Ber er hver að baki nema bróður eigi…

Dandý segir frá:

Það var síðastliðið haust að ég ásamt nokkuð fleiri heldri borgurum frá Egilsstöðum ákváðum að æfa okkur og taka þátt í IM 70.3 í Helsingör. Ég, Guðbjörg og Keli (minn) fórum 2017 og ákváðum að fara aftur þangað. Því styttra því betra – tengiflugið okkar er alltaf EGS – RVK.  Í niðursuðudós.

Kobbi bróðir, sá eðaldrengur ákveður að koma líka. Jibbí, bónus fyrir mig.

Veturinn líður, það eru þrjár vikur í keppni og ég rifja upp:

  • Við Kobbi höfum margt brallað eins og önnur systkin en fyrsta hreyfiþrautin okkar saman eftir grunnskóla var að fara Laugaveginn 2011. Þá fylgdi hann mér alla leið.
  • 2013 förum við Landvættinn og hann fylgdi mér síðustu þrautina. Svo við urðum Landvættir saman.
  • 2016 tökum við Álkarlinn á Austurlandi saman.
  • Fyrir utan að hafa farið saman (hann aðeins á undan) i fyrsta IM í Kalmar 2014.

Við vorum búin að ræða það að rúlla einn svona IM saman einn daginn. Svo ég henti þessu fram á fjölskyldu snappið „Kobbi, er þetta sá sem við gerum saman“.

„Já já“ Hann sagði: „úr því ég ætlaði hvort sem er að bíða eftir þér einn daginn best að gera það í hálfum og ljúka því af“.

Nema sko þetta er ekki svo einfalt.

Keppnisdagur hefst eins og áður á því að allir tékka dekkin, smyrja kroppinn, pissa, kúka (þeir sem geta) og allt það sem menn reyna að gera til að létta sál og líkama fyrir svona átök. Plast í eyrun, hettan á og jibbí. Veislan er að byrja.

Sund:  Startið er fínt, við hendum okkur í sjóinn hlið við og Kobbi ætlar að hafa auga með mér. Ég sá hann enn eftir um 300 metra en þá kemur að smá kraðaki i sundinu. Það verður einhver barningur og ég fæ högg á sundgleraugun. Við það springur annað glerið og festingin milli glerja skemmist. Frábært bara 1600 metrar eftir. Konan sem tapaði gleðinni var skipað upp í bát því þetta var jú ekki liðsandinn og hún var köttuð út. Ég spyr hvort ég ætti ekki bara að hætta því það væri nokkuð vonlaust að synda þetta án gleraugna. „Nei nei ef þér líður vel reyndu þá við fylgjumst með þér“. UH OK takk.

Ég fann appelsínugulan galla og fylgdi honum því annað hreinlega sá ég ekki. Náði þó annað slagið að stoppa og festa gleraugun eða tylla þeim svo að þetta var nú ekki eins slæmt og hefði getað verið, annað glerið virkaði alltaf um 100 metra í einu. Synti bara með hægri hendi og hætti að vorkenna mér. Þarna var fólk að taka þátt sem var blint og menn með auka einstaklinga í farteskinu svo mér var bara anskotans engin vorkunn.

Sundið 41 mín og einhverjar sek.  Bara töf um sirka þrjár mínútur út af þessu veseni. EN HVAR ER KOBBI.

T1 og hjól:  Ég hendist á skiptisvæðið og litast um en sé ekki Kobba. Hugsa að hann hafi líklega farið, eins og ég sagði við hann „ekki vera að bíða eftir mér ef þú nennir ekki og ég er eitthvað sein“. 

Býst bara við því að hann sé á öðru hundraðinu í hjólabrautinni. Sé mágkonu mína sem húrrar mig áfram og held því að ég hafi rétt fyrir mér. Jogga að hjóli og off I go. Átti bara fínan hjólatíma. Þurfti að stoppa á síðustu stöð eða um 70 km mark því að stómapokinn minn var farinn að lafa og þá er betra að gefa sér fimm til sjö mín krakkar mínir. Það vill enginn hafa kúk í buxum í marki og hvað þá frá miðjum nafla. Konur eru oftast nær skipulagðar svo ég var með allar stómagræjur af þeim fáu sem ég tók með að heiman innan á hjólatreyjunni minni. Húrra fyrir mér.

Hef ekki ennþá séð Kobba. Gæti verið vegna þess að þetta er svolítið þvers og kruss hjólaleið. Klára hjólið á rétt um 3 klst og það er bara mín besta geta á gamla racernum mínum og all weather 25 dekkjum.

HVAR ER KOBBI

T2 og hlaup/labb/sljogg:

Ég vissi að ég myndi ekki hlaupa þetta. Í fyrsta lagi braut ég rif tveimur vikum fyrir keppni. Alls ekkert sem truflaði mig nema bara í hlaupi því að þetta var brot á besta stað og svo var ég ekki með hreyfistómavörurnar mínar. VEL GERT DANDÝ.

Tók ákvörðun um að hlaupa þar til ég fyndi það mikið til að ég gæti ekki hlaupið meira. Og það gerðist bara strax eftir fjóra km svo ég lét mig vaða að fyrstu teygju (gul) og svo var ég sigruð vegna rifjaverkja. EN krakkar mínir, eins og við segjum „þetta er bara verkur, bara líkamlegur verkur og það er bara allt í lagi“.

Meðan hausinn vill þig lengra haldu þá áfram. Ég hafði nægan tíma.

HVAR ER KOBBI

Nú labba ég og strunsa eins og ég get en þarna er heitt. Alltof heitt fyrir mig svona endurlýsandi mjólkurhvítt kvikindi. Nokkrum kílóum of þung, með slitin krossbönd og brotin rifbein þá var gangan tekin á nýtt level.

Ég naut þess að hrósa starfsfólki, pósa fyrir myndavélarnar og sjá alla vini mína út um allt hamast eins og túrbínur.

VAR ÞÁ EKKI KOBBI MÆTTUR. Hann sagði „þú ert á undan og ekki fara að bíða eftir mér, þú tekur þetta bara“.  Waddafúkk. Hvað gerðist? Þarna fékk ég nýtt hugarverkefni meðan ég hjassaðist þessa hringi sem eftir voru.

1.       Hugsa um hvað kom fyrir Kobba

2.       Hugsa um hvar er Kristbjörg

3.       Hugsa um Geira frænda sem var að fara i sinn fyrsta 66 ára gamall og frekar utan við sig

4.       Hugsa um að ég gat ekki hlussast áfram en samt myndi ég vera á betri tíma en síðast

5.       Þakka almennilega fyrir mig á öllum stöðum

Klára þetta á sléttum 7 klst og einhverjum sek sem má eyða.

dandy2
Dandý oog Kobbi með Ásgeiri Kristjáns (66 ára)

TAKIÐ NÚ VEL EFTIR

Kobbi, þessi einstaki bróðir hann beið eftir mér og leitaði að mér á T1 í 49 mínútur. Það eru fjörutíuogníumínútur. Hann setti klárlega met á skiptisvæði.

Bið ykkur um að rétta ekki upp hönd og segja að þið eigið betra eintak. Ætla ekki að hlusta.

Kristbjörg vinkona kom frá Seattle daginn áður og var ekki í andlegu standi fyrir sundið og lenti strax í vandræðum. Hún kemur og klárar næst. Hún var geggjuð sem stuðningsmaður. Mæli með.

Allir Egilsstaðabúar sem fóru af stað kláruðu. Stoltið gæti drepið mig því þau tilkynntu mér hátt og snjallt að þeirra þátttaka væri mér að kenna. Takk ég elska þegar það er mér að kenna að aðrir hreyfa sig og hafa markmið.

Hlakka til að fara aftur, vera þreytt og finna að ég lifi við þau forréttindi að geta þetta þó ég sé skjaldbaka í hraða. Ekki segja „ég get þetta ekki fyrr en þú getur það ekki.“ Reyndu.

dandy3
Hrafnkell, Dandý og Kobbi

Sú eftirminnilegasta hingað til

Sigurður Örn segir frá:

  1. sæti PRO/Overall

Það er ekki oft sem það gerist að keppnir ganga alveg samkvæmt plani frá upphafi til enda og að því sögðu, þá get ég ekki sagt að keppnin hér í Finnlandi hafi farið 100% eftir áætlun. Engu að síður var lokaniðurstaðan gríðarlega góð og geng ég mjög ánægður frá þessari keppni í átt að þeirri næstu í Jönköping eftir 8 daga.

Heldur óhefðbundin tímasetning varð fyrir valinu hvað þessa keppni varðar en startað var klukkan 15:30 að staðartíma sem gerði það að verkum að fólk var að klára allt fram að miðnætti. Það kom þó ekki að sök þar sem afstaða Lahti til sólar er svipuð Reykjavík og því bjart allan sólarhringinn á þessum tíma sumars. Ég er sjálfur svolítill morgunhani svo að þetta var ekki það allra besta fyrir mig svona andlega séð en maður aðlagar sig bara að aðstæðunum hverju sinni. Keppnisdagurinn sjálfur var því tekinn aðeins öðruvísi en venjulega.

sigginokia2

Ég vaknaði slakur klukkan 8:00 og fékk mér góðan morgunverð. Fjögur egg, 200ml af kókosmjólk og hafrar soðið saman í potti, um það bil 1100 kaloríur til að starta deginum. Maginn ekki sáttur en mér var slétt. Svo var slakað á fram til klukkan 10, þegar ég kom mér niður að skiptisvæði til að tékka hjólið og pokana inn á svæðið. Ég vildi gera þetta eins snemma og hægt væri til þess að geta komið mér aftur upp í íbúð til að slaka á fyrir keppnina seinni partinn. Mamma og pabbi eru með í för í þessum tveimur keppnum og voru því að einhverju leyti notuð sem burðardýr fyrir poka og dót á leiðinni niður á svæði. Klukkan ellefu vorum við komin aftur upp í íbúð og þá tók við hádegismatur og slökun. Fullur pottur af parboiled hrísgrjónum (hafa 3x minni áhrif á blóðsykur en venjuleg), ristað brauð, steinefnablöndur, vatn og Green and Black‘s súkkulaði urðu fyrir valinu í þetta skiptið og ég var alveg pakkaður 3 tímum fyrir keppni. Fínt, hugsaði ég, og skellti mér í ReBoots recovery buxurnar mínar til að pressa vöðvana aðeins áður en haldið yrði niður á svæði.

sigginokia3

Keppnin

Við vorum mætt um klukkustund fyrir start en ég vil alltaf vera tímalega niður á svæði til að gefa mér nægilegt svigrúm fyrir upphitun og til að lágmarka stress. Upphitunin fór fram á aðeins öðrum stað heldur en startið var svo að maður þurfti að labba smá spöl frá upphitunarsvæðinu og í startið. Ég fór því ofan í um fimm mínútum fyrir klukkan þrjú og synti í um korter til að koma blóðinu af stað. Næst var haldið að sundstartinu og beðið eftir ræsingu.

Það er alltaf smá stress þegar beðið er eftir flautunni sem að hleypir öllu af stað. Ég vissi að í dag væru nokkrir góðir sundmenn og hafði það að markmiði að skoða mig aðeins um fyrstu 300-400 metrana og meta svo hvort ég vildi þvinga þetta eitthvað hraðar eða ekki. Þegar sundið byrjaði náði ég ágætis stöðu og var strax kominn á meðal þeirra fjögurra fremstu í hópnum. Við héldum þessu fram að fyrsta snúning en öldugangurinn reyndist snúinn og það var virkilega erfitt að sjá yfir höfuð hvert maður væri að fara. Ég reyndi bara að einbeita mér að loftbólunum frá næsta sundmanni fyrir framan en það var samt ekki hlaupið að því heldur. Ég gleypti um þrisvar sinnum smá vatn og svelgdist á en þegar það gerðist reyndi að slaka á og hægja á öndun, láta mig renna í hverju taki og reyna svo að keyra hraðann upp aftur. Ekki það auðveldasta í heimi þegar að önnur hver alda virtist hafa það að markmiði að keyra mann í kaf. Á snúningnum missti ég aðeins lappirnar á næsta manni sem varð til þess að ég villtist örlítið af leið áður en mér tókst að finna næstu bauju aftur. Tók smá auka krók að því er virtist og þurfti að hafa fyrir því að missa ekki alveg sjónar á þeim þremur sem voru fyrir framan. Ég synti því einn alveg frá snúning og inn í höfn þessa síðustu 1000 metra og kom upp úr um 15-20 sek á eftir fremstu mönnum. Ekki besta sund sem ég hef átt en er samt sáttur með tímann, 23:40 í þessum aðstæðum er ekki neitt til að kvarta yfir!

sigginokia4Skiptingin gekk nokkuð tíðindalaust fyrir sig þangað til komið var að því að henda sér á hjólið. Þá kom smá…skellur. Bókstaflega. Þegar ég henti mér á hjólið með þeirri aðferð sem ég kýs að kalla „The flying mount“ kom í ljós að hnakkurinn var ekki alveg nógu vel hertur og hann datt niður um 1,5 cm eða svo. Nægilega mikið til að skafa smá part úr númerinu sem ég var búinn að koma fyrir og að ég fann fyrir því þegar ég settist á hjólið að staðan var nokkuð hressilega „off“. Á þessum tímapunkti var ég að hugsa hvað væri hægt að gera og komst að þeirri niðurstöðu að bara tvennt væri í stöðunni. Annars vegar gæti ég bara hætt að hugsa um þetta og keyrt hjólið svona út þessa 90 km. Hins vegar væri hægt að stoppa í 18km og fá hjálp hjá viðgerðarfólkinu þar við að hækka hnakkinn aftur upp í sína venjulegu stöðu. Ég valdi að halda áfram keppni og klára bara þessa 90 km með aðeins lægri sætishæð, jafnvel þó það gæti komið eitthvað niður á frammistöðu. Ég myndi allavega ekki tapa 2-3 mínútum í það að stoppa, losa hnakkinn, hækka, herða og fara svo aftur af stað. Hver veit, kannski hefði það verið betri kostur? Allavega of seint að pæla í því núna 😛sigginokia5

Hjólaleggurinn var tiltölulega „sléttur“, svona miðað við Barcelona keppnina en brautin innihélt um 650 hæðarmetra skv. Garmin tölvunni. Töluverður vindur var á leiðinni út að snúning í 45 km og meðalhraðinn aðeins undir 40 km/klst til að byrja með. Ég missti fyrstu menn fram úr mér eftir um 20 km og fljótlega komu þrír í hóp fram úr sem að voru nánast ofan í hvor öðrum. Ótrúlegt að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd á þetta en þeir voru augljóslega að græða á því að hjóla í hóp og höfðu minna fyrir þessu fyrir vikið. Ég reyndi að hanga í þeim í 15 km og var ennþá með þá í augsýn þegar við snerum eftir 45 km leið en þá tók við mjög hraður kafli með talsverðum meðvindi. Ég lét þá bara fara á þessum tímapunkti og reyndi að einbeita mér að því að halda aflinu góðu. Ég fann fljótlega að það var töluverð þreyta farin að safnast fyrir í vöðvunum, líklega vegna lélegrar stöðu á sætinu en svona mikil breyting á sætisstöðu getur haft talsverð áhrif á það hvernig maður nær að skila aflinu niður í pedala. Restin var mjög viðburðalítil, ég drakk og kláraði báðar drykkjarflöskurnar mínar á leiðinni til baka en næringin samanstóð eingöngu af níu GU gelum og vatni. Um 900 kcal í heildina. Síðasti dropinn af vatni var kláraður á leiðinni inn í T2 og ég var nokkuð feginn þegar hjólið var klárað. Rassvöðvarnir orðnir vel súrir og fínt að fá annað álag á lappirnar. Meðalaflið skv. Stages mælinum hjá mér var um 312W normalized og tíminn 2:14:55 sem skilaði rétt rúmlega 40 km/klst meðalhraða yfir þessa 90 km. Mjög sáttur með hjólið almennt, sérstaklega í ljósi þess að staðan var algerlega út úr kú en ég bjóst engu að síður við ögn hraðari hjólatíma. Jæja, alltaf rúm fyrir bætingar!

sigginokia6T2 gekk vel og ég var fljótlega kominn út í hlaupið, í 7. sæti á þessum tímapunkti. Ég reyndi að fara nokkuð hressilega af stað og hægja svo á mér eftir um 1-2 km og ná mér í réttan takt. Mér finnst alltaf betra að byrja aðeins hraðar og hægja svo á mér niður í „target pace“ frekar en hitt svo það var það sem ég gerði. Fyrstu 2 km voru nokkuð niður í móti þar að auki svo meðalpace var um 3:30 á þeim tímapunkti. Ég hægði á mér eftir þetta og reyndi að halda þessu gullna 3:49/km pace sem er eiginlega það hraðasta sem ég get gert á þessum tímapunkti eftir hjólið. Mjög skrýtið að lýsa því en mér finnst eins og hjarta- og öndunarkerfið ráði við hraðara pace en einhvern veginn vilja lappirnar ekki leyfa mér að fara hraðar. Þarf að vinna í að ná hámarkshraðanum upp fyrir næsta vetur og þá ætti þetta að verða nokkuð gott.

Drykkjarstöðvarnar voru allar notaðar vel og ég var búnn að skipuleggja hvernig ég myndi tækla þær. Röðin á hverri stöð var eftirfarandi: Vatn – Kók – Gel – Bananar/föst fæða – Orkudrykkur – Vatn. Ég hljóp í gegnum allar stöðvarnar ólíkt því sem ég gerði í Barcelona en ég vildi reyna að halda í 7. sætið eins lengi og hægt væri þar sem að strákarnir í sætum 8.-10. voru ekki langt fyrir aftan. Ég byrjaði alltaf á því að taka vatn og drekka ásamt því að ná strax í annað glas og hella yfir mig og kæla kerfið. Tók því næst kókglas, drakk smá, náði strax í gel, reif það og þrykkti því í mig, aftur smá kók, og að lokum vatn yfir líkama og restin upp í mig til að skola munninn. Þannig var þetta á hverri drykkjarstöð og gekk þetta nokkuð smurt fyrir sig. Það er smá æfing að ná að gera þetta allt á um 10 sekúndum en þetta er farið að ganga nokkuð vel fyrir sig núna og sparar heilmikinn tíma. Eftir um 15-16 km kom 8. sætið fram úr mér og ég því dottinn niður um eitt sæti. Allt í góðu, hugsaði ég, mig grunaði hvort sem er að þetta væri að fara að gerast. Sá sem kom fram úr er strákur sem ég þekki vel frá Noregi og er hörku hlaupari. Ég ákvað samt að reyna að halda honum í augsýn og það var smá gulrót sem virkaði vel til þess að rífa hraðann aðeins upp þessa síðustu kílómetra hlaupsins. Kálfarnir voru líka farnir að losna aðeins upp núna og því gat ég aðeins gefið í og verið slakari í hverju skrefi. Ég hugsaði nær eingöngu um tækni síðustu 5 kílómetrana og skilaði það sér í góðum takti og átti að mínu mati þátt í því að ég hélt 9. sætinu fyrir aftan mig alla leiðina í markið.

sigginokia7Að sjá 21 km skiltið og taka hægri beygjuna út úr hlaupabrautinni og inn á rauða dregilinn er ólýsanleg tilfinning. 4:03 á klukkunni og því minn hraðasti tími hingað til í 70.3 og jafnframt 8. sæti tryggt. Ég fagnaði nánast eins og ég hefði unnið keppnina þegar ég fór yfir línuna enda ekki neitt til þess að vera óánægður yfir, fyrsta Top-10 keppnin mín í PRO flokki raunin. Hlaupatíminn var svosum ekki upp á marga fiska út frá mínu sjónarhorni, um 1:20, en samt nokkuð gott þar sem það var talsvert hvasst í dag og hafði það áhrif á meðalhraðann á stórum hluta hlaupaleiðarinnar. Ég geng því ánægður frá þessari keppni hér í Finnlandi og er kominn með augun á næstu áskorun.

Eftir aðeins 7 daga fer ég af stað aftur í Jönköping 70.3 ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi og verður áhugavert að sjá hvernig lappirnar eru eftir svona stutta hvíld á milli. Mér líður ágætlega þegar ég skrifa þetta núna á sunnudeginum en ég veit að þreytan kemur ekki fyrr en á morgun og á þriðjudaginn. Það verður því mikilvægt að taka því rólega næstu daga og byrja svo mjög létt á þriðjudag/miðvikudag. Vonandi slæ ég hnakkinn ekki niður í Svíþjóð eins og ég gerði hér og þá mögulega get ég gert eitthvað af viti á hjólinu – við sjáum til! Ég læt að lokum fylgja með mynd sem tekin var af mér og Kristian frá Noregi sem að kláraði í 7. sætinu á undan mér, eftir að hann tók fram úr mér eftir um 15 km í hlaupinu.

sigginokia8

Þangað til næst!

 

 

 

Húsmæðraorlof í Helsingör

Margrét Valdimarsdóttir ritar:
Ég ákvað haustið 2018 að skella mér með Ásu vinkonu í hálfan Ironman í Helsingör þar sem hún átti skráningu og mig vantaði gulrót fyrir komandi vetur. Hér var ekkert tvínónað við hlutina, bara henda inn skráningu. Gott og vel.
Hjólaæfingar gengu vel fram eftir hausti og ég fékk blússandi fína útkomu í FTP testi nóvembermánaðar en þá kom desember með jólin og allt stússið í kringum þau og ég virtist bara ekkert geta á æfingum, orkulaus og þreytt og allskonar. Mætti nú samt á æfingar og hélt mínu striki. Reyndi fleiri test í des og jan en var ekkert nálægt nóvembertölunum. Þarna ákvað ég að lækka bara aðeins áreynsluna á æfingum og sjá hverju það skilaði og viti menn, maítestið sýndi bætingu upp á einhver 11W – loksins!
Sundæfingar voru teknar að hætti Nick Saunders þ.e. mjööög róleg upphitun 6-8×50 og svo þéttari keyrslur. Æfði sundið ekki mikið eftir plani en var dugleg að mæta og synda 1500-2000m æfingar 3-4x í viku.
Eins og flestir vita sem þekkja mig þá eru hlaup alls ekki mín sérgrein og þar af leiðandi mæti ég sjaldnast á hlaupaæfingar😊 Ákvað að taka hlaupin eins og sundið, mjöööög rólega upphitun og bæta svo aðeins í. Passa að fara ekki of geyst því þá fæ ég verk í „hamstring“. Reyndi að vera dugleg að hlaupa líka oftar og stutt í einu, tók svo laugardagana í lengri hlaup frá ca. apríl og hljóp lengst 19km 2 vikum fyrir keppni.
Og þá að keppninni sjálfri.
Ferðafélaginn var ekki af verri endanum, reynsluboltinn Kristjana Bergsdóttir æðardúnsbóndi með meiru af Melrakkasléttu. Ása meiddist í vetur og þurfti að hætta við keppni en við Kristjana slógum til.
Við flugum út á fimmtudegi til að eiga smá tíma fyrir keppni sem mér finnst gott. Prófuðum sjóinn fyrir utan hótelið, hjóluðum og hlupum aðeins dagana fyrir keppni og mér leist bara mjög vel á aðstæður.
Fórum mjööög snemma að sofa kvöldið fyrir keppni og vöknuðum, önnur kl. 23 og hin kl. 24, algjörlega úthvíldar og til í keppni, þurftum samt að loka augunum aftur og sofa aðeins lengur – smá spenningur í gangi greinilega.
Vöknuðum kl. 6 og fórum í morgunmat. Röltum svo út á keppnissvæði um kl. 7. Kíktum á hjólin, pumpuðum í dekk og gengum frá næringu. Ég náði í sólarvörn í hlaupapokann og gluðaði á mig þar sem ég á það til brenna. Ekki skyldi það gerast í þetta skiptið 😉
Skellti mér í sundgallann og við tókum rólegt upphitunarsund í höfninni. Hitinn á sjónum var ca 17°C, gæti ekki verið betra. Mér finnst mjög óþægilegt að synda í „Open Water“ kraðaki en þegar ég sá fyrirkomulagið í upphituninni róaðist ég mjög. Þeir voru búnir að setja 3 stiga niður af bryggjunni fyrir fólk þannig að á ca 5sek fresti fóru 3 í einu út í og syntu af stað og svo koll af kolli.
Ég hafði valið mér græna sundhettu, sundtíma upp á einhverjar 35-39 mínútur og kom mér fyrir í þeirri röð. Hitti Guðmund Inga og Edda í startinu og við röltum þarna niður á bryggjuna. Þegar kom að mér að henda mér útí gerði ég nákvæmlega það og synti af stað. Ekkert vesen. Bara synda – hægri, vinstri, anda, hægri, vinstri, anda osfrv. Ekkert flókið. Lenti í smá bringusundsspörkum og rangskreyðum manni sem vissi ekkert hvert hann var að fara en hann komst á leiðarenda eins og ég.
mv1
Synti bara á jöfnum hraða og var ekkert að sperra mig, leið nokkuð vel allan tímann. Hitti nokkrar marglyttur á leiðinni en þær voru svo litlar að það var eiginlega ekki hægt að verða eitthvað skelkaður. Allt í einu var þetta svo bara búið og ég fékk að hlaupa á rauðum dregli alla leið á T1 þar sem hjólaskórnir og hjálmurinn beið í poka.
Hef alltaf verið með kók í T1 ef mér er bumbult eftir sjóinn og fékk mér smá sopa, dansaði af mér blautgallann, þurrkaði mig aðeins, henti svo á mig hjálminum, greip skóna og hljóp af stað að hjólinu. Það var smá spölur þangað og ekki gott að hlaupa á hjólaskóm þannig að ég hljóp á tánum að svæði sem ætlað var til þess að klæða sig í skóna og sá þá að ég var öll í sandi. Ekki gott fyrir mínar tær þegar kemur að hlaupinu en það var seinni tíma vandamál. Fyrst mátti ég hjóla. Ég elska að hjóla, það er eiginlega skemmtilegasta hreyfing sem ég hef stundað. Mér er alveg sama þó það sé vindur, brekkur eða hvaðeina (fer reyndar ekkert voða hratt upp brekkur en ég get farið rosa hratt niður þær). Þarna var ég í essinu mínu. Dreif mig út af skiptisvæðinu og brunaði af stað. Vá hvað þetta var geggjað, frábært malbik, sól í heiði og allt dásamlegt. Ég bara hjólaði og hjólaði og leið svakalega vel allan tímann. Sá Sigurjón í brautinni eftir ca 13km en þá var hann kominn allavega einhverja 30km, Halldór dúndraði svo fram úr mér í 70km. Þegar ég kom í síðustu beygjuna fyrir T2 heyrði ég gargað „áfram Magga“ og vissi bara ekkert hver var að hvetja mig. Mjög skemmtilegt að fá svona hvatningu og komst að því seinna um daginn að það var Kristjana sem hafði hætt keppni í sundinu vegna astma einkenna.
mv2
T2 gekk vel, var búin að hugsa það á hjólinu hvernig ég myndi þurrka af mér tásusandinn og komst að því að það eina sem ég var með voru „armwarmers“ sem ég hafði sett á mig í T1. Það gekk ágætlega að þrífa sandinn og ég fór í sokka, nýju Hoka skóna sem ég hafði keypt á Expoinu 2 dögum áður, setti á mig derhúfu og númerabelti og af stað (veit að maður á aldrei að vera í einhverju nýju í keppni en ég hef átt nokkra Hoka Clifton þannig að ég treysti alveg á Clifton 5. Sé sko ekki eftir því, þeir voru æði).

Fyrsti hringur í hlaupinu var í kringum Kronborgarkastala. Virkilega fallegt umhverfi en það var pínu heitt þarna undir kastalaveggjunum. Ég lét mig samt hafa það og skokkaði áfram mitt hlaupaskokk, fjóra hringi um kastalann og þrjá um miðbæinn. Mjög gott fyrir minn haus að geta talið niður. Nartaði í harðfiskinn sem ég fékk hjá Gutta og það gladdi mig þar sem ég hafði gleymt bitunum heima sem áttu að koma með út. Fékk mér vatn, appelsínubita og smá kóksopa á drykkjarstöðvunum en var annars bara nokkuð góð í orkunni. Hitti Kristjönu nokkrum sinnum í hlaupinu og það er algjörlega frábært að hafa einhvern á hliðarlínunni. Stemningin í bænum var líka mögnuð, fólk úti um allt að hvetja og tónlist á hverju horni. Höskuldur kom aftan að mér þegar ég var á fyrsta hring og hvatti mig áfram, Sigurjón kom stuttu seinna á sínum síðasta hring á svakalegri siglingu (man reyndar ekkert hvorn ég hitti fyrst) og svo hitti ég Gumma og Edda á öðrum hring að mig minnir. Viðurkenni alveg að það var ljúft að fá síðustu teygjuna á úlnliðinn og eiga bara eftir að hringa kastalann einu sinni og mega þá taka vinstri beygju inn rauða dregilinn að marklínunni.

Lokatími 6:19:37
Það eru forréttindi að geta tekið þátt í svona veislu og alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp. Mér leið vel allan tímann, fékk smá blöðrur á litlutærnar (líklega út af sandi) en það truflaði nú ekki mikið. No pain, no gain! segja þeir í útlöndum.
Þríþraut er frábær. Hún heltók mig algjörlega þegar ég byrjaði, þetta er mitt aðal áhugamál fyrir utan fjölskyldu og er búið að vera undanfarin ár. Mér finnst gott og gaman að synda, frábært að hjóla og hef tekið hlaupin bara á mínu dóli. Að fara til útlanda og keppa er að lokum stór gulrót sem gaman er að uppskera 😊

mv3

Hálfmaðurinn í Helsingör

Sigurjón Björnsson segir frá:

Þessi keppni var stóra keppnin á árinu hjá mér og í lok síðasta árs setti ég mér markmið um að ná að fara þetta á undir 5 tímum og 15 mínútum. Til að ná því setti ég mér raunhæf markmið um bætingar í öllum greinunum. Eftir áramót byrjaði ég frekar samviskusamlega að fylgja æfingplani sem þjálfararnir okkar settu á TP og gekk þetta allt mjög vel og án meiðsla.

Ég tók þátt í keppnum sumarsins á Íslandi sem gengu miklu betur en ég hafði reiknað með og sá þá að sennilega væri upphaflega tímamarkmiðið ansi varfærnislegt. Það var því raunhæfur möguleiki að ef aðstæður væru góðar og allt gengi upp hjá mér í keppninni þá ætti ég að geta komist undir 5 tíma.

Veðrið að morgni keppnisdags var frábært, hægur vindur, 16°C og sól. Það stefndi því í fullkomnar aðstæður og ekkert annað í boði en að gefa allt í þetta.

1Sundið 1900m
Ég reiknaði með að synda á 31-32 mínútum, ætlaði ekkert að vera að sprengja mig. Sundið gekk vel en í brautinni eru frekar margar beygjur og þar myndast oft mikið kraðak. Mér leið mjög vel og var ekkert að fylgjast með tímanum. Mér fannst ég vera að synda fram úr frekar mörgum. Ég fann þó reglulega fætur sem ég gat fylgt en þeir týndust venjulega eftir beygjurnar og hófst þá leit að nýjum fótum. Í lok sundsins var ég hífður uppúr vatninu því rampurinn nær nánast ekkert ofan í vatnið. Þegar ég leit á úrið fattaði ég af hverju ég tók fram úr svona mörgum, ég hefði greinilega átt að fara í hraðari hóp.
Sundtími: 30:02

T1
Skiptisvæðið er frekar langt (heildar hlaupavegalengd var næstum 900 metrar). Ég var því búinn að fara úr gallanum niður á mitti og taka af mér gleraugun og sundhettuna þegar ég kom að pokanum mínum. Klára að fara úr gallanum, setti á mig hjálm og sólgleraugu. Tók upp skóna, sokkana og döðlustykkið sem ég ætlaði að borða í byrjuninni á hjólinu (hef áður haft það á hjólinu og í bæði skiptin hefur það tapast áður en ég náði að borða það). Setti sunddótið í pokann og hengdi hann upp. Ég hélt svo á skónum og sokkunum því það var nokkuð langt að hjólarekkunum og þar voru bekkir til að klæða sig í skóna. Á leiðinni byrjaði ég að borða döðlustykkið og var búinn með það þegar ég tók hjólið úr rekkanum.
T1 tími: 6:11

2
90 kílómetrar á hjóli

Hjólabrautin er um litla sveitavegi fyrir utan Helsingör. Allstaðar var malbikið mjög gott en vegirnir oft frekar þröngir. Það eru engar mjög brattar brekkur í brautinni, en svona 2-3 stuttar þar sem maður fer e-ð undir 30 km hraða en taka ekkert of mikið úr lærunum. Planið var að hjóla þetta á nákvæmlega 260 wöttum allan tímann (eftir að Hákon Hrafn fullyrti að ég færi létt með það, mér leist betur á eitthvað minna en treysti þjálfaranum sem auðvitað hafði rétt fyrir sér). Það plan fór eiginlega út um gluggann þegar ég sá hvað það var mikið af hjólurum í brautinni. Flestir gerðu sitt besta í að vera ekki að drafta en það komu samt tveir hópar fram úr mér sem voru ekkert að reyna að fela draftið. Ég reyndi að hjóla á mínum hraða en oft þurfti bæta í til að taka framúr eða slaka á þegar mikil umferð var fyrir framan. Ég var með fjögur gel á hjólinu sem ég borðaði á ca 30 mín fresti. Ég tók banana á fyrstu og þriðju drykkjarstöð og fékk brúsa á annarri. Matarplanið var að borða eins mikið og ég gæti svo ég hefði næga orku á hlaupinu, ég held að það hafi gefist mjög vel.
Hjólatími: 2:23:50

T2
Hjólið var tekið og sett á rekkann fyrir mig svo ég gat hlaupið beint að pokanum mínum. Tók af hjálminn, sólgleraugun voru ekki svo sveitt að ég ákvað að vera með þau áfram þó ég væri með auka í hlaupapokanum. Ég setti á mig derhúfuna, fór svo úr hjólaskónum og í hlaupaskóna. Greip tvö gel og setti í vasann.
T2 tími: 1:52

3
Hálft maraþon í góða veðrinu

Hlaupið er 3,5 hringir í miðbæ Helsingör. Farið er í kringum kastala og svo eru þröngar verslunargötur þræddar framm og til baka. Ég leit á klukkuna þegar ég kom hlaupandi út úr T2 og sá að það voru bara búnir 3 tímar og 2 mínútur. Ég hafði hlaupið mjög létt hálfmaraþon á 1:55:00 tveimur mánuðum áður svo ég sá að 5 tíma markmiðið var ennþá innan seilingar. Ég ákvað að byrja á 5:15 pace og sjá hvort ég gæti gefið í undir lokin. Að halda þessum hraða gekk mjög erfiðlega fyrstu 2-3 kílómetrana og var ég að hlaupa miklu hraðar, ca 4:45 pace. Ég vissi að þessi hraði gengi ekki upp allt hlaupið og náði að hægja mátulega mikið á og byrja að vinna niður þessa 21 kílómetra sem þurfti til að klára. Næringarplanið var ekkert niðurneglt nema að reyna að drekka smá orkudrykk eða kók á flestum drykkjarstöðvum og fá mér svo koffíngelið á síðasta hring. Hitinn var orðinn ansi mikill undir skínandi sólinni þannig að vatnið sem ég greip á drykkjarstöðvunum fór að mestu utaná mig til kælingar. Ég reyndi samt að drekka alltaf smá og svo fékk ég mér einu sinni kex og tvisvar appelsínubáta sem var fínt að narta í á milli drykkjarstöðva. Ég náði að halda góðum hraða fyrstu 2,5 hringina og spjalla aðeins við einn Dana sem sagði mér ævisögu sína (efni í aðra grein), það var fín afþreying. Þegar ca. 5 kílómetrar voru eftir byrjaði að vera erfitt að halda hraða og síðustu þrír km kröfðust mikils viljastyrks. Ég kláraði svo síðasta hringinn í kringum kastalann og hljóp inn rauða dregillinn í alsælu.
Hlaupatími: 1:47:57

4Heildartími: 4:49:51

Ég er alveg í skýjunum með tímann minn sem er framar öllum vonum. EFtir nudd og sturtu var frábært að hitta aðra keppendur úr Breiðablik í mathöllinni og ræða afrek dagsins.

Nú þegar ég náði að fara undir 5 tíma veit ég ekki alveg hvað næsta tímamarkmið verður nema að í næstu keppni verður ofarlega á lista að taka betur eftir ljósmyndurunum svo það náist skárri myndir :). En eitt er víst, ég ætla í aðra keppni.

Ég vil þakka öllum þjálfurum í Breiðablik fyrir að hjálpa mér að ná þessum árangri, öllum æfingafélögunum sem gerðu æfingarnar að hreinni skemmtun, öllum sem komu frá Íslandi að keppa og gerðu bjórinn eftir keppni 10 sinnum betri, Hafþór hlaupaþjálfara fyrir lánið á afturgjörðinni og fjölskyldunni, Aldísi, Eyrúnu og Birni, fyrir að leyfa mér að njóta þeirra forréttinda sem þessi íþrótt er.6

Vorið í Calella

Sigurður Örn Ragnarsson segir frá:

Jæja, þá er aftur komið að því að skrifa keppnissögu eftir frækna keppni hér í Calella, Barcelona. Ég endaði þessa keppni á mínum besta tíma í hálf maraþoni inni í þríþraut (og mínum besta tíma frá upphafi ef mér skjátlast ekki) og varð á sama tíma 19. í PRO flokki til að hlaupa yfir endamarkið.
Fyrir keppnina í dag var spáð hrikalegu veðri. Þegar ég segi „hrikalegt“, þá meina ég allt sem hægt er að túlka út úr því. Samkvæmt hinni alræmdu og oft mjög svo áreiðanlegu norsku síðu YR.no gátum við búist við allt að 5-8mm rigningu á þeim tíma sem keppnin stóð yfir bæði hérna í Calella og uppi í fjalli þar sem hæsta punkti hjólabrautarinnar var náð. Þar að auki átti hitinn ekki að fara mikið yfir 13 gráður á meðan að herlegheitunum stæði. „Ekta íslenskt sumar“ hugsaði ég með mér kvöldið áður en við fórum í háttinn fyrir stóra daginn. Ég var í þessu ljósi sérstaklega stressaður fyrir hjólinu. Eftir óhappið í Írlandi í fyrra, þegar ég þrusaði mér út af hjólabrautinni á 60 km hraða, einmitt í svipuðum veðuraðstæðum og búið var að spá hérna á Spáni, hef ég ekki verið sá hressasti með að henda mér hratt niður brekkur í bleytu. Ég var þess vegna búinn að ákveða að hjólið yrði tekið nokkuð þétt upp brekkurnar en svo myndi ég ekki hleypa mér of hratt niður aftur. Þannig gæti ég alltaf fundið fyrir þeirri tilfinningu að ég væri 100% við stjórn. Með það hugarfar fór ég í háttinn kvöldið fyrir keppnisdag, kl 10:00 að staðartíma.

Á keppnisdag var vaknað kl 04:00 á spænskum tíma (02:00 á íslenskum tíma) og því ekki fjarri lagi að enn hafi einhverjir verið í party-um sem tengjast hinni Evrópsku söngvakeppni þegar við Rafn röltum niður í morgunmat ásamt öðru mishressu íþróttafólki sem var á leið í sömu vitleysu og við. Tveir félagar okkar Rafns, þeir Mummi og Halli, voru einnig á sama hóteli og við sátum því saman í morgunmatnum að ræða mögulegt úrhellið sem ætti eftir að setja svip sinn á daginn. Ég reyndi að borða eins mikið og ég gat þar sem það voru 3 tímar í ræs og nægur tími til að melta. Ég var búinn að ákveða það að ég ætlaði ekki að gera sömu mistök og í fyrri keppnum og vera að hugsa um „keppnisþyngd“. Maður brennir um 4-5000 hitaeiningum í svona keppni svo það er alveg hægt að dæla aðeins í sig í morgunmatnum (eða það er allavega minn hugsunarháttur).
Klukkan var að verða 06:00 þegar við loksins röltum út að skiptisvæði til að athuga með hjólin, setja upp skipti-pokana okkar og gera allt klárt. Spánverjinn í kallkerfinu var sífellt að vara við þessum hrikalegu aðstæðum sem væru á staðnum: „Eingöngu 12 gráðu lofthiti og FIMMTÁN GRÁÐUR í vatninu!!“ Þetta var svo dramatískt að ég hélt á köflum að hann myndi tilkynna næst að stundið hefði verið stytt niður í 50 metra höfrungahopp. Ég var frekar rólegur í fjörunni, kom mér bara vel fyrir og fékk einhvern ókunnugan gaur til að renna upp blautgallanum. Þegar hann var nýbúinn að renna upp þurfti ég alveg rosalega mikið að pissa. Þetta gerist alltaf svona rétt fyrir start og því gott að vera vanur því að láta bara vaða í blautgallann. Ég gerði það og svo aftur rétt áður en að startflautan fór í gang (Já, þessi aukakíló, maður!).
Þrátt fyrir dómsdagsspár veðurfréttastöðva daginn áður rættist það ekki um morguninn og í staðinn fengum við næstum heiðskíran himin og góðan hita. Engin rigning enn…það lofar góðu.

Sundið

siggi1
BAM. Af stað með ykkur. Já, svona áfram! Rosalega var ég eitthvað seinn úr sporunum. Allir þutu fram úr mér og ég endaði á því að höfrunga mig fram úr nokkrum áður en ég setti allt í botn. Spaðarnir á fullt og fætur í gang. Snúa mjöðmum, anda rólega og reyna að koma sér í takt. Það gekk vel og ég var orðinn fyrstur eftir um 50 metra. Það virtist enginn ætla að reyna að fara eitthvað hraðar svo ég ákvað bara að þetta yrði enn eitt skiptið sem ég myndi bara leiða þetta pakk. Ekki myndi ég að gera það á hjólinu, né í hlaupinu, svo það gæti allt eins verið sundið (broskall). Ég hélt uppi góðum hraða og reyndi að halda jöfnum takti. Það voru góðar aðstæður fyrir hratt sund og við vorum á endanum bara þrír sem að héldum þetta út. Þetta var á vissan hátt mjög viðburðalítið sund, ég elti bara baujurnar og gaurinn sem var á kayak fyrir framan mig. Þægilegt að vera með svona fylgdarmann, þurfti eiginlega ekkert að pæla í baujunum heldur elti bara strákinn í kayak-num. Forréttindi.

Eftir um 22 mínútur og 50 sekúntur (1906m skv. úrinu) kom ég upp úr, sirka 5 sek á undan næstu tveimur sem voru Elliot Smales (endaði í 4. sæti) og David McNamee (endaði í 2. sæti) og meðalpace því sirka 1:12/100m. Bara nokkuð gott hugsaði ég, en þetta var bara nokkuð þægilegt sund þrátt fyrir hraðann. Ég dreif mig inn í T1 og henti mér úr blautgallanum og setti á mig hjálminn. Kippti líka með mér hjólatölvunni en það hefði verið þó nokkur skellur að gleyma henni í pokanum góða. Skiptisvæðið var á gervigras fótboltavelli svo að hlaupið að hjólunum var nokkuð mjúkt og þægilegt. Úti í enda stóðu hjólin og ég kom að standi nr. 14. Ekkert vesen, hjólatölvan á festinguna og hjólið út. Úff…næstu 90 km yrðu strembnir en það var allavega ekki enn byrjað að rigna og lítið útlit fyrir að það myndi breytast í bráð!

Hjólið
Fyrstu 3 km hjólaleiðarinnar út úr Calella voru tæknilegir og við máttum ekki nota letingjana (aero bars) á hjólunum okkar þangað til við værum komin á beinu brautina. Við unnum okkur því í rólegheitunum út úr bænum og svo út á hraðbrautina þar sem að maður setti í keppnisgírinn og byrjaði þessa veislu. Strákarnir tveir sem að komu upp úr sundinu með mér voru þá komnir á undan en ég kippti mér ekki mikið upp við það. Báðir eru þeir virkilega öflugir hjólreiðamenn og ég bjóst líka við því að missa nokkra fleiri fram úr mér á þessum mjög svo strembna hjólalegg.

siggi2

Eftir að hafa hjólað um 7-8 km af brautinni hófum við að klífa upp fyrstu brekkuna. Hæðarprófíllinn skiptist í þrjár veglegar brekkur upp á við og nokkuð tæknilega kafla niður frá hæsta punkti (sjá mynd).

siggi3

Ég var búinn að ákveða að taka aðeins meira á því upp brekkurnar en hvíla frekar á leiðinni niður og vera þá á minni ákefð á þeim köflum. Enn var ekki byrjað að rigna á þessum tímapunkti og það leit út fyrir það að þetta myndi haldast þurrt allan daginn svo það var allavega stór plús fyrir óöruggan hjólreiðamann hræddan við hraðar brekkur. Ég hélt nokkuð jöfnu afli upp þessa fyrstu brekku, sem tók um það bil 27-28 mínútur að fara upp. Meðalaflið um 330 wött. Við tók um það bil 13 mínútna hjól niður en á þessum tímapunkti hafði ég misst um 8 hjólara fram úr mér, tvo á leiðinni upp og sex á leiðinni niður. Mér fannst menn vera ansi glannalegir á leiðinni niður þrátt fyrir að það væri þurrt og ekki leið á löngu þar til ég sá hjól úti í kanti og einhvern liggjandi úti í skurði með tvö mótorhjól að veifa okkur að fara varlega. Flashback á Írland hjá mér, vona að það sé í lagi með kauða.
Fljótlega komu svo fjórir í viðbót fram úr og þeir náðu þessum 6 sem höfðu farið fram úr mér á leiðinni niður brekkuna. Allir voru þeir heldur nálægt hvor öðrum og ég velti því fyrir mér hvort að þeir sem eru í PRO flokki séu eitthvað undanskildir þessum draft reglum því ég fullyrði að enginn þeirra virti 12 metra regluna. Ég hefði örugglega getað hent mér fyrir aftan þá og draftað eins og hinir og mögulega grætt eitthvað á því en það síðasta sem ég vildi var að fá á mig víti svo ég sleppti því. Maður tapar stundum á því að vera heiðarlegur en það er bara eins og það er, því miður.
Næst tók við alvöru klifur sem lá upp í Montseny en þetta var ROSALEGT. Ég tók sömu nálgun á þetta og við fyrsta klifurkaflann og keyrði aðeins meira upp brekkuna til að geta hjólað rólegar niður. Þetta var um 11 km kafli með 500 metra hækkun og því var hraðinn ekki mikill að meðaltali. Meðalwöttin um 325 upp þennan kafla en þetta tók um 32 mínútur í heildina. Það komu engir aðrir fram úr mér hér og því ljóst að það væri nokkur spotti í næsta hóp fyrir aftan. Þegar á toppinn var komið tók við mjög tæknilegur kafli þar sem að ég eiginlega hékk allan tímann á bremsunum og passaði mig að hleypa mér ekki of hratt niður. Frekar að skila sér heilum í T2 heldur en að kynnast betur þeim gróðurtegundum sem uxu þarna uppi í Montseny héraði. Til marks um það hversu þröngir og óútreiknanlegir vegirnir þarna uppi voru þá má sjá skjáskot af einum kafla leiðarinnar á næstu mynd.

siggi4

Eftir að hafa þrætt þessa þröngu vegi komum við loksins að góðum vegarkafla og við tók mjög hraður kafli. Næstu 10 mínútur voru á að meðaltali 50 km/klst en þetta var nokkuð beint og kannski hægt að líkja þessu við Krýsuvíkurveginn frá toppi að Bláfjallaafleggjaranum. Eftir þetta var keppnin í sjálfu sér nokkuð viðburðalítil hjá mér en fljótlega komu fram úr mér 5-6 aðrir hjólarar og ég ákvað í þetta skiptið að reyna bara að halda mig við þennan hóp alla leið í bæinn. Það var eitt klifur eftir áður en við kláruðum brekkurnar og við keyrðum upp þennan síðasta kafla áður en við tók nokkuð léttur kafli síðasta korterið eða svo. Menn farnir að hugsa um hlaupið og tími til að fá sér restina af næringunni og drekka nóg. Það var orðið ágætlega heitt, um 15 gráður og sól svo að hlaupið átti eftir að vera við nokkuð þægilegan hita. Næringin mín á hjólinu var um það bil 900 kcal af gelum sem ég hafði sprautað í brúsa og blandað með vatni. Svo var ég bara með hreint vatn (sem ég drakk ekkert af og burðaðist því með auka 750 gr upp allar þessar brekkur) og 750 ml af Aquarius blöndu til að fá sölt.
Við komum fljótlega aftur að bænum og því tími til að þræða þröngar götur Calella aftur áður en við skiluðum hjólunum og byrjuðum hlaupið. Ég tók mér tíma í þetta og var ekkert að flýta mér og reyndi bara að einbeita mér að því að klessa ekki á neitt. Úr skónum þegar um 500 metrar voru í mount-dismount línuna og svo af hjólinu og inn í T2.
T2 gekk nokkuð vel fyrir sig og ég var kominn í hlaupið eftir um 2 mín í skiptingu.

Hlaupið
Ég var í fyrsta skipti að keppa með Stryd powermæli í hlaupinu núna og fannst áhugavert að fylgjast með því öðru hverju. Þetta kannski gerði ekki mikið gagn í þessari braut þar sem að hún var tiltölulega slétt og því ekki mikil þörf á því að stjórna hraðanum en þetta gefur manni samt góða innsýn í hvernig maður er að halda út hlaupið í heild sinni. Ég byrjaði nokkuð léttur á fæti en fyrstu 1,5 km voru við léttan meðbyr áður en við komum að fyrsta snúningspunktinum. Eftir það voru þetta tveir heilir hringir, samtals um 19,5 km til viðbótar.

siggi5

Mér leið vel fyrstu tvo kílómetrana en svo fór aðeins að síga í og ég fann hvernig hraðinn datt aðeins niður. Ég ákvað því að einbeita mér bara að tækninni og reyna að skila hámarks krafti í hvert skref. Kálfarnir voru á þessum tímapunkti mjög stífir og ég fann að orkan var aðeins farin að minnka. Á næstu drykkjarstöð tók ég því rólega, labbaði í 5 sek á meðan ég henti í mig geli og Red bull, tók eina vatnsflösku, skolaði munninn og drakk aðeins og hellti restinni yfir hausinn og bringuna. Þetta gerði helling en næstu 5 km voru á góðu pace-i sem skilaði fyrstu 10 km á sirka 38:20 mínútum. Ég var nokkuð sáttur með þetta en markmiðið fyrir daginn hafði verið að fara undir 1:20 í hálf-maraþoninu. Ég ákvað því bara að reyna að halda þessari siglingu áfram en kálfarnir voru á þessum tímapunkti farnir að losna aðeins upp og ég gat gefið aðeins í. Ég hélt uppteknum hætti, tók gel á annarri hverri drykkjastöð en hellti alltaf yfir mig vatni og drakk smá. Næstu 10 km voru líka á 38:20 svo það var ljóst að splittið var algjörlega slétt. Ótrúlegt, hugsaði ég. Síðasti kílómetrinn var strembinn en það var mikið af fólki í brautinni og því þurfti ég oft að kalla á fólk til að færa sig. Þetta gekk ekki alltaf upp og endaði ég nokkrum sinnum á því að hlaupa á gangstéttarkantinum. Loksins náði ég á rauða dregilinn og kastaði mér léttur á fæti yfir marklínuna á tímanum 4:24 og því ljóst að hálf-maraþonið hafði verið hlaupið á um 1:19, um mínútu undir markmiðinu. Að neðan má sjá greiningu á hlaupinu í hraða (grænt) og afli (fjólublátt).

siggi6

Að lokum var því nítjánda sæti í PRO flokki af 33 sem kláruðu (40 í starti) staðreynd og 22. í heildina af þeim 2224 sem að kláruðu almennu keppnina. Til gamans má geta að það voru tveir Age Group gæjar rétt á undan mér í aldursflokkinum 25-29 ára og því ljóst að mjög líklega hefði ég náð á HM í Nice ef ég væri ekki að keppa í PRO flokki.

Samantekt
Það er margt mjög gott sem ég tek frá þessari keppni en það gekk eiginlega allt upp hérna í Calella. Sundið var mjög gott en eins og er hef ég líklega náð sama formi þar og þegar ég var upp á mitt besta um árið 2009. Nú hef ég alltaf komið upp í fremsta hóp í sundinu og tvisvar verið fyrstur upp úr vatninu svo það er ljóst að ég og Klaus erum að gera eitthvað rétt þar.
Hjólið var mjög gott á heildina litið og ég var hissa á því hvað aflið var gott. 304W normalized í 2 klst og 37 mín er eitthvað sem ég hefði ekki getað trúað fyrir 2 mánuðum síðan en góðar æfingar og mikilvæg innsýn í mjólkursýrumyndun og eyðslu frá Ragnari Guðmunds í Optimizar urðu til þess að opna augun mín fyrir öðrum æfingaaðferðum sem að hafa svo sannarlega skilað sínu. Ég var samt um 10-15 mín hægari en flestir þeir sem voru á undan mér og það er bara eitthvað til að vinna í enn frekar. Ég veit að ég get náð þeim með markvissum æfingum og það verður gaman að komast einhvern tímann á þann punkt að geta haldið forystunni úr sundinu lengur inn í hjólið og mögulega vera með í topp baráttunni.
Hlaupið var ofar markmiðinu og um mínútu hraðari hlaupatími en áætlað var. Meðalpace um 3:46/km en marmiðið var að vera í kringum 3:48. Markvissar æfingar í vetur hér og engin meiðsli hafa klárlega skilað sínu og ég hlakka til að halda áfram að vinna þennan hlaupatíma niður og vonandi komast nær 1:15 af hjólinu á komandi misserum. Þá fyrst get ég farið að vera samkeppnishæfur við þessa bestu og komið mér inn í Top-10 baráttuna.

siggi7

Að lokum vil ég þakka öllum heima fyrir ótrúlegan stuðning en það er alltaf svo gott að vita af því að fólk sé að fylgjast með og hefur áhuga á því sem maður er að gera. Ég vona líka að það sem ég geri verði til þess að hvetja aðra áfram í því að ná sínum markmiðum, sama hver þau eru og verði til þess að gera þríþraut að vinsælli íþrótt heima fyrir.
Ég þakka öllum þeim Íslendingum sem voru hérna líka í Calella fyrir frábæran félagsskap og óska þeim til hamingju með flottan árangur – frábært að sjá hvað allir voru að standa sig vel í þessari krefjandi braut! Sérstaklega til hamingju Ranna með HM-sætið í Nice!! Ótrúlega vel gert, algjört vélmenni.
Að lokum, þakkir til styrktaraðila minna, en án þeirra væri þetta mun erfiðara verk en það er nú þegar.
– TRI Verslun #becube
– On Running #runonclouds
– Arena á Íslandi #arenawaterinstinct
– Hleðsla Íþróttadrykkur #hledsla
– Hárnýjung #bestaklippingin

-Sportvörur

Næst á dagskrá er IM 70.3 í Finnlandi og svo strax helgina á eftir IM 70.3 í Jönköping, Svíþjóð og verða það því ansi krefjandi 8 dagar. Ég hef nokkrar vikur til að koma mér í stand fyrir það, en fyrst eru það sprettþrautin í Hafnarfirði og Íslandsmót á Laugarvatni. Þangað til næst!

Hákarlar, öldur og brekkur

Björn Reynald Ingólfsson segir frá:

Varla var liðinn mánuður frá því ég tók þátt í Challenge Lissabon þegar Ingi frændi, sem býr í San Diego í Kaliforníu, hringdi og skoraði á mig að taka þátt í Ironman 70.3 Oceanside 6. apríl  2019 með sér. „Þú hefur 24 tíma áður enn það verður uppselt“, sagði Ingi.  Ég  var að drepast í mjöðminni eftir Lissabon og hálft maraþon í Vormaraþoninu 2018 en hálfur járnmaður er alltaf freistandi og ég sló til og skráði mig.

Oceanside er lítill strandbær norður af San Diego. Brimbretta kappar hópast á þennan stað allt árið í kring vegna brimsins. Það fyrsta sem netleitin sýndi mér var frásögn af ungri konu sem hafði orðið fyrir árás  hákarla. Þeir eru tíðir gestir við strandlengjuna þarna.

Ég var allt sumarið að ná mér í mjöðminni. Byrjaði að æfa aftur í september og gekk bara vel framan af. Þá tók við meiðslahrina, kálfar og læri. Stóð í þessu fram til miðjan desember.

Í  janúar og febrúar gengu æfingar ágætlega en í mars tognaði ég aftur í kálfa. Ekki nóg með það heldur náði ég mér í blóðeitrun í litlutána. Þá var aðeins mánuður í mótið. Gat ekkert hlaupið fyrir mótið en hjólaði því meira. Hafði bætt við lyftingum um áramótin.

Égflaug út til San Francisco 2. apríl og þaðan til San Diego. Þetta ferðalag tók 12 tíma. Tímamunur var sjö tímar og ekki veitti af nokkrum dögum til að endurstilla líkamsklukkuna.

Í San Diego hafði rignt í nokkra daga fyrir mótið. Það rignir víst ekki mjög oft í Suður-Kaliforníu. Skráði mig á Facebook síðu sem Oceanside þátttakendur höfðu stofnað. Þar var mikið talað um brekkurnar í fjöllunum. Hvað margir ganga upp þessar tvær bröttu brekkur. Einnig rigninguna og hvort mótinu yrði aflýst ef það myndi rigna. Skildi nú ekkert í þessu því úti var um 15 til 20 stiga hiti og blanka logn þó að það rigndi smá. Ekki minnst á hákarla sem betur fer.

bjorn2sund
Þegar öldurnar eru á hæð við einbýlishús, skipta nokkrir hákarlar ekki máli

Ræsa átti sundið á ströndinni ef ölduhæð var ekki meiri en fimm fet(2m). Annars yrði sundið fært inn í höfnina. Öldurnar þegar ég byrjaði voru um tíu fet(3m). Var hálf ógnvekjandi þegar ég var búinn að vaða sjó upp að mitti og sjá öldurnar koma á móti manni himinháar að manni fannst. En sem betur fer tók ég þátt í æfingu deginum áður hvernig á að tækla svona öldur.

Rétt fyrir en startið var kallað í hátalarakerfið og okkur bent á að kíkja út á haf. „Ekki hafa áhyggjur af þessum uggum þarna úti. Þetta eru höfrungar en ekki hákarlar.“

Ég heyrði í ungum strákum fyrir aftan mig í röðinni telja sekúndurnar. Snéri mér að þeim og spurði hvers vegna þeir væru að telja. „Þú verður að vita hvað þú hefur margar sekúndur til að ná lofti áður enn næsta alda kemur“.

Eftir öldurnar tók við hægri beygja og synt inn í höfnina. Frekar slétt og rólegt en sólin truflaði við að staðsetja baujurnar. Þetta sund var geggjað ævintýri. Erfitt en mikið stuð.

T1. Var allt of lengi á skiptisvæðinu. Þegar manni er mál þá þá er manni mál. Þurfti að bíða aðeins til að komast að á kamrinum. Þetta tók um tíu mínútur.

Hjólið er einn hringur og hjólað frá höfninni í Oceanside og upp í fjöll. Heildar hækkun er um 1000 metrar með tveim löngum 10 til 16 gráðu brekkum. Eftir fjöllin tók við 15 km langur, beinn og sléttur vegur í átt að ströndinni með miklum mótvindi. Þessi kafli tók verulega á fæturna. Hér komu auknar hjólaæfingar og lyftingar til hjálpar.

bjorn3hleyour

T2. Var alveg búinn eftir hjólið. Tók því bara rólega. Lét bera á mig sólkrem og fékk mér smá snarl. Aðrar tíu mínútur.

Hlaupið var það sem ég kveið mest fyrir. Hafði ekki hlaupið í rúman mánuð og lengsta hlaup frá áramótum var 10 km.

Hlaupið var meðfram ströndinni með hafgoluna sem kælingu. Hitinn var þegar ég byrjaði hlaupið um 25 gráður og steikjandi sól. Eftir um 12 km skokk byrjaði ég að fá krampa, fyrst í kálfa og svo aftan í læri. Þá tók við ganga í einn kílómeter og skokk í tvo. Var staðráðinn í að klára þetta sama og það tókst með herkjum á 7:25. Sjaldan verið eins ánægður með sjálfan mig að geta það þó tíminn sé ekki uppá marga fiska.

Að ná settu marki er góð skemmtun..

Það var ljóst um áramótin að ég myndi ekki setja nein met. Markmiðin voru að mæta í þessa keppni, klára og njóta.

Allt í kringum þetta mót var pott þétt. Upplýsingagjöfin fyrir keppni og meðan á henni stóð var til fyrirmyndar. Mæli hiklaust með heimsókn á þessar slóðir í veðurblíðuna og hvað er skemmtilegra en að skella sér í hálfan þegar tækifæri gefst?

bjorn4klarar
Með íslenska fánann var fagnað eftir keppni

 

Sjö tímar og sjö mínútur í Salou

mynd1
Inga Hrund Gunnarsdóttir segir frá:

7.apríl 2019 kláraði ég hálfan járnkarl í Challenge Salou keppninni á Spáni: 1900 m sund, 90 km hjól og hálfmaraþon hlaup.
Ég er vanalega stuttorð en mig langaði að ná að skrifa niður allt um þessa fyrstu stóru keppni sem ég fór í erlendis þannig að náðu í kaffi núna eða rúllaðu niður að kaflanum “Keppnisdagur” ef tíminn er naumur.

Bakgrunnur
Þegar ég var barn þá æfði ég frjálsar og sund því það var í boði í Mývatnssveit. Það voru unglingar og foreldrar að þjálfa af góðum hug en hafa sennilega ekki fengið mikla tilsögn sjálfir. Ég var alltaf seinust í öllu, ekki bara í keppnum heldur líka á æfingum og getuskipting hefði hentað mér á þessum tíma. Ég hefði bara átt að hlaupa tvo hringi á æfingum á meðan hinir fóru þrjá. Svo hefði verið fínt ef einhver þjálfari hefði sýnt mér persónulega áhuga en í minningunni þá fannst manni þjálfarar og íþróttakennarar bara hafa áhuga á krökkunum sem fóru hraðast. Kannski var það ekkert þannig og ég vona að það sé alls ekki þannig núna. Vildi líka að mér hefði verið kennt skriðsund í staðinn fyrir að segja mér að synda fjórar ferðir af skriðsundi. Flutti svo í Árbæinn, reyndi að æfa fótbolta en fannst erfitt að vera nýr iðkandi á nýjum stað, lítið var kennt og  og ég hætti eftir nokkrar vikur. 12-13 ára minnir mig að ég hafi ekki hreyft mig neitt því það myndi hvort sem er engu skila, ég yrði bara alltaf í lélegu formi. Flutti í Mosó, tók eina önn í jazzballett og 14 ára keyptum við Solla vinkona okkur kort í WorldClass Skeifunni. Lögðum á okkur að taka Mosfellsleið niður á Grensás til að mæta í eróbikk og pallatíma. Mig minnir að við höfum nú ekki verið með mikil árangurs- eða heilsufarsmarkmið í huga, heldur fannst okkur þetta bara skemmtilegt. Aldrei datt mér samt í hug að fara út að hlaupa.
Svona liðu árin og ég tók tarnir í líkamsræktarhóptímum og tækjasal, var sem sagt ekki stanslaust í sófanum. Labbaði á nokkur fjöll með fjölskyldunni, (19 árum eldri en ég tengamamma mín alltaf í geggjuðu formi, svífandi upp brekkurnar á undan mér!) Eignaðist börn, fór í ræktina og jóga og svo allt í einu, 39 ára þegar yngsta barnið var að verða eins árs þá kom rétti glugginn og ég var tilbúin að stíga upp úr sófanum og fara að hlaupa.
Í maí 2014 var heilsumánuður í vinnunni, Íslenskri erfðagreiningu. Hljómar kannski klisjukennt en þetta kom mér af stað. Þorlákur Jónsson langhlaupari vann þá hjá ÍE og var fenginn til að sjá um byrjendur í hlaupum. Mig minnir að við höfum hlaupið tvisvar í viku og við hlupum í 2-3 mín og gengum í 2-3 mín. Þorlákur hljóp og labbaði alltaf með okkur og það hélt mér við efnið að hafa félagsskapinn frekar en að vera ein með klukkunni. Ég hugsa alltaf mjög hlýlega til Þorláks fyrir þessa fagmennsku og þolinmæði. Eftir rúman mánuð af æfingum tók ég þátt í mínu fyrsta almenningshlaupi og fór 3 km í fyrsta sinn án þess að labba. Tími 18.22 (pace 6.07). Markmiðið var svo að fara 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég fór lengst 7 km á æfingatímabilinu, þetta var alltaf erfitt. Svo fórum við Steinunn Kristjáns vinnufélagi minn þetta saman á 71 mín í keppninni. Hefðum kannski komist hraðar ef við hefðum átt hlaupaúr og kynnum að stilla hraðann okkar betur en við vorum byrjendur og mjög lukkulegar með árangurinn. Árið eftir, 2015, hljóp ég 10 km á 60 mín og 5 sek (djöfuls 6sek!), 2016 fór ég hálft maraþon og 2017 heilt maraþon á 4 klst 20 mín. Best á ég 53.35 í 10 km 31.des 2017.Þá hugsa ég að ég hafi loksins verið komin í betra form heldur en sextug tengdamóðir mín en ég þori samt ekki ennþá að skora á hana í tímatöku í fjallgöngu með 12 kg bakpoka! Æfði árin 2015-2017 með Almenningsdeild Víkings, hlaup og hjól, frábært félag, skipti bara af því ég vildi fara í þríþraut en Ægir3 er auðvitað stórkostlegt félag, ég vona að öllum líði vel í sínu félagi 🙂
Með þessum æfingaáhuga bættust hjólreiðarnar við. Ég keypti götuhjól 2015 og fór fjögur ár samfellt í cyclothonið og hef tekið þátt í fullt af keppnum. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í viðburðum og keppnum þótt árangurinn sé misjafn og þyrfti eiginlega sponsor til að borga öll þessi keppnisgjöld. Er ekki einhver þarna úti sem vill styrkja húsmóður í B-flokki??

Þríþraut
Það hafði blundað í mér lengi að læra að synda skriðsund þannig að ég endist í meira en 100 metra. Fór á námskeið tvisvar með nokkurra ára millibili áður en ég byrjaði hjá Ægi3 en þetta hefur bara gengið mjög illa hjá mér. Veit ekki hvað ég þarf helst að bæta, tæknina væntanlega en sundið mitt lítur víst ekki svo illa út þannig að kannski þarf ég að bæta handstyrkinn? Á vídeó ef einhver vill ólmur sjá og gefa ráð!
En þríþrautin var byrjuð að heilla, ég fór með vinnufélögum í boðsveit í sprettþraut (hjólaði) og svo með cyclothon stelpum í boðsveit í hálfum járnkarli í Kjós 2017 þar sem ég tók hlaupið. Svo missti Guðrún vinkona út úr sér að hún vildi prófa að æfa þríþraut og ég greip það á lofti og við fórum að æfa hjá Ægi3 haustið 2017. Markmiðið mitt var að fara í hálfan járnmann.
Upphaflegi ótti minn við sundið hafði verið það að mér er svo illa við að synda í köldu vatni en svo reyndist það vera hraðinn sem var mín helsta fyrirstaða. Mér fannst sundið aldrei smella hjá mér og hætti við að skrá mig í stóra keppni 2018. Fór í þrjár sprettkeppnir þá um sumarið. Haustið 2018 þá var ég nú hætt að vera eins búin á því eftir sundæfingar þannig að eitthvað var mér að fara fram en hraðinn var ekki að lagast mikið, en væntanlega var ég nú að fara úr 3.00/100m niður í 2.45/100m. Á best 2.30/100m í 200 m spretti.
Félagar í Ægi3 voru nú farnir að æsa hvorn annan upp í keppni í Jönköping í Svíþjóð í júlí 2019 en mér leist ekki á tímasetninguna af ýmsum ástæðum eins og sumarfríum barnanna og svo vildum við hafa sumarið til að hjóla. Eitt leiddi af öðru og Kári maðurinn minn ákvað að byrja að æfa þríþraut og koma með mér í hálfan járnkarl í apríl 2019. Samið var við elsta barnið og ömmurnar um pössunarplan og allt sett í gang.
Ég valdi Challenge Salou á Spáni 7.apríl meðal annars út af tímasetningu en líka því að hjólaleiðin átti að vera góð og það eru ekki aukatímamörk í hjólinu eins og er t.d. í 70.3 HIM Barcelona. Þar sem sundtíminn minn yrði langur þá varð ég að geta slakað aðeins á í hjólinu. Helsti gallinn við tímasetninguna var að geta ekki æft af viti utandyra yfir veturinn, bara útihlaupin. Ég fór ekkert út að hjóla á götuhjóli frá því í lok september og á ekki cyclocross hjól. Hjólaði í vinnuna á fjallahjóli, 2×15 mín á hverjum virkum degi í næstum öllum veðrum. Ég hafði fulla trú á að reynsla úr keppnis- og æfingahjólreiðum síðustu fjögurra hjólasumra myndu duga til þess að 90 km yrðu vel gerlegir. Ég fór ekkert í sjósund um veturinn út af kuldahræðslu en hafði farið tvisvar í sjó í blautbúningi í ágúst og leið alveg vel svo ég vottaði sjálfa mig óhrædda við sjó.

Æfingar og næring
Ægir3 er með 7 æfingar með þjálfara auk einnar sundæfingar án þjálfara í viku fyrir félaga í æfingahóp og maður fær líka áætlun þar. Ég var yfirleitt að taka fimm æfingar á viku í samtals 6-8 klst: Tvö hlaup, tvö sund og eina langa brick æfingu þar sem við vorum á vattahjólum og hlupum svo á eftir. Var með eigið hjól á trainer heima sem ég ætlaði að nota í staðinn fyrir eina Ægis3 hjólaæfingu en var hreinlega frekar löt að nota hann. Tók nokkrum sinnum þjálfaralausu sundæfinguna.
Var með smá verk í hné á tímabili en var annars meiðslalaus.
Ég hefði ekki viljað auka æfingamagnið, þetta er meira en nóg til að gera það sem ég vil, nema að ég hefði mátt vera duglegri að gera styrktaræfingar sjálf.
Uppáhaldsæfingarnar voru mánudagshlaupasprettir inni í Frjálsíþróttahöllinni og sunnudagshjól- og útihlaup á vattahjólunum í Sólum. Ekki spillti fyrir að fara saman á kaffihús á eftir og tala um þríþraut!

Breytti nær engu í mataræði, borða og borðaði bara venjulegan mat, “hollt í hádeginu” (alltaf grænmeti með matnum í vinnunni og fiskur tvisvar í viku) en hollustan aðeins sveigjanlegri heima og við látum t.d. Megaviku aldrei framhjá okkur fara og gos og snakk er ekki bannað. Ég minnkaði samt naslið yfir sjónvarpinu á kvöldin og nú er bara ostur, kók og Ritz kex einu sinni í viku í staðinn fyrir þrisvar! Fuku af mér 2 kíló við það! Ég er ekkert að mæla með þessu mataræði en bara svona að láta fólk vita að maður þarf ekki að fara alla leið til að stunda æfingar og taka þátt í keppnum. En ef þú ætlar að komast á pall þá er sennilega betra að borða aðeins minna af kökum og frönskum heldur en ég geri.

Kvíðatímabilið
Keppnin nálgaðist og raddir efasemda grófu um sig í hausnum á mér. Hvað var ég að spá? Fara út bara til að ná ekki tímamörkum í sundinu? Búin að eyða tveimur árum í æfingar, kaupa flug, hótel og keppnisskráningu? Ég reyndi að segja sem fæstum frá því að við værum að fara í hálfan járnkarl þannig að ég þyrfti að segja færra fólki frá þegar það myndi misheppnast. Var samt búin að synda 1900 m á tæpum klukkutíma í sundlaug og einu sinni 2400 m í galla í laug undir heildartímamörkum (sem voru 1 klst 10 mín) þannig að á pappír átti ég að ná tímamörkunum í sjósundinu. Var fyrst bara að hugsa um þetta fúla sund en svo fór ég að kvelja sjálfa mig yfir að hafa ákveðið að taka eigin hjól með út í stað þess að leigja hjól. Hjólin myndu ábyggilega týnast á leiðinni eða skemmast. Svo kostaði flutningurinn fyrir þau 14.000 kr. stk. Ég hafði reyndar verið það skynsöm að panta flug með Norwegian en ekki WOW en oft þegar ég minntist á Norwegian þá sagði einhver “er Norwegian ekki að fara á hausinn?” Þegar WOW loksins fór á hausinn þá hækkaði hvíldarpúlsinn minn um eflaust 20 slög og hélst þannig þangað til ég var lent úti á Spáni.

Til Spánar
Við flugum út á fimmtudegi en keppnin var á sunnudegi. Eftir á séð hefði verið betra að fara út einum degi fyrr en út af vinnu og flugáætlunum varð þetta svona. Hjólin skiluðu sér! Við vorum ekki komin á áfangastað fyrr en um kvöldmat en sólsetur átti ekki að vera fyrr en um klukkan níu þannig að við drifum okkur í sjóinn í blautgöllunum okkar. Og hugsa sér, það var bara ekkert hræðilegt, ekki svo kalt og ég gat auðveldlega synt. Vorum bara stutt samt.
Næsti dagur fór í smá stúss eins og að sækja keppnisgögn og kaupa gashylki fyrir pumpurnar. Fórum aftur í sjóinn og nú voru meiri öldur við ströndina. Missti af Kára og fannst það mjög óþægilegt, fór meira að segja að hugsa um hákarla sem höfðu, merkilegt nokk, ekki verið á listanum mínum yfir hluti til að hafa áhyggjur af! Fór í land og beið eftir að Kári skilaði sér.

mynd2
Þar sem á ströndu hvítar bárur brotna…

Daginn fyrir keppni fórum við aftur í sjóinn og þá voru enn meiri öldur við ströndina. Ég hef enga reynslu af sjó fram yfir busl í sólarlandaferðum þ.a. ég veit ekkert hvar þetta var á einhverjum mælikvarða. Kári alltaf brattur og við komum okkur út í, bara fara út í og pæla í seinna hvernig við komumst aftur í land! Fékk vænt högg í andlitið þegar alda brotnaði framan í mig og sundgleraugun fylltust við það af sjó. Svo kom næsta líka á mig, hvernig á eiginlega að gera þetta, synda baksund? Stinga sér í gegnum ölduna? En eftir 2-3 öldur þá vorum við komin út fyrir brimið og gátum farið að synda. Ég var samt með háan púls eftir þessa baráttu og ekki með mikla orku fyrir sund og synti næstum ekkert. Það var síðan hrikalega erfitt að komast í land aftur. Vorum saman og Kári hélt í mig á meðan öldurnar skullu á okkur, mikið var ég fegin því. Aftur, 2-3 stórar. Í einni þeirra fóru af mér sundgleraugun en sem betur fer náðum við þeim aftur í öldudalnum en það var enginn tími til að setja þau á sig aftur áður en næsta alda keyrði á okkur. Ég fór samt, að mig minnir, aldrei alveg á kaf, var í frussinu en ekki með stjórn á aðstæðum og erfitt að hugsa hvort maður ætti að anda frá sér eða halda niðri í sér andanum. Eftir þessa baráttu varð samt að halda áætlun og taka 15 mín af hjóli og hlaupi með viðkomu á hótelherberginu sem var skiptistöðin okkar.
Eftir þá æfingu lagði ég mig og dreymdi öldu að koma á móti mér.
Seinnipartinn var svo komið að pastaveislu, keppnisfundi og að skila inn hjólum og skiptisvæðispokum en í þessari keppni var maður með sitt hvorn pokann fyrir T1 og T2.

mynd3
Kolvetnin klikka ekki!

mynd4
Einhver spurði á fundinum hvað yrði gert ef það yrði ekki hægt að synda og ég hugsaði einmitt að ég yrði bara fegin ef sundinu yrði hreinlega sleppt.
Það var pínu erfitt að sofna kvöldið fyrir keppni en ég var samt orðin miklu minna stressuð, það róaði mig að vita að keppnisstjórnin ætlaði auðvitað ekki að demba fólki út í sjóinn ef aðstæður væru tvísýnar. Bylti mér í næstum klukkutíma og fékk mér svo banana og sofnaði.

Keppnisdagur
Vöknuðum kl.6.00 og græjuðum okkur, matur, nuddvörn, sólarvörn, vel heppnaðar klósettferðir og TVÆR sundhettur því ég ætlaði sko ekki að týna sundgleraugunum og var með þau á milli hettanna. Tók líka önnur með mér og var með þau um ökklann. Löbbuðum á keppnissvæðið og vorum mætt um 7.30 en ræs hjá Kára var 8.20 og 8.30 hjá mér. Skiluðum götuskóm og eftirátöskunni í guardarropa. Borðaði banana sem ég hafði tekið með mér. Áætlað hitastig sjávar 14-16°C.
Sjórinn leit mjög vel út og ég var sultuslök, loksins! Þetta sund leit út fyrir að vera vel gerlegt. Horfðum á atvinnuíþróttafólkið byrja kl.8.00 og 8.10 og svo var bara komin röðin að okkur. Það var hópstart og ræstu um 500 karlar saman með Kára. Svo ræstu konurnar sér og ég held að við höfum verið 70-100. Búmm, skotið reið af fallbyssunni og ég labbaði út í sjóinn. Byrjar þá flagan að skrölta við ökklann á mér! Laga í flæðarmálinu eða drífa sig? Ég losaði flöguna og herti festinguna vel og hélt svo áfram. Það var ekkert mál að komast út í, ég var í góðum málum. Verra var að sjá leiðina þó ég hafi mikið æft að kíkja eftir baujum. Endaði á að synda mikið bringusund til að sjá betur, var slétt sama.
Synt var í ferhyrning, fyrri skammhlið og langhlið gengu vel. Ég var því sem næst ein allan tímann eins og ég vissi en sá oft í aðrar konur og það veitti mér öryggi. Svo var seinni skammhliðin þokkaleg en meiri öldugangur þar. Seinni langhliðin var erfið, mér fannst vera straumur á móti mér og erfitt að sjá í baujur út af sólinni. Hugsaði þá til Breta sem var á hótelinu okkar, við höfðum verið að spjalla við hann um reynsluleysi okkar í sjósundi og hann sagði að það væri gott að hafa í huga að þótt manni fyndist manni ekkert miða áfram á móti straumnum, þá væri maður samt að fara áfram. Eitt af betri ráðum sem ég fékk fyrir þessa keppni!
Synti nú að seinustu baujunni og gekk í land, níðþung. Leit á klukkuna og sá að ég hafði náð þessu á undir klukkutíma eins og takmarkið var, flögutíminn var 56 mín. Var svo glöð að hafa náð þessu að ég var ekkert að flýta mér, labbaði inn á skiptisvæðið en hljóp ekki. Varð skítkalt þegar ég var að koma mér úr blautgallanum. Drakk kók, fékk mér mentolbrjóstsykur til hressingar, setti á mig sólarvörn. Fór í tvo hjólajakka og setti á mig eyrnaband. Það var erfitt að renna jökkunum því ég skalf svo mikið. Leit á klukkuna og sá að ég hafði nú dundað mér fulllengi þarna en mér var bara alveg sama um þennan skiptitíma þetta augnablikið því ég hafði komist í gegnum sundið og var að fara að klára þessa keppni nema að ég slasaði mig á hjólinu eða að það myndi bila.
Hljóp af stað að hjólarekkunum, gerði þau mistök að treysta á eigin talningu frá því daginn áður frekar en að horfa á númerin á rekkunum og fór fyrst fram hjá hjólinu. Svo tók ég alveg hálfa til heila mínútu í að bíða eftir GPS sambandi á hjólaúrinu, já ég er Strava fíkill. T1 tíminn minn var tæplega 15 mínútur en ég var ekki pirruð yfir því eftir á heldur fannst það bara fyndið.
Hjólið gekk vel og Sensa hjólið mitt var eins og hugur manns. Það var helst svekkjandi hvað það var mikill vindur. Norska spáin sagði að það hefðu verið 8 m/s. Ég missti hraðann oft undir 20 km/klst, það hafði svo sannarlega ekki verið á áætluninni! Ég hafði bara notað liggistýrið á trainernum inni heima og svo þessi stuttu æfingaskrepp á Spáni dagana fyrir keppni en það gekk ótrúlega vel að nota stýrið. Ég var allavegana dauðfegin að hafa það út af vindinum en hafði vonast eftir að geta hvílt meira á því. Ég fann ekki fyrir neinum eymslum eða dofa nema kannski aumum setbeinum í lokin enda á grjótharða hnakkinum mínum og með mjög þunnan þríþrautarhjólapúða í keppnisgallanum. Var reyndar með aumar axlir daginn eftir sem ég veit ekki hvort var eftir sundið eða hjólið.
Ég var fegin að vera með eyrnabandið og í tveimur jökkum því mér varð aldrei of heitt á hjólinu. Veðrið var nefnilega svipað og daginn áður og ég hafði ákveðið að ef mér yrði heitt að þá ætlaði eg bara að stoppa og setja annan jakkann í bakvasa. Fannst líka gott að vera með nóg af slöngum í bakvösunum. Var samt örugglega mest klæddi keppandinn…
Ég hjólaði bara eftir tilfinningu (á ekki wattamæli), vildi ekki fá háan púls og reyndi að herða mig þegar hraðinn fór undir 23 km/klst. Var ekki með púlsinn á hjólaskjánum en fletti einu sinni yfir á hann og sá að hann var 140. Samkvæmt upptökunni var púlsinn í Z3 allan hjólatímann.
Hjólið var klárlega skemmtilegast og hluti af því sem ég hafði hlakkað til var að borða. Var með stór Corny stykki og fékk mér á um hálftíma fresti. Svo var ég lengi að borða hvert stykki þannig að ég var eiginlega borðandi allan tímann! Fann einu sinni eða tvisvar fyrir hungurtilfinningu þrátt fyrir þetta stanslausa át. Þá hafði kannski liðið heill hálftími á milli fóðrunar. Var með þetta allt í risastórri tösku á stönginni. Ekki neitt straumlínulaga dót. Var líka með gel og borðaði tvö, seinna gelið borðaði ég á seinustu kílómetrunum. Var með vatn í eigin brúsa og svo powerade í upprunalegum brúsa, skröltandi í brúsahaldaranum (kom ekki að sök, hann datt ekki úr enda fínir vegir, mæli samt ekki með þessu).

mynd5
Hjólaðir voru þrír hringir með þremur botnlöngum. Fólk þeyttist fram úr mér og maður mætti öðrum keppendum á hinni akreininni. Var að gá hvort ég sæi Kára þarna einhvers staðar og viti menn, var hann ekki þarna að koma á móti mér! Ég gólaði KÁRI!!! Og HÆÆÆ en þegar furðu lostinn maðurinn leit upp þá mundi ég að Kári hafði ætlað að vera í jakka en ekki svarta og hvíta þríþrautargallanum á hjólinu og þetta var alls ekki hann!
Þegar ég byrjaði þriðja hringinn minn voru næstum engir eftir í brautinni og þá var ekki eins gaman. Þá lenti ég í smá stress atviki því ég hélt að ég hefði gleymt að beygja inn einn botnlangann. Við afleggjara var einn sjálfboðaliði að horfa út í loftið og ein keila. Átti ég að beygja þarna? Átti ég að stoppa og spyrja? Þetta var í þriðja sinn sem ég hjólaði þarna og ég átti að þekkja þetta. Hélt áfram en ekki á fullu afli ef ég skyldi þurfa að snúa við, svona fer skynsemin stundum forgörðum. Kom loksins að réttum botnlanga, þar voru auðvitað þrír starfsmenn og 10 keilur. Gaf í og náði meira að segja að taka fram úr tveimur!

mynd6

Kom nú að drykkjarstöðinni í þriðja sinn, hafði losað mig við tóma powerade flöskuna áður og greip isodrykk í brúsa, sjá mynd! Var nú sennilega óþarfi því það var enn nóg af vatni í vatnsbrúsanum mínum og ég átti enn til gel en hey ég hef aldrei á ævinni gripið brúsa á drykkjarstöð!
Var alltaf að reikna í huganum hvað ég yrði lengi ef ég myndi halda hinum og þessum meðalhraða og það var nóg að gera hjá mér þannig að þessi 3,5 klst leið mjög hratt. Undir lok hjólsins var mér mál að pissa í fyrsta sinn en gerði ekkert í því. Held líka að fugl hafi skitið á hausinn á mér við 80 km en sá engin ummerki um það við skoðun í spegli eftir keppnina.
90 km í hús á 3:33 Meðalhraði 25,5km/klst. Áætlun hefði verið 26 km/klst svo að þetta var á pari. Af hjólinu og hlaupa með það að rekkanum eða hvað? Gat ekki hlaupið heldur skjögraði með hjólið eins og hjólbeinóttur kúreki, fannst eins og liðamótin við setbeinin hefðu færst til og ég þyrfti að krossleggja fætur til að koma þessu í lag. Gerði það samt ekki og labbaði með hjólið að rekkanum og sótti hlaupapokann. Reif mig úr jökkum og öllu hjólatengdu, setti á mig der, hlaupaskó og klessti á mig sólarvörn. Fannst erfitt að setja á mig sólarvörnina, hefði viljað vera með úðabrúsa fyrir allt nema andlitið. Hafði farið í sokka fyrir hjólið og sett á mig tásukrem þá þannig að þar þurfti ekkert að gera. Vildi að það hefðu verið kamrar inni á skiptisvæðinu svo að pissutími yrði hluti af skiptitíma en ekki hlaupatíma. Ákvað að halda í mér þótt það gæti þýtt vanlíðan í hlaupinu. Hljóp af stað, gleymdi að kveikja á hlaupaúrinu, kveikti á því í ofboði, hljóp á svaka hraða 5.50 en 6.00 hafði verið áætlaður hámarkshraði. Eftir kannski 500 m sá ég kamar! Og engin röð! Dreif mig inn og þvílíkur léttir, sá sko ekki eftir að hafa stoppað.
Það var mikil gola á hlaupaleiðinni sem var 4x5km við ströndina. Á kafla var samt skjól og þá varð mjög heitt en hitastigið var samt held ég ekki yfir 20°C. Það var sól allan tímann og ég þakkaði fyrir að hafa haft vit á að kaupa mér þetta der sem ég hljóp með ásamt sólgleraugum. Skýldi mér stundum á bakvið aðra hlaupara í mesta vindinum.

mynd7

Fór að svíða í hægri holhöndina strax á fyrsta hring en ég hef áður fengið nuddsár þarna þegar ég hef hlaupið í ermalausu. Hafði ekki sett nuddkrem þarna í T2, bara sólarvörn. Reyndi að lyfta hendinni og harkaði þetta af mér, þetta verður bara vont seinna, nú þarf ég að hlaupa. Fór svo að hella vatni á þetta á drykkjarstöðinni og það hjálpaði mikið.
Brautin var hlaupin fram og tilbaka og þannig að maður fór tvisvar í gegnum drykkjarstöðina á hverjum 5 km hring.
Það var mjög gaman að hlaupa svona fram og til baka því þá hittir maður svo marga. Við Kári hittumst oft og hann hvatti mig en mér datt ekkert sniðugt í hug til að segja. Held að við höfum náð allavega einni fimmu.

mynd8
Ég var búin að hlakka mikið til að fara að hlaupa því þá er maður svo öruggur. Í hlaupi fær maður ekki sjó upp í sig eða sprengir dekk. Ég get líka vel hlaupið í tvo tíma, finnst það ekkert ógnvænlegt, er eins og áður sagði ekkert að fara á neinum afrekshraða. En það verður að segjast að hlaupið var mjög erfitt. Mig langaði SVO mikið að labba. Byrjaði eins og fyrr segir á 6.00 (besti hraði) en hægði fljótlega á mér og var mikið á 6.15 fyrri helminginn en seinustu 9 km hægði ég verulega á mér, niður í 6.40 sirka. Leyfði mér að labba við drykkjarstöðina og svo labbaði ég tvö gel af fjórum. Var líka með háan púls, 161-166 slög og fannst það vera zone 4 púlsinn minn og vildi reyna að ná honum niður. Þarf að endurskoða þetta því varla var ég í Z4 í yfir 2 klst.
Kári var kominn í mark og í finisher bol þegar ég byrjaði seinasta hringinn. Þetta var allt að ganga upp hjá mér. Mikið farið að fækka í brautinni en ekki jafn einmanalegt og á seinasta hjólahringnum. Svo var bara komið að þessu. Seinasti kílómetrinn! Kláraði hlaupið á 2:17:06 (pace 6.30) með pissustoppi og smá labbi! Markmiðið hafði verið 2:14. Kári tók á móti mér í markinu. Mikið var þetta skrýtið, tveggja ára undirbúningur og markmiðið í höfn, ég brosti hringinn en djöfull var ég búin á því. Dreif mig samt í niðurskokk því mig vantaði nokkur hundruð metra inn á úrið frá því ég gleymdi að setja það af stað og ég hleyp sko ekki hálft maraþon án þess að það fari inn á Strava!
Þetta tók mig sem sagt 7 klst og 7 mín sem var á pari við væntingar.
Borðaði banana og iso drykk, tókum myndir af okkur í bolunum, náðum í dótið okkar og löbbuðum heim í sturtu. Borðuðum á McDonalds því ég nýt mín ekki við dúkað borð eftir svona átök! Hafið ekki áhyggjur, næsta dag fórum við á tapas stað með hvítum dúkum.

mynd10

Mig langar að þakka fullt af fólki fyrir ýmsa aðstoð við undirbúning. Kára, manninum mínum, fyrir að drífa sig með mér og vera hjólaviðgerðarmaður. Stóra stelpan okkar, Anna Valgerður, tók að sér að passa yngri systkin sín mjög mikið, þurfti oft að koma þeim ein í rúmið og það er sko ekki auðvelt. Takk elsku Anna mín 🙂
Foreldrar okkar beggja hjálpuðu mikið við pössun. Þegar við fórum á hjólaæfingar á sunnudagsmorgnum kl.8.00 þá sóttu tengdó krakkana um tíuleytið og fóru með þau heim til sín í morgunmat. Við komum svo og sóttum þau og fengum dýrindis mat í leiðinni. Mamma mín sá um ballettinn hjá þeirri 5 ára og þá hlupum við langa hlaupið á meðan. Svo hefur sú amma verið ótrúlega þolinmóð á pössunarútkallsvakt og þau pabbi margoft tekið börnin í bústað yfir helgi. Vigdís, Ragnheiður, Gunnar Ingi og Halldór, takk innilega fyrir hjálpina.
Ég vil þakka þjálfurunum hjá Ægi3; Geir, Gylfa og sérstaklega Óla sem hefur verið þolinmóður að gefa mér ráð og hafa trú á mér. Löngu brick æfingarnar hjá Karen Axels skiluðu líka sínu.
Vinir, vinnu- og æfingafélagar gáfu, lánuðu eða seldu ódýrt ýmsar græjur sem okkur vantaði: Guðrún Jóns og Brynja Stefáns (þær voru líka svo duglegar að hvetja mig, ég veit að þið trúið ekki hvað ég hugsaði mikið til ykkar og um mörg góð ráð sem ég fékk frá ykkur), Anna Helgadóttir og Gúa Geirs (eðalteymi), Ólafur Þór M, Trausti Vald, Siggi Tommi.
Ég mæli með Salou keppninni fyrir þá sem eru til í að fara í keppni svona snemma á árinu. 2020 verður keppnin 29.mars. Ég hef auðvitað ekki samanburð en keppnisleiðirnar eru mjög fínar og það er úrval hótela í göngufæri við keppnissvæðið, 3 km í stóra íþróttabúð ef þú gleymdir einhverju heima, menningin er þægileg, flestir með posa og nokkuð góðar samgöngur. Það er heldur ekki of heitt á þessum árstíma.

Nú er auðvitað spurningin hvað er næst, hvort maður hugsi stærra. Heill járnkarl finnst mér vera í allt annarri deild en það væri nú alveg gaman að fara aftur í hálfan. Daginn eftir keppnina, þegar ég var með svo miklar harðsperrur í lærunum að ég gat ekki sest niður án þess að styðja mig við, þá hugsaði ég að þetta hafi nú ekki verið svo erfitt? Þetta var nú samt erfitt.
Í ágúst ætlum við hjónin að taka þátt í Glacier360.is sem er þriggja daga hjólakeppni (ef einhver sem vill ólmur styrkja okkur þá vantar okkur Kára liðsbúninga fyrir þann viðburð) þannig að það má ekkert slá slöku við í sumar. Ég ætla líka í nokkrar íslenskar þríþrautarkeppnir og vonast til að hitta sem flesta í ólympískri þraut eða hálfum járnkarli á Laugarvatni 15.júní (sjá https://www.aegir3.is/laugarvatnsthrautin ).
Takk fyrir lesturinn, þið sem hélduð þetta út!

Með fellibyljum í Flórída

Tómas Beck segir frá:

Þetta byrjaði sem frábær hugmynd. Flórida hlýtur að vera ágætur staður fyrir fyrsta járnið, flöt og þægileg braut, ekkert vesen með vatn og hita, beint á ská flug, smá bíltúr, nóg af sól og eitthvað fyrir alla? Þetta átti að verða fjölskyldufrí í leiðinni í Panama City sem er skammt frá Tampa (bara sex tímar í bíl) og þannig yrði íslenska sumarið lengt.

Margrét Elín konan mín gekk frá skráningunni í febrúar og þá byrjaði ég að hvetja æfingarfélaga til að skrá sig líka. Raunsæisraddir fóru að tala um að þetta væri í lok fellibyljatímabilsins en Bjarki Freyr Rúnarsson lét til skara skríða og dró Rúnar Már Jóhannsson föður sinn til að vera honum (og mér) til halds og trausts.
Hugmyndir um fjölskyldufrí fóru fljótt að dvína þar sem ferðalagið yrði mjög langt og erfitt, allur fókus yrði á keppnina dagana fyrir og þreyta dagana á eftir, þannig að niðurstaðan var strákakeppnisferð.

Æfingar og undirbúningur:
Æfingar gengu þolanlega miðað við vaktavinnu og fjölskyldulíf og varð mér ljóst að lykilatriði í þessum undirbúningi var að sýna þessu hóflegan sveigjanleika. Væntingar lágu ekki fyrir þar sem maður hafði engar fyrri forsendur til að meta eigin burði og því voru einu markmiðin til að byrja með að klára. Ég hafði í fyrra klárað Challenge Iceland í Kjósinni sem er hálfur járnmaður þannig ég hafði smá hugmynd um hvað koma skyldi. Markvissar æfingar fyrir #IMFL2018 hófust í maí en aðrir tímafrekir viðburðir sumarsins tróðu sér inn á æfingaplanið. Meðal annars má nefna, allar íslensku þríþrautarkeppnirnar (nema í RNB), flest götuhlaup á höfuðborgarsvæðinu, Ísl. Mót Garpa í sundi í 25m laug, ólöglegt RVK Maraþon, Laugavegshlaupið, hlaup yfir Fimmvörðuháls, Hvítasunnuhlaup Hauka og  fjölskyldufrí á Krít. Þar fór ég nokkra langa hjólatúra í hita og brekkum. Hitinn var það sem ég óttaðist mest og vann markvisst í að æfa innandyra á Íslandi og að næring yrði að vera í samræmi við vökvatap.

Stormur í vatnsglasi? Nei þetta er alvöru:
tómasbeck54 vikum fyrir keppni er ég að skoða veðurkort af Atlantshafinu og er að róa mig yfir því að engir fellibyljir voru í uppsiglingu sem miðuðu á Flórídaskaga. Nema þar til á einhverri vefsíðu sé ég að 4. stigs fellibylur, Michael, stefndi í átt að Panama City. Þá hafði “fæðst” lítill skratti syðst í Mexíkóflóa sem óx svona rosalega í hlýjum sjónum og dúndraði beint yfir keppnisstað og nærliggjandi svæði með svakalegri eyðileggingu. Get sagt það alveg hreint út að ég hefði veðjað á að keppninni yrði aflýst þetta árið. En tæpri viku eftir Michael kom tilkynning frá Ironman að keppnin yrði færð til bæjarins Haines City sem er 73km austur af Tampa og seinkað um einn dag og nú yrði keppt þann 4. vóvember. Í þessari viku meðan Michael fæddist og fór þarna yfir og dagana í kjölfarið datt dáldið dampurinn úr æfingum. Maður var nánast búinn að afskrifa þetta og farinn að spyrja sig til hvers að sitja á trainer í 160 “Zwift” km og taka svo 30km brick á bretti. En eftir að flutningurinn var staðfestur gat maður ekki annað en hysjað upp um sig buxurnar og klárað þetta.

Ég ætla ekki fara skrifa neitt um ferðalagið og allt það heldur reyni ég að kom mér að kjarna málsins:

Keppnisdagur:
Vöknuðum 03:30 (meira að segja á undan vekjaraklukkunni) og gerðum okkur klára. Klukkan tvö um nóttina hafði day-light savings skollið á í Ameríkulandi þannig við fengum auka klukkutíma svefn. Vakna, bursta tennur, áburður, keppnisgallinn, púlsmælir, GPS´ið, tímaflagan, næring og út. Hjólið og allt hitt hafði verið tékkað inn daginn áður. Korteri eftir að við vöknuðum húrruðumst við út í bíl og brunuðum á 24/7 morgunverðarstaðinn sem var út í vegkanti við þjóðveginn. Eftir eggjaköku og ½ kaffi var aftur sest uppí bíl og keyrt í rúma klukkustund í kolniðamyrkri á keppnisstaðinn, Haines City. Þar voru ljóskastarar á víð og dreif um keppnissvæðið og tónlist í hátalarakerfum út um allt á meðan fólk var að gera sig klárt. Það var talsverð (andleg) ró yfir svæðinu (fannst mér) og flestir að klára síðasta frágang og bíða eftir startinu með bros á vör. Keppnin var ræst kl. 06:30 og höfðu fyrstu geislar sólar brotist fram korteri fyrr. Þjóðsöngurinn fékk að óma 4 mínútum fyrir start. Svo drundi fallbyssan og þá varð ekki aftur snúið.

Sundið:
Ég hafði staðsett mig fyrir miðju sundholli sem ætlaði að synda á 1:10;00 (klst:mín;sek) en hefði betur mátt troða mér framar því ég var allan tímann að taka framúr fólki. Þetta byrjaði frekar rólega, sundleiðin var “W” laga braut sem var synt tvisvar. Í öllum þessum 90’ beygjum (14 samtals) kom í ljós að sumir voru lítið sem ekkert að spá hvert þeir voru að fara. Ég fékk einn sundmann 90 gráður þvert á mig á fullu spani og allt í einu var ég að synda hornrétt á rétta leið (sem betur fer ekki nema tvö sundtök). Einstaka hnoð hér og þar kom ekki að sök og var ég búinn að gíra í mig smá barning. Vitrari menn höfðu af sínum reynslu sögum sagt að það væri barningur að staðsetja sig fyrstu 400m en svo ertu kominn í rólegri gír og klárar þar. Það var ekki þennan daginn. Mér fannst þetta bara versna á seinni hring. Þá var maður farinn að synda frammúr fólki sem áætlaði 1:50;00 mínútur og tróðu sumir marvaða og aðrar frjálsari aðferðir. Það var bara gaman (eftirá) en held ég hafi fengið 3 góð spörk í augun, ein kona (sem var að synda í kolvitlausa átt) stoppaði til ýta mér í burtu og margir fundu sig knúna til að grípa í kálfann á mér þegar ég synti framúr þeim.
Markmiðið var 1:10;00, lokatími: 1:12; 00 -mjög sáttur

tómasbeck3
T1:
Gekk pínu brösulega við að koma mér úr blautgallanum helst þá við að losna úr við ökklana en ég fattaði seinna að ég smurði mig ekki þar. Áhorfendur og stuðningsfólk var gjörsamlega að missa vitið, þetta var af allt öðru kaliberi en ég hef nokkurntíma upplifað. Ég var hálf hræddur við allt þetta fólk ÖSKRANDI á mig! “GO” “GO” “GO” eins og ÞAÐ væri við það deyja ef ÉG mundi ekki drulla mér úr fjörunni, upp að tennisvellinum og sækja hjálminn og út að hjóla! Það voru ca 300m að pokanum og skiptiklefa og svo aðrir 400m að hjóli.
Ekkert markmið bara ekki drolla: tími; 00:06;33 -sáttur

Hjól:
tómasbeck4Virkilega gaman að byrja að hjóla. Sá að púlsinn var frekar hár eftir sundið og T1. Þurfti fyrst að koma mér útúr bænum (2-3 brekkur) og svo út á sveitaveg í stöðuga keyrslu á 200W og púls undir 150bpm (raunin var svo meðal wött 177W á 144bpm). Tveir hringir tæpir 90km hver, ekkert mál. Það var skýjað (6/8 BKN), hitinn var meirihluta leiðarinnar á bilinu 22-26´C og lítill vindur 2-3 m/s. Hitinn náði hæðst 31´C á Garmin 520 hjólatölvunni minni en hún dó dularfullum tölvudauða þegar 14km voru eftir. Aftur á móti voru þarna brekkur sem höfðu ekki náð athygli minni í leiðarlýsingunni. Fannst þær heldur ekkert svo langar og brattar í samanburði við Hvalfjörðinn þannig hjólið var allan tímann bara gleði og góð vinna. Ég drakk rúma 5 lítra af vökva og pissaði aldrei (2,3L Maurten blöndu úr Iron Viking og 6x600ml Gatorade endurance á drykkjarstöðvunum).
Markmið: 5:25;00 lokatími: 5:34:48sek. -aftur sáttur.

T2:
Gekk eins og í sögu. Fór úr hjólaskónum þegar ca. 1km var í mark, jók snúningana og lækkaði gírana til að koma mér í hlaupastuð, steig af rétt á undan “dismount” línu og tölti með Trek´inn góða Equinox í hendur á sjálfboðaliða sem kom því á sinn stand. 600m tölt á tennisvöllinn til að sækja seinni pokann, hjálmur af, sokkar af. Sokkar á, skór á, der og sólgleraugu. Út í maraþon -nú getur EKKERT klikkað!, hugsaði ég. Rétt við línuna þar sem hlaupið byrjaði staldraði ég við til að fá sólarvörn á mig þar sem skýin voru að brotna upp og hitinn var farinn að vera óþægilegur.
Ekkert markmið bara ekki stoppa: Tími: 00:04;32.

Hlaup:
Byrjaði alveg lygilega vel. Búinn að jogga nánast allan stífleika úr á skiptisvæðinu og fannst ég bara geta byrjað að brokka og hafði virkilega góða tilfinningu að hafa sparað orku á hjóli og nært mig vel. KOMASVO bara 5:30-6:00min/km. Fyrstu 3 kílómetrana var þetta ekkert mál (fyrir utan hitann) en svo fór að halla undan fæti. Brekkurnar voru allt í einu rosa langar og brattar og hitinn jókst og jókst. Ég þurfti að pissa og brá mér á salerni á annari drykkjarstöð og hugsaði mér gott til glóðarinnar að létta af mér þessum 5L sem ég hafði torgað í mig á hjólinu en ekkert kom.En fljótlega fór ég að finna fyrir spennu og kippum í öllum vöðvum í efrihluta líkamans. Hendur og brjóstvöðvar voru með krampa einkenni (ég í alvörunni hló og fannst það svo fyndið) en fór þá að hægja og fór að hrista hendurnar til að reyna losa um þetta. Það gekk ágætlega en þá fluttist þessi tilfinning niður í fæturna, bæði fyrir ofan og neðan hné (læri að framan og aftan og kálfanum). Til að gera langa sögu stutta þurfti ég slá rosalega af til þess að krampa ekki upp. Hlaupið byrjaði á upphitun (spotti út úr bænum eins og á hjólinu) og svo þrír skrítnustu hringir sem ég hef hlaupið í kringum vatnið sem synt var í um morguninn. Fyrsti hringurinn var verstur, þá horfði ég á markmið mín fjara hægt út. Seinni tveir hringirnir voru komnir í væntingastjórnun og bara rumpa þessu af. Það loks fór að ganga betur þegar manni tókst að skokka 7:00min/km pace þegar nánast ALLIR í brautinni voru að labba.
Marmið 3:50;00 lokatími: 5:03;38 -ekki sáttur með tímann en sáttur með að hafa klárað.

Lokatími: 12:03;01

Niðurstaða:
Þetta var ógeðslega erfitt og sérstaklega þegar frávik frá markmiðinu var orðið svona mikið þá fór andlega hliðin að draga mann líka niður. Erfiðasti hjallinn í þessari keppni fannst mér að halda haus síðustu 2-3 klukkutímana og klára. Eftir á að hyggja get ég eflaust giskað á að aðstæður dagsins voru öllum erfiðar. Margir voru að kvarta á meðan þeir gengu í brautinni hversu erfitt allt hefði verið þennan dag. Þetta var alls ekki auðvelt og viðkenni að ég vanmat erfiðleikastuðulinn pínu. Sjáum svo hvað setur, rykið af þessari keppni er enn að setjast. Þetta er ekki fyrir alla, EN ég get alveg mælt með þessu! 🙂

Ég vildi þakka fjölskyldu minni og sérstaklega eiginkonu minni, Margréti, fyrir stuðninginn við skráningu og undirbúning og hversu þakklátur ég er fyrir að hafa þau. Og svo vildi þakka ferðafélögum mínum Bjarka og Rúnari fyrir frábæra ferð og alla hjálpina í gegnum þetta. Til hamingju Bjarki Freyr með annað sæti í aldursflokki. Þetta eru forréttindi að geta gert þetta.

Leiðin til Kona

Sigurður Tómas Þórisson gerir upp járnið

Undirbúningur
Eftir Ironman Austurríki í júlí fyrrasumar (2017) var ég nokkuð rólegur fram að áramótum. Var duglegur að hjóla restina það sem eftir lifði sumars og mætti óreglulega á Ægir3 æfingar á haustmánuðum því við fjölskyldan vorum að undirbúa flutninga, sem fóru svo fram í desember. Eftir jólin hófst formlegt prógramm fyrir Barcelona – 9 mánuðir af nokkuð markvissum æfingum.
Fyrir Austurríki hafði ég æft einn míns liðs (með eigið prógramm) frá október fram í mars þegar ég mætti fyrst á æfingu hjá Ægir3. Ég ætlaði að byrja miklu fyrr með Ægi en ég miklaði fyrir mér að koma föstum æfingatímum inn í prógrammið hjá mér, sem var nokkuð þétt þá þegar – með þrjú börn, krefjandi vinnu og klifuræfingar. Sóló gat ég valið eftir hentisemi hvenær ég æfði og það var hentug leið til að gera Ironman prógrammið sæmilega áhrifalítið fyrir fjölskylduna. Var stundum að hjóla á trainer seinni partinn eftir að ég sótti krakkana í skóla/leikskóla, að hlaupa eða gera æfingar í ræktinni eftir háttatíma hjá þeim og synda fyrir vinnu á morgnana. Það er líka mikill tímasparnaður að æfa einn – minna um ferðalög milli staða, enginn tími í að safna saman hópnum, enginn tími í að blaðra fyrir og eftir æfingu. Og svo er líka gott fyrir hausinn að æfa einn, því á keppnisdegi er maður jú eyland og þarf að berjast við eigin djöfla og enginn sem bjargar manni úr sálarkrísu.

Maður er manns gaman
En þegar leið að keppninni ákvað ég að það væri of mikið sem ég væri að missa af sem einfari. Í fyrsta lagi væru lengri æfingar (hlaupa og hjóla) framundan sem væri skemmtilegra að gera með öðrum. Í öðru lagi er drekkhlaðinn reynslubanki í þríþrautarklúbbunum, sem meðlimir geta tappað af með því að ræða við reynsluboltana og læra af þeirra aðferðum og hugarfari. Í þriðja lagi er maður manns gaman og þó ég sé nokkuð mikill einfari í mér og líði ágætlega í eigin félagsskap, þá er mikið krydd í tilveruna að æfa með öðrum – og fyrir marga er þetta einn stærsti kosturinn við að æfa í klúbbi. Í fjórða lagi erum við í eðli okkar kappsamar verur – maður reynir einfaldlega meira á sig þegar einhver er að sperra sig við hliðina á manni heldur en ef maður er einn að hamast.
Fyrir Barcelona ákvað ég að vera í Ægir3 „Ironman pakkanum“ að langmestu leyti. Ég mætti reyndar bara á um helminginn af æfingunum en tók langoftast þær æfingar sem voru á planinu – helst að ég tæki sundæfingarnar öðruvísi en planið sagði til um. Sérstaklega sótti ég í hlaupabrautina á mánudögum, kvöldsund á fimmtudögum og löngu hjóla/brick á laugardögum og mætti í þær lang flestar.
Eftir Austurríki var alveg ljóst að ég þyrfti að fara upp um minnst eina deild í sundinu, því ég var þar fyrir miðjum hópi í 1200. sæti eftir sundið (á 1:16) og það tafði mig verulega á hjólinu í kjölfarið. Ég lagði því mikla vinnu í að lesa mér meira til um sund, pæla í tækni og slíku og reyndi að vinna í því sem ég var slakastur í (öndun, langsund, o.fl). Horfði á endalaust af vídeóum og náði að bæta mig helling milli ára en fyrir gamalmenni með núll bakgrunn í sundi eru tvö ár bara ekki nóg til að komast á þann stað að teljast „góður sundmaður“. Tel mig þó geta sæmilega skammlaust talist „þokkalegur“, sérstaklega í blautbúningi á langsundi (aðeins slakari í laug og vantar aðeins upp á hraðann í styttri vegalengdunum). Síðustu vikurnar fyrir keppni voru all þungar í sundinu og ég tók eina 5km æfingu, eina 3.8km og tvær 3km auk fjölmargra yfir 2km. Í fyrra fór ég til samanburðar lengst 2,5km í galla, ca. 2 vikum fyrir keppni. Miðað við ganginn á þessum löngu æfingum, þá var ég með vonir um að bæta mig um ca. 10mín og enda á kringum 1:05.
Hlaupið í Austurríki gekk svo sem vel á 3:13 en hnémeiðsli í klifri í desember klipptu út allar hlaupaæfingar fram í byrjun mars þegar ég byrjaði rólega að hlaupa og var bara rétt að detta í þokkalegt keppnisform þegar ég fór út í keppnina. Hefði þurfti alla vega einn og helst tvo mánuði í viðbót til að komast í gott maraþonform og ég fann það í lokin á þeirri keppni að það vantaði slatta af  kílómetratugum í lappirnar. Núna í vetur var ég nánast alveg meiðslalaus. Hnéð var til friðs nema örfáa daga og jafnaði sig með smá hlaupastoppi. Interval æfingarnar í Höllinni komu mér ansi nálægt mínum gamla hraða í lengri og styttri vegalengdunum og ég átti góða hálfmöru í Vorþoninu – fjarri mínu besta en samt betra en formið átti að leyfa. Eftir smá óreglu í æfingum á vormánuðum milli inni- og úti-tímabils, fór að komast form á miðvikudagsæfingarnar (í Dalnum eða á brautinni) og helgaræfingarnar fóru að lengjast. Formið batnaði smátt og smátt fram að sumarfríi og í ágúst og september var fókusinn hjá mér töluverður á hlaupin. Ég bætti við stuttum sprettæfingum á mánudögum (oftast) og setti inn lykilæfingar úr maraþonprógrammi frá Þorláki Jóns í loka buildupinu til að gera mig kláran fyrir alvöru maraþonhlaup (s.s. ekki bara lifa hlaupið af…). Í lokin á buildupinu taldi ég mig vera kominn í ca. 2:50 maraþonform (nærri mínu besta) og var planið að stefna undir 3:00 í Barcelona. Síðustu erfiðu æfingarnar gengu meira að segja svo vel í september að ég var farinn að gæla við að reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57, þegar hann bætti Íslandsmetið í IM) ef mér liði vel eftir hjólið.
Hjólið tók ég svo sem svipað og veturinn á undan. Sprettir og tempó og brekkur af öllum stærðum og gerðum á trainer og á götu. Keypti notað TT hjól og fékk lánaðar ægilega fínar gjarðir hjá járnafanum, keypti mér powerpedala, betri hjólaskó, aero hjálm (fór Austurríki á 5:15 á racer með clip-on aerobar, æfingagjarðir, fjallahjólaskó, götuhjólahjálm og án powermælis) og rakaði meira að segja á mér lappirnar fyrir keppnina (þó það hafi sennilega engin áhrif). Fór aftur í WOW Cyclothon en í þetta skiptið með meistara Geir í 4ra manna liði GÁP Cannondale og það var all nokkuð harðari hjólamennska en í 10 manna liði Símans árið áður. Tók þátt í Tour of Reykjavík og Íslandsmóti í TT, hjólaði í vinnuna á hverjum degi (núna tæpa 6km hvora leið í stað 1km á gamla staðnum) og tók hraustlega á því í sumarfríinu fyrir norðan (keppti ma. í Gangamótinu frá Siglufirði til Akureyrar og barðist við Strava KOM í nokkrum hressum þjóðvegabrekkum). Eftir óendanlegar lúppur á Krýsvíkurveginum og á helstu leiðum kringum borgina taldi ég að mig vera kominn í form til að stefna á svipaðan tíma og Geir var með í Barcelona í fyrra (4:40) ef aðstæður væru hagfelldar.

Munkalíf og gufubaðsæfingar
Lokahnykkurinn að undirbúningnum var svo að eftir all nokkurt munúðarlíf í sumarfríinu í júlí setti ég mér nokkrar einfaldar „munkalífsreglur“ sem skyldu heiðraðar fram að keppninni tveimur mánuðum seinna. Reglurnar sneru aðallega að mataræði – áfengi, sykri, snakki, frönskum, kaffidrykkju etc. en voru svo áhrifaríkar að ég fór úr ca. 77kg í byrjun ágúst niður í 72,5kg um miðjan september (í hámarks æfingaálagi) og keppnisþyngd í Barcelona hefur verið kringum 73kg eftir smá afslátt frá munkinum og minni kaloríubruna í taper vikunum í restina. Það munar ekkert smá mikið um 4kg fyrir mann með minn skrokk, sérstaklega á hlaupinu.
Samhliða munkalífinu tók ég 2ja mánaða hitaaðlögun fyrir keppnina til að gera mig þolnari fyrir mögulegum heitum sólardegi og til að minnka svitamyndun og salttap almennt. Fór í gufubað tvisvar í viku frá byrjun ágúst fram að keppni, oftast eftir hlaupa eða hjólaæfingu. Þetta var stigvaxandi þjáning frá 5-10mín í byrjun þar sem ég var alveg að deyja frá fyrstu mínútu og kom út úr gufunni með urrandi svima og upp í 2x15mín og 1x25mín effort í lokin þar sem ég fann lítið fyrir hitanum fyrr en eftir 10-15mín inn í settið og leið bara ágætlega á eftir.

IMG_5120

Aðdragandi
Síðustu 10 dagana tók ég svo nokkuð óskipulega steinefnahleðslu, þar sem maður ofhleður skrokkinn með þessum fjórum aðal steinefnum sem tapast við áreynslu (magnesíum, kalíum, natríum og calcium). Það tekur víst skrokkinn 7-10 daga að ná „deep muscular hydration“ á meðan „plasma hydration“ tekur bara dag eða tvo. Á keppnisdegi tapar maður miklum svita og vökvatapið verður aðallega á „plasma-leveli“ og ef maður er með góða „muscular hydration“, þá á maður að geta minnkað líkur á að lenda í „electrolyte-imbalance“ með tilheyrandi krömpum og frammistöðuvandamálum sem þeim fylgja.

Eftir vel heppnaðan undirbúning og nokkra yfirlegu um markmið í hverri grein var ég kominn niður á plan A, B, C og D. A-markmiðið væri 9 tíma Ironman og sub-3:00 hlaup. B-markmið væri hressilega bæting frá Austurríki (9:30 eða eitthvað slíkt). C-markmiðið væri bæting frá Austurríki (sub-9:52) og D-markmiðið væri einfaldlega að skakklappast í mark yfir höfuð.

Við Ása flugum (barnlaus, takk tengdó 🙂 út til Calella þann 3. október ásamt flestum í Ægi og slatta af hinum Íslendingunum. Leigðum okkur bíl á vellinum og komum á hótelið upp úr miðnætti og gripum okkur bita á McD og Istanbul kebab.

IMG_9047
Við Ægiringarnir tóku sundæfingu í sjónum á hverjum degi og tókum hlaup og hjól flesta daga. Fórum nokkrum sinnum út að borða, meðal annars í feita nautasteik á úrúgvæískum veitingastað í Calella á fimmtudeginum. Að öðru leyti reyndi ég að vera sem minnst á fótum, vökva mig vel og borða ekki eitthvað framandi
Við Ása fórum í túristaferð til Montserrat á laugardeginum (2 dögum fyrir keppnina) og það var gaman en í hádegismatnum fór mér að líða eitthvað undarlega (og Ásu á leiðinni). Var hálf óglatt, svimaði slatta og var kominn með magakveisu með tilheyrandi klósettferðum. Grunaði helst að þetta tengdist eitthvað því að við vorum komin þarna í 1200m hæð beint frá sjávarmáli. Síðar kom í ljós að all nokkrir af okkur nautasteikarstrákunum vorum með magavesen og nokkrir með pípandi niðurgang. Mér leist ekkert á þetta og lá bara hálfskjálfandi undir teppi á hótelherberginu eftir að við komum til baka og hálfan laugardaginn líka. Á laugardagskvöld var mér farið að líða skítsæmilega og ekkert annað að gera en að vona að maginn yrði til friðs á sunnudeginum. Reyndi bara að vera duglegur að hvíla mig og vökva.

Útkoma
Keppnin gekk svona líka vel og ég endaði á 9:06:34 og krækti mér í Kona sæti í október að ári.
Sund – 1:08:45 (116. í aldursflokki, 616. overall)
T1 – 2:51
Hjól – 4:53:06 (18. í aldursflokki, 105. overall)
T2 – 2:00
Hlaup – 2:59:54 (3. í aldursflokki, 23. overall)

Var í 7. sæti í 40-44 karlaflokkinum og í þeim flokki voru 6 Kona sæti í boði þetta árið og amk. einn ef ekki tveir fyrir ofan mig afþökkuðu sitt sæti og því komst ég inn.
Náði ekki alveg A-markmiðinu en var ansi nálægt því og held ég hafi alveg verið í formi fyrir 9 tíma þraut ef aðstæður í sundinu og hjólinu hefðu verið fullkomnar.
Kona sæti var svo sem alls ekkert markmið hjá mér en ég var búinn að sjá það út frá tölfræði síðustu ára að ef ég yrði kringum 9 tímana, þá væri ég annað hvort með sæti eða ansi nálægt því. Var búinn að semja við yfirvaldið um að ef Kona byðist, þá myndi ég segja já við því. Maður veit aldrei hvernig staðan verður á komandi árum. Kannski verð ég aldrei aftur í þessu formi, kannski lendi ég í meiðslum eða slysi, nenni þessum Ironman leik ekki lengur eða eitthvað. Carpe diem!

Ekki verður hjá því komist að þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu hjá mér á einn eða annan hátt.
Langefst á lista ber náttúrulega að nefna hana Ásu ofurmömmu fyrir í fyrsta lagi að gefa mér grænt ljós á að fara aftur í Ironman og fyrir óendanlega þolinmæði og stuðning í gegnum þessa vitleysu mína síðustu tvö árin, sérstaklega þessa síðustu þungu „buildup“ mánuði fram að Barcelona. Grísirnir mínir, Þórir (12 ára), Katla (8 ára) og Krissi (6 ára) fá líka mikið hrós fyrir að þrauka föðurmissinn – ég lofa að vera meira heima næstu mánuði og sinna ykkur betur 🙂
Allir æfingarfélagar og þjálfarateymið í Ægir3 sem svitnuðu með mér síðustu misseri. Mikill kraftur í þessum hópi og þó ég taki ca. helminginn af æfingunum sóló, þá er ómetanlegt að vera hluti af drífandi hóp og það lyftir öllum upp á hærra plan. Vonandi hef ég gefið eitthvað af mér inn í hópsálina og verið einhverjum hvatning til afreka.
José í GÁP fær stórt hrós fyrir aðstoðina með bikefit og almennar lífslexíur frá sjónarhorni uppgjafar þríþrautarkappa. Vonandi heldur hann áfram með comebackið og fer að æfa og keppa með okkur í vetur.
Gulli fær svo þakkir fyrir lánið á hjólatöskunni og fyrir áhugann. Treysti á að hann bæti fyrir svikna „Ironman um fertugt“ planið okkar og skelli sér í járn fljótlega.

Langa útgáfan

Hér að neðan er síðan all nokkuð ítarleg útlistun á hverjum hluta keppninnar fyrir þau allra áhugasömustu.

Sundið

Hér var markmiðið að vera á 1:05 en allt undir 1:10 væri bara fínt og ef hjól og hlaup gengju vel, þá gæti 9 tíma markmiðið hafist.
Þetta leit alls ekki vel út í startinu. Það var strekkings gola frá sjónum og RISA stórar öldur sem hömruðu á ströndinni af miklum krafti. Fólk sem var að reyna að hita upp fyrir startið var í bölvuðu brasi með að komast út og aftur í land í briminu.
En ég var svo sem ekkert að stressa mig á þessu. Vorum búnir að lenda í svona aðstæðum í Nauthólsvík nokkrum sinnum þannig að ef eitthvað væri, þá værum við mörlandarnir betur undirbúnir en aðrir í svona ævintýri. Kannski ekki bestu aðstæður til að setja einhverja met sundtíma en þetta ætti að hægja jafnt á öllum og jafnvel meira á hinum en mér.
Skv. ráðleggingum frá Geir þjálfara, þá stillti ég mér upp í 60mín hólfinu, sem var í raun bara aftari hlutinn af 50mín hólfinu (engin skilrúm) og var frekar fámennt. Næsta hólf á eftir var 1:05 og miðað við að flestir setja sig í hólf hraðara en þeir eiga í raun erindi, þá ákvað ég að það væri bara fínt fyrir mig að vera fyrir miðju þessu hólfi. Rakst á Smára Þríkó í hólfinu og átti von á að sjá Óla, Ara og Davíð og jafnvel fleiri úr Ægi en þeir voru hvergi sjáanlegir.
Jæja, ég sogaðist svo bara með mannhafinu í átt að ráshliðunum. Fyrst biðum við meðan Pro og XC (executive-challenged/fatlaðir) voru ræstir en síðan gekk þetta skuggalega hratt og áður en ég vissi af var ég kominn alveg að hliðinu. Var aðeins stressaður eins og eðlilegt er og maginn aðeins öfugur en þó svo miklu rólegri en í fyrra þó ég væri núna frekar framarlega í 3400 manna hjörð að fara að stefna á að fara alveg að mínum getumörkum í 9 tíma og með þennan snarbrjálaða sjó fyrir framan mig. Svo var ég bara kominn að fólkinu sem var að hleypa út í – nokkur „blíp, blíp, dut“, „blíp, blíp, dut“ og var ég farinn af stað út í brimið…
Þetta var eins og verstu Nauthólsvíkurferðirnar í sumar – himinháar öldur sem þurfti að hálf klifra yfir næst landi en svo skánaði þetta aðeins þegar utar dró. Ég var bara sultuslakur á frekar þægilegum hraða og var ekkert að stressa mig þó það væri fullt af liði að sigla fram úr mér. Planið var að reyna að hanga eins og ég gæti í þessum hraðari sundmönnum til að mjólka kjölsögið frá þeim í smástund eftir að þeir færu fram úr mér. Síðan myndi ég bara fara á mínum hraða þess á milli og leita að nýju kjölsogi.
Gekk nokkuð greiðlega út að fyrstu beygju-baujunni en þá tók við 1750m kafli niður meðfram ströndinni. Á þeim kafla var ágætis skriður á manni „með öldunni“ en fólkið var út um allt og erfitt að finna hóp til að elta. Var því ansi mikið sjálfur að dúlla mér á sæmilega þéttu rúlli og datt í einstaka kjölsog hér og þar. Eitt eða tvö létt kjaftshögg og spörk en ekkert alvarlegt – engin gleraugu af eða neitt slíkt. Smá pirringur náttúrulega í mesta barningnum en samt ekki þannig að ég yrði eitthvað reiður eða væri mikið að bölva ástandinu – maður átti bara fullt í fangi með að glíma við öldurnar og sjálfan sig syndandi svo það var varla rúm fyrir annað.
Ég hélt þessar baujur ætluðu aldrei að klárast – fannst ég vera búinn að synda endalaust langt – en eftir dúk og disk kom að beygjunni og það var mikill léttir, því þá voru bara 100m þvert og svo 1450m til baka í markið – mér leið bara nokkuð vel og var nokkuð ferskur en hafði náttúrulega ekki hugmynd hvernig tímanum leið (og var svo sem alveg sama á þessu tímapunkti).
Eftir stutta þverkaflann kárnaði gamanið heldur, því þá beygðum við til baka meðfram ströndinni í átt að skiptisvæðinu og fengum ölduna í fangið. Maður hentist fram og til baka í ölduganginum og vissi ekki alveg hvað sneri upp og hvað niður, hvað þá hvort maður væri að synda í rétta átt eða hvað. Þetta var hálft í hvoru ævintýraleg og skemmtileg áskorun (og ég hálf hlæjandi að þessu öllu saman) og hins vegar pælingar eins og „hvaða rugl er þetta eiginlega?“ og „hvað er ég eiginlega að gera hérna?“


Hægt og bítandi mjakaðist ég þó áleiðis uppeftir og smeygði mér framhjá síðustu baujunni og synti síðustu 100-200m í átt að landi. Ætlaði varla að komast upp úr sjónum fyrir brimi. Var staðinn upp á leið að sjálfboðaliða í fjörunni þegar risa alda skellti mér um koll og dró mig nokkra metra aftur út. Stóð fljótt upp og brunaði upp að skiptasvæðinu. Sá Ásu og fleiri Íslendinga fremst í áhorfendahópnum og ég hélt ég hefði vinkað þeim eitthvað en ég sá það á vídeói af mér að ég var með grimman svip og strunsaði mjög ákveðinn framhjá.

IMG_9076

3.750m var vegalengdin sem ég synti skv. Garmin þannig að brautin hefur sennilega verið aðeins í styttra lagi og ég virðist ekki hafa synt sérlega mikið úr leið – ljóst að ég er farinn að synda beinna en ég gerði og orðinn betri í „sighting“.

Lokatími 1:08:45, 116. í aldursflokki og 616. í heildina.
Meðalhraði (official mv. 3,8km) 1:49/100m

Skiptisvæðið-T1
Lappaði úrið og kíkti örstutt á skjáinn og sýndist ég sjá 1:08 – ekki sem verst miðað við ástandið þó þetta hafi ekki alveg verið samkvæmt björtustu vonum.
Stoppaði 1sek undir sturtunum til að skola saltpækilinn úr andlitinu og svo bara beint upp í tjaldið þar sem pokarnir okkar héngu á númeruðum snögum. Var sæmilega fljótur úr gallanum en samt ekkert ævintýralega að mér fannst. Númerabeltið á mittið, hjálminn á hausinn, sunddótið ofan í og pokann aftur á snagann. Hljóp svo beint að hjólinu og leiddi það á skokkinu að línunni við endann á skiptisvæðinu. Stökk þar á bak og tókst að smeygja mér sæmilega hratt í skóna þó það sé alltaf aðeins kómísk aðgerð – smá zikkzakk og næstum búinn að klessa á eitthvað annað fólk þarna en það hafðist þó slysalaust og ég kominn strax á siglingu.
Lokatími 2:51, sem er bara ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði. Er t.d. bara 50s hægari en sigurvegarinn í keppninni og hann vinnur við þetta 🙂

Hjólið
Hér var markmiðið að vera á kringum 4:40-45 á 220-230W og helst á púls undir 140 að jafnaði. Ætlaði að leyfa mér að fara upp í 250-270W og 150 púls í framúrakstri og brekkum en helst ekki hærra.
Skemmst er frá því að segja að þessi áætlun stóðst ekki. 🙂

IMG_9111

Fyrsti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Það var blautt eftir rigningar næturinnar þannig að það var vissara að fara varlega. Kláraði að festa skóna og fór sæmilega þétt upp á aðalgötuna.
Keyrði vöttin aðeins upp í byrjun til að komast fram úr sem flestum hraðari sundmönnum til að hafa meira pláss til að hjóla. Í fyrra í Austurríki kom ég upp úr vatninu fyrir miðjum hópi í sæti 1200+ og það var mikill barningur að koma sér upp hópinn og geta hjólað á sínum hraða í stað þess að vera endalaust að taka fram úr og hægja til að vera ekki í kjölsogi. Núna ræsti ég í fyrsta lagi framar svo ég var með nokkurra mín byssutíma forskot á massann og svo gekk sundið líka nokkuð vel svo ég var í miklu betri málum en í fyrra. Var svo sem ekki nema í sæti 600+ en kraðakið var svo margfalt minni núna.

Mér var skítkalt þegar ég byrjaði að hjóla. Það var enn skýjað og það var hrollur í mér eftir sundið og fyrsta kaflann var smá regnúði sem kældi mann enn frekar niður. Var ekki kominn með hita í kroppinn fyrr en ca. hálftíma inn í hjólið. Hitaaðlögunin hefur náttúrulega hækkað þægindahitann hjá mér upp um nokkrar gráður þannig að ég er aðeins viðkvæmari fyrir kulda en ella. Hörku hjólastelpa frá Finnlandi (Aina Luoma, vann 30-34 ára á 9:27) fór fram úr mér á leiðinni upp í T-lúppuna og ég fylgdi henni – hún var sæmilega jöfn í hraðanum svo ég var oftast fyrir aftan en stundum fyrir framan þegar mér fannst hún vera að gefa eftir – og við svo með nokkra gaura fljótandi fram og aftur í kringum okkur. Þessi litla grúppa okkar hélt sig saman að mestu frá ca. 20-30km og að snúningnum við 90km og var á nokkuð þéttu trukki sem passaði ágætlega við target W hjá mér. Var næstum dottinn á drykkjarstöð á hjólinu í lok fyrri hrings þegar ég nuddaðist næstum í dekk á einhverjum á undan mér í þvögunni. Rétt náði að sveigja dekkið mitt frá hinu og halla mér í hina áttina til að ná jafnvægi.
Þegar ég sá 2:25 á úrinu eftir 90km (=> 4:50 heildartími EF ég héldi sama hraða), þá gaf ég slatta í og stakk hópinn minn af því ég var að stefna á 4:40-45 til að eiga möguleika á sub-9:00 því sundið var þegar búið að klippa 3 mín af svigrúminu sem ég hafði. Tók fram úr nokkrum fljótlega og var svo á sæmilega auðum sjó með bara staka hjólara á stangli næstu nokkra tugi km og gat þá stillt hraðann eftir eigin höfði og það var mjög gott.
Þetta var samt áhættusöm strategía því ég var búinn að keyra fyrri hlutann af fyrri hringnum nokkuð yfir viðmiðunarvöttum til að koma mér í sterkari hóp og taka slatta af sprettum allan tímann til að komast fram úr fólki og hanga í öðrum. Hættan var sú að ég myndi grilla lærin á hjólinu og sá sparnaður sem ég fengi í hjólatíma gæti komið margfalt í bakið á mér á hlaupinu.
Þegar ég var búinn með lúppuna uppeftir og kominn áleiðis að snúningnum við Montgat, þá var ég farinn að ná sífellt fleirum svo ég stillti mig í aðeins lægri vött bakvið aðra annað slagið til að jafna mig eftir þétta keyrslu síðasta klukkutímann ca frá því ég stakk af við 90km markið. Rétt kringum snúninginn með ca. 35km eftir fór nokkuð sterkur gaur fram úr mér og ég ákvað að hengja mig á hann og við skiptumst á að stilla hraðann langleiðina í mark. Það var fín ferð á okkur og við fórum fram úr fullt af liði í misgóðu ástandi (einhverjir enn á fyrri hring sjálfsagt). Hann var greinilega orðinn stífur og fór standandi í flestar brekkurnar og settist upp reglulega en var samt sterkur og með jafnan hraða. Mér leið þannig lagað ágætlega en lærin voru ekki búin að batna neitt þó ég hafi verið að hjóla jafnar en fyrri partinn. Reyndi að fara standandi í brekkurnar en fann fljótlega að það bara verra og ég byrjaði að krampa. Reyndi líka að standa upp á pedalana og hoppa aðeins og fetta mittið að stýrinu og þó það gerði skrokknum almennt gott, þá voru lærin ekki par hrifin af því og bauluðu. Í restina fór ég því bara sitjandi í brekkurnar og reyndi að losa um axlirnar eins og ég gat. Í undirbúningnum hafði ég yfirleitt komið nokkuð ferskur í löppunum úr löngu hjólatúrunum og var aðallega steiktur í bakinu og öxlunum (og stundum klofinu). Það var því ljóst að ég væri að fara á óþekktar slóðir í hlaupinu þennan daginn með lærin umtalsvert hömruð…

IMG_9099
Með ca. 5-10km eftir í mark fór hinn gaurinn að gefa aðeins í en þá ákvað ég að slá aðeins af til að jafna mig fyrir hlaupið. Þetta var ekki mikið – smá vattalækkun snúningshækkun – en nóg til að hann sigldi rólega í burtu. Tók síðasta gelið með ca. 15km eftir – langaði bara ekkert í fleiri. Kláraði síðasta drykkinn en tók vatnsflösku á síðustu drykkjarstöðinni og setti helminginn í brúsann minn.

Síðasti 3km kaflinn inn á skiptisvæðinu var „technical section“ sem þræddi gegnum krappar beygjur, hringtorg og hraðahindranir inni í Calella. Þessi kafli var blautur þegar ég kom þangað og þess utan slatti af fólki á undan mér í þrengslunum þannig að það var ekki þorandi að ætla að fara eitthvað hratt þar í gegn. Mundi ekki nógu vel hvernig síðasti kaflinn var svo ég losaði skóna á leið niður brekkuna með ca. 2km eftir (því nóg pláss þar) og fór ofan á skóna líka aðeins of snemma með smá þræðing til baka eftir að skiptisvæðinu. Kostaði svo sem engan tíma en þarna hefði verið sniðugt að leggja betur á minnið hvernig leiðin að svæðinu var nákvæmlega. Hefði alveg getað losað og farið úr skónum á síðustu 300-400m sennilega eftir að við fórum í undirgöngin og snerum við til baka.

Hjólið í tölum

Meðal – 215W, 139bpm, 37,1km/klst og 83rpm (cadence)
Max – 526W, 155bpm, 62,6km/klst og 116rpm (cadence)
Weighted average – 220W
Normalized – 223W
Max meðal yfir 20mín – 234W
Vegalengd 181,3km, 792m hækkun
Kaloríur brenndar – 3.788

Fín frammistaða en bara dugði engan veginn til að vera nálægt 4:40 eins og bjartsýna planið gekk út á. Brautin var (að mér sýnist) 2km lengri en í fyrra (181km skv. Garmin), þessi T-lúppa ofan við Mataró er með smá hækkun og fleiri snúningspunktum og svo kostaði vindurinn og bleytan einhverjar mínútur líka uppsafnað.
Lokatími 4:53:06, 18. í aldursflokki og 105. overall
Mjög góður tími en langt frá því sem þurfti til að eiga séns í 9 tímana nema ég myndi eiga eitthvað ævintýrilega gott hlaup (2:55ish), sem var harla ólíklegt miðað við ástandið á lærunum á mér í lokin á seinni hjólahringnum.
Held að staðan sé líka bara þannig í svona fjölmennri keppni að meðan ég er ekki betri sundmaður en raun ber vitni, þá muni ég þurfa að eiga við þessi „umferðarvandamál“ að etja og þar með ekki geta hjólað „mitt hjól“ á jöfnum TT hraða. Með 600 manns á undan mér, flesta mun slakari hjólara en mig, þá verður óendanlegur fjöldi framúrakstra óhjákvæmilegur og þeir taka sinn toll, því þeir eru ekki bara tveir eða þrír talsins heldur 50 100 eða 200 eða eitthvað í þeim dúr og ég var einfaldlega ekki nógu vel undirbúinn undir svoleiðis álag. Sundið er í hægfara framför en á meðan ég er ekki kominn í sub-klukkutíma kalíber á sundinu (ef það hefst einhvern tímann), þá sýnist mér ég þurfa að breyta aðeins hvernig löngu hjólatúrarnir eru tæklaðir í buildupinu – t.d. að í stað þess að taka jafna Ironman-vött æfingu í 4-5 tíma, þá að taka frekar IM-vatta „base-cruise“ í 4-5 tíma með kannski 15-60sek „surge“ á 2-5 mín fresti, því þannig er Ironman hjólið fyrir mig – það var þannig í fyrra líka nema bara ennþá verra, því þá voru 1200 manns á undan mér…

Skiptisvæðið T2
Ég stökk af baki á ferðinni en það var eitthvað af fólki fyrir mér á dreglinum strax innan við línuna svo ég varð að stoppa aðeins og smeygja mér framhjá þeim. Einhverjar sekúndur sem töpuðust þar. Fannst ég sjá 4:50 og eitthvað á úrinu þegar ég lappaði það inn í T2 en var samt ekki mikið að pæla í hjólatímanum – það var bara búiðö mál og ekkert við því að gera annað en að hlaupa eins og maður og gera það besta úr stöðunni.
Skokkaði nokkuð léttfættur upp að hjólarekkanum og henti hjólinu á sinn stað og losaði hjálminn á leiðinni upp í tjaldið þar sem ég smeygði mér í gelbeltið og fór í sokka og skó og greip húfu, gleraugu og úlnliðsband. Hjálminn ofan í pokann og hengdi hann aftur á snagann og strunsaði út á hlaupabrautina, klæddi mig í húfuna og hitt sem ég hélt á og gúffaði í mig geli.

Lokatími 2:00, sem er aftur ansi fínn tími á svona stóru skiptisvæði (er t.d. 9s hraðari en sigurvegarinn)

IMG_9132

Hlaupið
Maraþonið í IM í fyrra gekk mjög vel framan af – kom þar mjög ferskur af hjólinu og var að rúlla út á 4:15-20/km hraða(target pace 4:35/km þá) og var í mjög góðum málum upp í 19km þegar fór aðeins að hægja á mér. Í 27km fóru lappirnar á mér í steik og síðustu 15km voru hrikalega erfiðir og ég var að berjast við að halda mér undir 5:00/km hraðaí lokin og náði að klóra mig í mark á 3:13, sem telst víst all gott. Því náði ég þrátt fyrir að missa alveg úr 3 mánuði (des-feb) af hlaupum vegna meiðsla í hné þannig að ég var eiginlega bara hálfnaður með hlaupa-buildupið þegar kom að IM í byrjun júlí.
Í ár voru væntingar um hlaupatíma undir 3 tímana – bæði því ég taldi mig eiga erindi í þann hraða eftir gott hlaup í fyrra og það var líka sá tími sem þurfti til að 9 tímar væru eitthvað á teikniborðinu. Minn besti tími í maraþoni er 2:44 frá Rotterdam 2016 og taldi mig vera kominn í ca. 2.50 form núna í lokin eftir mjög markvissan undirbúning sérstaklega fyrir IM hlaupið. 3:00 tími í maraþoni þýðir hraði upp á ca. 4:15/km og ég var búinn að fara frekar sannfærandi í gegnum langar lykilæfingar á þeim hraða og var því með það upplegg að ég myndi leggja af stað á 4:10/km fyrstu 5-10km og meta stöðuna þá. Ef mér liði vel, þá myndi ég reyna að halda mig kringum 4:05-4:10/km og reyna að bæta tímann hans Geirs frá í fyrra (2:57 eitthvað) en annars reyna að halda sjó á 4:15/km hraða og ná undir 3 tímana. Neyðarplanið var að berjast eins og ljón ef allt færi til fjandans og fara ekki hægar en 4:30/km til að hanga undir 3:10.
Byrjað er að fara ca. 1600m frá skiptisvæðinu að snúningspunkti við marksvæðið og eftir það eru svo farnar þrjár 13,5km lúppur til Santa Susanna, samtals 42,1km eða þar um bil (Ironman eru ekki með löglega mældar brautir skv. IAAF staðli heldur eru þetta bara slembiþon)
Jæja, feginn að vera loksins laus af fjandans hjólinu eftir rétt tæpa fimm tíma á hnakknum og ég fór sæmilega sannfærandi af stað á 4:00-4:05/km hraðaog náði ekki almennilega beygjunni við pálmatréð hjá marksvæðinu og hljóp út í kantstein og datt nánast á grindverkið. Fann samt strax fyrir lærunum eftir hjólið og kveið óneitanlega fyrir komandi þriggja tíma „sufferfest“. Á þessu svæði eru skemmtileg trjágöng og fullt af fólki að horfa á – þar á meðal Ása og allir hinir Ægir3 fylgifiskarnir. Virkilega gaman á þessum kafla með íslenska fánann á nokkrum stöðum og marga að hvetja almennt og svo okkar fólk að hvetja mig persónulega. Þegar ég var að koma að snúningnum við pálmatréð sé ég Ironman kynninn með míkrófóninn í kantinum. Hann er að telja upp eitthvað um hvernig gengi hjá atvinnumönnum og svo heyri ég bara allt í einu „and here we have an athlete from Iceland in the mix“ – gaman að því. Ása var greinilega ekki alveg með statusinn á mér á hreinu, því ég sá hana eftir snúninginn (eftir ca. 1800m) og hóaði til hennar og henni krossbrá við að sjá mig þarna en gólaði svo hvatningarorð meðan ég stormaði framhjá henni.

IMG_9123
Fyrsti hringurinn til Santa Susanna og til baka gekk nokkuð vel á þessu target 4:10-15/km hraða en í meðvitundinni leið hins vegar afar hægt og ég hélt ég ætlaði aldrei að vera kominn úteftir að snúningi. Síðasti kaflinn fyrir snúninginn útfrá er nánast mannlaus og lítið að frétta í landslagi, trjám eða áhorfendum til að dreifa huganum. Smá mótvindur til baka hægði svo meira á mér og hitinn var að aukast eftir því sem skýin þynntust á himninum og sólin fór að láta á sér kræla.
Eftir fyrsta hring kemur maður til baka að pálmatrénu góða og þá reynir á sálartetrið. Maður sér „frárein“ út úr beygjunni í átt að Ironman hliðinu í marksvæðinu EN NEI – ég er bara búinn með einn hring og á TVO HRINGI EFTIR – helvítis 27km eftir… Ekkert annað að gera þar en bíta á jaxlinn setja kassann upp og halda áfram að gera það sem gera þarf – halda hraðanum uppi og komast klakklaust í mark.
Þó það sé óneitanlega frekar niðurdrepandi að fara svona oft framhjá marksvæðinu, þá hefur þetta fyrirkomulag nokkra kosti: a) maður sér stuðningsfólkið sitt frekar oft – tvisvar á stuttum kafla á hverjum hring ef þau eru nálægt marksvæðinu, b) það er hægt að hafa drykkjarstöðvar mjög þétt (voru á 2-3km fresti) og c) kílómetrarnir liðu alltaf hraðar og hraðar, þó ég væri að fara hægar og hægar yfir – bara út af þessum „kunnugleika“ að hafa verið á þessum slóðum áður og maður veit hvað er í vændum og getur hlakkað til einhvers sem maður veit að er að koma í framhaldinu.
Seinni tveir hringirnir runnu framhjá í hálfgerðri þoku. Mætti annað slagið Ægis strákunum í misfersku ástandi og reyndi að frussa út úr mér einhverjum hvatningarorðum sem vonandi hafa gert eitthvað fyrir þá. Spænskur pro gaur fór fram úr mér á fyrsta hring (hann á sínum öðrum) og ég notaði hann sem mótíveringu til að halda mínum hraða uppi. Missti hann þó frá mér eftir nokkra km en mjólkaði framúraksturinn þó eins og ég gat. Á svipuðu stað á öðrum hring fór ég svo fram úr honum þegar hann var farinn að ströggla á þriðja hring með örfáa km í mark og ég greinilega að halda mínu nokkuð vel. Fór fram úr Ara og Lúlla eftir snúninginn á þriðja hring og þeir greinilega orðnir ansi þungir og áttu þá 1 1/2 hring eftir (næstum 20km). Lítið annað að gera en klappa þeim létt á bakið og góla „komaso“ eða hvað það var sem ég baulaði (söng amk. ekki „Hvíta máva“). Var orðinn ansi verkaður þarna í ca. 37km með 5km eftir í mark -hraðinn dottinn niður í 4:25-30/km og meðalhraði á hlaupinu skriðinn yfir 4:15/km þannig að ég var hægt og sígandi að missa frá mér 3 tíma takmarkið. Hafði svo sem ekki mikið fram að færa á þessum tímapunkti til að lagfæra það því ég komst bara ekki hraðar með lærin að stífna meira og meira og farinn að stífna verulega upp í náranum líka þegar komið var inn í seinni partinn af hlaupinu. Hélt þó þessum hraða nokkurn veginn í átt að skiptisvæðinu og þar loksins lagði ég í að stíga á bensínið með 1600m í mark. Þetta var nú ekki neitt urrandi endasprettur en fór þarna vaxandi upp í nálægt 4:00/km.

IMG_9179
Endaspretturinn út af pálmatréslúppunni eftir svarta dreglinum í átt að Ironmark markinu var tekinn gjörsamlega á fullu gasi – hafði ekki hugmynd um hvort ég væri nálægt 3 tíma hlaupi eða 9 tíma heildartíma, því þarna kemst ekkert annað að en að klára í mark og það sem fyrst. Sá ekki Ásu og hina Íslendingana eða neitt svo sem á endasprettinum, því ég var svo fókusaður á þetta og alveg út úr heiminum. Var alveg bugaður í markinu – rétt náði að pumpa hnefana eitthvað út í loftið og slökkva á úrinu og var svo studdur inn í veitingatjaldið af hjálpfúsum sjálfboðaliða.
Í tjaldinu sat ég svo örmagna í einsemd minni og var ekki að koma neinu niður nema smá gosi og melónu. Reyndi að bíta í brauð en kúgaðist og gat varla staðið upp til að sækja mér meira, því ég var svo þreyttur og lappirnar alveg í hakki. Sat því dágóða stund og sötraða drykk og ákvað svo fyrir rest að fara í sturtu. Hún var náttúrulega ísköld en mér var alveg sama. Pissaði í sturtunni rauðbrúnni bunu og hugsaði bara „ósjitt“ – í besta falli brúnt út af myoglobin vöðvaniðurbrotspróteinum (rhabdomyolysis), í versta falli rautt út af blæðingum. Hef nokkrum sinnum fengið mjög dökkt piss eftir maraþon, langar tempó æfingar og svo járnkarlinn í fyrra þannig að ég var ekkert að stressa mig allt of mikið á þessu og einbeitti mér bara að vökvainntöku. Næsta buna uppi á hóteli var helmingi ljósari og þriðja bunan nokkrum tímum síðar var í nokkurn veginn „náttúrulegum“ lit…
Óli kom svo rúmum klukkutíma á eftir mér í mark og Ari og Lúlli í kjölfarið. Það var gaman að hitta æfingafélagana og fara yfir upplifun dagsins. Í fyrra var ég nefnilega aleinn að keppa og hafði engan til að tala við eftir keppnina fyrr en ég fór út af marksvæðinu til fjölskyldunnar. Ég var því ekkert að stressa mig á að fara út úr tjaldinu til Ásu og hélt hún væri bara í góðum félagsskap í góða veðrinu með hinum Íslendingunum. Það var því sjokk þegar ég loksins fór út úr tjaldinu að ég rakst á Ásu, sem hafði þá beðið eftir mér í 3 tíma og fékk ekki að fara inn í tjaldið og stóð því núna í ausandi rigningu og vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðinn… Ég hafði nefnilega ekki sett síma í götufatapokann og hélt ég gæti ekki komist út úr tjaldinu til að kasta kveðju á hana og tíminn leið greinilega miklu hraðar úti á götu heldur en hjá mér í „post-race oblivion“ inni í tjaldinu. Í ljósi skrautlegrar sögu minnar með ofreynslu og sjúkratjöld í svona keppnum, þá eru hennar áhyggjur skiljanlegar og algjör aulaskapur í mér að vera ekki búinn að plana betur samskiptin eftir að ég kæmi í mark – setja síma í pokann, kalla til hennar út um útganginn, gefa upp tíma sem ég myndi vera inni í tjaldinu eða eitthvað. Gerum betur hvað þetta varðar næst…

Hlaupið í tölum

Hraðasti km – 3:58 (fyrsti)
Hægasti km – 4:38 (km 34)
Meðal hraði- 4:18/km (4:16/km skv. opinberum tölum mv. að hlaupið hafi verið 42,2km)
Garmin sýnir hlaupið sem 41,8km og þar sem það sýnir yfirleitt aðeins of mikið, þá hefur brautin sennilega ekki verið nema 41,5km eða þar um bil – við fögnum því 🙂

Lokatími 2:59:54, 3. í aldursflokki og 23. overall
Bara tvær konur á undan mér í allri keppninni – 1. og 2. sætið í Pro kvenna.

Járnið í heild
7. sæti í aldursflokki af 471 – 19 sek frá 6. sæti og 1:32 frá 5. sæti.
54. sæti karla overall
55. sæti overall
Hefði dugaði til sigurs í 45-49 karla og overall AG kvenna og öðru sæti overall kvenna og 31. sæti pro karla.
Ekki sem verst 🙂

Ég ætlaði aldrei í járnið

Stefán Örn Magnússon segir frá:

Bjór, af því að engin góð saga byrjar á salati. Ég sat með nokkrum félögum mínum í desember í fyrra og sötraði bjór þegar einn þeirra nefnir að þeir séu búnir að skrá sig í Ironman í Barcelona haustið 2018, ég varð verulega hissa á þessu þar sem þessi hópur á ekki langa afrekaskrá í þríþraut, reyndar enga, sumir áttu jafnvel ekki hjól né hlaupaskó. Ég varð strax mjög spenntur og hugsaði sem svo að ef að þeir gætu þetta þá gæti ég þetta líka og í raun yrði að fylgja þeim í gegnum þetta ferli. Skráning staðfest tveim dögum síðar.

Forsagan.

Árið 2011 byrjaði Nanna konan mín að taka þátt í þríþraut sem hluti af hópefli á þáverandi vinnustað hennar. Hún kolféll fyrir sportinu og var fljótlega kominn í hóp kvenna sem Karen Axels og Vignir ætluðu að koma í gegnum hálfan Ironman í Hafnarfirði 2012, þessi hópur var nefndur Hálfsystur og átti eftir að gjörbreyta lífi Nönnu og mínu árin á eftir.

Ég horfði á eftir henni sökkva sér í þetta og gjörbreytast sem manneskja, ég hreifst með og var fljótlega farinn að hjóla líka, ég hafði skokkað mér til heilsubótar með Stjörnunni og var í ágætis hlaupaformi þegar ég byrjaði að hjóla og fannst það hrikalega gaman. Við skráðum okkur svo í 3SH haustið 2012, þar var frábær félagsskapur og var mér kennt að sökkva minna í sundinu og að stunda skipulegar æfingar, Ég var nokkuð duglegur í þessu en aldrei óraði mér fyrir að Ironman yrði nokkurntíman á dagskrá.

1377607_10200719414243498_450055046_n

Ég var alveg hættur að æfa 2015 þegar við vorum fyrir tilviljun stödd í Barcelona sömu helgi og Ironman Barcelona var haldin það árið, við þekktum þó nokkra íslendinga sem voru skráðir til leiks og rifum okkur upp langt fyrir allar aldir til að fara og sjá þessa “sjúklinga” fremja verknaðinn. Í lok þessa dags sáum við seinustu keppendur skakklappast á síðasta hring í marathoni eins og það væri búið að gera í buxurnar og þá sagði ég við Nönnu að þetta skildi ég aldrei gera.

Ferlið.

Ég vissi að ef ég ætlaði að eiga séns í að klára þetta dæmi yrði ég að skrá mig í góðan klúbb, ég er svo lánsamur að búa tveim húsum frá sundlaug Kópavogs og lá því lóðbeint við að skrá sig í Breiðablik, ekki skemmdi fyrir að þar mætti maður frábærum hóp af þjálfurum og iðkendum sem gerðu æfingar skemmtilegar. Ég kom inn í mitt æfingartímabil hjá Blikum og var því dálítið á skjön við programið þeirra, þau voru búin með grunn tímabilið sem mér fannst algjört möst að taka af skynsemi til þess að minnka líkur á meðslum við að fara of bratt af stað. Ég keypti mér því 32 vikna æfingaáætlun á Training Peaks sem var sér sniðið fyrir Ironman Barcelona, það reyndist mér frábærlega að styðjast við það fram að 12 vikum fyrir keppni, þá tók við gríðarlega metnaðarfull áætlun frá Viðari Braga sem ég notaði sem viðmið en hlustaði alltaf vel á líkamann til að forðast meiðsl og þreytu og hvíldi ef mér fannst annað hvort gera vart við sig meira en góðu hófi gegndi. Ég var búinn að gera mér nokkuð góða grein fyrir að ég myndi ekki ná að vinna mótið og voru æfingar því meira miðaðar við að fara í gegnum þetta meiðsla laus og að njóta æfinga og keppni.

Til þess að auka á stemninguna skipti ég um vinnu í apríl og var mjög erfitt að halda sér við efnið í æfingum með því aukna álagi sem fylgdi því að byrja að vinna á nýjum vinnustað.

Veðurguðirnir gerðu líka allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir æfingar og var ég við það að bugast seinnipartinn í júní þegar tvöhundraðasti sunnudagurinn í röð var með rigningu og roki á langri hjólaæfingu, þrír til fjórir tímar á hjóli í svona veðri aftur og aftur eru bara ekkert skemmtilegir, nema að maður sé eitthvað bilaður sem ég er sem betur fer smá.

Ég tók þátt í eins mörgum keppnum og ég kom við og var sú reynsla ómetanleg þegar á hólminn í Barcelona var komið. Þar skiptu sundkeppnir í opnu vatni mestu máli enda reynslan minnst þar, Urriðavatnssundið og Viðeyjarsund stóðu þar hæst, að þeim loknum þá vissi ég að ég kæmist þetta.

Frá ármamótum og fram að keppni lagði ég rétt tæpa 3000 km að baki á hjólinu, hljóp 825km og synti rúma 95km, það tók mig um 250 klst að fara þessa km á 200 æfingum. Ég í raun gerði lítið annað en að vinna, æfa og keppa þetta árið.

Ég var feginn að hafa borið þetta undir Nönnu áður en ég skráði mig því að hún bar hitan og þungann af öllu heimilishaldi og leyfði mér að vera prinsessan sem var að fara keppa allt þetta ár, án hennar hefði ég ekki getað þetta.

Keppnin sjálf.

Satt best að segja þá var keppnin sjálf minnsti parturinn af þessu og í raun auðveld og skemmtileg, æfingar höfðu skilað sér og ég var tilbúinn.

sund

Ég játa að ég var ansi lítill í mér þegar ég stóð í sund startinu um morguninn og horfði á öldurnar berja á þeim sem fóru útí á undan mér, þetta var rosalegt og skolaði sumum tvisvar til þrisvar til baka áður en þeir komust út.

Maggi félagi minn stóð þarna með mér og hann sagði “iss þetta verður aldrei vesen” einkunnarorð hans sem róuðu mig mikið og reyndust að sjálfsögðu sönn. Það höfðu greinilega ekki allir heyrt í honum því fleiri tugum ef ekki hundruðum reyndist sundið ofviða og voru sóttir af lífvörðum og skutlað í land. Margir fóru aldrei útí.

Við Maggi fórum óvænt nokkuð samhliða í gegnum keppnina, það var hrikalega gaman að rúlla þetta saman og njóta allan tímann.

Lykilinn af vellíðan í svona keppni er jákvætt hugarfar, næra sig og vökva nóg á hjólinu og vera uppi með kassann í hlaupinu. Pissa reglulega á sig og éta sölt eins og smarties var að reynast mér vel.

Stuðningsliðið okkar stóð sig frábærlega og öskrin í Nönnu minni bárum mig áfram í gegnum erfiða kafla, ég ákvað strax á hjólinu þegar ég heyrði köllin í Nönnu á eftir mér þegar ég var að rúlla af stað út úr Calella í 90 km hring þar sem maður þekkti engan stuðningsmann að öll hvatning sem ég fengi á leiðinni yrði tekið sem hvatning frá Nönnu, það var æðislegt að “sjá” hana svona oft í hringnum.

43392935_10216574345732902_3735887060867743744_n

Það var mikið af íslenskum fánum í hlaupa brautinni og var ómetanlegt að fá stuðninginn frá þeim sem og öllum öðrum sem hvöttu mann áfram af mikilli ákefð.

Það var algjörlega ólýsanleg tilfinning að hlaupa inn eftir rauða dreglinum og klára þetta verkefni í vellíðan og algjörri alsælu, gerði þetta allt þess virði og ég mun endurtaka leikinn.

Screen Shot 2018-10-14 at 15.35.42