Sú eftirminnilegasta hingað til

Sigurður Örn segir frá:

  1. sæti PRO/Overall

Það er ekki oft sem það gerist að keppnir ganga alveg samkvæmt plani frá upphafi til enda og að því sögðu, þá get ég ekki sagt að keppnin hér í Finnlandi hafi farið 100% eftir áætlun. Engu að síður var lokaniðurstaðan gríðarlega góð og geng ég mjög ánægður frá þessari keppni í átt að þeirri næstu í Jönköping eftir 8 daga.

Heldur óhefðbundin tímasetning varð fyrir valinu hvað þessa keppni varðar en startað var klukkan 15:30 að staðartíma sem gerði það að verkum að fólk var að klára allt fram að miðnætti. Það kom þó ekki að sök þar sem afstaða Lahti til sólar er svipuð Reykjavík og því bjart allan sólarhringinn á þessum tíma sumars. Ég er sjálfur svolítill morgunhani svo að þetta var ekki það allra besta fyrir mig svona andlega séð en maður aðlagar sig bara að aðstæðunum hverju sinni. Keppnisdagurinn sjálfur var því tekinn aðeins öðruvísi en venjulega.

sigginokia2

Ég vaknaði slakur klukkan 8:00 og fékk mér góðan morgunverð. Fjögur egg, 200ml af kókosmjólk og hafrar soðið saman í potti, um það bil 1100 kaloríur til að starta deginum. Maginn ekki sáttur en mér var slétt. Svo var slakað á fram til klukkan 10, þegar ég kom mér niður að skiptisvæði til að tékka hjólið og pokana inn á svæðið. Ég vildi gera þetta eins snemma og hægt væri til þess að geta komið mér aftur upp í íbúð til að slaka á fyrir keppnina seinni partinn. Mamma og pabbi eru með í för í þessum tveimur keppnum og voru því að einhverju leyti notuð sem burðardýr fyrir poka og dót á leiðinni niður á svæði. Klukkan ellefu vorum við komin aftur upp í íbúð og þá tók við hádegismatur og slökun. Fullur pottur af parboiled hrísgrjónum (hafa 3x minni áhrif á blóðsykur en venjuleg), ristað brauð, steinefnablöndur, vatn og Green and Black‘s súkkulaði urðu fyrir valinu í þetta skiptið og ég var alveg pakkaður 3 tímum fyrir keppni. Fínt, hugsaði ég, og skellti mér í ReBoots recovery buxurnar mínar til að pressa vöðvana aðeins áður en haldið yrði niður á svæði.

sigginokia3

Keppnin

Við vorum mætt um klukkustund fyrir start en ég vil alltaf vera tímalega niður á svæði til að gefa mér nægilegt svigrúm fyrir upphitun og til að lágmarka stress. Upphitunin fór fram á aðeins öðrum stað heldur en startið var svo að maður þurfti að labba smá spöl frá upphitunarsvæðinu og í startið. Ég fór því ofan í um fimm mínútum fyrir klukkan þrjú og synti í um korter til að koma blóðinu af stað. Næst var haldið að sundstartinu og beðið eftir ræsingu.

Það er alltaf smá stress þegar beðið er eftir flautunni sem að hleypir öllu af stað. Ég vissi að í dag væru nokkrir góðir sundmenn og hafði það að markmiði að skoða mig aðeins um fyrstu 300-400 metrana og meta svo hvort ég vildi þvinga þetta eitthvað hraðar eða ekki. Þegar sundið byrjaði náði ég ágætis stöðu og var strax kominn á meðal þeirra fjögurra fremstu í hópnum. Við héldum þessu fram að fyrsta snúning en öldugangurinn reyndist snúinn og það var virkilega erfitt að sjá yfir höfuð hvert maður væri að fara. Ég reyndi bara að einbeita mér að loftbólunum frá næsta sundmanni fyrir framan en það var samt ekki hlaupið að því heldur. Ég gleypti um þrisvar sinnum smá vatn og svelgdist á en þegar það gerðist reyndi að slaka á og hægja á öndun, láta mig renna í hverju taki og reyna svo að keyra hraðann upp aftur. Ekki það auðveldasta í heimi þegar að önnur hver alda virtist hafa það að markmiði að keyra mann í kaf. Á snúningnum missti ég aðeins lappirnar á næsta manni sem varð til þess að ég villtist örlítið af leið áður en mér tókst að finna næstu bauju aftur. Tók smá auka krók að því er virtist og þurfti að hafa fyrir því að missa ekki alveg sjónar á þeim þremur sem voru fyrir framan. Ég synti því einn alveg frá snúning og inn í höfn þessa síðustu 1000 metra og kom upp úr um 15-20 sek á eftir fremstu mönnum. Ekki besta sund sem ég hef átt en er samt sáttur með tímann, 23:40 í þessum aðstæðum er ekki neitt til að kvarta yfir!

sigginokia4Skiptingin gekk nokkuð tíðindalaust fyrir sig þangað til komið var að því að henda sér á hjólið. Þá kom smá…skellur. Bókstaflega. Þegar ég henti mér á hjólið með þeirri aðferð sem ég kýs að kalla „The flying mount“ kom í ljós að hnakkurinn var ekki alveg nógu vel hertur og hann datt niður um 1,5 cm eða svo. Nægilega mikið til að skafa smá part úr númerinu sem ég var búinn að koma fyrir og að ég fann fyrir því þegar ég settist á hjólið að staðan var nokkuð hressilega „off“. Á þessum tímapunkti var ég að hugsa hvað væri hægt að gera og komst að þeirri niðurstöðu að bara tvennt væri í stöðunni. Annars vegar gæti ég bara hætt að hugsa um þetta og keyrt hjólið svona út þessa 90 km. Hins vegar væri hægt að stoppa í 18km og fá hjálp hjá viðgerðarfólkinu þar við að hækka hnakkinn aftur upp í sína venjulegu stöðu. Ég valdi að halda áfram keppni og klára bara þessa 90 km með aðeins lægri sætishæð, jafnvel þó það gæti komið eitthvað niður á frammistöðu. Ég myndi allavega ekki tapa 2-3 mínútum í það að stoppa, losa hnakkinn, hækka, herða og fara svo aftur af stað. Hver veit, kannski hefði það verið betri kostur? Allavega of seint að pæla í því núna 😛sigginokia5

Hjólaleggurinn var tiltölulega „sléttur“, svona miðað við Barcelona keppnina en brautin innihélt um 650 hæðarmetra skv. Garmin tölvunni. Töluverður vindur var á leiðinni út að snúning í 45 km og meðalhraðinn aðeins undir 40 km/klst til að byrja með. Ég missti fyrstu menn fram úr mér eftir um 20 km og fljótlega komu þrír í hóp fram úr sem að voru nánast ofan í hvor öðrum. Ótrúlegt að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd á þetta en þeir voru augljóslega að græða á því að hjóla í hóp og höfðu minna fyrir þessu fyrir vikið. Ég reyndi að hanga í þeim í 15 km og var ennþá með þá í augsýn þegar við snerum eftir 45 km leið en þá tók við mjög hraður kafli með talsverðum meðvindi. Ég lét þá bara fara á þessum tímapunkti og reyndi að einbeita mér að því að halda aflinu góðu. Ég fann fljótlega að það var töluverð þreyta farin að safnast fyrir í vöðvunum, líklega vegna lélegrar stöðu á sætinu en svona mikil breyting á sætisstöðu getur haft talsverð áhrif á það hvernig maður nær að skila aflinu niður í pedala. Restin var mjög viðburðalítil, ég drakk og kláraði báðar drykkjarflöskurnar mínar á leiðinni til baka en næringin samanstóð eingöngu af níu GU gelum og vatni. Um 900 kcal í heildina. Síðasti dropinn af vatni var kláraður á leiðinni inn í T2 og ég var nokkuð feginn þegar hjólið var klárað. Rassvöðvarnir orðnir vel súrir og fínt að fá annað álag á lappirnar. Meðalaflið skv. Stages mælinum hjá mér var um 312W normalized og tíminn 2:14:55 sem skilaði rétt rúmlega 40 km/klst meðalhraða yfir þessa 90 km. Mjög sáttur með hjólið almennt, sérstaklega í ljósi þess að staðan var algerlega út úr kú en ég bjóst engu að síður við ögn hraðari hjólatíma. Jæja, alltaf rúm fyrir bætingar!

sigginokia6T2 gekk vel og ég var fljótlega kominn út í hlaupið, í 7. sæti á þessum tímapunkti. Ég reyndi að fara nokkuð hressilega af stað og hægja svo á mér eftir um 1-2 km og ná mér í réttan takt. Mér finnst alltaf betra að byrja aðeins hraðar og hægja svo á mér niður í „target pace“ frekar en hitt svo það var það sem ég gerði. Fyrstu 2 km voru nokkuð niður í móti þar að auki svo meðalpace var um 3:30 á þeim tímapunkti. Ég hægði á mér eftir þetta og reyndi að halda þessu gullna 3:49/km pace sem er eiginlega það hraðasta sem ég get gert á þessum tímapunkti eftir hjólið. Mjög skrýtið að lýsa því en mér finnst eins og hjarta- og öndunarkerfið ráði við hraðara pace en einhvern veginn vilja lappirnar ekki leyfa mér að fara hraðar. Þarf að vinna í að ná hámarkshraðanum upp fyrir næsta vetur og þá ætti þetta að verða nokkuð gott.

Drykkjarstöðvarnar voru allar notaðar vel og ég var búnn að skipuleggja hvernig ég myndi tækla þær. Röðin á hverri stöð var eftirfarandi: Vatn – Kók – Gel – Bananar/föst fæða – Orkudrykkur – Vatn. Ég hljóp í gegnum allar stöðvarnar ólíkt því sem ég gerði í Barcelona en ég vildi reyna að halda í 7. sætið eins lengi og hægt væri þar sem að strákarnir í sætum 8.-10. voru ekki langt fyrir aftan. Ég byrjaði alltaf á því að taka vatn og drekka ásamt því að ná strax í annað glas og hella yfir mig og kæla kerfið. Tók því næst kókglas, drakk smá, náði strax í gel, reif það og þrykkti því í mig, aftur smá kók, og að lokum vatn yfir líkama og restin upp í mig til að skola munninn. Þannig var þetta á hverri drykkjarstöð og gekk þetta nokkuð smurt fyrir sig. Það er smá æfing að ná að gera þetta allt á um 10 sekúndum en þetta er farið að ganga nokkuð vel fyrir sig núna og sparar heilmikinn tíma. Eftir um 15-16 km kom 8. sætið fram úr mér og ég því dottinn niður um eitt sæti. Allt í góðu, hugsaði ég, mig grunaði hvort sem er að þetta væri að fara að gerast. Sá sem kom fram úr er strákur sem ég þekki vel frá Noregi og er hörku hlaupari. Ég ákvað samt að reyna að halda honum í augsýn og það var smá gulrót sem virkaði vel til þess að rífa hraðann aðeins upp þessa síðustu kílómetra hlaupsins. Kálfarnir voru líka farnir að losna aðeins upp núna og því gat ég aðeins gefið í og verið slakari í hverju skrefi. Ég hugsaði nær eingöngu um tækni síðustu 5 kílómetrana og skilaði það sér í góðum takti og átti að mínu mati þátt í því að ég hélt 9. sætinu fyrir aftan mig alla leiðina í markið.

sigginokia7Að sjá 21 km skiltið og taka hægri beygjuna út úr hlaupabrautinni og inn á rauða dregilinn er ólýsanleg tilfinning. 4:03 á klukkunni og því minn hraðasti tími hingað til í 70.3 og jafnframt 8. sæti tryggt. Ég fagnaði nánast eins og ég hefði unnið keppnina þegar ég fór yfir línuna enda ekki neitt til þess að vera óánægður yfir, fyrsta Top-10 keppnin mín í PRO flokki raunin. Hlaupatíminn var svosum ekki upp á marga fiska út frá mínu sjónarhorni, um 1:20, en samt nokkuð gott þar sem það var talsvert hvasst í dag og hafði það áhrif á meðalhraðann á stórum hluta hlaupaleiðarinnar. Ég geng því ánægður frá þessari keppni hér í Finnlandi og er kominn með augun á næstu áskorun.

Eftir aðeins 7 daga fer ég af stað aftur í Jönköping 70.3 ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi og verður áhugavert að sjá hvernig lappirnar eru eftir svona stutta hvíld á milli. Mér líður ágætlega þegar ég skrifa þetta núna á sunnudeginum en ég veit að þreytan kemur ekki fyrr en á morgun og á þriðjudaginn. Það verður því mikilvægt að taka því rólega næstu daga og byrja svo mjög létt á þriðjudag/miðvikudag. Vonandi slæ ég hnakkinn ekki niður í Svíþjóð eins og ég gerði hér og þá mögulega get ég gert eitthvað af viti á hjólinu – við sjáum til! Ég læt að lokum fylgja með mynd sem tekin var af mér og Kristian frá Noregi sem að kláraði í 7. sætinu á undan mér, eftir að hann tók fram úr mér eftir um 15 km í hlaupinu.

sigginokia8

Þangað til næst!

 

 

 

Húsmæðraorlof í Helsingör

Margrét Valdimarsdóttir ritar:
Ég ákvað haustið 2018 að skella mér með Ásu vinkonu í hálfan Ironman í Helsingör þar sem hún átti skráningu og mig vantaði gulrót fyrir komandi vetur. Hér var ekkert tvínónað við hlutina, bara henda inn skráningu. Gott og vel.
Hjólaæfingar gengu vel fram eftir hausti og ég fékk blússandi fína útkomu í FTP testi nóvembermánaðar en þá kom desember með jólin og allt stússið í kringum þau og ég virtist bara ekkert geta á æfingum, orkulaus og þreytt og allskonar. Mætti nú samt á æfingar og hélt mínu striki. Reyndi fleiri test í des og jan en var ekkert nálægt nóvembertölunum. Þarna ákvað ég að lækka bara aðeins áreynsluna á æfingum og sjá hverju það skilaði og viti menn, maítestið sýndi bætingu upp á einhver 11W – loksins!
Sundæfingar voru teknar að hætti Nick Saunders þ.e. mjööög róleg upphitun 6-8×50 og svo þéttari keyrslur. Æfði sundið ekki mikið eftir plani en var dugleg að mæta og synda 1500-2000m æfingar 3-4x í viku.
Eins og flestir vita sem þekkja mig þá eru hlaup alls ekki mín sérgrein og þar af leiðandi mæti ég sjaldnast á hlaupaæfingar😊 Ákvað að taka hlaupin eins og sundið, mjöööög rólega upphitun og bæta svo aðeins í. Passa að fara ekki of geyst því þá fæ ég verk í „hamstring“. Reyndi að vera dugleg að hlaupa líka oftar og stutt í einu, tók svo laugardagana í lengri hlaup frá ca. apríl og hljóp lengst 19km 2 vikum fyrir keppni.
Og þá að keppninni sjálfri.
Ferðafélaginn var ekki af verri endanum, reynsluboltinn Kristjana Bergsdóttir æðardúnsbóndi með meiru af Melrakkasléttu. Ása meiddist í vetur og þurfti að hætta við keppni en við Kristjana slógum til.
Við flugum út á fimmtudegi til að eiga smá tíma fyrir keppni sem mér finnst gott. Prófuðum sjóinn fyrir utan hótelið, hjóluðum og hlupum aðeins dagana fyrir keppni og mér leist bara mjög vel á aðstæður.
Fórum mjööög snemma að sofa kvöldið fyrir keppni og vöknuðum, önnur kl. 23 og hin kl. 24, algjörlega úthvíldar og til í keppni, þurftum samt að loka augunum aftur og sofa aðeins lengur – smá spenningur í gangi greinilega.
Vöknuðum kl. 6 og fórum í morgunmat. Röltum svo út á keppnissvæði um kl. 7. Kíktum á hjólin, pumpuðum í dekk og gengum frá næringu. Ég náði í sólarvörn í hlaupapokann og gluðaði á mig þar sem ég á það til brenna. Ekki skyldi það gerast í þetta skiptið 😉
Skellti mér í sundgallann og við tókum rólegt upphitunarsund í höfninni. Hitinn á sjónum var ca 17°C, gæti ekki verið betra. Mér finnst mjög óþægilegt að synda í „Open Water“ kraðaki en þegar ég sá fyrirkomulagið í upphituninni róaðist ég mjög. Þeir voru búnir að setja 3 stiga niður af bryggjunni fyrir fólk þannig að á ca 5sek fresti fóru 3 í einu út í og syntu af stað og svo koll af kolli.
Ég hafði valið mér græna sundhettu, sundtíma upp á einhverjar 35-39 mínútur og kom mér fyrir í þeirri röð. Hitti Guðmund Inga og Edda í startinu og við röltum þarna niður á bryggjuna. Þegar kom að mér að henda mér útí gerði ég nákvæmlega það og synti af stað. Ekkert vesen. Bara synda – hægri, vinstri, anda, hægri, vinstri, anda osfrv. Ekkert flókið. Lenti í smá bringusundsspörkum og rangskreyðum manni sem vissi ekkert hvert hann var að fara en hann komst á leiðarenda eins og ég.
mv1
Synti bara á jöfnum hraða og var ekkert að sperra mig, leið nokkuð vel allan tímann. Hitti nokkrar marglyttur á leiðinni en þær voru svo litlar að það var eiginlega ekki hægt að verða eitthvað skelkaður. Allt í einu var þetta svo bara búið og ég fékk að hlaupa á rauðum dregli alla leið á T1 þar sem hjólaskórnir og hjálmurinn beið í poka.
Hef alltaf verið með kók í T1 ef mér er bumbult eftir sjóinn og fékk mér smá sopa, dansaði af mér blautgallann, þurrkaði mig aðeins, henti svo á mig hjálminum, greip skóna og hljóp af stað að hjólinu. Það var smá spölur þangað og ekki gott að hlaupa á hjólaskóm þannig að ég hljóp á tánum að svæði sem ætlað var til þess að klæða sig í skóna og sá þá að ég var öll í sandi. Ekki gott fyrir mínar tær þegar kemur að hlaupinu en það var seinni tíma vandamál. Fyrst mátti ég hjóla. Ég elska að hjóla, það er eiginlega skemmtilegasta hreyfing sem ég hef stundað. Mér er alveg sama þó það sé vindur, brekkur eða hvaðeina (fer reyndar ekkert voða hratt upp brekkur en ég get farið rosa hratt niður þær). Þarna var ég í essinu mínu. Dreif mig út af skiptisvæðinu og brunaði af stað. Vá hvað þetta var geggjað, frábært malbik, sól í heiði og allt dásamlegt. Ég bara hjólaði og hjólaði og leið svakalega vel allan tímann. Sá Sigurjón í brautinni eftir ca 13km en þá var hann kominn allavega einhverja 30km, Halldór dúndraði svo fram úr mér í 70km. Þegar ég kom í síðustu beygjuna fyrir T2 heyrði ég gargað „áfram Magga“ og vissi bara ekkert hver var að hvetja mig. Mjög skemmtilegt að fá svona hvatningu og komst að því seinna um daginn að það var Kristjana sem hafði hætt keppni í sundinu vegna astma einkenna.
mv2
T2 gekk vel, var búin að hugsa það á hjólinu hvernig ég myndi þurrka af mér tásusandinn og komst að því að það eina sem ég var með voru „armwarmers“ sem ég hafði sett á mig í T1. Það gekk ágætlega að þrífa sandinn og ég fór í sokka, nýju Hoka skóna sem ég hafði keypt á Expoinu 2 dögum áður, setti á mig derhúfu og númerabelti og af stað (veit að maður á aldrei að vera í einhverju nýju í keppni en ég hef átt nokkra Hoka Clifton þannig að ég treysti alveg á Clifton 5. Sé sko ekki eftir því, þeir voru æði).

Fyrsti hringur í hlaupinu var í kringum Kronborgarkastala. Virkilega fallegt umhverfi en það var pínu heitt þarna undir kastalaveggjunum. Ég lét mig samt hafa það og skokkaði áfram mitt hlaupaskokk, fjóra hringi um kastalann og þrjá um miðbæinn. Mjög gott fyrir minn haus að geta talið niður. Nartaði í harðfiskinn sem ég fékk hjá Gutta og það gladdi mig þar sem ég hafði gleymt bitunum heima sem áttu að koma með út. Fékk mér vatn, appelsínubita og smá kóksopa á drykkjarstöðvunum en var annars bara nokkuð góð í orkunni. Hitti Kristjönu nokkrum sinnum í hlaupinu og það er algjörlega frábært að hafa einhvern á hliðarlínunni. Stemningin í bænum var líka mögnuð, fólk úti um allt að hvetja og tónlist á hverju horni. Höskuldur kom aftan að mér þegar ég var á fyrsta hring og hvatti mig áfram, Sigurjón kom stuttu seinna á sínum síðasta hring á svakalegri siglingu (man reyndar ekkert hvorn ég hitti fyrst) og svo hitti ég Gumma og Edda á öðrum hring að mig minnir. Viðurkenni alveg að það var ljúft að fá síðustu teygjuna á úlnliðinn og eiga bara eftir að hringa kastalann einu sinni og mega þá taka vinstri beygju inn rauða dregilinn að marklínunni.

Lokatími 6:19:37
Það eru forréttindi að geta tekið þátt í svona veislu og alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp. Mér leið vel allan tímann, fékk smá blöðrur á litlutærnar (líklega út af sandi) en það truflaði nú ekki mikið. No pain, no gain! segja þeir í útlöndum.
Þríþraut er frábær. Hún heltók mig algjörlega þegar ég byrjaði, þetta er mitt aðal áhugamál fyrir utan fjölskyldu og er búið að vera undanfarin ár. Mér finnst gott og gaman að synda, frábært að hjóla og hef tekið hlaupin bara á mínu dóli. Að fara til útlanda og keppa er að lokum stór gulrót sem gaman er að uppskera 😊

mv3

Hálfmaðurinn í Helsingör

Sigurjón Björnsson segir frá:

Þessi keppni var stóra keppnin á árinu hjá mér og í lok síðasta árs setti ég mér markmið um að ná að fara þetta á undir 5 tímum og 15 mínútum. Til að ná því setti ég mér raunhæf markmið um bætingar í öllum greinunum. Eftir áramót byrjaði ég frekar samviskusamlega að fylgja æfingplani sem þjálfararnir okkar settu á TP og gekk þetta allt mjög vel og án meiðsla.

Ég tók þátt í keppnum sumarsins á Íslandi sem gengu miklu betur en ég hafði reiknað með og sá þá að sennilega væri upphaflega tímamarkmiðið ansi varfærnislegt. Það var því raunhæfur möguleiki að ef aðstæður væru góðar og allt gengi upp hjá mér í keppninni þá ætti ég að geta komist undir 5 tíma.

Veðrið að morgni keppnisdags var frábært, hægur vindur, 16°C og sól. Það stefndi því í fullkomnar aðstæður og ekkert annað í boði en að gefa allt í þetta.

1Sundið 1900m
Ég reiknaði með að synda á 31-32 mínútum, ætlaði ekkert að vera að sprengja mig. Sundið gekk vel en í brautinni eru frekar margar beygjur og þar myndast oft mikið kraðak. Mér leið mjög vel og var ekkert að fylgjast með tímanum. Mér fannst ég vera að synda fram úr frekar mörgum. Ég fann þó reglulega fætur sem ég gat fylgt en þeir týndust venjulega eftir beygjurnar og hófst þá leit að nýjum fótum. Í lok sundsins var ég hífður uppúr vatninu því rampurinn nær nánast ekkert ofan í vatnið. Þegar ég leit á úrið fattaði ég af hverju ég tók fram úr svona mörgum, ég hefði greinilega átt að fara í hraðari hóp.
Sundtími: 30:02

T1
Skiptisvæðið er frekar langt (heildar hlaupavegalengd var næstum 900 metrar). Ég var því búinn að fara úr gallanum niður á mitti og taka af mér gleraugun og sundhettuna þegar ég kom að pokanum mínum. Klára að fara úr gallanum, setti á mig hjálm og sólgleraugu. Tók upp skóna, sokkana og döðlustykkið sem ég ætlaði að borða í byrjuninni á hjólinu (hef áður haft það á hjólinu og í bæði skiptin hefur það tapast áður en ég náði að borða það). Setti sunddótið í pokann og hengdi hann upp. Ég hélt svo á skónum og sokkunum því það var nokkuð langt að hjólarekkunum og þar voru bekkir til að klæða sig í skóna. Á leiðinni byrjaði ég að borða döðlustykkið og var búinn með það þegar ég tók hjólið úr rekkanum.
T1 tími: 6:11

2
90 kílómetrar á hjóli

Hjólabrautin er um litla sveitavegi fyrir utan Helsingör. Allstaðar var malbikið mjög gott en vegirnir oft frekar þröngir. Það eru engar mjög brattar brekkur í brautinni, en svona 2-3 stuttar þar sem maður fer e-ð undir 30 km hraða en taka ekkert of mikið úr lærunum. Planið var að hjóla þetta á nákvæmlega 260 wöttum allan tímann (eftir að Hákon Hrafn fullyrti að ég færi létt með það, mér leist betur á eitthvað minna en treysti þjálfaranum sem auðvitað hafði rétt fyrir sér). Það plan fór eiginlega út um gluggann þegar ég sá hvað það var mikið af hjólurum í brautinni. Flestir gerðu sitt besta í að vera ekki að drafta en það komu samt tveir hópar fram úr mér sem voru ekkert að reyna að fela draftið. Ég reyndi að hjóla á mínum hraða en oft þurfti bæta í til að taka framúr eða slaka á þegar mikil umferð var fyrir framan. Ég var með fjögur gel á hjólinu sem ég borðaði á ca 30 mín fresti. Ég tók banana á fyrstu og þriðju drykkjarstöð og fékk brúsa á annarri. Matarplanið var að borða eins mikið og ég gæti svo ég hefði næga orku á hlaupinu, ég held að það hafi gefist mjög vel.
Hjólatími: 2:23:50

T2
Hjólið var tekið og sett á rekkann fyrir mig svo ég gat hlaupið beint að pokanum mínum. Tók af hjálminn, sólgleraugun voru ekki svo sveitt að ég ákvað að vera með þau áfram þó ég væri með auka í hlaupapokanum. Ég setti á mig derhúfuna, fór svo úr hjólaskónum og í hlaupaskóna. Greip tvö gel og setti í vasann.
T2 tími: 1:52

3
Hálft maraþon í góða veðrinu

Hlaupið er 3,5 hringir í miðbæ Helsingör. Farið er í kringum kastala og svo eru þröngar verslunargötur þræddar framm og til baka. Ég leit á klukkuna þegar ég kom hlaupandi út úr T2 og sá að það voru bara búnir 3 tímar og 2 mínútur. Ég hafði hlaupið mjög létt hálfmaraþon á 1:55:00 tveimur mánuðum áður svo ég sá að 5 tíma markmiðið var ennþá innan seilingar. Ég ákvað að byrja á 5:15 pace og sjá hvort ég gæti gefið í undir lokin. Að halda þessum hraða gekk mjög erfiðlega fyrstu 2-3 kílómetrana og var ég að hlaupa miklu hraðar, ca 4:45 pace. Ég vissi að þessi hraði gengi ekki upp allt hlaupið og náði að hægja mátulega mikið á og byrja að vinna niður þessa 21 kílómetra sem þurfti til að klára. Næringarplanið var ekkert niðurneglt nema að reyna að drekka smá orkudrykk eða kók á flestum drykkjarstöðvum og fá mér svo koffíngelið á síðasta hring. Hitinn var orðinn ansi mikill undir skínandi sólinni þannig að vatnið sem ég greip á drykkjarstöðvunum fór að mestu utaná mig til kælingar. Ég reyndi samt að drekka alltaf smá og svo fékk ég mér einu sinni kex og tvisvar appelsínubáta sem var fínt að narta í á milli drykkjarstöðva. Ég náði að halda góðum hraða fyrstu 2,5 hringina og spjalla aðeins við einn Dana sem sagði mér ævisögu sína (efni í aðra grein), það var fín afþreying. Þegar ca. 5 kílómetrar voru eftir byrjaði að vera erfitt að halda hraða og síðustu þrír km kröfðust mikils viljastyrks. Ég kláraði svo síðasta hringinn í kringum kastalann og hljóp inn rauða dregillinn í alsælu.
Hlaupatími: 1:47:57

4Heildartími: 4:49:51

Ég er alveg í skýjunum með tímann minn sem er framar öllum vonum. EFtir nudd og sturtu var frábært að hitta aðra keppendur úr Breiðablik í mathöllinni og ræða afrek dagsins.

Nú þegar ég náði að fara undir 5 tíma veit ég ekki alveg hvað næsta tímamarkmið verður nema að í næstu keppni verður ofarlega á lista að taka betur eftir ljósmyndurunum svo það náist skárri myndir :). En eitt er víst, ég ætla í aðra keppni.

Ég vil þakka öllum þjálfurum í Breiðablik fyrir að hjálpa mér að ná þessum árangri, öllum æfingafélögunum sem gerðu æfingarnar að hreinni skemmtun, öllum sem komu frá Íslandi að keppa og gerðu bjórinn eftir keppni 10 sinnum betri, Hafþór hlaupaþjálfara fyrir lánið á afturgjörðinni og fjölskyldunni, Aldísi, Eyrúnu og Birni, fyrir að leyfa mér að njóta þeirra forréttinda sem þessi íþrótt er.6

Hákarlar, öldur og brekkur

Björn Reynald Ingólfsson segir frá:

Varla var liðinn mánuður frá því ég tók þátt í Challenge Lissabon þegar Ingi frændi, sem býr í San Diego í Kaliforníu, hringdi og skoraði á mig að taka þátt í Ironman 70.3 Oceanside 6. apríl  2019 með sér. „Þú hefur 24 tíma áður enn það verður uppselt“, sagði Ingi.  Ég  var að drepast í mjöðminni eftir Lissabon og hálft maraþon í Vormaraþoninu 2018 en hálfur járnmaður er alltaf freistandi og ég sló til og skráði mig.

Oceanside er lítill strandbær norður af San Diego. Brimbretta kappar hópast á þennan stað allt árið í kring vegna brimsins. Það fyrsta sem netleitin sýndi mér var frásögn af ungri konu sem hafði orðið fyrir árás  hákarla. Þeir eru tíðir gestir við strandlengjuna þarna.

Ég var allt sumarið að ná mér í mjöðminni. Byrjaði að æfa aftur í september og gekk bara vel framan af. Þá tók við meiðslahrina, kálfar og læri. Stóð í þessu fram til miðjan desember.

Í  janúar og febrúar gengu æfingar ágætlega en í mars tognaði ég aftur í kálfa. Ekki nóg með það heldur náði ég mér í blóðeitrun í litlutána. Þá var aðeins mánuður í mótið. Gat ekkert hlaupið fyrir mótið en hjólaði því meira. Hafði bætt við lyftingum um áramótin.

Égflaug út til San Francisco 2. apríl og þaðan til San Diego. Þetta ferðalag tók 12 tíma. Tímamunur var sjö tímar og ekki veitti af nokkrum dögum til að endurstilla líkamsklukkuna.

Í San Diego hafði rignt í nokkra daga fyrir mótið. Það rignir víst ekki mjög oft í Suður-Kaliforníu. Skráði mig á Facebook síðu sem Oceanside þátttakendur höfðu stofnað. Þar var mikið talað um brekkurnar í fjöllunum. Hvað margir ganga upp þessar tvær bröttu brekkur. Einnig rigninguna og hvort mótinu yrði aflýst ef það myndi rigna. Skildi nú ekkert í þessu því úti var um 15 til 20 stiga hiti og blanka logn þó að það rigndi smá. Ekki minnst á hákarla sem betur fer.

bjorn2sund
Þegar öldurnar eru á hæð við einbýlishús, skipta nokkrir hákarlar ekki máli

Ræsa átti sundið á ströndinni ef ölduhæð var ekki meiri en fimm fet(2m). Annars yrði sundið fært inn í höfnina. Öldurnar þegar ég byrjaði voru um tíu fet(3m). Var hálf ógnvekjandi þegar ég var búinn að vaða sjó upp að mitti og sjá öldurnar koma á móti manni himinháar að manni fannst. En sem betur fer tók ég þátt í æfingu deginum áður hvernig á að tækla svona öldur.

Rétt fyrir en startið var kallað í hátalarakerfið og okkur bent á að kíkja út á haf. „Ekki hafa áhyggjur af þessum uggum þarna úti. Þetta eru höfrungar en ekki hákarlar.“

Ég heyrði í ungum strákum fyrir aftan mig í röðinni telja sekúndurnar. Snéri mér að þeim og spurði hvers vegna þeir væru að telja. „Þú verður að vita hvað þú hefur margar sekúndur til að ná lofti áður enn næsta alda kemur“.

Eftir öldurnar tók við hægri beygja og synt inn í höfnina. Frekar slétt og rólegt en sólin truflaði við að staðsetja baujurnar. Þetta sund var geggjað ævintýri. Erfitt en mikið stuð.

T1. Var allt of lengi á skiptisvæðinu. Þegar manni er mál þá þá er manni mál. Þurfti að bíða aðeins til að komast að á kamrinum. Þetta tók um tíu mínútur.

Hjólið er einn hringur og hjólað frá höfninni í Oceanside og upp í fjöll. Heildar hækkun er um 1000 metrar með tveim löngum 10 til 16 gráðu brekkum. Eftir fjöllin tók við 15 km langur, beinn og sléttur vegur í átt að ströndinni með miklum mótvindi. Þessi kafli tók verulega á fæturna. Hér komu auknar hjólaæfingar og lyftingar til hjálpar.

bjorn3hleyour

T2. Var alveg búinn eftir hjólið. Tók því bara rólega. Lét bera á mig sólkrem og fékk mér smá snarl. Aðrar tíu mínútur.

Hlaupið var það sem ég kveið mest fyrir. Hafði ekki hlaupið í rúman mánuð og lengsta hlaup frá áramótum var 10 km.

Hlaupið var meðfram ströndinni með hafgoluna sem kælingu. Hitinn var þegar ég byrjaði hlaupið um 25 gráður og steikjandi sól. Eftir um 12 km skokk byrjaði ég að fá krampa, fyrst í kálfa og svo aftan í læri. Þá tók við ganga í einn kílómeter og skokk í tvo. Var staðráðinn í að klára þetta sama og það tókst með herkjum á 7:25. Sjaldan verið eins ánægður með sjálfan mig að geta það þó tíminn sé ekki uppá marga fiska.

Að ná settu marki er góð skemmtun..

Það var ljóst um áramótin að ég myndi ekki setja nein met. Markmiðin voru að mæta í þessa keppni, klára og njóta.

Allt í kringum þetta mót var pott þétt. Upplýsingagjöfin fyrir keppni og meðan á henni stóð var til fyrirmyndar. Mæli hiklaust með heimsókn á þessar slóðir í veðurblíðuna og hvað er skemmtilegra en að skella sér í hálfan þegar tækifæri gefst?

bjorn4klarar
Með íslenska fánann var fagnað eftir keppni

 

Sjö tímar og sjö mínútur í Salou

mynd1
Inga Hrund Gunnarsdóttir segir frá:

7.apríl 2019 kláraði ég hálfan járnkarl í Challenge Salou keppninni á Spáni: 1900 m sund, 90 km hjól og hálfmaraþon hlaup.
Ég er vanalega stuttorð en mig langaði að ná að skrifa niður allt um þessa fyrstu stóru keppni sem ég fór í erlendis þannig að náðu í kaffi núna eða rúllaðu niður að kaflanum “Keppnisdagur” ef tíminn er naumur.

Bakgrunnur
Þegar ég var barn þá æfði ég frjálsar og sund því það var í boði í Mývatnssveit. Það voru unglingar og foreldrar að þjálfa af góðum hug en hafa sennilega ekki fengið mikla tilsögn sjálfir. Ég var alltaf seinust í öllu, ekki bara í keppnum heldur líka á æfingum og getuskipting hefði hentað mér á þessum tíma. Ég hefði bara átt að hlaupa tvo hringi á æfingum á meðan hinir fóru þrjá. Svo hefði verið fínt ef einhver þjálfari hefði sýnt mér persónulega áhuga en í minningunni þá fannst manni þjálfarar og íþróttakennarar bara hafa áhuga á krökkunum sem fóru hraðast. Kannski var það ekkert þannig og ég vona að það sé alls ekki þannig núna. Vildi líka að mér hefði verið kennt skriðsund í staðinn fyrir að segja mér að synda fjórar ferðir af skriðsundi. Flutti svo í Árbæinn, reyndi að æfa fótbolta en fannst erfitt að vera nýr iðkandi á nýjum stað, lítið var kennt og  og ég hætti eftir nokkrar vikur. 12-13 ára minnir mig að ég hafi ekki hreyft mig neitt því það myndi hvort sem er engu skila, ég yrði bara alltaf í lélegu formi. Flutti í Mosó, tók eina önn í jazzballett og 14 ára keyptum við Solla vinkona okkur kort í WorldClass Skeifunni. Lögðum á okkur að taka Mosfellsleið niður á Grensás til að mæta í eróbikk og pallatíma. Mig minnir að við höfum nú ekki verið með mikil árangurs- eða heilsufarsmarkmið í huga, heldur fannst okkur þetta bara skemmtilegt. Aldrei datt mér samt í hug að fara út að hlaupa.
Svona liðu árin og ég tók tarnir í líkamsræktarhóptímum og tækjasal, var sem sagt ekki stanslaust í sófanum. Labbaði á nokkur fjöll með fjölskyldunni, (19 árum eldri en ég tengamamma mín alltaf í geggjuðu formi, svífandi upp brekkurnar á undan mér!) Eignaðist börn, fór í ræktina og jóga og svo allt í einu, 39 ára þegar yngsta barnið var að verða eins árs þá kom rétti glugginn og ég var tilbúin að stíga upp úr sófanum og fara að hlaupa.
Í maí 2014 var heilsumánuður í vinnunni, Íslenskri erfðagreiningu. Hljómar kannski klisjukennt en þetta kom mér af stað. Þorlákur Jónsson langhlaupari vann þá hjá ÍE og var fenginn til að sjá um byrjendur í hlaupum. Mig minnir að við höfum hlaupið tvisvar í viku og við hlupum í 2-3 mín og gengum í 2-3 mín. Þorlákur hljóp og labbaði alltaf með okkur og það hélt mér við efnið að hafa félagsskapinn frekar en að vera ein með klukkunni. Ég hugsa alltaf mjög hlýlega til Þorláks fyrir þessa fagmennsku og þolinmæði. Eftir rúman mánuð af æfingum tók ég þátt í mínu fyrsta almenningshlaupi og fór 3 km í fyrsta sinn án þess að labba. Tími 18.22 (pace 6.07). Markmiðið var svo að fara 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég fór lengst 7 km á æfingatímabilinu, þetta var alltaf erfitt. Svo fórum við Steinunn Kristjáns vinnufélagi minn þetta saman á 71 mín í keppninni. Hefðum kannski komist hraðar ef við hefðum átt hlaupaúr og kynnum að stilla hraðann okkar betur en við vorum byrjendur og mjög lukkulegar með árangurinn. Árið eftir, 2015, hljóp ég 10 km á 60 mín og 5 sek (djöfuls 6sek!), 2016 fór ég hálft maraþon og 2017 heilt maraþon á 4 klst 20 mín. Best á ég 53.35 í 10 km 31.des 2017.Þá hugsa ég að ég hafi loksins verið komin í betra form heldur en sextug tengdamóðir mín en ég þori samt ekki ennþá að skora á hana í tímatöku í fjallgöngu með 12 kg bakpoka! Æfði árin 2015-2017 með Almenningsdeild Víkings, hlaup og hjól, frábært félag, skipti bara af því ég vildi fara í þríþraut en Ægir3 er auðvitað stórkostlegt félag, ég vona að öllum líði vel í sínu félagi 🙂
Með þessum æfingaáhuga bættust hjólreiðarnar við. Ég keypti götuhjól 2015 og fór fjögur ár samfellt í cyclothonið og hef tekið þátt í fullt af keppnum. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í viðburðum og keppnum þótt árangurinn sé misjafn og þyrfti eiginlega sponsor til að borga öll þessi keppnisgjöld. Er ekki einhver þarna úti sem vill styrkja húsmóður í B-flokki??

Þríþraut
Það hafði blundað í mér lengi að læra að synda skriðsund þannig að ég endist í meira en 100 metra. Fór á námskeið tvisvar með nokkurra ára millibili áður en ég byrjaði hjá Ægi3 en þetta hefur bara gengið mjög illa hjá mér. Veit ekki hvað ég þarf helst að bæta, tæknina væntanlega en sundið mitt lítur víst ekki svo illa út þannig að kannski þarf ég að bæta handstyrkinn? Á vídeó ef einhver vill ólmur sjá og gefa ráð!
En þríþrautin var byrjuð að heilla, ég fór með vinnufélögum í boðsveit í sprettþraut (hjólaði) og svo með cyclothon stelpum í boðsveit í hálfum járnkarli í Kjós 2017 þar sem ég tók hlaupið. Svo missti Guðrún vinkona út úr sér að hún vildi prófa að æfa þríþraut og ég greip það á lofti og við fórum að æfa hjá Ægi3 haustið 2017. Markmiðið mitt var að fara í hálfan járnmann.
Upphaflegi ótti minn við sundið hafði verið það að mér er svo illa við að synda í köldu vatni en svo reyndist það vera hraðinn sem var mín helsta fyrirstaða. Mér fannst sundið aldrei smella hjá mér og hætti við að skrá mig í stóra keppni 2018. Fór í þrjár sprettkeppnir þá um sumarið. Haustið 2018 þá var ég nú hætt að vera eins búin á því eftir sundæfingar þannig að eitthvað var mér að fara fram en hraðinn var ekki að lagast mikið, en væntanlega var ég nú að fara úr 3.00/100m niður í 2.45/100m. Á best 2.30/100m í 200 m spretti.
Félagar í Ægi3 voru nú farnir að æsa hvorn annan upp í keppni í Jönköping í Svíþjóð í júlí 2019 en mér leist ekki á tímasetninguna af ýmsum ástæðum eins og sumarfríum barnanna og svo vildum við hafa sumarið til að hjóla. Eitt leiddi af öðru og Kári maðurinn minn ákvað að byrja að æfa þríþraut og koma með mér í hálfan járnkarl í apríl 2019. Samið var við elsta barnið og ömmurnar um pössunarplan og allt sett í gang.
Ég valdi Challenge Salou á Spáni 7.apríl meðal annars út af tímasetningu en líka því að hjólaleiðin átti að vera góð og það eru ekki aukatímamörk í hjólinu eins og er t.d. í 70.3 HIM Barcelona. Þar sem sundtíminn minn yrði langur þá varð ég að geta slakað aðeins á í hjólinu. Helsti gallinn við tímasetninguna var að geta ekki æft af viti utandyra yfir veturinn, bara útihlaupin. Ég fór ekkert út að hjóla á götuhjóli frá því í lok september og á ekki cyclocross hjól. Hjólaði í vinnuna á fjallahjóli, 2×15 mín á hverjum virkum degi í næstum öllum veðrum. Ég hafði fulla trú á að reynsla úr keppnis- og æfingahjólreiðum síðustu fjögurra hjólasumra myndu duga til þess að 90 km yrðu vel gerlegir. Ég fór ekkert í sjósund um veturinn út af kuldahræðslu en hafði farið tvisvar í sjó í blautbúningi í ágúst og leið alveg vel svo ég vottaði sjálfa mig óhrædda við sjó.

Æfingar og næring
Ægir3 er með 7 æfingar með þjálfara auk einnar sundæfingar án þjálfara í viku fyrir félaga í æfingahóp og maður fær líka áætlun þar. Ég var yfirleitt að taka fimm æfingar á viku í samtals 6-8 klst: Tvö hlaup, tvö sund og eina langa brick æfingu þar sem við vorum á vattahjólum og hlupum svo á eftir. Var með eigið hjól á trainer heima sem ég ætlaði að nota í staðinn fyrir eina Ægis3 hjólaæfingu en var hreinlega frekar löt að nota hann. Tók nokkrum sinnum þjálfaralausu sundæfinguna.
Var með smá verk í hné á tímabili en var annars meiðslalaus.
Ég hefði ekki viljað auka æfingamagnið, þetta er meira en nóg til að gera það sem ég vil, nema að ég hefði mátt vera duglegri að gera styrktaræfingar sjálf.
Uppáhaldsæfingarnar voru mánudagshlaupasprettir inni í Frjálsíþróttahöllinni og sunnudagshjól- og útihlaup á vattahjólunum í Sólum. Ekki spillti fyrir að fara saman á kaffihús á eftir og tala um þríþraut!

Breytti nær engu í mataræði, borða og borðaði bara venjulegan mat, “hollt í hádeginu” (alltaf grænmeti með matnum í vinnunni og fiskur tvisvar í viku) en hollustan aðeins sveigjanlegri heima og við látum t.d. Megaviku aldrei framhjá okkur fara og gos og snakk er ekki bannað. Ég minnkaði samt naslið yfir sjónvarpinu á kvöldin og nú er bara ostur, kók og Ritz kex einu sinni í viku í staðinn fyrir þrisvar! Fuku af mér 2 kíló við það! Ég er ekkert að mæla með þessu mataræði en bara svona að láta fólk vita að maður þarf ekki að fara alla leið til að stunda æfingar og taka þátt í keppnum. En ef þú ætlar að komast á pall þá er sennilega betra að borða aðeins minna af kökum og frönskum heldur en ég geri.

Kvíðatímabilið
Keppnin nálgaðist og raddir efasemda grófu um sig í hausnum á mér. Hvað var ég að spá? Fara út bara til að ná ekki tímamörkum í sundinu? Búin að eyða tveimur árum í æfingar, kaupa flug, hótel og keppnisskráningu? Ég reyndi að segja sem fæstum frá því að við værum að fara í hálfan járnkarl þannig að ég þyrfti að segja færra fólki frá þegar það myndi misheppnast. Var samt búin að synda 1900 m á tæpum klukkutíma í sundlaug og einu sinni 2400 m í galla í laug undir heildartímamörkum (sem voru 1 klst 10 mín) þannig að á pappír átti ég að ná tímamörkunum í sjósundinu. Var fyrst bara að hugsa um þetta fúla sund en svo fór ég að kvelja sjálfa mig yfir að hafa ákveðið að taka eigin hjól með út í stað þess að leigja hjól. Hjólin myndu ábyggilega týnast á leiðinni eða skemmast. Svo kostaði flutningurinn fyrir þau 14.000 kr. stk. Ég hafði reyndar verið það skynsöm að panta flug með Norwegian en ekki WOW en oft þegar ég minntist á Norwegian þá sagði einhver “er Norwegian ekki að fara á hausinn?” Þegar WOW loksins fór á hausinn þá hækkaði hvíldarpúlsinn minn um eflaust 20 slög og hélst þannig þangað til ég var lent úti á Spáni.

Til Spánar
Við flugum út á fimmtudegi en keppnin var á sunnudegi. Eftir á séð hefði verið betra að fara út einum degi fyrr en út af vinnu og flugáætlunum varð þetta svona. Hjólin skiluðu sér! Við vorum ekki komin á áfangastað fyrr en um kvöldmat en sólsetur átti ekki að vera fyrr en um klukkan níu þannig að við drifum okkur í sjóinn í blautgöllunum okkar. Og hugsa sér, það var bara ekkert hræðilegt, ekki svo kalt og ég gat auðveldlega synt. Vorum bara stutt samt.
Næsti dagur fór í smá stúss eins og að sækja keppnisgögn og kaupa gashylki fyrir pumpurnar. Fórum aftur í sjóinn og nú voru meiri öldur við ströndina. Missti af Kára og fannst það mjög óþægilegt, fór meira að segja að hugsa um hákarla sem höfðu, merkilegt nokk, ekki verið á listanum mínum yfir hluti til að hafa áhyggjur af! Fór í land og beið eftir að Kári skilaði sér.

mynd2
Þar sem á ströndu hvítar bárur brotna…

Daginn fyrir keppni fórum við aftur í sjóinn og þá voru enn meiri öldur við ströndina. Ég hef enga reynslu af sjó fram yfir busl í sólarlandaferðum þ.a. ég veit ekkert hvar þetta var á einhverjum mælikvarða. Kári alltaf brattur og við komum okkur út í, bara fara út í og pæla í seinna hvernig við komumst aftur í land! Fékk vænt högg í andlitið þegar alda brotnaði framan í mig og sundgleraugun fylltust við það af sjó. Svo kom næsta líka á mig, hvernig á eiginlega að gera þetta, synda baksund? Stinga sér í gegnum ölduna? En eftir 2-3 öldur þá vorum við komin út fyrir brimið og gátum farið að synda. Ég var samt með háan púls eftir þessa baráttu og ekki með mikla orku fyrir sund og synti næstum ekkert. Það var síðan hrikalega erfitt að komast í land aftur. Vorum saman og Kári hélt í mig á meðan öldurnar skullu á okkur, mikið var ég fegin því. Aftur, 2-3 stórar. Í einni þeirra fóru af mér sundgleraugun en sem betur fer náðum við þeim aftur í öldudalnum en það var enginn tími til að setja þau á sig aftur áður en næsta alda keyrði á okkur. Ég fór samt, að mig minnir, aldrei alveg á kaf, var í frussinu en ekki með stjórn á aðstæðum og erfitt að hugsa hvort maður ætti að anda frá sér eða halda niðri í sér andanum. Eftir þessa baráttu varð samt að halda áætlun og taka 15 mín af hjóli og hlaupi með viðkomu á hótelherberginu sem var skiptistöðin okkar.
Eftir þá æfingu lagði ég mig og dreymdi öldu að koma á móti mér.
Seinnipartinn var svo komið að pastaveislu, keppnisfundi og að skila inn hjólum og skiptisvæðispokum en í þessari keppni var maður með sitt hvorn pokann fyrir T1 og T2.

mynd3
Kolvetnin klikka ekki!

mynd4
Einhver spurði á fundinum hvað yrði gert ef það yrði ekki hægt að synda og ég hugsaði einmitt að ég yrði bara fegin ef sundinu yrði hreinlega sleppt.
Það var pínu erfitt að sofna kvöldið fyrir keppni en ég var samt orðin miklu minna stressuð, það róaði mig að vita að keppnisstjórnin ætlaði auðvitað ekki að demba fólki út í sjóinn ef aðstæður væru tvísýnar. Bylti mér í næstum klukkutíma og fékk mér svo banana og sofnaði.

Keppnisdagur
Vöknuðum kl.6.00 og græjuðum okkur, matur, nuddvörn, sólarvörn, vel heppnaðar klósettferðir og TVÆR sundhettur því ég ætlaði sko ekki að týna sundgleraugunum og var með þau á milli hettanna. Tók líka önnur með mér og var með þau um ökklann. Löbbuðum á keppnissvæðið og vorum mætt um 7.30 en ræs hjá Kára var 8.20 og 8.30 hjá mér. Skiluðum götuskóm og eftirátöskunni í guardarropa. Borðaði banana sem ég hafði tekið með mér. Áætlað hitastig sjávar 14-16°C.
Sjórinn leit mjög vel út og ég var sultuslök, loksins! Þetta sund leit út fyrir að vera vel gerlegt. Horfðum á atvinnuíþróttafólkið byrja kl.8.00 og 8.10 og svo var bara komin röðin að okkur. Það var hópstart og ræstu um 500 karlar saman með Kára. Svo ræstu konurnar sér og ég held að við höfum verið 70-100. Búmm, skotið reið af fallbyssunni og ég labbaði út í sjóinn. Byrjar þá flagan að skrölta við ökklann á mér! Laga í flæðarmálinu eða drífa sig? Ég losaði flöguna og herti festinguna vel og hélt svo áfram. Það var ekkert mál að komast út í, ég var í góðum málum. Verra var að sjá leiðina þó ég hafi mikið æft að kíkja eftir baujum. Endaði á að synda mikið bringusund til að sjá betur, var slétt sama.
Synt var í ferhyrning, fyrri skammhlið og langhlið gengu vel. Ég var því sem næst ein allan tímann eins og ég vissi en sá oft í aðrar konur og það veitti mér öryggi. Svo var seinni skammhliðin þokkaleg en meiri öldugangur þar. Seinni langhliðin var erfið, mér fannst vera straumur á móti mér og erfitt að sjá í baujur út af sólinni. Hugsaði þá til Breta sem var á hótelinu okkar, við höfðum verið að spjalla við hann um reynsluleysi okkar í sjósundi og hann sagði að það væri gott að hafa í huga að þótt manni fyndist manni ekkert miða áfram á móti straumnum, þá væri maður samt að fara áfram. Eitt af betri ráðum sem ég fékk fyrir þessa keppni!
Synti nú að seinustu baujunni og gekk í land, níðþung. Leit á klukkuna og sá að ég hafði náð þessu á undir klukkutíma eins og takmarkið var, flögutíminn var 56 mín. Var svo glöð að hafa náð þessu að ég var ekkert að flýta mér, labbaði inn á skiptisvæðið en hljóp ekki. Varð skítkalt þegar ég var að koma mér úr blautgallanum. Drakk kók, fékk mér mentolbrjóstsykur til hressingar, setti á mig sólarvörn. Fór í tvo hjólajakka og setti á mig eyrnaband. Það var erfitt að renna jökkunum því ég skalf svo mikið. Leit á klukkuna og sá að ég hafði nú dundað mér fulllengi þarna en mér var bara alveg sama um þennan skiptitíma þetta augnablikið því ég hafði komist í gegnum sundið og var að fara að klára þessa keppni nema að ég slasaði mig á hjólinu eða að það myndi bila.
Hljóp af stað að hjólarekkunum, gerði þau mistök að treysta á eigin talningu frá því daginn áður frekar en að horfa á númerin á rekkunum og fór fyrst fram hjá hjólinu. Svo tók ég alveg hálfa til heila mínútu í að bíða eftir GPS sambandi á hjólaúrinu, já ég er Strava fíkill. T1 tíminn minn var tæplega 15 mínútur en ég var ekki pirruð yfir því eftir á heldur fannst það bara fyndið.
Hjólið gekk vel og Sensa hjólið mitt var eins og hugur manns. Það var helst svekkjandi hvað það var mikill vindur. Norska spáin sagði að það hefðu verið 8 m/s. Ég missti hraðann oft undir 20 km/klst, það hafði svo sannarlega ekki verið á áætluninni! Ég hafði bara notað liggistýrið á trainernum inni heima og svo þessi stuttu æfingaskrepp á Spáni dagana fyrir keppni en það gekk ótrúlega vel að nota stýrið. Ég var allavegana dauðfegin að hafa það út af vindinum en hafði vonast eftir að geta hvílt meira á því. Ég fann ekki fyrir neinum eymslum eða dofa nema kannski aumum setbeinum í lokin enda á grjótharða hnakkinum mínum og með mjög þunnan þríþrautarhjólapúða í keppnisgallanum. Var reyndar með aumar axlir daginn eftir sem ég veit ekki hvort var eftir sundið eða hjólið.
Ég var fegin að vera með eyrnabandið og í tveimur jökkum því mér varð aldrei of heitt á hjólinu. Veðrið var nefnilega svipað og daginn áður og ég hafði ákveðið að ef mér yrði heitt að þá ætlaði eg bara að stoppa og setja annan jakkann í bakvasa. Fannst líka gott að vera með nóg af slöngum í bakvösunum. Var samt örugglega mest klæddi keppandinn…
Ég hjólaði bara eftir tilfinningu (á ekki wattamæli), vildi ekki fá háan púls og reyndi að herða mig þegar hraðinn fór undir 23 km/klst. Var ekki með púlsinn á hjólaskjánum en fletti einu sinni yfir á hann og sá að hann var 140. Samkvæmt upptökunni var púlsinn í Z3 allan hjólatímann.
Hjólið var klárlega skemmtilegast og hluti af því sem ég hafði hlakkað til var að borða. Var með stór Corny stykki og fékk mér á um hálftíma fresti. Svo var ég lengi að borða hvert stykki þannig að ég var eiginlega borðandi allan tímann! Fann einu sinni eða tvisvar fyrir hungurtilfinningu þrátt fyrir þetta stanslausa át. Þá hafði kannski liðið heill hálftími á milli fóðrunar. Var með þetta allt í risastórri tösku á stönginni. Ekki neitt straumlínulaga dót. Var líka með gel og borðaði tvö, seinna gelið borðaði ég á seinustu kílómetrunum. Var með vatn í eigin brúsa og svo powerade í upprunalegum brúsa, skröltandi í brúsahaldaranum (kom ekki að sök, hann datt ekki úr enda fínir vegir, mæli samt ekki með þessu).

mynd5
Hjólaðir voru þrír hringir með þremur botnlöngum. Fólk þeyttist fram úr mér og maður mætti öðrum keppendum á hinni akreininni. Var að gá hvort ég sæi Kára þarna einhvers staðar og viti menn, var hann ekki þarna að koma á móti mér! Ég gólaði KÁRI!!! Og HÆÆÆ en þegar furðu lostinn maðurinn leit upp þá mundi ég að Kári hafði ætlað að vera í jakka en ekki svarta og hvíta þríþrautargallanum á hjólinu og þetta var alls ekki hann!
Þegar ég byrjaði þriðja hringinn minn voru næstum engir eftir í brautinni og þá var ekki eins gaman. Þá lenti ég í smá stress atviki því ég hélt að ég hefði gleymt að beygja inn einn botnlangann. Við afleggjara var einn sjálfboðaliði að horfa út í loftið og ein keila. Átti ég að beygja þarna? Átti ég að stoppa og spyrja? Þetta var í þriðja sinn sem ég hjólaði þarna og ég átti að þekkja þetta. Hélt áfram en ekki á fullu afli ef ég skyldi þurfa að snúa við, svona fer skynsemin stundum forgörðum. Kom loksins að réttum botnlanga, þar voru auðvitað þrír starfsmenn og 10 keilur. Gaf í og náði meira að segja að taka fram úr tveimur!

mynd6

Kom nú að drykkjarstöðinni í þriðja sinn, hafði losað mig við tóma powerade flöskuna áður og greip isodrykk í brúsa, sjá mynd! Var nú sennilega óþarfi því það var enn nóg af vatni í vatnsbrúsanum mínum og ég átti enn til gel en hey ég hef aldrei á ævinni gripið brúsa á drykkjarstöð!
Var alltaf að reikna í huganum hvað ég yrði lengi ef ég myndi halda hinum og þessum meðalhraða og það var nóg að gera hjá mér þannig að þessi 3,5 klst leið mjög hratt. Undir lok hjólsins var mér mál að pissa í fyrsta sinn en gerði ekkert í því. Held líka að fugl hafi skitið á hausinn á mér við 80 km en sá engin ummerki um það við skoðun í spegli eftir keppnina.
90 km í hús á 3:33 Meðalhraði 25,5km/klst. Áætlun hefði verið 26 km/klst svo að þetta var á pari. Af hjólinu og hlaupa með það að rekkanum eða hvað? Gat ekki hlaupið heldur skjögraði með hjólið eins og hjólbeinóttur kúreki, fannst eins og liðamótin við setbeinin hefðu færst til og ég þyrfti að krossleggja fætur til að koma þessu í lag. Gerði það samt ekki og labbaði með hjólið að rekkanum og sótti hlaupapokann. Reif mig úr jökkum og öllu hjólatengdu, setti á mig der, hlaupaskó og klessti á mig sólarvörn. Fannst erfitt að setja á mig sólarvörnina, hefði viljað vera með úðabrúsa fyrir allt nema andlitið. Hafði farið í sokka fyrir hjólið og sett á mig tásukrem þá þannig að þar þurfti ekkert að gera. Vildi að það hefðu verið kamrar inni á skiptisvæðinu svo að pissutími yrði hluti af skiptitíma en ekki hlaupatíma. Ákvað að halda í mér þótt það gæti þýtt vanlíðan í hlaupinu. Hljóp af stað, gleymdi að kveikja á hlaupaúrinu, kveikti á því í ofboði, hljóp á svaka hraða 5.50 en 6.00 hafði verið áætlaður hámarkshraði. Eftir kannski 500 m sá ég kamar! Og engin röð! Dreif mig inn og þvílíkur léttir, sá sko ekki eftir að hafa stoppað.
Það var mikil gola á hlaupaleiðinni sem var 4x5km við ströndina. Á kafla var samt skjól og þá varð mjög heitt en hitastigið var samt held ég ekki yfir 20°C. Það var sól allan tímann og ég þakkaði fyrir að hafa haft vit á að kaupa mér þetta der sem ég hljóp með ásamt sólgleraugum. Skýldi mér stundum á bakvið aðra hlaupara í mesta vindinum.

mynd7

Fór að svíða í hægri holhöndina strax á fyrsta hring en ég hef áður fengið nuddsár þarna þegar ég hef hlaupið í ermalausu. Hafði ekki sett nuddkrem þarna í T2, bara sólarvörn. Reyndi að lyfta hendinni og harkaði þetta af mér, þetta verður bara vont seinna, nú þarf ég að hlaupa. Fór svo að hella vatni á þetta á drykkjarstöðinni og það hjálpaði mikið.
Brautin var hlaupin fram og tilbaka og þannig að maður fór tvisvar í gegnum drykkjarstöðina á hverjum 5 km hring.
Það var mjög gaman að hlaupa svona fram og til baka því þá hittir maður svo marga. Við Kári hittumst oft og hann hvatti mig en mér datt ekkert sniðugt í hug til að segja. Held að við höfum náð allavega einni fimmu.

mynd8
Ég var búin að hlakka mikið til að fara að hlaupa því þá er maður svo öruggur. Í hlaupi fær maður ekki sjó upp í sig eða sprengir dekk. Ég get líka vel hlaupið í tvo tíma, finnst það ekkert ógnvænlegt, er eins og áður sagði ekkert að fara á neinum afrekshraða. En það verður að segjast að hlaupið var mjög erfitt. Mig langaði SVO mikið að labba. Byrjaði eins og fyrr segir á 6.00 (besti hraði) en hægði fljótlega á mér og var mikið á 6.15 fyrri helminginn en seinustu 9 km hægði ég verulega á mér, niður í 6.40 sirka. Leyfði mér að labba við drykkjarstöðina og svo labbaði ég tvö gel af fjórum. Var líka með háan púls, 161-166 slög og fannst það vera zone 4 púlsinn minn og vildi reyna að ná honum niður. Þarf að endurskoða þetta því varla var ég í Z4 í yfir 2 klst.
Kári var kominn í mark og í finisher bol þegar ég byrjaði seinasta hringinn. Þetta var allt að ganga upp hjá mér. Mikið farið að fækka í brautinni en ekki jafn einmanalegt og á seinasta hjólahringnum. Svo var bara komið að þessu. Seinasti kílómetrinn! Kláraði hlaupið á 2:17:06 (pace 6.30) með pissustoppi og smá labbi! Markmiðið hafði verið 2:14. Kári tók á móti mér í markinu. Mikið var þetta skrýtið, tveggja ára undirbúningur og markmiðið í höfn, ég brosti hringinn en djöfull var ég búin á því. Dreif mig samt í niðurskokk því mig vantaði nokkur hundruð metra inn á úrið frá því ég gleymdi að setja það af stað og ég hleyp sko ekki hálft maraþon án þess að það fari inn á Strava!
Þetta tók mig sem sagt 7 klst og 7 mín sem var á pari við væntingar.
Borðaði banana og iso drykk, tókum myndir af okkur í bolunum, náðum í dótið okkar og löbbuðum heim í sturtu. Borðuðum á McDonalds því ég nýt mín ekki við dúkað borð eftir svona átök! Hafið ekki áhyggjur, næsta dag fórum við á tapas stað með hvítum dúkum.

mynd10

Mig langar að þakka fullt af fólki fyrir ýmsa aðstoð við undirbúning. Kára, manninum mínum, fyrir að drífa sig með mér og vera hjólaviðgerðarmaður. Stóra stelpan okkar, Anna Valgerður, tók að sér að passa yngri systkin sín mjög mikið, þurfti oft að koma þeim ein í rúmið og það er sko ekki auðvelt. Takk elsku Anna mín 🙂
Foreldrar okkar beggja hjálpuðu mikið við pössun. Þegar við fórum á hjólaæfingar á sunnudagsmorgnum kl.8.00 þá sóttu tengdó krakkana um tíuleytið og fóru með þau heim til sín í morgunmat. Við komum svo og sóttum þau og fengum dýrindis mat í leiðinni. Mamma mín sá um ballettinn hjá þeirri 5 ára og þá hlupum við langa hlaupið á meðan. Svo hefur sú amma verið ótrúlega þolinmóð á pössunarútkallsvakt og þau pabbi margoft tekið börnin í bústað yfir helgi. Vigdís, Ragnheiður, Gunnar Ingi og Halldór, takk innilega fyrir hjálpina.
Ég vil þakka þjálfurunum hjá Ægi3; Geir, Gylfa og sérstaklega Óla sem hefur verið þolinmóður að gefa mér ráð og hafa trú á mér. Löngu brick æfingarnar hjá Karen Axels skiluðu líka sínu.
Vinir, vinnu- og æfingafélagar gáfu, lánuðu eða seldu ódýrt ýmsar græjur sem okkur vantaði: Guðrún Jóns og Brynja Stefáns (þær voru líka svo duglegar að hvetja mig, ég veit að þið trúið ekki hvað ég hugsaði mikið til ykkar og um mörg góð ráð sem ég fékk frá ykkur), Anna Helgadóttir og Gúa Geirs (eðalteymi), Ólafur Þór M, Trausti Vald, Siggi Tommi.
Ég mæli með Salou keppninni fyrir þá sem eru til í að fara í keppni svona snemma á árinu. 2020 verður keppnin 29.mars. Ég hef auðvitað ekki samanburð en keppnisleiðirnar eru mjög fínar og það er úrval hótela í göngufæri við keppnissvæðið, 3 km í stóra íþróttabúð ef þú gleymdir einhverju heima, menningin er þægileg, flestir með posa og nokkuð góðar samgöngur. Það er heldur ekki of heitt á þessum árstíma.

Nú er auðvitað spurningin hvað er næst, hvort maður hugsi stærra. Heill járnkarl finnst mér vera í allt annarri deild en það væri nú alveg gaman að fara aftur í hálfan. Daginn eftir keppnina, þegar ég var með svo miklar harðsperrur í lærunum að ég gat ekki sest niður án þess að styðja mig við, þá hugsaði ég að þetta hafi nú ekki verið svo erfitt? Þetta var nú samt erfitt.
Í ágúst ætlum við hjónin að taka þátt í Glacier360.is sem er þriggja daga hjólakeppni (ef einhver sem vill ólmur styrkja okkur þá vantar okkur Kára liðsbúninga fyrir þann viðburð) þannig að það má ekkert slá slöku við í sumar. Ég ætla líka í nokkrar íslenskar þríþrautarkeppnir og vonast til að hitta sem flesta í ólympískri þraut eða hálfum járnkarli á Laugarvatni 15.júní (sjá https://www.aegir3.is/laugarvatnsthrautin ).
Takk fyrir lesturinn, þið sem hélduð þetta út!

Uppgjör á járnglímu

Satt best að segja þá langaði mig ekkert til að skrifa keppnissögu eftir þessa keppni. En Gísli gafst ekkert upp og ég lét mig hafa mig það 😉  Maður hefur gott af því að fara yfir keppnina og skoða hvað gekk vel og hvað má gera betur.

Aðdragandinn:

Eftir Ironman í Texas í lok apríl vissi ég að ég ætti meira inni, bæði í sundinu og hlaupinu. Svo þegar ég sá fram á að hafa aðeins rýmri æfingatíma um sumarið og ennþá opin skráning í Köben ákvað ég að slá til. Skráði mig í Köben og og við Rúnar (#feelgoodtraining) settum saman massíft æfingaplan fyrir sumarið. Æfingarnar fóru mjög vel af stað, var með mikla áherslu á sundið og hlaupin og var að ná að æfa ca 15-20 tíma á viku sem er töluvert meira en ég hef verið að gera hingað til. Í byrjun júlí fór ég svo að finna fyrir verk í nára, fyrst bara eftir hlaup og svo í upphafi hlaupa líka en alltaf fór verkurinn eftir smá stund þannig ég hafði ekki miklar áhyggjur og hélt mínu striki. Í lok júlí, um 3 vikum fyrir keppni, var verkurinn enn að versna og ég var farin að finna til við gang. Nú voru góð ráð dýr. Allir sjúkraþjálfarar í fríi en Baldur var svo góður að troða mér að. Niðurstaðan var stífur psoas vöðvi og bólga í mjöðm. Hvíla hjól og hlaup á meðan þetta jafnar sig, úff. En ég nýtti vel á meðan og synti eins og selur á meðan. 2 vikur í hvíld, psoas-inn orðinn sultuslakur, 10 dagar í keppni og ég ekkert betri. Hvað nú? Tókst að troða mér að hjá bæklunarlækni. Röntgen af liðnum og allt leit vel út. Þá var það síðasta hálmstráið, sprauta sterum í liðinn og vona að það dragi úr bólgu og verkjum. Eftir sterasprautu þarf að hvíla alveg þannig að ég mátti ekkert gera nema synda þangað til 3 dögum fyrir keppni. Ég fór og reyndi að hugsa ekkert alltof mikið um þetta, reyna að vera jákvæð og vona það besta. Vona að þetta smelli allt saman. Syndi nokkrum sinnum í brautinni og sá að sundið var að lofa góðu. Fimmtudag fyrir keppni gat ég loksins prófað að hjóla og hlaupa, þá var ég ekkert búin að hlaupa í 3 vikur og ekkert búin að hjóla í 2 vikur. Hjólaði bara rólega og allt í góðum gír 🙂 Prófaði svo að hlaupa. Hljóp mjög rólega í 15 mín. Fann ekkert svo mikið til, jú þetta gæti gengið. Hjúkk. Á föstudag ætlaði ég svo aftur að hlaupa smá til að koma löppunum í gang fyrir sunnudag. Skokkaði rólega af stað og fann strax að þetta var ekki að gerast. Andskotinn sjálfur! Best að stoppa bara og reyna að gera ekki illt verra. Reyndi eins og ég gat að hugsa sem minnst um þetta, ekkert hægt að gera úr þessu nema fara af stað og vona það besta.

Keppnismorgunn:

Vaknaði kl. 3:30 til að geta verið mætt í startið um leið og skiptisvæðið opnaði klukkan 5:00. Ætlaði sko ekki að lenda í sama stressinu og í Texas 😮 Hafragrautur með nutella og banana og kaffi. Lokatékk á dótinu og rölta svo út á lestarstöð. Vorum komin á skiptisvæðið rétt rúmlega fimm. Nægur tími og ég hef aldrei verið jafn afslöppuð fyrir keppni. Kannski reynslan eða þá að loksins var ég frekar örugg með sundið. Gott að vera komin svona snemma því þá er engin röð á klósettið og ennþá þokkalega snyrtilegt. Búin að græja næringu á hjólið, pumpa í dekkin og fara tvisvar að pissa. Allt klárt, klukkan bara 6 og startið mitt ekki fyrr en 7:30! Settist bara niður og slappaði aðeins af, meira að segja nægur tími til að fara enn einu sinni að pissa með tilheyrandi biðröð. Koma sér í gallann í rólegheitunum og skila fatapokanum (street bag.) Rölti svo með Hafdísi að upphitunarsvæðinu að “hita upp” fyrir sundið, samt aðallega til að venjast kuldanum og pissa enn einu sinni. Vatnið var um 19 gráður, ekki beint kalt en gott að venjast aðeins. Fór svo í sundhólfið mitt, bleiku hetturnar. Besta skipulag sem ég hef séð á sundstartinu. Maður valdi sér lit á sundhettu miðað við áætlaðan sundtíma og þannig var ekkert mál að finna sinn hóp. Gekk mjög vel að koma öllum ofan í og á slaginu 7:30 hljóp ég út í Amager Strandpark.

MP1

Sundið (3993m; 1:18:55; hraði 1:58; AG 33):

Hef alltaf hlakkað til að vera búin með sundið en núna naut ég þess að synda. Gekk pínu brösuglega til að byrja, sundgleraugun vildu ekki vera til friðs og voru að leka en það hafðist eftir 3 stutt stopp og nú gat ég rúllað mitt sund. Planið var að halda sub 2:00 pace, smá mótstraumur að fyrsta snúningspunkti þannig að ég vissi ég yrði aðeins hægari þar og myndi svo vinna það upp á leiðinni tilbaka. Komin að snúningspunkti, pace 2:05. Yes, spot on og ennþá í þrusufíling. Nú er bara að halda dampi á leiðinni tilbaka. Var búin að vera inni í þvögunni mest allan tímann en var allt í einu orðin ein. Leit aðeins í kringum mig og sá góðan hóp aðeins fyrir framan mig. Best að gefa aðeins í og ná þeim og það tók stuttan tíma. Síðasta brúin, þetta er bara alveg að verða búið. Leit á úrið, 1:59 meðalhraði. Vá hvað ég var glöð 🙂 Allir í einni kássu að busla í kringum snúningspunktinn og svo bara nokkur hundruð metrar eftir. Fæ þá þennan líka rosa krampa í annan kálfann. Anda rólega, halda áfram að synda og reyna að slaka á kálfanum. Best að gefa aðeins í og klára þetta með trompi. Upp úr vatninu, meðalhraði 1:58. Hell yeah!! Fyrsta markmiði náð 🙂

T1 (06:02):

Ná í pokann og var send inn í skiptitjald, konur mega sko ekki fara úr blautgallanum undir berum himni 😮 Enga stund að rífa mig úr gallanum. Í sokka, skó og hjálm, pokinn á sinn stað og skokka að hjólinu. Ok, kálfinn pínu tæpur á að krampa aftur þannig að líklega best að labba bara. Skiptisvæðið virtist endalaust langt, en var samt bara 500m

MPhjólHjólið (178 km; 5:33:40; hraði 32,6 km/klst; AG 14; 5 mín í skammarkróknum):

Alltaf gott að komast á hjólið en samt var eitthvað ekki í lagi. Axlirnar svolítið stífar eftir sundið og púlsinn hár en lappirnar góðar þannig að ég hlýt að detta í gírinn. Endalaust sikk sakk í gegnum bæinn en ágætis hraði. Komin á Strandvejen og get núna farið að sigla á mínum wöttum. En alveg sama hvað ég reyni, næ ekki að halda mínum wöttum og púlsinn er ennþá alltof hár. Kannski hreyfingaleysi síðustu vikna eða bara hausinn með stæla. Bara reyna sitt besta og velta sér ekkert alltof mikið upp úr þessu. Gaman að rúlla í gegnum dönsku sveitina og nóg um að vera í brautinni, upp og niður og beygjur. Mikill munur að koma svona snemma úr sundinu (startaði líka framar en vanalega) og þurfa ekki að vera eins mikið að taka framúr. Gríp banana og vatn á öllum drykkjarstöðvum. Sötra á orkudrykk og narta í haribo gummi bears þess á milli. Orkan fín en allt kemur fyrir ekki. Jey, fyrri hringurinn að klárast og þetta gengur nú alveg þokkalega. Andsk…mjöðmin farin að láta vita af sér. Hélt ég myndi sleppa í gegnum hjólið án verkja :-/ Var vel birg af verkjalyfjunum þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að byrja á þeim því ég vildi ekki fara verkjuð inn í hlaupið. Verkurinn horfinn, gott mál. Áhyggjur af hlaupinu farnar að laumast að en ég reyni að halda þeim frá. Rúllaði á eftir nokkrum strákum stóran part af seinni hringnum og ágætt að geta einbeitt sér að því að elta einhvern þá líður tíminn ansi hraðar. Þeir hurfu svo í einni brekkunni. Hélt áfram að taka framúr nokkrum en enginn á sama hraða til að fylgja eftir. Lappirnar orðnar pínu þungar og hausinn aðeins að stríða mér, ekki alveg að nenna þessu lengur. Eftir skóginn tók við hraðbrautin. Þá fer þetta að styttast. Rúlla niður þessu fínu brekku og gleymi mér aðeins í gleðinni. Er beint fyrir aftan annan hjólara og dómarinn kemur og flautar á mig. 5 mín í skammarkrókinn með þig. Ansans, átti þetta fyllilega skilið en þvílíkur klaufaskapur. Missi pínu dampinn meðan ég rúlla að næsta penalty boxi. Verulega erfitt að standa kyrr í 5 mínútur og horfa á stelpurnar sem ég var búin að taka framúr rúlla framhjá 😦 Loksins kemst ég af stað aftur, bara 20 km eftir.

T2 (04:57):

Eins og það er gott að komast á hjólið þá er líka jafngott að komast af því eftir 5-6 tíma setu og nuddsár á stöðum sem maður hélt væri ekki hægt að fá sár á. Sjálfboðaliðar grípa hjólið og ég fer beint að finna pokann minn. Sest niður og klæði mig rólega í hlaupaskó, der, sólgleraugu og númerabelti. Léttur kvíðahnútur í maganum, mun ég geta hlaupið? Rölti og skila pokanum og byrja að rölta útaf skiptisvæðinu, þori varla að byrja að hlaupa. En samt, 1, 2 og af stað!

MP2

Hlaupið (42,2 km; 4:55:24; pace 7:00; AG 29):

Úff! Alltaf jafn erfitt að byrja að hlaupa og svo þurfum við að hlaupa upp brekku út úr T2 WTF! Lappirnar pínu stífar en engir verkir!. Kílómeter tvö og ég er komin á pace-ið mitt 🙂 5 km og ég er ennþá á fínum hraða og þetta virtist ætla að ganga. Rek tánna í götustein og þarf að setja hægri (vonda) fótinn snögglega fram, þvílíkur sársauki. Núna er þetta búið 😦 Var með þvílíkan verk í mjöðminni og langaði mest að setjast niður og grenja, af sársauka og vonbrigðum. Náði samt að sannfæra sjálfa mig til að skokka rólega áfram meðan verkurinn hjaðnaði og tók verkjatöflu á næstu drykkjarstöð. Eftir 1-2 km var verkurinn að mestu farinn og bjartsýnin tók aftur við. Stuttu seinna fæ ég nístandi verk í vinstra hnéð. Andskotinn sjálfur, engin hlaup nokkrar vikur fyrir maraþon er ekki líklegt til árangurs. Reyni að skokka áfram en neyðist á endanum til að labba meðan verkurinn hjaðnar. „Jæja, ætti ég bara að láta þetta gott heita og hætta núna? Ég er ekki að fara að hlaupa mikið meira. Nei, andskotinn ég er ekki að fara að hætta. Hvað ætli ég sé lengi að labba þetta? Nei, Jesús þá verð ég langt fram að kvöld að þessu. Best að reyna að skokka smá.“ Kláraði svo restina af hlaupinu, rúma 35 km með því að skokka rólega þangað til verkurinn var orðinn óbærilegur (annaðhvort í mjöðminni eða hnénu) og labba svo þangað til verkurinn hjaðnaði aftur. Eftir 28 km var úrið orðið batteríslaust og ég gerði mér engan grein fyrir hvað ég var að fara hratt/hægt. Fannst hlaupið engan endi ætla að taka og var orðin svo rugluð í hausnum á tímabili að ég hélt ég væri að fara að klára þetta á 13 tímum. Þvílíkur léttir þegar ég fékk loksins að hlaupa inn rauða dregilinn og sá að tíminn var þó alla vega undir 12 tímum.

Lokatími 11:58:58

Lélagasti Ironman-tíminn minn hingað til en aldrei verið jafn erfitt að klára, Rétt náði þó undir 12 tíma, það er eitthvað ;p. Sjúklega ánægð með 7 mínútna bætingu í sundinu sem er að mestu að þakka æfingum á sundbekknum. Þarf aðeins að taka hausinn í gegn á hjólinu en hann er helsta ástæðan fyrir því að ég náði ekki mínum markmiðum þar. Ætla ég aftur? Jú, ætli það ekki. Veit samt ekki alveg hvenær það verður 😉 Tveir Ironman á þessu ári er alveg ágætt 😉

Járnið í Kaupinhafn

Sunnudagurinn verður mikill járndagur! Þá keppa þessi í Kaupmannahafnarjárninu.

431 Stefan Karl Saevarsson   M35-39 Bronze Heleneholms Tri Team ISL (Iceland)
432 Benedikt Sigurdsson       M50-54 Bronze ISL (Iceland
2477 Margret Palsdottir         F40-44 Thriko ISL (Iceland)
2478 Hafdis Helgadottir        F40-44 ISL (Iceland)
2479 Didrik Stefansson          M30-34 ISL (Iceland)
2480 Runar Orn Agustsson M30-34 ISL (Iceland)
2481 Leó Einarsson               M30-34 ISL (Iceland)
2482 Einar Sigurjónsson        M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2483 Arnar Ingolfsson           M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2484 Solvi Thordarson          M35-39 Aegir 3 ISL (Iceland)
2485 Johannes Gunnarsson    M35-39 ISL (Iceland)
2486 Helgi Snæbjörnsson      M40-44 Vejen Tri og Motion ISL (Iceland)
2487 Ragnar Gudmundsson M50-54 ISL (Iceland)
2488 Sveinn Simonarson       M55-59 3SH ISL (Iceland)
2489 Bogi Jonsson                 M60-64 ISL (Iceland)

Við mörlandar fjölmenntum fyrst til Kaupmannahafnar 2010 og það þótti svo fréttnæmt að baksíða Moggans birti þetta viðtal við Vigni og Karen.

Vignir ogKaren 2010

2015 var gott ár fyrir okkur. Þá komst Geir Ómarsson til Kona.

Screenshot 2015-08-23 14.20.06Í gær fór fram Járnmannskeppni í Kaupmannahöfn, þar sem syntir eru 3,8 km í sjó, hjólaðir 180 km um Sjáland og nágrenni og endað á maraþoni. Fulltrúi íslenska þríþrautarsamfélagsins var Geir Ómarsson, sem keppir fyrir Ægir3, og nægði árangur hans til sætis á heimsmeistaramótinu á Havaí sem fer fram í október ár hvert og þykir mikil vegsemd að komast þangað. Árangur Geirs var sem hér segir:geirkoben

Þetta er þriðji besti árangur Íslendings í járnmanni en besta tímann(8:56;29) á Stefán Guðmundsson sem hann setti í Kaupmannahöfn í fyrra. Með þessum árangri er Geir sá fimmti sem vinnur sér inn keppnisrétt í Kona.

Maraþontími Geirs er sá sjötti besti í keppninni í Kaupmannahöfn og hefði dugað í verðlaunasæti í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. En þar þurftu keppendur víst ekki að synda og hjóla í rúma sex tíma fyrst.

Á meðfylgjandi mynd sést Geir á endasprettinum og gleðin leynir sér ekki þegar hann stekkur yfir marklínuna.

2016 gerði Rúnar Örn góða reisu til Kaupmannahafnar:

11 Íslendingar glímdu við danska járnið í dag.

runaraskiptisvæði

Fremstur í flokki þeirra var Rúnar Örn Ágústsson (Breiðablik) sem synti á 58,39 mínútum, hjólaði á 4:37,49 og hljóp maraþonið á 3:02,49. Heildartími hans er 8 klukkustundir, 43 mínútur og 31 sekúnda. Þessi árangur skilar honum í 14. sæti í heildina og silfri í aldursflokkinum 30-34 ára sem þýðir sæti á heimsmeistaramótinu í Kona á Havaí.

Þetta er gaman að rifja upp í tilefni sunnudagsins. Væntanlega vöknum við snemma sem heima sitjum, tékkum á sundtímum félaga okkar og tökum svo sunnudagsæfinguna með þau hjóla.

Kátt í Kjósinni

Þríþrautarfélögin á suðvesturhorninu héldu sameiginlega hálfólympíska þraut við Meðalfellsvatn í Kjós í dag við kjöraðstæður og þar var glatt á hjalla eins og meðfylgjandi myndir sýna.

IMG-1765
Vatnið þótti þægilega volgt, 13 gráður og keppendur þyrptust út í til að bleyta sig og venja sig við. Rásmarkið var við baujuna sem sést vinstra megin á myndinni.

En engin keppni er án starfsmanna sem bera hitann og þungann af skipulagi, undirbúningi og framkvæmd og þessi fríði hópur var mættur til starfa.

IMG-1763

Þríþraut er fjölskyldusport og tengslanetið lá víða. Margir höfðu meðferðis börn og skyldmenni og fulltrúar stórfjölskyldu Trausta Valdimarssonar voru í sólskinsskapi eftir keppnina.

IMG-1766

Og svo var komið að verðlaunaafhendingu. Hér eru allir sem fengu medalíu um hálsinn. Öll úrslit er að finna hér. Seinna verður bætt við myndum sem hirðljósmyndari ÞRÍ tók. Hákon Hrafn sigraði í opnum karlaflokki, Sigurður Tómas var annar og Ólafur Magnússon þriðji en Rannveig kom fyrst í mark í kvennaflokki, síðan Birna Íris og þá Steffi Gregersen.

IMG-1771

 

Heimsmeistarinn okkar

Tvíþrautina sund+hlaup köllum við í daglegu tali Marbendil, einkum ef synt er í sjó. Á ITU Multisport-leikunum á Fjóni á vegum Alþjóðaþríþrautarsambandsins var einmitt keppt í Marbendli sem var 1 km sund og 5 km hlaup. Þar sigraði Guðlaug Edda Hannesdóttir og er því heimsmeistari í þessari grein.

Hún varð önnur upp úr vatninu (tími 12:16) en þar voru fremstu stelpurnar mjög jafnar. Hún byggði upp forskot jafnt og þétt í hlaupinu (tími 18:11) og kom í mark á tímanum 31:15 og varð 48 sek á undan Hannah Kitchen frá Bretlandi sem varð önnur. Vida Medic frá Serbíu kom svo 14 sek á eftir í 3. sæti. 

Þessi sigur setur Guðlaugu Eddu og Ísland rækilega á þríþrautarkortið en áhersla hennar er stigasöfnun fyrir Ólympíuleikana 2020. Guðlaug Edda hlaut styrk hjá Ólympíusamhjálpinni í maí en lenti svo í slysi í þríþrautarkeppni í júní og fékk heilahristing. Hún hefur lent í ýmsum hremmingum í keppnum síðustu 3 árin en nær alltaf að ná 100% fókus fljótt aftur eins og þessi sigur  sýnir sannarlega.

Þríþrautin er enn að slíta barnsskónum hér heima og þá skiptir miklu að hafa góðar fyrirmyndir varðandi nýliðun í íþróttinni. Sérsambönd sem státa af heimsmeistara eru ekki mörg en við í ÞRÍ erum þar á meðal. Ef einhver vantar hvatningu, er tilvalið að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.

Laugarvatnsþríþrautin 2018 – Keppnissaga

36063336_2113078438903626_4421715126684483584_nSigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Undanfarin þrjú ár hef ég tekið þátt í Ólympísku þríþrautinni sem haldin er á Laugarvatni og finnst þetta alltaf jafn skemmtileg keppni. Það er eitthvað heillandi við að synda í „opnu“ vatni samanborið við sundlaug en eini gallinn við slíkar keppnir á Íslandi er hitastigið, sem hefur jú verið ansi mikið að stríða landanum þetta árið – sér í lagi á suðvestur horninu þar sem hitinn hefur vart skriðið yfir 13 gráðurnar. Í ljósi þess hversu kalt vatnið var í fyrra ásamt lofthitanum, með tilheyrandi vandamálum sem sköpuðust fyrir keppendur, var ráðist í aðgerðir við að setja upp reglugerðir sem ákvarða lengd sundleggs í „opnu“ vatni á Íslandi út frá þessum tveimur mælieiningum. Þríþrautasambandið skilaði af sér góðri vinnu þar sem tafla var gefin út og kemur þar skýrt fram hvernig haga skuli keppni hvað sundið varðar – þ.e. hvort stytta þurfi úr 1500m niður í 750, eða hreinlega sleppa sundinu og breyta keppni yfir í tvíþraut. Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn nokkuð stressaður fyrir þessum breytingum daginn fyrir keppni, enda hefur sundið ætíð verið minn sterki hluti þríþrautarinnar og oft á tíðum næ ég góðu forskoti þar fyrir hjólið. Það leit út fyrir að þetta gæti sloppið, er stöðugar mælingar á vatninu nokkra daga fyrir keppni gáfu fyrirheit um að hitinn gæti verið eitthvað um 13 gráður. Íslensk veðrátta hafði þó ekki sagt sitt síðasta og kólnaði vatnið um heilar tvær gráður á jafn mörgum dögum. Um morguninn á keppnisdag voru vatnshiti og lofthitastig 11 gráður og því ákvörðun tekin um að stytta sundið í 750m. Þannig urðu vegalengdirnar því 750m sund, 40 km hjól og 10 km hlaup.

Undirbúningurinn

Ég fór í bústað í Grímsnesi daginn fyrir keppni til að koma mér í gírinn og undirbúa mig fyrir átök morgundagsins. Æfingarnar síðustu þrjár vikurnar fyrir keppni höfðu verið góðar en heildarmagnið var um 68 klst, með 17 klukkustunda „keppnisviku“. Í vetur hef ég verið að vinna mikið í æfingamagninu og álaginu en eftir að hafa kynnst æfingaaðferð norska landsliðsins í þríþraut miðast flestar æfingar hjá mér við að eyða langmestum tíma æfinganna í „léttum gír“, þ.e. það sem við köllum Zone 1 eða 2. Þessi ákefð er um 80 prósent af heildartímanum sem fer í æfingar en restin, 20 prósent, er á mjög háu álagi. Bætingarnar í sumar hafa ekki látið á sér standa eftir að hafa tekið upp þessar æfingar en mest hefur framförin verið á hjólinu. Ég var því nokkuð stressaður fyrir því að sundið yrði stytt á keppnisdag en vissi samt sem áður að ég ætti nóg inni til að geta átt góðan hjólalegg og þar með skákað helstu keppinautum mínum þegar á reyndi.

Bústaðurinn er í um hálftíma fjarlægð frá Laugarvatni og því skellti ég mér á laugardagsmorgun í smá brautarskoðun. Hjólabrautin var önnur þetta árið heldur en undanfarin ár sökum vegaframkvæmda á afleggjaranum meðfram Svínavatni en hún fól í sér snarpa hækkun upp á Lyngdalsheiði með nokkrum flötum og hröðum köflum. Ég hugsaði að þessi braut hentaði mér ágætlega, enda búinn að léttast talsvert síðan í fyrra og því gæti ég náð betri árangri í slíkri braut heldur en flatri og hraðri braut. Ég setti því upp plan um það hvernig ég ætlaði að taka brekkuna upp á heiðina, í hvaða gír væri best að vera og hvort ég gæti setið eða staðið hjólið upp brattasta hluta brekkunnar. Markmiðið var að halda að meðaltali milli 330-340W yfir hjólalegginn, með smá auka ákefð upp á heiði samanborið við leiðina niður. Ég var nokkuð sannfærður um að ég gæti haldið þessari ákefð þar sem að í meðaltali voru wöttin um 350W í hálf-Ólympísku þrautinni í Hafnarfirði þremur vikum áður. Ég var með 52-36T að framan á TT hjólinu hjá mér sem gaf mér fræðilegan hámarkshraða upp á 54 km/klst á um 90 snúningum og því vissi ég að á leiðinni niður yrði erfitt að halda sömu wöttum og upp á við (verkfræðingurinn alltaf að reikna út dæmið, sko 😛 ).
Í einfaldri mynd var því planið: meiri ákefð upp – minni niður.

Með þessa vitneskju var planið næst að fara í vatnið og finna hitastigið. Ég klæddi mig í blautgallann og prófaði að synda léttan kílómeter í vatninu. Eins og alltaf, var mjög kalt til að byrja með en svo hitnaði aðeins og mér leið bara nokkuð vel. Ég fékk síðar að vita að hitastigið hafi verið milli 11 og 12 gráður þennan dag og því var ég nokkuð viss um hvernig tilfinningin yrði daginn eftir í keppninni. Ég skellti mér svo bara í sund og fór beint í pottinn til að ná upp líkamshita aftur og hafði svo notalegan eftirmiðdag að horfa á HM og fara yfir keppnisplanið í huganum.

Kvöldið fyrir keppnisdaginn hélt ég síðan úr bústaðnum okkar og á Laugarvatn, þar sem ég átti pantaða gistingu á Hótel Eddu. Í fyrra hafði ég verið ansi tæpur á tíma, sem varð að lokum til þess að ég átti í erfiðleikum á hjólinu og hálf eyðilagði keppnina fyrir sjálfum mér. Ég ætlaði því ekki að láta það koma fyrir aftur og vildi því vera viðstaddur innan við 200 metra frá skiptisvæðinu. Það yrði því erfitt fyrir prófessorinn mig að klúðra því (aldrei segja aldrei, þó!).

Keppnisdagurinn

Ég vaknaði 6:30 um morgun keppnisdags, á sama tíma og ég vakna alla daga og var strax spenntur fyrir keppninni. Undirbúningurinn var búinn að vera góður og nú átti ég bara eftir að framkvæma og sjá hvað myndi gerast. Ég borðaði morgunmat á herberginu og hélt svo út niður á skiptisvæði. Ég náði, aldrei þessu vant að taka góða upphitun á hjólinu og var tímanlega að setja allt upp fyrir skiptingarnar. Á keppnisfundinum kom í ljós að vatnið var 11 gráður sem og lofthiti og var sundið því stytt úr 1500m í 750m. Ég var búinn að búa mig undir þetta í huganum kvöldið áður og því ekkert að gera en að sprengja þessa 750 metra og ná eins góðu forskoti og hægt var fyrir hjólið.

Eftir að hafa græjað mig í blautgallann tók ég smá upphitun í vatninu. Frá gærdeginum vissi ég að fyrstu augnablikin yrðu nokkuð erfið eftir að ég fór út í vatnið og því mikilvægt að ná að slaka á og venjast kuldanum aðeins áður en að keppnin hófst. Ég synti nokkrar ferðir fram og til baka þangað til hjartað var komið í gang og lét það þá gott heita. Þá kom ég mér upp á startlínunni og beið – 90 sekúndur í start samkvæmt þeim sem stóðu á bakkanum og sáu um ræsinguna.

Sundið

BAM – allir af stað og ég henti mér áfram með því að spyrna mér í botninn og síðan fóru hendurnar á fullt. Ég passaði mig samt að fara af stað á ekki alveg fullri ákefð enda væri þá hætta á því að ég stífnaði upp í köldu vatninu. Vöðvarnir þurfa tíma til að venjast svona háu álagi í kulda og því mikilvægt að leyfa pumpunni að ganga nokkuð vel og koma blóði til helstu vöðva án þess að sprengja sig alveg. Ég var orðinn nokkuð góður þegar ég kom að fyrstu bauju, og þá jók ég álagið örlítið. Ég hugsaði vel um öndun, slakaði á og lét mig renna vel í hverju taki, passaði olnbogann, hvernig höndin kom ofan í vatnið, engar loftbólur í lófana – allt þetta helsta. Ég hef lært það í gegnum öll mín sund-ár að um leið og maður tapar tækninni, er hraðinn fljótur að detta niður og því vildi ég halda eins mikið og ég gat í rétta tækni allan tímann og það tók á vissan hátt athyglina frá kuldanum og álaginu. Áður en langt um leið var ég kominn hringinn og kom upp úr vatninu á um það bil 9 mínútum og 30 sekúndum, meðalhraði upp á 1:15-1:16/100m sirka og nokkuð sáttur við það í þessum aðstæðum. Ég kom mér fljótt upp úr og inn á skiptisvæðið þar sem hjólið beið mín. Keppendur höfðu verið beðnir um að fara í yfirhafnir af dómurum keppninnar á hjólinu og því var ég með eina slíka. Það reyndist nokkur þrautaganga að koma sér í peysuna, enda líkaminn þreyttur, blautur og kaldur og ég að hugsa um forskotið sem ég væri að glata með því að troða mér í þessa peysu. Það gekk ekkert allt of vel framan af en loksins komst ég í yfirhöfnina og dúndraði af stað á hjólinu upp brekkuna frá skiptisvæðinu á Laugarvatni og út á veginn í átt að Lyngdalsheiði.

Hjólið

Áður en ég vissi af var ég kominn í gegnum hringtorgið hjá Laugarvatnsafleggjaranum og stefndi upp á Lyngdalsheiðina. Eftir að hafa hjólað leiðina daginn áður var ég með leiðina í hausnum og vissi hvernig ég ætlaði að tækla brekkuna og ferðirnar fram og til baka. Það gekk ágætlega að koma afli úr löppunum í hjólið og planið gekk vel þangað til ég var hér um bil hálfnaður með fyrstu ferð. Þá var eins og það drægi aðeins úr kraftinum í kerfinu hjá mér og ég náði ekki að setja það afl í hjólið sem ég var búinn að ákveða að gera, sama hvað ég reyndi. Ég náði samt að halda nokkuð góðum wöttum en var um 15-20 undir því sem ég hafði sett mér sem markmið fyrir keppnina. Nú var því bara að gera það besta úr þessu og vona að það væri nóg til að missa keppinautana ekki of nálægt mér eða langt fram úr áður en að hlaupið byrjaði. Eftir fyrstu ferð sá ég að það voru um það bil 2 mínútur í Rúnar Örn og nokkrar sekúndur í viðbót þangað til Hákon kæmi en ég vissi í raun ekki hvernig þeir höfðu synt svo ég var ekki alveg með á hreinu þarna eftir fyrsta snúning hvort þeir væru búnir að draga mikið á mig. Ég reyndi því bara að einbeita mér að pedalatækninni og að ná góðum snúningum án þess að sýra lappirnar of mikið. Ég keyrði svoleiðis niður eftir leiðina til baka og á seinni snúning, eftir einn hring af tveimur sá ég að forskotið var komið niður í 90 sekúndur á Rúnar Örn. Ég gæti því gert ráð fyrir því að hann væri að draga á mig um allavega mínútu á hverjum hring. Seinni hringinn kárnaði gamanið hjá mér en þá duttu wöttin enn meira niður á við, ég var fastur í um 315W í staðinn fyrir þessi 330-340 sem ég hafði sett mér markmið um og því reyndi ég bara mitt besta til að halda því stöðugu. Leiðin upp á heiðina í annað skiptið var þung og erfið og erfitt að koma löppunum í gírinn eftir klifrið til að ná upp hraða fyrir flata kaflann á heiðinni. Það hafðist þó og ég keyrði eins og ég gat fram að síðasta snúningi uppi á heiði. Eftir hann sá ég að ekki væru mikið meira en 30 sekúndur í Rúnar og því hafði hann dregið um mínútu á mig á þessum 10 km kafla sem lá upp á heiði. Ég keyrði því aðeins meira á hraðann eftir snúninginn og niður eftir til að reyna að lágmarka þann tíma sem hann myndi geta náð á mig fyrir hlaupið. Þegar um 7-8 km voru eftir af hjólaleggnum fór Rúnar fram úr. Ég hugsaði að nú þyrfti ég bara að keyra lappirnar út eins mikið og ég gæti og vona það besta á hlaupinu. Ég setti auka ákefð í það sem eftir var og reyndi eins og ég gat að sprengja á eftir honum, marmiðið var að hafa hann alltaf í augsýn. Það tókst svona næstum því en þegar ég var kominn aftur að hringtorginu hjá Laugarvatnsafleggjaranum var hann horfinn úr augsýn. Ég vissi þó að hann væri ekki langt undan og þegar ég kom niður á skiptisvæði var einhver sem sagði „50 sekúndur“ eða eitthvað álíka.
Ég vippaði hjólinu upp á skiptistandinn, tróð mér í hlaupaskóna – sem tók reyndar lengri tíma en ég var að vona – og hentist af stað á eftir honum á gjörsamlega búnum löppum. Næstu 10 kílómetrarnir á hlaupinu yrðu erfiðir.

Hlaupið

Ég vissi að til að ég gæti unnið þetta þyrfti ég að vera fljótur að minnka forskotið. Hlaupnir voru 3 hringir og ég get sagt að ég hugsaði ekki mikið um ákefðina fyrsta hringinn á hlaupinu, markmiðið var sett á að ná Rúnari hvað sem það kostaði og sjá svo til með restina. „Þegar fyrsti hringurinn er búinn væru hvort sem er bara rúmir 6 km eftir og það er ekki neitt hvort sem er“ – var hugarástandið á mér á þessum tímapunkti. Ég hugsaði því ekki neitt á þessum fyrsta hring og náði að draga hægt og bítandi á Rúnar þangað til ég náði honum við malarkaflann, þegar um 600 metrar eru eftir af fyrsta hring hlaupsins. Fyrsti hringurinn var kláraður á um það bil 11 mínútum og 50 sekúndum og það innihélt mínútu af auka-ferð sem var farin á fyrsta hring til að hafa hlaupið akkurat 10 km. Það var því ljóst að héldi ég þessum hraða yrði hlaupið klárað á rúmum 33 mínútum. Ég vissi strax að það væri ekki að fara að gerast enda var ég gjörsamlega sprunginn á þessum tímapunkti. Ég náði hins vegar að halda hraðanum ágætum í svona „tempo-fíling“ á hring númer 2 og hugsaði bara um það að halda tækni, líkt og ég hafði gert í sundinu. Annar hringurinn leið furðulega fljótt og þá var það bara að klára síðasta hringinn. Ég var alltaf að líta aftur til að vera viss um að ég væri öruggur með forystuna en ég vissi að ég hefði ekki mikið í endasprett í því ástandi sem ég var í á þessum tímapunkti. Lappirnar höfðu verið búnar á því áður en þetta blessaða hlaup byrjaði svo það var ekki á þær leggjandi að fara í villtar hraðabreytingar. Ég náði að halda forskotinu góðu á síðasta hringnum og kláraði hlaupið á um 35 mínútum sléttum. Svosum fínn tími gefið aðstæðurnar og nokkuð erfiða braut þannig ég var sáttur. Heildartíminn 1:51:45 með 2:10 mínútum í skiptingar sem hefði mátt framkvæma betur en heilt yfir mjög sáttur með árangurinn.

Að lokum vil ég þakka skipuleggjendum fyrir góða keppni og öllum þeim sjálfboðaliðum sem tóku þátt við að gera keppnina eins góða og hún var. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Næstu skref eru fjórar IM70.3 keppnir sem ég tek þátt í sem PRO og því um að ræða nýjan kafla í þríþrautaferli mínum en ég hef aldrei keppt áður í svo löngum keppnum, hvað þá sem atvinnumaður. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur en ég er vongóður, enda æfingarnar búnar að skila miklu í vetur nú þegar og ég sé ekki annað en að leiðin liggi uppávið næstu árin.“

Öll úrslit frá Laugarvatni: