Með köppum í Kona

Stutta útgáfan (fyrir athyglisbrostna og tímabundna)

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að keppa í Ironman World Championship í Kailua-Kona á Hawaii þann 12. október 2019. Vann mér inn keppnisrétt með góðum árangri í 40-44 ára aldursflokki í Ironman Barcelona í október 2018.
Keppendur í ár voru hátt í 2.400 frá hátt í 100 þjóðlöndum.
Keppnin gekk nokkuð vel og ég kom í mark á tímanum 9:39:29, sem skilaði mér 39. sæti í 40-44 ára aldursflokkinum af þeim 275 sem kláruðu þrautina innan 17 tíma markanna (315. sæti af öllum 2.271 sem kláruðu).

Sund – 1:11:39 (188. í aldursflokki, 1.255. í heildina)
T1 – 3:14
Hjól – 5:10:18 (93. í aldursflokki, 560. í heildina)
T2 – 3:18
Hlaup – 3:11:02 (11.í  aldursflokki, 116. í heildina)

Þetta hafði Redbull.com að segja um keppnina í ár:
„For the past two years the notorious winds that ravaged the IRONMAN World Championship were dormant; this year, however, the easterlies were back with a vengeance, as was a swell like no other, which forced everyone to battle both nature and each other.“
Rauðnautinu fannst sem sagt mjög hvasst og extra erfitt í sjóinn þetta árið. Ég get því ekki verið annað en mjög sáttur við tímann hjá mér – er 20 mín hægari en tíminn hans Geirs Ómars í fyrra (2018, 9:19) en þá töluðu menn um bestu aðstæður í 40 ára sögu keppninnar og það þykir þess utan afrek að klára Ironman Kona yfir höfuð og 10 tímar þykja bara fjandi góður tími. 🙂

Magnað þriggja ára Öskubuskuævintýri að baki hjá mér og ég get ekki annað en verið þakklátur fyrir að hafa heilsu, löngun og bakland til að hafa komist þetta langt á þessum stutta tíma í sportinu. Mikið ævintýri að fá að taka þátt í þessari frægu Kona keppni, sem maður hefur svo mikið lesið um og horft frá síðustu árin.
Nú er hins vegar komið að Ironman pásu hjá mér, amk. árið 2020, en hver veit hvaða vitleysa mér dettur í hug á því ári… Kannski stefni ég á annan járnkarl árið 2021, en kannski segi ég þetta bara gott af þessum lengri þríþrautum. Kannski reyni ég að bæta Barcelona tímann minn og kannski langar mig einhvern tímann að reyna að komast aftur til Kona. Leyfum þessu bara að gerjast í vetur og sjáum hvort mig grípi járnhungur fyrir árið 2021 eða síðar…

Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Þakka öllum æfingafélögum og þjálfurum í Ægir3 kærlega fyrir að deila þessu ævintýri með mér.
Sérstakar þakkir fyrir stuðninginn fá Síminn, GÁP og Eins og fætur toga (Úthald.is). Einnig Geir Ómars fyrir upplýsingar og pepp varðandi Kona og alls konar pælingar, José í GÁP fyrir aðstoð við hjólin og allt saman, Einar Sigurjóns fyrir hnoðið og hjólatöskuna, Ari Odds fyrir græjurnar og síðast en alls ekki síst Ása og krakkarnir fyrir stuðninginn og þolinmæðina þriðja járnárið í röð…

Langa sagan

Fyrir áhugafólk en stærri ritverk, þá kemur hér að neðan langa útgáfan.
Varúð! Þetta gæti kallað á allt að 2-3 kaffibolla og jafnvel Prince Polo.
Söguna er einnig hægt að panta innbundna í þremur veglegum handskreyttum bindum.

Um Ironman
Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Hawaii „fæðingarstaður“ Ironman. Fyrstu þríþrautarkeppnirnar voru haldnar í Kaliforníu í byrjun áttunda áratugarins og voru þær komnar í sæmilega mótað form undir lok áratugarins með nokkrum mótaröðum í styttri vegalengdum, vísi að stöðluðum vegalengdum og vísi að atvinnumennsku með auknum áhuga íþróttavöruframleiðenda.
Ironman sem „hugtak“ fæddist í veislu hjá hermönnum á Hawaii þar sem verið var að karpa um hvort hjólreiðamenn eða hlauparar væru meiri íþróttamenn. Talið barst að VO2max mælingum helstu íþróttahetja þess tíma og að sundmenn væru nú engir aukvisar heldur. Flotaforinginn John Collins og konan hans Judy lögðu til að haldin yrði keppni þar sem þrjár helstu úthaldskeppnirnar á Oahu eyju á Hawaii – 3,8km Waikiki víðavatnssundið, 180km hjólakeppnin kringum eyjuna og Honolulu maraþonið – yrðu sameinaðar í eina þríþraut og sá sem myndi sigra hana myndi kallast „Iron Man“.
Fyrsta keppnin var haldið í febrúar árið 1978 á Oahu eyju og mættu 15 keppendur til leiks. Engin brautarvarsla eða drykkjarstöðvar voru í boði – það var einfaldlega ræst í fjörunni og keppendur áttu að klára þrautina upp á eigin spýtur. 12 keppendur kláruðu keppnina og var sigurtíminn 11:46.
Árið 1979 var keppnin aftur haldin á Oahu með svipuðum keppendafjölda og 1978. Þá kláraði fyrsta konan þrautina á 12:55 (5. sæti) og sigurtíminn var 11:15. Blaðamaður Sports Illustrated var staddur á Hawaii á þessum tíma til að fjalla um golfmót og fékk leyfi frá ritstjóranum til að skrifa pistil um keppnina og birtist í kjölfarið 10 blaðsíðna grein um Ironman keppnina í síðum blaðsins og fékk mikla athygli.
Umfjöllun Sports Illustrated kynti undir áhuga á keppninni og árið 1980 mættu yfir 100 keppendur til leiks og var Dave Scott þar á meðal. Hann vann keppnina með yfirburðum á 9:24 og bætti fyrra met um næstum 2 klukkutíma.
Árið 1981 var keppnin færð frá Oahu til „stóru eyjunnar“ (Hawaii), nánar tiltekið til bæjarins Kailua-Kona á vestanverðri eyjunni. Keppendur voru rúmlega 300 talsins og þurftu núna ekki að mæta með eigið stuðningslið og keppnin komin með vísi að núverandi formi hvað varðar skiptisvæði, drykkjarstöðvar og slíkt.
Árið 1982 urðu vatnaskil í sögu Ironman þegar ABC mætti með myndatökulið til að sjónvarpa frá keppninni (ekki í beinni útsendingu þó). Tökuliðið nær upptökum af ótrúlegri dramatík þegar Julie Moss, þá fyrst kvenna, hnígur niður á lokametrunum og nær á einhvern ótrúlegan hátt að skríða yfir marklínuna eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að hlaupa í mark. Í hamaganginum sáu fáir Kathleen McCartney hlaupa fram úr Moss í myrkrinu og stela sigrinum í kvennaflokki með 26sek mun yfir Moss. Dave Scott hafnar í öðru sæti í karlaflokki eftir að hafa misst af 1981 keppninni vegna meiðsla.
Keppnin var færð frá febrúar til október og voru því tvær keppnir haldnar árið 1982. Dave Scott vinnur sína aðra keppni og verður þar með fyrstur til að vinna í tvígang. Mark Allen er einn þeirra fjölmörgu ungu íþróttamanna sem heilluðust af Ironman eftir umfjöllun ABC útsendingarinnar. Allen ógnar sigri Scott en hjólhesturinn bilar og hann hættir keppni.
Árið 1983 er brugðist við auknum áhuga með fyrstu „úrtökumótunum“ í Bandaríkjunum og 17 klst tímamarkinu er komið á fót (og er enn við lýði).
Dave Scott vinnur keppnina samtals sex sinnum fram til 1988.
Paula Newby-Fraser vinnur keppnina 1986 á 9:49 (nýju kvennameti) og hún vinnur keppnina alls átta sinnum fram til 1996, mest allra.
Mark Allen vinnur svokallað „Iron War“ – sögulegt einvígi milli hans og Dave Scott árið 1989 en sú keppni hefur verið kölluð „the greates race ever run“. Allen vinnur keppnina alls sex sinnum til 1995, jafn oft og Scott.
Margar Ironman hetjur hafa sett nafn sitt á spjöld sögunnar í Kona, þám. Chrissie Wellington, Miranda Carfrae, Daniela Ryf, Jan Frodeno, Chris McCormack, svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.
Ironman er í dag orðið gríðarstórt apparat og í aðdraganda Kona keppninnar 2019 voru haldnar hátt í 50 keppnir í heilum Ironman í 27 löndum um allan heim með um 95.000 keppendum (og amk. annað eins í hálfum Ironman auk þess sem fjöldi keppna í heilum og hálfum eru í Challenge seríunni). Um 100 atvinnumenn (50+ af hvoru kyni) og 2368 áhugamenn („age-groupers“) unnu sér inn þátttökurétt í ár í undankeppnunum, þar af 73% karlar. 45-49 ára karlar voru fjölmennastir (rúmlega 300), aðeins fleiri en 40-44 ára karlar (minn aldursflokkur). 256 keppendur voru 60 ára eða eldri, sá elsti 86 ára (japanskur karl) og yngsti 18 ára (frönsk kona).
2271 keppandi (96%) kláraði keppnina í ár innan 17 tíma markanna þannig að um 100 manns hafa ýmist ekki náð að klára eða ekki hafið keppni.
Áætlað er að um 20 milljón manns hafi fylgst með streymisútsendingu frá keppninni í Kona árið 2018.

(Heimildir:  Og ironman.com, Iron War)

Undirbúningur

Í aðdraganda Kona gerði ég hlutina svipað og fyrir Barcelona 2018 enda gekk sá undirbúningur mjög vel og því lítil þörf á einhverri uppstokkun í prógramminu. Ég tók restina af október eftir Barcelona í æfingafrí og byrjaði rólega í nóvember og var fram að áramótum að koma mér í gang aftur. Fór þó ekki almennilega í gang fyrr en seinni part febrúar því ég tók eldhúsið heima í gegn í janúar og febrúar og það tók sinn toll á frítímann og á skrokkinn.
Eftir sumarfríið í byrjun ágúst bætti ég loksins við stuttum þrekæfingum 1-2x í viku. Gerði töluvert af þessum æfingum fyrir Austurríki 2017 en afar lítið fyrir Barcelona. Þetta voru aðallega stuttir þrekhringir (20-30mín) með fókus á kjarnaæfingar en einnig voru þarna æfingar fyrir axlir, læri, hamstring og fleira. Ég held að þetta hafi gert mér gott, sérstaklega fyrir efri hlutann og það vonandi skilað einhverju, einkum í sundinu, og vonandi minnkað líkur á meiðslum.
Æfingamagn var annars „hóflegt“ framan af (6-10 tímar á viku) en jókst töluvert skarpt kringum 1. júlí þegar fór að líða að sumarfríi og stigmagnaðist fram í miðjan september þegar „tapering“ hófst fram að Kona. Stærsta vikan var um miðjan september, tæpir 16 tímar þá vikuna (6km sund, 247km hjól og 43km hlaup auk hitaaðlögunar).
Sund:
Ljóst var að ég þyrfti að hysja upp um mig brækurnar í sundinu, því í Kona er synt í heitum sjó og blautbúningar ekki leyfðir – bara sundskinn („swimskin“), sem veita ekki flot en efnið í þeim gerir mann aðeins rennilegri í vatninu.
Ég var sæmilega duglegur að synda eftir að ég komst aftur í gang eftir haustfríið en þó ekki neitt sérlega markviss í æfingum. Mætti lítið undirbúinn og frekar stressaður í Þorláksmessusundið og það gekk alls ekki vel og var ég að synda þar mikið hægar en ég ætti að geta en það endurspeglaði bara langsundsformið á þeim tíma (og hvað ég er/var með litla hraðatilfinningu í sundinu).
Í apríl tók ég eigin „30 daga sundáskorun“, þar sem ég fór nánast á hverjum degi að synda í heilan mánuð (held ég hafi misst úr tvo daga). Krafan var ekki á magn heldur ástundun – bara mæta í laugina með fókus á tilfinningu og að líða vel í vatninu og synda að lágmarki 500m. Á þessum 30 dögum tókst mér loksins að ná kollhnís snúningnum, sem ég var búinn að streða við í tvö ár en aldrei náð almennilega. Framfararnir í hraða og líðan í vatninu voru líka miklar og stórbætti ég mig í CSS testi hjá Gylfa þjálfara í maí.
Náði ekki að mæta nógu oft í víðavatnssund vegna árekstra í fjölskyldudagatalinu en náði þó nokkrum ágætis túrum yfir sumarið. Hefði þó viljað fara miklu oftar en raunin varð en það slapp til því mér fannst mikilvægara að vinna í hraðanum í sundlauginni heldur en bæta reynsluna í víðavatnssundi, því mér hefur liðið ágætlega í opnu vatni og gengið nokkuð vel að synda beint og synda í kjölsogi frá öðrum sundmönnum.
Sundið í Kópavogs- og Hafnarfjarðarþrautunum í maí gengu nokkuð vel en Laugarvatn (hálfur járnkarl) og Kjósarspretturinn (hálfólympísk) ekki nógu vel.
Sundæfingar í ágúst og september miðuðu á að byggja upp úthald og tempó getu í sundskinni og gekk það prógramm ágætlega. Þegar leið að keppni var ég farinn að geta synt 3000m samfellt frekar áreynslulaust á 1:55/100m og nokkur 600-800m sett á undir 1:50/100m. Var því með vonir um að geta synt í Kona í söltum sjó í einhverju drafti, vel hvíldur og í keppnisskapi á kringum 1:50/100m eða um 1:10 IM tíma og í versta falli á tæplega 2:00/100m eða um 1:15 IM tíma. Til samanburðar tel ég að ári fyrr hefði ég sennilega ekki getað gert mér vonir um nema í besta falli 1:15-20 IM tíma án blautbúnings þannig að þó sundið sé enn mín langveikasta grein, þá er ég samt búinn að bæta mig um 5-10mín á IM vegalengdinni á einu ári. Enn nóg rými til úrbóta og þetta kemur allt með kalda vatninu…
Hjól:
Breytti litlu í hjólaæfingum frá Barcelona. Helsta breytingin var að ég fór í júní og september í mjólkursýrupróf hjá Sigga Erni til að fá nákvæmari tölu á fitubrennslu- og mjólkursýruþröskuldana hjá mér heldur en FTP testin gefa. Gerði nokkrar taktískar æfingar út frá þeim sem miða að því að hækka mjólkursýruþröskuldinn og úthald nálægt þeim þröskuldi. Það kom mér reyndar á óvart hversu lítið ég hreyfði við þessum mælingum miðað við hvað ég hjólaði mikið (og erfitt) yfir sumarið. En einhver hluti af skýringunni gæti verið hversu lítið ég var í innihjóli milli prófanna en þau voru tekin á trainer á mínu eigin hjóli. Það var reyndar marktækur munur á hversu mikið lægri púlsinn hjá mér var á fitubrennsluþröskuldinum, sem er góðs viti á löngum hjólalegg eins og í Ironman (~5 tíma).
Að öðru leyti var sumarið svipað og árið áður. Byrjaði fljótlega eftir páska að fara á racer og TT-hjóli út á þjóðvegina (með Ægir3, Síma-liðinu og einn) og var farinn að hjóla 100km túra strax í lok apríl og fór samtals tólf 100km+ túra yfir sumarið (lengsti 133km, tæpir 5 tímar).
Keppti með Símanum í WOW Cyclothon (10 manna lið), í Gangamótinu milli Siglufjarðar og Akureyrarog í TT keppni á Akureyri auk allra þríþrautanna hér heima að sjálfsögðu.
Eftir seinna mjólkursýruprófið og síðustu tempó æfingarnar fyrir Kona taldi ég mig vera í jafnvel örlítið betra formi en fyrir Barcelona og ég ætti að geta haldið 230-240W við bestu aðstæður en þyrfti mögulega að tóna það niður um 10-20W út af hitanum í Kona.
Hlaup:
Hlaupin hafa almennt verið aftast hjá mér á forgangslistanum, einfaldlega vegna þess að þar er ég langsterkastur og þarf tiltölulega lítið að hlaupa til að koma mér í 90-95% form og með hjóli og sundi hef ég hreinlega ekki tíma til að ná þessum síðustu 5-10% upp í mitt allra besta hlaupaform.
Framan af vetri var prógrammið litað af hálfmaraþoni í Berlín í apríl, sem Ása plataði mig með sér í. Ása vildi að ég færi bara með henni og vinafólki út og „joggaði“ 21km með þeim en það er alveg fráleitt fyrir mig að mæta í keppnishlaup í hraðri braut í útlöndum án þess að gera mitt besta (eða reyna það alla vega). 🙂 Æfingar á brautinni með Ægi gengu mjög vel og ég var að bæta mig í Cooper testi, átti ágætis Powerade- og Gamlárshlaup og fór 3000m á öldungamóti í febrúar á 9:57. En í kjölfar öldungamótsins reif ég eitthvað aftan í hamstring og gat eiginlega ekkert hlaupið í 3-4 vikur í febrúar og mars og óljóst hvort ég gæti yfir höfuð hlaupið í Berlín, hvað þá náð að bæta mig. En ég gat hjólað þrátt fyrir meiðslin og meistari Einar sjúkraþjálfari hamaðist á mér og náði að tjasla mér í nógu gott stand til að geta náð nokkrum gæðavikum fyrir keppnina.
Ég vissi ekki alveg hvort ég hefði trú á sjálfum mér og undirbúningnum þegar ég mætti á ráslínuna í Berlín í byrjun apríl en var ákveðinn í að gefa allt sem ég ætti í þetta fyrst ég var búinn að ná þó þetta góðum vetri fram að meiðslunum og var búinn að ná mér skítsæmilega. Markmiðið í upphafi vetrar var að fara undir 1:17 en eftir meiðslin var ég búinn að tóna það niður í undir 1:18 sem A-markmið og bætingu sem B-markmið (gamla PB 1:18:47). Keppnin gekk vel framan af og ég var á target hraða fyrstu 12-13km en var farinn að streða seinni partinn og það stefndi í að ég væri að missa af markmiðinu kringum 15-17km markið en ég náði að rífa mig aftur í gang kringum 17-18km og síðasti km var tekinn af krafti og ég skilaði mér í mark á 1:17:46 (61sek bæting, 3:41/km).
Eftir Berlín hvíldi ég hlaupin alveg í næstum mánuð til að gefa hamstring færi á að jafna sig almennilega til að vera ekki hálf-laskaður í aðdraganda Kona. Var því ekki í neitt sérstaklega góðu hlaupaformi þegar ég mætti í hálfa járnkarlinn á Laugarvatni í júní og hlaupið mitt þar í samræmi við það.
Ég tók hlaupin svo föstum tökum í júlí, ágúst og september og var kominn á mjög góðan stað í byrjun september (eiginlega of snemma). Var þá að klára nokkuð sannfærandi langar æfingar úr maraþonprógrammi miðað við 4:05-4:10/km hraða þannig að hraði upp á 4:15/km (3ja tíma maraþon) var frekar þægilegur og vel raunhæfur í járnkarli við góðar aðstæður – en svo var óljóst hversu mikið hitinn og rakinn í Kona myndu hægja á mér.
Hiti:
Hitinn og rakinn í Kona var mitt stærsta áhyggjuefni. Ég er sæmilega stór skrokkur (~75-77kg öllu jöfnu og ~73kg keppnisþyngd) og ég svitna þess utan frekar mikið og það tvennt vinnur mjög gegn mér í hita (minni skrokkar kæla sig betur í hita). Það var því ljóst að ef ég ætlaði að eiga einhvern möguleika á góðu gengi í Kona, þá þyrfti ég að fara í markvissa hitaaðlögum.
Fyrir Barcelona tók ég góðan slatta af gufubaðsæfingum og mér fannst það gera mér gott. Í aðdraganda Kona tók ég þetta einu skrefi lengra enda um mun erfiðari aðstæður að ræða. Byrjaði að sitja óreglulega í gufu frá byrjun júlí en þetta var ekki farið að kallast „prógramm“ fyrr en í byrjun ágúst (tveimur mánuðum fyrir keppni) en í ágúst var ég oftast 2x í viku í einhvers konar hitaaðlögun og í lokavikunum var ég 2-3x í viku.
Framan af voru þetta bara gufubaðsferðir eftir æfingar (heima eða í sundi/ræktinni) en í lok ágúst fór ég að bæta við traineræfingum með hjólið í dyragættinni á gufunni heima og með hitara og viftu í sólskálanum (lengst 2 tímar svoleiðis). Tók eina æfingu í Laugum þar sem ég var til skiptis í eimbaði og á hlaupabretti í 10mín í senn (þrjú svoleiðis sett). Síðustu 2-3 vikurnar fór ég reglulega í eimbaðið í Laugum eftir sundæfingar því það ætti að líkja betur eftir Kona aðstæðum heldur en þurrgufa (sauna), sem er heitari en með lítinn raka.
Þegar ég kom út var ljóst að það veitti ekkert af þessum undirbúningi, því það er virkilega heitt og rakt í Kona. Þegar við komum á flugvöllinn kl. 21 um kvöld mætti okkur veggur af þykku heitu lofti sem var alveg kæfandi – 25-26°C og 80% raki.
Það var erfitt að sofa almennilega fyrstu dagana því það var jafn heitt inni í íbúðinni og úti – ég lá bara berháttaður á rúminu með viftuna í botni í svitakófi. Þetta smá vandist eftir nokkra daga en var samt ekki nema rétt bærilegt eftir rúmlega viku dvöl.
Fyrsta morguninn fór ég snemma út að hlaupa – kl. 8 eða svo – en strax þá var sólin komin hátt á loft og mér leið eins og í bakaraofni. Gat hlaupið ágætlega á flötum köflum en í brekkunum komst ég ekkert áfram. Ákvað að ég skyldi fara mjög rólega í æfingar fyrstu dagana. Hitinn almennt yfir daginn var 30-31°C, brakandi sól og 60-70% raki.
Ég synti nánast á hverjum degi og tók einhverjar hlaupa- og/eða hjólaæfingar flesta dagana fram að keppni (nema daginn fyrir) og þetta smá vandist en var samt alltaf aðeins erfitt, sérstaklega að hlaupa – fann minna fyrir hitanum á hjólinu en svitinn lak samt í stríðum straumum.
Hitaaðlögunin virðist raunar hafa gengið það vel að þegar ég fór með fjölskyldunni að snorkla tveimur dögum fyrir keppni á skýjuðum rigningardegi með kannski 25°C hita, þá skalf ég af kulda, bæði í sjónum og uppi á landi. 🙂

IMG_9322
Morgunstund gefur…

Fyrir keppni:
Skilaði af mér hjólinu á skiptisvæðið eftir hádegið á föstudeginum. Sjálfboðaliði tók við mér og fór með mig ítarlega afturábak í gegnum skiptingarnar, sem var pínu ruglandi því það voru ekki komnar allar girðingar sem yrðu í keppninni og ekki nema ca. helmingur af hjólunum kominn á svæðið. En ég sá þetta nokkurn veginn fyrir mér og ætlaði að renna gróflega í gegnum þetta í réttri röð þegar ég mætti um morguninn. Var í smá vafa um hvort ég ætti að festa skóna á hjólið eða taka þá með um morguninn. Gaurinn mælti mjög sterklega með að setja þá á hjólið, því fólk hafi lent í því þarna að gleyma skónum heima um morguninn og þá er oft orðið of seint að redda því þegar það uppgötvast – bömmer! Það var rigning í kortunum svo ég hikaði en ég kæmi svo sem hvort eð er rennblautur upp úr sundinu svo skórnir yrðu alltaf hundblautir strax.
Fór að sofa um kl. 19 kvöldið fyrir og svaf ágætlega til ca. 1 um nóttina en þá fór ég að pissa og sofnaði ekki aftur fyrir fiðringi. Lá því andvaka til kl. rúmlega 3 og fór þá að græja mig. Fékk mér tvær ristaðar beyglur með hnetusmjöri og sultu og smá orkudrykk og var snöggur að græja mig í gallann og smyrja mig með núningskremi. Svo var bara að skella dótinu í pokann og henda sér út úr húsi kl. rúmlega 4.
Það er alltaf spennuþrungið að fara af stað að járnmorgni. Kolniðamyrkur og fiðringur í loftinu en samt einhver stóísk ró yfir öllu. Við vorum svo heppin að gistingin okkar var í 10 mín göngufjarlægð frá fyrsta stoppi fyrir skutlustrætó á vegum keppninnar. Ása slapp því við að skutla mér niður í bæ um miðja nótt og ég rölti í rólegheitum einn míns liðs þangað í myrkrinu. Vinalegir járnfarendur á bíl buðu mér far þegar ég var næstum kominn en ég afþakkaði boðið. Skutlan rúllaði af stað og keyrði eftir Ali´i Drive langleiðina inn að marksvæðinu. Ég var einn af ca. 5 sem fóru inn á fyrstu stöð en síðan bættust nokkrir við á nokkrum stoppum á leiðinni og ca. miðja leið í bæinn var skutlan orðin stappfull og tók ekki við fleirum, en það átti að vera samfelldur skutlugangur allan morguninn þannig að væntanlega hafa allir fengið far fyrir rest.

237_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_032542-35194088
Höfnin og skiptisvæðið. „Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn…“ (EB)

Um 5 mín labb var frá skutlustoppinu að skiptisvæðinu og ég var kominn þangað vel fyrir kl. 5. Fyrsta verk var að finna pumpu, því það mátti ekki mæta með sína eigin, en það var ágætis framboð af þeim í boði hússins þannig að áhyggjur mínar af linum dekkjum og stressi við að fá pumpu voru ástæðulausar. Næsta verk var að núllstilla aflmælinn og síðan að fylla á brúsana og koma þeim fyrir á hjólinu. Þetta tók ekki nema örfáar mínútur en ég dundaði mér samt aðeins lengur við hjólið og fór svo einu sinni í gegnum allt skiptisvæðið og fór í þúsundasta skiptið yfir í huganum hvað ég ætlaði að gera í T1 og T2 og í hvaða röð.
Þegar þessum fáu morgunverkum var lokið var ekkert annað að gera en að fara í sundgallann, smyrja tærnar með sleipiefni og skila af sér morgunfötunum og skónum og skella sér í kamarröðina til að kreista út eitt lokahlass. Var búinn að fara eina kamarferð þegar ég mætti á marksvæðið og var þá með símann til að lýsa upp dolluna en þarna í seinni ferðinni var ég búinn að losa mig við allt nema sundgleraugu og -hettu svo þetta síðasta morgunverk varð óhjákvæmlega að leysa af hendi í svartamyrkri…
Fisléttur og til í slaginn skellti ég mér svo út á Ali´i Drive þar sem sund starthólfin voru.

Sundið – 1:11:39
Sundstartinu var breytt í ár en alla tíð hefur Kona verið með hópstart þar sem allur mannskapurinn er ræstur í einu (nema atvinnumennirnir sem voru og eru ræstir fyrst í karlaflokki og 5 mín síðar í kvennaflokki). Þetta fyrirkomulag er búið að liggja þungt á sálarlífi mínu frá því ég skráði mig fyrst í járnkarl 2016 en bæði Austurríki og Barcelona voru með rúllandi start þannig að ég hef sloppið við þessi ósköp hingað til. Að synda af stað í 2000 manna þvottavél og eiga hættu að verða ýtt í kaf, láta synda yfir mig eða fá spörk og högg í hausinn var ekki að hljóma eins og góð skemmtun í mínum eyrum. Hafði lesið sögur af fólki í Ironman, sem var nánast drukknað á upphafsmetrunum þegar það varð undir holskeflunni og ekki gert meira þann daginn en að synda strax í land og fara heim með skottið á milli lappanna.
Alla vega, þá var breytingin í ár sú að ræsa aldursflokkana í 11 rásbylgjum, sem færu af stað á 5 mín fresti fram eftir morgni. Markmiðið með breytingunni væri ekki að róa mitt sálartetur heldur til að dreifa fólki betur í tíma og rúmi, yfir sundbrautina, skiptisvæðið og síðast en ekki síst á hjólaleiðinni, þar sem hefur verið vandamál með umferðarsultu. Pælingin var að fólk yrði áfram ræst með sínum aldursflokki þannig að „absolute tími“ gilti í keppninni þannig að röð manna/kvenna yfir marklínuna í hverjum aldursflokki væru röð þeirra í aldursflokkakeppninni – sem er ekki tilfellið í venjulega rúllandi startinu þar sem fólk fer út að synda á alls konar tímum, óháð aldursflokki (ég gæti komið hálftíma á eftir jafnaldra mínum yfir línuna en samt verið fljótari en hann ef hann hefði farið meira en hálftíma á undan mér af stað í sundið). Þetta þýddi að 200-300 manns færu af stað í hverri bylgju og það hljómaði aðeins yfirþyrmandi en þó mun skárra en 2000+ manna hópstartið og þýddi að ég hefði möguleika á að hengja mig t.d. í kjölsog á hröðum sundmönnum úr bylgjunni á eftir mér (sem hefðu þá unnið upp 5 mín forskotið á mig) ef ég missti af góðum hóp í minni eigin bylgju. Einn galli á gjöf Njarðar – ef maður missir af starthópnum sínum og ræsir í röngum hóp, þá er maður rekinn úr keppni! (nema maður mátti í algjörri neyð ræsa með aftasta hópnum kl. 7:30, Kukui, en væri þá ekki gjaldgengur til verðlaunasætis í aldursflokki).
Jæja, ég var tæpan klukkutíma í starthólfinu fyrir sundið. Sá þar á risaskjá startið hjá atvinnumönnunum (karla kl. 6:25 og kvenna kl. 6:30) og var furðu rólegur miðað við hverju ég átti von á. Eftir atvinnumannastartið voru hreyfihamlaðir/hand-cycle ræstir og kl. 6:55 var fyrsta aldursflokka-ræsið hjá 18-39 ára körlum og þá var ég kominn að stiganum niður í fjöruna og þurfti að passa mig að slóra ekki því ég þurfti að synda eina 150m út að startbaujunum fyrir ræsið mitt kl. 7:00. Mér fannst ég vera á hættu á að missa af startinu því það tók dágóða stund að synda þennan spöl en ég endaði svo á að svamla á línunni í 1-2 mín áður en ræst var. Ég staðsetti mig ca. 1/3 frá innri baujunni (þar sem hröðustu ættu flestir að vera), því ég vildi vera með sæmilega hraða sundmenn í kringum mig til að fá gott kjölsog án þess að vera fyrir þeim hröðustu og láta synda mig í kaf. Þessi strategía gekk bara ágætlega og ég fór sæmilega þétt af stað án þess að streða eitthvað mikið, reyndi að finna lappir til að elta og það gekk alveg. Flestir í kringum mig voru full hraðir reyndar eftir startið og það var ansi mikil kraðak þarna svo það var erfitt að finna einhvern „passlega hraðann“ sem var nóg pláss í kringum til að elta. Smám saman tognaði á hópnum og tempóið settlaðist aðeins í kringum mig og ég var eitthvað að synda á milli fóta en gat ekki elt neinn einn í mjög langan tíma og synti örugglega hátt í 1/2 eða 1/3 af fyrri partinum einn míns liðs á milli hópa en það gekk alveg fínt samt.
Fékk nokkur högg eða spörk í smettið, sérstaklega í byrjun, en ekkert þeirra það alvarlegt að ég þyrfti að stoppa til að laga gleraugun. Oftast voru höggin frá einhverjum frekum hröðum gæjum sem voru að troða sér fram úr mér og öðrum en stundum voru þau eflaust mér að kenna þegar ég var að synda til hægri eða vinstri í leit að fótum til að elta…
Var orðinn aðeins lúinn þegar ég kom að bátnum þar sem snúningurinn var (í 1,9km) en það var líka farið að hægja á öllum í kringum mig. Þarna var ég ekki bara með dökkbláu sundhettugaurana úr mínum hópi í kringum mig heldur líka ljósbláa úr 6:55 startinu (sem ég var búinn að ná) og appelsínugula, væntanlega hraða gaura úr 7:05 (karlar 45-49), sem voru búnir að vinna upp 5mín á mig þarna um miðja leið (hröðustu amatörar eru kringum 50mín að synda þetta eða um 20mín hraðar en ég!).
Svo ég hengdi mig bara til skiptis á gaura sem mér fannst vera á passlegum hraða fyrir mig og það var oft gaur með ljósbláa hettu sem synti ekki alltaf sérlega beint. Eftir á að hyggja var kannski ekki sérlega taktískt að elta gaura úr ljósbláa hópnum, því fyrst ég var búinn að ná þeim, þá voru þeir amk. 5mín hægari sundmenn en ég, en ég var reyndar lítið að pæla í sundhettum þarna og á þessum tímapunkti var mér bara nokk sama um tíma og hraða, bara að dr***a mér í land til að fara að gera eitthvað sem ég er góður í… 🙂
Var í púls 155-160 fyrsta hálftímann, hægði aðeins á mér niður í púls 150 næstu 20mín og 140-145 síðustu 20mín í land (meðal púls 152).
Sjórinn var nokkuð bólginn („swells“) þannig að það voru ekki kjöraðstæður en þó líklega ekki svo slæmt heldur (skárra en miklar öldur sem trufla öndunina) og gekk svo sem ágætlega miðað við mína sundgetu og væntingar. Markmiðið var að reyna að ná kringum 1:10 en ég var undir það búinn að vera 1:15-20 ef gengi illa að ná kjölsogi eða væri vont í sjóinn. Þannig að ég var bara nokkuð sáttur við 1:11:39, sem er 1:51mín/100m hraði. 188. sæti í aldursflokki og 1254. af heildinni. Var 3mín hægari en meðaltalið í aldursflokki en 40sek hraðari en meðaltalið í keppninni.

T1 – 3:14
Ágætis skiptitími því stórt svæði á bryggjunni sem þurfti að hlaupa kringum og svo leiða hjólið dágóðan spöl að línunni þar sem mátti fara á bak. Auk þess þurfti ég að þurrka mér á löppum og hálsi til að sprauta á mig sóláburði og setja síðan á mig ermar til að minnka sólbrunasvæðin (á úlnliðina, rúllaði þeim svo alla leið upp á hjólinu).
55. hraðasti skiptitíminn í aldursflokki, 1:21 hraðari en meðal skiptitíminn.

277_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_149072-35194128
Á Queen K í góða veðrinu.

Hjólið – 5:10:18
Ég tók „fljúgandi söðulreið“ (flying mount) upp á hjólið eftir T1 og það gekk stórslysalaust að komast í skóna eftir að ég rúllaði af stað.
Það er byrjaði að hjóla stutt upp Palani Road og svo strax til vinstri (norðurs) smá lúppu að útjaðri Kailua og þaðan Kuakini Highway aftur yfir Palani og suður ofan við miðbæinn að snúningi við Queen-Ka´ahumanu Highway (betur þekkt sem „Queen-K“). Á þessum kafla var ansi mikil umferðarteppa, sérstaklega þegar nálgaðist snúninginn. Ég var frekar grimmur þarna og hikaði ekki við að fara fram úr fólki og var nokkrum tugum watta yfir því sem ég ætlaði að rúlla á almennt. Það var engin leið að ætla að gefa fólki tímavíti fyrir kjölsog („drafting“) þarna út af umferðarteppu svo ég var ekkert að stressa mig mikið á því. Þegar ég var svo búinn að rúlla aftur til baka niður Kuakini og kominn upp á Queen-K, þá róaði ég mig fljótlega og reyndi að koma mér niður á 220-240W markmið dagsins (og hámarkspúls 150). Fyrstu 10km á 35km/klst og 220W.
En það var bara ansi mikil umferð þarna líka og fólk á mjög misjöfnum hraða. Ég fór kannski fram úr fimm manns í einu og reyndi svo að koma mér inn í röðina og búa til 12m bil í næsta fyrir framan, en þá var það oftast allt of rólegt tempó og ég sé gaura á mínum kalíber rjúka fram úr mér strax. Svo þetta varð ægilegt jójó þarna fyrsta klukkutímann við að þjóta fram úr einhverri strollu af fólki án þess að liggja alveg klesstur upp við næsta mann á undan (sem var líka að fara fram úr) og stundum að fara fram úr fólki, sem var að fara fram úr öðrum ennþá hægari lengri til hægri. Drafting dómaranir voru duglegir fyrri partinn þannig að ég reyndi að passa bilið eins og hægt var en var óhjákvæmilega oft á gráu og jafnvel svörtu svæði en taldi mig þó vera eins löglegan og praktískt var miðað við mannfjölda og vegpláss.
Á sæmilega löngum kafla frá Kailua til Kawaihae náði ég að vera í sæmilega góðri hraðalínu (pace), sem var að rúlla á hraða sem var nærri mínu markmiði. Ég vildi ekki fara mikið yfir 230W því ég var búinn að trukka vel yfir því í byrjun en vildi heldur ekki eyða tíma með því að fara eitthvað undir 200W. Langleiðina til Kawaihae (um 40km, ca. hjá Waikoloa) var ég með 10km splitt upp á rétt kringum 15mín (40km/klst) á 200-220W, sem mér fannst grunsamlega hratt miðað við ekki hærra afl en ályktaði að það væri kannski bara svona gott „hálf-draft“ í þessum framúrakstri og línu sem ég var búinn að vera í. En skýringin var amk. líklega að hluta til meðvindur á þessum kafla á þjóðveginum. Mér leið bara nokkuð vel þarna enda sólin tiltölulega nýkomin upp og smá skýjahula yfir Kailua og eitthvað áleiðis eftir þjóðveginum.
Þegar nálgaðist Kawaihae hægði á mér niður um 35km/klst þegar vindurinn var kominn meira á hlið og í fangið, komnar nokkrar aðeins brattari brekkur og hitinn farinn að aukast þegar skýjahulan náði ekki lengra norður og sólin farin að baka okkur af öllum sínum krafti. Var duglegur að drekka Maurten orkudrykkinn og vatn og skvetti alltaf helmingnum af vatninu yfir mig og inn í hjálminn til að kæla mig.
25km hækkunin upp að snúningspunktinum í Hawi gekk mjög hægt á 29-32km/klst og ég missti einhverja frá mér þarna og var eitthvað hálf kraftlaus á um 210W. Þessi kafli er eiginlega bara „rolling hills“ með örlítið meira af upp en niður og fáum bröttum brekkum og ég fór þetta á fínum hraða í æfingatúr í vikunni en núna var miklu hvassara þarna og þreyta eitthvað farin að segja sín eftir 2-3 tíma á hjólinu í sólinni (brekkan byrjar eftir um 1:50 og ég sný í Hawi kringum 2:45).
Eftir snúninginn þaut ég af stað niður brekkuna fullur af eldmóði, fullviss um að mín reynsla af íslensku roki ætti að halda mér í góðum gír meðan einhverjir af hinum væru smeykir við að keyra hratt þarna niður. Það er vel bratt næst Hawi og ég fór fyrstu 10km á nálægt 50km/klst meðalhraða en svo datt hraðinn eitthvað niður. Ég fór fram úr haug af liði þarna og gekk nokkuð vel fyrir utan að missa tvo vatnsbrúsa aftan af hjólinu. Á einum stað, fljótlega eftir Hawi, var ég sennilega óþarflega glannalegur í framúrakstrinum. Var þá að fara fram úr nokkuð hröðum gæja, sem ákvað svo að setjast á topptúbuna á hjólinu (eins og þeir bestu gera í götuhjólakeppnum til að lágmarka loftmótsstöðu þegar þeir renna niður brekkur) nema af því hann var að fara frekar hratt, þá tók framúraksturinn langan tíma og hann var svo kominn í framúrakstur fram úr gæja, sem var svo að fara fram úr fjórða gæjanum næst hægri kantinum. Ég var því þarna á 50-60km/klst innan við 1m frá setjandi gæjanum og með hjólin nánast á miðlínunni (sem má ALLS EKKI fara yfir!). Gaurinn sem sitjandi gæinn var að fara úr sá okkur koma þarna nánast í hnapp fram úr og gólaði á hann/okkur, enda óneitanlega verulega vafasamt dæmi í gangi þarna öryggislega séð. Ég hugsaði bara SJITT en varð að klára framúraksturinn, því ég var kominn með framhjólið fram yfir sitjandi gæjann þarna og var allt of seinn að ætla að hægja á mér þegar í þessa stöðu var komið. Kláraði framúraksturinn, horfði aftur fyrir mig til að sjá hvort þeir hafi nokkuð flækst saman (sem var ekki), vissi upp á mig skömmina og ákvað að ég skyldi ekki vera svona ákafur í framhaldinu…
Þetta gekk fínt langleiðina niður til Kawaihae en það var nokkuð um hina frægu „mumuku“ sviptivinda á þeim kafla og það reif duglega í hjólin á köflum en það hægði svo sem ekki mikið á mér. Það varð nokkuð margt um manninn síðustu km niður til Kawaihae og aftur orðið erfitt að finna sig í rununni. Ég vildi settla mig niður á góðan takt í rununni en þeir fóru oftast aðeins of hægt en það var aðeins of mikið streð að vera í sífelldum framúrakstri. Svo þetta var aðeins eins og fyrsti klukkutíminn á þeim kafla. Brekkan upp frá Kawaihae var heit, brött og hvöss á móti og gekk afar hægt. Var orðinn ansi þyrstur þarna eftir að hafa ekki drukkið mikið í hamaganginum niður brekkuna og hafandi misst þessa tvo brúsa af hjólinu fljótlega eftir síðustu drykkjarstöð og var því bara með smá lögg af sjóðandi heitu Gaterade í stýrisbrúsanum fram að næstu drykkjarstöð uppi á Queen-K.
Kaflinn frá Kawaihae til Waikoloa gekk hægt í nokkuð hvössum vindi. Ég var orðinn þreyttur í baki, klofi og öxlum og ansi þyrstur og lærin eitthvað farin að þyngjast líka. Og á þessum tímapunkti var ég ekki mikið að pæla í watta-tölur og settist upp í flestum brekkum. Eftir að hafa vökvað loksins mig vel á drykkjarstöð fékk ég vind í seglin og vilja til að pressa aðeins. Það var ekki nema rúmur klukkutíma heim en ég var ekki að ná nema rétt rúmlega 30km/klst hraða þarna í mótvindinum þó ég væri að skila ágætis afltölum. Mér sýndist ég eiga kannski enn einhvern séns í 5 tíma markmið en það myndi þó ekki hafast á 30km/klst hraða, það var nokkuð ljóst… Það var ekki fyrr en ég var kominn yfir aflíðandi hæð langleiðina að flugvellinum með um 20km eftir sem þetta fór að ganga sæmilega og ég komst á 35-37km/klst hraða aftur – malbikið varð sléttara, smá brekka niðurímóti inn í bæ og vindurinn sennilega eitthvað að detta niður.
Eins og venjulega var ég afskaplega feginn þegar ég kom aftur inn í Kailua. Þessir síðustu tveir tímar voru búnir að vera frekar erfiðir og mig langaði bara til að gera hvað sem er annað en að hjóla – hvað með að hlaupa maraþon við fáránlega erfiðar aðstæður? Losaði strappana á skónum þegar ég rúllaði niður brekkuna frá Queen-K og fékk alveg subbulega magakrampa þegar ég losaði mig svo úr skónum og steig ofan á þá rétt fyrir markið. Leist ekki allt of vel á að fara í skiptingunu með slíka krampa – hef verið í vandræðum með að fara í hlaupaskóna þegar ég hef fengið slæma svona krampa í þrautunum heima… 😦

Ég var með „Maurten 320“ drykk í aerobar brúsanum (tæpur 1L) og í tveimur ~700ml brúsum aftan á sætinu, samtals um 2,5L. Þetta átti að duga til að halda mér sæmilega vökvuðum og kaloríumettum fyrstu ca. 2 tímana með smá viðbót af vatni á drykkjarstöðvunum. Þess utan tók ég átta „Maurten 100“ gel á seinni hlutanum (þegar drykkurinn var búinn) á móti vatni og orkudrykk (Gatorade) og líklega fjórar salttöflur. Var því að gúffa í mig ca. 1800Cal samtals af Maurten á hjólinu og á að giska 500-1000Cal úr Orkudrykk. Var fínn í maganum þannig að ég held ég verði bara að gefa Maurten næringunni fyrirtaks einkunn (í Barcelona mér var orðið ansi bumbult eftir ca. 10 GU gel og sleppti að éta gel í restina á hjólinu og kom fáum niður á hlaupinu). Hef annars ekki hugmynd um hvað ég drakk af vatni og Orkudrykk en það voru ansi margir lítrar (auk annars eins af vatni sem ég sprautaði yfir mig). Pissaði samt bara einu sinni á hjólinu, nálægt Waikoloa eftir 3,5-4 tíma þannig að ég hefði sennilega þurft að drekka aðeins meira.

Meðal hraði: 34,9km/klst
Max hraði: 69,6km/klst.
Meðal power: 206W (9W lægra en í Barcelona)
Normalized power: 215W (8W lægra en í Barcelona)
Max power: 475W
Max 20mín power: 230W
Meðal púls: 144 (5 slögum hærra en í Barcelona)
Max púls: 161
Meðal cadence: 87rpm (heldur hærra en ég er vanur, er yfirleitt nær 80rpm)
Max cadence: 116rpm
Heildarhækkun 1772m (1000m hærra en í Barcelona)

35,04km/klst meðalhraði, 93. sæti í aldursflokki og 559. af heildinni. Var um 18mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 36mín hraðari en meðaltalið í keppninni.
Í ljósi hita- og vindaðstæðna, þá verð ég að vera sæmilega sáttur við hjólið. Var að vonast til að vera undir 5 tímum en þá hefði ég annað hvort þurft að vera slatta mikið ákafari í framúrakstrinum (með hættu á að sprengja mig og klúðra hlaupinu), nú og sjálfsagt hefði verið minni traffík ef ég hefði synt 5-10mín hraðar (veit það samt ekki) en það þýðir ekkert að spá í það. Er að skila næstum 10W lægra afli en í Barcelona, þó ég telji mig hafa verið í 10W betra formi en þá. En þar var ekki bullandi hiti með tilheyrandi álagi á skrokkinn þannig að það hefði sennilega verið áhættusamt að ætla sér að pressa hjólið eitthvað meira en ég gerði – því ég var alveg orðinn sæmilega grillaður í lærunum síðustu 2 tímana og farinn að krampa aðeins, sérstaklega þegar ég reyndi að rétt úr mér.

T2 – 3:18
Það var slatti af liði að koma inn í T2 á sama tíma og ég svo ég gat ekki hlaupið eins hratt kringum svæðið og ég hefði viljað (fæstir jafn stressaðir og ég á tímanum greinilega).
Sjálfboðaliðarnir taka við hjólinu af manni eftir  línuna svo það þurfti amk. ekki að fara með það í rekkann. Þurfti hins vegar á móti að skila hjálminum af mér í T2 pokann.
Þurfti að úða á mig öðrum umgangi af sólvörn og setja á mig alls konar dót í tjaldinu (skyggni, sólgleraugu, gelflösku, númerabelti) og þar sem ég fékk djöfullega magakrampa þegar ég var að losa skóna á hjólinu þurfti að vanda mig við að fara í sokkana og skóna til að ná yfir höfuð að standa upp aftur.
17. hraðasti skiptitíminn í aldursflokki, 2:16 hraðari en meðal skiptitíminn.

IMG_3058
Að hlaupa í Kona er góð skemmtun…

Hlaupið – 3:11:02
Ég var ótrúlega sprækur þegar ég byrjaði að hlaupa og fann ekkert fyrir magakrömpunum, sem voru að stríða mér í skiptingunni. Rauk af stað á rétt um 4:00mín/km hraða upp á Kuakini Highway og niður á Ali´i Drive en þar eru hlaupnir 5-6km til suðurs og aftur til baka inn í miðbæ Kailua – samtals um 12km lúppa áður en farið er upp á Queen-K þjóðveginn. Þessi kafli er alræmdur fyrir að vera funheitur því hafgolan nær ekki að blása um götur bæjarins. En mér leið bara bærilega enda nýstiginn af hjólinu og það var ótrúlegur léttir.
Það eru drykkjarstöðvar á ca. 1mílu fresti (1600m) og þar eru í boði blautir svampar, vatn, klakar, orkudrykkir og kók (stundum RedBull). Ég var nokkrar stöðvar að ná bestu aðferðinni í þessum aðföngum og það var ekki alltaf hægt að ná því sem maður vildi ef það voru hlauparar rétt á undan manni og flestar stöðvar voru að þjóna báðum áttum svo það var mismargt fólk í þjónustunni sitt hvoru megin. Fyrstu nokkrar stöðvarnar fékk ég stundum svampa, stundum klaka og alltaf einhvern drykk (oftast vatn framan af). Svamparnir fóru á axlirnar og bringuna og klakar á kviðinn og bakið og vatni skvett yfir hausinn, bakið og hendurnar. En þegar leið á hlaupið þá var farið að dreifast meira úr fólkinu og maður fékk nokkurn veginn það sem maður vildi á hverri stöð. Það munaði ótrúlega mikið um þessar kæliaðferðir og mér var ekki sérlega heitt á hlaupinu en mér skilst á Ásu að áhorfendum hafi verið verulega heitt að standa kyrrir að horfa á keppnina á þessum tíma (er að byrja að hlaupa rétt um 13:30). Miðað við hversu hrikalega heitt mér var að hlaupa í bænum og á Energy Lab svæðinu í seinniparts sólinni í vikunni án svampa og klaka, þá var þetta bara fínt í keppninni, því ég var mjög reglulega að fylla á klakana og skipta um svampa og hella yfir mig (mis)köldu vatni.
Ég var með fimm „Maurten 100“ gel í mjúkri flösku („softflask“) inni á gallanum. Það var aðeins erfitt að kreista þykkt gelið úr flöskunni en hún lá þarna á kviðnum á mér kringum klakana og svampana þannig að gelið hélst sæmilega kalt og „lystugt“ en pælingin með flöskunni var að sleppa við að vera með gelbelti og vesenið og klístrið sem fylgir því að opna gelbelti og drekka úr þeim á hlaupum. Fékk mér smá sopa af geli (~1/3 af einu gelbréfi) á nokkurra km fresti og 3-4 salttöflur samtals óreglulega yfir hlaupið.

Jæja, þessi 12km Kailua lúppa gekk vel og Ása og krakkarnir voru þarna í margmenninu á Ali´i Drive og sáu mig í ca. 2km og 10km (þau sáu mig líka á Kuakini í byrjun á hjólinu en svo sást ég ekki næstu 4,5 tímana meðan ég hjólaði til Hawi…). Var þarna á ca. target fyrir 3ja tíma hlaup (~4:15/km) eins og planið var og leið bara vel. Samt var ég aðeins farinn að leita mér að afsökun til að stoppa í lokin á lúppunni, á drykkjarstöð eða í brekku. Vissi að Palani Road brekkan væri brött og hugsaði að þar væri lögmæt afsökun til að labba með góðri samvisku (hausinn er alltaf að reyna að fá mann til að hætta þessari vitleysu :).
Palani er sannarlega brött og erfið en ég gat ekki sannfært sjálfum mig um að labba þetta snemma á hlaupinu en ég fór ekki hratt þar upp – minnir að ég hafi verið dottinn niður á 5:45/km á brattasta kaflanum (en hann var stuttur). Þessi km kringum Palani var næsthægasti á hlaupinu á 4:55/km.
Eftir Palani er maður kominn aftur upp á Queen-K þjóðveginn og þar er 15km endalaust hlaup að snúningspunkti við svokallað „Energy Lab“ (rannsóknarmiðstöð um náttúrulega orkugjafa) og þaðan eru svo aðrir 15km að markinu niðri í miðbæ. Á þessum kafla er sáralítið af áhorfendum en drykkjarstöðvarnar eru alltaf á sínum stað og halda manni við efnið. Það fór greinilega einhver vindur úr mér í Palani brekkunni, því ég kom mér bara ekki aftur á 4:15 hraðann, sem ég hafði verið að rúlla nokkuð þægilega á niðri í bænum. Þjóðvegurinn er með smáræðis „undulating“ brekkum þannig að það er aðeins snúið að stýra hraðanum þarna, því það er snúið að átta sig hvort maður er á flötum kafla eða að fara upp eða niður smá halla. Ég fann sæmilegan takt eftir Palani á aðeins hægara tempó en fyrir, kringum 4:20-4:40 og vissi að ég myndi ekki ná 3 tímum þannig en mér var svo sem alveg sama – fókusinn var bara á að finna tempó sem væri skilvirkt án þess að vera of mikið streð. Fór úr púls 155-160 inni í bæ niður 150-155 út að Energy Lab snúninginum þannig að ég var klárlega bara að pressa hraðann minna á þjóðveginum en í byrjun (meðvitað eða ómeðvitað, sitt lítið af hvoru sennilega). Leið svo sem ekkert illa en dagurinn og hitinn voru bara farin að segja aðeins til sín (kominn 7+ tíma inn í daginn) – var ekki með krampa, var ekki illt í maganum eða neitt slíkt en orkustigið bara aðeins farið að síga. Fékk smá seyðing af krömpum í neðri hluta lappanna kringum 20km en það var sæmilega til friðs og versnaði ekki teljandi. Þjóðvegurinn er roooosalega langur og mér fannst ég ekkert komast áfram. Var alltaf að bíða eftir sólarsellu stæðunni sem er ofan við Energy Lab og sést úr fjarska en aldrei kom hún. Var búinn að hjóla þennan kafla í vikunni og keyra þetta margoft og þá virkar þessi kafli örstuttur en hlaupandi tekur þetta heila eilífð og er frekar niðurdrepandi… Hafðist þó að lokum og við beygjuna niður af þjóðveginum niður í Energy Lab er ég kominn 11-12km af þessum 15km að snúninginum.
Gekk fínt niður brekkuna frá þjóðveginum og ég horfði þar á Special-Needs tjöldin og bölvaði því að hafa ekki sett eitthvað gúmmelaði handa mér í poka – ákvað að sleppa Special-Needs pokunum bæði á hjóli og hlaupi (setti í poka í Austurríki og Barcelona en notaði í hvorugt skiptið). Margir aðrir voru að fá pokana sína en ég fékk ekki neitt – bömmer því ég var orðinn ansi þyrstur þarna og enga þjónustu aðra að fá. En um 500m seinna var drykkjarstöð svo þessi vonbrigði voru fljót að hverfa úr hausnum á mér. Það var RedBull tjald skömmu síðar við snúninginn og ég fékk mér glas af því en var annars mest búinn að drekka vatn og einstaka sinnum Orkudrykk.
Kaflinn eftir snúninginn er andlega erfiður – það er fjandi heitt þarna og það er smá hækkun til baka upp á þjóðveginn og ég var ansi þungur upp brekkuna, þó ég væri á ágætis hraða svo sem og það hjálpaði að hafa hlaupið þetta í funhita á æfingu í vikunni. Stoppaði örstutt á drykkjarstöðinni eftir aðal brekkuna og fékk mér klaka og kók og hresstist mikið við það. Var þá kominn 28-29km.
Næstu 2-3km gengu ágætlega uppi á þjóðveginum en í 33km kom loksins babb í bátinn. Lærin og kálfarnir voru í góðum gír en þarna fékk ég allt í einu massíva krampa undir ilina og kringum ökklann á vinstri þannig að tærnar fettust niður í skóinn og ökklinn inn á við. Þetta hljómar ekki sérlega merkilegt en það var alveg vonlaust að hlaupa svona því ég var við það að flækja fótinn í malbikinu í hverju skrefi. Hægði aðeins á mér og reyndi að hugsa um eitthvað annað en það breytti engu. Ég skrölti því skakkfættur inn á næstu drykkjarstöð og stoppaði þar og drakk þrjú glös af Orkudrykk og tvö af kóki og labbaði rólega af stað. Þessi kafli var hægasti hjá mér á 5:30/km. En ég skánaði við þetta stopp og komst aftur á 4:30-45/km hraða en kramparnir voru samt stríða mér. Ég labbaði því í gengum næstu 2-3 drykkjarstöðvar til að koma meiru af vökva í mig. Þetta kostaði smá tíma á hverri stöð en ég var samt yfir 5:00/km meðalhraða á þessum kafla þannig að ég mjakaðist hægt en örugglega í átt að Kailua. Var lítið farinn að pæla í heildartímanum og var eiginlega búinn að afskrifa það að ná tímanum hans Geirs síðan í fyrra (3:16:41) – fannst ég vera búinn að brenna svo miklum tíma á þessu krampaveseni mínu og væri farinn að hlaupa það hægt að það væri vonlaust. En þegar ég fór að nálgast 40km fór ég að reikna þetta í huganum og sá að ég ég væri ekki svo langt yfir 3 tímana. Lappirnar voru líka óðum að skána og ég farinn að rúlla sæmilega aftur. Ég hljóp því í gegnum síðustu drykkjarstöðvarnar á þjóðveginum, sleppti að taka svampa og ís og tók bara eitt glas af orkudrykk. Með ca. 3km í mark kemur Palani Hill, sem er síðasta brekkan á leiðinni og staðurinn þar sem Mark Allen náði loksins að stinga Dave Scott af í Iron War árið 1989 og vinna þá sögulegu keppni. Þetta er svo sem ekki stórkostleg brekka en þó aðeins upp í móti í tæpan km og eftir næstum 40km hlaup og yfir 9 tíma puð yfir daginn rífur þetta aðeins í. Ég náði að halda ca. 4:55/km hraða þarna upp og var mjög ferskur ofan við brekkuna og flaug niður Palani Road hinu megin og áfram inn á Kuakini. Sá km var sá hraðasti hjá mér á 4:00/km enda helmingurinn niður bratta brekkuna. Það er svo lúmskt langt eftir Kuakini að Hualalai Road, sem skilar manni niður á Ali´i Drive þar sem eru bara um 700m í mark. Ég hélt fínu tempói á lokakaflanum án þess þó að keyra allt í botn, því ég vildi líka njóta lokakaflans á þessari frægustu götu þríþrautarheimsins. Ása og krakkarnir voru á Ali´i með um 300m eftir og ég fékk tvo íslenska fána hjá þeim þegar ég hljóp framhjá. Hljóp því yfir marklínuna sem stoltur Íslendingur og hvílíkur léttir sem það var… „You are an Ironman“ gólið (og nafnið mitt) hjá Mike Reilly í kallakerfinu var ekki að gera eins mikið fyrir mig núna eins og í fyrstu keppninni minni 2017 en var samt hressandi, því þarna var ég sannarlega að klára „The Ironman“ en ekki bara „An Ironman“ 🙂

316_m-100927966-DIGITAL_HIGHRES-3000_204937-35194167


Heimsókn í sjúkratjaldið

Var ansi verkaður þegar ég stoppaði eftir marklínuna og var studdur af sjálfboðaliðum í burtu. Þau spurði mig hvort mér liði sæmilega og ég tjáði þeim að mig svimaði aðeins og hefði í gegnum tíðina verið að missa mikið af söltum í þessum keppnum og byrjaði að krampa um leið og ég stoppaði. Fór því í sjúkratjaldið í skoðun og þau tóku púls og blóðþrýstingsmælingar á mér. Púlsinn ansi hár þarna strax eftir að ég kom í mark en blóðþrýstingurinn fínn en ég var næstum 3kg léttari en þegar ég lagði af stað svo ég var búinn að missa óheyrilega mikið af vökva þrátt fyrir þau ósköp sem ég innbyrti yfir daginn. Ég lá á bekk í næstum hálftíma með klakapoka á mér og drakk orkudrykk. Þegar ég var svo látinn reyna að setjast upp, þá fékk ég massíva krampa í lærin í viðbót við kálfa- og ökklakrampa sem ég var með þegar ég lá á bekknum. Ég var því færður á annan bekk og fékk einn poka af saltlausn í æð og þau ætluðu að setja mig á magnesíum-lausn ef ég skánaði ekki. Drakk orkudrykk og kjúklingasoð meðan ég lá í hálftíma á dælustöðinni og leið miklu betur á eftir – settist upp og fann lítið fyrir krömpum en var náttúrulega hressilega stífur eftir ósköpin. Var því útskrifaður og fór minnar leiðar, sótti medalíuna mína og það dót og svo morgunfötin mín og hitti Ásu og krakkana á veitingastað og tróð sveittum hamborgara og miði ofan í mig af mikilli lyst…

Hraðasti km: 4:03 (1. þó ég hafi ekki ætlað að spretta af stað 🙂 og 4:00 (41. niður Palani)
Hægasti km: 4:55 (12. upp Palani) og 5:30 (34. langt stopp á drykkjarstöð þegar krampar voru verstir til að drekka 3x orkudrykk og 2x kókglös…)
4:31mín/km meðalhraði, 11. sæti í aldursflokki og 115. af heildinni. Var næstum 50mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 1klst 6mín hraðari en meðaltalið í keppninni.

Hljóp hraðar en 10-12 Pro karlar (af 41 sem kláraði), og hraðar en 25 Pro konur (af 37 sem kláruðu) – ekki slæmt það. Var t.d. 3mín hraðari en Alistair Brownlee, margfaldur heims- og ólympíumeistari í ólympískri þríþraut og Lionel Saunders, sem hefur stundum verið meðal efstu manna í Kona undanfarin ár. 🙂

Heildartíminn, 9:39:29, var 1klst 8mín hraðari en meðaltalið í aldursflokki og 1klst 47mín hraðari en meðaltalið í keppninni.
39. í aldursflokki í heildartíma. Vann mig upp úr 188. sæti eftir sundið.

IMG_3080
Járnmaðurinn og járnfjölskyldan.

 

Hitinn, vindurinn og allt hitt brjálæðið í Lanzarote

Sigurður Örn segir frá:
Það var seint í sumar sem ég ákvað hvaða keppnir skyldu verða fyrir valinu hjá mér til að loka þessu tímabili en ég var lengi að velkjast fram og til baka með hvert ég ætti að fara. Það var margt í boði en samt eitthvað svo takmarkað sem ég hafði áhuga á. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að Weymouth og Lanzarote skyldu verða punkturinn yfir i-ið hjá mér og skráði mig því í þessar tvær keppnir ásamt því að bóka flug og hótel.
Til að gera langa sögu stutta í sambandi við Weymouth, þá sprengdi ég dekk þar – já AFTUR vesen á hjólinu – og engin leið að gera við það á staðnum. Sú keppni var því ónýt eftir um 950m sund og 18 km hjól, en sundið hafði verið stytt vegna örðugleika við að setja upp baujur í sjóinn daginn áður. Spólum því fram um tvær vikur og þá erum við mætt á „eldfjallið“ Lanzarote.
Lanzarote, líkt og Fuerteventura, og mjög líklega aðrar eyjur þarna í Canaria-klasanum er mjög fyndinn staður. Yfirborð eyjunnar minnir helst á Mars og ekkert nema gígar og brúnn sandur svo langt sem augað eygir. Stöku runnar finnast víða og í raun ótrúlegt að gróður nái yfir höfuð að festa rætur þarna miðað við það að það eru að minnsta kostir 8 m/s allan sólarhringinn. Strendurnar eru þó mjög fínar og aragrúi af hótelum hafa risið við helstu staðina á eyjunni. Af þeim sökum koma bara tvær týpur af fólki til Lanzarote – annars vegar íþróttafólk sem ætlar sér að æfa eða keppa af sér allt vit, og hins vegar fólk sem er ekki komið til neins annars en að liggja á sama staðnum í sólinni næstu dagana.
Ég var jú að sjálfsögðu hluti af fyrrnefndum hóp fólks enda Ironman 70.3 Lanzarote næst á dagskrá. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég mætti var ótrúlegur hiti, en yfir daginn náði hann yfirleitt um 30 gráðum og sólin bakaði fólk á heiðskýrum himni. Það var því útlit fyrir áhugaverða keppni.
Daginn fyrir start fengum við að vita að sundinu hefði verið aflýst vegna skipunar frá spænskum yfirvöldum, en hætta var á því að svarmur af lífshættulegum marglyttum myndi skola upp að landi á bæði Lanzarote og Fuerteventura og því allt almenningssund á þessum stöðum bannað. „Yndislegt“, hugsaði ég – þá er búið að kippa bestu greininni minni úr keppni og því sú forysta sem ég hafði venjulega á flesta gaurana algjörlega farin. Okkur var svo tjáð að við yrðum startaðir allir í einu, 43 saman, og því yrðu slagsmál að komast inn á skiptisvæðið, fara í pokana og ná í hjálminn fyrir hjólið. Þetta gat bara ekki klikkað. Eitt var þó víst – þetta myndi skapa frábært efni fyrir áhorfendur á hliðarlínunni, sem það jú gerði.

10_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_006399-34381633
Keppnisdagur
Að morgni keppnisdags fór ég niður í morgunmat á hótelinu kl 5:00 og fékk mér létta máltíð sem samanstóð af eggjahræru, brauðsneiðum með nutella og banana. Hélt svo upp á herbergi til að klára að taka saman fyrir keppnina. Var mættur um 90 mín fyrir start til að pumpa í dekkin á hjólinu og klára að setja allt upp. Það átti eftir að verða heitt, svo planið var að byrja með 750ml af vatni, 10 gel í brúsa ásamt vatni og Aquarius íþróttadrykk í öðrum 500ml brúsa. Ég myndi svo henda brúsunum og fá nýja á drykkjarstöðvunum. Lykillinn myndi verða að stýra álaginu og vökva sig rétt yfir alla 90 km til að eiga einhvern séns á að verða starfhæfur á hlaupinu.
Korter í start var okkur strákunum safnað saman við startlínuna, en planið var sem sagt að við myndum hlaupa inn á skiptisvæðið og að pokunum okkar til að ná í hjálmana. Eins og ég nefndi hér að ofan, þá var þetta líklega ekki alveg hugsað út í gegn, en plássið fyrir framan snagana þar sem pokarnir héngu var ekki mikið og rúmaði svo sannarlega ekki 43 einstaklinga. Engu að síður vorum við startaðir svona og þá hófst fjörið.
Allir þutum við að snögunum og fljótlega myndaðist svona skemmtileg „umferðarteppa“ við innganginn að okkar rekka. „Absolute carnage“ og „what a shitshow“ heyrðist í einhverjum fyrir utan girðinguna þegar fólk fylgdist með 43 fullvaxta karlmönnum, klæddum þröngum og litskrúðugum samfestingum, berjast innan um hvorn annan til að ná í númeraða lilla-bláa poka sem héngu á snaga. Svona eins og á leikskólanum í den, fyrir utan að þá var þetta merkt með nafni en ekki númeri. Ég var búinn að ákveða að vera ekki að stressa mig mikið enda ætlaði ég mér að klára þessa keppni og því ætlaði ég ekki að gera þau mistök að fara of hratt af stað og enda á því að klára orkuna. Svo ég fékk hjálminn á endanum og hélt að hjólinu. Hjálmur á hausinn, hjólið gripið og ÚT.
Þetta byrjaði ekkert allt of vel þegar ég hoppaði á hjólið og fipaðist þannig ég klessti beint á grindverkið til vinstri í hjólabrautinni. Æjæj, fæ kannski að sjá replay af þessu undir „fails“ á Reddit.com einhvern tímann. Kemur í ljós. Náði að komast á hjólið og hélt af stað.
Keyrslan út úr bænum var andstyggilega erfið sálrænt þar sem manni fannst að það væri ekkert að gerast þrátt fyrir ákefðina. Ég hélt 315W fyrstu 45 mínúturnar en fór ekki nema rétt rúma 20 km á þeim tíma sökum hækkunar og brjálaðs vinds en það var á tíma erfitt að halda sér á hjólinu. Three-spoke framgjörð og diskur að aftan hjálpuðu líklega ekkert mikið í þessum aðstæðum og gerðu illt verra ef eitthvað var. Ég drakk vel og hélt mér nærðum á þessum tíma en ég ætlaði að passa að lenda ekki í því að „krassa“ næringarlega séð. Ég vildi því ná að koma slatta ofan í mig á fyrri hluta hjólsins til að geta sett inn betri síðari helming.

5_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001731-34381628
Næstu 40 mínútur voru skárri þar sem við vorum mikið til í skjóli frá vindi og lentum í því að fá vindinn í bakið á hluta leiðarinnar og því meðalhraðinn þar um 40 km/klst með rúllandi hækkun og lækkun upp á 320 metra. Það var aðeins þægilegra sálrænt og þá sérstaklega þar sem að hér var ég farinn að éta uppi nokkra hjólara sem höfðu byrjað of hratt og þurft að hægja á sér. Ánægjulegt að vera sá sem tekur fram úr til tilbreytingar, gæti vanist þessu en geri mér engar vonir samt sem áður. Við komum fljótlega að síðasta klifrinu áður en við tók sléttur kafli síðustu 30 km hjólsins. Þetta var brútal en rúsínan í pylsuendanum var sú að það var drykkjarstöð á toppnum og því til einhvers að hlakka. Ég var búinn að þaulplana þetta í hausnum, búinn að klára úr brúsunum hjá mér og ætlaði svo aldeilis að taka þetta með stæl. Þegar ég nálgast drykkjarstöðina held ég á tómum brúsa í vinstri hendi og ætla að henda honum í ruslakörfuna. Þetta tekst ekki betur en svo að í leiðinni og ég hendi brúsanum slæ ég Garmin Edge tölvuna mína úr stæðinu sínu og hún fleygist af hjólinu og í götuna. What. A. PRO. Annað myndskeið fyrir fail-compilation ef einhver var með video-upptöku í gangi þarna. Jæja, mjög ákafur sjálfboðaliði rétti mér tölvuna aftur, ég henti brúsum á hjólið og fyllti á vatnið áður en ég hélt áfram og tapaði nú líklega ekki nema bara 15 sek þarna sem liðu þó eins og tvær mínútur.

Fokið niður brekku
Næsti kafli var síðasti tæknilega erfiði kaflinn í brautinni en hérna fórum við niður rosalega brekku í brjáluðum vindi á leið okkar aftur til bæjarins. Ég hugsaði oft um líf mitt á leiðinni þarna niður og þurfti ekki að gera neitt annað en að liggja á bremsunum til að halda hraðanum bara á 74 km/klst. Mér fannst það svona það mesta sem ég þoldi andlega. Eftir keppnina sá ég að Fredric, sá sem sigraði, fór á 94 km/h þarna niður og ég á erfitt með að trúa því, ekki nema hann eigi sér dauðaósk. Eftir að komast loks í bæinn aftur tók við 30 km lykkja fram og til baka sem var að mestu flöt en á þessum tímapunkti var orðið ansi erfitt að halda afli og síðustu 20 mínúturnar voru eingöngu á um 270W að meðaltali þar sem vöðvarnir voru orðnir of tollaðir eftir að hafa barist við vindinn og brekkurnar. Hjólið endaði í um 2:29 klst, en ég hef sjaldan verið jafn feginn að klára hjólalegg í keppni og ég var þarna.
Normalized afl yfir 90 km hjólið var 300W, sem var aðeins undir væntingum mínum en ég hafði vonast eftir allavega 310W á góðum degi. Líklega hefur hitinn og vindurinn spilað stórt hlutverk þar. Ég drakk samtals 4 lítra af vökva yfir hjólið og átti það líklega stóran þátt í því hversu ferskur ég var til að byrja með í hlaupinu.

Hlaupið var fjórir 5 km hringir plús smá kafli í átt að marklínunni. Þetta byrjaði vel, fyrsti hringurinn var á target pace, um 3:41/km og mér leið vel. Í lok fyrsta hringsins kom Frederic, sigurvegari dagsins, fram úr mér og til marks um það að formið var í góðu lagi náði ég að halda vel í hann langt inn í hring númer tvö. Mér leið stórkostlega, nýtti drykkjarstöðvarnar vel, hellti yfir mig, drakk vel, notaði svampana og tróð þeim inn á gallann til að nota á milli stöðva. En rétt eins og nóttin er dimmust áður en birtan kemur, er dagurinn einnig bjartastur áður en myrkrið skellur á. Á þriðja hring er eins og einhver hafi sprengt blöðru. Allt í einu var öll sú orka sem ég bjó yfir farin og það fór að hægjast vel á mér. Ég reyndi að einbeita mér að tækninni og halda skrefatíðni stöðugri, anda rólega og reyna að komast aftur í rhythma en allt kom fyrir ekki. Ég ákvað á þeim tímapunkti að það yrði bara markmið númer eitt, tvö og þrjú að komast í mark. Þegar hér er komið við sögu var hitinn kominn upp í 33 gráður og heiðskýrt á himni með sólina beint fyrir ofan sem bakaði okkur rækilega. Þegar munurinn á kjörhita líkamans og úthitastigi er eingöngu 4°C er því miður ekki mikið eftir til að vinna með hvað kælingu varðar og því var líkaminn í raun bara að ofhitna á þessum tímapunkti. Þetta sést líka á aflinu á hverjum hring, en á meðan hjartslátturinn hélst stöðugur eða jókst meira að segja örlítið, fór aflið á hverjum hring úr 351W, niður í 333W, þaðan í 315W og loks 295W á síðasta hring.
4_m-100923767-DIGITAL_HIGHRES-3236_001595-34381627Þetta endaði svo á því að ég tapaði endasprett við Manuel Kung, en sá hefur oft átt betri keppni og endar oftar en ekki á palli í þessum keppnum. Segir ýmislegt um það hvernig dagurinn var að fara í menn þarna og sýnir líka að þeir bestu geta átt slæman dag og verið eins og við hin sem erum mannleg 😛 . Ég endaði að lokum 18. PRO og 21. í heildarkeppninni og því einhverjir þrír sterkir Age Group gæjar sem hafa laumað sér á topplistann með okkur í PRO flokknum. Af þeim 43 sem að hófu keppni kláruðu hins vegar bara 23 í PRO og segir það nokkuð um erfiðleikastigið í dag. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta og sérstaklega í ljósi þess að mín sterkasta grein, sundið, var ekki hluti af keppninni. Þetta hefði hæglega getað farið allt öðruvísi hefðum við fengið að busla í 20-30 mínútur í sjónum áður en við stukkum á hjólið en það verður að bíða betri tíma.
Nú tekur við pása hjá mér næstu tvær vikurnar áður en undirbúningur fyrir næsta tímabil hefst. Það eru stór markmið framundan og verður gaman að deila því með ykkur þegar þar að kemur. Þangað til næst!
Siggi

Upplifunin er eilíf…

Eva Ólafsdóttir segir frá:

Ég tók þátt í mínum fyrsta heila járnmanni þann 6. október síðastliðinn og þvílík upplifun! Við mættum á keppnissvæðið á sunnudagsmorgni í svartamyrkri og horfðum á sólina rísa úr Miðjarðarhafinu. Það var blankalogn og nánast sléttur sjór þegar sundið var ræst. Ég reiknaði með að vera 1:30 – 1:40 með sundið og tók mér stöðu í 1:30 hólfinu. Startið var rúllandi og fimm ræstir í einu á fimm sekúndna fresti og hlaupið út í sjó. Leiðin virtist endalaus en sundið gekk vel og ég dundaði mér við að telja marglyttur og leita að Nemo (fann hann ekki). Sjórinn var dásamlegur, 21 gráða og ég slapp að mestu við högg og spörk frá öðrum keppendum. Nokkrir voru á bringusundi og tóku dálítið pláss en ég náði að drafta á milli og ná þannig upp hraða og kláraði sundið á 1:29:40. Ótrúlega ánægð með það og þessi grein, sem ég var lélegustu í fyrir ári síðan reyndist mér sú auðveldasta í keppninni. Grunnur minn í sundi er sá að ég skrópaði í flesta tíma í skólasundi og lauk aldrei þeim stigum sem til var ætlast. En ég er vön sjónum og hef synt í honum allt árið síðustu 9 ár, en alltaf á bringusundi þó þar til ég fór að æfa með Ægi3 í fyrrahaust.

IMG_20191009_143749_296

Ég hljóp upp úr sjónum og var blessunarlega laus við sjóriðu sem ég hef annars oft fundið fyrir og byrjaði að fletta af mér gallanum á hlaupunum upp á skiptisvæðið. Var smá stund að gaufa þar, borðaði eitt hnetustykki sem hafa hentað mér vel á æfingum og í keppnum, hoppaði í hjólagallann og af stað út í hjólabrautina. Þar sem rassinn hefur þolað illa langar setur á hjólinu þrátt fyrir að hafa prófað nokkra mismunandi hnakka, var ég búin að klippa gamlar hjólabuxur og fór í þær utan yfir gallann. Þessi extra púði hefur alveg bjargað mér á löngu æfingunum og kom sannarlega að góðum notum þessa 180 km, en ég hafði lengst hjólað 140 km fram að þessu.

IMG_20191009_143451_456

Hjólið (tveir 90 km hringir) gekk bara ágætlega en strax í byrjun pípti úrið á mig að wattamælirinn væri batteríislaus. Var samt nýlega búin að skipta en hvað um það – þýddi ekkert að fárast yfir því úr þessu. Ég náði að næra mig og vökva vel á hjólinu, borðaði á ca. 40 mínútna fresti gel og hafrastykki sem ég var með í bitum í hjólatöskunni. Var auk þess með salttöflur og svo sterka blöndu af söltum og bcaa í einum brúsa sem ég tók smá sopa af reglulega. Svo alltaf vatn á hverri drykkjarstöð, bæði innvortis og útvortis til að kæla mig en hitastigið var reyndar fullkomið þennan dag, um 20 gráður og að mestu skýjað (náði samt á einhvern undraverðan hátt að sólbrenna, en það er svosem ekkert nýtt fyrir mig). Á seinni hringnum fór ég aðeins að fá sjóntruflanir og tók þá strax salttöflu og drakk vel af vatni. Það lagaði ástandið aðeins en síðustu kílómetrana var fjarlægðarskynið í rugli og sjónin eins og ég væri á sýru (ímynda ég mér, án þess að ég hafi reynslu af slíku ástandi!). Kannski var ég bara á mjólkursýru J Ég hefði gjarnan viljað vera á 6:20 – 6:30 á hjólinu en lokatíminn var 6:53:53. Ætla samt ekki að eyða tárum í það og gott að eiga þarna rúm fyrir bætingu.

Ég skottaðist af hjólinu upp á skiptisvæðið aftur og beint í hlaupagallann. Borðaði líka annað hnetustykki á meðan ég gekk frá hjóladótinu. Ég var frekar spennt fyrir hlaupinu því ég er sterkust þar og hlakkaði til að enda á því. Planið mitt var að fara út á 5:40 hraða og reyna að halda honum sem lengst. Draumurinn minn var að ná undir 4 tíma sem ég vissi að væri ansi bratt og til þess að það næðist þyrfti allt þyrfti að ganga upp. Brautin var nokkuð fjölbreytt og skemmtileg og hlaupnir þrír 14 km hringir. Mér leið vel þrátt fyrir að smá þreyta væri farin að segja til sín, en eftir um 12 km heimtaði maginn að ég stoppaði og þá hlýðir maður. Þarna fóru dýrmætar 4 mínútur en ég hélt ótrauð áfram og markið færðist nær. Ég tók gel og vatn á fyrri tveimur hringjunum en svo bara kók á þeim síðasta. Braut þar gullna reglu því ég hef aldrei drukkið kók í keppni og drekk venjulega ekki gos. En kókið hressti mig við og var kærkomin tilbreyting frá gelunum. Það var komið svartamyrkur á síðasta hringnum og skemmtileg stemning í brautinni, hlauparar reyndar orðnir í mjög misjöfnu ástandi en mér leið ennþá vel þrátt fyrir smá þreytu. Við lok síðasta hrings tók ég snarpa hægri beygju og hljóp lokasprett niður rauðan dregil og alla leið í mark! Lokatími í hlaupinu 4:02:28 – og hefði náðst undir fjórum ef mallinn hefði ekki verið með stæla.

IMG_20191009_144146_582

Tilfinningin að klára járnið eftir allan undirbúninginn er ólýsanleg og ekki laust við að ég fengi kusk í augað þegar ég heyrði nafnið mitt kallað: „You are an Ironman!“ Heildartíminn minn var 12:37:59 og ég er bara sjúklega ánægð með það.

Ég fór strax og fékk mér að borða og drekka og passaði að halda mér á hreyfingu. Rölti svo að sturtunum þar sem eintómir karlmenn voru að baða sig svo ég fór og spurði starfsmann um kvennasturturnar. „Welcome to Spain!“ var svarið – hér baða allir sig saman. Sturtan var ísköld – sem var kannski bara gott því ég tók enga niðurdýfu eftir keppnina og á engar gubbusögur handa ykkur. Leið bara ótrúlega vel og þvílíkt glöð með að hafa klárað. Ég var búin að fara vel í gegn um keppnina í huganum og undirbúa mig því ég hef stundum dottið í neikvæðar hugsanir og niðurrif í þeim maraþonum sem ég hef hlaupið. En gleðin var með mér alla leið í IM Barcelona og frábært að labba frá þessu með svo jákvæða upplifun J Brautin er frábær – flöt og skemmtileg og ég mæli 100% með henni sem fyrsta járninu!

hopur
Fáttt jafnast á við að fara í keppni með skemmtilegum félögum.

 

Að hamra járnið er góð skemmtun…

Guðjón Karl segir frá:

guttimeðdrykkinnÉg finn að líkami og sál er búið að jafna sig eftir Ironman Barcelona, nú þegar tíu dagar eru frá keppni. Ég er byrjaður að lyfta létt og hjóla og hlaupa.
Ég veit um marga sem fylgjast með kallinum og fá hugmyndir og þess vegna er við hæfi að deila nokkra ára reynslu af árlegri þátttöku í heilum járnmanni.
Hvíld er góð
Sjálfur var ég agaður í að hvíla þol og högg á liði 2x per viku alveg frá Ironman Wales og er því meiðslalaus í dag. Hvíldi og hvíla nánast alltaf annan helgardaginn allt árið. Fann líka hvað það hentaði betur að synda bara 1 x í viku, einnig voru axlir og lendhryggur töluvert betri í kjölfarið. Þannig sleppti ég alveg morgun (hóst) æfingum í miðri viku alveg í heilt ár og mun gera slíkt fram að Ironman South Africa.
Ég æfði að venju 10 klst per viku frá IM Wales og fylgdi bara mínu eigin programmi sem ég bjó til fyrir hvern mánuð og hverja viku. Þannig var fjölbreytnin mikil. Æfði 3-4 x per viku múrsteinshlaup allt árið, tók þátt í maraþoni í april og Reykjavíkurmaraþoni í Ironman æfingaprogrammi og fannst mér það alveg vel við hæfi.
Ég gat sparað tíma með því að lyfta ekki í ræktarsal en get og gerði viðeigandi styrkjandi æfingar í lok hvers vinnudags á stofunni ca 3-4 x per viku, 10 mín í senn.

Tölur frá Barcelona
Árangurinn í Ironman Barcelona var 65 mín sund eða 1,44 min/100m og vel sáttur við það. Hefði farið sub 5 klst í hjólaleggnum ef ég hefði ekki lent í vægum árekstri eftir 56km. Var mjög ánægður með 5,01 klst enda hjólaði ég mest 4 klst á æfingu og 4x 3klst. guttiíbikefitFann mikinn mun eftir bike fit hjá Bikefit Sigga og engin óþægindi á hjólinu. Viljandi rétti ég úr mér í racer stöðu per 5 mín og fór í TT stöðuna á 5 mín fresti. Hjólaleggurinn og frjálslegar draftreglur í járninu í Barcelona bjóða uppá þetta.

Pínu vonbrigði með hlaupalegginn eða 4,16 klst en þetta er samt bara sæmilegur tími m.v. vaxandi aldur og brjóskrof í lendhryggnum. Gleymdi líka harðfisknum á T2 og brúsarnir með GU roctane mixinu hurfu þegar datt á hjólinu og því var bara kolvetni og steinefni í Enervit Iso drykk í ca 120 km á hjólinu. Tankurinn var því ansi tómur þegar ég byrjaði að hlaupa.
Bjóst við ca 11,15 klst og því kom 10.33 klst á óvart. Ég á það til að sleppa garmin hraða/wöttum, sem ég gerði eftir sundið. Sá bara hvað klukkan var og ca hver tíminn var eftir hjólið. Afslappað og gott. Kannski ekki nógu vísindalegt eða markvisst.

Ég keppti í öllum 4 þriþrautar keppnunum hér heima fyrir Barcelona járnkarlinn og lenti í 5. sæti í stigakeppni ÞRÍ og vel sáttur við það.

Það er því vel hægt að keppa árlega í járnkarli og hinum styttri keppnunum hérlendis ef æft er 10 klst vikulega og hvílt allt árið 2 daga og getum alveg lyft létt líka.

Er sjálfur gíraður í að rúlla 21k í haust hálfþoni 26.10 eða 3 vikum eftir Ironman. Vonandi þú líka lesandi góður. Hér er slóðin ef þú hefur ekki skráð þig.
https://marathonhlaup.is/registration/
guttiáströndinni
Að lokum vil ég þakka Viðari Braga og Þríkó en fékk að vera með þeim góða hópi í húsi nálægt keppnissvæðinu. Ég æfði ekkert með þeim í IM programminu og fann að ég vildi frekar gera minn undirbúning. Finnst sjálfum stundum erfitt að æfa samkvæmt annarra manna prógrammi en ætla að vera 2-3 x per viku með Ægir3 í vetur.

Þakka lesninguna, ykkar Gutti 😉

Bætingin í Barcelona

FB_IMG_1565698485192

Þetta er nokkuð löng saga um aðdragandann að IM Barcelona sem ég tók þátt í fyrstu helgina í október og svo örfá orð um keppnina sjálfa.

Fyrir mér var mikill sigur að hafa klárað þessa keppni því ég hef átt í basli með einhvers lags „meiðsli“ sem hafa háð mér mjög lengi. Ég set „meiðsli“ innan gæsalappa því einkennin voru og eru frekar óljós og lengi vel áttaði ég mig ekki á því að um meiðsli væri að ræða. Í raun hefur þetta verið þannig undanfarin 2 ár að því meira sem ég æfi og legg á mig í æfingum því lélegri verð ég. Ég ýki ekki þegar ég segi að í sumar sem leið hafi ég alvarlega verið að spá í að hætta að æfa þríþraut, alveg búin að gefast upp á því að leggja hart að mér í æfingum svo mánuðum skipti án þess að það skilaði árangri. Þetta var bara hætt að vera gaman.

Í upphafi var þríþraut

Ég byrjaði að æfa þríþraut 2013. Var dugleg að keppa hér heima bæði í stuttum og lengri keppnum (m.a. þrisvar sinnum ½ IM í Kjós) og gekk bara ágætlega, náði að bæta mig milli ára. Hlaupin hafa alltaf verið mín veika hlið en eftir fyrstu árin í þríþraut hafði ég bætt mig heilmikið í hlaupum.

Barcelona var önnur heila járnkeppnin mín (IM) en ég hafði farið í IM New Zealand (NZ) fyrir rúmu 1 ½ ári síðan. Þeirri keppni lauk ég á tímanum 13.46 en í Barcelona kláraði ég á 12.03. Þetta er náttúrulega geggjuð bæting, 1 klst og 43 mín !! Það er því áhugavert að velta því fyrir sér hvernig standi á þessari bætingu, hvað var öðruvísi við þessar keppnir og þá sérstaklega hvað var öðruvísi við aðdragandann að þeim.

Gúa vinkona mín hafði fyrir löngu ákveðið að fara í IM NZ og plataði mig að koma með. Um haustið 2017 hófst því undirbúningur fyrir keppnina sem fór svo fram í byrjun mars 2018. Þessi vetur var frekar leiðinlegur veðurfarslega séð sem þýddi að löngu hjólaæfingarnar varð að taka á trainer og hlaupaæfingar voru oft í hálku og snjó. Svo þarf náttúrulega ekki að nefna að sundæfingar í víðavatni eða sjó voru ekki teknar á þessu tímabili. Ég fékk æfingaprógram hjá Viðari Braga og hann studdi mig í gegnum undirbúninginn. Ég æfði mjög vel og fór samviskusamlega eftir æfingaprógramminu. Mér leið hinsvegar ekkert sérlega vel og æfingarnar voru oft á tíðum mikið streð. Löngu hlaupin voru erfið, komst ekkert úr sporunum, púlsinn var hár og ég svitnaði eins og svín. Ég átti líka erfitt með að halda uppgefnu afli á hjólinu og sérstaklega á löngu æfingunum. Var meira og minna orðin úrvinda af þreytu í lok æfingar. Þarna fann ég ekki fyrir neinum verkjum eða þannig einkennum, þetta var bara eitthvað svo erfitt. Ræddi þetta oft við Viðar sem mælti með að ég færi í blóðprufu, hugsanlega væri blóðleysi að valda þessu. Blóðprufan reyndist hinsvegar glimrandi fín og ekki vottur af blóðleysi. Svona gekk undirbúningurinn sem sagt, auðvitað eitthvað upp og niður, en þrátt fyrir að hafa lagt vel inn í æfingabankann þá voru litlar sem engar bætingar í gangi á undirbúningstímabilinu. Svo kemur að keppninni í NZ og í stuttu máli þá gekk keppnin algerlega í takt við það hvernig æfingarnar höfðu gengið, byrjaði ágætlega sterk en kláraði veik. Sundið gekk framar vonum (sundtími 1.11). Það var synt í kristaltæru vatni í Lake Taupo sem var ótrúleg upplifun. Hjólið gekk nokkuð vel framan af, hélt því afli sem lagt var upp með en eftir ca 90 km þá fór ég að þreytast mjög, aflið datt niður og þetta var bara streð og mér leið ekkert vel (hjólatími 6.27). Var allveg búin á því eftir hjólið. Ég man að í T2 hugsaði ég jæja, nú ætla ég að hvíla mig, ég get ekki haldið áfram strax. En sjálfboðaliðunum fannst ég eitthvað vera róleg í tíðinni og hálfpartinn ráku mig af stað. Ég held að ég hafi hlaupið örfáa km þangað til að ég bara gat ekki meir og fór að labba. Þannig fór ég meira og minna gangandi í gegnum hlaupalegginn (hlaupa/göngutími: 5.48).

Miðað við IM Barcelona var NZ hjólabrautin með fleiri brekkur og malbikið grófara. Hlaupabrautin í NZ er líka nokkuð erfiðari en í Barcelona, margar brattar brekkur en samt stuttar.

Að safna járni er góð skemmtun

Plön um næsta IM hófust strax eftir NZ og fengum við vinkonurnar þá hugdettu að það væri gaman að taka IM í hverri heimsálfu á næstu 10 árum. Þá var fljótlega ákveðið að við skyldum fara til Brazilíu næst, eða í maí 2019. Á bjartsýnisaugnabliki síðastliðið haust skráði ég mig svo líka í IM Barcelona 2019 (6.október).

Í kjölfarið ákvað ég að leggja meiri áherslu á hlaupið, myndi örugglega verða betri ef ég bara æfði meira. Sumarið og haustið 2018 var ég dugleg að hlaupa. Það gekk samt ekkert sérstaklega vel, fann fyrir einhverju ójafnvægi í hlaupastílnum, svolítið eins og annar fóturinn væri lengri en hinn, þannig var tilfinningin. Fór tvö 10 km keppnishlaup um sumarið með hörmungar árangri, hljóp langtum hægar en ég hafði áður getað hlaupið. Við erum að tala um 7-8 mínútna lakari tími en ég átti best þrátt fyrir að hafa æft vel. Sem sagt þá varð ég sífellt lélegri og lélegri með meiri ástundun þrátt fyrir að um nein meiðsl væri að ræða, a.m.k. fann ég ekki fyrir neinum verkjum. Um haustið 2018 fór ég svo að finna fyrir sviða í hægri mjöðm og framan á læri á hlaupum. Þannig gekk þetta um haustið og veturinn, varð bara hægari á hlaupunum og varð reglulega að stoppa til að hvíla uppsafnaða þreytu og sviða í hægri fæti. Þessi einkenni fóru líka að gera vart við sig á hjólinu, var bara drulluléleg þar, en þetta klárlega háði mér meira á hlaupunum. Fór loksins í sjúkraþjálfun vildi meina að ég væri með vanvirkan hægri rassvöðva. Næstu mánuði gerði ég Jane Fonda æfingar samviskusamlega 2 sinnum á dag til að styrkja og virkja gluteus medius, en það hjálpaði ekki mikið. Fór seinna í sterasprautu þar sem sinafestubólgur á mjaðmasvæði komu í ljós. Þegar upp var staðið þá gerði það heldur ekki mikið fyrir mig.

Að gefast upp er ekki góð skemmtun…

Þetta var sem sagt síðastliðinn vetur og ég var komin í æfingaprógram fyrir IM Brasilíu. Þar sem hlaupin voru að ganga svona illa var planið að massa bara sundið og hjólið og láta svo hlaupið ráðast. En þegar 3-4 vikur voru í Brasilíukeppnina gafst ég upp og hætti við. Það sem réði úrslitum með þá ákvörðun voru sko alvöru „meiðsli“ með alvöru sársauka sem gerði það að verkum að ég gat ekki með nokkru móti hjólað. Þetta voru sko „álagsmeiðsli“ í klofi/hnakksvæði sem hafa reyndar verið krónískt vandamál hjá mér.  Er betri inná milli ef ég passa að sitja ekki dag eftir dag í hnakknum, en með versnunum. Þar með var IM Brasilía úr sögunni og ég sá ekki fyrir mér að IM Barcelona myndi ganga heldur vegna þess hve illa gekk með hlaupin og í raun hjólið líka. Ég mætti til dæmis ekki á fund með Viðari Braga og öðrum Blikum sem voru á leið til Barcelona í upphafi æfingaprógramms í sumar, ég var ekki að fara. Þarna var allt orðið hálf vonlaust, ég farin að hugsa um hvaða annað tómstundargaman ég gæti fundið mér ef ég hætti í þríþraut.

Tímamótin

En svo kemur að ákveðnum tímamótum þegar ég fer til kírópraktors. Hafði mjög litla trú á að það myndi gera neitt fyrir mig en ákveð að prófa. Skv. röntgenmyndum var ég með snúning á spjaldhrygg og snúning upp eftir allri hryggjarsúlunni. Það var bara eins og við manninn mælt að eftir 1-2 hnykk-tíma þá var bara tilfinningin á hjólinu orðin allt önnur. Ég var bara orðin miklu aflmeiri og fór meðal annars 100 km hjólatúr þar sem ég kláraði túrinn sterk. Þetta var ótrúlegt, meira að segja kírópraktorinn trúði þessu ekki. Líklegast voru þetta bara lyfleysuáhrif. Hvað um það, um miðjan júlí í sumar fer ég fer í TT Kleifarvatnskeppnina og var bara full af orku, kláraði sterk og bætti FTP-ið mitt frá því í júní um ca 7%. Ég átti sem sé mánaðargamalt FTP test sem ég tók fyrir WOW-cyclothonið og á þessum mánuði hafði ég bætt mig umtalsvert. Ekkert sérstakt sem ég var að gera öðruvísi á þessum mánuði. Eftir velgengni mína í TT-keppninni og almennt betri upplifun á hjólinu plantaðist fræið um að kannski gæti ég bara farið til Barcelona, en ég var samt ekki alveg að trúa þessari breytingu á mér. Ákveð að halda áfram æfa hjólreiðarnar, tók langar hjólaæfingar um helgar með æfingafélögum mínum sem voru á leið til Barcelona, en fór meira svona sem selskapsdama frekar en ég væri að æfa fyrir IM. Ég ræddi samt við Viðar Braga um það að leyfa mér að fylgjast með IM æfingaprógramminu, ef ske kynni að ég gæti farið. Hugmyndin var æfa hjólreiðarnar og sundið og sleppa því að æfa hlaupin, ég myndi bara labba hlaupalegginn. Viðar Bragi ráðlagði að í staðinn fyrir hlaupaæfingar myndi ég bæta inn 4. hjólaæfingunni (muscular endurance) og 4. sundæfingunni. Var samt öðru hvoru á þessu tímabili að prófa að hlaupa, fara á Esjuna en ég var ennþá hálf máttlaus í fætinum og gat ekki hlaupið án þess að þurfa að stoppa á nokkur hundruð metra fresti til að hvíla fótinn. Hjólreiðarnar gengu hinsvegar ótrúlega vel, og sundið gekk líka vel. Ég varð bara sterkari og sterkari með hverri æfingunni!! Þetta var stórkostleg breyting á mér og seinnipartinn í ágúst tek ég endanlega ákvörðun með það að fara í keppnina. Planið var ennþá að labba hlaupalegginn, hafði lítið hlaupið í sumar og bara stuttar vegalengdir. Í lok ágúst ræddum við Viðar að ég þyrfti nú að kannski að bæta einhvers konar hlaupi eða göngu inn í prógrammið, bæði til að halda hlaupa/göngu-vöðvum í æfingu og svo kannski til að sjá hvað væri raunhæft að ég gæti farið hratt yfir í keppninni. Prófaði þá að strunsa í 2 klukkustundir. Í því testi fann ég út að það hentaði mér að hlaupa/jogga í svona ca 20 andartök og ganga svo í 10 andartök. Eftir þessi 20 andartök var komin uppsöfnuð þreyta í hægri fótinn en með því að ganga inná milli var þetta vel gerlegt. Næstu vikurnar æfði ég þetta og var bara komin í ágætis gír. Þetta struns var orðið nokkuð stabílt á ca. 7 pace sem þýddi að ég ætti að geta farið hlaupalegginn á 5 tímum. Stuttu fyrir keppni tók ég nýtt FTP test og hólý mólý það var ekkert smá mikil bæting (9% bæting frá því í júlí-testinu og 17% bæting frá júní-testinu). Nú var áætlað afl sem ég ætti að geta haldið í keppninni, 30 wöttum hærri en í NZ, það munar nú aldeilis um minna. Ég var líka komin í betra sundform heldur en þá. Ég gerði mér því vonir um að ef allt myndi ganga upp þá gæti ég kannski farið undir 13 tímum. Viðar Bragi áætlaði að ég myndi fara þetta á 12 ½ tímum.

Eins og í draumi

Í raun er frekar lítið um IM Barcelona keppnina sjálfa að segja. Það voru draumaaðstæður þennan dag, hitastig í kringum 20 gráður, skýjað og sjórinn var sléttur. Var bara afslöppuð og hafði góða tilfinningu fyrir keppninni. Var reyndar með hálsbólgu og kvef 2-3 dögum fyrir keppni en leið ágætlega á keppnisdeginum. Sundið gekk vel, rúllandi start (sundtími: 1.08). Hjólaleggurinn gekk líka algerlega eins og í sögu. Var með fulla orku allan tímann, og alls ekkert neitt þreytt og orkulaus seinni helminginn eins og í NZ. Nærði mig á klukkustundarfresti og þá með einu geli, orkubar, eða snickers bita. Þetta var minni orkuinntaka heldur en í NZ en þá tróð ég í mig einhverju á 45 mín fresti. Það var bara allt of mikið fyrir mig (hjólatími 5.22 og meira en klukkutíma bæting frá NZ). Kom fersk inn í T2 og tilbúin í strunsið. Hitti Viðar Braga í brautinni sem sagði að ég væri 4. í aldursflokki eftir hjólið og nú væri bara að halda struns-áætlun. Fyrstu 10 km gengu vel, ca. pace 7 en svo fór mér að verða flögurt þannig að ég þurfti að hægja á mér. Hélt samt meira og minna planinu að labba ekki meira en 10 andartök, en „hlaupaparturinn“ styttist og það hægðist á mér. Hlaupatíminn endaði í 5.20 sem er ca hálftíma bæting frá NZ. Næring á hlaupinu var 1 kóksopi á hverri drykkjarstöð og 2x fékk ég mér appelsínusneið. Var með harðfisk sem ég ætlaði að narta í á hlaupunum, en það var ekki að gera sig og ekki séns að ég kæmi niður geli. Fannst ég ekki endilega vera orkulaus heldur bara með flökurleika sem var hægt að halda í skefjum með því að fara hægt yfir.

annahelgadottir1
Komið í mark á Nýja-Sjálandi. Myndirnar frá Barcelona prentuðust ekki nógu vel!

Endaði keppnina í 14.sæti í aldursflokki (50-55 ára) af 41 sem kláruðu og það má segja að ég sé bara í skýjunum með þetta.

Er búin að átta mig á því að það er hægt að vera „meiddur“ án þess að vita af því –  sem er mjög absúrd. Þannig var klárlega ástandið í aðdragandanum að NZ og ástæða þess að ég gat ekki meira en ég gerði í þeirri keppni. Það var greinilega eitthvað sem var að hrjá mig, eitthvað sem átti eftir að koma betur í ljós seinna… Þetta concept mun örugglega enginn skilja sem les þetta en fyrir mér er þetta svona.

Eftir niðurstöðuna úr IM Barcelona og eftir eftir þróun síðustu vikna og mánuða í mínum „meiðsla“-málum er ég klárlega ekki búin að gefast upp á þríþraut. Við Gúa erum meira að segja búnar að ákveða næsta IM.

Vorið í Calella

Sigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Jæja, þá er aftur komið að því að skrifa keppnissögu eftir frækna keppni hér í Calella, Barcelona. Ég endaði þessa keppni á mínum besta tíma í hálf maraþoni inni í þríþraut (og mínum besta tíma frá upphafi ef mér skjátlast ekki) og varð á sama tíma 19. í PRO flokki til að hlaupa yfir endamarkið.
Fyrir keppnina í dag var spáð hrikalegu veðri. Þegar ég segi „hrikalegt“, þá meina ég allt sem hægt er að túlka út úr því. Samkvæmt hinni alræmdu og oft mjög svo áreiðanlegu norsku síðu YR.no gátum við búist við allt að 5-8mm rigningu á þeim tíma sem keppnin stóð yfir bæði hérna í Calella og uppi í fjalli þar sem hæsta punkti hjólabrautarinnar var náð. Þar að auki átti hitinn ekki að fara mikið yfir 13 gráður á meðan að herlegheitunum stæði. „Ekta íslenskt sumar“ hugsaði ég með mér kvöldið áður en við fórum í háttinn fyrir stóra daginn. Ég var í þessu ljósi sérstaklega stressaður fyrir hjólinu. Eftir óhappið í Írlandi í fyrra, þegar ég þrusaði mér út af hjólabrautinni á 60 km hraða, einmitt í svipuðum veðuraðstæðum og búið var að spá hérna á Spáni, hef ég ekki verið sá hressasti með að henda mér hratt niður brekkur í bleytu. Ég var þess vegna búinn að ákveða að hjólið yrði tekið nokkuð þétt upp brekkurnar en svo myndi ég ekki hleypa mér of hratt niður aftur. Þannig gæti ég alltaf fundið fyrir þeirri tilfinningu að ég væri 100% við stjórn. Með það hugarfar fór ég í háttinn kvöldið fyrir keppnisdag, kl 10:00 að staðartíma.

Á keppnisdag var vaknað kl 04:00 á spænskum tíma (02:00 á íslenskum tíma) og því ekki fjarri lagi að enn hafi einhverjir verið í party-um sem tengjast hinni Evrópsku söngvakeppni þegar við Rafn röltum niður í morgunmat ásamt öðru mishressu íþróttafólki sem var á leið í sömu vitleysu og við. Tveir félagar okkar Rafns, þeir Mummi og Halli, voru einnig á sama hóteli og við sátum því saman í morgunmatnum að ræða mögulegt úrhellið sem ætti eftir að setja svip sinn á daginn. Ég reyndi að borða eins mikið og ég gat þar sem það voru 3 tímar í ræs og nægur tími til að melta. Ég var búinn að ákveða það að ég ætlaði ekki að gera sömu mistök og í fyrri keppnum og vera að hugsa um „keppnisþyngd“. Maður brennir um 4-5000 hitaeiningum í svona keppni svo það er alveg hægt að dæla aðeins í sig í morgunmatnum (eða það er allavega minn hugsunarháttur).
Klukkan var að verða 06:00 þegar við loksins röltum út að skiptisvæði til að athuga með hjólin, setja upp skipti-pokana okkar og gera allt klárt. Spánverjinn í kallkerfinu var sífellt að vara við þessum hrikalegu aðstæðum sem væru á staðnum: „Eingöngu 12 gráðu lofthiti og FIMMTÁN GRÁÐUR í vatninu!!“ Þetta var svo dramatískt að ég hélt á köflum að hann myndi tilkynna næst að stundið hefði verið stytt niður í 50 metra höfrungahopp. Ég var frekar rólegur í fjörunni, kom mér bara vel fyrir og fékk einhvern ókunnugan gaur til að renna upp blautgallanum. Þegar hann var nýbúinn að renna upp þurfti ég alveg rosalega mikið að pissa. Þetta gerist alltaf svona rétt fyrir start og því gott að vera vanur því að láta bara vaða í blautgallann. Ég gerði það og svo aftur rétt áður en að startflautan fór í gang (Já, þessi aukakíló, maður!).
Þrátt fyrir dómsdagsspár veðurfréttastöðva daginn áður rættist það ekki um morguninn og í staðinn fengum við næstum heiðskíran himin og góðan hita. Engin rigning enn…það lofar góðu.

Sundið

siggi1
BAM. Af stað með ykkur. Já, svona áfram! Rosalega var ég eitthvað seinn úr sporunum. Allir þutu fram úr mér og ég endaði á því að höfrunga mig fram úr nokkrum áður en ég setti allt í botn. Spaðarnir á fullt og fætur í gang. Snúa mjöðmum, anda rólega og reyna að koma sér í takt. Það gekk vel og ég var orðinn fyrstur eftir um 50 metra. Það virtist enginn ætla að reyna að fara eitthvað hraðar svo ég ákvað bara að þetta yrði enn eitt skiptið sem ég myndi bara leiða þetta pakk. Ekki myndi ég að gera það á hjólinu, né í hlaupinu, svo það gæti allt eins verið sundið (broskall). Ég hélt uppi góðum hraða og reyndi að halda jöfnum takti. Það voru góðar aðstæður fyrir hratt sund og við vorum á endanum bara þrír sem að héldum þetta út. Þetta var á vissan hátt mjög viðburðalítið sund, ég elti bara baujurnar og gaurinn sem var á kayak fyrir framan mig. Þægilegt að vera með svona fylgdarmann, þurfti eiginlega ekkert að pæla í baujunum heldur elti bara strákinn í kayak-num. Forréttindi.

Eftir um 22 mínútur og 50 sekúntur (1906m skv. úrinu) kom ég upp úr, sirka 5 sek á undan næstu tveimur sem voru Elliot Smales (endaði í 4. sæti) og David McNamee (endaði í 2. sæti) og meðalpace því sirka 1:12/100m. Bara nokkuð gott hugsaði ég, en þetta var bara nokkuð þægilegt sund þrátt fyrir hraðann. Ég dreif mig inn í T1 og henti mér úr blautgallanum og setti á mig hjálminn. Kippti líka með mér hjólatölvunni en það hefði verið þó nokkur skellur að gleyma henni í pokanum góða. Skiptisvæðið var á gervigras fótboltavelli svo að hlaupið að hjólunum var nokkuð mjúkt og þægilegt. Úti í enda stóðu hjólin og ég kom að standi nr. 14. Ekkert vesen, hjólatölvan á festinguna og hjólið út. Úff…næstu 90 km yrðu strembnir en það var allavega ekki enn byrjað að rigna og lítið útlit fyrir að það myndi breytast í bráð!

Hjólið
Fyrstu 3 km hjólaleiðarinnar út úr Calella voru tæknilegir og við máttum ekki nota letingjana (aero bars) á hjólunum okkar þangað til við værum komin á beinu brautina. Við unnum okkur því í rólegheitunum út úr bænum og svo út á hraðbrautina þar sem að maður setti í keppnisgírinn og byrjaði þessa veislu. Strákarnir tveir sem að komu upp úr sundinu með mér voru þá komnir á undan en ég kippti mér ekki mikið upp við það. Báðir eru þeir virkilega öflugir hjólreiðamenn og ég bjóst líka við því að missa nokkra fleiri fram úr mér á þessum mjög svo strembna hjólalegg.

siggi2

Eftir að hafa hjólað um 7-8 km af brautinni hófum við að klífa upp fyrstu brekkuna. Hæðarprófíllinn skiptist í þrjár veglegar brekkur upp á við og nokkuð tæknilega kafla niður frá hæsta punkti (sjá mynd).

siggi3

Ég var búinn að ákveða að taka aðeins meira á því upp brekkurnar en hvíla frekar á leiðinni niður og vera þá á minni ákefð á þeim köflum. Enn var ekki byrjað að rigna á þessum tímapunkti og það leit út fyrir það að þetta myndi haldast þurrt allan daginn svo það var allavega stór plús fyrir óöruggan hjólreiðamann hræddan við hraðar brekkur. Ég hélt nokkuð jöfnu afli upp þessa fyrstu brekku, sem tók um það bil 27-28 mínútur að fara upp. Meðalaflið um 330 wött. Við tók um það bil 13 mínútna hjól niður en á þessum tímapunkti hafði ég misst um 8 hjólara fram úr mér, tvo á leiðinni upp og sex á leiðinni niður. Mér fannst menn vera ansi glannalegir á leiðinni niður þrátt fyrir að það væri þurrt og ekki leið á löngu þar til ég sá hjól úti í kanti og einhvern liggjandi úti í skurði með tvö mótorhjól að veifa okkur að fara varlega. Flashback á Írland hjá mér, vona að það sé í lagi með kauða.
Fljótlega komu svo fjórir í viðbót fram úr og þeir náðu þessum 6 sem höfðu farið fram úr mér á leiðinni niður brekkuna. Allir voru þeir heldur nálægt hvor öðrum og ég velti því fyrir mér hvort að þeir sem eru í PRO flokki séu eitthvað undanskildir þessum draft reglum því ég fullyrði að enginn þeirra virti 12 metra regluna. Ég hefði örugglega getað hent mér fyrir aftan þá og draftað eins og hinir og mögulega grætt eitthvað á því en það síðasta sem ég vildi var að fá á mig víti svo ég sleppti því. Maður tapar stundum á því að vera heiðarlegur en það er bara eins og það er, því miður.
Næst tók við alvöru klifur sem lá upp í Montseny en þetta var ROSALEGT. Ég tók sömu nálgun á þetta og við fyrsta klifurkaflann og keyrði aðeins meira upp brekkuna til að geta hjólað rólegar niður. Þetta var um 11 km kafli með 500 metra hækkun og því var hraðinn ekki mikill að meðaltali. Meðalwöttin um 325 upp þennan kafla en þetta tók um 32 mínútur í heildina. Það komu engir aðrir fram úr mér hér og því ljóst að það væri nokkur spotti í næsta hóp fyrir aftan. Þegar á toppinn var komið tók við mjög tæknilegur kafli þar sem að ég eiginlega hékk allan tímann á bremsunum og passaði mig að hleypa mér ekki of hratt niður. Frekar að skila sér heilum í T2 heldur en að kynnast betur þeim gróðurtegundum sem uxu þarna uppi í Montseny héraði. Til marks um það hversu þröngir og óútreiknanlegir vegirnir þarna uppi voru þá má sjá skjáskot af einum kafla leiðarinnar á næstu mynd.

siggi4

Eftir að hafa þrætt þessa þröngu vegi komum við loksins að góðum vegarkafla og við tók mjög hraður kafli. Næstu 10 mínútur voru á að meðaltali 50 km/klst en þetta var nokkuð beint og kannski hægt að líkja þessu við Krýsuvíkurveginn frá toppi að Bláfjallaafleggjaranum. Eftir þetta var keppnin í sjálfu sér nokkuð viðburðalítil hjá mér en fljótlega komu fram úr mér 5-6 aðrir hjólarar og ég ákvað í þetta skiptið að reyna bara að halda mig við þennan hóp alla leið í bæinn. Það var eitt klifur eftir áður en við kláruðum brekkurnar og við keyrðum upp þennan síðasta kafla áður en við tók nokkuð léttur kafli síðasta korterið eða svo. Menn farnir að hugsa um hlaupið og tími til að fá sér restina af næringunni og drekka nóg. Það var orðið ágætlega heitt, um 15 gráður og sól svo að hlaupið átti eftir að vera við nokkuð þægilegan hita. Næringin mín á hjólinu var um það bil 900 kcal af gelum sem ég hafði sprautað í brúsa og blandað með vatni. Svo var ég bara með hreint vatn (sem ég drakk ekkert af og burðaðist því með auka 750 gr upp allar þessar brekkur) og 750 ml af Aquarius blöndu til að fá sölt.
Við komum fljótlega aftur að bænum og því tími til að þræða þröngar götur Calella aftur áður en við skiluðum hjólunum og byrjuðum hlaupið. Ég tók mér tíma í þetta og var ekkert að flýta mér og reyndi bara að einbeita mér að því að klessa ekki á neitt. Úr skónum þegar um 500 metrar voru í mount-dismount línuna og svo af hjólinu og inn í T2.
T2 gekk nokkuð vel fyrir sig og ég var kominn í hlaupið eftir um 2 mín í skiptingu.

Hlaupið
Ég var í fyrsta skipti að keppa með Stryd powermæli í hlaupinu núna og fannst áhugavert að fylgjast með því öðru hverju. Þetta kannski gerði ekki mikið gagn í þessari braut þar sem að hún var tiltölulega slétt og því ekki mikil þörf á því að stjórna hraðanum en þetta gefur manni samt góða innsýn í hvernig maður er að halda út hlaupið í heild sinni. Ég byrjaði nokkuð léttur á fæti en fyrstu 1,5 km voru við léttan meðbyr áður en við komum að fyrsta snúningspunktinum. Eftir það voru þetta tveir heilir hringir, samtals um 19,5 km til viðbótar.

siggi5

Mér leið vel fyrstu tvo kílómetrana en svo fór aðeins að síga í og ég fann hvernig hraðinn datt aðeins niður. Ég ákvað því að einbeita mér bara að tækninni og reyna að skila hámarks krafti í hvert skref. Kálfarnir voru á þessum tímapunkti mjög stífir og ég fann að orkan var aðeins farin að minnka. Á næstu drykkjarstöð tók ég því rólega, labbaði í 5 sek á meðan ég henti í mig geli og Red bull, tók eina vatnsflösku, skolaði munninn og drakk aðeins og hellti restinni yfir hausinn og bringuna. Þetta gerði helling en næstu 5 km voru á góðu pace-i sem skilaði fyrstu 10 km á sirka 38:20 mínútum. Ég var nokkuð sáttur með þetta en markmiðið fyrir daginn hafði verið að fara undir 1:20 í hálf-maraþoninu. Ég ákvað því bara að reyna að halda þessari siglingu áfram en kálfarnir voru á þessum tímapunkti farnir að losna aðeins upp og ég gat gefið aðeins í. Ég hélt uppteknum hætti, tók gel á annarri hverri drykkjastöð en hellti alltaf yfir mig vatni og drakk smá. Næstu 10 km voru líka á 38:20 svo það var ljóst að splittið var algjörlega slétt. Ótrúlegt, hugsaði ég. Síðasti kílómetrinn var strembinn en það var mikið af fólki í brautinni og því þurfti ég oft að kalla á fólk til að færa sig. Þetta gekk ekki alltaf upp og endaði ég nokkrum sinnum á því að hlaupa á gangstéttarkantinum. Loksins náði ég á rauða dregilinn og kastaði mér léttur á fæti yfir marklínuna á tímanum 4:24 og því ljóst að hálf-maraþonið hafði verið hlaupið á um 1:19, um mínútu undir markmiðinu. Að neðan má sjá greiningu á hlaupinu í hraða (grænt) og afli (fjólublátt).

siggi6

Að lokum var því nítjánda sæti í PRO flokki af 33 sem kláruðu (40 í starti) staðreynd og 22. í heildina af þeim 2224 sem að kláruðu almennu keppnina. Til gamans má geta að það voru tveir Age Group gæjar rétt á undan mér í aldursflokkinum 25-29 ára og því ljóst að mjög líklega hefði ég náð á HM í Nice ef ég væri ekki að keppa í PRO flokki.

Samantekt
Það er margt mjög gott sem ég tek frá þessari keppni en það gekk eiginlega allt upp hérna í Calella. Sundið var mjög gott en eins og er hef ég líklega náð sama formi þar og þegar ég var upp á mitt besta um árið 2009. Nú hef ég alltaf komið upp í fremsta hóp í sundinu og tvisvar verið fyrstur upp úr vatninu svo það er ljóst að ég og Klaus erum að gera eitthvað rétt þar.
Hjólið var mjög gott á heildina litið og ég var hissa á því hvað aflið var gott. 304W normalized í 2 klst og 37 mín er eitthvað sem ég hefði ekki getað trúað fyrir 2 mánuðum síðan en góðar æfingar og mikilvæg innsýn í mjólkursýrumyndun og eyðslu frá Ragnari Guðmunds í Optimizar urðu til þess að opna augun mín fyrir öðrum æfingaaðferðum sem að hafa svo sannarlega skilað sínu. Ég var samt um 10-15 mín hægari en flestir þeir sem voru á undan mér og það er bara eitthvað til að vinna í enn frekar. Ég veit að ég get náð þeim með markvissum æfingum og það verður gaman að komast einhvern tímann á þann punkt að geta haldið forystunni úr sundinu lengur inn í hjólið og mögulega vera með í topp baráttunni.
Hlaupið var ofar markmiðinu og um mínútu hraðari hlaupatími en áætlað var. Meðalpace um 3:46/km en marmiðið var að vera í kringum 3:48. Markvissar æfingar í vetur hér og engin meiðsli hafa klárlega skilað sínu og ég hlakka til að halda áfram að vinna þennan hlaupatíma niður og vonandi komast nær 1:15 af hjólinu á komandi misserum. Þá fyrst get ég farið að vera samkeppnishæfur við þessa bestu og komið mér inn í Top-10 baráttuna.

siggi7

Að lokum vil ég þakka öllum heima fyrir ótrúlegan stuðning en það er alltaf svo gott að vita af því að fólk sé að fylgjast með og hefur áhuga á því sem maður er að gera. Ég vona líka að það sem ég geri verði til þess að hvetja aðra áfram í því að ná sínum markmiðum, sama hver þau eru og verði til þess að gera þríþraut að vinsælli íþrótt heima fyrir.
Ég þakka öllum þeim Íslendingum sem voru hérna líka í Calella fyrir frábæran félagsskap og óska þeim til hamingju með flottan árangur – frábært að sjá hvað allir voru að standa sig vel í þessari krefjandi braut! Sérstaklega til hamingju Ranna með HM-sætið í Nice!! Ótrúlega vel gert, algjört vélmenni.
Að lokum, þakkir til styrktaraðila minna, en án þeirra væri þetta mun erfiðara verk en það er nú þegar.
– TRI Verslun #becube
– On Running #runonclouds
– Arena á Íslandi #arenawaterinstinct
– Hleðsla Íþróttadrykkur #hledsla
– Hárnýjung #bestaklippingin

-Sportvörur

Næst á dagskrá er IM 70.3 í Finnlandi og svo strax helgina á eftir IM 70.3 í Jönköping, Svíþjóð og verða það því ansi krefjandi 8 dagar. Ég hef nokkrar vikur til að koma mér í stand fyrir það, en fyrst eru það sprettþrautin í Hafnarfirði og Íslandsmót á Laugarvatni. Þangað til næst!

Með fellibyljum í Flórída

Tómas Beck segir frá:

Þetta byrjaði sem frábær hugmynd. Flórida hlýtur að vera ágætur staður fyrir fyrsta járnið, flöt og þægileg braut, ekkert vesen með vatn og hita, beint á ská flug, smá bíltúr, nóg af sól og eitthvað fyrir alla? Þetta átti að verða fjölskyldufrí í leiðinni í Panama City sem er skammt frá Tampa (bara sex tímar í bíl) og þannig yrði íslenska sumarið lengt.

Margrét Elín konan mín gekk frá skráningunni í febrúar og þá byrjaði ég að hvetja æfingarfélaga til að skrá sig líka. Raunsæisraddir fóru að tala um að þetta væri í lok fellibyljatímabilsins en Bjarki Freyr Rúnarsson lét til skara skríða og dró Rúnar Már Jóhannsson föður sinn til að vera honum (og mér) til halds og trausts.
Hugmyndir um fjölskyldufrí fóru fljótt að dvína þar sem ferðalagið yrði mjög langt og erfitt, allur fókus yrði á keppnina dagana fyrir og þreyta dagana á eftir, þannig að niðurstaðan var strákakeppnisferð.

Æfingar og undirbúningur:
Æfingar gengu þolanlega miðað við vaktavinnu og fjölskyldulíf og varð mér ljóst að lykilatriði í þessum undirbúningi var að sýna þessu hóflegan sveigjanleika. Væntingar lágu ekki fyrir þar sem maður hafði engar fyrri forsendur til að meta eigin burði og því voru einu markmiðin til að byrja með að klára. Ég hafði í fyrra klárað Challenge Iceland í Kjósinni sem er hálfur járnmaður þannig ég hafði smá hugmynd um hvað koma skyldi. Markvissar æfingar fyrir #IMFL2018 hófust í maí en aðrir tímafrekir viðburðir sumarsins tróðu sér inn á æfingaplanið. Meðal annars má nefna, allar íslensku þríþrautarkeppnirnar (nema í RNB), flest götuhlaup á höfuðborgarsvæðinu, Ísl. Mót Garpa í sundi í 25m laug, ólöglegt RVK Maraþon, Laugavegshlaupið, hlaup yfir Fimmvörðuháls, Hvítasunnuhlaup Hauka og  fjölskyldufrí á Krít. Þar fór ég nokkra langa hjólatúra í hita og brekkum. Hitinn var það sem ég óttaðist mest og vann markvisst í að æfa innandyra á Íslandi og að næring yrði að vera í samræmi við vökvatap.

Stormur í vatnsglasi? Nei þetta er alvöru:
tómasbeck54 vikum fyrir keppni er ég að skoða veðurkort af Atlantshafinu og er að róa mig yfir því að engir fellibyljir voru í uppsiglingu sem miðuðu á Flórídaskaga. Nema þar til á einhverri vefsíðu sé ég að 4. stigs fellibylur, Michael, stefndi í átt að Panama City. Þá hafði “fæðst” lítill skratti syðst í Mexíkóflóa sem óx svona rosalega í hlýjum sjónum og dúndraði beint yfir keppnisstað og nærliggjandi svæði með svakalegri eyðileggingu. Get sagt það alveg hreint út að ég hefði veðjað á að keppninni yrði aflýst þetta árið. En tæpri viku eftir Michael kom tilkynning frá Ironman að keppnin yrði færð til bæjarins Haines City sem er 73km austur af Tampa og seinkað um einn dag og nú yrði keppt þann 4. vóvember. Í þessari viku meðan Michael fæddist og fór þarna yfir og dagana í kjölfarið datt dáldið dampurinn úr æfingum. Maður var nánast búinn að afskrifa þetta og farinn að spyrja sig til hvers að sitja á trainer í 160 “Zwift” km og taka svo 30km brick á bretti. En eftir að flutningurinn var staðfestur gat maður ekki annað en hysjað upp um sig buxurnar og klárað þetta.

Ég ætla ekki fara skrifa neitt um ferðalagið og allt það heldur reyni ég að kom mér að kjarna málsins:

Keppnisdagur:
Vöknuðum 03:30 (meira að segja á undan vekjaraklukkunni) og gerðum okkur klára. Klukkan tvö um nóttina hafði day-light savings skollið á í Ameríkulandi þannig við fengum auka klukkutíma svefn. Vakna, bursta tennur, áburður, keppnisgallinn, púlsmælir, GPS´ið, tímaflagan, næring og út. Hjólið og allt hitt hafði verið tékkað inn daginn áður. Korteri eftir að við vöknuðum húrruðumst við út í bíl og brunuðum á 24/7 morgunverðarstaðinn sem var út í vegkanti við þjóðveginn. Eftir eggjaköku og ½ kaffi var aftur sest uppí bíl og keyrt í rúma klukkustund í kolniðamyrkri á keppnisstaðinn, Haines City. Þar voru ljóskastarar á víð og dreif um keppnissvæðið og tónlist í hátalarakerfum út um allt á meðan fólk var að gera sig klárt. Það var talsverð (andleg) ró yfir svæðinu (fannst mér) og flestir að klára síðasta frágang og bíða eftir startinu með bros á vör. Keppnin var ræst kl. 06:30 og höfðu fyrstu geislar sólar brotist fram korteri fyrr. Þjóðsöngurinn fékk að óma 4 mínútum fyrir start. Svo drundi fallbyssan og þá varð ekki aftur snúið.

Sundið:
Ég hafði staðsett mig fyrir miðju sundholli sem ætlaði að synda á 1:10;00 (klst:mín;sek) en hefði betur mátt troða mér framar því ég var allan tímann að taka framúr fólki. Þetta byrjaði frekar rólega, sundleiðin var “W” laga braut sem var synt tvisvar. Í öllum þessum 90’ beygjum (14 samtals) kom í ljós að sumir voru lítið sem ekkert að spá hvert þeir voru að fara. Ég fékk einn sundmann 90 gráður þvert á mig á fullu spani og allt í einu var ég að synda hornrétt á rétta leið (sem betur fer ekki nema tvö sundtök). Einstaka hnoð hér og þar kom ekki að sök og var ég búinn að gíra í mig smá barning. Vitrari menn höfðu af sínum reynslu sögum sagt að það væri barningur að staðsetja sig fyrstu 400m en svo ertu kominn í rólegri gír og klárar þar. Það var ekki þennan daginn. Mér fannst þetta bara versna á seinni hring. Þá var maður farinn að synda frammúr fólki sem áætlaði 1:50;00 mínútur og tróðu sumir marvaða og aðrar frjálsari aðferðir. Það var bara gaman (eftirá) en held ég hafi fengið 3 góð spörk í augun, ein kona (sem var að synda í kolvitlausa átt) stoppaði til ýta mér í burtu og margir fundu sig knúna til að grípa í kálfann á mér þegar ég synti framúr þeim.
Markmiðið var 1:10;00, lokatími: 1:12; 00 -mjög sáttur

tómasbeck3
T1:
Gekk pínu brösulega við að koma mér úr blautgallanum helst þá við að losna úr við ökklana en ég fattaði seinna að ég smurði mig ekki þar. Áhorfendur og stuðningsfólk var gjörsamlega að missa vitið, þetta var af allt öðru kaliberi en ég hef nokkurntíma upplifað. Ég var hálf hræddur við allt þetta fólk ÖSKRANDI á mig! “GO” “GO” “GO” eins og ÞAÐ væri við það deyja ef ÉG mundi ekki drulla mér úr fjörunni, upp að tennisvellinum og sækja hjálminn og út að hjóla! Það voru ca 300m að pokanum og skiptiklefa og svo aðrir 400m að hjóli.
Ekkert markmið bara ekki drolla: tími; 00:06;33 -sáttur

Hjól:
tómasbeck4Virkilega gaman að byrja að hjóla. Sá að púlsinn var frekar hár eftir sundið og T1. Þurfti fyrst að koma mér útúr bænum (2-3 brekkur) og svo út á sveitaveg í stöðuga keyrslu á 200W og púls undir 150bpm (raunin var svo meðal wött 177W á 144bpm). Tveir hringir tæpir 90km hver, ekkert mál. Það var skýjað (6/8 BKN), hitinn var meirihluta leiðarinnar á bilinu 22-26´C og lítill vindur 2-3 m/s. Hitinn náði hæðst 31´C á Garmin 520 hjólatölvunni minni en hún dó dularfullum tölvudauða þegar 14km voru eftir. Aftur á móti voru þarna brekkur sem höfðu ekki náð athygli minni í leiðarlýsingunni. Fannst þær heldur ekkert svo langar og brattar í samanburði við Hvalfjörðinn þannig hjólið var allan tímann bara gleði og góð vinna. Ég drakk rúma 5 lítra af vökva og pissaði aldrei (2,3L Maurten blöndu úr Iron Viking og 6x600ml Gatorade endurance á drykkjarstöðvunum).
Markmið: 5:25;00 lokatími: 5:34:48sek. -aftur sáttur.

T2:
Gekk eins og í sögu. Fór úr hjólaskónum þegar ca. 1km var í mark, jók snúningana og lækkaði gírana til að koma mér í hlaupastuð, steig af rétt á undan “dismount” línu og tölti með Trek´inn góða Equinox í hendur á sjálfboðaliða sem kom því á sinn stand. 600m tölt á tennisvöllinn til að sækja seinni pokann, hjálmur af, sokkar af. Sokkar á, skór á, der og sólgleraugu. Út í maraþon -nú getur EKKERT klikkað!, hugsaði ég. Rétt við línuna þar sem hlaupið byrjaði staldraði ég við til að fá sólarvörn á mig þar sem skýin voru að brotna upp og hitinn var farinn að vera óþægilegur.
Ekkert markmið bara ekki stoppa: Tími: 00:04;32.

Hlaup:
Byrjaði alveg lygilega vel. Búinn að jogga nánast allan stífleika úr á skiptisvæðinu og fannst ég bara geta byrjað að brokka og hafði virkilega góða tilfinningu að hafa sparað orku á hjóli og nært mig vel. KOMASVO bara 5:30-6:00min/km. Fyrstu 3 kílómetrana var þetta ekkert mál (fyrir utan hitann) en svo fór að halla undan fæti. Brekkurnar voru allt í einu rosa langar og brattar og hitinn jókst og jókst. Ég þurfti að pissa og brá mér á salerni á annari drykkjarstöð og hugsaði mér gott til glóðarinnar að létta af mér þessum 5L sem ég hafði torgað í mig á hjólinu en ekkert kom.En fljótlega fór ég að finna fyrir spennu og kippum í öllum vöðvum í efrihluta líkamans. Hendur og brjóstvöðvar voru með krampa einkenni (ég í alvörunni hló og fannst það svo fyndið) en fór þá að hægja og fór að hrista hendurnar til að reyna losa um þetta. Það gekk ágætlega en þá fluttist þessi tilfinning niður í fæturna, bæði fyrir ofan og neðan hné (læri að framan og aftan og kálfanum). Til að gera langa sögu stutta þurfti ég slá rosalega af til þess að krampa ekki upp. Hlaupið byrjaði á upphitun (spotti út úr bænum eins og á hjólinu) og svo þrír skrítnustu hringir sem ég hef hlaupið í kringum vatnið sem synt var í um morguninn. Fyrsti hringurinn var verstur, þá horfði ég á markmið mín fjara hægt út. Seinni tveir hringirnir voru komnir í væntingastjórnun og bara rumpa þessu af. Það loks fór að ganga betur þegar manni tókst að skokka 7:00min/km pace þegar nánast ALLIR í brautinni voru að labba.
Marmið 3:50;00 lokatími: 5:03;38 -ekki sáttur með tímann en sáttur með að hafa klárað.

Lokatími: 12:03;01

Niðurstaða:
Þetta var ógeðslega erfitt og sérstaklega þegar frávik frá markmiðinu var orðið svona mikið þá fór andlega hliðin að draga mann líka niður. Erfiðasti hjallinn í þessari keppni fannst mér að halda haus síðustu 2-3 klukkutímana og klára. Eftir á að hyggja get ég eflaust giskað á að aðstæður dagsins voru öllum erfiðar. Margir voru að kvarta á meðan þeir gengu í brautinni hversu erfitt allt hefði verið þennan dag. Þetta var alls ekki auðvelt og viðkenni að ég vanmat erfiðleikastuðulinn pínu. Sjáum svo hvað setur, rykið af þessari keppni er enn að setjast. Þetta er ekki fyrir alla, EN ég get alveg mælt með þessu! 🙂

Ég vildi þakka fjölskyldu minni og sérstaklega eiginkonu minni, Margréti, fyrir stuðninginn við skráningu og undirbúning og hversu þakklátur ég er fyrir að hafa þau. Og svo vildi þakka ferðafélögum mínum Bjarka og Rúnari fyrir frábæra ferð og alla hjálpina í gegnum þetta. Til hamingju Bjarki Freyr með annað sæti í aldursflokki. Þetta eru forréttindi að geta gert þetta.

Leiðin til Kona

Sigurður Tómas Þórisson gerir upp járnið

Undirbúningur
Eftir Ironman Austurríki í júlí fyrrasumar (2017) var ég nokkuð rólegur fram að áramótum. Var duglegur að hjóla restina það sem eftir lifði sumars og mætti óreglulega á Ægir3 æfingar á haustmánuðum því við fjölskyldan vorum að undirbúa flutninga, sem fóru svo fram í desember. Eftir jólin hófst formlegt prógramm fyrir Barcelona – 9 mánuðir af nokkuð markvissum æfingum.
Fyrir Austurríki hafði ég æft einn míns liðs (með eigið prógramm) frá október fram í mars þegar ég mætti fyrst á æfingu hjá Ægir3. Ég ætlaði að byrja miklu fyrr með Ægi en ég miklaði fyrir mér að koma föstum æfingatímum inn í prógrammið hjá mér, sem var nokkuð þétt þá þegar – með þrjú börn, krefjandi vinnu og klifuræfingar. Sóló gat ég valið eftir hentisemi hvenær ég æfði og það var hentug leið til að gera Ironman prógrammið sæmilega áhrifalítið fyrir fjölskylduna. Var stundum að hjóla á trainer seinni partinn eftir að ég sótti krakkana í skóla/leikskóla, að hlaupa eða gera æfingar í ræktinni eftir háttatíma hjá þeim og synda fyrir vinnu á morgnana. Það er líka mikill tímasparnaður að æfa einn – minna um ferðalög milli staða, enginn tími í að safna saman hópnum, enginn tími í að blaðra fyrir og eftir æfingu. Og svo er líka gott fyrir hausinn að æfa einn, því á keppnisdegi er maður jú eyland og þarf að berjast við eigin djöfla og enginn sem bjargar manni úr sálarkrísu.

Maður er manns gaman
En þegar leið að keppninni ákvað ég að það væri of mikið sem ég væri að missa af sem einfari. Í fyrsta lagi væru lengri æfingar (hlaupa og hjóla) framundan sem væri skemmtilegra að gera með öðrum. Í öðru lagi er drekkhlaðinn reynslubanki í þríþrautarklúbbunum, sem meðlimir geta tappað af með því að ræða við reynsluboltana og læra af þeirra aðferðum og hugarfari. Í þriðja lagi er maður manns gaman og þó ég sé nokkuð mikill einfari í mér og líði ágætlega í eigin félagsskap, þá er mikið krydd í tilveruna að æfa með öðrum – og fyrir marga er þetta einn stærsti kosturinn við að æfa í klúbbi. Í fjórða lagi erum við í eðli okkar kappsamar verur – maður reynir einfaldlega meira á sig þegar einhver er að sperra sig við hliðina á manni heldur en ef maður er einn að hamast.
Fyrir Barcelona ákvað ég að vera í Ægir3 „Ironman pakkanum“ að langmestu leyti. Ég mætti reyndar bara á um helminginn af æfingunum en tók langoftast þær æfingar sem voru á planinu – helst að ég tæki sundæfingarnar öðruvísi en planið sagði til um. Sérstaklega sótti ég í hlaupabrautina á mánudögum, kvöldsund á fimmtudögum og löngu hjóla/brick á laugardögum og mætti í þær lang flestar.
Eftir Austurríki var alveg ljóst að ég þyrfti að fara upp um minnst eina deild í sundinu, því ég var þar fyrir miðjum hópi í 1200. sæti eftir sundið (á 1:16) og það tafði mig verulega á hjólinu í kjölfarið. Ég lagði því mikla vinnu í að lesa mér meira til um sund, pæla í tækni og slíku og reyndi að vinna í því sem ég var slakastur í (öndun, langsund, o.fl). Horfði á endalaust af vídeóum og náði að bæta mig helling milli ára en fyrir gamalmenni með núll bakgrunn í sundi eru tvö ár bara ekki nóg til að komast á þann stað að teljast „góður sundmaður“. Tel mig þó geta sæmilega skammlaust talist „þokkalegur“, sérstaklega í blautbúningi á langsundi (aðeins slakari í laug og vantar aðeins upp á hraðann í styttri vegalengdunum). Síðustu vikurnar fyrir keppni voru all þungar í sundinu og ég tók eina 5km æfingu, eina 3.8km og tvær 3km auk fjölmargra yfir 2km. Í fyrra fór ég til samanburðar lengst 2,5km í galla, ca. 2 vikum fyrir keppni. Miðað við ganginn á þessum löngu æfingum, þá var ég með vonir um að bæta mig um ca. 10mín og enda á kringum 1:05.
Hlaupið í Austurríki gekk svo sem vel á 3:13 en hnémeiðsli í klifri í desember klipptu út allar hlaupaæfingar fram í byrjun mars þegar ég byrjaði rólega að hlaupa og var bara rétt að detta í þokkalegt keppnisform þegar ég fór út í keppnina. Hefði þurfti alla vega einn og helst tvo mánuði í viðbót til að komast í gott maraþonform og ég fann það í lokin á þeirri keppni að það vantaði slatta af  kílómetratugum í lappirnar. Núna í vetur var ég nánast alveg meiðslalaus. Hnéð var til friðs nema örfáa daga og jafnaði sig með smá hlaupastoppi. Interval æfingarnar í Höllinni komu mér ansi nálægt mínum gamla hraða í lengri og styttri vegalengdunum og ég átti góða hálfmöru í Vorþoninu – fjarri mínu besta en samt betra en formið átti að leyfa. Eftir smá óreglu í æfingum á vormánuðum milli inni- og úti-tímabils, fór að komast form á miðvikudagsæfingarnar (í Dalnum eða á brautinni) og helgaræfingarnar fóru að lengjast. Formið batnaði smátt og smátt fram að sumarfríi og í ágúst og september var fókusinn hjá mér töluverður á hlaupin. Ég bætti við stuttum sprettæfingum á mánudögum (oftast) og setti inn lykilæfingar úr maraþonprógrammi frá Þorláki Jóns í loka buildupinu til að gera mig kláran fyrir alvöru maraþonhlaup (s.s. ekki bara lifa hlaupið af…). Í lokin á buildupinu taldi ég mig vera kominn í ca. 2:50 maraþonform (nærri mínu besta) og var planið að stefna undir 3:00 í Barcelona. Síðustu erfiðu æfingarnar gengu meira að segja svo vel í september að ég var farinn að gæla við að reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57, þegar hann bætti Íslandsmetið í IM) ef mér liði vel eftir hjólið.
Hjólið tók ég svo sem svipað og veturinn á undan. Sprettir og tempó og brekkur af öllum stærðum og gerðum á trainer og á götu. Keypti notað TT hjól og fékk lánaðar ægilega fínar gjarðir hjá járnafanum, keypti mér powerpedala, betri hjólaskó, aero hjálm (fór Austurríki á 5:15 á racer með clip-on aerobar, æfingagjarðir, fjallahjólaskó, götuhjólahjálm og án powermælis) og rakaði meira að segja á mér lappirnar fyrir keppnina (þó það hafi sennilega engin áhrif). Fór aftur í WOW Cyclothon en í þetta skiptið með meistara Geir í 4ra manna liði GÁP Cannondale og það var all nokkuð harðari hjólamennska en í 10 manna liði Símans árið áður. Tók þátt í Tour of Reykjavík og Íslandsmóti í TT, hjólaði í vinnuna á hverjum degi (núna tæpa 6km hvora leið í stað 1km á gamla staðnum) og tók hraustlega á því í sumarfríinu fyrir norðan (keppti ma. í Gangamótinu frá Siglufirði til Akureyrar og barðist við Strava KOM í nokkrum hressum þjóðvegabrekkum). Eftir óendanlegar lúppur á Krýsvíkurveginum og á helstu leiðum kringum borgina taldi ég að mig vera kominn í form til að stefna á svipaðan tíma og Geir var með í Barcelona í fyrra (4:40) ef aðstæður væru hagfelldar.

Munkalíf og gufubaðsæfingar
Lokahnykkurinn að undirbúningnum var svo að eftir all nokkurt munúðarlíf í sumarfríinu í júlí setti ég mér nokkrar einfaldar „munkalífsreglur“ sem skyldu heiðraðar fram að keppninni tveimur mánuðum seinna. Reglurnar sneru aðallega að mataræði – áfengi, sykri, snakki, frönskum, kaffidrykkju etc. en voru svo áhrifaríkar að ég fór úr ca. 77kg í byrjun ágúst niður í 72,5kg um miðjan september (í hámarks æfingaálagi) og keppnisþyngd í Barcelona hefur verið kringum 73kg eftir smá afslátt frá munkinum og minni kaloríubruna í taper vikunum í restina. Það munar ekkert smá mikið um 4kg fyrir mann með minn skrokk, sérstaklega á hlaupinu.
Samhliða munkalífinu tók ég 2ja mánaða hitaaðlögun fyrir keppnina til að gera mig þolnari fyrir mögulegum heitum sólardegi og til að minnka svitamyndun og salttap almennt. Fór í gufubað tvisvar í viku frá byrjun ágúst fram að keppni, oftast eftir hlaupa eða hjólaæfingu. Þetta var stigvaxandi þjáning frá 5-10mín í byrjun þar sem ég var alveg að deyja frá fyrstu mínútu og kom út úr gufunni með urrandi svima og upp í 2x15mín og 1x25mín effort í lokin þar sem ég fann lítið fyrir hitanum fyrr en eftir 10-15mín inn í settið og leið bara ágætlega á eftir.

IMG_5120

Aðdragandi
Síðustu 10 dagana tók ég svo nokkuð óskipulega steinefnahleðslu, þar sem maður ofhleður skrokkinn með þessum fjórum aðal steinefnum sem tapast við áreynslu (magnesíum, kalíum, natríum og calcium). Það tekur víst skrokkinn 7-10 daga að ná „deep muscular hydration“ á meðan „plasma hydration“ tekur bara dag eða tvo. Á keppnisdegi tapar maður miklum svita og vökvatapið verður aðallega á „plasma-leveli“ og ef maður er með góða „muscular hydration“, þá á maður að geta minnkað líkur á að lenda í „electrolyte-imbalance“ með tilheyrandi krömpum og frammistöðuvandamálum sem þeim fylgja.

Eftir vel heppnaðan undirbúning og nokkra yfirlegu um markmið í hverri grein var ég kominn niður á plan A, B, C og D. A-markmiðið væri 9 tíma Ironman og sub-3:00 hlaup. B-markmið væri hressilega bæting frá Austurríki (9:30 eða eitthvað slíkt). C-markmiðið væri bæting frá Austurríki (sub-9:52) og D-markmiðið væri einfaldlega að skakklappast í mark yfir höfuð.

Við Ása flugum (barnlaus, takk tengdó 🙂 út til Calella þann 3. október ásamt flestum í Ægi og slatta af hinum Íslendingunum. Leigðum okkur bíl á vellinum og komum á hótelið upp úr miðnætti og gripum okkur bita á McD og Istanbul kebab.

IMG_9047
Við Ægiringarnir tóku sundæfingu í sjónum á hverjum degi og tókum hlaup og hjól flesta daga. Fórum nokkrum sinnum út að borða, meðal annars í feita nautasteik á úrúgvæískum veitingastað í Calella á fimmtudeginum. Að öðru leyti reyndi ég að vera sem minnst á fótum, vökva mig vel og borða ekki eitthvað framandi
Við Ása fórum í túristaferð til Montserrat á laugardeginum (2 dögum fyrir keppnina) og það var gaman en í hádegismatnum fór mér að líða eitthvað undarlega (og Ásu á leiðinni). Var hálf óglatt, svimaði slatta og var kominn með magakveisu með tilheyrandi klósettferðum. Grunaði helst að þetta tengdist eitthvað því að við vorum komin þarna í 1200m hæð beint frá sjávarmáli. Síðar kom í ljós að all nokkrir af okkur nautasteikarstrákunum vorum með magavesen og nokkrir með pípandi niðurgang. Mér leist ekkert á þetta og lá bara hálfskjálfandi undir teppi á hótelherberginu eftir að við komum til baka og hálfan laugardaginn líka. Á laugardagskvöld var mér farið að líða skítsæmilega og ekkert annað að gera en að vona að maginn yrði til friðs á sunnudeginum. Reyndi bara að vera duglegur að hvíla mig og vökva.

Útkoma
Keppnin gekk svona líka vel og ég endaði á 9:06:34 og krækti mér í Kona sæti í október að ári.
Sund – 1:08:45 (116. í aldursflokki, 616. overall)
T1 – 2:51
Hjól – 4:53:06 (18. í aldursflokki, 105. overall)
T2 – 2:00
Hlaup – 2:59:54 (3. í aldursflokki, 23. overall)

Var í 7. sæti í 40-44 karlaflokkinum og í þeim flokki voru 6 Kona sæti í boði þetta árið og amk. einn ef ekki tveir fyrir ofan mig afþökkuðu sitt sæti og því komst ég inn.
Náði ekki alveg A-markmiðinu en var ansi nálægt því og held ég hafi alveg verið í formi fyrir 9 tíma þraut ef aðstæður í sundinu og hjólinu hefðu verið fullkomnar.
Kona sæti var svo sem alls ekkert markmið hjá mér en ég var búinn að sjá það út frá tölfræði síðustu ára að ef ég yrði kringum 9 tímana, þá væri ég annað hvort með sæti eða ansi nálægt því. Var búinn að semja við yfirvaldið um að ef Kona byðist, þá myndi ég segja já við því. Maður veit aldrei hvernig staðan verður á komandi árum. Kannski verð ég aldrei aftur í þessu formi, kannski lendi ég í meiðslum eða slysi, nenni þessum Ironman leik ekki lengur eða eitthvað. Carpe diem!

Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Langefst á lista ber náttúrulega að nefna hana Ásu ofurmömmu fyrir í fyrsta lagi að gefa mér grænt ljós á að fara aftur í Ironman og fyrir óendanlega þolinmæði og stuðning í gegnum þessa vitleysu mína síðustu tvö árin, sérstaklega þessa síðustu þungu „buildup“ mánuði fram að Barcelona. Grísirnir mínir, Þórir (12 ára), Katla (8 ára) og Krissi (6 ára) fá líka mikið hrós fyrir að þrauka föðurmissinn – ég lofa að vera meira heima næstu mánuði og sinna ykkur betur 🙂
Allir æfingarfélagar og þjálfarateymið í Ægir3 sem svitnuðu með mér síðustu misseri. Mikill kraftur í þessum hópi og þó ég taki ca. helminginn af æfingunum sóló, þá er ómetanlegt að vera hluti af drífandi hóp og það lyftir öllum upp á hærra plan. Vonandi hef ég gefið eitthvað af mér inn í hópsálina og verið einhverjum hvatning til afreka.
José í GÁP fær stórt hrós fyrir aðstoðina með bikefit og almennar lífslexíur frá sjónarhorni uppgjafar þríþrautarkappa. Vonandi heldur hann áfram með comebackið og fer að æfa og keppa með okkur í vetur.
Gulli fær svo þakkir fyrir lánið á hjólatöskunni og fyrir áhugann. Treysti á að hann bæti fyrir svikna „Ironman um fertugt“ planið okkar og skelli sér í járn fljótlega.

Langa útgáfan

Hér að neðan er síðan all nokkuð ítarleg útlistun á hverjum hluta keppninnar fyrir þau allra áhugasömustu.

Sundið

Hér var markmiðið að vera á 1:05 en allt undir 1:10 væri bara fínt og ef hjól og hlaup gengju vel, þá gæti 9 tíma markmiðið hafist.
Þetta leit alls ekki vel út í startinu. Það var strekkings gola frá sjónum og RISA stórar öldur sem hömruðu á ströndinni af miklum krafti. Fólk sem var að reyna að hita upp fyrir startið var í bölvuðu brasi með að komast út og aftur í land í briminu.
En ég var svo sem ekkert að stressa mig á þessu. Vorum búnir að lenda í svona aðstæðum í Nauthólsvík nokkrum sinnum þannig að ef eitthvað væri, þá værum við mörlandarnir betur undirbúnir en aðrir í svona ævintýri. Kannski ekki bestu aðstæður til að setja einhverja met sundtíma en þetta ætti að hægja jafnt á öllum og jafnvel meira á hinum en mér.
Skv. ráðleggingum frá Geir þjálfara, þá stillti ég mér upp í 60mín hólfinu, sem var í raun bara aftari hlutinn af 50mín hólfinu (engin skilrúm) og var frekar fámennt. Næsta hólf á eftir var 1:05 og miðað við að flestir setja sig í hólf hraðara en þeir eiga í raun erindi, þá ákvað ég að það væri bara fínt fyrir mig að vera fyrir miðju þessu hólfi. Rakst á Smára Þríkó í hólfinu og átti von á að sjá Óla, Ara og Davíð og jafnvel fleiri úr Ægi en þeir voru hvergi sjáanlegir.
Jæja, ég sogaðist svo bara með mannhafinu í átt að ráshliðunum. Fyrst biðum við meðan Pro og XC (executive-challenged/fatlaðir) voru ræstir en síðan gekk þetta skuggalega hratt og áður en ég vissi af var ég kominn alveg að hliðinu. Var aðeins stressaður eins og eðlilegt er og maginn aðeins öfugur en þó svo miklu rólegri en í fyrra þó ég væri núna frekar framarlega í 3400 manna hjörð að fara að stefna á að fara alveg að mínum getumörkum í 9 tíma og með þennan snarbrjálaða sjó fyrir framan mig. Svo var ég bara kominn að fólkinu sem var að hleypa út í – nokkur „blíp, blíp, dut“, „blíp, blíp, dut“ og var ég farinn af stað út í brimið…
Þetta var eins og verstu Nauthólsvíkurferðirnar í sumar – himinháar öldur sem þurfti að hálf klifra yfir næst landi en svo skánaði þetta aðeins þegar utar dró. Ég var bara sultuslakur á frekar þægilegum hraða og var ekkert að stressa mig þó það væri fullt af liði að sigla fram úr mér. Planið var að reyna að hanga eins og ég gæti í þessum hraðari sundmönnum til að mjólka kjölsögið frá þeim í smástund eftir að þeir færu fram úr mér. Síðan myndi ég bara fara á mínum hraða þess á milli og leita að nýju kjölsogi.
Gekk nokkuð greiðlega út að fyrstu beygju-baujunni en þá tók við 1750m kafli niður meðfram ströndinni. Á þeim kafla var ágætis skriður á manni „með öldunni“ en fólkið var út um allt og erfitt að finna hóp til að elta. Var því ansi mikið sjálfur að dúlla mér á sæmilega þéttu rúlli og datt í einstaka kjölsog hér og þar. Eitt eða tvö létt kjaftshögg og spörk en ekkert alvarlegt – engin gleraugu af eða neitt slíkt. Smá pirringur náttúrulega í mesta barningnum en samt ekki þannig að ég yrði eitthvað reiður eða væri mikið að bölva ástandinu – maður átti bara fullt í fangi með að glíma við öldurnar og sjálfan sig syndandi svo það var varla rúm fyrir annað.
Ég hélt þessar baujur ætluðu aldrei að klárast – fannst ég vera búinn að synda endalaust langt – en eftir dúk og disk kom að beygjunni og það var mikill léttir, því þá voru bara 100m þvert og svo 1450m til baka í markið – mér leið bara nokkuð vel og var nokkuð ferskur en hafði náttúrulega ekki hugmynd hvernig tímanum leið (og var svo sem alveg sama á þessu tímapunkti).
Eftir stutta þverkaflann kárnaði gamanið heldur, því þá beygðum við til baka meðfram ströndinni í átt að skiptisvæðinu og fengum ölduna í fangið. Maður hentist fram og til baka í ölduganginum og vissi ekki alveg hvað sneri upp og hvað niður, hvað þá hvort maður væri að synda í rétta átt eða hvað. Þetta var hálft í hvoru ævintýraleg og skemmtileg áskorun (og ég hálf hlæjandi að þessu öllu saman) og hins vegar pælingar eins og „hvaða rugl er þetta eiginlega?“ og „hvað er ég eiginlega að gera hérna?“


Hægt og bítandi mjakaðist ég þó áleiðis uppeftir og smeygði mér framhjá síðustu baujunni og synti síðustu 100-200m í átt að landi. Ætlaði varla að komast upp úr sjónum fyrir brimi. Var staðinn upp á leið að sjálfboðaliða í fjörunni þegar risa alda skellti mér um koll og dró mig nokkra metra aftur út. Stóð fljótt upp og brunaði upp að skiptasvæðinu. Sá Ásu og fleiri Íslendinga fremst í áhorfendahópnum og ég hélt ég hefði vinkað þeim eitthvað en ég sá það á vídeói af mér að ég var með grimman svip og strunsaði mjög ákveðinn framhjá.

IMG_9076

3.750m var vegalengdin sem ég synti skv. Garmin þannig að brautin hefur sennilega verið aðeins í styttra lagi og ég virðist ekki hafa synt sérlega mikið úr leið – ljóst að ég er farinn að synda beinna en ég gerði og orðinn betri í „sighting“.

Lokatími 1:08:45, 116. í aldursflokki og 616. í heildina.
Meðalhraði (official mv. 3,8km) 1:49/100m

Skiptisvæðið-T1
Lappaði úrið og kíkti örstutt á skjáinn og sýndist ég sjá 1:08 – ekki sem verst miðað við ástandið þó þetta hafi ekki alveg verið samkvæmt björtustu vonum.
Stoppaði 1sek undir sturtunum til að skola saltpækilinn úr andlitinu og svo bara beint upp í tjaldið þar sem pokarnir okkar héngu á númeruðum snögum. Var sæmilega fljótur úr gallanum en samt ekkert ævintýralega að mér fannst. Númerabeltið á mittið, hjálminn á hausinn, sunddótið ofan í og pokann aftur á snagann. Hljóp svo beint að hjólinu og leiddi það á skokkinu að línunni við endann á skiptisvæðinu. Stökk þar á bak og tókst að smeygja mér sæmilega hratt í skóna þó það sé alltaf aðeins kómísk aðgerð – smá zikkzakk og næstum búinn að klessa á eitthvað annað fólk þarna en það hafðist þó slysalaust og ég kominn strax á siglingu.
Lokatími 2:51, sem er bara ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði. Er t.d. bara 50s hægari en sigurvegarinn í keppninni og hann vinnur við þetta 🙂

Hjólið
Hér var markmiðið að vera á kringum 4:40-45 á 220-230W og helst á púls undir 140 að jafnaði. Ætlaði að leyfa mér að fara upp í 250-270W og 150 púls í framúrakstri og brekkum en helst ekki hærra.
Skemmst er frá því að segja að þessi áætlun stóðst ekki. 🙂

IMG_9111

Fyrsti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Það var blautt eftir rigningar næturinnar þannig að það var vissara að fara varlega. Kláraði að festa skóna og fór sæmilega þétt upp á aðalgötuna.
Keyrði vöttin aðeins upp í byrjun til að komast fram úr sem flestum hraðari sundmönnum til að hafa meira pláss til að hjóla. Í fyrra í Austurríki kom ég upp úr vatninu fyrir miðjum hópi í sæti 1200+ og það var mikill barningur að koma sér upp hópinn og geta hjólað á sínum hraða í stað þess að vera endalaust að taka fram úr og hægja til að vera ekki í kjölsogi. Núna ræsti ég í fyrsta lagi framar svo ég var með nokkurra mín byssutíma forskot á massann og svo gekk sundið líka nokkuð vel svo ég var í miklu betri málum en í fyrra. Var svo sem ekki nema í sæti 600+ en kraðakið var svo margfalt minni núna.

Mér var skítkalt þegar ég byrjaði að hjóla. Það var enn skýjað og það var hrollur í mér eftir sundið og fyrsta kaflann var smá regnúði sem kældi mann enn frekar niður. Var ekki kominn með hita í kroppinn fyrr en ca. hálftíma inn í hjólið. Hitaaðlögunin hefur náttúrulega hækkað þægindahitann hjá mér upp um nokkrar gráður þannig að ég er aðeins viðkvæmari fyrir kulda en ella. Hörku hjólastelpa frá Finnlandi (Aina Luoma, vann 30-34 ára á 9:27) fór fram úr mér á leiðinni upp í T-lúppuna og ég fylgdi henni – hún var sæmilega jöfn í hraðanum svo ég var oftast fyrir aftan en stundum fyrir framan þegar mér fannst hún vera að gefa eftir – og við svo með nokkra gaura fljótandi fram og aftur í kringum okkur. Þessi litla grúppa okkar hélt sig saman að mestu frá ca. 20-30km og að snúningnum við 90km og var á nokkuð þéttu trukki sem passaði ágætlega við target W hjá mér. Var næstum dottinn á drykkjarstöð á hjólinu í lok fyrri hrings þegar ég nuddaðist næstum í dekk á einhverjum á undan mér í þvögunni. Rétt náði að sveigja dekkið mitt frá hinu og halla mér í hina áttina til að ná jafnvægi.
Þegar ég sá 2:25 á úrinu eftir 90km (=> 4:50 heildartími EF ég héldi sama hraða), þá gaf ég slatta í og stakk hópinn minn af því ég var að stefna á 4:40-45 til að eiga möguleika á sub-9:00 því sundið var þegar búið að klippa 3 mín af svigrúminu sem ég hafði. Tók fram úr nokkrum fljótlega og var svo á sæmilega auðum sjó með bara staka hjólara á stangli næstu nokkra tugi km og gat þá stillt hraðann eftir eigin höfði og það var mjög gott.
Þetta var samt áhættusöm strategía því ég var búinn að keyra fyrri hlutann af fyrri hringnum nokkuð yfir viðmiðunarvöttum til að koma mér í sterkari hóp og taka slatta af sprettum allan tímann til að komast fram úr fólki og hanga í öðrum. Hættan var sú að ég myndi grilla lærin á hjólinu og sá sparnaður sem ég fengi í hjólatíma gæti komið margfalt í bakið á mér á hlaupinu.
Þegar ég var búinn með lúppuna uppeftir og kominn áleiðis að snúningnum við Montgat, þá var ég farinn að ná sífellt fleirum svo ég stillti mig í aðeins lægri vött bakvið aðra annað slagið til að jafna mig eftir þétta keyrslu síðasta klukkutímann ca frá því ég stakk af við 90km markið. Rétt kringum snúninginn með ca. 35km eftir fór nokkuð sterkur gaur fram úr mér og ég ákvað að hengja mig á hann og við skiptumst á að stilla hraðann langleiðina í mark. Það var fín ferð á okkur og við fórum fram úr fullt af liði í misgóðu ástandi (einhverjir enn á fyrri hring sjálfsagt). Hann var greinilega orðinn stífur og fór standandi í flestar brekkurnar og settist upp reglulega en var samt sterkur og með jafnan hraða. Mér leið þannig lagað ágætlega en lærin voru ekki búin að batna neitt þó ég hafi verið að hjóla jafnar en fyrri partinn. Reyndi að fara standandi í brekkurnar en fann fljótlega að það bara verra og ég byrjaði að krampa. Reyndi líka að standa upp á pedalana og hoppa aðeins og fetta mittið að stýrinu og þó það gerði skrokknum almennt gott, þá voru lærin ekki par hrifin af því og bauluðu. Í restina fór ég því bara sitjandi í brekkurnar og reyndi að losa um axlirnar eins og ég gat. Í undirbúningnum hafði ég yfirleitt komið nokkuð ferskur í löppunum úr löngu hjólatúrunum og var aðallega steiktur í bakinu og öxlunum (og stundum klofinu). Það var því ljóst að ég væri að fara á óþekktar slóðir í hlaupinu þennan daginn með lærin umtalsvert hömruð…

IMG_9099
Með ca. 5-10km eftir í mark fór hinn gaurinn að gefa aðeins í en þá ákvað ég að slá aðeins af til að jafna mig fyrir hlaupið. Þetta var ekki mikið – smá vattalækkun snúningshækkun – en nóg til að hann sigldi rólega í burtu. Tók síðasta gelið með ca. 15km eftir – langaði bara ekkert í fleiri. Kláraði síðasta drykkinn en tók vatnsflösku á síðustu drykkjarstöðinni og setti helminginn í brúsann minn.

Síðasti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Þessi kafli var blautur þegar ég kom þangað og þess utan slatti af fólki á undan mér í þrengslunum þannig að það var ekki þorandi að ætla að fara eitthvað hratt þar í gegn. Mundi ekki nógu vel hvernig síðasti kaflinn var svo ég losaði skóna á leið niður brekkuna með ca. 2km eftir (því nóg pláss þar) og fór ofan á skóna líka aðeins of snemma með smá þræðing til baka eftir að skiptisvæðinu. Kostaði svo sem engan tíma en þarna hefði verið sniðugt að leggja betur á minnið hvernig leiðin að svæðinu var nákvæmlega. Hefði alveg getað losað og farið úr skónum á síðustu 300-400m sennilega eftir að við fórum í undirgöngin og snerum við til baka.

Hjólið í tölum

Meðal – 215W, 139bpm, 37,1km/klst og 83rpm (cadence)
Max – 526W, 155bpm, 62,6km/klst og 116rpm (cadence)
Weighted average – 220W
Normalized – 223W
Max meðal yfir 20mín – 234W
Vegalengd 181,3km, 792m hækkun
Kaloríur brenndar – 3.788

Fín frammistaða en bara dugði engan veginn til að vera nálægt 4:40 eins og bjartsýna planið gekk út á. Brautin var (að mér sýnist) 2km lengri en í fyrra (181km skv. Garmin), þessi T-lúppa ofan við Mataró er með smá hækkun og fleiri snúningspunktum og svo kostaði vindurinn og bleytan einhverjar mínútur líka uppsafnað.
Lokatími 4:53:06, 18. í aldursflokki og 105. overall
Mjög góður tími en langt frá því sem þurfti til að eiga séns í 9 tímana nema ég myndi eiga eitthvað ævintýrilega gott hlaup (2:55ish), sem var harla ólíklegt miðað við ástandið á lærunum á mér í lokin á seinni hjólahringnum.
Held að staðan sé líka bara þannig í svona fjölmennri keppni að meðan ég er ekki betri sundmaður en raun ber vitni, þá muni ég þurfa að eiga við þessi „umferðarvandamál“ að etja og þar með ekki geta hjólað „mitt hjól“ á jöfnum TT hraða. Með 600 manns á undan mér, flesta mun slakari hjólara en mig, þá verður óendanlegur fjöldi framúrakstra óhjákvæmilegur og þeir taka sinn toll, því þeir eru ekki bara tveir eða þrír talsins heldur 50 100 eða 200 eða eitthvað í þeim dúr og ég var einfaldlega ekki nógu vel undirbúinn undir svoleiðis álag. Sundið er í hægfara framför en á meðan ég er ekki kominn í sub-klukkutíma kalíber á sundinu (ef það hefst einhvern tímann), þá sýnist mér ég þurfa að breyta aðeins hvernig löngu hjólatúrarnir eru tæklaðir í buildupinu – t.d. að í stað þess að taka jafna Ironman-vött æfingu í 4-5 tíma, þá að taka frekar IM-vatta „base-cruise“ í 4-5 tíma með kannski 15-60sek „surge“ á 2-5 mín fresti, því þannig er Ironman hjólið fyrir mig – það var þannig í fyrra líka nema bara ennþá verra, því þá voru 1200 manns á undan mér…

Skiptisvæðið T2
Ég stökk af baki á ferðinni en það var eitthvað af fólki fyrir mér á dreglinum strax innan við línuna svo ég varð að stoppa aðeins og smeygja mér framhjá þeim. Einhverjar sekúndur sem töpuðust þar. Fannst ég sjá 4:50 og eitthvað á úrinu þegar ég lappaði það inn í T2 en var samt ekki mikið að pæla í hjólatímanum – það var bara búiðö mál og ekkert við því að gera annað en að hlaupa eins og maður og gera það besta úr stöðunni.
Skokkaði nokkuð léttfættur upp að hjólarekkanum og henti hjólinu á sinn stað og losaði hjálminn á leiðinni upp í tjaldið þar sem ég smeygði mér í gelbeltið og fór í sokka og skó og greip húfu, gleraugu og úlnliðsband. Hjálminn ofan í pokann og hengdi hann aftur á snagann og strunsaði út á hlaupabrautina, klæddi mig í húfuna og hitt sem ég hélt á og gúffaði í mig geli.

Lokatími 2:00, sem er aftur ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði (er t.d. 9s hraðari en sigurvegarinn)

IMG_9132

Hlaupið
Maraþonið í IM í fyrra gekk mjög vel framan af – kom þar mjög ferskur af hjólinu og var að rúlla út á 4:15-20/km hraða(target pace 4:35/km þá) og var í mjög góðum málum upp í 19km þegar fór aðeins að hægja á mér. Í 27km fóru lappirnar á mér í steik og síðustu 15km voru hrikalega erfiðir og ég var að berjast við að halda mér undir 5:00/km hraðaí lokin og náði að klóra mig í mark á 3:13, sem telst víst all gott. Því náði ég þrátt fyrir að missa alveg úr 3 mánuði (des-feb) af hlaupum vegna meiðsla í hné þannig að ég var eiginlega bara hálfnaður með hlaupa-buildupið þegar kom að IM í byrjun júlí.
Í ár voru væntingar um hlaupatíma undir 3 tímana – bæði því ég taldi mig eiga erindi í þann hraða eftir gott hlaup í fyrra og það var líka sá tími sem þurfti til að 9 tímar væru eitthvað á teikniborðinu. Minn besti tími í maraþoni er 2:44 frá Rotterdam 2016 og taldi mig vera kominn í ca. 2.50 form núna í lokin eftir mjög markvissan undirbúning sérstaklega fyrir IM hlaupið. 3:00 tími í maraþoni þýðir hraði upp á ca. 4:15/km og ég var búinn að fara frekar sannfærandi í gegnum langar lykilæfingar á þeim hraða og var því með það upplegg að ég myndi leggja af stað á 4:10/km fyrstu 5-10km og meta stöðuna þá. Ef mér liði vel, þá myndi ég reyna að halda mig kringum 4:05-4:10/km og reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57 eitthvað) en annars reyna að halda sjó á 4:15/km hraða og ná undir 3 tímana. Neyðarplanið var að berjast eins og ljón ef allt færi til fjandans og fara ekki hægar en 4:30/km til að hanga undir 3:10.
Byrjað er að fara ca. 1600m frá skiptisvæðinu að snúningspunkti við marksvæðið og eftir það eru svo farnar þrjár 13,5km lúppur til Santa Susanna, samtals 42,1km eða þar um bil (Ironman eru ekki með löglega mældar brautir skv. IAAF staðli heldur eru þetta bara slembiþon)
Jæja, feginn að vera loksins laus af fjandans hjólinu eftir rétt tæpa fimm tíma á hnakknum og ég fór sæmilega sannfærandi af stað á 4:00-4:05/km hraðaog náði ekki almennilega beygjunni við pálmatréð hjá marksvæðinu og hljóp út í kantstein og datt nánast á grindverkið. Fann samt strax fyrir lærunum eftir hjólið og kveið óneitanlega fyrir komandi þriggja tíma „sufferfest“. Á þessu svæði eru skemmtileg trjágöng og fullt af fólki að horfa á – þar á meðal Ása og allir hinir Ægir3 fylgifiskarnir. Virkilega gaman á þessum kafla með íslenska fánann á nokkrum stöðum og marga að hvetja almennt og svo okkar fólk að hvetja mig persónulega. Þegar ég var að koma að snúningnum við pálmatréð sé ég Ironman kynninn með míkrófóninn í kantinum. Hann er að telja upp eitthvað um hvernig gengi hjá atvinnumönnum og svo heyri ég bara allt í einu „and here we have an athlete from Iceland in the mix“ – gaman að því. Ása var greinilega ekki alveg með statusinn á mér á hreinu, því ég sá hana eftir snúninginn (eftir ca. 1800m) og hóaði til hennar og henni krossbrá við að sjá mig þarna en gólaði svo hvatningarorð meðan ég stormaði framhjá henni.

IMG_9123
Fyrsti hringurinn til Santa Susanna og til baka gekk nokkuð vel á þessu target 4:10-15/km hraða en í meðvitundinni leið hins vegar afar hægt og ég hélt ég ætlaði aldrei að vera kominn úteftir að snúningi. Síðasti kaflinn fyrir snúninginn útfrá er nánast mannlaus og lítið að frétta í landslagi, trjám eða áhorfendum til að dreifa huganum. Smá mótvindur til baka hægði svo meira á mér og hitinn var að aukast eftir því sem skýin þynntust á himninum og sólin fór að láta á sér kræla.
Eftir fyrsta hring kemur maður til baka að pálmatrénu góða og þá reynir á sálartetrið. Maður sér „frárein“ út úr beygjunni í átt að Ironman hliðinu í marksvæðinu EN NEI – ég er bara búinn með einn hring og á TVO HRINGI EFTIR – helvítis 27km eftir… Ekkert annað að gera þar en bíta á jaxlinn setja kassann upp og halda áfram að gera það sem gera þarf – halda hraðanum uppi og komast klakklaust í mark.
Þó það sé óneitanlega frekar niðurdrepandi að fara svona oft framhjá marksvæðinu, þá hefur þetta fyrirkomulag nokkra kosti: a) maður sér stuðningsfólkið sitt frekar oft – tvisvar á stuttum kafla á hverjum hring ef þau eru nálægt marksvæðinu, b) það er hægt að hafa drykkjarstöðvar mjög þétt (voru á 2-3km fresti) og c) kílómetrarnir liðu alltaf hraðar og hraðar, þó ég væri að fara hægar og hægar yfir – bara út af þessum „kunnugleika“ að hafa verið á þessum slóðum áður og maður veit hvað er í vændum og getur hlakkað til einhvers sem maður veit að er að koma í framhaldinu.
Seinni tveir hringirnir runnu framhjá í hálfgerðri þoku. Mætti annað slagið Ægis strákunum í misfersku ástandi og reyndi að frussa út úr mér einhverjum hvatningarorðum sem vonandi hafa gert eitthvað fyrir þá. Spænskur pro gaur fór fram úr mér á fyrsta hring (hann á sínum öðrum) og ég notaði hann sem mótíveringu til að halda mínum hraða uppi. Missti hann þó frá mér eftir nokkra km en mjólkaði framúraksturinn þó eins og ég gat. Á svipuðu stað á öðrum hring fór ég svo fram úr honum þegar hann var farinn að ströggla á þriðja hring með örfáa km í mark og ég greinilega að halda mínu nokkuð vel. Fór fram úr Ara og Lúlla eftir snúninginn á þriðja hring og þeir greinilega orðnir ansi þungir og áttu þá 1 1/2 hring eftir (næstum 20km). Lítið annað að gera en klappa þeim létt á bakið og góla „komaso“ eða hvað það var sem ég baulaði (söng amk. ekki „Hvíta máva“). Var orðinn ansi verkaður þarna í ca. 37km með 5km eftir í mark -hraðinn dottinn niður í 4:25-30/km og meðalhraði á hlaupinu skriðinn yfir 4:15/km þannig að ég var hægt og sígandi að missa frá mér 3 tíma takmarkið. Hafði svo sem ekki mikið fram að færa á þessum tímapunkti til að lagfæra það því ég komst bara ekki hraðar með lærin að stífna meira og meira og farinn að stífna verulega upp í náranum líka þegar komið var inn í seinni partinn af hlaupinu. Hélt þó þessum hraða nokkurn veginn í átt að skiptisvæðinu og þar loksins lagði ég í að stíga á bensínið með 1600m í mark. Þetta var nú ekki neitt urrandi endasprettur en fór þarna vaxandi upp í nálægt 4:00/km.

IMG_9179
Endaspretturinn út af pálmatréslúppunni eftir svarta dreglinum í átt að Ironmark markinu var tekinn gjörsamlega á fullu gasi – hafði ekki hugmynd um hvort ég væri nálægt 3 tíma hlaupi eða 9 tíma heildartíma, því þarna kemst ekkert annað að en að klára í mark og það sem fyrst. Sá ekki Ásu og hina Íslendingana eða neitt svo sem á endasprettinum, því ég var svo fókusaður á þetta og alveg út úr heiminum. Var alveg bugaður í markinu – rétt náði að pumpa hnefana eitthvað út í loftið og slökkva á úrinu og var svo studdur inn í veitingatjaldið af hjálpfúsum sjálfboðaliða.
Í tjaldinu sat ég svo örmagna í einsemd minni og var ekki að koma neinu niður nema smá gosi og melónu. Reyndi að bíta í brauð en kúgaðist og gat varla staðið upp til að sækja mér meira, því ég var svo þreyttur og lappirnar alveg í hakki. Sat því dágóða stund og sötraða drykk og ákvað svo fyrir rest að fara í sturtu. Hún var náttúrulega ísköld en mér var alveg sama. Pissaði í sturtunni rauðbrúnni bunu og hugsaði bara „ósjitt“ – í besta falli brúnt út af myoglobin vöðvaniðurbrotspróteinum (rhabdomyolysis), í versta falli rautt út af blæðingum. Hef nokkrum sinnum fengið mjög dökkt piss eftir maraþon, langar tempó æfingar og svo járnkarlinn í fyrra þannig að ég var ekkert að stressa mig allt of mikið á þessu og einbeitti mér bara að vökvainntöku. Næsta buna uppi á hóteli var helmingi ljósari og þriðja bunan nokkrum tímum síðar var í nokkurn veginn „náttúrulegum“ lit…
Óli kom svo rúmum klukkutíma á eftir mér í mark og Ari og Lúlli í kjölfarið. Það var gaman að hitta æfingafélagana og fara yfir upplifun dagsins. Í fyrra var ég nefnilega aleinn að keppa og hafði engan til að tala við eftir keppnina fyrr en ég fór út af marksvæðinu til fjölskyldunnar. Ég var því ekkert að stressa mig á að fara út úr tjaldinu til Ásu og hélt hún væri bara í góðum félagsskap í góða veðrinu með hinum Íslendingunum. Það var því sjokk þegar ég loksins fór út úr tjaldinu að ég rakst á Ásu, sem hafði þá beðið eftir mér í 3 tíma og fékk ekki að fara inn í tjaldið og stóð því núna í ausandi rigningu og vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðinn… Ég hafði nefnilega ekki sett síma í götufatapokann og hélt ég gæti ekki komist út úr tjaldinu til að kasta kveðju á hana og tíminn leið greinilega miklu hraðar úti á götu heldur en hjá mér í „post-race oblivion“ inni í tjaldinu. Í ljósi skrautlegrar sögu minnar með ofreynslu og sjúkratjöld í svona keppnum, þá eru hennar áhyggjur skiljanlegar og algjör aulaskapur í mér að vera ekki búinn að plana betur samskiptin eftir að ég kæmi í mark – setja síma í pokann, kalla til hennar út um útganginn, gefa upp tíma sem ég myndi vera inni í tjaldinu eða eitthvað. Gerum betur hvað þetta varðar næst…

Hlaupið í tölum

Hraðasti km – 3:58 (fyrsti)
Hægasti km – 4:38 (km 34)
Meðal hraði- 4:18/km (4:16/km skv. opinberum tölum mv. að hlaupið hafi verið 42,2km)
Garmin sýnir hlaupið sem 41,8km og þar sem það sýnir yfirleitt aðeins of mikið, þá hefur brautin sennilega ekki verið nema 41,5km eða þar um bil – við fögnum því 🙂

Lokatími 2:59:54, 3. í aldursflokki og 23. overall
Bara tvær konur á undan mér í allri keppninni – 1. og 2. sætið í Pro kvenna.

Járnið í heild
7. sæti í aldursflokki af 471 – 19 sek frá 6. sæti og 1:32 frá 5. sæti.
54. sæti karla overall
55. sæti overall
Hefði dugaði til sigurs í 45-49 karla og overall AG kvenna og öðru sæti overall kvenna og 31. sæti pro karla.
Ekki sem verst 🙂

Ég ætlaði aldrei í járnið

Stefán Örn Magnússon segir frá:

Bjór, af því að engin góð saga byrjar á salati. Ég sat með nokkrum félögum mínum í desember í fyrra og sötraði bjór þegar einn þeirra nefnir að þeir séu búnir að skrá sig í Ironman í Barcelona haustið 2018, ég varð verulega hissa á þessu þar sem þessi hópur á ekki langa afrekaskrá í þríþraut, reyndar enga, sumir áttu jafnvel ekki hjól né hlaupaskó. Ég varð strax mjög spenntur og hugsaði sem svo að ef að þeir gætu þetta þá gæti ég þetta líka og í raun yrði að fylgja þeim í gegnum þetta ferli. Skráning staðfest tveim dögum síðar.

Forsagan.

Árið 2011 byrjaði Nanna konan mín að taka þátt í þríþraut sem hluti af hópefli á þáverandi vinnustað hennar. Hún kolféll fyrir sportinu og var fljótlega kominn í hóp kvenna sem Karen Axels og Vignir ætluðu að koma í gegnum hálfan Ironman í Hafnarfirði 2012, þessi hópur var nefndur Hálfsystur og átti eftir að gjörbreyta lífi Nönnu og mínu árin á eftir.

Ég horfði á eftir henni sökkva sér í þetta og gjörbreytast sem manneskja, ég hreifst með og var fljótlega farinn að hjóla líka, ég hafði skokkað mér til heilsubótar með Stjörnunni og var í ágætis hlaupaformi þegar ég byrjaði að hjóla og fannst það hrikalega gaman. Við skráðum okkur svo í 3SH haustið 2012, þar var frábær félagsskapur og var mér kennt að sökkva minna í sundinu og að stunda skipulegar æfingar, Ég var nokkuð duglegur í þessu en aldrei óraði mér fyrir að Ironman yrði nokkurntíman á dagskrá.

1377607_10200719414243498_450055046_n

Ég var alveg hættur að æfa 2015 þegar við vorum fyrir tilviljun stödd í Barcelona sömu helgi og Ironman Barcelona var haldin það árið, við þekktum þó nokkra íslendinga sem voru skráðir til leiks og rifum okkur upp langt fyrir allar aldir til að fara og sjá þessa “sjúklinga” fremja verknaðinn. Í lok þessa dags sáum við seinustu keppendur skakklappast á síðasta hring í marathoni eins og það væri búið að gera í buxurnar og þá sagði ég við Nönnu að þetta skildi ég aldrei gera.

Ferlið.

Ég vissi að ef ég ætlaði að eiga séns í að klára þetta dæmi yrði ég að skrá mig í góðan klúbb, ég er svo lánsamur að búa tveim húsum frá sundlaug Kópavogs og lá því lóðbeint við að skrá sig í Breiðablik, ekki skemmdi fyrir að þar mætti maður frábærum hóp af þjálfurum og iðkendum sem gerðu æfingar skemmtilegar. Ég kom inn í mitt æfingartímabil hjá Blikum og var því dálítið á skjön við programið þeirra, þau voru búin með grunn tímabilið sem mér fannst algjört möst að taka af skynsemi til þess að minnka líkur á meðslum við að fara of bratt af stað. Ég keypti mér því 32 vikna æfingaáætlun á Training Peaks sem var sér sniðið fyrir Ironman Barcelona, það reyndist mér frábærlega að styðjast við það fram að 12 vikum fyrir keppni, þá tók við gríðarlega metnaðarfull áætlun frá Viðari Braga sem ég notaði sem viðmið en hlustaði alltaf vel á líkamann til að forðast meiðsl og þreytu og hvíldi ef mér fannst annað hvort gera vart við sig meira en góðu hófi gegndi. Ég var búinn að gera mér nokkuð góða grein fyrir að ég myndi ekki ná að vinna mótið og voru æfingar því meira miðaðar við að fara í gegnum þetta meiðsla laus og að njóta æfinga og keppni.

Til þess að auka á stemninguna skipti ég um vinnu í apríl og var mjög erfitt að halda sér við efnið í æfingum með því aukna álagi sem fylgdi því að byrja að vinna á nýjum vinnustað.

Veðurguðirnir gerðu líka allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir æfingar og var ég við það að bugast seinnipartinn í júní þegar tvöhundraðasti sunnudagurinn í röð var með rigningu og roki á langri hjólaæfingu, þrír til fjórir tímar á hjóli í svona veðri aftur og aftur eru bara ekkert skemmtilegir, nema að maður sé eitthvað bilaður sem ég er sem betur fer smá.

Ég tók þátt í eins mörgum keppnum og ég kom við og var sú reynsla ómetanleg þegar á hólminn í Barcelona var komið. Þar skiptu sundkeppnir í opnu vatni mestu máli enda reynslan minnst þar, Urriðavatnssundið og Viðeyjarsund stóðu þar hæst, að þeim loknum þá vissi ég að ég kæmist þetta.

Frá ármamótum og fram að keppni lagði ég rétt tæpa 3000 km að baki á hjólinu, hljóp 825km og synti rúma 95km, það tók mig um 250 klst að fara þessa km á 200 æfingum. Ég í raun gerði lítið annað en að vinna, æfa og keppa þetta árið.

Ég var feginn að hafa borið þetta undir Nönnu áður en ég skráði mig því að hún bar hitan og þungann af öllu heimilishaldi og leyfði mér að vera prinsessan sem var að fara keppa allt þetta ár, án hennar hefði ég ekki getað þetta.

Keppnin sjálf.

Satt best að segja þá var keppnin sjálf minnsti parturinn af þessu og í raun auðveld og skemmtileg, æfingar höfðu skilað sér og ég var tilbúinn.

sund

Ég játa að ég var ansi lítill í mér þegar ég stóð í sund startinu um morguninn og horfði á öldurnar berja á þeim sem fóru útí á undan mér, þetta var rosalegt og skolaði sumum tvisvar til þrisvar til baka áður en þeir komust út.

Maggi félagi minn stóð þarna með mér og hann sagði “iss þetta verður aldrei vesen” einkunnarorð hans sem róuðu mig mikið og reyndust að sjálfsögðu sönn. Það höfðu greinilega ekki allir heyrt í honum því fleiri tugum ef ekki hundruðum reyndist sundið ofviða og voru sóttir af lífvörðum og skutlað í land. Margir fóru aldrei útí.

Við Maggi fórum óvænt nokkuð samhliða í gegnum keppnina, það var hrikalega gaman að rúlla þetta saman og njóta allan tímann.

Lykilinn af vellíðan í svona keppni er jákvætt hugarfar, næra sig og vökva nóg á hjólinu og vera uppi með kassann í hlaupinu. Pissa reglulega á sig og éta sölt eins og smarties var að reynast mér vel.

Stuðningsliðið okkar stóð sig frábærlega og öskrin í Nönnu minni bárum mig áfram í gegnum erfiða kafla, ég ákvað strax á hjólinu þegar ég heyrði köllin í Nönnu á eftir mér þegar ég var að rúlla af stað út úr Calella í 90 km hring þar sem maður þekkti engan stuðningsmann að öll hvatning sem ég fengi á leiðinni yrði tekið sem hvatning frá Nönnu, það var æðislegt að “sjá” hana svona oft í hringnum.

43392935_10216574345732902_3735887060867743744_n

Það var mikið af íslenskum fánum í hlaupa brautinni og var ómetanlegt að fá stuðninginn frá þeim sem og öllum öðrum sem hvöttu mann áfram af mikilli ákefð.

Það var algjörlega ólýsanleg tilfinning að hlaupa inn eftir rauða dreglinum og klára þetta verkefni í vellíðan og algjörri alsælu, gerði þetta allt þess virði og ég mun endurtaka leikinn.

Screen Shot 2018-10-14 at 15.35.42

 

“Ég ætla aftur”

“Ég ætla aftur” var fyrsta hugsun mín þegar ég kom í mark í minni fyrstu Ironman keppni í Kaupmannahöfn 2017. Því var farið í það að skoða hvaða keppni yrði næst fyrir valinu og 6 vikum síðar var ég skráður í Ironman Barcelona.
Markmiðin voru strax skýr, þessi keppni skyldi kláruð á innan við 10 klst. Þar sem ég er þjálfari hjá Ægi3 varð æfingafríið eftir keppni mjög stutt og ég var kominn á fullt í æfingar 2 vikum eftir keppnina í Kaupmannahöfn. Ég æfði fyrstu vikurnar mikið með skemmtilegum hópi byrjenda sem var mjög góð leið til að koma sér af stað aftur og æfingar gengu mjög vel fram að áramótum.
Eftir áramót fór æfingaálagið að þyngjast og þegar dró að vori var ég farinn að finna fyrir meiðslum auk þess sem andlega hliðin var orðin tæp, þunglyndi og æfingagleðin fór dvínandi. Á þessum tíma var Challenge Samorin framundan og var ég farinn að gæla við þá hugmynd að slaufa þeirri keppni. Sú ákvörðun var þó tekin að taka stutt æfingafrí, jafna sig á meiðslum, vinna í andlegu hliðinni og fara til Slóvakíu með því hugarfari að klára þá keppni. Það er jú heiður að fá að keppa í Challenge Championship og óvíst að maður nái þar inn aftur.
Eftir Slóvakíu ferðina var æfingaáætlunin endurskoðuð og yfirfarin og ljóst var að ég þyrfti að setja meiri þunga í sundæfingar þar sem sundið var mín lang slakasta grein. Því æfði ég sundið 4x í viku fram að keppni, 3x í lauginni og 1x í sjónum. Það er hreint ótrúlegt hversu miklum árangri er hægt að ná í sundinu á stuttum tíma með svona átaki. Í hlaupinu og hjólinu voru langar Z2 æfingar og langar tempó-keyrslur lykilæfingar. Þetta skilaði góðum árangri og var ég meiðslalaus, í góðu formi og mjög vel stemmdur fram að keppni.
Mánuði fyrir keppni var ég að skoða hvaða tíma þurfti að ná í keppninni í fyrra til að ná Kona-sæti og sá að 9.45 hafði dugað árið áður. Þarna fór ég að endurskoða markmiðin mín og hugsaði að ef ég ætti toppdag ætti ég að geta synt á 1.05, hjólað á 5.00 og hlaupið á 3.30. Reiknaði svo 7 mínútur í skiptingar og nýtt markmið var að klára á 9.42.00. Hjólabrautin í Barcelona er mjög flöt og hröð en nokkrum dögum fyrir keppni fengum við keppendur tölvupóst um breytingu á hjólaleiðinni þar sem krókur var tekinn úr hefðbundinni leið sem innihélt nokkuð góða brekku, 4 U-beygjur og lengingu á brautinni um 4 km. En þetta verður þá erfiðara fyrir hina líka hugsaði ég.
Félagskapurinn í æfingarferlinu og keppninni sjálfri var frábær. Stór hópur æfingafélaga úr Ægi3 auk fleiri íslendinga voru skráðir til leiks og mjög stór hópur stuðningsmanna hélt til Barcelona og hreint ótrúlegt að sjá íslenska fánan víða í brautinni og sungið og hrópað Áfram Ísland.
Ég mætti til Calella viku fyrir keppni og gat því æft á staðnum sem var frábært. Synda í heitum sjónum, hjóla við góðar aðstæður og hlaupa meðfram ströndinni var góð tilbreyting frá rigningu og slyddu á Krísuvíkurveginum.
Þegar við hittumst í lobbyinu á hótelinu á keppnisdag var þrumuveður og algjört skýfall. Við ákváðum því að klæða okkur í blautbúningana og labba í þeim niður á strönd. Það hafði verið hvasst um nóttina og við ræddum það á leiðinni að við myndum líklega fá öldur.
Sundið.
Ég hafði ákveðið að skrá mig í sundhólf með þeim sem áætluðu að synda á einni klukkustund. En þegar að sundhólfunum kom sá ég aðeins 55 mín hólf og 1.05 og ákvað að fara í 1.05 hólfið. Þegar ég stóð á ströndinni og horfði út á sjó nokkrum mínútum fyrir startið sá ég að öldurnar voru mun stærri en ég bjóst við og líklega þær langstærstu sem ég hafði nokkur tíma synt í. Ég var algjörlega rólegur og tilbúinn í þetta og þakka ég öllum æfingunum í Nauthólsvík í hvaða veðri sem er fyrir þessa ró. Flautið kom og ég hljóp af stað og stakk mér í ölduna. Ég synti frekar rólega af stað fyrstu 2 – 300 metrana og jók svo hraðan. Ég var á góðu róli og öldurnar höfðu lítil áhrif á mig. Gameplanið núna var að finna einhvern sem synti örlítið hraðar en ég og hanga rétt við tærnar á honum og nota þannig kjölsogið en þannig getur maður synt hraðar á minna álagi. Ég gerði nokkrar tilraunir til að finna einhvert til að elta en gafst að lokum upp þar sem fólk virtist synda í allar áttir, þvess og kruss í öldunum. Ákvað því að synda þetta einn. Sundið gekk vel út en eftir snúningspunktinn þurfti að synda til baka á móti öldunum. Það gekk ljómandi vel að synda á móti öldunum en þarna gekk á ýmsu. Fólk virtist vera í töluverðum vandræðum með ölduna og ég var stöðugt að synda fram úr fólki. Þarna fékk ég nokkur högg og þurfti að stoppa tvisvar til að laga sundhettuna sem var við það að losna ásamt sundgleraugunum. Einnig fékk ég nokkuð vænt spark í andlitið frá manni sem var að synda bringusund. Öðru hvoru heyrði ég í fólki æla þar sem sjóveiki hefur verið farin að segja til sín. Á þessum tímapunkti var ég mjög þakklátur að hafa mætt á allar æfingarnar í Nauthólsvíkinni og vera kominn með reynslu af öldum og gleypa sjó. Þetta sund var frábært og eftir á að hyggja hefði ég alls ekki viljað missa af þessari upplifun fyrir örlítið betri sundtíma, þetta var hrikalega gaman.
Sundtími 1.13.31 sem er ásættanlegt miðað við aðstæður og bæting um 12 mínútur og 49 sek.
Hjólið:
Fyrstu og síðustu 3 km á hjólinu voru í gegnum þröngar götur Calella og mátti ekki vera í aero stöðu þessa leið. Eftir það var haldið út á fallega og skemmtilega leið meðfram ströndinni. Aðstæður voru ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir, það var nokkur vindur sem virtist koma úr öllum áttum. Einnig gekk á með skúrum þannig að vegurinn var blautur og rennislétt malbikið varð flughált í bleytunni. Ég sá nokkur hjól liggja í kantinum eftir að fólk hafði dottið og þrisvar var lögregan að hægja á keppendum þar sem var verið að hlúa að fólki sem hafði dottið rétt á undan mér.
Mjög langar halarófur hjólara mynduðust og voru dómarar nokkuð strangir á því að segja fólki að hægja á sér til að vera ekki of nálægt næsta manni og hótuðu tímavíti. Þetta gerði að verkum að planið um að halda jöfnum 200 wöttum á hjólinu fór út um gluggann. Ég hélt á nokkuð löngum köflum 300 – 350 wöttum til að taka fram úr stórum hópum en svo virtist vera að aðrir væru í sömu hugleiðingum því að um leið og ég sló af komu nokkrir fram úr mér og svona gekk þetta ítrekað. Þetta tók mikla orku og grillaði á manni lærin.
Hjólatími: 5.11.21 sem er vel ásættanlegt miðað við breytinguna á hjólabrautinni og veður. Bæting um 20 mínútur og 59 sek.
Hlaupið.
Hlaupið var strax mjög þungt eftir erfitt hjól lærin fóru strax að væla. Ég reyndi ítrekað að reikna út hvaða hraða ég þyrfti að halda til að ná að klára á 10 klukkustundum en aldrei hef ég verið jafn slakur í hugarreikningi.
Hlaupið er 3 og hálfur hringur meðfram ströndinni í Calella og yfir í næsta bæ. Þegar hlaupið er í Calella er mikið um áhorfendur að hvetja sem hjálpar mikið en þegar komið er út fyrir bæinn er maður meira einn sem er erfitt fyrir hausinn.
Ég fór af stað á 4.40 pace-i, en það er hraði þar sem ég er 4 mín og 40 sek að hlaupa 1 km. Þetta gekk vel til að byrja með, púlsinn var góður og mér leið nokkuð vel nema lærin voru mjög þreytt. Ég hugsaði að ég gæti alveg þrælað mér í gegnum þetta. En eftir 15 – 20 km voru lærin enn þreyttari og mér leið á köflum eins og þau væru hreinlega að gefa sig. Fljótlega í framhaldinu fór maginn að kvarta og ég hægði á mér þar sem ég var á mörkunum að æla. Þarna upphófst mikil andleg barátta þar sem mér fannst ég líkamlega geta haldið 4.40 – 4.50 pace-i en á þessum hraða byrjaði ég að kúgast og átti erfitt með magan. Að hlaupa fram hjá markinu og leggja af stað í síðasta 14 km hringinn var gríðarlega erfitt og síðustu 10 km voru virkilega erfiðir þar sem lærin voru algjörlega búin og ég var orðinn hræddur um að þau myndu gefa sig og ég myndi detta í götuna, sem betur fer gerðist það ekki.
Hlaup: 3.34.07 sem ég er ekki alveg sáttur við. Hjólið tók of mikla orku og ég tel mig eiga að geta rúllað þetta á 4.50 pace-i. Bæting 6 mínútur og 59 sekúndur.
Heildartími: 10.07.03 sem ég er nokkuð sáttur með. Þessi tími skilaði mér í 55. sætið í aldursflokki af 573 keppendum sem er top 10% (AWA-brons) sem ég er nokkuð montinn með. Bæting 41 mínúta og 44 sekúndur.
Á síðustu kílómetrunum í hlaupinu hugsaði ég með mér “ALDREI AFTUR”. Sólarhring síðar vorum við Siggi æfingafélagi minn farnir að skoða hvaða keppni ég ætti að taka næsta sumar þannig að ég tel nánast öruggt að ég tek Ironman keppni á næsta ári.
Næsta verkefni er að fara yfir hvað þarf að bæta, hvar ég á mest inni og í hverju þarf að vinna. Ég er búinn að sjá það að til að komast lengra er algjörlega nauðsynlegt að bæta sundið og vera mjög framarlega þar, að öðrum kosti ertu alltaf í basli í hjólabrautinni með mikinn fjölda hjólara fyrir framan þig.
Þessi ferð og þessi keppni var algjörlega frábær skemmtun og vil ég þakka æfingafélögunum í Ægi3, þjálfurum, og mögnuðum stuðningsmönnum fyrir æðislegan tíma í Calella á Spáni. Vonandi komið þið sem flest með í næstu keppni.