Slysið á Írlandi

Dún Laoghaire 70.3 – Mín önnur hálf-IM keppni sem PRO

 Ég veit ekki alveg hvar skal byrja, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var ekki einu sinni viss um það hvort ég ætti að skrifa sérstaka keppnissögu yfir höfuð frá þessari tilteknu keppni en ég held það sé mikilvægt að ná þessu niður á blað til að hjálpa mér að vinna úr þessu sem og að gefa ykkur hinum innsýn í hvað ég er að hugsa á þessum tímapunkti. Dún Laoghaire 70.3 var líklega ein erfiðasta lífsreynsla sem ég hef lent í – og ég er því miður ekkert að ýkja þegar ég segi það. Ég hef alltaf reynt að sjá jákvæðu hlutina við allar keppnir hjá mér, sama hvort það gangi vel eða illa og yfirleitt get ég sett hlutina upp á svona nokkuð hlægilegan máta eftirá þegar ég skrifa keppnissögur og geri upp það sem illa fór. Ég ætla að reyna mitt besta við að gera það líka núna en á sama tíma ætla ég að segja frá viðburðum helgarinnar án þess að vera að skafa eitthvað af hlutunum. Þríþraut er „brútal sport“ á marga vegu en getur verið sérstaklega „brútal“ í einstaka tilfellum. Þetta sem kemur hér á eftir er eitt þeirra og vona ég að sem fæstir muni nokkurn tímann þurfa að upplifa eitthvað svipað og ég gerði. En við byrjum á byrjuninni.

Eftir að hafa rekist nokkuð harkalega á vegg, næringarlega séð, í keppninni í Gdynia ákvað ég að gera ekki sömu mistök og þá og passa upp á matarplanið dagana fyrir keppnina sem og á keppnisdag. Þetta fól í sér að hætta að hugsa um kaloríur og þyngd og einblína bara á tilfinningu og vellíðan. Ég borðaði vel dagana fyrir keppni og leið alveg einstaklega vel þegar ég vaknaði á sunnudaginn. Það var svolítið kalt þegar við Helena fórum út í leigubíl kl 05:00 um morguninn en spáin fyrir daginn var góð svo við vissum að það myndi nú rætast úr þessu. Við vorum komin vel tímanlega á staðinn fyrir startið og ég hafði góðan tíma til að fara yfir skiptingar í síðasta sinn og hita vel upp. Sjórinn var 16 gráður svo það var útlit fyrir þægilegt sund en þó voru nokkrar öldur sem gerðu sundið út eftir fyrsta kílómeterinn nokkuð strembið. Brautin var einföld, við syntum bara út meðfram baujum að fyrstu beygju og svo var þetta bara svona einfaldur „kassi“ eða svo. Eftir að hafa hitað upp í sjónum í um 10 mínútur vorum við kölluð aftur að landi og sagt að það væru 10 mínútur í start. Eins og vanalega leið þessi tími nokkuð hratt og áður en ég vissi var komið að niðurtalningu: 5…4…3…2…1…BAM. Út í vatnið hentumst við og ég fann strax að þetta ætti eftir að vera góður dagur fyrir mig. Það voru nokkrir sterkir sundmenn í hópnum svo ég ákvað að keyra aðeins á þetta til að byrja með til að vera viss um að vera í fremsta hópnum. Áður en langt um leið vorum við að því er virtist bara 3 fremstir: ég, Andy Potts og Elliot Smales. Þeir tveir fóru að lokum alla leið og tóku 1. og 2. sætið þann daginn. Við syntum saman alveg út að fyrstu snúningsbauju en um 50 metrum áður en við tókum beygjuna fannst mér ég geta gefið aðeins í og því gerði ég það. Ég fann hvernig ég sigldi fram úr þeim frekar auðveldlega og náði mjög „clean“ snúningi við endabaujuna. Ég hélt taktinum alveg út sundið og vonaði að ég hefði náð að mynda smá bil á þá fyrir aftan. Það kom hins vegar á daginn að þeir höfðu bara farið beint í draftið hjá mér og héngu í löppunum á mér alveg þangað til við kláruðum sundið 3 saman, um það bil 2-3 mínútum á undan næstu mönnum. Sæll. Þetta stefndi í góðan dag!

IMG_20180824_104542_346Upp úr fórum við og beint inn á skiptisvæði. Ég var helst til of lengi að fara úr blautgallanum og tapaði aðeins forystunni en kom þó út af T1 nokkrum sek á eftir Andy Potts. Ég ákvað að halda álaginu á hjólinu nokkuð stýrðu en var yfirleitt í kringum 300W, sem er sirka 87-88% af FTP. Kannski svolítið hátt effort en mér leið vel og keyrði því bara á það. Ég hélt Andy í augsýn nokkuð vel fyrstu 15-20 km en svo gaf hann aðeins í og eftir 35km var hann kominn um 2 mín á undan. Brautin var mjög hæðótt og ég held í alvöru að ég hefði verið betur settur á racer með 40mm gjarðir að framan og aftan heldur en á TT með disk. Ég var með 11-28 kasettu að aftan og eingöngu 52-36 hringi að framan en þurfti samt að henda út um 400W í sumum brekkunum einfaldlega til að stoppa ekki. Ég veit ekki alveg hvernig sumir af strákunum gerðu þetta með compact kasettu og 55-42 en það hefur ekki verið auðvelt.

Smátt og smátt fikruðum við okkur upp hverja brekkuna á fætur annarri með einstaka köflum sem lágu niður á við í gegnum hlykkjótta sveitavegi sem líktust frekar malarvegi á sumum köflum heldur en malbiki. Mér leist ekkert á blikuna á tímabili þegar hjólið hristist svo mikið að það lá við að ég nánast missti allt vatnið úr aero-brúsanum hjá mér. Að lokum var komið að síðustu brekkunni – í kringum 50 km voru búnir af hjólinu á þessum tímapunkti en þessi brekka var það löng og brött að ég sá alla þá 4 sem á undan mér voru þrátt fyrir að bilið væri um 6 mínútur í fremsta mann. Ég var orðinn nokkuð súr þegar að þessu kom en þjösnaðist upp á þrjóskunni en passaði þó að sprengja mig ekki alveg. Meðalaflið var ennþá í um 300W hér og útlit fyrir að ég næði að halda því vel út það sem eftir væri og því var ég nokkuð sáttur á þessum tímapunkti, sitjandi í 5. sæti í heildina. Þegar upp var komið tók við allt annað veður en hafði verið fyrri hluta leiðarinnar. Skyndilega keyrðum við inn í þoku og hífandi rok og var á tímabili erfitt að halda sér á veginum. Ekki hjálpaði til þegar það byrjaði að rigna nokkuð vel og útsýnið var þá orðið um 25 metrar fram fyrir mig og ég þurfti stanslaust að þurrka vatnið af hjálminum til að sjá betur út. Það er ekkert allt of þægilegt að keyra áfram á 40 km hraða með eins lítið skyggni og var ásamt því að það var mikið rok og rigning – ekkert ósvipað íslensku sumri 2018.

Loks lá leiðin niður á við og vorum við hér komnir um 53-54 km inn í hjólaleiðina. Úff, erfiðasti parturinn búinn og nú var bara að skila sér til baka á skiptisvæðið og hamra hlaupið. Eða ég hélt þetta yrði svo einfalt. Þegar ég kom yfir eina hæðina gerði mjög mikið rok og voru sviptivindarnir það hættulegasta – stanslaust að rífa í diskinn hjá mér og hjólið í heild. Vindurinn stóð ská aftan á mig þannig hann bæði ýtti mér áfram niður brekkuna og hafði áhrif á jafnvægið. Vegurinn var blautur þar sem rigningin sem við höfðum rétt lokið við að hjóla í gegnum var nýbúin að fara yfir þetta svæði og því var gripið ekki eins gott og í þurru. Ekki hjálpaði svo til að vegurinn lá í hlykkjum niður brekkuna og var í raun bara einbreiður með bundnu slitlagi. Ég reyndi eins og ég gat að fara varlega þarna og var með fullan kraft á bremsunum þegar að ein sviptivindhviðan tekur svoleiðis í hjólið hjá mér að ég fipast og framdekkið hrekkur út af veginum hægra megin – Shit. Þar sem ég fer út af er svona smá „öxl“ með möl svo ég hafði smá tíma til að líta betur fram og sjá hvað var í boði áður en ég áttaði mig á því að þetta væri nú líklega búið. Framundan var engin öxl með möl, þar sem ég er staddur á hægri öxlinni og vegurinn er að hlykkjast til hægri. Um 20-30 metrum fyrir framan mig er svona skurður eða dæld í grasinu en ég hafði smá tíma til að gera mér allavega grein fyrir því hvað væri að fara að gerast. Ég var á 56 km/klst hraða skv. Garmin Edge tölvunni þegar framdekkið dettur ofan í dældina og áður en ég veit af er ég í loftinu. Ég snýst einn hring yfir mig og skrapa öxlinni í jörðina áður en ég lendi í grasinu með lappirnar fyrst í nokkurn veginn sitjandi stöðu. Líklega hafa vöðvarnir hjá mér verið allir spenntir í einu á sama tíma því ég finn hvernig líkaminn stífnar allur upp og á sama tíma og ég lendi fæ ég hrikalegan þrýsting á bakið, smá brak og fetta á mjóbakið og svo slengist ég yfir mig hálfan hring í viðbót og lendi kylliflatur á malbikinu. Sársaukinn var sá mesti sem ég hef fundið á ævi minni. Mig verkjaði alstaðar en þó mest í bakinu. Næsta mínúta eða svo fór mest öll í að öskra, bæði úr sársauka en líka úr hræðslu (svona eftirá að hugsa) þar sem ég taldi næsta öruggt að ég hefði brotið eitthvað miður skemmtilegt miðað við sársaukann. Fljótlega kom næsti keppandi fram úr og hann kallaði eitthvað á mig en ég var ekki í standi til að svara honum. Ég byrjaði á því að liggja flatur og reyna að slaka á, ná andanum aftur og sjá hvort ég fyndi fyrir löppunum. Þegar ég sá að ég gat hreyft lappirnar fór ég næstum að hlæja þar sem ég var feginn því að hafa ekki lamast við þessa byltu. Ég fór að hreyfa fleiri líkamsparta og smám saman náði ég með herkjum að koma mér yfir á magann. Þá komu tveir hjólamenn í viðbót fram úr og ég kallaði á þá að ná í hjálp neðar í brautinni og senda einhvern upp eftir. Þeir jánkuðu því og héldu áfram niður eftir. Ég vann mig frá liggjandi magastöðu og upp á hnén og þegar ég sá að ég gat það þá stóð ég upp. „Okok, ég get allavega staðið og gengið“ hugsaði ég þegar ég fikraði mig út í móa til að athuga hvort ég sæi hjólið. Hvar var nú blessað hjólið? Ég sá að staðurinn þar sem ég hafði farið út af var um 5 metrum ofar í brekkunni samanborið við þar sem ég hafði lent og það var ekki fyrr en ég hafði gengið aðeins inn í grasið utan við brautina að ég sá hjólið öðrum 5 metrum neðar í brekkunni. Þvílík og önnur eins flugferð sem það hafði fengið. „Jæja, ætli ég geti kannski haldið áfram þar sem ég virðist geta gengið, ef hjólið er í lagi?“ hugsaði ég algjörlega kexruglaður eftir fallið. Hvernig mér datt í hug á þessum tímapunkti að mögulega halda áfram eftir svona byltu get ég eiginlega ekki skilið. Þeim vonum var þó fljótlega kippt undan mér þegar ég kom auga á framgjörðina. Algjörlega í steik og stýrið skakkt. Annað virtist þó vera í lagi en það verður þó að bíða frekari skoðunar. Ég hirti því hjólið, Garmin tölvuna og gjörðina úr grasinu og stóð svo drykklanga stund úti í vegkanti og reyndi að vara aðra hjólamenn sem komu við hættunni. Að lokum gafst ég upp á því að bíða þar sem mér var farið að vera nokkuð kalt og byrjaði að labba niður eftir í átt að næsta bæ.

Ég hafði ekki gengið meira en 150 metra þegar brautarstarfsmaður kom keyrandi á móti mér á mótorhjóli. Hann sagði mér að sjúkrabíll væri á leiðinni til að sækja mig og gaf mér vatn og smá næringu. Ég var farinn að skjálfa mjög mikið fljótlega eftir að hann kom og lánaði hann mér regnbuxur sem hann var með yfir sínar eigin og setti mig í jakkann sem hann var í. „Yer lips look blu“ sagði hann við mig og ég bara kinkaði kolli og sagði að mér væri orðið nokkuð kalt. Hitinn af mótorhjólinu hélt mér aðeins heitum og svo hjálpuðu buxurnar og jakkinn hans til einnig. Um 10 mínútum síðar kom sjúkrabíllinn til okkar og þar tóku tvær einstaklega góðar manneskjur við mér. Ég fékk að vita að súrefnismettunin hjá mér væri mjög lág og líkamshitinn nálægt því að detta undir 35 gráður. Ég fékk því súrefnisgrímu í bílnum hjá þeim og nóg af teppum og svona einangrandi filmum til að ná upp hita aftur. Ég hélt áfram að skjálfa í nokkurn tíma í viðbót og var mér sagt að það væri bara sjokk eftir byltuna og að adrenalínið væri að ganga niður.

received_1774580749310243Leiðin niður að svæði tók ekki það langan tíma og fljótlega var ég kominn inn í sjúkratjaldið og í hendur fleiri góðmenna sem hlúðu að mér. Læknirinn á svæðinu athugaði með hrygginn á mér og gekk úr skugga um að ég væri ekki brotinn þar og líklega hefði ég sloppið merkilega vel. Kannski bara marin/brákuð rifbein og tognaðir bakvöðvar. Ekkert sem ætti að hindra það að taka þátt í keppni aftur eftir 3 vikur, spurði ég, og uppskar hlátur og bros frá öllum í kring. Ég sá nákvæmlega hvað þau voru að hugsa og ég skil þau vel, einhver snarbilaður gaur sem er nýbúinn að næstum brjóta á sér bakið, getur varla staðið sjálfur úr sársauka og talar um að fara að keppa aftur í hálfum járnkarli þremur vikum síðar.

Ég eyddi þó nokkrum tíma í sjúkratjaldinu þangað til hitinn hjá mér var orðinn eðlilegur aftur og þá fékk ég íbúfen verkjatöflur og var jafnframt sagt að ef ég færi að finna fyrir einhverju óeðlilegu þá ætti ég að koma strax aftur. Þannig labbaði ég út, fékk mér pasta og hélt svo áfram út á marksvæðið til að reyna að finna Helenu. Það hefur líklega ekki verið neitt erfitt að koma auga á mig á þeim tímapunkti, þar sem ég labbaði eins og ég væri fastur við spýtustaur og allur þakinn í gylltri og silfraðri álfilmu. Svona svipaðri og maður fær eftir að hafa klárað langar keppnir til að halda uppi hita. Helena kom auga á mig um leið og við héldum upp á hótel um leið og ég fékk hjólið mitt aftur. Gaurinn sem kom með hjólið var svo hissa að sjá eigandann standandi að hann tók mynd af sér með mér og setti á Instagram.

received_666586523707658Restin af deginum fór í að gera að minniháttar sárum og tína nálar úr fótum og handleggjum en ég hafði lent í einhverjum runna í byltunni sem gerði það að verkum að yfir 60 pínulitlar nálar festust í mér (já við erum að telja) og þær eru enn að koma upp núna 2 vikum síðar. Ég get glaður sagt að ég er að fara til Þýskalands næstu helgi til að keppa í 70.3 Rugen, aðeins 3 vikum eftir að hafa nánast gert út af við allar vonir um að geta keppt í þríþraut aftur. Ég er með smá verk í rifbeinum að framan og aftan en ekkert sem ég ætti ekki að ráða við. Ég hef ekki hlaupið í næstum 2 og hálfa viku núna en það skiptir engu máli. Markmiðið er að klára þessa keppni og læra helling fyrir næsta season. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sem skilgreinir góða íþróttamenn er ekki það hvernig við bregðumst við og högum okkur þegar vel gengur, heldur hvernig við tökumst á við leiðinlegu augnablikin og þær aðstæður þar sem það virðist eins og allt sé á móti manni. Það að geta brosað framan í óhöppin og jafnvel hræðilegar aðstæður eins og þær sem ég lenti í á Írlandi gerir okkur bara sterkari á lengri tíma litið. Ég reyni mitt besta við að vera sú týpa af íþróttamanni og vonandi get ég fært góða sögu frá Þýskalandi næstu helgi, eða allavega sögu þar sem hjólið gengur „eins og í sögu“ 😉

Sigurður Örn Ragnarsson

 

Bæting í Kaupmannahöfn

Hvernig segir maður keppnissögu? Mér finnst gott að skrifa nokkur orð til að muna betur upplifunina. Eftir Ironman Barcelona var ég ekki alveg viss að taka heilan strax aftur. Skráði mig í hálfan Ironman í slóvakíu í maí. Svo þegar við Birna María Karlsdóttir vorum á leiðinni norður um páskana viðra ég þessa hugmynd að langaði að nýta þetta góða form eftir að myndi klára hálfan í maí. Lagði til IM köben og mín jánkaði strax. Það kom mér opna skjöldu að hún skildi jánka strax.. ég skráði mig því í Staðarskála í hrútafirði áður en hún myndi fatta hvað hún hafði gert… Það sem ég er heppinn að vera giftur henni.. Svona æfingar sem fylgja svona ,,vitleysu“ er ekki fyrir hvern sem er að skilja. En þetta gefur manni svo ógeðslega mikið að fá öll þessi velíðunar hormón eftir æfingar að þið skuluð ekki prófa þetta 😁 Þannig það byrjaði sami rúnturinn.. hjóla Hvalfjörðinn.. hjóla til Sunny kef, hjóla til Þorlákshafnar.. hlaupa útum allar trissur.. synda í Hafravatni og Nauthólsvík.. taka pulsu rúnta á Krísuvíkur vegi.. hitta frábært fólk í Ægir3 og vera með skemmtilegu vitleysingunum í þríþrautadeild Kiwanis klúbbs Mosfellsbæjar.

Þegar nær dróg keppni fann ég að formið var orðið mun betra en í Barcelona. Svo ég reyndi að stýra væntingunum. Draumurinn er auðvitað að vera undir 10klst og á góðum degi ef allt gengi upp gæti það gengið.. Dagarnir í Köben voru góðir. Var í góðu yfirlæti hjá Kristin Anna Einarsdóttirfrænku systur mömmu og Palla. Tók góðar æfingar og heimsótti gamla skólan minn þegar ég var 12 år gammel og við bjuggum í Trørød. Færði mig svo uppá hótel nálægt keppnisstað daginn fyrir keppni.

Ég var óvenju rólegur fyrir þessa keppni. Ekki sama stressið. Veit að Birna þolir ekki þessa samlíkingu.. Alveg eins og þegar við eignuðumst barn númer tvö. Þá var ég sultu slakur eins og nú. Birna kominn með talsverða samdrætti og við á leiðinni uppá spítala.. segi við hana að ætla ekki gera sömu mistök og við fyrsta barn, að taka ekkert nesti. Þá var ég mjög svangur og vantaði samlokurnar mínar og monster… svo ég stoppa á N1 með hana öskrandi.. segi við hana: þetta er alltí lagi barnið kemur ekki strax. Ætla ná mér samloku, súkkulaði og kók og monster.. vilt þú eitthvað.. B: Drífðu þig! Í hvössum tón. Því gekk þetta mun betur hér í annað skiptið. Svaf betur Og náði að njóta mun meira.

Sund 3800 metrar

Það var fínt veður á keppnisdag. 21 gráða og 4-7m/s suðvestanátt. Smá gárur í sjónum. Hefði getað verið verra. Sundið gekk framar vonum. Skráði mig í hraðara hólf og viti menn.. hélt mig í þeim tímaramma þó ég synti næstum í vitlausa átt og stúlka á kajak bankaði í hausinn á mér og benti mér á rétta leið. Náði drafti svona helminginn af tímanum. Kitlaði einn mann svo mikið að hann stoppaði og öskraði á mig. Held að hann hafi sagt: hvad fand laver du! Ég stefndi á 1:15klst en var 5 min betur. Lenti samt í undarlegum atburði. Þegar maður syndir svona. Gengur mér illa að halda stefnu. Geir var búinn að tala um brýr og aðra hluti til að stefna á. Gleymdu því…. mig minnti að það væru 2 eða 3 brýr á útleið og 3 eða 4 til baka.. ótrúlegt að hafi þetta ekki á hreinu.. svo syndi ég og syndi.. og aldrei finnst mér ég snúa við.. ég skildi þetta ekki.. svo kemur 5 brúin og ég tel mig ekki hafa ennþá snúið við.. ég var farinn að halda að myndi lenda á bellavue ströndinni þar sem pabbi sendi mig, systkini mín og Grétar frænda forðum daga.. árið 1993 að sækja íspinna á útvarpsstöð sem var að senda út á ströndinni.. íspinnarnir voru banana smokkar.. eignaðist mína fyrstu 30 smokka þarna.. 12 ára. Auðvitað þurftu ég og gretar að opna einn inná baðherbergi heima.. blása upp og svona.. nema litla systir Kristrún kallaði yfir allt hús: það er banalykt inná baði.. men..
Allavega. Ég hélt þegar ég snéri við eftir 3000m í sundi að loksins væri ég að verða hálfnaður. Shit hvað ég dansaði í vatninu þegar fattaði hið rétta… eitthvað slökknaði á mér.. sennilega fóta ofskynjunarsveppur í kítli tánni sem ég fékk í mig.

EinarSigurjónshjól

Hjól 180 km

Skipti svæði gekk vel. Stökk uppá hjól og gaf í. Hjólið gekk mjög vel. Talsverður vindur en í hagstæða átt. Hjólaði framhjá Bellevue stranden.. fékk engar gjafir.. hjólaleiðin er miklu meira rúllandi en í Barcelona. Ekki eins hröð. En að máli málanna…
Í Barca reyndi ég að pissa á hjólinu, gekk ekki. Gat haldið í mér fram að hlaupi.. núna.. gleymdu því. Var gjörsamlega að farast í þvagblöðrunni.. Var farið að hafa áhrif á hjóla læri.. svo leit aftur fyrir mig.. langt í næsta. Lét mig renna.. reyndi að pissa.. þetta er ekki auðvelt skal ég segja ykkur.. svo kom þetta.. golden shower.. nema ég pissaði svo mikið og lengi að næsti dúddi var mættur á eftir mér. Duddi með grimma rödd: what are you doing.. hann vissi það svo sem. Ég: the bike is leaking.. svo setti ég í næsta gír og strauaði áfram.. enda svona 500gr léttari.. újé.. djöfull leið mér vel þá.. jebb.. ég pissaði á mig og er stolltur að vera kominn í klúbbinn.. þarf reyndar að mastera þetta betur 😉

Maraþon

Þá varð það hlaupið. Hafði meðvitað hægt aðeins á mér til að vera betur í stakk búinn fyrir hlaupið. Var frekar ferskur og hélt mun betra pace en í Barca. Var enn undir 5:00 pace þegar var hálfnaður og það hefði skilað sub10 klst. En eins og ég hef glímt við í öllum löngum hlaupum.. þá krampa ég.. aftan í hamstring hægra meginn. Það sama gerðist í kringum 25km og því hægðist verulega á mér. Eigilega varð hlaupið mun erfiðara en í minningunni í barca.. sem er mun flatari líka.. ég eigilega varð mjög leiður þegar sá að myndi ekki ganga að ná sub10.. en það gleymdist þegar í mark var komið. Segi eins og Geir þjálfari.. þríþraut verður fíkn. Þvílíka vellíðunnar tilfinningin sem gerir þetta allt þess virði. Að setja sér háleit markmið og standast þau gefur manni ótrulega mikið í þessu lífi.. meðan engin veit hver tilgangur lífsins er.. fullt af tilgátum. Þá geri ég þetta.. kannski í minni skömmtum á næsta ári.. ég meina.. Ná Birnu í góðan bíltúr.. og allt getur gerst. En ég segi eins og áður. Eigðu góðan maka eða ekki eiga maka. Þá er hægt að fara í svona. En frúin fær bestu þakkirnar.. þá er Ægir3 með besta þjálfarann. Takk fyrir stuðninginn og æfingarnar Geir Ómarsson. Nýliðanámskeið hjá ægir3 er fimmtudaginn 6. September í fundarsal á 2. Hæð í laugardalslaug.
Hvað næst? Óákveðið en ekki hættur..

EinarSigurjónssonKaupinh1

Í stuttu máli:

3.8 km sund – 1 klst 10 min 
180 km hjól – 5 klst 8 min – 35 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 38 min – 5.12 min með hvern 1km
Heildartími með skiptisvæði : 10 klst 5 min
57 sæti af 263 í aldursflokki
291 sæti af uþb 2500 skráðum

Hamfarasaga nýliðans

Ég er ekki íþróttakona.
Þess vegna er erfitt að útskýra stundarbrjálæðið sem heltók mig þegar ég skráði mig í sprettþraut Þríþrautarsambandsins í Kjós (sem ég nefni Járndreng). Ætli það sé ekki blanda af hvatvísi, áhættusækni og ævilangri minnimáttarkennd gagnvart öllu afreksíþróttafólkinu í fjölskyldunni sem þar hafi spilað sterkast inn í. Í öllu falli skráði ég mig, mætti og þreytti þessa snarbrjáluðu keppni og sé ekki eftir því. Það er jú ekkert minna en tjúllun að flétta saman þremum níðþungum íþróttategundum svo úr verður sársaukafull þrekraun sem minnir á fæðingu eða annars konar hreinsunareld. Enda sýnist mér bara veljast væntumþykjanlegir brjálæðingar í þetta sport, í það minnsta var hópurinn sem mætti mér á morguni keppnisdags bæði líflegur og vingjarnlegur.

Búningsherbergið
Guðrún Sóley mætti vel undirbúin og hafði búningsherbergi með sér í kassa.

Dagurinn hófst á morgunmat. Þar fékk maður smjörþefinn af kvalræði dagsins því það er erfitt verk að troða ofan í sig mörghundruð auðmeltum hitaeiningum fyrir allar aldir. Ég gerði samt mitt besta og mokaði í mig möndlusmjöri og banana svo lá við uppköstum.

Að morgni dags var haldinn fundur til að upplýsa keppendur um ferlið, sem var bæði gagnlegt og bráðnauðsynlegt fyrir byrjanda eins og mig. Aðstæður voru ágætar, örlítill grámi og gola en það kom ekki að sök. Eftir því sem nær dró keppni jókst fiðringurinn í maganum, allt í kringum mig voru Adonis-legir íþróttakappar að setja saman flókinn keppnisgalla með vönum handtökum. Eins og fram hefur komið er ég er algjör viðvaningur í þríþraut og fékk því næstum allar græjur að láni. Það tók mig drjúgt korter að troða mér í blautbúning og aðrar græjur sem þurfti til sundsins. Ég var rétt svo búin að toga sundgleraugun niður á trýnið þegar flautað var til leiks og við busluðum af stað. Hitastig Meðalfellsvatns var um 13’c og beit vel í fyrstu mínúturnar, en vandist furðu fljótt. Sundkappatorfan var snögg að taka fram úr mér meðan ég silaðist áfram með bringusundtökum sem voru kennd í barnaskóla. Einhvern veginn gekk þetta þó og ég komst í land. Þar biðu indælir áhorfendur sem hvöttu til dáða meðan maður skakklappaðist að hjólasvæði, togaði sig úr blautbúningi með gegnfrosnum höndum og hófst handa við hjólreiðar. Þó ég iðki spinning af kappi hef ég ekki sest á reiðhjól í 12 ár. Ég ákvað í aðdraganda keppninngar að vænlegast væri að spara rassinn alveg fram að keppni. Ég var því að hjóla í fyrsta sinn, á ókunnu lánshjóli og rásaði um meðan ég reyndi að finna út úr því hvernig ósköpunum maður skipti um gír. Fljótt fann ég samt taktinn og reyndi að halda eins hröðu tempói og mér var frekast unnt með vind í fangið og vitlaust stilltan hjálm. Það var ekkert minna en yndislegt að þeysa um Hvalfjörðinn, mæta nokkrum hestum og einni og einni kú og njóta náttúrunnar. Kílómetrarnir 20 voru fljótir að líða en lærin voru því fegin þegar ég kom í mark.

Einn af stærstu kostum þríþrautar er hvað manni léttir þegar einum kafla lýkur og annar tekur við, manni leiðist aldrei. Ég losaði mig við hjól og hjálm og skokkaði af stað. Aldrei nokkurn tíma hefur mér liðið eins og jafn hægfara, illa smurðum traktor eins og á fyrstu metrum þessa „hlaups“. Eftir hraða hjólreiðanna virkar hlaupahraði eins og snigilstempó, en sem fyrr vandist það eftir stutta stund. Þessa 5 kílómetra þræddi ég á hreinni undrun yfir því að ég væri í raun og veru komin í síðasta kafla þrautarinnar. Mér hafði fram að því aðeins þótt fjarstæðukenndur möguleiki að ég gæti í raun og veru komist í mark, en nú glitti aldeilis í endalínuna. Ég ákvað að njóta eins og ég mögulega gat og hlaupið varð furðu ánægjulegt. Eftir endasprett þar sem allt var lagt í sölurnar tók á móti mér brosmildur hópur, hellingur af hæ-fævum og einskær gleði. Þreytan var ljúf og góð. Síðan tók við frekara bananaát, spjall og frágangur. Það var ágætis verkefni að tína saman spjarir, græjur og dót sem maður hafði þeytt um allar trissur meðan á keppni stóð. Allt small þetta að lokum og ég gekk hamingjusöm frá keppnisstað.

Alltaf gaman að koma í mark í þríþraut!

Þó það sé í besta máta óæskilegt að fara óundirbúinn og glórulaus í keppni sem þessa, var upplifunin engu að síður frábær. Svona keppni minnir mann á frelsið sem fylgir því að búa í frískum skrokki, geta hreyft sig og spriklað og notið íslenskrar náttúru. Keppnin tengir mann rækilega við náttúruöflin og gefur manni snertingu við umhverfið sem er engu lík.

Ég vil þakka kærlega fyrir mig; alla hjálp, græjulán, hvatningu og gleði.
Aftur að ári! (kannski)

Guðrún Sóley Gestsdóttir

Hálfur járnmaður í Gdynia

ENE196_55283_2018Sigurður Örn segir frá:

Jæja, fyrsta 70.3 keppnin hjá mér búin og líkt og einhver ykkar hafa séð á myndbandinu sem ég setti á Facebook fyrir skömmu síðan þá var þetta ekki alveg draumakeppnin og voru nokkrir hlutir sem hefðu getað farið betur. Fyrir áhugasama þá kemur hér smá keppnissaga ásamt nokkrum orðum um undirbúninginn hjá mér síðustu vikur.

Ég tók þá ákvörðun fyrr á árinu að snúa mér að lengri keppnum á seinni hluta tímabilsins og nota keppnirnar heima til að trappa mig upp í átt að nokkrum 70.3 keppnum núna í ágúst og september. Æfingar höfðu gengið vel fyrir þessa viðburði og ég fann hvernig formið var alltaf að verða betra og betra. Síðustu þrjár vikurnar fyrir 70.3 keppnina í Gdynia var ég í Kanada hjá skyldfólki Helenu, unnustu minnar, til að venjast hitanum sem ég gæti búist við á meginlandi Evrópu á þessu mjög svo heita sumri. Það átti eftir að koma sér vel, enda var hitinn um 26-27 gráður á keppnisdag. Uppleggið hjá mér var að nota sundið mitt til að halda mig framarlega í hópnum og eiga svo góða skiptingu yfir á hjólið. Ég vissi fyrirfram að ég væri nokkuð langt frá því að vera besti hjólamaðurinn þarna, enda nokkrir af topp lengri-vegalengda þríþrautamönnum heims að keppa sem og flestir af þeim bestu í Póllandi. Hlaupið var svo bara eitt stórt spurningamerki, enda færi það alfarið eftir því hversu vel hjólið gengi upp sem og hvort næringin sem ég hafði myndi skila mér góðum út úr T2. Þar sem þetta var mín fyrsta keppni í þessari vegalengd ákvað ég að vera ekkert að ofhugsa hlutina of mikið, heldur bara að einbeita mér að því að hafa gaman af þessu.

Á keppnisdag vaknaði ég kl 06:00 og fór niður að fá mér morgunmat á hótelinu. Skellti í mig eggjahræru ásamt banana og litlu rúnstykki. Næst rölti ég út á skiptisvæði til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og koma hjólatölvunni fyrir á hjólinu. Tók pumpuna með til vonar og vara ef þrýstingurinn hefði fallið í dekkjunum yfir nóttina. Klukkan 7:40 fór ég að starthliðinu og tók létta upphitun. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af staðsetningu, þar sem við sem vorum í PRO flokki vorum bara 26 og fórum fram fyrir alla þvöguna sem myndast hafði við hliðið eftir upphitunina. Fimm mínútur í start tók ég tvö orkugel og kom mér fyrir. Ég var ekkert stressaður á þessum tímapunkti, enda vissi ég svosum ekkert út í hvað ég væri að fara. Markmiðið var þó að eiga gott sund og einbeitti ég mér þess vegna að því að eiga gott start til að geta haldið vel í fremstu menn.

Okkur var tilkynnt þegar mínúta var eftir í start og þá kom smá spenningur. Næst fengum við létta niðurtalningu og að lokum var startað með því að hleypa úr FALLBYSSU. Hún var staðsett um það bil 5 metrum frá vinstra eyranu mínu – takk fyrir – og ég fann vel fyrir þrýstingssveiflunum í loftinu þegar blessaða hljóðbylgjan hristi hljóðhimnuna mína eins og smjörpappír í 20 metrum á sekúndu. Jæja, ekkert mikið verið að pæla í því núna heldur hlupum við út í og tókum nokkur höfrungahopp þar sem að það var ansi grunnt allt að 50 metrum frá landi. Þetta var nokkuð „controlled effort“ hjá mér miðað við byrjunina í flestum styttri vegalengdunum í ITU/ETU og ég kom mér strax í lappirnar hjá Tim O‘Donnell og Nils Frommold þar sem ég gat mér til þess að þeir ættu eftir að synda nokkuð vel. Sú ákvörðun var góð þar sem við héldum okkur í um 6 manna hópi fremst allt til enda. Það var aðeins farið að síga undan hjá mér síðustu metrana og ég missti strákana aðeins frá mér undir lokin en ekki svo að það hafi skipt einhverju máli. Sundtíminn 23 mínútur og 15 sek eða um 1:13 meðal-pace á hverja 100 metra og ég var 3. eða 4. upp úr. Nokkuð gott bara og ég flýtti mér í gegnum T1 og á hjólið.

fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl
fot.Mariusz Nasieniewski/Maratomania.pl

Fyrstu kílómetrarnir á hjólinu voru nokkuð þungir, það tók smá tíma að fá almennilega tilfinningu í lappirnar og ég missti nokkra fram úr á leiðinni upp nokkuð bratta brekku fyrstu 20 km af leiðinni. Fljótlega var ég kominn í 15. sæti eða svo en náði að halda því nokkuð stöðugu út hjólið. Ég passaði að huga að því að drekka reglulega og taka inn gel á 25-30 mínútna fresti (sem gæti hafa verið of langt millibil eftir á að hugsa) en ég nýtti drykkjastöðvarnar einnig í að fá mér vatn til að halda vökvabúskapnum í lagi. Ég hélt stöðugu afli út hjólalegginn framan af en markmiðið var að vera á um 290-300 wöttum. Þegar það voru komnir um 60 kílómetrar á klukkuna var ég á leiðinni að fá mér mitt þriðja gel á leiðinni. Vegurinn var fínn og umhverfið róandi og skemmtilegt – mikið af trjám og sólin skein. Það gat eiginlega ekki verið að þessi skemmtilega tilfinning gæti enst eitthvað mikið lengur en í sömu andrá og ég er að líta niður til að ná mér í gel í töskuna (og tek þá jafnframt ekki eftir holu sem er í malbikinu á miðjum veginum), dettur framdekkið niðurávið og ég hef engan tíma til að hugsa neitt annað en „f**k!!“. Sekúndubroti síðar lendi ég á öxlinni af 45 km/klst, rúlla einn hring að stöðvast svo í kantinum. Hjólið liggur í götunni um 5 metra frá mér, Garmin tölvan er horfin, gelin á víð og dreif um götuna og allt í skralli. Ég verð að segja að þetta kom mér nú ekki sérstaklega á óvart, enda er ég orðinn ansi vanur því að lítt skemmtilegir hlutir hendi mig á hjólinu, hvort sem það eru sprungin dekk, það að detta eða eitthvað annað. Ég var þó ótrúlega heppinn að sleppa með minniháttar skrámur og engin brotin bein í þessu tilfelli. En eins og almennilegum þríþrautarmanni sæmir var það nú ekki aðal áhyggjuefnið á þessum tímapunkti heldur frekar hvort það væri nú ekki ábyggilega í lagi með HJÓLIÐ. Ég rölti því að hjólinu eftir að hafa nokkuð óörugglega komið mér á fætur, athugaði gírana, dekkin og stellið og allt virtist vera í lagi. Ég þurfti reyndar að rétta stýrið af aftur, koma keðjunni aftur upp á fremra tannhjólið en það virtist vera það eina. Ótrúlegt. Ég kláraði því þessa síðustu 30 km „blindandi“, án tölvu og nokkuð fúll eftir fallið. Ég tók bara þá ákvörðun á þessum tímapunkti að klára sama hvað, það væri hvort sem er engin afsökun þar sem ég væri ekki brotinn eða meiddur og hjólið væri ennþá í gangfæru standi.

Þegar ég kom inn á skiptisvæðið fyrir T2 var ég orðinn ansi orkulaus. Ég hefði líklega þurft eitthvað meira á hjólinu eða að vera búinn að borða meira daginn áður. Hvort sem það er mun ég skoða það betur fyrir næstu keppni hjá mér en eins og margir hafa líklega upplifað í þessum lengri þríþrautum er ekkert sérstaklega gaman að hlaupa hálfmaraþon með enga orku í vöðvunum. Ég stönglaðist því í gegnum hlaupið og það var hálf niðurdrepandi að fylgjast með hraðanum hægjast og hægjast með hverjum kílómetranum. Ég var duglegur að drekka og taka inn orku á drykkjarstöðvunum en það er bara of seint þegar líkaminn er kominn í það ástand sem ég var í þarna. Að lokum komst ég í mark, kláraði þetta blessaða hálfmaraþon á 1 klst og 27 mínútum rúmum og lokatíminn um 4 klst og 20 mín. Kannski ekkert allt of slæmt miðað við að þetta var mín fyrsta 70.3 keppni en svekkjandi þar sem ég veit að ég átti mun meira inni og get ekki beðið eftir að sýna það í næstu keppnum.

Nú eru það því bara 2 vikur í hvíld og undirbúning fyrir næstu áskorun en næst er það 70.3 í Dun Laoghaire á Írlandi. Hjólið þar verður nokkuð erfitt en hækkunin á 90 km þar verður um 1400 metrar. Næringin mun því vera algjört lykilatriði. Fyrst mun ég þó taka fyrir eina keppni hérna heima til gamans, þ.e. samvinnuverkefni þríþrautafélaganna uppi í Kjós en það verður ágætis leið til að halda líkamanum í keppnisstandi á milli þessara tveggja lengri keppna.

Frá Jönköping á heimsmeistaramótið í Nice

Hjördís Ýr Ólafsdóttir segir frá:

Aðdragandinn

 Síðasta haust tók ég þátt í Ironman 70.3 Dublin. Það var eiginlega skyndiákvörðun hjá mér eftir að hafa þurft að hætta keppni á Laugarvatni vegna kulda, en ég hefði ekki verið sátt með að ljúka árinu þannig. Þrátt fyrir mikið bakslag á Laugarvatni þá náði ég mér þokkalega fljótt og gekk mjög vel í Dublin. Náði 2. sæti sem tryggði mér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Ironman 70.3 í Suður Afríku sem haldið er 1. September næstkomandi. Þegar maður tryggir sér keppnisrétt á heimsmeistaramóti þá kemur lítið annað til greina en að fara. Fyrir þá sem þekkja fyrirkomulagið ekki þá virkar þetta þannig að aðeins örfá sæti eru fyrir hvern aldursflokk í hverri keppni, t.d. voru einungis 2 sæti fyrir minn aldursflokk (35-39) og oft bara einungis pláss fyrir fyrsta sætið. Þú verður að ákveða þig á staðnum og borga keppnisgjald, ef þú þiggur ekki sætið fær næsta sæti fyrir neðan keppnisréttinn og svo koll af kolli.

Núna í ár ákvað ég einungis að keppa erlendis þar sem ég var ekkert allt of spennt að keppa heima eftir síðasta sumar og svo hef ég takmarkaðan tíma þar sem ég vinn vaktavinnu og oft um helgar. Einnig þarf ég tíma til að sinna börnunum mínum sem eru 5 og 9 ára. Keppnin sem ég var að ljúka í Jönköping átti því eiginlega að vera undirbúningur fyrir keppnina mína í S-Afríku í stað tímabils á Íslandi því ég bjóst ekki við að fá keppnisrétt aftur, og þá á heimsmeistaramótið 2019 sem verður í Nice. Munurinn á heimsmeistaramótinu í heilum og hálfum er auðvitað vegalengdin og svo er alltaf ný staðsetning á hverju ári fyrir hálfan, á meðan heill er alltaf á Hawaii.

Ferðalagið 

Ég og bróðir minn Páll Ólafsson, ákváðum að fara saman til Jönköping. Við flugum til Stokkhólms á Föstudegi en þegar við fengum hjólin ákváðum við að athuga hvort allt væri ekki örugglega í heilu lagi þar sem við værum í Stokkhólmi og ekki langur tími í keppni. Gírskiptinn aftan á hjólinu mínu var dottinn af og jafnvel brotinn. Nett taugaáfall því ég er með Shimano Di2 frá Erninum og sá ekki að það væri eitthvað sem væri hægt að redda á þessum 4 klst sem við höfðum í borginni. Við fundum hjólabúð og fórum þangað. Það kom svo í ljós að ekkert var brotið og þeir gátu reddað okkur.

Við keyrðum til Jönköping en það tók um 3,5 tíma og á leiðinni stoppuðum við og tókum góðan sundsprett í Vatten sem var yndislegt. Dagurinn á eftir fór í að taka létta æfingu, ná í keppnisgögn og svo smá hvíld fyrir morguninn sem ekki veitti af enda ágætt ferðalag að baki, taugaspenna í kringum hjólið mitt og svo svaf ég ekki nema 2 tíma nóttina fyrir keppni.

pallihjördis

Palli og Hjördís við Vattern í Svíþjóð sem er örlítið stærra en Kleifarvatn. Þar er gott að synda. 

Keppni 

Veðrið var æðislegt en það voru um 25 gráður þegar sundinu var startað en keppnin byrjaði frekar seint eða í kringum 9 um morguninn. Það var synt í Munksjön sem er í miðbænum og áhorfendur fá gott útsýni yfir svæðið en það var synt í U. Það var rúllandi start en mér fannst samt sem áður svolítill troðningur, sérstaklega borið saman við Dublin árið áður þar sem einnig var rúllandi start. Sundið er minn versti partur svo ég er oftast bara nokkuð sátt þegar það er búið, ég kláraði á 34:20.

Það var nokkuð langt í skiptisvæðið frá vatninu en ég var í 5 mínútur og 30 sek. Mér fannst allt ganga nokkuð vel þangað til ég kom að hjólinu mínu. Ég var alveg með system til að finna það en í stressinu fann ég það svo ekki fyrr en eftir þó nokkra leit. Vonandi læri ég (og þeir sem lesa þetta) af því.

Það var byrjað á því að hjóla úr bænum og upp í sveitina en til þess þurfti að byrja í nokkrum þéttum brekkum en leiðin var mjög hæðótt og mikið af rúllandi brekkum. Ég tek oftast fram úr mörgum á hjólinu og var þessi keppni engin undantekning þar sem brekkur eru líka mér í hag. Ég er oftast mjög dugleg að borða og drekka á hjólinu en ég drakk tvo brúsa af vatni með SIS Electrolytes og svo gel frá SIS (Hreysti) eða SIS orkustangir sem hafa reynst mér vel á hjólinu. Tími: 2:38:43.

Þegar ég byrjaði að hlaupa var orðið nokkuð heitt eða um 28 gráður. Það voru hlaupnir 3 hringir í kringum Munksjön sem er vatnið sem synt var í. Nokkuð flöt braut og þvílík stemning á brautinni. Mér leið nokkuð vel og hitinn hafði ekki mjög mikil áhrif á mig en ég hellti yfir mig vatni á drykkjarstöðvunum og setti inn á mig klaka, einnig tók ég tvö gel. Hlaupatíminn var 1:41:45.

hjördísapalli

2. sæti í Ironman 70.3 Jönköping og keppnisréttur á heimsmeistaramótið í Nice 2019

Heildartíminn var 5:02:47 og endaði ég í 2. sæti í mínum flokki af 83 konum. Þegar ég kom í mark hitti ég Palla bróður minn sem var á tímanum 4:54:13. Það er gaman að taka fram að met var sett í þátttöku kvenna miðað við karla í þessari keppni, og það voru einnig fleiri Íslendingar í þessari keppni aðrir en við. Einnig vann ég mér inn keppnisrétt fyrir Nice 2019 og ákvað þá að sleppa S-Afríku þar sem það er ekki alveg næsti bær og erfitt og dýrt ferðalag. Ég er strax farin hlakka til keppninnar í Nice á næsta ári.

Jönköping eftir keppni

Páll og Hjördís eftir keppni. Þau eru bæði í 3SH. Þarna er sumarveður!

Stiffur í stuði

Hópur vaskra kvenna hélt til strandhéraðs skammt frá Barselónuborg á Spáni í vor þar sem boðið var upp á hálfan járnmann á vegum Ironman-fyrirtækisins. -Ironman Barcelona 70.3. Þetta er saga þeirra:

Aðdragandinn

Eins og konur gera á þriðjudögum þá hittust nokkrar í kampavínsboði (lesist: fjórðu þrautinni) 24. október 2017. Þar fengu þær Guðrún og Hansína þá snilldarhugmynd að við myndum skella okkur í hálfan járnkarl í útlöndum á vordögum, þannig kæmum við okkur í form fyrir sumarið og þyrftum ekki að vera streða neitt yfir hábjargræðistímann. Korteri síðar voru flestar viðstaddar skráðar og búnar að redda sér þjálfara. Þar sem við vorum með mismunandi áherslur sóttum við í hina ýmsu þjálfara, en þeir sem komu Stiffunum á áfangastað voru Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Geir Ómarsson, Jón Oddur Guðmundsson, María Ögn Guðmundsdóttir og Stephen Patrick Bustos. Hópurinn fékk heitið Stiffurnar en aðeins fæst uppgefið í góðra vina hópi hvaðan það nafn kemur.

Við vorum misgóðar í þessum þremur greinum og sumar þurftu að læra að synda fyrir Þorláksmessusundið og aðrar að læra að hlaupa fyrir gamlárshlaupið. Þótt við séum hógværðin uppmáluð þá tókst okkur býsna vel upp í þessum keppnum. Kannski af því að við vissum að fjórða þrautin beið okkar í hvort sinn. Annars gengu æfingar vetrarins oftast vel en veikindi af ýmsum toga settu vissulega sitt strik í reikninginn, eins og búast má við á þessu landi. Við tókum líka framförum því við vorum ferlega duglegar að æfa okkur.

Fyrir keppni

Á endanum héldu átta Stiffur og eitt viðhengi til keppni á Spáni, vorum nánar tiltekið í bæ sem heitir Calella og er rétt fyrir utan Barcelona. Við mættum á miðvikudagskvöldi þannig að við höfðum þrjá heila daga fyrir keppni að fá tilfinninguna fyrir staðnum, sjónum og veðrinu. Á hótelinu okkar, sem var staðsett beint fyrir framan skiptisvæðið, fundum við tvær íslenskar stelpur sem bættust í hópinn.

Við syntum á hverjum degi í sjónum enda höfðu fæstar áður prófað sjósund og sumar voru að fara í blautgalla í fyrsta sinn. Sjórinn fór misvel í okkur en á þriðja degi vorum við margar hverjar komnar með aukið sjálfstraust í þá baráttu sem framundan var. Auk þess hjóluðum við aðeins og hlupum, en ljóst var að hitinn myndi mögulega leika okkur grátt – enda í lítilli hita-æfingu.

Áður en stóri dagurinn rann upp mætti enn ein Stiffan á svæðið og var frábært að hafa Maríu Ögn á kantinum á keppnisdag sem og þau tvö viðhengi sem hún hafði með í farteskinu – að heyra þau öskra á okkur í brautinni gaf okkur aukabensín.

Keppnisdagur 20. maí 2018

Við eyddum ekkert mörgum klukkutímum í svefn og vorum mættar í morgunmatinn kl. 4:30. Eins og venja er á svona dögum voru auðvitað allir að vonast til að geta klárað nr. 2 áður en farið var í blautbúninginn. Ekki bárust nokkrar fregnir af vandkvæðum við það.

Flestar vorum við búnar að ákveða í hvaða tímahólf við myndum koma okkur fyrir í sundinu en margir höfðu sagt okkur að fólk setti sig ávallt hólf yfir getu. Við röðuðum okkur hingað og þangað en það sem kom skemmtilega á óvart var stemningin sem keppnishaldarar bjuggu til með rokktónlist og afskaplega peppuðum kynni. Sundið gekk almennt vel og engin drukknaði en sagan segir að yfirborð sjávar hafi lækkað þar sem nokkrar drukku óþarflega mikið af Miðjarðarhafinu.

Fyrirfram vissum við að hjólaleiðin yrði erfið með rúmlega 1200 metra hækkun og ofan á hana gerði hitinn okkur aðeins erfitt fyrir. En það sem fer upp, kemur niður og það var ekkert leiðinlegt að rúlla til baka.

Já, það var heitt á okkur þennan dag eða um 24°C og sól svo við áttum flestar í „ástarhatur-sambandi“ við veðrið. Það var því mjööög næs að smella inn á sig köldum blautum svömpum á hlaupaleiðinni.

Allt utanumhald um keppnina var til fyrirmyndar og matar- og drykkjarstöðvar með góðu millibili á hjólaleið og hlaupaleið og er því óhætt að mæla eindregið með þessari keppni.

Eftir keppni

Við vorum ekki einu Íslendingarnir sem tóku þátt í IM Barcelona 70.3 heldur voru þarna nokkrir frá Ægir3 og öðrum félögum. Við borðuðum öll saman á veitingastað um kvöldið og gerðum upp daginn (hver á sinn hátt).

Það skipti okkur miklu máli að verja tæplega þremur daga saman eftir keppni – slaka, hjóla til Girona, fá sér kannski einn eða tvo og haffa gaman.  Mælum með því.

Persónur og leikendur

Það verður að segjast eins og er að það skemmdi ekkert fyrir okkur að hafa í þessum hópi reynslubolta, lækni, sjúkraþjálfara, „do-er“ og spænskumælandi. En aðalleikarar og Stiffur sem tóku þátt: Berglind Berndsen, Eva Jónasdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Helga Garðarsdóttir, Jóhanna Rósa Ágústsdóttir, Jórunn Jónsdóttir, Lukka Pálsdóttir, María Sæmundsdóttir og Þóra Katrín Gunnarsdóttir.

Varastiffur sem gátu ekki tekið þátt að þessu sinni: Birna Jenna Jónsdóttir, Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Kristín Laufey Steinadóttir og María Ögn Guðmundsdóttir.

Viðbótarstiffur sem við fundum á hótelinu: Sandra Ósk Sigurðardóttir og Sigríður Erlendsdóttir.

Endurhæfing í Elsinore!

Hópur Breiðabliksfélaga hélt í víking til Elsinore í Danaveldi til hálfs járnmanns í veðurblíðunni þar ytra. Öllum gekk vel eins og tölur herma.  Sigurður Nikulásson lauk keppni á tímanum 4.55 klst., Birna Íris Jónsdóttir á 5.03 klst., Kristín Vala Matthíasdóttir á 5.16 klst., Sigríður Lára Guðmundsdóttir á 5.23 klst., Ármann E. Lund á 5.36 klst., Jón Ágúst Gunnlaugsson á 6.01 klst. og Inga Rut Jónsdóttir á 6.32 klst.

Eins og sjá má leiddist engum, sérstaklega eftir keppni og medalían er á stærð við þokkalega undirskál.

Sigurður Nikulásson skíðaþjálfari og þríþrautarberserkur féllst á að segja lauslega frá aðdraganda og keppninni sjálfri.

„Eftir að hafa verið með brotinn hryggjarlið og framskrið í 10 ár og farið fjórum sinnum í  Ironman þannig á mig kominn,  var komið að endastöð. Ég fór í aðgerð 14. júní 2017. Lá meira og minna í 3 mánuði svo tók endurhæfing við og ég ákvað að hluti af endurhæfingunni væri að fara í IM Barcelona okt 2018.
Frá jan 2018 hef ég reynt að æfa þegar það er lokað í Bláfjöllum..(er jú skíðaþjálfari). Fara.á styrktaræfingar í sporthusinu – sjúkraþjálfun – teygjuprogram – core og fl.
Svo 10 maí var allt sett á fullt í æfingum þó að veðráttan á Ísl. sé ekki til fyrirmyndar þá verður maður bara að láta sig hafa það. Reyni alltaf að velja góðu dagana til að gera extra og slæmu í minna. Fór í lok mai í 10 daga hjólaferð til Spánar og var hún nýtt vel.
Ég ákvað um miðjan mai að skella mér í 12 IM til Elsinore Danmörk til að testa skrokkinn.
Ég er algjörlega kominn með það markmið að njóta og reyna að þjóta. Allt sem maður afrekar er jákvætt, alveg sama hvaða tíma ég fæ þá bara hafa gaman, aldrei keyra á þeim hraða að það verið píning eða óbærilegur sársauki hver væri tilgangurinn. Ég er að gera þetta til að vera í formi og líða vel, brosa allan tímann og vera þakklátur fyrir að geta bara tekið þátt.

Sundið
var flott, sjórinn frábær, mjög flókin sundbraut, endalausar beygjur fram og til baka.
34 mín..svo svaka langt hlaup í skiptisvæðið. Ég gaf mér bara tíma í að smyrja allt vel og fara í ermar og hjólasokka því ég er jú kuldafælinn með afbrigðum.

Hjól
Hjólabrautin hröð, töluverður mótvindur og rigning, einnig töluverður meðvindur og sól. Meðalhraði 36 km og tími 2.27.
Hlaup :
Nýir sokkar enda búin að pissa slatta í hina.
3.5 hringir inn í miðbæ Elsinore svaka stemming og hvatning sem ég tók inn og nýtti mér ég hélt 4.40-4.50 pace labbaði í gegnum allar drykkjarstöðvar, borðaði harðfisk bita og fékk mér kók.
Tími 1.41 og endaði í heildartíma 4.55. Váá hvað ég er ánægður með það. Kíkti aldrei á heildartímann fyrr enn 4 km voru eftir, þá sá að ég myndi geta rúllað undir 5 tíma með sama pace tíma og ég var á. Gaf í til að vera öruggur enda eitthvað eftir á tanknum því ég var að njóta og reyna að þjóta. Ef heildartíminn hefði sýnt að ég hefði verið yfir 5 tímum þá ætlaði ég að labba og njóta síðustu 4 km enda var það flottasti hlaupaparturinn.

Næring. 3x brúsar bcca frá Now á hjólinu 3 sis gel frá Hreysti og 3 salttöflur.
Hlaup 3x gel sis 2 x með koffín..harðfiskur og coke.

Ofurskemmtileg keppni í alla staði og mæli 100% með þessu.
Hvet svo þetta fáa fólk á Íslandi sem er í þríþraut að gera meira saman og njóta saman í svona keppnum. Samstaða..hvatning..gleði.

Svo að lokum Barcelona here I come😜😜

Hálfur járnmaður í Lissabon

Bjarki Freyr Rúnarsson er í þjálfarateymi 3SH og tilkynnti skömmu eftir jól í vetur að hann stefndi á hálfan járnmann í Lissabon. Með honum fóru þrír aðrir úr félaginu, Kolbeinn Sigurðsson, Björn Reynald Ingólfsson og Halldór Benjamín Hreinsson. Þetta er saga hans:

Eftir að hjólið klikkaði í Challenge Iceland í fyrra hefur mig langað í hálfan járnkarl aftur og þá með það í huga að bæta tímann minn. Challenge Lisboa hefur verið þekkt fyrir flata og hraða braut þannig það hljómaði vel og skráði ég mig í janúar.Sundið hefur verið að batna mikið undanfarin 2 ár þar sem ég hef synt virkilega mikið miðað við áður, yfir 220km á ári miðað við tæplega 100km. Ég tók mánaðarpásu frá sundi um áramótin þegar platan var tekin úr viðbeininu og var farinn að nálgast tímana fyrir pásu í apríl. Hjólið er búið að batna þónokkuð en í FTP testi í mars fékk ég 329W út sem var persónulegt met. Þetta var stuttu eftir æfingaferð 3SH á Tenerife en við fórum í 9 daga ferð í febrúar. Hlaupið hefur svo alltaf legið vel fyrir mér þannig ég hef ekki verið mjög duglegur að stunda það reglulega en núna í vetur bætti ég aðeins í þar og hélt góðum dampi. Æfingarnar tók ég yfirleitt einn og yfirleitt óskipulagt, það er, ég stökk út um hurðina heima, hljóp í frá 5-22km, stundum allt rólegt, stundum allt í botni en yfirleitt skokk + tempó í bland. Þetta skilaði sér í 2ja mínútna bætingu og sigri í hálfu maraþoni í apríl og 2. Sæti í FH Bose hlauparöðinni jan-mars. Æfingatímar á viku voru yfirleitt ekki nema rétt um 5-9 tímar sem er minna en ég hef yfirleitt miðað við en á móti kemur að ég hélst alveg meiðslalaus og hélt jöfnu álagi yfir tímabilið.Veður hefur spilað stóran þátt í undirbúning en haglél í maí er ekki eitthvað sem ég gerði ráð fyrir.. Lengri TT æfingar voru því ekki framkvæmdar og tími á þríþrautahjólinu mun minni en ég hefði viljað. Á móti kemur að veður var flott frá byrjun mars og náði ég að æfa vel á racer á þeim tíma og hjólaformið almennt í fínum gír. Undirbúningskeppnirnar fyrir Challenge Lisboa voru Vormaraþonið sem enduðu í sigri og góðri bætingu, Reykjanesmótið (106km götuhjól) sem voru 2:42 og 271NP sem lofaði góðu fyrir keppnina en planið var að halda 260NP þar og síðast en ekki síst var Kópavogsþríþrautin þar sem ég náði 80sek bætingu frá 2016, synti í fyrsta sinn undir 6:00/400m í keppni og endaði í 2. Sæti! Systir mín ákvað að skella sér með að vera sérstakur stuðningsmaður og sjá um myndatöku og stóð hún sig eins og hetja í því. Við flugum út á miðvikudagsmorgun í gegnum Luton með 5 tíma bið þar og vorum komin í íbúðina um 21:30 um kvöldið. Ég púslaði saman hjólinu og við sóttum keppnisgögnin og hittum ferðafélagana í kvöldmat en við vorum fjórir úr 3SH að keppa. Á föstudag fórum við í brautarskoðun á sundbrautinni og var fílingurinn mjög góður, vatnið vel gruggugt og salt en engar öldur og baujurnar nokkuð vel sýnilegar. Seinnipartinn fórum við með hjólin og settum upp skiptisvæðið, höfðum hjólapoka og hlaupapoka en vegna klúðurs (hjá birgja segja þeir) þá voru pokarnir of litlir. Hjálmurinn stóð hálfur uppúr þó ekkert annað væri í honum, hlaupaskórnir rétt sluppu í pokann með gleraugum og derhúfu en þetta slapp allt saman til. Eftir uppsetninguna þá fórum við á keppnisfund þar sem óskipulag keppninnar kom betur í ljós en vegna Eurovision og annarra þátta átti ekki að halda keppnina en þeir þrjóskuðust við og redduðu því. Þessi redding kostaði miklar þrengingar á skiptisvæði. Þegar keppnin varð að Challenge (2016) þá var hjólabrautin lengd til að ná 90km, þetta var gert með því að setja inn tvær U-beygjur á hraðbrautinni á alla fjóra hringina. Þetta var ekki á neinu korti og kynnirinn kunni nánast illa við það að nefna þetta á fundinum. Annars leit allt ágætlega út og við vorum klárir. Eftir fundinn var kvöldmatur og beint í háttinn.

Keppnisdagur

Ég vaknaði um 4:10 eftir svefnlitla nótt, fékk mér morgunmat, fór í keppnisgallann og skellti á mig númeratattooinu. Bar á mig sólarvörn og lögðum af stað niður á keppnissvæði um 5:40. Ég græjaði hjólið, vökva í brúsana (GU Roctane orkuduft, um 1.7L með 750kkal ca), púðraði skóna og festi með teygjum og hitti svo á keppnisfélagana. Fór í blautbúninginn og í klósettröð sem dróst nánast fram að starti. Tók létta upphitun á landi og svo var það að fara niður að starti.Ég stillti mér upp í annarri röð og beið eftir flautunni. Ég var fyrir miðju í röðinni og fékk þrengingar úr báðum áttum, synti yfir menn, synt yfir mig, barið og barði en eftir fyrstu bauju þá var búið að slakna á barning. Þá kom ég mér í draft og elti hóp, líðanin var nokkuð góð, stífur í öxlunum en fannst mér ganga nokkuð vel. Ég fylgdi hópnum alveg fram að lokum, lokatími rétt undir 29 mínútur á úri. Klæddi mig úr gallanum að ofan, hettu og gleraugu í ermina, greip hjólapokann og fór í skiptitjaldið. Tók hjálminn og beltið úr, kláraði að fara úr gallanum, setti beltið á mig og tróð gallanum í pokann, setti hjálminn á hausinn, henti pokanum að starfsfólki, smellti hjálmnum og tók hjólið. Hljóp af skiptisvæðinu og á hjólið.Á hjólinu ætlaði ég að halda um 260W og taka þetta easy á 2:15, það hljómaði easy miðað að brautin var marflöt og á hraðbraut, ein brekka með 70m hækkun farin fjórum sinnum. Þó þessar U-beygjur væru þarna þá væri þetta nú samt ekkert mál, fljótt að ná upp hraðanum aftur og bara keyra á þetta. Nema hvað að brautin var bara alls ekki marflöt, það var stanslaust rúll upp og niður og brekkan undir lokin var alveg þokkaleg. U-beygjurnar voru með um 100m á milli þannig það var farið hægt í gegnum báðar. En það var lítið annað en að halda plani og vona það besta. Eftir fyrstu tvo hringina var NP 257W sem var vel eftir plani. Tíminn aftur á móti var ekki eftir plani, fyrstu tveir voru á 71:53. Meðalhraðinn var að flökta í kringum 36km/h í staðinn fyrir 40km/h eins og planið var. En jæja, lítið í því að gera. Rúllaði seinni tvo hringina á 72:10, mjög steady. En var þar farinn að finna fyrir rassvöðvanum og stressaðist aðeins með hlaupið. Kláraði um 1.3L á hjólinu og greip bananabita á drykkjarstöð. Wöttin voru um 255W NP en ég tengdi ekki wattamælinn við úrið og eyddi úr tölvunni án þess að doublechekka þannig er ekki með tölurnar. Ég fór úr skónum fyrir dismount, stökk af hjólinu og hljóp með það að rekka, fann vel fyrir rassvöðva þarna og leist ekki of vel á hlaupið. Setti hjálminn á hjólið, sótti hlaupapokann, fór í sokka og skó, setti gleraugun á mig, tók derhúfuna og fór af stað. Hljóp á um 4:10 pace en draumurinn hafði verið sub 4:00. Hellti vatni yfir mig á fyrstu drykkjarstöð, fékk mér red bull og hellti yfir mig vatni á annarri, hellti svo yfir mig ýmist glasi eða flösku af vatni á hverri drykkjarstöð (um 2.5km fresti). Eftir tvo hringi á hlaupinu þá var tíminn ekki nema tæpar 39mín. Þetta var ekki að stemma þar sem lykkjan að markinu væri ekki að fara að fylla upp. Hugsaði með mér að svona myndi ég þó kannski ná að bæta upp fyrir hjólið og ná undir 4:20. Splittin á hringina voru 18:58-19:39-19:50-19:31 en hver hringur var rétt um 4.6km í stað 5km sem hann hefði átt að vera. Ég reyndi að halda vel uppi tempó til að eiga séns í sub 4:20 og leit það út fyrir að ætla að ganga, en þar sem ég var ekki viss hve langt væri að hlaupa að markinu eftir síðasta hring þá var bara að halda vel á spöðunum. Pikkaði vel upp af fólki á hlaupinu en þar sem þetta voru fjórir hringir og 3 mismunandi keppnir á sama tíma þá vissi ég aldrei hvort ég væri að græða sæti eða bara egoboost. Eftir síðasta hringinn hélt ég góðu tempói í markið og kláraði undir 4:19. Markmiðinu náð þrátt fyrir ólöglega braut. 

Lokaorð

Keppnin sjálf gekk mjög vel upp. Ég stóð nánast við allar tölur sem ég ætlaði að gera, næringin small vel saman, aldrei orkuskortur eða vesen. Sundið var frábært, undir 29mín á klukku sem er um 2ja mínútna bæting. Hjólið var mun hægara en það átti að vera en það var ekki undir minni stjórn, gerði það besta sem ég gat úr aðstæðum þar. Samt sem áður bæting um 7 mínútur frá í Hafnarfirði 2016 og bæting um ca 15W. Hlaupið er á svipuðu pace og í Hafnarfirði 2016, tel þá braut mun betri, var þar á lægri púls og svipuðum hraða, en hitinn hefur svosem sitt að segja hér. En tímabæting í hlaupinu er 8 mín en það er eingöngu sökum styttri brautar. Heildarbæting var 18 mínútur sem er vel ásættanlegt.

Brautin í Lissabon er nokkuð skemmtileg, hjóla á lokaðri hraðbraut og svona, en að þetta sé svona svakalega hröð og flöt braut er overstatement ef brautin er eins og hún var nú í ár (reddingar sem breyttu hlutum, veit ekki nákvæmlega hvað).

Þetta var mjög góð ferð, mjög gott stöðumat á formi og sumarið verður klárlega skemmtilegt.

Bjarki bloggar um æfingar sínar, keppnir og fleira á þessari síðu.

Kata í Samorin

Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson búa í Bolungarvík og æfa þar þríþraut en frekar fámennt er á æfingum því þau eru bara tvö. Þau eru skráð í 3SH. Katrín sendi okkur þessa ferðasögu:

Í ullarfötum á trainer

Undirbúningurinn hófst eiginlega í janúar á þessu ári, ég er búin að
vera að basla við runners knee í eitt ár þannig ég fór varlega í
hlaupin. Ég var búin að heyra frá fyrri keppendum að hitinn í Samorin
hefði verið svakalegur í fyrra þannig ég var frekar stressuð fyrir því
og ákvað að undirbúa mig vel undir hitann. Á trainer æfingum hjólaði ég
reglulega með hitablásara og í ullarfatnaði og var alveg að grillast á
æfingum. Ég hugsa að það hafi hjálpað svolítið því mér leið mjög vel í
keppninni úti og upplifði aldrei þennan ofsahita, þrátt fyrir að
hitastigið hafi verið 34°c.

1900 metra sund

Sundið gekk ágætlega en ekki eins vel og ég ætlaði mér, var 37 min en stefndi á 34 min. Ég synti reyndar rúmlega 2 km. Sundgallinn sem ég var í reyndist vera aðeins of stór, þannig hann fylltist fljótt af vatni. Leið eins og ég væri að synda í peysu þar sem báðar ermarnar voru orðnar fullar. En það var svolítill
mótvindur og töluverður straumur í vatninu sem hægði aðeins á. En vatnið var um 20°heitt þannig það var yndislegt að synda í því, sólin skein og fuglarnir flugu fyrir ofan mann. Ég ákvað bara að njóta þess að synda og halda önduninni jafnri.

Hjól 90 km
Svo var skellt sér upp úr og beint á skiptisvæðið, ég er enn svolítill
klaufi í skiptingunum þannig ég ákvað að hlaupa í hjólaskónum allt
skiptisvæðið, þarf að æfa þetta betur. En hjólið gekk mjög vel þrátt
fyrir töluverðan mótvind á köflum og svolítið skemmdan veg. Auka
brúsinn minn flaug af hjólinu í einum hossinginum en sem betur fer
voru tvær drykkjarstöðvar eftir sem ég nýtti mér. Ég passaði mig á að
drekka vel allt hjólið, borðaði eitt orkustykki yfir hjólalegginn og
eitt gel. Hjólatíminn var 2:32.

Hlaup 21 km
Hlaupið er slakasta þrautin mín og um leið og ég stökk af hjólinu fann
ég að runners kneeið var mætt á svæðið en ég vissi alveg að verkurinn
myndi koma um leið og ég færi af hjólinu þannig hann kom mér ekki á
óvart. Ég ákvað bara að láta eins og ég fyndi ekki fyrir verkinum og
hugsaði jákvætt allan tímann. Kannski fann ég þess vegna ekki fyrir
hitanum þar sem ég var að einbeita mér að því að finna engan verk. En
ég stoppaði á hverri drykkjarstöð, fékk mér vatn, orkudrykk og banana.
Nýtti mér einnig svampa á svæðinu og kældi líkamann. Ég var með tvö
markmið í hlaupinu, það var að ganga ekkert og fara ekki yfir 6 mínútna hraða.
Þannig ég náði að klára hlaupið á 2:03 sem er um 5:52 í meðalhraða. Var
ótrúlega ánægð með það.

Ég kláraði keppnina á 5:21 min, sem er um 40-50 min betri tími en ég
kláraði Kjósarþrautina hér á Íslandi.

Ég var ótrúlega ánægð með keppnina, mun betri árangur en ég þorði að
vona, sérstaklega þar sem ég og Þorsteinn erum bara tvö að æfa í
Bolungarvík og með engan þjálfara. En erum samt skráð í 3SH og höfum
nýtt okkur þekkingu þeirra.