Bætingin í Barcelona

FB_IMG_1565698485192

Þetta er nokkuð löng saga um aðdragandann að IM Barcelona sem ég tók þátt í fyrstu helgina í október og svo örfá orð um keppnina sjálfa.

Fyrir mér var mikill sigur að hafa klárað þessa keppni því ég hef átt í basli með einhvers lags „meiðsli“ sem hafa háð mér mjög lengi. Ég set „meiðsli“ innan gæsalappa því einkennin voru og eru frekar óljós og lengi vel áttaði ég mig ekki á því að um meiðsli væri að ræða. Í raun hefur þetta verið þannig undanfarin 2 ár að því meira sem ég æfi og legg á mig í æfingum því lélegri verð ég. Ég ýki ekki þegar ég segi að í sumar sem leið hafi ég alvarlega verið að spá í að hætta að æfa þríþraut, alveg búin að gefast upp á því að leggja hart að mér í æfingum svo mánuðum skipti án þess að það skilaði árangri. Þetta var bara hætt að vera gaman.

Í upphafi var þríþraut

Ég byrjaði að æfa þríþraut 2013. Var dugleg að keppa hér heima bæði í stuttum og lengri keppnum (m.a. þrisvar sinnum ½ IM í Kjós) og gekk bara ágætlega, náði að bæta mig milli ára. Hlaupin hafa alltaf verið mín veika hlið en eftir fyrstu árin í þríþraut hafði ég bætt mig heilmikið í hlaupum.

Barcelona var önnur heila járnkeppnin mín (IM) en ég hafði farið í IM New Zealand (NZ) fyrir rúmu 1 ½ ári síðan. Þeirri keppni lauk ég á tímanum 13.46 en í Barcelona kláraði ég á 12.03. Þetta er náttúrulega geggjuð bæting, 1 klst og 43 mín !! Það er því áhugavert að velta því fyrir sér hvernig standi á þessari bætingu, hvað var öðruvísi við þessar keppnir og þá sérstaklega hvað var öðruvísi við aðdragandann að þeim.

Gúa vinkona mín hafði fyrir löngu ákveðið að fara í IM NZ og plataði mig að koma með. Um haustið 2017 hófst því undirbúningur fyrir keppnina sem fór svo fram í byrjun mars 2018. Þessi vetur var frekar leiðinlegur veðurfarslega séð sem þýddi að löngu hjólaæfingarnar varð að taka á trainer og hlaupaæfingar voru oft í hálku og snjó. Svo þarf náttúrulega ekki að nefna að sundæfingar í víðavatni eða sjó voru ekki teknar á þessu tímabili. Ég fékk æfingaprógram hjá Viðari Braga og hann studdi mig í gegnum undirbúninginn. Ég æfði mjög vel og fór samviskusamlega eftir æfingaprógramminu. Mér leið hinsvegar ekkert sérlega vel og æfingarnar voru oft á tíðum mikið streð. Löngu hlaupin voru erfið, komst ekkert úr sporunum, púlsinn var hár og ég svitnaði eins og svín. Ég átti líka erfitt með að halda uppgefnu afli á hjólinu og sérstaklega á löngu æfingunum. Var meira og minna orðin úrvinda af þreytu í lok æfingar. Þarna fann ég ekki fyrir neinum verkjum eða þannig einkennum, þetta var bara eitthvað svo erfitt. Ræddi þetta oft við Viðar sem mælti með að ég færi í blóðprufu, hugsanlega væri blóðleysi að valda þessu. Blóðprufan reyndist hinsvegar glimrandi fín og ekki vottur af blóðleysi. Svona gekk undirbúningurinn sem sagt, auðvitað eitthvað upp og niður, en þrátt fyrir að hafa lagt vel inn í æfingabankann þá voru litlar sem engar bætingar í gangi á undirbúningstímabilinu. Svo kemur að keppninni í NZ og í stuttu máli þá gekk keppnin algerlega í takt við það hvernig æfingarnar höfðu gengið, byrjaði ágætlega sterk en kláraði veik. Sundið gekk framar vonum (sundtími 1.11). Það var synt í kristaltæru vatni í Lake Taupo sem var ótrúleg upplifun. Hjólið gekk nokkuð vel framan af, hélt því afli sem lagt var upp með en eftir ca 90 km þá fór ég að þreytast mjög, aflið datt niður og þetta var bara streð og mér leið ekkert vel (hjólatími 6.27). Var allveg búin á því eftir hjólið. Ég man að í T2 hugsaði ég jæja, nú ætla ég að hvíla mig, ég get ekki haldið áfram strax. En sjálfboðaliðunum fannst ég eitthvað vera róleg í tíðinni og hálfpartinn ráku mig af stað. Ég held að ég hafi hlaupið örfáa km þangað til að ég bara gat ekki meir og fór að labba. Þannig fór ég meira og minna gangandi í gegnum hlaupalegginn (hlaupa/göngutími: 5.48).

Miðað við IM Barcelona var NZ hjólabrautin með fleiri brekkur og malbikið grófara. Hlaupabrautin í NZ er líka nokkuð erfiðari en í Barcelona, margar brattar brekkur en samt stuttar.

Að safna járni er góð skemmtun

Plön um næsta IM hófust strax eftir NZ og fengum við vinkonurnar þá hugdettu að það væri gaman að taka IM í hverri heimsálfu á næstu 10 árum. Þá var fljótlega ákveðið að við skyldum fara til Brazilíu næst, eða í maí 2019. Á bjartsýnisaugnabliki síðastliðið haust skráði ég mig svo líka í IM Barcelona 2019 (6.október).

Í kjölfarið ákvað ég að leggja meiri áherslu á hlaupið, myndi örugglega verða betri ef ég bara æfði meira. Sumarið og haustið 2018 var ég dugleg að hlaupa. Það gekk samt ekkert sérstaklega vel, fann fyrir einhverju ójafnvægi í hlaupastílnum, svolítið eins og annar fóturinn væri lengri en hinn, þannig var tilfinningin. Fór tvö 10 km keppnishlaup um sumarið með hörmungar árangri, hljóp langtum hægar en ég hafði áður getað hlaupið. Við erum að tala um 7-8 mínútna lakari tími en ég átti best þrátt fyrir að hafa æft vel. Sem sagt þá varð ég sífellt lélegri og lélegri með meiri ástundun þrátt fyrir að um nein meiðsl væri að ræða, a.m.k. fann ég ekki fyrir neinum verkjum. Um haustið 2018 fór ég svo að finna fyrir sviða í hægri mjöðm og framan á læri á hlaupum. Þannig gekk þetta um haustið og veturinn, varð bara hægari á hlaupunum og varð reglulega að stoppa til að hvíla uppsafnaða þreytu og sviða í hægri fæti. Þessi einkenni fóru líka að gera vart við sig á hjólinu, var bara drulluléleg þar, en þetta klárlega háði mér meira á hlaupunum. Fór loksins í sjúkraþjálfun vildi meina að ég væri með vanvirkan hægri rassvöðva. Næstu mánuði gerði ég Jane Fonda æfingar samviskusamlega 2 sinnum á dag til að styrkja og virkja gluteus medius, en það hjálpaði ekki mikið. Fór seinna í sterasprautu þar sem sinafestubólgur á mjaðmasvæði komu í ljós. Þegar upp var staðið þá gerði það heldur ekki mikið fyrir mig.

Að gefast upp er ekki góð skemmtun…

Þetta var sem sagt síðastliðinn vetur og ég var komin í æfingaprógram fyrir IM Brasilíu. Þar sem hlaupin voru að ganga svona illa var planið að massa bara sundið og hjólið og láta svo hlaupið ráðast. En þegar 3-4 vikur voru í Brasilíukeppnina gafst ég upp og hætti við. Það sem réði úrslitum með þá ákvörðun voru sko alvöru „meiðsli“ með alvöru sársauka sem gerði það að verkum að ég gat ekki með nokkru móti hjólað. Þetta voru sko „álagsmeiðsli“ í klofi/hnakksvæði sem hafa reyndar verið krónískt vandamál hjá mér.  Er betri inná milli ef ég passa að sitja ekki dag eftir dag í hnakknum, en með versnunum. Þar með var IM Brasilía úr sögunni og ég sá ekki fyrir mér að IM Barcelona myndi ganga heldur vegna þess hve illa gekk með hlaupin og í raun hjólið líka. Ég mætti til dæmis ekki á fund með Viðari Braga og öðrum Blikum sem voru á leið til Barcelona í upphafi æfingaprógramms í sumar, ég var ekki að fara. Þarna var allt orðið hálf vonlaust, ég farin að hugsa um hvaða annað tómstundargaman ég gæti fundið mér ef ég hætti í þríþraut.

Tímamótin

En svo kemur að ákveðnum tímamótum þegar ég fer til kírópraktors. Hafði mjög litla trú á að það myndi gera neitt fyrir mig en ákveð að prófa. Skv. röntgenmyndum var ég með snúning á spjaldhrygg og snúning upp eftir allri hryggjarsúlunni. Það var bara eins og við manninn mælt að eftir 1-2 hnykk-tíma þá var bara tilfinningin á hjólinu orðin allt önnur. Ég var bara orðin miklu aflmeiri og fór meðal annars 100 km hjólatúr þar sem ég kláraði túrinn sterk. Þetta var ótrúlegt, meira að segja kírópraktorinn trúði þessu ekki. Líklegast voru þetta bara lyfleysuáhrif. Hvað um það, um miðjan júlí í sumar fer ég fer í TT Kleifarvatnskeppnina og var bara full af orku, kláraði sterk og bætti FTP-ið mitt frá því í júní um ca 7%. Ég átti sem sé mánaðargamalt FTP test sem ég tók fyrir WOW-cyclothonið og á þessum mánuði hafði ég bætt mig umtalsvert. Ekkert sérstakt sem ég var að gera öðruvísi á þessum mánuði. Eftir velgengni mína í TT-keppninni og almennt betri upplifun á hjólinu plantaðist fræið um að kannski gæti ég bara farið til Barcelona, en ég var samt ekki alveg að trúa þessari breytingu á mér. Ákveð að halda áfram æfa hjólreiðarnar, tók langar hjólaæfingar um helgar með æfingafélögum mínum sem voru á leið til Barcelona, en fór meira svona sem selskapsdama frekar en ég væri að æfa fyrir IM. Ég ræddi samt við Viðar Braga um það að leyfa mér að fylgjast með IM æfingaprógramminu, ef ske kynni að ég gæti farið. Hugmyndin var æfa hjólreiðarnar og sundið og sleppa því að æfa hlaupin, ég myndi bara labba hlaupalegginn. Viðar Bragi ráðlagði að í staðinn fyrir hlaupaæfingar myndi ég bæta inn 4. hjólaæfingunni (muscular endurance) og 4. sundæfingunni. Var samt öðru hvoru á þessu tímabili að prófa að hlaupa, fara á Esjuna en ég var ennþá hálf máttlaus í fætinum og gat ekki hlaupið án þess að þurfa að stoppa á nokkur hundruð metra fresti til að hvíla fótinn. Hjólreiðarnar gengu hinsvegar ótrúlega vel, og sundið gekk líka vel. Ég varð bara sterkari og sterkari með hverri æfingunni!! Þetta var stórkostleg breyting á mér og seinnipartinn í ágúst tek ég endanlega ákvörðun með það að fara í keppnina. Planið var ennþá að labba hlaupalegginn, hafði lítið hlaupið í sumar og bara stuttar vegalengdir. Í lok ágúst ræddum við Viðar að ég þyrfti nú að kannski að bæta einhvers konar hlaupi eða göngu inn í prógrammið, bæði til að halda hlaupa/göngu-vöðvum í æfingu og svo kannski til að sjá hvað væri raunhæft að ég gæti farið hratt yfir í keppninni. Prófaði þá að strunsa í 2 klukkustundir. Í því testi fann ég út að það hentaði mér að hlaupa/jogga í svona ca 20 andartök og ganga svo í 10 andartök. Eftir þessi 20 andartök var komin uppsöfnuð þreyta í hægri fótinn en með því að ganga inná milli var þetta vel gerlegt. Næstu vikurnar æfði ég þetta og var bara komin í ágætis gír. Þetta struns var orðið nokkuð stabílt á ca. 7 pace sem þýddi að ég ætti að geta farið hlaupalegginn á 5 tímum. Stuttu fyrir keppni tók ég nýtt FTP test og hólý mólý það var ekkert smá mikil bæting (9% bæting frá því í júlí-testinu og 17% bæting frá júní-testinu). Nú var áætlað afl sem ég ætti að geta haldið í keppninni, 30 wöttum hærri en í NZ, það munar nú aldeilis um minna. Ég var líka komin í betra sundform heldur en þá. Ég gerði mér því vonir um að ef allt myndi ganga upp þá gæti ég kannski farið undir 13 tímum. Viðar Bragi áætlaði að ég myndi fara þetta á 12 ½ tímum.

Eins og í draumi

Í raun er frekar lítið um IM Barcelona keppnina sjálfa að segja. Það voru draumaaðstæður þennan dag, hitastig í kringum 20 gráður, skýjað og sjórinn var sléttur. Var bara afslöppuð og hafði góða tilfinningu fyrir keppninni. Var reyndar með hálsbólgu og kvef 2-3 dögum fyrir keppni en leið ágætlega á keppnisdeginum. Sundið gekk vel, rúllandi start (sundtími: 1.08). Hjólaleggurinn gekk líka algerlega eins og í sögu. Var með fulla orku allan tímann, og alls ekkert neitt þreytt og orkulaus seinni helminginn eins og í NZ. Nærði mig á klukkustundarfresti og þá með einu geli, orkubar, eða snickers bita. Þetta var minni orkuinntaka heldur en í NZ en þá tróð ég í mig einhverju á 45 mín fresti. Það var bara allt of mikið fyrir mig (hjólatími 5.22 og meira en klukkutíma bæting frá NZ). Kom fersk inn í T2 og tilbúin í strunsið. Hitti Viðar Braga í brautinni sem sagði að ég væri 4. í aldursflokki eftir hjólið og nú væri bara að halda struns-áætlun. Fyrstu 10 km gengu vel, ca. pace 7 en svo fór mér að verða flögurt þannig að ég þurfti að hægja á mér. Hélt samt meira og minna planinu að labba ekki meira en 10 andartök, en „hlaupaparturinn“ styttist og það hægðist á mér. Hlaupatíminn endaði í 5.20 sem er ca hálftíma bæting frá NZ. Næring á hlaupinu var 1 kóksopi á hverri drykkjarstöð og 2x fékk ég mér appelsínusneið. Var með harðfisk sem ég ætlaði að narta í á hlaupunum, en það var ekki að gera sig og ekki séns að ég kæmi niður geli. Fannst ég ekki endilega vera orkulaus heldur bara með flökurleika sem var hægt að halda í skefjum með því að fara hægt yfir.

annahelgadottir1
Komið í mark á Nýja-Sjálandi. Myndirnar frá Barcelona prentuðust ekki nógu vel!

Endaði keppnina í 14.sæti í aldursflokki (50-55 ára) af 41 sem kláruðu og það má segja að ég sé bara í skýjunum með þetta.

Er búin að átta mig á því að það er hægt að vera „meiddur“ án þess að vita af því –  sem er mjög absúrd. Þannig var klárlega ástandið í aðdragandanum að NZ og ástæða þess að ég gat ekki meira en ég gerði í þeirri keppni. Það var greinilega eitthvað sem var að hrjá mig, eitthvað sem átti eftir að koma betur í ljós seinna… Þetta concept mun örugglega enginn skilja sem les þetta en fyrir mér er þetta svona.

Eftir niðurstöðuna úr IM Barcelona og eftir eftir þróun síðustu vikna og mánuða í mínum „meiðsla“-málum er ég klárlega ekki búin að gefast upp á þríþraut. Við Gúa erum meira að segja búnar að ákveða næsta IM.

Átökin í Emilio-Romagna

Járn er hvetjandi

Fyrir réttu ári var ég á expóinu fyrir RM og hitti þar félagana Rúnar og Sigga sem ég hef verið rekast á annað slagið í hlaupabrölti mínu og þeir spyrja mig um hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur í vetur en þarna í júlímánuði hafði ég lokið Laugavegshlaupinu og var ekki komin með önnur markmið og fannst vanta hvatningu til að fara út að skokka.
Þeir fara að segja mér frá keppni sem ber nafnið Ironman og er 3,8 km sund, 180 km hjól, 42 km hlaup og segjast vera búnir að skrá sig í Ironman Italy í Cervia og hvort ég vilji ekki bara skella mér með. Mér leist nú ekkert á þetta, fannst þetta vera utan minnar getu því ég hafði aldrei stigið á racer eða TT hjól og var sem næst ósyndur. Þetta fannst þeim ekki mikið mál enn sögðu einnig að það væri sennilega betra fyrir mig ef ég slægi til að skrá mig í þríþrautarfélag og byrja að synda strax á morgun 😊
Ég velti þessu fyrir mér í smá tíma, fór á kynningar hjá Breiðablik og Ægir3 og var uppnuminn af þessu fólki sem var að kynna þríþrautina því allir sem töluðu höfðu svo mikla ástríðu fyrir efninu að það var ekki hægt annað enn að hrífast með. Ég ákvað eftir þessa fundi að skrá mig og sjá til hvernig gengi og Ægir3 varð fyrir valinu sérstaklega vegna staðsetningar.
Sundæfingar gengu vel undir handleiðslu Gylfa og er hann held ég einn þolinmóðasti maður sem ég hef hitt, endalaust að svara sömu spurningunum frá manni og aldrei vottur af pirring yfir sundþokunni sem tekur yfir hausinn á manni eftir nokkra metra í sundinu.
Ég mætti á hjólaæfingar á Hybrid hjólinu mínu sem var verslað eftir þarfagreiningu síns tíma og tók þátt í öllum hjólaæfingum sem í boði voru og gerði mitt besta til að hanga aftan í mannskapnum enn þjálfararnir voru líka duglegir að hífa mann upp ef maður dróst aftur úr.
Svo var komið að því að kaupa racer til að geta tekið æfingar á næsta stig og mætir menn fundu rétta hjólið fyrir mig á tilboði sem ekki var hægt að hafna ( við vorum fjórir sammála um það ) og þarna fjárfesti ég í hjóli án pedala sem föður mínum heitnum hefði þótt skrítin kaup.
Konan mín var ekki jafn sammála okkur fjórum með ágæti kaupanna því í sömu viku var verið að skipta um allar hurðir í íbúðinni og hjólið slagaði upp í þá tölu með wattamæli.
Til að gera langa sögu stutta þá reyndi ég að mæta vel á æfingar allan veturinn og keppa í öllum sprettþrautum og sjósundum sem í boði voru hér heima um vorið og sumarið til að öðlast keppnisreynslu enda mælt með því af þessu úrvals þjálfarateymi sem Ægir3 hefur upp á að bjóða.

Keppnin

Emilia-Romagna svæðið geymir strandbæinn Cervia sem er í norður Ítalíu og er þekktur fyrir strendurnar sínar og fiskinn. Við vorum 9 manna hópur af fólki úr öllum áttum með mökum sem ætluðum að tækla þessa þraut. Hótelið mitt var vel staðsett, skiptisvæðið var beint fyrir utan innganginn á hótelinu.
Á föstudag var keppnisfundur og svo var hjólunum skilað á sinn stað á grindur sem voru merktar með keppnisnúmerinu og passaði ég mig á að taka mynd af staðsetningunni og leggja hana á minnið því enginn fer að leita að hjólinu sínu í hópil 3000 annara hjóla að morgni keppnisdags.
Að morgni laugardagsins fór ég snemma á skiptisvæðið sem var opið frá 05:00 og ætlaði að koma fyrir drykkjarbrúsum og hjólatölvu og athuga með hjólið en fann það hvergi og leitaði í stundarfjórðung sem var frekar stressandi en þá kom í ljós að ekki aðeins hafði hjólið verið fært frá götubrún að miðjusvæði heldur allur rekkinn líka um 50 metra og var ég ekki of glaður með það og fékk svo sem öngvar skýringar á því.
Dreif mig niður á strönd og sjórinn leit bara vel út, smá alda en ekkert til að hafa áhyggjur af en rauð flögg höfðu verið á sjónum í 2 daga.
Kom mér í fremsta sundhólfið sem var með tímann – 60 mín og voru keppendur ræstir 5 saman á 5 sek fresti. Mig langaði að reyna að negla sundið aðeins þrátt fyrir að vera með bólgna sin í öxlinni sem hafði strítt mér allan veturinn enn Gylfi sundþjálfari sagði við mig að sennilega hefðu þessi meiðsli bætt tæknina hjá mér því ég var alltaf að spara mig svo ég gæti synt án sársauka.

AðalsteinnSund
Sundið gekk ótrúlega vel, svona framarlega voru góðir sundmenn svo það var enginn í bringusundi sem þýddi færri spörk og betra draft enn auðvitað var eitthvað um að fólk gripi í fótinn á þér en ég held að það sé partur af þessu því maður gerði það sjálfur líka óviljandi enda held ég að enginn sé að leika sér að þessu. Jók hraðann í kringum snúningsbaujur til að fá betra flot og til að lenda ekki undir einhverjum og gekk það vel upp.
Sundtími á 1:06:40 3,8 km
Hljóp skiptisvæðið sem var 400 mtr og var búin að setja skóna á pedalana því það var bannað að hlaupa með þá í hendinni og ég vildi ekki hlaupa þessa vegalengd á skónum því það væri eins og að hlaupa á háum hælum (held ég).
T1 06:56

Fall er ekki fararheill

AðalsteinnHjól
Það var gott að komast á hjólið. Ég ætlaði að halda 170 wöttum sem tókst og meðalwöttin hjá mér voru 176 . Fyrstu 30 mín á hjólinu voru hálf óbærilegar vegna sársauka í öxlinni eftir sundið en hver hola í malbikinu stakk mig svo mig langaði að orga enn svo dofnaði allt draslið og hjólið varð bærilegra.
Hjólaðir voru 2 hringir með 20 km upphafs og endakafla og veðrið var mjög gott enn hitinn um 20°c og fór hækkandi, brautin frekar flöt enn með 2 hækkunum sem voru stuttar enn brattar. Mér gekk vel að halda mínum wöttum og var ákveðinn að víkja ekki frá plani í fyrstu keppni en fannst oft ég geta gert mikið betur á hjólinu en plan er plan. Atvinnumennirnir tóku framúr og eins og Þórhallur vinur minn orðaði það, þá voru þeir eins og róbótar, langir, samlitir búningar og hjól, já eins og transformers, ógnarhraðir. Sá það var nóg að gera hjá sjúkrabílunum á hraðbrautinni enda nokkuð um slys og örmögnun.
Á einni drykkjarstöðinni í litlum bæ lenti ég í óhappi og féll harkalega á hellulagða götuna og fann mikið til í skrokknum, stumraði yfir hjólinu til að tékka á hvort það væri heilt og hélt þarna að keppnin væri búin hjá mér enda lak úr mér blóðið úr handlegg og fótlegg en Ítalarnir þarna skelltu mér upp á fákinn og ýttu mér af stað hrópandi einhverja vitleysu og það tók mig svona 3 mín að bíta sársaukann frá mér og halda haus.
Næring: 2 orkustykki 12 gel og sennilega 7-8 ltr af vökva innvortis og útvortis
Hjól 5:52:19 180 km
Skiptingin gekk allvel enn gleymdi sólarvörn í látunum
T2 07:11

Að æla í markinu er góð skemmtun…

Lagði af stað í hlaupið og leið vel en þarna var farið að bæta í hitann og hitastigið sennilega um 25°c. Passaði mig á að grípa svampa og klaka á öllum drykkjarstöðvum og planið var að hlaupa á pace 5:50 sem fljótlega fór suður hjá mér enn hlaupið var mér erfitt sökum hita. Eftir 21 km langaði mig bara að labba restina en lét mig hafa það að labba bara í gegnum drykkjarstöðvar. Um miðbik keppninar var mér orðið svo lítið óglatt og ældi í munninn svona 2x en stoppaði ekki. Kom í mark á 4:29 sem var svona 15 min frá því sem ég var búin að sjá fyrir mér og tók ég góðann endasprett í markið því þjálfararnir Geir og Ólafur voru búnir að segja að það mætti ekki skilja neitt eftir í brautinni og það væri ákveðið gæðamerki að æla í markinu og vildi ég alls ekki valda þeim vonbrigðum og uppfyllti samviskulega það skilyrði 10 min eftir að ég kom í mark.
Ég settist á bekk í tjaldinu og reyndi jafna mig og fyrir framan mig var bakki með einhverjum pylsum og gramsi og mér varð svo óglatt að horfa á hann að ég ældi í bakkann sem var mikill léttir á magann. Sjúkraliðar 2 stk voru beint fyrir framan mig og komu strax og tékkuðu á mér en töluðu enga ensku. Allt í einu var kominn hjólastóll fyrir framan mig sem mér fannst nú undarlegt, vissu þeir ekki að ég væri nýbúinn með maraþon 😊 en ákvað svo með sjálfum mér að þessir góðu menn ætluðu sennilega að trilla mér með forgang í nuddið og sturtuna sem mér var búið að hlakka svo til að fara í þegar ég kæmi í mark. Settist í stólinn og var keyrt beint fyrir framan sjúkratjald og beðinn að setjast á bekk þar, engin sturta eða nudd heldur 5 min bið þar sem ég horfði á þá og þeir á mig þangað til ég stóð upp, kvaddi og skellti mér i myndatöku og sturtu án hjálpar.
Næring. 8,5 gel,mikið vatn og Isiodrykkir
Hlaup 4:29:06 42 km
Heild:11:40:51

AðalsteinnKlárar
Sjálf keppnin var uppskeruhátíð ársþjálfunar með bestu æfingafélögum og þjálfurum sem ég hef kynnst og hlakka ég mikið til að halda áfram í þessu sporti
Það sem er mjög magnað að aldrei á þessum tíma sagði neinn af þessum reynsluboltum að þetta verkefni væri of erfitt heldur var alltaf hvatning í gangi og jákvætt tal hvernig best væri að framkvæma þetta og mér finnst við öll vera að uppskera þegar einhver af okkur klárar svona þraut hvar sem það er í heiminum.

Með viljann að vopni

Katrín Pálsdóttir segir frá:

Í nóvember í fyrra skráði ég og Þorsteinn okkur í hálfan Ironman í Bintan í Indonesíu. Drifum okkur að panta gistingu í 350 fm villu með einkasundlaug staðsett á ströndinni. Við vorum fljót að bjóða Bryndísi, Mà og Ísabellu að koma með okkur því einhver þyrfti að passa tvíburana á meðan við værum að keppa. Þvílík heppni að fá þau með, svo bættist gleðigjafinn Rafn með í ferðina sem gerði ferðina enn betri.

Í febrúar hófst svo undirbúningur fyrir Bintan. Við fengum Geir Ómarsson besta þríþrautamann á Íslandi til að þjálfa okkur. Mín markmið voru mjög skýr þ.e. vinna minn aldursflokk í Bintan og fá boð um að taka þátt í heimsmeistarakeppninni á næsta ári. Ekkert mál, Geir setti upp frábært plan og ég fann í hverjum mánuði að ég var að bæta mig. En mér fannst ég alltaf hálf glötuð að hlaupa, var oft að kommenta á æfinguna að mér liði eins og ég væri 100 ára að hlaupa…

En í byrjun maí hófst þríþrautatímabilið á Íslandi, ég smellti mér strax í fyrstu tvær keppnirnar í stigakeppninni. Gekk ótrúlega vel, var í fyrsta og öðru sæti í mínum flokki og 3ja og fjórða í heildina, en missti alltaf einhverja fram úr í hlaupinu. En var komin í 2 sætið í stigakeppninni í lok maí og næsta keppni tveim vikum síðar á Laugarvatni sem ég ætlaði að rúlla upp.
Mér fannst ég reyndar hafa orðið pínu slöpp eftir síðustu keppnir, eins og ég væri með beinverki og flensu, fékk líka brónkítis en ég hugsaði að ég hefði örugglega ofreynt mig í keppnunum þannig ég ætlaði nú ekki að tala um það. Nokkrum dögum síðar átti ég að mæta á hlaupaæfingu en fannst ég vera eitthvað veikluleg, ég fer samt út að hlaupa en sný við eftir 1 km. Þegar ég kem heim þá hósta ég frekar miklu blóði. Ég hugsa að þetta er örugglega ekkert, ég hafði hóstað blóði í fyrra líka og farið til læknis og hann sent mig í röntgen á lungum og það var ekkert að. Þannig ég ætlaði nú ekki að fara ónáða læknana með að spyrja aftur hvað væri að mér. Svo í júní dettur einn góður vinur okkar í heimsókn, Jóhann Sigurjónsson.  Hann var út í Vík með krakkana í sundi og kíkir við í kaffi. Ég vissi að hann væri að leysa af inni á sjúkrahúsi á Ísafirði og af því ég ætlaði ekki aftur til læknis þá ákvað ég að spyrja hann út í blóðið. Hann heimtaði að ég kæmi strax til sín næsta dag og vildi rannsaka þetta frekar. Ohh ég fékk eiginlega samviskubit að vera spyrja hann læknaspurningu þegar hann væri heim að kíkja í kaffi. En ok, hann hringdi um morguninn og spurði hvort ég væri ekki að koma í tímann. Ég hlýddi auðvita lækninum og stökk af stað. Jóhann setti mig í öndunarpróf til að ath hvort ég gæti verið með astma því það heyrðist alltaf eitthvað „kurr“ í lungunum þegar ég dró andann. Já mér fannst það mjög líklegt, pottþétt með astma 🙂
Svo sendi hann mig í sneiðmynd og þá sást eitthvað skrítið í lungunum, það gæti verið lungnakrabbamein en það gæti líka verið bólginn eitill. Ég hef aldrei reykt, lifi rosalega heilsusamlegu lífi… já pottþétt bólginn eitill! En þetta þurfti að kanna þetta betur og um miðjan júní er ég send í fullt af rannsóknum, sneiðmynd af höfði, kvið, lungu, beinaskanna, öndunartest, blóðprufur og berkjuspeglun. Í berkjuspegluninni sést krabbamein sem er eiginlega búið að loka fyrir eina berkjuna í hægra lunga. Mjög sjaldgjæft krabbamein sem kallast carcinoid. Jæja eins undarlegt og það hljómar þá var ég, 35 ára heilsufríkin komin með lungnakrabbamein! Það var eiginlega ómögulegt. En ég er alltaf súper bjartsýn, drífum þessa aðgerð bara af svo ég geti haldið á með lífið, lækningin er að skera hálft hægra lungað.kata2
Í byrjun júlí er aðgerðardagur. Ég var svo ótrúlega lánsöm að fá Tómas besta skurðlækni á Íslandi til að framkvæma aðgerðina. Hann læknaði mig á methraða. Enda þegar aðgerðin var búin þá var það fyrsta sem ég spurði hann hvort þetta hefði verið „personal best“ hjá honum?? Ok.. var pínu rugluð eftir svæfinguna og með PB á heilanum haha. Ég lá inni í 5 daga á Landspítalanum, þar var ég svo ótrúlega heppin að hafa annan uppáhaldslækni, hann Sigurð sem hjálpaði mér ótrúlega mikið, þvílík heppni að kynnast þessum læknum! Fyrsta daginn eftir aðgerðina gat ég ekki talað heila setningu án þess að þurfa að hvíla mig, ég var með núll þol. Gat ekki farið fram úr án þess að láta hjálpa mér á fætur, enda með leiðindar dren inn í mér sem var með endalaus óþægindi. Við hliðiná mér lá yndisleg kona hún Þórdís, hún hafði verið í sömu aðgerð og ég. Mér fannst hún svo hress að sjá, hún var komin í buxur og farin að reisa sig sjálf upp úr rúminu, ég var enn í læknastuttbuxum og þurfi hjálp á klóið. Keppnis-Kata dreif sig í buxur og fór strax að reyna koma sér sjálf út úr rúminu, ég varð að vera jafn dugleg og Þórdís en komst reyndar að því að hún var búin að vera 2 dögum lengur en ég, þannig ég róaði mig aðeins í keppninni 😀
Ég var mjög fljót að koma mér á fætur, farin að vinna tveim og hálfri viku eftir aðgerðina, farin að hjóla og alltaf að testa hlaupið. Fannst eiginlega best að fara sem fyrst að vinna svo ég gæti setið kyrr í Landsbankanum, annars var ég komin í fjallgöngu eða í einhvern hasar.
Svo er komið að ferð til Indonesíu, 6 vikum síðar…
Ok ég var reyndar ekki viss hvort ég kæmist til Indonesíu, þar sem viku fyrir ferðina fékk ég dren til að losa vökva úr kviðarholinu en gekk ekki alveg eins vel og planið var. Vökvinn minnkaði lítið og ég fékk smá loftbrjóst.

kata3Reglan er að fljúga ekki fyrr en tveim vikum eftir að loftbrjóstið er farið, mitt loftbrjóst fór á mánudeginum og flugferðin var á fimmtudeginum… Ok jæja ef ég kemst ekki með þá verður bara að hafa það en kannski er bara hægt að taka sjensinn, google var búið að segja mér frá nokkrum sem flugu fyrr og það gerðist ekki fyrir þá. Ég talaði við mjög góðan lækni og hann sagði að ég ætti ekkert að stressa mig, bara skella mér í flugið. Ég var alveg pínu stressuð fyrir fluginu, fyrst 3 og hálfur tími til Frankfurt og svo 12 tímar til Singapore, hvað ef lungað fellur saman út af loftbrjóstinu… Ohh það væri vandræðalegt. Ég vandaði mig að anda alla leiðina! Allt gekk upp og við lentum í singapore. Gistum eina nótt og tókum ferju til paradísaeyjunnar Bintan Í Indonesíu.
Skooo ég var náttúrlega alls ekki að fara að keppa, en samt með allt keppnisdótið með mér og komin hinum meginn á hnöttin. Tók hjólið, skóna, sunddótið, hlaupadótið…. Ok ég get kannski bara prófað að æfa mig hér úti og tékkað hvernig gengur. Ironman er á sunnudegi og við komum á laugardegi viku fyrr. Ég prófaði í fyrsta skiptið að synda eftir aðgerðina rúmri viku fyrir keppni og það gekk bara þrusu vel, þannig ég hugsaði að ég gæti nú svo sem synt vegalengdina og hætt svo… Ég var búin að prófa að hjóla 50 km hér úti og allt gekk vel, þannig ef ég væri góð eftir sundið þá gæti ég alveg prófað að hjóla helminginn eða séð hvert ég kemst… sundið var snilld, tær botn og grænn sjór, maður flaug àfram í vatninu. Ok ég er ekkert þreytt þannig ég kiki aðeins á hjólið…

kata5Vááá þessi hjólaleggur var algjör snilld, rolling hills alla leiðina, krakkar á hverju horni að fagna í allskyns smábæjum, ekki sjens að ég ætla bara hætta hér, auðvita klára ég bara hjólið. Var komin í 2 sætið eftir hjólið í mínum flokki, vá það er geggjað. Ég sem var ekki einu sinni að reyna neitt rosalega mikið á mig því ég átti að passa mig að ofgera mér ekki samkvæmt læknisráði 😀 Æjj víst ég var búin með hjólið og sundið og varla móð þá stekk ég bara í hlaupið, hugsaði að ég myndi bara ganga og skokka til skiptist og sjá hve langt ég kæmist.

kata6Það voru tveir 10 km hringir þannig ég gæti náttúrlega klárað einn og hætt svo… En nei glætan, þegar ég á bara 10 km eftir þá fer ég ekki að hætta, auðvita klára ég bara mitt járn!! Já og ég kláraði hálfan járnmann 7 vikum eftir stóra lungna aðgerð, þar sem hálft hægra lungað var tekið úr mér. Ég passaði mig ótrúlega vel að verða aldrei móð og hlusta á líkamann, hef aldrei tekið þátt í eins skemmtilegri keppni. Allt gekk rosalega vel, ekkert stress, endalaust jákvæðni og gleði allan tíman. Yndislegt var að koma í markið þar sem allir tóku á móti mér, Steini rúllaði sinni keppni upp og bætti sig þvílíkt, en þetta er með erfiðari ironman keppnum í heimi.

kata8
Í gegnum allt ferlið síðustu mánuði hef ég passað að halda hausnum á sínum stað, missa hann aldrei í neitt rugl. Ekkert verið að skæla eða vorkenna mér, þegar maður getur ekki breytt einhverju þá þýðir ekki að eyða óþarfa hugsunum í það. Ég var búin að vera þjálfa mental toughness síðasta árið fyrir þríþrautina sem skilaði sér aldeilis vel í öllu þessu umstangi. Næsta mission er Ironman Jönköping þar sem við mætum með þríþrautafélagið 3sh 🙂
Þetta er sagan af Ironman Bintan og jákvæðu hugarfari þá tekst manni svo vel.

Járnið hamrað í Jönköbing

Þórunn Margrét Gunnarsdóttir segir frá:

Það tók sig upp svakaleg stemning í æfingahópi Ægir3 í september í fyrra og við æstum hvort annað upp í að skrá okkur saman í Ironman 70.3 í Jönköpin 7. júlí 2019.  Besta var að mér tókst að fá manninn minn til að koma með okkur í þetta og hann skráði sig meira að segja á undan mér.  (Nokkurra ára aðgerðaráætlun að skila sér hahaha)

Ástæðan fyrir því að þessi keppni varð fyrir valinu var sú að þetta er einnig Evrópumeistaramót þríþrautarfélaga í Ironman 70.3 og það fannst okkur spennandi.  20 félagar skráðir í upphafi en nokkrir duttu úr skaftinu af ýmsum ástæðum en 14 mættu á keppnisstað og 14 luku keppni.

ÞG2

Þetta var sannkölluð uppskeruhelgi æfingahópsins, 5 í IM Austurríki og 14 í IM 70.3 í Jönköping, þvílíkur hópur, elska þetta fólk!

Mætt á svæðið á fimmtudagskvöld, ferðin gekk vel fyrir utan það að ég gleymdi bakpokanum mínum með hjálminum, keppnisgallanum ofl. í strætó á leiðinni frá flugvellinum að bílaleigunni, smá keppnisþoka að gera vart við sig.

Föstudagurinn var mjög annasamur eiginlega aðeins of…..úps ekki segja Geir þjálfara! Morgunmatur, Expó, hádegismatur, æfingasund, skrúðganga þríþrautarfélaga kl.15, testa hjólið, keppnisfundur kl.18, kvöldmatur.  Hafði smá áhyggjur af því hvað ég var gjörsamlega dauð á föstudagskvöldið eftir daginn. En við fengum skýr skilaboð frá Geir um það að það væri stranglega bannað að fara á Expóið á laugardeginum svo laugardagurinn fór í rólegheit, mjög léttar æfingar og koma öllu fyrir í T1 og T2 fyrir keppnisdag.

Keppnisdagurinn byrjaði ágætlega en hafði reyndar ekki sofið mjög mikið nóttina en það hefur alveg komið fyrir áður og ekkert til að stressa sig yfir.  Komin í mat 06:00 þrír tímar í keppni.  Tróð í mig heilli skál af hafragraut og einum banana en mér gengur nú ekki alltof vel að borða svona rétt fyrir keppni.  Þar sem ég sit og er að taka næst seinasta bitann af banananum kemur einn liðsfélagi minn og sest við hliðina á mér með stóran skammt af eggjahræru og síld í gulbrúnni slepjulegri sósu…….SOS rétt náði inn á klósett og ældi öllum morgunmatnum.  SKELLUR! Fór upp á herbergi og lagðist á rúmið með kuldahroll og viss um að ég væri að fá hita, ætli það sé gúllpsopinn sem ég tók í æfingasundinum í hinu mjög svo grugguga og eiginleg ógeðslega Munksjön eða kranavatnið sem ég er búin að vera að þamba síðustu daga.  Tók svo smá U beygju í huganum og hugsaði NEI, ég er búin að vera dugleg að æfa og er komin alla þessa leið…. ég ætla að fara þarna út og gera mitt besta, klæddi mig í blautbúninginn til hálfs og hélt út og bar höfðuðið hátt. 

Mikið var nú samt gott að hafa eina af sínum bestu vinkonum sér við hlið hana Lóu mína í startinu. Staðsettum okkur við tímamörkin 28-30 mínútur og reyndum svo að dilla okkur við tónlistina og peppa hvor aðra upp og ná í okkur hita í rigningunni.  Áttum að fá að taka upphitun í litlum skurði en það var afturkallað á keppnisfundinum þar sem það væri hætta á ofkælingu hjá keppendum meðan þeir biðu blautir eftir startinu í rigningunni, en eftir að hafa horft ofan í skurðinn þá vorum við viss um að það væri útaf félaga E.coli sem ekki mætti synda í þessum drullupolli.

Sundið:

Tróð í mig 1 geli rétt fyrir start með von um að ég mundi halda því niðri.  4 út í einu, Lóa ræst fyrir framan mig og sá hana ekki meira fyrir utan eitt skipti á leiðinni þegar við vorum allt í einu að þvælast fyrir hvor annarri. Sundið er mín sterka hlið en náði mér einhvern veginn ekki almennilega á strik, fékk lítið sem ekkert kjölsog og var aðallega að taka fram úr eða algjörleg ein að synda, erfitt að sjá á milli bauja og tók tvisvar kolranga stefnu. Leit á úrið þegar ég kom upp úr 32mín Ahhhh hélt ég ætti að geta verið undir 30 en sá svo að úrið sýndi 2020m, en það er nóg eftir af keppninni svo ákvað að vera ekkert að svekkja mig á sundinu.

Sundtími: 32:03

T1: 600m hlaup eftir rauðum dregli á hellusteinum, ekki svo slæmt þrátt fyrir misfellur og var bara nokkuð spræk eftir sundið og tók fram út nokkrum á dreglinum. Gékk vel að finna dótið mitt og náði að gera þetta allt í réttri röð, keppnisþokan ekkert að stríða mér.                                                                       

Tími: 05:56

Hjólið:

Mín veikasta hlið en er búin að vera að bæta mig að undanförnu svo ég hlakkaði bara til að takast á við það.  Var búin að stilla mig inn á að halda ákveðnum meðal wöttum samkvæmt aflprófi sem ég hafði tekið nokkrum vikum fyrir keppni og hélt mig algjörlega við það. Eftir á að hyggja þá hefði ég kannski mátt negla hjólið aðeins meira en fyrir vikið nóg eftir fyrir hlaupið.  Göturnar voru rennandi blautar eftir rigningu morgunsins svo varð aðeins óörugg í fyrstu sérstaklega eftir að gæinn fyrir framan mig skransaði til og frá í enni beygjunni. Svolítil hækkun í byrjun en ekkert mál þar er ég á heimavelli og fékk fáa fram úr mér og tók meira að segja fram úr slatta af liði. Þegar við tóku rúllandi brekkur upp og niður og 180° beygjur þá fóru bunkarnir að fara fram úr mér. Niður brekkur og beygjur þar kemur sér illa að vera ekki með betri hjólatækni en hey þar á ég líka fullt inni, elska þetta sport alltaf hægt að bæta sig!

Reyndi að fylgjast með hvort konurnar sem færu fram úr mér væri ekki örugglega miklu yngri en eiginlega alveg ómögulegt að sjá það.

4 gel, tveir 750ml brúsar af ISO vökva og nokkrir bita af SIS energy bar til að verða ekki tóm í maganum.

Hjólatími: 02:46:52

T2: Gekk vel að ganga frá hjólinu og ná í dótið fyrir hlaupið.

Tími 02:05mín

Hlaupið:

Þegar upp er staðið þá veltur þetta alltaf svolítið á hlaupinu og ná að klára á góðu hlaupi.  Sama hvernig líðanin er á hjólinu þá veit maður samt aldrei hvernig hlaupið verður fyrr en lagt er af stað í það. Fann fljótt eftir að ég byrjaði að hlaupa að ég kom bara nokkuð góð undan hjólinu, passaði mig að verða ekki of gráðug í hraðann og setti krúsið á 4:45 pace og náði að rúlla mestan hluta fyrsta hring af þremur á því. Í lok hringsins var mikið af stefnubreytingum og fram og til baka zikk zakk og hlaupið á steinhellum með miklu bili á milli og það er sko alls ekki það besta fyrir miðaldra konur með líkþorn, sigg og útvaxin bein. Varð alveg hræðilega sárfætt og seinustu tvo hringina rokkaði hraðinn meira upp og niður eftir undirlaginu, en að öðru leyti ágætis tilfinning.  Fékk mér tvo sopa af vatni eða orkudrykk á hverri drykkjarstöð en reyndi að stoppa nánast ekki neitt.  Allir að tala um að það sé svo geðveikt að fá sér kók undir lok hlaups og ætlaði að gera það á seinustu tveimur drykkjarstöðvunum en var mjög vonsvikin þegar það reyndist vatn í glasinu í bæði skiptin en það kom svo sem ekki að sök.  Tvö gel í hlaupinu og tveir sopar af vökva á hverri drykkjarstöð.  Skemmti mér við það á leiðinni að spá í hvað konurnar væru gamlar sem ég tók fram úr. Sannfærði mig um það að þær konur sem hefðu tekið fram úr mér væru pottþétt yngri og ég ánægð að halda mínu sæti og vonandi vinna mig eitthvað upp.

Hlaupatími: 01:43:58

Frábært að fá hvatningu í brautinni og naut góðs af því að sumir félagar mínir í Ægir3 voru með fjölskyldu og vini á hlíðarlínunni. TAKK fyrir hvatninguna!

Lokatími: 05:10:54 og 1. sæti í aldursflokki 45-49 ára.

Kom í mark í sæluvímu en við hrúguðumst svo mörg í einu í mark að ég sá ekki tímann minn birtast og þar sem ég hafði sett úrið mitt af stað aðeins á undan ræsingunni þá var ég alls ekki viss hver lokatíminn væri.  Fór því fljótlega og náði í símann í „Finisher“ pokann svo ég gæti athugað það. Lokatími 5:10:54 já ég var bara mjög sátt við það og 11. sæti í mínum aldursflokki 45-49 ára, ohh var nú að vona að komast alla vega í topp 10….en bíddu var þetta kannski 1?  Þar sem ég var ekki með lonníetturnar með mér í pokanum þá tók mig örugglega 5 mínútur að sannfæri sjálfan mig um að þetta væri í alvörunni 1 ekki 11. Skoðaði úrslitin svo örugglega 20 sinnum næsta klukkutímann til að vera viss um að það stæði ennþá 1st Place.

Hélt til fyrir aftan marklínuna og sá félaga mína í Ægir3 koma í mark og líka alla hina, þvílík gleði og andleg vellíðan sem sveif þar yfir, næring fyrir líkama og sál, minn nýi Hamingjustaður!

Vissi að þessi keppni veitti þátttökurétt á Ironman 70.3 World Championship á Nýja Sjálandi í nóvember 2020 en taldi mig ekki eiga mikinn séns í það. Svo segir Óli maðurinn minn við mig daginn fyrir keppni: „Þú verður að undirbúa þig undir að þurfa kannski að taka ákvörðun um að þiggja sæti á Nýja Sjálandi“.  Mér fannst það mjög langsótt því þó ég væri stundum á palli heima þá væru líkur mínar hér mjög litlar. „…ég mundi alla vega taka með mér passann og visakortið á verðlaunaafhendinguna…“ segir Óli. „Allt í lagi en með einu skilyrði, þú kemur með ef svo ólíklega vill til að enginn vill fara til Nýja Sjálands, OK slegið.“ Svo var það ekki rætt meira.

ÞG5

Hópurinn fór saman á verðlaunaafhendinguna fullviss um að við værum að vinna keppnina besta þríþrautarfélag Evrópu, við vorum alla vega skemmtilegasta félagið, þvílík stemning í hópnum.

Þegar ég var kölluð upp á sviðið og gekk að verðlaunapallinum sem á stóð IRONMAN og mínir frábæru æfingafélagar klöppuðu og hrópuðu, spratt gæsahúðin fram um allan líkamann, ógleymanleg stund.

ÞG6

Hrópaði svo hátt og skýrt YESSS þegar mér var boðið sætið á Nýja Sjálandi. Gaman að keppnin skuli vera á Nýja Sjálandi því það var einmitt vinkona mín hún Sarah Cushing sem kveikti áhuga minn á þríþraut. Takk Sarah!

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa góða heilsu og geta stundað mitt áhugamál af kappi í góðra vina hópi og fá stuðning til þess frá minni fjölskyldu og vinum. Strákarnir mínir þrír fá ekki kvöldmatinn alltaf á „réttum“ tíma en það er vonandi fínt veganesti fyrir þá að þurfa stundum að sýna sveigjanleika þannig að allir fái sitt svigrúm til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt.

ÞG1

Keppnin í Jönköping var með mesta fjölda kvenkyns keppenda frá upphafi IRONMAN 70.3 – ÁFRAM STELPUR!

 

Skýfall í Austuríki

Einar Sigurjónsson lætur allt vaða:

Eftir Ironman í Kaupmannahöfn í fyrra þá ákvað ég strax að ég skildi fara aftur. En var óviss hvert. Fyrst skráði ég mig í hálfan Ironman í Jönköping Svíþjóð sem 14 Íslendingar kláruðu núna á sunnudaginn. Þá sagði pabbi við mig hví ég ætlaði í kúbein? Ég skil núna hvaðan minn húmor kemur en eftir að Ólafur Gunnarsson sagði mér að hann væri að fara til Austuríkisí heilan Ironman hætti ég við kúbeinið og skráði mig í Austuríki. Æfingar byrjuðu í september hjá Þríþrautarfélaginu Ægir3 og það gekk vel. Aldrei hef ég skilað jafn mikið af æfingum, aldrei verið eins skemmtilegt, aldrei hef ég verið í jafn góðu formi á ævinni. Hvort sem það var í watta testum á hjólinu eða hlaupa hraða á lágum púls eða synt eins og hafmeyja. Þetta var skothelt. Markmiðið var að fara undir 10 klst í Austuríki. Búmm. Auðvitað hugsaði ég að þetta myndi vera erfitt. Hjólaleggurinn í Austuríki er erfiður. Hækkun uppá tæpa 1600m sem er t.d helmingi meira en þegar fór í IM Barcelona. En sundið og hlaupið gott.
Vorið og sumarið fór vel af stað. Hvalfjörðurinn var hjólaður mörgum sinnum fram og aftur. Ég keppti í styttri vegalengdum við aðra þríþrautakappa. Þar var Gutti, Guðjón Karl Traustason fremstur meðal jafningja. Hann heldur manni alltaf við efnið. Þakka honum fyrir það. Best gekk mér í Ólympískri þríþraut á Laugarvatni þar sem ég endaði í 4.sæti í heildarkeppninni en 2.sæti í 24-39 ára aldursflokki. Þetta lofaði góðu.
Þessi lífstíll er yndislegur og mín lífsfylling í amstri hins venjulega lífs. Að setja sér háleit markmið gefur miðaldra forréttinda karli gleði, tilgang, ego og það sem skiptir mestu máli, betri manneskju. Oft fæ ég spurningu og fullyrðingar hvort ég sé ekki að skemma eitthvað í líkamanum. Ég er farinn að svara þessu. Það er málsháttur sem hangir uppi í World Class um jólin. Hann hljóðar svo: Það skiptir ekki máli hvað þú borðar milli jóla og nýárs heldur nýárs og jóla. Þessir 358 dagar skipta meira máli. Það er dálítið það sama og í æfingum fyrir Ironman. Keppnin var 7.júli. Þann dag var álagið mikið. Hina 364 dagana var þetta innan skynsemis marka. Og andlega hef ég aldrei verið betri.

einar2
Jæja, þá skulum við vinda okkur til Austuríkis. Ég fór með eðal fólki, Óla þjálfara, Ari Hermann Oddsson formanni órólegu deildarinnar hjá Þríþrautafélagi Kiwanis klúbbs Mosfellsbæjar. Svo voru Brynhildur Georgsdottir og Maggi hennar maður mætt líka. Ég mætti á fimmtudegi þann 4.júlí eftir stífa keyrslu um 400km leið frá Munchen til Klagenfurt í Austuríki. Sund- og hjólaæfing var tekin á föstudegi og 15 mín í hverri grein á laugardegi. Svo var farið á keppnisfund. Svaka stemmning og gleði. Mótshaldari tilkynnti að þetta væri ein fjölmennasta ef ekki sú stærsta Ironman keppni sem haldin hefur verið. 4000 þátttakendur… held það hafi verið nær 3500. Allavega. Þá kom fyrsta sjokkið. Vatnið var komið í 26° en þurfti að vera undir 24,5°… daginn áður hafði það mælst 24,8°. Niðurstaðan: engir blautbúningar leyfðir í sundinu. Ég viðurkenni að ég fékk sting í magan. Það bættust 100 fiðrildi við. Þetta þýddi 7-10% hægari sundtími hugsaði ég með mér. Og það myndi kosta meiri orku að synda þetta. Ekki gott. Gat svo sem getið mér til um þetta miðað við hitann sem hafði verið þarna dagana og vikurnar á undan.

einAR1
Daginn fyrir keppni var farið yfir planið með næringu. Salttöflur áttu að hjálpa við krampa sem glími ávallt við. Ari formaður lagði til að taka imodium sem eru töflur við niðurgang. Það hafði hugsanlega hjálpað Lúlla félaga okkar í Swissman fyrir 2-3 vikum, sem var reyndar mættur þarna galvaskur í stuðningsliðinu. Reyndar voru hægðir orðnar frekar mjúkar og ekki vill maður fá þetta niður í miðri keppni, svo þetta hljómaði bara nokkuð ágætlega. Ari tók hinsvegar skýrt fram að inntakan yrði að vera í gegnum endaþarm, til að minnka álagið á nýrun. Já krakkar mínir, það er ástæða fyrir því að hann er formaður órólegu deildarinnar. Þvílíkur gæðingur. Taflan var tekin klukkutíma fyrir keppni. Ekki í gegnum endaþarm.

Sundið.
Það var gríðarleg stemmning á keppnismorgni og frábært verður. Ég stillti mér í sundhólf með Óla, Ara og Binnu í hraðahólfi 1:00-1:10klst þó að ég væri ekki í galla. Bjartsýnn á gott draft og hörku sund. Það var rúllandi start sem þýðir að 4 hlaupa út í vatnið á 5 sek fresti. Mér leið vel í sundinu og náði að vera í drafti örugglega meira en helmingin af leiðinni. Við enduðum síðustu 1000m í 7-10m breiðum kanal þar sem er mikill hraði. En þegar það voru um 100m í mark byrjaði þetta þvílíka kaos. Þú ert í engum galla og færð því ekki flotið þitt. Ég hef aldrei lent í svona miklum slagsmálum í sundi áður. Drakk vatn og fékk mikið af höggum. Ég átti mjög erfitt með að komast uppúr og margir starfsmenn voru komnir út í vatnið að hjálpa fólki uppúr. Það tókst. En fyrsta áfallið kom þegar leit á klukkuna. 1:18 klst. Strax orðinn 10mín á eftir áætlun. Þetta var dýrt spaug. Þetta þurfti að leiðrétta.

T1
Hljóp einhverja 700 m frá canalinum og í gegnum skiptisvæði. Hafði talsverðan tíma til að hugsa mitt ráð. Niðurstaðan var að hamra hjólið. Þvílíka djöfulsins vitleysan, eftirá að hugsa.

Hjólið.
Ég fór vel af stað og hélt góðum hraða. Margar rúllandi brekkur og sumar frekar brattar. Ég braut allar mínar prinsipp reglur um hvaða Wöttum ég skyldi hjóla á. Fór oft yfir 300W+ í of langan tíma. Svo lét maður sig renna niður oft því það voru margir í brautinni og hlykkjóttir vegir. Of oft þurfti maður að bremsa á leið niður. Það er ekki góð leið til að halda háum meðalhraða. Eftir fyrri 90km hafði ég haldið 210 Np wöttum. Ég er 66kg sem þýðir að þetta voru næstum 3,2 meðalwött per kg. Það er alltof mikið fyrir mig. En ég var ánægður með 35km meðalhraða. Kannski kemst ég upp með þetta? Nú var hitinn farinn að vaxa enn meira í sólinni og þreytan var byrjuð að skila sér grimmt. Þegar klifrin byrjuðu aftur í kringum 110km leið mér eins og í bakarofni. Lærin vorum orðinn well done. Var í léttasta gír að reyna stíga pedalana upp erfið klifur. FOKK. Þetta var farið að bíta vel. Ég drakk og drakk.. en aldrei þufti ég að pissa. Fær enginn golden shower? Skildi það nú ekki. En auðvitað svitnaði ég þessu jafnóðum eða ég drakk bara ekki nóg. Gat það verið? Allavega, umhverfið var stórkostlegt. 100 filar lögðu af stað í leiðangur. Jákvæðar hugsanir er það sem þú getur stjórnað. Ský voru farinn að þéttast. Jess! Hitinn fer lækkandi. Ég bruna niður síðustu brekkuna og er kominn á beina kaflann í átt að skiptisvæðinu fyrir hlaupið. Vissi að ég gæti treyst á þessa blessuðu veðurfræðinga. Þeir lofuðu rigningu eftir hádegi og hún virtist vera að koma. En fyrst kom smá vindur. Hann varð svo aðeins meiri og á engri stundu var kominn stormur að mér fannst. Vegirnir voru þakktir greinum, könglum, laufblöðum og allskyns gróðri. Hvað var í gangi? Skv. Veðurstofu Austuríkis fór vindur upp í 18-19 m/s. En sem betur fer var lítið eftir af hjólaleggnum. Þegar hjólið kláraðist hafði ég haldið um 180 meðalvöttum á seinni 90km sem skilaði sér í 192 meðalwöttum á 180km eða 2.9 wött per kg skv. Trainingpeaks. Það er minna en í fyrra. Vonbrigði.

T2
Skiptisvæðið var eins og á hamfarasvæði. Grindur og hjól lágu útum allt og sjálfboðaliðar að reyna hreinsa þetta til. Ég þurfti að bera hjólið á bakinu meðan ég klofaði yfir milljón krónu hjól sem lágu útum allt. Stökk á klósettið, náði að tæma blöðruna vel. Hugsaði þá hvort þetta væri eitthvað grín eða falin myndavél. Var virkilega stormur að ganga þarna yfir? Hugsaði einnig um þá sem áttu mun meira eftir af hjólaleggnum. Þeir lentu víst nokkrir í miklum vandræðum og einhverjir stoppuðu. Stökk svo í hlaupaskóna og af stað.

Hlaupið
Þá byrjaði að rigna. Þá meina ég riiiigggna. Það var skýfall. Kann ekki tölulegar upplýsingar um millimetra af rigningu á klst en ég held að þetta hafi verið talið í metrum á sekúndu! Var þetta nokkuð haglél hugsaði ég, það var sárt að fá dropana á sig. Hlaupabrautin varð að stórfljóti á köflum. Fólk hljóp víða utanbrautar þar sem Þjórsá var ekki. Geri mér ekki alveg grein fyrir hvað þetta stóð lengi. Langar að giska á 30-40 mín. Ég hélt samt hraða það þurfti að bæta upp fyrir svo hægt hjól. Mætti Óla og svo Binnu í brautinni, smellti einni fimmu á þau. Bíddu, eru þau á undan mér, fór ég að hugsa. Er ég ekki að hlaupa út í enda á brautinni? Getur verið að ég sé ekki búinn að snúa við? Þarna var ég orðinn svo ruglaður að ég gleymdi að ég hafði tekið 180° beygju.
Hlaupið gekk vel fram að 22km. Ég hugsaði þá afhverju ég væri ekki í kúbeininu. Helmingurinn eftir og gamlir draugar farnir að mæta. Ég var enn og aftur farinn að fá krampa í framan og aftanverð læri. Hugsaði hvort Ari hefði haft rétt fyrir sér. Djöfulinn, imodium hefði átt að fara inn um endaþarm. Stóð þarna og reyndi að teygja á hægri hamstring en þá öskraði hægri quadriceps. Gömul austuríks kona kemur hlaupandi til mín. Og talar um vatn á þýsku. Ég sagði no, no og fer í vasan á númerabeltinu og segi: „I want pills“. Hugsaði með mér hvað eru salttöflur á ensku? Gamla segir við mig hvössum augum:“ No drugs!!“ Díses. „This is salttöflur.“ Alveg steiktur. Tek vatnið hjá henni og tvær rótsterkar vefaukandi töflur (salttölfur) og af stað. Pace-ið droppar úr 4:55 pace í 6:00 pace. Ef reyndi að auka hraðan fór vöðvinn að skjálfa. Alveg magnað hreint. Var samt alveg sama því ég vissi að markmiðin voru fokinn út í veður og vind -bókstaflega. En mesti sigurinn var að halda haus. Aðra eins vöðva verki og þreytu hef ég ekki upplifað svona grimmt. Líkaminn sagði „stopp“, hausinn sagði „gleymdu því.“ Þarna fóru jákvæðu hugsanirnar í gang. Vissi að Kolbeinn Guðmundsson félagi minn hefði verið á djammi í gær. Honum líður örugglega mun verr en mér. Hann er þunnur. Ekki ég. Hugsaði þegar Kristrún Sigurjónsdóttir systir hljóp á eftir mér þegar ég var 11 ára með skiptilykil og barði honum í herbergishurðina svo það kom gat. Þá þurfti ég að hlaupa hratt. Kannski gæti ég það núna líka. Þetta er hlutinn við þessa íþrótt sem ég elska: Nægur tími til að hugsa um lífið og tilveruna. Um fjölskyldu og vini. Þetta líður allt saman. Verkur er tilfinning. Reyndu að stýra því sjálfur. Þetta mun klárast. Allt í einu er komið skilti. Það stendur 40 km. Vá! Þetta er að klárast. Maður flýgur áfram, öll líkamleg vanlíðan hverfur eins og dögg fyrr sólu. Allt erfiði undanfarna mánuði er að skila sér. Ástæðan fyrir þessu öllu saman. Stórkostleg vellíðan að standast erfiða þrekþraun. Þú ert búinn að vera að í 10 klst og 45 mín betur á miklu álagi og á einu augnabliki ertu þinn eigin sigurvegari. Mér líður betur en þegar Lionel Messi tekur á móti meistaradeildartitli. Þannig er það bara. Þetta er ástæðan að ég mun fara aftur. Þriðja Ironman keppnin á tveimur árum . Er það ekki fyrirsögn!
Handan marklínu: 
Ég fæ mér að borða og fer í sturtu. Bíð eftir Binnu og Óla. Heyri í Ara formanni órólegu deildarinnar. Hann þurfti að hætti keppni vegna meiðsla – því miður. Lúlli tekur epískt viðtal við hann haltrandi. Lúllí: „Hvað gerðist Ari?“ A: „Ég fékk krampa undir ilina í sundinu og þurfti að stoppa tvisvar á fyrri 90km á hjólinu og sá fram á að þetta mundi ekki ganga.“ Lúlli: „Hvar er verkurinn?“ Ari: „Undir hælnum.“ Lúlli: „Það er ekki hægt að HÆLA þér fyrir þetta!“ – BÚMM! Ari: gefur Lúlla fingurinn. Einmitt það sem þú vildir heyra rétt eftir að þú þurftir að hætta keppni. Magnaðir gæjar! Eftir mat í tjaldinu og tvo Big Mac fór ég upp í íbúð. Kláraði að pakka hjólinu og taka allt til. Þurfti að keyra af stað til Munchen 6:00 morguninn eftir. Klukkan var að detta í miðnætti og ég settist á klósettið. Helvítis, það kemur ekki neitt… Helvítis imodium. Ætla þá að standa upp en krampa þá framan í læri. Veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta. Kalla á hjálp en ég veit að enginn er að fara hjálpa mér. Gamla konan hinum meginn á ganginum heyrði illa þegar heilsaði henni daginn áður. Hvað átti hún svo sem að gera? Ég var farinn að hugsa samtalið. Þetta var orðið of skrítið. Tosaði í sturtu hengið og komst á fætur. Hugarástandið var orðið mjög súrt en gleðilegt. Einn í Austuríki fastur á klósettinu og þykist vera Ironman. Hvaða rugl er þetta?

Niðurlag
Vonbrigðin voru á ákveðnum tímapunktum í keppninni. Það leið yfir. Vaknaði kl 6:30 í morgun og byrjaði að glamra þetta. Ég er stolltur og ánægður. Tíma markmiðin náðust ekki. En ég ferðalagið var gott, félagsskapurinn góður og fullt af frábærum æfingafélögum. Binna var fjórða í sínum aldurslokki í IM Austuríki og svo bárust fréttir af því að Tóta Þórunn Margrét Gunnarsdóttirvann sinn aldursflokk í hálfum Ironman í Jönköping á 5:10klst. Það er geggjað skal ég segja ykkur.

Yndisleg fjölskylda sem ég á og því get ég staðið í þessu. Venjuleg æfingavika á veturnar er 8-10 klst á viku. Og síðustu vikur fyrir keppni fóru 20 klst á viku í æfingar. Allt á góðu jöfnu álagi þar sem passað var uppá líkamann. Auk þessar voru 20 mínútur alla virka daga í styrktaræfingar fyrir mjaðmir, hné og ökkla. Þannig helst maður meiðslalaus… 7,9,13. Fyrir ykkur sem nenntuð að lesa þessa dramtísku langloku, þakka ég fyrir. Þakka einnig fyrir allar kveðjur og skilaboð sem hef fengið. Það skiptir máli. Hreyfið ykkur. Það mun gleðja ykkar líf. Þarf ekki svona vitleysu. Undir 10 klst Ironman markmið mun halda áfram. Þessi keppni fer í reynslubankan. Æfingar fyrir áhugasama byrja hjá Ægir3 í september. Munið að skrá ykkur.

Stutta útgáfan:

 Ironman Austria 2019
3.8 km sund – 1 klst 18 min
180 km hjól – 5 klst 31 min – 32,5 km meðalhraði.
42.2 km hlaup – 3 klst 46 min – 5.23 min/km
Heildartími með skiptisvæði : 10 klst 45 min
97 sæti af 333 í aldursflokki af þeim sem kláruðu
484 sæti af uþb 3500+ skráðum
Þriðji heili Ironman.

Í óveðri í Austurríki

Ólafur Gunnarsson skrifar:
Ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota yfir aðstæður í þessari keppni en lýsingar sem ég heyrði frá öðrum keppendum voru td. “skelfilegt”, “bakaraofn”, “árás af himnum” og heimamenn tala um erfiðustu keppni í sögu Ironman í Austurríki… jú, þetta rímar vel við mína upplifun.

Þegar ég kom til Klagenfurt viku fyrir keppni hafði verið hitabylgja sem ekki sá fyrir endann á. Hitinn var 39 gráður og þetta var eins og að koma inn í draugabæ, ekki sála á ferli. Hitinn lækkaði þó örlítið í vikunni og var um 33 – 35 gráður dagana fyrir keppni.

Áður en ég kom út höfðu keppisnhaldarar gefið út að vatnshiti væri 26 gráður en blautbúningar eru ekki leyfilegir fari vatnshiti yfir 24,5 gráður. 3 dögum fyrir keppni var þó tilkynnt að vatnshiti hefði lækkað og væri kominn í 24,8 gráður og ég hugsaði með mér að þetta myndi sleppa, þarf bara að lækka um 0,3 í viðbót.

En á fundi með keppendum daginn fyrir keppni var sagt að hitinn væri kominn í 26 gráður og því tilkynnt að bannað yrði að nota blautbúninga. BÚMM, þetta var smá sjokk þar sem ég hef ekki æft sjó- eða vatnasund án blautbúnings og gerði alls ekki ráð fyrir þessu. Augljóst var á viðbrögðum keppenda að ég var ekki sá eini sem ekki var undir þetta búinn. Ég var með swim skin með mér sem eykur örlítið hraðan í sundinu en fannst það þrengja að mér og ákvað á síðustu stundu að sleppa því, kannski mistök.

Skv. veðurspánni átti að kólna og þykkna upp með rigningu um kl. 10 á keppnisdag. Þetta hljómaði mun betur en kæfandi hitinn sem hafði verið dagana áður.

Þá var komið að þessu. Ég í mínu besta formi, hef aldrei synt hraðar, hef aldrei skilað hærri vöttum á hjólinu og aldrei hlaupið hraðar. Alveg raunhæft að bæta tíman frá því í fyrra um 8 mínútur og klára undir 10 tímum. Við Íslendingarnir vorum eldhress og tilbúin í þetta. Það var ekkert svo heitt en kl. reyndar 6.30 að morgni.

Sundið.

Við fórum 4 saman í tímahólfið sem er ætlað þeim sem áætla að synda á 1:00 – 1:10 klst. Ég hljóp útí og synti af stað og fannst mér ganga mjög vel, flaut vel og fannst hraðinn góður þar sem ég tók fram úr mörgum en einnig nokkrir sem tóku fram úr mér, reyndi að drafta þá sem fóru fram úr. Eftir ca. 2,5 km fékk ég krampa í báðar yljar, maður þarf að nota lappirnar mun meira án blautbúnings og þarna var ég farinn að finna fyrir því. Þetta gekk samt ágætlega og mér fannst ég halda hópnum vel, fáir að koma framúr. Síðasta 1 km. er synd efitr kanal sem liggur inn í bæinn og þarna þrenngist sundleiðin verulega og verða smá slagsmál. Ég fékk nokkur högg og var ýtt í kaf en ekkert alvarlegt, allt gekk vel. Þegar ég kom uppúr leit ég á úrið og þvílíkur skellur, 1:27!!! Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þvílík vonbrigði. Allir þeir sem ég tók fram voru þá greinilega fólk í vandræðum með að synda án blautbúnings. En jú, fyrsta skiptið sem ég syndi í opnu vatni án blautbúnings og það má reikna með mun slakari sundtíma.

T1

Það var smá spotti sem þurfti að hlaupa frá sundinu og að skiptisvæðinu. Ég var virkilega svekktur og pirraður og vonbrigðin mikil þar sem plan A og B fóru út um gluggan strax í upphafi. En fór í sokka, hjálminn á og hjólað af stað.

Hjólið.

Ég fór yfir game-planið þegar ég kom á hjólið og var orðinn 17 mínútum á eftir áætlun. Annaðhvort var að halda Plani C og stefna á að klára á 10:30 eða taka séns og negla hjólið. Ef maður á ekki að taka séns þegar A og B plan er farið út um gluggann, hvenær þá? Fokk it, ég ætla að negla þetta, hafa gaman, ekki taka þessu of alvarlega og sjá hvað ég get. Brekkurnar voru langar og brattar. Ég tók þær á 270 – 300 vöttum en upphaflegt plan var að fara aldrei yfir 250 vött. Erfitt var að halda hraða niður brekkurnar þar sem vegirnir voru hlykkjóttir og margar hættulegar beygjur. Eftir ca. 40 – 50 km náði ég Ara og hann sagði mér að Einar hefði verið rétt á undan sér í sundinu þannig að ég ákvað að reyna að ná honum.

En hitinn var orðinn kæfandi og sólin brennandi heit. Ég hafði verið með salttöflur sem eiga að sporna við vökvatapi í litlu boxi á hjólinu en boxið hefur flogið af þegar ég tók fyrsta gelið. Fyrstu 100 km gengu vel en þá fór þetta að þyngjast. Ég fór að fá krampa undir vinstri ilina en þeir byrjuðu í sundinu og voru mættir aftur. Kramparnir komu og fóru restina af hjólinu. Líklega var vökvaskortur farinn að segja til sín þar sem hitinn var að drepa mig. Skv. veðurspánni átti að þykkna upp, hvar voru skýin?

Þegar um 150 km voru búnir þykknaði loksins upp. En ekki aðeins þykknaði upp heldur snögg dimmdi og skall á með þrumum, eldingum og þessu svakalega úrhelli. Göturnar breyttust í árfarvegi og þessu fylgdi mikið rok. Skv. veðurstofunni hér í Austurríki var vindhraði 70 km. á klukkustund. Tré brotnuðu, greinar fuku um allt og maður átti í mesta basli með að halda sér á hjólinu og halda hjólinu á veginum. Ég var svo hissa að maður átti ekki orð og hugsaði bara hvað er að gerast hérna. Ég er vanur að hjóla í roki og rigningu en aldrei hef ég hjólað í neinu þessu líku. Eftir smá stund var ég farinn áð skjálfa úr kulda eftir að hafa verið að kafna nokkrum mínutum áður.

T2

Þegar ég kom á skiptisvæðið var allt í steik. Hjólin voru út um allt og höfðu fokið af hjólastöndunum. Járngrindur sem áttu að afmarka hlaupaleiðina höfðu fokið og lágu á hliðinni og rauðir dreglar út um allt. Þvílíkt ástand. Ennþá þetta svakalega úrhelli og allt á floti. Ég reyndi að skorða hjólið mitt við hjólagrindina en líklega hefur það fokið með hinum hjólunum eftir að ég fór. Ég gaf mér tíma í að fara í þurra sokka, fór í hlaupaskóna og hljóp af stað. Skiptitjaldið var fullt af fólki sem var að bíða af sér veðrið.

Hlaupið.

Ég hljóp af stað í pollum og var ansi sigraður eftir hjólið. Ég hugsaði með mér að fyrstu 2 km. væru alltaf vondir eftir langt hjól og pressaði hraðann í 4.30 pace. Fyrstu km. hóstaði ég mikið, hef aldrei lent í þessu áður, kannski bara rigningin.

En verkirnir, kramparnir og vanlíðanin jókst bara með hverjum km og ég var mjög fljótt farinn að labba í gegnum drykkjastöðvar. Kom samt engu niður, var með magakrampa en reyndi að drekka nokkra sopa af vatni. Ég hugaði með mér að ég hefði áður hlaupið maraþon án þess að fá næringu og tekið heilan Ironman með nánast engri næringu þannig að myndi bara gera þetta aftur.

Það hætti að rigna og sólin fór að skína með tilheyrandi hita. Smá saman hægðist á mér og á km. 32 gerðist eitthvað. Það var eins og líkaminn hefði sagt: hingað og ekki lengra. Mér varð mjög óglatt, svimaði mikið, fékk mikla verki neðarlega í bakið, líklega nýrun að kvarta yfir vökva og næringarskorti.

Ég ákvað að labba að næstu drykkjarstöð og gefa mér tíma þar til að reyna að koma einhverri næring niður. Þetta voru lengstu 2 km. sem ég hef labbað og á þessari dauðagöngu minni hitti Ég lúlla sem tók einu myndina og eina snappið sem tekið var af mér í keppninni. Frábær tímasetning Lúlli.  Ég reyndi að halda coolinu en held að það hafi ekki tekist.

Þegar ég loksins kom á drykkjarstöðina stoppaði ég og gaf mér góðan tíma og tókst að koma niður tveimur kók glösum, koffíngeli og smá vatnsmelónu. Labbaði svo af stað og fór mjög fljótt að líða betur og gat joggað létt. Endurtók leikinn á næstu drykkjarstöð og tókst að skokka síðustu kílómetrana í mark,

Kom svo að rauða dreglinum þar sem allir verkir hverfa og hljóp uppá svið og fagnaði vel. Þvílíkur léttir að vera búinn.

Án efa lang erfiðasta keppni sem ég hef farið í.austurriki2

Heildartími: 11:38:04 sem er minn slakasti tími í Ironman keppni.

Eftir keppni svimaði mig ennþá, var óglatt og allur verkjaður. Ákvað því að hinkra á svæðinu þar til ég kæmi einhverju niður áður en ég færi. Tveimur klst síðar var ég farinn að geta borðað.

Þrátt fyrir mikil vonbrigði yfir að ná ekki markmiðum þá gaf þessi keppni mikið og mikil reynsla að lenda í svona mótlæti. Núna hef ég td. tekið IM keppni án galla og veit þá út í hvað ég er að fara þegar (ekki ef) ég næ mér í sæti á Kona.  Einnig lærði ég hversu mikið ég þoli og hversu lengi má pressa áður en líkaminn segir stopp, gott að vita það. Svona reynsla herðir á manni hausinn þannig að ég mæti sterkari andlega í næstu keppni. Fullt af góðum hlutum.

Þakka ferðafélögum fyrir frábæra viku hér í Austurríki.

Ber er hver að baki nema bróður eigi…

Dandý segir frá:

Það var síðastliðið haust að ég ásamt nokkuð fleiri heldri borgurum frá Egilsstöðum ákváðum að æfa okkur og taka þátt í IM 70.3 í Helsingör. Ég, Guðbjörg og Keli (minn) fórum 2017 og ákváðum að fara aftur þangað. Því styttra því betra – tengiflugið okkar er alltaf EGS – RVK.  Í niðursuðudós.

Kobbi bróðir, sá eðaldrengur ákveður að koma líka. Jibbí, bónus fyrir mig.

Veturinn líður, það eru þrjár vikur í keppni og ég rifja upp:

  • Við Kobbi höfum margt brallað eins og önnur systkin en fyrsta hreyfiþrautin okkar saman eftir grunnskóla var að fara Laugaveginn 2011. Þá fylgdi hann mér alla leið.
  • 2013 förum við Landvættinn og hann fylgdi mér síðustu þrautina. Svo við urðum Landvættir saman.
  • 2016 tökum við Álkarlinn á Austurlandi saman.
  • Fyrir utan að hafa farið saman (hann aðeins á undan) i fyrsta IM í Kalmar 2014.

Við vorum búin að ræða það að rúlla einn svona IM saman einn daginn. Svo ég henti þessu fram á fjölskyldu snappið „Kobbi, er þetta sá sem við gerum saman“.

„Já já“ Hann sagði: „úr því ég ætlaði hvort sem er að bíða eftir þér einn daginn best að gera það í hálfum og ljúka því af“.

Nema sko þetta er ekki svo einfalt.

Keppnisdagur hefst eins og áður á því að allir tékka dekkin, smyrja kroppinn, pissa, kúka (þeir sem geta) og allt það sem menn reyna að gera til að létta sál og líkama fyrir svona átök. Plast í eyrun, hettan á og jibbí. Veislan er að byrja.

Sund:  Startið er fínt, við hendum okkur í sjóinn hlið við og Kobbi ætlar að hafa auga með mér. Ég sá hann enn eftir um 300 metra en þá kemur að smá kraðaki i sundinu. Það verður einhver barningur og ég fæ högg á sundgleraugun. Við það springur annað glerið og festingin milli glerja skemmist. Frábært bara 1600 metrar eftir. Konan sem tapaði gleðinni var skipað upp í bát því þetta var jú ekki liðsandinn og hún var köttuð út. Ég spyr hvort ég ætti ekki bara að hætta því það væri nokkuð vonlaust að synda þetta án gleraugna. „Nei nei ef þér líður vel reyndu þá við fylgjumst með þér“. UH OK takk.

Ég fann appelsínugulan galla og fylgdi honum því annað hreinlega sá ég ekki. Náði þó annað slagið að stoppa og festa gleraugun eða tylla þeim svo að þetta var nú ekki eins slæmt og hefði getað verið, annað glerið virkaði alltaf um 100 metra í einu. Synti bara með hægri hendi og hætti að vorkenna mér. Þarna var fólk að taka þátt sem var blint og menn með auka einstaklinga í farteskinu svo mér var bara anskotans engin vorkunn.

Sundið 41 mín og einhverjar sek.  Bara töf um sirka þrjár mínútur út af þessu veseni. EN HVAR ER KOBBI.

T1 og hjól:  Ég hendist á skiptisvæðið og litast um en sé ekki Kobba. Hugsa að hann hafi líklega farið, eins og ég sagði við hann „ekki vera að bíða eftir mér ef þú nennir ekki og ég er eitthvað sein“. 

Býst bara við því að hann sé á öðru hundraðinu í hjólabrautinni. Sé mágkonu mína sem húrrar mig áfram og held því að ég hafi rétt fyrir mér. Jogga að hjóli og off I go. Átti bara fínan hjólatíma. Þurfti að stoppa á síðustu stöð eða um 70 km mark því að stómapokinn minn var farinn að lafa og þá er betra að gefa sér fimm til sjö mín krakkar mínir. Það vill enginn hafa kúk í buxum í marki og hvað þá frá miðjum nafla. Konur eru oftast nær skipulagðar svo ég var með allar stómagræjur af þeim fáu sem ég tók með að heiman innan á hjólatreyjunni minni. Húrra fyrir mér.

Hef ekki ennþá séð Kobba. Gæti verið vegna þess að þetta er svolítið þvers og kruss hjólaleið. Klára hjólið á rétt um 3 klst og það er bara mín besta geta á gamla racernum mínum og all weather 25 dekkjum.

HVAR ER KOBBI

T2 og hlaup/labb/sljogg:

Ég vissi að ég myndi ekki hlaupa þetta. Í fyrsta lagi braut ég rif tveimur vikum fyrir keppni. Alls ekkert sem truflaði mig nema bara í hlaupi því að þetta var brot á besta stað og svo var ég ekki með hreyfistómavörurnar mínar. VEL GERT DANDÝ.

Tók ákvörðun um að hlaupa þar til ég fyndi það mikið til að ég gæti ekki hlaupið meira. Og það gerðist bara strax eftir fjóra km svo ég lét mig vaða að fyrstu teygju (gul) og svo var ég sigruð vegna rifjaverkja. EN krakkar mínir, eins og við segjum „þetta er bara verkur, bara líkamlegur verkur og það er bara allt í lagi“.

Meðan hausinn vill þig lengra haldu þá áfram. Ég hafði nægan tíma.

HVAR ER KOBBI

Nú labba ég og strunsa eins og ég get en þarna er heitt. Alltof heitt fyrir mig svona endurlýsandi mjólkurhvítt kvikindi. Nokkrum kílóum of þung, með slitin krossbönd og brotin rifbein þá var gangan tekin á nýtt level.

Ég naut þess að hrósa starfsfólki, pósa fyrir myndavélarnar og sjá alla vini mína út um allt hamast eins og túrbínur.

VAR ÞÁ EKKI KOBBI MÆTTUR. Hann sagði „þú ert á undan og ekki fara að bíða eftir mér, þú tekur þetta bara“.  Waddafúkk. Hvað gerðist? Þarna fékk ég nýtt hugarverkefni meðan ég hjassaðist þessa hringi sem eftir voru.

1.       Hugsa um hvað kom fyrir Kobba

2.       Hugsa um hvar er Kristbjörg

3.       Hugsa um Geira frænda sem var að fara i sinn fyrsta 66 ára gamall og frekar utan við sig

4.       Hugsa um að ég gat ekki hlussast áfram en samt myndi ég vera á betri tíma en síðast

5.       Þakka almennilega fyrir mig á öllum stöðum

Klára þetta á sléttum 7 klst og einhverjum sek sem má eyða.

dandy2
Dandý oog Kobbi með Ásgeiri Kristjáns (66 ára)

TAKIÐ NÚ VEL EFTIR

Kobbi, þessi einstaki bróðir hann beið eftir mér og leitaði að mér á T1 í 49 mínútur. Það eru fjörutíuogníumínútur. Hann setti klárlega met á skiptisvæði.

Bið ykkur um að rétta ekki upp hönd og segja að þið eigið betra eintak. Ætla ekki að hlusta.

Kristbjörg vinkona kom frá Seattle daginn áður og var ekki í andlegu standi fyrir sundið og lenti strax í vandræðum. Hún kemur og klárar næst. Hún var geggjuð sem stuðningsmaður. Mæli með.

Allir Egilsstaðabúar sem fóru af stað kláruðu. Stoltið gæti drepið mig því þau tilkynntu mér hátt og snjallt að þeirra þátttaka væri mér að kenna. Takk ég elska þegar það er mér að kenna að aðrir hreyfa sig og hafa markmið.

Hlakka til að fara aftur, vera þreytt og finna að ég lifi við þau forréttindi að geta þetta þó ég sé skjaldbaka í hraða. Ekki segja „ég get þetta ekki fyrr en þú getur það ekki.“ Reyndu.

dandy3
Hrafnkell, Dandý og Kobbi

Sú eftirminnilegasta hingað til

Sigurður Örn segir frá:

  1. sæti PRO/Overall

Það er ekki oft sem það gerist að keppnir ganga alveg samkvæmt plani frá upphafi til enda og að því sögðu, þá get ég ekki sagt að keppnin hér í Finnlandi hafi farið 100% eftir áætlun. Engu að síður var lokaniðurstaðan gríðarlega góð og geng ég mjög ánægður frá þessari keppni í átt að þeirri næstu í Jönköping eftir 8 daga.

Heldur óhefðbundin tímasetning varð fyrir valinu hvað þessa keppni varðar en startað var klukkan 15:30 að staðartíma sem gerði það að verkum að fólk var að klára allt fram að miðnætti. Það kom þó ekki að sök þar sem afstaða Lahti til sólar er svipuð Reykjavík og því bjart allan sólarhringinn á þessum tíma sumars. Ég er sjálfur svolítill morgunhani svo að þetta var ekki það allra besta fyrir mig svona andlega séð en maður aðlagar sig bara að aðstæðunum hverju sinni. Keppnisdagurinn sjálfur var því tekinn aðeins öðruvísi en venjulega.

sigginokia2

Ég vaknaði slakur klukkan 8:00 og fékk mér góðan morgunverð. Fjögur egg, 200ml af kókosmjólk og hafrar soðið saman í potti, um það bil 1100 kaloríur til að starta deginum. Maginn ekki sáttur en mér var slétt. Svo var slakað á fram til klukkan 10, þegar ég kom mér niður að skiptisvæði til að tékka hjólið og pokana inn á svæðið. Ég vildi gera þetta eins snemma og hægt væri til þess að geta komið mér aftur upp í íbúð til að slaka á fyrir keppnina seinni partinn. Mamma og pabbi eru með í för í þessum tveimur keppnum og voru því að einhverju leyti notuð sem burðardýr fyrir poka og dót á leiðinni niður á svæði. Klukkan ellefu vorum við komin aftur upp í íbúð og þá tók við hádegismatur og slökun. Fullur pottur af parboiled hrísgrjónum (hafa 3x minni áhrif á blóðsykur en venjuleg), ristað brauð, steinefnablöndur, vatn og Green and Black‘s súkkulaði urðu fyrir valinu í þetta skiptið og ég var alveg pakkaður 3 tímum fyrir keppni. Fínt, hugsaði ég, og skellti mér í ReBoots recovery buxurnar mínar til að pressa vöðvana aðeins áður en haldið yrði niður á svæði.

sigginokia3

Keppnin

Við vorum mætt um klukkustund fyrir start en ég vil alltaf vera tímalega niður á svæði til að gefa mér nægilegt svigrúm fyrir upphitun og til að lágmarka stress. Upphitunin fór fram á aðeins öðrum stað heldur en startið var svo að maður þurfti að labba smá spöl frá upphitunarsvæðinu og í startið. Ég fór því ofan í um fimm mínútum fyrir klukkan þrjú og synti í um korter til að koma blóðinu af stað. Næst var haldið að sundstartinu og beðið eftir ræsingu.

Það er alltaf smá stress þegar beðið er eftir flautunni sem að hleypir öllu af stað. Ég vissi að í dag væru nokkrir góðir sundmenn og hafði það að markmiði að skoða mig aðeins um fyrstu 300-400 metrana og meta svo hvort ég vildi þvinga þetta eitthvað hraðar eða ekki. Þegar sundið byrjaði náði ég ágætis stöðu og var strax kominn á meðal þeirra fjögurra fremstu í hópnum. Við héldum þessu fram að fyrsta snúning en öldugangurinn reyndist snúinn og það var virkilega erfitt að sjá yfir höfuð hvert maður væri að fara. Ég reyndi bara að einbeita mér að loftbólunum frá næsta sundmanni fyrir framan en það var samt ekki hlaupið að því heldur. Ég gleypti um þrisvar sinnum smá vatn og svelgdist á en þegar það gerðist reyndi að slaka á og hægja á öndun, láta mig renna í hverju taki og reyna svo að keyra hraðann upp aftur. Ekki það auðveldasta í heimi þegar að önnur hver alda virtist hafa það að markmiði að keyra mann í kaf. Á snúningnum missti ég aðeins lappirnar á næsta manni sem varð til þess að ég villtist örlítið af leið áður en mér tókst að finna næstu bauju aftur. Tók smá auka krók að því er virtist og þurfti að hafa fyrir því að missa ekki alveg sjónar á þeim þremur sem voru fyrir framan. Ég synti því einn alveg frá snúning og inn í höfn þessa síðustu 1000 metra og kom upp úr um 15-20 sek á eftir fremstu mönnum. Ekki besta sund sem ég hef átt en er samt sáttur með tímann, 23:40 í þessum aðstæðum er ekki neitt til að kvarta yfir!

sigginokia4Skiptingin gekk nokkuð tíðindalaust fyrir sig þangað til komið var að því að henda sér á hjólið. Þá kom smá…skellur. Bókstaflega. Þegar ég henti mér á hjólið með þeirri aðferð sem ég kýs að kalla „The flying mount“ kom í ljós að hnakkurinn var ekki alveg nógu vel hertur og hann datt niður um 1,5 cm eða svo. Nægilega mikið til að skafa smá part úr númerinu sem ég var búinn að koma fyrir og að ég fann fyrir því þegar ég settist á hjólið að staðan var nokkuð hressilega „off“. Á þessum tímapunkti var ég að hugsa hvað væri hægt að gera og komst að þeirri niðurstöðu að bara tvennt væri í stöðunni. Annars vegar gæti ég bara hætt að hugsa um þetta og keyrt hjólið svona út þessa 90 km. Hins vegar væri hægt að stoppa í 18km og fá hjálp hjá viðgerðarfólkinu þar við að hækka hnakkinn aftur upp í sína venjulegu stöðu. Ég valdi að halda áfram keppni og klára bara þessa 90 km með aðeins lægri sætishæð, jafnvel þó það gæti komið eitthvað niður á frammistöðu. Ég myndi allavega ekki tapa 2-3 mínútum í það að stoppa, losa hnakkinn, hækka, herða og fara svo aftur af stað. Hver veit, kannski hefði það verið betri kostur? Allavega of seint að pæla í því núna 😛sigginokia5

Hjólaleggurinn var tiltölulega „sléttur“, svona miðað við Barcelona keppnina en brautin innihélt um 650 hæðarmetra skv. Garmin tölvunni. Töluverður vindur var á leiðinni út að snúning í 45 km og meðalhraðinn aðeins undir 40 km/klst til að byrja með. Ég missti fyrstu menn fram úr mér eftir um 20 km og fljótlega komu þrír í hóp fram úr sem að voru nánast ofan í hvor öðrum. Ótrúlegt að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd á þetta en þeir voru augljóslega að græða á því að hjóla í hóp og höfðu minna fyrir þessu fyrir vikið. Ég reyndi að hanga í þeim í 15 km og var ennþá með þá í augsýn þegar við snerum eftir 45 km leið en þá tók við mjög hraður kafli með talsverðum meðvindi. Ég lét þá bara fara á þessum tímapunkti og reyndi að einbeita mér að því að halda aflinu góðu. Ég fann fljótlega að það var töluverð þreyta farin að safnast fyrir í vöðvunum, líklega vegna lélegrar stöðu á sætinu en svona mikil breyting á sætisstöðu getur haft talsverð áhrif á það hvernig maður nær að skila aflinu niður í pedala. Restin var mjög viðburðalítil, ég drakk og kláraði báðar drykkjarflöskurnar mínar á leiðinni til baka en næringin samanstóð eingöngu af níu GU gelum og vatni. Um 900 kcal í heildina. Síðasti dropinn af vatni var kláraður á leiðinni inn í T2 og ég var nokkuð feginn þegar hjólið var klárað. Rassvöðvarnir orðnir vel súrir og fínt að fá annað álag á lappirnar. Meðalaflið skv. Stages mælinum hjá mér var um 312W normalized og tíminn 2:14:55 sem skilaði rétt rúmlega 40 km/klst meðalhraða yfir þessa 90 km. Mjög sáttur með hjólið almennt, sérstaklega í ljósi þess að staðan var algerlega út úr kú en ég bjóst engu að síður við ögn hraðari hjólatíma. Jæja, alltaf rúm fyrir bætingar!

sigginokia6T2 gekk vel og ég var fljótlega kominn út í hlaupið, í 7. sæti á þessum tímapunkti. Ég reyndi að fara nokkuð hressilega af stað og hægja svo á mér eftir um 1-2 km og ná mér í réttan takt. Mér finnst alltaf betra að byrja aðeins hraðar og hægja svo á mér niður í „target pace“ frekar en hitt svo það var það sem ég gerði. Fyrstu 2 km voru nokkuð niður í móti þar að auki svo meðalpace var um 3:30 á þeim tímapunkti. Ég hægði á mér eftir þetta og reyndi að halda þessu gullna 3:49/km pace sem er eiginlega það hraðasta sem ég get gert á þessum tímapunkti eftir hjólið. Mjög skrýtið að lýsa því en mér finnst eins og hjarta- og öndunarkerfið ráði við hraðara pace en einhvern veginn vilja lappirnar ekki leyfa mér að fara hraðar. Þarf að vinna í að ná hámarkshraðanum upp fyrir næsta vetur og þá ætti þetta að verða nokkuð gott.

Drykkjarstöðvarnar voru allar notaðar vel og ég var búnn að skipuleggja hvernig ég myndi tækla þær. Röðin á hverri stöð var eftirfarandi: Vatn – Kók – Gel – Bananar/föst fæða – Orkudrykkur – Vatn. Ég hljóp í gegnum allar stöðvarnar ólíkt því sem ég gerði í Barcelona en ég vildi reyna að halda í 7. sætið eins lengi og hægt væri þar sem að strákarnir í sætum 8.-10. voru ekki langt fyrir aftan. Ég byrjaði alltaf á því að taka vatn og drekka ásamt því að ná strax í annað glas og hella yfir mig og kæla kerfið. Tók því næst kókglas, drakk smá, náði strax í gel, reif það og þrykkti því í mig, aftur smá kók, og að lokum vatn yfir líkama og restin upp í mig til að skola munninn. Þannig var þetta á hverri drykkjarstöð og gekk þetta nokkuð smurt fyrir sig. Það er smá æfing að ná að gera þetta allt á um 10 sekúndum en þetta er farið að ganga nokkuð vel fyrir sig núna og sparar heilmikinn tíma. Eftir um 15-16 km kom 8. sætið fram úr mér og ég því dottinn niður um eitt sæti. Allt í góðu, hugsaði ég, mig grunaði hvort sem er að þetta væri að fara að gerast. Sá sem kom fram úr er strákur sem ég þekki vel frá Noregi og er hörku hlaupari. Ég ákvað samt að reyna að halda honum í augsýn og það var smá gulrót sem virkaði vel til þess að rífa hraðann aðeins upp þessa síðustu kílómetra hlaupsins. Kálfarnir voru líka farnir að losna aðeins upp núna og því gat ég aðeins gefið í og verið slakari í hverju skrefi. Ég hugsaði nær eingöngu um tækni síðustu 5 kílómetrana og skilaði það sér í góðum takti og átti að mínu mati þátt í því að ég hélt 9. sætinu fyrir aftan mig alla leiðina í markið.

sigginokia7Að sjá 21 km skiltið og taka hægri beygjuna út úr hlaupabrautinni og inn á rauða dregilinn er ólýsanleg tilfinning. 4:03 á klukkunni og því minn hraðasti tími hingað til í 70.3 og jafnframt 8. sæti tryggt. Ég fagnaði nánast eins og ég hefði unnið keppnina þegar ég fór yfir línuna enda ekki neitt til þess að vera óánægður yfir, fyrsta Top-10 keppnin mín í PRO flokki raunin. Hlaupatíminn var svosum ekki upp á marga fiska út frá mínu sjónarhorni, um 1:20, en samt nokkuð gott þar sem það var talsvert hvasst í dag og hafði það áhrif á meðalhraðann á stórum hluta hlaupaleiðarinnar. Ég geng því ánægður frá þessari keppni hér í Finnlandi og er kominn með augun á næstu áskorun.

Eftir aðeins 7 daga fer ég af stað aftur í Jönköping 70.3 ásamt fríðu föruneyti frá Íslandi og verður áhugavert að sjá hvernig lappirnar eru eftir svona stutta hvíld á milli. Mér líður ágætlega þegar ég skrifa þetta núna á sunnudeginum en ég veit að þreytan kemur ekki fyrr en á morgun og á þriðjudaginn. Það verður því mikilvægt að taka því rólega næstu daga og byrja svo mjög létt á þriðjudag/miðvikudag. Vonandi slæ ég hnakkinn ekki niður í Svíþjóð eins og ég gerði hér og þá mögulega get ég gert eitthvað af viti á hjólinu – við sjáum til! Ég læt að lokum fylgja með mynd sem tekin var af mér og Kristian frá Noregi sem að kláraði í 7. sætinu á undan mér, eftir að hann tók fram úr mér eftir um 15 km í hlaupinu.

sigginokia8

Þangað til næst!

 

 

 

Húsmæðraorlof í Helsingör

Margrét Valdimarsdóttir ritar:
Ég ákvað haustið 2018 að skella mér með Ásu vinkonu í hálfan Ironman í Helsingör þar sem hún átti skráningu og mig vantaði gulrót fyrir komandi vetur. Hér var ekkert tvínónað við hlutina, bara henda inn skráningu. Gott og vel.
Hjólaæfingar gengu vel fram eftir hausti og ég fékk blússandi fína útkomu í FTP testi nóvembermánaðar en þá kom desember með jólin og allt stússið í kringum þau og ég virtist bara ekkert geta á æfingum, orkulaus og þreytt og allskonar. Mætti nú samt á æfingar og hélt mínu striki. Reyndi fleiri test í des og jan en var ekkert nálægt nóvembertölunum. Þarna ákvað ég að lækka bara aðeins áreynsluna á æfingum og sjá hverju það skilaði og viti menn, maítestið sýndi bætingu upp á einhver 11W – loksins!
Sundæfingar voru teknar að hætti Nick Saunders þ.e. mjööög róleg upphitun 6-8×50 og svo þéttari keyrslur. Æfði sundið ekki mikið eftir plani en var dugleg að mæta og synda 1500-2000m æfingar 3-4x í viku.
Eins og flestir vita sem þekkja mig þá eru hlaup alls ekki mín sérgrein og þar af leiðandi mæti ég sjaldnast á hlaupaæfingar😊 Ákvað að taka hlaupin eins og sundið, mjöööög rólega upphitun og bæta svo aðeins í. Passa að fara ekki of geyst því þá fæ ég verk í „hamstring“. Reyndi að vera dugleg að hlaupa líka oftar og stutt í einu, tók svo laugardagana í lengri hlaup frá ca. apríl og hljóp lengst 19km 2 vikum fyrir keppni.
Og þá að keppninni sjálfri.
Ferðafélaginn var ekki af verri endanum, reynsluboltinn Kristjana Bergsdóttir æðardúnsbóndi með meiru af Melrakkasléttu. Ása meiddist í vetur og þurfti að hætta við keppni en við Kristjana slógum til.
Við flugum út á fimmtudegi til að eiga smá tíma fyrir keppni sem mér finnst gott. Prófuðum sjóinn fyrir utan hótelið, hjóluðum og hlupum aðeins dagana fyrir keppni og mér leist bara mjög vel á aðstæður.
Fórum mjööög snemma að sofa kvöldið fyrir keppni og vöknuðum, önnur kl. 23 og hin kl. 24, algjörlega úthvíldar og til í keppni, þurftum samt að loka augunum aftur og sofa aðeins lengur – smá spenningur í gangi greinilega.
Vöknuðum kl. 6 og fórum í morgunmat. Röltum svo út á keppnissvæði um kl. 7. Kíktum á hjólin, pumpuðum í dekk og gengum frá næringu. Ég náði í sólarvörn í hlaupapokann og gluðaði á mig þar sem ég á það til brenna. Ekki skyldi það gerast í þetta skiptið 😉
Skellti mér í sundgallann og við tókum rólegt upphitunarsund í höfninni. Hitinn á sjónum var ca 17°C, gæti ekki verið betra. Mér finnst mjög óþægilegt að synda í „Open Water“ kraðaki en þegar ég sá fyrirkomulagið í upphituninni róaðist ég mjög. Þeir voru búnir að setja 3 stiga niður af bryggjunni fyrir fólk þannig að á ca 5sek fresti fóru 3 í einu út í og syntu af stað og svo koll af kolli.
Ég hafði valið mér græna sundhettu, sundtíma upp á einhverjar 35-39 mínútur og kom mér fyrir í þeirri röð. Hitti Guðmund Inga og Edda í startinu og við röltum þarna niður á bryggjuna. Þegar kom að mér að henda mér útí gerði ég nákvæmlega það og synti af stað. Ekkert vesen. Bara synda – hægri, vinstri, anda, hægri, vinstri, anda osfrv. Ekkert flókið. Lenti í smá bringusundsspörkum og rangskreyðum manni sem vissi ekkert hvert hann var að fara en hann komst á leiðarenda eins og ég.
mv1
Synti bara á jöfnum hraða og var ekkert að sperra mig, leið nokkuð vel allan tímann. Hitti nokkrar marglyttur á leiðinni en þær voru svo litlar að það var eiginlega ekki hægt að verða eitthvað skelkaður. Allt í einu var þetta svo bara búið og ég fékk að hlaupa á rauðum dregli alla leið á T1 þar sem hjólaskórnir og hjálmurinn beið í poka.
Hef alltaf verið með kók í T1 ef mér er bumbult eftir sjóinn og fékk mér smá sopa, dansaði af mér blautgallann, þurrkaði mig aðeins, henti svo á mig hjálminum, greip skóna og hljóp af stað að hjólinu. Það var smá spölur þangað og ekki gott að hlaupa á hjólaskóm þannig að ég hljóp á tánum að svæði sem ætlað var til þess að klæða sig í skóna og sá þá að ég var öll í sandi. Ekki gott fyrir mínar tær þegar kemur að hlaupinu en það var seinni tíma vandamál. Fyrst mátti ég hjóla. Ég elska að hjóla, það er eiginlega skemmtilegasta hreyfing sem ég hef stundað. Mér er alveg sama þó það sé vindur, brekkur eða hvaðeina (fer reyndar ekkert voða hratt upp brekkur en ég get farið rosa hratt niður þær). Þarna var ég í essinu mínu. Dreif mig út af skiptisvæðinu og brunaði af stað. Vá hvað þetta var geggjað, frábært malbik, sól í heiði og allt dásamlegt. Ég bara hjólaði og hjólaði og leið svakalega vel allan tímann. Sá Sigurjón í brautinni eftir ca 13km en þá var hann kominn allavega einhverja 30km, Halldór dúndraði svo fram úr mér í 70km. Þegar ég kom í síðustu beygjuna fyrir T2 heyrði ég gargað „áfram Magga“ og vissi bara ekkert hver var að hvetja mig. Mjög skemmtilegt að fá svona hvatningu og komst að því seinna um daginn að það var Kristjana sem hafði hætt keppni í sundinu vegna astma einkenna.
mv2
T2 gekk vel, var búin að hugsa það á hjólinu hvernig ég myndi þurrka af mér tásusandinn og komst að því að það eina sem ég var með voru „armwarmers“ sem ég hafði sett á mig í T1. Það gekk ágætlega að þrífa sandinn og ég fór í sokka, nýju Hoka skóna sem ég hafði keypt á Expoinu 2 dögum áður, setti á mig derhúfu og númerabelti og af stað (veit að maður á aldrei að vera í einhverju nýju í keppni en ég hef átt nokkra Hoka Clifton þannig að ég treysti alveg á Clifton 5. Sé sko ekki eftir því, þeir voru æði).

Fyrsti hringur í hlaupinu var í kringum Kronborgarkastala. Virkilega fallegt umhverfi en það var pínu heitt þarna undir kastalaveggjunum. Ég lét mig samt hafa það og skokkaði áfram mitt hlaupaskokk, fjóra hringi um kastalann og þrjá um miðbæinn. Mjög gott fyrir minn haus að geta talið niður. Nartaði í harðfiskinn sem ég fékk hjá Gutta og það gladdi mig þar sem ég hafði gleymt bitunum heima sem áttu að koma með út. Fékk mér vatn, appelsínubita og smá kóksopa á drykkjarstöðvunum en var annars bara nokkuð góð í orkunni. Hitti Kristjönu nokkrum sinnum í hlaupinu og það er algjörlega frábært að hafa einhvern á hliðarlínunni. Stemningin í bænum var líka mögnuð, fólk úti um allt að hvetja og tónlist á hverju horni. Höskuldur kom aftan að mér þegar ég var á fyrsta hring og hvatti mig áfram, Sigurjón kom stuttu seinna á sínum síðasta hring á svakalegri siglingu (man reyndar ekkert hvorn ég hitti fyrst) og svo hitti ég Gumma og Edda á öðrum hring að mig minnir. Viðurkenni alveg að það var ljúft að fá síðustu teygjuna á úlnliðinn og eiga bara eftir að hringa kastalann einu sinni og mega þá taka vinstri beygju inn rauða dregilinn að marklínunni.

Lokatími 6:19:37
Það eru forréttindi að geta tekið þátt í svona veislu og alls ekki sjálfsagt að allt gangi upp. Mér leið vel allan tímann, fékk smá blöðrur á litlutærnar (líklega út af sandi) en það truflaði nú ekki mikið. No pain, no gain! segja þeir í útlöndum.
Þríþraut er frábær. Hún heltók mig algjörlega þegar ég byrjaði, þetta er mitt aðal áhugamál fyrir utan fjölskyldu og er búið að vera undanfarin ár. Mér finnst gott og gaman að synda, frábært að hjóla og hef tekið hlaupin bara á mínu dóli. Að fara til útlanda og keppa er að lokum stór gulrót sem gaman er að uppskera 😊

mv3

Hálfmaðurinn í Helsingör

Sigurjón Björnsson segir frá:

Þessi keppni var stóra keppnin á árinu hjá mér og í lok síðasta árs setti ég mér markmið um að ná að fara þetta á undir 5 tímum og 15 mínútum. Til að ná því setti ég mér raunhæf markmið um bætingar í öllum greinunum. Eftir áramót byrjaði ég frekar samviskusamlega að fylgja æfingplani sem þjálfararnir okkar settu á TP og gekk þetta allt mjög vel og án meiðsla.

Ég tók þátt í keppnum sumarsins á Íslandi sem gengu miklu betur en ég hafði reiknað með og sá þá að sennilega væri upphaflega tímamarkmiðið ansi varfærnislegt. Það var því raunhæfur möguleiki að ef aðstæður væru góðar og allt gengi upp hjá mér í keppninni þá ætti ég að geta komist undir 5 tíma.

Veðrið að morgni keppnisdags var frábært, hægur vindur, 16°C og sól. Það stefndi því í fullkomnar aðstæður og ekkert annað í boði en að gefa allt í þetta.

1Sundið 1900m
Ég reiknaði með að synda á 31-32 mínútum, ætlaði ekkert að vera að sprengja mig. Sundið gekk vel en í brautinni eru frekar margar beygjur og þar myndast oft mikið kraðak. Mér leið mjög vel og var ekkert að fylgjast með tímanum. Mér fannst ég vera að synda fram úr frekar mörgum. Ég fann þó reglulega fætur sem ég gat fylgt en þeir týndust venjulega eftir beygjurnar og hófst þá leit að nýjum fótum. Í lok sundsins var ég hífður uppúr vatninu því rampurinn nær nánast ekkert ofan í vatnið. Þegar ég leit á úrið fattaði ég af hverju ég tók fram úr svona mörgum, ég hefði greinilega átt að fara í hraðari hóp.
Sundtími: 30:02

T1
Skiptisvæðið er frekar langt (heildar hlaupavegalengd var næstum 900 metrar). Ég var því búinn að fara úr gallanum niður á mitti og taka af mér gleraugun og sundhettuna þegar ég kom að pokanum mínum. Klára að fara úr gallanum, setti á mig hjálm og sólgleraugu. Tók upp skóna, sokkana og döðlustykkið sem ég ætlaði að borða í byrjuninni á hjólinu (hef áður haft það á hjólinu og í bæði skiptin hefur það tapast áður en ég náði að borða það). Setti sunddótið í pokann og hengdi hann upp. Ég hélt svo á skónum og sokkunum því það var nokkuð langt að hjólarekkunum og þar voru bekkir til að klæða sig í skóna. Á leiðinni byrjaði ég að borða döðlustykkið og var búinn með það þegar ég tók hjólið úr rekkanum.
T1 tími: 6:11

2
90 kílómetrar á hjóli

Hjólabrautin er um litla sveitavegi fyrir utan Helsingör. Allstaðar var malbikið mjög gott en vegirnir oft frekar þröngir. Það eru engar mjög brattar brekkur í brautinni, en svona 2-3 stuttar þar sem maður fer e-ð undir 30 km hraða en taka ekkert of mikið úr lærunum. Planið var að hjóla þetta á nákvæmlega 260 wöttum allan tímann (eftir að Hákon Hrafn fullyrti að ég færi létt með það, mér leist betur á eitthvað minna en treysti þjálfaranum sem auðvitað hafði rétt fyrir sér). Það plan fór eiginlega út um gluggann þegar ég sá hvað það var mikið af hjólurum í brautinni. Flestir gerðu sitt besta í að vera ekki að drafta en það komu samt tveir hópar fram úr mér sem voru ekkert að reyna að fela draftið. Ég reyndi að hjóla á mínum hraða en oft þurfti bæta í til að taka framúr eða slaka á þegar mikil umferð var fyrir framan. Ég var með fjögur gel á hjólinu sem ég borðaði á ca 30 mín fresti. Ég tók banana á fyrstu og þriðju drykkjarstöð og fékk brúsa á annarri. Matarplanið var að borða eins mikið og ég gæti svo ég hefði næga orku á hlaupinu, ég held að það hafi gefist mjög vel.
Hjólatími: 2:23:50

T2
Hjólið var tekið og sett á rekkann fyrir mig svo ég gat hlaupið beint að pokanum mínum. Tók af hjálminn, sólgleraugun voru ekki svo sveitt að ég ákvað að vera með þau áfram þó ég væri með auka í hlaupapokanum. Ég setti á mig derhúfuna, fór svo úr hjólaskónum og í hlaupaskóna. Greip tvö gel og setti í vasann.
T2 tími: 1:52

3
Hálft maraþon í góða veðrinu

Hlaupið er 3,5 hringir í miðbæ Helsingör. Farið er í kringum kastala og svo eru þröngar verslunargötur þræddar framm og til baka. Ég leit á klukkuna þegar ég kom hlaupandi út úr T2 og sá að það voru bara búnir 3 tímar og 2 mínútur. Ég hafði hlaupið mjög létt hálfmaraþon á 1:55:00 tveimur mánuðum áður svo ég sá að 5 tíma markmiðið var ennþá innan seilingar. Ég ákvað að byrja á 5:15 pace og sjá hvort ég gæti gefið í undir lokin. Að halda þessum hraða gekk mjög erfiðlega fyrstu 2-3 kílómetrana og var ég að hlaupa miklu hraðar, ca 4:45 pace. Ég vissi að þessi hraði gengi ekki upp allt hlaupið og náði að hægja mátulega mikið á og byrja að vinna niður þessa 21 kílómetra sem þurfti til að klára. Næringarplanið var ekkert niðurneglt nema að reyna að drekka smá orkudrykk eða kók á flestum drykkjarstöðvum og fá mér svo koffíngelið á síðasta hring. Hitinn var orðinn ansi mikill undir skínandi sólinni þannig að vatnið sem ég greip á drykkjarstöðvunum fór að mestu utaná mig til kælingar. Ég reyndi samt að drekka alltaf smá og svo fékk ég mér einu sinni kex og tvisvar appelsínubáta sem var fínt að narta í á milli drykkjarstöðva. Ég náði að halda góðum hraða fyrstu 2,5 hringina og spjalla aðeins við einn Dana sem sagði mér ævisögu sína (efni í aðra grein), það var fín afþreying. Þegar ca. 5 kílómetrar voru eftir byrjaði að vera erfitt að halda hraða og síðustu þrír km kröfðust mikils viljastyrks. Ég kláraði svo síðasta hringinn í kringum kastalann og hljóp inn rauða dregillinn í alsælu.
Hlaupatími: 1:47:57

4Heildartími: 4:49:51

Ég er alveg í skýjunum með tímann minn sem er framar öllum vonum. EFtir nudd og sturtu var frábært að hitta aðra keppendur úr Breiðablik í mathöllinni og ræða afrek dagsins.

Nú þegar ég náði að fara undir 5 tíma veit ég ekki alveg hvað næsta tímamarkmið verður nema að í næstu keppni verður ofarlega á lista að taka betur eftir ljósmyndurunum svo það náist skárri myndir :). En eitt er víst, ég ætla í aðra keppni.

Ég vil þakka öllum þjálfurum í Breiðablik fyrir að hjálpa mér að ná þessum árangri, öllum æfingafélögunum sem gerðu æfingarnar að hreinni skemmtun, öllum sem komu frá Íslandi að keppa og gerðu bjórinn eftir keppni 10 sinnum betri, Hafþór hlaupaþjálfara fyrir lánið á afturgjörðinni og fjölskyldunni, Aldísi, Eyrúnu og Birni, fyrir að leyfa mér að njóta þeirra forréttinda sem þessi íþrótt er.6