Vorið í Calella

Sigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Jæja, þá er aftur komið að því að skrifa keppnissögu eftir frækna keppni hér í Calella, Barcelona. Ég endaði þessa keppni á mínum besta tíma í hálf maraþoni inni í þríþraut (og mínum besta tíma frá upphafi ef mér skjátlast ekki) og varð á sama tíma 19. í PRO flokki til að hlaupa yfir endamarkið.
Fyrir keppnina í dag var spáð hrikalegu veðri. Þegar ég segi „hrikalegt“, þá meina ég allt sem hægt er að túlka út úr því. Samkvæmt hinni alræmdu og oft mjög svo áreiðanlegu norsku síðu YR.no gátum við búist við allt að 5-8mm rigningu á þeim tíma sem keppnin stóð yfir bæði hérna í Calella og uppi í fjalli þar sem hæsta punkti hjólabrautarinnar var náð. Þar að auki átti hitinn ekki að fara mikið yfir 13 gráður á meðan að herlegheitunum stæði. „Ekta íslenskt sumar“ hugsaði ég með mér kvöldið áður en við fórum í háttinn fyrir stóra daginn. Ég var í þessu ljósi sérstaklega stressaður fyrir hjólinu. Eftir óhappið í Írlandi í fyrra, þegar ég þrusaði mér út af hjólabrautinni á 60 km hraða, einmitt í svipuðum veðuraðstæðum og búið var að spá hérna á Spáni, hef ég ekki verið sá hressasti með að henda mér hratt niður brekkur í bleytu. Ég var þess vegna búinn að ákveða að hjólið yrði tekið nokkuð þétt upp brekkurnar en svo myndi ég ekki hleypa mér of hratt niður aftur. Þannig gæti ég alltaf fundið fyrir þeirri tilfinningu að ég væri 100% við stjórn. Með það hugarfar fór ég í háttinn kvöldið fyrir keppnisdag, kl 10:00 að staðartíma.

Á keppnisdag var vaknað kl 04:00 á spænskum tíma (02:00 á íslenskum tíma) og því ekki fjarri lagi að enn hafi einhverjir verið í party-um sem tengjast hinni Evrópsku söngvakeppni þegar við Rafn röltum niður í morgunmat ásamt öðru mishressu íþróttafólki sem var á leið í sömu vitleysu og við. Tveir félagar okkar Rafns, þeir Mummi og Halli, voru einnig á sama hóteli og við sátum því saman í morgunmatnum að ræða mögulegt úrhellið sem ætti eftir að setja svip sinn á daginn. Ég reyndi að borða eins mikið og ég gat þar sem það voru 3 tímar í ræs og nægur tími til að melta. Ég var búinn að ákveða það að ég ætlaði ekki að gera sömu mistök og í fyrri keppnum og vera að hugsa um „keppnisþyngd“. Maður brennir um 4-5000 hitaeiningum í svona keppni svo það er alveg hægt að dæla aðeins í sig í morgunmatnum (eða það er allavega minn hugsunarháttur).
Klukkan var að verða 06:00 þegar við loksins röltum út að skiptisvæði til að athuga með hjólin, setja upp skipti-pokana okkar og gera allt klárt. Spánverjinn í kallkerfinu var sífellt að vara við þessum hrikalegu aðstæðum sem væru á staðnum: „Eingöngu 12 gráðu lofthiti og FIMMTÁN GRÁÐUR í vatninu!!“ Þetta var svo dramatískt að ég hélt á köflum að hann myndi tilkynna næst að stundið hefði verið stytt niður í 50 metra höfrungahopp. Ég var frekar rólegur í fjörunni, kom mér bara vel fyrir og fékk einhvern ókunnugan gaur til að renna upp blautgallanum. Þegar hann var nýbúinn að renna upp þurfti ég alveg rosalega mikið að pissa. Þetta gerist alltaf svona rétt fyrir start og því gott að vera vanur því að láta bara vaða í blautgallann. Ég gerði það og svo aftur rétt áður en að startflautan fór í gang (Já, þessi aukakíló, maður!).
Þrátt fyrir dómsdagsspár veðurfréttastöðva daginn áður rættist það ekki um morguninn og í staðinn fengum við næstum heiðskíran himin og góðan hita. Engin rigning enn…það lofar góðu.

Sundið

siggi1
BAM. Af stað með ykkur. Já, svona áfram! Rosalega var ég eitthvað seinn úr sporunum. Allir þutu fram úr mér og ég endaði á því að höfrunga mig fram úr nokkrum áður en ég setti allt í botn. Spaðarnir á fullt og fætur í gang. Snúa mjöðmum, anda rólega og reyna að koma sér í takt. Það gekk vel og ég var orðinn fyrstur eftir um 50 metra. Það virtist enginn ætla að reyna að fara eitthvað hraðar svo ég ákvað bara að þetta yrði enn eitt skiptið sem ég myndi bara leiða þetta pakk. Ekki myndi ég að gera það á hjólinu, né í hlaupinu, svo það gæti allt eins verið sundið (broskall). Ég hélt uppi góðum hraða og reyndi að halda jöfnum takti. Það voru góðar aðstæður fyrir hratt sund og við vorum á endanum bara þrír sem að héldum þetta út. Þetta var á vissan hátt mjög viðburðalítið sund, ég elti bara baujurnar og gaurinn sem var á kayak fyrir framan mig. Þægilegt að vera með svona fylgdarmann, þurfti eiginlega ekkert að pæla í baujunum heldur elti bara strákinn í kayak-num. Forréttindi.

Eftir um 22 mínútur og 50 sekúntur (1906m skv. úrinu) kom ég upp úr, sirka 5 sek á undan næstu tveimur sem voru Elliot Smales (endaði í 4. sæti) og David McNamee (endaði í 2. sæti) og meðalpace því sirka 1:12/100m. Bara nokkuð gott hugsaði ég, en þetta var bara nokkuð þægilegt sund þrátt fyrir hraðann. Ég dreif mig inn í T1 og henti mér úr blautgallanum og setti á mig hjálminn. Kippti líka með mér hjólatölvunni en það hefði verið þó nokkur skellur að gleyma henni í pokanum góða. Skiptisvæðið var á gervigras fótboltavelli svo að hlaupið að hjólunum var nokkuð mjúkt og þægilegt. Úti í enda stóðu hjólin og ég kom að standi nr. 14. Ekkert vesen, hjólatölvan á festinguna og hjólið út. Úff…næstu 90 km yrðu strembnir en það var allavega ekki enn byrjað að rigna og lítið útlit fyrir að það myndi breytast í bráð!

Hjólið
Fyrstu 3 km hjólaleiðarinnar út úr Calella voru tæknilegir og við máttum ekki nota letingjana (aero bars) á hjólunum okkar þangað til við værum komin á beinu brautina. Við unnum okkur því í rólegheitunum út úr bænum og svo út á hraðbrautina þar sem að maður setti í keppnisgírinn og byrjaði þessa veislu. Strákarnir tveir sem að komu upp úr sundinu með mér voru þá komnir á undan en ég kippti mér ekki mikið upp við það. Báðir eru þeir virkilega öflugir hjólreiðamenn og ég bjóst líka við því að missa nokkra fleiri fram úr mér á þessum mjög svo strembna hjólalegg.

siggi2

Eftir að hafa hjólað um 7-8 km af brautinni hófum við að klífa upp fyrstu brekkuna. Hæðarprófíllinn skiptist í þrjár veglegar brekkur upp á við og nokkuð tæknilega kafla niður frá hæsta punkti (sjá mynd).

siggi3

Ég var búinn að ákveða að taka aðeins meira á því upp brekkurnar en hvíla frekar á leiðinni niður og vera þá á minni ákefð á þeim köflum. Enn var ekki byrjað að rigna á þessum tímapunkti og það leit út fyrir það að þetta myndi haldast þurrt allan daginn svo það var allavega stór plús fyrir óöruggan hjólreiðamann hræddan við hraðar brekkur. Ég hélt nokkuð jöfnu afli upp þessa fyrstu brekku, sem tók um það bil 27-28 mínútur að fara upp. Meðalaflið um 330 wött. Við tók um það bil 13 mínútna hjól niður en á þessum tímapunkti hafði ég misst um 8 hjólara fram úr mér, tvo á leiðinni upp og sex á leiðinni niður. Mér fannst menn vera ansi glannalegir á leiðinni niður þrátt fyrir að það væri þurrt og ekki leið á löngu þar til ég sá hjól úti í kanti og einhvern liggjandi úti í skurði með tvö mótorhjól að veifa okkur að fara varlega. Flashback á Írland hjá mér, vona að það sé í lagi með kauða.
Fljótlega komu svo fjórir í viðbót fram úr og þeir náðu þessum 6 sem höfðu farið fram úr mér á leiðinni niður brekkuna. Allir voru þeir heldur nálægt hvor öðrum og ég velti því fyrir mér hvort að þeir sem eru í PRO flokki séu eitthvað undanskildir þessum draft reglum því ég fullyrði að enginn þeirra virti 12 metra regluna. Ég hefði örugglega getað hent mér fyrir aftan þá og draftað eins og hinir og mögulega grætt eitthvað á því en það síðasta sem ég vildi var að fá á mig víti svo ég sleppti því. Maður tapar stundum á því að vera heiðarlegur en það er bara eins og það er, því miður.
Næst tók við alvöru klifur sem lá upp í Montseny en þetta var ROSALEGT. Ég tók sömu nálgun á þetta og við fyrsta klifurkaflann og keyrði aðeins meira upp brekkuna til að geta hjólað rólegar niður. Þetta var um 11 km kafli með 500 metra hækkun og því var hraðinn ekki mikill að meðaltali. Meðalwöttin um 325 upp þennan kafla en þetta tók um 32 mínútur í heildina. Það komu engir aðrir fram úr mér hér og því ljóst að það væri nokkur spotti í næsta hóp fyrir aftan. Þegar á toppinn var komið tók við mjög tæknilegur kafli þar sem að ég eiginlega hékk allan tímann á bremsunum og passaði mig að hleypa mér ekki of hratt niður. Frekar að skila sér heilum í T2 heldur en að kynnast betur þeim gróðurtegundum sem uxu þarna uppi í Montseny héraði. Til marks um það hversu þröngir og óútreiknanlegir vegirnir þarna uppi voru þá má sjá skjáskot af einum kafla leiðarinnar á næstu mynd.

siggi4

Eftir að hafa þrætt þessa þröngu vegi komum við loksins að góðum vegarkafla og við tók mjög hraður kafli. Næstu 10 mínútur voru á að meðaltali 50 km/klst en þetta var nokkuð beint og kannski hægt að líkja þessu við Krýsuvíkurveginn frá toppi að Bláfjallaafleggjaranum. Eftir þetta var keppnin í sjálfu sér nokkuð viðburðalítil hjá mér en fljótlega komu fram úr mér 5-6 aðrir hjólarar og ég ákvað í þetta skiptið að reyna bara að halda mig við þennan hóp alla leið í bæinn. Það var eitt klifur eftir áður en við kláruðum brekkurnar og við keyrðum upp þennan síðasta kafla áður en við tók nokkuð léttur kafli síðasta korterið eða svo. Menn farnir að hugsa um hlaupið og tími til að fá sér restina af næringunni og drekka nóg. Það var orðið ágætlega heitt, um 15 gráður og sól svo að hlaupið átti eftir að vera við nokkuð þægilegan hita. Næringin mín á hjólinu var um það bil 900 kcal af gelum sem ég hafði sprautað í brúsa og blandað með vatni. Svo var ég bara með hreint vatn (sem ég drakk ekkert af og burðaðist því með auka 750 gr upp allar þessar brekkur) og 750 ml af Aquarius blöndu til að fá sölt.
Við komum fljótlega aftur að bænum og því tími til að þræða þröngar götur Calella aftur áður en við skiluðum hjólunum og byrjuðum hlaupið. Ég tók mér tíma í þetta og var ekkert að flýta mér og reyndi bara að einbeita mér að því að klessa ekki á neitt. Úr skónum þegar um 500 metrar voru í mount-dismount línuna og svo af hjólinu og inn í T2.
T2 gekk nokkuð vel fyrir sig og ég var kominn í hlaupið eftir um 2 mín í skiptingu.

Hlaupið
Ég var í fyrsta skipti að keppa með Stryd powermæli í hlaupinu núna og fannst áhugavert að fylgjast með því öðru hverju. Þetta kannski gerði ekki mikið gagn í þessari braut þar sem að hún var tiltölulega slétt og því ekki mikil þörf á því að stjórna hraðanum en þetta gefur manni samt góða innsýn í hvernig maður er að halda út hlaupið í heild sinni. Ég byrjaði nokkuð léttur á fæti en fyrstu 1,5 km voru við léttan meðbyr áður en við komum að fyrsta snúningspunktinum. Eftir það voru þetta tveir heilir hringir, samtals um 19,5 km til viðbótar.

siggi5

Mér leið vel fyrstu tvo kílómetrana en svo fór aðeins að síga í og ég fann hvernig hraðinn datt aðeins niður. Ég ákvað því að einbeita mér bara að tækninni og reyna að skila hámarks krafti í hvert skref. Kálfarnir voru á þessum tímapunkti mjög stífir og ég fann að orkan var aðeins farin að minnka. Á næstu drykkjarstöð tók ég því rólega, labbaði í 5 sek á meðan ég henti í mig geli og Red bull, tók eina vatnsflösku, skolaði munninn og drakk aðeins og hellti restinni yfir hausinn og bringuna. Þetta gerði helling en næstu 5 km voru á góðu pace-i sem skilaði fyrstu 10 km á sirka 38:20 mínútum. Ég var nokkuð sáttur með þetta en markmiðið fyrir daginn hafði verið að fara undir 1:20 í hálf-maraþoninu. Ég ákvað því bara að reyna að halda þessari siglingu áfram en kálfarnir voru á þessum tímapunkti farnir að losna aðeins upp og ég gat gefið aðeins í. Ég hélt uppteknum hætti, tók gel á annarri hverri drykkjastöð en hellti alltaf yfir mig vatni og drakk smá. Næstu 10 km voru líka á 38:20 svo það var ljóst að splittið var algjörlega slétt. Ótrúlegt, hugsaði ég. Síðasti kílómetrinn var strembinn en það var mikið af fólki í brautinni og því þurfti ég oft að kalla á fólk til að færa sig. Þetta gekk ekki alltaf upp og endaði ég nokkrum sinnum á því að hlaupa á gangstéttarkantinum. Loksins náði ég á rauða dregilinn og kastaði mér léttur á fæti yfir marklínuna á tímanum 4:24 og því ljóst að hálf-maraþonið hafði verið hlaupið á um 1:19, um mínútu undir markmiðinu. Að neðan má sjá greiningu á hlaupinu í hraða (grænt) og afli (fjólublátt).

siggi6

Að lokum var því nítjánda sæti í PRO flokki af 33 sem kláruðu (40 í starti) staðreynd og 22. í heildina af þeim 2224 sem að kláruðu almennu keppnina. Til gamans má geta að það voru tveir Age Group gæjar rétt á undan mér í aldursflokkinum 25-29 ára og því ljóst að mjög líklega hefði ég náð á HM í Nice ef ég væri ekki að keppa í PRO flokki.

Samantekt
Það er margt mjög gott sem ég tek frá þessari keppni en það gekk eiginlega allt upp hérna í Calella. Sundið var mjög gott en eins og er hef ég líklega náð sama formi þar og þegar ég var upp á mitt besta um árið 2009. Nú hef ég alltaf komið upp í fremsta hóp í sundinu og tvisvar verið fyrstur upp úr vatninu svo það er ljóst að ég og Klaus erum að gera eitthvað rétt þar.
Hjólið var mjög gott á heildina litið og ég var hissa á því hvað aflið var gott. 304W normalized í 2 klst og 37 mín er eitthvað sem ég hefði ekki getað trúað fyrir 2 mánuðum síðan en góðar æfingar og mikilvæg innsýn í mjólkursýrumyndun og eyðslu frá Ragnari Guðmunds í Optimizar urðu til þess að opna augun mín fyrir öðrum æfingaaðferðum sem að hafa svo sannarlega skilað sínu. Ég var samt um 10-15 mín hægari en flestir þeir sem voru á undan mér og það er bara eitthvað til að vinna í enn frekar. Ég veit að ég get náð þeim með markvissum æfingum og það verður gaman að komast einhvern tímann á þann punkt að geta haldið forystunni úr sundinu lengur inn í hjólið og mögulega vera með í topp baráttunni.
Hlaupið var ofar markmiðinu og um mínútu hraðari hlaupatími en áætlað var. Meðalpace um 3:46/km en marmiðið var að vera í kringum 3:48. Markvissar æfingar í vetur hér og engin meiðsli hafa klárlega skilað sínu og ég hlakka til að halda áfram að vinna þennan hlaupatíma niður og vonandi komast nær 1:15 af hjólinu á komandi misserum. Þá fyrst get ég farið að vera samkeppnishæfur við þessa bestu og komið mér inn í Top-10 baráttuna.

siggi7

Að lokum vil ég þakka öllum heima fyrir ótrúlegan stuðning en það er alltaf svo gott að vita af því að fólk sé að fylgjast með og hefur áhuga á því sem maður er að gera. Ég vona líka að það sem ég geri verði til þess að hvetja aðra áfram í því að ná sínum markmiðum, sama hver þau eru og verði til þess að gera þríþraut að vinsælli íþrótt heima fyrir.
Ég þakka öllum þeim Íslendingum sem voru hérna líka í Calella fyrir frábæran félagsskap og óska þeim til hamingju með flottan árangur – frábært að sjá hvað allir voru að standa sig vel í þessari krefjandi braut! Sérstaklega til hamingju Ranna með HM-sætið í Nice!! Ótrúlega vel gert, algjört vélmenni.
Að lokum, þakkir til styrktaraðila minna, en án þeirra væri þetta mun erfiðara verk en það er nú þegar.
– TRI Verslun #becube
– On Running #runonclouds
– Arena á Íslandi #arenawaterinstinct
– Hleðsla Íþróttadrykkur #hledsla
– Hárnýjung #bestaklippingin

-Sportvörur

Næst á dagskrá er IM 70.3 í Finnlandi og svo strax helgina á eftir IM 70.3 í Jönköping, Svíþjóð og verða það því ansi krefjandi 8 dagar. Ég hef nokkrar vikur til að koma mér í stand fyrir það, en fyrst eru það sprettþrautin í Hafnarfirði og Íslandsmót á Laugarvatni. Þangað til næst!

Með fellibyljum í Flórída

Tómas Beck segir frá:

Þetta byrjaði sem frábær hugmynd. Flórida hlýtur að vera ágætur staður fyrir fyrsta járnið, flöt og þægileg braut, ekkert vesen með vatn og hita, beint á ská flug, smá bíltúr, nóg af sól og eitthvað fyrir alla? Þetta átti að verða fjölskyldufrí í leiðinni í Panama City sem er skammt frá Tampa (bara sex tímar í bíl) og þannig yrði íslenska sumarið lengt.

Margrét Elín konan mín gekk frá skráningunni í febrúar og þá byrjaði ég að hvetja æfingarfélaga til að skrá sig líka. Raunsæisraddir fóru að tala um að þetta væri í lok fellibyljatímabilsins en Bjarki Freyr Rúnarsson lét til skara skríða og dró Rúnar Már Jóhannsson föður sinn til að vera honum (og mér) til halds og trausts.
Hugmyndir um fjölskyldufrí fóru fljótt að dvína þar sem ferðalagið yrði mjög langt og erfitt, allur fókus yrði á keppnina dagana fyrir og þreyta dagana á eftir, þannig að niðurstaðan var strákakeppnisferð.

Æfingar og undirbúningur:
Æfingar gengu þolanlega miðað við vaktavinnu og fjölskyldulíf og varð mér ljóst að lykilatriði í þessum undirbúningi var að sýna þessu hóflegan sveigjanleika. Væntingar lágu ekki fyrir þar sem maður hafði engar fyrri forsendur til að meta eigin burði og því voru einu markmiðin til að byrja með að klára. Ég hafði í fyrra klárað Challenge Iceland í Kjósinni sem er hálfur járnmaður þannig ég hafði smá hugmynd um hvað koma skyldi. Markvissar æfingar fyrir #IMFL2018 hófust í maí en aðrir tímafrekir viðburðir sumarsins tróðu sér inn á æfingaplanið. Meðal annars má nefna, allar íslensku þríþrautarkeppnirnar (nema í RNB), flest götuhlaup á höfuðborgarsvæðinu, Ísl. Mót Garpa í sundi í 25m laug, ólöglegt RVK Maraþon, Laugavegshlaupið, hlaup yfir Fimmvörðuháls, Hvítasunnuhlaup Hauka og  fjölskyldufrí á Krít. Þar fór ég nokkra langa hjólatúra í hita og brekkum. Hitinn var það sem ég óttaðist mest og vann markvisst í að æfa innandyra á Íslandi og að næring yrði að vera í samræmi við vökvatap.

Stormur í vatnsglasi? Nei þetta er alvöru:
tómasbeck54 vikum fyrir keppni er ég að skoða veðurkort af Atlantshafinu og er að róa mig yfir því að engir fellibyljir voru í uppsiglingu sem miðuðu á Flórídaskaga. Nema þar til á einhverri vefsíðu sé ég að 4. stigs fellibylur, Michael, stefndi í átt að Panama City. Þá hafði “fæðst” lítill skratti syðst í Mexíkóflóa sem óx svona rosalega í hlýjum sjónum og dúndraði beint yfir keppnisstað og nærliggjandi svæði með svakalegri eyðileggingu. Get sagt það alveg hreint út að ég hefði veðjað á að keppninni yrði aflýst þetta árið. En tæpri viku eftir Michael kom tilkynning frá Ironman að keppnin yrði færð til bæjarins Haines City sem er 73km austur af Tampa og seinkað um einn dag og nú yrði keppt þann 4. vóvember. Í þessari viku meðan Michael fæddist og fór þarna yfir og dagana í kjölfarið datt dáldið dampurinn úr æfingum. Maður var nánast búinn að afskrifa þetta og farinn að spyrja sig til hvers að sitja á trainer í 160 “Zwift” km og taka svo 30km brick á bretti. En eftir að flutningurinn var staðfestur gat maður ekki annað en hysjað upp um sig buxurnar og klárað þetta.

Ég ætla ekki fara skrifa neitt um ferðalagið og allt það heldur reyni ég að kom mér að kjarna málsins:

Keppnisdagur:
Vöknuðum 03:30 (meira að segja á undan vekjaraklukkunni) og gerðum okkur klára. Klukkan tvö um nóttina hafði day-light savings skollið á í Ameríkulandi þannig við fengum auka klukkutíma svefn. Vakna, bursta tennur, áburður, keppnisgallinn, púlsmælir, GPS´ið, tímaflagan, næring og út. Hjólið og allt hitt hafði verið tékkað inn daginn áður. Korteri eftir að við vöknuðum húrruðumst við út í bíl og brunuðum á 24/7 morgunverðarstaðinn sem var út í vegkanti við þjóðveginn. Eftir eggjaköku og ½ kaffi var aftur sest uppí bíl og keyrt í rúma klukkustund í kolniðamyrkri á keppnisstaðinn, Haines City. Þar voru ljóskastarar á víð og dreif um keppnissvæðið og tónlist í hátalarakerfum út um allt á meðan fólk var að gera sig klárt. Það var talsverð (andleg) ró yfir svæðinu (fannst mér) og flestir að klára síðasta frágang og bíða eftir startinu með bros á vör. Keppnin var ræst kl. 06:30 og höfðu fyrstu geislar sólar brotist fram korteri fyrr. Þjóðsöngurinn fékk að óma 4 mínútum fyrir start. Svo drundi fallbyssan og þá varð ekki aftur snúið.

Sundið:
Ég hafði staðsett mig fyrir miðju sundholli sem ætlaði að synda á 1:10;00 (klst:mín;sek) en hefði betur mátt troða mér framar því ég var allan tímann að taka framúr fólki. Þetta byrjaði frekar rólega, sundleiðin var “W” laga braut sem var synt tvisvar. Í öllum þessum 90’ beygjum (14 samtals) kom í ljós að sumir voru lítið sem ekkert að spá hvert þeir voru að fara. Ég fékk einn sundmann 90 gráður þvert á mig á fullu spani og allt í einu var ég að synda hornrétt á rétta leið (sem betur fer ekki nema tvö sundtök). Einstaka hnoð hér og þar kom ekki að sök og var ég búinn að gíra í mig smá barning. Vitrari menn höfðu af sínum reynslu sögum sagt að það væri barningur að staðsetja sig fyrstu 400m en svo ertu kominn í rólegri gír og klárar þar. Það var ekki þennan daginn. Mér fannst þetta bara versna á seinni hring. Þá var maður farinn að synda frammúr fólki sem áætlaði 1:50;00 mínútur og tróðu sumir marvaða og aðrar frjálsari aðferðir. Það var bara gaman (eftirá) en held ég hafi fengið 3 góð spörk í augun, ein kona (sem var að synda í kolvitlausa átt) stoppaði til ýta mér í burtu og margir fundu sig knúna til að grípa í kálfann á mér þegar ég synti framúr þeim.
Markmiðið var 1:10;00, lokatími: 1:12; 00 -mjög sáttur

tómasbeck3
T1:
Gekk pínu brösulega við að koma mér úr blautgallanum helst þá við að losna úr við ökklana en ég fattaði seinna að ég smurði mig ekki þar. Áhorfendur og stuðningsfólk var gjörsamlega að missa vitið, þetta var af allt öðru kaliberi en ég hef nokkurntíma upplifað. Ég var hálf hræddur við allt þetta fólk ÖSKRANDI á mig! “GO” “GO” “GO” eins og ÞAÐ væri við það deyja ef ÉG mundi ekki drulla mér úr fjörunni, upp að tennisvellinum og sækja hjálminn og út að hjóla! Það voru ca 300m að pokanum og skiptiklefa og svo aðrir 400m að hjóli.
Ekkert markmið bara ekki drolla: tími; 00:06;33 -sáttur

Hjól:
tómasbeck4Virkilega gaman að byrja að hjóla. Sá að púlsinn var frekar hár eftir sundið og T1. Þurfti fyrst að koma mér útúr bænum (2-3 brekkur) og svo út á sveitaveg í stöðuga keyrslu á 200W og púls undir 150bpm (raunin var svo meðal wött 177W á 144bpm). Tveir hringir tæpir 90km hver, ekkert mál. Það var skýjað (6/8 BKN), hitinn var meirihluta leiðarinnar á bilinu 22-26´C og lítill vindur 2-3 m/s. Hitinn náði hæðst 31´C á Garmin 520 hjólatölvunni minni en hún dó dularfullum tölvudauða þegar 14km voru eftir. Aftur á móti voru þarna brekkur sem höfðu ekki náð athygli minni í leiðarlýsingunni. Fannst þær heldur ekkert svo langar og brattar í samanburði við Hvalfjörðinn þannig hjólið var allan tímann bara gleði og góð vinna. Ég drakk rúma 5 lítra af vökva og pissaði aldrei (2,3L Maurten blöndu úr Iron Viking og 6x600ml Gatorade endurance á drykkjarstöðvunum).
Markmið: 5:25;00 lokatími: 5:34:48sek. -aftur sáttur.

T2:
Gekk eins og í sögu. Fór úr hjólaskónum þegar ca. 1km var í mark, jók snúningana og lækkaði gírana til að koma mér í hlaupastuð, steig af rétt á undan “dismount” línu og tölti með Trek´inn góða Equinox í hendur á sjálfboðaliða sem kom því á sinn stand. 600m tölt á tennisvöllinn til að sækja seinni pokann, hjálmur af, sokkar af. Sokkar á, skór á, der og sólgleraugu. Út í maraþon -nú getur EKKERT klikkað!, hugsaði ég. Rétt við línuna þar sem hlaupið byrjaði staldraði ég við til að fá sólarvörn á mig þar sem skýin voru að brotna upp og hitinn var farinn að vera óþægilegur.
Ekkert markmið bara ekki stoppa: Tími: 00:04;32.

Hlaup:
Byrjaði alveg lygilega vel. Búinn að jogga nánast allan stífleika úr á skiptisvæðinu og fannst ég bara geta byrjað að brokka og hafði virkilega góða tilfinningu að hafa sparað orku á hjóli og nært mig vel. KOMASVO bara 5:30-6:00min/km. Fyrstu 3 kílómetrana var þetta ekkert mál (fyrir utan hitann) en svo fór að halla undan fæti. Brekkurnar voru allt í einu rosa langar og brattar og hitinn jókst og jókst. Ég þurfti að pissa og brá mér á salerni á annari drykkjarstöð og hugsaði mér gott til glóðarinnar að létta af mér þessum 5L sem ég hafði torgað í mig á hjólinu en ekkert kom.En fljótlega fór ég að finna fyrir spennu og kippum í öllum vöðvum í efrihluta líkamans. Hendur og brjóstvöðvar voru með krampa einkenni (ég í alvörunni hló og fannst það svo fyndið) en fór þá að hægja og fór að hrista hendurnar til að reyna losa um þetta. Það gekk ágætlega en þá fluttist þessi tilfinning niður í fæturna, bæði fyrir ofan og neðan hné (læri að framan og aftan og kálfanum). Til að gera langa sögu stutta þurfti ég slá rosalega af til þess að krampa ekki upp. Hlaupið byrjaði á upphitun (spotti út úr bænum eins og á hjólinu) og svo þrír skrítnustu hringir sem ég hef hlaupið í kringum vatnið sem synt var í um morguninn. Fyrsti hringurinn var verstur, þá horfði ég á markmið mín fjara hægt út. Seinni tveir hringirnir voru komnir í væntingastjórnun og bara rumpa þessu af. Það loks fór að ganga betur þegar manni tókst að skokka 7:00min/km pace þegar nánast ALLIR í brautinni voru að labba.
Marmið 3:50;00 lokatími: 5:03;38 -ekki sáttur með tímann en sáttur með að hafa klárað.

Lokatími: 12:03;01

Niðurstaða:
Þetta var ógeðslega erfitt og sérstaklega þegar frávik frá markmiðinu var orðið svona mikið þá fór andlega hliðin að draga mann líka niður. Erfiðasti hjallinn í þessari keppni fannst mér að halda haus síðustu 2-3 klukkutímana og klára. Eftir á að hyggja get ég eflaust giskað á að aðstæður dagsins voru öllum erfiðar. Margir voru að kvarta á meðan þeir gengu í brautinni hversu erfitt allt hefði verið þennan dag. Þetta var alls ekki auðvelt og viðkenni að ég vanmat erfiðleikastuðulinn pínu. Sjáum svo hvað setur, rykið af þessari keppni er enn að setjast. Þetta er ekki fyrir alla, EN ég get alveg mælt með þessu! 🙂

Ég vildi þakka fjölskyldu minni og sérstaklega eiginkonu minni, Margréti, fyrir stuðninginn við skráningu og undirbúning og hversu þakklátur ég er fyrir að hafa þau. Og svo vildi þakka ferðafélögum mínum Bjarka og Rúnari fyrir frábæra ferð og alla hjálpina í gegnum þetta. Til hamingju Bjarki Freyr með annað sæti í aldursflokki. Þetta eru forréttindi að geta gert þetta.

Leiðin til Kona

Sigurður Tómas Þórisson gerir upp járnið

Undirbúningur
Eftir Ironman Austurríki í júlí fyrrasumar (2017) var ég nokkuð rólegur fram að áramótum. Var duglegur að hjóla restina það sem eftir lifði sumars og mætti óreglulega á Ægir3 æfingar á haustmánuðum því við fjölskyldan vorum að undirbúa flutninga, sem fóru svo fram í desember. Eftir jólin hófst formlegt prógramm fyrir Barcelona – 9 mánuðir af nokkuð markvissum æfingum.
Fyrir Austurríki hafði ég æft einn míns liðs (með eigið prógramm) frá október fram í mars þegar ég mætti fyrst á æfingu hjá Ægir3. Ég ætlaði að byrja miklu fyrr með Ægi en ég miklaði fyrir mér að koma föstum æfingatímum inn í prógrammið hjá mér, sem var nokkuð þétt þá þegar – með þrjú börn, krefjandi vinnu og klifuræfingar. Sóló gat ég valið eftir hentisemi hvenær ég æfði og það var hentug leið til að gera Ironman prógrammið sæmilega áhrifalítið fyrir fjölskylduna. Var stundum að hjóla á trainer seinni partinn eftir að ég sótti krakkana í skóla/leikskóla, að hlaupa eða gera æfingar í ræktinni eftir háttatíma hjá þeim og synda fyrir vinnu á morgnana. Það er líka mikill tímasparnaður að æfa einn – minna um ferðalög milli staða, enginn tími í að safna saman hópnum, enginn tími í að blaðra fyrir og eftir æfingu. Og svo er líka gott fyrir hausinn að æfa einn, því á keppnisdegi er maður jú eyland og þarf að berjast við eigin djöfla og enginn sem bjargar manni úr sálarkrísu.

Maður er manns gaman
En þegar leið að keppninni ákvað ég að það væri of mikið sem ég væri að missa af sem einfari. Í fyrsta lagi væru lengri æfingar (hlaupa og hjóla) framundan sem væri skemmtilegra að gera með öðrum. Í öðru lagi er drekkhlaðinn reynslubanki í þríþrautarklúbbunum, sem meðlimir geta tappað af með því að ræða við reynsluboltana og læra af þeirra aðferðum og hugarfari. Í þriðja lagi er maður manns gaman og þó ég sé nokkuð mikill einfari í mér og líði ágætlega í eigin félagsskap, þá er mikið krydd í tilveruna að æfa með öðrum – og fyrir marga er þetta einn stærsti kosturinn við að æfa í klúbbi. Í fjórða lagi erum við í eðli okkar kappsamar verur – maður reynir einfaldlega meira á sig þegar einhver er að sperra sig við hliðina á manni heldur en ef maður er einn að hamast.
Fyrir Barcelona ákvað ég að vera í Ægir3 „Ironman pakkanum“ að langmestu leyti. Ég mætti reyndar bara á um helminginn af æfingunum en tók langoftast þær æfingar sem voru á planinu – helst að ég tæki sundæfingarnar öðruvísi en planið sagði til um. Sérstaklega sótti ég í hlaupabrautina á mánudögum, kvöldsund á fimmtudögum og löngu hjóla/brick á laugardögum og mætti í þær lang flestar.
Eftir Austurríki var alveg ljóst að ég þyrfti að fara upp um minnst eina deild í sundinu, því ég var þar fyrir miðjum hópi í 1200. sæti eftir sundið (á 1:16) og það tafði mig verulega á hjólinu í kjölfarið. Ég lagði því mikla vinnu í að lesa mér meira til um sund, pæla í tækni og slíku og reyndi að vinna í því sem ég var slakastur í (öndun, langsund, o.fl). Horfði á endalaust af vídeóum og náði að bæta mig helling milli ára en fyrir gamalmenni með núll bakgrunn í sundi eru tvö ár bara ekki nóg til að komast á þann stað að teljast „góður sundmaður“. Tel mig þó geta sæmilega skammlaust talist „þokkalegur“, sérstaklega í blautbúningi á langsundi (aðeins slakari í laug og vantar aðeins upp á hraðann í styttri vegalengdunum). Síðustu vikurnar fyrir keppni voru all þungar í sundinu og ég tók eina 5km æfingu, eina 3.8km og tvær 3km auk fjölmargra yfir 2km. Í fyrra fór ég til samanburðar lengst 2,5km í galla, ca. 2 vikum fyrir keppni. Miðað við ganginn á þessum löngu æfingum, þá var ég með vonir um að bæta mig um ca. 10mín og enda á kringum 1:05.
Hlaupið í Austurríki gekk svo sem vel á 3:13 en hnémeiðsli í klifri í desember klipptu út allar hlaupaæfingar fram í byrjun mars þegar ég byrjaði rólega að hlaupa og var bara rétt að detta í þokkalegt keppnisform þegar ég fór út í keppnina. Hefði þurfti alla vega einn og helst tvo mánuði í viðbót til að komast í gott maraþonform og ég fann það í lokin á þeirri keppni að það vantaði slatta af  kílómetratugum í lappirnar. Núna í vetur var ég nánast alveg meiðslalaus. Hnéð var til friðs nema örfáa daga og jafnaði sig með smá hlaupastoppi. Interval æfingarnar í Höllinni komu mér ansi nálægt mínum gamla hraða í lengri og styttri vegalengdunum og ég átti góða hálfmöru í Vorþoninu – fjarri mínu besta en samt betra en formið átti að leyfa. Eftir smá óreglu í æfingum á vormánuðum milli inni- og úti-tímabils, fór að komast form á miðvikudagsæfingarnar (í Dalnum eða á brautinni) og helgaræfingarnar fóru að lengjast. Formið batnaði smátt og smátt fram að sumarfríi og í ágúst og september var fókusinn hjá mér töluverður á hlaupin. Ég bætti við stuttum sprettæfingum á mánudögum (oftast) og setti inn lykilæfingar úr maraþonprógrammi frá Þorláki Jóns í loka buildupinu til að gera mig kláran fyrir alvöru maraþonhlaup (s.s. ekki bara lifa hlaupið af…). Í lokin á buildupinu taldi ég mig vera kominn í ca. 2:50 maraþonform (nærri mínu besta) og var planið að stefna undir 3:00 í Barcelona. Síðustu erfiðu æfingarnar gengu meira að segja svo vel í september að ég var farinn að gæla við að reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57, þegar hann bætti Íslandsmetið í IM) ef mér liði vel eftir hjólið.
Hjólið tók ég svo sem svipað og veturinn á undan. Sprettir og tempó og brekkur af öllum stærðum og gerðum á trainer og á götu. Keypti notað TT hjól og fékk lánaðar ægilega fínar gjarðir hjá járnafanum, keypti mér powerpedala, betri hjólaskó, aero hjálm (fór Austurríki á 5:15 á racer með clip-on aerobar, æfingagjarðir, fjallahjólaskó, götuhjólahjálm og án powermælis) og rakaði meira að segja á mér lappirnar fyrir keppnina (þó það hafi sennilega engin áhrif). Fór aftur í WOW Cyclothon en í þetta skiptið með meistara Geir í 4ra manna liði GÁP Cannondale og það var all nokkuð harðari hjólamennska en í 10 manna liði Símans árið áður. Tók þátt í Tour of Reykjavík og Íslandsmóti í TT, hjólaði í vinnuna á hverjum degi (núna tæpa 6km hvora leið í stað 1km á gamla staðnum) og tók hraustlega á því í sumarfríinu fyrir norðan (keppti ma. í Gangamótinu frá Siglufirði til Akureyrar og barðist við Strava KOM í nokkrum hressum þjóðvegabrekkum). Eftir óendanlegar lúppur á Krýsvíkurveginum og á helstu leiðum kringum borgina taldi ég að mig vera kominn í form til að stefna á svipaðan tíma og Geir var með í Barcelona í fyrra (4:40) ef aðstæður væru hagfelldar.

Munkalíf og gufubaðsæfingar
Lokahnykkurinn að undirbúningnum var svo að eftir all nokkurt munúðarlíf í sumarfríinu í júlí setti ég mér nokkrar einfaldar „munkalífsreglur“ sem skyldu heiðraðar fram að keppninni tveimur mánuðum seinna. Reglurnar sneru aðallega að mataræði – áfengi, sykri, snakki, frönskum, kaffidrykkju etc. en voru svo áhrifaríkar að ég fór úr ca. 77kg í byrjun ágúst niður í 72,5kg um miðjan september (í hámarks æfingaálagi) og keppnisþyngd í Barcelona hefur verið kringum 73kg eftir smá afslátt frá munkinum og minni kaloríubruna í taper vikunum í restina. Það munar ekkert smá mikið um 4kg fyrir mann með minn skrokk, sérstaklega á hlaupinu.
Samhliða munkalífinu tók ég 2ja mánaða hitaaðlögun fyrir keppnina til að gera mig þolnari fyrir mögulegum heitum sólardegi og til að minnka svitamyndun og salttap almennt. Fór í gufubað tvisvar í viku frá byrjun ágúst fram að keppni, oftast eftir hlaupa eða hjólaæfingu. Þetta var stigvaxandi þjáning frá 5-10mín í byrjun þar sem ég var alveg að deyja frá fyrstu mínútu og kom út úr gufunni með urrandi svima og upp í 2x15mín og 1x25mín effort í lokin þar sem ég fann lítið fyrir hitanum fyrr en eftir 10-15mín inn í settið og leið bara ágætlega á eftir.

IMG_5120

Aðdragandi
Síðustu 10 dagana tók ég svo nokkuð óskipulega steinefnahleðslu, þar sem maður ofhleður skrokkinn með þessum fjórum aðal steinefnum sem tapast við áreynslu (magnesíum, kalíum, natríum og calcium). Það tekur víst skrokkinn 7-10 daga að ná „deep muscular hydration“ á meðan „plasma hydration“ tekur bara dag eða tvo. Á keppnisdegi tapar maður miklum svita og vökvatapið verður aðallega á „plasma-leveli“ og ef maður er með góða „muscular hydration“, þá á maður að geta minnkað líkur á að lenda í „electrolyte-imbalance“ með tilheyrandi krömpum og frammistöðuvandamálum sem þeim fylgja.

Eftir vel heppnaðan undirbúning og nokkra yfirlegu um markmið í hverri grein var ég kominn niður á plan A, B, C og D. A-markmiðið væri 9 tíma Ironman og sub-3:00 hlaup. B-markmið væri hressilega bæting frá Austurríki (9:30 eða eitthvað slíkt). C-markmiðið væri bæting frá Austurríki (sub-9:52) og D-markmiðið væri einfaldlega að skakklappast í mark yfir höfuð.

Við Ása flugum (barnlaus, takk tengdó 🙂 út til Calella þann 3. október ásamt flestum í Ægi og slatta af hinum Íslendingunum. Leigðum okkur bíl á vellinum og komum á hótelið upp úr miðnætti og gripum okkur bita á McD og Istanbul kebab.

IMG_9047
Við Ægiringarnir tóku sundæfingu í sjónum á hverjum degi og tókum hlaup og hjól flesta daga. Fórum nokkrum sinnum út að borða, meðal annars í feita nautasteik á úrúgvæískum veitingastað í Calella á fimmtudeginum. Að öðru leyti reyndi ég að vera sem minnst á fótum, vökva mig vel og borða ekki eitthvað framandi
Við Ása fórum í túristaferð til Montserrat á laugardeginum (2 dögum fyrir keppnina) og það var gaman en í hádegismatnum fór mér að líða eitthvað undarlega (og Ásu á leiðinni). Var hálf óglatt, svimaði slatta og var kominn með magakveisu með tilheyrandi klósettferðum. Grunaði helst að þetta tengdist eitthvað því að við vorum komin þarna í 1200m hæð beint frá sjávarmáli. Síðar kom í ljós að all nokkrir af okkur nautasteikarstrákunum vorum með magavesen og nokkrir með pípandi niðurgang. Mér leist ekkert á þetta og lá bara hálfskjálfandi undir teppi á hótelherberginu eftir að við komum til baka og hálfan laugardaginn líka. Á laugardagskvöld var mér farið að líða skítsæmilega og ekkert annað að gera en að vona að maginn yrði til friðs á sunnudeginum. Reyndi bara að vera duglegur að hvíla mig og vökva.

Útkoma
Keppnin gekk svona líka vel og ég endaði á 9:06:34 og krækti mér í Kona sæti í október að ári.
Sund – 1:08:45 (116. í aldursflokki, 616. overall)
T1 – 2:51
Hjól – 4:53:06 (18. í aldursflokki, 105. overall)
T2 – 2:00
Hlaup – 2:59:54 (3. í aldursflokki, 23. overall)

Var í 7. sæti í 40-44 karlaflokkinum og í þeim flokki voru 6 Kona sæti í boði þetta árið og amk. einn ef ekki tveir fyrir ofan mig afþökkuðu sitt sæti og því komst ég inn.
Náði ekki alveg A-markmiðinu en var ansi nálægt því og held ég hafi alveg verið í formi fyrir 9 tíma þraut ef aðstæður í sundinu og hjólinu hefðu verið fullkomnar.
Kona sæti var svo sem alls ekkert markmið hjá mér en ég var búinn að sjá það út frá tölfræði síðustu ára að ef ég yrði kringum 9 tímana, þá væri ég annað hvort með sæti eða ansi nálægt því. Var búinn að semja við yfirvaldið um að ef Kona byðist, þá myndi ég segja já við því. Maður veit aldrei hvernig staðan verður á komandi árum. Kannski verð ég aldrei aftur í þessu formi, kannski lendi ég í meiðslum eða slysi, nenni þessum Ironman leik ekki lengur eða eitthvað. Carpe diem!

Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Langefst á lista ber náttúrulega að nefna hana Ásu ofurmömmu fyrir í fyrsta lagi að gefa mér grænt ljós á að fara aftur í Ironman og fyrir óendanlega þolinmæði og stuðning í gegnum þessa vitleysu mína síðustu tvö árin, sérstaklega þessa síðustu þungu „buildup“ mánuði fram að Barcelona. Grísirnir mínir, Þórir (12 ára), Katla (8 ára) og Krissi (6 ára) fá líka mikið hrós fyrir að þrauka föðurmissinn – ég lofa að vera meira heima næstu mánuði og sinna ykkur betur 🙂
Allir æfingarfélagar og þjálfarateymið í Ægir3 sem svitnuðu með mér síðustu misseri. Mikill kraftur í þessum hópi og þó ég taki ca. helminginn af æfingunum sóló, þá er ómetanlegt að vera hluti af drífandi hóp og það lyftir öllum upp á hærra plan. Vonandi hef ég gefið eitthvað af mér inn í hópsálina og verið einhverjum hvatning til afreka.
José í GÁP fær stórt hrós fyrir aðstoðina með bikefit og almennar lífslexíur frá sjónarhorni uppgjafar þríþrautarkappa. Vonandi heldur hann áfram með comebackið og fer að æfa og keppa með okkur í vetur.
Gulli fær svo þakkir fyrir lánið á hjólatöskunni og fyrir áhugann. Treysti á að hann bæti fyrir svikna „Ironman um fertugt“ planið okkar og skelli sér í járn fljótlega.

Langa útgáfan

Hér að neðan er síðan all nokkuð ítarleg útlistun á hverjum hluta keppninnar fyrir þau allra áhugasömustu.

Sundið

Hér var markmiðið að vera á 1:05 en allt undir 1:10 væri bara fínt og ef hjól og hlaup gengju vel, þá gæti 9 tíma markmiðið hafist.
Þetta leit alls ekki vel út í startinu. Það var strekkings gola frá sjónum og RISA stórar öldur sem hömruðu á ströndinni af miklum krafti. Fólk sem var að reyna að hita upp fyrir startið var í bölvuðu brasi með að komast út og aftur í land í briminu.
En ég var svo sem ekkert að stressa mig á þessu. Vorum búnir að lenda í svona aðstæðum í Nauthólsvík nokkrum sinnum þannig að ef eitthvað væri, þá værum við mörlandarnir betur undirbúnir en aðrir í svona ævintýri. Kannski ekki bestu aðstæður til að setja einhverja met sundtíma en þetta ætti að hægja jafnt á öllum og jafnvel meira á hinum en mér.
Skv. ráðleggingum frá Geir þjálfara, þá stillti ég mér upp í 60mín hólfinu, sem var í raun bara aftari hlutinn af 50mín hólfinu (engin skilrúm) og var frekar fámennt. Næsta hólf á eftir var 1:05 og miðað við að flestir setja sig í hólf hraðara en þeir eiga í raun erindi, þá ákvað ég að það væri bara fínt fyrir mig að vera fyrir miðju þessu hólfi. Rakst á Smára Þríkó í hólfinu og átti von á að sjá Óla, Ara og Davíð og jafnvel fleiri úr Ægi en þeir voru hvergi sjáanlegir.
Jæja, ég sogaðist svo bara með mannhafinu í átt að ráshliðunum. Fyrst biðum við meðan Pro og XC (executive-challenged/fatlaðir) voru ræstir en síðan gekk þetta skuggalega hratt og áður en ég vissi af var ég kominn alveg að hliðinu. Var aðeins stressaður eins og eðlilegt er og maginn aðeins öfugur en þó svo miklu rólegri en í fyrra þó ég væri núna frekar framarlega í 3400 manna hjörð að fara að stefna á að fara alveg að mínum getumörkum í 9 tíma og með þennan snarbrjálaða sjó fyrir framan mig. Svo var ég bara kominn að fólkinu sem var að hleypa út í – nokkur „blíp, blíp, dut“, „blíp, blíp, dut“ og var ég farinn af stað út í brimið…
Þetta var eins og verstu Nauthólsvíkurferðirnar í sumar – himinháar öldur sem þurfti að hálf klifra yfir næst landi en svo skánaði þetta aðeins þegar utar dró. Ég var bara sultuslakur á frekar þægilegum hraða og var ekkert að stressa mig þó það væri fullt af liði að sigla fram úr mér. Planið var að reyna að hanga eins og ég gæti í þessum hraðari sundmönnum til að mjólka kjölsögið frá þeim í smástund eftir að þeir færu fram úr mér. Síðan myndi ég bara fara á mínum hraða þess á milli og leita að nýju kjölsogi.
Gekk nokkuð greiðlega út að fyrstu beygju-baujunni en þá tók við 1750m kafli niður meðfram ströndinni. Á þeim kafla var ágætis skriður á manni „með öldunni“ en fólkið var út um allt og erfitt að finna hóp til að elta. Var því ansi mikið sjálfur að dúlla mér á sæmilega þéttu rúlli og datt í einstaka kjölsog hér og þar. Eitt eða tvö létt kjaftshögg og spörk en ekkert alvarlegt – engin gleraugu af eða neitt slíkt. Smá pirringur náttúrulega í mesta barningnum en samt ekki þannig að ég yrði eitthvað reiður eða væri mikið að bölva ástandinu – maður átti bara fullt í fangi með að glíma við öldurnar og sjálfan sig syndandi svo það var varla rúm fyrir annað.
Ég hélt þessar baujur ætluðu aldrei að klárast – fannst ég vera búinn að synda endalaust langt – en eftir dúk og disk kom að beygjunni og það var mikill léttir, því þá voru bara 100m þvert og svo 1450m til baka í markið – mér leið bara nokkuð vel og var nokkuð ferskur en hafði náttúrulega ekki hugmynd hvernig tímanum leið (og var svo sem alveg sama á þessu tímapunkti).
Eftir stutta þverkaflann kárnaði gamanið heldur, því þá beygðum við til baka meðfram ströndinni í átt að skiptisvæðinu og fengum ölduna í fangið. Maður hentist fram og til baka í ölduganginum og vissi ekki alveg hvað sneri upp og hvað niður, hvað þá hvort maður væri að synda í rétta átt eða hvað. Þetta var hálft í hvoru ævintýraleg og skemmtileg áskorun (og ég hálf hlæjandi að þessu öllu saman) og hins vegar pælingar eins og „hvaða rugl er þetta eiginlega?“ og „hvað er ég eiginlega að gera hérna?“


Hægt og bítandi mjakaðist ég þó áleiðis uppeftir og smeygði mér framhjá síðustu baujunni og synti síðustu 100-200m í átt að landi. Ætlaði varla að komast upp úr sjónum fyrir brimi. Var staðinn upp á leið að sjálfboðaliða í fjörunni þegar risa alda skellti mér um koll og dró mig nokkra metra aftur út. Stóð fljótt upp og brunaði upp að skiptasvæðinu. Sá Ásu og fleiri Íslendinga fremst í áhorfendahópnum og ég hélt ég hefði vinkað þeim eitthvað en ég sá það á vídeói af mér að ég var með grimman svip og strunsaði mjög ákveðinn framhjá.

IMG_9076

3.750m var vegalengdin sem ég synti skv. Garmin þannig að brautin hefur sennilega verið aðeins í styttra lagi og ég virðist ekki hafa synt sérlega mikið úr leið – ljóst að ég er farinn að synda beinna en ég gerði og orðinn betri í „sighting“.

Lokatími 1:08:45, 116. í aldursflokki og 616. í heildina.
Meðalhraði (official mv. 3,8km) 1:49/100m

Skiptisvæðið-T1
Lappaði úrið og kíkti örstutt á skjáinn og sýndist ég sjá 1:08 – ekki sem verst miðað við ástandið þó þetta hafi ekki alveg verið samkvæmt björtustu vonum.
Stoppaði 1sek undir sturtunum til að skola saltpækilinn úr andlitinu og svo bara beint upp í tjaldið þar sem pokarnir okkar héngu á númeruðum snögum. Var sæmilega fljótur úr gallanum en samt ekkert ævintýralega að mér fannst. Númerabeltið á mittið, hjálminn á hausinn, sunddótið ofan í og pokann aftur á snagann. Hljóp svo beint að hjólinu og leiddi það á skokkinu að línunni við endann á skiptisvæðinu. Stökk þar á bak og tókst að smeygja mér sæmilega hratt í skóna þó það sé alltaf aðeins kómísk aðgerð – smá zikkzakk og næstum búinn að klessa á eitthvað annað fólk þarna en það hafðist þó slysalaust og ég kominn strax á siglingu.
Lokatími 2:51, sem er bara ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði. Er t.d. bara 50s hægari en sigurvegarinn í keppninni og hann vinnur við þetta 🙂

Hjólið
Hér var markmiðið að vera á kringum 4:40-45 á 220-230W og helst á púls undir 140 að jafnaði. Ætlaði að leyfa mér að fara upp í 250-270W og 150 púls í framúrakstri og brekkum en helst ekki hærra.
Skemmst er frá því að segja að þessi áætlun stóðst ekki. 🙂

IMG_9111

Fyrsti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Það var blautt eftir rigningar næturinnar þannig að það var vissara að fara varlega. Kláraði að festa skóna og fór sæmilega þétt upp á aðalgötuna.
Keyrði vöttin aðeins upp í byrjun til að komast fram úr sem flestum hraðari sundmönnum til að hafa meira pláss til að hjóla. Í fyrra í Austurríki kom ég upp úr vatninu fyrir miðjum hópi í sæti 1200+ og það var mikill barningur að koma sér upp hópinn og geta hjólað á sínum hraða í stað þess að vera endalaust að taka fram úr og hægja til að vera ekki í kjölsogi. Núna ræsti ég í fyrsta lagi framar svo ég var með nokkurra mín byssutíma forskot á massann og svo gekk sundið líka nokkuð vel svo ég var í miklu betri málum en í fyrra. Var svo sem ekki nema í sæti 600+ en kraðakið var svo margfalt minni núna.

Mér var skítkalt þegar ég byrjaði að hjóla. Það var enn skýjað og það var hrollur í mér eftir sundið og fyrsta kaflann var smá regnúði sem kældi mann enn frekar niður. Var ekki kominn með hita í kroppinn fyrr en ca. hálftíma inn í hjólið. Hitaaðlögunin hefur náttúrulega hækkað þægindahitann hjá mér upp um nokkrar gráður þannig að ég er aðeins viðkvæmari fyrir kulda en ella. Hörku hjólastelpa frá Finnlandi (Aina Luoma, vann 30-34 ára á 9:27) fór fram úr mér á leiðinni upp í T-lúppuna og ég fylgdi henni – hún var sæmilega jöfn í hraðanum svo ég var oftast fyrir aftan en stundum fyrir framan þegar mér fannst hún vera að gefa eftir – og við svo með nokkra gaura fljótandi fram og aftur í kringum okkur. Þessi litla grúppa okkar hélt sig saman að mestu frá ca. 20-30km og að snúningnum við 90km og var á nokkuð þéttu trukki sem passaði ágætlega við target W hjá mér. Var næstum dottinn á drykkjarstöð á hjólinu í lok fyrri hrings þegar ég nuddaðist næstum í dekk á einhverjum á undan mér í þvögunni. Rétt náði að sveigja dekkið mitt frá hinu og halla mér í hina áttina til að ná jafnvægi.
Þegar ég sá 2:25 á úrinu eftir 90km (=> 4:50 heildartími EF ég héldi sama hraða), þá gaf ég slatta í og stakk hópinn minn af því ég var að stefna á 4:40-45 til að eiga möguleika á sub-9:00 því sundið var þegar búið að klippa 3 mín af svigrúminu sem ég hafði. Tók fram úr nokkrum fljótlega og var svo á sæmilega auðum sjó með bara staka hjólara á stangli næstu nokkra tugi km og gat þá stillt hraðann eftir eigin höfði og það var mjög gott.
Þetta var samt áhættusöm strategía því ég var búinn að keyra fyrri hlutann af fyrri hringnum nokkuð yfir viðmiðunarvöttum til að koma mér í sterkari hóp og taka slatta af sprettum allan tímann til að komast fram úr fólki og hanga í öðrum. Hættan var sú að ég myndi grilla lærin á hjólinu og sá sparnaður sem ég fengi í hjólatíma gæti komið margfalt í bakið á mér á hlaupinu.
Þegar ég var búinn með lúppuna uppeftir og kominn áleiðis að snúningnum við Montgat, þá var ég farinn að ná sífellt fleirum svo ég stillti mig í aðeins lægri vött bakvið aðra annað slagið til að jafna mig eftir þétta keyrslu síðasta klukkutímann ca frá því ég stakk af við 90km markið. Rétt kringum snúninginn með ca. 35km eftir fór nokkuð sterkur gaur fram úr mér og ég ákvað að hengja mig á hann og við skiptumst á að stilla hraðann langleiðina í mark. Það var fín ferð á okkur og við fórum fram úr fullt af liði í misgóðu ástandi (einhverjir enn á fyrri hring sjálfsagt). Hann var greinilega orðinn stífur og fór standandi í flestar brekkurnar og settist upp reglulega en var samt sterkur og með jafnan hraða. Mér leið þannig lagað ágætlega en lærin voru ekki búin að batna neitt þó ég hafi verið að hjóla jafnar en fyrri partinn. Reyndi að fara standandi í brekkurnar en fann fljótlega að það bara verra og ég byrjaði að krampa. Reyndi líka að standa upp á pedalana og hoppa aðeins og fetta mittið að stýrinu og þó það gerði skrokknum almennt gott, þá voru lærin ekki par hrifin af því og bauluðu. Í restina fór ég því bara sitjandi í brekkurnar og reyndi að losa um axlirnar eins og ég gat. Í undirbúningnum hafði ég yfirleitt komið nokkuð ferskur í löppunum úr löngu hjólatúrunum og var aðallega steiktur í bakinu og öxlunum (og stundum klofinu). Það var því ljóst að ég væri að fara á óþekktar slóðir í hlaupinu þennan daginn með lærin umtalsvert hömruð…

IMG_9099
Með ca. 5-10km eftir í mark fór hinn gaurinn að gefa aðeins í en þá ákvað ég að slá aðeins af til að jafna mig fyrir hlaupið. Þetta var ekki mikið – smá vattalækkun snúningshækkun – en nóg til að hann sigldi rólega í burtu. Tók síðasta gelið með ca. 15km eftir – langaði bara ekkert í fleiri. Kláraði síðasta drykkinn en tók vatnsflösku á síðustu drykkjarstöðinni og setti helminginn í brúsann minn.

Síðasti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Þessi kafli var blautur þegar ég kom þangað og þess utan slatti af fólki á undan mér í þrengslunum þannig að það var ekki þorandi að ætla að fara eitthvað hratt þar í gegn. Mundi ekki nógu vel hvernig síðasti kaflinn var svo ég losaði skóna á leið niður brekkuna með ca. 2km eftir (því nóg pláss þar) og fór ofan á skóna líka aðeins of snemma með smá þræðing til baka eftir að skiptisvæðinu. Kostaði svo sem engan tíma en þarna hefði verið sniðugt að leggja betur á minnið hvernig leiðin að svæðinu var nákvæmlega. Hefði alveg getað losað og farið úr skónum á síðustu 300-400m sennilega eftir að við fórum í undirgöngin og snerum við til baka.

Hjólið í tölum

Meðal – 215W, 139bpm, 37,1km/klst og 83rpm (cadence)
Max – 526W, 155bpm, 62,6km/klst og 116rpm (cadence)
Weighted average – 220W
Normalized – 223W
Max meðal yfir 20mín – 234W
Vegalengd 181,3km, 792m hækkun
Kaloríur brenndar – 3.788

Fín frammistaða en bara dugði engan veginn til að vera nálægt 4:40 eins og bjartsýna planið gekk út á. Brautin var (að mér sýnist) 2km lengri en í fyrra (181km skv. Garmin), þessi T-lúppa ofan við Mataró er með smá hækkun og fleiri snúningspunktum og svo kostaði vindurinn og bleytan einhverjar mínútur líka uppsafnað.
Lokatími 4:53:06, 18. í aldursflokki og 105. overall
Mjög góður tími en langt frá því sem þurfti til að eiga séns í 9 tímana nema ég myndi eiga eitthvað ævintýrilega gott hlaup (2:55ish), sem var harla ólíklegt miðað við ástandið á lærunum á mér í lokin á seinni hjólahringnum.
Held að staðan sé líka bara þannig í svona fjölmennri keppni að meðan ég er ekki betri sundmaður en raun ber vitni, þá muni ég þurfa að eiga við þessi „umferðarvandamál“ að etja og þar með ekki geta hjólað „mitt hjól“ á jöfnum TT hraða. Með 600 manns á undan mér, flesta mun slakari hjólara en mig, þá verður óendanlegur fjöldi framúrakstra óhjákvæmilegur og þeir taka sinn toll, því þeir eru ekki bara tveir eða þrír talsins heldur 50 100 eða 200 eða eitthvað í þeim dúr og ég var einfaldlega ekki nógu vel undirbúinn undir svoleiðis álag. Sundið er í hægfara framför en á meðan ég er ekki kominn í sub-klukkutíma kalíber á sundinu (ef það hefst einhvern tímann), þá sýnist mér ég þurfa að breyta aðeins hvernig löngu hjólatúrarnir eru tæklaðir í buildupinu – t.d. að í stað þess að taka jafna Ironman-vött æfingu í 4-5 tíma, þá að taka frekar IM-vatta „base-cruise“ í 4-5 tíma með kannski 15-60sek „surge“ á 2-5 mín fresti, því þannig er Ironman hjólið fyrir mig – það var þannig í fyrra líka nema bara ennþá verra, því þá voru 1200 manns á undan mér…

Skiptisvæðið T2
Ég stökk af baki á ferðinni en það var eitthvað af fólki fyrir mér á dreglinum strax innan við línuna svo ég varð að stoppa aðeins og smeygja mér framhjá þeim. Einhverjar sekúndur sem töpuðust þar. Fannst ég sjá 4:50 og eitthvað á úrinu þegar ég lappaði það inn í T2 en var samt ekki mikið að pæla í hjólatímanum – það var bara búiðö mál og ekkert við því að gera annað en að hlaupa eins og maður og gera það besta úr stöðunni.
Skokkaði nokkuð léttfættur upp að hjólarekkanum og henti hjólinu á sinn stað og losaði hjálminn á leiðinni upp í tjaldið þar sem ég smeygði mér í gelbeltið og fór í sokka og skó og greip húfu, gleraugu og úlnliðsband. Hjálminn ofan í pokann og hengdi hann aftur á snagann og strunsaði út á hlaupabrautina, klæddi mig í húfuna og hitt sem ég hélt á og gúffaði í mig geli.

Lokatími 2:00, sem er aftur ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði (er t.d. 9s hraðari en sigurvegarinn)

IMG_9132

Hlaupið
Maraþonið í IM í fyrra gekk mjög vel framan af – kom þar mjög ferskur af hjólinu og var að rúlla út á 4:15-20/km hraða(target pace 4:35/km þá) og var í mjög góðum málum upp í 19km þegar fór aðeins að hægja á mér. Í 27km fóru lappirnar á mér í steik og síðustu 15km voru hrikalega erfiðir og ég var að berjast við að halda mér undir 5:00/km hraðaí lokin og náði að klóra mig í mark á 3:13, sem telst víst all gott. Því náði ég þrátt fyrir að missa alveg úr 3 mánuði (des-feb) af hlaupum vegna meiðsla í hné þannig að ég var eiginlega bara hálfnaður með hlaupa-buildupið þegar kom að IM í byrjun júlí.
Í ár voru væntingar um hlaupatíma undir 3 tímana – bæði því ég taldi mig eiga erindi í þann hraða eftir gott hlaup í fyrra og það var líka sá tími sem þurfti til að 9 tímar væru eitthvað á teikniborðinu. Minn besti tími í maraþoni er 2:44 frá Rotterdam 2016 og taldi mig vera kominn í ca. 2.50 form núna í lokin eftir mjög markvissan undirbúning sérstaklega fyrir IM hlaupið. 3:00 tími í maraþoni þýðir hraði upp á ca. 4:15/km og ég var búinn að fara frekar sannfærandi í gegnum langar lykilæfingar á þeim hraða og var því með það upplegg að ég myndi leggja af stað á 4:10/km fyrstu 5-10km og meta stöðuna þá. Ef mér liði vel, þá myndi ég reyna að halda mig kringum 4:05-4:10/km og reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57 eitthvað) en annars reyna að halda sjó á 4:15/km hraða og ná undir 3 tímana. Neyðarplanið var að berjast eins og ljón ef allt færi til fjandans og fara ekki hægar en 4:30/km til að hanga undir 3:10.
Byrjað er að fara ca. 1600m frá skiptisvæðinu að snúningspunkti við marksvæðið og eftir það eru svo farnar þrjár 13,5km lúppur til Santa Susanna, samtals 42,1km eða þar um bil (Ironman eru ekki með löglega mældar brautir skv. IAAF staðli heldur eru þetta bara slembiþon)
Jæja, feginn að vera loksins laus af fjandans hjólinu eftir rétt tæpa fimm tíma á hnakknum og ég fór sæmilega sannfærandi af stað á 4:00-4:05/km hraðaog náði ekki almennilega beygjunni við pálmatréð hjá marksvæðinu og hljóp út í kantstein og datt nánast á grindverkið. Fann samt strax fyrir lærunum eftir hjólið og kveið óneitanlega fyrir komandi þriggja tíma „sufferfest“. Á þessu svæði eru skemmtileg trjágöng og fullt af fólki að horfa á – þar á meðal Ása og allir hinir Ægir3 fylgifiskarnir. Virkilega gaman á þessum kafla með íslenska fánann á nokkrum stöðum og marga að hvetja almennt og svo okkar fólk að hvetja mig persónulega. Þegar ég var að koma að snúningnum við pálmatréð sé ég Ironman kynninn með míkrófóninn í kantinum. Hann er að telja upp eitthvað um hvernig gengi hjá atvinnumönnum og svo heyri ég bara allt í einu „and here we have an athlete from Iceland in the mix“ – gaman að því. Ása var greinilega ekki alveg með statusinn á mér á hreinu, því ég sá hana eftir snúninginn (eftir ca. 1800m) og hóaði til hennar og henni krossbrá við að sjá mig þarna en gólaði svo hvatningarorð meðan ég stormaði framhjá henni.

IMG_9123
Fyrsti hringurinn til Santa Susanna og til baka gekk nokkuð vel á þessu target 4:10-15/km hraða en í meðvitundinni leið hins vegar afar hægt og ég hélt ég ætlaði aldrei að vera kominn úteftir að snúningi. Síðasti kaflinn fyrir snúninginn útfrá er nánast mannlaus og lítið að frétta í landslagi, trjám eða áhorfendum til að dreifa huganum. Smá mótvindur til baka hægði svo meira á mér og hitinn var að aukast eftir því sem skýin þynntust á himninum og sólin fór að láta á sér kræla.
Eftir fyrsta hring kemur maður til baka að pálmatrénu góða og þá reynir á sálartetrið. Maður sér „frárein“ út úr beygjunni í átt að Ironman hliðinu í marksvæðinu EN NEI – ég er bara búinn með einn hring og á TVO HRINGI EFTIR – helvítis 27km eftir… Ekkert annað að gera þar en bíta á jaxlinn setja kassann upp og halda áfram að gera það sem gera þarf – halda hraðanum uppi og komast klakklaust í mark.
Þó það sé óneitanlega frekar niðurdrepandi að fara svona oft framhjá marksvæðinu, þá hefur þetta fyrirkomulag nokkra kosti: a) maður sér stuðningsfólkið sitt frekar oft – tvisvar á stuttum kafla á hverjum hring ef þau eru nálægt marksvæðinu, b) það er hægt að hafa drykkjarstöðvar mjög þétt (voru á 2-3km fresti) og c) kílómetrarnir liðu alltaf hraðar og hraðar, þó ég væri að fara hægar og hægar yfir – bara út af þessum „kunnugleika“ að hafa verið á þessum slóðum áður og maður veit hvað er í vændum og getur hlakkað til einhvers sem maður veit að er að koma í framhaldinu.
Seinni tveir hringirnir runnu framhjá í hálfgerðri þoku. Mætti annað slagið Ægis strákunum í misfersku ástandi og reyndi að frussa út úr mér einhverjum hvatningarorðum sem vonandi hafa gert eitthvað fyrir þá. Spænskur pro gaur fór fram úr mér á fyrsta hring (hann á sínum öðrum) og ég notaði hann sem mótíveringu til að halda mínum hraða uppi. Missti hann þó frá mér eftir nokkra km en mjólkaði framúraksturinn þó eins og ég gat. Á svipuðu stað á öðrum hring fór ég svo fram úr honum þegar hann var farinn að ströggla á þriðja hring með örfáa km í mark og ég greinilega að halda mínu nokkuð vel. Fór fram úr Ara og Lúlla eftir snúninginn á þriðja hring og þeir greinilega orðnir ansi þungir og áttu þá 1 1/2 hring eftir (næstum 20km). Lítið annað að gera en klappa þeim létt á bakið og góla „komaso“ eða hvað það var sem ég baulaði (söng amk. ekki „Hvíta máva“). Var orðinn ansi verkaður þarna í ca. 37km með 5km eftir í mark -hraðinn dottinn niður í 4:25-30/km og meðalhraði á hlaupinu skriðinn yfir 4:15/km þannig að ég var hægt og sígandi að missa frá mér 3 tíma takmarkið. Hafði svo sem ekki mikið fram að færa á þessum tímapunkti til að lagfæra það því ég komst bara ekki hraðar með lærin að stífna meira og meira og farinn að stífna verulega upp í náranum líka þegar komið var inn í seinni partinn af hlaupinu. Hélt þó þessum hraða nokkurn veginn í átt að skiptisvæðinu og þar loksins lagði ég í að stíga á bensínið með 1600m í mark. Þetta var nú ekki neitt urrandi endasprettur en fór þarna vaxandi upp í nálægt 4:00/km.

IMG_9179
Endaspretturinn út af pálmatréslúppunni eftir svarta dreglinum í átt að Ironmark markinu var tekinn gjörsamlega á fullu gasi – hafði ekki hugmynd um hvort ég væri nálægt 3 tíma hlaupi eða 9 tíma heildartíma, því þarna kemst ekkert annað að en að klára í mark og það sem fyrst. Sá ekki Ásu og hina Íslendingana eða neitt svo sem á endasprettinum, því ég var svo fókusaður á þetta og alveg út úr heiminum. Var alveg bugaður í markinu – rétt náði að pumpa hnefana eitthvað út í loftið og slökkva á úrinu og var svo studdur inn í veitingatjaldið af hjálpfúsum sjálfboðaliða.
Í tjaldinu sat ég svo örmagna í einsemd minni og var ekki að koma neinu niður nema smá gosi og melónu. Reyndi að bíta í brauð en kúgaðist og gat varla staðið upp til að sækja mér meira, því ég var svo þreyttur og lappirnar alveg í hakki. Sat því dágóða stund og sötraða drykk og ákvað svo fyrir rest að fara í sturtu. Hún var náttúrulega ísköld en mér var alveg sama. Pissaði í sturtunni rauðbrúnni bunu og hugsaði bara „ósjitt“ – í besta falli brúnt út af myoglobin vöðvaniðurbrotspróteinum (rhabdomyolysis), í versta falli rautt út af blæðingum. Hef nokkrum sinnum fengið mjög dökkt piss eftir maraþon, langar tempó æfingar og svo járnkarlinn í fyrra þannig að ég var ekkert að stressa mig allt of mikið á þessu og einbeitti mér bara að vökvainntöku. Næsta buna uppi á hóteli var helmingi ljósari og þriðja bunan nokkrum tímum síðar var í nokkurn veginn „náttúrulegum“ lit…
Óli kom svo rúmum klukkutíma á eftir mér í mark og Ari og Lúlli í kjölfarið. Það var gaman að hitta æfingafélagana og fara yfir upplifun dagsins. Í fyrra var ég nefnilega aleinn að keppa og hafði engan til að tala við eftir keppnina fyrr en ég fór út af marksvæðinu til fjölskyldunnar. Ég var því ekkert að stressa mig á að fara út úr tjaldinu til Ásu og hélt hún væri bara í góðum félagsskap í góða veðrinu með hinum Íslendingunum. Það var því sjokk þegar ég loksins fór út úr tjaldinu að ég rakst á Ásu, sem hafði þá beðið eftir mér í 3 tíma og fékk ekki að fara inn í tjaldið og stóð því núna í ausandi rigningu og vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðinn… Ég hafði nefnilega ekki sett síma í götufatapokann og hélt ég gæti ekki komist út úr tjaldinu til að kasta kveðju á hana og tíminn leið greinilega miklu hraðar úti á götu heldur en hjá mér í „post-race oblivion“ inni í tjaldinu. Í ljósi skrautlegrar sögu minnar með ofreynslu og sjúkratjöld í svona keppnum, þá eru hennar áhyggjur skiljanlegar og algjör aulaskapur í mér að vera ekki búinn að plana betur samskiptin eftir að ég kæmi í mark – setja síma í pokann, kalla til hennar út um útganginn, gefa upp tíma sem ég myndi vera inni í tjaldinu eða eitthvað. Gerum betur hvað þetta varðar næst…

Hlaupið í tölum

Hraðasti km – 3:58 (fyrsti)
Hægasti km – 4:38 (km 34)
Meðal hraði- 4:18/km (4:16/km skv. opinberum tölum mv. að hlaupið hafi verið 42,2km)
Garmin sýnir hlaupið sem 41,8km og þar sem það sýnir yfirleitt aðeins of mikið, þá hefur brautin sennilega ekki verið nema 41,5km eða þar um bil – við fögnum því 🙂

Lokatími 2:59:54, 3. í aldursflokki og 23. overall
Bara tvær konur á undan mér í allri keppninni – 1. og 2. sætið í Pro kvenna.

Járnið í heild
7. sæti í aldursflokki af 471 – 19 sek frá 6. sæti og 1:32 frá 5. sæti.
54. sæti karla overall
55. sæti overall
Hefði dugaði til sigurs í 45-49 karla og overall AG kvenna og öðru sæti overall kvenna og 31. sæti pro karla.
Ekki sem verst 🙂

Ég ætlaði aldrei í járnið

Stefán Örn Magnússon segir frá:

Bjór, af því að engin góð saga byrjar á salati. Ég sat með nokkrum félögum mínum í desember í fyrra og sötraði bjór þegar einn þeirra nefnir að þeir séu búnir að skrá sig í Ironman í Barcelona haustið 2018, ég varð verulega hissa á þessu þar sem þessi hópur á ekki langa afrekaskrá í þríþraut, reyndar enga, sumir áttu jafnvel ekki hjól né hlaupaskó. Ég varð strax mjög spenntur og hugsaði sem svo að ef að þeir gætu þetta þá gæti ég þetta líka og í raun yrði að fylgja þeim í gegnum þetta ferli. Skráning staðfest tveim dögum síðar.

Forsagan.

Árið 2011 byrjaði Nanna konan mín að taka þátt í þríþraut sem hluti af hópefli á þáverandi vinnustað hennar. Hún kolféll fyrir sportinu og var fljótlega kominn í hóp kvenna sem Karen Axels og Vignir ætluðu að koma í gegnum hálfan Ironman í Hafnarfirði 2012, þessi hópur var nefndur Hálfsystur og átti eftir að gjörbreyta lífi Nönnu og mínu árin á eftir.

Ég horfði á eftir henni sökkva sér í þetta og gjörbreytast sem manneskja, ég hreifst með og var fljótlega farinn að hjóla líka, ég hafði skokkað mér til heilsubótar með Stjörnunni og var í ágætis hlaupaformi þegar ég byrjaði að hjóla og fannst það hrikalega gaman. Við skráðum okkur svo í 3SH haustið 2012, þar var frábær félagsskapur og var mér kennt að sökkva minna í sundinu og að stunda skipulegar æfingar, Ég var nokkuð duglegur í þessu en aldrei óraði mér fyrir að Ironman yrði nokkurntíman á dagskrá.

1377607_10200719414243498_450055046_n

Ég var alveg hættur að æfa 2015 þegar við vorum fyrir tilviljun stödd í Barcelona sömu helgi og Ironman Barcelona var haldin það árið, við þekktum þó nokkra íslendinga sem voru skráðir til leiks og rifum okkur upp langt fyrir allar aldir til að fara og sjá þessa “sjúklinga” fremja verknaðinn. Í lok þessa dags sáum við seinustu keppendur skakklappast á síðasta hring í marathoni eins og það væri búið að gera í buxurnar og þá sagði ég við Nönnu að þetta skildi ég aldrei gera.

Ferlið.

Ég vissi að ef ég ætlaði að eiga séns í að klára þetta dæmi yrði ég að skrá mig í góðan klúbb, ég er svo lánsamur að búa tveim húsum frá sundlaug Kópavogs og lá því lóðbeint við að skrá sig í Breiðablik, ekki skemmdi fyrir að þar mætti maður frábærum hóp af þjálfurum og iðkendum sem gerðu æfingar skemmtilegar. Ég kom inn í mitt æfingartímabil hjá Blikum og var því dálítið á skjön við programið þeirra, þau voru búin með grunn tímabilið sem mér fannst algjört möst að taka af skynsemi til þess að minnka líkur á meðslum við að fara of bratt af stað. Ég keypti mér því 32 vikna æfingaáætlun á Training Peaks sem var sér sniðið fyrir Ironman Barcelona, það reyndist mér frábærlega að styðjast við það fram að 12 vikum fyrir keppni, þá tók við gríðarlega metnaðarfull áætlun frá Viðari Braga sem ég notaði sem viðmið en hlustaði alltaf vel á líkamann til að forðast meiðsl og þreytu og hvíldi ef mér fannst annað hvort gera vart við sig meira en góðu hófi gegndi. Ég var búinn að gera mér nokkuð góða grein fyrir að ég myndi ekki ná að vinna mótið og voru æfingar því meira miðaðar við að fara í gegnum þetta meiðsla laus og að njóta æfinga og keppni.

Til þess að auka á stemninguna skipti ég um vinnu í apríl og var mjög erfitt að halda sér við efnið í æfingum með því aukna álagi sem fylgdi því að byrja að vinna á nýjum vinnustað.

Veðurguðirnir gerðu líka allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir æfingar og var ég við það að bugast seinnipartinn í júní þegar tvöhundraðasti sunnudagurinn í röð var með rigningu og roki á langri hjólaæfingu, þrír til fjórir tímar á hjóli í svona veðri aftur og aftur eru bara ekkert skemmtilegir, nema að maður sé eitthvað bilaður sem ég er sem betur fer smá.

Ég tók þátt í eins mörgum keppnum og ég kom við og var sú reynsla ómetanleg þegar á hólminn í Barcelona var komið. Þar skiptu sundkeppnir í opnu vatni mestu máli enda reynslan minnst þar, Urriðavatnssundið og Viðeyjarsund stóðu þar hæst, að þeim loknum þá vissi ég að ég kæmist þetta.

Frá ármamótum og fram að keppni lagði ég rétt tæpa 3000 km að baki á hjólinu, hljóp 825km og synti rúma 95km, það tók mig um 250 klst að fara þessa km á 200 æfingum. Ég í raun gerði lítið annað en að vinna, æfa og keppa þetta árið.

Ég var feginn að hafa borið þetta undir Nönnu áður en ég skráði mig því að hún bar hitan og þungann af öllu heimilishaldi og leyfði mér að vera prinsessan sem var að fara keppa allt þetta ár, án hennar hefði ég ekki getað þetta.

Keppnin sjálf.

Satt best að segja þá var keppnin sjálf minnsti parturinn af þessu og í raun auðveld og skemmtileg, æfingar höfðu skilað sér og ég var tilbúinn.

sund

Ég játa að ég var ansi lítill í mér þegar ég stóð í sund startinu um morguninn og horfði á öldurnar berja á þeim sem fóru útí á undan mér, þetta var rosalegt og skolaði sumum tvisvar til þrisvar til baka áður en þeir komust út.

Maggi félagi minn stóð þarna með mér og hann sagði “iss þetta verður aldrei vesen” einkunnarorð hans sem róuðu mig mikið og reyndust að sjálfsögðu sönn. Það höfðu greinilega ekki allir heyrt í honum því fleiri tugum ef ekki hundruðum reyndist sundið ofviða og voru sóttir af lífvörðum og skutlað í land. Margir fóru aldrei útí.

Við Maggi fórum óvænt nokkuð samhliða í gegnum keppnina, það var hrikalega gaman að rúlla þetta saman og njóta allan tímann.

Lykilinn af vellíðan í svona keppni er jákvætt hugarfar, næra sig og vökva nóg á hjólinu og vera uppi með kassann í hlaupinu. Pissa reglulega á sig og éta sölt eins og smarties var að reynast mér vel.

Stuðningsliðið okkar stóð sig frábærlega og öskrin í Nönnu minni bárum mig áfram í gegnum erfiða kafla, ég ákvað strax á hjólinu þegar ég heyrði köllin í Nönnu á eftir mér þegar ég var að rúlla af stað út úr Calella í 90 km hring þar sem maður þekkti engan stuðningsmann að öll hvatning sem ég fengi á leiðinni yrði tekið sem hvatning frá Nönnu, það var æðislegt að “sjá” hana svona oft í hringnum.

43392935_10216574345732902_3735887060867743744_n

Það var mikið af íslenskum fánum í hlaupa brautinni og var ómetanlegt að fá stuðninginn frá þeim sem og öllum öðrum sem hvöttu mann áfram af mikilli ákefð.

Það var algjörlega ólýsanleg tilfinning að hlaupa inn eftir rauða dreglinum og klára þetta verkefni í vellíðan og algjörri alsælu, gerði þetta allt þess virði og ég mun endurtaka leikinn.

Screen Shot 2018-10-14 at 15.35.42

 

“Ég ætla aftur”

“Ég ætla aftur” var fyrsta hugsun mín þegar ég kom í mark í minni fyrstu Ironman keppni í Kaupmannahöfn 2017. Því var farið í það að skoða hvaða keppni yrði næst fyrir valinu og 6 vikum síðar var ég skráður í Ironman Barcelona.
Markmiðin voru strax skýr, þessi keppni skyldi kláruð á innan við 10 klst. Þar sem ég er þjálfari hjá Ægi3 varð æfingafríið eftir keppni mjög stutt og ég var kominn á fullt í æfingar 2 vikum eftir keppnina í Kaupmannahöfn. Ég æfði fyrstu vikurnar mikið með skemmtilegum hópi byrjenda sem var mjög góð leið til að koma sér af stað aftur og æfingar gengu mjög vel fram að áramótum.
Eftir áramót fór æfingaálagið að þyngjast og þegar dró að vori var ég farinn að finna fyrir meiðslum auk þess sem andlega hliðin var orðin tæp, þunglyndi og æfingagleðin fór dvínandi. Á þessum tíma var Challenge Samorin framundan og var ég farinn að gæla við þá hugmynd að slaufa þeirri keppni. Sú ákvörðun var þó tekin að taka stutt æfingafrí, jafna sig á meiðslum, vinna í andlegu hliðinni og fara til Slóvakíu með því hugarfari að klára þá keppni. Það er jú heiður að fá að keppa í Challenge Championship og óvíst að maður nái þar inn aftur.
Eftir Slóvakíu ferðina var æfingaáætlunin endurskoðuð og yfirfarin og ljóst var að ég þyrfti að setja meiri þunga í sundæfingar þar sem sundið var mín lang slakasta grein. Því æfði ég sundið 4x í viku fram að keppni, 3x í lauginni og 1x í sjónum. Það er hreint ótrúlegt hversu miklum árangri er hægt að ná í sundinu á stuttum tíma með svona átaki. Í hlaupinu og hjólinu voru langar Z2 æfingar og langar tempó-keyrslur lykilæfingar. Þetta skilaði góðum árangri og var ég meiðslalaus, í góðu formi og mjög vel stemmdur fram að keppni.
Mánuði fyrir keppni var ég að skoða hvaða tíma þurfti að ná í keppninni í fyrra til að ná Kona-sæti og sá að 9.45 hafði dugað árið áður. Þarna fór ég að endurskoða markmiðin mín og hugsaði að ef ég ætti toppdag ætti ég að geta synt á 1.05, hjólað á 5.00 og hlaupið á 3.30. Reiknaði svo 7 mínútur í skiptingar og nýtt markmið var að klára á 9.42.00. Hjólabrautin í Barcelona er mjög flöt og hröð en nokkrum dögum fyrir keppni fengum við keppendur tölvupóst um breytingu á hjólaleiðinni þar sem krókur var tekinn úr hefðbundinni leið sem innihélt nokkuð góða brekku, 4 U-beygjur og lengingu á brautinni um 4 km. En þetta verður þá erfiðara fyrir hina líka hugsaði ég.
Félagskapurinn í æfingarferlinu og keppninni sjálfri var frábær. Stór hópur æfingafélaga úr Ægi3 auk fleiri íslendinga voru skráðir til leiks og mjög stór hópur stuðningsmanna hélt til Barcelona og hreint ótrúlegt að sjá íslenska fánan víða í brautinni og sungið og hrópað Áfram Ísland.
Ég mætti til Calella viku fyrir keppni og gat því æft á staðnum sem var frábært. Synda í heitum sjónum, hjóla við góðar aðstæður og hlaupa meðfram ströndinni var góð tilbreyting frá rigningu og slyddu á Krísuvíkurveginum.
Þegar við hittumst í lobbyinu á hótelinu á keppnisdag var þrumuveður og algjört skýfall. Við ákváðum því að klæða okkur í blautbúningana og labba í þeim niður á strönd. Það hafði verið hvasst um nóttina og við ræddum það á leiðinni að við myndum líklega fá öldur.
Sundið.
Ég hafði ákveðið að skrá mig í sundhólf með þeim sem áætluðu að synda á einni klukkustund. En þegar að sundhólfunum kom sá ég aðeins 55 mín hólf og 1.05 og ákvað að fara í 1.05 hólfið. Þegar ég stóð á ströndinni og horfði út á sjó nokkrum mínútum fyrir startið sá ég að öldurnar voru mun stærri en ég bjóst við og líklega þær langstærstu sem ég hafði nokkur tíma synt í. Ég var algjörlega rólegur og tilbúinn í þetta og þakka ég öllum æfingunum í Nauthólsvík í hvaða veðri sem er fyrir þessa ró. Flautið kom og ég hljóp af stað og stakk mér í ölduna. Ég synti frekar rólega af stað fyrstu 2 – 300 metrana og jók svo hraðan. Ég var á góðu róli og öldurnar höfðu lítil áhrif á mig. Gameplanið núna var að finna einhvern sem synti örlítið hraðar en ég og hanga rétt við tærnar á honum og nota þannig kjölsogið en þannig getur maður synt hraðar á minna álagi. Ég gerði nokkrar tilraunir til að finna einhvert til að elta en gafst að lokum upp þar sem fólk virtist synda í allar áttir, þvess og kruss í öldunum. Ákvað því að synda þetta einn. Sundið gekk vel út en eftir snúningspunktinn þurfti að synda til baka á móti öldunum. Það gekk ljómandi vel að synda á móti öldunum en þarna gekk á ýmsu. Fólk virtist vera í töluverðum vandræðum með ölduna og ég var stöðugt að synda fram úr fólki. Þarna fékk ég nokkur högg og þurfti að stoppa tvisvar til að laga sundhettuna sem var við það að losna ásamt sundgleraugunum. Einnig fékk ég nokkuð vænt spark í andlitið frá manni sem var að synda bringusund. Öðru hvoru heyrði ég í fólki æla þar sem sjóveiki hefur verið farin að segja til sín. Á þessum tímapunkti var ég mjög þakklátur að hafa mætt á allar æfingarnar í Nauthólsvíkinni og vera kominn með reynslu af öldum og gleypa sjó. Þetta sund var frábært og eftir á að hyggja hefði ég alls ekki viljað missa af þessari upplifun fyrir örlítið betri sundtíma, þetta var hrikalega gaman.
Sundtími 1.13.31 sem er ásættanlegt miðað við aðstæður og bæting um 12 mínútur og 49 sek.
Hjólið:
Fyrstu og síðustu 3 km á hjólinu voru í gegnum þröngar götur Calella og mátti ekki vera í aero stöðu þessa leið. Eftir það var haldið út á fallega og skemmtilega leið meðfram ströndinni. Aðstæður voru ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir, það var nokkur vindur sem virtist koma úr öllum áttum. Einnig gekk á með skúrum þannig að vegurinn var blautur og rennislétt malbikið varð flughált í bleytunni. Ég sá nokkur hjól liggja í kantinum eftir að fólk hafði dottið og þrisvar var lögregan að hægja á keppendum þar sem var verið að hlúa að fólki sem hafði dottið rétt á undan mér.
Mjög langar halarófur hjólara mynduðust og voru dómarar nokkuð strangir á því að segja fólki að hægja á sér til að vera ekki of nálægt næsta manni og hótuðu tímavíti. Þetta gerði að verkum að planið um að halda jöfnum 200 wöttum á hjólinu fór út um gluggann. Ég hélt á nokkuð löngum köflum 300 – 350 wöttum til að taka fram úr stórum hópum en svo virtist vera að aðrir væru í sömu hugleiðingum því að um leið og ég sló af komu nokkrir fram úr mér og svona gekk þetta ítrekað. Þetta tók mikla orku og grillaði á manni lærin.
Hjólatími: 5.11.21 sem er vel ásættanlegt miðað við breytinguna á hjólabrautinni og veður. Bæting um 20 mínútur og 59 sek.
Hlaupið.
Hlaupið var strax mjög þungt eftir erfitt hjól lærin fóru strax að væla. Ég reyndi ítrekað að reikna út hvaða hraða ég þyrfti að halda til að ná að klára á 10 klukkustundum en aldrei hef ég verið jafn slakur í hugarreikningi.
Hlaupið er 3 og hálfur hringur meðfram ströndinni í Calella og yfir í næsta bæ. Þegar hlaupið er í Calella er mikið um áhorfendur að hvetja sem hjálpar mikið en þegar komið er út fyrir bæinn er maður meira einn sem er erfitt fyrir hausinn.
Ég fór af stað á 4.40 pace-i, en það er hraði þar sem ég er 4 mín og 40 sek að hlaupa 1 km. Þetta gekk vel til að byrja með, púlsinn var góður og mér leið nokkuð vel nema lærin voru mjög þreytt. Ég hugsaði að ég gæti alveg þrælað mér í gegnum þetta. En eftir 15 – 20 km voru lærin enn þreyttari og mér leið á köflum eins og þau væru hreinlega að gefa sig. Fljótlega í framhaldinu fór maginn að kvarta og ég hægði á mér þar sem ég var á mörkunum að æla. Þarna upphófst mikil andleg barátta þar sem mér fannst ég líkamlega geta haldið 4.40 – 4.50 pace-i en á þessum hraða byrjaði ég að kúgast og átti erfitt með magan. Að hlaupa fram hjá markinu og leggja af stað í síðasta 14 km hringinn var gríðarlega erfitt og síðustu 10 km voru virkilega erfiðir þar sem lærin voru algjörlega búin og ég var orðinn hræddur um að þau myndu gefa sig og ég myndi detta í götuna, sem betur fer gerðist það ekki.
Hlaup: 3.34.07 sem ég er ekki alveg sáttur við. Hjólið tók of mikla orku og ég tel mig eiga að geta rúllað þetta á 4.50 pace-i. Bæting 6 mínútur og 59 sekúndur.
Heildartími: 10.07.03 sem ég er nokkuð sáttur með. Þessi tími skilaði mér í 55. sætið í aldursflokki af 573 keppendum sem er top 10% (AWA-brons) sem ég er nokkuð montinn með. Bæting 41 mínúta og 44 sekúndur.
Á síðustu kílómetrunum í hlaupinu hugsaði ég með mér “ALDREI AFTUR”. Sólarhring síðar vorum við Siggi æfingafélagi minn farnir að skoða hvaða keppni ég ætti að taka næsta sumar þannig að ég tel nánast öruggt að ég tek Ironman keppni á næsta ári.
Næsta verkefni er að fara yfir hvað þarf að bæta, hvar ég á mest inni og í hverju þarf að vinna. Ég er búinn að sjá það að til að komast lengra er algjörlega nauðsynlegt að bæta sundið og vera mjög framarlega þar, að öðrum kosti ertu alltaf í basli í hjólabrautinni með mikinn fjölda hjólara fyrir framan þig.
Þessi ferð og þessi keppni var algjörlega frábær skemmtun og vil ég þakka æfingafélögunum í Ægi3, þjálfurum, og mögnuðum stuðningsmönnum fyrir æðislegan tíma í Calella á Spáni. Vonandi komið þið sem flest með í næstu keppni.

Lanzarote

Rannveig Guicharnaud segir frá:

Ég hafði hugsað mér að skrifa langan íþróttastatus á FB þótt það sé það allra hallærislegasta sem hægt er að gera á FB samkvæmt sonum mínum. Gamalt fólk á ekki að nota FB til þess að skrifa ritgerðir, einnar setningar stöðufærsla er málið. Þetta er víst m.a. ástæðan fyrir því að unga fólkið fór af FB yfir á Instagram.  Mér skilst svo að gamla fólkið sé komið þangað líka (enginn friður) og þau að flýja þaðan líka. Þetta voru sem sagt fréttir úr heimi  unga fólksins og átti alls ekki að vera umræðuefni þessa pistils.

Nú, nú, í millitíðinni hafði Gísli Ásgeirsson samband við mig og bað mig um að skrifa keppnissögu og ég ákvað að fara að ráðum sona minna , ekki skrifa ritgerð á FB heldur frekar blogg og halda þar með kúlinu.

Hálfur járnkall á Lanzarote.

Vá, þvílíkt ævintýri. Ég er alveg heilluð af þessari eyðimerkureldfjallaeyju. Hér er allt rólegt, hrátt og afslappað. Landbúnaðurinn hér mjög frumstæður (já, ég er áhugamanneskja um landbúnað og landbúnaðarvörur og þá sérstaklega ræktun í eldfjallaumhverfi og gerði doktorsverkefnið mitt um eldfjallajarðveg). Ég hef sem sagt önnur áhugamál en þríþraut, kreisí, ég veit!

Hér er ekki margmenni, ósnortið landslag og fáir vegir sem er gott fyrir mig, því eins og alþjóð veit er ég ekki ratvísasta manneskja í heimi þannig ég þarf að leggja mig fram við að týnast hér á hjólinu. Það voru líka fáir í sjónum þegar ég fór í sundprófun.

1 Sundprófun
Sundprófun

Hér er líka lögum og reglum ekkert tekið of hátíðlega og hvað þá í þríþrautarheiminum. Þegar ég kom á skiptisvæðið með hjólið mitt daginn fyrir keppni var ekkert verið að skoða keppnisnúmer, tékka á bremsum eða hjálmi. Það var bara sagt, buonas tardes señora, settu hjólið þitt á rekkann og málið er dautt.

Sund start

Eins og í mörgum svona keppnum var svartamyrkur á T1 um morguninn. Keppnishaldarar voru búnir að lofa að svæðið yrði lýst, en það var ekki alveg þannig.  Bara einn ljósastaur á svæðinu sem lýsti á skiptitjaldið þannig að allir notuðu ljósin í símunum sínum til að geta stússast og gera hjólin tilbúin fyrir keppni. Liðinu var síðan smalað niður í sundstart en þá var ennþá kolniðamyrkur og upphitunarsundið var tekið í myrkri. Ég hef aldrei lent í því áður og fannst það frekar spennandi.

2 sundstart
Í morgunrökkrinu vorum við ræst

Hafið bara kolsvart, maður horfði bara ofan í svarta myrkur þegar maður synti þarna um. Svona eins og maður ímyndar sér hvernig það er upp í himingeimnum. Svo var bara allt í einu komin sólarupprás 10 mín fyrir start.

Ég var ekki alveg nógu ánægð með fyrirkomulagið á sundinu. Konur störtuðu mínútu á eftir körlunum og ekki rolling start (3).

3 Konu og karlastart
Karlar og konur í ræsingu.

Ef að maður getur eitthvað synt sem kona þá er þetta frekar glatað því hraðari konur þurfa þá að synda í gegnum haf af hægum körlum og eins og við vitum eru þá eru alltaf mun fleiri karlar en konur að keppa.  Ég var reyndar vön því að hafa sér konu start frá því ég æfði þríþraut á Ítalíu en þá voru konurnar látnar byrja nokkrum mín. á undan körlunum.  Þar sem konurnar voru alltaf færri var lítið mál fyrir hröðu karlana að synda í gegnum konurnar.

Sundið hófst kl 7:35 og það var eins ég og ég hélt, ég var varla búin að taka 10 sundtök þegar ég þurfti að byrja að synda í gegnum haf af körlum mun stærri og sterkari en ég og margir að synda bringsund þannig að maður þurfti að hafa sig allan við að fá ekki spark í rifbeinin.  Eftir svona 10 mín leystist þó aðeins úr flækjunni en ég var þó föst með nokkrum körlum sem syntu af leið og ég með þeim.  Allt í einu voru komnir fullt af kanóum og flautað á okkur eins og enginn væri morgundagurinn og við rekin eins of afreka hvalir aftur á rétta braut. Hér voru sundgleraugun mín byrjuð að leka í fyrsta sinn (held vegna vaselíns) þannig að ég synti bara með gleraugun hálffull af sjó sem var ekki mjög þægilegt. Mér fannst ég hins vegar ekki hafa neinn tíma til þess að reyna að laga þetta vegna þess að ég hafði synt af leið. Allt í einu var svo sundið bara búið og ég kom önnur upp úr í aldursflokki, 22/126 konum.  Ég var mjög hissa eftir allt brasið í sundinu.

Hjólið 

Ég skottaðist síðan inn á T1 og fór úr gallanum, drakk smá úr brúsa sem ég var með í skiptipokanum og tók 3 bita af próteinbar og fór svo á hjólið.

4 út á hjól
Farið út á hjólið. Sólin komin upp.

Ég var alveg í eigin heim á hjólinu og missti allt tímaskyn, mér fannst svo gaman. Hjólaleiðin samanstendur af löngum aflíðandi brekkum í gegn um kolsvart hraunið og gígaraðir.  Það var heitt þennan dag og hitinn magnaðist upp í svörtu hrauninu.

 

5 Landslagið á hjólaleiðinni
Svona var landslagið á hjólaleiðinni
6 Kjalarnes Lanzarote
Er stundum rok á Lanzarote? Álíka mikið og á Kjalarnesi.

Svitinn rann undan TT hjálminum og ég fann saltbragð í munninum þegar svitadroparnir runnu meðfram andlitinu og mér fannst það æðislegt.

Ég var með lágkolvetnalausn með söltum út í á hjólinu því sykurdrykkir og gel fara illa í mig og gera mig bara þyrsta enda basic efnafræðilögmál þar á ferð sem er óþarfi að útskýra hér. Ég ætlaði síðan að borða 3 bör á hjólinu og fá mestu kaloríurnar þaðan.  Ég hafði skorið börin í litla bita og fyllt bentoboxið af þeim. Planið var svo að drekka alla vega tvo brúsa (2x 750 ml).   Mér fannst ég raunverulega oft fá mér úr bentoboxinu og drakk reglulega á hjólinu. Þegar ég tók hins vegar stöðuna eftir keppni sá ég að bentoboxið var ennþá fullt og ég hafi borðað í mesta lagi eitt bar (sjá mynd).  Ég hafði líka bara drukkið rétt yfir 1 L á hjólinu. Ég var mjög hissa, því ég upplifði þetta alls ekki svona en þegar maður fer í þetta tímaleysi ruglast maður bara í ríminu.

Þegar ég átti 20 K eftir af hjólinu losnaði franski rennilásinn sem heldur brúsanum framan á TT stöngunum þegar ég fór niður eina brekkuna sem var með grófasta  malbiki sem ég hef lent í, hristingurinn var svo mikill að festingin losnaði og ég hélt að handleggirnir myndu detta af mér og heilinn poppa úr hausnum á mér. Ég get svo svarið fyrir það. Smá ýkjur þarna, en samt, þetta var rosalegt.

7 Kreisí Lanzamalbik
Kreisí malbik á Lanzarote

Ég hélt þó áfram að hjóla en sá að brúsinn var orðin laflaus og í honum var ekki bara drykkur heldur var  Garmin tölvan föst á brúsanum, sem sagt líflínan mín. Ég átti eftir að hjóla 15 K upp og svo 15 K niður og vissi að ef ég missti brúsann væru ekki neinir 30 K fram undan hjá mér.  Ég tók því þá ákvörðun að stoppa og festa brúsann aftur á hjólið.  Ég var alveg róleg svo þetta tók ekki nema í mesta lagi 1 mín held ég.  Ég var reyndar í þessu tímaleysi, þannig að ég get ekki svarið fyrir það.  Svo var ég bara allt í einu búin hjóla og mér fannst ég bara rétt nýbyrjuð.  Svona getur verið gaman hjá manni stundum. Ég var ennþá önnur í aldursflokki eftir hjólið og áttunda overall, en ég vissi vel að ég myndi ekki halda þessari stöðu á hlaupunum.

Hlaupið

Ég skilaði síðan hjólinu fór í hlaupaskóna og var bara í góðum gír þrátt fyrir að vita að þessi hlaupaleið væri alls ekki fyrir mig. Þetta voru aflíðandi brekkur upp og niður í svörtu hrauninu og hluti á rauðbrúnum moldarvegi.  Mjög falleg mold reyndar (8).

8 Hluti hlaupaleiðarinnar
Hluti hlaupaleiðarinnar. Gæti verið fjallvegur á sunnanverðum Vestfjörðum.

Malbikið var líka mjög gróft eins og margoft hefur komið fram og það var mjög erfitt að hlaupa á því, að minnsta kosti þegar maður er búinn að safna upp þreytu í lappirnar.  Ég var búin að ákveða að hlaupa fyrsta hringinn á 5:20 pace og gefa svo aðeins í. Ég hélt plani fyrsta hringinn en svo fór allt að dala hjá mér og ég hægði alltaf meira og meira á mér.  Ég held að ég hafi bara verið á sama hraða upp og niður brekkurnar síðustu tvo hringina, hvernig sem það er nú hægt. Einstein sveik mig eitthvað þarna.  Ég var samt aldrei að bíða eftir næstu drykkjastöð og hljóp þetta bara. Ég notaði samt allar drykkjarstöðvarnar til þess að kæla mig og drakk kók í vatni eftir fyrsta hringinn, en þeir voru þrír.  Mér skilst á Bergi að ég hafi ennþá verið í 2. sæti eftir fyrsta hringinn á hlaupunum en svo missti ég það. Datt niður í 3, svo 4 og 5 í síðustu brekkunni.

9 Í mark
Komin í mark!

Það var svakalega heitt á hlaupunum og óvenjulega heitt fyrir þennan árstíma á Lanza og það hægðist á flestum eftir fyrsta hringinn nema þessum sterkustu og mjög margir duttu úr keppni.  Hlaupatímarnir voru almennt hægir hjá flestum og þrátt fyrir að ég hefði hlaupið á 5:45 pace var þetta 6 hraðasti tíminn af 19 í aldursflokknum. Allt í allt voru 130 sem skiluðu sér ekki í mark. Bergur sá marga detta úr keppni á hlaupunum og sá að fimmta overall konan droppaði grátandi þegar hún átti 7 km eftir í mark.

Bakþankar 

Svona eftir á að hyggja held ég að næringarleysi hafi valdið því hvað ég hægði svona mikið á mér á hlaupunum. Í fyrstu hélt ég að það hefði verið fyrst og fremst verið vegna þess að ég væri ekki nógu sterk en ég var mjög hissa á því hvað ég hafi í raun borðað og drukkið lítið í keppninni því eins og ég hef áður sagt hér, þá upplifði ég þetta alls ekki þannig.   Reyndar var það Bergur sem tók af mér hjólið þegar ég sótti það á skiptisvæðið eftir keppni sem sagði, leyfðu mér að skoða ofan í bentoboxið þitt. Þá var það bara nánast fullt (10).

10 Bentobox eftir keppni...
Bentoboxið eftir keppni. „Einhver“ gleymdi að borða nestið sitt.

Þetta var það sem mig grunaði sagði hann, frekar strangur í málrómnum að mér fannst sko.

Ef ég gæti gert þetta aftur þá myndi ég ekki troða litlum bitum í bentoboxið því það er erfitt að fylgjast með því hvað maður borðar því maður sér ekkert ofan boxið og hefur ekki tilfinningu fyrir því hvað maður er að borða mikið magn. Það hefði bara verið betra að setja börin í vasann á gallanum mínum. Man þetta næst.  Ég bjó til drykkinn minn sjálf, þannig að ég veit nákvæmlega hvað var í honum og hvað mikið af Kcal. Þegar ég taldi svo bitana upp úr boxinu og sá stöðuna á brúsunum á hjólinu sá ég að ég hafi tekið inn um 300 Kcal á hjólinu sem er náttúrulega algjört rugl og þá sérstaklega í þessum hita og vindi.

Þetta er sko ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í þessu nema áður hef ég vitað upp á mig skömmina um leið og ég  steig af hjólinu en ekki í þetta sinn.  Í þetta sinn upplifði ég bara hlutina alls ekki eins og þeir voru í raunveruleikanum.   En ég er bara ákveðnari að gera betur næst og hlakka til að mastera þetta næringarplan. Ég er nú þegar lögst í rannsóknarvinnu.

Að lokum

Ég gerði samning við Berg eftir keppni, jæja þá, kannski svona meira tilkynning af minni hálfu, frekar en samningur, að ég mætti vera pirruð út í sjálfa mig og tala um það, það sem eftir væri dags og að þetta mætti vera það síðasta sem ég talaði um áður en ég myndi sofna þetta kvöldið og svo yrði þetta búið.  Merkilegt nokk, þá stóðst það. Ég er sátt með að hafa verið nr. 26 af 128 skráðum konum og vera þar sem í efstu 20% í svona erfiðari keppni, sú erfiðasta sem ég hef tekið þátt í.  Þetta svarta hraun drepur ég er að segja ykkur það.  Aumingja Kona, Hawaii fólkið (11)

11 Tanlínur eftir keppni þrátt fyrir sun block fyrir ungabörn
Tanlínurnar eftir keppnina þrátt fyrir sólarvörn sem hæfir ungbörnum!

en vá hvað það verður gaman að fylgjast með þeim um næstu helgi. Meiriháttar ævintýri hjá þeim.

 

 

 

 

 

 

 

FROM COUCHATHLETE BACK TO TRIATHLETE

(English version below…)

Sumarið 2017, tveimur árum eftir að við ættleiddum stelpurnar okkar þrjár (allar í einu!) sat ég á ströndinni á lítilli eyju í Þýskalandi og hafði fengið gersamlega nóg af því að vera vansæl og ósátt við þyngdina og að ég hafði gersamlega enga orku til að halda í við fallegu börnin mín sem eru sívirk og alltaf á ferðinni!

Ég var mjög virk í þríþrautinni en hafði hætt öllum æfingum eftir að við fengum stelpurnar og notaði allar hugsanlegar afsakanir fyrir að æfa ekki og það var bara fúlt!

Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir að ég var tilbúin í breytingar! Miklar breytingar!1

Ég vildi verða virk á ný en aðallega að hafa nóga orku til að leika mér og gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni.

Af tilviljun rakst ég á frábæra 8 vikna matarprógram og æfingaáætlun sem sex barna móðir hafði hannað sérstaklega fyrir önnum kafnar mæður. Hún var auðveld og einföld eins og ég þurfti en frekar róttæk og með áherslu á heilsu og næringu og lífsgleði umfram allt!

Til að þetta tækist vissi ég að ég yrði að hafa hugarfarið í lagi og vinna í því hvern einasta dag. Hugurinn er öflugur og þarfnast þjálfunar og þá fylgir líkaminn fordæmi hans!

3Ég vissi að ég yrði að koma mér upp viðhorfi sem leyfði engar afsakanir til að halda mínu striki.

Tveimur vikum síðar byrjaði ég og leit aldrei um öxl. Ég hætti að borða sykur, korn, mjólkurvörur, soja og koffín á sama tíma og eftir á að hyggja veit ég ekki hvernig ég og fjölskyldan lifðum af fyrstu vikuna.

Ég hafði ákveðið að fylgja stuttum en erfiðum æfingum á planinu (aðallega HIIT) og byrja ekki á þríþrautaræfingum fyrr en eftir sex mánuði.  Ég vildi fyrst ná af mér þyngdinni því æfingarnar voru allt öðruvísi en þær sem líkaminn var vanur einu sinni (cardio) og gerðu mig að brennslumaskínu!

Ég léttist hratt og það var mikil hvatning.

Æfingarnar urðu erfiðari og ég fann víða til eftir þær því ég notaði vöðva sem ég hafði ekki notað lengi og vöðva sem ég vissi ekki að ég hefði.

En æfingarnar voru tiltölulega stuttar sem hentaði mínu önnum kafna lífi og svo voru líka hlaup. Ég man eftir fyrsta 5 K hlaupinu eftir 6 daga án kolvetna (nema í grænmeti) og það var bilað! Ég hafði enga orku og fæturnir voru að gefast upp eftir hvert skref og ég gat varla haldið handleggjunum uppi vegna orkuleysis en hugurinn bar mig hálfa leið og ég þraukaði.

Þarna áttaði ég mig á því að líkaminn þarf að læra að brenna fitu í stað kolvetna og það tekur sinn tíma. Það tók um 5 vikur og eftir það leið mér æðislega á æfingum og skildi að þetta myndi nýtast mér vel í langri þríþrautarkeppni.

Það gekk á ýmsu þennan tíma. Pabbi dó, ég fór í axlaraðgerð, Torben slasaði sig á fjallahjólinu og ótal margt fleira sem fylgir daglega lífinu.5

Eftir 3 mánuði hafði ég lést um 20 kíló en gerði mér æ betur grein fyrir að til að verða eins og ég vildi, þyrfti ég að breyta fleiru.

Þó orkan væri meiri en áður jókst þreytan dag frá degi vegna mikillar vinnu, uppeldis þriggja barna og að reyna að halda sjó í æfingunum. Ég var orðin óþolinmóð, skapstygg, örmagna og ekki skemmtilegur félagsskapur og ég var álíka ósátt við þetta eins og þyngdina 3 mánuðum áður.

6

Eftir á að hyggja var ég nálægt því að brenna út því ættleiðing þriggja stúlkna með öllu sem því fylgir og að byrja að vinna (í starfi sem oft fylgir mikil streita) 2 mánuðum síðar) helltist af lokum yfir mig. Lát pabba sýndi mér líka enn og aftur að lífið er stutt og maður gengur ekki að neinu vísu. Í nóvember lét ég loksins verða af því að hætta að vinna á skrifstofunni og verða bara flugmaður!

Þetta gerðist ekki fyrr en 1. mars en að hafa ákveðið þetta (enda löngu tímabært) hressti mig til muna og næsta 8 vikna umferð í áætluninni urðu auðveldar. Að auki bætti ég í hlaupin og komst upp í 25 km á viku.

Ég fór í jólafrí með fjölskyldunni 28 kílóum léttari en í júlí.

7

Ég skráði okkur Torben í hálfan járnmann í Köln, rétt fyrir jólin og gaf honum skráninguna í jólagjöf. Segja má að hann hafi ekki verið himinlifandi!

En ég vissi að ég þyrfti að hafa hann með mér í þessu og líka innst inni að hann þurfti að fá keppni til að æfa fyrir til að finna kraftinn á ný.

8Á nýju ári ákvað ég að taka þriðja umferð (8 vikur) af áætluninni og bæta í hlaupin og að því loknu myndi ég byrja þríþrautaræfingar 1. mars.

Ég hljóp og æfði í rigningu, hagléljum, snjókomu, roki, hita og lét aðstæðurnar ekki hefta mig.

Einhvern veginn varð þyngdartapið að bónus á þessu ferðalagi því mér leið svo miklu betur. Ég var orkumeiri (þrátt fyrir koffínleysið), hafði meira sjálfstraust og öryggi en fyrst og fremst hamingjusöm. Ég varð betri manneskja inn á við og út á við, þolinmóðari mamma og betri eiginkona því ég var loksins orðin ánægð með mig á ný.

Fyrsti mars rann upp og 36 kílóum léttari byrjaði ég að æfa fyrir þríþraut. Þá voru nákvæmlega 6 mánuðir í hálfa járnmanninn og ég hafði eiginlega ekkert hjólað eða synt í þrjú ár!9

Ég vissi að ég þyrfti hjálp við þjálfunina, einkum þar sem ég hafði ekki lengur ótakmarkaðan tíma til umráða og bað því Matt, gamla þríþrautarþjálfarann minn, að útbúa raunhæfa áætlun út frá tíma hverrar viku, með tilliti til flugferða og utanlandsdvalar en nógu skilvirka til að koma mér í mark!

Ég var mjög bjartsýn þegar ég skrifaði honum, enda orðin miklu léttari og sá í hillingum frábæra keppni með persónulegu meti en Matt kæfði slíkar hugmyndir strax og sagðist eingöngu ætla að þjálfa mig ef ég færi í þetta með galopinn huga og engar bætingar á metum þar sem það væri óraunsætt eftir 3 ára hvíld. Þetta var góð áminning og ég ákvað að æfa bara, njóta þessa ferðalags og taka keppninni með opnum huga.

Í maílok var fyrsta þrautin mín (hálfólympísk í Hafnarfirði) í mörg ár og ég skemmti mér konunglega. Best af öllu var þó fyrsta krakkaþrautin á Íslandi sem fór fram eftir keppni hinna fullorðnu. Allar stelpurnar okkar tóku þátt og þrátt fyrir kulda og hellirigningu voru þær himinsælar með árangurinn. Börn læra það sem fyrir þeim er haft!

10

Það reyndist vel að æfa án þrýstings því þarna vissi ég ekki að ég myndi meiða mig í 10 km keppnishlaupi í júní þar sem ég setti nýtt PB, 48:57, en fyrir vikið hljóp ég ekkert í 8 vikur.

11

Tímasetningin gat ekki verið verri því framundan var 4 vikna frí í Þýskalandi þar sem áherslan átti að vera á hlaup, einkum vikurnar 2 á litlu eyjunni sem við heimsækjum alltaf á sumrin.

Ég heimsótti sjúkraþjálfann nokkrum sinnum áður en við fórum, teygði, rúllaði, sat á bolta tímunum saman og reyndi allt til að losna viðperuvöðvaheilkennið, (piriformis) sem ég taldi mig hafa, að fenginni reynslu og einkennin í upphafi rímuðu við það.

Ég tók götuhjólið með til Þýskalands og hjólaði sem óð væri þessar 2 vikur ytra, vaknaði 5-6 á hverjum morgni til að klára það áður en stelpurnar vöknuðu.

Í tvær vikur á eyjunni hjólaði ég á þriggja gíra borgarhjóli eins og hægt var og synti í sjónum næstum daglega, sem var erfitt og skemmtilegt. Ég reyndi stundum að hlaupa en það gekk ekki. Verkurinn fór hvergi.

8 vikum síðar þegar ég gat ekki hlaupið kílómetra án kvala kom í ljós að þetta var ekki peruvöðvinn heldur vond grindarskekkja (hef lent í því áður). Nýi sjúkraþjálfarinn rétti grindina og mælti með algerri hvíld í fimm daga. Það dugði og viku síðar hljóp ég sársaukalaust.

En ég hafði misst 8 mikilvægar hlaupavikur og nú voru aðeins 5 vikur í hálfa járnmanninn. Ég var ekki bjartsýn á að geta hlaupið þar hálft maraþon eftir svo stuttan æfingatíma. Ég gat auðvitað stytt vegalengdina, sem er kostur við Kölnarkeppnina, því þar eru fimm vegalengdir í boði (700m/30 km/ 8 km er sú stysta) og það er hægt að breyta fram á síðustu stundu.

Svo ég hélt áfram að æfa, byrjaði aftur að hlaupa og treysti þjálfaranum og sjúkraþjálfaranum sem lét mig koma 2-3 í viku. Þessar fimm vikur kostuðu sitt en báru árangur. Ásamt Torben voru þeir kletturinn minn þennan tíma og trúðu oft meira á getu mína en ég.

4 keppnir voru á dagskránni mánuðinn fyrir Köln. Sú fyrsta var sprettþraut í Þýskalandi sem gekk vel. Hitinn var 28 gráður og ég hafði byrjað að hlaupa 4 dögum áður. Einhvern veginn náði ég þriðja sæti í aldursflokki.12

Síðan var Kjósarspretturinn sem var frábær því víðavangssund er skemmtilegt og síðan hljóp ég 10 km í RM:

Síðasta keppnin fyrir Köln var ofursprettþrautin hjá 3N sem var mjög skemmtileg. Þetta var frábær dagur því við kepptum öll því eftir fullorðinskeppni var fjölskylduþraut. Sofie (11 ára) kláraði þrautina upp á eigin spýtur og Vanesa (9 ára) og Veronika (8 ára) voru í liði með mér og Torben. Mikið fjör í fallegu veðri!

fjölskyldan

Í öllum þessum keppnum var áherslan á ánægjuna og þakklæti fyrir að geta æft og þá einkum að geta haft hlaupin í forgangi.

Þetta gekk allt upp. Blanda af trú, trausti og miklu erfiði.

Ég lærði mikið á þessari vegferð og vann sífellt að jákvæðu hugarfari og gerði hamingju að vana. Þetta var ekki alltaf auðvelt að skipuleggja fjölskyldu, vinnu, æfingar og æfingar Torbens en það var þess virði. Á þessum tíma endurheimti Torben áhugann, sem var stórkostlegt og fór að hlakka til keppninnar eins og ég.

DAGARNIR FYRIR KEPPNI

Eins og ævinlega flugum við út minnst 3 dögum fyrir keppnina til að draga úr streitu og venjast hitanum.

Ég kom heim úr þriggja daga flugi að morgni miðvikudags og hafði rétt 20 tíma til að pakka, ganga frá öllu heima og skipuleggja allt.

Þetta var fyrsta keppnin okkar erlendis síðan við fengum stelpurnar fyrir 3 árum og þurftum því barnfóstru fyrir þessa fimm daga.

Tina, besta vinkona mín, var á lausu og tilbúin að fljúga frá Þýskalandi til Íslands til að sjá um stelpurnar. Hún sér sjálfsagt eftir því núna.

Að auki bjó frænka mín enn hjá okkur sem sá um að koma stelpunum í skólann fyrsta daginn því Tina lenti ekki á Íslandi fyrr en síðdegis eftir að við fórum.

Við ákváðum að dekra við okkur þessa helgi og gista á gamla liðshótelinu sem við þekktum vel og þar er frábær setustofua með mat og drykk.

Við komum til Kölnar síðdegis á fimmtudegi og Torben, minn frábæri eiginmaður, setti þá saman hjólin okkar og við fórum í stutt skokk á Rínarbökkum með Valerie.14

Um kvöldið hittum við félagana í 3SH í kvöldverði og síðan var stefnan að sofa í 10 tíma því ég var vansvefta eftir flugið í vikunni.

Á föstudeginum eftir hádegi hjóluðum við 17 km út að vatninu og sóttum keppnisgögnin og hittum alla úr 3SH og syntum smávegis. Ég lét sundbolinn nægja, vildi ekki hjóla með blautbúninginn.

Vatnið var notalega hlýtt, 21.5 gráða og ég sá engar marglyttur, sem eru margar á þessum tíma sumars vegna hitans.

15

Tvö í hópnum okkar kepptu á laugardeginum og við fórum þangað til að hvetja. Áður tók ég létta slökunaræfingu, 30 mínútur á hjóli og 1 km skokk.

Þegar við komum að vatninu þurftum við að leggja langt í burtu og ganga drjúgan spöl sem ég var ekki ánægð með því þetta þýddi meiri göngu til baka og þetta átti að vera alger hvíldardagur. Eftir keppnina hittum við mömmu, systur mína og bróður sem komu alla leið til Kölnar til að halda upp á afmæli mömmu.  Við áttum gott síðdegi saman og góðan kvöldverð. Þau fóru kl. 22.00 og við tókum allt til fyrir morgundaginn.

Kosturinn við Kölnarkeppnina er að hún byrjar ekki ofursnemma, heldur kl. 11:50 sem þýðir morgunverð í ró og næði. Ég var orðin mjög kvíðin og alls ekki svöng (eins og yfirleitt fyrir langa keppni) og neyddi ofan í mig hafragraut af hlaðborðinu.

Við fórum snemma því við þurftum að leggja 1.5 km frá keppnisstað og hjóluðum þangað. Við komum á skiptisvæðið um 10:15.

Þýsk stúlka hafði haft samband við mig á netinu því hún kveið mikið fyrir keppninni sem var hennar fyrsta og hún hafði milljón spurningar. Að hennar ósk urðum við samferða inn á skiptisvæðið. Þó ég vilji yfirleitt hugsa aðallega um mig fyrir svona keppni, var þetta „móðurhlutverk“ kærkomið því það dró úr kvíðanum.  Þarna hitti ég líka hina úr 3SH.

Ég gekk frá skiptisvæðinu, pissaði, neyddi banana og hálfa orkustöng í mig, fór í blautbúninginn hálfa leið og síðan á keppnisfundinn með Torben og stúlkunni. Eftir það fórum við í vatnið fyrir ræsinguna.

Veðrið var frábært, 23 stiga hiti og heiðskírt, sem mér leist ekki á fyrir hlaupið, því spáð hafði verið skýjum.  En veðrinu ræður maður víst ekki.

SUND (35:27/1900m)

Sundið gekk frábærlega! Allt við þetta sund er gott og ég næ alltaf góðum tíma. Það er gaman að synda í blautbúningi og í þessu vatni með baujulínunum (þetta er róðrarkeppnissvæði). Maður getur synt beint án þess að líta upp. Ég var fremst fyrir miðju og startið var ekki eins átakamikið og undanfarin ár og ég fann góðan takt strax, fylgdi línunni og hafði fætur til að drafta!

Á útleiðinni fannst mér ég fljúga sem gerist eiginlega aldrei. Sennilega var það smá meðvindur og draftið. Bakaleiðin var aðeins hægari, ég synti ekki eins beint og hafði enga til að drafta en hélt sama hraða með meiri átökum. Ég gat pissað áður en ég fór upp úr sem er gott því þá þarf ekki að eyða tíma í það á skiptisvæðinu.

16

T1 (03:40)

Skiptisvæðið er 300 metra frá vatnsbakkanum. Ég skokkaði rólega þangað, byrjaði að rífa mig úr blautbúningnum og setti eyrnatappana, nefklemmuna og sundgleraugun í hettuna til að týna engu.

Við hjólið tók rútínan við. Úr gallanum, hjálmur á haus, númerið, skórnir, hanskarnir (því leiðin var löng) og af stað. Ég hafði ekki fest skóna á hjólið því leiðin út var mjög stutt.

HJÓL (3:08:51/98km)

Hjólið gekk vel. Brautin var 2 stórir hringir og einn lítill.  Vegna vegavinnu þurfti breytingar á síðustu stundu og því var leiðin 98 km en ekki 90. Ég var ekki allt of ánægð með það en gat ekkert við því gert.

17

Á fyrsta hring var hjólað inn í borgina á leið sem ég þekkti vel. Ég ætlaði að miða við ákveðið wattabil en gleymdi mér í byrjun við að fara fram úr fólki og hef sennilega eytt aðeins of mikilli orku. Ég drakk bara vatn fyrsta kortérið til að jafna magann eftir sundið og nærðist eftir það á 5 km fresti. Og mikið vatn því heitt var í veðri.

Sennilega var vatnið of mikið því ég þurfti að pissa í byrjun næsta hrings. Ég ætlaði að þrauka það en ákvað að stansa við næsta klósett í von um að það  yrði við snúninginn en svo var ekki.  Ég gat hvergi stansað og íhugaði að pissa á hjólinu en gat það ekki!

Ég taldi víst að það yrði klósett við drykkjarstöðvarnar við vatnið (ein hvoru megin) og var orðið mikið mál þegar ég kom þangað. En þá var bara eitt klósett og ekki við stöðina sem ég kom fyrr að og átti 10 km eftir og fór því á bak við tré skammt frá og pissaði. Eftir það leið mér miklu betur.

Síðustu 20 km reyndu mjög á hálsinn og ég varð að rétta úr mér sem var ekki gott því nú var orðið hvasst en ég fann mikið til í hálsinum.  Sennilega vegna meiri æfinga á götuhjólinu en á TT-hjólinu.

Mér leist heldur ekki á tilhugsunina um að ég ætti eftir að hlaupa hálft maraþon eftir hjólið, einkum þar sem lengsta hlaupið undanfarna 3 mánuði var bara 12 km! En þetta voru vondar hugsanir sem ég varð að eyða strax og hugsa um eitthvað annað.  Ég kýldi þær burt með ímyndaðri hafnaboltakylfu. Þótt holdið sé veikt er hugurinn afar sterkur!  Eftir síðasta snúninginn dundaði ég mér við að telja þá sem á eftir voru og það dreifði huganum svo vel að á síðustu kílómetrunum tók sig upp gamalt bros! Heildarnæring á leiðinni var 2.6 lítrar af vökva og 500 hitaeiningar (gel og hafrastöng).

T2 (3:58)

Ég gaf mér góðan tíma á skiptisvæðinu því ég kveið fyrir hlaupinu. Ég gerði allt hægt. Fór í sokka fyrir hlaupið sem reyndist vel og gleymdi svo skyggninu á útleið og fór til að baka að sækja það. Nú var orðið hálfskýjað og gekk á með sól. Hitinn var um 24-25 gráður.

HLAUP (2:12:36/21.5km)

Hlaupið var í raun mjög gott.  Á löngu hlaupunum (áður en ég meiddist) taldi ég alltaf: „X margir km búnir og bara X eftir“ og líka í þetta sinn. Ég ætlaði að ganga gegnum drykkjarstöðvar en hlaupa annars óslitið.

Þetta voru þrír hringir kringum vatnið og þrjár drykkjarstöðvar á hverjum hring.

Ég tók bananabita á hverri stöð og tvö vatnsglös, drakk annað og hellti hinu yfir mig. Þetta reyndist vel og ég gerði þetta alla leiðina, át hálfan þriðja banana og drakk 1.3 lítra af vatni sem var meira en nóg.

Kílómetrunum fækkaði og gaman var að sjá félagana hvetja eftir fyrsta hringinn. Ég heyrði að Torben gengi ekki vel að hlaupa og varð áhyggjufull en ákvað að hugsa bara um mig. Næsti hringur leið hraðar en ég bjóst við og loksins komu ský og skuggar.

Ég hitti hópinn aftur eftir næsta hring og fékk stöðuna á hinum og hvatningu, mest frá Valerie.  Nú var bara einn hringur eftir og ég fann ekkert til. Ótrúlegt en satt. Áfram taldi ég niður og svo voru bara 5 km eftir og ég hugsaði að þá gæti ég jafnvel hlaupið í svefni! Margir voru farnir að ganga og ég reyndi að hvetja fólk og fá það til að hlaupa með mér. Eftir 18 km fór ég að finna fyrir framanlærisvöðvunum (alltaf aðalvandamál mitt) en var ánægð með hvað það byrjaði seint en ekki miklu fyrr eins og ég bjóst við eftir engin löng hlaup í 2 mánuði. Þarna vissi ég að ég myndi klára og brosti út í eitt því bros kemur manni gegnum allt!

Á hverjum hring var lítil brekka í lokin og allir sem ég sá (eiginlega allir!) gengu upp en ekki ég. Ekki einu sinni á síðasta hring þegar lappirnar voru þungar, þá öskraði hugurinn. „Labbaðu bara!“ en ég eins og brjálæðingur sagði aftur og aftur „ekki ganga“ og vissi líka að eftir brekkuna voru bara 800 metrar eftir.

Ég kláraði skælbrosandi á 6:04 sem er langt frá mínum besta tíma sem er 5:26 en mér var bara alveg sama. Ég var himinlifandi.  Ég var aftur orðin þríþrautarkona!

lokamyndin

Þessi keppni var endir á ótrúlegri, geggjaðri og skemmtilegri vegferð þar sem ég fann mig aftur og var upphafið á heilbrigðu, hamingjuríku og hraustlegu lífi fyrir mig og fjölskylduna. Best af öllu var að hitta Torben eftir þetta því hann var álíka ánægður og ég með að hafa klárað.

Þetta var góður dagur og sumpart „auðveldari“ en ég bjóst við en tók vel á og nú er komið að verðskuldaðri hvíld, þangað til ég finn nýtt ævintýri!

Stefanie Gregersen

FROM COUCHATHLETE BACK TO TRIATHLETE 

 

In the summer of 2017, two years after we adopted our three girls (all at once!), I was sitting on the beach on a little island in Germany, totally being fed up with the fact that I felt unhappy and miserable about my weight and that I had absolutely no energy whatsoever to keep up with my beautiful children who are on the go and active all day long!

Once a very active triathlete I had stopped training completely after we got the girls and I used every excuse in the book while training was not possible and it just sucked!

At that moment I realized I was ready for a change! A big one!

I wanted to be active again and most of all have enough energy to play and do fun things with my family!

Luckily, by coincidence, I found a great 8 weeks program designed by a Mom with six kids which was especially made for busy Moms. It was easy and simple which I needed but quite extreme and it focused on health and nourishing your body and on being happy no matter what!

To be able to succeed I knew I needed to get my mindset straight and continuously work on that every single day! I also knew I needed to adapt a “No excuse” attitude and keep that strong along the way!

2 weeks later I started and never looked back! I detoxed on sugar, grains, dairy, soya and caffeine at the same time and thinking about it now, I am not sure how me or my family survived this first week!

I had decided to follow the relatively short and intense workouts of the program (mostly HIIT) and not start Triathlon training until 6 months later! I wanted to focus on getting the weight of first as the exercises were so different than what the body was once used to (cardio) they helped to turn my body into a burning machine!

I lost weight quickly and that helped to stay motivated!

The workouts became tougher but still stayed relatively short and there was running involved as well! I remember the first 5km run after 6 days of no carbs (other than in vegetables) and it was just insane! I had absolutely no energy and the legs were ready to give out after almost every step and I could hardly keep my arms up as I had no energy whatsoever but the mind was sooo strong that it just pushed through! 

At this moment I realized that my body needs to learn how to utilize fat instead of carbs for energy and that it will probably take a while!

In the end it took about 5 weeks and from there on the workouts felt amazing and I realized that this would very likely benefit me greatly in longer distance Triathlons!

The journey was a constant up and down consistently pushing through many life events including my Dad passing away, shoulder surgery, Torben having a mountain bike accident and many other things that just come up on a daily basis!

3 months in I had lost 20kg but I realized more and more that to really change into the person I wanted I needed to make other changes as well!

Despite having more energy than before I was getting more tired and exhausted every day by the demands of daily life including a very intense job, three kids and trying to keep up with the training! I was being impatient, grumpy, overwhelmed and not a fun person to be around and I was getting as fed up with this as I was with my weight 3 months earlier!

Looking back now I was probably pretty close to a burn-out as the task of adopting three girls, all with their challenges, and starting to work (in an often stressful job only 2 months after) finally caught up with me! The death of my Dad had also shown me once again how short life really was and how you shouldn´t take time for granted that in November I finally made the long overdue decision to quit my extra job in the office and focus on flying full time only!

This didn’t happen until March 1st but just having finally taken this step and makind the decision (which was long overdue and something I should have done much sooner) lifted my spirit and got me easily through another 8 weeks of the program! In addition I added more running so that I was up to about 25km a week! 

I left with my family for Christmas vacation 28kg lighter than in July!

I signed both Torben and me up for the Half-Ironman in Cologne before christmas and gave him the entry as a christmas present! Let’s put it lightly and say he wasn’t exactly thrilled about it 😂

But I knew I needed him with me on this and this and I also knew deep inside he needed a race to train for and find his mojo again!

In the new year I decided to do another round (8 weeks) of the program with added running and after that round on March 1st I would start with Triathlon training again!

Somehow the weightloss became just a bonus in this whole journey as the way I felt was sooo much more rewarding. I felt much more energetic (even without caffeine), confident and secure with myself and most of all happy! I became a better person inside and out, a better and more patient Mom and a better wife because I finally started to feel good about myself again.

March 1st came and with being 36kg lighter I started Triathlon training and at that point it was exactly 6 month to the Half-Ironman and I basically had not biked or swam in 3 (!) years!! 

I knew I needed help, especially as I didn’t have the time available anymore to train as much as I like, so I decided to reach out to my old Triathlon coach Matt and ask him to set up a training which would be realistic enough to manage time wise during the week, take into account my flying and being abroad but at the same time being effective enough to get me through the race! 

Being so much lighter than before I was very enthusiastic when I wrote him and I saw an awesome race with a brandnew PB in front of me but my coach pretty much stopped these thoughts right away and only agreed to coach me if I would go in it with an open mind and absolutely free of trying to beat any PBs as that was just not realistic after 3 full years off! It was good to get this reminder and I agreed with him and decided to just train, enjoy the journey and take the race as it comes.

This was a good approach as at that point I didn’t know that I would get injured during a 10km race in June where I managed a new PB of 48:57 but which eventually also took me out of running for 8 weeks! This was the worst timing ever as we were on our way to a 4 weeks vacation in Germany where the focus was going to be on running especially during the 2 weeks on the little island where we always vacation on in the summer!

I had a few PT visits before we left, stretched, rolled on the foam roller, sat on a trigger ball for hours and pretty much tried everything to get rid of the piriformis syndrome which I thought I had, as I had it before, and symptoms in the beginning matched that! 

I decided to bring my roadbike to Germany and biked like a maniac during the 2 weeks in Germany, getting up at 5/6am every morning to be done with the bike rides before the kids got up.

During the 2 weeks on the island I biked on a 3 gear city bike as much as possible and also swam in the ocean almost every day which was challenging and fun! I tried to run from time to time but made absolutely no progress whatsoever. The pain just simply stayed.

Well 8 weeks later with not making any progress and not being able to run more than 1km painfree I found out that it was actually not piriformis syndrome but a very badly aligned pelvis (had problems with that before as well)! My new PT aligned my pelvis and told me to completely rest for 5 days! That did the trick and the week later I was back to running painfree!!

But I had missed 8 crucial weeks of running and with only 5 weeks to go to the Half-Ironman I wasn’t very optimistic that I was able to run a Half-Marathon in that short amount of time! I knew I always had the choice to reduce the distance as the good thing about the race in Cologne is that there are 5 different distance available (the shortest being 700/30/8)) and you can pretty much still change the entry the day before!

So I continue to train and started running again putting all my faith in my coach and my Physical Therapist who had me on a high performance athlete schedule with 2-3 weekly visits to him! These 5 weeks sure cost me a fortune but it worked out!

Torben, my coach and my Physical Therapists were my rock during that time and often they believed more in my abilities than I believed in myself!

I had 4 other races planned in the last 4 weeks before Cologne which started with a Sprint race in Germany which went fine. It was in 28C and only 4 days after I started running again! Somehow managed to get 3rd in my AG! 😳

Then I had the Sprint in Kjós which was absolutely awesome as I love open water swims, 10km in the Reykjavik Marathon and the Njarðvik Supersprint and I focused on having as much fun as possible during all those races and take especially the running as a privilege!!

And it all worked out! A combination of faith, trust and lots of hard work!

I learned so much in the this journey and constantly worked on a good mindset and attitude and adapted happiness as a habit! It wasn’t always easy especially combining family, work, training and Torben’s training but it was all so well worth it!!

During all this time Torben slowly found his mojo for training again, which was absolutely fantastic and he was starting to look forward to this race as much as I did

THE DAYS BEFORE THE RACE

As usual for a race abroad we flew out at least 3 days before the competition to have less stress and get acclimatized to the warmer temperatures.

I just got home from a 3 day flight on Wednesday morning at 9am so only had about 20 hours at home to unpack and repack everything and getting everything ready and organised at home.

This was the first race abroad that Torben and me competed in since we got the girls three years ago, so of course we also needed to organise a babysitter for those 5 days!

Luckily my best friend Tina was available and ready to fly in from Germany to take care of the girls. She probably regrets it at this point LOL

In addition we also still had my niece living with us who made sure that the girls got to school on the first day as Tina didn’t get to Iceland until the afternoon after we left!

We decided to treat ourselves during this weekend and stay in our old crew hotel which we knew well and which has an awesome first class lounge including food and drinks.

We got to Cologne on Thursday afternoon and then Torben – being the awesome husband he is – put the bikes together and in the evening we met with other people from our Tri-Club for dinner. 10 hours sleep was on the plan for the night as I still had some catching up to do after a lot of night flying the week before. 

Friday after lunch we biked the 17km out to the lake and picked up our race gear and met all the others from our club that were competing and then had a short swim in the lake. I decided to just go in with the bathing suit and not the wetsuit as I didn’t want to bring the wetsuit on the bike. The lake was nice and warm with about 21.5C and luckily I didn’t see any of the many many jellyfish (a phenomen in the lake this summer due to the warm temperatures)!

Two of our group competed on Saturday so we went out to the lake at lunch Saturday to cheer them on. Before that I got my last „loosen up“ workout out of the way which consisted of a 30 minutes bike and 1K run.

Once we got to the lake we had to park quite far away and it was a bit of walking involved which did not make me too happy as I knew we would also walk a bit later during the day and usually this day is meant for resting. After the cheering we met with my Mom, sister and brother who all came to Cologne to celebrate my Mom’s birthday! We had a super nice afternoon and a nice dinner together. They left at 10pm and we packed the rest of our stuff to have everything ready.

The very nice thing about this race is that it does not start super early but with a starting time of 11:50 which meant we could have breakfast in peace and no stress whatsoever. I was very nervous at that point and not hungry at all (like usual before a big race) and forced a bit of oatmeal into myself at the huge breakfast buffet.

We left early enough as we had to park about 1.5km from the race venue and biked the distance there. We were at transition around 10:15am.

Another german girl had contacted me over the internet as she was very nervous about the race and she asked me a million question as this was her first Half-Iron distance. The day before she asked me if we could go into transition together and I agreed, so she waited before check-in for me. Although I usually like to focus on myself before a race like this, I actually embrassed the „mother role“ as it turned out to be a good distraction from my own nervousness.

I saw the others from my club and briefly said Hi to them as well.

Then I set up transition, peed, forced a banana and half of an oat bar into me, got half way into my wetsuit and then I walked with the girl and Torben to the race briefing at the lake and afterwards to the platoon where we got in for an „in water“ start.

The weather was gorgeous about 23C and still no cloud in the sky which worried me a bit for the run as the forecast said it would start to get cloudy around 11:00. Oh well I can do many things but still can’t change the weather so we just take it as it comes.

SWIM (35:27/1900m)

The swim went awesome! I love everything about this swim and always get the best times. I love swimming in a wetsuit and I love swimming in that lake with the line underneath where the buoys are tied to (it’s a rowing stadium). It means you can swim straight without having to look up. I positioned myself in the front middle and just started swimming when the shot came. It was not as violent as recent years and I found a good rhythm right away and eventually also a buoy line and some feet to draft!

Especially on the way out I felt I was flying through the water which never really happens. Probably a combination of a bit of tailwind and a good draft.
The way back was a little slower as I didn’t swim as straight as I wanted and hardly had anyone to draft but I still managed to keep the pace up somehow but with a little more effort. I was able to pee before exciting the lake which was good as I really had to go and did not want to spend time for that in T1!

T1 (03:40)

The run is about 300m from the lake up into transition. I jogged slowly the whole way and were wondering if that was a good idea as the day was still long but I just kept jogging. Got my wetsuit half way off right away and managed to put my ear plugs, nose clip and googles into my swimcap as not to loose them.

Once at the bike, routine just kicked in like I had done sooo many times before. Wetsuit off, helmet on, numberband on, shoes on, bike gloves on (decided on gloves for this long bike) and off I went. I decided to run in bike shoes rather than have the shoes on the bike as the distance to run with the bike was relatively short.

BIKE (3:08:51/98km)
The bike went fine… the bike course was 2 big loops and one small loop. 2 weeks before the race we got to know that due to construction work on the roads they had to make some last minute changes so the bike course was 98km instead of 90. I wasn’t thrilled about this but again nothing I could do about it.

During the first part we went into the city and I knew the route well as I have biked there many times before. I had a „watt goal“ range to keep for the race and was supposed to build up to that easily but got a little carried away in the beginning by overtaking quite a few people and I might have used a bit too much energy there in the early stages.  As usual I only had water the first 15 minutes to settle the stomach into vertical after the horizontal swim and then I forced nutrition into me after every 5km beep on my watch and of course lots of water as it was quite warm!

It turned out to be probably a bit too much water as I had to pee in the beginning of the second loop. At first I kept telling myself that the feeling will probably go away and that I will sweat it out but that didn’t happen so I decided to stop at the next portapotty. I was hoping there was one at the turnaround in the city but that was not the case so I had to continue. There was also no other opportunity to stop on the way! I thought about peeing on the bike but just simply couldn’t! 

I was sure there was a portapotty at the drinking stations by the lake (one on each side) and when I finally made it there I was desperate! BUT the drinking station on my side didn’t have a portapotty, only the one on the way back and that was another 10km loop to go, so I stopped shortly after that drinking station and peed behind some trees. I felt sooo much better after that!

The last 20km were very tough on my neck and I had to constantly sit up which was probably not the best as it was quite windy but the neck was in serious pain. Probably a result of being more on my roadbike (no aerobars) in Germany this summer than on the TT bike! 

My mind also wandered and I started to think about the run and got quite scared as I just couldn’t wrap my head around the fact that I still had a Half-Marathon to run. A whole Half-Marathon after this bike when my longest run in the last 3 months was 12km!!

These thoughts got worse and I knew I needed to throw them out as quickly as possible and focus on something else! I swang my imaginary baseball bet and threw that thought right out of the mind! Even if the flesh might be weak, my mind is very strong!! I kept my mind occupied after the last turnaround by counting how many people were behind me, which worked well as a distraction method and the last few kilometers I could finally smile again! Nutrition wise I drank about 2,6 litres and ate about 500 calories (gel chomps and an oatbar)

T2 (3:58)

I kind of took my time in T2 as I was still dreading the run. I somehow did everything in slow motion. I chose socks for the run which was definitely a good decision and then forgot my visor when running out so I had to run back to grab it. It actually had gotten a bit cloudy so the sunshine was broken up from time to time. Temperature about 24-25C.

RUN (2:12:36/21.5km)

The run was actually really good. On all my long runs (before I got injured) I used the „I have run x many km so I have only have x many km to go“ counting technique and that was the strategy today as well. My goal was to walk through all the drinking stations but run the rest of the time!
It was a 3 laps course around the lake with three drinking stations spaced out during each lap.

I grabbed a quarter banana on every drinking station and 2 cups of water, one for drinking and one for pouring over me. This worked out really well and I ended up doing that the whole way meaning I made the run with about 2,5 bananas and 1,3 litres of water which was more than enough.
The kilometers ticked down and it was super nice to see a few from our club after the first round cheering me on. I heard that Torben was having a tough time on the run and got a bit worried but then decided to focus on myself and worry about that later.
Second lap went by quite faster than anticipated and finally there were a few more clouds which gave some shade.
Once again saw some from our club after the second lap and got some status updates of the other and the cheering, especially from Valerie, gave me an extra boost. And at this point it was only one more lap and I couldn’t believe I was in no pain whatsoever after almost 15km!!
I continued to tick down the kilometers and at some point it was only 5km left and I thought to myself: „You can always do 5K, Even in your sleep“! A lot of people were walking at that point and I tried to cheer them on and get them to run with me! After 18km I started to feel my quads (which is always my main problems) but I was happy it was so late in the run and not much earlier as I expected due to lack of long run training in the last 8 weeks.
At that point I knew I could finish it and just kept smiling as smiling gets you through everything!
Each lap had a little hill towards the end and everyone I saw (like really everyone!!) walked up there but I did not! Not even in the last lap, where the legs were heavy, the mind screamed: „Just walk!“ and I probably sounded like a maniac running up repeating over and over “you shall not walk” LOL! I also knew that after that hill it was only about 800m to go to be done!

I finished with a big smile on my face in about 6:04 which was far off my PB of 5:26 but I couldn’t care less at that point! I was absolutely ecstatic! I was a Triathlete again!! This race was the end of an incredible, crazy and fun journey of finding myself again and it was the beginning of a healthy, happy and fit life for me and my family! The biggest reward was finding a happy husband afterwards as Torben was just as happy to have finished the race as I was!

A really good day all in all and somewhat “easier” than anticipated but it still took a lot out of my body and I will take some well deserved rest now 🙂 until I find a new adventure…. 😉

 

 

„Brostu! Þú borgaðir fyrir þetta!“

Þetta stóð á skilti hjá áhorfanda þegar ég var í „smá sunnudagsskokki“ (lesist með vott af kaldhæðni), í Kaupmannahöfn 19. ágúst. Þetta var hluti af keppni í svokölluðum Járnmanni sem samanstendur af 3800 m sundi í sjónum við Amager, 180 km hjólaferð um sveitir Norður-Sjálands og 42,2 km maraþonhlaupi í miðbæ Kaupmannahafnar með mörg þúsund áhorfendum.

Að „næstum því“ venjuleg, næstum því miðaldra, mjög upptekin húsmóðir í fullri vinnu, með börn, mann, vini, hús, garð, sjálfboðavinnu, foreldrafundi og fleira á könnunni, detti í hug að skrá sig í heilan járnmann er kannski ekkert einsdæmi. En fyrir akkúrat þessa „næstum því“ venjulegu konu varð þetta ævintýri og leiðin þangað, að einstakri upplifum sem ég ætla að reyna að lýsa hér eftir bestu getu.

Upphafið
Haustið 2015 eða „korter“ í fertugt ákvað ég að byrja að æfa þríþraut. Hafði hlaupið í þrjú ár og náð ágætis árangri í því á stuttum tíma. Hlaupið hálfmaraþon tvisvar sinnum og ákvað að heilt maraþon var ekkert fyrir mig og því var þríþraut vænlegur kostur. Öfugt við marga sem byrja í þríþraut þá var ég í ágætis sundþjálfun eftir 7 ára æfingar og keppnir með sundfélagi UMSB og Ægi fyrir 25 árum. Hafði að vísu varla synt einn metra á þessum 25 árum en eftir að hafa dottið inn á sundæfingu hjá þríþrautarklúbbnum og náð að synda 2000 m og líða þokkalega vel á eftir þá var ekki aftur snúið. Hjóla kunni ég, allavega á milli staða en að æfa hjól var eitthvað sem maðurinn minn sá um í okkar fjölskyldu. Varð fljótt hluti af litlu en mjög skemmtilegu þríþrautarsamfélagi hér í bænum.

Einkaþjálfarinn
Upprunalega planið var ekki að stunda æfingar fyrir einhverja ofurþraut. Aðrir gátu séð um það. Ólympísk vegalengd var markmiðið (1500m , 40km , 10km) en þegar því markmiði var náð, þá langaði mig í enn meiri áskorun og fékk mikla hvatningu frá félögum í klúbbnum að taka þátt í lengri keppnum. Hálfur járnmaður í Haugesund (1900m, 90km, 21,1km) varð fyrir valinu sumarið 2017. Eftir að ég kom í mark í þeirri keppni var ég alveg staðráðin í því að ég myndi sko aldrei taka þátt í heilum járnmanni. Ekki af því að það gekk eitthvað illa, það gekk framar öllum vonum. En heill járnmaður er tvöfalt lengri enda tvöfalt lengra og það myndi ég sko ekki hafa þolinmæði til.
Gleymdi þessu eins og skot og fjórum mánuðum seinna var ég búin að skrá mig í Kaupmannahafnarjárnmanninn. Óvenjulega auðvelt að sannfæra manninn um þetta brjálaða plan og held að hann orðið svo feginn því að ég komst ekki inn í Norseman og að núna þyrfti ég «bara» að æfa fyrir venjulegan Járnmann. Hann hvatti mig meira að segja til að kaupa TT þríþrautarhjól. Ég átti greinilega að gera þetta með stæl.
Með 9 mánaða undirbúningstíma ákvað ég að fá mér einkaþjálfara til að setja upp æfingaáætlun. Vinkona mín í klúbbnum Christine Jacobsen og sambýlismaður hennar sem æfir með norska landsliðinu í þríþraut tóku áskoruninni. Þýðir ekkert annað en topp hjálp frá toppfólki til að koma þeirri hálfgömlu í gegnum þessa þrekraun.
Aðalmarkmiðið var að komast í gegnum keppnina, 12-13 tímar vorum við Christine sammála um að væri raunhæft bónusmarkmið. Úr varð mjög flott plan sem tók mið af mínum aðstæðum sem fjölskyldumanneskja í fullri vinnu og á sama tíma var sveigjanleiki.

Fjölskylduvænt æfingaplan

Meðalæfingatíminn þessa 9 mánuði var sirka 6-8 tímar á viku með einhverjar vikur með 9-12 tíma þegar ég hjólaði sem mest. Helstu áherslurnar voru lengri og rólegri æfingar en ég var vön. Mikil áhersla á hjólaæfingar og allt sem við kemur hjólinu. Ég kunni ekki að skipta á slöngu og vissi varla hvað snéri upp og niður. En ég ætlaði ekki að leggja alla þessa vinnu í æfingar og undirbúning og eiga svo á hættu að geta ekki klárað keppnina út af sprungnu dekki. Þannig að margir tímar fóru í að æfa að skipta um slöngu, taka af og setja dekkið á og setja keðjuna á.
Christine bætti einnig inn styrkarþjálfun x1 í viku til að bæta vöðvamassann og sérstaklega fyrir hjólið og í sundinu var áhersla á sundtækni í lauginni um veturinn og svo lengri sund í «open water» þegar hægt var að byrja að synda úti í apríl/maí. Bý við þau forréttindi að geta æft í Noregi við góðar aðstæður og það er 10 mín að labba frá heimili mínu út að sjó og 5 mín í stórt stöðuvatn sem er rétt við húsið mitt. Meðalhitinn í sjónum hérna í Suður-Noregi í sumar var um 20 gráður og var um 23 gráður í vatninu stóran hluta af sumrinu.
Keppnin nálgaðist óðfluga og ég mátti æfa það sem margir kalla 4 greinina í þríþraut; næringu. Útbjó næringaráætlun fyrir keppnina og reiknaði út þörf á kolvetnum og vökva per klukkutíma. Áætlunin fyrir hjólið var skotheld en fyrir hlaupið kom í ljós að næringin var ekki úthugsuð.
Ég gerði mér grein fyrir að þessi keppni myndi reyna mjög svo á þolinmæði mína þannig að undirbúningurinn var ekki síður andlegur en líkamlegur.

KEPPNIN
Áður en ég vissi var búið að fylla bílinn, setja hjólið á þakið og ég, Siggi, Víkingur og Freyja (maðurinn minn og börnin mín tvö) á leiðinni til Köben. Ég hafði undirbúið mig eins vel og ég gat og nú var ekki aftur snúið.

HafdísSundSUNDIÐ
Hafði valið mér bláa sundhettu sem er tímin 1.06-1.11 fyrir 3800 m. Hafði aldrei synt svona langt án þess að stoppa og markmiðið var að líða vel í sundinu. Var pínu óviss um val á sundtíma og ekki viss um að ég gæti haldið þessum hraða og ákvað þess vegna að vera alveg öftust í þessum hóp ef ske kynni að ég næði ekki að halda hraðanum og þá væri ég ekki fyrir neinum sem vildi synda hratt.
Áður en ég vissi var ég komin í vatnið og tilfinningin var frábær. Góður hiti og ég reyndi að drafta en gekk ekki vel. Það verður æft fyrir framtíðina. Áður en ég vissi af var ég komin upp úr vatninu og nr. 19 í mínum aldursflokki og nr. 1001 af 2600 þáttakendum á tímanum 1.13. Mjög sátt við það og leið mjög vel þegar ég kom upp úr.

Var ekkert að flýta mér á skiptisvæðinu, enda myndi ég verða að allan daginn, og mikilvægt að halda einbeitingunni, drekka smá og passa að gleyma ekki neinu. Eyddi 8 mínútum sem liðu mjög hratt.

hafdishjol
HJÓLIÐ
Komin á hjólið og byrjuð að telja öll vöðvabúntin sem brunuðu fram hjá mér. 1, 2, 3, 4…….. Og þar sem ég er yfir meðallagi fljót upp úr sundinu og vel undir meðallagi fljót á hjólinu er ég löngu búin að sætta mig við í keppnum að tekið er fram úr mér. En þar sem ég vissi að þetta yrði langur dagur ákvað ég sjá hversu lengi ég myndi hafa úthald til að telja alla sem fóru fram úr mér og hvort ég myndi ná að fara fram úr einhverjum, bara svona til að hafa eitthvað að gera. ….5, 6, 7, 8……… og þegar talan var komin upp í 60 og bara 6 sem ég hafði tekið fram úr og ekki búin að hjóla meira en 20 km, ákvað ég að þetta væri orðið gott, enda skipti það engu máli hversu margir tækju fram úr. Ákvað í staðinn að skoða öll Ironman húðflúrin sem þáttakendurnir voru með. Komst að því að það eru margir möguleikar, mynstur og litir og í hita leiksins var ég meira að segja farin að hugsa um að láta skella einu svona á mig ef ég myndi klára þetta.

Annars naut ég hjólaleiðarinnar í botn. Ég var á þekktum slóðum enda hafði ég farið þessa leið með lest næstum daglega í 4 ár þegar ég lærði hjúkrunarfræði í Hillerød í lok 20. aldar. Markmiðið var að halda meðalhraðanum í kringum 30 km/klst. Gekk mjög vel þrátt fyrir mótvind og hæðótta leið á leiðinni tilbaka til Kaupmannahafnar. Þessir 6 tímar liðu ótrúlega hratt en það var mjög gott að geta tekið af sér hjálminn og komast úr „aero“ stöðunni á hjólinu. Fann svolítið fyrir verk í öxlum og baki enda hafði ég ekki náð að æfa eins mikið á TT hjólinu og ég vildi, aðeins 1,5 mánuð. Kom á skiptisvæði 2 og mjög sátt við rúma 6 tíma á hjólinu. Framar öllum vonum.

HafdishlaupMARAÞONHLAUP
Eyddi einnig 8 mínútum á skiptisvæðinu sem var bílakjallari í miðbænum. Hljóp upp á götu og alveg ólýsanleg stemming mætti mér og öðrum þátttakendum. Hafði verið mjög dugleg að fylgja næringar-og vökvaplaninu á hjólinu og var full af orku. Nú var bara eitt stykki maraþonhlaup eftir, og ég sem hafði aldrei hlaupið meira en 23 km í einu. Þetta myndi ég sko geta.
Leit fljótt á heildartímann á klukkunni í fyrsta skiptið alla kepnnina og 7,5 tímar voru liðnir frá því ég stakk mér í sundið. Enn raunhæft að ná lokatíma í kringum 12 tíma. Fæturnir voru mjög léttir og ég fann að margar brikkæfingar voru að skila sér. Eftir nokkra km ætlaði ég varla að trúa mínum eigin augum, meðaltíminn var í kringum 4.45-5.00 mín á km, mér leið nú ekki eins og ég hlypi svo hratt. Vissi alveg að ég gæti aldrei haldið þessum hraða, þannig að ég ákvað að draga aðeins úr hraðanum og halda mig nær 6 mín á km sem væri raunhæfara fyrir mig. Það gekk ágætlega fyrst 10-15 km. Svo byrjaði maginn að mótmæla.
Planið var að borða og drekka á hverri matar- og drykkjarstöð en var ekki búin að reikna út að það var á 2 km fresti. Varð óglatt og leið ekki vel. Það hægði á mér, en byrjaði ekki að hægja almennilega á mér fyrr en eftir 15-20 km. þegar ég byrjaði að fá slæma verki í utanvert hné. Þekkt meiðsli hjá hlaupurum og eitthvað sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. Verkurinn kom þegar ég hægði á mér á matarstöðvunum og fór þegar ég byrjaði aftur að hlaupa. Ég hugsaði mér að ég ætti tvo möguleika. Annað hvort er þetta að segja þér að halda ekki áfram vegna verkja, eða ekki stoppa því þá færðu verki. Ég ákvað að stóla á seinni möguleikann.
Og áfram hélt ég, en hratt fór ég ekki. Á tímabili gekk þetta svo hægt að einn af þátttakendunum fór á sama hraða og ég á meðan hann gekk og ég hljóp. En ég gat ekki gengið því þá fékk ég verki þannig að ég „hljóp“ allan tímann. Eftir hálfmaraþon kláraðist batteríið í úrinu mínu. Og þvílíkur léttir. Þá slapp ég að horfa á hvað þetta gekk hægt, enda skipti það engu máli. Eina markmiðið var að koma þessari gömlu í mark og helst fyrir myrkur. Því vá hvað þetta reyndi á þolinmæðina mína.
Hlaupnir voru fjórir hringir í miðbæ Kaupmannahafnar og í lok 3. hringsins sagði líkaminn stopp í smá stund. Ég hristist og skalf og var náhvít í framan, er mér sagt. Fékk hjálp frá áhorfanda sem gaf mér vatn og ég hafði rænu á að hugsa að kannski vantar mig salt. Og dró upp lítinn ikeaplastpoka með hafsalti upp úr vasanum (viðbúin öllu) og leið betur á eftir. Siggi og börnin stóðu á hliðarlínunni og hvöttu mig áfram ásamt félögum úr klúbbnum. Að fá stuðning gaf mér auka orku. Ég ætlaði sko í mark og hausinn sá um að koma mér í mark á síðustu 21 km.

ENDASPRETTURINN
Svo kom ég auga á markið og spýtti í lófana og tók minn langbesta endasprett. Ég veit ekki hvaðan ég fékk þessa orku en ætlaði að koma mér í mark með stæl. Enginn verkur neins staðar og bara einbeiting um að spretta eins og ég gat.

Ólýsanleg tilfinning að geta hlaupið svona á endasprettinum og í þokkabót taka fram úr 5 manns eftir þá mörg hundruð sem tóku fram úr mér. Ekki að það sé það mikilvægasta en talan yfir þá sem tóku fram úr mér síðan ég kom upp úr sundinu um 11,5 tímum á undan lækkaði úr 730 í 725. Gott ég hætti að telja eftir 20 km, segi ég nú bara.
Siggi tók video af endasprettinum og nú er það myndband notað í klúbbnum sem innblástur fyrir nýja og gamla meðlimi í þríþrautarklúbbnum. Lokatími 12 klukkutímar og 49 mínútur. Ekki sem verst.
Og þvílík tilfinning að klára, er svo ótrúlega stolt af sjálfri mér. Kom í mark og fékk bjór í hönd. Hafði nákvæmlega enga lyst á honum og hugsaði til stúlkunnar sem sat í Kaupmannahöfn fyrir rúmum 20 árum síðan, einnig með bjór í hönd, nýflutt í borgina og hafði ekki hugmynd að hún myndi búa þarna í 6,5 ár og hvað þá síður koma aftur rúmum 20 árum seinna og klára svona klikkaða keppni.

Hvort ég geri þetta aftur er ekki víst. En aldrei að segja aldrei og núna langar mig að einbeita mér að styttri keppnum.

Þetta var erfitt en yfirstíganlegt og ég vona að ykkur sem langar að hoppa í svona verkefni en þorið ekki alveg að taka skrefið geti notað þetta sem innblástur. Ef hálfgamla húsmóðirin gat þetta þá getur þú þetta líka.

Hafdís Helgadóttir
Kristiansand september 2018

.

Rügen 70.3 – Að duga eða drepast

Sigurður Örn skrifar:

Sem þríþrautarmaður get ég ekki sagt að ferill minn sé langur en ég held þó samt sem áður að ég sé búinn að upplifa minn skerf af skemmtilegum og leiðinlegum augnablikum og hafa þau haft áhrif á mótun mína sem íþróttamanns sem og innri persónuleika. Ég talaði um í fyrri keppnissögunni minni frá Dun Laoghaire í Írlandi að þríþraut væri „brútal“ en til að halda uppi góðum venjum íslensks málfars þá ætla ég að nota orðið „vægðarlaus“ núna. Þetta vægðarleysi hefur margar birtingarmyndir og getur verið allt frá því að vera sprungið dekk, harkalegar byltur, spark í hausinn frá næsta manni í sundlegg, nuddsár sem blæða í gegnum skó, algjörlega örmagna líkami, illa útfært næringarplan í keppni og svo mætti áfram telja. Ég hef upplifað alla þessa hluti sem ég tel upp hér fyrir framan og alla af þeim í keppni, þó þeir geti líka alltaf skotið upp kollinum á æfingum. Það sem mér finnst hins vegar einkenna okkur flest sem stundum þessa íþrótt er það að jafnvel þó við rekumst harkalega á vegg, hvort sem það sé í bókstaflegri merkingu eða ekki, þá erum við alltaf tilbúin að standa upp og reyna aftur. Aftur og aftur, þangað til takmarkinu er náð.

Eftir slysið

Ég verð að viðurkenna að mér þótti útlitið heldur svart eftir að ég datt í Írlandi, jafnvel þó ég hafi út á við virkað mjög jákvæður með þetta allt saman. Það er erfitt að gíra sig upp í að fara af stað aftur eingöngu þremur vikum eftir svona slys og ég var stanslaust með verkina í bakinu og rifbeinunum á heilanum. Helena þurfti sífellt að minna mig á að hætta að hugsa um þetta og láta þetta bara jafna sig hægt og rólega – því meira sem ég væri að pæla í þessu, þeim mun meira fyndi ég til. Ég man eftir því hvernig fyrsta æfingin var hjá mér eftir slysið. Það var laugardagur og ég ákvað að fara á sundæfingu til að sjá hvernig ég væri í lauginni. Ég var ennþá mjög aumur þegar ég gekk og öll högg, sama hversu lítil þau voru, kreistu fram grettu í andlitinu hjá mér. Þrátt fyrir þetta fannst mér góð hugmynd að fara að synda, af því maður notar jú bakið svo lítið í sundinu, eða þannig. Ég hoppaði því út í og fann strax fyrir miklum sársauka. Þetta átti eftir að verða löng æfing (eða stutt) en ég þjösnaðist í gegnum tvo kílómetra áður en ég hætti. Ég gat með engu móti andað vinstra megin þar sem snúningurinn og útþenslan á lungunum gerði það að verkum að það var eins verið væri að stinga mig með spjóti bæði framan og aftan í brjóstkassann. Ég andaði því eingöngu hægra megin þar sem það var aðeins minna vont og hélt því áfram næstu þrjár vikurnar. Eftir æfinguna tók ég góðan tíma í pottunum, bæði þeim heitu og í kalda kerinu og ég fann eftir æfinguna hvernig ég var aðeins betri heldur en áður en ég fór út í.

Daginn eftir var ég örlítið betri heldur en þann fyrri og þannig hélt þetta áfram að vera. Ég tók eftir breytingum dag frá degi en fannst samt aldrei breytingarnar vera það miklar að ég ætti eftir að ná mér að fullu fyrir næstu keppni. Ég ákvað samt sem áður að vera jákvæður og reyna að einbeita mér að því sem ég gæti gert til að hámarka bataferlið. Ég fann hvernig sundið hjálpaði til með að liðka mig í bakinu og ég gat byrjað að hjóla aðeins þegar um 10 dagar voru í keppnina. Ég hafði innst inni smá áhyggjur af hlaupinu en ég var eiginlega ekkert búinn að hlaupa síðustu 3-4 vikurnar fram að keppninni í Rügen.
Fljótlega kom að ferðadegi en við flugum út á fimmtudeginum fyrir keppnishelgina. Klaus, sundþjálfarinn minn úr SH kom með mér til Þýskalands og átti eftir að reynast algjörlega frábær ferðafélagi. Það er alltaf þægilegra þegar einhver kemur með manni svona út og finn ég klárlega fyrir því að það er munur á andrúmsloftinu þegar maður er ekki einn að brasast í gegnum flugvellina með allar töskurnar með tilheyrandi veseni. Rügen er eins konar skagi sem stendur út úr Þýskalandi út í Eystrasaltið og það var um 3-4 klst akstur frá flugvellinum að hótelinu sem við vorum á. Við vorum komnir að kvöldi til, um kl hálf átta að staðartíma og héldum beint niður í bæ að fá okkur að borða. Það voru ákveðin þægindi að vera með bílaleigubíl, en venjulega ferðast ég bara með lest eða leigubíl. Það var því á planinu að skoða hjólabrautina daginn eftir ásamt því að hjóla hana einu sinni í gegn. Brautin var 2×45 km svo það væri ekkert of langur hjólatúr að renna einu sinni í gegnum einn hring.
Á föstudeginum vaknaði ég og tók morgunskokk – mitt fyrsta hlaup í laaaangan tíma. Æjæjæj, útlitið var nú ekki allt of gott. Mjög stífur þegar ég byrjaði að hlaupa og fann vel fyrir í rifbeinum hægra megin að aftan. Dröslaðist rétt um 5 km þann morguninn og fór svo í morgunmat. Ég ákvað að hugsa ekkert meira um þetta – myndi bara taka verkjatöflur á keppnisdag og vona það besta. Við keyrðum hjólabrautina eftir morgunmatinn, skráðum niður helstu staði til að passa sig á, allar beygjur, 3x yfir lestarteina, holur í malbiki og fleira. Eftir það ákvað ég að skjótast einn hring á hjólinu. Allt gekk vel og þá var bara stutt sund eftir. Smá æfingar með að hlaupa út í vatnið ásamt því að æfa sjósundtökin aðeins.
Eftir daginn fórum við í næsta þorp að borða og svo tók helgin við.
Laugardagurinn var nokkuð viðburðalaus. Ég hafði þegar verið búinn að ná í keppnisgögnin daginn áður og þurfti bara að fara á PRO briefing kl 10 um morguninn. Annars tók ég bara létt hjól og hlaup þann daginn og lét það nægja. Restin fór í hvíld og undirbúning fyrir keppnina ásamt því að tékka hjólið og skiptipokana inn á Transition svæðið.
Keppnisdagur
Startið var kl 10:00 að staðartíma á keppnisdag svo það var ekki mikið stress með að vakna allt of snemma. Fórum í morgunmat kl 07:00 og vorum komnir niður á svæði um kl 08:00. Nægur tími til að athuga með hjólið á skiptisvæðinu og gera lokatékk á skiptipokunum. Ég tók stutta hlaupaupphitun áður en ég klæddi mig í blautgallann og hélt svo út í vatnið til að hita upp. Tók létta 5-10 mín upphitun í vatninu með nokkrum hraðabreytingum og lét það svo gott heita. Við vorum kölluð upp úr þegar 10 mín voru í start og þá stóðum við bara og biðum. Eins og alltaf þá líður þessi tími eitthvað svo hratt en samt svo hægt. Maður gleymir sér í augnablik og svo er allt í einu komið að startinu. Fengum að vita þegar ein mínúta væri í að það væri hleypt úr byssu og svo biðum við bara…og biðum…BAM!!

post_3
Ég var staðsettur nokkuð aftarlega í röðinni þegar við hentumst út í eftir byssuhvellinn og þurfti aðeins að staðsetja mig í vatninu eftir að hafa tekið nokkur höfrungahopp í grynningunum næst landi. Hraðinn í byrjun var mjög hár og ég hafði búist við því. Heimsmeistarinn frá því í Kona 2017, Patrick Lange, var á meðal þátttakenda og hann er ágætur í vatninu. Ég vissi að hann myndi reyna að halda uppi dampi og reyndi því að sigta út hvar fremstu menn væru í öllum hamaganginum. Það var allt í froðu til að byrja með og ég sá lítið annað en loftbólur í kafi. Hraðinn fyrstu 200 metrana skv. úrinu hjá mér var í kringum 2:05, eða á milli 1:02-1:03/100m. Allir þeir sem hafa eitthvað synt vita að þetta er frekar hratt tempó enda byrjuðu fljótlega nokkrir að falla aftur úr. Fljótlega var ég orðinn fremstur í nokkuð stórum hóp sem var um 5 metrum fyrir aftan fremstu 6 mennina. Ég ætlaði sko ekki að láta þessa gæja komast langt í burtu og ákvað að ná þeim og halda í við þá. Hausinn niður, hugsa um tækni – inngangspunktur handar, engar loftbólur, höndin fram, strax í grip, TOGA, upp, fleygja fram, mjaðmasnúningur, passa að spenna magavöðva til að missa ekki stöðuna í vatninu, og endurtaka. Aftur og aftur. Eftir um 50-100 metra var ég kominn í lappirnar á þeim og náði að halda því fram að fyrstu snúningbauju. Meðalhraðinn var um 1:13/100m sirka og mér leið mjög vel. Öndun góð, var slakur og fannst ég ráða vel við þetta. Ég ákvað að vera ekkert að sperra mig – við vorum einir 7 saman og ég sat í 5. sætinu fyrir aftan fremstu fjóra. Ég ákvað bara að vera rólegur svo framarlega sem það var ekkert að gerast. Hinir strákarnir hafa örugglega verið að hugsa það sama því þetta hélst svona alveg þangað til við komum að síðasta snúningnum. Nú voru bara 500 metrar eftir og VÁ! Einhver hefur gefið hressilega í. Ok, fætur í gang, skipta úr 2-beat fótatökum yfir í 6-beat og meiri kraft í hendurnar, ekki missa mjaðmir út, reyna að synda í „röri“. Náði að halda í hópinn en þetta tók á, verð ég að viðurkenna. Maður verður að vera vakandi á þessum snúningum og oft reyna sumir að skilja hópinn í sundur á þessum mikilvægu punktum. Fljótlega kom ströndin og við hlupum upp úr. Ég ennþá í 5. sæti og bara mjög góður. Það var smá spölur að skiptisvæðinu en áður en ég vissi af var ég kominn á hjólið. Lokasundtíminn upp úr vatninu var rétt rúmar 26 mín, en leggurinn var um 2150 metrar. Meðalhraðinn því sirka 1:13-1:14 á hvern 100m sem er bara nokkuð gott.

post_1
Jæja, þá var það bara hjólið. Bara ekki detta. Hversu erfitt gat það verið? – Nokkuð erfitt ef það er eitthvað að marka mínar fyrri svaðilfarir í keppnum erlendis. En hvað um það. Einbeita mér að afli og hraðanum. Missti strax Patrick Lange fram úr eftir um 1 km og svo einn annan. Jæja, orðinn sjöundi. Sjáum hvort ég reyni ekki bara að halda því. Mér leið mjög vel fyrsta hringinn, tók inn orkuskot á hverjum 10 km og drakk vel af vatni. Meðalaflið var í kringum 300W en ég fann samt hvernig það var byrjað að síga undan eftir fyrsta hringinn. Ég var á þessum tímapunkti orðinn 10.-11. í heildina og var með markmið um að reyna að halda eins vel og ég gæti seinni hringinn. Eftir um 60 km var þetta farið að vera ansi erfitt, ég náði ekki að halda uppi afli, enda kannski ekki við öðru að búast þegar æfingamagnið síðasta mánuðinn var nánast ekkert. En ég hélt mér jákvæðum – ég var að minnsta kosti ennþá á hjólinu! Undur og stórmerki. „Jæja, ekki gleyma þér, Siggi, annars klessirðu bara á tré“ hugsaði ég og reyndi að halda einbeitingu. Hjólaleiðin var umlukin trjám eiginlega allan hringinn svo það var úr nægum efnivið að velja. Gefið óheppni mína úr fyrri keppnum var alveg eins líklegt að ég myndi finna mér einhvern vænan trjástofn á miðri leið til að smyrja mér utan í og kóróna þannig æðislegt tímabil. „Nei, ekki í dag“. Áfram hentist ég og náði að koma mér á skiptisvæðið. Hjólatíminn um 2:15:53 og því um það bil 40 km/klst meðalhraði. Bara nokkuð gott, gefið það að seinni hringurinn var alveg hræðilegur. Jæja, þá er það bara hlaupið!

post_4
Ég fann strax að þetta átti eftir að vera langur dagur á hlaupinu. Fyrstu 2 km voru reyndar bara á réttum hraða, var á sirka 3:40/km og á venjulegum degi ætti það ekki að vera neitt mál. En þetta voru kannski ekki alveg venjulegar aðstæður. Þarna var ég, búinn með 2 km í hita og sól, búinn að hlaupa um 10 km síðastliðnar 3 og hálfa vikuna og ætlaði mér að klára hálfmaraþon með (líklega) marið rifbein og örlítið tognaðan bakvöðva. Jújú, besta hugmynd í heimi! En ég ákvað bara að kýla á þetta. Ég ætlaði EKKI að fá DNF – sama hvað. Mér var sama þó ég þyrfti að skríða í mark. Ég hætti því bara að horfa á úrið þegar ég sá að hraðinn var kominn niður fyrir 4:20/km því mér var slétt sama. Klára þetta heilhveitis hlaup bara. Það var þó mjög erfitt að hvetja sig í að halda áfram, sérstaklega þegar maður fer 2x upp brekku sem er á við kirkjubrekkuna á Akureyri, þessa sem liggur frá sjónum og upp að sundlauginni. Hlaupahraðinn datt upp fyrir 7 mín/km á köflum og ég var stundum að pæla að byrja bara að labba. „NEI, ef þú labbar þá byrjarðu aldrei að hlaupa aftur“ hugsaði ég aftur og aftur og hélt þannig áfram. Kílómeter eftir kílómeter. Loksins kom að því að hlaupa rauða dregilinn og ég hef sjaldan verið eins feginn og þegar ég kom yfir línuna. Lokatíminn um 4:25 og gefið það að hlaupið hjá mér var um 20 mín hægar en það ætti að vera undir venjulegum kringumstæðum get ég gengið sáttur frá borði – allavega verið ánægður með sundið og – að einhverju leyti – hjólið.

Niðurstaðan

Þessi keppni var eftir allt saman ekki keppni þar sem ég ætlaði að sýna hversu hratt ég gæti farið og heldur ekki keppni þar sem ég ætlaði að reyna að ná einhverju sérstöku sæti. Þennan dag snerist þetta bara um að klára og sýna sjálfum mér hvað er hægt ef maður missir ekki sjónar á takmarkinu. Þessar þrjár vikur sem liðu frá Írlandi og fram að keppninni í Þýskalandi voru erfiður tími. Oft var ég ekki viss um hvort ég myndi ná þessu og hvort ég yrði í standi yfir höfuð til að takast á við þetta. Það var þá gott að vera með fólk í kringum mig sem hvatti mig áfram og studdi mig í áttina að takmarkinu. Það að lesa skilaboð frá ykkur hinum og fá hvatningu er einnig svo ótrúlega mikilvægt og ég þakka ykkur öllum fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt í gegnum þetta allt saman hjá mér undanfarið. Þetta er vissulega búið að vera nokkuð erfitt tímabil fyrir mig ef ég hugsa um keppnirnar á erlendum vettvangi og ég bjóst aldrei við því að þetta yrði auðvelt en á sama tíma vonaði ég að árangurinn myndi verða aðeins betri en hann varð í rauninni. Hins vegar er lítið sem við getum gert þegar kemur að óhöppum og öðru slíku annað en að gera sem best úr því og halda áfram. Ég veit núna hvar ég stend í öllum þremur greinunum miðað við hina atvinnumennina í 70.3 og ég veit nákvæmlega hvað ég þarf að gera í vetur til að standa nærri þeim á næsta tímabili. Takmarkið er ennþá að ná Top 10 í keppni á næsta ári og vonandi eitthvað meira en það. Hversu vel það gengur eftir verður að koma í ljós en ég held áfram að gera mitt besta við að verða betri íþróttamaður dag hvern og mun deila með ykkur hinum hvernig það gengur hjá mér líkt og ég hef verið að gera undanfarið. Ég hlakka mikið til næsta tímabils, bæði hér á Íslandi sem og erlendis og get ekki beðið eftir að byrja að byggja upp aftur.
Þangað til næst!
Siggi

Miðaldra kona landar verðlaunasæti!

Birna Íris Jónsdóttir segir frá:

Ég elska þríþraut. Ég  nýt þess að æfa svona mikið,  vera í góðu formi, finnst þessi lífsstíll stórkostlegur og síðast en ekki síst elska ég allt fólkið sem ég hef kynnst í gegnum þetta sport, stórskrýtið og frábærlega skemmtilegt og yndislegt fólk 🙂

Mín aðal keppni þetta árið var hálfur IM í Helsingör, Danmörku 17. júní þ.a. þessi keppni í Almere var í raun bara til að hafa gaman. Planið var að líða vel allan tímann og setja ekki mikla pressu á mig. Við Inga Dís (sem var að fara sinn fyrsta hálfa) ákváðum þetta á vormánuðum og keppnin var í raun valin af handahófi, engin sérstök pæling á bak við valið annað en þægilegt að ferðast þangað og flöt hjólabraut. Það hafði verið smá átak hjá mér að gíra mig upp hugarfarslega og í æfingum eftir keppnina í Helsingör og þegar leið á ágúst fór hausálagið í vinnunni að aukast og púsluspilið með æfingar og átakið við að halda orkunni uppi jókst. En þegar út var komið (á fimmtudegi fyrir keppni, sem var á laugardegi) jókst tilhlökkunin smátt og smátt og ég var farin að hlakka svo mikið til daginn fyrir keppni að ég var eins og barn að bíða eftir jólunum. Inga Dís hló að mér (og smitaðist smá vil ég meina!).

Ég ætlaði að prófa nýtt næringaplan þar sem ég hef verið að fást við magakrampa á hlaupum undanfarna mánuði. Það gerðist m.a. í Helsingör eftir 10k hlaup. Mjög óþægilegt og dregur úr hlaupahraða sem er verulega pirrandi. Næringaplanið var sem sé að sleppa alveg gelum, drekka orkudrykk og borða fasta fæðu, banana og Cliff bar, ef ég kæmi því niður, á hjólinu. Fá mér svo það sem ég hefði lyst á, á drykkjarstöðvunum í hlaupinu.

20180908_181733

Keppnin

Vaknaði kl. 5:30 á keppnisdegi, sturta og morgunmatur kl. 6. Í morgunmat var ristað brauð með smá smjöri og osti en planið var að passa uppá trefjarnar. Komin á keppnissvæðið um kl. 7, setja brúsana og hjálminn á hjólið, pumpa í dekkin. Startið var kl. 8:20.

Sund: Ég á best 32 mínútur í 1900 víðavangssundi (open water)svo ég ákvað að stilla mér upp fremst í 30 – 34 mínútna hólfið (næst-hraðast) í sundstartinu. Þetta var rúllandi start, sem þýðir að 4 – 5 manns stinga sér útí í einu. Þessi staðsetning var góð og ég náði fínu sundi. Ég hafði synt allan sundlegginn deginum áður í rólegheitunum og það sem kom á óvart var að ég var bara örlítið fljótari að synda þetta í keppninni en á æfingunni! Þarf eitthvað að skoða það. Hitastigið í vatninu var fínt, ca. 18°C, það var gruggugt svo auðvelt var að “villast”. Það er svo mikill gróður í þessu vatni að það þarf að slá það fyrir keppni, sem eðlilega þyrlar upp helling af gruggi. Ég náði að hanga í nokkrum tám á leiðinni og fá með því smá draft, en synti líka heimikið sóló. Heildarvegalengdin mín í sundinu var 2043m þ.a. sem þýðir að ég bætti 143m við með því að villasta aðeins og synda út og suður. Sundtími 34:14, meðalpace 1:41/100m, 2. hraðasti sundtíminn í AG

T1 gekk vel. Gallinn var mjúkur og góður, þ.a. ég var snögg úr honum. Hjálmur og númerabelti á hjólinu og ég hljóp með skóna og klæddi mig í þá við hjólið. Tími: 4:05

20x30-CAAQ0892 - CopyHjólið

Ég hugsaði strax um að byrja að ná inn hitaeiningum og byrjaði á orkudrykknum. Svo þegar ég hafði hjólað um 15 – 20k fékk ég mér smá bita af Cliff-bar. Frekar erfitt að koma því niður, en gekk. Missti af því að grípa banana á fyrstu drykkjarstöð en náði því á öllum hinum og það gekk vel að koma bananabitunum niður. Drakk ekki svo mikið af orkudrykknum, bara ca. ½ 750ml brúsa. Það slapp, enda var ekki svo heitt. Í rúmlega 20k þá kemur þessi tilfinning sem ég er viss um að allir þríþrautarnördar finna, zone-a inní geggjaða vellíðan, gæsahúð, hálfgert hugleiðslu alsæluástand. Mér finnst þetta frábær tilfinning 🙂 Þetta ástand hélst í ca. 50k en þá fer þreytan aðeins að láta á sér kræla.

Það var mótvindur allan tímann á hjólinu, sem er alveg galið þar sem hjólað er í hring. Í öllum beygjum var ég að bíða eftir meðvindinum, en nei, áframhaldandi mótvindur. Vegna þessa var hjólaleggurinn frekar erfiður og ég hjólaði töluvert hægar en ég hafði gert í Helsingör.

Það voru margir grannir miðaldra karlar með sterka lærvöðva sem tóku frammúr mér á hjólinu, en ég tók líka frammúr nokkrum slíkum (kudos takk!). Missti 3 konur frammúr en tók líka frammúr 2 eða 3 konum. Hjólatími: 2:46:51, meðalhraði 33,2km/klst, 4. hraðasti hjólatíminn í AG

T2 gekk líka vel. Pissustopp þar sem ég hef ekki enn náð þeim þroska að pissa í miðju sundi, hjóli eða hlaupi 😉 – og mun líklega seint ná þeim þroska! Tími 4:20

20x30-CAAG0381 - CopyHlaup: Nú var aðalspurningin mín hvort maginn myndi vera til friðs og lykilmál fyrir mig að reyna að ná inn hitaeiningum jafnt og þétt. Hafði ákveðið að fá mér samt bara það sem ég hafði lyst á og í þetta sinn var það kókakóla! Drekk aldrei annað gos en sódavatn og hef ekki gert í mjög mörg ár, en á þessum tímapunkti vildi ég kók (og smá vatn)! Fékk mér líka 2 appelsínubita og 1 vatnsmelónubita. Og maginn var til friðs allt hlaupið! Ég notaði svampa og vatt þá yfir hausinn á mér á öllum drykkjarstöðvum, ekki af því það væri svona heitt heldur var það bara hressandi og ljúft. Hlaupið var 3x7k hringir sem hentaði mér ágætlega, fínt að brjóta hlaupið niður með þessum hætti.

Í þríþrautinni þá langar mig alltaf mest til þess að hlaupa eins og manneskja (þ.e. hratt!). Metnaðurinn minn liggur þar, en það hefur ekki gengið alveg eins og mig dreymir um. Ég hefði auðvitað viljað hlaupa þetta hraðar og m.v. æfingar þá átti ég að geta farið þetta á undir 5:00 pace, en meðalpace-ið í þessu hlaupi var 5:10. Hlaupatími: 1:48:29, meðalpace 5:10/km, 4. hraðasti hlaupatíminn í AG

Þetta skilaði mér í 3. sæti í flokki miðaldra kvenna, 45 – 49 ára. Í flokknum voru 41 kona. Ég er alveg í skýjunum með þann árangur. Auðvitað langar mig til að vera fljótari að þessu, fara undir 5 tíma og allt það en þegar ég byrjaði að fikta við þríþraut síðsumars 2015 óraði mig ekki fyrir því að ég yrði nokkurn tíma á þeim stað sem ég er á í dag, hafði hreinlega ekki hugmyndaflug í það. Hélt að ég væri bara að fara að synda, hjóla og skokka létt í frístundum!

20180909_183642
Inga Dís og Birna Íris.