa að losa sig við hita. Svitinn liggur á manni og gufar ekki upp svo að maður verður að kæla sig stöðugt. Hlaupið er sömuleiðis hæðótt, heitt og rakt.

Þá gæti maður spurt hvað er maður að vilja í þetta í annað sinn? Við því hef ég ekkert gott svar. 😛

Auglýsingar

Leiðin til Kona

Geir Ómarsson segir frá:

Eftir að ég kláraði minn þriðja járnkarl á 11 mánuðum í Challenge Roth 2016 var planið að taka járnkarlslaust ár árið 2017. En eins og þeir vita sem klárað hafa svona keppni þá er þetta stórkostlega ávanabindandi, sérstaklega ef maður veit að maður getur gert ennþá betur (sem maður getur alltaf). Málið var að þrátt fyrir að hafa náð besta tíma Íslendings í vegalengdinni í Roth þá varð ég í 4. sæti í mínum flokki. Mig langaði semsagt fjári mikið á verðlaunapall og ég var 17 sekúndum frá því í Roth að hlaupa maraþonið á undir 3 tímum. Þetta varð að laga. Ofan á það þá var kominn töluverð pressa frá stelpunum á heimilinu að fara aftur á heimsmeistaramótið á Hawaii. Án gríns. Þær plötuðu mig í þetta. Ironman Barcelona varð fyrir valinu þar sem að sú braut er hröð og flöt en samkeppnin þar getur aftur á móti verið töluverð.

Undirbúningur

Undirbúningur fyrir Barcelona gekk mjög vel fyrir utan leiðinda lungnabólgu sem ég fékk 10 mánuðum fyrir keppni en ég var sem betur fer nokkuð snöggur að jafna mig eftir hana. Ég fór samt mjööög varlega af stað og tók langt tímabil þar sem ég æfði á mjög lágu álagi, sem ég reyndar geri alltaf snemma á undirbúningstímabilinu. Þetta geri ég til að þjálfa líkamann í að nýta fitu sem orkugjafa og á sama tíma minnka ég kolvetnin í fæðunni, sérstaklega unnin kolvetni (sykur og hveiti). Einnig er það liður í að toppa ekki of snemma og vera ekki útbrunninn áður en keppnistímabilið hefst. Þegar nær dregur keppnistímabilinu hér heima jók ég svo ákefðina í æfingum og lagði mikla áherslu á sundið og hjólið þar sem að þar taldi ég mig eiga mest inni, þ.e. æfa veikleikana. Æfingar gengu vel og ég var klár í slaginn.

Keppnin í Barcelona gekk eins og í sögu. Ég skipulagði keppnina mjög vel undirbjó mig ekki síst andlega og öll plön gengu 100% upp og eiginlega mun betur en það. Fyrsta sætið í aldursflokki var raunin á nýju meti ef met 8:39:34 skyldi kalla :-), maraþon á 2:57:09 og miði á heimsmeistarmótið á Kona-Hawaii 2018. Aloha!

GeirÍbarcelona

Æfingar

Strax eftir keppni byrjaði undirbúningur fyrir Hawaii. Það fyrsta var að skoða tíma úr mínum aldursflokki undanfarin ár og setja sér markmið. Síðast þegar ég fór til Hawaii 2015 þá fór ég á 10:26:17. Keppnin það ár var frekar hæg m.v. önnur ár, ég þreyttur eftir IM Köben 7 vikum áður en nú hef ég ekki þá afsökun og að auki tel ég mig mun sterkari í öllum greinum í dag og ekki síst andlega sem skiptir gríðarlegu máli í svona langri og erfiðri keppni. Markmiðið núna er að fara undir 9:30 sem ætti að gefa topp 10 í aldursflokki en þá þarf allt að ganga upp. Sundið verður mjög krítískt því þrátt fyrir ótrúlega kóralla, höfrunga og Nemofiska þá er sundið á Hawaii erfitt. Sundið 2015 gekk illa 1:19 en það mun ekki endurtaka sig og markmiðið er að vera nálægt 1:05 í ár. Hjólið nálægt 5 tímum og svo hlaup um 3:10 sem ásamt skiptitímum ætti að vera undir 9:30.
Lykillinn að þessu er að synda mikið síðustu vikurnar 12 vikurnar, lykilæfingar á hjólinu eru löngu 5-6 tíma æfingarnar sem ég tek einu sinni í viku og löngu hlaupaæfingarnar á 2,5-3 tímar á frekar lágum hraða, nema einstaka sem ég tek á nálægt keppnishraða. Aðrar mikilvægar æfingar eru tempó æfingar en löngu æfingarnar eru númer 1,2 og 3 að mínu mati. Aðrir þættir sem skipta miklu máli er að fá nægilega hvíld á milli æfinga, sofa vel, fara í nudd, holl og góð næring og fullt af litlum atriðum eins og uppfærslur og búnaður á hjólinu, rakaðir fótleggir og fleira sem skila sekúndum hér og þar þegar í keppnina er komið. Hitinn og rakinn á Hawaii getur verið rosalegur, rokið oftast mikið og hlaupið nokkuð hæðótt. Það er pottþétt að þetta verður ógeðslega erfitt en þannig á þetta líka að vera og ég er algjörlega tilbúinn að takast á við það og mikið rosalega verður þetta gaman.

Geir og fjölskylda
Arna og Freyja, Geir og Hrefna.

Ég á frábæra fjölskyldu sem styður mig 100% í þessu brölti. Ég get ekki hugsað mér að fara í svona mikilvæga keppni án þess að Hrefna, Arna og Freyja komi með og mamma og pabbi koma líka með í þetta skiptið sem verður frábært. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vita af þeim á fyrirfram ákveðnum stað í brautinni og svo að taka á móti mér í markinu í lokin.

Ekki skemmir fyrir að Viðar Bragi, Rúnar Örn og Raggi Guðmunds eru allir á leiðinni til Kona þ.a. þetta verður þvílík veisla. Stelpur! Það þarf að laga kynjahlutfallið á næsta ári, hver ætlar 2019?

Planið hjá mér er að taka járnkarlslaust ár 2019 en ég veit ekki hvort að ég fái það samþykkt á næsta fjölskyldufundi. Þið ráðið hvort að þið trúið þessu ;-).

10 tímar á viku fyrir járnmann?

Guðjón Karl Traustason segir frá:

Margir telja nauðsynlegt að æfa í 15-20 klst/viku í minnst 3 mánuði fyrir hálfan eða heilan járnmann. Sjálfur hef ég, eins og mörg okkar, ekki ótakmarkaðan tíma, enda tveggja barna faðir og í fullri vinnu. Einnig legg ég metnað í að eiginkona mín fái líka sinn frítíma. Flestir æfa ca 7-10 klst 6-9 mánuði ársins en keyra svo upp magnið síðustu þrjá mánuði fyrir keppni. Hvíldardagar verða þá fáir en tel ég það óæskilegt. Ég hvíli oftast tvo daga vikulega og þá í samráði við eiginkonuna. Æfi allt árið svipað í klukkutímum talið en ákefðin breytist og notast ég að hluta til við Trainingpeaks kerfi Þríkó.

Kjarni málsins:

Forsendur þess ná að klára Ironman og það jafnvel árlega og bara æfa 10 tíma er að gera 2-3 brickæfingar, oft langar æfingar, jafnvel í miðri viku og mesta lagi tvær sundæfingar t.d. 3x 30 mín. Stundum legg ég æfingar þannig upp að ég hjóla stutt en tek svo langt hlaup strax. Ég hvíli nánast alltaf laugardag eða sunnudag. Geri styrkjandi æfingar, bara um 10 mín í senn, fyrir eða eftir þol(endurance)æfingar. Ef álagseinkenni gera vart við sig þá hvíli ég gjarnan tvo daga þolæfingar en geri léttar styrkjandi og liðkandi æfingar í stađinn, oft án lóða. Þađ er mikill tímasparnađur ađ fara ekki í gymmiđ í 60 mín eđa svo vikulega, heldur fá áhrifin á 10 mín, 2-3 sinnum í viku Þá er bara 1 sett og hægar endurtekningar. Slíkar hreyfingar örva betur djúpu kviđ- og bakvöđva og fara líka betur međ vöđvasinamót.

Dæmigerð vika

Sund; Mánudags -og miðvikudagsmorgnar eldsnemma og syndi í 45-60 mín.  Brikkæfingar, sem eru hjól og hlaup saman eru á þriðjudögum og fimmtudögum eða föstudögum og í 2 til 4 tíma þar sem hjólið er um 60 til 70% og hlaupin 40 eða 30%. Um helgar er annar dagurinn langur, t.d. 3 eða 5 tímar hjól og 15-60 mín hlaup.  Tvisvar í mánuði hleyp ég án hjóls á undan og reyni oftast að láta hjól og hlaup fara saman. Ég er svo lánsamur að geta gert styrktaræfingar í vinnunni og geri þær allt árið. Þar fyrir utan nýtir maður lausar stundir þegar þær gefast.

Feðgar á ferð
Gutti og Ólafur Trausti

Magn og gæði

Með þessum pælingum vil ég hvetja sem flest fjölskyldufólk til ađ fælast ekki frá þátttöku í lengri þríþrautar keppnum. Þetta er afskaplega góð líkamleg og andleg endurnæring. Ég finn ekki fyrir þreytu né leiđa af æfingum en vitaskuld hef ég oft þurft ađ reyna mikiđ á líkama og sál í löngum og strembnum keppnum. Það þarf heldur ekki að taka fram að það er hægt að æfa hvenær sem er sólarhringsins. Oft getur þađ hjálpađ ađ æfa í hóp en þađ er óþarfi ađ sleppa einhverju tengt fjölskyldu og vinum út af æfingu sem verđur ađ vera á vissum tíma.  Sjálfur hef ég oft fariđ mínar eigin leiðir í æfingaferlinu. Ég hef ekki gráðu í þríþrautarþjálfun en tel mig vita nokkurn veginn hvað þarf til að klára járnmanninn og einnig hvað orsakar meiðsli því sem sjúkraþjálfari hef ég oft þurft að hlusta á eigin tuð OG farið eftir því. Mitt æfingamagn hefur vissulega ekki skilað mér toppsætum í þríþrautarkeppnum en hefur dugað mér vel í tíu ár og væntanlega um ókomna tíð. Ég hef náð að klára tíu hálfa járnmenn og stefni á fjórða heila járnið mitt í Wales á næstunni. Bestu tímarnir eru 10:30 í heilum og 5:10 í hálfum.

Ég vona að hálfur járnmaður verði aftur haldinn hérlendis. Við þurfum að vera dugleg að mæta í keppnir hér heima og það er miður að sjá að þátttakan hefur dalað í ár. En ef ekki verður af járnmanni hér heima er stefnan hjá mér að fara í slíkan utanlands og einnig heilan árlega. Ég tel ósennilegt að æfingamagnið breytist hjá mér. Þó gaman sé að fá árlega ný nöfn í okkar ágætu íþrótt, þá eru of margir sem einblína of hratt á heilan járnmann, æfa full mikið að mínu mati og halda ekki út nema í nokkur ár. Magn og gæði verður að fara saman og tíu tíma uppskriftin er ávísun á langan feril og heilan skrokk ef allt gengur eftir. Þolinmæði er dyggð.

Um höfund:

Undirritaður er 39 ára járnmaður og mikill áhugamađur um að æfa helst ekki nema 10 klst vikulega. Hef klárađ allar þríþrautar keppnir á höfuborgarsvæðinu s.l. 8 ár eđa svo, 10 hálfa og 3 heila járnmenn.

Ólympíusamhjálpin styrkir Guðlaugu Eddu Hannesdóttur vegna undirbúnings fyrir Tókýó 2020

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir hlaut í vikunni styrktarsamning hjá Ólympíusamhjálpinni vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Átta einstaklingar frá sex sérsamböndum ÍSÍ fengu þennan styrk að þessi sinni og því um mikinn heiður að ræða fyrir hana og þríþraut á Íslandi.

Fjórir af sex styrkþegum sem undirrituðu samning við Ólympíusamhjálpina ásamt fulltrúum ÍSÍ og sérsambandanna.

Um er að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega að upphæð 1.000 bandaríkjadali vegna kostnaðar við æfingar og keppnir.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 18 einstaklinga frá sjö sérsamböndum.

Allir þessir einstaklingar hafa það á stefnu sinni að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og hafa hafið stífan og kostnaðarfrekan undirbúning vegna þessa. Styrktímabil hófst þann 1. maí 2018 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.

Heildarkostnaðaráætlun styrkþega fram að leikum er margföld þeirri upphæð sem styrkir Ólympíusamhjálparinnar og ÍSÍ nema, en lauslega áætlað má reikna með að árlegur kostnaður á hvern einstakling í fremstu röð í heiminum sé um 10 m.kr.

Árangur íslensks afreksíþróttafólks skiptir miklu máli, en á bak við árangurinn eru einstaklingar sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu sem og auknu fjármagni.

Stjórn Þríþrautarsambands Íslands er einstaklega þakklát Ólympíusamhjálpinni og ÍSÍ að hafa valið Guðlaugu Eddu sem styrkþega. Stjórnin hefur mikla trú á Guðlaugu Eddu og er þess fullviss að hún muni verða fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo árið 2020.

Guðlaug Edda ásamt Halldóru Gyðu formanni Þríþrautarsambands Íslands og Hákoni Hrafn gjaldkera.

Guðlaug Edda skrifaði pistil á fésbókarsíðu sína eftir að hún fékk styrkinn. Hún vonar að hún geti verið öðrum góð fyrirmynd og hvatning til uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut á Íslandi sem og þeim er stunda, sund, hjól og hlaup. Hún veit að hjarta hennar slær íþróttum og hún lifir fyrir þennan draum að komast á Ólympíuleikana í Tokyo 2020.

Hennar markmið er „Framför ekki fullkomnun“, sem verður hennar merki og hún hvetur alla til þess að fylgjast með sér, en hún er með fésbókarsíðuna edda@triathlon

Hér að neðan er að finna greinina sem Guðlaug Edda skrifaði:

GUÐLAUG EDDA SKRIFAÐI EFTIRFARANDI Á FÉSBÓKAR SÍÐU SÍNA:
Mánudaginn 25.06.2018 skrifaði ég undir Ólympíustyrk frá Ólympíusamhjálpinni fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020 ásamt Þríþrautarsambandi Íslands.

Styrkurinn felur í sér fjárhagsaðstoð að Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 og er veittur þeim sem möguleika eiga á að ná lágmarki á leikana, en þurfa til þess nauðsynlega peningaaðstoð til þess að styðja við keppnisferðir, æfingar og æfingabúðir, sjúkraþjálfun og annað sem þarft er.

Það er enn langt í land með að festa þríþraut í sessi á Íslandi, og þá sérstaklega í draft-legal keppnum, en ég vona að núna geti hafist uppbygging á slíku starfi. Ég trúi því að nú fari sýnileiki íþróttarinnar, sem við elskum öll svo mikið, að aukast, og þá sérstaklega á meðal krakka og ungmenna sem enn eru fá á Íslandi.

Það er ótrúleg viðurkenning í íslensku afreksíþróttalífi að hljóta þennan styrk. Fyrir mig mun styrkurinn muna ótrúlega miklu og gera mér kleift að fara í keppnisferðir sem nauðsynlegar eru til þess að safna stigum fyrir Tokyo, en ég hefði annars ekki getað farið í vegna peningaskorts. Fyrir þríþraut á Íslandi er þetta hvatning fyrir uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut til þess að fjölga þátttakendum Íslands í keppnum ITU og ETU (junior og senior) á næstu árum og áratugum.

Ég vona að þáttaka mín í þessum draft-legal keppnum í þríþraut og vegferð að Ólympíuleikunum í Tokyo verði ungum og upprennandi sund-, hjóla-, hlaupa- og þríþrautarkrökkum hvatning til þess að prufa þríþraut eða aðrar multisport-keppnir. Ég vona að ég geti verið þeim fyrirmynd bæði í keppnum og fyrir utan þær.

Ég hef aldrei verið “hæfileikarík” íþróttakona, hvað svo sem það þýðir. Allur minn árangur í íþróttum hefur komið frá endalausri erfiðisvinnu á hverjum einasta degi og mínu vali á að setja íþróttir í forgang alla daga. Hefðir þú spurt gamlan þjálfara þá hefði sá hinn sami líklega ekki giskað á að ég væri komin á þennan stað í íþróttum. Ég var alltaf nokkuð góð, en ekki nógu góð til þess að ná á “hæsta stig” í íþróttum. Ég var of lítil, ekki með nógu góða tækni, ekki nógu löng tök, ekki nógu dýnamísk skref, of áköf, með of mikið af vöðvum, byrjaði “of seint” að synda og ég byrjaði “of seint” að hlaupa. En hjartað mitt slær í íþróttum (eins dramatískt og það hljómar). Ég elska íþróttir. Ég eyddi nokkrum mánuðum í að reyna að sannfæra sjálfa mig um að svo væri ekki. Að ég ætti að fá mér góða menntun, fá háar einkunnir, komast í frábæra skóla og á enda á vinnumarkaðinum í góðu og öruggu starfi. Það var reyndar frábær tími og ég lít upp til allra vinkvenna minna, vina og ástvina sem elt hafa sína drauma á þennan hátt. En sama hvað ég reyndi þá fór ég alltaf aftur í íþróttir og ég setti þær framar félagslífi, fjölskyldutíma og öllu öðru sem er svo yndislegt í lífinu líka. En það var mitt val og hefur skilað mér á þann stað sem ég er á núna. Hjartað mitt sló í íþróttum og ég fann að ég átti enn mikið eftir að gefa af mér á þeim vettvangi áður en ég færi í “venjulega” vinnu.

Sem betur fer á ég góða fjölskyldu og frábæra vini sem standa mér við hlið sama þótt ég geti ekki mætt í veislur, partý, eða hist jafn oft og ég myndi vilja. Það er erfitt og mjög eigingjarnt að vera fúli Jón sem aldrei getur gert neitt útaf æfingum og/eða keppnum, en þetta er mín “vinna” núna og ég er á vakt allan daginn. Takk fyrir að trúa á mig, yfirgefa mig ekki (þó ég sé stundum fúli Jón) og taka tillit til allra þessara æfinga. Án ykkar væri ekkert ég.

Mig langar til þess að vera fyrirmynd fyrir þá krakka sem telja sjálfum sér trú um að þeir séu ekki eða muni aldrei verða nógu góðir í þeirri íþrótt sem þau stunda. Ég vona að ég geti verið lifandi dæmi um hvað erfiðisvinna, óbilandi passjón, trú, sviti og tár geta skilað okkur langt í íþróttum (og lífinu almennt). Ég stend frammi fyrir erfiðri og langri vegferð, að reyna að komast inn á Ólympíuleikana í íþrótt sem ég hef stundað í tæp tvö ár. Hvort ég komist inn eða ekki verður tíminn að leiða í ljós. Ég er harðákveðin í því að gera mitt besta og ganga frá þessari vegferð stolt eftir að hafa gefið allt sem ég átti í þetta markmið. En sama hvað verður þá vona ég að mín vegferð verði innblástur fyrir aðra að láta drauma sína rætast og elta hjartað sitt. Mig langar til þess að keppa með það í hjarta að allt sem ég geri núna muni skila sér lengra og gefa þeim sem á eftir mér koma meiri tækifæri og betri undirbúning.

Ég fæ stundum þá spurningu ,,hvað ef þú nærð þessu ekki?” og ég hef átt erfitt með að svara því enda augljóslega stórt markmið hjá mér sem ég hef sett út í kosmósið og deilt með öllum þeim sem áhuga hafa. Eftir að hafa rætt þessa spurningu fram og aftur við Axel þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að svara ,,en hvað þetta tekst?”. Ég hef eytt alltof löngum tíma í lífi mínu hrædd við að mistakast með bilaða fullkomnunaráráttu og skammast mín ef ég fékk lágar einkunnir í prófum eða gekk illa í keppnum. Ég mun líklega aldrei verða fullkomin og það er allt í lagi. Ég vil frekar gera 100 mistök og mögulega ná árangri, heldur en að gera 0 en standa í stað. Þessvegna verður mitt hashtag #framförekkifullkomnun í öllu þessu ferli. Þó það verði án efa erfitt stundum, þá er ég harðákveðin í því að halda sjálfri mér ábyrgri og fylgja því eftir!

Ég hlakka til að deila þessum tímum með ykkur hérna á síðunni og taka ykkur með mér í þessa vegferð! Takk fyrir stuðninginn, án ykkar væri ég ekki hérna.
#AlltFyrirTokyo og #AlltFyrirÍsland