Vonbrigði í Wales

Trausti Valdimarsson segir frá:

Aðdragandinn
Líkja má lífinu við fjallgöngu. Gott er að velja sér hæfilegt fjall og vanda leiðarvalið. Meðfædd bjartsýni mín hefur látið mig dreyma um hæsta tindinn. Hawaii er heillandi eyja og heimsmeistarakeppnin í járnmanni þar er söguleg.

Í fyrra í Kaupmannahöfn var ég 7 sek frá keppnissæti (10:59). Guðjón Karl sonur minn sem hefur smitast af þessari áráttu minni stakk upp á IM Wales. Þar ætti ég meiri möguleika á sigri í mínum aldursflokki, 60-64 ára. Sigurvegari fengi keppnisrétt í Kona. Þetta er afar erfið leið og sérstök með 2500/500 m hækkun en góð tímasetning 9/9/18 og undanfarin ár hefur sigurtími 60 ára verið vel yfir 12 klst. Þeir sterkustu fara hugsanlega frekar í hraðari brautir og auðveldari. Sigurður Nikulásson fór þetta í fyrra og mælti með. Svo við skráðum okkur í sept 2017.

Undirbúningur

Æfingar gengu vonum framar og meiðsli undanfarinna ára voru að mestu til friðs. Ég gat hlaupið 40-60 km flestar vikur og æft allt að 10 stundir á viku. Til að sigra hina 60 ára karlana var stefnan sett á 12 klst en þá þurfti ég líklega að hlaupa maraþonið undir 4 klst. Gekk vel í Fossavatnsgöngunni, Ecco trail 42, Dyrfjallahlaupinu. Rúllaði RM á jöfnum hraða (3:27) með Gutta 3 vikum fyrir Wales. Líka gaman í mörgum hjóla- og öllum 3þrautarkeppnum hér heima í sumar. Góð keppnisreynsla er mikilvæg! Ég hef heldur ekki dottið á hjólinu í 4 ár. Nú átti ekkert að klikka!

wales fjaran
Horft til sjávar í Tenby. Allt er til reiðu fyrir keppnina.

Sjötta september flugum við til Gatwick og tókum lestina til Tenby í Wales. Hótelið var vel staðsett rétt hjá sundleiðinni en gamalt og lúið. Við fengum lítið herbergi á 4. hæð. Lyftan biluð og þröngir stigar. En fólkið í bænum ótrúlega jákvætt og hvetjandi. Svo var skokkað létt um bæinn og niður á strönd fyrsta kvöldið. Vaðið út í volgan sjóinn, ca 17gráður. Líka var hjólað svolítið og reynt að venja sig á að vera vinstra megin því þarna er umferðin rammöfug og það varðar rauðu spjaldi að fara fram úr vinstra megin á leiðinni. Við litum líka á brekkurnar. Þær eru brattar.

Vöruúrval á expóinu var gott og kynnir á keppnisfundi mjög skemmtilegur. “Did I mention the pink bag”? Það þurfti nefnilega að hlaupa allt að kílómetra frá sundinu að skiptisvæðinu í T1 og téður poki var einmitt fyrir hlaupaskó á leiðinni. Gutti fékk gamla Skotta (mitt fyrsta þríþrautarhjól 2008) endurnýjaðan á sýningunni. Sofnaði oft og mætti hress með Gutta kl. 05 í góðan morgunmat. Mæting kl 06 á skiptisvæðið.

wales hjólin
Essið (bláa hjólið) og Skotti gamli (reyndasta hjól landsins) tóku sig vel út á leiðinni á hjólasvæðið.

Gönguferð 2.700 neoprenklæddra furðufugla kl 06:20 í halarófu í gegn um bæinn var frekar hýr að sjá. Öll með bleika pokann í hendi. Mikil stemming í “zic-zac” brekkunni þar sem við hengdum skóna á númeraðan krók. Forsöngvari welska þjóðsöngsins var í sundgalla og fór svo í röðina. Mögnuð stemming þegar sólin kíkti upp úr flóanum og atvinnumenn hlupu úti kl 06:55. Rúllandi start frá kl 07. Ég var enn með Gutta en hann er orðin sterkur sundmaður og fór af stað með hópnum sem áætlaði 65 mínútur í sundið. Ég var bjartsýnn nokkrum mínútum seinna til að ná í gott kjölsog. Sundið er 2 x 1900m með ca 50 m hlaupi á milli. Gott að fá blóð í fótleggina og laga sundgleraugun. Sjórinn var góður og tær. Lítil alda. Meinlausar marglyttur.

wales keppnisáætlun
Mikilvægt er að skipuleggja hvern legg í járnmanni í þaula…

Keppnisáætlunin gekk út á að spara kraftana fyrir síðustu 10 km í hlaupinu. Engin læti. Tókst að vera slakur og hugsa um tækni og “vellíðan”. Synti rúma 4000 skv Garmin að strandarhlaupinu meðtöldu á 1:13 sem var ásættanlegt miðað við álagið. Gutti á 1:05! Sjóriða fyrstu mínúturnar eftir að við komum upp úr. Hlaupið upp Z-brekkuna og að T1 var eins og Í Lækjargötu á gleðigöngu. Engin panik, allt gekk samkvæmt plani. Kom mér í góðan gír á hjólinu. Allir gírar notaðir og oft í lægsta gír í 10-20% halla. Öskrandi áhorfendur voru mikil hvatning í brekkunum en ég reyndi að vera rólegur og spara kraftana. Svo var gefið í á beinu köflunum. Jafn meðalpúls 139/min. Mér leið vel og var farinn að hlakka til að byrja hlaupið. Fékk mér orkubita og drykk eftir 93 km (á 3:11).

Enn ein brekkan upp og ég var rólegur lengst til vinstri. Hleypti framúr hægra megin. Allt í einu birtist gróft malbik eða hola sem ég sá ekki og lenti útaf. Skall á hægri hliðina. Skrámaður og blóðugur en óbrotinn. Áhorfandi studdi mig á fætur og vildi ýta mér af stað en það má ekki og varðar brottvísun úr keppni. Essið mitt virkaði ekki, keðjan var af og föst. Tókst að losa en afturskiptir rakst alltaf í teinana. Þá gekk ég að drykkjarstöð um 1 km til baka. Tókst ekki að laga hjólið…..

Aftur til Tenby

Við vorum þrjú í bílnum sem þurftu að hætta og fengum far til Tenby. Það var mjög sérstakt andrúmsloft í bílnum. “Ekki fara að grenja!” Ég fór á skiptisvæðið og afhenti númer og flögu og fékk sáraþvott og marga plástra (“sárabætur”). Það var ekki skemmtileg lífsreynsla að vera sjúklingur því ég er óvanur því. Verð að hrósa starfsfólki og ótal sjálfboðaliðum fyrir umhyggju og góðmennsku. Hugsaði til lífsreglu Pollyönnu. Heppinn að fá að vera áhorfandi. Gaman að fá að hvetja Gutta og alla hina. Ákvað að vera ekki fórnarlamb. Brosa gegnum tárin.

Mikil gleði í verðlaunaathöfninni mánudagsmorgun. Góðir Gíslar stýrðu fjörinu. Sigurvegari 60-64 ára kláraði á 12:03 með hlaupi á 4:04. En hann afþakkaði Kona sætið og 12:19 dugði!

wales eftir keppni
Í fullum herklæðum, albúnir í næstu þraut.

Lífið heldur áfram. Sárin gróa fljótt. Fjallið er þarna ennþá og ég er ekki af baki dottinn.

 

Ískuldi í Austurríki

Dagný Jónsdóttir segir frá:

Vegferð byrjandans

Ég byrjaði að æfa þríþraut með Ægi 3 fyrir tæplega ári síðan og var með ágætis íþróttabakgrunn þegar ég hóf að æfa. Ég var í 10 ár í sundi sem krakki en eins og flestir sundkrakkar hafði ég ekki farið í laugina síðan ég hætti, eða í 13 ár! Ég hafði líka verið að hlaupa mér til skemmtunar og til að halda mér í formi en ekkert af neinni alvöru. Þegar ég byrjaði í þríþrautinni var ég því ágæt í sundi og hlaupi en annað mátti segja um hjólið, ég hafði lítið sem ekkert hjólað og þegar ég mætti á fyrstu hjólaæfinguna átti ég ekki einu sinni smellu pedala og Trausti Valdimars fór að benda mér á hina og þessa aukahluti sem ég þyrfti nú að losa mig við af hjólinu ef ég ætlaði alvarlega að íhuga að vera í þessu sporti, „ekki nógu aero sjáðu til.“

Þegar ég var búin að æfa í mánuð með Ægi 3 fór ég á árshátíð félagsins þar sem Einar Sigurjóns, þá nýkominn heim í keppnisvímu frá Ironman Barcelona, hélt yfir mér fræga eldræðu um að ég yrði að skrá mig í keppni og það strax! Það þýddi nú ekkert að vera að bíða með þetta og ég kynni nú að synda og þá væri þetta bara komið.

Þar sem ég er einstaklega óþolinmóð að eðlisfari þá vissi ég að ég væri ekki að fara að hafa þolinmæði í að stunda þríþrautina af miklum krafti nema að fara að ráðum Einars og skrá mig í keppni sem fyrst. Upp úr áramótum byrjaði ég að skoða keppnir sem gætu mögulega hentað mér og meðal annars hálfan járnkarl í Barcelona í maí. Ég hins vegar hafði litla sem enga reynslu á því að hjóla úti, aðeins innihjólum, þannig ég ákvað frekar að finna keppni í lok sumars til þess að geta nýtt sumarið í að bæta mig á hjólinu. Þegar ég sá keppnina í Zell am See í austurrísku Ölpunum var ekki aftur snúið, ég var gjörsamlega heilluð af brautinni, Alpar, ferskvatn, brekkur, Wiener Schnitzel. Gat ekki klikkað.. eða hvað?

Eftir mikla hvatningu frá Andra kærastanum mínum lét ég verða af því að skrá mig. Þetta var í janúar og keppnin var 26. ágúst, þannig ég hafði nægan tíma til að æfa. Ég tók aðeins eina keppni áður en ég fór út og það var ólympíska þríþrautin á Laugarvatni. Þar var ég svo heppin að það fór nánast allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. Ég hafði aldrei synt í open water af viti þannig ég fór bara sikk sakk, sundgleraugun í móðu og ég staurblind, silicon eyrnatapparnir  sem ég synti með voru gallaðir og bráðnuðu inn í eyrun á mér þannig ég þurfti að leita til læknis eftir keppni… já ég hjólaði og hljóp með eyrnatappa fasta í eyrunum! Það var síðan einhver galli á brúsanum á hjólinu sem leiddi til þess að það kom enginn vökvi úr honum. Geggjaður lærdómur!

Annars gengu sumaræfingarnar mjög vel, ég mætti á nánast allar æfingar og lagði mig 100% fram til að ná markmiðinu. Andri skipulagði fyrir okkur ferð í frönsku Alpanna rúmum mánuði fyrir keppni þar sem ég gat vanist því að hlaupa og hjóla í alpaumhverfinu sem myndi bíða mín í keppninni. Sú ferð gerði kraftaverk fyrir mig á hjólinu en ég kom til baka mikið öflugri hjólari en áður og allt leit mjög vel út fyrir keppnina.

Þremur vikum fyrir keppni þegar mér fannst ég loksins vera komin í nógu gott form losnaði á mér önnur hnéskelin á hjólaæfingu. Eftir það gat ég ekki hjólað í meira en 20 mínútur án þess að byrja að gráta af sársauka (já, alvöru tár í gangi), en af einhverjum ástæðum fann ég ekkert fyrir þessu af viti þegar ég var að hlaupa. Ég fór bæði til hnykkjara og læknis og 10 dögum fyrir keppni sögðu þeir báðir það sama: „það er kraftaverk ef þú nærð að klára þessa keppni í þessu ástandi“.

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég samt sem áður að kýla á keppnina og stilla markmiðin mín niður í það að ná bara að klára, enda yrði það kraftaverk í sjálfu sér. Ég synti því nánast einungis fram að keppni og hljóp í vatni til að spara álag á hnéð fyrir keppni.

Keppnin

Þegar við komum til Zell am See var glampandi sól og 30 stiga hiti. Ég prófaði vatnið fyrsta daginn og fékk hamingjukast, besta „open water“ aðstaða sem hugsast gæti! Vatnið hlýtt og tært, glampandi sól og Alparnir í kringum vatnið. Geggjað!

2
Prófaði sundbrautina í Lake Zell fyrsta daginn, þá var bongóblíða

Hamingjan entist ekki mjög lengi en daginn eftir fór að rigna mikið og samtímis að snarkólna. Á keppnisfundi deginum fyrir keppni kom fram: „this will be the wettest and coldest Ironman ever, so you better be prepared“. Sem Íslendingur sem hefur komist í gegnum 15 m/s og haglél á TT-hjóli var ég bara nokkuð brött við þessar fréttir, gott forskot á hitabeltisliðið. Ég var þó engan veginn með föt fyrir þessar aðstæður og þurfti því að versla vetrarföt fyrir hjólið, það var ansi takmarkað úrval á svæðinu og það seldist allur vetrarklæðnaður upp á stuttum tíma. Ég fór með hjólið og hjólafatapokann á skiptisvæðið en gat rosalega lítið gert. Það var grenjandi rigning (11 mm) þannig það gekk ekkert að líma gelin eða neitt slíkt, svo fékk fatapokinn að hanga þarna yfir nóttina og ekkert sló af rigningunni.

3
Ég og Andri í Ironman Village, hefði ekki getað fengið betri stuðning en frá honum bæði í aðdraganda keppninnar og á staðnum.

Á keppnisdag mætti ég á skiptisvæðið og það var bara flóð af vatni yfir öllu, þá var búið að rigna stanslaust í 2 sólarhringa og hitinn á bílnum um morguninn sýndi 5 gráður. Ég var að fara að líma gelin á hjólið þegar maður labbar upp að mér og segir við mig „Bike has been cancelled“. Það var víst ófært hluta af hjólaleiðinni vegna snjókomu. Ég sá myndir af brautinni og það var bara allt hvítt og hitinn sýndi 2 gráður á þessum stað. Ég fékk að taka hjólapokann minn til baka og allt sem var í honum var bara gegnblautt og ískalt, ég hefði ekki getað hugsað mér að hjóla í þessum fötum!

4
Mynd sem tekin var af brautinni á keppnismorgun. Þessi hluti af brautinni var uppi á fjalli en brautin fór 13 km upp og síðan beint niður með fimm 90 gráðu beygjum og því stórhættuleg í þessum veðurskilyrðum

En jæja, keppninni var frestað um 2 klst og ég þurfti að breyta um keppnisstrategíu. Ég ákvað bara að keyra vel á sundið og svo átti ég ársgamlan hálfmaraþontíma sem mig langaði til þess að bæta. Ég ætlaði að fara með fremsta hóp í sundinu en það var einhver smá misskilningur með merkingar á svæðinu þannig ég held ég hafi farið með fremstu mönnum í næsthraðasta hópnum. Það fór því mikil orka í sundinu í að hægja á sér vegna umferðar og taka fram úr hægara sundfólki. Það setti vissulega strik í reikninginn en ég var með fremstu konum upp úr sundinu sem var ánægjulegt, 7. sæti í mínum aldursflokki af tæplega 100 en sundið tók 32 mínútur.

7

Skiptingin.

Skiptingin gekk vel, engir fastir eyrnatappar og þá voru allir góðir! Ég vildi ekki setja of mikinn fókus á að hugsa bara um tíma heldur njóta líka umhverfisins, þá sérstaklega þegar keppnin var stytt svona mikið fannst mér nauðsynlegt að taka mér smá tíma til að vera á staðnum. Ég stoppaði við á öllum drykkjarstöðvum og prófaði allt sem til var, þetta var eins og skemmtileg smakkferð á hlaupum. Skyndilega heyrði ég einhvern hlaupara hrópa á mig á brautinni „Dagný Jónsdóttir, Ísland“. Þá hafði ég tekið fram úr Soniu Askenazy, sem var þarna að keppa fyrir Ísland líka, dóttur Vladimirs Askenazys aðalheiðursstjórnandi Sinfoníuhljómsveitar Íslands. Ég spjallaði smá við hana en hún skipaði mér nú bara eftir smá stund að fara að hlaupa áfram á mínum hraða.

Eftir um 14 km af hlaupinu fór ég að finna verulega fyrir meiðslunum, hvert skref var mjög sársaukafullt og það hægðist nokkuð á mér. Ég sá að ég var nú þegar að fara að klára þetta hlaup undir mínum besta hálfmaraþontíma þó ég myndi hægja á mér, en keppnishausinn sagði mér að bæta tímann almennilega þannig að ég harkaði mig í gegnum þetta. Ég kom í mark á 1 klst. og 44 mínútum og hafði þá bætt ársgamlan hálfmaraþontíma um heilar 5 mínútur. Nokkuð sætt! Greinilega nóg inni fyrir stakt hálfmaraþon!

Niðurstaða

Heildartími fyrir bæði hlaup og sund var 2:22:04 sem gaf mér 18. sætið af tæplega 100 í mínum aldursflokki. Þrátt fyrir að vera smá svekkt að ná ekki að klára heila keppni þá var virkilega gaman að fá að sjá hvað ég stóð ofarlega í þessum greinum í alþjóðlegri keppni. Það gefur manni góðar forsendur til þess að halda áfram á sömu braut.

Það var mér nokkuð ljóst á hlaupinu að dæma að ég hefði líklega ekki náð að klára heila keppni vegna meiðslanna, eða klárað með miklum þjáningum og harki þannig eftir á að hyggja var það lán í óláni að hjólið hafi verið flautað af. Það var því vissulega kraftaverkið sem ég þurfti til að klára keppnina!

 

Í víking til Kölnar

3sh borði köln.PNGValerie Maier segir frá:

Undanfarin tvö ár, þegar ég hef sagt fólki að ég æfi þríþraut (með smá mont í röddinni, mér finnst þríþrautafólk svalast af þeim svölustu), þá gerist alltaf það sama: „Já er það? Ironman?“ „Aehhhhh, nei, það eru líka til styttri vegalengdir“ og þegar ég fer svo að útskýra sprettþraut og súpersprettþraut þá er svarið yfirleitt „Nú er það, ég gæti það líklega líka.…“ Einmitt!
Þannig núna eftir hafa lokið minni fyrstu ólympísku þraut líður mér loksins eins og almennilegri þríþrautarkonu!

Hópferð 3SH

Við vorum 14 talsins frá þríþrautarfélaginu 3SH í Hafnarfirði sem fórum til Kölnar fyrstu helgina í september. Þar er boðið upp á alls konar vegalengdir við allra hæfi enda sannkölluð þríþrautarhátíð og tíu í okkar hóp voru skráð til keppni en hinir fjórir voru með og í klappliðinu. Í boði er beint flug til borgarinnar (næturflug) en flestir flugu til Frankfurt og komu sér einhvern veginn til Kölnar, enda ekki langt á milli.

Það er frábært að fara í hóp í svona keppni og fá stuðning og hvatningu frá öllum sérstaklega þegar maður gerir þetta í fyrsta skipti eins og ég. Við vorum tvær sem kepptum á laugardaginn, hin átta á sunnudaginn en samt mættu allir báða dagana og hjálpuðu, klöppuðu og öskruðu fyrir hvert annað. Við klikkuðum bara á því að taka ekki íslenskan fána með!
Köln Triathlon er mjög skemmtileg keppnisstaður, frekar lítill og meðfærilegur. Sundið er í stöðuvatninu Fühlinger See og brautin er bein kassalaga róðrarbraut, ca. 2km á lengd og 300m breið. Vatnið er tært og hreint og óhætt að drekka á leiðinni. Enginn öldugangur! Línur í vatninu með baujum gera það að verkum að maður getur synt alveg beint án þess að þurfa mikið að horfa upp og engin hætta á að víkja af leið. Þetta er frábær byrjendabraut.

Aðstæður
Hjólabrautin var fín, 3x15km hringir í ólympískri þraut (45km í heild!), nokkur hringtorg, ca. 2km kafli sem minnti mig á þröngan Krísuvíkurveg (verri endann), en annars mjög góð, hraðbraut og allt. Snúningspunktur á miðri leið og svo í öllum vegalengdum var annar snúningspunktur við skiptisvæði sem var mjög gaman fyrir áhorfendur þar sem hjólarar komu reglulega framhjá. Brautin fyrir járnmanninn var aðeins öðruvísi 5x 35.6 km og í hálfum járnmanni endaði brautin á því að vera samtals 98km!
Hlaupaleiðin var svo 2x5km hringir í kringum vatnið í ólympísku en 6/3 sinnum 7km fyrir heilan/hálfan járnmann. Það var líka til keppni sem kallaðist Hawaii Special: 3.8km sund, 180 hjól, en 14km hlaup og er ætluð þeim sem fara til Kona seinna á árinu sem æfingakeppni. Var ég búin að segja að þríþrautafólk er svolítið klikkað?

Daginn fyrir
Föstudaginn settum við saman hjólin og hittumst öll á keppnistað, skoðuðum skiptisvæðið og syntum aðeins í vatninu. Ég ákvað að synda ekki í blautgalla því vatnið var 22°C og ég var búin að æfa mig í sumar í svipuðum ástæðum.
Við gistum í íbúðum vitt og breitt um Köln, en fórum flest kvöld saman út að borða. Ég var svo heppin að vera með Gylfa og konu hans Maríu í íbúð og var mjög fegin að þurfa ekki setja hjólið saman ein í fyrsta skipti, geta fara saman á keppnisstaðinn o.sv.frv. Þar sem Gylfi fór í járnmanninn á sunnudeginum, fannst mér ekki viðeigandi að tala um að ég væri stressuð fyrir mína þraut á laugardaginn, þannig allt var þetta mjög rólegt og einbeitt hjá okkur daginn fyrir keppni. Ég var merkilega lítið stressuð fyrir keppnina, kannski helst hjólið, minn veikasti hluti og þar fyrir utan búin að detta á hjóli nokkrum dögum áður.

Börnin keppa!
Laugardagsmorgun keppti Arndís Finnsdóttir í sinu fyrstu þríþraut sem kallaðist „Smartþraut“ (0.7km, 30km, 7km). Í þeirri keppni voru 711 keppendur. Skemmtilegt er að segja frá því að Arndís var skráð, en vegna ýmissa ástæðna var hún eiginlega búin að ákveða að hætta við keppnina. Foreldrar hennar Þórdís og Finnur höfðu borgað ferðina fyrir hana og bróður hennar Svein með það skilyrði að þau ættu að keppa! Þannig á föstudaginn eftir að hafa prufað sundið ákvað Arndís að keppa, fékk lánað hjólið mömmu sinnar sem hún hafði aldrei setið á áður og kláraði með stæl á 2.05 klukkutímum!

3sh valerie á hjóli
Greinarhöfundur, Valerie Maier, á nýja hjólinu!

Keppnin mín byrjaði klukkan 12 og gekk bara vel. Sundið var fínt, tók mikið fram úr þar sem ég var búin að staðsetja mig frekar aftarlega, engin slagsmál, reyndi að drafta sem mest en má örugglega vera aðeins meira ákveðin næst. Eftir æfingahelgar með Karen í vetur var ég tilbúin í troðningu á sundi! Hjólið var ótrúlega skemmtilegt, enda er ég ný búin að kaupa mér frábært hjól (Cervelo P3), þvílíkt gaman! Hugsaði meira að segja í eitt sekúndubrot á hjólinu „jú kannski fer ég einhverntima í hálfan járnkall….“, hlaupið var svo í lagi, ekki besti 10km hraði, en það var frekar heitt 24°C og þurfti að passa vel að drekka nóg. Endaði á 2.51 klukkutímum, var 256. af ca. 800 keppendum, 26. kona (af 192) og fjórða í mínum aldursflokk. Sundið klárlega sterkast, svolitið hæg á hjóli og meðalgóð í hlaupinu. Áætlun fyrir veturinn er að bæta hjólið. Mjög ánægð með það!

3sh halldór þórdís sveinn
Halldór, Sveinn og Þórdís fyrir keppni.

Sunnudaginn kepptu Ívar og Gylfi í heilum járnmanni (106 keppendur í heild) og Finnur í Hawaii Special (58 keppendur), byrjuðu klukkan 7 um morguninn, vatnið ótrúlega fallegt aðeins hlýrra en loftið á þessum tíma. Sundið gekk vel hjá öllum, Gylfi synti á 60 mínútum nákvæmlega eftir plani. Svo tók 180km hjól við og við klappstýrurnar fórum að staðsetja okkur þannig að við gátum hvatt.

Um hádegisbil byrjaði svo hálfur járnmaður (510 keppendur). Fyrir Halldór og Svein var það annar hálfi járnmaður þeirra á þessu ári. Steffi og Torben, sem eru þaulreynd þríþrautahjón, voru búin að vera í 7 ára hvíld frá járninu og því auðvitað spennt fyrir þessa keppni. Torben átti frábært sund á 28.37 mínútum og í endanum var Sveinn fyrstur úr okkar hópi á 5.10 klukkutímum og Torben rétt á eftir. Hefðu klárlega verið undir 5 tímum ef hjólaleggurinn hefði verið 90km í stað 98km.

Það gekk líka vel hjá Þórdísi, Steffi og Halldóri, en öllum fannst hlaupið frekar erfitt, líklega vegna hita. Þordís var 3. í sínum aldursflokki á 5.53 klukkutímum! Allir úr okkur tíu manna hóp náðu að klára og sumir settu persónulegt met, til dæmis Ívar sem kláraði heilan Ironman á 11.27.

3sh ívar kemur í mark sem eisenmann
„Ívar, du bist ein Eisenmann!“

Öll úrslit eru hér:
Mér fannst ofsalega gaman og lærdómsríkt að fá að fylgjast með okkar keppendum á sunnudaginn. Hausinn er klárlega stór hluti í þessu og mjög gaman að fá bros eða thumbs up frá keppendum fyrir hvatninguna, einn maður kom meira segja eftir járnmanninn til mín til að þakka fyrir stuðninginn!

3sh gylfi hvílir sig
Gylfi „eisenmann“ hvílir sig. Bjórinn er óáfengur. Í baksýn er Fuhlinger See.

Eftir keppnina situr þetta eftir:
• Hafa gaman! Við veljum að gera þetta!
• Ekki vera með íbúð á 5. hæð án lyftu!
• Kannski ekki sniðugt að fara á steikhús daginn fyrir keppni ef manni finnst gott rauðvín, en má ekki fá sér!
• Heill Ironman er klikkun, hverjum dettur í hug að hlaupa heilt maraþon eftir allt sem á undan er gengið!!

Frá Kaupmannahöfn til Kona

Aðdragandinn

Gísli hafði samband og bað mig um að skrifa nokkur orð um keppnina mína núna í Köben. Það hljómar mjög einfalt en þessi keppni og aðdragandinn að henni hefur verið mun flóknari en ég hef gefið upp en ætla núna að láta allt flakka.

Á ströndinni á Kona 2016 eftir keppnina var það ákveðið að næsta stóra markmið væri Kona 2018 og komast á verðlaunapall. Leiðin þangað var plottuð upp fram að jólum ásamt þeim breytingum sem við töldum nauðsynlegar til að ná þessu.

Í stuttu máli var það eftirfarandi:

• Minnka við mig vinnu til að geta æft meira án þess að það bitni á fjölskyldu þar sem á þeim tíma áttum við að verða 2 ára og annað á leiðinni.
• Fá mér þjálfara til að leiðbeina mér á þessari vegferð.
• Vinna mér inn keppnisrétt í Ironman Barcelona til að hafa 1 ár til að undirbúa mig fyrir Kona.

Frá og með janúar og út júní 2017 var ég í 60% starfi hjá Mannvit og gekk það vel en andlega var það mjög slítandi að sinna vinnunni og á sama tíma að koma öllum æfingum fyrir áður en Dagný Katla væri búin í leikskólanum svo frá júlí og fram að Ironman Barcelona sem var í lok september tók ég mér alveg frí frá vinnu til að geta æft á milli 8-16 á daginn. Það var mikill munur og náði ég inn miklu magni ásamt miklum gæðum þar sem recovery er mun betra þegar verkefni dagsins er ekkert annað en að æfa. Að hafa fengið að prófa þetta eru algjör forréttindi og endurspeglar vel þann gríðarlega stuðning og skilning sem ég hef frá Önnu Jónu því eins og við segjum við erum saman í þessu og þetta er eitt af fjölmörgu skiptum sem hún sýnir það í verki.

Ég gaf mér nokkrar vikur til að finna þjálfara með það að markmiði að geta byrjað að vinna með honum í janúar 2017. Eftir að hafa búið til lista af nokkrum sem mér fannst koma til greina og fór gott orð af valdi ég David (http://www.tilburydavis.com/) og var svo heppinn að það var laust pláss hjá honum. Ég er eflaust ekki léttasta týpan til að þjálfa eftir að hafa séð um þetta fyrir mig sjálfur í nokkur ár en ég hafði lofað mér og Önnu því að ég myndi setja allt mitt traust á hann sem ég gerði. Ég hef lært rosalega mikið í gegnum þetta tímabil með honum ásamt því að ná miklum framförum í öllum greinum og þá sérstaklega hjóli og hlaupi.

Þriðji punkturinn að ná mér inn í keppnisrétt í Barcelona gekk ekki upp og eins og flestir eflaust vita hef ég verið að glíma við næringavandamál í þessum lengri keppnum sem náðu hámarki í þessari keppni í Barcelona..

Ég fór MJÖG langt niður andlega eftir Barcelona keppnina og lengi á eftir átti ég mjög erfitt með að tala um hana án þess að detta aftur niður andlega. Þarna kom Anna sterk inn og fyrstu dagana eftir keppni fórum við yfir allt sem endaði með því að ég lofaði henni að þetta væri ekki endirinn á Kona 2018 markmiðinu og ég myndi fara til sálfræðings til að ræða þetta við hlutlausan aðila og hjálpaði það mjög mikið og er ég töluvert sterkari andlega eftir þá vinnu.

Eftir Barcelona tók ég mér 1 viku í frí frá æfingum og kom mér svo af stað því framhaldið var óljóst en við vorum að skoða tvo möguleika sem var keppni í lok nóvember eða apríl 2018. Því miður var uppselt í allar keppnir í lok nóvember svo þá var ákveðið að taka Suður-Afríku í apríl 2018 sem gæfi enn góðan tíma í undirbúning fyrir Kona.

En eins og ég er þá vildi ég fá staðfestingu að ég væri enn í góðu formi þrátt fyrir að æfingamagn væri orðið meira en helmingi minna. Ég notaði Gamlárshlaup ÍR og svo 12min og 4min power test á hjólinu viku seinna sem fyrsta check point uppá hvort ég ætti að halda áfram í þessu. Línan sem þurfti að nást til ég myndi gefa sjálfum mér grænt ljós á að halda áfram voru eftirfarandi:

• Undir 35min í 10km (átti best á þeim tíma 36:38 frá 2016)
• Ná sama eða hærra og besta power test 2017

runartafla

Þetta náðist, hljóp á 34:43, 400W í 12min og 452W í 4min. Það sem David segir eftir seinna testið lýsir vel hvernig staðan var.

runarhleypur
En eftir þetta byrjar tímabil sem vonandi klárast núna 10. september nk. og er það að þá verðum við vonandi kominn með dagvistun fyrir Emblu Björgu. Planið var að hún myndi byrja hjá dagmömmu í janúar og svo leikskóla í lok ágúst sem við vorum nokkuð viss um að myndi ganga. En á þessum tíma var ómögulegt að fá dagmömmu og eftir ítrekaðar tilraunir í nokkra mánuði gáfumst við upp og fundum aðra lausn sem var að fá Au-Pair stelpu til okkar. Hún kom um miðjan janúar en enntist því miður ekki lengi því eftir rúmar 5 vikur fer hún til baka vegna þess að hún var með heimþrá.

Þarna var ekkert annað í stöðunni en að ég tók mér launalaust frí frá vinnu frá miðjum febrúar og út maí til að vera með Emblu Björgu á daginn. Þetta var æðislegur tími og reyndist okkur vel. En á sama tíma þá var það augljóst að keppnisferð til Suður-Afríku var ekki inní myndinni. Þarna var ég orðinn mjög svartsýnn aftur og svipaðar tilfinningar og eftir Barcelona komu aftur upp. Enn á ný var Anna eins og klettur í gegnum þetta og eitt kvöldið eftir að þær voru sofnaðar erum við að ræða málin og skoða hvaða möguleikar væru enn í boði og sáum þá að Ironman Copenhagen var enn með laus sæti. Eftir smá spjall var það neglt – 2016 planið yrði tekið aftur.

Þetta voru blendnar tilfinningar því eftir Kona 2016 var ég handviss að ég ætlaði ekki að gera þetta aftur með svona litlum fyrirvara en á sama tíma var þetta orðinn eini möguleikinn. Ég ræddi þetta við David sem sagði að þetta gæti vel gengið.

Þrátt fyrir að vera búinn að skrá mig og kominn með nýtt markmið og mars bara rétt að byrja að þá ákvað ég að pæla ekkert í þessari keppni fyrr en eftir Íslandsmótið í TT sem væri seinasta keppnin áður en loka undirbúningur fyrir Köben ætti að byrja.

Æfingar gengu vel frá mars og út júní en æfingamagn var mun minna en ég er vanur og er meðaltal fyrir þennan tíma 10 klst og 45min. Áherslan var mikil á interval æfingar á hjóli og hlaupi til að fá sem mest út úr þeim tíma sem ég hafði.

Þessi strúktúr virkaði vel og vann ég þau 3. TT mót sem ég tók þátt í og varð Íslandsmeistari sem var eitt af markmiðum ársins.

David hafði sagt við mig að eftir Íslandsmótið í TT og fram að Köben sem eru 8 vikur þyrfti ég að finna meiri tíma fyrir lengri æfingar og koma æfingamagni uppí ca. 15klst.

Það gekk og næstu 5 vikur voru rétt yfir 16klst áður en æfingamagn minnkaði rólega fram að keppni.

Þetta tímabil gekk vel og þá sérstaklega löngu hlaupin og hjólin um helgar.

Núna var komið að keppninni og var ég mjög spenntur að komast af stað því formið hafði aldrei verið betra og hafði það verið staðfest af öllum æfingum í aðdragandanum. En til að læra af reynslunni að þá var planið að vera mjög rólegur á hjólinu til að eiga enn auðveldar með það að taka upp næringu.

Í Kaupmannahöfn

Þá kemur LOKSINS keppnissagan hugsa eflaust margir 😉
Sundið: 56:57 – Takmark: sub 60
Hér gekk allt upp. Hafði ákveðið að staðsetja mig fremst og var nr 6-12 ofan í í “Rolling Start” sem Ironman keppnir (fyrir utan Kona) nota. Eftir ca. 300m sund fann ég einn sem var að synda aðeins hraðar en ég og kom mér fyrir aftan hann og elti hann næstu 3500m. Ég hef aldrei áður náð að drafta svona vel í keppni og ég get sagt núna að það munar! Mér leið mjög vel allan tímann og kíkti meira segja nokkrum sinnum á klukkuna til að staðfesta að þetta væri nógu hratt.

runarsund.jpg

Hjól: 4:40:17 – Takmark: sub 4:35
Fyrir keppni var ég búinn að ákveða að vera mjög varkár á hjólinu því ég vildi gera allt til þess að eiga gott hlaup. Þetta gekk eftir og mér leið vel allan tímann á hjólinu. Hérna er hægt að sjá samanburð á HR á milli Köben 2016 og 2018 og eins og sést er ansi mikill munur þarna á milli.

heartraterunar

runarhjol
Hlaup: 3:18:46 – Takmark: 2:59

Hlaupið byrjaði vel og fyrstu ca. 45min var ég á réttu pace-i en samhliða því var ég farinn að finna fyrir ógleðinni sem jókst með hverri mínutu. Þegar ég var búinn með 60min á hlaupinu vissi ég að þetta yrði alls ekki minn dagur og fór bara að hugsa um að komast í mark og vona að það myndi duga fyrir Kona sæti. Það er mjög erfitt að lýsa því sem fer í gegnum hugann og tilfinninga rússíbanann sem er í gangi seinni hlutann í þessu maraþoni en það var ein hugsun sem hélt mér gangandi og var það að daginn áður fórum við með Dagnýju Kötlu í Iron Kids hlaupið þar sem hún þaut af stað og eins og gerist nokkuð oft hjá henni fer hún hraðar en fætur leyfa og flýgur á hausinn stendur upp hágrátandi, strax kominn með risa kúlu á ennið og eftir smá faðmlag heldur hún áfram og klárar með stæl. Þessi harka gaf mér mikla orku.

DagnyKatla
Michelle Vesterby og Dagný Katla. Michelle sigraði í Kaupmannahöfn í fyrra og verður í hópi vaskra kvenna í Kona í haust.

Ég kem í mark á 9:00:52, í 4 sæti í mínum aldursflokki og seinna um kvöldið vissi ég að þetta myndi duga fyrir sæti í Kona.

Ég ætlaði aldrei að skrifa þennan pistil og hefur Gísli verið að ýta við mér núna í rúmar tvær vikur um að klára þetta.

Eflaust mun einhver ekki skilja þetta, en ástæðan fyrir því hvað það hefur verið erfitt að koma þessu frá sér er að ég er ekki sáttur með þennan árangur, og fyrstu vikuna eftir keppni átti ég mjög erfitt með að taka við hamingjuóskum með flotta keppni þar sem mér fannst þetta alls ekki vel gert og hálfpartinn skammaðist mín fyrir þetta. Eins var tilfinningin daginn eftir að taka við Kona sætinu mjög blendin því síðast var ég í skýjunum að hafa náð þeim áfanga en núna var þetta mjög súrt og fannst ég ekki eiga þetta skilið eftir svona frammistöðu en inná milli skein í gegn góð tilfinning um að Kona 2018 markmiðið væri enn á lífi.

Síðan keppnin kláraðist hef ég ítrekað skoðað gögnin mín, tímana og annað til að sættast við þetta og einnig til að sjá að þó þetta hafi verið langt frá mínum besta degi að þá var þetta samt ágætis árangur. Kannski er það farið að skína í gegn en ég get verið minn versti óvinur þegar illa gengur því ég loka allt inni og fer mjög langt niðir andlega en Anna kann á mig og hefur hjálpað mér að melta þessa keppni og sjá ljósu punktana.

Einn af þeim er að 2016 fór ég sáttur til Kona en núna er hungrið mikið og tel ég niður dagana til að fá annað tækifæri til að keppa við þá bestu. Við David erum með plan, ég þarf að taka inn meiri næringu/vökva í keppninni og við öll höldum áfram með markmiðið á pall í Kona.

Leiðin mín í Ironman

Leiðin mín að IRONMAN byrjaði í desember 2016. Ég var nýorðinn 28 ára og kominn með gallsteina og á leiðinni í aðgerð til að láta taka úr mér gallblöðruna. Mér var orðið ljóst að þetta gengi ekki lengur og ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum til að hlutirnir myndu ekki versna. Stuttu seinna var Amanda konan mín fengin til að fara með hóp í New York Maraþonið og ákvað ég að fara með. Ég skráði mig hjá sama þjálfara og þjálfar Amöndu og áður en ég vissi af var TrainingPeaks orðið fullt af sundi og hjóli.

Ég hafði ekki synt skriðsund síðan í 9 bekk og því komin rúm 15 ár. Betra er seint en aldrei? Ég fékk Amöndu til að standa á bakkanum og leiðbeina mér aðeins, þegar ég var hálfnaður með fyrstu 25 metrana þá var hún komin úr skónum og tilbúin til að stökkva útí, hún hafði einfaldlega ekki trú á því að ég myndi ná yfir. Ég kláraði eina sprettþraut um sumarið og komst svo í gegnum maraþonið um haustið. Þá var einfaldlega ekki aftur snúið. Ég og Leó vinur minn ákváðum að skrá okkur í hálfan járnkarl sumarið 2018, þangað til að hann komst að því að hann fengi ekki að kalla sig járnkarl eftir hálfan, þá tók hann ekki annað í mál en að fara heilan og varð Köben fyrir valinu. Við tók skemmtilegt ferli sem einkenndist af spennu, kvíða, gleði, svita, blóði og tárum… og mikið af blóti þegar TrainingPeaks var opnað á mánudagsmorgnum og planið skoðað fyrir vikuna.

Við Eleanor

Ég og Eleanor (já ég nefndi hjólið mitt) eyddum ófáum klukkustundum saman á Nesjavöllum, í Hvalfirði, á Þingvöllum og inni í stofu á trainernum og áður en ég vissi af þá var gott sem komið að þessu. Síðasta vikan fyrir keppni var full af miklum tilfinningasveiflum og sveiflaðist ég úr miklu sjálfsöryggi yfir í kvíða og efa um mína eigin getu til að taka rökréttar og góðar ákvarðanir. Það sem ég kveið mest fyrir var sundið, enda mín eina reynsla af víðavangssundi komin úr Laugarvatni og Nauthólsvík. Við flugum út á fimmtudagsmorgninum, ég, Amanda og krakkarnir okkar Aurora og Adrían. Leó hafði mætt deginum áður og tók á móti okkur uppá flugvelli enda ekkert grín fyrir okkur smáborgarana úr Reykjavík að komast með tvær töskur, tvö hjól og tvo spennta krakka áfallalaust í gegnum metroið. Restin af deginum fór í afslöppun og að skrá okkur inní keppnina.

Sund og Expo

Á föstudeginum fórum við niður á Amager Strand til að prófa vatnið. Það var trúlega besta ákvörðun sem við gátum tekið, vatnið var 21 gráða og lofthiti 24 gráður. Það að synda þarna var einfaldlega ekki samanburðarhæft við það að synda heima. Maður þurfti ekki aðlagast vatninu fyrst, það var ekki óþægilegt að anda og ég varð hvorki dofinn á tám, puttum né andliti. Auka flotið frá blautbúningnum og saltvatninu þeytti manni líka áfram og var ég að synda góðum 20 sek hraðar per 100m en í sundlaug heima. Við syntum út að fyrstu brúnni og til baka og ég brosti hringinn þegar ég kom uppúr, allur kvíði fyrir sundinu var horfinn og ég var til í þetta. Á laugardaginn kíktum við á expoið og keyptum það síðasta sem vantaði fyrir keppnina, skiluðum búnaðarpokum og hjólum en annars var bara slappað af. Ég reyndi að fara snemma að sofa en stressið gerði það aðeins erfiðara en venjulega. Ég vaknaði klukkan 2:45. Rúmum 45 mín á undan vekjaraklukkunni. Metroið var troðið af keppendum á leiðinni uppá keppnissvæði og drukknum Dönum á leiðinni heim af djamminu, þetta var frekar kómísk blanda, þangað til einn Daninn tróð sér út um hurð á metroinu með hjólið sitt þegar hún var að lokast og lestin festist í nokkrar mínútur. Ég var við það að líða yfir um af stressi, DNS vegna þess að ég væri fastur í biluðum lestarvagni var ekki á planinu. Lestin fór á stað á endanum og að mæta uppá keppnissvæði var upplifun út af fyrir sig, skiptisvæðið opnaði 6:00 og ég var kominn um 5:50, AC/DC ómaði úr hátalarakerfinu og kynnir með mjög þungan suður-afrískan hreim peppaði upp mannskapinn. Fólk var annað hvort mjög spennt eða mjög stressað og andrúmsloftið var hreinlega rafmagnað.

diðrik1Það kom mér á óvart hversu lítið stressaður ég var inni á skiptisvæðinu. Ég var búinn að plana næringuna vel, ég var búinn að leggja inn vinnuna yfir veturinn og sumarið og þarna var kominn tími til að uppskera. Ég skráði mig með græna sundhettu eða í næst síðasta hollið. Þar sem ég stóð og var að fara að hita upp í sjónum sá ég sæþotu koma inn með einn úr hóp tveimur hollum á undan mér. Það setti smá kvíða af stað en ég náði honum úr mér með því að skella mér útí og taka smá upphitun. Áður en ég vissi af var komið að mér að fara útí, ég hafði skráð mig í sterkari hóp en ég taldi mig geta fylgt en fyrstu 600m var ég takandi fram úr alveg hægri vinstri og náði ég góðu drafti eftir það, þangað til að hann synti svolítið út fyrir braut og ég á eftir. Eftir það var ég draftlaus í smá tíma og þá kom það vel í ljós að mér er lífsins ómögulegt að synda beint ef ég er ekki að elta tærnar á einhverjum og ég hefði klárlega átt að æfa „sighting“ betur. Niðurstaðan var sú að samkvæmt Garmin úrinu synti ég ca 4060 metra á 01:23:46 sem var rúmum 6 mínútum undir markmiði. Kvarta ekki þar, að æfa að synda beint og  taka stefnuna verður ofarlega á dagskrá samt í vetur.

diðrikahjóliSkiptingin yfir í hjólið gekk nokkurn vegin klakklaust fyrir sig, nema þegar ég hrasaði þegar ég var að reyna að komast uppá Eleanor eftir línuna en ég lenti samt standandi. Hjólið fór mjög vel af stað, ég var með plan um að halda ákveðnum hjartslætti og var ég að ná að halda góðum meðalhraða undir þeim hjartslætti… þangað til ég er að horfa á úrið og hjóla ofan í holu á veginum sem verður til þess að gelin mín skoppa öll uppúr töskunni og útum allan veg. Ég negli niður, af hjólinu og hleyp um götuna eins og hauslaus kjúklingur í stresskasti að tína upp gelin mín. Ég var búinn að gera ráð fyrir því að sprengja en ekki þessu. Muna að versla tösku með rennilás, franskur er greinilega ekki að gera sig. Uppá hjólið aftur, vona að ég hafi fundið öll gelin og bruna af stað.

Pissað á hjólinu

Þjálfarinn minn var búinn að segja mér að ef ég þurfi ekki að pissa eftir 90 mín á hjólinu þá sé ég ekki að drekka nóg Nú voru komnir 2:30:00 á hjólinu og mér er ekkert mál, SJITT! Ég hef átt í erfiðleikum með krampa, og svo slæma stundum að ég endaði t.d í sjúkratjaldinu í NY með klakapoka teipaða utan um lærin á mér. Það eina sem ég sá í stöðunni var að bæta hressilega í vökvainntökuna og áður en ég vissi þá var mér virkilega mál. Ég var búinn að ákveða að pissa ekki á hjólið, ég væri eingöngu með það markmið að klára og ég gæti því alveg stoppað á kamrinum. Ég stoppa í síðustu drykkjarstöðinni á hring 1 þar sem það hafði komið sambandsleysi í framskiptirinn hjá mér. Ég hélt áfram að taka vel inn af vökva og varð mér virkilega mál aftur, og engin stoppistöð, ég gerði mitt besta en áður en ég vissi af var ég kominn í þá stöðu að fara af hjólinu og míga útí runna. DQ fyrir að pissa útí runna var ekki í boði svo ég læt vaða á hjólið. Ég er ekki frá því að ég hafi fengið smá samviskubit, það þarf einhver greyið sjálfboðaliði að taka við útmignu hjóli í T2, og viti ekki menn svona 5 mín eftir þá kem ég að drykkjarstöð, for helvede. En þetta var búið og gert og enginn tilgangur að stoppa á kamrinum eftir þetta. Svona eftir á að hyggja og eftir að hafa skoðað gögnin þá held ég að ég hafi verið full passívur á hjólinu og vona að ég eigi slatta inni þar en þar sem markmiðið var eingöngu að klára þá labba ég mjög sáttur frá þessu þar sem ég veit ekki hvernig hlaupið hefði farið hefði ég reynt meira á mig á hjólinu. 6:30:50 lokatími á hjólinu. Ég dreif mig ekki í gegnum T2 heldur tók minn tíma í að ná áttum, fóturinn á mér hafði þrútnað svolítið í hitanum á hjólinu og var ég með töluverðan verk í hægri ristinni og utan á fætinum ca fyrstu 10 km á hlaupinu. Ég losaði vel um skóinn og ég held að hann hafi dofnað eftir það.

Stuðningurinn skiptir öllu

Að hafa Amöndu og krakkana á hlaupabrautinni var ómetanlegt. „Blablabla you‘re an Ironman“ heyrðist úr hátalarakerfinu við markið þegar ég hljóp fram hjá því að sækja fyrsta armbandið mitt af fjórum og langaði mig til að leggjast í jörðina og fara að grenja, ég átti rúma 30 km eftir. Ég byrjaði að krampa uppúr 17 km og byrjaði ég að labba meira og meira eftir því sem leið á hlaupið, ég gat þó alltaf skokkað meðfram Nyhavn nema á síðasta hringnum, þar sem Amanda og krakkarnir biðu eftir mér, ég ætlaði sko ekki að láta þau sjá pabba labba. Í eitt skiptið sem ég fór fram hjá þeim heyri ég í Auroru „Daddy you can do it, I believe in you“, á þessum tímapunkti var ég farinn að efast og gaf þetta mér auka orku. Ég er ekki frá því að þessi setning hafi fleytt mér yfir marklínuna. Síðustu 10km voru erfiðari en andskotinn en ég kom mér yfir þessa línu og tilfinningin að fara yfir niður rauða dregilinn og heyra „Didrik Stefansson you‘re an IRONMAN“ er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.
https://www.facebook.com/plugins/video.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2FIronmanDanmark%2Fvideos%2F261124981175948%2F&show_text=0&width=560

Þessi keppni og vegferðin að henni er eitt það skemmtilegasta tímabil sem ég hef upplifað. Þetta er búið að breyta mér á svo marga vegu og núna verður einfaldlega ekki snúið aftur. Stefnan er sett á Flórída 2019 og að bæta tímana í öllum greinum verulega.

Slysið á Írlandi

Dún Laoghaire 70.3 – Mín önnur hálf-IM keppni sem PRO

 Ég veit ekki alveg hvar skal byrja, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var ekki einu sinni viss um það hvort ég ætti að skrifa sérstaka keppnissögu yfir höfuð frá þessari tilteknu keppni en ég held það sé mikilvægt að ná þessu niður á blað til að hjálpa mér að vinna úr þessu sem og að gefa ykkur hinum innsýn í hvað ég er að hugsa á þessum tímapunkti. Dún Laoghaire 70.3 var líklega ein erfiðasta lífsreynsla sem ég hef lent í – og ég er því miður ekkert að ýkja þegar ég segi það. Ég hef alltaf reynt að sjá jákvæðu hlutina við allar keppnir hjá mér, sama hvort það gangi vel eða illa og yfirleitt get ég sett hlutina upp á svona nokkuð hlægilegan máta eftirá þegar ég skrifa keppnissögur og geri upp það sem illa fór. Ég ætla að reyna mitt besta við að gera það líka núna en á sama tíma ætla ég að segja frá viðburðum helgarinnar án þess að vera að skafa eitthvað af hlutunum. Þríþraut er „brútal sport“ á marga vegu en getur verið sérstaklega „brútal“ í einstaka tilfellum. Þetta sem kemur hér á eftir er eitt þeirra og vona ég að sem fæstir muni nokkurn tímann þurfa að upplifa eitthvað svipað og ég gerði. En við byrjum á byrjuninni.

Eftir að hafa rekist nokkuð harkalega á vegg, næringarlega séð, í keppninni í Gdynia ákvað ég að gera ekki sömu mistök og þá og passa upp á matarplanið dagana fyrir keppnina sem og á keppnisdag. Þetta fól í sér að hætta að hugsa um kaloríur og þyngd og einblína bara á tilfinningu og vellíðan. Ég borðaði vel dagana fyrir keppni og leið alveg einstaklega vel þegar ég vaknaði á sunnudaginn. Það var svolítið kalt þegar við Helena fórum út í leigubíl kl 05:00 um morguninn en spáin fyrir daginn var góð svo við vissum að það myndi nú rætast úr þessu. Við vorum komin vel tímanlega á staðinn fyrir startið og ég hafði góðan tíma til að fara yfir skiptingar í síðasta sinn og hita vel upp. Sjórinn var 16 gráður svo það var útlit fyrir þægilegt sund en þó voru nokkrar öldur sem gerðu sundið út eftir fyrsta kílómeterinn nokkuð strembið. Brautin var einföld, við syntum bara út meðfram baujum að fyrstu beygju og svo var þetta bara svona einfaldur „kassi“ eða svo. Eftir að hafa hitað upp í sjónum í um 10 mínútur vorum við kölluð aftur að landi og sagt að það væru 10 mínútur í start. Eins og vanalega leið þessi tími nokkuð hratt og áður en ég vissi var komið að niðurtalningu: 5…4…3…2…1…BAM. Út í vatnið hentumst við og ég fann strax að þetta ætti eftir að vera góður dagur fyrir mig. Það voru nokkrir sterkir sundmenn í hópnum svo ég ákvað að keyra aðeins á þetta til að byrja með til að vera viss um að vera í fremsta hópnum. Áður en langt um leið vorum við að því er virtist bara 3 fremstir: ég, Andy Potts og Elliot Smales. Þeir tveir fóru að lokum alla leið og tóku 1. og 2. sætið þann daginn. Við syntum saman alveg út að fyrstu snúningsbauju en um 50 metrum áður en við tókum beygjuna fannst mér ég geta gefið aðeins í og því gerði ég það. Ég fann hvernig ég sigldi fram úr þeim frekar auðveldlega og náði mjög „clean“ snúningi við endabaujuna. Ég hélt taktinum alveg út sundið og vonaði að ég hefði náð að mynda smá bil á þá fyrir aftan. Það kom hins vegar á daginn að þeir höfðu bara farið beint í draftið hjá mér og héngu í löppunum á mér alveg þangað til við kláruðum sundið 3 saman, um það bil 2-3 mínútum á undan næstu mönnum. Sæll. Þetta stefndi í góðan dag!

IMG_20180824_104542_346Upp úr fórum við og beint inn á skiptisvæði. Ég var helst til of lengi að fara úr blautgallanum og tapaði aðeins forystunni en kom þó út af T1 nokkrum sek á eftir Andy Potts. Ég ákvað að halda álaginu á hjólinu nokkuð stýrðu en var yfirleitt í kringum 300W, sem er sirka 87-88% af FTP. Kannski svolítið hátt effort en mér leið vel og keyrði því bara á það. Ég hélt Andy í augsýn nokkuð vel fyrstu 15-20 km en svo gaf hann aðeins í og eftir 35km var hann kominn um 2 mín á undan. Brautin var mjög hæðótt og ég held í alvöru að ég hefði verið betur settur á racer með 40mm gjarðir að framan og aftan heldur en á TT með disk. Ég var með 11-28 kasettu að aftan og eingöngu 52-36 hringi að framan en þurfti samt að henda út um 400W í sumum brekkunum einfaldlega til að stoppa ekki. Ég veit ekki alveg hvernig sumir af strákunum gerðu þetta með compact kasettu og 55-42 en það hefur ekki verið auðvelt.

Smátt og smátt fikruðum við okkur upp hverja brekkuna á fætur annarri með einstaka köflum sem lágu niður á við í gegnum hlykkjótta sveitavegi sem líktust frekar malarvegi á sumum köflum heldur en malbiki. Mér leist ekkert á blikuna á tímabili þegar hjólið hristist svo mikið að það lá við að ég nánast missti allt vatnið úr aero-brúsanum hjá mér. Að lokum var komið að síðustu brekkunni – í kringum 50 km voru búnir af hjólinu á þessum tímapunkti en þessi brekka var það löng og brött að ég sá alla þá 4 sem á undan mér voru þrátt fyrir að bilið væri um 6 mínútur í fremsta mann. Ég var orðinn nokkuð súr þegar að þessu kom en þjösnaðist upp á þrjóskunni en passaði þó að sprengja mig ekki alveg. Meðalaflið var ennþá í um 300W hér og útlit fyrir að ég næði að halda því vel út það sem eftir væri og því var ég nokkuð sáttur á þessum tímapunkti, sitjandi í 5. sæti í heildina. Þegar upp var komið tók við allt annað veður en hafði verið fyrri hluta leiðarinnar. Skyndilega keyrðum við inn í þoku og hífandi rok og var á tímabili erfitt að halda sér á veginum. Ekki hjálpaði til þegar það byrjaði að rigna nokkuð vel og útsýnið var þá orðið um 25 metrar fram fyrir mig og ég þurfti stanslaust að þurrka vatnið af hjálminum til að sjá betur út. Það er ekkert allt of þægilegt að keyra áfram á 40 km hraða með eins lítið skyggni og var ásamt því að það var mikið rok og rigning – ekkert ósvipað íslensku sumri 2018.

Loks lá leiðin niður á við og vorum við hér komnir um 53-54 km inn í hjólaleiðina. Úff, erfiðasti parturinn búinn og nú var bara að skila sér til baka á skiptisvæðið og hamra hlaupið. Eða ég hélt þetta yrði svo einfalt. Þegar ég kom yfir eina hæðina gerði mjög mikið rok og voru sviptivindarnir það hættulegasta – stanslaust að rífa í diskinn hjá mér og hjólið í heild. Vindurinn stóð ská aftan á mig þannig hann bæði ýtti mér áfram niður brekkuna og hafði áhrif á jafnvægið. Vegurinn var blautur þar sem rigningin sem við höfðum rétt lokið við að hjóla í gegnum var nýbúin að fara yfir þetta svæði og því var gripið ekki eins gott og í þurru. Ekki hjálpaði svo til að vegurinn lá í hlykkjum niður brekkuna og var í raun bara einbreiður með bundnu slitlagi. Ég reyndi eins og ég gat að fara varlega þarna og var með fullan kraft á bremsunum þegar að ein sviptivindhviðan tekur svoleiðis í hjólið hjá mér að ég fipast og framdekkið hrekkur út af veginum hægra megin – Shit. Þar sem ég fer út af er svona smá „öxl“ með möl svo ég hafði smá tíma til að líta betur fram og sjá hvað var í boði áður en ég áttaði mig á því að þetta væri nú líklega búið. Framundan var engin öxl með möl, þar sem ég er staddur á hægri öxlinni og vegurinn er að hlykkjast til hægri. Um 20-30 metrum fyrir framan mig er svona skurður eða dæld í grasinu en ég hafði smá tíma til að gera mér allavega grein fyrir því hvað væri að fara að gerast. Ég var á 56 km/klst hraða skv. Garmin Edge tölvunni þegar framdekkið dettur ofan í dældina og áður en ég veit af er ég í loftinu. Ég snýst einn hring yfir mig og skrapa öxlinni í jörðina áður en ég lendi í grasinu með lappirnar fyrst í nokkurn veginn sitjandi stöðu. Líklega hafa vöðvarnir hjá mér verið allir spenntir í einu á sama tíma því ég finn hvernig líkaminn stífnar allur upp og á sama tíma og ég lendi fæ ég hrikalegan þrýsting á bakið, smá brak og fetta á mjóbakið og svo slengist ég yfir mig hálfan hring í viðbót og lendi kylliflatur á malbikinu. Sársaukinn var sá mesti sem ég hef fundið á ævi minni. Mig verkjaði alstaðar en þó mest í bakinu. Næsta mínúta eða svo fór mest öll í að öskra, bæði úr sársauka en líka úr hræðslu (svona eftirá að hugsa) þar sem ég taldi næsta öruggt að ég hefði brotið eitthvað miður skemmtilegt miðað við sársaukann. Fljótlega kom næsti keppandi fram úr og hann kallaði eitthvað á mig en ég var ekki í standi til að svara honum. Ég byrjaði á því að liggja flatur og reyna að slaka á, ná andanum aftur og sjá hvort ég fyndi fyrir löppunum. Þegar ég sá að ég gat hreyft lappirnar fór ég næstum að hlæja þar sem ég var feginn því að hafa ekki lamast við þessa byltu. Ég fór að hreyfa fleiri líkamsparta og smám saman náði ég með herkjum að koma mér yfir á magann. Þá komu tveir hjólamenn í viðbót fram úr og ég kallaði á þá að ná í hjálp neðar í brautinni og senda einhvern upp eftir. Þeir jánkuðu því og héldu áfram niður eftir. Ég vann mig frá liggjandi magastöðu og upp á hnén og þegar ég sá að ég gat það þá stóð ég upp. „Okok, ég get allavega staðið og gengið“ hugsaði ég þegar ég fikraði mig út í móa til að athuga hvort ég sæi hjólið. Hvar var nú blessað hjólið? Ég sá að staðurinn þar sem ég hafði farið út af var um 5 metrum ofar í brekkunni samanborið við þar sem ég hafði lent og það var ekki fyrr en ég hafði gengið aðeins inn í grasið utan við brautina að ég sá hjólið öðrum 5 metrum neðar í brekkunni. Þvílík og önnur eins flugferð sem það hafði fengið. „Jæja, ætli ég geti kannski haldið áfram þar sem ég virðist geta gengið, ef hjólið er í lagi?“ hugsaði ég algjörlega kexruglaður eftir fallið. Hvernig mér datt í hug á þessum tímapunkti að mögulega halda áfram eftir svona byltu get ég eiginlega ekki skilið. Þeim vonum var þó fljótlega kippt undan mér þegar ég kom auga á framgjörðina. Algjörlega í steik og stýrið skakkt. Annað virtist þó vera í lagi en það verður þó að bíða frekari skoðunar. Ég hirti því hjólið, Garmin tölvuna og gjörðina úr grasinu og stóð svo drykklanga stund úti í vegkanti og reyndi að vara aðra hjólamenn sem komu við hættunni. Að lokum gafst ég upp á því að bíða þar sem mér var farið að vera nokkuð kalt og byrjaði að labba niður eftir í átt að næsta bæ.

Ég hafði ekki gengið meira en 150 metra þegar brautarstarfsmaður kom keyrandi á móti mér á mótorhjóli. Hann sagði mér að sjúkrabíll væri á leiðinni til að sækja mig og gaf mér vatn og smá næringu. Ég var farinn að skjálfa mjög mikið fljótlega eftir að hann kom og lánaði hann mér regnbuxur sem hann var með yfir sínar eigin og setti mig í jakkann sem hann var í. „Yer lips look blu“ sagði hann við mig og ég bara kinkaði kolli og sagði að mér væri orðið nokkuð kalt. Hitinn af mótorhjólinu hélt mér aðeins heitum og svo hjálpuðu buxurnar og jakkinn hans til einnig. Um 10 mínútum síðar kom sjúkrabíllinn til okkar og þar tóku tvær einstaklega góðar manneskjur við mér. Ég fékk að vita að súrefnismettunin hjá mér væri mjög lág og líkamshitinn nálægt því að detta undir 35 gráður. Ég fékk því súrefnisgrímu í bílnum hjá þeim og nóg af teppum og svona einangrandi filmum til að ná upp hita aftur. Ég hélt áfram að skjálfa í nokkurn tíma í viðbót og var mér sagt að það væri bara sjokk eftir byltuna og að adrenalínið væri að ganga niður.

received_1774580749310243Leiðin niður að svæði tók ekki það langan tíma og fljótlega var ég kominn inn í sjúkratjaldið og í hendur fleiri góðmenna sem hlúðu að mér. Læknirinn á svæðinu athugaði með hrygginn á mér og gekk úr skugga um að ég væri ekki brotinn þar og líklega hefði ég sloppið merkilega vel. Kannski bara marin/brákuð rifbein og tognaðir bakvöðvar. Ekkert sem ætti að hindra það að taka þátt í keppni aftur eftir 3 vikur, spurði ég, og uppskar hlátur og bros frá öllum í kring. Ég sá nákvæmlega hvað þau voru að hugsa og ég skil þau vel, einhver snarbilaður gaur sem er nýbúinn að næstum brjóta á sér bakið, getur varla staðið sjálfur úr sársauka og talar um að fara að keppa aftur í hálfum járnkarli þremur vikum síðar.

Ég eyddi þó nokkrum tíma í sjúkratjaldinu þangað til hitinn hjá mér var orðinn eðlilegur aftur og þá fékk ég íbúfen verkjatöflur og var jafnframt sagt að ef ég færi að finna fyrir einhverju óeðlilegu þá ætti ég að koma strax aftur. Þannig labbaði ég út, fékk mér pasta og hélt svo áfram út á marksvæðið til að reyna að finna Helenu. Það hefur líklega ekki verið neitt erfitt að koma auga á mig á þeim tímapunkti, þar sem ég labbaði eins og ég væri fastur við spýtustaur og allur þakinn í gylltri og silfraðri álfilmu. Svona svipaðri og maður fær eftir að hafa klárað langar keppnir til að halda uppi hita. Helena kom auga á mig um leið og við héldum upp á hótel um leið og ég fékk hjólið mitt aftur. Gaurinn sem kom með hjólið var svo hissa að sjá eigandann standandi að hann tók mynd af sér með mér og setti á Instagram.

received_666586523707658Restin af deginum fór í að gera að minniháttar sárum og tína nálar úr fótum og handleggjum en ég hafði lent í einhverjum runna í byltunni sem gerði það að verkum að yfir 60 pínulitlar nálar festust í mér (já við erum að telja) og þær eru enn að koma upp núna 2 vikum síðar. Ég get glaður sagt að ég er að fara til Þýskalands næstu helgi til að keppa í 70.3 Rugen, aðeins 3 vikum eftir að hafa nánast gert út af við allar vonir um að geta keppt í þríþraut aftur. Ég er með smá verk í rifbeinum að framan og aftan en ekkert sem ég ætti ekki að ráða við. Ég hef ekki hlaupið í næstum 2 og hálfa viku núna en það skiptir engu máli. Markmiðið er að klára þessa keppni og læra helling fyrir næsta season. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sem skilgreinir góða íþróttamenn er ekki það hvernig við bregðumst við og högum okkur þegar vel gengur, heldur hvernig við tökumst á við leiðinlegu augnablikin og þær aðstæður þar sem það virðist eins og allt sé á móti manni. Það að geta brosað framan í óhöppin og jafnvel hræðilegar aðstæður eins og þær sem ég lenti í á Írlandi gerir okkur bara sterkari á lengri tíma litið. Ég reyni mitt besta við að vera sú týpa af íþróttamanni og vonandi get ég fært góða sögu frá Þýskalandi næstu helgi, eða allavega sögu þar sem hjólið gengur „eins og í sögu“ 😉

Sigurður Örn Ragnarsson

 

Leiðin til Kona

Geir Ómarsson segir frá:

Eftir að ég kláraði minn þriðja járnkarl á 11 mánuðum í Challenge Roth 2016 var planið að taka járnkarlslaust ár árið 2017. En eins og þeir vita sem klárað hafa svona keppni þá er þetta stórkostlega ávanabindandi, sérstaklega ef maður veit að maður getur gert ennþá betur (sem maður getur alltaf). Málið var að þrátt fyrir að hafa náð besta tíma Íslendings í vegalengdinni í Roth þá varð ég í 4. sæti í mínum flokki. Mig langaði semsagt fjári mikið á verðlaunapall og ég var 17 sekúndum frá því í Roth að hlaupa maraþonið á undir 3 tímum. Þetta varð að laga. Ofan á það þá var kominn töluverð pressa frá stelpunum á heimilinu að fara aftur á heimsmeistaramótið á Hawaii. Án gríns. Þær plötuðu mig í þetta. Ironman Barcelona varð fyrir valinu þar sem að sú braut er hröð og flöt en samkeppnin þar getur aftur á móti verið töluverð.

Undirbúningur

Undirbúningur fyrir Barcelona gekk mjög vel fyrir utan leiðinda lungnabólgu sem ég fékk 10 mánuðum fyrir keppni en ég var sem betur fer nokkuð snöggur að jafna mig eftir hana. Ég fór samt mjööög varlega af stað og tók langt tímabil þar sem ég æfði á mjög lágu álagi, sem ég reyndar geri alltaf snemma á undirbúningstímabilinu. Þetta geri ég til að þjálfa líkamann í að nýta fitu sem orkugjafa og á sama tíma minnka ég kolvetnin í fæðunni, sérstaklega unnin kolvetni (sykur og hveiti). Einnig er það liður í að toppa ekki of snemma og vera ekki útbrunninn áður en keppnistímabilið hefst. Þegar nær dregur keppnistímabilinu hér heima jók ég svo ákefðina í æfingum og lagði mikla áherslu á sundið og hjólið þar sem að þar taldi ég mig eiga mest inni, þ.e. æfa veikleikana. Æfingar gengu vel og ég var klár í slaginn.

Keppnin í Barcelona gekk eins og í sögu. Ég skipulagði keppnina mjög vel undirbjó mig ekki síst andlega og öll plön gengu 100% upp og eiginlega mun betur en það. Fyrsta sætið í aldursflokki var raunin á nýju meti ef met 8:39:34 skyldi kalla :-), maraþon á 2:57:09 og miði á heimsmeistarmótið á Kona-Hawaii 2018. Aloha!

GeirÍbarcelona

Æfingar

Strax eftir keppni byrjaði undirbúningur fyrir Hawaii. Það fyrsta var að skoða tíma úr mínum aldursflokki undanfarin ár og setja sér markmið. Síðast þegar ég fór til Hawaii 2015 þá fór ég á 10:26:17. Keppnin það ár var frekar hæg m.v. önnur ár, ég þreyttur eftir IM Köben 7 vikum áður en nú hef ég ekki þá afsökun og að auki tel ég mig mun sterkari í öllum greinum í dag og ekki síst andlega sem skiptir gríðarlegu máli í svona langri og erfiðri keppni. Markmiðið núna er að fara undir 9:30 sem ætti að gefa topp 10 í aldursflokki en þá þarf allt að ganga upp. Sundið verður mjög krítískt því þrátt fyrir ótrúlega kóralla, höfrunga og Nemofiska þá er sundið á Hawaii erfitt. Sundið 2015 gekk illa 1:19 en það mun ekki endurtaka sig og markmiðið er að vera nálægt 1:05 í ár. Hjólið nálægt 5 tímum og svo hlaup um 3:10 sem ásamt skiptitímum ætti að vera undir 9:30.
Lykillinn að þessu er að synda mikið síðustu vikurnar 12 vikurnar, lykilæfingar á hjólinu eru löngu 5-6 tíma æfingarnar sem ég tek einu sinni í viku og löngu hlaupaæfingarnar á 2,5-3 tímar á frekar lágum hraða, nema einstaka sem ég tek á nálægt keppnishraða. Aðrar mikilvægar æfingar eru tempó æfingar en löngu æfingarnar eru númer 1,2 og 3 að mínu mati. Aðrir þættir sem skipta miklu máli er að fá nægilega hvíld á milli æfinga, sofa vel, fara í nudd, holl og góð næring og fullt af litlum atriðum eins og uppfærslur og búnaður á hjólinu, rakaðir fótleggir og fleira sem skila sekúndum hér og þar þegar í keppnina er komið. Hitinn og rakinn á Hawaii getur verið rosalegur, rokið oftast mikið og hlaupið nokkuð hæðótt. Það er pottþétt að þetta verður ógeðslega erfitt en þannig á þetta líka að vera og ég er algjörlega tilbúinn að takast á við það og mikið rosalega verður þetta gaman.

Geir og fjölskylda
Arna og Freyja, Geir og Hrefna.

Ég á frábæra fjölskyldu sem styður mig 100% í þessu brölti. Ég get ekki hugsað mér að fara í svona mikilvæga keppni án þess að Hrefna, Arna og Freyja komi með og mamma og pabbi koma líka með í þetta skiptið sem verður frábært. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vita af þeim á fyrirfram ákveðnum stað í brautinni og svo að taka á móti mér í markinu í lokin.

Ekki skemmir fyrir að Viðar Bragi, Rúnar Örn og Raggi Guðmunds eru allir á leiðinni til Kona þ.a. þetta verður þvílík veisla. Stelpur! Það þarf að laga kynjahlutfallið á næsta ári, hver ætlar 2019?

Planið hjá mér er að taka járnkarlslaust ár 2019 en ég veit ekki hvort að ég fái það samþykkt á næsta fjölskyldufundi. Þið ráðið hvort að þið trúið þessu ;-).

Bæting í Kaupmannahöfn

Hvernig segir maður keppnissögu? Mér finnst gott að skrifa nokkur orð til að muna betur upplifunina. Eftir Ironman Barcelona var ég ekki alveg viss að taka heilan strax aftur. Skráði mig í hálfan Ironman í slóvakíu í maí. Svo þegar við Birna María Karlsdóttir vorum á leiðinni norður um páskana viðra ég þessa hugmynd að langaði að nýta þetta góða form eftir að myndi klára hálfan í maí. Lagði til IM köben og mín jánkaði strax. Það kom mér opna skjöldu að hún skildi jánka strax.. ég skráði mig því í Staðarskála í hrútafirði áður en hún myndi fatta hvað hún hafði gert… Það sem ég er heppinn að vera giftur henni.. Svona æfingar sem fylgja svona ,,vitleysu“ er ekki fyrir hvern sem er að skilja. En þetta gefur manni svo ógeðslega mikið að fá öll þessi velíðunar hormón eftir æfingar að þið skuluð ekki prófa þetta 😁 Þannig það byrjaði sami rúnturinn.. hjóla Hvalfjörðinn.. hjóla til Sunny kef, hjóla til Þorlákshafnar.. hlaupa útum allar trissur.. synda í Hafravatni og Nauthólsvík.. taka pulsu rúnta á Krísuvíkur vegi.. hitta frábært fólk í Ægir3 og vera með skemmtilegu vitleysingunum í þríþrautadeild Kiwanis klúbbs Mosfellsbæjar.

Þegar nær dróg keppni fann ég að formið var orðið mun betra en í Barcelona. Svo ég reyndi að stýra væntingunum. Draumurinn er auðvitað að vera undir 10klst og á góðum degi ef allt gengi upp gæti það gengið.. Dagarnir í Köben voru góðir. Var í góðu yfirlæti hjá Kristin Anna Einarsdóttirfrænku systur mömmu og Palla. Tók góðar æfingar og heimsótti gamla skólan minn þegar ég var 12 år gammel og við bjuggum í Trørød. Færði mig svo uppá hótel nálægt keppnisstað daginn fyrir keppni.

Ég var óvenju rólegur fyrir þessa keppni. Ekki sama stressið. Veit að Birna þolir ekki þessa samlíkingu.. Alveg eins og þegar við eignuðumst barn númer tvö. Þá var ég sultu slakur eins og nú. Birna kominn með talsverða samdrætti og við á leiðinni uppá spítala.. segi við hana að ætla ekki gera sömu mistök og við fyrsta barn, að taka ekkert nesti. Þá var ég mjög svangur og vantaði samlokurnar mínar og monster… svo ég stoppa á N1 með hana öskrandi.. segi við hana: þetta er alltí lagi barnið kemur ekki strax. Ætla ná mér samloku, súkkulaði og kók og monster.. vilt þú eitthvað.. B: Drífðu þig! Í hvössum tón. Því gekk þetta mun betur hér í annað skiptið. Svaf betur Og náði að njóta mun meira.

Sund 3800 metrar

Það var fínt veður á keppnisdag. 21 gráða og 4-7m/s suðvestanátt. Smá gárur í sjónum. Hefði getað verið verra. Sundið gekk framar vonum. Skráði mig í hraðara hólf og viti menn.. hélt mig í þeim tímaramma þó ég synti næstum í vitlausa átt og stúlka á kajak bankaði í hausinn á mér og benti mér á rétta leið. Náði drafti svona helminginn af tímanum. Kitlaði einn mann svo mikið að hann stoppaði og öskraði á mig. Held að hann hafi sagt: hvad fand laver du! Ég stefndi á 1:15klst en var 5 min betur. Lenti samt í undarlegum atburði. Þegar maður syndir svona. Gengur mér illa að halda stefnu. Geir var búinn að tala um brýr og aðra hluti til að stefna á. Gleymdu því…. mig minnti að það væru 2 eða 3 brýr á útleið og 3 eða 4 til baka.. ótrúlegt að hafi þetta ekki á hreinu.. svo syndi ég og syndi.. og aldrei finnst mér ég snúa við.. ég skildi þetta ekki.. svo kemur 5 brúin og ég tel mig ekki hafa ennþá snúið við.. ég var farinn að halda að myndi lenda á bellavue ströndinni þar sem pabbi sendi mig, systkini mín og Grétar frænda forðum daga.. árið 1993 að sækja íspinna á útvarpsstöð sem var að senda út á ströndinni.. íspinnarnir voru banana smokkar.. eignaðist mína fyrstu 30 smokka þarna.. 12 ára. Auðvitað þurftu ég og gretar að opna einn inná baðherbergi heima.. blása upp og svona.. nema litla systir Kristrún kallaði yfir allt hús: það er banalykt inná baði.. men..
Allavega. Ég hélt þegar ég snéri við eftir 3000m í sundi að loksins væri ég að verða hálfnaður. Shit hvað ég dansaði í vatninu þegar fattaði hið rétta… eitthvað slökknaði á mér.. sennilega fóta ofskynjunarsveppur í kítli tánni sem ég fékk í mig.

EinarSigurjónshjól

Hjól 180 km

Skipti svæði gekk vel. Stökk uppá hjól og gaf í. Hjólið gekk mjög vel. Talsverður vindur en í hagstæða átt. Hjólaði framhjá Bellevue stranden.. fékk engar gjafir.. hjólaleiðin er miklu meira rúllandi en í Barcelona. Ekki eins hröð. En að máli málanna…
Í Barca reyndi ég að pissa á hjólinu, gekk ekki. Gat haldið í mér fram að hlaupi.. núna.. gleymdu því. Var gjörsamlega að farast í þvagblöðrunni.. Var farið að hafa áhrif á hjóla læri.. svo leit aftur fyrir mig.. langt í næsta. Lét mig renna.. reyndi að pissa.. þetta er ekki auðvelt skal ég segja ykkur.. svo kom þetta.. golden shower.. nema ég pissaði svo mikið og lengi að næsti dúddi var mættur á eftir mér. Duddi með grimma rödd: what are you doing.. hann vissi það svo sem. Ég: the bike is leaking.. svo setti ég í næsta gír og strauaði áfram.. enda svona 500gr léttari.. újé.. djöfull leið mér vel þá.. jebb.. ég pissaði á mig og er stolltur að vera kominn í klúbbinn.. þarf reyndar að mastera þetta betur 😉

Maraþon

Þá varð það hlaupið. Hafði meðvitað hægt aðeins á mér til að vera betur í stakk búinn fyrir hlaupið. Var frekar ferskur og hélt mun betra pace en í Barca. Var enn undir 5:00 pace þegar var hálfnaður og það hefði skilað sub10 klst. En eins og ég hef glímt við í öllum löngum hlaupum.. þá krampa ég.. aftan í hamstring hægra meginn. Það sama gerðist í kringum 25km og því hægðist verulega á mér. Eigilega varð hlaupið mun erfiðara en í minningunni í barca.. sem er mun flatari líka.. ég eigilega varð mjög leiður þegar sá að myndi ekki ganga að ná sub10.. en það gleymdist þegar í mark var komið. Segi eins og Geir þjálfari.. þríþraut verður fíkn. Þvílíka vellíðunnar tilfinningin sem gerir þetta allt þess virði. Að setja sér háleit markmið og standast þau gefur manni ótrulega mikið í þessu lífi.. meðan engin veit hver tilgangur lífsins er.. fullt af tilgátum. Þá geri ég þetta.. kannski í minni skömmtum á næsta ári.. ég meina.. Ná Birnu í góðan bíltúr.. og allt getur gerst. En ég segi eins og áður. Eigðu góðan maka eða ekki eiga maka. Þá er hægt að fara í svona. En frúin fær bestu þakkirnar.. þá er Ægir3 með besta þjálfarann. Takk fyrir stuðninginn og æfingarnar Geir Ómarsson. Nýliðanámskeið hjá ægir3 er fimmtudaginn 6. September í fundarsal á 2. Hæð í laugardalslaug.
Hvað næst? Óákveðið en ekki hættur..

EinarSigurjónssonKaupinh1

Í stuttu máli:

3.8 km sund – 1 klst 10 min 
180 km hjól – 5 klst 8 min – 35 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 38 min – 5.12 min með hvern 1km
Heildartími með skiptisvæði : 10 klst 5 min
57 sæti af 263 í aldursflokki
291 sæti af uþb 2500 skráðum

Hamfarasaga nýliðans

Ég er ekki íþróttakona.
Þess vegna er erfitt að útskýra stundarbrjálæðið sem heltók mig þegar ég skráði mig í sprettþraut Þríþrautarsambandsins í Kjós (sem ég nefni Járndreng). Ætli það sé ekki blanda af hvatvísi, áhættusækni og ævilangri minnimáttarkennd gagnvart öllu afreksíþróttafólkinu í fjölskyldunni sem þar hafi spilað sterkast inn í. Í öllu falli skráði ég mig, mætti og þreytti þessa snarbrjáluðu keppni og sé ekki eftir því. Það er jú ekkert minna en tjúllun að flétta saman þremum níðþungum íþróttategundum svo úr verður sársaukafull þrekraun sem minnir á fæðingu eða annars konar hreinsunareld. Enda sýnist mér bara veljast væntumþykjanlegir brjálæðingar í þetta sport, í það minnsta var hópurinn sem mætti mér á morguni keppnisdags bæði líflegur og vingjarnlegur.

Búningsherbergið
Guðrún Sóley mætti vel undirbúin og hafði búningsherbergi með sér í kassa.

Dagurinn hófst á morgunmat. Þar fékk maður smjörþefinn af kvalræði dagsins því það er erfitt verk að troða ofan í sig mörghundruð auðmeltum hitaeiningum fyrir allar aldir. Ég gerði samt mitt besta og mokaði í mig möndlusmjöri og banana svo lá við uppköstum.

Að morgni dags var haldinn fundur til að upplýsa keppendur um ferlið, sem var bæði gagnlegt og bráðnauðsynlegt fyrir byrjanda eins og mig. Aðstæður voru ágætar, örlítill grámi og gola en það kom ekki að sök. Eftir því sem nær dró keppni jókst fiðringurinn í maganum, allt í kringum mig voru Adonis-legir íþróttakappar að setja saman flókinn keppnisgalla með vönum handtökum. Eins og fram hefur komið er ég er algjör viðvaningur í þríþraut og fékk því næstum allar græjur að láni. Það tók mig drjúgt korter að troða mér í blautbúning og aðrar græjur sem þurfti til sundsins. Ég var rétt svo búin að toga sundgleraugun niður á trýnið þegar flautað var til leiks og við busluðum af stað. Hitastig Meðalfellsvatns var um 13’c og beit vel í fyrstu mínúturnar, en vandist furðu fljótt. Sundkappatorfan var snögg að taka fram úr mér meðan ég silaðist áfram með bringusundtökum sem voru kennd í barnaskóla. Einhvern veginn gekk þetta þó og ég komst í land. Þar biðu indælir áhorfendur sem hvöttu til dáða meðan maður skakklappaðist að hjólasvæði, togaði sig úr blautbúningi með gegnfrosnum höndum og hófst handa við hjólreiðar. Þó ég iðki spinning af kappi hef ég ekki sest á reiðhjól í 12 ár. Ég ákvað í aðdraganda keppninngar að vænlegast væri að spara rassinn alveg fram að keppni. Ég var því að hjóla í fyrsta sinn, á ókunnu lánshjóli og rásaði um meðan ég reyndi að finna út úr því hvernig ósköpunum maður skipti um gír. Fljótt fann ég samt taktinn og reyndi að halda eins hröðu tempói og mér var frekast unnt með vind í fangið og vitlaust stilltan hjálm. Það var ekkert minna en yndislegt að þeysa um Hvalfjörðinn, mæta nokkrum hestum og einni og einni kú og njóta náttúrunnar. Kílómetrarnir 20 voru fljótir að líða en lærin voru því fegin þegar ég kom í mark.

Einn af stærstu kostum þríþrautar er hvað manni léttir þegar einum kafla lýkur og annar tekur við, manni leiðist aldrei. Ég losaði mig við hjól og hjálm og skokkaði af stað. Aldrei nokkurn tíma hefur mér liðið eins og jafn hægfara, illa smurðum traktor eins og á fyrstu metrum þessa „hlaups“. Eftir hraða hjólreiðanna virkar hlaupahraði eins og snigilstempó, en sem fyrr vandist það eftir stutta stund. Þessa 5 kílómetra þræddi ég á hreinni undrun yfir því að ég væri í raun og veru komin í síðasta kafla þrautarinnar. Mér hafði fram að því aðeins þótt fjarstæðukenndur möguleiki að ég gæti í raun og veru komist í mark, en nú glitti aldeilis í endalínuna. Ég ákvað að njóta eins og ég mögulega gat og hlaupið varð furðu ánægjulegt. Eftir endasprett þar sem allt var lagt í sölurnar tók á móti mér brosmildur hópur, hellingur af hæ-fævum og einskær gleði. Þreytan var ljúf og góð. Síðan tók við frekara bananaát, spjall og frágangur. Það var ágætis verkefni að tína saman spjarir, græjur og dót sem maður hafði þeytt um allar trissur meðan á keppni stóð. Allt small þetta að lokum og ég gekk hamingjusöm frá keppnisstað.

Alltaf gaman að koma í mark í þríþraut!

Þó það sé í besta máta óæskilegt að fara óundirbúinn og glórulaus í keppni sem þessa, var upplifunin engu að síður frábær. Svona keppni minnir mann á frelsið sem fylgir því að búa í frískum skrokki, geta hreyft sig og spriklað og notið íslenskrar náttúru. Keppnin tengir mann rækilega við náttúruöflin og gefur manni snertingu við umhverfið sem er engu lík.

Ég vil þakka kærlega fyrir mig; alla hjálp, græjulán, hvatningu og gleði.
Aftur að ári! (kannski)

Guðrún Sóley Gestsdóttir

Frá Jönköping á heimsmeistaramótið í Nice

Hjördís Ýr Ólafsdóttir segir frá:

Aðdragandinn

 Síðasta haust tók ég þátt í Ironman 70.3 Dublin. Það var eiginlega skyndiákvörðun hjá mér eftir að hafa þurft að hætta keppni á Laugarvatni vegna kulda, en ég hefði ekki verið sátt með að ljúka árinu þannig. Þrátt fyrir mikið bakslag á Laugarvatni þá náði ég mér þokkalega fljótt og gekk mjög vel í Dublin. Náði 2. sæti sem tryggði mér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Ironman 70.3 í Suður Afríku sem haldið er 1. September næstkomandi. Þegar maður tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramóti þá kemur lítið annað til greina en að fara. Fyrir þá sem þekkja fyrirkomulagið ekki þá virkar þetta þannig að aðeins örfá sæti eru fyrir hvern aldursflokk í hverri keppni, t.d. voru einungis 2 sæti fyrir minn aldursflokk (35-39) og oft bara einungis pláss fyrir fyrsta sætið. Þú verður að ákveða þig á staðnum og borga keppnisgjald, ef þú þiggur ekki sætið fær næsta sæti fyrir neðan keppnisréttinn og svo koll af kolli.

Núna í ár ákvað ég einungis að keppa erlendis þar sem ég var ekkert allt of spennt að keppa heima eftir síðasta sumar og svo hef ég takmarkaðan tíma þar sem ég vinn vaktavinnu og oft um helgar. Einnig þarf ég tíma til að sinna börnunum mínum sem eru 5 og 9 ára. Keppnin sem ég var að ljúka í Jönköping átti því eiginlega að vera undirbúningur fyrir keppnina mína í S-Afríku í stað tímabils á Íslandi því ég bjóst ekki við að fá keppnisrétt aftur, og þá á heimsmeistaramótið 2019 sem verður í Nice. Munurinn á heimsmeistaramótinu í heilum og hálfum er auðvitað vegalengdin og svo er alltaf ný staðsetning á hverju ári fyrir hálfan, á meðan heill er alltaf á Hawaii.

Ferðalagið 

Ég og bróðir minn Páll Ólafsson, ákváðum að fara saman til Jönköping. Við flugum til Stokkhólms á Föstudegi en þegar við fengum hjólin ákváðum við að athuga hvort allt væri ekki örugglega í heilu lagi þar sem við værum í Stokkhólmi og ekki langur tími í keppni. Gírskiptinn aftan á hjólinu mínu var dottinn af og jafnvel brotinn. Nett taugaáfall því ég er með Shimano Di2 frá Erninum og sá ekki að það væri eitthvað sem væri hægt að redda á þessum 4 klst sem við höfðum í borginni. Við fundum hjólabúð og fórum þangað. Það kom svo í ljós að ekkert var brotið og þeir gátu reddað okkur.

Við keyrðum til Jönköping en það tók um 3,5 tíma og á leiðinni stoppuðum við og tókum góðan sundsprett í Vatten sem var yndislegt. Dagurinn á eftir fór í að taka létta æfingu, ná í keppnisgögn og svo smá hvíld fyrir morguninn sem ekki veitti af enda ágætt ferðalag að baki, taugaspenna í kringum hjólið mitt og svo svaf ég ekki nema 2 tíma nóttina fyrir keppni.

pallihjördis

Palli og Hjördís við Vattern í Svíþjóð sem er örlítið stærra en Kleifarvatn. Þar er gott að synda. 

Keppni 

Veðrið var æðislegt en það voru um 25 gráður þegar sundinu var startað en keppnin byrjaði frekar seint eða í kringum 9 um morguninn. Það var synt í Munksjön sem er í miðbænum og áhorfendur fá gott útsýni yfir svæðið en það var synt í U. Það var rúllandi start en mér fannst samt sem áður svolítill troðningur, sérstaklega borið saman við Dublin árið áður þar sem einnig var rúllandi start. Sundið er minn versti partur svo ég er oftast bara nokkuð sátt þegar það er búið, ég kláraði á 34:20.

Það var nokkuð langt í skiptisvæðið frá vatninu en ég var í 5 mínútur og 30 sek. Mér fannst allt ganga nokkuð vel þangað til ég kom að hjólinu mínu. Ég var alveg með system til að finna það en í stressinu fann ég það svo ekki fyrr en eftir þó nokkra leit. Vonandi læri ég (og þeir sem lesa þetta) af því.

Það var byrjað á því að hjóla úr bænum og upp í sveitina en til þess þurfti að byrja í nokkrum þéttum brekkum en leiðin var mjög hæðótt og mikið af rúllandi brekkum. Ég tek oftast fram úr mörgum á hjólinu og var þessi keppni engin undantekning þar sem brekkur eru líka mér í hag. Ég er oftast mjög dugleg að borða og drekka á hjólinu en ég drakk tvo brúsa af vatni með SIS Electrolytes og svo gel frá SIS (Hreysti) eða SIS orkustangir sem hafa reynst mér vel á hjólinu. Tími: 2:38:43.

Þegar ég byrjaði að hlaupa var orðið nokkuð heitt eða um 28 gráður. Það voru hlaupnir 3 hringir í kringum Munksjön sem er vatnið sem synt var í. Nokkuð flöt braut og þvílík stemning á brautinni. Mér leið nokkuð vel og hitinn hafði ekki mjög mikil áhrif á mig en ég hellti yfir mig vatni á drykkjarstöðvunum og setti inn á mig klaka, einnig tók ég tvö gel. Hlaupatíminn var 1:41:45.

hjördísapalli

2. sæti í Ironman 70.3 Jönköping og keppnisréttur á heimsmeistaramótið í Nice 2019

Heildartíminn var 5:02:47 og endaði ég í 2. sæti í mínum flokki af 83 konum. Þegar ég kom í mark hitti ég Palla bróður minn sem var á tímanum 4:54:13. Það er gaman að taka fram að met var sett í þátttöku kvenna miðað við karla í þessari keppni, og það voru einnig fleiri Íslendingar í þessari keppni aðrir en við. Einnig vann ég mér inn keppnisrétt fyrir Nice 2019 og ákvað þá að sleppa S-Afríku þar sem það er ekki alveg næsti bær og erfitt og dýrt ferðalag. Ég er strax farin hlakka til keppninnar í Nice á næsta ári.

Jönköping eftir keppni

Páll og Hjördís eftir keppni. Þau eru bæði í 3SH. Þarna er sumarveður!